Eignarhaldið á Landsneti

Núverandi eignarhald Landsnets var við stofnun þess hugsað til bráðabirgða, og nú er tímabært að koma því í betra horf.  Við stofnun Landsnets árið 2005 samkvæmt raforkulögum nr 65/2003 var drjúgur hluti núverandi stofnkerfis raforkuflutninga fyrir hendi, og stofnkerfinu var stýrt úr Stjórnstöð Landsvirkjunar í kjarnorkuheldu neðanjarðarbirgi við Bústaðaveg í Reykjavík, sem nú er í eigu Veðurstofu Íslands, enda skammt frá höfuðstöðvum hennar. 

Þetta fyrirkomulag var og er í ósamræmi við téð raforkulög, sem Alþingi samþykkti á grundvelli tilskipunar ESB - Evrópusambandsins, sem kvað á um, að innan EES - Evrópska efnahagssvæðisins skyldi koma á frjálsri samkeppni, þar sem hægt yrði að koma henni við.  Samkvæmt tilskipuninni, sem sumir töldu reyndar óþarfa að innleiða á Íslandi, fámennri eyju, skyldi raforkukerfið vera fjórskipt:

  1. Raforkuvinnsla - undirbúningur, uppsetning og rekstur virkjana.  Fyrirtæki í þessum geira skyldu vera í frjálsri samkeppni um orkusölu í heildsölu frá virkjunum sínum, og þau skyldu lúta annarri stjórn en fyrirtæki í hinum geirunum þremur og hafa aðskilið bókhald frá þeim.  Til að tryggja frjálsa samkeppni á orkumarkaði frá virkjunum, skyldi forðast sama eignarhald og í hinum geirunum þremur.
  2. Raforkuflutningur - undirbúningur, uppsetning og rekstur aðveitustöðva og stofnlína til raforkuflutnings á 66 kV og hærri spennu.  Þetta skyldi vera einokunarfyrirtæki með sama hætti og Vegagerð ríkisins til að tryggja einfalt og algerlega samhæft meginflutningskerfi raforku í landinu, sem ekki mundi draga taum neinna annarra aðila á raforkumarkaðinum, heldur gæta jafnræðis allra, sem vildu selja inn á flutningskerfið eða kaupa út af því. Þáverandi flutningsmannvirki landsins skyldu ganga til Landsnets sem eignarhlutur í Landsneti, og eignaðist Landsvirkjun þannig 65 %, RARIK 22 %, OR 7 % og OV 6 %.  Þetta eignarhald á Landsneti stríðir gegn anda laganna um óháð einokunarfyrirtæki, og ber að losa um þetta óeðlilega eignarhald hið snarasta,enda hafa nýir aðilar á markaði kvartað undan því.  
  3. Raforkudreifing - undirbúningur, uppsetning og rekstur dreifistöðva, dreifilína og jarðstrengja á 33 kV og lægri spennu ásamt rekstri þessa búnaðar til að dreifa raforkunni frá aðveitustöðvum Landsnets og til orkunotenda.  Þetta er sérleyfisskyld starfsemi, þar sem samkeppni er ekki leyfð. 
  4. Raforkusala í smásölu.  Á þessu sviði skal ríkja frjáls samkeppni, og einokunarfyrirtækunum, Landsneti og dreifiveitunum, skal vera skylt að flytja orku, sem sölufyrirtækin semja um, til orkukaupendanna.  Fyrir mig sem íbúa á "dreifiveitusvæði" Veitna, sem er dótturfyrirtæki OR, er frjálst að semja um raforku frá OV-Orkuveitu Vestfjarða, svo að eitt dæmi sé nefnt. 

Frétt Björns Jóhanns Björnssonar í Morgunblaðinu 7. apríl 2016, bls. 14, hefst þannig: 

""Ég tel, að við eigum að ræða með opinskáum og yfirveguðum hætti, hvernig við teljum eignarhaldi Landsnets bezt fyrir komið til lengri tíma", sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, á vorfundi Landsnets í vikunni.  Vitnaði hún þar til skýrslu, sem Ríkisendurskoðun sendi frá sér s.l. haust um hlutverk, eignarhald og áætlanir Landsnets."

Það er ankannalegt, að ráðherra raforkumála undanfarin 3 ár skuli ekki vera lengra komin en þetta með að koma eignarhaldi Landsnets í viðunandi horf.  Eðli fyrirtækisins er að sumu leyti sambærilegt við eðli starfsemi Vegagerðar ríkisins, og bæði fyrirtækin hafa að hálfu löggjafans hlotið vissan forgangsrétt í skipulagslegu tilliti í þágu almannahagsmuna vegna staðsetningar mannvirkja.  Almennt er skipulagsvaldið í höndum sveitarfélaga, en mannvirki Vegagerðarinnar og Landsnets þvera mörg sveitarfélög, og þá þykir ekki verjandi m.t.t. heildarhagsmuna, að eitt sveitarfélag geti lagt stein í götu mikils framfaramáls fyrir miklu fleira fólk annars staðar.

Í júníbyrjun 2016 var kynnt skýrsla Lars Christensens, LC, dansks alþjóðahagfræðings, um íslenzka raforkumarkaðinn.  Hann bendir þar réttilega á óeðlilegt eignarhald orkuvinnslufyrirtækjanna á Landsneti út frá samkeppnisjónarmiðum og telur brýnt að aðskilja algerlega fjárhagslega hagsmuni Landsvirkjunar og Landsnets, en Landsvirkjun á nú meirihlutann í Landsneti, eins og fram kemur hér að ofan.  Forstjóri Landsvirkjunar, Hörður Arnarson, HA, tekur þessari tillögu ólundarlega og fer undan í flæmingi.  Það er undarleg hegðun.  Ef stjórn Landsvirkjunar þverskallast líka gegn þessu, verður eigandi fyrirtækisins að leiðrétta áttavitann.

HA segir um þetta í baksviðsfrétt Stefáns E. Stefánssonar í Morgunblaðinu 3. júní 2016:

"Hörður segist ekki skilja, hvert verið sé að fara með fyrrnefndri tillögu.  "Þetta er ákveðinn misskilningur.  Landsvirkjun hefur ekki komið að fjármögnun fyrirtækisins frá 2005.  Landsnet hefur verið að greiða inn á lánið, og fyrirtækið hefur verið að fjármagna sig án nokkurrar aðkomu Landsvirkjunar, og fyrirtækið hefur ekki stýrt þeirri fjármögnun með neinum hætti.  Nú er Landsnet farið að gera upp í dollurum, og það gefur mögulega til kynna, að fyrirtækið ætli að sækja sér alþjóðlegt fjármagn.  Það hefur fyrirtækið reyndar nú þegar gert, m.a. í gegnum Norræna fjárfestingabankann."".

Af þessum þvergirðingslega málflutningi að dæma virðist forstjóri Landsvirkjunar vera því andvígur að rjúfa nú fjárhagstengsl Landsvirkjunar og Landsnets.  Hann hlýtur þó að viðurkenna, að staða Landsnets sem óháðs og óvilhalls flutningsfyrirtækis raforku er ótrúverðug með núverandi eignarhaldi og að raforkulögin eru þannig enn ekki uppfyllt.  Ráðherra og Alþingi verða líklega að taka af skarið í þessum efnum, en það er betra að gera það um leið og ný eigendastefna verður samin fyrir Landsvirkjun. 

LC taldi í téðri skýrslu sinni, að fýsileika einkavæðingar Landsnets ætti að kanna.  Það er almennt óráðlegt, að fyrirtæki í lögbundinni einokunaraðstöðu séu í einkaeign.  Óháð eignarhaldi verður Orkustofnun, OS, að hafa fjárhagslegt taumhald á Landsneti og rýna útreikninga að baki gjaldskráar fyrirtækisins m.t.t. laga og samþykkta um kostnaðarþróun fyrirtækisins og arðsemi.

Það virðist þó einboðið sem stendur, að eignarhald Landsnets verði með sama hætti og Vegagerðarinnar, þó að fjármögnun þeirra sé ólík.  Heildareignir Landsnets í árslok 2015 námu miakr 103, og þar af nam eigið fé mia kr 42.  Ríkissjóður á mikið af eignum í samkeppnisrekstri, sem hann getur selt til að fjármagna þessi viðskipti.  Það er t.d. freistandi vegna samkeppnistöðu Landsvirkjunar að breyta  henni í almenningshlutafélag með 80 % eignarhaldi ríkisins fyrst um sinn og veita lífeyrissjóðunum forkaupsrétt á 10 % og skattborgurunum rétt á að skipta jafnt á milli sín 10 % eignarhluta. 

Gömlu eigendur Landsnets hafa næg, arðbær fjárfestingarverkefni fyrir andvirði þeirra í Landsneti.  T.d. væri skynsamlegt að flýta jarðstrengjavæðingu RARIK og þrífösun sveitanna með þeim peningum, sem þarna fengjust, en núverandi áætlun um þetta verk er of hægfara fyrir þarfir margra sveitabýla, sem ella verða að koma sér upp eigin virkjun á vindi, fallvatni eða jarðgufu.  

Tekjur Landsnets árið 2015 námu miakr 16 af flutngsgjaldi raforku, sem nú er nálægt 13 % af heildarraforkukostnaði almennings og er við efri mörk, sem eðlilegt getur talizt, enda var hagnaður fyrirtækisins á sama tíma miakr 4,0 eða fjórðungur af tekjum, sem er meira en eðlilegt getur talizt til lengdar, enda er búið að reikna með afskriftum, þegar þessi tala er fengin.  Það orkar líka tvímælis, að einokunarfyrirtæki af þessu tagi greiði eigendum sínum arð, sem nemur 10 % af hagnaðinum.  Orkustofnun á lögum samkvæmt að hafa eftirlit með og samþykkja/hafna gjaldskrá Landsnets og virðist hafa veitt fyrirtækinu helzt til lausan tauminn, enda varð veltuaukning 2015 heil 13 %, þó að orkuflutningurinn hafi aðeins aukizt um 3,6 %.  Hér er maðkur í mysunni. Við þessar aðstæður virðist vera grundvöllur til lækkunar almenns flutningsgjalds um 10 %. 

Alnafni minn og sveitarstjórnarfulltrúi VG og óháðra í Skagafirði ritaði þann 22. apríl 2016 áhugaverða grein í Morgunblaðið, sem ég er að mörgu leyti sammála.  Greinin nefnist:

"Landsnet verði í samfélagseigu". 

Hann óttast, að núverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra hafi í hyggju að einkavæða Landsnet, en það væri bæði órökrétt og andstætt "Markaðshyggju með félagslegu ívafi", sem ráðherranum á að vera kunnug. Samkvæmt þeirri stefnu á að ýta undir frjálsa samkeppni einkaaðila, en forðast einkarekna einokunarstarfsemi.  Að einkavæða Landsnet mundi stríða gegn anda gildandi raforkulaga vegna hættu á hagsmunaárekstrum eigenda Landsnets og aðila, sem vilja selja orku inn á stofnkerfið,  og fyrir svo óhönduglegum gjörningi er tæpast þingmeirihluti fyrir hendi.  Áhyggjur nafna eru því óþarfar, en hann skrifar m.a.:

"Iðnaðarráðherrann boðar hins vegar lagasetningu, sem geri það mögulegt að einkavæða raforkudreifingu (sic !) á Íslandi: "Ef einhver þeirra (eigenda Landsnets - innsk. blekbónda) vill selja hlut sinn til einkaaðila eða opinberra aðila, þarf því að breyta lögum", sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir.  Ráðherrann viðurkenndi þó, að tíminn væri að renna út fyrir þessa ríkisstjórn til að breyta lögum og heimila einkavæðinguna.  En ljóst var, hvert hugur hennar stefndi."

Það er rétt hjá Ragnheiði, að breyta þarf lögum, ef nýir eignaraðilar eiga að koma að Landsneti, því að samkvæmt núgildandi lögum mega eignaraðilarnir aðeins selja hver öðrum sína eignahluti.  Ný lög þurfa að kveða á um, að þeir megi aðeins selja ríkissjóði sína hluti, og jafnframt ættu lögin að kveða á um, að hagnaður fyrirtækisins skuli allur fara til aukningar á eigin fé þess.  Þá munu núverandi eigendur sjá sér hag í að selja.  Sá möguleiki er fyrir hendi, að nafni sé hér að mála skrattann á vegginn með því að túlka orð ráðherrans þannig, að hún vilji einkavæða fyrirtækið.   Afleiðing eldingar ágúst 2012

 


Bloggfærslur 7. júní 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband