Dillan um stjórnun fiskveiða

Sú meinloka hefur grafið um sig, að í sjávarútveginum íslenzka grasseri rentusækni og að þar sé þess vegna auðlindarentu að finna.  Þetta stenzt ekki samkvæmt skilgreiningu á hugtakinu rentusækni. Rentusækni er hins vegar auðvelt að sýna fram á í ýmsum öðrum atvinnugreinum, sem nýta náttúruauðlindir Íslands, og þar er brýnt að meta auðlindarentuna.   

Rentusækni má búast við, þar sem takmarkaðri auðlind er úthlutað af hinu opinbera til útvalinna með hætti, sem mismunar aðilum á markaði.  Við upphaf núverandi fiskveiðistjórnunarkerfis árið 1984 setti ríkisvaldið aflamark, sem skerti afla allra útgerða í þorski  o.fl. tegunda í fiskverndarskyni.  Hvert skip fékk sína aflahlutdeild, sem reist var á fiskveiðireynslu næstu 3 ára á undan.  Viðurkennt er, að þessi úthlutun var málefnaleg í alla staði, enda var enginn þvingaður af miðunum, nema hann treysti sér ekki til að gera út á skertan afla.  Erfiðir tímar aflaskerðinga fóru í hönd, og sumir lögðu upp laupana. 

Um 1990 var frjálst framsal aflaheimilda heimilað, og síðan þá hafa aflahlutdeildirnar gengið kaupum og sölum og útgerðum fækkað hraðar en áður.  Hið opinbera skiptir sér lítið af þessum viðskiptum, og þess vegna má segja, að frjáls markaður sé á afnotaréttinum, sem er eitt form eignarréttar.  Á frálagshliðinni ríkir einnig frjáls samkeppni fyrir megnið af afurðunum, þar sem keppt er við niðurgreiddan fisk erlendis.  Í flestum öðrum löndum er þess vegna rentusækni í sjávarútvegi annaðhvort vegna úthlutunar hins opinbera á veiðiheimildum eða vegna opinbers stuðnings við markaðssetningu afurðanna, nema hvort tveggja sé.  Hvorugu er til að dreifa hérlendis. 

Engu að síður má finna fyrir því rök, að sjávarútvegurinn greiði ríkinu gjald fyrir að hafa komið á og viðhaldið sjálfbæru fiskveiðistjórnunarkerfi, sem stjórnað er á hlutlægan hátt samkvæmt ráðgjöf vísindamanna, en þá ætti afgjaldið ekki að renna beint í ríkissjóð, heldur til að kosta þjónustu ríkisins við sjávarútveginn, u.þ.b. 4 % af verðmæti afla upp úr sjó.  Það er auðskilin reikniregla og gjald, sem ekki ætti að ríða neinum rekstri á slig, eins og reyndin hefur verið með núverandi vitlausa veiðigjaldakerfi. 

Hugmyndafræðingur uppboðsleiðarinnar svo kölluðu, sem blekbóndi leyfir sér að kalla mestu dillu í seinni tíma hagsögu Íslands, Jón Steinsson, hagfræðingur, JS-h, fékk birta eftir sig greinina,

"Færeyingar bjóða upp veiðiheimildir",

í Fréttablaðinu 16. ágúst 2016. Hann hleypur þar herfilega á sig, ef fögnuður hans yfir "árangursríku" uppboði Færeyinga á aflaheimildum í júlí 2016 er borinn saman við mat Jörgen Niclasen, formanns Fólkaflokksins í Færeyjum, JN, sem einnig verður tíundað í þessari vefgrein. 

Skoðum nú tilvitnun í grein JS-h, sem vitnar um fljótfærnislega ályktun hans af uppboði Færeyinga á hluta aflaheimilda sinna :

"Það er skemmst frá því að segja, að uppboðin tókust mjög vel.  Færeysk stjórnvöld fengu hátt verð fyrir veiðiheimildarnar, ef verðið er borið saman við þau veiðigjöld, sem íslenzkar útgerðir greiða í dag.  Fyrir þorskkvóta í Barentshafi fengu Færeyingar að meðaltali 3,42 DKK/kg, sem gera u.þ.b. 62 ISK/kg.  Til samanburðar munu íslenzkar útgerðir greiða rúmar 11 ISK/kg í veiðigjald af þorskkvóta á næsta fiskveiðiári.  Munurinn er því meira en fimmfaldur. 

Færeyingar fengu að meðaltali 3,66 DKK/kg fyrir makrílkvóta (u.þ.b. 66 ISK/kg).  Til samanburðar verður veiðigjald á makríl á Íslandi einungis 2,78 ISK/kg á næsta fiskveiðiári."

Hrifning JS-h hlýtur að stafa af háum hlut landssjóðsins í Færeyjum af afurðaverði sjávarútvegsins, en þeirri hrifningu má líkja við ánægjuna af að míga í skóinn sinn berfættur í frosti.  Þessi hlutur landssjóðs er óeðlilega hár m.v. venjulegar rekstrarforsendur fyrirtækja, eins og sýnt verður dæmi af.  Þetta verð á aflaheimildum er ósjálfbært, enda varð engin nýliðun í greininni við þetta uppboð.  Aflaheimildirnar hrepptu örfá fjársterk fyrirtæki og mest lenti hjá fyrirtæki, sem talið er vera leppur Hollendinga, sem vantar afla fyrir vinnslu sína í Hollandi. 

Þetta er ófögur mynd af niðurstöðunni, sem stingur í stúf  við fagnaðarlæti JS-h, en hvað hefur málsmetandi Færeyingur um málið að segja ?  Börkur Gunnarsson birti 24. ágúst 2016 frétt í Morgunblaðinu um uppboð Færeyinga með fyrirsögninni,

"Enginn í Færeyjum ánægður með uppboðið".  

Þar var á ferð viðtal við fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Færeyja, Jörgen Niclasen:

""Engum í Færeyjum finnst þetta uppboð á kvóta hafa tekizt vel", segir Jörgen Niclasen, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra og núverandi formaður Fólkaflokksins, sem kom í stutta heimsókn til Íslands á dögunum.  "Þetta er búið að vera algjörlega misheppnað.  Allt í lagi að hafa gert tilraun, en þessi tilraun mistókst algjörlega. 

Það, sem boðið var upp, var aldrei meira en 10 % af kvótanum.  Þetta voru 10 kt af makríl, 5 kt af síld, 25 kt af kolmunna og 3 kt af botnfiski í Barentshafi.  Þetta uppboðsdæmi hljómar kannski vel á pappír, en í framkvæmd var það gripið glóðvolgt af raunveruleikanum og afhjúpað. 

Draumur fólks um, að aðrir en stóru fyrirtækin kæmust að, reyndist vitleysa; á uppboðinu fengu þeir stóru allt.  Þeir, sem hafa efni á því að tapa.  Draumurinn um að fá rétt verð reyndist rugl.  Verðið var of hátt, og aðeins þeir risastóru, sem vilja halda bátunum sínum gangandi, fengu kvóta.  Eitt fyrirtæki keypti 65 % kvótans.  Það fyrirtæki er með augljós tengsl við fjársterka aðila í Hollandi." .....

"Þannig að þú mælir ekki með uppboðsleiðinni ?  Ég held, að þú getir ekki fundið nokkurn mann í Færeyjum, sem finnst það góð hugmynd.  Við vorum með 6 uppboð á þessu ári.  Ef við höldum þessu mikið lengur áfram, þá mun færeyskur sjávarútvegur staðna og erlend fyrirtæki taka útveginn yfir.""

JS-h og kumpánar eru sem sagt gripnir glóðvolgir í bælinu með einskis nýta hugmyndafræði sína, sem eftir þetta hlýtur að eiga formælendur fáa, þó að kaffihúsasnatar muni vafalaust hampa henni áfram.  Hér höfum við, "directly from the horse´s mouth", þ.e. frá fyrstu hendi, að öll varnaðarorð hérlendra manna við "uppboðsleið aflaheimilda" voru á rökum reist og að þau hafa hlotið staðfestingu í reynd hjá frændum okkar, Færeyingum.  Það sýnir firringu stjórnmálanna, að hérlendis skuli a.m.k. 3 stjórnmálaflokkar, Samfylking, Píratahreyfingin og Viðreisn, hafa tekið upp þá glórulausu stefnu að innleiða þessa aðferð í stað aflahlutdeildarkerfisins á Íslandi.  Vonandi verður þeim refsað vægðarlaust í kosningunum.   

Í viðtali Fiskifrétta við Árna Bjarnason, forseta Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, og Valmund Valmundsson, formann Sjómannasambands Íslands, þann 25. ágúst 2016, kemur fram, að "Samtök sjómanna og skipstjórnenda leggjast alfarið gegn hugmyndum um uppboðsleið á aflaheimildum og telja þá leið vega að starfsöryggi sjómanna og hagsmunum þjóðarinnar".  

Þarf frekari vitnana við um það, að boðskapur uppboðsleiðarinnar er gjörsamlega úr tengslum við vinnandi fólk og heilbrigða skynsemi í landinu, grasrótina, sem stundum er kölluð ?

Árni Bjarnason segir:

"Það alvarlegasta við þessar hugmyndir er, að yrðu þær að veruleika, byggju sjómenn í fyrsta sinn í sögu fiskveiða við Ísland ekki við neitt atvinnuöryggi.  Þeir gætu aldrei vitað, hvort þeirra útgerð fengi heimildir eður ei.  Það felst í þessum hugmyndum ámælisvert virðingarleysi fyrir sjómönnum.  Píratar vilja innkalla allar aflaheimildir.  Það eru vissulega nokkur hundruð útgerðir á Íslandi, en hverjir myndu ráða við að kaupa aflaheimildirnar á uppboði ?  Það yrðu stærstu fyrirtækin, og um leið yrði atvinnuöryggi fleiri hundruð sjómanna í veði sem og útgerðarfyrirtækja.  Þetta er bara lýðskrum fyrir kosningar.  Það vantar mikið upp á, að hægt sé að taka málflutning af þessu tagi alvarlega, og ég trúi því ekki, að fólk kjósi svona lagað yfir sig."

Þetta er hverju orði sannara, og skýr afstaða Árna og Valmundar sýnir svart á hvítu, að þeir standa báðum fótum á jörðinni eða öllu heldur á þilfarinu.  Varla dirfist nokkur með viti að halda því fram, að þessir tveir menn hafi ekki full tök á viðfangsefninu, sem hér er til umræðu.  Málflutningur þeirra sýnir, að þeir hafa krufið málið til mergjar og komizt að þeirri skýru niðurstöðu, sem þessi blekbóndi er algerlega sammála, að uppboðsleið við fiskveiðistjórnun mundi setja afkomu og lifibrauð bæði sjómanna og útgerða í fullkomið uppnám, og hún er þess vegna einfaldlega þjóðhagslega skaðleg og sjávarútveginum og þar með efnahag landsins stórhættuleg.

Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, greindi í Fiskifréttum 18. ágúst 2016 kostnað við að koma makríl til viðskiptavinar, og greiðslugetu veiðigjalds/uppboðs:

  • Skilaverð á sjófrystum makríl frá Íslandi er núna um 122 kr/kg.
  • Frá því dragast laun sjómanna: 44 kr/kg
  • Síðan fara í olíu: 16 kr/kg
  • Í veiðarfæragjald og viðhald: 20 kr/kg
  • Annar kostnaður (tryggingagjöld, sölukostnaður, löndun, flutningar o.fl.): 18 kr/kg
  • Afgangurinn er framlegðin upp í fasta kostnaðinn (vextir, afskriftir, fjárfestingar og arður): 24 kr/kg = 20 %.

"Þessi útreikningur er byggður á reikniformúlum Hagstofunnar.  Hvar á þá að taka 66 kr/kg veiðigjaldið, spyr framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar og bætir við, að þetta sé auðvitað glórulaust dæmi." 

Ef Vinnslustöðin hefði boðið 66 kr/kg fyrir makrílkvóta, eins og gert var í Færeyjum, þá hefði önnur veiði og verkun en á makríl augljóslega orðið að standa undir þeim kaupum.  Til skemmri tíma geta stór og fjölbreytt fyrirtæki e.t.v. stundað slíkt, þó varla, ef heimildir í öðrum tegundum eru rifnar af þeim.  Svona yfirboð eru óeðlilegir viðskiptahættir og aðeins stundaðir, ef önnur sjónarmið en góð og gild viðskiptasjónarmið ráða ferðinni, t.d. að bíta af sér samkeppni veikari fyrirtækja.  Með þessu væri hið opinbera að breyta útgerðarmönnum í þurfalinga, leiða sjúkt hugarfar og óeðlilega viðskiptahætti til öndvegis í íslenzkum sjávarútvegi og gegn þessu ber að berjast með kjafti og klóm, því að þetta mun leiða til gömlu bæjarútgerðanna áður en lýkur með viðvarandi taprekstri og niðurgreiðslum til sjávarútvegsins og jafnvel gengisfellingum hans vegna, eins og í gamla daga.  Félegt a´tarna, eða hitt þó heldur.   

Hugmyndafræðingur uppboðsleiðarinnar, téður JS-h, tjáir sig með eftirfarandi hætti um fyrirætlanirnar:

"Í því sambandi er vert að minna á, að flestir, sem tala fyrir uppboði á veiðiheimildum á Íslandi telja einmitt skynsamlegt, að kerfisbreytingin eigi sér stað hægt og bítandi yfir nokkurra ára skeið með þeim hætti, að 10 - 20 % af veiðiheimildum hverrar tegundar séu boðnar út ár hvert til 5 eða 10 ára. [Þetta þýðir, að á 5 til 10 árum færi eignaupptakan fram, og öllum útgerðarmönnum yrði í raun breytt í leiguliða ríkisins, þar til þeir gæfu reksturinn upp á bátinn.  Útgerð reist algerlega á leigukvóta hefur hvergi þrifizt, og umgengni við auðlindina mundi versna, því að skammtímasjónarmið mundu taka völdin við veiðarnar.  Leigugjaldið mundi lækka frá því sem nú er, því að í stað þess að afskrifa kvótakostnaðinn á löngum tíma, eins og aðrar óforgengilegar eignir (sjálfbær lífmassi í sjónum), þá þyrfti að afskrifa leigukvótann á 5 - 10 árum.  Kvótaverðið mundi þess vegna lækka, en það mundi kaupgeta leiguliðanna gera líka, og það er misskilningur hjá JS-h, að þetta mundi eitthvað "bæta stöðu nýliða og minni útgerða á Íslandi", eins og hann skrifar í tilvitnaðri grein, því að rekstrargrundvöllur hyrfi. Innsk. BJo]   

 

 

 

 

 

 

 


Bloggfærslur 27. ágúst 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband