Að hlaupa illilega á sig

Öllum verða á mistök, og "errare humanum est" sögðu Rómverjar, eða það er mannlegt að skjátlast.  Þetta vita allir og eiga að taka tillit til þess í viðbrögðum sínum og gjörðum öllum í stað þess að hrapa að niðurstöðum, hrópa úlfur, úlfur og fella sleggjudóma.

Alveg sérstaklega ætti þessi vísdómur að eiga við hið opinbera vegna þeirrar yfirburðastöðu, sem því hefur verið fengin yfir einstaklingum og félögum þeirra á mörgum sviðum. 

Nú hefur Umhverfisstofnun misstigið sig herfilega og traðkað í salatinu, eins og Norðmenn taka stundum til orða, þegar einhverjum verður illilega á. Stofnunin kokgleypti mæliniðurstöður verktaka um styrk mengunarefna frá iðnfyrirtækinu United Silicon, USi, þó að einföld rýni á þeim hefði átt að gefa til kynna strax, að þær voru ótrúverðugar. 

Básúnað var út, að krabbameinsvaldandi efni, arsen, væri losað út í andrúmsloftið frá verksmiðjunni í styrk, sem er yfir heilsuverndarmörkum. Það voru 3 atriði, sem hvert og eitt hefðu átt að varna því, að Umhverfisstofnun birti ofurhá mæligildi verktakans, Orkurannsókna Keilis, svo að lokun verksmiðjunnar lá í loftinu í kjölfarið.  Þá hefði stofnunin og ríkissjóður sem bakhjarl fengið yfir sig ofurháar skaðabótakröfur.  Þessi atriði voru:

  1. Mæligildi verktakans hækkuðu áður en viðkomandi verksmiðja tók til starfa.
  2. Vindátt stóð ekki af verksmiðjunni í átt að mælinum, þegar háu gildin voru mæld.
  3. Mælir í strompi verksmiðjunnar sýndi allan tímann mun lægri og eðlilegri gildi.

Við þessar aðstæður átti Umhverfisstofnun að sannreyna, hvort mælir verksmiðjunnar hefði gilt og rekjanlegt kvörðunarskírteini til fjölþjóðlegra staðla.  Ef svo var, átti að fara ofan í saumana á verklagi þessa verktaka í stað þess að básúna tóman þvætting yfir þjóðina um, að USi eitraði út frá sér með þungmálmum  og krabbameinsvöldum. 

Um er að ræða mjög nákvæmar mælingar á styrk efna u.þ.b. 0,1 % úr mg á m3, þannig að ekkert má út af bregða, svo að ekki hljótist af stórar skekkjur.  Þarna voru aðdróttanir um sýnu alvarlegri mengun en viðarsótsagnir.  Séu hins vegar PAH-tjöruefni úr kolum losuð út í andrúmsloftið yfir leyfilegum mörkum, verður skilyrðislaust að stöðva þá mengun strax, því að þar eru vissulega krabbameinsvaldar á ferð. 

Þá að öðru máli, þar sem eftirlitsstofnanir ríkisins brugðust gjörsamlega: 

Nú hefur Rannsóknarnefnd Alþingis um sölu ríkiseignarinnar Búnaðarbankans árið 2003, sem sett var á laggirnar í fyrra, skilað af sér bitastæðri skýrslu fyrir um MISK 30, sem er einni stærðargráðu ódýrari skýrsla en gerð var t.d. um fall sparisjóðanna.  Þá hefur t.d. Ríkisendurskoðun skilað skýrslu um þetta efni, sem var vitagagnslaus og beinlínis villandi, því að hún fann ekkert að þessu ferli.  Virðisauki við skýrsluskrif er mjög upp og niður.

Nýja skýrslan leiðir þó fram í dagsljósið stórkostlega blekkingaiðju, sem var í raun gróf markaðsmisnotkun, því að seljandanum var talin trú um, að kaupandinn væri í raun annar en hann var.  Sökudólgurinn hefur nú bitið höfuðið af skömminni með því að senda frá sér yfirlýsingu, þar sem segir, að lygarnar hafi engu máli skipt fyrir seljandann, ríkið, sem hafi fengið umsamda upphæð fyrir sinn snúð.  Siðblindinginn er að sjálfsögðu dómgreindarlaus og kann engin skil á réttu og röngu.  Borgarstjóra þykir við hæfi að gera meiriháttar þróunarsamning um byggingarland við félag þessa manns.  Reykvíkingar munu tjá hug sinn til slíks athæfis í borgarstjórnarkosningum að vori. 

Það kom glögglega í ljós við rannsókn á þessu Búnaðarbankamáli, að það er ekki nóg að skipa rannsóknarnefnd.  Það skiptir öllu máli, að nefndarmenn kunni að vinna og geti leyst sjálfir vandasöm viðfangsefni.  Hinar fyrri nefndir eru því marki brenndar að hafa verið dýrar og skilað af sér innihaldsrýrum doðröntum.  Þessum ungu nefndarmönnum, sem krufið hafa viðfangsefni sitt til mergjar, ætti nú að fela fleiri verkefni af svipuðum toga.  Að rekja slóð peninganna er í mörgum tilvikum aðkallandi.  Illgresið verður að rífa upp með rótum og hindra, að það nái að sá fræjum sínum á ný.   

Það er deginum ljósara, að þeir, sem mestan skítinn setja í tannhjól markaðshagkerfisins, eru "klíkukapítalistarnir", þ.e. þeir, sem ekki vilja eða treysta sér ekki til að lúta reglum heiðvirðrar frjálsrar samkeppni, heldur sækja undir pilsfald ríkisins með fyrirgreiðslu að hálfu stjórnmálamanna og/eða embættismanna eða nota aðstöðu sína til að koma ár sinni fyrir borð með markaðsmisnotkun.  Þetta kallast rentusækni. 

Í litlu þjóðfélagi er enn meiri hætta á hvers konar óheiðarleika af þessu tagi, og honum verður að verjast með því að taka mjög hart á samkeppnisbrotum og svindli.  Ef litið er til annarra vestrænna ríkja, sést, að refsingar eru hér of vægar og eftirlit bitlítið.  Svik og prettir, sem beinast að almannahagsmunum, eiga t.d. ekki að fyrnast. Þeir, sem uppvísir verða að slíku, eiga ekki að fá fleiri tækifæri á viðskiptasviðinu.  Miskunnarleysi heitir það, sem hér á við. 

Nú eru kaup vogunarsjóða á allt að 10 % hlut þrotabús Kaupþings á undirverði í Arion-banka í umræðunni. Fátt eitt er vitað um fjáreigendur eða uppruna fjárins.  Þegar eigandi að stærsta banka landsins á í hlut, er slíkt einfaldlega óviðunandi, og væri víðast hvar á Vesturlöndum, enda stafar fjármálastöðugleikanum ógn af.

Vinstri stjórnin, alræmda, færði kröfuhöfum föllnu bankanna, Kaupþings og Glitnis, Arion og Íslandsbanka á silfurfati af einhverjum dularfullum og annarlegum ástæðum árið 2009, og nauðsynlegt er að komast til botns í þeim gjörningum.  Hvað gekk henni til ?  Grunsemdir eru um það, en létta þarf aldarlangri leynd af gjörningum vinstri stjórnarinnar og færa sönnur á grunsemdir eða afsanna þær.  

Íslandsbanki  var færður ríkissjóði sem stöðugleikaframlag slitabús Glitnis í fyrra, en nú er eitthvert "skítamix" að fara af stað með 87 % eignarhlut slitabúsins í Arion.  Það verður að ríkja gegnsæi við sölu á banka, og vogunarsjóðir eru næstum síðasta sort, þegar kemur að eigendum banka.  Það þarf að gera strangar viðskiptasiðferðiskröfur til eigenda banka, og þeir þurfa að vera "komnir til að vera".  Nú reynir á FME, sem á sínum tíma sá ekkert athugavert við aðkomu Hauck & Aufhäuser. Hefur þeim skánað ?

 Einn maður gerði efnislega athugasemd við þau sýndarkaup á sínum tíma.  Það var Vilhjálmur Bjarnason, þáverandi "bara aðjunkt" og núverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Kraganum.  Hann var hæddur fyrir málefnalega gagnrýni sína m.a. af þeim, sem síðar voru afhjúpaðir sem fúskarar, t.d. hjá Ríkisendurskoðun, sem í tvígang hvítþvoði kaup S-hópsins á Búnaðarbankanum.  Opinbert eftirlitskerfi hérlendis er því miður vita tannlaust og verður að brýna klærnar í stað þess að fægja bara neglurnar.

Vilhjálmur skrifaði góða grein í Morgunblaðið 31. marz 2017, "Skúrkar kaupa banka":

"Það er sárt til þess að vita, að þeir, sem áttu að gæta að hagsmunum íslenzka ríkisins, þegar heimilissilfrið var selt, lýsa sig jafnfávísa og raun ber vitni, þegar það koma fram gögn við ein "merkustu" viðskipti þessarar aldar.  Vissi bílstjóri Olaviusar Olavius [FI] ekki neitt, hafandi verið viðskiptaráðherra og seðlabankastjóri ?

Reyndar er það svo, að Olavius Olavius býr utan Íslands flestum stundum, en hefur þó haft aðsetur á sveitasetri á Vesturlandi á stundum.  Hann telur Íslendinga fátæka þjóð og telur sig geta komið fram við hana, eins og skrælingja, og þess vegna alltaf sagt: ef ég get einhverja ögn af einhverju tagi, sama hvað það er lítið, þá geri ég það í augsýn alls heimsins.  Þannig verður niðurlæging Íslendinga mest."

Þarna eru skírskotanir til "bungaló" í Borgarfirði og seinni tíma ámælisverðra atvika í rekstrarsögu Olaviusar á Íslandi.  Olavius er enginn Pétur, þríhross, heldur óuppdreginn fjárplógsmaður, sem komið hefur óorði á auðvaldsskipulagið og þannig gefið afturhaldi ríkiseinokunar á mörgum sviðum "blod på tanden".

"Með því að láta viðgangast viðskiptatilburði, eins og viðhafðir voru í viðskiptum með Búnaðarbanka Íslands hf, megnum við hvorki að sigla né verzla.  Þess vegna eignumst við aldrei peninga. Þess vegna verðum við ekki aðeins kúguð þjóð, heldur einnig þjóð í lífsháska." 

Við verðum að gera miklu strangari kröfur til okkar sjálfra og annarra í viðskiptasiðferðilegum efnum, hafa þar með varann á okkur og staldra við, þegar málavextir koma undarlega fyrir sjónir, eru óskýrir eða virka óeðlilegir.  Núna er nauðsyn siðbótar, eins og var svo sannarlega fyrir 500 árum, en nú vantar Martin Luther.   

 


Bloggfærslur 6. apríl 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband