Heilbrigðiskerfi á villigötum

Á Vesturlöndum vex kostnaður við heilbrigðiskerfin linnulaust, svo að stefnir í algert óefni.  Meginástæðan eru rangir lifnaðarhættir miðað við það, sem bezt þjónar góðu heilsufari og lengra æviskeið.  Forsætisráðherra minntist á í ágætri þjóðhátíðarræðu 17. júní 2017, að meðalævi Íslendinga hefði á lýðveldistímanum lengzt um 15 ár, en hann gat eðlilega ekki um, hvernig háttað er lífsgæðunum á þessu 15 ára ævilengingartímabili.  Þau eru mjög misjöfn.  Algengt er, að lyf séu notuð í skaðlegum mæli, og margir eldri borgarar nota allt of mikið af lyfjum og eru þar staddir í vítahring.  Vitund almennings um kostnað við læknisþjónustu og sjúkrahúsþjónustu er ábótavant.  Þar sem miklar opinberar niðurgreiðslur eiga sér stað, þar myndast venjulega langar biðraðir.  Eftirspurnin vex meir en opinbert framboð getur annað.  Þetta er alls staðar vandamál í heilbrigðisgeiranum.  Það verður að fækka sjúklingum með því að efla ábyrgðartilfinningu almennings gagnvart eigin heilsu til að komast út úr vítahring versnandi heilsufars þjóðarinnar og sívaxandi kostnaðar við heilbrigðiskerfið.   

Þann 16. júní 2017 birtist í Morgunblaðinu hugvekja í þessa veru, þar sem var viðtal við bandarískan lækni, Gilbert Welch, prófessor við Dartmouth-stofnun í BNA. Viðtal Guðrúnar Erlingsdóttur bar fyrirsögnina, "Prófessor hræddur um ofnotkun lækninga":

"Ég er hræddur um, að það sé verið að draga okkur inn í of mikla "lækningavæðingu" [hefur einnig verið nefnt "sjúklingavæðing" heilbrigðra hérlendis - innsk. BJo]. Læknar geta gert margt gott fyrir fólk, sem er veikt eða slasað.  Þeir geta þó gert illt verra, þegar þeir meðhöndla fólk, sem er ekki veikt."

Þessi gagnrýni hefur einnig heyrzt úr læknastétt hérlendis, að leit að sjúkdómum sé hér orðin of umfangsmikil.  Betra sé fyrir skjólstæðinga lækna og hagkvæmara fyrir þjóðfélagið og skjólstæðingana sjálfa, að þeir taki ábyrgð á eigin heilsufari með heilbrigðu líferni og leiti ekki til læknis fyrr en einkenni koma í ljós.

"Ég óttast, að við séum að ofnota lækningar í stað þess að horfa á það, sem einstaklingarnir sjálfir geta gert."

Máttur tækninnar er eitt, en annað er, hvernig við nýtum hana okkur til framdráttar.  Við megum ekki gleyma því, að mannslíkaminn er enn í grundvallaratriðum sá sami og fyrir meira en 100 þúsund árum, þ.e.a.s. hann hefur alls ekki lagað sig að nútíma umhverfi og lifnaðarháttum, hvað þá tæknilegri getu lyflækninganna.  Heilbrigt líferni er bezta vörnin gegn sjúkdómum, en það er vissulega vandratað í öllu upplýsingaflóðinu og skruminu og erfitt að greina hismið frá kjarnanum. 

Síðar í viðtalinu víkur prófessor Welch að sjúkdómaskimunum, sem verða æ meira áberandi nú um stundir:

"Það getur orkað tvímælis að skima fyrir brjóstakrabbameini.  Það er hægt að finna hnúta, sem ekki eru og verða aldrei krabbamein.  Stundum er verið að leggja óþarfa aukaverkanir og óþægindi á fólk."

Segja má, að ver sé af stað farið en heima setið, þegar alls kyns aukaverkanir leiða af skimunum og lyfjagjöf.  Slíkt má kalla misnotkun á tækninni, og að gert sé út á ótta fólks.  Það er vandfundið, meðalhófið. 

"Stór hluti karlmanna, kominn á minn aldur, er með meinið [blöðruhálskirtilskrabbamein] án þess, að af því stafi nokkur hætta.  Ristilkrabbamein er hins vegar ekki ofgreint, og af völdum þess fer dauðsföllum fjölgandi.  Það er hætta á, að ofgreining færist yfir á aðra sjúkdóma, og þar skiptir ástin á tölfræði miklu máli."

Það eru feiknarlegir hagsmunir undir, sem þrýsta á um óþarfar greiningar og meðferðir, sem skjólstæðingarnir verða auðveld fórnarlömb fyrir og tryggingar taka þátt í.  Boðskapur Gilberts Welch er sá, að þessi þróun læknisfræðinnar þjóni ekki hugsjóninni um betra líf, og varla heldur hugmyndum um lengra líf.

"Ég hef ekki orðið fyrir líkamlegri áreitni að hálfu hagsmunaaðila, en það hafa verið gerðar tilraunir til þess að láta reka mig úr starfi.  Peningarnir tala alltaf.  Lækningaiðnaðurinn er stór hluti efnahagskerfisins, sem vill endalaust stækka og þróa nýja hluti.  Hjálpar það raunverulega fólki, eða verður það taugaveiklaðra, kvíðnara og hræddara ?  

Ekki leita til læknis, ef þú ert ekki veikur.  Verið efagjörn, spyrjið spurninga.  Hverjir eru valkostirnir, hvað getur farið úrskeiðis ?  Gefið ykkur tíma til þess að melta upplýsingarnar, nema um sé að ræða miklar blæðingar eða hjartaáfall.  Heilsan er á ykkar ábyrgð, læknar geta ekki tryggt hana."

Hér er á ferð nýstárlegur málflutningur frá hendi reynds læknis og háskólakennara.  Þessi boðskapur á fullan rétt á sér og eru orð í tíma töluð.  Læknar hafa verið hafnir á stall töframanna fyrri tíðar, og töfralæknirinn hafði líklega svipaða stöðu og presturinn í fornum samfélögum, þ.e. hann var tengiliður við almættið eða andaheiminn. Það er engu líkara en fjöldi fólks treysti nú á getu læknavísindanna til að lappa upp á bágborið heilsufar, sem oftast er algert sjálfskaparvíti.  Slík afstaða er misnotkun á læknavísindunum og á almannatryggingakerfinu.  

Dæmi um sjálfskaparvíti er offita.  Rangt fæðuval, ofát og hreyfingarleysi, eru oftast sökudólgarnir.  Yfirdrifið kjötát, saltur matur, brauðmeti úr hvítu hveiti, kökur og önnur sætindi, áfengisneyzla og neyzla orkudrykkja eru sökudólgarnir í mörgum tilvikum.  Matvælaiðnaðurinn lætur frá sér fara of mikið af varasömum matvælum, sem innihalda óholl efni, litarefni, rotvarnarefni, salt, hvítan sykur o.s.frv.

Í Evrópu er ástandið verst í þessum efnum í Ungverjalandi, en þar voru árið 2015 yfir 30 % fullorðinna of feitir eða með BMI>30,0.  (BMI stuðull er reiknaður út frá hæð og þyngd líkamans, og er talið eðlilegt að vera á bilinu 18,5-24,9.)  Í Ungverjalandi voru þá 2/3 fullorðinna of þungir með BMI 25,0-29,9. Þetta þýðir, að sárafáir fullorðinna voru með eðlilega líkamsþyngd m.v. hæð.  Það er ótrúlegt, ef satt er.  Ungverjar borða minna af grænmeti en flestir í velmegunarlöndum og meira af salti en aðrir í ESB.  Fyrir vikið eru lífslíkur Ungverja 5 árum styttri en meðaltal íbúa í ESB eða 76 ár.

Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, tilkynnti árið 2011, að þeir, sem lifa "óheilsusamlegu lífi, yrðu að greiða hærri skatt".  Fyrir 3 árum var innleiddur neyzluskattur á sykur, salt, fitu, áfengi og orkudrykki.  Skattur þessi nemur rúmlega 90 ISK/l af orkudrykk og 180 ISK/kg af sultu.  Árangur hefur orðið nokkur við að beina fólki til hollustusamlegri neyzluhátta.  Um 40 % matvæla- og sælgætisframleiðenda hafa fækkað eða minnkað magn óhollra efna í vörum sínum, og neytendur hafa dálítið breytt neyzluvenjum sínum.  Neyzla sykraðra drykkja hefur minnkað um 10 %.  Tekjum af þessari skattheimtu er beint til heilbrigðisþjónustunnar.  

Á Íslandi var á vinstristjórnarárunum síðustu við lýði neyzlustýring með skattheimtu, s.k. sykurskattur, en hann hafði lítil önnur áhrif en að hækka neyzluverðsvísitöluna.  Þessi aðferð við neyzlustýringu sætti gagnrýni, enda kom hún afkáralega út í sumum tilvikum, þar sem illskiljanlegt var, hvers vegna sumt var sérskattað, en annað ekki.  Þá er í raun of mikil forræðishyggja fólgin í neyzlustýringu af þessu tagi, sem litlu skilaði, þegar upp var staðið, öðru en aukinni dýrtíð og vísitöluhækkun neyzluverðs. Líklega eru aðrar leiðir skilvirkari, strangari reglur um vörumerkingar og að auðkenna innihald varasamra efna, og almenn fræðsla um afleiðingar óhollrar neyzlu fyrir líkamann, sem hefja ætti þegar í grunnskóla.      

 

 

 

 

 


Bloggfærslur 30. júní 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband