Útþenslustefna er feigðarflan

Otto von Bismarck, járnkanzlaranum, tókst að sameina þýzku ríkin "með eldi og blóði" undir foystu Prússa á síðari hluta 19. aldar.  Segja má, að þetta hafi verið eðlilegt framhald rómantísku stefnunnar, sem gagntók Þjóðverja í öllum þýzku ríkjunum og hertogadæmunum í kjölfar yfirgangs og stríðsbrölts Napóleons Bonaparte frá Korsíku í kjölfar frönsku stjórnarbyltingarinnar 1789. Þá má og segja, að Bismarck hafi gripið sögulegt tækifæri til að hnekkja hefðbundinni brezkri  utanríkisstefnu um að hindra, að nokkurt ríki á meginlandinu yrði nógu öflugt til að skáka Bretlandi. Vilhjálmur 2., Þýzkalandskanzlari, klúðraði þessari jákvæðu þýzku þróun  með því að "mikið vill meira", og hann "vildi fá hlutdeild í sólskininu" með stofnun nýlendna í Afríku og flækja Þjóðverja í átök, sem urðu að Heimsstyrjöldinni fyrri 14. ágúst 1914.

Þjóðverjar börðust á austur- og vesturvígstöðvum, höfðu betur austanmegin, Nikulási 2. var steypt og kaffihúsamarxistanum Lenín trillað til Rússlands til að hella olíu á eldinn og gera friðarsamning við Þýzkaland. 

Úrslit styrjaldarinnar réðust þó á vesturvígstöðvunum, þar sem þátttaka Kanada og Bandaríkjanna með Frökkum og Bretum réði úrslitum.  Þjóðverjar töpuðu þýzkum landsvæðum og urðu að undirgangast miklar skaðabætur, sem sliguði hagkerfi þeirra og ollu óðaverðbólgu. 

Með hefndarhug var aftur lagt af stað, í raun 1938, en Vesturveldin sögðu Stór-Þýzkalandi ekki stíð á hendur fyrr en í kjölfar innrásarinnar í Pólland 01.09.1939.  Í þeim hildarleik, sem fylgdi, keyrði um þverbak. 

Nú hefur Rússland rofið friðinn í Evrópu, sem ríkt hafði frá 1945 með Balkanstríðinu sem undantekningu.  Það er stórfurðulegt, að stjórnvöld í Kreml skuli telja, að á 21. öldinni sé einfaldlega hægt að ákveða ný landamæri í Evrópu einhliða með hervaldi.  Engir lærdómar eru dregnir af sögunni á þeim bænum.  

Rússland hefur orðið sér mjög til minnkunar með gegndarlausum brotum á alþjóðalögum og lítilmannlegum beinum grimmdarárásum á almenna borgara Úkraínu. Allur stórveldisbragur er horfinn af Rússlandi, sem er að breytast í fylgiríki Kína.  Útanríkisráðuneyti Rússlands fordæmdi þá ákvörðun Ekvadors að afhenda Bandaríkjamönnum gamlan rússneskan vopnabúnað til framhaldsflutnings til Úkraínu. Ekvador tilkynnti, að landið mundi senda það, sem kallað var "úkraínskur og rússneskur brotamálmur" til Úkraínu og fá í staðinn nútíma vopnabúnað að verðmæti MUSD 200.  Hljómar líkt og samningur.  Yfirvöld í Ekvador sögðu frá því, að Moskvuvaldið hefði áður varað þau við þessu, en þau hefðu engu að síður til þess fullan rétt.  Smælki af þessu tagi vex í huga Pútíns þessi dægrin, en ekkert heyrist frá honum um hervæðingu Eystrasaltslandanna við landamærin að Rússlandi í varnarskyni, raunar ekki langt frá sumardvalarstað hans.  Ætlunin er að styrkja varnirnar, svo að hægt verði að hrinda þar innrás Rússa innan 3-4 ára.  Þau munu ekki brúka til þess vopn frá Ekvador.  Þeirra eigin verksmiðjur framleiða nú nútímavopn í fremstu röð.  Sumir Rússar sjá nú skriftina á veggnum, enda hefur utanríkisstefna Rússlands beðið skipbrot við inngöngu Finnlanda og Svíþjóðar í NATO. Pútín er mesti mistakasmiður í sögu æðstu valdamanna Kremlar, enda lifir hann í veruleikafirrtum heimi.   

Ofurstinn Alexander Khodakovsky, næst æðsti yfirmaður þjóðarvarðliðanna í Alþýðulýðveldinu Donetsk, sem hernumið er af Rússum, sagði herlið sitt ekki geta brotið úkraínska herinn á bak aftur. 

Hann kallar eftir vopnahléi, svo að Rússland geti safnað kröftum.  Gangur innrásarinnar hefur sýnt hinum ímyndunarveika Pútín, að afskipti Vestursins af stríðinu séu vegna mikilvægis þessa landssvæðis og að Vestrið (NATO) hafi augljóslega verið að ráðgera árás á hann þaðan.  Ennfremur þykir þessum Pútín kostur, að sannleikur þessa máls skyldi birtast áður en til innrásar að vestan kom, en styrjöld við NATO telur þessi afstyrmislega Rússaforysta óhjákvæmilega.  Bullið úr Pútín minnir óþyrmilega á einræður Adolfs Hitlers, þegar mistök hans voru orðin lýðum ljós. Pútín segir, að miklu erfiðara hefði orðið að taka á móti NATO-innrás en að eiga í stríði við NATO með Úkraínu sem lepp.  Þannig að allt, sem gerist, styrkir Pútín að hans eigin mati.  Hann lifir í sýndarveruleika, eins og karlinn í Bunkernum á sinni tíð. 

Við ættum að hafa hugfast, að stríðið nær langt út fyrir vopnaviðskiptin, sem fréttir greina frá daglega.  Miklir pólitískir kraftar eru þar á ferðinni, sem munu koma Úkraínumönnum og Vesturlandabúum á óvart og blása þessum aðilum kappa í kinn, enda er mikið í húfi. 

 Hvað segir Yudin í þessu sambandi ?:  "Stríðið við Úkraínu er vitlausasta stríðið í sögu okkar [Rússa] ... [reist á] gremjublandinni vanþóknun - tröllvaxinni, endalausri gremju.  Samkvæmt Pútín er engin hamingja til í lífinu ... . Í heimssýn hans eru engin landamæri [á hinum rússneska heimi].  Þessi stefna hefur orðið að opinberri stefnumörkun: Rússland endar hvergi." 

Er nema von, að Evrópa hervæðist nú á ný eftir fall Járntjaldsins, þegar þessi boðskapur berst út ? Sturlunin er við völd í Kreml. Rússland er fast í fúafeni, sem virðir mannslíf og örlög fólks einskis.  Í báðum löndum eru feður, sem munu ekki verða viðstaddir brúðkaup barna sinna; systur, sem munu aldrei sjá bróður sinn aftur; mæður, sem munu aldrei halda á börnum sínum eða heyra hlátur barnabarna sinna.  Ein ófreskja getur valdið með ólíkindum mikilli eyðileggingu.  Slíka verður að stöðva, og hún verður stöðvuð.  Hún er glæpur gegn mannkyni.   

 


Bloggfærslur 13. mars 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband