Ótíðindi fyrir ESB

Það sætir jafnan tíðindum, er alþýðan gerir uppreisn gegn hinum ráðandi öflum.  Það gerðist í írska lýðveldinu fimmtudaginn 12. júní 2008, þegar almenningur þar hafnaði því, að Evrópusambandinu yrði sett stjórnarskrá með samþykkt Lissabon sáttmálans. 

Þar með var þessi tillaga að stjórnarskrá fyrir ESB felld, því að samkvæmt leikreglunum þurfa allar aðildarþjóðirnar að samþykkja tillöguna.  Allir stjórnmálaflokkar Íra, utan einn, atvinnurekendasamtök og verkalýðssamtök auk flestra fjölmiðlanna og "álitsgjafa" höfðu undir bumbuslætti embættismanna í Dublin og í Brussel varað Íra við að leggja stein í götu "æ nánara sambands" ("ever closer union"), sem er slagorð ESB-sinna.  Gegn hótunum um að verða skilinn eftir á vegferð ESB til sambandsríkis reis írskur almenningur. 

Söguleg mistök framkvæmdastórnarinnar í Brussel eru að hundsa vilja almennings og vaða áfram í átt að sambandsríkinu í stað þess að beina þróun ESB á braut, sem getur hugnazt almenningi í aðildarlöndunum.

Þær þjóðir Vestur-Evrópu, sem hafa fengið að tjá hug sinn til þess í þjóðaratkvæðagreiðslu að setja ESB stjórnarskrá, hafa hafnað því.  Þessi afstaða almennings hefur komið fram í skoðanakönnunum í öllum löndum Vestur-Evrópu.  Almenningur er andvígur Bandaríkjum Evrópu, sem hann óttast, að framkvæmdastjórnin í Brussel og hálaunaðir embættismenn hennar stefni á að koma á laggirnar.  Keltar kæra sig ekki um, að Germanir hafi síðasta orðið um hagsmunamál Írlands, þýzka blokkin stendur andspænis Miðjarhafsblokkinni o.s.frv.  Fólk í öllum löndunum óttast að missa lýðræðisleg áhrif á málefni héraða sinna og landa í hendurnar á ólýðræðislegu skrifstofubákni í Brussel, sem dreymir stórveldisdrauma um miðstýringu á flestum sviðum mannlífsins í nafni samræmingar og stöðlunar á öllum sköpuðum hlutum.

Flestir Evrópumenn bundu vonir við, að innri markaðurinn með "sín frelsin fjögur", sem innleiddur var á 9. áratug 20. aldar, mundi bæta hag íbúanna með eflingu viðskipta og auknum hagvexti.  Þýzka markið bar þó ægishjálm yfir aðrar myntir á svæðinu, og var það einkum Frökkum þyrnir í augum.  Þegar "alræði öreiganna" í Austur-Evrópu varð gjaldþrota vegna risavaxins ríkisbákns, hafta á atvinnulífinu og kúgunar þegnanna, gafst Þjóðverjum sögulegt tækifæri til endursameiningar, "Wiedervereinigung an der Wende".  Þá settu Frakkar þeim stólinn fyrir dyrnar.  Þeir yrðu að leggja "D-markið" fyrir róða.  Þýzku þjóðinni var alla tíð óljúft að fórna D-markinu, og hún sér enn eftir því, en þýzka þingið, sem þá sat í Bonn, samþykkti þetta með ströngum skilyrðum, sem við nú þekkjum sem Maastricht sáttmálann.  Þannig kom evran undir og er ekki félegt fang.  

Viðurlög, stórfelldar sektir, liggja við broti á Maastrichtsáttmálanum.  Stóru ríkin hafa komizt upp með að sveigja hann og beygja eftir eigin höfði, en minni ríkin komast ekki upp með neitt múður.  Á öllu evru svæðinu ríkir megn óánægja með evruna.  Írar eru í spennitreyju hágengis eftir vaxtaskeið og verðþenslu.  Frakkar, Spánverjar og Ítalir eru enn ekki búnir að bíta úr nálinni með víxlverkun kaupgjalds og verðlags, sem Þjóðverjar aftur á móti náðu tökum á hjá sér, og njóta þeir nú ávaxtanna á formi sterkrar samkeppnistöðu við útlönd.  

Nú básúna iðulega ýmsar mannvitsbrekkur hérlendis þá skoðun sína, að "við gefum út yfirlýsingu um aðildarumsókn að Evrópusambandinu", eins og einn þingmanna Samfylkingar orðaði það í grein í Fréttablaðinu í dag, 15. júní 2008.  Ekki er ljóst, hvort átt er við ríkisstjórnina eða Alþingi.  Slík yfirlýsing kæmi eins og skrattinn úr sauðarleggnum, hvaðan sem hún kæmi, enda yrði hún þá reist á eftirfarandi (frá sama þingmanni): "Þótt slík yfirlýsing myndi ekki breyta neinum efnislegum forsendum á einni nóttu fælist í henni mikilvæg stefnuyfirlýsing sem væri til þess fallin að auka tiltrú á íslensku efnahagslífi." 

Heyr á endemi !  Hvernig í ósköpunum er hægt að komast að þeirri niðurstöðu, að það styrki hávaxtarsvæði með hámarks nýtingu á vinnuafli að tengjast stöðnuðu efnahagskerfi með bullandi atvinnuleysi og kraumandi óánægju þegnanna með stífa mynt og hið yfirþjóðlega og ólýðræðislega vald í Brussel ? 

"Nomenklatúra" (stjórnendur) Samfylkingarinnar er álíka sambandslaus við grasrótina, hinn íslenzka raunveruleika, lífsbaráttu íslenzks almennings, og "nomenklatúra" hins ólýðræðislega embættisveldis í Brussel. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur B. Jónsson

Sammála Bjarna um þessar staðreyndir

Ólafur B. Jónsson, 16.6.2008 kl. 21:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband