Ráðherra og loðnan

Íslenzkir framleiðendur loðnuafurða hafa átt stóra markaðshlutdeild á loðnumörkuðum, enda hafa íslenzkar útgerðir lengi veitt meira af loðnu en útgerðir annars staðar. Þar af leiðandi eru hagsmunir Íslendinga meiri en annarra þjóða við Norður-Atlantshaf á loðnumörkuðum, og þar með ábyrgð gagnvart viðskiptavinum.

 Nú er svo komið, að íslenzki sjávarútvegsráðherrann hefur fært Norðmönnum frumkvæði á þessu sviði og virðist ekkert frumkvæði ætla sjálf að sýna, þegar miklir hagsmunir landsins eru í húfi.  Það er alvarlegur sofandaháttur að hafa ekki krafizt endurskoðunar á skiptisamningum við Norðmenn um loðnu í landhelgi Íslands og þorsk í Hvítahafinu, þegar gildandi samningar skyndilega veita Norðmönnum yfirburðastöðu á loðnumörkuðunum.  Vegna loðnubrests eru forsendur þessara samninga fallnar, en ráðherrann virðist skorta dug til að reisa burst gagnvart frændum okkar, sem eru harðdrægir sem kunnugt er.  Það verður stundum að berja í borðið til að standa á rétti sínum. Hverra hagsmunum er hún eiginlega að þjóna í sínu háa embætti ?

Það hefur ekki farið ýkja hátt, að í lok janúar 2017 úthlutaði sjávarútvegsráðherra Norðmönnum bróðurpartinum, 70 %, af því litla aflamarki, sem Hafrannsóknarstofnun ráðlagði í fyrstu atrennu á þessu ári, 57 kt, og í hlut Íslendinga koma aðeins 21 % af 81 %, sem er okkar skiptahlutfall í samningum um deilistofna.  Er þessi ráðherra ekki í vinnu hjá okkur ?

  Málið er, að þessi samningur við Norðmenn um 31 kt til þeirra á grundvelli "Smugusamningsins" er meingallaður, því að enginn varnagli er í honum um minni loðnuheimildir til handa Norðmönnum í loðnubresti.  Ráðherrann skilur ekki, að nú eru uppi aðstæður, sem útheimta, að hún stigi á neyðarhemlana, eða hún hreinlega nennir því ekki, en skrifar heldur undir einhverja bölvaða vitleysu í ráðuneytinu, sem að henni er rétt, og vill helzt reka "business as usual"  í stað þess að brjóta blað. Situr illa forritaður róbóti í ráðherrastóli ?

Stefán Friðriksson, forstjóri Ísfélags Vestmannaeyja, sagði eftirfarandi í viðtali við Guðjón Einarsson á Fiskifréttum 2. febrúar 2017:

"Þorskkvóti Íslendinga í Barentshafi minnkar og stækkar í samræmi við ástand þorskstofnsins þar.  Þegar loðnustofninn við Ísland er stór, eru ákvæði Smugusamningsins kannski í lagi, en þegar illa árar í loðnunni, eins og núna, hljóta allir að sjá, að það er ekki eðlilegt, að svona stór hluti af loðnukvóta Íslendinga fari í að borga Norðmönnum veiðiheimildir í Barentshafi.  Enginn, sem er með veiðiréttindi í loðnu, sér vitglóru í því, að svona stór hluti af þeim sé notaður í milliríkjasamningi um tegundir, sem þeir hafa enga aðkomu að.  Það er augljóslega vitlaust gefið."

Sjávarútvegsráðherra er algerlega úti að aka í þessum málum.  Ef hún stæði í ístaðinu, hefði hún sagt við sinn norska starfsbróður, að gagnkvæmniregla yrði að gilda í skiptum á veiðiréttindum í íslenzkri lögsögu og í Hvítahafinu, sem þýðir t.d., að Norðmenn geta ekki fengið meira en sín umsömdu 8 % af aflamarki loðnu, á meðan það er undir 100 kt.  Við aflamark 100 kt fái þeir 10 kt + 8 %, og við 200 kt aflamark loðnu í íslenzkri lögsögu fái þeir sín 31 kt + 8 % gegn umsömdum réttindum Íslendinga í Hvítahafinu.  Hvaða erindi á Þorgerður Katrín í embætti sjávarútvegsráðherra, ef það er ekkert bein í nefinu á henni ?  Nú vill svo vel til, að í dag, 14. febrúar 2017, var aflamarkið hækkað í 299 kt, og verður þá heildarhlutur Íslendinga 208 kt.

Núgildandi skiptiregla á loðnu í íslenzkri lögsögu á milli strandríkja er þessi (tonnafjöldi í sviga m.v. 57 kt (k=1000) aflamark: 

  • Ísland fær 81 % (46,17 kt)
  • Grænland fær 11 % (6,27 kt)
  • Noregur fær 8 % (4,56 kt)
Nú láta Íslendingar frá sér 31,165 kt til Norðmanna og verða að taka því, ef Norðmenn girða fyrir þorskveiðar Íslendinga í Hvítahafi, fái þeir þetta ekki, enda hafa þorskveiðar braggast hér við land, síðan "Smugusamningurinn" var gerður. 
Það er meira virði að hindra Norðmenn í að yfirtaka loðnumarkaðinn.  Norðmenn eru með tangarsókn inn á hann, því að þeir hafa gert samning við ESB um vænan skerf af aflahlutdeild Grænlendinga.  Þannig næstum tífalda Norðmenn skerf sinn af loðnu í íslenzku lögsögunni og standa nú með pálmann í höndunum og um 40 kt, og Íslendingar fá aðeins 21 % í stað 81 % eftir að hafa afhent Færeyingum 2,85 kt.  Það er grátlegt að horfa upp á sjávarútvegsráðherra kissa á vöndinn, og hún virðist ekki einu sinni skilja, að um vönd er að ræða.

 

 


Bloggfærslur 14. febrúar 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband