Umbúðastjórnin

USD per EUR 2009-2010Fyrir nokkrum árum kom út bókin Umbúðaþjóðfélagið.  Var þar bent á bruðl í óþarfa, sem einkennandi væri fyrir nútímaþjóðfélagið.  Þá þekkjum við einnig fornt og fallegt ævintýri um barnið og keisarann klæðlausa og heimska, en vefarar og klæðskerar ríkisins töldu honum trú um, að nektin væri dýrasta hýjalín, en svo vel ofið, að það dyldist sjónum. 

Nú hefur afkvæmi Samfylkingar og vinstri grænna, ríkisstjórnin Steingrímur Jóhanna, í vesældómi sínum sameinað þetta tvennt.  Öll hennar verk eru einvörðungu innihaldslausar umbúðir.  Stjórnin sjálf er ekki sveipuð dýrmætu hýjalíni, heldur viðbjóðslegum, endurunnum, gatslitnum umbúðum.  Þetta eru marxista-kenningar um forræði ríkisvalds yfir atvinnulífinu og ofurskattlagningu alls fjár, lauss og fasts, sem umfram er brýnustu lífsnauðsynjar.  Skvaldur um lýðræðisást, ákvörðunarvald fólksins, brjóstvörn alþýðu og opna stjórnsýslu eru umbúðir spunahvolpa utan um ekki neitt.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og formaður villuráfandi vinstri snata, hefur með purkunarlausum hætti, með Hrunið að yfirvarpi, hækkað alla skatta upp úr öllu valdi.  Hann greip tækifærið í kjölfar Hruns og gerði úr sér gengna marxistahrollvekju sína að veruleika.  Fyrir þetta situr hann í ríkisstjórn, og fyrir þetta mun hann lenda á ruslahaugum sögunnar sem hvert annað marxistagóss.

Fyrir vikið hefur hagkerfi Íslands skroppið saman allan hans tíma í fjármálaráðuneytinu og getur ekki annað.  Það var fyrirsjáanlegt, og stjórnarandstæðingar létu þá skoðun í ljós strax, þegar þessi hagstjórnarheimska var viðruð.  Hvergi annars staðar á Vesturlöndum dettur ríkisstjórn í hug að fara Steingrímsleiðina við að jafna ríkissjóðshalla.  Niðurskurður ríkisútgjalda sem hlutfall af lækkun hallans er yfirleitt á bilinu 60 %-90 %, en hér er hann 20 % -40 %.

Allar vinstri stjórnir á Íslandi, og reyndar víðast hvar í heiminum, hafa safnað skuldum, og núverandi hörmung er þar engin undantekning.  Samkvæmt Hagstofunni voru þær 30.9.2010 1676 milljarðar kr, þar af 378 milljarðar kr (23 %) erlendar skuldir, og höfðu þá á 12 mánaða skeiði aukizt um 258 milljarða kr eða um 18 %.  Þessi þróun er stórhættuleg og hana verður að stöðva strax, því að skuldir ríkissjóðs nema nú 109 % af landsframleiðslu, sem stöðugt skreppur saman að raungildi.  Ríkisstjórnin hefur enga stjórn á málum, hún veltur áfram, og stefnir fram af hengiflugi þjóðargjaldþrots.

Við þessar ömurlegu aðstæður fréttist, að ríkisstjórnin Steingrímur Jóhanna hafi með samninganefnd sinni náð enn einu samkomulaginu við Breta og Hollendinga um að bæta eftirstöðvum úr gjaldþroti óreiðumanna á erlendri grundu ofan á skuldahrúguna.  Helztu rökin eru þau, að í þetta sinn muni vextir og afborganir nema 430 milljörðum kr lægri upphæð en þeirri, sem þjóðin hafnaði 6. marz 2010.  Steingrímur Jóhanna fullyrti þá, að hagstæðari samningum væri ekki unnt að ná og að hvorki fengjust lán né fjárfestingar til landsins, nema samkomulag hennar við Breta og Hollendinga yrði staðfest af þingi og þjóð.  Allt reyndist þetta vera tóm vitleysa algerra ómerkinga, sem þó sitja enn að völdum í skömm sinni.

Enn fara þessir sömu ómerkingar á flot með löglausar kröfur Breta og Hollendinga á hendur Íslendingum.  Það er með öllu óþarfi að samþykkja löglausar kröfur á hendur ríkissjóði Íslands, sem er á gjaldþrotsbarmi nú þegar.  Þetta deilumál á heima fyrir dómsstólum.  Ef við vinnum málið, sem mestar líkur eru á, þá höfum við bjargað ríkissjóði.  Ef við töpum, þá getur dómurinn ekki hljóðað upp á hærri upphæð en samkvæmt þessu síðasta samkomulagi.

Það er deginum ljósara, þótt óljós sé um þessar mundir, hvað knýr fyrirbrigðið, sem kallar sig Samfylkingu, áfram.  Það er þýlyndi við skrifræðisseggi ESB í Brüssel.  Steingrímur Jóhanna þjösnast áfram á grilluvegferð sinni með Ísland inn í ríkjasamband á brauðfótum.  Það er búið að gera Steingrími Jóhönnu skiljanlegt, að ekkert geti orðið af innreið í Brüssel, nema "Icesave" deilunni verði rutt úr vegi.  Forystusauðir Samfylkingar vaða eld og brennistein til að koma landinu inn í samfélag skrifræðisbáknsins, og gildir einu fyrir þá, hvort landið kemst í greiðsluþrot fyrir vikið.  Þá gildir einu, þótt evran sé fallin, eins og sjá má á grafi hér fyrir ofan (brattur hnigull).  Hún var alla tíð yfirskin.  Hið kratíska samfélag skrifræðis, og löngunin til að verða hluti af stærri heild, yfirskyggir gjörsamlega heilbrigða skynsemi og sjálfstæðisvilja.  "Miklir menn erum við, Hrólfur minn."

VLF-evr-2009-2010

 

 

   

 

 

   Mótmæli á Austurvelli , feb-2010Það má geta sér til um, hvað býr að baki sjúklegri áráttu Steingríms Jóhönnu að koma löglausum skuldaklafa á þjóðina.  Steingrími og vinstri grænum gengur það eitt til að geta eftir á haldið því fram, að hvort sem banki er í einkaeigu eða í ríkiseign, þá lendi gjaldþrotið á ríkinu.  Þetta telur hann muni skjóta stoðum undir ríkisrekstur á fjármálasviðinu í framtíðinni og þar með sem víðast í atvinnulífinu.  Þessi stefna er við lýði hjá Evrópusambandinu, ESB, og er að ganga af því dauðu.  Írar fóru flatt á að ríkistryggja alla banka tröllvaxins bankakerfis síns, sem reyndar var hlutfallslega helmingi minna en hið íslenzka, sem var krabbamein á þjóðarlíkamunum og skorið burt af Geir Haarde og ríkisstjórn hans.  Steingrímur Jóhanna klúðraði hins vegar gjörsamlega eftirmeðferðinni, eins og öllu öðru, sem hún hefur komið nálægt. Bandaríkjamenn settu óhemju fé í bankakerfið, en leyfðu sumum að rúlla, t.d. Lehman Brothers.  Ríkisábyrgð er skaðvaldur, því að hún ýtir undir áhættufíkn og ábyrgðarleysi.   

Íslenzka leiðin er hins vegar sú, að ríkið ábyrgist einvörðungu bankainnistæður innanlands, en taki enga ábyrgð á lántökum fjármálastofnana né bankainnistæðum erlendis.  Með þessari ráðstöfun í Neyðarlögum ríkisstjórnar Geirs Haarde var ríkið að vernda hagsmuni þegna sinna, en lét einkafyrirtæki sigla sinn sjó.  Vilji erlendar ríkisstjórnir láta reyna á lagalegt réttmæti þessa gjörnings, þá höfða þær mál gegn ríkissjóði Íslands.  Þetta hafa þær hingað til forðazt, og það er ekki af tillitssemi við íslenzka hagsmuni; svo mikið er víst.  Allar þeirra ráðstafanir eru reistar á eigingirni og ótta við áhlaup á eigið bankakerfi.      

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Takk fyrir frábæra ádrepu.  Það þarf að koma þessu fólki í járn áður en það veldur meiri skaða.  Þú mættir raunar bæta þessu videói við herlegheitin.

Jón Steinar Ragnarsson, 11.12.2010 kl. 19:32

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

  Já takk fyrir þennan aldeilis frábæra pistil Bjarni. Jón Steinar,þakka desertin, hann olli velgju,en er góð áminning.

Helga Kristjánsdóttir, 11.12.2010 kl. 20:29

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Ég þakka kærlega fyrir ofangreint.  Myndskeiðið frá Jóni Steinari á einkar vel við inntak pistilsins.  Gangi þessi prófessor ekki með hauspoka nú, er samvizka hans og siðferðiskennd ekki upp á marga fiska.  Hvað, sem því líður, hlýtur málflutningur hans að verða veginn og léttvægur fundinn upp frá þessu.  Um látbragð, orðbragð og yfirbragð allt á myndskeiðinu er bezt að hafa sem fæst orð.

Með góðri kveðju til ykkar beggja, Jóns Steinars Ragnarssonar og Helgu Kristjánsdóttur

Bjarni Jónsson, 11.12.2010 kl. 21:46

4 Smámynd: Elle_

Hvar hefur ofanverður pistilhöfundur verið?  Hef misst af honum og Helga benti mér á góðan pistilinn.  Núverandi stjórn hefur ekkert nema forsjárhyggju, innantóman lyga-kjaftavaðal og ömurlega valdníðslu að færa okkur.  Hví hefur enginn kært þau??

Elle_, 11.12.2010 kl. 23:52

5 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Kærar þakkir Bjarni fyrir góðan pistil.   Og takk Jón Steinar fyrir að benda á myndbandið með prófessornum. 

Ágúst H Bjarnason, 12.12.2010 kl. 13:00

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Spurt er, hvar pistlahöfundur hafi verið.  Hann hefur verið upptekinn við að hafa ofan í sig og sína í 35 ár, en fundið blóðið renna til skyldunnar undanfarin tvö ár að berja á þursum hér á bloggsvæði Morgunblaðsins.

Þá er spurt, hví enginn hafi kært stjórnarforkólfana.  Umræða er farin af stað um það á Alþingi.  Landsdómur gæti fengið fleiri verkefni. 

Þakka einnig Ágústi góða kveðju. 

Bjarni Jónsson, 12.12.2010 kl. 16:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband