Hið varnarlausa þjóðfélag

Norrænu samfélögin, hinn vestræni heimur og þó víðar væri leitað, eru harmi slegin vegna heigulslegrar aftöku ungmenna o.fl. á Útey í Noregi og gríðarlegrar og mannskæðrar sprengingar við stjórnarráðsbyggingar í miðborg Óslóar þann 22. júlí 2011.  Er Norðmönnum hér með vottuð dýpsta samúð vegna þessara atburða. 

Yfirmaður norsku öryggislögreglunnar, PST (Politiets Sikkerhetstjeneste), Janne Kristiansen, sagði í viðtali við stærsta dagblað Noregs, Aftenposten, þann 25. júlí 2011, að jafnvel STASI, leynilögreglu Austur-Þýzkalands, hefði hún verið starfandi í Noregi, mundi ekki hafa tekizt að komast á snoðir um fyrirætlanir Anders Behring Breivik, hvað þá að koma í veg fyrir, að hann hrynti þeim í framkvæmd.  Höfundur þessa vefseturs er ekki í færum til að leggja mat á þessa fullyrðingu lögregluforingjans norska, en hún er umhugsunarefni í kjölfar þessara svívirðilegu manndrápa.   

Þetta leiðir hugann að því, hve berskjölduð lýðræðisþjóðfélög eru fyrir ódæðisverkum einstaklinga og félagasamtaka, sem hafa lag á að fara lágt með fyrirætlanir sínar og eru nægilega forhert, siðblind eða sturluð til að láta tilganginn helga meðalið.  Hér er meðalhófið vandfundið, þ.e. öryggislögregla, sem vinnur gagn og kemur í veg fyrir sum hryðjuverk, þó að hún geti ekki greint öll, án þess að ganga á frelsi einstaklingsins. 

Í þessu sambandi dugir skammt að vísa til öfgafullra, stjórnmálalegra skoðana, því að enginn, sem gengur heill til skógar,  fremur slíkt ódæði, sem hér er umræðuefni, sama hversu öfgafullar stjórnmálalegar skoðanir til hægri eða vinstri viðkomandi kann að hafa.  Í heilbrigðum einstaklingi eru nægilega háir siðferðilegir þröskuldar til að hindra slíkt, enda er það mat lögfræðings Breiviks, að hann sé brenglaður maður, s.s. ýmislegt í fortíð hans, sem upplýst hefur verið um, gefur greinilega til kynna. 

Óhætt er að segja, að téðir atburðir, einkum skotárásin í Útey, hafi komið eins og þruma úr heiðskíru lofti.  Þó er óþarfi að stinga hausnum í sandinn og láta eins og norska þjóðfélagið sé fullkomið.  Því fer víðs fjarri. 

Á seinni árum hefur myndazt þjóðfélagsleg spenna í Noregi, sem á sér engan sinn líka frá stríðslokum.  Þetta dylst ekki þeim, sem kunnugur er norska þjóðfélaginu frá fornu fari og heimsótt hefur Noreg nýlega.  Gríðarlegur straumur fólks frá fjarlægum löndum með framandi menningu og siði hefur tekið sér bólfestu í Noregi á síðustu 30 árum.  Þetta fólk sezt að í ákveðnum hverfum bæja og borga Noregs og myndar þar gettó.  Mikil viðkoma er hjá þessu fólki, og þegar norska heyrist ekki lengur töluð í viðkomandi hverfisskólum, þá flýja Norðmenn hverfið. Þetta ástand er reyndar þekkt víðar, t.d. á Englandi, og er auðvitað til þess fallið að mynda mikla þjóðfélagsspennu.  

Vinur er sá, er til vamms segir, hljómar fornt máltæki.  Norðmenn hafa flotið sofandi að feigðarósi.  Að breyttu breytanda minnir þessi óheillaþróun á ástandið á 4. áratug 20. aldarinnar, er Norðmenn létu varnir landsins sitja á hakanum með þeim afleiðingum, að þýzki flotinn undir merkjum hakakrossins gat siglt andspyrnulítið með her manns inn eftir Óslóarfirði og tekið Norðmenn í bólinu, þó að Oscarsborgar- virkinu að vísu tækist að granda herskipinu Blücher, þar sem þúsundir þýzkra hermanna fórust. 

Í ljósi aðdraganda voðaatburðanna föstudaginn 22. júlí 2011 og ummæla lögregluforingjans hér að ofan er hins vegar fyllilega réttmætt að spyrja, hvort leynilögregla og margfalt fé til forvarnaraðgerða hefði nokkru skilað.  Hætta er á, að slíkt endi í öfgum eftirlitsþjóðfélagsins, þar sem útsendarar ríkisins eru með nefið ofan í hvers manns koppi, sbr hryllingssöguna 1984.   Persónuvernd er þá fokin út í veður og vind og minni munur orðinn á einræðisþjóðfélögum og lýðræðisþjóðfélögum en flestir íbúa hinna síðar nefndu kæra sig um. 

Affarasælla er, að yfirvöld gæti þess að haga stjórnun þjóðfélagsmála þannig, að ekki myndist alvarleg innri spenna í þjóðfélögunum.  Slíkt er hægt, ef skynsemi er beitt, en valdafólk með afbrigðilegar skoðanir og sérvizku á borð við stjórnmálaflokka á vinstri kantinum veldur óhjákvæmilega þjóðfélagsspennu, enda eru stéttaátök þeirra ær og kýr. 

Spenna getur myndazt vegna þess, að tilfinningaþrungin mál séu látin reka á reiðanum, eins og t.d. stefnumörkun um innflytjendamál og aðlögun innflytjenda að þjóðfélaginu, sem þeir hafa kosið að setjast að í.  Það verður að ræða slík mál fyrir opnum tjöldum, og vel kemur til greina að leiða þau til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu. 

Mikil spenna er nú að myndast á milli ýmissa Evrópulanda og Evrópusambandsins (ESB), einkum í bágstöddum evrulöndum.  Þar hafa brotizt út blóðug átök almennings við lögreglu.  Almenningur er þar að kljást við vanheilagt bandalag stjórnmálamanna og fjármálakerfisins, en hið síðast nefnda beitir nú ESB purkunarlaust fyrir sig í hagsmunabaráttunni.  Má ganga svo langt að segja, að ESB sé handbendi fjármálakerfis Evrópu. Við Íslendingar höfum orðið vitni að falli peningafursta hérlendis og höfum séð téð fjármálakerfi ESB og AGS (Alþjóða gjaldeyrissjóðsins) rísa upp á afturlappirnar, þegar við reyndum að verja okkur í þröngri stöðu.  

Hér á Íslandi vex þjóðfélagsspennan vegna ólýðræðislegra "samningaviðræðna" um inngöngu Íslands í ESB, sem eiga sér stað undir leyndarhjúpi og án nauðsynlegrar umræðu um, hverju ekki má fórna, og líkast til nú í blóra við vilja meirihluta þings og þjóðar.  Samningaviðræður þessar skortir augljóslega nauðsynlegan bakhjarl í umsóknarlandinu. Hér er um mjög mikið hitamál í landinu að ræða, enda stórfelldir hagsmunir í húfi.  Til þess að eyða þessum spennuvaldi þarf einfaldlega að kjósa um það, hvort halda eigi kostnaðarsömu samningaferli áfram, sem margir telja, að geti aðeins endað í blindgötu. 

Stórfelld svik kosningaloforða ríkisstjórnarflokkanna hafa auðvitað valdið djúpstæðri gremju í þjóðfélaginu, enda á ekki að líða stjórnmálamönnum atferli eins og svik Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í ESB-málinu og svik þeirra og jafnaðarmanna við að reisa skjaldborg um skuldug heimili, sem breyttist í gjaldborg.  Auðvitað á ekki að refsa hinum seku stjórnmálamönnum með líkamlegu ofbeldi eða vopnabeitingu, heldur með því að svipta þá völdum í friðsamlegum kosningum.

Íslendingar eru óvanir atvinnuleysi yfir 3 %.  Atvinnuleysið hefur þrefaldazt í tíð núverandi ríkisstjórnar, og brostið hefur á landflótti, sem er meiri en þekkzt hefur frá harðindatímabilinu 1870-1890.  Engum dylst, að þetta ástand hefur í för með sér mikla þjóðfélagslega sóun og spennu; ekki sízt, þar sem kreppan er orðin allt of langvinn og vandamálið er nú fólgið í því, að allar gerðir ríkisstjórnarinnar stórskaða hagkerfið og dýpka kreppuna.  Halli ríkissjóðs er geigvænlegur, enda á sér stað bruðl með skattpeningana í kauðska fjármálagjörninga hins gæfusnauða fjármálaráðherra, eins og viðskipti með Sjóvá og SpKef bera vitni um, þar sem tap skattborgaranna á mistökum Steingríms Jóhanns Sigfússonar getur numið um 30 milljörðum kr.  Fólki sárnar sóun annarra með eigið fé ekki sízt nú, þegar skattuppgjör 2011 er að birtast.

Þá er efnahagsstjórnun efnahagsmálaráðherrans hrein hörmung, sem lýsir sér með því, að verðbólgan er orðin tvöföld á við markmið Seðlabankans og stefnir í 6 %. Þar með hefur óstjórn ríkisstjórnarinnar leitt til þess, að allar kjarabætur nýlegra kjarasamninga eru upp urnar.  Það er afspyrnu gremjulegt í kjölfar samfelldra kjaraskerðinga í bráðum 3 ár.  Það er gjörsamlega girt fyrir kjarabætur undir vinstri stjórn.  Það er reyndar ekki ný saga. 

Hér hefur verið tæpt á örfáum óánægjuefnum, sem öll eru sjálfskaparvíti algerlega óhæfs þingmeirihluta, og þess vegna hefðu góð stjórnvöld varazt þessi víti. Vegna framfarafjandsemi, sundrunartilhneigingar og einstrengingslegrar og úreltrar hugmyndafræði ríkisstjórnarinnar er orðið bráðnauðsynlegt að nýta úrræði lýðræðisskipulagsins til að losa um óþolandi þjóðfélagsþrýsting af hennar völdum og efna til Alþingiskosninga, þar sem gamla settinu verður vonandi sópað á haugana í vissu þess, að nýir vendir sópa bezt.  Núverandi stjórnarhættir á Íslandi eru viðundurslegir, misbjóða almenningi og eru þess vegna stórhættulegir.     

        

       

  

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Fínn pistiill Bjarni, ég hef bara eina athugasemd við eftirfarandi atriði:

enginn, sem gengur heill til skógar,  fremur slíkt ódæði, sem hér er umræðuefni, sama hversu öfgafullar stjórnmálalegar skoðanir til hægri eða vinstri viðkomandi kann að hafa.  Í heilbrigðum einstaklingi eru nægilega háir siðferðilegir þröskuldar til að hindra slíkt

Þessu er ég ósammála. Þarna er að mínu mati um að ræða hryðjuverk í þágu pólitísks ofstækis í bland við mannhatur og illsku. Ég skil þó sjónarmið þitt sem stafar af því að svona pólitískar öfgar sem og mannhatandi illska eru  svo framandi okkar samfélagi að við skiljum ekki hvernig nokkur heilvita maður getur gert svona og ætlum því að hann sé veikur - sem hann er þó líklega ekki. Sannleikurinn í því álitamáli máli mun þó koma í ljós síðar. 

Við þurfum ekki annað en rifja upp hryðjuverkin í London, Madrid og svo Lockerbie sprenginguna til að finna ódæðisverk af sama meiði. Ekki var sjúkt fólk þar á ferð heldur pólitískt ofstæki í bland við mannhatur og illsku.  

Ragnar Geir Brynjólfsson, 30.7.2011 kl. 10:39

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka þér kærlega fyrir áhugaverða athugasemd við hugrenningar mínar í tilefni voðaverknaðar í Noregi, 22.7.2011, Ragnar Geir:

Anders Behring Breivik er ekki einsdæmi, þó að hann sé einn á báti í illvirkjum sínum.  Hann er í hópi þeirra, sem kallaðir eru "einmana úlfar" (lonely wolves eða loupes solitaire).  Þeir eru taldir knúnir áfram af hatri.  Mín skoðun er sú, að svo gegndarlaust hatur á hópi manna, sem tendra upp hryðjuverkamenn, eigi aðeins greiða leið að andlega brengluðu fólki, hvað sem stjórnmálaskoðunum líður, og siðblinda er dæmi um slíka brenglun.  Viðkomandi geta hafa fæðzt með góða greind, en mótdrægar aðstæður í æsku duga til að leiða einstaklingana algerlega út af sporinu.  Vitað er, að Breivik varð fyrir einelti í æsku, og veikleiki hans fyrir einkennisbúningum, þó að hann hafi ekki gegnt herþjónustu, bendir til veikrar sjálfsmyndar og sterkrar þarfar til sjálfsupphafningar.  Samband hans við föður sinn var nánast ekkert, og hann bjó einn hjá móður sinni.  Allt vitnar þetta um jaðarpersónu, eða það sem kallað er á ensku "borderline personality".  Slíkir eru veikir á svellinu, og það þarf oft mjög lítið til að leiða þá á glæpabraut.   

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 30.7.2011 kl. 23:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband