Að kunna ekki að skammast sín

Íslendingar búa um þessar mundir við ríkisstjórn, sem er svo fáum kostum búin, að hún er í engum færum til að veita landsmönnum nokkra forystu, sem þó ber brýna nauðsyn til.  Með atbeina forseta lýðveldisins á stjórnmálasviðinu og skefjalausu ofbeldi við þinghúsið og víðar í Reykjavík, þar sem hársbreidd munaði, að ríkislögreglan  og þar með ríkið sjálft, væri brotin á bak aftur, tókst ógæfufólki að hrifsa til sín völdin í Stjórnarráðinu snemmárs 2009.  Fólk þetta fékk þá að njóta vafans, en það reyndist engin innistæða vera fyrir því trausti, enda hefur þetta skrýtna fólk kolfallið í öllum raunum.

Í janúar 2009 römbuðu landsmenn á barmi stjórnarbyltingar, sem ekki er nokkrum vafa undirorpið, að hefði orðið blóðug, því að valdarán Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og annarra slíkra hefði mörgum þótt ólíðandi og snúizt til varnar.  Með lögregluna yfirbugaða hefði þetta hæglega getað endað með hildarleik.  Sjá þá allir, af hversu miklu offorsi, ofstæki og ábyrgðarleysi vinstri öflin í landinu gengu fram þessa janúardaga 2009.  Framganga þeirra markaðist af sams konar dómgreindarleysi og hvað eftir annað átti eftir að koma í ljós á valdatíma þeirra. Nú er komið berlega í ljós, að furðufólk þetta, sem við völdum tók 1. febrúar 2009 og voru síðan tryggð áframhaldandi völd í heilt kjörtímabil í kosningunum í apríl sama ár, hefur nákvæmlega ekkert það til brunns að bera, sem forystufólk þarf að hafa.  Það er hjakkað í sama farinu og dundað við einskis nýt gæluverkefi, sem annaðhvort eru stórskaðleg eða skipta litlu máli fyrir þjóðarhag.  Ekkert vitrænt frumkvæði, og engin stefnumörkun á sér stað til framtíðar, og engin uppbygging á innviðum né undirstöðum samfélagsins á sér.  Það er bara horft til baka og rifið niður, ef eitthvað er.  

Það er hangið við völd af valdafíkn og ótta við lýðræðislegan dóm yfir ómyndinni.  Aldrei aftur vinstri stjórn mun enn á ný óma um borg og bý.   Það væri eindæma ósanngjarnt að halda því fram, að kjósendur hafi þarna fengið, það sem þeir áttu skilið, þó að meirihluti kjósenda hafi í refsingarskyni við borgaralegu flokkana eftir Hrun morknaðs fjármálakerfis á Íslandi ákveðið að kjósa vinstri flokkana til valda.  Það reyndust verða dýrkeypt mistök, því að kötturinn var keyptur í sekknum.  Nú þarf að slá köttinn úr sekknum.   Þingmenn þessa þingmeirihluta hafa margsinnis gert sig seka um svo alvarlegan dómgreindarbrest, að þeir eru ekki lengur hins minnsta trausts verðir.  Ráðherrarnir, núverandi og brottreknir, eru bersýnilega dómgreindarlausir.  Þeir ráða ekki við að leysa úr vandamálum, sem eiginn álkuháttur og dómgreindarbrestur þingmeirihlutans hefur skapað, hvað þá vanda, sem að utan steðjar. 

Forkólfar ráðherranna þrugla óskiljanlega þvælu komandi út af ríkisstjórnarfundi, þar sem viðfangsefnið var að móta stefnu framkvæmdavaldsins í kjölfar dóms Hæstaréttar um afturvirkni laga um vaxtaákvörðun á lán, sem breytt var úr ólöglegum lánum með gengisviðmið.  Þau heyktust algerlega á þessu viðfangsefni, eins og öllum öðrum, þar sem úrlausnar og leiðsagnar er þörf út úr vandasamri stöðu.  Forherðingin er samt slík, að alltaf neita þau að horfast í augu við þá staðreynd, að þau ráða ekki við viðfangsefnin.  Ráðherrarnir kunna ekki að skammast sín.  

Ekki er hlutur Fjármálaeftirlits og Seðlabanka skárri.  Þessar stofnanir gáfu ríkisstjórnarómyndinni ráð um lagasetningu síðla árs 2010, sem flestir leikmenn sáu þá strax, að orkuðu mjög tvímælis lögfræðilega, þar sem lög voru gerð afturvirk, jafnvel þó að fjölmargir lögmenn vöruðu við og /eða mótmæltu slíkum gjörningi sem Stjórnarskráarbroti. 

Þetta er mjög einkennandi fyrir vinnubrögð ríkisstjórnarinnar.  Hún fer öfugt að hlutunum, er óráðþæg, hlustar ekki á sérfræðinga og les ekki málsgögn og heimtar í öllum gösslaraganginum, að þingmenn hennar hagi sér eins.  Annars eru gerð hróp að mönnum, snúið upp á handleggina á þeim og þeir lagðir í einelti.  Þessi viðurstyggilega ofstækisframkoma hefur sínar afleiðingar. Þetta er raunaleg, en raunsönn lýsing á "stjórnendum" þjóðarskútunnar.  

Nú er svo komið, að ríkisstjórnin og stjórnmálaflokkarnir tveir, sem að henni standa, er rúin trausti.  Hvern skyldi hafa órað fyrir, að Lilja Mósesdóttir & Co. fengi meira fylgi en Samfylkingin og Vinstri hreyfingin grænt framboð til samans.  Lilja gerir hosur sínar grænar fyrir fólki á miðju stjórnmálanna, en engum dylst, að hjarta hennar slær langt til vinstri við stjórnmálalegt velsæmi, þannig að hún siglir nú þegar undir fölsku flaggi.   

Ríkisstjórnin var með þessum Hæstaréttardómi í viku 7/2012 um gengistengd lán slegin rothöggi, sem skýrir e.t.v. ruglið í ráðherrunum, sem ekki mæltu orð af viti að afloknum fyrsta ríkisstjórnarfundinum eftir rothöggið.  Í stað þess að kasta handklæðinu inn í hringinn, hófst þá kattarþvottur með aumkvunarverðu yfirklóri um, að nú biðu þau eftir tillögu bankanna um, hvernig standa ætti við Hæstaréttardóminn.  Auðvitað átti framkvæmdavaldið að taka af skarið, setja Frjármálaeftirlitið til verka við að útfæra dóm Hæstaréttar, sem er skýr, þó að rugludallar þrugli stöðugt bull til að rugla fólk í ríminu.  Síðan má skipa gerðardóm, eins og Talsmaður neytenda hefur lagt til, sem mundi leggja greinargerð Fjármálaeftirlits til grundvallar úrskurðum sínum. 

Vinstri stjórnin er handbendi fjármálafyrirtækjanna og ætlar að láta þau, sem dæmd voru sek, um túlkun dómsins. Það á að láta úlfinn gæta lambsins.  Er þetta hægt ? Góðir hálsar; aumari verða stjórnmálamenn fjandakornið ekki.  Þessir munu óhjákvæmilega draga flokka sína með sér í tortíminguna.   Auðvitað átti bankastjóri Seðlabankans og forstjóri Fjármálaeftirlitsins ásamt bankaráði og stjórn Fjármálaeftirlitsins að segja af sér líka fyrir að vera staðin að verki við að hvetja til Stjórnarskráarbrots.  Hlutur beggja þessara aðila er slíkur, að fullyrða má, að farið hefur fé betra.  Nú hefur forstjóra Fjármálaeftirlitsins líklega verið fórnað, en slíkur blóraböggull er allt of léttvægur í þessu samhengi.  

Stjórnsýsla landsins er lömuð.  Ofan á situr undirmálsfólk, sem aldrei skyldi nokkur mannaforráð fengið hafa, hvað þá forystu ríkisvalds.  Þetta endemis hæfileikaleysi smitar niður um stjórnsýsluna, því að eftir höfðinu dansa limirnir.  Verkstjórnin er síðan með þeim hætti, að þessi sama stjórnsýsla er sett í að fást við alls konar gagnaöflun og þýðingar fyrir kommissarana í Brüssel undir formerkjum aðlögunarferlis að Evrópusambandinu, ESB, sem er hrein fjársóun og tímasóun, því að Ísland er áreiðanlega ekki á leið inn í ESB.  Í augum uppi liggur, að brýna nauðsyn ber til að stöðva alla þessa endemis vitleysu og ráðleysi vinstri manna, sem ekkert kunna til verka, forgangsraða aldrei með tilliti til þjóðarhagsmuna, heldur aðeins eigin sérvizku og fordóma og sóa skattpeningum á báðar hliðar. 

Engin ríkisstjórn hefur haft jafnbrogaðan feril að baki og þessi, sé litið til niðurlægjandi ósigra og áfellisdóma.  Þar ber tvær þjóðaratkvæðagreiðslur um Icesave hæst, en Icesave málarekstur ríkisstjórnarinnar opinberaði mönnum fullkomna óhæfni ráðherra í starfi, og var þar sýnu verst frammistaða formanna stjórnarflokkanna.  Þar bjargaði forseti lýðveldisins landsmönnum fyrir horn, þegar allt stendi í óefni, tvívegis.

Þá er í fersku minni Hæstaréttardómur yfir umhverfisráðherra, Svandísi Svavarsdóttur, fyrir afglöp í starfi, og hún heldur nú áfram afglapaiðju sinni með því að breyta niðurstöðum starfshópa um Rammaáætlun um nýtingu og vernd orkulinda.  Niðurstöðum faghópanna er breytt í reykfylltum bakherbergjum nómenklatúrunnar.  Þetta minnir mjög á framferði Putíns í Rússlandi, en að undirlagi hans er ekki hikað við að breyta niðurstöðum kosninga í Rússlandi stjórnmálaflokki hans í vil.  Þeim svipar saman hjörtunum í Moskvu og Reykjavík.

 Stjórnarskráarmálið er orðinn helber farsi.  Ríkisstjórnin er þar búin að eyða einum milljarði (mia) kr í tóma vitleysu.  Út er komið skjal, sem ekki stenzt stranga rýni stjórnlagafræðinga og annarra lögspekinga, sem þykir þar hvað stangast á annars horn.  Þetta er bragðdaufur vellingur án rúsína og lögfræðilegt undirmálsverk.  Jafnvel formaður stjórnlagaráðs getur ekki dulið vanþóknun sína opinberlega á ráðleysi ríkisstjórnarinnar, sem aldrei getur hugsað neitt mál til enda.  

Stjórnin virðist vilja láta kjósa um nokkrar greinar Stjórnlagaráðs og jafnvel alla tillögu ráðsins samhliða forsetakosningunum í sumar, en allt er málið í þoku, enda var illa til þess stofnað, þar sem Hæstiréttur dæmdi kosningar ólöglegar, sem í óráðshugarheimi Jóhönnu Sigurðardóttur áttu að veita Stjórnlagaþingi réttlætingu til að yfirtaka hlutverk Alþingis sem Stjórnarskráargjafa.  Það stendur upp úr, að staðið er með algerlega ólögmætum hætti að kukli við Stjórnarskrána.  Ef einhver kærir þessar aðfarir, verða þær að líkindum dæmdar ólögmætar, og er þá ver farið en heima setið.  Engum heilvita manni getur dottið í hug að standa með svo óvönduðum hætti og svo flausturslega og ófaglega að endurskoðun grundvallarlaga lýðveldisins.   

Nú þakka forkólfar ríkisstjórnarinnar sér ánægjulega hækkun lánshæfismats landsins.  Þetta hefur hins vegar gerzt þrátt fyrir ríkisstjórnina, en vegna makrílsins, sem er að færa þjóðinni 25 mia kr björg í bú á ári, og gæftir eru yfirleitt góðar.  Álverðið hefur að vísu lækkað tímabundið, en framleiðslan fer hins vegar vaxandi í landinu.  Það er argasta hégilja, sem haldið er fram af draumórafólki og öfugmælaskáldum, að varanleg offramleiðsla sé á áli og framleiðsla áls ógni jörðunni.  Framleiðslan er nú um 43 Mt/a (milljón tonn á ári) og hefur vaxið um 10 % á fáeinum árum.  Spáð er 4 % eftirspurnaraukningu á ári, sem þýðir 16 Mt aukningu fram til 2020 eða 2 Mt/a.  Megnið af brotaáli fer í endurvinnslu, sem aðeins þarf um 5 % af orku frumvinnslunnar per tonn.  Hvernig dettur rassálfunum í hug að halda fram þeirri fásinnu, að álvinnsla muni eyðileggja jörðina.  Bezt er, að þruglkenndur skáldálfur draumalandsins stingi hausnum í sandinn og verði þar, sem hann á heima; í eyðimörk fordóma og sjúklegra samsæriskenninga.

 Álverin á Íslandi eru samkeppnihæf, og eigendum dettur ekki í hug að draga hér saman seglin, þótt í móti blási.  Þessa mikla gjaldeyrisöflun verður enn að efla til að mynda traustan grunn að viðreisn hagkerfisins og efnahagslegum stöðugleika með afnámi hafta og skilyrðislausra verðtrygginga.   

Þessu ráðleysisgengi, flagði undir fögru skinni, sem hér rændi völdum og hlaut síðan blessun í kosningum á fölskum forsendum og hefur þegar svikið öll sín kosningaloforð, ber að fleygja hið fyrsta á ruslahauga sögunnar og leggja ár hinna glötuðu tækifæra að baki sér.  Vatnið það hefur þegar runnið undir brúna, en hitt þarf að virkja. 

Hvað tekur þá við ?  Menn spyrja, hvort þeir eigi að greiða stjórnmálaflokkum atkvæði, sem ábyrgir séu fyrir Hruninu ?  Hverjir eru ábyrgir fyrir Hruninu ?  Árið 2004 var til meðferðar mál á Alþingi, sem skipti sköpum um eignarhald á fjölmiðlum.  Þáverandi stjórnarandstaða, Samfylking og Vinstri hreyfingin grænt framboð, barðist eins og blóðhundar gegn dreifðu og gegnsæju eignarhaldi á fjölmiðlum, en ríkisstjórn Davíðs Oddssonar fékk það samþykkt á Alþingi.  Lögin féllu hins vegar forseta lýðveldisins ekki í geð, svo að hann synjaði þeim staðfestingar, og voru þau í kjölfarið felld úr gildi.  Eftir þetta náðu gullrassar og nasavíðir fjárglæframenn kverkatökum á umræðunni í landinu og síðan undirtökunum í bönkunum með alræmdum afleiðingum.  Ef sauma átti að auðmönnum, áttu þeir jafnan hauka í horni, þar sem Samfylkingin var.  Það má heldur ekki gleyma því, að stefna Sjálfstæðisflokksins var upphaflega um dreifða eignaraðild að bönkunum, en þingið kaus að hafa annan hátt á.  Er með sanngirni unnt að kenna Sjálfstæðisflokkinum um rotið fjármálakerfi, eins og vinstri flokkarnir hanga nú á, eins og hundur á roði, og endurspeglast í málarekstrinum á hendur Geir Hilmari Haarde ?  Nei, það er engin sanngirni í því, heldur undirstrikar þetta háttarlag vinstri flokkanna dómgreindarleysi þingmanna þeirra, sem rakið er í þessum pistli.  Þeir kunna ekki að skammast sín.    

Akrópólis


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband