Glöggt er gests augað

Í Sunnudagsmogganum, 24. júní 2012, birtist afar áhugavert viðtal við Þjóðverjann, Carl Hahn, sem er Nestor Volkswagens og stjórnaði þessum iðnrisa um árabil.

Carl Hahn vill aukinn samruna í Evrópu, eins og margir framámenn Þjóðverja, þó að almenningur í Þýzkalandi fylgi þeim ekki að málum þar, nema síður sé.  Allt að 80 % Þjóðverja er andvígur meira framsali fullveldis til hins yfirþjóðlega og ólýðræðislega valds í Brüssel.  Aðhald almennings nær ekki til búrókratanna í Brüssel. Stjórnlagadómstóll Þýzkalands í Karlsruhe hefur varað Bundestag í Berlín við því, að hann kunni að dæma frekara framsal fullveldis Þýzkalands vera í blóra við Stjórnarskrá Sambandslýðveldisins.  Áhugi Þýzkalands á sambandsríki Evrópu er þess vegna beggja blands.  Verður spennandi að fylgjast með þróun mála í Sambandslýðveldinu á næstu misserum hvað þetta varðar.  Brugðið getur til beggja vona.    

Þrátt fyrir skoðun sína á Evrópumálunum hefur hinn reyndi, víðsýni og gjörhygli viðskiptamaður, Carl Hahn, eftirfarandi að segja við lesendur Sunnudagsmoggans

"Ég hefði aldrei sótt um aðild að Evrópusambandinu í ykkar sporum.  Ísland er langt í burtu.  Ísland er lítið, en þó stórt í sjálfstæði sínu vegna mikilvægrar stöðu sinnar.  Ísland er með fádæmum ríkt, en sem lítil þjóð getur landið náð hvað beztri ávöxtun þessarar auðlegðar með því að vera sjálfstætt, en ekki 28. landið í Evrópusambandinu, sem á í slíkum vandræðum með sjálft sig og getur örugglega ekki sett vandamál Íslands á oddinn.  Ef maður horfir raunsætt á málið-og hér er ekki um að ræða ásakanir á hendur neinum á Íslandi-er rétt að segja, eins og Vaclav Klaus í Prag: "Við göngum ekki í evruna".  Þegar Evrópa nær að komast fram á við, skipuleggja sig og reka öfluga viðskipta-og fjármálapólitík, og þá um leið evrupólitík, verður hægt að taka inngöngu til athugunar, en í dag er ljóst, að hið ótrúlega ríkidæmi Íslands, sem er ekki bara fólgið í 720´000 km2 af hafi til fiskveiða og miklu pólitísku sjálfstæði og styrk og hagkvæmri stöðu, eins og kemur fram í því, að kínverskir ráðamenn leita ráða hjá og heimsækja núverandi forseta, sem alls staðar kemur að opnum dyrum, yrði ekki til framdráttar með sama hætti og yrði Ísland enn eitt aðildarríki Evrópusambandsins.  Þá mundu kínverskir valdamenn ekki leita hingað." 

Þetta er löng tilvitnun í hinn gagnmerka Þjóðverja, sem veit hvað hann syngur og er ekki fæddur í gær.  Í ljósi makríldeilu Íslendinga við ESB verður ljóst, hversu hárrétt hinn glöggskyggni Carl Hahn hefur fyrir sér, þegar hann leggur mat á hagsmuni Íslands gagnvart ESB.

Eins og fram kemur, vonast hann til, að Evrópusambandið (ESB) nái sér á strik til að verða framvörður Evrópuríkjanna á sviði viðskipta og fjármála, þó að hann nefni ekki beint, hvað til þess þarf, en það er aukið fullveldisframsal aðildarlandanna til ókjörinna pótintáta í Brüssel, þ.e. til Maríu Damanaki og annarra af því sauðahúsi.  Fyrir slíku er enginn stuðningur á meðal almennings í Evrópu, og þess vegna eru tilburðir til aukins samruna nú í nafni björgunar evrunnar dæmdir til að mistakast.  Viðskiptamenn og peningamenn Evrópu studdu stofnun ESB til að verða tæki í valdabaráttunni í heiminum.  Aðeins jafnaðarmenn á Íslandi vilja binda trúss sitt við slíka stórveldisdrauma, jafnheimskulegir og þeir eru. Jafnaðarmenn á Íslandi höfðu líka miklar efasemdir um réttmæti þess að slíta konungssambandinu við Danmörku, þó að það hafi síðan legið í nokkru þagnargildi.   

Carl Hahn tekur skýrt fram, að hann telur það engan veginn þjóna hagsmunum Íslendinga, að umsókn um aðild að ESB skuli hafa verið lögð fram, og þar með telur hann vafalaust yfirstandandi aðlögunarferli hið mesta óráð.  Hver sá, sem kryfur þetta umsóknarmál að ESB hlutlægt og af þekkingu og víðsýni, hlýtur að komast að sömu niðurstöðu og Carl Hahn.  Nú reynir ESB að nota þessa ólánsumsókn sem vopn í baráttunni við Íslendinga um makrílinn.

Andstæðingar aðildar Íslands að ESB gátu vart fengið betri stuðning erlendis frá við málstað sinn en frá Evrópusinnanum, þýzka, Carl Hahn. Hann verður ekki sakaður um forpokun eyjarskeggjans eða einangrunarhyggju á grundvelli þjóðernishroka.  Nei, afstaða þeirra Íslendinga, sem telja ESB-aðild mundu verða hagsmunum Íslands sízt til framdráttar og jafnvel vera hagsmunum Íslendinga stórhættuleg, er reist á ígrundun, þekkingu og haldgóðum rökum.  Afstaða aðildarsinna er hins vegar reist á innantómri moðsuðu um, að örlög Íslands séu samtvinnuð Evrópu og að það hljóti að vera betra að vera hluti af stærri heild en að standa á eigin fótum.  Þetta er í ætt við ótta heimaalningsins við að hleypa heimdraganum og lifa upp á eigin spýtur.    

Gott dæmi um hagsmunaafsal er makrílmálið.  Á Evrópuvefnum hafa fræðimenn við Háskóla Íslands leitt að því gild rök, að íslenzk stjórnvöld hefðu alls ekki getað sett sér einhliða veiðimagn í lögsögu Íslands árið 2010 upp á 112 000 tonn makríls.  Framkvæmdastjórn ESB hefði þá þvert á móti sett okkur veiðihámark reist á reglu sinni um hlutfallslegan stöðuleika, sem hefði leitt til þess, að við fengjum heimild til að veiða svipað magn og verið hafi sem meðafli, einkum með norsk-íslenzku síldinni, eða um 25 000 tonn eða 3 % aflans, og þar við hefði setið.  Þess í stað veiddu Íslendingar árið 2011 um 16 % aflans.  

Þetta er regla, sem ekkert tillit tekur til gjörbreyttra aðstæðna í hafinu.  Sífellt meira gengur nú af makríl inn í lögsögu Íslands eða tæpur fjórðungur stofnsins.  Það er þess vegna engin goðgá, að við veiðum tæpan fimmtung stofnsins, þegar fjórðungur stofnsins gengur inn í lögsöguna í ætisleit og hverfur síðan á braut og er veiddur annars staðar.  Talið er, að hann þyngist um 650 000 tonn á ári í lögsögu Íslands og éti m.a. sandsíli, sem er mikilvæg fæða ýmissa fugla, þ.á.m. lunda, sem nú eiga erfitt uppdráttar vegna fæðuskorts.  Af þessum sökum er engin goðgá að veiða 200 000 tonn af makríl til manneldis, enda virðist stofninn vera í jafnvægi þrátt fyrir veiði langt umfram ráðgjöf.  

Skipulagt undanhald Íslendinga er hins vegar hafið undan ofríki Noregs og ESB að tilstuðlan afturhaldsstjórnarinnar í Reykjavík, sem er fyrirmunað að standa í ístaðinu, ef ESB er annars vegar.  Minnir afstaða Össurar, Steingríms og handbenda þeirra ekki á neinn annan meira nú um stundir en Neville Chamberlain, forsætisráðherra Breta, sem fórnaði Súdetahéruðum Tékkóslóvakíu í hendur ríkiskanzlara Þriðja ríkisins og taldi sig með því hafa "tryggt frið um vora daga". 

Mun samningamönnum viðundranna, sem nú sitja í Stjórnarráðinu, öllum til óþurftar og engum til gagns, væntanlega verða skipað að leggjast á bakið og tifa upp tánum á samningafundi í haust um veiðarnar 2013.  Mun landið þar verða af um 25 mia kr gjaldeyristekjum á ári, ef svo gengur fram sem horfir undir ríkisstjórn, sem gert hefur versta samning Íslandssögunnar við erlent vald og orðið að gjalti fyrir.  Að fáeinum árum liðnum verður þá tapið af "Münchensamningi" Steingríms J. Sigfússonar komið í Icesave hæðir. 

Evrópusambandið, ESB, er tannlaust tígrisdýr.  Að lyppast niður undan hótunum þess er afstaða, reist á brengluðu hagsmunamati og heybrókarhætti, sem ekki á að líða ríkisstjórninni og stjórnarflokkunum.  Það eru markaðir austan og vestan við ESB og alþjóðasamningar, sem standa gegn refsiaðgerðum á viðskiptasviðinu vegna hagsmunabaráttu af þessu tagi. 

   Nýr Þór heldur úr höfn 

Ný tegund í lögsögu Íslands, makríll

 

  

    

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband