Sjötugt

Íslenzka lýðveldið er sjötugt.  Í þjóðaratkvæðagreiðslu með metþátttöku, 98 %, var nánast einróma samþykkt að slíta konungssambandinu við hernumda Danmörk og stofna til fullvalda ríkis með innlendum þjóðhöfðingja og þingbundinni ríkisstjórn.  

Það er við hæfi að horfa yfir farinn veg á þessum tímamótum og að rýna lítillega inn í framtíðina. 

Stjórnarskrá lýðveldisins, sem hlaut um 96 % stuðning af öllum atkvæðisbærum mönnum í landinu árið 1944, hefur reynzt vel, og hún hefur verið löguð að nútímanum í nokkrum áföngum, og enn er hún til endurskoðunar af hópi undir forystu prófessors emeritus, Sigurðar Líndal, eins mesta lögspekings landsins.  Einmitt þannig á að þróa Stjórnarskrána, þ.e. að beztu manna yfirsýn á stjórnlagasviðinu án þess að setja lagagrundvöll landsins í uppnám. 

Það er hins vegar röng aðferðarfræði, sem Alþingi síðasta kjörtímabils notaðist við.  Kosningaaðferðin til Stjórnlagaþings var illa fallin til að ná fram þversniði af þjóðinni m.t.t. stétta og búsetu, og þingið varð vettvangur hrossakaupa hjartans mála, þannig að útkoman varð lögfræðilega ótæk. 

Góður árangur hefur náðst á mörgum sviðum frá lýðveldisstofnun, en líklega eru stærstu sigrar lýðveldisins á sjávarútvegssviðinu.  Íslenzki sjávarútvegurinn, sjálfbær nýting auðlindarinnar með mestu framleiðni og beztu nýtingu hráefnisins, sem um getur, er í allra fremstu röð.  Grundvöllur íslenzka sjávarútvegsins er landhelgin umhverfis Íslands.  Megnið af þessu hafsvæði var almenningur, þar sem fjöldi Evrópuþjóða stundaði veiðar, sem kalla má rányrkju á sumum tegundum.  Í nokkrum áföngum var lögsagan færð út í 200 sjómílur með seiglu og harðfylgi.   

Barizt var á tvennum vígstöðvum; á lögfræðilega sviðinu var þróun mála í Vesturheimi með Íslendingum, og sigur vannst með gerð alþjóðlegs hafréttarsáttmála, og á hafinu sjálfu, þar sem sigur vannst með klippum, hönnuðum í Landssmiðjunni, og með yfirburða sjómennsku og hugrekki áhafna íslenzku varðskipanna og togarasjómanna íslenzkra, sem við sögu komu.  Flotaforingjar hennar hátignar hafa varla verið sæmdir heiðursmerkjum fyrir framgöngu sína gegn íslenzkum togurum og varðskipum.

Það er líklegt, að þessi viðureign flota hennar hátignar og Landhelgisgæzlunnar hefði endað með vofveiflegum hætti, ef Bandaríkjamenn hefðu ekki stillt til friðar, enda út í algert óefni komið, þar sem tvær NATO-þjóðir létu hendur skipta á hafinu og löndunarbann að auki á Bretlandi.  Síðan þetta var, 1976, hafa Íslendingar séð um veiðiskapinn innan 200 sjómílnanna og markaðssett vöruna á Bretlandseyjum, á meginlandi Evrópu, í Bandaríkjunum og víðar, en sjávarútvegur Breta dróst auðvitað saman við þetta, og sumir útgerðarstaðir á Bretlandi hafa ekki borið sitt barr síðan.  

Hér skal fullyrða, að beittasta vopn Íslands á báðum téðum vígstöðvum var fullveldi landsins.  Að sama skapi skal fullyrða, að hefði Ísland verið aðili að forverum Evrópusambandsins, ESB, þ.e. Efnahagsbandalagi Evrópu og Evrópubandalaginu, á tímabilinu 1958-1976, og síðar, þá hefði útkoman orðið með allt öðrum hætti og lögsaga íslenzkra stjórnvalda yfir 200 sjómílum frá yztu nesjum væri ekki fyrir hendi.  Það þarf enga mannvitsbrekku til að sjá þetta, þegar rýnt er í hina sameiginlegu fiskveiðistefnu ESB og forvera. Lögsagan væri þá samnýtt af öllum fiskveiðiþjóðum ESB og sjávarútvegur rekinn í anda byggðastefnu Brüssel, en ekki út frá arðsemisjónarmiðum til langs tíma, og það, sem nú er mikilvægasta tekjulind landsins, sjávarútvegurinn, væri ekki nema svipur hjá sjón. 

Það er ólíklegt, að útflutningstekjur landsmanna væru þá jafnháar og raun ber vitni um nú, þó að hugsanlegt sé, að aðrar greinar, t.d. iðnaður og móttaka ferðamanna, hefðu vaxið hraðar en raunin varð.  Meiri aðild að samstarfi Evrópuþjóðanna en raunin er á núna, er ekki líkleg til að hafa leitt til betri lífskjara en við njótum nú, þegar mið er tekið af þróun hagkerfa ESB-landanna.  

Minnzt var á NATO.  Það var löngum viðkvæðið, að ríkisvald yrði að hafa yfir að ráða her til að geta varið sjálfstæðið.  Fyrir sögulega heppni, ef svo má segja, leystust varnarmál landsins farsællega með því að stjórnvöldum landsins var boðið að gerast stofnaðilar að varnarsamtökum vestrænna ríkja, NATO, árið 1949, og hér voru herstöðvar á vegum NATO tímabilið 1951-2004.  Þar að auki er í gildi tvíhliða varnarsamningur á milli Bandaríkja Norður-Ameríku, BNA, og Íslands.  Fyrir vörnum landsins er því vel séð, og fyrir markaðsaðgengi er séð með fullnægjandi hætti með aðild að Innri markaði EES (Evrópska efnahagssvæðisins) og viðskiptasamningi við Kína.  Það er æskilegt að ná viðskiptasamningi við BNA.  Bandaríkjamenn eru farnir að flytja út LNG, gas á vökvaformi með tankskipum, samkvæmt sérsamningum á vildarkjörum.    

Það er ekki lengur einhugur í landinu um, að Stjórnarskrá lýðveldisins skuli kveða á um fullvalda Alþingi, fullveldi íslenzkra dómstóla hérlendis og framkvæmdavald, er einvörðungu lúti vilja Alþingis.  Nú telur allstór hópur, e.t.v. fimmtungur þjóðarinnar, í öllum stjórnmálaflokkum landsins, að landsmönnum sé hollast að deila fullveldinu með öðrum þjóðum í ríkjasambandi, sem hingað til hefur verið að þróast í átt að sambandsríki, en kjósendur í ESB-löndunum stöðvuðu reyndar þá þróun í maí 2014. 

Það má hverju mannsbarni ljóst vera, að það að deila fullveldinu með tæplega 30 þjóðum, sem telja yfir hálfan milljarð manna, er fyrir 330 þúsund manna þjóð hið sama og að afhenda fullveldi sitt á silfurdiski, þ.e. að glutra því niður með eins kjánalegum hætti blindingjans og hugsazt má.  Þar yrði allt látið fyrir ekkert.  

Þessi fimmtungur eða minna telur hins vegar hag sínum verða betur borgið með Ísland í slíku ríkjasambandi og ríkisvaldið að töluverðu leyti flutt til Berlaymont í Brüssel og aðsetra ESB-þingsins og Evrópudómstólsins.  Það er umhugsunarvert, hvernig unnt er að komast að slíkri niðurstöðu.  Fyrir suma er þessi niðurstaða óskiljanleg, enda hefur hún aldrei verið rökstudd, svo að viðunandi geti talizt.

Ef Ísland hefði verið aðili að ESB og með evru sem lögeyri árið 2008, þegar fjármálakreppa reið yfir heiminn og gerði út af við fjármálakerfi Íslands, hefðum við nú verið í hrikalegri skuldastöðu, ef marka má stöðu Íra, en á Írlandi námu skuldir bankanna u.þ.b. sexfaldri þjóðarframleiðslu landsins.  ESB-forkólfar píndu ríkisstjórn Írlands til þess að ábyrgjast skuldir írskra banka, og lentu þær að miklu leyti á írskum skattborgurum.  Hið sama hefði áreiðanlega orðið ofan á hérlendis, því að haustið 2008 voru Berlaymont-menn lafhræddir við áhlaup á evrópska banka, sem þeir hefðu ekki staðizt og sem þá hefði leitt til bankahruns í Evrópu í mun meiri mæli en raunin varð í BNA eða annars staðar.  Það mátti þess vegna hvergi í Evrópu sýna veikleikamerki, og andvirði þúsunda milljarða króna í erlendum gjaldeyri hefðu þess vegna lent sem skuldabaggi um herðar íslenzkra skattborgara um langa framtíð.  

Þess í stað nýtti ríkisstjórn Geirs Hilmars Haarde í nauðvörn löggjafarvald Alþingis til að setja Neyðarlög til varnar innistæðum Íslendinga í föllnu bönkunum, sem fluttust yfir í nýja banka, en lánadrottnar föllnu bankanna, sem munu hafa átt hjá þeim andvirði um 10 þúsund milljarða kr verða að eiga kröfur sínar við slitastjórnir föllnu bankanna.  Svo ömurlegur sem aðdragandi bankahrunsins hérlendis var, má telja Neyðarlög ríkisstjórnar Geirs Hilmars til mestu afreka lýðveldissögunnar, því að þau björguðu landsmönnum frá þjóðargjaldþroti, sem ekki hefði verið hægt að forðast með aðild að ESB.  Þá hefðum við algerlega verið komin upp á náð og miskunn Leiðtogaráðs og Framkvæmdastjórnar ESB.  Hitt er annað mál, að ríkisstjórninni, sem við tók, tókst illa að vinna úr afleiðingum Hruns og Neyðarlaga.  

Aðalviðfangsefni stjórnvalda nú er að fást við afleiðingar Hrunsins, þ.e. að koma rekstri ríkissjóðs á réttan kjöl, að skapa stöðugt og öflugt hagkerfi, þ.e. lága verðbólgu og mikinn hagvöxt, og að afnema fjármagnshöftin.  Þetta krefst margháttaðra aðgerða og stjórnvizku, en allt verður unnið fyrir gýg, nema beinar erlendar fjárfestingar stóraukist í útflutningsgreinum.  Nú hillir undir þetta með 4 nýjum kísilverum.  Þá ríður á, að við gerð raforkusamninga verði þjóðarhagur lagður til grundvallar, þ.e. jaðarkostnaður orkuvinnslu, aðveitustöðva og línulagna í landinu, en ekki einhver furðuviðmið við þróun orkuverðs á meginlandi Evrópu, þar sem orkukræfur iðnaður er á förum sakir orkuskorts.   

Sterk framtíðarstaða Íslands í alþjóðlegri samkeppni blasir við.  Rökin fyrir þessari ályktun eru lýðfræðilegs (e. demographical) og orkulegs eðlis.  Öll Evrópa, nema Ísland, stríðir nú við það grafalvarlega vandamál fyrir þjóðirnar, að viðkoman dugar ekki til að viðhalda mannfjöldanum, þ.e. fjöldi barna á hverja konu er undir 2,10.  Á Íslandi er þessi tala hærri en 2,10, og fjölgun landsmanna er 1-2 % á ári.  Meðalfjöldi barna á konu í Evrópu er aðeins 1,6, 1,5 í Kína, 1,4 í Japan og 1,3 í Suður-Kóreu.  Í Þýzkalandi, núverandi forysturíki Evrópu, er þessi tala aðeins 1,4, og Þjóðverjum er nú tekið að fækka um 1 % á ári.  Þessi neikvæða þróun grefur undan forystuhlutverki þeirra í Evrópu, því að meiri viðkoma er á Stóra-Bretlandi.  Undanfarin ár hefur verið þokkalegur hagvöxtur í Þýzkalandi, þó að hann sé mjög lítill núna, eins og víðast hvar í Evrópu, nema á Íslandi, og hefur fólksfækkunin leitt til skorts á vinnuafli í sumum greinum.  Þessi neikvæða mannfjöldaþróun mun hamla hagvexti og rýra kjör almennings og velferðarstig, því að sífellt færri munu verða að framfleyta sífellt fleiri eldri borgurum.  Lífeyriskerfi flestra þessara ríkja er s.k. gegnumstreymiskerfi, en ekki söfnunarkerfi, eins og á Íslandi, sem gerir vandamálið enn erfiðara viðfangs. Frá umhverfisverndarsjónarmiði er ofangreind þróun ekki slæm, því að hún mun fyrr en seinna leiða til fækkunar mannkyns, þó að enn sé gríðarleg viðkoma í Afríku eða 4,7 börn á hverja konu, en fer þó hratt fallandi.  Það er hins vegar spurning, hvernig fólk mun taka versnandi lífskjörum í aldurhnignum samfélögum, því að frá iðnbyltingu hefur hver ný kynslóð getað vænzt betri lífskjara en foreldrar þeirra höfðu, en sú verður ekki lengur raunin.   Við sjáum nú þegar vaxandi þjóðfélagsóánægju í Evrópu, sem síðast brauzt út í kosningum til ESB-þingsins í maí 2014.  Hún tengist  þróun þjóðarframleiðslu á mann.  Miðað við árið 2007 hefur þjóðarframleiðsla á mann víðast hvar í Evrópu dregizt saman, sbr eftirfarandi dæmi frá 6 ESB-löndum: Þýzkaland 105 %, Frakkland 98 %, Bretland 94 %, Spánn 92 %, Ítalía 88 % og Írland 88 % af þjóðarframleiðslu á mann 2007.  Fyrir utan hratt hækkandi meðalaldur stríða öll þessi ríki, nema Frakkland, við annað vandamál, sem setur hagvexti þeirra skorður.  Það er orkuskortur.  Þau munu reyna að leysa hann með auknum orkuinnflutningi og aukinni eigin vinnslu á eldsneytisgasi, t.d. kaupum á LNG (Liquefied Natural Gas), en General Electric hefur nú þróað nýjar vélar, sem með mun ódýrari hætti en áður geta breytt eldsneytinu úr gasformi og yfir á vökvaform.  Því er spáð, að árið 2018 muni magn LNG hafa aukizt um meira en þriðjung í heiminum m.v. 2013, sem er svipað og öll núverandi gasnotkun Kína.  Ekki er ólíklegt, að grundvöllur geti orðið innan áratugar fyrir slíkri LNG-stöð við einhverja höfnina á Íslandi fyrir um ISK 10 milljarða til að sjá flotanum fyrir eldsneyti.    Sá hængur er á hér, að eldsneytisgas er ekki sjálfbær orkuberi, heldur bæði mengandi og takmörkuð auðlind, þó að minna koltvíildi og sótagnir myndist við bruna þess á hverja orkueiningu en olíu og kola.  Á orkusviðinu hefur Ísland hins vegar sérstöðu, því að hérlendis er unnt að framleiða alla raforku með sjálfbærum hætti.   Eigum við auðvitað að gera það í enn ríkari mæli en nú er gert, og nú hillir undir nýja viðskiptavini fyrir raforku hérlendis, þar sem eru kísilver, en kísillinn er til margra hluta nytsamlegur, frá tannkremi til sólarrafhlaða.  Margir umhverfisverndarsinnar á Vesturlöndum leggjast þó alfarið gegn virkjunum til að selja fyrirtækjum í erlendri eigu, oft alþjóðlegum samsteypum, rafmagn.  Þetta viðhorf er angi af þeirri afstöðu, að frjáls alþjóðleg viðskipti hljóti að vera umhverfislega skaðleg vegna sóknar alþjóðlegra fyrirtækja eftir starfsemi í löndum, þar sem minni og jafnvel lítillar umhverfisverndar er krafizt af þarlendum yfirvöldum.  Á ensku er þetta kallað ”race to the bottom in environmental standards”.  Jafnframt séu flutningar frá framleiðanda til notanda, sem frjáls viðskipti óhjákvæmilega hafa í för með sér, mengandi.  Kjarninn í málafylgju mótmælenda gegn ráðstefnu WTO-Alþjóða viðskiptastofnunarinnar í Seattle, Washington-BNA, árið 1999, var, að “fyrirtæki munu flytja starfsemi sína til minna þróaðra landa til að njóta góðs af losaralegri mengunarvarnareglum”.Þetta á hins vegar ekki við um Ísland, því að mengunarvarnarkröfur hérlendis eru með því strangasta sem gerist á iðnaðarsviðinu.  Á virkjanasviðinu skiptir hins vegar í tvö horn á Íslandi.  Tæknistig vatnsaflsvirkjana er komið á það stig, að góð nýting fæst við umbreytingu fallorku vatnsins yfir í rafmagn, og það tekst vel að fella vatnsaflsvirkjanir inn í umhverfið, svo að segja má, að vatnsaflsvirkjanir séu sjálfbærar á Íslandi, þegar ekki eiga sér stað stórfelldir flutningar á milli vatnasviða.  Kröfur yfirvalda hérlendis um lágmörkun umhverfisröskunar og mótvægisaðgerðir til að tryggja sjálfbærni og afturkræfni vatnsaflsvirkjana eru fyllilega sambærilegar við það, sem strangast gerist í heiminum um þessar mundir. Þessu er hins vegar enn ekki á sama veg farið með jarðgufuvirkjanir.  Þar er nýtnin afar lág við umbreytingu jarðgufu í rafmagn, og við virkjanirnar losna gróðurhúsalofttegundir og lofttegundir hættulegar gróðri, dýrum og mönnum úr læðingi.  Þar að auki hafa menn farið yfir strikið við nýtingu jarðgufuforðans, svo að dregið hefur úr aflgetu virkjana með tímanum.  Allt er þetta til marks um, að jarðgufuvirkjanatæknin er alls ekki enn tæknilega tilbúin til stórfelldrar nýtingar, t.d. til raforkuvinnslu fyrir alþjóðleg erlend fyrirtæki, og viðhorf mótmælendanna í Seattle 1999 eiga að því leyti erindi við Íslendinga.   Ef fallizt er á, að hagvöxtur sé bæði æskilegur og nauðsynlegur til að auka þjóðarframleiðslu á mann, svo að landið geti keppt við nágrannalöndin um kaup og kjör, þá stendur val um höfuðáherzlu á milli þjónustugreina og framleiðslugreina.  Framleiðslugreinar geta að jafnaði staðið undir hærri launagreiðslum en þjónustugreinar, af því að hinar fyrrnefndu nýta meiri tækni og meiri þekkingu, og þar er þess vegna framleiðni á hærra stigi en í þjónustugreinum.  Sjávarútvegurinn er flaggskip íslenzkra framleiðslugreina, en hann býr við fullnýtta auðlind, þó að vonir standi til vaxandi veiðistofna. Landbúnaður hefur aukið framleiðni sína gríðarlega, og framleiðsla hans hefur vaxið með auknum mannfjölda í landinu að ferðamönnum meðtöldum.  Möguleikar íslenzks landbúnaðar til útflutnings eru miklir með hlýnandi loftslagi, auknu fiskeldi og vaxandi heimsmarkaði fyrir matvörur.   Mestu vaxtarmöguleikarnir hérlendis eru enn um sinn á iðnaðarsviðinu með aukinni raforkuvinnslu í landinu, sem um þessar mundir nemur tæpum 18 TWh/a (terawattstundum á ári), en má með hagkvæmum hætti frá vatnsaflvirkjunum auka upp í 25 TWh/a án dýrkeyptra umhverfisfórna, sem þýðir um 50 % aukningu til iðnaðar, og um enn meiri aukningu getur orðið að ræða, þegar tekizt hefur að virkja jarðgufuna með sjálfbærum hætti.    

 Skjaldarmerki lýðveldisinsHrafnseyri við Arnarfjörð júní 2011  

 

 

    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband