Auður úr greipum hafsins

Svo lengi lærir sem lifir, og nú hefur Smári Geirsson, þjóðfélagsfræðingur, ritað bók, sagnfræðilegs eðlis, sem varpar nýju ljósi á vanrækt svið, tækniþróun Íslands. 

Bókin, "Stórhvalaveiðar við Ísland til 1915", rekur sögu hvalveiða við Ísland allt aftur til landnáms, en þeir huguðu menn og konur, sem lögðu á úthafið á milli Noregs og Íslands í því augnamiði að nema land á fjarlægri eyju norður við Dumbshaf, báru auðvitað með sér menningu sína, verkkunnáttu og lifnaðarhætti, og þar á meðal voru hvalveiðar og nýting á hvalaafurðum. 

Í bókinni eru rakin ítök útlendinga hér og viðamikil starfsemi við hvalveiðar og vinnslu hvalafurðanna.  Baskar frá norðurströnd Spánar komu hingað á 17. öld, og Spánverjavígin 1615, undir stjórn sýslumannsins, Ara í Ögri, eru til marks um harkalega hagsmunaárekstra Íslendinga og útlendinga, sem hér vildu stunda auðlindanýtingu án þess að hafa fyrst aflað sér konungsleyfis.  Einokunartilhneigingin hefur alltaf átt rík ítök hér á landi og líklega ætíð leitt til mikils ófarnaðar almennings í landinu, sem mátti búa við sult og seyru, þegar aðrar þjóðir höfðu fyrir löngu þróað tækni til að nýta með talsvert stórtækum hætti auðlindirnar, t.d. auð hafsins. 

Hér stunduðu Bandaríkjamenn, Hollendingar og Danir tilraunaveiðar á hvölum, en langstórtækastir voru þó Norðmenn, sem hér við land veiddu meira en 1300 hvali á ári, þegar mest lét.  Íslendingar komust fyrst í tæri við "stóriðju", þ.e. vélvædda framleiðslu á miklu magni, með því að ráða sig í vinnu í hvalstöðvum þessara þjóða hér á landi, og þetta varð upphaf vélamenningar og vélakunnáttu á Íslandi og varð forveri vélbátaútgerðar, sem Íslendingum hefur þó löngum verið kennt, að orðið hafi upphaf vélvæðingar atvinnustarfsemi Íslendinga. Téð bókarútgáfa er hvalreki, því að hún fyllir í sögulega eyðu.

Hvalstöðvar Norðmanna urðu 8 talsins á Vestfjörðum og 5 á Austfjörðum.  Þær möluðu gull, og þarna komust landsmenn í álnir með því að selja vinnu sína unnvörpum í fyrsta sinn á Íslandi. Varð þetta landinu ómetanlegt framfaraskref á tíma, þegar fólkinu hafði fjölgað, illa áraði til lands og fjárskortur var til að hefja uppbyggingarstarfsemi. Verður nú gripið niður í viðtal Höllu Harðardóttur í Fréttatímanum 16.-18. október 2015 við höfundinn, Smára Geirsson:

"Árið 1863 hefst svo nýtt tímabil, þegar Bandaríkjamenn koma til landsins.  Bandaríkjamenn reistu fyrstu vélvæddu hvalstöð í heimi á Seyðisfirði eystra og stunduðu hér tilraunaveiðar á reyðarhval, sem er mun öflugri, sterkari og erfiðari viðureignar en sléttbakur og búrhvalur.  En ekki nóg með það, heldur eru þeir þannig gerðir, að þegar þeir drepast, þá fljóta þeir ekki, heldur sökkva.  Þannig að í þessar tilraunaveiðar Bandaríkjamanna, og síðar Dana og Hollendinga, þurfti miklu flóknari og betri búnað en áður var notaður."

Þetta er merkilegt og sýnir, að tvisvar komu Bandaríkjamenn til Íslands og ollu tæknibyltingu.  Hið fyrra sinnið 1863, þegar þeir reistu fyrstu vélvæddu hvalstöð í heimi á Seyðisfirði, og í hið seinna sinnið árið 1941, þegar þeir byggðu m.a. Keflavíkurflugvöll, og Bandaríkjaher flutti hingað með sér alls kyns stórvirk jarðvinnutæki og nýja byggingartækni og farartæki, sem Íslendingar höfðu aldrei kynnzt áður.  Með hvalstöðvunum óx atvinnulífinu fiskur um hrygg hérlendis á seinni hluta 19. aldar, sem vafalaust hefur átt sinn þátt í því að veita landsmönnum það sjálfstraust og þrek, sem dugði til að leiða sjálfstæðisbaráttuna við Dani til lykta. 

Frá því að atvinnustarfsemin í landinu tók að mynda nokkurn auð, hefur skipting hans á milli landsins barna verið mörgum hugstæð.  Meginmunurinn á milli vinstri og hægri í stjórnmálum er, að vinstrið leggur meiri áherzlu á skiptingu verðmætanna en sköpun þeirra, en hægrið leggur megináherzlu á verðmætasköpunina.  Almennt má þó segja, að "nóg á sá sér nægja lætur", hvort sem er til hægri eða vinstri.

Það hefur t.d. verið haldið uppi linnulausum og illvígum áróðri gegn útgerðarmönnum síðan rekstur þeirra tók að skila viðunandi framlegð um 1990, eða EBITDA > 20 %, í kjölfar þess, að frjálst framsal aflahlutdeilda var leyft.  Þeim ósannindum hefur purkunarlaust verið haldið að þjóðinni, þvert ofan í sögulegar staðreyndir, að velgengni útgerðarmanna, sem ósvífnir bullustampar uppnefna "kvótagreifa" eða "sægreifa", eigi sér rætur í geðþóttaúthlutun stjórnmálamanna á veiðiheimildum til útgerðarmanna, þegar ákveðið var að taka upp fiskveiðistjórnunarkerfi á grundvelli aflamarks og aflahlutdeildar á veiðiskip til að bregðast við ofveiði á stofnum, sem áttu í vök að verjast.  Þessi ákvörðun um aflahlutdeild ásamt ákvörðuninni um frjálst framsal aflahlutdeilda reyndist virkja markaðsöflin með heilbrigðum hætti til að knýja fram meiri hagræðingu og framleiðniaukningu í einni atvinnugrein á Íslandi en önnur dæmi eru um í lýðveldissögunni og kom í veg fyrir hrun lífskjara á Íslandi við hrun þorskstofnsins, en frá 1980 helmingaðist þorskveiði íslenzkra veiðiskipa í heild á 15 árum. 

Óðinn gerir í Viðskiptablaðinu 15. október 2015 áhrif misskiptingar tekna og auðs á hagvöxt í þjóðfélagi að umræðuefni og tilfærir þekkta hagfræðinga fyrir því, að tekjuskipting hafi ekki merkjanleg áhrif á hagvöxt, og heldur ekki misjafn auður, nema auðurinn sé fenginn með óeðlilegum hætti fyrir tilstuðlan ráðandi afla í þjóðfélaginu, sem sagt með ívilnun í skjóli myrkurs og spilltra stjórnarhátta, enda sé auðurinn þá með öllu óverðskuldaður.  Síðan rennir Óðinn augunum (auganu, Óðinn var lengst af eineygður) til Íslands og ritar:

"Þegar kvótanum var upphaflega úthlutað, var það gert með almennum og hlutlægum hætti.  Miðað var við veiðireynslu, og kvótanum var dreift á ótalmörg skip og útgerðir. Enginn fékk meira í sinn hlut en honum bar, vegna pólitískra tengsla.  Sú samþjöppun, sem orðið hefur í greininni, hefur orðið til með eðlilegum hætti og var í raun eitt af markmiðunum með þeim breytingum, sem gerðar voru. Of mörg skip voru að elta þann fisk, sem í sjónum var, og arðsemi af greininni var sáralítil. Samþjöppunin hefur fært kvótann í hendur þeirra, sem sýnt hafa mesta hæfni til að nýta hann.  Arðsemi af sjávarútvegi nú er öðrum þjóðum öfundsverð, og þeir, sem telja, að þjóðin njóti ekki ágóðans, hafa væntanlega gleymt því, að fyrirtæki greiða launatengd gjöld, tekjuskatt, fasteignaskatt og fjármagnstekjuskatt, að ógleymdu veiðigjaldinu, sem enn er verið að innheimta.  Þá er ekki hægt að saka íslenska útgerðarmenn um að slaka á vaktinni, þegar kemur að eignarréttinum, enda byggir öll þeirra staða á því, að þeirra réttindi séu varin af lögum og dómstólum."

Sjávarútvegurinn býr við meiri rekstrarlega óvissu en önnur útflutningsstarfsemi að því leyti, að hann er háður duttlungum náttúrunnar ofan á duttlunga markaðanna.  Eftir 25 ára minnkun og ládeyðu þorskgengdar fer hún nú vaxandi, og þorskmarkaðir eru góðir, af því að framboðið fór lengi minnkandi. Saga makrílsins hér við land er þekkt.  Þó að aldrei hafi jafnmikið af honum gengið áður inn í íslenzka lögsögu, 37 % af heildarstofnstærð 2015, fer stofn hans nú minnkandi, enda hefur heildarveiðin farið langt fram úr ráðleggingum ICES, Alþjóða hafrannsóknarráðsins. Horfir mjög illa um skynsamlega skiptingu deilistofnanna. Óáran af mannavöldum hefur hins vegar stórskaðað makrílmarkaðinn, svo að tekjur Íslands af makríl verða miaISK 10-15 minni 2015 en árið áður.

Þau alvarlegu tíðindi berast nú af loðnustofninum, að aflamark Íslendinga verði aðeins 44´000 t 2015-2016 og að það fari allt í skiptum við aðra fyrir aðrar tegundir.  Ef ekki finnst meira af kynþroska loðnu er jafnframt útlit fyrir veiðibann á loðnu 2016-2017, svo að loðnustofninn virðist vera að hrynja, nema loðnan sé flúin annað.  Hugsanlega hefur makríllinn étið loðnuna út á gaddinn, en hann étur a.m.k. 3 Mt af átu á ári í íslenzkri lögsögu. Munar um minna.

Hér er um að ræða tvöfalt högg fyrir sjávarútveginn og íslenzka þjóðarbúið á við makríláfallið.  Íslenzk skip veiddu á fiskveiðiárinu 2014-2015 353 kt af loðnu, og útflutningsverðmætin námu um miaISK 30.  Þetta högg mun jafngilda tæplega 1,0 % minni landsframleiðslu en ella og hafa slæm áhrif á útgerðir og útgerðarbæi, sem gert hafa út á uppsjávarfisk. 

Athyglivert er að fylgjast með því, að ICES virðist nú leiða þróunina í aflaráðgjöf loðnu og fleiri fisktegunda í átt til meiri nákvæmni og minni óvissu, sem á að draga úr hættu á ofveiði af völdum óvarkárni.  Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknarstofnunar, sagði í viðtali við Svavar Hávarðsson á Fréttablaðinu 16. október 2015 undir fyrirsögninni:

"Hafró lætur loðnuna njóta vafans":

"Gamla aflareglan stóðst ekki þær kröfur, sem við gerum til sjálfbærrar aflareglu í dag.  Það var verið að taka á því, en þetta táknar, að í stað punktmælingar, þar sem skilja á eftir 400´000 t til hrygningar, þá verði 150´000 t skilin eftir með 95 % vissu.  Gamla reglan gat ekki tryggt neitt slíkt.  En það er fjarri því öll nótt úti.  Þegar líður á vertíðina í janúar og febrúar er mjög algengt, að það finnist meira af loðnu."

Það er ljóst, að þróun þekkingar og nýtingar á lífríki hafsins krefst aukinna rannsókna og mun meira úthalds rannsóknarskipa en fjárveitingar til Hafrannsóknarstofnunar undanfarin ár hafa leyft.  Þess vegna hefur blekbóndi lagt til á þessum vettvangi, að veiðigjöld af útgerðinni verði lögð í sjóð, sem nýta má til fjárfestinga og nýsköpunar í þágu sjávarútvegsins, þ.e. féð mundi mega renna til t.d. Hafrannsóknarstofnunar, Landhelgisgæzlunnar og til hafnarmála. Þetta mundi auðvitað að sama skapi létta undir með ríkissjóði.

Hitt er svo annað mál, að núverandi veiðigjöld eru í eðli sínu ósanngjörn og allt of íþyngjandi fyrir útgerðirnar.  Það má sníða af þeim agnúana með því að eyrnamerkja tekjur af þeim opinberri þjónustu við útveginn, þannig að þau gangi til baka til hans á formi bættrar opinberrar þjónustu við úvegsmenn og sjómenn og létti auðvitað um leið undir með ríkissjóði.  Að öðrum kosti er hér ekki um annað að ræða en sérskattlagningu á sjávarútveginn, sem stríðir gegn jafnræðisreglu og atvinnufrelsi, sem eru stjórnarskrárvarin réttindi. 

Innheimt veiðigjöld námu á árinu 2014 um miaISK 8,1 eða 35 % af beinum gjöldum útgerðar til ríkisins.  Þessi gjöld þurfa að lækka um helming til að þau hafi ekki skaðleg áhrif á starfsemina og valdi ótímabærri fækkun útvegsmanna, einkum í hópi hinna umsvifaminni, bæði handhafa krókaflamarks og aflamarks. Þá þarf að tengja veiðigjöld við verðlagninguna, og væri t.d. hægt að miða við 4 % - 5 % af verði óslægðs afla úr sjó.  Það mundi um þessar mundir gefa miaISK 4-5 á ári í umræddan sjávarútvegssjóð. 

Píratar hafa slegið um sig með því að vera í orði kveðnu talsmenn einstaklingsfrelsis og hafa barið sér á brjóst sem baráttumenn einstaklingsins gagnvart kerfisbákninu.  Þegar þeir í haust mótuðu sjávarútvegsstefnu sína, fór einstaklingsfrelsið þó fyrir lítið, og í staðinn kom grímulaus valdníðsla á einkaframtakinu á formi eignaupptöku á nýtingarrétti útgerðarmanna og síðan uppboð ríkisins á honum.  Þetta er úreltur hugsunarháttur hrokagikkja forræðishyggjunnar, sameignarstefnunnar, sem fótumtreður einstaklingsfrelsið í nafni félagshyggju, sem beitt er af gerræðisfullum stjórnmálamönnum "í almannaþágu", en endar alltaf með ósköpum. 

Það er sorglegt, hversu margir láta blekkjast af innantómum fagurgala loddara, sem eru í pólitík til að brjóta niður þjóðskipulagið í anda stjórnleysingja fyrri tíma.  Þeir, sem halda, að slík aðferðarfræði verði almenningi til framdráttar, þekkja illa söguna og mannlegt eðli enn verr.

  

 

 

       

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góður pistill hjá þér, og ég er algjörlega sammála þér.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 27.10.2015 kl. 22:03

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka þér fyrir innlitið, Rafn Haraldur.  Býsna efnismikill pistill um mismunandi auðlindir hafsins og nýtingu þeirra, þó að ég segi sjálfur frá.  Hann mun fá að fljóta með í "Bjarnis samlede værker".laughing

Bjarni Jónsson, 28.10.2015 kl. 20:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband