"Garmurinn hann Ketill"

Andúðin á auðlindanýtingu (náttúrunnar) tekur á sig ýmsar myndir, en er alltaf jafnfurðuleg og gæti jafnvel stundum minnt á kvalanautn (masókisma).  Hér skal fullyrða, að án núverandi auðlindanýtingar væru Íslendingar ekki í einu af 4 efstu sætunum í Evrópu yfir verga landsframleiðslu (VLF) á mann, eins og nú er raunin, heldur mun neðar á þeim lista, og svo mætti lengi telja eftirsóknarverðar kennistærðir hagkerfisins, t.d. atvinnuþátttöku, fólksfjölgun, rekstrarafgang ríkissjóðs og lækkun skulda ríkis, sveitarfélaga, fyrirtækja og einstaklinga.  Jafnframt er leitun að landi með meiri jöfnuð lífskjara samkvæmt Gini-stuðlinum. Hið opinbera hefur mjög útjafnandi áhrif í anda "Sozial Marktwirtschaft" eða markaðshyggju með félagslegu ívafi. 

Þann 12. janúar 2016 birtist ein af þessum einkennilegu greinum í Fréttablaðinu, þar sem reynt er að rakka niður auðlindanýtingu með fullyrðingum út í loftið.  Greinin ber heitið:

"Einhæfni auðlinda og virðiskeðjan",

og er höfundurinn Þröstur Ólafsson, hagfræðingur. Í huga blekbónda mætti líkja tilraun á Íslandi til að þróa hagkerfi án nýtingar á auðlindum náttúrunnar við tilraun til að reisa hús án sökkla.  Um slíkt hús mætti sannarlega hafa orð heilagrar ritningar, að það væri reist á sandi og stæðist því ekki "veður og vinda".  Lítum nú á sýnishorn af því, sem téður hagfræðingur leggur til málanna, og rýnum merkinguna:

"Hér er næg almenn atvinna og þúsundir lítt menntaðra útlendinga á leiðinni.  Afkoma fólks fer batnandi.  Brottflutningur menntaðs fólks er vegna skorts á sérhæfðum atvinnutækifærum, sem á mikið skylt við óþroskað, einhæft hagkerfi. Auðlindahagkerfi eru í eðli sínu einhæf.  Hvorki landbúnaður né sjávarútvegur hafa mikla þörf fyrir fjölmenntað fólk."

Hér tekur Þröstur, hagfræðingur, algerlega rangan pól í hæðina og slær um sig með fullyrðingum, sem ekki standast.  Hvaðan hefur hann það, að þúsundir lítt menntaðra útlendinga séu á leiðinni til landsins ?  Ætli mesta vöntunin á vinnuafli verði ekki í byggingargeiranum og í ferðaþjónustu ? Hinn fyrr nefndi þarf á sérhæfðu fólki að halda, m.a. iðnaðarmönnum, og þá er dónaskapur að skrifa um sem "lítt menntaða", enda búa þeir yfir verðmætri þekkingu og reynslu.  Síðar nefnda greinin þarf í mörgum tilvikum líka á sérhæfingu og tungumálakunnáttu að halda, t.d. í eldhúsi og við gestamóttöku.

Það vantar því miður upplýsingar um, hvers konar "menntafólk" er að flytjast frá landinu, en það er vert að benda á, að sprenging hefur orðið í fjölda útskrifaðs fólks úr háskólum, og þess vegna ekki kyn, þó að keraldið leki, enda búið að vara við offjölgun á ýmsum hugvísindasviðum. Samt hafa margir valið sér námsgreinar, sem þeir gengu ekki gruflandi að, að lítil spurn væri eftir í almennu atvinnulífi, og opinberi geirinn tekur ekki endalaust við. Hins vegar er um þessar mundir mikil spurn eftir hvers konar raunvísinda- og tæknifólki, svo að ekki sé nú minnzt á heilbrigðisgeirann. 

Íslenzka hagkerfið er hvorki óþroskað né einhæft, enda eru þetta órökstuddir sleggjudómar manns, sem þekkir lítið sem ekkert til íslenzks atvinnulífs. Opinber málflutningur af þessu tagi er hagfræðingastéttinni til vanza. 

Íslenzka hagkerfið er ungt og sprækt, eins og einstæður hagvöxtur þess ber með sér.  Þroski þess kemur m.a. fram í því, að það ræður við ströngustu gæðakröfur á alþjóðlegum mörkuðum, þar sem það keppir, t.d. á álmörkuðum og fiskmörkuðum.  Hagkerfið er ekki einhæft, heldur fjölbreytt, enda er það reist á styrkum stoðum matvælaframleiðslu til lands og sjávar, mestu raforkuvinnslu á mann í heiminum, stóriðju, sem notar megnið af þessari orku og fjölþættri ferðaþjónustu, sem er umsvifameiri hérlendis en dæmi eru um annars staðar, reiknað á hvern íbúa landsins.

Þannig er það eins og hver önnur gatslitin klisja og innistæðulaus alhæfing hjá hagfræðinginum, að auðlindahagkerfi sé í eðli sínu einhæft.  Það er þvættingur, að hvorki landbúnaður né sjávarútvegur hafi mikla þörf fyrir "fjölmenntað" fólk.  Þegar litið er til úrvinnslustarfsemi þessara greina og hliðargreinar frumgreinanna, er ljóst, að sú vöruþróun krefst fjölbreytilegrar sérhæfingar og jafnvel vísindalegrar þekkingar.  Sem dæmi má taka sjávarútveginn, sem leggur sjálfur til 8,5 % af VLF, en með sprotum og hliðargreinum alls 25 % - 30 % af VLF.

"Síðan var uppbygging stóriðju meginþungi í efnahagsstefnu landsins.  Nýr einhæfur auðlindaatvinnuvegur varð til. Okkur mistókst að byggja upp úrvinnsluiðnað og skapandi störf tengd stóriðjunni, sem juku verðmætasköpunina og skildu stærri hluta virðisaukans eftir í landinu."

Hagfræðingurinn er utan gátta, eins og fyrri daginn.  Hlutverk orkukræfa iðnaðarins á Íslandi hefur alla tíð verið að breyta endurnýjanlegri orku í málm, aðallega "græna" málminn ál, og það hefur jafnlengi verið vitað, að úrvinnsluiðnaður áls fengi ekki þrifizt. Af veltu áliðnaðarins sitja um 40 % eftir í landinu, og það er alls ekki lítið, þegar litið er til þess, að fjárfestingin er áhættulaus fyrir Íslendinga. Annaðhvort þarf umfang úrvinnslunnar, t.d. felgusmíði, að vera svo mikið, að flytja þyrfti ál til landsins, eða innanlandsnotkun að taka við afurðunum.  Hið fyrra er of dýrt, og hið síðara er óraunhæft.

Slíkur úrvinnsluiðnaður verður að vera tiltölulega nálægt viðskiptavinunum, því að annars verða flutningarnir of dýrir og tímafrekir.  Það er dálítið steypt hérlendis úr áli, og Alpan fékk um hríð ál frá ISAL, en það var svo lítið magn af hverju melmi, að viðskiptin lognuðust útaf. Menn geta verið vissir um, að væri viðskiptalegur grundvöllur fyrir slíkri úrvinnslu á Íslandi, hefðu álframleiðendurnir Rio Tinto Alcan og Alcoa þegar komið henni á legg.

Það hefur hins vegar sprottið upp frumkvöðlastarfsemi í samvinnu við álverin um þróun og smíði sjálfvirks búnaðar til uppsetningar í álverum, t.d. í skautsmiðjum.  Á grundvelli þessarar sprotastarfsemi hefur framleiðslufyrirtækjum vaxið fiskur um hrygg og flutt út tækjabúnað til álvera um allan heim. Fyrirtækin hafa í sumum tilvikum afhent alverk, þ.e. hannað, smíðað, sett upp og tekið búnaðinn í notkun og fellt hann inn í framleiðslukerfi viðkomandi verksmiðju.  Þessum útflutningsfyrirtækjum hefði ekki tekizt svo vel upp, ef þau hefðu ekki fengið tækifæri til þróunar hjá álverunum á Íslandi og ef þau hefðu ekki fram úr skarandi starfsfólki á að skipa, verkfræðingum, tæknifræðingum, iðnfræðingum, rafvirkjum, rafeindavirkjum, vélvirkjum o.fl.  Þetta svið hefur hentað íslenzkum aðstæðum miklu betur en úrvinnsluiðnaður álvera, hefur aukið tækniþekkingu í landinu, og öll verðmætasköpunin verður eftir í landinu. 

Hitt er ekki hægt að láta hjá líða að minnast á, enda hefur Þröstur, hagfræðingur, greinilega ekki hugmynd um það, að í álverunum starfar fjölbreytilegur hópur og fjölmargir sérfræðingar, þar af dálaglegur hópur með háskólagráðu, hvort sem eru á launaskrá álveranna eða eru verktakar hjá þeim.  Stærstu rafkerfi landsins eru innan vébanda álveranna, stærstu þrýstiloftsveitur og meðal stærstu vatnsveitna, og þar er gríðarleg sjálfvirkni, enda stærstu tölvusamskiptakerfi framleiðslufyrirtækja.  Álverið í Straumsvík hefur þróað sína sjálfvirkni sjálft með innlendum hugbúnaðarsérfræðingum, og gæti legið í iðntölvum ISAL afrakstur 250 mannára í hugbúnaðarvinnu, margt í fremstu röð sinnar tegundar í heiminum, og sumt algert brautryðjendastarf og með snilldarbrag. 

"Auðlindaafurðir eru óstöðugustu afurðir á mörkuðum.  Gleymum því heldur ekki, að ungt fólk með fjölhæfa menntun er ekki á launaskrá stóriðjuvera."

Þessi texti hagfræðingsins er tóm þvæla.  Sjávarafurðir eru auðlindarafurð, en þrátt fyrir bágborið efnahagsástand heimsins undanfarin misseri, hefur sjávarútveginum tekizt að fá hærra verð ár eftir ár fyrir t.d. þorskflök í EUR/kg. Þegar aflabrestur hefur orðið, hefur einingarverðmætið verið aukið. Ferðamannaiðnaðurinn gerir að stórum hluta út á náttúru Íslands og er þess vegna reistur á auðlindarnýtingu.  Hann vex um 20 % - 30 % á ári, þó að víða ári illa.  Hvaða starfsemi skyldi Þröstur Ólafsson hafa í huga, sem er ónæm fyrir markaðssveiflum ? 

Einn af styrkleikum íslenzka hagkerfisins er sá, að það stendur á þremur ólíkum undirstöðum, sem sveiflast ekki endilega í sama takti.  Þessar undirstöður eru matvælaiðnaður, málmiðnaður og ferðaþjónusta. 

Ef Þröstur, hagfræðingur, hefði gert lauslega könnun á starfsmanna- og verktakaskrá álveranna, hefði hann varla farið með fleipur um, að ungt fólk með verðmæta og alþjóðlega menntun sé ekki að finna á launaskrá stóriðjuvera.

Í téðri grein hins önuga og öfugsnúna hagfræðings gat líka að líta árás á íslenzku myntina.  Enn hagar hagfræðingurinn sér eins og fíll í postulínsbúð:

"Ekki má gleyma garminum honum Katli, þegar rætt er um fráhrindandi aðstæður fyrir ungt menntað fólk til að setjast að á Íslandi.  Þar á ég við íslenzku krónuna, sem fengið hefur þá heiðursnafnbót frá forsætisráðherra að vera sterkasti gjaldmiðill í heimi."

Hér er Þröstur, hagfræðingur, á mjög hálum ísi, faglega séð, því að hann teflir nákvæmlega engum rökum fram gegn krónunni.  Rökum teflir aftur á móti fram  kollegi hans, Björn Brynjúlfur Björnsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands, í greininni:

"Krónan og kjörin",

í Fréttablaðinu 26. nóvember 2015. Hann byrjar á því að bera saman lífskjör á Norðurlöndunum, en þar er við lýði þrenns konar myntfyrirkomulag:

"Ef við skoðum þróun lífskjara á Norðurlöndum, mælda í landsframleiðslu á mann, má sjá, að þróunin hefur verið óhagfelldust í Finnlandi, sem notar evru.  Þróunin í Danmörku, sem hefur fest gengi dönsku krónunnar við evruna, er einnig slæm.  Ísland, Noregur og Svíþjóð, sem öll nota sína eigin mynt, hafa hins vegar komið betur út."

Björn Brynjúlfur færir síðan fyrir því rök, að ástæða hrakfara Finna og Dana sé fastgengið og að ástæða velgengni hinna sé eigin, sveigjanleg, mynt. Gengi NOK, norsku krónunnar, hefur fallið miðað við ISK síðan á miðju ári 2014 um meira en þriðjung vegna þess, að olíuiðnaðurinn hefur gegnsýrt norska hagkerfið síðan 1980.  Þetta gengisfall gerist þrátt fyrir norska olíusjóðinn, sem er mun stærri en nemur norsku landsframleiðslunni á ári og er fullur af ígildi erlends gjaldeyris, og fé er tekið að streyma úr honum til norska ríkissjóðsins. 

Norski Seðlabankinn hefur auðvitað haft hönd í bagga með þessari þróun til að koma í veg fyrir fjöldaatvinnuleysi og efnahagskreppu í Noregi.  Hvernig halda menn, að staðan væri hjá frændum vorum með evru eða tengingu við hana.  Í Norðurvegi væri þá grátur og gnístran tanna, en öll kurl eru að vísu ekki komin til grafar, t.d. úr lánasafni norsku bankanna.

Í lok greinar sinnar skrifar Björn Brynjúlfur, og er hægt að taka heils hugar undir það:

"Í stað þess að líta til krónunnar sem orsakar efnahagslegra vandamála væri nær að einblína á hagstjórnina.  Endurbætur á því sviði verða alltaf mikilvægasta verkefnið í efnahagsmálum og munu skila ávinningi burtséð frá því, hvaða mynt er notuð.  Þá má jafnframt færa fyrir því rök, að slíkar aðgerðir séu nauðsynlegur aðdragandi upptöku annarrar myntar.  Aðdáendur og andstæðingar krónunnar hljóta því að sammælast um nauðsyn bættrar hagstjórnar."

Það er himinn og haf á milli málflutnings þeirra tveggja hagfræðinga, sem hér hefur verið vitnað til.  Annar setur sig á háan hest og talar (skrifar) niður til heilu atvinnugreinanna án þess að færa minnstu rök fyrir fordómafullum skrifum sínum, sem virðast mótast af vanþekkingu.  Hinn færir góð rök fyrir máli sínu og bendir á fylgni á milli laklegrar lífskjaraþróunar og evru sem þjóðargjaldmiðils. Í stærri mælikvarða er þetta afar greinilegt, þegar hagþróun fjölmennra þjóða er borin saman, t.d. Frakka og Ítala annars vegar og Breta hins vegar.  Að uppfylla Maastricht-skilyrðin er nauðsynlegt til að komast inn í myntbandalag Evrópu, og það liggur alveg beint við að móta efnahagsstefnu, sem styður við efnahagslegan stöðugleika með því að uppfylla öll Maastricht-skilyrðin. 

Hins vegar er annað skilyrði, sem nauðsynlegt er að uppfylla, svo að upptaka evru geti orðið til bóta fyrir hag landsmanna, og það er, að góð fylgni sé á milli hagsveiflu á Íslandi og í Þýzkalandi.  Bretar fundu á sínum tíma, að þessu færi fjarri, hvað þá varðar.  Þá geta menn ímyndað sér, hvernig staðan varðandi Ísland og Þýzkaland er að þessu leyti.  Nú er t.d. rífandi gangur á Íslandi, en evrubankinn berst við að hindra verðhjöðnun með því að dæla tæplega miaEUR 100 á mánuði inn á banka á evrusvæðinu, og hann heldur stýrivöxtum sínum neikvæðum. Væri Ísland nú hluti af þessu kerfi, mundi líklega geisa hér tveggja stafa verðbólga. 

Í öllum starfsgreinum á Íslandi er hæft fólk af ýmsum toga, sem daglega gengur til starfa sinna og leggur sig fram við að skapa sem mest verðmæti úr því, sem það er með í höndunum hverju sinni.  Að gera lítið úr verðmætasköpun sumra, t.d. í s.k. auðlindageirum, er bæði lítilmannlegt og ómaklegt.  Affarasælast er að lifa í anda kjörorðsins "stétt með stétt". 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Sæll og til lukku með snaggaralegt og auðskiljanlegt andsvar til niðurrifsaflanna. Hef oft velt því fyrir mér hví enginn heyskist til að svara þessum pistlum þínum og kemst ávallt að sömu niðurstöðu.

Sindri Karl Sigurðsson, 3.3.2016 kl. 20:32

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Svör við þessum málflutningi hefur mátt sjá í níu ár í bloggpistlum mínum.

Ómar Ragnarsson, 3.3.2016 kl. 22:20

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Aldri dytti mér í hug að leyta eftir svörum í öðrum pistlum,býst við að svo sé með flest-alla.--Nei skýringin er að enginn treystir sér til að andmæla Bjarna.-- Fáir skrifa jafn skilmerkilegan og góðan texta,þannig að öllum ómenntuðum og lítt fróðum um orkumál eða hagfræði,er hann auðskilinn.

Helga Kristjánsdóttir, 3.3.2016 kl. 23:29

4 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Þakka snaggaralegan pistil. Ekki veitir af að benda á þokukennt og á stundum ofstækisfullt blaður og bull þeirra, sem af einhverjum óskiljanlegum ástæðum, telja að lífið verði leikur einn, með undirgefni við erlend yfirráð. 

"Keep on trucking"

Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 4.3.2016 kl. 02:43

5 Smámynd: Jóhann Elíasson

Þessi pistill er alveg meiriháttar og vonandi lesa hann sem flestir.  Að mínu mati er Ómar Ragnarsson fulltrúi öfganáttúrusinnana ("Náttúruverndar-Ayatollanna") á Íslandi, sem ekki ljá máls á skynsamlegri nýtingu náttúruauðlindanna.

Jóhann Elíasson, 4.3.2016 kl. 08:47

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Ég þakka öllum hér að ofan innlitið og get lofað því að vera ekki dauður úr öllum æðum enn.  Það gleður mig, að málflutningurinn í pistlinum hér að ofan, og í ýmsum öðrum pistlum á þessu vefsetri, fellur í frjóan jarðveg.  Peningar vaxa ekki á trjánum, eins og sagt er, heldur þarf sameiginlegt átak ólíkra stétta og strit hugar og handa til að skapa verðmæti.  Flestum Íslendingum er þetta hugarfar í blóð borið, en þegar fjölmiðlaflóran er skoðuð, mætti oft draga þá ályktun, að þessu væri öfugt farið.  Þessa slagsíðu tel ég nauðsynlegt að leiðrétta, og er þá stundum eins og barnið, sem fyrst varð til að benda á, að keisarinn var ekki í neinu. Baráttan getur líka stundum minnt á baráttu spænsku söguhetjunnar, Don Kíkóta, sem barðist við vindmyllur.  Ég er reyndar ekki hrifinn af stórfelldri uppsetningu vindmyllna á Íslandi á meðan við höfum úr öðrum og hagkvæmari orkulindum að moða, en eins og ég hef bent á, geta þær þó borgað sig í þeim tilvikum, þegar hár flutningskostnaður og dreifingarkostnaður raforku sparast. Alltaf má læða orkumálunum að.

Bjarni Jónsson, 4.3.2016 kl. 10:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband