Blekkjandi umræða um þróun eignaskiptingar

Það er háttur margra að hallmæla ábatadrifnu markaðshagkerfi og alþjóðavæðingu viðskiptanna og láta þá gjarna fljóta með orðaleppa um siðspillt auðvald, sem skirrist ekki við að nýta sér eymd fátæks fólks til að auka gróða sinn. Allt er það í anda úr sér genginna stéttastríðshugmynda aðalhugmyndafræðings villta vinstrisins, Karls Marx.

Þetta er sem sagt hinn dæmigerði málflutningur vinstri manna og á rætur sínar að rekja til Kommúnistaávarps Karls Marx, þar sem hann útmálaði þjóðfélagsóréttlætið í kjölfar iðnbyltingarinnar, sem ætti rætur að rekja til eignarhalds auðmanna á atvinnutækjunum, sem nýttu téð eignarhald til að kúga öreigana, og áréttaði hann síðan hina sögulegu nauðsyn á stéttabaráttu og yfirtöku öreiganna á atvinnutækjunum. 

Stjórnmálabyltingar í anda Karls Marx voru gerðar í nokkrum ríkjum, og atvinnutækin, þ.m.t. í landbúnaðinum, voru þjóðnýtt í kjölfar blóðugrar byltingar.  Öllum efnahagslegum og stjórnmálalegum völdum var með ofbeldi safnað á hendur ríkisvaldsins með sulti og seyru, frelsissviptingu  og öðrum hræðilegum afleiðingum fyrir efnahag og allt líf almennings í viðkomandi löndum.  Almenningur var hnepptur í fátæktarfjötra áratugum saman, og lagt á hann helsi ófrelsis á öllum sviðum mannlegs lífs, allt í nafni alræðis öreiganna. Enn er rekinn harður áróður fyrir stefnu, sem á rætur að rekja til þessarar hugmyndafræði og ber þess vegna dauðann í sér.   

Þrátt fyrir þessa hræðilegu sögu eru enn þeir til á Vesturlöndum og víðar, sem vilja auka sem mest yfirráð ríkisvaldsins í atvinnulífi, auka skattheimtuna og draga þannig sem mesta fjármuni í hramm ríkisvaldsins.  Á sama tíma er sáð tortryggni í garð einkaframtaksins á öllum sviðum, frá heilsugæzlu og menntun til vegagerðar, þó að öflugt, einkarekið atvinnulíf sé bezta tryggingin fyrir valddreifingu í samfélaginu, sem er brjóstvörn lýðræðisins, og jafnvel á Norðurlöndunum hafi verið farið í auknum mæli inn á braut einkarekstrar innviðanna til að bæta þjónustu og auka skilvirkni. Á Íslandi eru ríkiseignir tiltölulega miklar, og upp á síðkastið hafa flotið á fjörur ríkisins miklar eignir úr þrotabúum föllnu bankanna, svo nefnd stöðugleikaframlög, sem eru forsenda losunar gjaldeyrishaftanna.  Hinn góði árangur fjármála- og efnahagsráðherra ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í embætti er fagnaðarefni, en þessar eignir þurfa að skipta um hendur og ríkið að fá sem mest fé fyrir til að grynnka á skuldum sínum, öllum landsmönnum til hagsbóta.   

Kína er gott dæmi um umskiptin, sem verða í einu samfélagi, þegar siðferðislega gjaldþrota einræðiskerfi losar um viðjarnar og leyfir einkaframtakinu að spreyta sig.  Þá tóku alþjóðleg fyrirtæki óðar að fjárfesta í Kína og mynduðu mikinn fjölda starfa, svo að efnahagur Kínverja reis úr rústum á aldarfjórðungi.  Fólk flutti úr sveitunum til borganna í hundraða milljónavís, og til varð fjölmennasta miðstétt í heimi.  Fleiri lyftu sér upp úr örbirgð í Kína á aldarfjórðunginum 1990-2015 en dæmi voru nokkurs staðar um áður.  Allt var það gert fyrir mátt einkaframtaksins og þrátt fyrir lamandi loppu Kommúnistaflokks Kína, sem áfram hefur allt ráð almennings í hendi sér.  Þarna er um að ræða mjög skuldsett blandað hagkerfi undir stjórn kínverska Kommúnistaflokksins, þar sem óarðbær gæluverkefni flokkspótintáta sliga nú efnahaginn. 

Nú er sem sagt komið bakslag, og flokkurinn veit ekki sitt rjúkandi ráð, því að óánægð, fjölmenn miðstétt getur orðið flokkinum óþægur ljár í þúfu, og að auki er mengun lofts, láðs og lagar í Kína orðin yfirþyrmandi, sem rýrir mjög lífsgæði þjóðarinnar, þó að hún hafi til hnífs og skeiðar.  Valdaeinokun Kommúnistaflokksins leyfði enga gagnrýni á iðnvæðinguna fyrr en allt var í óefni komið.  Einræði felur í sér spillingu og ber dauðann í sér.  

Höfundur, sem kallar sig Óðin, fjallar um óvandaða og villandi talnameðferð brezku góðgerðarsamtakanna Oxfam og "misskiptingu auðs í heiminum" í Viðskiptablaðinu 21. janúar 2016.

"Í skýrslunni segir, að ríkasta 1 % jarðarbúa eigi nú meiri eignir en hin 99 % til samans.  Þá segir í henni, að 62 einstaklingar eigi samanlagt meira fé en fátækasti helmingur mannkynsins, eða um 3,6 milljarðar manna.  Auður þessara 62 einstaklinga hafi aukizt um 44 % á síðustu 5 árum, en á sama tíma hafi auður fátækasta helmings jarðarbúa minnkað um um ein 41 %."

Óðinn sýnir síðan fram á, að með talnaleik er gerð tilraun, sem heppnaðist í mörgum tilvikum, til að telja fólki trú um það, að auðsöfnun eins hljóti alltaf að vera á kostnað annarra.  Þetta er reginvilla hagfræðingsins Karls Marx, sem gengið hefur aftur ljósum logum eftir dauða hans og fram á þennan dag. 

Nýlegt dæmi er strákur að nafni Mark Zuckerberg.  Árið 2004 stofnaði stráksi "Facebook" og átti þá ekki meira í handraðanum en þessi blekbóndi á menntaskólaárum sínum. Á einum áratugi varð Mark Zuckerberg einn ríkasti maður heims og sankaði að sér tugum milljarða bandaríkjadala.  Fyrirtækið veitir nú þúsundum atvinnu.  Þá er spurningin.  Varð þessi auðsöfnun Marks Zuckerbergs á kostnað einhverra ?  Varð einhver fátækari fyrir vikið ?  Tölfræðilega jókst misskipting eigna í heiminum við það, að strákurinn sankaði að sér milljörðum dollara, en enginn beið tjón við það, heldur komust fjölmargir forritarar og fleiri í góðar álnir við að vinna fyrir "Facebook", svo að ekki sé nú minnzt á hundruði milljóna neytenda, sem stytta sér stundir við að fræðast um hagi annarra og fræða "vinina" um sína eigin hagi.  Mark Zuckerberg hefur fært fólk nær hvort öðru og í raun skapað fólki nýjan vettvang til góðs og ills.

"Í fyrsta lagi er í skýrslunni miðað við nettó eignir, þ.e.a.s. eignir að frádregnum skuldum.  Í ákveðnum tilvikum getur það verið eðlilegt, en í þessu tilviki gefur þessi aðferðarfræði afar undarlegar niðurstöður.  Eins og blaðamaðurinn Felix Salmon benti á árið 2014, þegar Oxfam birti skýrsluna í fyrsta skipti, þá var hinn franski fyrrverandi bankastarfsmaður, Jérôme Kerviel, líklega einn fátækasti maður heims, en eignir hans voru neikvæðar um 6 milljarða dala vegna skaðabóta, sem hann var dæmdur til að greiða fyrrverandi vinnuveitanda sínum, Sociète Generale. Það er eitthvað óeðlilegt, þegar aðferðarfræðin kemst að þeirri niðurstöðu, að Kerviel standi efnahagslega hallari fæti en einstæður öryrki í Sómalíu. Kerviel hefur í sig og á - og vel það - og eflaust á hann eigin íbúð og bíl."

"Gallinn við þessa aðferðarfræði sést einnig, þegar staða fátækustu 10 % jarðarbúa er skoðuð. Þar er enginn Kínverji, en hins vegar eru 7,5 % af þessum hópi Bandaríkjamenn.  Bandaríkjamenn eru hins vegar aðeins 0,21 % af næstfátækasta tíundarhlutanum og 0,16 % af þriðja neðsta tíundarhlutanum.  Indverjar eru 16,4 % af fátækustu 10 % jarðarbúa.  Trúir einhver því, að enginn Kínverji sé í þessum hópi í ljósi þess, að 7,5 % Bandaríkjamanna eru þar."

Hér er skrípaleikur með tölur notaður til að slá ryki í augu auðtrúa og varnarlítilla lesenda, sem fá kolranga mynd af fátækt í heiminum, og fyllast sumir heilagri vandlætingu yfir óréttlætinu, og loddarar reyna að telja fólki trú um, að eymdin stafi af ómennskri auðhyggju "heimskapitalismans". Á vitleysu af þessu tagi er síðan áróður jafnaðarmanna reistur. Sannleikurinn er sá, að þessi auðhyggja hefur lyft fleira fólki úr örbirgð til bjargálna á skemmri tíma undanfarin ár en nokkru sinni áður í sögunni. Jafnaðarstefnan jafnar kjörin niður á við, en auðhyggjan jafnar kjörin upp á við. 

Sameignarstefnan, kommúnisminn, er ófær um nokkuð sambærilegt, og jafnaðarstefnan kaffærir hagvöxt markaðskerfis í háum sköttum og miklum ríkisafskiptum, sem ríða hagkerfinu á slig, sbr Svíþjóð á 9. áratug 20. aldar.  Tilvitnuð furðulega tölfræði Oxfam á auðvitað rætur að rekja til þess, að Bandaríkjamenn eru með skuldsettustu mönnum, en kínverskur almenningur virðist ekki hafa sama vilja til skuldsetningar. Þar eru hins vegar fyrirtækin mjög skuldsett, og í Kína hefur verið fjárfest mikið í óarðbærum verkefnum, sem er að koma þeim í koll núna. Skuldsett hlutabréfakaup kínverks almennings hefur átt sér stað í einhverjum mæli, en stjórnvöld þar í landi hafa hvatt almenning til að styrkja hlutabréfamarkaðinn.  Sami almenningur varð fyrir skelli við hrun hlutabréfamarkaðarins þar í landi haustið 2015, og þetta veldur nú stjórnmálalegum óróa.

"Þá er einnig áhugavert að sjá, hversu mikinn auð þarf til að komast í efstu stiga listans.  Aðeins þarf um 500 dali í hreina eign, andvirði um kISK 65 til að teljast í hópi ríkustu 30 % jarðarbúa.  Hrein eign upp á MISK 9,0 setur mann í ríkustu 10 %, og eru því ófáir Íslendingarnir, sem eru í þeim útvalda hópi.  Þá þarf ekki hreina eign nema upp á MISK 98,3 til að komast í hið margfræga og alræmda 1 % jarðarbúa."

Þeir Íslendingar skipta hundruðum, sem eru í þessum  síðast talda hópi, og mættu gjarna skipta þúsundum; því fleiri, þeim mun betra fyrir efnahag landsins. 

Þá stendur í þessari óvönduðu og villandi skýrslu Oxfam, að eignir fátækasta hluta jarðarbúa hafi minnkað verulega.  Hér gerir Oxfam þau mistök að miða við gengi myntar í viðkomandi landi m.v. bandaríkjadal, en leiðrétta þessa yfirfærslu ekki með kaupmætti.  Þannig hefur auður heimila í Rússlandi og Úkraínu minnkað um 40 % frá 2014 til 2015 samkvæmt Oxfam skýrslunni, en á sama tíma féll gengi rússnesku rúblunnar um rúmlega 50 % og úkraínsku hrinjunnar um 70 % gagnvart USD.  Þannig fæst mikið auðstap Rússa og Úkraínumanna, þegar mælt er í USD. 

Niðurstaðan er, að þessar Oxfam skýrslur um eignaskiptingu í heiminum séu hreint fúsk og til þess eins ætlaðar að dreifa "disinformation", villandi upplýsingum, til að styrkja málstað vinstri manna hvarvetna og kynda undir öfund og þjóðfélagsóánægju. Allt of margir nytsamir sakleysingjar bíta á agnið. Spilling er það hins vegar, þegar auðurinn er nýttur til að beygja leikreglur markaðshagkerfis og frjálsrar samkeppni sér í vil, svo að ekki sé nú talað um tilraunir til að hefja sig yfir lögin í krafti auðs.  Að hafa tvenns konar lög í einu landi gengur alls ekki; það eru forn sannindi og ný.  Til þess bær yfirvöld verða að skakka slíkan ójafnan leik og beita til þess fullri hörku.  Að öðrum kosti munu ósvífin öfgaöfl lýðskrumara og loddara ryðjast til valda á Vesturlöndum með óbætanlegu tjóni fyrir allar stéttir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Þór Emilsson

Góð greining, það er auðvelt að sýna hvað sem er með tölfræði. Ég er á þeirri skoðun að það er mjög gott að einhverjir eru á hærri launum eiga meiri peninga en ég, þá get ég alltaf eignast meiri peninga sjálfur :)

Spurning hvernig er sniðugast að nota einkaframtakið til að ná niður kostnaði í Heilbrigðiskerfinu. Ég er almennt á móti því að fólk verði öreigar ef það veikist alvarlega.

Ég er ekki sammála Kára með að vilja fast hlutfall af landsframleiðslu í Heilbrigðiskerfið, hinsvegar er ég mjög hlyntur því að meira fjármagn verði lagt í það.

Emil Þór Emilsson, 28.3.2016 kl. 22:37

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Emil Þór;

Í pistlinum hér að ofan er flett ofan af mjög óvandaðri og villandi talnameðferð, þar sem tölfræði er purkunarlaust notuð til að styðja við rangan málflutning.  Sumir lenda óafvitandi í gryfju falsana á grundvelli villandi talnameðferðar, en fyrir öðrum er röng talnameðferð aðferð í blekkingarleik og áróðursstríði.

Það er hárrétt hjá þér, að til að vilja leggja enn meira á sig verður að vera ábatahvati.  Þegar t.d. jaðartekjuskattur er kominn upp undir 50 %, eins og hann hefur verið frá dögum vinstri stjórnarinnar, þá er sáralítill hvati til að afla sér viðbótartekna. 

Ein leið til að draga úr opinberum kostnaði við heilbrigðiskerfið, sem t.d. Svisslendingar fara, er að leyfa þeim, sem þess óska, oftast auðugu fólki, að greiða úr eigin vasa fyrir betri þjónustu en fáanleg er með opinberri greiðsluþátttöku.  Þessi leið kann að verða farin hér og á hinum Norðurlöndunum, þegar kostnaðurinn af heilbrigðiskerfinu hefur vaxið hinu opinbera yfir höfuð. 

Sú leið, sem er tímabært að fara hér, er sú, sem núverandi heilbrigðisráðherra hefur haft forgöngu um, þ.e. að hið opinbera hafi eitt greiðslukerfi fyrir skilgreinda þjónustu, og hver sem er faglega og fjárhagslega til þess bær, geti boðið þessa skilgreindu þjónustu.  Þjónustan er þá jafndýr fyrir sjúklinginn, hvort sem hann leitar til opinbers rekstrar eða einkarekstrar, en hann fær misgóða þjónustu, eins og gengur, og getur valið á milli. 

Fólk ræður með líferni sínu miklu, en ekki öllu, um heilsufar sitt, og þess vegna er greiðsluþátttaka þess nauðsynleg upp að vissu marki, eins og er reyndar nú þegar með flesta sjúkdóma.  Það er nauðsynlegt og tímabært að fjárfesta í nýrri aðstöðu og búnaði í heilbrigðiskerfinu og freista þess þannig að draga úr kostnaði á hvern sjúkling.  Þannig verður unnt að halda rekstrarkostnaði í skefjum um sinn, en heildarkostnaðurinn mun óhjákvæmilega senn vaxa vegna mikillar fjölgunar aldraðra.

Bjarni Jónsson, 29.3.2016 kl. 11:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband