Viðsnúningur forseta

Forseti lýðveldisins sá sér leik á borði eftir umrótið í stjórnmálum hérlendis í byrjun apríl 2016 og sneri við ákvörðun sinni um að bjóða sig ekki aftur fram til forsetaembættisins, sem hann þó hafði tilkynnt þjóðinni um í nýársávarpinu 1. janúar 2016. Sinnaskiptin voru tilkynnt á blaðamannafundi að Bessastöðum mánudaginn 18. apríl 2016. Enn tók Ólafur Ragnar sinnaskiptum daginn eftir, að Davíð Oddsson tilkynnti um framboð sitt sunnudaginn 8. maí 2016. Ekki er ólíklegt, að umræðan um Panamaskjölin og konu hans hafi haft einhver áhrif á ákvörðun forsetans, enda var lágkúrulegt, hvernig fréttamenn þýfguðu Ólaf Ragnar um fjármál Moussaieff-fjölskyldunnar. 

Þessar vendingar gjörbreyta baráttunni fyrir forsetakosningarnar.  Um frambjóðendur í forsetakjörinu mátti segja, að þar voru margir kallaðir, en fáir eru útvaldir þar á meðal, þ.e. með nauðsynlega hæfileika og leiðtogahæfni, og verður reyndar ekki með góðu móti séð, hvaða erindi sumir þeirra töldu sig eiga til Bessastaða, enda hafa nú margir fallið úr skaptinu.  Á Bessastöðum hefur aldrei ríkt nein meðalmennska, hvað þá eitthvað lakara, og svo verður vonandi áfram. 

Ljóst er, að hjónin á Bessastöðum þrifust þar vel, og forsetinn kaus helzt að halda áfram í starfi, hvað sem stjórnmálastöðunni í landinu líður, þar til umræðan um eignir Moussaieff-fjölskyldunnar á aflandseyjum hófst og skattskil af þeim.  Þetta var ómakleg aðför að dr Ólafi og konu hans. Sumir blaðamenn hafa enga sómatilfinningu. 

Ritstjóri Morgunblaðsins taldi framboðsmál forsetans 20. apríl 2016 vera leiðigjarnt leikrit, og að aðeins væri hægt að horfa oft á tvö leikrit, Kardimommubæinn og Dýrin í Hálsaskógi, en nú væri þriðja leikritinu þvingað upp á landsmenn, því að valið væri ekkert.  Nú var landsmönnum sem sagt til viðbótar við hin tvö leikritin boðið upp á "Bessastaðabóndann bljúga með öryggið á oddinum", en sýningum þess leikrits var sem sagt aflýst af óviðráðanlegum ástæðum.

Ritstjórinn vitnaði í orð eins aðdáenda forsetans, nafna hans Harðarsonar, stjórnmálafræðiprófessors, sem hefur tekið mikið upp í sig undanfarið og fræðimannsheiðurinn farið fyrir lítið, um, hversu vel dr Ólafur Ragnar þrífst í embætti:

"Þessir atburðir, og sérstaklega það, hvernig hann ekki bara gerði Sigmund Davíð Gunnlaugsson að forsætisráðherra, heldur slátraði honum líka, það eru atburðir, sem honum líka ekki illa."

Hér vísar stjórnmálafræðiprófessorinn líklega til blaðamannafundarins, sem forsetinn hélt á forsetaskrifstofunni á Bessastöðum síðdegis sama dag og hann synjaði forsætisráðherra um þingrofsheimild.  Þar komst Ríkisráðstaskan í fyrsta sinn í sviðsljósið, enda má telja líklegt, að á þessari stundu hafi dr Ólafur þegar verið kominn í kosningaham.  Er sá gamli ekki árennilegur, ef honum mislíkar verulega, en fyrrverandi forsætisráðherra hafði engan veginn kunnað sig þá um morguninn og lagt hausinn í gapastokkinn.

Líklegt er, að dr Ólafur hafi metið það svo 2012 og 2016, að starfsaldur hans í embætti yrði sér helzt að fótakefli, ef og þegar hann mundi leita endurkjörs.  Í apríl 2016 sá hann sér leik á borði að slá þann leiða, sem margir væru e.t.v. búnir að fá á þeim hjónum, og gætu þar af leiðandi ekki hugsað sér hann sem Bessastaðabónda í aldarfjórðung. 

Forseti lýðveldisins gerði sér lítið fyrir þann 5. apríl 2016 og sýndi og sannaði, að hann er enn í fullu fjöri og sterkur á svellinu, þegar á reynir.  Hann tók hárrétta ákvörðun, er hann synjaði samþykkis á þingrofsheimild til handa fyrrverandi forsætisráðherra landsins, því að hótun um þingrof eða þingrofið sjálft hefði verið óþingræðislegur gjörningur, þar sem hreinn og klár þingmeirihluti var fyrir hendi, eins og stjórnarandstaðan leiddi strax í ljós með vantrauststillögu, 38:25. Jákvæð viðbrögð núverandi forsætisráðherra við framboði dr Ólafs sýna, að fyrrverandi forsætisráðherra lék óafsakanlegan einleik gegn þingræðinu, er hann hélt í hina örlagaríku Bessastaðaför að morgni 5. apríl 2016. Ríkisráðstaskan verður aldrei aftur höfð með í för upp á von og óvon. 

Forseti lýðveldisins, 72 ára, stóð þarna sem klettur í hafinu til varnar þingræðinu, og þingræðið þarf á öllum tiltækum bakhjörlum að halda til að halda velli.  Sitjandi forseti hefur það umfram alla frambjóðendurna, nema einn, að hann hefur sannað fyrir alþjóð, að hann getur staðið í ístaðinu, þegar á þarf að halda, og það gæti vissulega þurft á því að halda aftur á þessu kosningaári, svo að ekki sé minnzt á næsta kjörtímabil forsetans. Davíð Oddsson hefur einnig sýnt og sannað á sínum starfsferli, að hann stendur í ístaðinu, þegar á reynir, og lætur engan kúga sig, en vafi leikur á því með hina frambjóðendurna, og alveg sérstaklega er ástæða til að efast um það, þegar Guðni Th. Jóhannesson á í hlut.  Það sýna uppgjafar ummæli, er hann viðhafði, þegar hart var deilt um þjóðhættulega Icesave-samningana. Þau má túlka sem stuðning hans við þáverandi ríkisstjórn og þá stefnu hennar að samþykkja Icesave-samningana.

Það er rétt hjá forsetanum, að veður eru nú válynd í stjórnmálunum.  Það er vegna þess, að nú standa líkur til, að sá mikli árangur, sem náðst hefur við að færa Ísland aftur í hóp landa með frjálst hagkerfi verði í uppnámi eftir næstu Alþingiskosningar, af því að borgaraleg öfl nái ekki nægum þingstyrk til að mynda meirihlutastjórn, heldur muni stjórnleysingjar rotta sig saman með vinstri flokkunum til að grípa ríkisvaldið hreðjatökum og fara með það af algeru ábyrgðarleysi, hæfileikaleysi, stefnuleysi og hatri á borgaralegum, frjálslyndum öflum í landinu.  Það má búast við skrípaleik getulítilla Alþingismanna eftir kosningar og sundurlyndri hrakfallastjórn, sem sameinast um það eitt, að halda borgaralegum öflum frá völdum.  Þá má miðstétt landsins fara að biðja fyrir sér, því að afleiðing óstjórnar er fljót að koma fram í veskjum hennar sem auknar álögur og óðaverðbólga, eins og dæmin sanna.

Við þessar aðstæður er ómetanlegt fyrir þjóðina að hafa traustan bakhjarl á Bessastöðum, mann, sem oftar en einu sinni og oftar en tvisvar hefur reynzt glöggskyggnari og kjarkaðri öðrum mönnum, þegar fokið hefur í flest skjól.  Davíð Oddsson lætur engan vaða yfir sig á skítugum skónum.   

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Góður pistil Bjarni. En efast að þjóðin hafi vit á því að kjósa rétt.

Sigurður Kristján Hjaltested, 18.5.2016 kl. 20:12

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Sigurður Kristján;

Guðni Thorlacius var í hópi minnihluta manna árið 2010, þegar hann studdi Icesave-samningana.  Hann er í hópi örfárra sérvitringa, sem kunna ekki að meta  hetjulega baráttu íslenzkra sjómanna við ofurefli erlendra skipa, þ.á.m. vopnaðra herskipa, en kallar það goðsögn, að í baráttunni um yfirráð í útvíkkaðri landhelgi nokkrum sinnum hafi verið unnin hetjudáð.  Um ESB aðild segir sagnfræðingurinn, að hana muni hann styðja, ef ESB samþykkir öll skilyrði Íslendinga.  Er sagnfræðingurinn alveg úti að aka ?  Skilur hann ekki, hvers vegna slitnaði upp úr hjá Össuri ?  Það var af því, að skilyrði Alþingis og ESB voru ósamrýmanleg.  Ætlar hann að vinna að því, að Alþingi slái af kröfum sínum í þessum efnum ?  Þessi hegðun heitir að bera kápuna á báðum öxlum.  Hver vill kaupa köttinn í sekknum ?

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 18.5.2016 kl. 21:33

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þá, þú mælir rétt, Bjarni, að það var "lágkúrulegt, hvernigg fréttamenn þýfguðu Ólaf Ragnar um fjármál Moussaieff-fjölskyldunnar" og "ómakleg aðför að dr Ólafi og konu hans. Sumir blaðamenn hafa enga sómatilfinningu."

Verð að lesa megnið af framhaldinu hjá þér seinna, en las athugasemd þína hér fyrir ofan, sannarlega mikilvæga og skarpa eftir efninu, þ.e.a.s. sem svar, sem er nákvæmlega eins og Guðni Th. verðskuldar vegna allt of einfaldrar nálgunar sinnar á það ESB-mál. Og aveg er ljóst, að Guðni setur hvergi neitt fyrir sig, að æðsta og úrslitum ráðandi löggjafarvald færi til Brussel !!! Hvað er eiginlega að manninum?

Jón Valur Jensson, 19.5.2016 kl. 01:45

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Já, þú mælir rétt, átti nú að standa hér,

en ég orðinn í þreyttara lagi eftir mikla líkamsrækt í dag!

Jón Valur Jensson, 19.5.2016 kl. 01:47

5 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Jón Valur;

Eftir því sem betur kemur í ljós, hvern mann Guðni Thorlacius hefur að geyma, þeim mun sannfærðari verð ég um, að hann á alls ekkert erindi í forsetaembættið.  Ég skil reyndar ekki, hvers vegna maður, sem gerir lítið úr helztu afrekum þjóðar sinnar í seinni tíð, sækist eftir æðsta embætti hennar.  Ég finn alls engan samhljóm með skoðunum þessa sagnfræðings og mínum.  Mér finnast skoðanir hans lágkúrulegar, og ég get alls ekki hugsað mér lítilsiglda persónu í embætti þjóðhöfðingjans.

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 19.5.2016 kl. 17:16

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

Nú hef ég lesið grein þína, Bjarni, út í gegn og þykir hún mjög gott söguyfirlit forsetamála á þessu ári og krufning bæði viðburða og stöðu mála. Alveg út í gegnum rauðlitaða textann ritarðu af mögnuðum vitsmunaþrótti.

Þá tekur við grár texti, sem varðar einmitt grálynda menn, og mikið innilega er ég sammála þér um hættuna sem af þeim getur stafað. Þess vegna er það líka ákveðið fagnaðarefni hvernig Styrmir Gunnarsson skrifaði í morgun um líkur á vorkosningum fremur en haustkosningum. Þetta er eiginlega þjóðarnauðsyn: að bíða með kosningarnar í takt við kosningalögin, sem og fjárlög þessa árs, því að þar var vitaskuld ekki gert ráð fyrir neinum alþingiskosningum.

Ég er sammála, að Sigmundur Davíð gerði vonda skyssu í ónytjuferð sinni með Ríkisráðstöskuna, en enginn er fullkominn, og ró hans hafði verið raskað með ósvífnum hætti á vegum og ábyrgð ófyrirleitinna Rúvara, þótt þáttarskömmin sú væri aðkeypt.

Nú er hann að enda sína hvíld frá störfum og sezt aftur á Alþingi í næstu viku, ekki til að fjarstýra neinum, en til virks samráðs með sínum mönnum, og þá er von mín sú (eins og Styrmis, bersýnilega), að hann láti ekki bjóða sér þessa fráleitu og freku þvingun til haustkosningar, enda engin ástæða til. Þótt hátt í 10.000 kunni að hafa verið á Austurvelli í mótmæla-aðgerðum Pírata og vinstri flokkanna, er það ekki nema um 1/20 af þeim kjósendum, sem árið 2013 gáfu 63 manns umboð til þingsetu til ársins 2017. (Sjá einnig um þetta o.fl. grein mína: Mun Framsókn sýna styrk sinn í næstu viku? (ekki vonum fyrr).

 

Ég er sammála svari þínu til mín hér á undan í grunninn, en mörgum mun þykja hart mælt að kalla "skoðanir hans lágkúrulegar", þó að hörð lógík geti komizt að líkri niðurstöðu í reynd. Þó dettur mér ekki í hug að kalla Guðna "lítilsiglda persónu", en þar sem vanþekkingu verður naumast um það kennt, hve einfeldningsleg nálgun hans er gagnvart inntöku lands eins og okkar í Evrópusambandið, þá er ég helzt á því nú, að hann sé meiri harðjaxl í því efni en ég hafði ímyndað mér. Og ekki minnkar það hvötina til að bregða fæti fyrir framboð hans. Ég óska honum bara frjósamra ára við sí-batnandi fræðimennsku og akademísk störf.

Jón Valur Jensson, 20.5.2016 kl. 01:45

7 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka þér kærlega, Jón Valur, fyrir bréfið hér að ofan.

Mér hafa blöskrað viðhorf sagnfræðingsins Guðna Th. Jóhannessonar til fullveldismála og afreksverka þjóðarinnar á borð við landhelgisstríðin og siglingar með fisk til Bretlands í mikilli hættu, þar sem fórnir voru færðar, en þá tekur í hnúkana, þegar sami maður sækist eftir að verða forseti þessarar sömu þjóðar.  Maður, sem talar niður þjóðarstolt, á alls ekkert erindi til búsforráða að Bessastöðum.  Gegn þessum flatneskjuviðhorfum er nauðsynlegt að berjast.

Með baráttukveðju /

Bjarni Jónsson, 20.5.2016 kl. 19:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband