Tvö auðlindaríki

Oddný G. Harðardóttir, fyrrverandi fjármálaráðherra Samfylkingarinnar,  og núverandi formaður flokksins, skrifaði þann 18. maí 2016 grein í Fréttablaðið, "Tekjur af auðlindum í velferð".

Boðskapur greinarinnar var þjóðnýting náttúruauðlinda Íslendinga undir rós, kratarós, í anda "Sósíalisma 21. aldarinnar", en svo nefndi Hugo Chavez stefnu sína, sem frá valdatöku hans um aldamótin síðustu hefur tröllriðið áður blómlegum efnahag Venezúela á slig, svo að þjóðargjaldþrot er nú framundan. 

Jafnaðarstefnan (evrópskir kratar að meðtöldum Össuri Skarphéðinssyni, fyrrverandi formanni Samfylkingarinnar, klöppuðu Hugo Chavez og öðrum róttæklingum Suður-Ameríku óspart lof í lófa framan af öldinni) með þjóðnýtingu náttúruauðlindanna hefur frá valdatöku Chavez 1999 lagt efnahag Venezúela í rúst, svo að þar geisar óðaverðbólga, svartamarkaðsbrask með nauðsynjavörur, matarskortur og rafmagnsskortur, og "ókeypis" heilbrigðiskerfið er ekki svipur hjá sjón með voveiflegum og vaxandi ungbarnadauða. Allt er þetta rökrétt og algild afleiðing þess að framfylgja ómengaðri jafnaðarstefnu í verki við stjórnun á einu þjóðfélagi. 

Nánari lýsing á því, hvernig þjóðnýting framleiðslutækjanna hefur leikið efnahag Venezúela, er gefin í forystugrein Morgunblaðsins föstudaginn 20. maí 2016:

"Landið hefur síðustu árin búið við stöðugan skort á nauðsynjavörum, og íbúar landsins geta ekki treyst á aðgang að rafmagni.  Á sama tíma er gert ráð fyrir því, að verðbólga geti náð allt að 700 % á þessu ári, og ekki sér fyrir endann á þriggja ára samdráttarskeiði.

Ástandið birtist hvað skýrast í heilbrigðiskerfi landsins, sem er í molum.  Afleiðingin er m.a. sú, að ungbarnadauði hefur margfaldazt, og er talað um, að 7 börn deyi á degi hverjum í Venezúela."

Ástandið í Venezúela þarf engum að koma á óvart, því að hið sama gerist alls staðar, þar sem fjárhagslegir hvatar til að vinna, framleiða og veita þjónustu eru rýrðir eða jafnvel fjarlægðir alveg, og öll áherzla lögð á jöfnun lífskjara niður á við í anda Oddnýjar Harðardóttur og Hugos Chavez.  Slíkt leiðir alltaf til lakari árangurs, minni afraksturs, lakari gæða, minnkandi framleiðni og framleiðslu og að lokum skorts og svartamarkaðsbrasks. Með vöruskorti og miðstýringu hagkerfisins fylgir undantekningarlaust misnotkun aðstöðu, spilling og völd og fé safnast á fáar hendur. 

Spurn eftir vöru eða þjónustu, sem neytendur fá niðurgreidda, eykst óeðlilega, og þurfi þeir ekkert að greiða fyrir, eykst eftirspurnin stjórnlaust ásamt kostnaði ríkisins, en samt myndast margra mánaða biðraðir eftir þjónustunni.  Þetta er skýringin á hruni efnahagslífsins, þar sem sameignarstefna er við lýði, og hruni innviða, eins og heilbrigðiskerfis. Hagkerfinu má líkja við pýramída á hvolfi, sem auðvitað riðar til falls við minnstu ágjöf. Dæmin um, að hagfræðikenningar Karls Marx gangi ekki upp, og eru í raun illa ígrundaður hugarburður kaffihúsasnata, eru "legío", en vinstra trúboðið á Íslandi og víðar heldur samt áfram, þótt hljómgrunnur fyrir því verði nú æ minni á Vesturlöndum. Vinstrið býður ekki upp á neinar vitrænar lausnir á viðfangsefnum nútímans.  

Sameignarstefna Oddnýjar G. Harðardóttur, Hugos Chavez og allra hinna, er reist á þeirri meinloku, að "homo sapiens" hagi sér eins og "homo sovieticus".  Jafnaðarmennska eða sameignarstefna virka hins vegar aðeins í tilbúinni veröld, sem er hugarfylgsni vinstri manna, og "homo sovieticus" er fjarstæða.  Þetta er gerviveröld, því að "homo sapiens" hagar sér á öllum tímum og alls staðar miklu nær því, sem kalla mætti hegðun "homo economicus", þ.e. hegðun hins hagræna manns, sem leitast alltaf við að nota orku sína á sem hagstæðastan hátt fyrir sig og fjölskyldu sína, en er ekki ginnkeyptur til að eyða orku sinni með félagslegum hætti, ef hann sér engan ávinning af því fyrir sig eða sína nánustu. 

Áfram heldur forystugrein Morgunblaðsins:

"Það er með miklum ólíkindum, hvernig komið er fyrir Venezúela.  Landið er auðugt af náttúruauðlindum, sér í lagi olíu.  Það er nákvæmlega engin ástæða fyrir þeirri stöðu, sem ríkið er komið í nú, önnur en sú, hversu illa Chavistarnir hafa haldið á efnahagnum.  Skortur á framsýni leiddi til þess, að ekkert var lagt til hliðar fyrir mögru árin, enda áttu þau ekki að vera til undir "sósíalisma 21. aldarinnar", eins og Chavez kallaði stjórnarfar sitt."

Téð grein (Chavistans ?) Oddnýjar ber því vitni, að hún horfir mjög skammt fram á veginn og stefnir í sömu ógöngurnar og Hugo Chavez lenti í, og þá er það bara spurning um, hversu langt hún gengur og hversu lengi hún kemst upp með að lama markaðshagkerfið við að innleiða dýrðarríki jafnaðarmennskunnar sinnar, hversu miklu tjóni hún veldur og hversu mikið hún nær að hægja á hjólum efnahagslífsins með íþyngjandi álögum og með því að draga úr fjárhagshvötunum, sem knýja fram verðmætasköpun og hagvöxt markaðshagkerfisins. Hagvöxturinn er undirstaða bættra lífskjara allra þegnanna, og hann er grundvöllur velferðarkerfisins. Lítum nú á téða grein jafnaðarmannsins Oddnýjar Harðardóttur.  Hún hefst þannig:

"Við Íslendingar erum rík af auðlindum, en ekki góð í að semja um verð fyrir nýtingu þeirra.  Útgerðarfyrirtæki greiða veiðigjald, sem er langt undir markaðsverði, ferðamenn fá afslátt af neyzluskatti á bæði gistingu og afþreyingu, og við gerum ógegnsæja samninga um rafmagnsverð við stóriðjuna.  Þessar stóru atvinnugreinar ættu að skila mun meiri tekjum í ríkissjóð en þær gera."

Lítum nú á hverja þessara atvinnugreina fyrir sig, útgerð, ferðaþjónustu og raforkusölu til stóriðju, því að ólíkar aðstæður m.t.t. auðlindanýtingar eru í hverri grein:

Útgerðir: Hvernig er hægt að fullyrða, að útgerðin greiði veiðigjöld, sem séu langt undir markaðsverði ?  Erlendis greiða útgerðir almennt ekki veiðigjöld til ríkissjóðs, heldur fá úr honum styrki.  Langtímamarkaðsverð á veiðigjöldum er óþekkt, en það má hins vegar fullyrða, að þau eru nú of íþyngjandi á Íslandi fyrir þann samkeppnisrekstur, sem þar er, af því að litlar útgerðir hafa ekki getað staðið undir þeim, heldur lagt upp laupana, eins og tíundað verður með tilvitnun í útgerðarmann hér á eftir. Það er þess vegna afar brengluð sýn á sjávarútveginn, nánast illviljuð, sem liggur að baki tilvitnaðri fullyrðingu (Chavistans ?) Oddnýjar um allt of lág veiðigjöld.  Sjónarmið af þessu tagi eru forsmekkurinn að þjóðnýtingu, eins og hjá Hugo Chavez, heitnum.

Forsendan fyrir því, að réttlætanlegt sé að skattleggja útgerðarfélög umfram önnur fyrirtæki, hvort sem skattheimtan heitir "veiðigjöld" eða eitthvað annað, er, að útgerðarfélögin séu rentusækin.  Til að unnt sé að sýna fram á rentusækni, þarf að sýna fram á markaðsmisneytingu við annan eða báða enda framleiðsluferlisins, þ.e. ílags- eða frálagsenda framleiðsluferlisins. 

Við ílagsenda útgerðanna eru aflamarkshlutdeildirnar, og þær ganga kaupum og sölum á frjálsum markaði.  Við frálagsendann eru innlendu fiskimarkaðirnir eða erlendir vörumarkaðir fyrir mismunandi afurðir.  Um er að ræða frjálsa markaði og harða samkeppni erlendis, t.d. við Norðmenn, sem fá útflutningsstyrki til að auðvelda sölu norskra sjávarafurða á erlendum mörkuðum. 

Það er þess vegna enga rentusækni að finna í íslenzkum sjávarútvegi, en hana er aftur á móti að finna bæði við ílags- og frálagsenda norsku útgerðanna, sem fá kvótaúthlutanir frá yfirvöldum á ýmsum forsendum, t.d. á grundvelli byggðasjónarmiða, og kvótaþak á útgerðir er reyndar meira en tvöfalt hærra þar en hér, svo að hagkvæmni stærðarinnar verður enn áhrifaríkari í Noregi en á Íslandi, enda tíðkast þar risaútgerðir á íslenzkan mælikvarða.

Þar sem frjáls samkeppni er við báða enda virðiskeðju sjávarútvegsins hérlendis, eru engin málefnaleg tök fyrir því að leggja á hann veiðigjöld, þar sem þar er viðbótar skattlagning m.v. önnur fyrirtæki á ferðinni, sem þá er brot á jafnræðisreglu við skattheimtu og brot á atvinnurétti útgerðarmanna samkvæmt Stjórnarskrá. 

Eitt dæmi af mörgum um íþyngjandi álögur yfirvalda, gat að líta í Fiskifréttum 12. maí 2016:

"Örn Erlingsson, útgerðarmaður, hefur selt fyrirtæki sitt, Sólbakka ehf.  Kaupunum fylgir snurvoðarbáturinn Örn GK ásamt rúmlega 1´000 þorskígildistonna kvóta.  Kaupandi er Stakkavík í Grindavík."

"Það er ekki erfitt að láta frá sér fyrirtækið.  Grundvöllur þeirrar tegundar útgerðar, sem ég hef stundað síðustu árin, er brostinn.  Veiðar án vinnslu ganga ekki upp lengur.  Við höfum selt fisk á markaði, en allar álögur á þessa gerð útgerðar hafa aukizt stórlega. Ég gat þó alveg haldið þessu áfram, því að skuldirnar eru litlar.  Ég hef haldið skipinu vel við, og þetta er verðmæt eining. 

En þegar gjöldin og álögurnar á rekstrinum til hins opinbera eru orðnar slíkar, að það bitnar á viðhaldi og vexti útgerðarinnar, er gamanið farið úr þessu.  Þá er maður bara kominn í vinnu fyrir hið opinbera. 

Örn Erlingsson er ekki "homo sovieticus", svo að hann þrífst ekki sem útgerðarmaður, sem gert er að greiða núverandi veiðigjöld, hvað þá hærri, ef "Chavistarnir" komast til valda á Íslandi aftur.

Tvennt þarf, til að veiðigjöld á útgerðir hérlendis verði réttlætanleg lagalega og siðferðislega.  Þau verða að vera hófleg, þ.e. undir 5,0 % af verðmæti óslægðs fiskjar upp úr sjó, og þau þurfa að ganga til vaxtar og viðhalds stofnana, sem þjóna sjávarútveginum að miklu leyti.  Þau eiga þá ekki að renna í ríkissjóð, heldur í Sjávarútvegssjóð, sem árlega styðji við fjárfestingar stofnana á borð við Hafrannsóknarstofnun, Landhelgisgæzlu, Hafnasjóð og Byggðastofnun.  Ef veiðigjaldið er t.d. 4,5 %, þá getur árlega runnið til hverrar þessara stofnana að jafnaði um 1,5 milljarður króna í framlögum til afmarkaðra verkefna, og munar um minna og léttir auðvitað undir með ríkissjóði.

Fiskeldi: Í ört vaxandi sjókvíaeldi við Ísland háttar þannig til, að hið opinbera úthlutar starfs- og rekstrarleyfum gegn vægu gjaldi, sem er aðeins brot af leyfisgjöldum erlendis, t.d. í Noregi.  Megnið af afurðunum, sem verða líklega um 15 kt árið 2016 og gætu orðið 100 kt/ár að áratug liðnum, fara á samkeppnismarkaði erlendis.  Ríkið hefur takmarkað sjókvíaeldi við Vestfirði, Eyjafjörð og Austfirði, og ströndin úti fyrir Suðurlandi er óhentug fyrir þessa starfsemi. 

Af þessum ástæðum er bullandi rentusækni í fiskeldinu, og núverandi úthlutun takmarkaðra gæða ótæk.  Þarna þarf að koma á frjálsri, alþjóðlegri samkeppni með ströngustu gæðakröfum.  Ráð til þess er að skipta leyfilegum svæðum sjókvíaeldis upp í reiti, þar sem árlega má ala til slátrunar 100-1000 t, og bjóða afnotarétt hvers reits út.  Afnotaréttinn megi eignfæra og framselja á frjálsum markaði.  Andvirði leyfanna, væntanlega 10-20 mia kr, mundu skiptast á milli ríkis og viðkomandi sveitarfélaga sem næst í réttum kostnaðarhlutföllum.

Virkjanir:  Virkjunarfyrirtæki fá úthlutað rannsóknarleyfum og virkjunarleyfum frá hinu opinbera á tiltölulega lágu verði.  Þau starfa á fákeppnismarkaði, þar sem eitt fyrirtækjanna, ríkisfyrirtæki, er sýnu stærst, enda var það stofnsett árið 1966 gagngert til að reisa stórvirkjanir á íslenzkan mælikvarða og selja orkuna til álframleiðenda og annarra orkusækinna notenda í því skyni að skjóta fleiri stoðum undir einhæft atvinnulíf, og til að byggja upp öflugt raforkukerfi í landinu, sem almenningur nyti góðs af.  Allt þetta hefur gengið eftir, en nú er tímabært að endurskoða rekstrarumhverfið og taka mið af raunverulegri markaðsstöðu.

Af þessari lýsingu á markaðsaðstæðum á ílags- og frálagshlið orkufyrirtækjanna er óhjákvæmilegt að álykta, að virkjanafyrirtækin á Íslandi stundi dæmigerða rentusækna starfsemi, sem réttlætir að leggja á þau gjald til að vega á móti rentunni, sem þau hafa af starfsemi sinni umfram fyrirtæki í samkeppnisrekstri.

Nú hefur þróun þessara mála á Austurlandi, þar sem stærsta virkjun landsins, Fljótsdalsvirkjun, er staðsett, verið þannig, að fordæmi hefur verið gefið varðandi gjald af vatnsaflsvirkjunum. 

Grundvöllur slíkra virkjana er, að virkjunarfyrirtækið eigi vatnsréttindin, sem nýtt eru.  Dómkvaddir matsmenn hafa metið vatnsréttindin, sem nýtt eru í Fljótsdalsvirkjun, til verðs, og Hæstiréttur hefur heimilað viðkomandi sveitarfélagi að leggja fasteignagjald á andvirði þessara réttinda.  Virkjunarfyrirtækið var andvígt þessu og móast nú við að samþykkja hæsta álagningarflokk fasteignagjalda, sem sveitarfélagið hefur samþykkt.  Í ljósi aðstæðna ber sú afstaða virkjanafyrirtækisins vott um þröngsýni og skammsýni stjórnenda þar á bæ, og má ótrúlegt telja, ef sú afstaða er í samræmi við skoðun eigandans. Er það virkilega skjalfest afstaða stjórnar Landsvirkjunar að móast við í þessu auðlindagjaldsmáli, sem Hæstiréttur hefur nú markað stefnu í ?

Sama aðferðarfræði hlýtur nú að verða viðhöfð varðandi allar aðrar vatnsaflvirkjanir, nema einkavirkjanir, þar sem vatnið rennur alfarið í landi virkjunareigandans.  Hleypur þá á snærið hjá mörgum sveitarfélögum, og er þar með leyst úr ágreiningi um auðlindagjald vegna nýtingar vatnsorku. 

Um jarðgufuvirkjanir (eða holur og rör) og vindorkulundi í þjóðlendum hlýtur jafnræðissjónarmið við vatnsorkuver að koma til skjalanna varðandi gjaldtöku.  Þar mætti t.d. reyna að leggja mat á fórnarkostnað viðkomandi virkjunar m.v. einhver önnur afnot af landinu, þó ekki væru önnur en að tiltekinn fjöldi ferðamanna geti ekki lengur notið ósnortins víðernis á virkjunarstaðnum. 

Náttúruperlur:   Ferðaþjónustan er að miklu leyti reist á afnotum lands, sem fólgin er í sjaldgæfri náttúruupplifun á Íslandi.  Þessi starfsemi hefur vaxið gegndarlaust síðan 2010, og stefnir nú í 2,0 milljónir erlendra ferðamanna til landsins árið 2017, sem gæti þýtt 4,0 milljónir erlendra ferðamanna árið 2022 án mótvægisaðgerða.  Landið er alls ekki í stakk búið að taka á móti þessum sæg, og það verður að gera ráðstafanir til að vernda viðkvæma náttúru landsins gegn átroðningi og efla innviði, eins og vegakerfi og fjarskiptakerfi (ljósleiðaralagnir).  Það er fullkomlega eðlilegt að afnema allar skattalegar undanþágur þessarar starfsemi og að færa hana alfarið í hærri VSK-flokkinn til að fjármagna sameiginlega innviði.  

Síðan þarf að skylda rekstrar- og umráðaaðila ferðamannastaða til að gera nauðsynlegar ráðstafanir til land- og vatnsverndar að viðlögðum sektum, og heimila þeim töku aðgangseyris til að stemma stigu við fjöldanum og fjármagna framkvæmdirnar.  Þetta mundi leiða til bættrar dreifingar ferðamanna um landið, aukins virðisauka af hverjum ferðamanni og bættrar framlegðar í greininni, sem hefur verið ábótavant.  Þessar mótvægisráðstafanir munu óhjákvæmilega gera Ísland dýrara fyrir ferðamanninn, en mikið innstreymi gjaldeyris frá milljónum erlendra ferðamanna mun gera það líka og gera öðrum útflutningsgreinum erfitt fyrir.  Það verður flókið að finna kjörfjölda erlendra ferðamanna og stýra fjöldanum að því marki með verðlagningu. Náttúra Íslands er takmörkuð auðlind, og sjálfbæra nýtingu hennar verður að tryggja með öllum tiltækum ráðum, þar á meðal peningalegum ráðum. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband