Hrakfarir uppboðsleiðar

Það er sláandi, að stjórnmálaflokkarnir, sem nú vilja biðja þjóðina um leyfi til að senda inn öðru sinni umsóknarbeiðni til Evrópusambandsins, ESB, hafa allir boðað, að þeir muni á nýhöfnu kjörtímabili berjast fyrir byltingu á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Ætla þeir að kasta fyrir róða núverandi aflahlutdeildarkerfi með frjálsu framsali, sem þó hefur umbylt stöðu sjávarútvegs til hins betra, skiljanlega þó ekki án fórna, fyrna, þ.e. þjóðnýta aflahlutdeildir, og bjóða þær upp. 

ESB hefur að vísu ekki tekið upp þetta kerfi, en sjávarútvegurinn hér mun komast á vonarvöl, þ.e. á ríkisframfæri, eins og hann er í ESB-löndunum, með þessari fáránlegu þjóðnýtingu, sem er bylting í anda bolsévismans. Í Færeyjum yrði engin þjóðnýting, þótt Færeyingar mundu innleiða uppboðsleið, því að aflahlutdeildir útgerðanna renna úr gildi þar á næsta ári samkvæmt ákvörðun, sem mun hafa verið tekin af Lögþinginu árið 2008.  Í Færeyjum má þó vænta harðra deilna um það, hvort fara á "íslenzku leiðina", "uppboðsleiðina" eða einhverja aðra leið en sóknardagaleið, sem þeir hafa gefizt upp á, ef rétt er skilið.

Á Íslandi virðist "uppboðsleið" aðallega njóta fylgis í pósthólfi 101, á meðal stjórnmálaforkólfa á höfuðborgarsvæðinu og á meðal fáeinna fræðimanna, sem þó eru hvorki sérfræðingar í sjávarútvegsfræðum né í fiskihagfræði. 

Á meðal fólks, sem vinnur í sjávarútvegi, virðist enginn stuðningur vera við "uppboðsleið", hvorki á meðal sjómanna, fiskvinnslufólks né útgerðarmanna.  Þannig hafa forystumenn sjómanna tjáð verulegar áhyggjur sínar af hag umbjóðenda sinna, verði þessari allsendis óþörfu félagslegu tilraunastarfsemi hleypt af stokkunum.  Þeir, sem íhuga afleiðingar "uppboðsleiðar", gera sér glögga grein fyrir því, að atvinnuöryggi í sjávarútvegi getur aðeins versnað við að hverfa frá aflahlutdeildarkerfi til "uppboðsleiðar".  Fyrirtæki, sem annars eru grunnstoðir hinna dreifðu byggða, munu veikjast, og þar með munu mörg sveitarfélög óhjákvæmilega veiklast.  "Uppboðsleið" er þannig aðför að íslenzkum sjávarútvegi og hinum dreifðu byggðum landsins.

Það þarf hins vegar ekki að ímynda sér neitt í þessum efnum, því að það vill svo til, að nokkur reynsla er þegar komin á "uppboðsleið", og hún er svo neikvæð, að með endemum er, að nokkur heilvita maður skuli mæla með innleiðingu hennar á Íslandi og að þar í bendu skuli vera a.m.k. 4 stjórnmálaflokkar, þ.e. Píratahreyfingin, Samfylking, Björt framtíð og Viðreisn. Er það tilviljun, að þetta eru sömu stjórnmálaflokkarnir og stefna leynt og ljóst að innlimun Íslands í Evrópusambandið ?

Þann 13. október 2016 birtist í Fiskifréttum afar fróðleg grein aftir Sigurð Stein Einarsson,

"Er uppboðsleiðin raunhæf ?".  Þar greinir hann frá tilraunum nokkurra þjóða með "uppboðsleið", sem allar eru á eina lund:

eftir skamma hríð hurfu þær frá "uppboðsleiðinni".  Hér verður gripið niður í greininni:

"Eistar buðu upp 10 % aflaheimilda á árunum 2001-2003.  Árið 2003 var árangurinn af uppboðskerfinu metinn, og var niðurstaðan fjarri því að vera jákvæð.  Uppboðskerfið var talið hafa leitt til sóunar á auðlindinni, orðið til þess, að smærri fyrirtæki urðu gjaldþrota og leitt til stórminnkandi starfsöryggis sjómanna.  Fyrst og fremst af þessum ástæðum var ákveðið að hætta uppboðum á aflaheimildum."

Þetta er nákvæmlega það, sem andstæðingar "uppboðsleiðar" hérlendis hafa varað við, að gerast mundi.  Það er í raun borðleggjandi, og reynsla Eista staðfestir það.  Hérlendis eru samt "spekingar", sem fullyrða á grundvelli skrifborðsvinnu sinnar einvörðungu, að "uppboðsleið" sé bezta leiðin til að hámarka skatttekjur ríkissjóðs af sjávarafla.  Þetta stenzt ekki í raun:

"Í austurhluta Rússlands stóð einnig yfir uppboð á aflaheimildum 2001 til 2003.  Vonir stóðu til, að leiðin myndi auka hlut ríkisins í auðlindarentunni, auka gagnsæi varðandi úthlutun á fiskveiðiheimildum og gera atvinnugreinina arðbærari, t.d. með fækkun fiskiskipa.

Aflaheimildirnar, sem boðnar voru út, voru í Austur-Rússlandi og Barentshafi.  Í austurhluta Rússlands störfuðu 160´000 manns við sjávarútveg hjá 1´500 fyrirtækjum.  Mikilvægi sjávarútvegsins í þessum hluta landsins var ótvíræður, og stóð hann undir 27 % allrar framleiðslu á Primorsky-skaga og 55 % framleiðslu á Kamtsjatka.

Árið 2001 var boðin upp 1,0 milljón tonna og 1,2 milljónir tonna árið 2002.  Ekki seldist allt, sem fór á uppboð, en tilboðin í heimildirnar reyndust mun hærri en gert hafði verið ráð fyrir.  Ríkið fékk í sinn hlut miaISK 20,3 árið 2001, miaISK 29,6 2002 og miaISK 38,6 2003.  Bar þetta ekki vitni um stórkostlegan árangur ?

Hér heima hefur samfélagslegum áhrifum uppboðsleiðarinnar lítill gaumur verið gefinn.  Einblínt er á aukinn hlut ríkisins í auðlindarentunni, en ótrúlega lítið er fjallað um áhrif uppboðsleiðarinnar á sjávarbyggðir. Hafa verður í huga, að sjávarútvegsfyrirtæki eru meginstoðir atvinnulífs víða á landsbyggðinni og starfsmenn þeirra á sjó og í landi drjúgur hluti íbúa.  Starfsgrundvöllur fyrirtækjanna skiptir því samfélögin afar miklu máli, en aflaheimildunum byggja þau tilvist sína á. 

Sjávarútvegur í austurhluta Rússlands skilaði miaISK 6 hagnaði árið 2000.  Dramatískur viðsnúningur átti sér hins vegar stað 2001; tap varð af rekstri sjávarútvegsfyrirtækja á svæðinu, sem nam miöISK 6.  Upplýst var, að árið 2001 væru 90 % sjávarútvegsfyrirtækja á umræddu svæði þegar illa stödd og jafnvel á barmi gjaldþrots.  Þá hófu sveitarfélög á uppboðssvæðinu strax 2001 að kvarta sáran, því að uppboðskerfið leiddi til þess, að 96 % af skatttekjum af sjávarútvegi runnu til ríkisins, en einungis 4 % til sveitarfélaga.  Áður höfðu 34 % af skatttekjum af sjávarútvegi runnið til sveitarfélaga. 

Skuldir sjávarútvegsins á svæðinu fóru úr 30 % af framleiðsluverðmæti ársins 2000 í 66 % af framleiðsluverðmæti ársins 2002, en sú þróun bendir ótvírætt til þess, að sjávarútvegsfyrirtækin hafi boðið of hátt verð í þær heimildir, sem boðnar voru upp.  Fyrir lá, að kvótakaupin voru fjármögnuð með lánsfé, og skuldsetning fyrirtækjanna jókst því hratt.  Fyrir félögin skipti öllu að verða sér úti um kvóta, og sum þeirra gripu til þess ráðs að selja eignir til að fjármagna kvótakaup."

"Uppboðsleiðin" á Íslandi hefur ekki verið útfærð til hlítar, en það má gera því skóna, að þessar lýsingar frá útlöndum megi í miklum mæli heimfæra á Ísland.  Aflahlutdeildarhafar, sem missa kvóta, munu í örvæntingu teygja sig upp í rjáfur á uppboðsmarkaði til að afla sér og sínu fólki lífsviðurværis.  Minni fyrirtækin munu þurfa að skuldsetja sig, og þau munu sennilega fara á hausinn, hvort sem þau hreppa rándýrar aflaheimildir eða sitja eftir slyppar og snauðar.  Útgerðum mun þess vegna á skömmum tíma fækka um nokkur hundruð, e.t.v. 400. 

Eignastaða útgerðanna stórversnar vegna afskrifta aflahlutdeilda og skuldsetningar við kaup aflahlutdeilda, sem rifnar voru af þeim.  Tekjur rýrna með minnkandi aflaheimildum.  Atvinnuöryggi á sjó og í landi fellur undir velsæmismörk.  Mörg minni sjávarplássin munu sjá skriftina á veggnum, og kvótatilflutningur í fortíðinni verður hjóm eitt hjá hörmungunum, sem "uppboðsleiðin" leiðir af sér.  Fræðimenn hafa reyndar sýnt fram á, að kvótakerfið sjálft hafi haft óveruleg áhrif á byggðaþróun Íslands umfram þau áhrif, sem gríðarlegur aflasamdráttur hafði að ráði Hafrannsóknarstofnunar. 

Veiðiheimildir ganga kaupum og sölum og hafa gert frá 1990.  Íslenzkur sjávarútvegur berst nú í bökkum á erlendum fiskmörkuðum í argvítugri samkeppni við niðurgreiddan sjávarútveg, sem yfirleitt greiðir engin veiðigjöld. Hátt gengi ISK fækkar krónum í kassann og dregur mjög úr hagnaði. 

Núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi hefur skapað umgjörð góðrar umgengni við auðlindina, betri en önnur fiskveiðistjórnunarkerfi megna.  "Uppboðsleiðin" felur ekki í sér sambærilega hvata til góðrar umgengni um veiðistofnana og aflahlutdeildarkerfið.  Verðmætasköpun aflahlutdeildarkerfis og vísindalega ákvarðaðs aflamarks í hverri tegund er meiri en nokkurra annarra þekktra fiskveiðistjórnunarkerfa, og þess vegna er skattsporið stærst með aflahlutdeildarkerfinu, og þar af leiðandi innbyrðir samfélagið mest í sameiginlega sjóði með aflahlutdeildarkerfi og frjálsu framsali aflahlutdeilda á skip.  Hvers vegna að umbylta kerfi, sem gefur mest ?  Ráðgjafarfyrirtækið McKinsey sá enga ástæðu til þess í viðamikilli úttekt á stjórnarháttum og hagkerfi fyrir örfáum árum, og slíkt er í raun ekki tilraunarinnar virði og væri hið versta glapræði, eins og hér hefur verið rakið. Ný tegund í lögsögu Íslands, makríll

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Bjarni, það er að vísu til ein önnur leið en uppboðsleiðin.  Sú er að ríkisvæða sjávarútveginn.  Þá yrði það alveg á hreinu að afraksturinn - ef einhver yrði - rynni beint í ríkiskassann.  Ég býst hvort sem ekki við því að íslendingar vilja hafa þetta eins og t.d. á Falklandseyjum, þar sem fiskveiðikvótinn er upp-boðinn hæstbjóðandi útlendingum því innlendir hafa ekki áhuga á sjósókninni sjálfir.

Kolbrún Hilmars, 2.11.2016 kl. 17:38

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæl, Kolbrún;

Forsenda "uppboðsleiðar" er þjóðnýting aflahlutdeildanna, því að ríkið á þær ekki núna og getur ekki boðið þær upp, nema eignast þær fyrst.  Lagaskilyrði eru reyndar ekki fyrir hendi til þjóðnýtingar, því að brýnir almannahagsmunir verða að vera fyrir hendi.  Það eru augljóslega ekki brýnir almannahugsmunir að eyðileggja skilvirkasta fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi að dómi hins alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækis McKinseys. 

"Uppboðsleið" gerir ráð fyrir, að útgerðarmenn verði verktakar hjá ríkinu.  Það er sósíalismi í jólasveinabúningi, sem Íslendingar eru nýbúnir að hafna í Alþingiskosningum.  Krúnuríkið Falklandseyjar kýs að fá verktaka til að nýta fiskimið sín, sem eyjarskeggjar kæra sig ekki um. 

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 2.11.2016 kl. 20:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband