Óforsjálni og skipulagning fara illa saman

Íslendingar búa við aðstæður frá náttúrunnar hendi, sem einstæðar eru í Evrópu, og þótt víðar væri leitað.  Forfeður okkar bjuggu hér mann fram af manni í stöðnuðu þjóðfélagi, þar sem tækniþróun, t.d. við mannvirkjagerð, var lítil.  Menn reistu íbúðarhús, fjárhús og fjós úr grjóti og torfi á listilegan hátt, en timbur var löngum af skornum skammti, og fór það í að halda uppi þakinu, sem síðan var tyrft, en lítt var þiljað innanstokks og moldargólf víða.  Má kalla kraftaverk, hvernig fólk lifði af við þessar aðstæður, sem í mörgum tilvikum má kalla vosbúð með vatnsleka, trekki, raka, myglu og kulda.

Nú er öldin önnur, en þá bregður svo við, að við landskipulag gleymist að horfa til sérstöðu landsins, veðurfarslegrar og jarðfræðilegrar.  Úr þessu verður að bæta og taka upp strangar áhættugreiningar, þegar staðsetja á þéttbýli, umferðaræðar, orkuæðar og flugvelli.  

Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur, ritar tíðum skilagóðar greinar í Morgunblaðið, oft tengdar náttúrunni.  Þann 4. ágúst 2020 birtist þar eftir hann grein um ofangreint efni með fyrirsögninni:

"Eldgosahætta, jarðskjálftar og skipuleg viðbrögð gegn náttúruvá".

Nú verður gripið niður í þessa hugvekju:

"Jarðskjálftar og eldgos hafa gengið sem rauður þráður gegnum Íslandssöguna og borið fréttir víða af þessu sérkennilega eylandi.  Öðrum þræði erum við stolt af þessari sérstöðu, en hefur þó enn ekki lærzt sem skyldi að búa við hana af forsjálni og taka tillit til hennar í skipulagi."

Þetta þurfa sveitarfélög landsins, sem með skipulagsvaldið fara, að taka til sín.  Umbætur hafa þó víða orðið, eins og snjóflóðavarnir og jarðgöng eru dæmi um, en betur má, ef duga skal.  Landið hefur verið kortlagt m.t.t. til jarðskjálftavár, og byggingarstaðlar m.t.t. burðarþols og jarðskjálftaþols sniðnir að nýjustu þekkingu í þessum efnum, og sama er að segja um burðarþol þaka og veggja gagnvart snjóþyngslum.  Það, sem helzt skortir nú á, er að taka tillit til eldvirkninnar, þar sem hún á við, og um það fjalla næstu tilvitnanir í Hjörleif:

"Stóraukin þekking á jarðeldum ásamt góðri vöktun hefur átt þátt í þessu [að koma í veg fyrir slys - innsk. BJo] sem og aðvaranir og bætt aðgengi fyrir almenning.  Við þurfum þó að vera meðvituð um, að vel heppnuð sambúð við þessi náttúruöfl er ekki sjálfgefin, og miklu skiptir að taka tillit til náttúrufarslegrar áhættu við skipulag og aðgengi ferðamanna."

Miklu meira máli skiptir að huga að flóttaleiðum fyrir íbúa þéttbýlis við mannskæða jarðskjálfta, sem valda hruni bygginga, og eldgos.  Reyjanesskaginn er eldvirkt svæði a.m.k. frá Garðabæ og suður á Reykjanestá.  Á Miðnesheiðinni er yfirleitt mikil starfsemi og langmikilvægasti flugvöllur landsins.  Eftir gerð Suðurstrandarvegar, sem er víða sérlega vel heppnaður, eru 2 flóttaleiðir landleiðina frá Reykjanesi og góðar hafnir utarlega á nesinu gera sjóleiðina greiðfæra í neyð, þótt flugvöllurinn yrði ónothæfur.  

Orkuverið í Svartsengi getur orðið algerlega óvirkt bæði fyrir rafveitu og hitaveitu.  Flutningsgeta núverandi Suðurnesjalínu nægir Suðurnesjamönnum ekki, ef Svartsengisvirkjun verður ótiltæk.  Það er mikill ábyrgðarhluti að seinka samfélagslega mikilvægum framkvæmdum árum saman.  

Það er alveg dæmalaus óforsjálni fólgin í hugmyndum um að flytja starfsemi Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni yfir á nýjan alþjóðlegan flugvöll í Hvassahrauni.  Hér er um hundraða mrdISK fjárfestingu að ræða á eldvirku svæði.  Hraunelfur gæti gert þá fjárfestingu að engu á nokkrum dögum, t.d. skömmu eftir að búið yrði að gera Vatnsmýrarvöllinn algerlega óstarfhæfan.  Í versta tilviki yrði enginn alþjóðaflugvöllur starfhæfur á Suð-Vesturlandi.  Slíkt hlýzt aðeins af skammsýni og heimsku.  Reykjavíkurflugvöllur er perla, sem fyrir enga muni má kasta fyrir svín. Þar eru ein albeztu flugskilyrði frá náttúrunnar hendi á landinu.  Stöðva verður þegar í stað tilburði borgarstjórnarmeirihlutans til þjóðhættulegra spellvirkja í Vatnsmýrinni.  Með vísun til þjóðaröryggis ætti Alþingi að setja lög um það, að í Vatnsmýrinni skuli um ótilgreinda framtíð vera varaflugvöllur fyrir alþjóðlegt flug og miðstöð innanlandsflugs.  Sérfræðingar á sviði flugmála þurfa síðan að gera tillögu um það, hvaða framkvæmdir eru nauðsynlegar til að Vatnsmýrarvöllurinn geti þjónað hlutverki sínu af fullri reisn á komandi áratugum. 

"Jarðsögulegar heimildir frá ísaldarlokum benda til, að búast megi við tíðari eldgosum í kjölfar þess, að jöklar eru nú að rýrna hér sem annars staðar og landris á sér stað af þeim sökum.  Þetta varðar megineldstöðvar, eins og Kötlu og Öræfajökul, sem nú eru undir jökulfargi, sem og Bárðarbungu og Grímsvötn. Í sömu átt bendir landris á Reykjanesskaga, og að innan ekki langs tíma megi þar búast við eldsumbrotum eftir goshlé, sem varað hefur frá árinu 1240. Atburðir síðustu mánaða í Grindavík og Svartsengi benda í þessa átt, og sömuleiðis er talið, að hlé á gosvirkni á skaganum öllum frá Brennisteinsfjöllum og vestur úr sé orðið óvenjulangt í sögulegu samhengi."

Það er ótækt að skella skollaeyrum við þessum aðvörunarorðum, þótt alræmd óvissa á breiðu bili fylgi jafnan forspá jarðvísindamanna, svo að nánast virkar hlægileg, er á er hlýtt.  Í þessu ljósi má vera einkennilegt, að engin umræða sé opinberlega farin af stað um ráðstafanir til að verja mannvirki á þessu svæði gegn hraunrennsli.  Slíkt er ekki hægt að stöðva, en það má e.t.v. beina því í skaðlitlar áttir, eins og snjóflóði. 

"Nýleg bygging kísilmálmverksmiðju á Tjörnesbrotabeltinu við Húsavík hefur eðlilega verið gagnrýnd af jarðfræðingum.  [Verkfræðingar hönnuðu mannvirkin þar samkvæmt nýjustu kortlagningu áætlaðs jarðskjálftastyrks-innsk. BJo.]  Álverið í Straumsvík stendur á Kapelluhrauni, sem talið er hafa runnið úr  Undirhlíðum um miðja 12. öld.  [Þar hafa mannvirki verið styrkt m.t.t. nýjustu krafna um jarðskjálftaþol.  Nú er byggð komin í grenndina, svo að ástæða er til að huga að hraunvörnum - innsk. BJo.] Hugmyndir hafa verið um að byggja nýjan alþjóðaflugvöll á Hvassahrauni sunnan Hafnarfjarðar, en ekkert heildarmat liggur fyrir á eldvirkni honum tengdum.  Eitt ljósasta dæmi um fádæma skammsýni í skipulagsmálum birtist okkur svo í þeirri kröfu borgaryfirvalda Reykjavíkur, að Reykjavíkurflugvöllur víki og öllu alþjóðaflugi verði beint suður á Reykjanes, þar sem fyrirsjáanleg eru eldsumbrot innan ekki langs tíma."
Undir þetta skal taka.  Þarna er meiri áhætta tekin en nokkurt vit er í.  Þegar í stað ber að skrínleggja Hvassahraunshugmyndir um flugvöll og treysta stöðu Vatnsmýrarvallarins með lagasetningu og fjárfestingu í aðstöðu og flugbrautum. 
Að lokum snupraði Hjörleifur þau, sem vélað hafa um flugvallarmálin upp á síðkastið fyrir fávizku og þröngsýni:
"Vinnubrögð, eins og hér hafa verið nefnd dæmi um varðandi skipulag og staðsetningu mannvirkja, eru í hrópandi ósamræmi við vaxandi þekkingu á jarðfræði lands okkar.  Brýnt er að finna leiðir til úrbóta, m.a. með skýrri leiðsögn í landsskipulagi."

    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þarna er margt af viti mælt.

Nauðsynlegt er að semja um stöðu Reykjavíkurflugvallar. Þjóðarhagsmunir kalla á tvo flugvelli á suðvesturlandi og tryggt aðgengi landsbyggðar að Landsspítala.

Hvort Hvassahraunsflugvöllur leysir Reykjavíkurflugvöll af hólmi kemur í ljós á næstu árum. Ef ekki þá þarf samning um tilvist Reykjavíkurflugvallar til 30 ára, líkt og Svíar gerðu um Bromma flugvöll fyrir nokkru.

Til að sátt náist þarf þó að minnka álag af kennslufluginu og einkafluginu.

Tiger,félag, 31.8.2020 kl. 23:48

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Inntak pistilsins var, að allt of mikil áhætta fylgdi fjárfestingum í Hvassahraunsflugvelli til að verjandi væri, að verja þangað opinberu samgöngufé.  Það er mikið hagræði að kennsluflugi, sjúkraflugi og einkaflugi á Reykjavíkurflugvelli.  Hvernig haga Svíar þessum málum á Bromma ?

Bjarni Jónsson, 1.9.2020 kl. 09:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband