Orkan er orðin enn verðmætari

Eftir árás útþenslusinnaðra og fullkomlega glæpsamlegra yfirvalda Rússlands á Úkraínu 24. febrúar 2022 er Evrópa í stríðsástandi. Stríð Rússa við Úkraínumenn er nýlendustríð heimsvaldasinna gegn fullvalda lýðræðislegri menningarþjóð, sem er svo óheppin að búa við drottnunargjarna kúgara í austri. Viðurstyggilegar og níðangurslegar baráttuaðferðir rússneska hersins gagnvart almennum borgurum, íbúðabyggingum, skólum, sjúkrahúsum og fólki á ferðinni á götum úti hafa vakið slíkan viðbjóð, hneykslun og hatur á Rússum, að langur tími mun líða, þar til vestræn ríki munu geta hugsað sér að létta viðskiptaþvingunum af Rússum og að hefja við þá einhver vinsamleg samskipti að nýju.  Það mun ekki gerast, á meðan mafíuforinginn og lygalaupurinn, Vladimir Putin, er við völd í Kreml. 

Á meðan svo er, verður stöðugt dregið úr viðskiptum Vesturlanda við Rússa með gas og olíu, en kolakaupum mun að mestu vera þegar hætt.  Þetta mun leiða til orkuskorts um sinn í Evrópusambandinu (ESB) og á Bretlandi, og í staðinn koma dýrari vörur, fluttar lengra að og jafnvel á öðru formi og miklu dýrara, eins og LNG, sem er kælt gas undir þrýstingi á vökvaformi. Þetta hleypir auðvitað raforkuverðinu enn upp og kyndir undir verðbólgu í viðskiptalöndum Íslands, og íslenzkar orkulindir og rafmagn verða af þessum sökum mjög verðmæt á næstu árum.  Er eitthvað að gerast til að mæta aukinni spurn eftir orku á Íslandi ?  Það er satt að segja ótrúlega lítið, enda hvílir ríkishrammurinn yfir þessum geira, og hann er lítt næmur á raunveruleg verðmæti, en veltir sér ótæpilega upp úr sýndarverðmætum (og sýndarmennsku). 

Einangrun hins skammarlega og ósvífna Rússlands mun hafa áhrif á ýmsum öðrum sviðum viðskiptalífsins.  Rússar hafa selt talsvert af fiski inn á evrópska markaði, og fiskverð er þegar tekið að hækka vegna minna framboðs.  Svipaða sögu er að segja af málmframleiðslunni, enda er málmverð, þ.m.t. álverð og einnig járnblendi og kísilverð, nú í sögulegum hæðum.  Allt styrkir þetta viðskiptajöfnuð Íslands og vegur upp á móti hækkun korns, matarolíu, fóðurs og flestra matvæla.  Gengi EUR/ISK < 140, þ.e. styrkur ISK er nú svipaður og í ársbyrjun 2020, fyrir Kóf. Gengið mun enn styrkjast, eftir því sem orkuskiptunum vindur fram, en til þess að framfarir verði á þessu sviði og í atvinnulífinu almennt, sem um munar, þarf virkjanaleyfi fyrir allt að 20 TWh/ár næstu 3 áratugina.  

Ýmsar þjóðir hafa nú ákveðið að slá 2 flugur í einu höggi, þ.e. að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og draga úr raforkuáhættu og raforkukostnaði sínum, með stórtækum áætlunum um að reisa kjarnorkuver.  Bretar eru gott dæmi um þetta, en þar er nú ekkert rafmagn framleitt með kolaorku í fyrsta sinn í um 140 ár. 

Auðvitað eru góðar hugmyndir uppi á Íslandi um aukna raforkuvinnslu, enda er engum blöðum að fletta um þörfina og fjárhagslega ávinninginn af því, en ríkisvaldið hefur lagt sinn lamandi hramm á framkvæmdaviljann. Það er hægt að finna öllum framkvæmdum, einkum utan þéttbýlis, eitthvað til foráttu, og ekki hefur skort úrtöluraddirnar á Íslandi, sem fyllast heilagri vandlætingu beturvitans, þegar að nýjum framkvæmdum á orkusviðinu kemur. Það er hins vegar beint samhengi á milli nútímalegs velferðarsamfélags og raforkunotkunar, og nægir þar að vísa til arðgreiðslna Landsvirkjunar til eiganda síns, ríkissjóðs, 15 mrdISK/ár, sem nægja til að standa straum af árlegri fjárfestingu ríkisins í nýjum Landsspítala við Hringbraut um þessar mundir. 

Öfugt við það, sem skýjaglópar predika, er Íslendingum nauðsyn að nýta orkulindir sínar til að knýja atvinnulíf sitt, sívaxandi fjölda heimila og samgöngutæki sín.  Þröngsýnispúkar í röðum núllvaxtarsinna setja samt á sig spekingssvip og kasta hnútum og innantómum frösum á borð við tugguna um, að náttúran verði að njóta vafans.  Svar tæknigeirans er að kynna vandaðar lausnir, þar sem lágmörkunar inngrips í náttúruna m.v. afköst mannvirkjanna er gætt í hvívetna.  Framkvæmdirnar má telja umhverfisvænar og afturhverfar að mestu eða öllu leyti. 

Á meðal fórnarlamba ráðleysis hérlendra orkuyfirvalda eru Vestfirðingar.  Þeir búa ekki við hringtengingu við landskerfið, og raforkuvinnslugeta þeirra er ófullnægjandi fyrir landshlutann.  Þetta kemur sér sérlega illa núna á tímum grózkumikilla fjárfestinga í fiskeldi, sem hefur hleypt nýju blóði í Vestfirðinga í orðsins fyllstu merkingu. Það er algerlega óviðunandi, að ríkisvaldið með doða og sinnuleysi sínu komi í veg fyrir, að fjárfestar virki þar vatn og vind, ef heimamenn sjálfir telja virkjanatilhögun ásættanlega.  Þar þarf að láta hendur standa fram úr ermum að settum skynsamlegum og sanngjörnum skilyrðum ríkisvaldsins.

Í Morgunblaðinu 11. apríl 2022 var frétt undir fyrirsögninni:

    "Kallað eftir stórri virkjun vestra".

Hún hófst þannig:   

"Starfshópur um orkumál á Vestfjörðum telur heppilegt að stefna að því, að raforkukerfi fjórðungsins verði byggt upp að lágmarki með einni öflugri virkjun á vestfirzkan mælikvarða, 20-50 MW að afl[getu].  Einnig verði byggðar fleiri minni virkjanir.  Telur hópurinn, að setja mætti það markmið, að búið yrði að byggja virkjanir með a.m.k. 40 MW  afl[getu] fyrir árið 2030.

Vestfirðir hafa setið eftir varðandi afhendingaröryggi raforku, og vitnar starfshópurinn til orkustefnu [ríkisins-innsk. BJo] með, að hann eigi að njóta forgangs um úrbætur.  Að mati hópsins verður markmiðið að vera það að ná hið minnsta sambærilegu [orku]afhendingaröryggi og stjórnvöld hafa sett sem viðmið fyrir landið í heild."

Undir þetta allt skal taka.  Nú er afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum allsendis ófullnægjandi.  Það stafar af því, að tenging landshlutans er á einum geisla (132 kV) frá stofnrafkerfi landsins og að innan Vestfjarða skortir 60 kV hringtengingu flutningskerfisins í jörðu.  

Að öllu virtu, þ.e. gæðum rafmagns (spennu- og tíðnistöðugleiki, árlegur roftími hjá notendum), umhverfisinngripum og kostnaði (að meðreiknuðum kostnaði óafhentrar orku til notenda)), hefur starfshópurinn mjög sennilega rétt fyrir sér um, að bezta lausnin á orkuvanda Vestfjarða sé, að um 2030 hafi bætzt a.m.k. 40 MW aflgeta við virkjanir svæðisins og á tímabilinu 2022-2030 fari allt raforkuflutnings- og dreifikerfi landshlutans í jörðu, nema 132 kV Vestfjarðalínan frá Glerárskógum.  Hún verði áfram eina flutningskerfistengingin við landskerfið.  Jafnframt verði hafizt handa við hringtengingu flutningskerfisins innan Vestfjarða.  Með þessu móti verður landshlutinn sjálfum sér nógur með rafmagn, nema í bilunartilvikum og e.t.v. í þurrkaárum, en getur selt raforku inn á landskerfið, þegar vel árar í vatnsbúskapnum þar. 

Útflutningsverðmæti Vestfjarða frá fiskeldi, fiskveiðum og -vinnslu, ferðaþjónustu o.fl., munu aukast mikið á næstu 15 árum og gætu numið 200 mrdISK/ár eftir 10-20 ár, ef innviðir, sem eru á höndum ríkisins, eins og flutningskerfi rafmagns og vöru og þjónustu (Landsnet, Vegagerðin ásamt leyfisveitingaferli ríkisins fyrir framkvæmdir) hamlar ekki þróun byggðarlagsins, sem þegar er hafin. Ætlar ríkisvaldið að verða dragbítur mikilvægrar byggðaþróunar ?  Nú reynir á ráðherra. 

Lok fréttarinnar voru þannig:

"Tvær stórar virkjanir á vestfirzkan mælikvarða eru í undirbúningi í landshlutanum, Hvalárvirkjun á Ströndum og Austurgilsvirkjun í Ísafjarðardjúpi. Hvalárvirkjun er í nýtingarflokki í núgildandi rammaáætlun og Austurgilsvirkjun er í tillögum 3. áfanga rammaáætlunar, sem er til umfjöllunar á Alþingi.  Þá er EM orka langt komin með undirbúningsvinnu við vindorkuver í Garpsdal í Gilsfirði. Það er í nýtingarflokki í drögum verkefnisstjórnar 4. áfanga rammaáætlunar. 

 

Í tillögum starfshópsins er þó lögð áherzla á Vatnsfjarðarvirkjun, sem Orkubú Vestfjarða hefur verið að skoða.  Til þess að hægt sé að ýta hugmyndinni inn í umfjöllun í rammaáætlun þarf að lyfta friðlýsingarskilmálum Friðlandsins í Vatnsfirði, og leggur starfshópurinn til, að umhverfisráðherra skoði það.  Einnig leggur hópurinn til, að virkjað verði í Steingrímsfirði, eins og Orkubúið hefur verið með til athugunar." 

Hér stendur upp á ríkisvaldið, Alþingi og yfirvöld orkumála.  Nú þarf að láta hendur standa fram úr ermum.  Sérstaklega þarf að huga að þessum virkjunarkosti í Vatnsfirði og athuga, hvort væntanleg virkjunartilhögun þar fellur nægilega vel að umhverfinu og hefur nægilega lítið rask í för með sér á framkvæmdaskeiðinu, til að laga megi friðunarskilmála svæðisins að nýrri virkjun þar.  Íbúar Vestfjarða ættu að eiga síðasta orðið um slíkar breytingar. 

Það er ekki sami hugurinn í Orkuveitu Reykjavíkur (OR) og Orkubúi Vestfjarða (OV) til orkuöflunar, en hjá OR er sú skoðun við lýði, að engin þörf sé á nýrri orkuöflun. Þetta kom fram í frétt í Morgunblaðinu 7. apríl 2022 undir fyrirsögninni:

"Engar nýjar virkjanir í farvatninu".

Hún hófst þannig:

""Það eru engar stórar virkjanir á borðinu hjá okkur", segir Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, sem var staddur í stórhríð á Fjarðarheiði á leið til Seyðisfjarðar.  Á borgarstjórnarfundi á þriðjudag var samþykkt að vísa tillögu Eyþórs Arnalds, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um, að Orkuveitunni verði falið að skoða virkjunarmöguleika á starfssvæði OR til stjórnar OR.  Eyþór Arnalds er í stjórn OR og benti á í tillögunni, að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar hafi markmiði um jarðefnaeldsneytislaust Ísland verið flýtt til 2040."

 

Það er til vitnis um doðann innan OR, að þar á bæ skuli ekki einu sinni vera fyrir hendi vitneskja um "virkjunarmöguleika á starfssvæði OR".  Fyrirtækið er greinilega ekki að spila með ríkinu við að auðvelda landsmönnum að losa sig undan klafa jarðefnaeldsneytisins. Síðan lætur forstjórinn í veðri vaka, að bætt nýting aflaðrar orku geti komið í stað öflun nýrrar orku, sem er rangt.  Bætt nýting er góð og gild, en vegur lítið í heildina:

 ""Það er ekki stefna Orkuveitunnar að virkja mikið, en við fylgjum fullnýtingarstefnu og viljum nýta betur þá orku, sem kemur frá gufu og heitu vatni.  Við eigum möguleika á að nýta betur, það sem við tökum upp, t.d. í Hverahlíð, þar sem er mikið og öflugt háhitasvæði, sem við nýtum í Hellisheiðarvirkjun.  Við leiðum gufuna þaðan rúmlega 5 km, og það mætti hugsanlega byggja þar 15 MW virkjun til að fullnýta þá gufu og aðra sams konar á Nesjavöllum", segir Bjarni og bætir við, að það væri þá verið að auka rafmagnsvinnslu, en ekki að virkja."

Þessi flutningur á gufu úr Hverahlíð til Hellisheiðarvirkjunar var björgunarráðstöfun gagnvart niðurdrætti í gufuforðabúri Hellisheiðarvirkjunar vegna ofnýtingar gufuforðans (meira tekið en inn streymdi).  Þessi tregða forstjórans við að virkja ný gufuforðabúr er áhættusöm, því að hún getur leitt til vandræða (afl- og orkuskorts), ef aðstæður breytast í virkjuðu gufuforðabúri, svo að það verði ofnýtt, eins og reyndin var með Hellisheiðarvirkjun.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband