Samfylkingin sinnir almannahagsmunum með ömurlegum hætti

Segja má, að víðast hvar á landinu, þar sem brölt Samfylkingarinnar hefur skilað liðsmönnum hennar í stjórnunaraðstöðu, hafi hagsmunamál almennings í byggðarlaginu þróazt mjög til verri vegar og fjármálin snarazt undir kvið drógarinnar. Verst og afdrifaríkast er þetta í stærsta sveitarfélaginu, en þar hefur verið rekin sérvizkuleg, raunar fávísleg skipulagsstefna, sukk og svínarí, sem nú virðist ætla að enda með skipbroti og greiðsluþroti borgarsjóðs. Það er saga til næsta bæjar. Í Reykjavík hefur læknir með strútsheilkenni farið með völdin fyrir hönd Samfylkingarinnar í meira en áratug með grafalvarlegum afleiðingum fyrir borgarbúa og landsmenn alla. Þessu ættu landsmenn að gefa gaum, þegar þeir íhuga stuðning við stjórnmálaflokka á landsvísu og staðbundið.  Vítin eru til þess að varast þau. 

Morgunblaðið hefur gert óstjórninni í Reykjavík rækileg skil í leiðurum, enda þar á bæ kunnáttumenn um málefni Reykjavíkur og fjármál almennt.  Einn slíkur leiðari birtist 14. apríl 2023 og hét:

"Afneitun borgarstjóra".

Þar stóð m.a.:

"Því trúir enginn lengur, nema mögulega borgarstjóri sjálfur, sem lætur augljósar staðreyndir og opinberar aðfinnslur sem vind um eyru þjóta.  Jafnvel umsögn borgarinnar sjálfrar árið 2020: "Vandinn snýst [...] ekki aðeins um skammtíma fjármögnunarvanda, heldur stefnir í algerlega ósjálfbæran rekstur til margra ára.". 

Afleiðingarnar blasa nú við, þó [að] sennilega muni þær reynast enn kaldranalegri við birtingu ársuppgjörs borgarsjóðs undir lok þessa mánaðar [apríl 2023].  Allt bendir til þess, að enn frekar og hraðar hafi sigið á ógæfuhliðina síðustu mánuði. 

Skýr vísbending um það kom á þriðjudag [11.04.2023], þegar Reykjavíkurborg læddi út tilkynningu að loknum starfsdegi um, að fyrirvaralaust væri hætt við annað skuldabréfaútboð hennar í röð, en borgin hyggst afla sér mrdISK 21 á fyrri hluta ársins [2023] með þeim hætti. Á því komu engar skýrar skýringar, en augljóst er, að borgin óttaðist, að henni byðust aðeins niðurlægjandi afarkjör.  Hversu lengi hún getur afþakkað þau án þess að eiga greiðsluþrot á hættu, er önnur saga."

Nú er öldin önnur en þá er Gaukur bjó á Stöng.  Sú var tíðin, að Reykjavíkurborg var orðlögð fyrir góða og trausta fjármálastjórn.  Þá stjórnuðu sjálfstæðismenn málefnum hennar, og þá var enginn fíflagangur á ferð á borð við lokun Reykjavíkurflugvallar, þéttingu byggðar, þrengingar gatna, risavaxið strætókerfi staðsett á miðjum núverandi akbrautum, sniðið að útlendum fyrirmyndum við ósambærilegar aðstæður, snjóruðningsviðbúnaður vanbúinn og stjórnlaus (og vitlaus), lóðahörgull og lóðaokur og svo mætti lengi telja.  Nú er Samfylkingarfólk í forystu borgarinnar ásamt auðsveipum liðleskjum búið að keyra málefni höfuðborgarinnar gjörsamlega út í eitt fúafen.  Þetta flokksafstyrmi, sem segir eitt og gerir annað, talar fjálglega um opna stjórnsýslu, en stundar meiri leyndarhyggju og þöggun umræðu en nokkur annar. Samfylkingarpótintátinn Dagur B. Eggertsson hefur brugðið upp Pótemkíntjöldum kringum fjármál borgarinnar og jafnan látið sem allt sé í himnalagi.  Að afneita staðreyndum er einkenni þeirra, sem búnir eru með andvaraleysi og mistökum að klúðra málum og hafa enga burði til að greiða úr þeim.  Eftirmæli þessa borgarstjóra Samfylkingarinnar verða ömurleg.

Þetta er ekki pólitískt tuð sjálfstæðismanna, ætlað til að koma höggi á Samfylkinguna.  Nei, þetta er dómur markaðarins.  Markaðurinn stingur ekki hausnum í sandinn, heldur greinir stöðuna af vandvirkni og kemst að þeirri niðurstöðu, að áhættan við að kaupa skuldabréf af borginni sé meiri en við flest önnur viðskipti hérlendis nú um stundir, og neitar að eiga í þessum viðskiptum, nema gegn niðurlægjandi háu áhættuálagi.  Þegar svona er komið, er orðið stutt í lokadóminn yfir starfsháttum Samfylkingarinnar og liðsodda hennar. Vilja menn þetta í landsmálin ? 

"Hinar hrollvekjandi staðreyndir málsins birtust með enn eindregnari hætti í bréfi, sem eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga sendi til borgarstjórnar í lok febrúar [2023] vegna fjárhagsáætlunar fyrir 2023, þar sem fram kom, að borgin uppfyllti ekki lágmarksviðmið fyrir A-hluta rekstrar hennar.  Þar skeikar miklu.

Fyrir sitt leyti er borgarstjóri enn í afneitun, en í viðtali við mbl.is sagði hann:

"Þetta er bara rútínubréf frá eftirlitsnefndinni."  

Þessi orð þarf borgarstjóri að skýra betur og án tafar.  Hafa Reykjavíkurborg borizt mörg slík bréf frá eftirlitsnefndinni ?"  

Sú tilhneiging borgarstjórans að slá bara hausnum við steininn, þegar hann stendur frammi fyrir krefjandi og jafnvel óþægilegum viðfanfsefnum, fer langt með að útskýra þær ógöngur, sem borgina hefur rekið í. Skútan er í raun stjórnlaus.  Þar er enginn "skipper", bara gúmmíkarl á launum hjá borgarbúum án þess að skila neinu, sem ætlast mætti til af honum. Það er stórhættulegt að hafa svona lyddur við stjórnvölinn, en þetta er eftirlæti Samfylkingarinnar. 

Engum dettur í hug, að fréttamaðurinn fyrrverandi af RÚV snúi stöðunni hratt við.  Það er þó hægt, eins og dæmið frá Árborg 2010 sýnir. Þar höfðu Samfylkingin o.fl vinstri spekingar gengið allt of hratt um gleðinnar dyr, farið óvarlega með fé, svo að sveitarfélagið var komið í klær téðrar eftirlitsnefndar.  Sjálfstæðisflokkurinn fékk þá hreinan meirihluta þar og viti menn; hann sneri stöðunni við á einu ári með sársaukafullum aðgerðum, sem voru þó nauðsynlegar.  

Aftur gerðist hið sama í Árborg.  Það er engu líkara en Samfylkingin megi ekki koma nálægt stjórnvelinum, og aftur hafa sjálfstæðismenn forgöngu um að koma lektunni á réttan kjöl. Þeir vita, að skilningur og heiðarleg upplýsingagjöf til íbúanna er grundvöllur úrbótanna, og þess vegna var haldinn íbúafundur í Árborg til að útskýra stöðuna.  Öðru vísi ferst leyndarhyggjuflokkinum Samfylkingunni í Reykjavík, eins og reifað var í téðri forystugrein Morgunblaðsins:

"Í bréfi eftirlitsnefndar kom fram, að fjalla þyrfti um það í borgarstjórn.  Þrátt fyrir að umræddir 2 mánuðir verði liðnir 28. apríl [2023], hefur efni þess ekki enn verið tekið á dagskrá borgarstjórnar, en hún kemur saman næsta þriðjudag [18. apríl 2023], svo [að] enn er von."

Það er ekki nóg með, að stefna Samfylkingarinnar leiði til glötunar, heldur eru vinnubrögðin afkáraleg og kolómöguleg.  Ekkert hefur í þessum efnum breytzt með tilkomu nýja formannsins beint úr bankanum.  Kristrún Frostadóttir, sem nú er í foreldraorlofi, virðist ekki hafa nægt bein í nefinu til að knýja Samfylkjarana til sómasamlegra vinnubragða.  Samfylkingarfólkið í borgarstjórn hefur lagt sig í framkróka við að fegra ömurlega fjárhagsstöðu og látið hjá líða í lengstu lög að gæta þeirrar lýðræðislegu skyldu sinnar að ræða fjárhagsstöðuna á hinum rétta opinbera vettvangi, sem er borgarstjórnin.  Þar með ljóstar Samfylkingin upp um sitt rétta eðli, sem er leyndarhyggja og hrossakaup á bak við luktar dyr.  Tal forsprakkanna um, að flokkurinn vilji hafa allt uppi á borðum og stjórna fyrir opnum tjöldum, er froðusnakk helbert.  Það er einkenni spilltra stjórnmálaflokka að reyna að telja kjósendum trú um, að flokkurinn standi fyrir einhver allt önnur gildi en reynslan sýnir, að eru í öndvegi þar.  Þannig er það líklega bara pólitískt "trix" hjá nýja formanninum að flíka ekki lengur trúaratriðinu um að halda áfram aðlögunarferlinu fyrir fulla aðild að Evrópusambandinu.  Samfylkingunni er ekki unnt að treysta fyrir horn.  

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Takk fyrir þennan hressilega pistil Bjarni.

Sjálfur hef ég alltaf litið þá flokka hornauga sem fyrirfram útiloka samstarf við einhverja andstæðinga sína. Tel slíka flokka ekki vera ábyrga. Nú er svo komið að þessi skoðun mín hefur örlítið látið á sjá, þar sem ég tel Samfylkingu ekki stjórntæka, ekki í borginni og alls ekki í landsmálum. Því gæti verið sterkur leikur hjá Sjálfstæðisflokki að gefa það út að flokkurinn sé tilbúin til samstarfs við alla stjórnmálaflokka nema Samfylkingu, að loknum næstu kosningum. En slíkri yfirlýsingu fylgir auðvitað sú ábyrgð að við hana verður að standa.

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 10.5.2023 kl. 08:12

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Já, Gunnar.  Hún er eitruð, eins og vel sýndi sig í stjórnarsamstarfinu við hana, sem endaði með Hruninu.  Þá var enginn ötulli við að hrósa útrásarvíkingum bankakerfisins en utanríkisráðherrann, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem hældi þeim á alþjóðavettvangi.  Samfylkingin með sinn fjarræna viðskiptaráðherra var vita gagnslaus í björgunarstarfinu, og það voru sjálfstæðismenn, sem sömdu frumvarp til Neyðarlaga, sem síðan björguðu landinu frá greiðsluþroti.  Evrópusambandið vildi festa okkur í viðjum Icesave-skulda og studdi þess vegna málsókn gegn okkur fyrir EFTA-dómstólinum.  Baudenbacher gat dæmt okkur í vil til að bjarga EES-samstarfinu í sinni núverandi mynd, af því að ESB-dómstóllinn hafði ekki áður fengið sambærilegt mál til úrlausnar, og þess vegna var ekki fordæmi þaðan.  Samfylkingin var baneitruð og er eitruð enn, eins og óreiðan við stjórnun Reykjavíkur sýnir.  Spilltur og ómerkilegur flokkur, sem siglir undir fölsku flaggi.  

Bjarni Jónsson, 10.5.2023 kl. 11:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband