Ævintýri á Ísafirði

Kaupin á Kerecis fyrir tæplega mrdISK 180 eru ekki ævintýri líkust, eins og Morgunblaðið orðaði það í forystugrein sinni mánudaginn 10. júlí 2023.  Þau eru ævintýri í viðskiptaheimi nútímans.  15 ára sproti, sem í fyrra mun í fyrsta skipti hafa skilað rekstrarlegum hagnaði, er seldur fyrir upphæð, sem nemur um 60 faldri ársveltu fyrirtækisins.  Þetta er líklega einsdæmi á seinni tímum, en tíðkaðist e.t.v. í stafrænu bólunni, sem sprakk með hvelli um aldamótin. 

Hér er þó ekki bóla á ferð á meðal taugaveiklaðra kauphallarmanna, heldur vafalítið "ískalt" mat Dananna í Coloplast, sem keyptu Kerecis.  Hér eru stórtíðindi á ferð, sem sýna í hnotskurn, hvernig alþjóðleg tenging Íslands við fjármálamarkaði og vörumarkaði heimsins styrkir hag almennings í landinu, dreifbýlisins og alls íslenzka hagkerfisins (ISK hækkaði um 3 %, þegar tíðindin tóku að leka út, áður en EUR 1 birtist á nokkrum reikningi hér).

Það er ljóst, að Coloplast veðjar á bjarta framtíð og mikla spurn eftir vörum Kerecis frá hátt borgandi viðskiptavinum.  Verðmæti þorsks, hvers roð fer í framleiðsluferli Kerecis, tífaldast, og þannig er bundið um hnútana, að markaðsleyfi Kerecis á bezt borgandi markaðinum, Bandaríkjunum, er bundið við þorsk af Vestfjarðamiðum, og grundvöllurinn er vottun Hafrannsóknarstofnunar um heilnæmi hafsins við Ísland og sjálfbærar veiðar í lögsögu Íslands. 

Þetta gulltryggir Ísfirðinga.  Þeir eru með gullgæs í höndunum, og gulleggin munu ekki koma eftir dúk og disk, heldur hefur mörgum verið orpið í hreiðrið með þessum ótrúlegu viðskiptum.  Sagt er, að um mrdISK 60 eða rúmlega þriðjungur kaupverðsins muni lenda í vasa vestfirzkra fjárfesta með eignarhlut í Kerecis.  Í mörgum tilvikum er þar um að ræða starfsmenn fyrirtækisins, sem stóðu með því í blíðu og stríðu. Því miður bar lífeyrissjóður pistilhöfundar ekki gæfu til að græða á þessu ævintýri, heldur varð á það axarskapt að selja hluti sína í Kerecis á grundvelli kolrangs stöðumats og fordildar í garð framleiðslufyrirtækisins.  Þetta er einhver seinheppnasta eignastýring seinni tíma og ætti að rata í kennslubækur sem víti til varnaðar.

Kerecis er auðmagnsævintýri hins vinnandi manns hugar og handa, sem marxisminn eða afsprengi hans jafnaðarstefnan hefði aldrei getað framkallað og skrifstofumenn í Reykjavík bera ekki skynbragð á.  Hér er það afrakstur einkaframtaksins, raunvísindamannsins Guðmundar Fertrams Sigurjónssonar, sem starfsmennirnir og almenningur á Ísafirði og víðar nýtur góðs af.  Sem sagt Adam Smith í hnotskurn. 

Í forystugrein Morgunblaðsins 10.07.2023: 

"Ævintýri líkast",

sagði m.a. þetta:

"Kaupandinn danski hefur vitaskuld horft til þessara þátta [þarfarinnar fyrir vöruna] og sömuleiðis þess að geta nýtt umfangsmikið sölukerfi sitt til að selja vörurnar úr ísfirzka þorskroðinu, sem reynzt hafa svo árangursríkar.  Um leið er ljóst, að fyrirhugaður vöxtur fyrirtækisins mun snerta íslenzkt atvinnulíf með öðrum hætti en, ef það hefði áfram verið að stórum hluta áfram í íslenzkri eigu."

Sala fyrirtækisins til útlanda mun hafa margfeldisáhrif til góðs fyrir íslenzka hagkerfið.  Það mun losa um féð, sem áður var bundið í fyrirtækinu, og viðbótarféð mun geta ávaxtast í öðrum fyrirtækjum og verkefnum hérlendis.  Guðmundur Fertram fær nú væntanlega meiri tíma til að einbeita sér að vöruþróun.  Ef rétt var tekið eftir, býst hann við áframhaldandi 10 % vexti framleiðslunnar árlega á næstu árum. Þessi gullgæs verður þannig bráðlega feitasta gæsin á Ísafirði, og þótt víðar væri leitað.  Ævintýrin gerast enn, en tökum eftir, hér er ekki ómenntaður strákur úr koti karls og kerlingar á ferð, heldur vel menntaður raunvísindamaður, efnafræðingur og verkfræðingur, sem gerir garðinn frægan.   

"Fyrir íslenzkt atvinnulíf eru þetta engu að síður mikil og góð tíðindi - og hvatning til að halda áfram að styðja við nýjungar og vöxt í atvinnulífinu.  Þá minnir þetta á mikilvægi þess, sem unnið hefur verið að, sem er að fullvinna þann afla, sem íslenzk skip landa. Íslenzkar útgerðir hafa sýnt þessu mikinn áhuga, sem m.a. má sjá hjá Kerecis, og telja má víst, að frekari árangur muni nást á því sviði, en hér á landi er þegar miklum mun hærra hlutfall sjávarafurða unnið en í öðrum löndum." 

 Til að auka verðmætasköpun sína hefur íslenzkur sjávarútvegur fjárfest töluvert í þróun bættrar nýtni og fullrar nýtingar hráefnisins.  Sáraumbúðir úr þorskroði eru aðeins eitt dæmi af mörum, þótt það sé hið langglæsilegasta.  Fyrirtæki í íslenzkum sjávarútvegi hafa sameinazt, hagrætt og aukið framleiðni og fjárfest í nýrri tækni.  Þetta er þeirra leið, því að íslenzka kvótakerfið setur þeim miklar magnhömlur.  M.a. þess vegna hefur fé leitað úr sjávarútvegi í laxeldi bæði úti fyrir strönd og á landi. Þetta er hiklaust vaxtarbroddur íslenzks atvinnulífs um þessar mundir. 

"Þessi kaflaskil í sögu Kerecis voru kynnt á Ísafirði, en þar eru upphaf fyrirtækisins og höfuðstöðvar.  Þar tekur við ákveðin óvissa, enda nýir eigendur hvorki Ísfirðingar né Íslendingar líkt og stofnandinn.  Það þýðir þó ekki, að starfsemin sé á förum frá Ísafirði, ef marka má orð stofnandans í samtali við Morgunblaðið.  Fram kom, að leyfi fyrirtækisins fyrir Bandaríkjamarkað byggðust á verksmiðjunum á Ísafirði, sem væru 2 og sú 3. í smíðum.  Þar er gott að vera með framleiðsluna benti stofnandinn á og taldi, að þar væri framundan áframhaldandi vöxtur." 

Líklega er óvissa ekki rétta lýsingin á þessum tímamótum á Ísafirði, heldur tilhlökkun að taka þátt í mesta viðskiptaævintýri samtímans á Íslandi. Fjármagn spyr ekki um þjóðerni.  Fjármagnseigendur spyrja um samkeppnishæfni staðar fyrir gerðar fjárfestingar og nýjar.  Enginn skákar Ísfirðingum með framleiðslu á sáraumbúðum úr þorskroði.  Þar er valinn maður í hverju rúmi og skilvirkni mikil, og þorskmið Ísfirðinga eru á meðal hinna hreinustu á jörðunni og hafa um það alþjóðlega vottun.  Hér er þess vegna traustur grundvöllur að byggja aukna gramleiðslu á og fjölga störfum.  Ísfirðingar standa með pálmann í höndunum, en eins og í öðrum góðum ævintýrum er hægt að falla í gryfjur og glutra niður gylltum tækifærum. Með góðu skipulagi og heilbrigðu samstarfi margra aðila mun það ekki gerast. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband