Torskiljanlegir stjórnarhættir matvælaráðherra

Nú standa öll spjót á matvælaráðherra.  Það er sama, hvar hún drepur niður fæti sem ráðherra.  Alls staðar er sviðin jörð.  Ekkert grær í fótsporum hennar.  Þetta verður ekki útskýrt með öðrum hætti en þeim, að þarna fari stækur kommúnisti sínu fram.  Kommúnisti ber enga virðingu fyrir lögum í lýðræðisþjóðfélagi.  Í huga stæks kommúnista verða lögin að víkja fyrir pólitík flokksins.  Einmitt þannig vinnur Svandís Svavarsdóttir.  Það ber hins  vegar vott um dómgreindarskort á háu stigi að halda, að hún geti vaðið uppi sem ráðherra með lögbrotum og frámunalega óvandaðri stjórnsýslu.  Allt ber að sama brunni.  Manneskjan er óhæf til að gegna ráðherraembætti.  Það verður að gera meiri kröfur um vitræna stjórnsýslu og forystu á einu sviði framkvæmdavaldsins en téð Svandís hefur burði til að sýna. Þessi ráðherra verður að taka pokann sinn. 

Svandís Svavarsdóttir sætir nú athugun Umba, Umboðsmanns Alþingis, sem hefur sent henni spurningar, sem eru áþekkar spurningum Teits Björns Einarssonar, Alþingismanns, sem hefur með réttu verið afar gagnrýninn á stjórnarathafnir þessa alræmda ráðherra gagnvart fyrirtækinu Hval hf og starfsmönnum þess. 

Morgunblaðið greindi frá nokkrum spurningum Umba í frétt 26.07.2023 undir fyrirsögninni:

"Umboðsmaður vill svör um bann".

Svörin munu áreiðanlega bögglast fyrir þessum óhæfa ráðherra, því að Teitur Björn, Alþingismaður, hefur enn ekki fengið nein efnisleg svör við sínum spurningum.  Hvað á að láta þennan ráðherra komast lengi upp með að þumbast við ?  Hún hefur áður af öðru tilefni bara yppt öxlum og sagzt vera í pólitík.  Þetta er bara alls ekki boðlegt í lýðræðisríki, þar sem ráðherra er með öllu óheimilt að taka lögin sínar hendur, enda gilda valdmörk.  Fyrir borgarana er óviðunandi að búa við þessi ósköp.  Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, hefur enga burði til að losa sig við óværuna.  Þess vegna hlýtur að koma til uppgjörs á stjórnarheimilinu. 

"Umboðsmaður óskar svara við ýmsum spurningum varðandi stjórnsýslu ráðherra.  Þ.á.m., að reglugerðin sé byggð á sjónarmiðum um velferð dýra með það fyrir augum að afla gagna um, hvort ákvæði laga um velferð þeirra og hvalveiðar séu uppfyllt við veiðar á langreyði með þeim aðferðum, sem beitt er við veiðarnar.  Segir, að um velferð dýra gildi sérstök lög og samkvæmt þeim sé ráðherra falið að setja í reglugerð nánari ákvæði um veiðiaðferðir í samráði við þann ráðherra, sem fer með stjórn veiða á villtum fuglum og spendýrum, en það er umhverfis-, orku- og auðlindaráðherra."  

 

  Ráðherrarnir, sem þarna eru tilgreindir, hafa látið undir höfuð leggjast að setja reglugerð um veiðar langreyða, og þess vegna má ætla, að bann matvælaráðherra um veiðar á langreyðum í sumar hvíli á ónógum hlutlægum viðmiðunum að lögum.  Ráðherrann tók geðþóttaákvörðun sem sjálfskipaður umboðsmaður hvala í fljótræði, og m.a. þess vegna hangir þessi aðför að rekstri fyrirtækis og afkomu fjölda manns í lausu lofti lagalega séð.  Þetta er gríðarlega alvarlegur fingurbrjótur fyrir ráðherra.  Hvernig í ósköpunum stendur á því, að stjórnarandstæðingar á Alþingi kvaka ekkert núna í fjölmiðlum, nema miðflokksmenn ?  Eru hinir jafnblindir og ráðherrann ?  Líka töfrum gædda bankadrottningin, sem með töfrasprota breytti 3 M í 100 M og ætlaði að sleppa undan jaðarskatti launa með mismuninn ?

"Þá er bent á, að þótt matvælaráðherra fari með yfirstjórn mála, sem varða velferð dýra, sé framkvæmd stjórnsýslunnar á hendi Matvælastofnunar, þ.m.t. að takmarka eða stöðva starfsemina.  Segir, að í minnisblaði skrifstofu sjálfbærni í matvælaráðuneytinu komi fram, að ekki hafi verið sett reglugerð um framkvæmd veiða á hvölum, og því geti Matvælastofnum einungis stuðzt við ákvæði laga um velferð dýra við mat á því, hvort staðið sé að veiðum í samræmi við lögin. Telur skrifstofan nauðsynlegt að setja reglugerð um veiðiaðferðir, svo [að] tryggt sé, að aflífun taki sem skemmstan tíma og valdi sem minnstum sársauka.  Skýringa er óskað á því, hvort heimilt hafi verið í þessu ljósi að byggja reglugerðina um veiðibann á ákvæðum laga um hvalveiðar, en ekki á lögum um velferð dýra. 

Ráðherrann fór offari í aðför sinni að löglegri atvinnustarfsemi í landinu og sýndi fyrirlitningu sína á lögum og reglum í landinu.  Svona nokkuð geta borgaralegir stjórnmálaflokkar ekki látið viðgangast þegjandi og hljóðalaust.  Var ekkert bókað um þetta mál í ríkisstjórn ?  Geta samstarfsflokkar vinstri grænna í ríkisstjórn setið þar áfram, á meðan þessi löglausi ráðherra situr þar að störfum ? Sé svo, verður að spyrja, hvenær sé eiginlega komið nóg af glópsku og yfirgangi eins ráðherra, svo að stjórnarslitum varði að sitja áfram með þeim ráðherra í ríkisstjórn ?

"Einnig er spurt, hvernig álit fagráðs um velferð dýra hafi getað orðið tilefni til þess, að ráðherra gaf út reglugerð á grundvelli laga um halveiðar, en ekki horft til úrræða Matvælastofnunar í málinu.  Ekki verði séð, að hlutverk fagráðs um dýravelferð sé að vera matvælaráðherra til ráðgjafar um framkvæmd laga á sviði sjávarútvegsmála."

Allt blasir þetta við ólögfróðum, upplýstum almenningi.  Það liggur í augum uppi, að ráðherrann, sem að eigin sögn tekur ákvarðanir út frá pólitík og hvorki út frá samkomulagi stjórnarflokkanna, góðum stjórnsýsluháttum né landslögum, greip þetta tækifæri, sem þessi undarlega skýrsla fagráðsins til Matvælastofnunar var(hún átti ekkert erindi til ráðherrans fyrir en að fenginni umsögn Matvælastofnunar), og kastaði skít í tannhjól stjórnarsamstarfsins með því að ganga í berhögg við ríkisstjórnarsáttmálann að sögn formanns Sjálfstæðisflokksins. Svo geipar gamall Hafnarfjarðarkrati, prófessor emeritus í stjórnmálafræði, um það, að söguleg þáttaskil hafi orðið, því að þingmenn sjálfstæðisflokksins séu farnir að hóta stjórnarslitum. 

Eiga sjálfstæðismenn þá að láta sér lynda hvað sem er í stjórnarsamstarfi ? Ef svo væri, þá brygðist Sjálfstæðisflokkurinn hugsjónum sínum og fylgismönnum. Atlaga Svandísar Svavarsdóttur að stjórnarsamstarfinu er ekki aðeins atlaga að samstarfsflokkum VG í ríkisstjórninni, heldur að formanni vinstri grænna, forsætisráðherranum, sem hefur talað mörgum vinstri græningjanum þvert um geð, þegar hún talar um mikilvægt friðarhlutverk NATO í Evrópu og fagnar stækkun þess, sem geri varnir Vesturlanda gegn öfga- og ofbeldisöflum enn öflugri. Katrín Jakobsdóttir hefur hins vegar sýnt, að hún er enginn bógur til að gegna stöðu forsætisráðherra, þegar í harðbakkann slær, því að hún hefur ekki bolmagn til að knýja Svandísi til að standa við stjórnarsáttmálann eða víkja ella.  Þess vegna er þessi ríkisstjórn hennar ekki á vetur setjandi.  

"Þá er spurt, af hverju umsögn fagráðs um málið hafi ekki verið borin undir Matvælastofnun áður en ákvörðun um reglugerðarsetninguna var tekin, og hvernig það geti samrýmzt reglum stjórnsýsluréttar og sjónarmiðum um vandaða stjórnsýsluhætti."

Ráðherrann gefur einfaldlega ekkert fyrir viðmið atvinnurekanda síns, ríkisins, né siðlega hegðun, því að hún "er í pólitík".  Það þýðir, að Svandís Svavarsdóttir tekur geðþóttaákvarðanir eins og henni einni sýnist, að samrýmist hennar pólitík.  Þetta sýnir auðvitað svart á hvítu, að losna verður hið fyrsta við þetta fyrirbrigði úr pólitík.   

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Þarna er ég þér mjög sammála. Þetta er mjög einarðleg og þörf grein. Málið er með þessa ákvörðun Svandísar um að stöðva hvalveiðar í sumar að það var gert á síðustu stundu og lítur út eins og það hafi verið gert til að móðga sjálfstæðismenn næstum eingöngu, eða þóknast einhverju öfgafólki innan VG. 

Það er vitað mál að sjálfstæðismenn eru frekar hlynntir kristinni trú en vinstrimenn, og þar með frekar á móti fóstureyðingum. Samt setti Svandís þessi umdeildu lög 2019, breytti þeim lögum sem sátt var um. Sjálfur formaður Sjálfstæðisflokksins kaus gegn þeim. 

Ég hef nú verið að fylgjast með stjórnmálum lengi, og venjan er sú að ef ráðherra gerist þannig sekur um að ganga gegn vilja hinna stjórnarflokkanna verður sá flokkur (VG í þessu tilfelli) að hafa sig hægan það sem eftir er stjórnartímans til að stjórnin sé trygg og láta af sínum öfgafyllstu stefnumálum. Það hefur Svandís einmitt ekki gert, og það var því í annað skipti sem hún fór þvert gegn vilja sjálfstæðismanna með hvalveiðistöðvuninni í sumar. Ég er sammála að slíkur ráðherra hefur farið yfir strikið og ógnar lífi ríkisstjórnarinnar mjög mikið.

Ingólfur Sigurðsson, 8.8.2023 kl. 12:28

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Heill og sæll Bjarni

Það er ekki nóg að þingmenn og ráðherrar Sjálfstæðisflokks láti þetta yfir sig ganga, heldur taka þátt í ruglinu. Skoðum verk utanríkisáðherra. Þegar maður hélt hún væri búin að ná endastöð í fylgislagi sínu við esb, með framlagningu bókunar 35 við ees samninginn, bætir hún enn um betur og ætlar að hækka hér allan aðflutning á vörum til og frá landinu, til að rembast við að uppfylla algerlega óraunhæf loforð forsætisráðherra á erlendri grundu og þóknast esb fyrirbærinu.

En aðeins að matvælaráðherra. Nú líður að 1. september. Þá lýkur hvalveiðibanni. Því var lýst yfir af því að veiðiaðferðin þótti ekki boðleg, þrátt fyrir að Hvalur hf segðist vera með nýa aðferð við veiðarnar. Þar sem ekki mátti veiða var ekki hægt að sannreyna þessa nýju veiðiaðferð. Því eru ekki til neinar upplýsingar um hvort þær séu betri en þær eldri. Þá er spurning hvað kommúnistinn gerir. Ef hún heimilar veiðar eftir mnaðarmót, er hún í raun að segja að bannið í vor var ótímabært. Því eru meiri líkur á að hún framlengi það. Eins og þú segir skipta lög og reglur hana ekki máli, einungis pólitíkin. Reyndar verið dæmd fyrir slíkar gjörðir og mun örugglega aftur fá dóm. Það er engin hætta á að Mr. Loftson láti þetta kyrrt liggja. Hann sækir allar þær bætur til ríkisins sem hann á rétt á, vegna lögbrota ráðherrans. 

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 9.8.2023 kl. 08:32

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka þér fyrir þetta tilskrif, Ingólfur.

Svandís er nógu ósvífinn stjórnmálamaður til að höggva aftur í sama knérunn, eins og þú bendir á, að hún hafi gert, og stjórnsýslan er fyrir neðan leyfileg mörk.  Hún greip tækifærið til að ná sér í prik illa upplýstra öfgaafla í VG.  Ég á eftir að sjá, að sjálfstæðismenn greiði götu nokkurs vafasams þingmáls hennar úr ríkisstjórn. 

Bjarni Jónsson, 9.8.2023 kl. 10:47

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll vertu Gunnar.

Við erum sammála um óhæfni téðrar Svandísar til að gegna ráðherraembætti, og þessi óhæfni mun kosta skattgreiðendur mikið.  

Forstjóri Eimskips hefur lög að mæla.  Um langa leið er að fara með alla aðdrætti og afurðir landsins, og ekki um aðra valmöguleika að ræða en flugið (10 %).  Þess vegna ber stjórnsýslunni undir forystu ráðherra að vinna heimavinnu sína, til að þessi skattlagning ESB bitni ekki harðar á okkur en fólki á meginlandi Evrópu.  Það má ekki skauta svona auðveldlega yfir skyldurnar. 

Bjarni Jónsson, 9.8.2023 kl. 10:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband