Orkumálastjóri og hlýindin

Í stað þess að greina lesendum Morgunblaðsins frá stöðu og horfum raforkumálanna, og hvaða úrræða væri helzt að grípa til í úrbótaskyni, þá lagðist Orkumálastjóri í svartnætti loftslagskirkjunnar í grein sinni 18.08.2023.  Hún gat þess, að júní 2023 hefði verið sá hlýjasti, síðan hitastigsskráningar hófust, og hún kennir koltvíildisstyrk lofthjúpsins um það.  Þá má spyrja hana, hvernig standi á því, að meðalhitiastig á jörðunni hefur verið hærra en núna, svo að munar nokkrum °C, þótt koltvíildisstyrkur andrúmsloftsins hafi þá verið mun lægri en nú er samkvæmt rannsóknum.  Er ekki rétt að reyna að átta sig aðeins á eðlisfræðinni, þætti H20 og CO2, og áhrifum El Nino-straumsins, sem flytur gríðarlega varmaorku og er sterkur um þessar mundir, áður en farið er að velta vöngum um heimsendi vegna koltvíildisstyrks í andrúmslofti ?

Téð Grein Orkumálastjóra bar firnalanga fyrirsögn, en ekki að sama skapi hnitmiðaða:

"Átta ár frá Parísarsamkomulagi - loftslagsmálin, stóra samhengið og tækifæri Íslands.

Hún hófst þannig:

"Fréttir af flóðum, aurskriðum, skógareldum og öðrum afleiðingum hækkandi hita á jörðinni hafa borizt frá öllum heimshornum í sumar, en júní í ár var heitasti mánuður, sem mælzt hefur á jörðinni.  Átta ár eru liðin frá því, að Parísarsamkomulagið var undirritað, sem fól í sér yfirlýsingu ríkja um, að þau myndu gera allt, sem í þeirra valdi stæði til að draga úr losun lofttegunda til að halda hækkun á hitastigi innan við 1,5°C."

Þarna leggst Orkumálastjóri á árar loftslagskirkjunnar og fer að stunda hreinræktaðan hræðsluáróður.  Það er ómálefnalegt að benda á hátt meðalhitastig í júní 2023 án þess að drepa á El Nino hafstrauminn, sem var afar mikill áhrifavaldur á veðurfar í sumar. Það er sleggjudómur að fullyrða, að skógereldar stafi af hlýnun jarðar.  Í mörgum tilvikum er um íkveikju að ræða, eins og frétt frá Grikklandi 25.08.2023 ber með sér, og tjónið er tilfinnanlegra en oft áður, af því að byggðin hefur teygzt að skógunum.  Þessi Orkumálastjóri rökstyður mál sitt sínu verr en áður hefur tíðkazt hjá þessu embætti. 

Hafði téð Parísarsamkomulag einhver áhrif ?  Losun gróðurhúsalofttegunda (Orkumálastjóri verður að gá að því, að ekki eru allar lofttegundir gróðurhúsalofttegundir !)  á heimsvísu hefur aukizt síðan 2015, og miklir losunarvaldar virðast alls ekki hafa tekið þennan gerning í desember 2015 alvarlega.  Þar með er loku skotið fyrir nokkurn árangur, sem um munar, enda hefur útblástur gróðurhúsalofttegunda aukizt frá 2015.  Í þessu verkefni pólitíkusanna er allt unnið með öfugum klónum, mikið talað, en lítið gert til bóta, enda er hver afleikurinn leikinn af öðrum. 

Að ætla sér að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi í raforkugeiranum með vindknúnum rafölum og sólarhlöðum er tæknilega eins fráleitt og hugsazt getur.  Umtalsverður árangur víðast erlendis er útilokaður án beizlunar kjarnorkunnar.  

Á Íslandi var fyrir löngu farin allt önnur leið.  Hér virkjuðu menn af miklu viti og framsýni vatnsföll og jarðhita til að leysa jarðefnaeldsneytið að miklu leyti af hólmi, enda er nú svo komið, að það stendur aðeins undir rúmlega 15 % af heildarorkunotkun þjóðarinnar.  Víða erlendis er þetta hlutfall nálægt 75 %.  Það er þess vegna hið versta níð, að landsmönnum skuli hafa verið gert að greiða að jafnvirði allt að MISK 400 fyrir heimskulega markmiðssetningu á síðasta áratug til Evrópusambandsins, sem ekki gat náðst hér, nema hægja á hjólum atvinnulífsins og skapa hér atvinnuleysi.  Vill villta vinstrið það, eða meinar það ekkert með öllu loftslagsprumpinu ? 

"Tragikómískt" er að sjá loftslagsráðherrann bísperrtan gorta af, að landið skulu ekki hafa þurft að greiða skussunum hærri upphæð, eins og Umhverfisstofnun var sennilega búin að áætla (MISK 800) og rataði inn í fjárlögin. Það er meinloka að láta Ísland taka þátt í þessu ETS-kerfi (Emission Trade System), sem er fyrir lönd á allt öðrum stað á jörðunni en við og á allt öðru róli.  Stórundarleg markmiðasetning íslenzkra stjórnvalda á þessum áratug og skortur á tæknilausnum fyrir skip og flugvélar mun valda gríðarlegum refsiskatti til ESB við uppgjör þessa áratugar.  Pólitískir vinglar hafa vélað um þessi mál innanlands og á erlendum vettvangi með þeim afleiðingum, að búið er að flækja þjóðina í skuldbindingar um að draga úr losun, sem ekki er hægt að standa við, nema hægja á öllum hjólum atvinnulífsins.  Það er aftur á móti sérvitringaviðhorf, sem stór meirihluti þjóðarinnar fellir sig ekki við, og sízt af öllu verkalýðshreyfingin né ábyrgðaraðilar ríkissjóðs, sveitarfélaga og lífeyrissjóða. 

"Þó að uppbygging endurnýjanlegrar orkuvinnslu sé lykilatriði fyrir orkuskiptin, er hægt að ná miklum árangri með því að nýta betur þá orku, sem við eigum nú þegar, með bættri orkunýtni. 

Alþjóða orkumálastofnunin hefur bent á, að hægt sé að ná sem nemur 40 % af markmiðum Parísarsáttmálans, er tengist losun frá orku, með þeim hætti."

  Hætt er við, að Orkumálastjóri sé hér algerlega úti á þekju.  Þótt hún telji orkuskipti brýn, tók það Orkustofnun þrefaldan eðlilegan tíma að fjalla um umsókn Landsvirkjunar um virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun.  Ef á að taka Orkumálastjóra alvarlega, verða að fara saman orð og gerðir. 

Þar sem jarðefnaeldsneyti er notað við raforkuvinnslu, er orkunýtnin léleg eða e.t.v. 40 %, ef ekki er um samtvinnun við hitaveitu að ræða, en með slíkri samtvinnun má tvöfalda nýtnina.  Líklega er Alþjóða orkumálastofnunin að vekja athygli á þessari lélegu orkunýtni, sem æskilegt er að komast frá.  Það á hins vegar alls ekki við á Íslandi, þar sem vatnsorkuverin eru rekin með um 90 % heildarnýtni.  Það er hægt að sækja fáein % þar með nýjum búnaði í stað gamals, en það borgar sig aðeins, ef endurnýjunarþörf er komin upp vegna slits hverfla og öldrunar einangrunar.

Á Íslandi eru vissulega varmaorkuver, en þau eru gjörólík flestum erlendum varmaorkuverum, því að þau eru knúin jarðgufu, og þau helztu eru einnig tengd hitaveitu, sem hækkar nýtni þeirra upp í ákjósanlega stærð.

Einnig er hægt að draga úr töpum í flutningskerfinu um fáein %, og það gerist um leið og spennuhækkað er vegna aukinnar flutningsþarfar. 

Orkunýtni á Íslandi batnar með innleiðingu rafgeymaknúinna bíla, og sú þróun er í gangi, en hún batnar ekki við að knýja farartæki með vetni vegna mikilla orkutapa, sem því er samfara. 

 

Hvert er Orkumálastjóri að fara með þessu klisjukennda mali sínu um nauðsyn þess að bæta orkunýtni á Íslandi ?  Orkumálastjóri verður að temja sér að tala skýrt og að vel athuguðu máli, eins og fyrirrennarar hennar hafa gert.  

Að lokum skrifaði Orkumálastjóri:

"Þrátt fyrir fjölbreyttar orkuauðlindir verður Ísland aldrei rafhlaða til að knýja alla raforkuþörf heimsins; það má sjá í heildarsamhengi mála.  [Furðulegt orðalag um einfalt reikningsdæmi - innsk. BJo.]  

Stærsta tækifæri okkar er einfaldlega að styðja við jákvæða þróun annars staðar, með því að flytja út okkar þekkingu um leið og við vinnum að því að klára orkuskiptin hér í takti við áherzlur stjórnvalda.

Þannig á Ísland möguleika á að vera fyrsta ríkið, sem sýnir, að hægt sé að reka heilt samfélag með grænni orku, og verða þar með dæmið, sem heimurinn þarf.  

Slík niðurstaða skapar Íslandi sérstöðu og fjölbreytt sóknarfæri á sviði viðskipta, utanríkis- og umhverfismála.  Spyrja má: ef Ísland getur það ekki, hver getur það þá ?"

Þetta er fullkomlega gagnslaust froðusnakk og draumórar einir án nokkurrar jarðtengingar.  Verkfræðingar Landsnets hafa bæði næga jarðtengingu og einurð til að reikna út á grundvelli líklegustu framvindu framboðs og eftirspurnar rafmagns á Íslandi, að ekki standi steinn yfir steini í tilkynningum stjórnmálamanna og embættismanna (markmið eru þetta ekki fyrir 5 aura) um stöðu á losun koltvíildis frá athöfnum Íslendinga árin 2030 og 2040. Kolefnishlutleysi náist fyrst árið 2050, en það er sá tími, sem ýmsar aðrar þjóðir á vesturhveli jarðar ætla sér.  Rándýrar montyfirlýsingar stjórnmálamanna í þessum skrýtnu málum eru alveg út í loftið og lýsa ábyrgðarleysi þeirra vel. 

Verkfræðingar Landsnets hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að tvöfalda þurfi raforkuvinnslu landsins frá árinu 2023, sem merkir, að virkja þarf með einum eða öðrum hætti 20 TWh/ár, til að Íslendingar verði sjálfum sér nógir með orku.  Með svipaðri framvindu og hér hefur verið í virkjanamálum frá gangsetningu Búðarhálsvirkjunar 2013 verður þessum áfanga náð á síðasta fjórðungi þessarar aldar, og gætu Íslendingar þá hæglega rekið lestina.

Til að forða meiri háttar umhverfisslysi, sem hlytist af uppsetningu risastórra súlna undir óskilvirka, vindknúna rafala í íslenzkri náttúru, þarf að stokka Rammaáætlun upp og færa vatnsaflsverkefni og jarðgufuverkefni úr biðflokki og yfir í nýtingarflokk (framkvæmdaflokk).  Ef snefill af umhverfisverndartilfinningu leynist í dyggðaskrautfjöðrum stjórnmála- og þrýstihópa ýmissa, ætti slík uppstokkun að ganga hljóðalítið fyrir sig. Ætlar loftslagsráðherrann að gera Íslendinga að Júmbóum orkuskiptanna vegna algers framtaksleysis í virkjanamálum ?  Hvað ætlar Orkustofnun að taka sér langan tíma í þetta skiptið til að sýna fram á, að vatnalög ESB/EES séu ekki brotin með núverandi áformum um tilhögun Hvammsvirkjunar.  Stundum er eins og stjórnsýslan sé stungin líkþorni, þegar hæst á að hóa.

  

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband