Ofurstrætó leysir ekki vanda umferðar

Borgarlína Dags B. Eggertssonar er umferðartæknilegt viðundur.  Slík heimskupör geta aðeins þrifizt í pólitísku umhverfi. Aðeins fordómafullir pólitíkusar geta tekið alvarlega hugmynd um að staðsetja ofurstrætó fyrir miðju núverandi akbrauta, trufla þar með bílaumferðina gríðarlega á framkvæmdatímanum og minnka afkastagetu núverandi akbrauta bifreiða umtalsvert. 

Það eru samt sáralitlar líkur á, að ofurstrætó (borgarlína) muni fækka bílum í umferðinni í slíkum mæli, að tafir í umferðinni minnki. Þetta hefur virtur og reyndur íslenzkur umferðarverkfræðingur sýnt fram á. Þar með er ver farið en heima setið.  Valin hefur verið úrelt tossalausn, sem mun hægja enn á umferðinni vegna þess, að hún þrengir að bílunum, og þeim mun sáralítið fækka í umferðinni með tilkomu ofurstrætó. 

Hugmyndin er afleit, og önnur lausn fyrir almenningssamgöngur hefur komið fram hjá sama umferðarverkfræðingi og áður var vitnað til.  Hún er mun ódýrari í hönnun og framkvæmd, truflar umferðina mun minna á framkvæmdatíma og þrengir ekki að almennri bílaumferð, þegar hún er komin í gagnið.  Þar er um að ræða viðbótar akrein hægra megin fyrir núverandi strætó og í sumum tilvikum fyrir almenna umferð einnig. 

 Fjármála- og efnahagsráðherra hefur sagt, að endurskoða verði samning ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um mannvirkjagerð til að draga stórlega úr töfum og að auka öryggið.  Við endurskoðunina þarf líka að geirnegla, hver á að reka strætó eða ofurstrætó.  Sveitarfélögin vilja koma klafanum yfir á ríkissjóð, en það er ekki hlutverk hans að reka almenningssamgöngur.  Nú munu framlög sveitarfélaganna til rekstrar vagna, sem oftast ganga tómir eða nærri því, nema um 8 mrdISK/ár.  Ætli megi ekki margfalda þá upphæð með gríska fastanum pí(hlutfall ummáls og þvermáls hrings) til að fá út árlegan hallarekstur af ofurstrætó að taknu tilliti til árlegs kostnaðar af endurnýjun vagnanna ?

  Við endurskoðunina þarf að koma verkfræðilegri hugsun að og slá út af borðinu hugaróra núverandi borgarstjóra um, að ofurstrætó taki við svo stórum hluta þeirra, sem með fjölskyldubílum fara nú, að umferðarteppur lagist.  Þetta er eintóm óskhyggja, borin von.  

Það er ekki nóg með, að verkfræðileg þekking á umferðarmálum fái ekki að njóta sín við tæknilegt fyrirkomulag samgöngusáttmálans, heldur virðist verkefnastjórnunarþekking, sem m.a. spannar stranga aðferðarfræði við gerð kostnaðaráætlana, vera algerlega hliðarsett.  Kostnaðaráætlun "Betri samgangna" á mörgum verkþáttum virðist þurfa að margfalda með pí til að nálgast raunveruleikann.  Það er mun stærri leiðréttingarstuðull en yfirleitt sést hjá Vegagerðinni.  Hin tæknilega og fjárhagslega hlið "Betri samgangna" er í molum.  Þetta risaverkefni er í skötulíki.  Yfir það þarf að setja stjórn með fólki með raunhæfa þekkingu á sviði verkfræði og verkefnastjórnunar, en ekki einhverjar einskís nýtar silkihúfur úr pólitíkinni.

Fossvogsbrúin er kafli út af fyrir sig, þar sem sérvizkan hefur tröllriðið fávizku á sviði verkefnastjórnunar.  Fyrst ákváðu arkitektar og pólitíkusar að hafa hana úr ryðfríu stáli, einvörðungu vegna útlitsins, og hún átti ekki að vera fyrir bílaumferð ?  Hvers vegna í ósköpunum ekki ?  Nú á hún að verða úr annars konar stáli vegna kostnaðar.  Hvers vegna ekki að fá brúarverkfræðingum Vegagerðarinnar það verkefni að hanna almennilega brú fyrir alls konar samgöngutæki og gangandi (hlaupandi) og láta þá ráða efnisvali út frá heildarkostnaði (fjárfestingu og viðhaldi), en ekki smekk einhverra spjátrunga ?  

Í forystugrein Morgunblaðsins var ekki skafið utan af hneykslanlegu káki fúskara, sem vilja troða ofurstrætó inn á höfuðborgarsvæðið, "af því bara", um leið og troðið verður illilega á þeim, sem kjósa fjölskyldubílinn til sinna ferða, og þegar upp verður staðið munu "allir" sitja í súpunni með handónýtt og rándýrt tæknilega mjög illa ígrundað samgöngukerfi.  Forystugreinin bar fyrirsögnina:  

"Ruglið um borgarlínu":

"Staðreyndin er sú, að hörðustu fylgismenn borgarlínunnar, þeir sem vinna að þéttingu byggðar í Reykjavík af nánast trúarlegri sannfæringu, plötuðu borgarlínuna inn á ríkisvaldið og aðra með því að setja þetta allt í einn pakka, en þvælast fyrir sjálfsögðum framkvæmdum að öðrum kosti.  Með ólíkindum er, hvernig aðrir láta plata sig, og nú, þegar komið er í ljós, svo skýrt að enginn getur neitað því, að forsendur eru ekki fyrir því að halda áfram vegna vanmats í upphafi, er byrjað að tala um, að allan tímann hafi verið vitað, að áætlanirnar hafi verið óraunsæjar, sem aldrei var reyndar upplýst um, og að nú þurfi að taka fleiri ár í að framkvæma borgarlínuruglið, sem í því samhengi er kallað samgöngusáttmáli til að rugla umræðuna."

Hvernig "Betri samgöngur" standa að þarfagreiningu, forhönnun og gerð kostnaðaráætlana, vitnar um, að þar á bæ valda menn ekki því verkefni, að búa til samgönguinnviði fyrir höfuðborgarsvæðið til framtíðar.  Það er niðurnjörvað í kringum "þéttingu byggðar".  Þar fer mikið púður í að búa til mjög óvistvæn lífsskilyrði, þar sem ekkert blasir við út um gluggann annað en veggurinn á næsta húsi. 

Það er mjög ógáfulegt að leggja úrelta tækni til grundvallar samgöngukerfinu alla þessa öld jafnvel.  Sjá menn ekki, að þróunin er í allt aðra átt en að ofurstrætó ? Nefna má rafknúnar skutlur, rafmagnsreiðhjól, deilibíla og sjálfkeyrandi bíla, svo að ekki séu nefndar litlar, rafknúnar þyrlur, sem eru í þróun.  Mun viturlegra er að skipuleggja sveigjanlega innviði með nýjum akreinum, göngu- og hjólastígum, mislægum gatnamótum, fækkun ljósastýrðra gatnamóta, og undirgöngum fyrir gangandi og hjólandi í stað þess, að ein hræða á leið yfir umferðaræð valdi nú allt of langri töf, jafnvel um háannatímann.  

"Til að bæta enn í ruglinginn er þetta svo sett í samhengi við samgöngumál almennt á landinu, rétt eins og sjálfsagðar samgöngubætur á höfuðborgarsvæðinu eða annars staðar á landinu hafi eitthvað með borgarlínu að gera, og að slíkum framfaramálum sé ógnað, sætti fólk sig ekki við borgarlínuruglið."

Téð borgarlína hefur verið hulin moðreyk allan tímann, enginn veit hvaðan hún kom, eða hvert hún fer.  Ómerkilegur blekkingaleikur hefur einkennt þessa draumóra allan tímann, enda finnst engin alvarleg þarfagreining fyrir þessar hugmyndir.  Kostnaðarhugmyndir eru í skötulíki, þannig að augljóslega ráða hér skýjaglópar og viðvaningar ferðinni án nokkurrar þekkingar á nútímalegri, kerfisbundinni verkefnastjórnun, sem bráðnauðsynleg er fyrir risaverkefni, ef ekki á að lenda með þau úti í fúafeni.

"Það á ekki að gera einfalda hluti flókna.  Borgarlínan yrði allt of dýr, líklega mrdISK 200-300, þegar upp yrði staðið, og á þá eftir að reikna inn rekstrartapið, og hver á að greiða það ?  Þegar við bætist, að borgarlínan leysir enga umferðarhnúta og gæti jafnvel aukið við þá með þrengingum gatna, er nauðsynlegt að taka afstöðu til hennar sérstaklega, hafna henni, en vinna að samgöngubótum."

Morgunblaðið á heiður skilinn fyrir að taka svo skýra og skelegga afstöðu gegn því tæknilega og fjárhagslega glapræði, sem borgarlínan (ofurstrætó) er.  Stærsti gallinn við þá samgönguhugmynd er einmitt sá, sem leiðarahöfundurinn nefnir, að ofurstrætó mun ekki greiða úr núverandi og komandi umferðarhnútum, eins og skýjaglóparnir, forkólfar hans, fullyrða út í loftið.  Þar með er tæknileg forsenda hennar brostin, og fjárhagshliðin er fúafen, sem viðkomandi sveitarfélög hafa ekki efni á og talsmaður ríkissjóðs, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur tilkynnt, að ekki komi til greina að velta yfir á hann, enda yrðu þau feiknaútgjöld einvörðungu afleiðing pólitískra mistaka jafnaðarmanna og tilhneigingar þeirra til að bruðla með skattfé almennings.   

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Frábær pistill Bjarni.

En það er bara staðreynd að allt og þá á ég við allt sem kemur

frá þessum borgarstjóra er meira og minna algjört rugl og bull.

Það er með ólíkindum að Reykvíkingar sætti sig við þessa óstjórn.

En á meðan engin mætir við ráðhúsið til að mótmæla hljóta Reykvíkingar 

að elska þessa óreiðu.

Sigurður Kristján Hjaltested, 23.9.2023 kl. 20:32

2 Smámynd: Jónatan Karlsson

Sæll Bjarni.

Þessi samantekt þín er hárrétt, líkt og segja má um flest önnur skrif þín, að frátöldum hugrenningum þínum um átökin í Úkraínu - auðvitað að mínu mati.

Hvað umferðina og fáránlega stöðu og áform um skipulagningu þeirra mála snertir, þá ætti einfaldlega að leggja áherslu á hraða greiðfæra A - V leið (Hringbraut og Mikklabraut) sem þýðir a.m.k. mislæg gatnamót við Kringlumýrarbraut og bæta við forgangsakgreinum þar sem svigrúm er (auðvitað hægra meginn) og fjarlægja göngbrautir (og leyfa gangandi t.d. að labba þessa metra að ljósum og undirgöngum við Lönguhlíð)

Sundabraut verður líka að setja strax í framkvæmd og tengja N -S leiðinni í gegnum allt höfuðborgarsvæðið með greiðri tengingu við Reykjanesbrautar slaufur við Elliðavog og áfram eftir Sævarhöfða og síðan Gufuneshöfða o.s.frv. og/eða við undirgöng við norðurenda Kringlumýrarbrautar og auðvitað með áherslu á forgangs línur og auðvitað í báðum útfærslunum hjólabrautir fyrir þá sem nota í þá mánuði sem hægt er að nota þær.

Brúin yfir í Kársnes er spennandi en þá auðvitað fyrir alla almenna umferð, því engin nauðsynleg ástæða er fyrir að hægt sé að sigla undir hana.

Skynsamlegt væri að hafa frítt í strætó og mætti t.d. kosta það með einhverjum af þeim milljörðunum sem greiddir eru í RÚV og nokkur önnur verkefni sem of langt mál er að telja upp hér.

Jónatan Karlsson, 24.9.2023 kl. 11:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband