Forsjálni Orkustofnunar

Það er átakanlegt að horfa upp á ríkisapparatið Orkustofnun í höndum Höllu Hrundar Logadóttur setja saman áætlun um neyðarviðbrögð með Almannavörnum, HS Orku, HS Veitum og ráðgjafarverkfræðistofu nú í miðjum jarðhræringum, sem leiddu til rýmingar Grindavíkur.  Hvers vegna í ósköpunum var ekki hafizt handa um þetta lífsnauðsynlega verkefni strax og jarðvísindamenn kváðu upp úr með, að eldsumbrotahrina væri hafin á Reykjanesi, og myndi hún standa yfir um aldaraðir, ef dám væri dregið af sögunni.  Þetta er ömurlegt dæmi um ríkjandi sofandahátt hins opinbera.  Það sefur yfirleitt á verðinum, og þar er lítið frumkvæði að finna. 

Kristján Jónsson birti Baksviðsviðtal við Höllu Hrund, Orkumálastjóra, í Morgunblaðinu 21. nóvember 2023:

""Óhjákvæmilega myndi slík niðurstaða [Svartsengisvirkjun óvirk] setja meiri þrýsting á raforkukerfið í heild sinni.  Núna liggur frumvarp fyrir Alþingi, sem snýr að raforkuöryggi almennings og er í meðferð Atvinnuveganefndar.

Stuðla á að því, að almenningur lendi ekki undir í samkeppni um raforku, en um er að ræða breytingartillögu, þar sem frumvarpið óbreytt tryggir almenningi ekki slíkan forgang.  Hættan er sú, að almenningur lendi undir í samkeppni um raforku, og þá er ég ekki að tala um vegna náttúruhamfara, heldur bara við aðstæður, sem við köllum venjulegar.  Samkeppni um raforku er mjög mikil, enda vilja margir kaupa raforku á Íslandi. Ef virkjunin í Svartsengi verður óstarfhæf í ofanálag, þá er enn mikilvægara, að breytingarnar á frumvarpinu nái fram að ganga til að styrkja stöðu almennings á öllu landinu varðandi aðgengi að raforku.  Við leggjum því áherzlu á, að breytingarnar nái í gegn og að frumvarpið verði afgreitt fyrir jól.""

 Frumvarp orkuráðherra í sinni núverandi mynd er runnið undan rifjum Orkustofnunar, enda er það vanhugsað og reist á vanþekkingu. Skömmtun rafmagns allt frá árinu 1969 hefur verið framkvæmd þannig hérlendis, að fyrst hefur s.k. ótryggð raforka, áður afgangsorka, verið tekin af fyrirtækjum með slíka samninga við orkubirgjana. Síðan hefur skömmtun forgangsorku verið látin bitna hlutfallslega jafnt á öllum, og um það eru ákvæði í langtíma raforkusamningum. Þessu vill Orkumálastjóri umturna og hefur talið orkuráðherrann á það, en það er ekki hægt með lagasetningu, því að það er bundið í samningum, þ.á.m. í langtímasamningum við stóriðjufyrirtækin.  Hlýtur hvert barn að sjá, að slík lagasetning felur í sér stórfellt brot á samningum ríkisins við m.a. erlend stórfyrirtæki, sem getur skapað ríkinu stórfellda skaðabótaskyldu og fyrirgert trausti á milli samningsaðila. Ætlar orkuráðherrann að láta draga sig á asnaeyrunum út í þetta Höllufen ?

Hin hlið þessa  máls snýr að þeim uppboðsmarkaði raforku, sem dótturfélag Landsnets undirbýr nú að innleiða á Íslandi samkvæmt Orkupakka #3 frá Evrópusambandinu.  Að undanskilja einn hóp viðskiptavina með lagaboði frá þessum markaði gengur ekki lagalega og er í andstöðu við Orkupakka #3, enda tíðkast slíkt hvergi annars staðar innan EES. Það sætir furðu, að Orkumálastjóri og Landsreglari ACER - Orkustofnunar ESB, sem á Íslandi er sama persónan, láti sér detta í hug, að þessi hugmynd gangi upp.  Miklu nær væri fyrir Landsreglarann (National Regulator) að taka það upp á vettvangi ACER, þar sem hún hefur seturétt án atkvæðisréttar með öðrum Landsreglurum EES, að vegna smæðar og fárra birgja á íslenzka orkumarkaðinum séu fleiri gallar en kostir við að innleiða uppboðsmarkað fyrir raforku á Íslandi og þess vegna leggi hún til, að á meðan Ísland er ótengt raforkukerfi EES þá þrýsti ESB ekki á um að koma þessum markaði á þar. 

Þetta væri ólíkt affarasælli stefnumörkun hérlendis en sú vegferð, sem Orkumálastjóri og orkuráðherra eru á núna með bútasaumi úr Orkustofnun til Alþingis. 

""Æðar raforkukerfisins eru ekki nógu sverar til að geta pumpað rafmagni af fullum krafti til að hita öll hús á Reykjanesi.""

Þetta er afleitt orðalag frá tæknilegu sjónarmiði, því að leiðarinn knýr ekki orkuflutninginn; hann er bara farvegur raforkunnar.  (Ef höfundur man líffræðina rétt, hreyfast hins vegar veggir slagæðanna til að auðvelda blóðstreymið.) Það er auðvitað í virkjununum, sem rafaflið verður til, og þær eru um þessar mundir svo mikið lestaðar, að ekki yrði hægt að bæta því álagi við, sem nemur rafhitunarþörf 10 þús. íbúða, jafnvel þótt Svartsengisvirkjunar nyti að einhverju leyti við.  Hvers vegna nefnir Orkumálastjóri þetta ekki ?

""Því sverari sem æðarnar eru [og hærri spenna á leiðurunum - innsk. BJo], [þeim mun] betur geta þær sinnt þörfum á ólíkum svæðum.  Dreifikerfið ber ekki, að allir íbúar færi sig úr hitaveitu yfir í að fullhita híbýli með rafhitun.  Dreifikerfið er ekki með nógu sverar æðar til að anna slíku [hústöflurnar eru ekki gerðar fyrir slíka álagsaukningu - innsk. BJo], enda kerfið ekki hannað til að fara yfir í rafhitun.  [Það er þjóðhagslegur sparnaður af hitaveitum - innsk. BJo.]  Þess vegna höfum við unnið markvisst með fyrirtækjunum á svæðinu, HS Orku, HS Veitum og Verkís og einnig Almannavörnum að tillögum að neyðarviðbrögðum.  [Hér er um að ræða skjal, sem ætti fyrir löngu að vera tilbúið og farið að vinna eftir.  Í stað þess að viðurkenna framkvæmdaleysi Orkustofnunar reynir Orkumálastjóri að skreyta sig með annarra fjöðrum - innsk. BJo.]  

Þau viðbrögð fela í sér aðgengi að hitagjöfum, eins og litlum rafmagnsblásurum, sem dreifikerfið þolir án þess að slá út, og geta þá haldið húsum fyrir ofan frostmark til að koma í veg fyrir skemmdir.  Í tillögunum er hvatt til þess, að aðgengi að búnaði sé tryggt bæði fyrir rafhitun og einnig fyrir s.k. neyðarhitaveitu.  Þar er átt við varmaskipta annars vegar, sem eru eins konar millistykki, sem tekur einhverjar vikur að smíða, og hins vegar, að hitagjafar, eins og olíukatlar, séu fyrir hendi.  Hluti þess búnaðar er til í landinu, eins og hjá Landsvirkjun og RARIK, en annað væri hægt að nálgast í gegnum leigu í neyð.  Við leggjum áherzlu á að tryggja aðgengi að búnaði strax, en um leið þarf að horfa á frekari nýtingu jarðhita á fleiri stöðum á Reykjanesi." 

Orðasúpa af þessu tagi er svo almenns eðlis og ómagnbundin, að varla getur talizt frambærileg ráðgjöf í neyð.  Mega íbúarnir ekki setja upp hitöld í íbúðum sínum, sem raftafla íbúðarinnar þolir ?  Allt þetta tal um getuleysi dreifikerfisins hjálpar íbúunum ekki neitt. 

Hvers konar varmaskipta á Orkumálastjóri við ?  Hver er varmagjafinn, og hver er varmaþeginn, og hvaða stærð er á þessum gripum ? 

Hvaða olíukatla í eigu Landsvirkjunar á Orkumálastjóri við. Landsvirkjun hefur svo lítinn áhuga á varaafli nú orðið, að hún lét rífa niður 2x35 MW eldsneytisknúna neyðarrafstöð í Straumsvík um 2015, og engum gagnast nú. Líklegt er, að grípa þurfi til olíukatla RARIK og OV, þar sem þeir eru staðsettir, ef Svartsengisvirkjun verður óvirk, svo að þetta er alls ekki tiltækur búnaður.  Orðagjálfur Orkumálastjóra um neyðarviðbúnað á Suðurnesjum sýnir aðeins, að ekkert bitastætt var til hjá Orkustofnun til að grípa til, ef í neyðirnar rekur í Svartsengi. Örlagadaginn 10.11.2023 var rokið upp til handa og fóta og gripið í tómt.  Nú er reynt að breiða yfir það.   

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband