Snarazt hefur á merinni

Á stuttu tímabili hefur verið hlaðið á ríkissjóð gríðarlegum böggum, sem auðvitað er í anda flokks fosætisráðherra, og Framsóknarflokkurinn hefur gjarna ratað inn í þessa blindgötu líka, eins og nýleg tillögugerð menningar-og viðskiptaráðherra um auknar ölmusur til listamanna, sem er algerlega úr takti við almennan boðskap ríkisstjórnarinnar um aðhald í ríkisrekstri nú um stundir.  Það bráðvantar fé í marga þarfa málaflokka, t.d. rekstrar- og viðhaldsfé til vegamála, og á sama tíma keppast Framsóknarráðherrarnir um að leggja fram gæluverkefni sín.  Hvað skyldi 1 stk "Þjóðarhöll" kosta, þegar upp verður staðið ?  Dettur einhverjum til hugar, að MISK 15 dugi ? Einhver nefndi leiðréttingarstuðul pí. 

Ábyrgðarlaus umgengni stjórnmálamanna við ríkissjóð hefur valdið mikilli skuldasöfnun hans síðan 2020, og þess vegna er lántaka ríkissjóðs til að fjármagna nýlegar skuldbindingar hans ekki fær leið. Meðalfjölskyldan í landinu þufti að greiða um kISK 700 árið 2022 vegna skuldabyrðarinnar.  Rúmur þriðjungur af greiddum tekjuskatti einstaklinga fór þá í þessa hít, sem var þreföldun hlutfallsins frá 2020. 

Á þessu tímabili hafa útjöld til útlendingamála farið úr böndunum og einboðið er að minnka útgjöldin með því að stemma stigu við mannfjöldanum, sem tekið verður á móti næstu áin, enda vantar húsnæði fyrir þetta fólk og innfædda, sérstaklega eftir rýmingu Grindavíkur. 

Skólarnir ráða ekki við verkefnið, sem er mjög erfitt, svo að ekki hillir undir betri kennslu almennt, sem lyft gæti PISA-meðaltalinu upp.  Hælisleitendur eru margir hverjir í þörf fyrir mikla læknisþjónustu, og  hópar af framandi slóðum, jafnvel heilaþvegnir af ofstækismönnum, aðlagast illa, sem kemur fram í yfirgengilega mörgum, sem komast í kast við lögin og eru dæmdir til fangavistar.  Allt veldur þetta gríðarlega miklum samfélagskostnaði, sem verður að koma böndum á með frávísun úr landinu, nema vinum okkar frá Úkraínu, sem eru frá stríðshrjáðu landi og hafa aðlagazt vel hér. Úkraínumenn og frumbyggjar voru beztu vinir íslenzkra landnema vestanhafs á 19. öld.

Í stöðu eins og þessari, þegar innviðir hrópa á meira fjármagn, en byrðar ríkissjóðs vaxa, verður ríkið að huga að sölu eigna, sérstaklega þar sem viðkomandi fyrirtæki eru í samkeppni við einkaframtakið að þarflausu.  Er ríkisrekin póstþjónusta tímaskekkja ?  Sjálfsagt er að losa alfarið um eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka og koma afrakstrinum "í vinnu" annars staðar.  Er fýsilegt að selja RARIK og/eða Orkubú Vestfjarða ?  Svona mætti lengi telja. 

Þessar vangaveltur eru ekki frumlegar, eins og sjá mátti af forystugrein Morgunblaðsins 14. marz 2024,

"Þörf þingsályktunartillaga",

en hún hófst svona:

"Óli Björn Kárason og nokkrir aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um sölu ríkiseigna, lækkun skulda ríkissjóðs og fjárfestingu í innviðum. Í tillögunni segir, að fjármála-og efnahagsráðherra sé falið að "skipa nefnd, sem móti langtímaáætlun um sölu ríkiseigna, lækkun á skuldum ríkissjóðs og fjáfestingu í innviðum.  Nefndin verði skipuð 3 sérfræðingum á sviði hagfræði, fjármála og lögfræði.  Nefndin skili áfangaskýrslu eigi síðar en 6 mánuðum eftir skipun og lokaskýrslu eigi síðar en 12 mánuðum eftir skipun."

 Þetta er ágætis tillaga, sem getur skilað samantekt um eignir ríkisins, sem til greina kemur að selja, og áætlun um það ásamt áætlun um lækkun skulda.  Það mun hins vegar aðallega koma í hlut næstu ríkisstjórna að nýta þá eigna- og skuldaskýrslu við framkvæmd stefnu sinnar, og þess vegna er allsendis óþarfi að bíða aðgerðarlaus eftir skýrslunni, heldur ljúka þegar höfnum söluferlum ríkisstjórnarinnar og fitja upp á annarri sölu úr samkeppnisgeiranum, sem hún telur sig geta leitt til lykta á kjörtímabilinu.  

"Í greinarerð með tillögunni er vakin athygli á, að skuldsetning ríkissjóðs og gríðarlegar vaxtagreiðslur hafi lamandi áhrif á íslenzkt efnahagslíf og hamli getu ríkisins til að veita þá þjónustu, sem ætlazt sé til, og að lækka álögur á launamenn og fyrirtæki."  

Ef tekið er mið af Svíþjóð, var gengið allt of langt í sóttvarnaraðgerðum hér og í að láta ríkissjóð deyfa fjárhagslegar afleiðingar þess fyrir einstaklinga og fyrirtæki.  Það er eins og örvænting hafi gripið ráðamenn og eytt var stórfé í að bólusetja almenning, þ.m.t. börn að óþörfu og með áhættu, margoft með tilraunaefnum (mRNA-genatækni), sem virkuðu mjög stutt og höfðu margvíslegar aukaverkanir á gollurshúsið, ónæmiskerfið o.fl.  Þegar enn alvarlegri faraldur gýs upp, munu aðgerðir að óbreyttu hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir afkomu og lánstraust ríkissjóðs, svo að draga verður lærdóm af reynslunni og horfa til Svíþjóðar.

"Þess vegna er það rétt, sem einnig kemur fram í greinargerðinni, að "lækkun skulda ríkissjóðs er eitt brýnasta verkefni samtímans og mikilvæg forsenda sóknar til bættra lífskjara.  Ungt fólk horfir upp á, að skuldirnar og tilheyrandi fjármagnskostnaður rýri lífskjör þess í framtíðinni.  Fyrir tugþúsundir ungra karla og kvenna, sem koma út á vinnumarkaðinn á komandi árum, er ekki sérstaklega eftirsóknarvert að eiga hlut í banka eða öðrum fyrirtækjum í gegnum sameiginlegt eignarhald ríkisins, ef greitt er fyrir eignarhaldið í formi verri lífskjara, með hærri sköttum og verri þjónustu hins opinbera.   Þeir, sem eldri eru, og ekki sízt þeir, sem þurfa nauðsynlega á þjónustu heilbrigðiskerfisins að halda eða fá aðra aðstoð, verða að sætta sig við lakari þjónustu og minni aðstoð en ella.  Miklar skuldir ríkissjóðs hafa því bein áhrif á daglegt líf þúsunda Íslendinga."

Þetta eru nokkuð góð rök fyrir því að selja sem fyrst, ef gott verð fæst, eignarhluti ríkisins í áhætturekstri og samkeppnisrekstri, t.d. Íslandsbanka, 40 % hlut í Landsbanka, Póstinn o.fl.  Landsmenn njóta nú langtíma fjárfestingar sinnar í Landsvirkjun með lágu raforkuverði og hárri arðsemi og ætti svo áfram að vera, þótt stjórnun fyrirtækisins sé áfátt.

Hvað skyldi vera að frétta af hástökkvara skoðanakannana um þessar mundir, Samfylkingunni, varðandi fullyrðingu tillögugerðarmanna um, að "lækkun skulda ríkissjóðs [sé] eitt brýnasta verkefni samtímans ..." ?  Ekkert bitastætt hefur heyrzt frá flokkinum síðan formaðurinn kúventi í málefnum hælisleitenda og  vakti um leið úlfúð í flokkinum.  Spyrja má, hvort flokkurinn sé stjórntækur vegna stefnuleysis.  Þá er hætt við, að hann leiði þjóðina út í algerar ógöngur með óábyrgri útgjaldaaukningu og skuldasöfnun.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband