Forgangsröðun

Óheillaspírall verðhjöðnunarÁ ögurstundum þjóðar, sem nú lifum við, er mikilvægara en í annan tíma að forgangsraða viðfangsefnum og að velja stefnumið og leiðir, sem sameina þjóðina fremur en að sundra henni.  Hvað skyldi þetta nú þýða í hinum kalda raunveruleika efnahagshruns ?

Það verður að forgangsraða í þágu Litlu-Gunnu og Litla-Jóns, þó að það kosti róttæka stefnubreytingu, t.d. í utanríkismálum.  Draugagangurinn í IMF, Alþjóða gjaldeyrissjóðinum, þar sem t.d. fulltrúa Sviss hafði verið tjáð, að umsóknin fyndist ekki, sýnir, að efasemdarraddir um IMF hérlendar höfðu talsvert til síns máls.  Evrópusambands ríkin eru á þeim buxunum að kúga Íslendinga til hlýðni.  Slíkt er illur fyrirboði um það, sem bíður þjóðarinnar, ef hún lætur glepjast til að fara inn í risaríkið. 

Grófasta birtingarmynd þessarar fjárkúgunar er beiting brezkra hryðjuverkalaga gegn íslenzkri bankastarfsemi í Lundúnum.  Það er óþolandi að vera í varnarbandalagi með þjóð, sem þannig fer með okkur.  Það á að taka slíkt ofbeldismál upp á vettvangi NATO um leið og samningaviðræður eru teknar upp í Moskvu um lán frá ríki, sem sýndi okkur hjálpsemi, þegar Bretar settu á landsmenn hafnbann í landhelgisdeilu.  Hinn siðferðislegi styrkur Íslands í þessu deilumáli um innlánsreikninga erlendis í einkabanka skráðum á Íslandi felst í því að hafa boðizt til að leggja málið fyrir dóm.  Á þessum grundvelli getum við sýnt fyrrverandi bandamönnum vígtennurnar og látið reyna á það, hvort landfræðileg lega landsins kemur okkur enn að haldi. 

Þýzk vísitala viðskiptavæntinga Hitt atriðið, sem nú þarf að leggja áherzlu á, er að forðast leiðir út úr vandanum, sem vitað er, að djúpstæður ágreiningur ríkir um á Íslandi.  Ekki þarf að eyða mörgum orðum að fáránleika hugmynda um að taka upp evru í blóra við Evrópubankann, ECB, og Evrópusambandið, ESB.  Við uppfyllum nú ekkert Maastricht skilyrðanna og munum ekki uppfylla þau öll næsta áratuginn vegna skulda ríkisins.  Þá hefur framkvæmdastjórn ESB nú sýnt Íslandi fádæma óbilgirni með því að setja Íslendingum stólinn fyrir dyrnar við afgreiðslu lánsumsóknar til Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, IMF.  Rökin fyrir því eru einfeldningsleg og ruddaleg.  Það má ekki gefa fordæmi, segir framkvæmdastjórnin.  Þetta er tóm vitleysa.  Það getur einfaldlega ekki orðið um neitt fordæmi að ræða í máli þjóðar, þar sem bankakerfið lagðist á hliðina á einni viku.  Slíkt er einstakt í Evrópu, enda var bankakerfið 12 sinnum stærra en þjóðarbúið.  Sviss komst næst því og var samt aðeins 2/5 að tiltölu. Tilskipun ESB á við um einstök bankagjaldþrot.  Siðferðisstyrkur Íslendinga í þessu máli felst í því að hafa boðizt til að leggja málið í gerðardóm og/eða fyrir dómsvald Evrópudómstóls. 

Miskunnarleysi framkvæmdastjórnar ESB er þannig gagnvart Íslandi, að hún skirrist ekki við að hneppa ókomnar kynslóðir Íslendinga í skuldafjötra til að bjarga eigin skinni og misheppnuðum tilskipunum um frelsi fjármagnsins, sem var eftirlitslítið á öllu evrópska efnahagssvæðinu, EES. 

Hvernig í ösköpunum halda menn, að vistin innan ESB gæti reynzt okkur bærileg ?  Hægt er að ímynda sér ósvífna og yfirgangssama embættismenn ESB lýsa því yfir, að vegna slæms fordæmis komi ekki til greina, að Íslendingar stjórni veiðum sjálfir á fiskimiðum sínum.  Nauðsynlegt sé, heildarinnar vegna, að allir sitji við sama borð.  Að stefna á samninga við ESB um aðild að sambandinu er að fenginni reynslu álíka mikill undirlægjuháttur og að gefa Bretum sjálfdæmi um það, hvort þeir fái afnot Keflavíkurflugvallar fyrir vígvélar sínar um jólin. 

Nú er framkvæmdastjórn ESB að verða uppvís að því að stinga undir stól gögnum um hrun makrílstofnsins í Miðjarðarhafi.  Þetta gerir hún að kröfu nokkurra áhrifamikilla aðildarríkja fyrir fund nefndar, sem á að ákveða makrílkvóta næsta árs.  Þessi vinnubrögð framkvæmdastjórnarinnar eru dæmigerð fyrir ábyrgðarleysi hennar, enda tröllríður lýðræðishallinn og spillingin þar húsum.  Þeir, sem ímynda sér, að einn íslenzkur fulltrúi þar til viðbótar 27 fulltrúum mundi einhverju breyta um vinnubrögðin þar á bæ, gera sig seka um hræðilegan barnaskap og leik að eldi.  Atburðir síðustu vikna ættu að hafa fært mönnum heim sanninn um, að í ESB eru ekki saman komnir neinir Íslandsvinir, þegar hagsmunaárekstrar verða, og að með aðild Íslands yrði tekin stórkostleg áhætta með fullveldisrétt Alþingis og sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar, sem bundið gæti komandi kynslóðum drápsklyfjar.  Þessi fullveldisréttur er eina brjóstvörn íslenzkra hagsmuna í viðsjárverðum heimi.  Án hans verður troðið á okkur miskunnarlaust.

Í þessari stöðu íslenzka þjóðfélagsins eru góð ráð dýr.  Það verður að láta reyna á það, hvort enn er hald í legu landsins, kæra Breta bæði fyrir ráðherraráði ESB og Nato og láta kné fylgja kviði, ef Nato guggnar á að refsa Bretum fyrir að beita hryðjuverkalögum gegn bandalagsþjóð.  Á sama tíma eigum við að taka upp að nýju samningaviðræður við Rússa um lántöku.  Réttindi til olíu-og gasleitar og-vinnslu eða forgangur til kaupa á olíu og gasi frá Drekasvæðinu og annars staðar úr íslenzkri lögsögu eru líka atriði, sem hægt er að egna fyrir orkuhungraða Evrópu.  Þjóðverjar hafa gefið fordæmi um náið samstarf við Rússa á þessu sviði með mikilli gaslögn á botni Eystrasalts í óþökk Pólverja, Eystrasaltslandanna, Svía o.fl.   

 

Atvinnuleysi í BNAMun aðgengilegra gæti reynzt að taka upp bandaríkjadal en evru.  Ekki er  vitað til, að Seðlabanki BNA setji nein skilyrði sambærileg Maastricht skilyrðunum.  Það er þó ótækt að ætla sér að varpa krónunni fyrir róða fyrir bandaríkjadal án samstarfssamnings við Seðlabanka BNA.  Að öðrum kosti gæti hæglega komið til peningaþurrðar hérlendis skömmu eftir skiptin.  Kosturinn við íslenzku krónuna er m.a. sá, að Seðlabanki Íslands ræður peningamagni í umferð, ræður afköstum seðlaprentsmiðjunnar.  Það er æskilegt að hafa tiltækt "Plan B", ef flotsetning krónunnar misheppnast.  Slíkt er t.d. fólgið í myntskiptum.  Ef flotsetning ætlar að verða of dýrkeypt miðað við nýja mynt, þarf að vera unnt að draga fram "Plan B". 

Eins og sést á grafinu hér fyrir ofan, vex atvinnuleysi nú hröðum skrefum í BNA og náði 6,5 % í október 2008.  Þetta er tvöfalt meira en nú er á Íslandi, en minna en í ESB.  Nú er talin vera veruleg hætta á verðhjöðnun ("deflation") bæði í BNA og í ESB.  Eftirspurn í hagkerfinu minnkar þá hröðum skrefum, og atvinnuleysi getur orðið hrikalegt við slíkar aðstæður.  Efsta myndin með þessari vefgrein er til marks um hjálparleysi hagfræðinnar andspænis vítahring verðhjöðnunar, sem t.d. Japönum hefur reynzt mikil þrautaganga að brjótast út úr.  Allir halda að sér höndum.  Þó að nafnvextir séu 0 %, geta samt verið háir raunvextir við þessar aðstæður.  Viljum við dragast inn í spíral af þessu tagi ?  Krónan getur hjálpað okkur við slíkar aðstæður.   

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Heyr, heyr! Loksins einhve skynsemisrödd í moldviðrinu. Þú mættir nefna varðandi lýðræðishallann í ESB og herraþjóðardóminansinn að nú á að hundsa 2 þjóðaratkvæðagreiðslur Í írlandi með valdi.  Einnig má nefna að við höfum ekki enn náð því atvinnuleysistigi, sem hefur verið norm í EU alla tíð.

Þetta bandalag er að liðast í sundur. Nú er okkur með bolabrögðum meinaður aðgangur að alþjóðlegu réttarkerfi. Hvað gerum við þá?

Er kannski málið að demba sér í búrókrasíuna með hausinn á undan og kæra þann gerning per se? Ég held það. Það á að kæra til evrópudómstólsins þá ákvörðun að við höfum ekki aðgang að evrópudómstólnum í málum sem skilja á milli feigs og ófeigs i framtíð þjóðarinnar.

Það fengi þá til að klóra sér í kollinum.

Takk fyrir frábæra grein.

Jón Steinar Ragnarsson, 15.11.2008 kl. 04:09

2 Smámynd: Bjarni Þór Hafsteinsson

Ég spái því að hér séu að gerast atburðir sem eigi eftir að vekja athygli á heimsvísu. Fólk er ekki ennþá að átta sig á því hvað er um að ræða sem ESB, Bretar og Hollendingar eru hér að að semja (stilla okkur upp við vegg) um.

Samkvæmt fréttum er verið að neyða Íslenska ríkið að skrifa upp á skuldaviðurkenningu upp á 640 miljarða, vegna Icesave reikninga. Hvernig fær ríkið tekjur til að geta staðið undir sínum skuldbindingum almennt? Jú með skattlagningu á tekjur einstaklinga. Sem sagt, þessi skuld er okkar almennings að greiða.

Landsbankinn sem bar ábyrgð á Icesave innlánsreikningum var einkafyrirtæki sem starfaði ekki í umboði ríkisins, hvaðþáheldur í umboði almennings á Íslandi. (Annað mál er að bankinn eins og sum ar aðrar fjámálastofnafnir var rekinn af þröngum hópi elítu sem gat fengið stórar upphæðir af lánsfé á lágum vöxtum og fært inná markaði er ríktu háir vextir, hirt vaxtamuninn og leikið milljarðamæringa).

Og hvað með þessar eignir sem sagt er að Landsbankinn eigi og geta komið á móti skuldum? Fullkomin óvissa ríkir um hvers virði þessar eignir eru og hverjar heimtur af þeim verða í framtíðinni. Bent hefur verið á allt eins sé líklegt að eingnirnar muni reynast lítils virði er á reynist. Að auki er ekki ólíklegt að það sé hvorki auðvelt né hreinlegt verk að halda lífi í eignum Landsbankans og hámarka virði þeirra.

Samt sem áður mun væntanlegt samkomulag um skuldarviðurkenningu ríkisins fela í sér að skuldin 640 Mi verði eign skattgreiðanda og það verði að koma í ljós hvað þrotabú Lansbankans mun geta gefið af sér.

Ljóst er að þær tölur sem hér eru á ferðinni eru allar úr takti við stærð og getu Íslenska hagkerfisins. Tala af stærðinni 600 Mi er skattpíning á þegna Íslands líklega marga áratugi fram í tímann, og jafnvel þó að eitthvað skili sér af eignum Landsbankans.

Það sem hér er á ferðinni snýst um mannréttindi. Ríkisstjórn Íslands hefur ekkert umboð til að skella þessari skuld á almennig og einhverja von um eignir Lansdbankans til hugsanlegrar tryggingar. Þessi banki starfaði ekki í nafni almennigs og er ekki á ábyrgð hans.

Lokaniðurstaða: Ríkisstjórn Íslands hefur ekkert umboð almennings til að samþykkja þessa skuldarviðurkenningu.

Varðandi lausn á deilunni við ESB, Breta og Hollendinga hlýtur það að vera skynsamlegt að viðurkenna það að allar innistæður viðskiptavina Landsbankans séu jafnréttháar, sama hvaða útibú er um að ræða og hvert þjóðerni viðskiptavinarins er. Íslendingar eru ekki að troða neinar illdeilur við Breska og Hollenska sparifjáreigendur. Innistæður almennt yrðu þá forgangskröfur í þrotabú bankans. Þetta þýddi að Íslenska ríkið myndi í raun afnema hina innlendu innistæðutryggingu sína og allir viðskiptavinir Landsbankans tækju á sig tjón í réttu hlutfalli við innistæður sínar. Ljóst er að þetta er ekki nákvæmlega tæknilega framkvæmanlegt svona þar er sumir viðskiptavinir LB eru nú þegar búnir að taka út sitt fé osfrv, en hugmyndafræðilega er þetta hægt. Það kæmi þá einhverskonar bakreikningur til Landsbankans eða ríkisins eftir því hvernig vinnst úr þrotabúi bankans. Þessi bakreikningur yrði viðráðanlegur fyrir Íslenska hagkerfið og sanngjarn. Málinu yrði þá lokið og engar risavaxnar skuldbindingar lagðar á Íslendinga til langrar framtíðar.

Ég vil sjá að það verði stofnuð hreyfing fólks hér á Islandi sem mun neita að borga skuldir sem það ber enga ábyrgð á.

VIÐ LÁTUM EKKI KÚGA OKKUR

Bjarni Þór Hafsteinsson, 15.11.2008 kl. 12:31

3 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Takk fyrir góðan pistil Bjarni.

Ég leyfði mér að vísa á hann úr mínum pistli sem varar við inngöngu í ESB.

Baráttukveðjur !

Ágúst H Bjarnason, 15.11.2008 kl. 16:52

4 Smámynd: Gerður Pálma

Þakkir fyrir góð skrif, mjög upplýsandi. 

Stærsta hætta Íslands í EU yrði að flestum líkindum fulltrúi okkar sjálfra, sbr. ráðamenn þjóðarinnar sem ekki hafa neina virðingu eða ábyrgð gagnvart landinu, stórhættulegt lið sjálfstæði landsins.  Mér finnst merkilegt að ekki hafa verið neinar umræður eða kröfur um að opna alla samninga og fjárhagsleg tengl við RIO TINTO og Kárahnjúkadæmið allt, það verður sjokk ekki í minna mæli en bankahrunið. Heldur betur búið að semja þrældómaskuldir fram í tímann þar. Það sem við erum nú að ganga í gegnum er bara æfing, það á mun meira eftir að koma í ljós.  Ísland getur orðið meiri hátta framhalds glæpareyfari.

Gerður Pálma, 15.11.2008 kl. 18:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband