22.1.2025 | 18:03
Sólhvarfastjórnin lömuð ?
Þing er ekki enn komið saman eftir kosningar og kemur ekki saman fyrr en í byrjun febrúar 2025, og sólhvarfastjórnin 2024 hefur setið í mánuð, en stefnuyfirlýsingin er þunnur þrettándi og lítt hjálplegur, og fyrstu tilburðir stjórnarinnar fálmkenndir, eins og t.d. að leita eftir hugmyndum almennings um sparnað í ríkisrekstri, þótt fyrir hendi séu tillögur um slíkt, t.d. nýlegar frá Viðskiptaráði. Nokkur embætti ríkisins í heilbrigðisgeiranum, sem þó sinna ekki sjúklingum beint, hafa vaxið ótæpilega og eru með ótrúlega mörg stöðugildi. Nægir að nefna Landlæknisembættið, Sjúkratryggingar Íslands og Lyfjastofnun. Eru þessi embætti að búa til óþörf verkefni í von um að réttlæta stærð sína ?
Utanríkisráðherra hefur byrjað ferilinn á því að undirbúa nýtt bjölluat í Brüssel, og er það hið versta mál og gæti orðið banabiti ríkisstjórnarinnar. Að öðru leyti hefur hún farið þokkalega að ráði sínu, og er sérstök ástæða að fagna framtaki Þorgerðar Katrínar að heimsækja stjórnvöld í Kænugarði og undirstrika stuðning Íslands við baráttu Úkraínumanna fyrir land sitt og fullveldi. Þann 24. febrúar 2025 verða 3 ár liðin frá upphafi þess hryllings, sem stríðsóður einræðisherra í Kreml leiddi yfir friðsama nágrannaþjóð, sem ekki þýðist ógnarstjórn hans og heimsvaldastefnu. Nú er góðu heilli tekið að fjara undan hernaðarvél illmennisins, og efnahagur Rússlands stendur á brauðfótum. Á árinu 2025 munu sögulegir atburðir gerast, sem marka munu framhald aldarinnar.
Elías Elíasson, verkfræðingur, velti fyrir sér hugmyndum, sem frá stjórnarflokkum sólhvarfastjórnarinnar hafa komið, en uppnámi geta valdið á þingi og eru ekki líkleg til að styrkja ríkisbúskapinn til lengdar eða vekja hrifningu á Svörtuloftum. Hann ritaði grein, sem birtist í Morgunblaðinu 10. desember 2024 undir fyrirsögninni:
"Á að skattleggja fjárfesta til að auka fjárfestingar ?"
Fjárfestingar eru undirstaða hagvaxtar og atvinnusköpunar, og sparnaður er undirstaða fjárfestinga. Stjórnarflokkarnir hafa rekið hornin í sparendur með tali um hækkun fjármagnstekjuskatts, sem þegar er í hæstu hæðum vegna skattlagningar verðbóta, sem er mjög óréttlát skattheimta.
Auðlindarenta er stjórnarflokkunum hugleikin, en benda má þeim á, að með gildum rökum hefur enn ekki verið bent á hana í sjávarútveginum. Megnið af innviðum landsins fyrir innlenda orku er á höndum opinberra aðila, og það er mótsögn fólgin í því að eltast við auðlindarentu í slíkum fyrirtækjum, því að auðlindarenta, þar sem hún er raunveruleg, hlýtur alltaf að lenda hjá eigandanum.
Grein Elíasar hófst þannig:
"Stærsti valkyrjuflokkurinn á þingi vill setja auðlindagjald á sjávarútveginn til að fjárfesta í heilbrigðisgeiranum. Sá næststærsti vill líka setja auðlindagjald á orkuna, væntanlega til að auka fjárfestingu í þeim geira, enda vantar orku, og orkuskipti standa yfir. Þriðja valkyrjan virðist líta á lífeyrissjóðina sem sjálfbæra auðlind á við hinar. "Ekki er öll vitleysan eins" var stundum haft á orði fyrir vestan. Er ekki betra að ræða, hvernig samfélög virka saman áður en svona tilraunastarfsemi er hafin ?"
Téð þríeyki er í háskaleiðangri með grundvallarstarfsemi í landinu með þessum hugmyndum sínum. Það getur valdið því, að þessir tekjuskattsstofnar rýrni, og hver er bættari með það ? Núverandi veiðigjald er innheimt með mjög harðri skattheimtu eða þriþjungi af nettótekjum. Þar á ofan kemur tekjuskatturinn, og er þá þessi skattheimta komin yfir 50 %, sem er glórulaust. Norskur sjávarútvegur, sem sá íslenzki á í samkeppni við, greiðir ekkert veiðigjald, en fær styrk úr ríkissjóði, hinum geisiöfluga norska ríkissjóði. Hver hefur einhvern tímann sýnt fram á auðlindarentu í íslenzkum sjávarútvegi með haldbærum rökum ?
Það er líklegra, að auðlindarenta hafi fundizt hjá framleiðendum raforku á Íslandi, en þeir eru flestir í eigu opinberra aðila, svo að það er rökleysa að leggja auðlindagjald á þessi fyrirtæki.
Málflutningur þriðja formannsins um skattlagningu á lífeyrissparnaðinn við inngreiðslu í lífeyrissjóð hljómaði í kosningabaráttunni eins og púkablístra. Púkanum á fjósbitanum var skemmt, þegar minnka átti lífeyriseign landsmanna vegna tortryggni í garð lífeyrissjóða og bábilja um, að þeir kynnu ekki með fé að fara. Efnahagsstefna sólhvarfa stjórnarinnar er ekki upp á marga fiska. Þar rekur hvað sig á annars horn, svo að fæðingin verður erfið.
"Auðlindarenta er sögð koma fram í vatnsorkunni, þegar upphaflegi fjárfestirinn hefur fengið fé sitt endurgreitt með hæfilegri ávöxtun. Hér sést fyrirbrigðið t.d. í vaxandi arðgreiðslum Landsvirkjunar til eiganda síns, sem er ríkið, [á] meðan framkvæmdir eru litlar. Það er þó ekki svo, að auðlindarenta jafnist á við afskriftir og vexti, þegar þeim lýkur; við taka viðhaldsfjárfestingar, sem oft jafnast á við 70 ára afskriftir."
Ef Landsvirkjun fengi nú á sig auðlindagjaldtöku vegna auðlindarentu, mundi arðgreiðslan minnka að sama skapi. Á tímum sem þessum, þegar brýnt er fyrir almannahag, að virkjanafyrirtækin fjárfesti eftir fremsta megni í aukinni raforkuvinnslugetu, væri það glórulaus ráðstöfun af hálfu nýs þingmeirihluta að íþyngja orkufyrirtækjunum með auðlindagjaldi. Hvernig ríkisstjórnin hagar fjáröflun fyrir ríkissjóð, verður ákveðinn prófsteinn á hana. Annar prófsteinn er auðvitað virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun í Neðri-Þjórsá, sem Héraðsdómur Reykjavíkur felldi úr gildi í janúar 2025, og hann gekk lengra. Hann felldi úr gildi leyfi Umhverfisstofnunar til breytingar á stuttu vatnshloti árinnar á grundvelli innleiddrar ESB-löggjafar. Þessi túlkun jafngildir banni við öllum vatnsaflsvirkjunum yfir ákveðnum stærðarmörkum, sem óljóst er, hver eru. Þetta er fráleit túlkun ESB-löggjafar og á vilja Alþingis, en er rakin til blýhúðunar 2011. Ef veigur hefði verið í nýja orkumálaráðherranum, hefði hann lagt fyrir ríkisstjórnina drög að bráðabirgða lögum til að setja framkvæmdir á beinu brautina, en þess í stað leikur hann tafaleik með frumvarpi fyrir Alþingi. Ef frumvarpið verður vel heppnað og verður að lögum fyrir miðjan febrúar 2025, fær ráðherrann einkunnina "Staðizt", en ella er hann fallinn.
"Hér á landi standa yfir orkuskipti, sem eru afar mikilvægt verkefni. [Þau] tryggja aukna hagkvæmni í orkunotkun, bætt orkuöryggi og þjóðaröryggi, auk þess sem þetta er ein öflugasta loftslagsráðstöfun, sem við getum ráðizt í hér á landi. En orkuverin, sem við þurfum að reisa, verða dýrari en þau, sem við höfum þegar á hendi, auk þess sem eitthvað kann að þurfa af vindorku. Vindorkan er óstöðug, og eina hagkvæma orkugeymslan, sem tiltæk er til að geta sett hana á markað í samræmi við eftirspurn eru lón vatnsorkuveranna. Til að nýta þau þannig þurfum við jafnmikið umframafl í vatnsorkuverunum og vindorkan býður fram. Aðeins takmarkað slíkt umframafl er fyrir hendi, þannig að þegar frá líður þurfum við að byggja jafnstórt vatnsorkuver á móti hverjum nýjum vindlundi. Það getur orðið dýr orka. Auðlindagjöld til viðbótar þessum fjárfestingum munu óhjákvæmilega hækka orkuverð.
Þetta segir okkur, að nú sé ekki rétti tíminn til að draga fjármagn úr þessum geira fyrir gæluverkefni stjórnvalda. Nú þarf að athuga, hvernig þessu fjármagni, sem fólgið er í auðlindarentunni, verði bezt varið. Er ríkissjóður endilega heppilegur milliáfangi fyrir þetta fjármagn ? Hvernig væri, að orkufyrirtækin ráðstöfuðu því bara sjálf ?"
Í landi takmarkaðra náttúrulegra orkulinda nær engri átt að reisa vatnsorkuver til að ganga 60 % af árinu sem varaafl fyrir vindorkuver. Við þurfum á hámarksnýtingu að halda. Vindrafstöðvagreifar eru með annað í huga. Þeir vilja nýta vindrafstöðvar fyrir álag, sem þolir sveiflukennt framboð. Þeir hafa nefnt rafeldsneyti, en afar léleg heildarnýtni fylgir slíkri framleiðslu, og fórnarkostnaðurinn er gríðarlegur, ef mannvirkin er sjánleg og heyranleg langar leiðir (tugi km), og þau spanna mikið flæmi m.v. orkuvinnslugetu. Þess vegna er þetta ekki góð leið til að samræma sjónarmið um náttúruvernd og orkuvirkjanir.
Mjög lítil orkuskipti eiga sér stað í landinu um þessar mundir vegna þess, að raforkan er uppseld, og hvatinn til rafbílakaupa var rýrður mjög í lok valdatíma síðustu ríkisstjórnar. Raforkuleysið hefur valdið því, að fjöldi álitlegra viðskiptatækifæra hefur farið í súginn. Nú er verið að endurræsa kjarnorkuverið Three Mile Island í Bandaríkjunum og búið að gera samning um sölu allrar raforkunnar þaðan til gagnavera, sem sinna gervigreind. Orkuverðið verður 110 USD/MWh. Ekki er að efa, að hægt hefði verið að laða hingað nokkur slík gagnaver, ef orkuframboð væri fyrir hendi, svo að dæmi sé tekið af viðskiptavini, loðnum um lófana.
"Sjávarútvegurinn hefur síðan kvótakerfið var tekið upp og styrkjakerfið var aflagt, hagrætt gífurlega. Þessi hagræðing var m.a. möguleg vegna stórbætts vegakerfis, sem gerði hagkvæmara að flytja afla landleiðina [á] milli afurðastöðva í stað þess að sigla með hann, og þar með urðu fiskmarkaðir skyndilega vel virkir, og bætti það um betur. Aukinn hagnaður var nýttur til að fjárfesta í skipum með betri orkunýtni, sem er mikið framlag til umhverfismála. Einnig var ríkulega fjárfest í nýsköpun, vöruþróun og markaðsmálum, sem allt bar ávöxt. Upp risu alþjóðlega viðurkennd fyrirtæki, eins og Marel og Kerecis. Enn eitt fyrirtækið, Bláa hagkerfið, vinnur nú að nýju kerfi til stjórnunar fiskveiða á grundvelli gervigreindar, sem hefur ótæpilega möguleika í för með sér til hagræðingar og verndunar stofna.
Þessu framfaraskeiði í sjávarútvegi er ekki lokið og því ekki hægt að segja, að ekki sé full þörf fyrir fjármagn í greininni. Fjármagn í fiskveiðum og -vinnslu er hins vegar ekki bundið, og opið er fyrir fjárfestingar þeirra fyrirtækja í öðrum greinum. Er ekki einfaldast, sé vilji fyrir hendi að auka fjárfestingar í heilbrigðisgeiranum, að opna rækilega fyrir einkaframtakið í þeim geira ?"
Íslenzkur sjávarútvegur býr við skökk samkeppnisskilyrði, sem stjórnmálamenn hafa búið honum, þar sem eru há veiðigjöld, á meðan sjávarútvegur, sem sá íslenzki keppir við á mörkuðum, t.d. sá norski, býr við opinberan stuðning. Sjávarútvegurinn verður að fá að safna í sjóði, því að sveiflur lífríkisins eru miklar og nægir að nefna loðnuna í því sambandi. Enginn veit, hvert kólnun hafsins af völdum bráðnunar Grænlandsjökuls leiðir. Það er því óráðshjal af hálfu núverandi ríkisstjórnarflokka að auka enn álögur á sjávarúrveginn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.1.2025 | 18:07
Stjórnsýsla Reykjavíkur á sviði mannvirkjagerðar er í molum
Samfylkingin og píratar hafa undanfarinn áratug rekið lóðamál, byggingamál og samgöngumál út frá kenningu, sem reist er á fölskum forsendum og stendst þess vegna ekki tæknilega rýni, eins og margoft hefur komið fram. Þetta er kenningin um það, að umferðaröngþveiti í Reykjavík og nærsveitum verði aðeins leyst með "borgarlínu", sem eru miðjusettar 2 akreinar, 1 í hvora átt, enda slík lausn augljóslega sett til höfuðs fjölskyldubílnum. Þetta er langdýrasta lausnin og kallar að mati þeirra, sem þessa lausn bera fyrir brjósti, á að þvinga fólk bókstaflega vegna þrengsla út úr fjölskyldubílnum og upp í vagna "borgarlínu" og aðra vagna og jafnframt á þéttingu byggðar út frá ásum "borgarlínu". Hér er misheppnuð og stórkarlaleg forræðishyggja vinstri flokkanna að verki, sem felur í sér lífsháttabreytingu borgaranna til hins verra og stenzt ekki tæknilega og fjárhagslega rýni.
Ekki nóg með þetta, heldur hefur s.k. "þéttingarstefna" rýrt lífsgæði íbúanna, sem fyrir eru, þar sem borgaryfirvöldum dettur í hug að bera niður, jafnvel með stórhýsi, sem aðalskipulag veitir engan ádrátt um. Þetta hefur komið áþreifanlega fram í umræðunni um vöruhús í Suður-Mjódd, sem er u.þ.b. jafnhátt fjölbýlishúsi þar í 14 m fjarlægð.
Píratinn, sem stjórnar umhverfis- og skipulagssdviði borgarinnar, kom af fjöllum og fór að kenna verkferlum um. Hún er ljóslega óhæf til þessa ábyrgðarhlutverks og ætti þegar í stað að segja af sér. Píratar axla ekki ábyrgð, enda sjá þeir bara flísina í annarra auga, en ekki bjálkann í eigin auga.
Í Morgunblaðinu 18. desember 2024 birti Baldur Arnarson frétt um Álfabakka 2 undir fyrirsögninni:
"Margir komið að framkvæmdinni".
Hún hófst þannig:
"Halldór Þorkelsson, lögfræðingur framkvæmdaaðila í Álfabakka 2, segir þá hafa átt í miklum samskiptum við fulltrúa borgarinnar vegna vöruhússins í Suður-Mjódd. Þeir eigi því bágt með að sjá, hvernig útkoman eigi að koma fulltrúum borgarinnar á óvart.
Tilefnið er fréttaflutingur af nýbyggingu í Álfabakka 2, en af því tilefni vill félagið, sem byggir og á húsið, Álfabakki 2 ehf, árétta nokkur atriði. Í fyrsta lagi sé framkvæmdin unnin í samræmi við allar gildandi heimildir."
Þegar óhæfir pólitískir stjórnendur skipulags- og mannvirkjamála Reykjavíkur voru staðnir að verki að virða hagsmuni íbúanna ekki viðlits í ákafa sínum að leggja höfuðáherzlu á þéttingu byggðar, þá fóru þeir undan í flæmingi, voru hissa og kenndu jafnvel framkvæmdaaðilanum um, hvernig komið var. Þetta sýnir, að stjórnsýsla Reykjavíkur á þessu sviði er í molum. Það er brýnt að kasta óhæfum sérvitringum út úr borgarstjórn, eins og Alþingi 30.11.2024, í næstu sveitarstjórnarkosningum. Farið hefur fé betra.
Úrdráttur viðtals við Halldór Þorkelsson:
"Hvernig var málið kynnt fyrir haghöfum og nágrönnum ? "Skuldbindingar framkvæmdaaðila eru gagnvart skipulags- og byggingaryfirvöldum, og gagnvart þessum aðilum eru allar teikningar, áformaður frágangur, útlit og fyrirkomulag kynnt. Það er síðan á vegum borgarinnar, hvernig staðið er að nánari kynningu gagnvart nærliggjandi aðilum og öðrum hagaðilum. Borgin var alfarið með það." "
Hin pólitíska ábyrgð í þessu máli liggur hjá hinum pólitíska kommissar, sem settur var yfir umhverfis- og skipulagssvið. Þar er um að ræða óhæfan pírata, silkihúfu, sem algerlega hefur brugðizt starfsskyldum sínum í þágu íbúanna og verður að láta þegar í stað af þessu hlutverki, sem hún ræður ekki við. Hún hefur bætt gráu ofan á svart með því að fara undan í flæmingi og kenna öllu öðru um en sjálfri sér. Þarna hafa menn það, sem auðvitað var vitað fyrir, hvers konar stjórnendur píratakjánarnir eru, og hvernig þeir umgangast lýðræðislega ábyrgð sína.
"Er rétt, að byggingarheimildir hafi ekki verið fullnýttar, en framkvæmdaaðili hafi engu að síður greitt fyrir þær allar ?
"Já, það er laukrétt. Og ekki bara það, heldur lögðum við fram beiðni í ljósi þess, að byggingarlóðarhafi er krafinn um greiðslu byggingarréttar fyrir allt að 15 þús. m2 byggingu ofanjarðar. Það varð fljótlega ljóst, að það væri ekki talið skynsamlegt að ráðast í framkvæmd á stærra húsi en sem nemur 11.500 m2. Og þá fást þau svör hjá borginni, að það yrðu ekki gerðar breytingar á þessari greiðsluskyldu, nema gildandi diliskipulagi yrði breytt. Þar af leiðandi fórum við fram á breytingar á gildandi deiliskipulagi, þannig að byggingarmagn á þessari lóð yrði fært niður í 11.500 m2. Það var ekki fallizt á þá beiðni.""
Á umhverfis- og skipulagssviði var forystan sem sagt gallhörð á því að byggja 30 % meira á umræddri lóð en raumin varð. Borgin samþykkti líka hæð byggingarinnar. Það er við hana að sakast í þessu máli. Að enginn skuli vera látinn taka hatt sinn og staf við þessar aðstæður sýnir, að stjórnkerfi borgarinnar, lengstum undanfarinn áratug undir forystu Samfylkingarmannsins Dags B. Egertssonar og nú framsóknarmannsins Einars Þorsteinssonar, er gegnumrotið. Það vakti athygli á dögunum, að Dagur B., sem hafði talið sér þingflokksformennsku hjá Samfylkingu vísa, var ekki talinn verðugur þeirrar stöðu af formanni flokksins. Spurning vaknar, hvaða erindi maður, sem er í frystingu hjá Kristrúnu Frostadóttur, átti á þing ?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.1.2025 | 18:25
Hlutverk vindorkuvera á Íslandi
Uppsetning vindorkuvera á Íslandi er afturför í virkjanasögu landsins. Vel hefur tekizt til með að fella núverandi vatnsafls- og jarðgufuver að náttúru landsins, og þótt tekið sé tillit til lands, sem farið hefur undir vatnsmiðlanir virkjana, þá er landþörf þessara virkjana m.v. raforkuvinnslugetu þeirra, GWh/ár, lítil m.v. vindorkuver. Í ofanálag er mesta hæð og fyrirferð spaðanna, sem fanga vindinn og knýja rafalana (>200 m), slík, að mannvirkin verða áberandi í landslaginu langar leiðir. Vindorkustöðvar eru þess vegna neyðarbrauð í íslenzku umhverfi. Uppsetning þeirra er vart réttlætanleg, nema í alvarlegum afl- og orkuskorti, eins og nú hrjáir landsmenn, en allt of hár fórnarkostnaður fylgir þeim, til að uppsetning vindorkustöðva til rafmagnsframleiðslu fyrir rafeldsneytisframleiðslu sé réttlætanleg.
Ástæðan er fyrirferð vindorkuvera og afspyrnu léleg orkunýtni við að framleiða rafeldsneyti með raforku úr vindorku. Sem kunnugt er þá er rekstur vindorkuvera svo slitróttur að líkja má við full afköst í 18 vikur og kyrrstöðu í 34 vikur á ári. Orkuverið stendur á fjallinu eða á heiðinni eða annars staðar gagnslaust og öllum til ama í 65 % af árinu. Nýtni við að breyta raforkunni í hreyfiorku með bruna rafolíu er 16 %, með bruna metanóls 16 %, með bruna ammóníaks 19 %, og til samanburðar með bruna vetnis í efnarafala 48 %.
Við framleiðslu á "grænu" eldsneyti er verið að breyta háu orkustigi í lágt orkustig, sem segir til um nýtanleika raforkunnar. Raforka er á hæsta orkustiginu, enda er hún notuð til að knýja rafbúnað með litlum töpum í flestum tilvikum (lýsingarbúnaður hefur tekið stórstígum framförum varðandi nýtni (birta á afleiningu). Eldsneyti framleitt með raforku felur í sér lækkun orkustigs, sem að jafnaði ber að forðast, því að stefna ber að beztu mögulegu hagkvæmu nýtni.
Vetni er í öllu rafeldsneyti, og rafgreining þess útheimtir um 23 kWh/kg, sem er um 77 % meira rafmagn en þarf til rafgreiningar súráls, og úr álinu eru smíðaðir nytjahlutir, sem suma má nota í stað annarra málma til að draga úr orkunotkun. Þarna er því ólíku saman að jafna. Til að framleiða rafeldsneyti fyrir einn eldsneytisbíl þarf raforku, sem dugir til að knýja 5 rafmagnsbíla. Sú notkun rafeldsneytis er þess vegna glórulaus. Meira er horft til notkunar rafeldsneytis í vinnuvélum, skipum og flugvélum. Það er ótímabært fyrir Íslendinga að fórna stórum landsvæðum undir vindorkuver til að framleiða rafeldsneyti fyrir þessi tæki, því að ódýrara og umhverfisvænna er að rækta jurtir, t.d. repju, til að vinna olíu úr, og síðan er tækniþróunin í þá átt að nota rafmagn til að knýja æ stærri vélar í framtíðinni.
Íslendingar eru bundnir á klafa Parísarsamkomulagsins frá 2015 um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í þeim mæli, að hækkun hitastigs jarðar frá um 1800 haldizt innan við 1,5°C. Þetta er mjög loðin stefnumörkun, sem mun fyrirsjáanlega fara í vaskinn innan tíðar samkvæmt mælingum Sþ. Á grundvelli þessa var Íslendingum úthlutaður losunarkvóti frá árinu 2020, sem þýðir, að f.o.m. því ári og fram t.o.m. 2030 skulu þeir draga jafnt og þétt úr losun, svo að á árinu 2030 nemi hún 29 % lægra gildi en árið 2005. "Metnaðarfullir" og sanntrúaðir stjórnmálamenn í Evrópusambandinu, ESB, og EFTA-ríkjunum í EES, Noregi og Íslandi (óljóst með Liechtenstein) hækkuðu þetta markmið síðan upp í 41 %, sem gerir markmiðið erfitt viðureignar að óbreyttu. Að jafnaði þarf að draga úr losun hérlendis um 120 kt/ár til að ná þessu stranga markmiði. Það jafngildir 35 k eldsneytisbílar/ár úr umferð, sem er óraunhæft m.v. eðlilega endurnýjun. Aðrir notendur, t.d. fiskiskipin, gætu líklega mörg hver blandað eldsneyti sitt með lífdísilolíu, ef hún verður fáanleg á samkeppnishæfu verði, og landbúnaðurinn og sorphirðan gætu líklega dregið úr losun sinni, svo að í heild mætti sennilega með átaki ná þessum 120 kt/ár CO2.
Í grein Egils Þ. Einarssonar, efnaverkfræðings, sem birtist í Bændablaðinu 19. desember 2024 undir fyrirsögninni:
"Loftslagsmál og orka",
er m.a. fjallað um orkuskipti:
"Í marz 2022 var gefin út skýrsla á vegum Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins með heitinu "Staða og áskoranir orkumálum". Meginniðurstöður skýrslunnar eru nokkrar sviðsmyndir fyrir orkuöflun til áranna 2040-2050 og er metið fyrir hvert tilvik, hver aukningin þarf að vera í raforkuframleiðslu.
Grunnsviðsmyndin krefst 13 % aukningar raforkuframleiðslu [2600 GWh/ár - innsk. BJo] og miðast við að uppfylla grunnþarfir íslenzks samfélags og orkuskipti að hluta. Sú stærsta m.v. grunnþarfir samfélagsins, full orkuskipti á landi, sjó og lofti og þarfir stórnotenda á raforku og orkusækins iðnaðar og krefst 124 % aukningar [25 TWh/ár - innsk. BJo]. Skýrsluhöfundar taka ekki afstöðu til þessara tillagna, en fram kemur, að ef stefnt er að áframhaldandi hagvexti og sókn í útflutningi sé nauðsynlegt að auka raforkuframleiðslu [?!] um 100 MW/ár næstu 20-30 árin."
Þarna er í lokin ruglað saman hugtökum. Uppsett afl 100 MW/ár getur framleitt um 700 GWh/ár af raforku, sem eru 17,5 TWh/ár á 25 árum. Í 124 % sviðsmyndinni er reiknað með talsverðri framleiðslu á rafeldsneyti, sem felur í sér orkusóun og er þess vegna neyðarbrauð. Aðrar leiðir eru færar, og tækniþróunin mun geta af sér lausnir, sem fela í sér minni orkusóun.
Ný ríkisstjórn styðst við loðinn stjórnarsáttmála og "selvfölgeligheder", en samt virðist mega telja, að þessi sólhvarfaríkisstjórn vilji fremur hagvöxt en hitt. Hins vegar virðist henni ekki annt um útflutningsatvinnuvegina, því að í loðbrókinni er gælt við að grafa undan samkeppnishæfni þeirra, sem er grafalvarlegt mál fyrir lífskjör þjóðarinnar. Þjóðinni fjölgar og einvörðungu 3 % hagvöxtur á ári mun krefjast tvöföldunar raforkuvinnslunnar á 30 árum, þótt tekið sé tillit til bættrar orkunýtni með tækniframförum. Það þarf að velja orkuvinnslukosti á grundvelli þessarar þarfar og finna út, hvort hægt er að finna virkjunarlausnir, sem eru viðunandi út frá hófstilltum umhverfisverndarsjónarmiðum. Vonandi þarf að grípa til sem fæstra vindvirkjana.
Um "grænt eldsneyti" hefur Egill Þ. Einarsson m.a. eftirfarandi að segja:
"Við framleiðslu á "grænu" eldsneyti ber að hafa í huga, að verið er að umbreyta hærra orkustigi í lægra. Raforka er hæsta stig orku, og hægt er að nýta hana til að knýja vélar og rafbúnað beint að mestu án taps. Eldsneyti, sem framleitt er með raforku, inniheldur efnaorku, sem er lægra orkustig. Við bruna eldsneytis myndast varmi, sem notaður er til að knýja aflvélar. Aðeins um fjórðungur upprunalegu orkunnar nýtist í þessu ferli, en afgangurinn breytist í glatvarma. Framleiðsla á vetni með rafgreiningu er mjög orkufrek, og fyrir 1 kg af rafolíu þarf 22-24 kWh raforku. Til þess að framleiða eldsneyti fyrir 1 bensínbíl þarf raforku, sem dugir til að knýja 4-5 rafbíla. ..... Þess ber að geta, að ef vetni er notað á efnarafal, er nýtni tvöfalt meiri en fyrir annað rafeldsneyti."
Af þessu sést, hversu gríðarleg orkusóun felst í framleiðslu rafeldsneytis. Það er ekki verjanlegt að nota takmarkaðar orkulindir Íslands til framleiðslu rafeldsneytis í miklum mæli og alls ekki til útflutnings. Þetta ber að hafa í huga við veitingu virkjanaleyfa. Takmörkuðum orkulindum landsins ber að ráðstafa með skilvirkum hætti til orkuskipta og innlendrar atvinnuþróunar. Hvort tveggja leiðir til hagvaxtar, ef vel er á spilunum haldið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)