Færsluflokkur: Umhverfismál

Forræðishyggjan tröllríður borgarstjórn Reykjavíkur

Hafa Reykvíkingar samþykkt það í almennri atkvæðagreiðslu, að viðhorf Samtaka um bíllausan lífsstíl verði lögð til grundvallar aðal- og deiliskipulagi Reykjavíkur ?  Nei, og það er orðið aðkallandi, að þeir fái að tjá sig í almennri atkvæðagreiðslu um þetta og þá óvissuferð, sem meirihluti borgarstjórnar er kominn í með s.k. Borgarlínu, sem er sannkölluð sorgarlína.  Til einföldunar mætti spyrja, hvort borgarbúar vilji fá mislæg gatnamót inn á aðalskipulag og deiliskipulag alls staðar, þar sem Vegagerðin ráðleggur slíkt, og hvort borgarbúar kjósi fremur "þunga" borgarlínu á miðju vegstæðis eða nýja sérrein hægra megin götu, þar sem slíkt gæti stytt umferðartíma strætisvagna á annatímum samkvæmt tillögum Betri samgangna fyrir alla".  Núverandi meirihluti borgarstjórnar er að keyra fjárhag borgarinnar í þrot og bílaumferð í borginni í allsherjar hnút.  

Varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Þorkell Sigurlaugsson, gerði skýra grein fyrir valkostum borgarbúa við útúrborulega stefnu sérvitringanna í meirihluta borgarstjórnar í umferðarmálum í Morgunblaðsgrein 14. janúar 2023 undir fyrirsögninni:

"Mengun og vondar samgöngur í boði borgarstjórnar".

Hún hófst þannig:

"Ein aðalfrétt að undanförnu er mengun yfir hættumörkum í Reykjavík.  Heilbrigðisfulltrúi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur taldi í fréttum hjá RÚV og Stöð 2 þann 4. janúar [2022] einu lausnina vera að takmarka umferð og borgin þyrfti að fá skýrari heimild í lögum til að framkvæma slíkt.  

Varaformaður Landverndar var með svipaða orðræðu á sjónvarpsstöðinni Hringbraut 11. janúar [2022], að minnka þyrfti umferð og vildi reyndar kenna nagladekkjum einnig um svifryk þessa dagana.  Ekkert var minnzt á, að vandamálið er fyrst og fremst heimatilbúið vegna langvarandi aðgerðaleysis borgarstjórnar Reykjavíkur."

Það er dæmigerð forræðishyggja að baki því að láta sér detta í hug að grípa inn í líf og lifnað fólks með svo róttækum og skaðvænlegum hætti að banna t.d. fólki með prímtölu í enda bílnúmers síns að aka um götur allrar Reykjavíkur á grundvelli hámarks mæligildis NO2 og/eða svifryks með þvermál undir 10 míkrómetrar nokkrum sinnum á sólarhring yfir viðmiðunarmörkum. Það, sem skiptir höfuðmáli hér, er varanleiki gildanna yfir mörkum, og hversu víðfeðm mengunin er, þ.e. hversu lengi flest fólk þarf að dvelja í menguninni. 

Þótt mæligildi skaðlegra efna á gatnamótum Grensásvegar og Miklubrautar hafi á fyrsta hálfa mánuði ársins 2023 verið í 40 klst yfir viðmiðunarmörkun, er fráleitt að gera því skóna, að einhver hafi á tímabilinu andað þessu slæma lofti svo lengi að sér og umferðartakmarkanir í borginni á þessum grundvelli þess vegna fráleitar.  Að þessu leyti eru aðstæður ósambærilegar við útlönd almennt séð.

  Í Reykjavík eru froststillur (verstu skilyrðin) svo sjaldgæfar, að heilbrigðu fólki hefur ekki stafað ógn af ástandinu, en mæligildin eru nytsamleg til að vara fólk með viðkvæm öndurnarfæri við, og allir geta gert ráðstafanir til að skapa yfirþrýsting í bílnum á verstu stöðunum, t.d. á gatnamótum Miklubrautar og Grensásvegar, en þar mega vegfarendur þrauka í bið á umferðarljósum í boði steinrunnins afturhalds í borgarstjórn, sem vill ekki leyfa Vegagerðinni að setja upp þarna mislæg gatnamót, sem svara kröfum tímans, en forneskjan í borgarstjórninni vill halda höfuðborginni á hestvagnastiginu.

Að eftir hverjar borgarstjórnarkosningar skuli ætíð vera lappað upp á fallinn meirihluta hinnar afturhaldssömu og sérvizkulegu Samfylkingar er þyngra en tárum taki, enda er hagur borgarinnar kominn að fótum fram. Þar ber Dagur, fráfarandi borgarstjóri Samfylkingar, mest ábyrgð, en mun smeygja sér undan henni.  Hann er vissulega sekur um óstjórn og vanrækslu.  

"NO2 er réttilega aðalsökudólgurinn og kemur frá útblæstri bifreiða [aðallega dísilvélum-innsk. BJo].  Borgin hefði sjálf getað sýnt gott fordæmi og sett kraft í orkuskipti hjá Strætó, en af um 160 vögnum eru eingöngu 15 rafvagnar [skammarlega lágt hlutfall, rúmlega 9 % - innsk. BJo].  Nánast við hliðina á mengunarmælistöðinni eru ein umferðarmestu gatnamót Strætó í borginni. 

Hin ástæða mikillar mengunar við Grensásveg og víðar eru gríðarlegar tafir í umferðinni, þar sem flæði umferðar í Reykjavík hefur verið heft vegna vanrækslu borgarstjórnar a.m.k. undanfarin 15-20 ár."

  Þetta er falleinkunn yfir Samfylkingunni og stjórnarháttum hennar í höfuðborg Íslands.  Hvergi í borgum Norðurlandanna er uppi þvílíkur vandræðagangur og óstjórn og í Reykjavík.  Þar er ekki hægt að skrifa allt á vannrækslu meirihluta borgarstjórnar, heldur er um útfærða stefnumörkun afturhaldsins að ræða með því að taka mislæg gatnamót út af aðalskipulagi og þrengja umferðaræðar, t.d. Grensásveg með sérvizkulegum og þverúðarfullum hætti í blóra við umferðarfræði, sem miða að því að hámarka öryggi allra vegfarenda og halda umferðartöfum innan viðunandi marka (núverandi umferðartafir í borginni eru allt að því fimmfaldar viðunandi tafir út frá beinum kostnaði við tafirnar).

 "Fyrir löngu hefði átt að ráðast í gerð mislægra gatnamóta við Miklubraut og Grensásveg og einnig Bústaðaveg við Reykjanesbraut.  Miklabraut gæti verið í nokkurs konar brú yfir Grensásvegi með svipuðum hætti og Miklabraut yfir Elliða[ánum] og Sæbraut/Reykjanesbraut.  Halda síðan áfram og leysa málið með mislægum gatnamótum við Kringlumýrarbraut og jafnvel jarðgöngum undir Lönguhlíð og víðar á þessari tiltölulega stuttu 3 km leið frá Grensásvegi að Landspítala við Hringbraut.  Markmiðið væri að gera Miklubraut að mestu lausa við ljósastýringu umferðar og halda jöfnum, hóflegum hraða. Þannig [næst] bæði lágmarks eldsneytiseyðsla og [lágmarks] hávaðamengun ökutækja."   

Það er hneyksli og vitnar um firringu og forneskjulegan þankagang meirihluta Samfylkingar í borgarstjórn að vilja halda umferðinni á Miklubraut, þessum megin austur-vesturási borgarinnar, á hestvagnastiginu með frumstæðum og hættulegum gatnamótum.  Samfylkingin heldur borgarumferðinni í spennitreyju með yfirgengilegri fávísi um og hundsun á þörfum borgarbúa og annarra vegfarenda í Reykjavík.  Í staðinn koma hátimbraðar fyrirætlanir um að flýta för 4 % vegfarenda á kostnað um 80 % vegfarenda.  Þetta er alveg snarvitlaus forgangsröðun þeirra furðudýra, sem hanga við völd í Reykjavík án þess að geta það. 

"Ef borgin hefði sýnt Sundabraut meiri áhuga, gæti hún verið komin og hefði dregið verulega úr umferð um Vesturlandsveg og Miklubraut, m.a. stórra vöruflutningabifreiða, og opnað ný tækifæri til íbúðauppbyggingar á Geldinganesi, Álfsnesi og Kjalarnesi. 

Árlegur tafakostnaður í umferðinni er ekki undir mrdISK 50.  Hluti af því er umframeyðsla á eldsneyti, 20-30 kt/ár samkvæmt útreikningum verkfræðinganna [og bræðranna] Elíasar Elíassonar og Jónasar Elíassonar, prófessors emeritus [blessuð sé minning hans - innsk. BJo]."   

Skemmdarverkastarfsemi Samfylkingarinnar og taglhnýtinga hennar í borgarstjórn á undirbúningi Sundabrautar er skipulagshneyksli.  Flokkurinn er gjörsamlega siðlaus í athöfnum sínum gegn eðlilegu umferðarflæði í Reykjavík.  Þessar athafnir og athafnaleysi Samfylkingarinnar hafa leitt til alvarlegra slysa á fólki, mikils eignatjóns, tímasóunar og óþarfa mengunar og losunar CO2, sem nemur um 100 kt/ár, sem er ekki óverulegt á landsvísu (um þreföld niðurdæling Carbfix á CO2 við Hellisheiðarvirkjun).

Samfylkingin ber kápuna á báðum öxlum í mikilvægum hagsmunamálum landsmanna, t.d. umhverfismálum, því að hún er mjúkmál um þau, en gerir sér leik að því að valda óþarfa losun, sem nemur um 2 % á landsvísu í Reykjavík einni. Samfylkingunni er í engu treystandi. 


Orkustofnun og ríkisstjórnin ganga ekki í takti

Orkustofnun sýndi af sér sleifarlag við meðhöndlun umsóknar Landsvirkjunar um virkjunarleyfi í Neðri-Þjórsá fyrir Hvammsvirkjun. Forstjóri hennar lofar bót og betrun, en mey skal að morgni lofa. Hiklaust má telja afgreiðsluna hafa dregizt úr hömlu um 1 ár, og það hefur tæplega kætt umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, sem alvöruþrunginn nýtir hvert tækifæri til að leggja áherzlu á markmið ríkisstjórnarinnar um 55 % minni losun koltvíildis út í andrúmsloftið hérlendis en 2005 árið 2030. Þetta markmið Katrínar Jakobsdóttur & Co. var glæfralegt og mun ekki nást, ef svo fer fram sem horfir. 

Tíminn hefur verið notaður hrottalega illa til að vinna að þessu markmiði, og rétt einu sinni eru hégómagjarnir stjórnmálamenn staðnir að verki.  Þeir setja þumalfingurinn upp í loftið og setja síðan einhverja prósentutölu á blað án þess að hafa hugmynd um, hvað það kostar að ná markmiðinu, og engin fullnægjandi áhættugreining fylgir.  Afleiðing þessarar sýndarmennsku er, að nú stefnir í dúndrandi neikvæða niðurstöðu árið 2030, enda hefur meginforsendan fyrir árangri algerlega brugðizt með þeirri afleiðingu, að Vestfirðingar neyðast til að brenna olíu, þegar Vesturlína verður straumlaus eða vatnslítið er í Þórisvatni í vetrarbyrjun.  Vestfirðingar vilja virkja vatnsföll sín, en afturhaldsöfl, ekki sízt í VG, flokki forsætisráðherra og fyrrverandi umhverfisráðherra, þvælast fyrir, og hvorki stjórnvöld né Alþingi hafa veitt þeim þann stuðning enn, sem dugar. Téð meginforsenda er auðvitað verulega aukið framboð tryggrar og "grænnar" raforku í landinu.  

Ráðherra orkumála ætlar í vetur að búa til lagaramma fyrir vindorkuver, en það eru tiltölulega frumstæð, landfrek og mengandi mannvirki, sem við höfum ekkert við að gera í þessu landi, enda raforka frá vindmylluþyrpingum hvorki trygg né "græn".  Virkjanamálin hérlendis virðast þannig vera í öngstræti (gíslingu), og er beðið eftir Alexander mikla til að höggva á þann Gordíonshnút.  Það verður að hraða undirbúningi hefðbundinna íslenzkra virkjana, vatnsfalla og jarðgufu, svo að einhver von sé til að ná markmiðinu, sem forsætisráðherrann kynnti keik í upphafi þessa áratugar.  Það er ein af þverstæðum þessa forsætisráðherra, að þingflokkur hennar dregur sífellt lappirnar í virkjanamálum og eyðileggur þar með markmið forsætisráðherrans.  

Þessi tvískinnungur veldur því, að Orkustofnun er  vorkunn, þótt hún viti ekki í hvora löppina hún á að stíga, þegar kemur að því að spá fyrir um eldsneytisnotkun landsmanna 2040. Hún hefur ekki reynzt vera í færum til að mata orkuspálíkan sitt á gögnum, sem gefa lægri útkomu en 600 kt af olíunotkun árið 2040, sem jafngilda um 1900 kt af CO2.  Þetta hlýtur að virka sem einn á lúðurinn fyrir ríkisstjjórnina, enda hefur hún engar dugandi mótvægisaðgerðir uppi í erminni.  Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka Iðnaðarins, SI, getur ekki stillt sig um að núa henni þessu um nasir. Þessu gerir Fréttablaðið grein fyrir 28. desember 2022 undir fyrirsögninni:

 "Orkuskiptum ekki náð í tæka tíð".

Í fréttinni stóð m.a.:

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, segir þetta undarlegt ósamræmi:

"Það finnst mörgum skrýtið, að grunnspá, sem opinber stofnun eins og Orkustofnun setur fram, skuli ekki gera ráð fyrir því, að markmið stjórnvalda í orku- og loftslagsmálum náist.  Tala nú ekki um, þar sem markmið Íslands um kolefnishlutleysi eru lögbundin", segir Sigurður.

Hann telur það ekki góð skilaboð út í atvinnulífið og upplýsingarnar misvísandi:

"Ég get ekki ímyndað mér, að ríkisstjórnin sé ánægð með þessi vinnubrögð Orkustofnunar.  Allar fjárfestingar í atvinnulífinu taka mið af þessum markmiðum.  Fyrirtækin eru á fleygiferð við að tileinka sér nýja tækni, sem tekur mið af breyttum orkugjöfum.  Þetta eru mjög kostnaðarsamar aðgerðir.  Það er því alger grunnkrafa, að tímasett markmið standi", segir Sigurður og telur tímann þegar orðinn nauman, ef áform um orkuskipti eigi að ganga eftir."

Engum vafa er undirorpið, að orkuskipti útheimta miklar fjárfestingar hjá fyrirtækjum og heimilum.  Heimili hafa fengið afslátt opinberra gjalda við að fjárfesta í nýjum rafmagnsbíl, en ríkissjóður hefur ekki, svo að hátt fari, veitt fyrirtækjum sérstakan skattaafslátt fyrir fjárfestingar í aðgerðum, sem eru undanfari orkuskipta, enda er það mála sannast, að ríkisvaldinu hefur mistekizt að skapa grundvöll fyrir nýjar, almennilegar virkjanir, sem gætu framleitt raforku fyrir rafeldsneyti, sem leyst geti jarðefnaeldsneytið af hólmi.  Það vantar nýjar virkjanir, og vindmyllur eru gjörsamlega ótækar af kostnaðarlegum og landverndarlegum ástæðum.  

Orkustofnun hefur áreiðanlega ekki ætlað sér að grafa undan vilja fyrirtækjanna í landinu til orkuskipta með sinni orkuspá, sem reist er á líkani, sem aðeins er hægt að mata með raungögnum, en ekki draumórakenndu gaspri stjórnmálamanna um framtíðina.  Orkumálastjóri varpaði ljósi á þetta með vel uppsettri ritsmíð í Morgunblaðinu á gamlaársdag 2022.  Halla Hrund Logadóttir nefndi ritsmíð sína:

"Íslendingar leiðandi þjóð í orkuskiptum".

Þar stóð m.a.:

"Ein af sviðsmyndunum, sem kynntar voru við útgáfu líkansins, var nauðsynlegur orkuskiptahraði í vegasamgöngum.  Þar kom m.a. fram, að til að ná lágmarksskuldbindingum okkar í loftslagsmálum í samræmi við aðgerðaáætlun ríkisins þyrfti nýskráningarhlutfall rafknúinna fólks-, bílaleigu- og sendibíla að vera í kringum 100 % [tæplega 100 %, þetta hlutfall getur ekki farið yfir 100 %-innsk. BJo] strax árið 2025, sem skiptir máli að hafa í huga við þróun ívilnana og löggjafar." 

Þetta er kýrskýrt.  Orkuskiptin eru á eftir áætlun ríkisstjórnarinnar, og það er langsótt að áfellast Orkustofnun fyrir það.  Ríkisstjórnin gaf þessa áætlun út, og hún var allt of brött, hreinlega óraunsæ í ljósi eðlis málsins.  Orkuskipti gerast ekki eins og hendi sé veifað.  Það er tregða í þessu ferli af ýmsum ástæðum.  Í fyrsta lagi er tæknin alls ekki tilbúin.  Í öðru lagi útheimta orkuskipti miklar fjárfestingar og í þriðja lagi er sálfræðilegi eða tilfinningalegi þátturinn.  Mönnum finnst sumum hverjum þeir renna blint í sjóinn að skipta um orkugjafa. Það er glapræði af ríkisstjórninni að hundsa alla þessa þætti, en láta hégómagirni og fordild einstakra sveimhuga í ráðherrastólum ráða för.  Sennilega hefur bleyttur þumall ráðherranna gefið þeim ártöl við markmiðasetningu, sem eru áratug á undan því, sem raunhæft má telja.  Þessi grobbiðja ráðherra VG mun að líkindum flækja landsmenn í háar sektargreiðslur til Evrópusambandsins eða kaup á rándýrum koltvíildiskvóta á heimsmarkaði fyrir mismun markmiðs og raunar í t CO2 talin. Ábyrgðarleysi vinstri hreyfingarinnar græns framboðs ríður ekki við einteyming. 

 


Forgangsröðun Björns Lomborg

Björn Lomborg, forseti Kaupmannahafnarhugveitunnar og gistifræðimaður við Hoover stofnun Stanford-háskóla, hefur verið iðinn við að skrifa um meinlokurnar í stefnu stjórnvalda í löndum heimsins gagnvart því, sem þau nefna hlýnun heimsins. Á þessu hafa flestir skoðanir, en fáir djúpstætt vit á viðfangsefninu. Þess vegna er margt skrafað og skeggrætt án þess, að nokkur lausn sé í sjónmáli, enda tröllríður hræsnin húsum.

Er sú umræða að miklu leyti reist á sandi vegna þekkingarleysis og er þess vegna út og suður, blaður og fögur fyrirheit á fjölmennum ráðstefnum.  Þegar heim af þessum rándýru og koltvíildismyndandi ráðstefnum er komið, er lítið sem ekkert gert í málunum. Skyldu íbúar Norður-Ameríku, sem upplifðu fimbulkulda á eigin skinni í desember 2022, taka mikið mark á blaðri um heimsendaspádóma vegna hlýnunar andrúmsloftsins ? 

Enginn dregur í efa, að vaxandi styrk koltvíildis í andrúmslofti fylgir hlýnun, en það er ofureinföldun á flóknu fyrirbæri að halda því fram, að þetta eitt muni stjórna loftslagsbreytingum næstu áratuga.  Nefna má áhrif brennisteins frá eldfjöllum og mönnum, sem hefur kælandi áhrif, og að hækkað hitastig andrúmslofts leiðir til aukinnar varmageislunar út í geiminn samkvæmt lögmáli Max Plank um samband hitastigs efnis og geislunarafls frá því.  Líkön IPCC gefa miklu hærri útkomu á hitastigi en síðan hefur reynzt vera raunin samkvæmt nákvæmustu fáanlegu mælingum, sem t.d. dr John Christy, "director of the University of Alabama/Huntsville´s Earth System Science Center, ESSC", hefur birt og lagt út af. 

Þann 20. desember 2022 birtist í Morgunblaðinu grein eftir téðan Björn og Jordan B. Peterson, prófessor emeritus við Toronto-háskóla, þar sem þeir leitast við að útskýra algert árangursleysi í loftslagsmálum m.t.t. til háleitra markmiða á heimsráðstefnum.  Greinin bar bjartsýnislega fyrirsögn:

"Vegurinn áfram: Ný framtíðarsýn".

Þar gat að líta m.a.:

"Árið 2015 gerðu leiðtogar heimsins tilraun til að takast á við höfuðvandamál mannkynsins [svo ?] með því að setja sér markmiðin um sjálfbæra þróun - 169 skotmörk, sem hæfð skyldu verða, þegar árið 2030 rynni upp.  Sá listi innihélt öll hugsanleg aðdáunarverð markmið: útrýmingu fátæktar og sjúkdóma, stöðvun styrjalda og loftslagsbreytinga, verndun líffræðilegrar fjölbreytni og bætta menntun."

Á ráðstefnum IPCC mæta tugþúsundir, og margir þeirra eru nestaðir að heiman með áhugamál, sem þeim finnst sér skylt að berjast fyrir, að fari inn á málefnaskrá ráðstefnunnar í lokin.  Örfáir eða engir ráðstefnugesta hafa hugmynd um, hvernig er skynsamlegast að koma málefnum sínum og markmiðum í höfn, þegar ráðstefnunni hefur verið slitið, og margir ráðstefnugesta hafa hætt sér út á hálan ís og vita lítið, hvað þeir eru að tala um.  Í öllu þessu felst skýringin á hinum vonlausa fjölda markmiða, sem samþykkt eru í lok ráðstefnunnar í kjölfar hrossakaupa og rifrildis um aukaatriði. 

Það verður hins vegar að hafa kvarnir í stað heila til að átta sig ekki á, að niðurstaðan af miklum fjölda markmiða er sú sama og af engu markmiði.  Af þessum sökum verður að álykta, að hugur fylgi ekki máli, ráðstefnan sé skrípaleikur, svífandi í tómarúmi, enda er eftirfylgnin ómarkviss.

Ráðstefnur IPCC breyta sáralitlu, en fjöldi manns er kominn á loftslagsspenann, og dómsdagsspámenn hræða stjórnmálamenn og almenning til að inna af hendi fjárframlög til að halda hringekjunni áfram.

"Árið 2023 er vegferðin hálfnuð, ef miðað er við tímabilið 2016-2030.  Hins vegar erum við langan veg frá því að vera hálfnuð með markmiðin.  M.v. stöðu mála munu þau nást hálfri öld síðar en ætlað var."

Hvað hið kjánalega loftslagsmarkmið frá 2015 varðar um helzt að halda hlýnun jarðar frá iðnvæðingu undir 1,5°C, en annars endilega undir 2°C, benda birtar hitamælingar IPCC til, að neðra markið náist ekki og jafnvel efra markið ekki heldur, en mælingar Johns Christy benda ekki til, að neðra markinu verði náð á næstu áratugum. 

Það er mjög erfitt fyrir jarðarbúa að tengja aðgerðir sínar við hitastigshækkun, sérstaklega fyrir þá, sem upplifa harðnandi vetrarkulda (Norður-Ameríka -48°C í desember 2022 og mannskaðaveður í kuldum í Japan líka). 

Þer líka erfitt fyrir íbúa hérlendis, að fá heila brú í talnaleik forsætisráðherra, nú síðast, að Íslendingar þurfi að draga úr losun koltvíildis um 55 % m.v. 2005. Losun Íslendinga er svo hlutfallslega lítil á heimsvísu, að engu máli skiptir fyrir hlýnun jarðar.  Þá er losun vegna orkunotkunar á mann ein sú minnsta, sem þekkist. Losun iðnaðarins á hvert framleitt tonn er sömuleiðis ein sú minnsta, sem þekkist.  Að rembast eins og rjúpan við staurinn með ærnum tilkostnaði við að bæta einn bezta árangurinn er einber hégómi og stafar af hégómagirnd stjórnmálamanna. 

"Því er það löngu tímabært, að við skilgreinum og forgangsröðum þeim markmiðum, sem mestu skipta.  Það er einmitt það, sem Kaupmannahafnarhugveitan (e. Copenhagen Consensus) hefur gert í samstarfi við nokkra Nóbelsverðlaunahafa og rúmlega 100 hagfræðinga í fremstu röð.  Hún hefur skilgreint á hvaða vettvangi hver króna getur gagnazt hve mest.

Við gætum, svo [að] dæmi sé tekið, flýtt því mjög að binda enda á hungur.  Þrátt fyrir að þar hafi aðdáunarverður árangur náðst síðustu áratugi, [fá] 800 milljónir manna enn þá ekki nóg að borða.  Á þeim vettvangi getur rannsóknarvinna hagfræðinga [og líffræðinga - innsk. BJo] lyft grettistaki."  

Gríðarlegum upphæðum hefur verið varið og er verið að verja í fáfengilega hluti eins og vindmyllur, þróun þeirra, smíði, uppsetningu og rekstur - allt saman í nafni loftslagsvandans, þótt þetta sé rándýrt, mengandi og landskemmandi fyrirbrigði.  Tólfunum er kastað, þegar myndir berast af úðun ísaðra vindmylluspaða með miður hollum ísvara. Gjörninginn ætti alls ekki að leyfa hérlendis í mengunarvarnarskyni.

Til að kóróna vitleysuna eru víðast reist gaskynt raforkuver með vegna óáreiðanleika raforkuvinnslu með vindorku.  Þetta er mjög óskilvirk ráðstöfun fjármuna og sorgleg í ljósi þess, að nýþróuð kjarnorkuver eru handan við hornið til að leysa orkuþörf heimsbyggðarinnar. 

"Okkur er í lófa lagið að færa verðandi mæðrum lífsnauðsynlega næringu.  Sá dagskammtur vítamíns og annarrar nauðsynlegrar fæðu kostar rúma USD 2 (ISK 283) á hverja manneskju.  Með slíkri aðstoð þroskast heili fóstursins örar, sem síðar á ævinni skilar sér í meiri velmegun.  Hver USD, sem varið er í það, svarar þannig til andvirðis USD 38 (ISK 5371) af félagslegum gæðum.  Hvers vegna gerum við þetta ekki ?  Vegna þess að í viðleitni okkar til að gera öllum til hæfis verjum við litlu fé í hvern þátt og yfirsjást um leið nytsamlegustu lausnirnar."  

Barátta ríkja heimsins gegn meintri loftslagshlýnun er í fæstum tilvikum rekin á skynsemisgrundvelli.  Ef svo væri hérlendis, mundu stjórnvöld hér lýsa því yfir, að þau telji of mikla umhverfisbyrði felast í uppsetningu vindmylluþyrpinga m.v. við samfélagslega ávinninginn, sem er neikvæður núna, af því að vindmylluþyrpingar munu leiða til hækkunar rafmagnsverðs hér.

Þá verði hætt við að moka ofan í skurði á kostnað hins opinbera, enda hafa verið færðar ófullnægjandi vísindalegar sönnur á einhlítan árangur slíkrar aðgerðar fyrir losun gróðurhúsalofttegunda.  Hins vegar virðast landgræðsla og skógrækt ótvírætt vera til bóta og vera hagkvæmar. 

Það er ennfremur skynsamlegt út frá loftslags- hagkvæmnisjónarmiðum að setja kraft í virkjanir hefðbundinna íslenzkra orkulinda jarðgufu og vatnsfalla.  Það er óskiljanlegt, að umhyggjan fyrir andrúmsloftinu og óttinn við hlýnun af völdum CO2 lendir miklu aftar í forgangsröðuninni hjá ýmsum en hégómleg fordild um, að þessar hreinu og endurnýjanlegu orkulindir náttúrunnar skuli ekki snerta, því að slíkt útheimti röskun á náttúrunni, þó að náttúrukraftarnir séu sjálfir sífellt að breyta landinu. 

Í lok greinarinnar skrifuðu þeir félagarnir Björn og Jordan þetta:

 "Eitt er þó algerlega augljóst: við verðum að gera það bezta fyrst.

Þar er hið eina sanna áramótaheit komið, og það er hvort tveggja persónulegt og alþýðlegt.  Með því er leiðin í átt til betra lífs vörðuð.  Látum göngu okkar feta þann veg, þegar við veltum því fyrir okkur, hvernig við ætlum að heilsa nýju ári."

Þann 20. desember 2022 birtist afar fróðleg grein í Morgunblaðinu eftir Hauk Ágústsson, kennara.  Hún bar fyrirsögnina:

"Hvað er vindmylla ?"

Til að gefa mynd af mengunarhættunni og auðlindanotkun vindmylluframleiðenda stóð þetta:

"Öxull, sem gengur út úr enda skýlisins, tengist gírkassa, sem stýrir snúningshraða rafalans.  Bremsubúnaður jafnar hraðann, auk þess sem spöðunum er stýrt í sama skyni.  Í þessum búnaði eru nokkur hundruð lítrar af sértækri smurolíu, sem fylgzt er með og skipt um u.þ.b. þriðja hvert ár.  Mörg dæmi eru um það, að olían leki. 

 Rafalinn er búinn síseglum (permanent magnets).  Í þeim eru fágæt jarðefni, skaðleg umhverfinu í framleiðslu og endurvinnslu eða eyðingu.  Þau eru að mestu unnin í Kína (um 90 %), sem er líka ráðandi í námi þeirra úr jörðu [t.d. í Afríku - innsk. BJo].  Í rafalanum og öðrum rafbúnaði er kopar (um 1500 kg) og ál (um 840 kg) - auk stáls.  [Magntölur eiga við 2 MW rafal - innsk. BJo.]  Í búnaðinum í tækjaskýlinu eru líka, samkvæmt Freeing Energy, um 20,5 t af steypujárni, rúmt 1 t af stáli og um 51 t af krómi.  

Rafbúnaður fellir rafmagnið, sem framleitt er, að raforkukerfinu, sem myllan tengist.  Búnaðurinn er í lokuðu rými og honum þjappað saman sem framast er unnt, sem veldur mikilli hættu á skammhlaupum.  Í rýminu er gjarnan [einangrunar] gas, sem kallast SF6 (Sulphur hexafluoride).  Það hefur afar litla rafleiðni, en er samkvæmt Norwegian SciTech News (2020) 22.000-23.500 sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en CO2 og hefur 3.200 ára líftíma [í andrúmsloftinu - innsk. BJo]. Þetta gas hefur sloppið út í verulegum mæli, t.d. í Þýzkalandi, og er orðið vel mælanlegt þar."

 Þessi upptalning ætti að sannfæra flesta um, að vindmyllur eru slæm fjárfesting til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda eða til að draga úr mengun á jörðunni.  Þá gefur nú auga leið, að þessi fjárfesting á alls ekkert erindi í íslenzka náttúru, því að hrun einnar vindmyllu, t.d. í óveðri, getur valdið  alvarlegu mengunarslysi og óafturkræfri mikilli losun gróðurhúsalofttegunda.  Hún er af allt annarri og miklu hærri stærðargráðu en t.d. losun sama magns af CH4 - metani, því að það er "aðeins" um 22 sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en CO2 og brotnar niður í andrúmsloftinu á um 50 árum.  

Hryllingssaga Hauks Ágústssonar um mengunarhættuna af vindmyllum heldur áfram:

"Til þess að ná [hámarks] styrk m.v. þyngd eru spaðarnir gerðir úr trefjaplasti; gler- eða kolþráðum, sem þaktir eru með epoxíresíni.  Á 2 MW Vestas-myllu vega þeir um 7 t hver.  Epoxíresín eru mikið unnið úr olíutengdum efnum með efnafræðilegum aðferðum.  Á 2 MW myllu er snúningsþvermál spaðanna um eða yfir 100 m, og hraðinn á spaðaenda getur náð vel yfir 200 km/klst.  Til að minnka mótstöðu eru spaðarnir húðaðir að utan.  Húðin slitnar af og berst út í umhverfið sem öragnir.  Spaðana er almennt ekki unnt að endurvinna.  Þeir eru því oftast urðaðir, þegar þeir eru orðnir ónothæfir."

Hér er um að ræða efni, sem ekkert erindi eiga inn í íslenzka náttúru og lífkeðju, því að þau eru sennilega torniðurbrjótanleg (frávirk) og safnast þess vegna upp í lífkeðjunni.  Hefur Umhverfisstofnun vit á að gera viðeigandi kröfur til þeirra efna, sem hver vindmylla getur dreift út í umhverfið í venjulegum rekstri og við slys ? 

Það er engin þörf á að dreifa þessum mannvirkjum um óspillt víðerni landsins hagkerfisins vegna, og þess vegna er engin áhætta ásættanleg.  Öðru máli gegnir um hefðbundnar íslenzkar virkjanir.  Fyrir þær er þörf, enda eru þær miklu hagkvæmari, og mengunarhættan af þeim er hverfandi í samanburði við þau ósköp, sem hér hafa verið upp talin, og landþörf á MW sömuleiðis mun minni. 

 

 

     


Vestfirðinga vantar virkjun

Staðarval virkjana landsins er mikilvægt til að lágmarka orkutöp, spennusveiflur og til að hámarka afhendingaröryggi raforku til notenda hennar.  Þungamiðja virkjana landsins er á Þjórsár/Tungnaár-svæðinu, sem er tengt Hvalfirði, Straumsvík og þéttbýlinu suðvestanlands með öflugum hætti. Suðurland nýtur góðs af tengingu við Búrfellsvirkjun, en styrkja má enn raforkukerfi Sunnlendinga með tengingu við væntanlegar aðveitustöðvar við virkjanir í Neðri-Þjórsá. 

Raforkukerfi Austurlands býr að öflugustu virkjun landsins, Fljótsdalsstöð. Á Vesturlandi er engin  stórvirkjun, en öflug aðveitustöð á Brennimel og önnur á Vatnshömrum, en einkum og sér í lagi vantar Vestfirðinga trausta virkjun, sem styrkt geti raforkukerfi þeirra. Þar er nauðsyn á auknu skammhlaupsafli, svo að setja megi 60 kV flutningskerfi LN í jörðu, og spennustöðugleika. Með þessu tvennu væri Vestfirðingum komið í flokk flestra annarra landsmanna gagnvart afhendingaröryggi rafmagns og lítilli losun koltvíildis við raforkuvinnslu.  

Ein gleggsta grein, sem um árabil hefur sézt á prenti hérlendis um virkjanamál, birtist í Morgunblaðinu 28. nóvember 2022.  Höfundur hennar er Elías Jónatansson, forstjóri Orkubús Vestfjarða, og bar hún fyrirsögnina:

"Að virkja og vernda loftslag - hvar á að virkja".

Hann gerði hnitmiðaða grein fyrir stöðu Vestfirðinga í orkumálum:

"Vestfirðingar fá helming raforku sinnar eftir einni 160 km langri Vesturlínu frá tengivirki Landsnets (LN) fyrir botni Hrútafjarðar [aðveitustöð Hrútatungu] í tengivirkið í Mjólká við Mjólkárvirkjun.  Orkan á líklega oftast upptök sín í Blönduvirkjun í 100 km fjarlægð frá Hrútafirði [orkubússtjórinn getur vafalaust vísað til kerfishermana um þetta]. Orkan er því flutt 260 km leið  frá orkustöð í tengivirkið í Mjólká með tilheyrandi töpum.

Hinn helmingurinn er framleiddur innan Vestfjarða, og er Orkubú Vestfjarða (OV) þar stærsti orkuframleiðandinn og eini framleiðandinn, sem hefur einhvern varaforða [miðlunargetu], sem heitið getur í lónum við sínar virkjanir.  Stærsta virkjun OV er Mjólkárvirkjun, 11 MW, en samtals eru virkjanir í eigu OV og einkaaðila á Vestfjörðum 21 MW." 

Það er fljótlegt að reikna út árlegu orkutöpin á þessari 260 km löngu leið frá Blöndu til Mjólkár og kostnað þeirra og kostnaðinn fyrir vestfirzka notendur af völdum truflana, sem valda spennusveiflum og straumleysi hjá þeim.  Þar að auki er fyrirsjánlega á næstu árum þörf fyrir aflið, sem nú er flutt til Vestfjarða, nær Bönduvirkjun. Af þessum sökum leikur ekki á tveimur tungum, að um 30 MW virkjun, vel staðsett á Vestfjörðum, er þjóðhagslega hagkvæm.  Vert væri, að þingmenn NV-kjördæmis kæmu nú auga á þetta og styddu við bakið á ríkisfyrirtækinu Orkubúi Vestfjarða í viðleitni fyrirtækisins til að hrinda af stað góðum hugmyndum fyrirtækisins um næstu þokkalegu vatnsaflsvirkjun á Vestfjörðum.

"Til að tryggja afhendingaröryggi á Vestfjörðum, þegar flutningslínur eru straumlausar, hefur verið komið upp neti varaaflsvéla víða um Vestfirði.  Stærsta varaaflsstöðin er í Bolungarvík, 11 MW dísilstöð í eigu LN, byggð árið 2015.  Varaaflsstöðin er jafnstór Mjólkárvirkjun. Á Patreksfirði er 4,7 MW dísilstöð OV (mikið endurnýjuð 2018), en OV er með 11 varaaflsstöðvar um alla Vestfirði, alls 18 MW.  Varaaflsstöð LN og nokkrar varaaflsstöðvar OV eru búnar sjálfvirkni og ræsa inn á net á innan við 90 s, ef raforkunetið verður straumlaust vegna bilana eða viðhalds.  

Það hefur sýnt sig, að Vestfirðir þurfa í dag að vera með 100 % (dísil-) varaafl fyrir raforku til heimilisnota og til þeirra fyrirtækja, sem nota forgangsorku, til að tryggja ásættanlegt afhendingaröryggi.  Þá þarf 100 % varaafl í formi olíukatla við straumleysi í stað rafkyntu hitaveitnanna.  Varaafl á Vestfjörðum í formi dísilvéla og olíukatla er um 50 MW í dag."

Þetta er fróðleg lesning, sem sýnir stöðu raforkumála á Vestfjörðum, sem er frábrugðin því, sem aðrir landsmenn búa við.  Svo þakkarvert sem það er að búa við tiltækt varaafl, er engu líkara, en þróun raforkumála Vestfirðinga hafi að sumu leyti stöðvazt með tilkomu Vesturlínu.  Það er ekki vegna þess, að slæmt hafi verið fyrir Vestfirðinga að tengjast stofnkerfi landsins, heldur hins, að hún er langur leggur, en ekki hringtenging Vestfjarða við landskerfið í líkingu við það, sem aðrir landsmenn búa við.  Að hringtengja Vestfirði við landskerfið er dýrt og tekur sinn toll af landinu.  Hagkvæmara og meiri landvernd er í því fólgin að virkja vatnsfall eða vatnsföll á vel völdum stöðum á Vestfjörðum m.t.t. stöðugleika kerfisins og afhendingaröryggis raforku.  Til þess að losna að mestu við að brenna olíu í varaaflsstöðvum þurfa Vestfirðir að verða sjálfum sér nógir um rafmagn frá virkjunum sjálfbærra orkulinda, og 60 kV flutningskerfi LN þarf að setja í jörðu svo fljótt sem auðið er til að draga úr bilanatíðni og neikvæðum áhrifum á ásýnd lands.

OV mundi þá einvörðungu flytja inn raforku um Vesturlínu, á meðan viðhald eða viðgerðir fara fram í virkjunum fyrirtækisins, og gæti jafnvel flutt raforku til landskerfisins á sumrin, þegar hitunarálagið hefur minnkað, og slíkur flutningur gæti bætt stöðu miðlunarlóna Landsvirkjunar.  Allt virðist þetta vera þjóðhagslega hagkvæmt, enda kostar varaaflvélaorkan 70 ISK/kWh, sem er 13-falt heildsöluverð til almenningsveitna um þessar mundir. 

"Það er hægt að koma upp virkjun innan svæðisins í seilingarfjarlægð frá mestu notkuninni, sem hefur nægilegt afl og nægilegt vatn í lónum til að mæta orkuþörf innan Vestfjarða, þegar flutningslínur inn á Vestfirði verða straumlausar.  Með því að slík virkjun sé nægilega aflmikil til að mæta aflþörfinni innan Vestfjarða ásamt öðrum virkjunum, þá þarf í flestum tilvikum ekki að ræsa dísilknúið varaafl.  Þar sem aflið í virkjuninni er auðvitað ekki dísilknúið, heldur vatnsafl, er í raun búið að tryggja afhendingu með vatnsafli og varaaflið þá orðið grænt.

Með byggingu virkjunar er ekki einungis verið að snúa við þeirri stefnu að auka sífellt við varaaflið í formi dísilvéla, heldur mun draga stórkostlega úr notkun þess varaafls, sem fyrir er, eða um 90 %. 

 

Nærtækasta dæmið um slíka virkjun er 20-30 MW virkjun í Vatnsdal í Vatnsfirði, en með tilkomu virkjunarinnar, sem er einungis í 20 km fjarlægð frá Mjólkárvirkjun, gæti straumleysistilvikum hjá 90 % Vestfirðinga fækkað um 90 % og olíunotkun vegna varaafls einnig minnkað um 90 %."   

Hér er um mjög mikið hagsmunamál Vestfirðinga og landsmanna allra að ræða, eins og Elías Jónatansson útskýrir þarna vel.  Það er kominn tími til að rétta hlut Vestfirðinga í orkulegum efnum, og þess vegna ættu þingmenn og orkuráðuneyti að taka vel í þessa hugmynd OV.  Vonandi verða ekki búnar til óþarfa blýantsnagaratafir á þetta verkefni, en vegna staðsetningarinnar þarf líklega sérstakan atbeina umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og mun þá reyna á hann að láta nú nú meiri hagsmuni víkja minni hagsmunum úr vegi.  

    

 


Stefnumarkandi um vindmylluþyrpingar

Ljóst er, að fjármagni hefur í of miklum mæli verið beint í afkastalítil tæki með lága nýtni og óreglulega framleiðslugetu til að breyta vindorku í raforku í heiminum, t.d. í Evrópu. Þetta ásamt andvana fæddri hugmyndafræði um að mynda friðelskandi gagnkvæmt hagsmunasamband lýðræðisríkja og einsflokksríkja, sem auðveldlega virðast breytast í einræðis- og alræðisríki, hefur valdið hrollvekjandi stöðu orkumála í Evrópu, þar sem dauðsföll af völdum kulda gætu tífaldast af völdum orkukreppu í vetur, verði hann  harður.  Í Úkraínu geta eldflaugaárásir hryðjuverkaríkis í austri á orkukerfi landsins valdið enn meiri hörmungum. Eru örlög Úkraínu þyngri en tárum taki.  Þar láta hermenn og almennir borgarar lífið fyrir fullveldi lands síns.  Úkraínumenn vita og skilja og allra þjóða bezt, að yfirráð Rússlands jafngilda ánauð.  Þeir eru búnir að fá meira en nóg af að vera hnepptir í þrældóm af villimönnum.  

Evrópa hefur hundsað þróun kjarnorkunnar, sem ein getur með raunhæfum hætti leyst jarðefnaeldsneyti af hólmi.  Bretar eru þó að vakna úr dvala að þessu leyti, og brezka ríkið hefur nú skuldbundið sig til að kaupa kínverskt fyrirtæki út úr samsteypu, sem reisir kjarnorkuver á Englandi. 

Hérlendis eru háreist áform um að reisa vindmylluþyrpingar víðs vegar um landið , t.d. 687 MW á Vesturlandi og a.m.k. 500 MW á Austurlandi.  Þá eru ótalin mikil áform á Norðurlandi og Suðurlandi, t.d. hjá ríkisfyrirtækinu Landsvirkjun.  Það gætir vanmats á neikvæðum áhrifum vindmylluþyrpinga á landið og landnýtingu annarra hagsmunaafla, s.s. íbúa frístundabyggða, bænda og ferðaþjónustunnar.  Þá hefur lítil grein verið gerð fyrir áhrifunum á verðlagningu raforku til almennings, sem vafalaust verður til meiri hækkunar en nýjar hefðbundnar virkjanir í landinu munu valda. 

Umræðan um áhrifin á raforkukerfið er einsleit og því er haldið fram, að vindmyllur vinni vel með vatnsorkuverum, muni minnka álag þeirra og spara miðlunarvatn.  Þessi samkeyrsla getur hins vegar rýrt nýtni vatnsorkuveranna svo mikið, að vatnssparnaður verði lítill sem enginn. 

Morgunblaðið tók stefnumarkandi afstöðu gegn mikilli vindorkuvæðingu landsins í gagnmerkum leiðara blaðsins 29. nóvember 2022, sem hét:

  "Ná að hræða lítil börn".

Síðari hluti hans var þannig:

"Það er engin samstaða með þjóðinni um að eyðileggja ásýnd landsins og útbía það með niðurgreiddum vindmyllum, sem eru ótryggur orkugjafi og knúinn áfram af áróðri um loftslagshamfarir, sem hefur staðið í 3 áratugi, og á þeim tíma hefur samt ekkert gerzt til að skipta um orkugjafa í heiminum.  En hamagangurinn er þó ekki til einskis. Upplýst er, að börn á aldrinum 7-12 ára (70 % þeirra) eru heltekin af ótta við loftslagsósköpin, sem tryggi, að þau nái ekki fullorðinsaldri. 

Við Íslendingar höfum "náð því marki", sem öðrum þjóðum er sett, áður en það gerðist í Kyoto.  Hefðu spár þaðan staðizt, væru ísbirnir við það að deyja út vegna eyðingar náttúrulegs umhverfis þeirra.  En ísbjörnum hefur fjölgað verulega síðan þá ! Barnaleg íslenzk yfirvöld lofa að henda milljarðatugum út í buskann til að stuðla að því, að aðrar þjóðir nái þessum "markmiðum" !  Rétt er að taka fram, að Kína, Indland, Indónesía og Rússland með sína fáu íbúa gera ekkert með fyrirætlanirnar.  Joe Biden slær burtu flestum hömlum af viðskiptabanni gegn Venesúela, svo að þaðan megi hann kaupa olíu !"

Þetta er ekki lítil ádrepa.  Það er einmitt helzti ljóðurinn á málflutningi hlýnunarpostulanna, að þeir taka allt of djúpt í árinni án þess að hafa annað fyrir sér en meingallað spálíkan, sem er með gríðarlega slagsíðu til hækkunar m.v. nákvæmustu raunmælingar, sem völ er á.  Hér er um gegndarlausan og fótalausan hræðsluáróður að ræða, eins og dæmið af ísbjörnunum sýnir.  Loftslagskirkjan er komin í fótspor ofsatrúarsafnaða, og slíkir eru stórhættulegir viðkvæmum sálum. 

Steinar Ingimar Halldórsson, verkfræðingur, ritaði merka grein í Morgunblaðið 29.11.2022, þar sem hann vakti máls á þeim vandkvæðum við samrekstur stórra vindmylluþyrpinga við vatnsorkuverin, að álagsbreytingar þeirra, þegar vindmyllur taka upp hluta álags þeirra eða missa álag, munu gera kerfisstjórn Landsnets erfiðara fyrir en nú er að reka heildarkerfið nálægt hámarksnýtni.  Francis-hverflar vatnsorkuveranna geta fallið um 10 % í nýtni, ef rennslið sveiflast annaðhvort upp eða niður frá kjörstöðu. Þetta á við þann hluta hverflanna, sem tekur þátt í reglun kerfisins hverju sinni.

Greinina nefndi Steinar Ingimar:

 "Ávinningur vindmylla er ofmetinn",

og hófst hún þannig:

"Í september [2022] sagði Morgunblaðið frá greiningu á efnahagslegum áhrifum uppbyggingar vindorkuvera á Vesturlandi, alls 687 MW af vindafli.  Í greiningunni eru árlegar skatttekjur ríkissjóðs og sveitarfélaga af starfsemi vindorkuveranna metnar MISK 900 eða 0,3 ISK/kWh. Til samanburðar var meðalverð forgangsorku án flutnings 5,3 ISK/kWh árin 2020 og 2021.  Skatttekjur af vindmyllum segja ekki alla söguna, og útkoman er ekki jafnlofandi fyrir skattgreiðendur, þegar stóra myndin er skoðuð." 

Framleiðslukostnaður vindmylluþyrpinga af því tagi, sem nota á hér, er líklega um 50 USD/MWh eða 7,1 ISK/kWh, sem er 34 % hærra en ofangreint verð frá virkjun hérlendis.  Í markaðskerfi að hætti ESB, sem dótturfélag Landsnets vinnur nú að undirbúningi fyrir, og meiri eftirspurn en hefðbundnu virkjanirnar geta annað, munu vindmylluþyrpingarnar fá sitt boðna verð, og hæsta verðið ákvarðar síðan markaðsverðið til allra notenda á þessum markaði. Þetta gæti þýtt um 10 % hækkun raforkukostnaðar heimila og fyrirtækja án langtímasamninga. 

Nú má spyrja sig, hversu mikið nýtni vatnsorkuverflanna má minnka til að vega upp á móti ofangreindum opinberu gjöldum af vindmylluþyrpingunum. Það eru um 170 GWh/ár eða rúmlega 1 % af raforkuvinnslu vatnsorkuveranna.  Það má ætla, að vaxandi óróleiki á raforkukerfinu með tilkomu mikilla vindmylluþyrpinga geti valdið meira nýtnitapi í kerfinu en þetta, svo að uppsetning vindmylla til að spara vatn og auka tekjur samfélagsins er unnin fyrir gýg. Er anað út á vindmylluforaðið af glópsku einni saman ?    

 


Japlað á gömlum óttaáróðri

Nýlega er lokið 40 k (k=þúsund) manna ráðstefnu í Sharm El Sheikh í Egyptalandi um meinta yfirvofandi hlýnun jarðar.  0,11 % þátttakenda voru frá Íslandi, en á huldu er til hvers stofnað var til þess fjárausturs og losunar gróðurhúsaloftegunda. Ef einhver þeirra hefur haft eitthvað bitastætt fram að færa fyrir heimsbyggðina, hefur það ekki greinzt fyrir suðinu frá ráðstefnunni, venjulegu heimsendatuði og vafasömum gjörningum í nafni skattgreiðenda á Vesturlöndum. 

Þessar COP-ráðstefnur eru vonlausar trúðasamkomur, því að engin leið er að komast að nokkurri skuldbindandi niðurstöðu eða samvinnu um að draga úr losun koltvíildis.  Ef þátttakendur tryðu í raun og veru heimsendaboðskapnum, sem á almenningi er látinn dynja í síbylju, þá hlyti fyrir löngu að hafa náðst einhhver áþreifanlegur árangur við að draga úr losun CO2-koltvíildis, eins og raunin varð á um freon-efnin (kolflúoríð) til að vernda ósonlag jarðar.  Losun koltvíildis eykst stöðugt á heimsvísu og í flestum löndum, og nú er viðurkennt, að borin von sé til að halda hlýnun jarðar innan 1,5°C m.v. hitastigið um aldamótin 1800, enda var sú tala gripin úr lausu lofti á COP-ráðstefnunni í París í nóvember-desember 2015.   

Loftslagsáróðurinn stendur á slíkum brauðfótum og ofstækið er svo yfirþyrmandi, að erfitt er að taka hann alvarlega, enda virðast draumóramenn setja hann fram til höfuðs neyzluhyggju og auðhyggju.  Yfirlýsingar um yfirvofandi dómsdag út af hlýnun, jafnvel innan áratugar, hafa tröllriðið málflutningi þessara postula frá frumráðstefnunni um málefnið í Rio de Janeiro 1992. 

Ekki eru mælingar um styrk koltvíildis í andrúmsloftinu og stigul hans dregnar í efa, en hins vegar hefur hitastigshækkun andrúmsloftsins um 1,2°C frá um 1800 verið véfengd á vísindalegum grunni.  Dr John Christy, prófessor og framkvæmdastjóri "Earth System Science Center-ESSC", við háskólann í Alabama/Huntsville, sagði í yfirheyrslu hjá bandarískri þingnefnd árið 2012, að undanfarið 18 ára tímabil hefði enginn stígandi verið í hitastigi andrúmsloftsins samkvæmt óvéfengjanlegum  gervihnattamælingum. Sú niðurstaða sýnir einfaldlega, að líkan IPCC, sem notað er til að spá fyrir um hitastigsþróun andrúmsloftsins, er kolrangt og birt gögn um hitastigshækkunina eru röng. Um er að ræða flókið kerfi, og höfundar líkana IPCC virðast vera gloppóttir að þessu leyti.  Þegar svona er í pottinn búið, er ástæðulaust að gera sér rellu út af sífrinu frá minni spámönnum, sem SÞ hafa gleypt við, en þar fljúga ýmsir fuglar ófjaðraðir. 

Einn þeirra mörgu, sem gleypir við gögnum frá IPCC, er fyrrverandi Alþingismaður Alþýðubandalagsins og iðnaðarráðherra, Hjörleifur Guttormsson.  Í þeim anda skrifar hann heilmikið í Morgunblaðið, og 22.11.2022 birtist þar greinin:

"Mannkynið fjarri lausn við loftslagsvandanum".

Hún hófst þannig:

"Nú er mannsaldur liðinn frá því mælingar sýndu í hvað stefndi með koltvíoxíðinnihald (CO2) í andrúmslofti jarðar í kjölfar efnahagsumsvifa, sem byggðust á jarðefnaeldsneyti, kolum og olíu.  Sameinuðu þjóðirnar kvöddu til sérfræðinga, sem lögðu grunninn að loftslagssamningi um 1990, sem samþykktur var á ráðstefnunni í Ríó de Janeiro og síðan staðfestur af flestum ríkjum heims.  Fyrsti ársfundur aðildarríkja þessa samnings (COP-1) var haldinn í Bonn árið 1995 og síðan ár hvert, síðast í Egyptalandi, þar sem COP-27 var að ljúka um síðustu helgi.  Sá, sem þetta skrifar, gerði sér ferð á Ríó-ráðstefnuna og COP-4 í Buenos Aires árið 1998 og hefur fylgzt með þróun mála samfellt síðan.  Afleiðingarnar af aukningu CO2 á loftslag jarðar hafa orðið augljósari frá ári til árs, sem leiddi til Parísarsamkomulagsins sögulega á COP-20 árið 2015. Grunnur þess er, að stöðva beri meðaltalshlýnun andrúmsloftsins af mannavöldum innan við 1,5°C-2,0°C.  Reynslan síðan af áhrifum hlýnunar hefur fest neðri viðmiðunarmörkin í sessi sem eðlilega kröfu, en forsendurnar, til að hún verði að veruleika eru óskhyggja að óbreyttu efnahagsumhverfi."  

Það er ofeinföldun á flóknu kerfi andrúmsloftsins að tengja breytingar á hitastigi þess einvörðungu við hækkun koltvíildisstyrks og segja má, að gervihnattamæligögn dr John Christy afsanni þessi sterku tengsl, því að auðvitað jókst koltvíildisstyrkurinn mjög á tímabilinu 1994-2012, þegar hitastigið jókst ekkert. Sem dæmi má nefna, að vatnsgufa-H2O er öflug gróðurhúsalofttegund og við upphitun eykst geislun út í geiminn með hitastiginu í 4. veldi, svo að kerfið leitar jafnvægis í stað þess að stefna í stjórnlausa upphitun, eins og IPCC og aðrir dómsdagsspámenn halda fram. Allar dómsdagsspár á þessu sviði sem öðrum hafa orðið sér til skammar, en samt valdið ótta, einkum ungviðisins. 

Þorsteinn Sæmundsson, stjörnufræðingur, virðist yfirleitt hafa mikið til síns máls, þegar hann stingur niður penna.  Í örgrein í Morgunblaðinu gagnrýnir hann það réttilega, að nú virðast stjórnvöld ætla að skuldbinda Íslendinga til að greiða í loftslagsbótasjóð, fyrir að hafa stuðlað að hækkun koltvíildisstyrks í andrúmslofti, upphæð, sem gæti numið árlega mrdISK 3-4.  Í ljósi sögunnar er þetta fáheyrt.  Það sýnir, hversu leiðitamur loftslagsráðherrann er og laus við að hafa nokkurt leiðtogabein í nefinu, að honum þótti í kjölfar samþykktar um þetta í Sharm El Sheikh sjálfsagt að skuldbinda landsmenn í þessa veru. 

Þorsteinn Sæmundsson er annarrar skoðunar.  Téð grein hans, 28.11.2022:

"Fjármunum kastað á glæ",

hófst þannig:

"Skiptar skoðanir eru um það, hve mikinn þátt mannkynið eigi í hækkuðu hitastigi hér á jörðu.  Sjálfur hallast ég að því, að þessi þáttur vegi býsna þungt, en vil þó engan veginn fullyrða það.  Hitt þori ég að fullyrða, að mannlegar aðgerðir til að hamla gegn hitahækkuninni eru dæmdar til að mistakast.  Í fyrsta lagi eru þær þjóðir, sem mestri loftmengun valda, ekki virkir þátttakendur í aðgerðunum.  Í öðru lagi er engin von til þess, að aðrar þjóðir fylli upp í skarðið, því að það myndi ógna hagvexti þeirra. 

Að við Íslendingar tökum þátt í þessum aðgerðum, er hreinasta hneyksli, eins og ég hef áður fjallað um í blaðagrein: "Barnaskapur og sjálfsblekking", Mbl. 2.4.2022.  Um 90 % af orkunotkun okkar er laus við alla mengun.  Við stöndum bezt allra þjóða í því efni."

Þorsteinn telur tilraunir til að draga úr heimslosun CO2 dæmdar til að mistakast, og við það má bæta skrýtinni viðskiptahugmynd um að flytja CO2 inn til Íslands, blanda það við mikið vatnsmagn og dæla blöndunni niður í jörðina í von um, að blandan umhverfist þar í grjót.  Þessi aðferð er einfaldlega allt of dýr og krefst of mikillar orku og vatns. Sá, sem hefur fyrir því með erfiðismunum að draga CO2 út úr afsogi, mun fremur kjósa að selja það til framleiðslu á rafeldsneyti í grennd við sig en að senda það til Íslands. Varðandi "syndaaflausn" koltvíildislosara spyr Þorsteinn, hvar þessi vitleysa endi eiginlega ?  Fégreiðslur af þessu tagi eru dæmdar til að verða spillingu að bráð.  Við getum notað þetta fé betur hérlendis í sjóvarnargarða vegna hækkandi sjávarstöðu.    

 Einn þeirra, sem sótti messu loftslagskirkjunnar í Egyptalandi nú í vetur, COP-27, var Bergþór Ólason, Alþingismaður.  Hann er þó ekki í þessum sértrúarsöfnuði. Pistill eftir hann birtist á ritstjórnarsíðu Morgunblaðsins 28. nóvember 2022 undir fyrirsögninni:

"Loftslagskirkjan messar í Egyptalandi",

og hófst þannig:

"Fyrir réttri viku bárust fréttir af því, að "örþreyttir" samningamenn hefðu náð niðurstöðu um s.k. loftslagsbótasjóð á COP27, loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna [SÞ] í Sharm El-Sheikh í Egyptalandi. 

En niðurstöðu um hvað ?  Uppleggið er, að í sjóðinn renni 100 mrdUSD/ár frá þróuðum þjóðum til hinna vanþróuðu, sem verða fyrir tjóni af völdum veðurtengdra atburða.  Það samsvarar 11-földum fjárlögum Íslands [2022], árlega !

Ef mrd 1,5 jarðarbúa af mrd 8,0 stendur undir þessum greiðslum, má reikna með, að hlutur Íslendinga verði á 4. mrd árlega hið minnsta [hlutfall gefur 3,6 mrdISK/ár].  Höfðu embættismennirnir, sem þarna sátu dagana langa, umboð til að skuldbinda ríkissjóð með þessum hætti ?"

Það er tvöföld ástæða fyrir því, að glórulaust er að snara þessum fjármunum úr skuldugum ríkissjóði, sem þessi misserin er rekinn með miklum halla. 

Íslendingar voru fátækastir Evrópuþjóða um aldamótin 1900, enda höfðu þeir mannsaldurinn á undan orðið fyrir um fjórðungsblóðtöku, er atorkufólk hrökklaðist til Vesturheims undan kulda (hafísár), skorti á jarðnæði og atvinnuleysi.  Iðnvæðing hófst hér ekki að kalla fyrr en eftir Síðari heimsstyrjöldina, og var hún knúin áfram með endurnýjanlegum orkulindum.  Nokkru fyrir styrjöldina var farið að draga úr notkun kola og olíu með upphitun húsnæðis með heitu vatni úr iðrum jarðar.  Þannig var þróunin hérlendis með ósambærilegum hætti við önnur Vesturlönd og fáránlegt að láta Íslendinga borga einhvers konar "syndaaflausn", á meðan stórmengarar á borð við Kína, Indland, Indónesíu og Brasilíu er taldir til þróunarlanda og eru undanþegnir greiðslum í þennan sjóð. 

Sjóður á borð við þennan býður heim mikilli spillingarhættu, og það er hætt við stórfelldri misnotkun fjár og litlum framkvæmdum af viti til að aðlaga íbúana og lönd þeirra að breyttum aðstæðum. 

 

 

 


Gjaldskrá dreifiveitna ríkisins þarfnast úrbóta

Það er ófært, að dreifiveitur, sem eru með einokunarleyfi, mismuni íbúum þéttbýlis og dreifbýlis á grundvelli mannfjölda á sama dreifiveitusvæði.  Ríkisveiturnar RARIK og Orkubú Vestfjarða gera þetta og miða við 200 manns, en HS Veitur láta ekki þessa ósvinnu líðast á sínum veitusvæðum í svipuðum mæli.  Úr ríkissjóði er varið fé til að jafna mikinn mun innan dreifiveitnanna, en samt munar um 1,7 ISK/kWh eða 33 % gjaldskrá orku á milli þéttbýlis og dreifbýlis.  Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra verður nú að gera gangskör að því að laga þetta í anda baksviðsgreinar Helga Bjarnasonar í Morgunblaðinu 5. nóvember 2022 undir fyrirsögninni:

"Erfitt að byggja upp í dreifbýli".

Hún hófst þannig:

"Ef menn vilja hafa gjaldskrá RARIK áfram, eins og hún er, er verið að taka meðvitaða ákvörðun um að byggja ekki upp í dreifbýli.  Í gjaldskránni felst þéttbýlisstefna, andstæðan við dreifbýlisstefnu.  Þetta er skoðun Gunnlaugs Karlssonar, framkvæmdastjóra Sölufélags garðyrkjumanna og stjórnarmanns í Samtökum fyrirtækja í landbúnaði."

Í ljósi þess, að við blasir, að þessi dapurlega ályktun Gunnlaugs er rétt, lýsir það óviðunandi slappleika núverandi og fyrrverandi orkuráðherra og andvaraleysi Alþingis í varðstöðu þess um jafnrétti landsmanna og jöfn tækifæri, að enn skuli viðgangast stórfelld mismunun af hálfu ríkisfyrirtækja gagnvart íbúum landsins eftir því, hvort þeir eða atvinnustarfsemi þeirra er staðsett, þar sem búa fleiri eða færri en 200 manns. 

Það er auðvitað líka ótækt, að færsla dreifikerfa úr lofti í jörð samhliða þrífösun sveitanna bitni á kostnaði dreifbýlisins til hækkunar við rafmagnsnotkun.  Afnám loftlína dreifikerfanna er sjálfsögð ráðstöfun til að jafna afhendingaröryggi raforku við þéttbýli, og þrífösun sveitanna er sjálfsagt réttlætismál, um leið og það er hagsmunamál sveitanna. 

"Gunnlaugur segir, að óréttlætið í gjaldskrá RARIK einskorðist ekki við garðyrkjuna, heldur alla starfsemi í dreifbýli á starfssvæði RARIK og Orkubús Vestfjarða og starfsemi, sem áhugi sé á að byggja þar upp. Hann bendir á, að mikill uppgangur sé í ferðaþjónustu um allt land og þörf á fjárfestingum í gistiplássi.  Gagnaver séu að byggjast upp og stækka sem og landeldi á laxi og tengd starfsemi.  Þá sé þörf á orkuskiptum í landinu.  Spyr hann, hvernig hægt sé að réttlæta það, að sá, sem hlaða vill rafmagnsbílinn sinn í Staðarskála þurfi að greiða hærra gjald en ef hann gerir það á Akureyri.  Fleira mætti nefna, kornþurrkun og bakarí eru dæmi, sem Gunnlaugur nefnir til viðbótar.  Með núverandi fyrirkomulagi sé meginhluti flatlendis Íslands útilokaður frá uppbyggingu af þessu tagi.  Öllu sé stefnt í þéttbýlið, sem ekki taki endalaust við." 

Ríkisdreifiveitur rafmagns ættu þegar í stað að hefja undirbúning að afnámi tvískiptingar gjaldskráa sinna fyrir afl og orku eftir fjölmenni á staðnum, þ.e. sameiningu almennrar  gjaldskrár fyrir afl og orku og síðan aðgreiningu eftir skerðingarheimild, tíma sólarhringsins og orkumagni í viðskiptum.  Ef heimtaug er yfir ákveðnum mörkum að stærð og lengd, sé jafnframt heimild til álagningar viðbótar stofngjalds. 

Ef tregða reynist hjá fyrirtækjum og/eða ráðuneyti orkumála að hefja þetta starf strax, grípi Alþingi inn með viðeigandi þingsályktun. Alþingi á ekki að láta þetta sleifarlag á sjálfsagðri umbót í sanngirnisátt viðgangast lengur. Hvað er grasrótarráðherrann í orkuráðuneytinu að dóla.  Grasrótardálæti hans var reyndar ekki fyrir að fara á deilunum um Orkupakka 3, sem hann tróð öfugum ofan í grasrótina í Sjálfstæðisflokkinum.  Orð og efndir fara ekki saman hjá þessum fallkandidati í formannskjöri á Landsfundi í nóvember 2022. 

Að lokum sagði í þessari þörfu baksviðsfrétt Morgunblaðsins:

"Vegna úreltrar skiptingar landsins í gjaldsvæði er engin starfsemi, sem þarf umtalsverða raforku, byggð upp, nema hægt sé að koma því við í þéttbýli, að sögn Gunnlaugs.  Þar eru ýmis vandkvæði vegna skipulags og íbúðabygginga. 

Gunnlaugur segir, að ráðamenn virðist ekki átta sig á afleiðingum þessarar gjaldskrárstefnu og kominn tími til, að þeir og fulltrúar í sveitarstjórnum setji sig inn í þessi mál og bregðist við.  Hann nefnir sem möguleika að skipuleggja græna iðngarða, eins og gert er í Noregi.  Það hefði þá kosti, að til væri skipulagt svæði, sem myndi gefa fyrirtækjum kost á að hefja uppbyggingu fyrr en ella. Eins þyrftu gjaldskrár rafmagns, hitaveitu og vatnsveitu að vera þær sömu, hvar sem iðngarðarnir væru staðsettir, og taka aðeins mið af raunkostnaði við að flytja orkuna [og vatnið] þangað. [Rekstrarkostnaðarmun, sem eru aðallega meiri orkutöp og dælukostnaður vatns, á einfaldlega að fella inn í sameiginlega gjaldskrá - innsk. BJo.]

Önnur lausn á málinu er að afnema sérleyfi RARIK og Orkubús Vestfjarða til að dreifa orku raforku í dreifbýli og gefa dreifinguna frjálsa, eins og raforkusalan sjálf er nú þegar."  

S.k. ráðamenn hafa fæstir skilning á afleiðingum ráðstafana sinna, tilskipana og reglugerða, fyrir atvinnulífið, enda eru þeir þá úr öðrum jarðvegi komnir.  Hér snýst málið hins vegar um það einfalda meginatriði, að ríkisvaldið og fyrirtæki ríkisins mismuni ekki íbúum landsins eftir búsetu.  Sama dreififyrirtæki á að vera óheimilt að beita mismunandi gjaldskrám eftir staðsetningu viðskiptavinar, sem getur ekki leitað annað um viðskipti. Ef fyrirtæki þrjózkast við að verða við þessu, á að svipta það einokunarleyfinu.    


Sitt sýnist hverjum um vindmyllur

Framkvæmdastjóri hjá Landsvirkjun reit grein í Morgunblaðið þann 3. nóvember 2022 og upplýsti þar lesendur blaðsins um, að "á dögunum" hefði Landsvirkjun sent Orkustofnun umsókn sína um  virkjunarleyfi vinds með vindmylluþyrpingu, sem fyrirtækið nefnir Búrfellslund og á að verða 120 MW að uppsettu afli (á að gizka 30 vindmyllur). Það er ankannalegt, að þetta ríkisfyrirtæki skuli ríða á vaðið með þrýsting á yfirvöld orkumála um leyfi til að reisa og reka vindmylluþyrpingu á landinu áður en boðuð löggjöf um slík mannvirki lítur dagsins ljós.

Landsvirkjun beitir fyrir sig röksemdum um, að afl- og orkuskortur hrjái landsmenn nú þegar, sem er alveg rétt, og hann mun fara versnandi með hverju árinu, sem líður án nýrrar, áreiðanlegrar virkjunar, eins og Hvammsvirkjunar í Neðri-Þjórsá, inn á netið.  Landsvirkjun segir þó ekki alla söguna í þessum efnum, því að mest knýjandi þáttur vandans er aflskorturinn, og það er ekki hægt að reiða sig á vindmylluþyrpingu til að standa undir toppálagi stofnkerfisins.  

Að ríkisfyrirtækið skuli réttlæta hæsta fórnarkostnað á MWh á formi landspjalla í samanburði við þá kosti jarðgufu- og vatnsaflsvirkjana, sem fyrirtækið hefur úr að spila, er óverjandi. Ríkisfyrirtækið bítur síðan hausinn af skömminni með því að setja virkjanakost með hæsta vinnslukostnað raforku í ISK/kWh á oddinn.  Allt þetta brölt Landsvirkjunar er ógæfulegt, því að það rýrir orðspor þess sem vistvæns orkufyrirtækis og rýrir arðsemi þess eða veldur aukinni hækkunarþörf á heildsöluverði raforku til almenningsveitna. 

Einar Mathiesen, framkvæmdastjóri vinds og jarðvarma hjá Landsvirkjun, fékk birta grein eftir sig í Morgunblaðinu 3. nóvember 2022 undir fyrirsögninni:

 "Við þurfum vind fyrir orkuskiptin".

  Þar fór hann m.a. nokkrum orðum um rafmagnsskortinn í landinu, sem er í sjálfum sér þungur áfellisdómur yfir orkuyfirvöldum og orkustefnu landsins.  Orkustofnun sefur á 17 mánaða gamalli virkjunarumsókn  Landsvirkunar vegna Hvammsvirkjunar, en þess verður ekki vart, að orkuráðherrann ýti við orkumálastýrunni, svo að hún vakni til raunveruleikans.  Skyldu fundir hennar með ACER (Orkustofu ESB) nokkuð fjalla um afköst Orkustofnunar við afgreiðslu virkjanaleyfa á tíma, þegar Evrópa er í orkusvelti ?:

 "Skortur á raforku er orðinn hamlandi þáttur fyrir eðlilega atvinnustarfsemi í landinu, jafnvel þótt þörfin vegna orkuskipta sé ekki tekin með í reikninginn.  Skerða þurfti orkusölu til fjölmargra notenda síðasta vetur [2021-2022], þar sem ekki var til nægileg orka í samfélaginu til að uppfylla þarfir þeirra."

Vatnshæð Þórisvatns er nú um 3 m hærri en á sama tíma í fyrra, en samt undir meðaltali.  Vatnshæð Hálslóns er svipuð og að meðaltali.  Það er líklegt, að atvinnuvegirnir og fjarvarmaveiturnar losni við álagsskerðingar næsta vetur, en það er þó ekki öruggt, af því að það vantar aflgetu í kerfið.  Það er villandi af Landsvirkjun að láta í það skína, að vindmylluþyrpingar séu lausn á þessari knöppu stöðu, einfaldlega af því að það er ekki á vísan að róa með aflgetu vindmylla.  Það er ekki hægt að selja afl frá vindmylluþyrpingu fram í tímann, nema sem ótryggt afl með skerðingarheimild. Þess vegna er alvarlegt afl- og orkuástand í landinu núna engin röksemd fyrir yfirvöld til að þjófstarta vindmylluverkefnum.  Yfirvöldin eiga hins vegar að hrista af sér slenið og greiða leið annarra umsókna um virkjanaleyfi. 

Í lokin skrifaði Einar:

"Ef við ætlum að ná markmiðum stjórnvalda um orkuskipti fyrir árið 2030, er okkur ekki til setunnar boðið.  Í orkugeiranum verður að hugsa til langs tíma, enda er undirbúningur og bygging virkjana tímafrekt verkefni, sem talið er í árum.  Ef allt gengur að óskum, verður í fyrsta lagi mögulegt að tengja Búrfellslund við raforkukerfið í árslok 2025."

Markmið íslenzkra yfirvalda um minnkun losunar koltvíildis hefur alla tíð skort raunsæi, og nú er nokkuð ljóst, að engri þjóð mun takast að standa við skuldbindingar sínar gagnvart Parísarsamkomulaginu 2015, og fáir taka þetta orðagjálfur stjórnmálamanna alvarlega lengur.  Nú er viðfangsefni margra að lifa veturinn af með góðu eða illu, og margir grípa þá til óhollrar viðarkyndingar.  Hérlendis ætti ríkisfyrirtæki ekki að ganga á undan með illu fordæmi um að spilla víðernum með miklum fórnarkostnaði í samanburði við ávinninginn með þeim rökum að ná þurfi loftslagsmarkmiðum, sem þegar eru komin í vaskinn.  


Af framtíð heimsins

Enn á ný er barizt á banaspjótum út af yfirráðum lands í Evrópu og stjórnarfyrirkomulagi í því landi og víðar, í þessu tilviki einræði að rússneskri fyrirmynd eða lýðræði að vestrænum hætti.  Úkraínumenn hafa sýnt það að fornu og nýju, að þjóðfélagsleg viðhorf þeirra eru gjörólík Rússanna.  Úkraínumenn eru einstaklingshyggjumenn, sem er annt um frelsi sitt og lands síns og eru búnir að fá sig fullsadda á yfirráðum Rússa og frumstæðum stjórnarháttum þeirra.

  Úkraínumenn ganga ekki að því gruflandi núna, að þeir verða hnepptir í þrældóm, ef Rússar munu ná fram vilja sínum á þeim. Rússar eru forræðishyggjumenn, sem taka festu og stöðugleika í þjóðfélaginu fram yfir persónulegt frelsi sitt.  Þeir hafa jafnan í sögunni sýnt sínum zar hollustu. Hafi þeir velt honum, hafa þeir einfaldlega tekið sér nýjan zar.

Núverandi zar, sem af tali sínu og gjörðum að dæma gengur alls ekki heill til skógar, stundar nú þjóðarmorð í Úkraínu og er einn grimmasti stríðsglæpamaður seinni tíma. Hann hefur opinberað veikleika rússneska hersins á vígvellinum og með framferði sínu innan lands og utan skipað Rússlandi á ruslahauga sögunnar. Nú eru Pótemkíntjöldin fallin og eftir stendur agalítill og lítt bardagahæfur her án góðrar herstjórnar og herskipulags, sem níðist miskunnarlaust á varnarlausum óbreyttum borgurum.  Með falli téðra Pótemkíntjalda opinberast um leið siðblinda Kremlarherra, sem vekur fyrirlitningu um allan heim, einnig á meðal undirsáta Rússanna innan ríkjasambandsins.   

Úkraínska þjóðin er nú með eldskírn sinni endurfædd til sögunnar.  Hún hefur skipað sér í raðir vestrænna ríkja og ætlar að reka ræfildóminn úr austri í eitt skipti fyrir öll af höndum sér.  Vonandi hafa Vesturveldin manndóm í sér til að standa svo myndarlega við bakið á hinni hugdjörfu og einbeittu úkraínsku þjóð, að henni takist ætlunarverk sitt í nafni fullveldis, frelsis og lýðræðis, og vonandi ber NATO-ríkin gæfa til að veita Úkraínu vernd gegn látlausum yfirgangi úr austri með því að veita landinu aðild að varnarsamtökum vestrænna ríkja.  Að láta einræðisherrann í Kreml ráða því, hvaða lönd eru tekin inn í NATO að þeirra beiðni, gengur ekki lengur. 

Hryðjuverkamennirnir við stjórnvölinn í Rússlandi nútímans reyna nú í vanmætti sínum á vígvellinum að sprengja íbúa Úkraínu langt aftur í aldir og svipta þá lífsnauðsynjum s.s. vatni og rafmagni.  Þetta er gjörsamlega ófyrirgefanleg hegðun nú, þegar vetur gengur í garð.  Orkuskorts gætir líka um alla Evrópu.  Evrópa sýpur nú seyðið af draumórum sínum um, að gagnkvæmir hagsmunir vegna viðskiptatengsla ráði meiru um stefnumörkun í hefðbundnu einræðisríki en aldalöng útþensluhefð ríkisins. 

Það, sem á við um Þýzkaland í þessu samhengi, á einfaldlega ekki við um Rússland, og við mun taka áralöng einangrun Rússlands fyrir vikið. 

Um alla Evrópu, nema á Íslandi, mun verða gripið til viðarkyndingar í vetur til að halda lífi, og kolaorkuver hafa verið endurræst.  Það hillir ekki undir, að markmið Parísarsamkomulagsins náist árið 2030, enda fer losun flestra ríkja á koltvíildi vaxandi. 

Við þessar ömurlegu aðstæður og misheppnaða stefnumörkun stjórnmálamanna á flestum mikilvægustu sviðum tilverunnar, er hressandi að lesa boðskap Björns Lomborg, sem andæfir bölmóði heimsendaspámanna  með talfestum rökum. Eftir hann birtist grein í Morgunblaðinu 22.10.2022 undir fyrirsögninni: 

"Af svartagallsrausi heimsendaspámanna".

Þar gat m.a. þetta að líta:

  "Ósköpin dynja á okkur í síbylju, hvort sem þar er á ferð seinasta hitabylgja, flóð, skógareldar eða gjörningaveður.  Engu að síður sýnir sagan okkur, að síðustu öldina hafa válynd veður haft æ minni áhrif á mannskepnuna.  Á 3. áratug síðustu aldar lézt 1/2 M [manns] af völdum veðuröfga, en aðeins 18 k allan síðasta áratug [þ.e. þ.e. 3,6 % af fjöldanum fyrra tímabilið - innsk. BJo].  Árin 2020 og 2021 kröfðust svo enn færri mannslífa á þessum vettvangi.  Hvers vegna ?  Jú, vegna þess að því loðnara sem fólk er um lófana, þeim mun öruggar býr það."

Nú eru strax fluttar fréttir af vettvangi með myndaefni, þar sem veðuröfgar verða.  Fjölmiðlum hættir mjög til að gera mikið úr frásögnum sínum í sögulegu samhengi og kenna síðan hlýnun andrúmsloftsins af mannavöldum um.  Þetta er innistæðulaus bölmóður, hræðsluáróður, ætlaður til að koma sektarkennd inn hjá almenningi, hræða hann til að breyta neyzluvenjum sínum og lifnaðarháttum. Allt væri það unnið fyrir gýg. Samkvæmt gervihnattamælingum er hlýnun andrúmsloftsins miklu minni en IPCC (Alþjóðaráð Sþ um loftslagsbreytingar) heldur fram í skýrslum sínum og hleypir þar engum gagnrýnisröddum að.  Öfgar veðurfarsins eru iðulega ýktar í sögulegu tilliti og sérstaklega afleiðingar þeirra, eins og Björn Lomborg er óþreytandi við að rekja: 

"Sjónvarpsfréttir, sem fjalla um veður, gefa hins vegar til kynna, að allt sé á heljarþröm.  Það er rangt.  Árið 1900 var fátt talið eðlilegra en 4,5 % alls þurrlendis á jörðunni brynni ár hvert.  Síðustu öldina er þetta hlutfall komið niður í 3,2 %.  Sé að marka myndir frá gervihnöttum, hefur hlutfallið enn minnkað á síðustu árum.  Í fyrra var það 2,5 %.  Rík samfélög fyrirbyggja eldsvoða; svo einfalt er það.  Spár gera ráð fyrir því, að við lok þessarar aldar [21.] verði brunar enn færri, hvað sem hnattrænni hlýnun líður."

Fréttamenn hafa tilhneigingu til að slengja fram getgátum einum sem staðreyndum án þess að grafast fyrir um hinar raunverulegu staðreyndir.  Ef þeir ná óskiptri athygli "fréttaneytenda" í nokkrar mínútur, eru þeir nokkuð ánægðir með vaktina.  Fyrir vikið úir og grúir af misskilningi og rangfærslum, og allt er hengt á hlýnun af mannavöldum.  Úr henni er of mikið gert, og við á Norðurlöndunum getum nánast engin áhrif haft á koltvíildisstyrk andrúmsloftsins, sem er meintur sökudólgur, en hvað með önnur efni þar ? Öll er þessi saga of áróðurskennd og æsingakennd til að vera trúverðug, enda eru menn á borð við Björn Lomborg búnir að höggva stór skörð í trúverðugleikann. 

"Ekki dregur þó úr veðurtjóni einu þrátt fyrir spár um annað.  Ekki er nema áratugur síðan umhverfisverndarfólk boðaði endanlegan dauða stóra kóralrifsins við Ástralíu vegna loftslagsbreytinga.  Brezka blaðið Guardian ritaði jafnvel minningargrein um það.  Nú hafa vísindamenn hins vegar sýnt fram á, að rifið er í góðum gír - raunar betri en síðan 1985.  Þau skrif las auðvitað enginn." 

 Það væri til að æra óstöðugan að afsanna allan fullyrðingaflauminn, sem streymir frá froðuframleiðendum, sem kenna sig við umhverfisvernd, og eru illa að sér um lögmál náttúrunnar og hafa hvorki getu né vilja til að kynna sér þau mál til hlítar, sem þau gaspra um í tíma og ótíma.  Þarna tíundar Björn Lomborg eitt dæmið, en hann hefur hrakið marga bábiljuna úr smiðju þeirra.  Verst er, að hræðsluáróður dómsdagsspámanna nær eyrum stjórnmálamanna á Vesturlöndum, sem við stefnumörkun sína, t.d. í orkumálum, hafa mótað stefnu, sem er ekki aðeins vita gagnslaus og kostnaðarsöm, heldur einnig stórhættuleg fyrir lífsafkomu almennings í bráð og lengd. 

"Önnur algeng tækni umhverfisverndarsinna var að nota myndir af ísbjörnum í áróðursskyni.  Meira að segja var þeim beitt í kvikmynd Al Gore, Óþægilegur sannleikur.  Raunin er hins vegar sú, að ísbjörnum fjölgar.  Á 7. áratuginum [20. aldar] voru þeir [á] milli 5 og 10 þús., en eru í dag um 26 þús. að öllu töldu.  Þetta eru fréttir, sem við fáum aldrei.  Þess í stað hættu sömu umhverfisverndarsinnar bara hægt og hljótt að nota ísbirni í áróðri sínum."

Þegar þekking og yfirsýn ristir grunnt, gerist einmitt þetta, sem Björn Lomborg lýsir.  Ísbjörninn þarf aðgang að sjó til að leita ætis.  Þess vegna hefst hann við nálægt ísröndinni.  Sú ísrönd færist til eftir árstíðum, árum, áratugum og öldum.  Á norðurhveli hefur áður verið hlýrra en nú, t.d. á blómaskeiði víkinganna, þegar Ísland var numið.  Ísbjarnarfjölskyldur hafa væntanlega dafnað vel þá í miklu æti ekki síður en nú.  Hvernig fengu unhverfiskjánarnir þá flugu í höfuðið, að afkoma ísbjarna væri bundin við breiddargráðu ?  Ísbjörninn er stórkostlegt dýr, sem hefur alla tíð þurft að aðlagast breytilegu umhverfi. 

Síðan bendir Björn okkur vinsamlegast á, að kuldi sé manninum meiri skaðvaldur en hiti, og það á alveg sérstaklega vel við núna í orkuskortinum í Evrópu, þegar sumir hafa ekki efni á að kynda og hafa ekki aðgang að eldiviði:

"Á sama tíma horfum við fram hjá stærri vandamálum.  Lítum á alla athyglina, sem hitabylgjur hljóta í Bandaríkjunum og víðar. Dauðsföllum af völdum hita fækkar einmitt í Bandaríkjunum, aðgangur að loftkælingu hjálpar meira en hár hiti skaðar.  Kuldi kostar hins vegar mun fleiri mannslíf.  Í Bandaríkjunum einum deyja 20 k [manns] á ári vegna hita, en 170 k [manna] vegna kulda - við spáum ekkert í það.  Dauðsföllunum vegna kulda fjölgar í Bandaríkjunum, en við einblínum á hlýnun jarðar vegna þess, að stjórnmálamenn tönnlast á grænum lausnum, sem gera ekkert annað en að hækka orkuverð með þeim afleiðingum, að færri hafa efni á kyndingu.  Við skellum skollaeyrunum við því, hvar við gætum í raun hjálpað mest."  

Það er athyglisvert, að í BNA deyja næstum áttfalt fleiri úr kulda en hita.  Það má ætla, að ýmist sé það fólk, sem hefur ekki efni á að kynda húsnæði sitt, eða útigangsfólk.  Á Íslandi er líka útigangsfólk, sem hefur króknað úr kulda, en sem betur fer eru landsmenn langflestir í þeirri stöðu að hafa aðgang að orku á viðráðanlegu verði, svo að þeir geti haldið á sér nægilegum hita í verstu vetrarhörkunum.  Hættan er hins vegar sú, að ekki sé fjárfest nægilega í tæka tíð til að hindra, að framboðið ráði ekki við eftirspurnina.  Þetta kann að eiga við um hitaveitur vegna mikillar mannfjölgunar og rafmagn vegna vanfjárfestinga í nýjum virkjunum.  Kveður svo rammt að hinu síðar nefnda núna, að klárlega má segja, að orkuyfirvöldin fljóti sofandi að feigðarósi.   


Vaxtarskeiði fiskeldis er hvergi lokið hérlendis

Nú er saman komin sú þekking og fjármagn í fiskeldi hérlendis, sem saman mynda grundvöll heilbrigðs vaxtar í atvinnugreininni.  Við blasir atvinnugrein, sem með þessu móti býr sig í stakkinn til að verða ein af undirstöðum íslenzkrar útflutningsstarfsemi. 

Eins og við hlið hinna undirstaðanna, sjávarútvegs, orkusækins iðnaðar, flutnings erlendra ferðamanna til og frá landinu og sölu gistingar til þeirra, þróast alls konar starfsemi við hlið fiskeldisins, t.d.  hönnun og framleiðsla á sjálfvirkum búnaði og fóðurframleiðsla. Sú síðast nefnda á mikla framtíð fyrir sér vegna möguleika á hráefni, sem að öllu leyti getur orðið innlent, og vegna hagstæðrar raforku úr endurnýjanlegum orkulindum.  Það, sem þarf til að skjóta stoðum undir innlenda fóðurframleiðslu, er að stórefla kornrækt í landinu. Einkaframtakið er fullfært um það, ef hið opinbera aðeins hefur manndóm í sér til að bjóða kornbændum áfallatryggingu gegn uppskerubresti.  Með þessu fæst heilnæmara fæði og fóður með minna kolefnisspori en samsvarandi innflutningur og gjaldeyrissparnaður, sem styrkir ISK að öðru óbreyttu og eykur verðmætaskapandi vinnu í landinu, sem er ígildi útflutningsiðnaðar. 

Íslenzkt fjármagn og þekking koma nú af vaxandi krafti inn á öllum sviðis fiskeldis við og á Íslandi ásamt hliðargreinum.  Það er eðlileg þróun, en hvaðan kemur þetta fjármagn og þekking ?  Hvort tveggja kemur aðallega frá íslenzkum sjávarútvegi, sem er afar ánægjuleg þróun. Ef hins vegar niðurrifspúkar í íslenzkri stjórnmálastétt, gjörsneyddir þekkingu á þörfum atvinnulífsins, hefðu ráðið för á Alþingi, væri nú íslenzkur sjávarútvegaður sá eini í heiminum, sem væri ofurskattlagður, væri þannig í hrörnun og ekki í neinum færum til að hleypa lífi í sprotagreinar. Fyrirtækið, sem hér á eftir kemur við sögu, Laxá fiskafóður á Akureyri, er dótturfélag almenningshlutafélagsins Síldarvinnslunnar á Neskaupstað, svo að saga auðhyggju og atvinnusköpunar verður ekki betri.  Afætur og skattheimtuskúmar á Alþingi og víðar geta étið það, sem úti frýs, á meðan þekking og fjármagn einkaframtaksins leggur grunn að auðsköpun þjóðar í vexti. 

Þann 18. október 2022 birti Gunnlaugur Snær Ólafsson viðtal í Morgunblaðinu við hinn stórhuga Gunnar Örn Kristjánsson (GÖK), framkvæmdastjóra Laxár fiskafóðurs á Akureyri, undir fyrirsögninni:

"Innlend verksmiðja anni eftirspurn":

"Hann segir áherzlu fyrirtækisins vera að framleiða fóður fyrir fiskeldi innanlands."Laxá er með 80 % hlutdeild í sölu fiskafóðurs á landeldismarkaðinum, þannig að við erum með seiðastöðvarnar almennt, landeldisstöðvar fyrir lax og bleikju og svo sjóeldi á regnbogasilungi fyrir vestan. Hvað sjóeldi á laxi varðar, erum við í dag ekki ekki tæknilega útbúnir til að framleiða þetta fituríka fóður, sem notað er, og voru því flutt inn 60 kt á síðasta ári [2021] af fiskafóðri frá Noregi og Skotlandi."" 

Það liggja greinilega ónýtt, fýsileg þróunartækifæri til atvinnusköpunar og aukinnar verðmætasköpunar úr afurðum sjávarútvegs og landbúnaðar til að framleiða meira en 100 kt/ár af fóðri í vaxandi sjókvíalaxeldi og spara þannig um 25 mrdISK/ár af gjaldeyri, er fram líða stundir. Að gera íslenzka fæðuframleiðslu sem sjálfbærasta og sem óháðasta erlendum aðföngum er verðugt verkefni, og með orkuskiptunum og fjölbreyttri ræktun innanlands við batnandi náttúruleg skilyrði hillir undir aukið sjálfstæði innlendrar matvælaframleiðslu.  Annað mál er, að ætíð verður við venjulegar aðstæður þörf á innflutningi matvæla, sem ekki eru framleidd hérlendis í neinum mæli.

"Eftirspurn eftir fóðri, sem er umhverfisvænna og með minna kolefnisspori, hefur aukizt í takti við kröfur neytenda til eldisafurða.  "Við erum að flytja maís frá Kína og soja frá Suður-Ameríku.  Soja skilur eftir sig mikið kolefnisspor vegna skógareyðingar og flutninga.  Þannig að við erum að vinna að því að finna eitthvað, sem getur komið í staðinn fyrir þetta jurtamjöl, sem við getum fengið hér innanlands eða innan Evrópu.""

Þetta er heilbrigð og ánægjuleg viðskiptahugmynd, sem verður æ raunhæfari með tímanum vegna vaxandi eftirspurnar og bættra ræktunarskilyrða og þekkingar á Íslandi á því, sem komið getur í staðinn. Það er til mikils að vinna að færa aðfangakeðjur matvælaiðnaðarins í mun meira mæli inn í landið en verið hefur. Það helzt í hendur við aukna meðvitund um nauðsyn bætts matvælaöryggis og auðvitað hollustu um leið. 

"Hann bendir einnig á, að unnið sé að sambærilegu verkefni [nýting úrgangs frá skógariðnaði] hér á landi, þar sem fyrirtæki í samstarfi við Landsvirkjun á Þeistareykjum er að skoða notkun koltvísýrings til próteinframleiðslu úr einfrumungum og einnig smærri MATÍS-verkefni, þar sem nýttar eru aukaafurðir úr kornrækt til að búa til prótein með einfrumungum.  "Þetta er mjög spennandi verkefni líka.  Það væri mikill munur að geta fengið fleiri umhverfisvæn hráefni innanlands."" 

Þetta sýnir þróunarkraftinn í fyrirtækjum í fóður- og matvælaiðnaði hérlendis, og það er ekki sízt að þakka afli sjávarútvegsins og fiskeldisins.  Hreint koltvíildi, CO2, verður verðmætt hráefni í fóðurgerð og eldsneytisframleiðslu, enda er dýrt að vinna það úr afsogi.  Það er þess vegna sóun fólgin í að dæla koltvíildinu niður í jörðina með ærnum tilkostnaði, eins og gert er á Hellisheiði og áform eru um að gera í Straumsvík, en verður sennilega aldrei barn í brók, af því að miklu hagkvæmara er að selja CO2 sem hráefni í framleiðsluferla framtíðarinnar.

"Hann [Gunnar Örn] kveðst eiga sér draum um, að kornrækt hér á landi verði einnig mun meiri í framtíðinni, þar sem núverandi framleiðsla sé langt frá því að svara hráefnisþörf fóðurfyrirtækja.  "Það þyrfti ekki endilega að styrkja bændur til að hefja kornrækt.  Það þarf bara einhvers konar bjargráðasjóð þannig, að [verði] uppskerubrestur, færu þeir ekki í gjaldþrot.  Síðan þyrfti að vera eitthvert söfnunarkerfi í anda kaupfélaganna, svo [að] hægt yrði að kaupa í miklu magni."" 

Þarna er að myndast innanlandsmarkaður fyrir kornbændur.  Annaðhvort mundu þeir mynda með sér félag um söfnunarstöðvar eða fjárfestar koma þeim á laggirnar.  Aðalatriðið er, að eftirspurnin er komin fyrir kornbændur.  Það er varla goðgá að tryggja þá gegn áföllum, eins og gert er sums staðar erlendis. Þetta er hagsmunamál fyrir landið allt. 

Að lokum kom fram hvatning Gunnars Arnar Kristinssonar:

 "Íslendingar ættu að vera fullfærir um að framleiða allt sitt fiskafóður sjálfir og með umhverfisvænni hætti en innflutt, að mati hans.  Það skilar mun lægra kolefnisspori og ekki sízt betri sögu um sérstöðu íslenzkra fiskeldisafurða, sem hefði jákvæð áhrif á viðhorf neytenda á erlendum mörkuðum."

Hér er stórhuga sýn um þróun fiskafóðurframleiðslu í landinu sett fram af kunnáttumanni í þeirri grein.  Hér er ekkert fleipur á ferð , og GÖK færir fyrir því sannfærandi rök, hvers vegna fiskeldisfyrirtækin hérlendis ættu að taka innlenda framleiðslu fiskafóðurs fram yfir erlenda.  

 

 

  


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband