Ábyrgð Samfylkingar á umferðaröngþveiti í Reykjavík er mikil

Samfylkingarfólk í borgarstjórn hefur mótað stefnuna í umferðarmálum borgarinnar, sem leitt hefur bílaumferðina inn í öngstræti, og það stefnir í botnlausa útgjaldahít án nokkurs árangurs fyrir umferðina.  Þetta er vegna þeirrar áráttu jafnaðarmanna að hafa vit fyrir öðrum, "vér einir vitum".  Í þessu tilviki hafa fúskarar í umferðarmálum og skipulagsmálum borga úr röðum Samfylkingar haldið á lofti þeirri utan að lærðu kenningu, að fjölgun akreina eða mislæg gatnamót séu þýðingarlaus á höfuðborgarsvæðinu, af því að ný mannvirki fyllist strax af bílum.  Þórarinn Hjaltason, samgönguverkfræðingur, hefur í Morgunblaðsgrein sýnt fram á, að í borg á borð við höfuðborgarsvæðið sé þessi kenning firra.  Samt hefur aðgerðarleysi í vegaframkvæmdum í Reykjavík verið reist á þessari fjarstæðukenndu kenningu á ábyrgð Samfylkingar.  

Aðalleiðarstef Samfylkingar í málefnum umferðar á höfuðborgarsvæðinu hefur verið borgarlína, sem eru hraðferðir á miðjusettum akreinum eftir aðallega tveimur ásum.  Aðstæður á höfuðborgarsvæðinu, dreifð byggð og erfitt veðurfar, eru með þeim hætti, að hlutdeild Strætó í heildarumferð er aðeins um 4 %.  Þetta er allt of lítið til að réttlæta fjárfestingar upp á mrdISK 130 eða meira (endurskoðun Samgöngusáttmálans er enn í burðarliðnum), og þess vegna hefur Samfylkingarfólkið, trútt sinni forræðishyggju, reynt að pína ökumenn bíla og farþega þeirra til að leggja bílnum og velja almenningssamgöngur í staðinn, og með bættri þjónustu borgarlínu dreymir þetta lið um þreföldun hlutdeildar, en ekkert bendir til, að það sé raunhæft.  Þetta hefur verið gert með ýmsum aðgerðum til að tefja umferðina, og er það svínslegt ráðslag af þeim, sem trúað hefur verið fyrir að fara með völdin í þágu borgarinnar.  Samfylkingin kann ekki að skammast sín, og hefur bitið höfuðið af skömminni með þéttingu byggðar meðfram ásum borgarlínu.  Þetta hefur stórhækkað íbúðaverð og valdið lóðaskorti, sem er líklega stærsti verðbólguvaldurinn um þessar mundir.  Þannig rekur hvað sig á annars horn í höfuðborginni, þar sem Samfylkingin hefur haft töglin og hagldirnar í á annan áratug.  Ef kjósendur fela Samfylkingunni stjórn landsins í næstu Alþingiskosningum, munu þeir fara úr öskunni í eldinn, enda máttu þeir vita vegna óstjórnarinnar í Reykjavík, að þeir væru að kaupa köttinn í sekknum.  

Tveir mætir menn eiga heiður skilinn fyrir að láta ekki umferðarmálin liggja í láginni.  Það eru þeir Þorkell Sigurlaugsson og téður Þórarinn Hjaltason, sem í júní 2024 rituðu 2 greinar um málaflokkinn í Morgunblaðið.  Birtist sú fyrri þann 21. undir fyrirsögninni:

"Bráðavandi í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu".

Hófst hún þannig:

"Svo kölluð endurskoðun samgöngusáttmála ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu frá 2019 hefur tekið meira en heilt ár, en er nú lofað á næstunni, jafnvel fyrir júnílok [2024].  Miklar væntingar byggðust upp í kjölfar undirritunar hans og nú endurskoðunarinnar.  Strax í tengslum við borgarstjórnarkosningar 2022 bentu ýmsir á þörf fyrir róttæka endurskoðun, en þöggun var í gangi."

Þessi samgöngusáttmáli eru Pótemkíntjöld, sem Samfylkingunni þótti heppilegt að setja upp til að hylja eigin eymd, "framkvæmdastopp" vegaumbóta á höfuðborgarsvæðinu í áratug gegn 1 mrdISK/ár frá ríkinu til að halda gjaldþrota almenningssamgöngum á floti.  Á meðan hafa umferðartafir aukizt, og hættan á fjölförnum gatnamótum og víðar magnazt.  Þetta var furðuráðstöfun að frumkvæði Samfylkingarinnar, sem hefur reynzt vegfarendum á höfuðborgarsvæðinu dýrkeypt.  Kostnaðaráætlun þessara pótemkíntjalda var út í hött, og þegar þetta er birt 8. júlí 2024 hefur þessi óþarfa pólitíska sýndarmennska ekki litið dagsins ljós endurskoðuð. 

Samfylkingin skákar gjarna í því skjólinu, að hún reki umhverfisvæna samgöngustefnu.  Þetta er tóm vitleysa.  Hvað halda menn að umferðartafirnar kosti mikla aukningu á bruna jarðefnaeldsneytis, og það er hrein hörmung að horfa upp á stóra "tóma" vagna á götunum megnið af deginum, valdandi miklu dekkja- og vegsliti auk eldsneytisbruna.  Sú stefna Samfylkingar að beita borgarkerfinu til að tefja vegfarendur, svo að þeir hrökklist í strætisvagninn,  ætti að valda almennri fordæmingu á þeim stjórnmálaflokki, en þess í stað sýna skoðanakannanir, að með sýndarveruleika og látbragðskúnstum hefur tekizt að villa um fyrir mörgum kjósendum, enda leitar klárinn þangað, sem hann er kvaldastur. 

"Umferðartafir á höfuðborgarsvæðinu kosta íbúa, fyrirtæki og þjóðina vel yfir 30 mrdISK/ár vegna aukins kostnaðar fyrirtækja og einstaklinga í samgöngum, minni framleiðni, minni skatttekna ríkis og sveitarfélaga, auk meiri mengunar og skertra lífsgæða almennings.  [Annar kostnaðarliður vegna illa ígrundaðrar stefnu Samfylkingar í umferðarmálum er aukinn slysakostnaður og bifreiðatjón.]

Stytting vinnuvikunnar er löngu farin í tímasóun í einkabílnum eða í strætó.  Á næstu 10 árum mun kostnaður vegna umferðartafa á svæðinu aukast verulega." 

Jafnaðarmenn við stjórn borgarinnar hafa rænt nýlegri vinnutímastyttingu af launamönnum með því meðvitað að þvinga þá í umferðarteppur - og -hnúta í þeirri bornu von, að þeir fari að ferðast með strætó.  Hvernig má það vera, að verkalýðsforkólfar, sem annars láta sér fátt vera óviðkomandi, gagnrýni ekki aðgerðarleysi borgaryfirvalda, sem skert hafa verulega lífsgæði skjólstæðinga þeirra ?  Sama má segja um landlæknisembættið.  Þar á bæ eru oft uppi pólitískar hugmyndir um neyzlustýringu með gjaldtöku af óhollustu.  Hvers vegna heyrist ekki bofs um lýðheilsumál Reykvíkinga í uppnámi vegna aukinnar hættu, streitu og mengunaráreitis í umferðinni af mannavöldum.  Almennt má segja, að borgarstjóri og meðreiðarsveinar hans í borgarstjórn hafi komizt upp með stefnumörkun og stjórnarhætti, sem eru fyrir neðan allar hellur, furðu gagnrýnilítið. 

"Fossvogsbrúin, eins mikilvæg og hún gæti verið, er orðin deila um kostnað, og hvort þetta eigi að vera listaverk.  Sæbrautarstokkur er allt of dýr framkvæmd.  Miklubrautarstokkur er rándýr og illframkvæmanlegur.  Jarðgöng undir Miklubraut eru orðin álitlegri kostur að mati Vegagerðarinnar og fleiri fagaðila.  Fækkun akreina úr tveimur í eina í hvora átt efst á Laugavegi og Suðurlandsbraut, lækkun umferðarhraða og miðjusetning borgarlínu mun umturna og tefja gífurlega alla bílaumferð. 

Borgarlína mun skerða bílastæði við fyrirtækin og aðkomu að þeim við göturnar.  Aðkoma að Laugardalsvelli og fyrirhugaðri Þjóðarhöll verður algjörlega óviðunandi fyrir mörg þúsund manns, sem koma þangað á viðburði á stuttum tíma.  Heildarhönnun og framkvæmd borgarlínu mun taka mjög langan tíma, jafnvel 15-20 ár." 

Þarna heyrist rödd heilbrigðrar skynsemi og fagmennsku á sviði umferðarmála höfuðborgarsvæðisins.  Hvorugu er til að dreifa í ranni meirihluta borgarinnar, þar sem trippin eru rekin af Samfylkingunni, sem er endemis meinlokuflokkur, þar sem stefnan er mótuð af amatörum, sérvitringum og skýjaglópum. Að haldið skuli áfram út í borgarlínufenið í stað þess að gera sér grein fyrir, að um mikla fjárhagslega og tæknilega ófæru er að ræða, sem skynsamlegast er að læsa ofan í skúffu strax, sýnir, að pólitísk hugsun í Samfylkingunni er mótuð af kreddum og trúarkenningum. Þetta er ekkert nýtt, heldur hefur verið viðloðandi flokkinn frá stofnun hans og var áberandi í vinstri stjórninni 2009-2013.  Verkin tala, og ekkert er að marka fagurgala núna.  Þessi fagurgali hefur þó greitt götu óánægjufylgis frá stjórnarflokkunum, og sú óánægja með blöndu stjórnleysis og verkleysis ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er ekkert grín.  Ef núverandi forystu ríkisstjórnarinnar tekst ekki að vinda ofan af verstu vitleysunni, t.d. í útlendingamálum og virkjanamálum, þá verður hér gallískt (franskt) ástand eftir næstu Alþingiskosningar, þ.e. enginn starfhæfur ríkisstjórnarkostur í boði.  

 

 


Bloggfærslur 8. júlí 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband