Færsluflokkur: Sjónvarp
23.1.2010 | 22:40
Algjör veizla
Íslenzka landsliðið í handknattleik ver nú sóma Íslands í Evrópukeppninni í handbolta í Austurríki. Sigurinn í Linz var stórkostlegur. Danir lögðu sig alla fram, en íslenzka seiglan hafði samt sigur. Höfundur þessa vefseturs ætlar að stilla sig um að nefna nokkur nöfn í þessu sambandi, af því að honum er ljóst, að það var liðsheildin sem sigraði.
Hann vill þó draga fram hlut hinna yngri manna í liðinu um leið og hann leggur áherzlu á það gagnvart ágætri forystu liðsins að gæta þess að nýta jafnt styrk hinna yngri og eldri. Hinir yngri eiga að brjótast fram til forystu með grimmd og hinir eldri að halda forystunni með yfirvegun og seiglu.
Allir þeir, sem lagt hafa hönd á plóg við að styrkja liðið, andlega og líkamlega, í þessari erfiðu baráttu, sem nú er háð í Austurríki, eiga mikinn heiður skilinn.
Barátta liðsheildarinnar fyrir sameiginlegu markmiði er það, sem máli skiptir í baráttu af þessu tagi og tryggir árangur. Sérgæðingsháttur og ótímabær sýningarþörf á engan rétt á sér. Einn fyrir alla og allir fyrir einn.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)