Færsluflokkur: Ferðalög

Landsstjórnin verður að greiða götu nýrra vatnsaflsvirkjana á Vestfjörðum

Þann 31. júlí 2023 birtist fjagra dálka ljósmynd á forsíðu Morgunblaðsins af skemmtiferðaskipum á Skutulsfirði, sem reykjarstrókana lagði upp af.  Þarna var ljósi varpað á mengunarvandamál og orsök þess á þessum stað, raforkuskortinn.  Nú blaðrar forsætisráðherra um, að verið sé að endurskoða opinbera aðgerðaáætlun til að draga úr losun koltvíildis frá Íslandi.  Það plagg verður án tengils við raunveruleikann, nema miklu meira verði virkjað af endurnýjanlegri orku á Íslandi. 

Ef ráðherrarnir ætla að hrista af sér slyðruorðið, munu þeir láta búa til hraðfara aðgerðaáætlun til að gera Vestfirðinga sjálfum sér næga með raforku úr endurnýjanlegum orkulindum og að ýta á eftir því, að ríkisfyrirtækið Landsnet breyti 33 kV og 66 kV loftlínum sínum á Vestfjörðum í jarðstrengi.  Þar með verður hægt með raunhæfum hætti að undirbúa rafvæðingu hafnanna með háspenntan tengibúnað fyrir farþegaskipin.  Þangað til ættu bæjaryfirvöld á Ísafirði að setja útgerðum farþegaskipanna stólinn fyrir dyrnar með sóðaskapinn og gera þeim að brenna gasi, á meðan þau eru inni á fjörðum. Það gerðu Norðmenn, sem nú eru mun lengra komnir við rafvæðingu hafnanna en Íslendingar, enda ekki forpokað afturhald að setja skít í tannhjól þróunarinnar þar. 

Í Morgunblaðinu, 31.07.2023, birtist frétt um þetta undir fyrirsögninni:

"Ekki til orka fyrir skipin".

 Þar var viðtal við íbúa á Ísafirði, Sturlu Pál Sturluson:

""Eins og við, sem búum hérna fyrir vestan, vitum, er Skutulsfjörðurinn sérstaklega lognsæll, en það kemur hins vegar allt of oft fyrir, að hann er í hálfgerðri blárri móðu eftir skipin", segir Sturla.  Spurður, hvort mikil óánægja ríki [á] meðal bæjarbúa vegna ástandsins svarar Sturla því til, að fyrst og fremst hafi þeir áhyggjur af stöðu mála."

Staða mála er sú, að Ísfirðingar eiga ekki að þurfa að sætta sig við, að nokkur farþegaskip leggist að hjá þeim og mengi þá þá svo mjög, að sé á við árslosun bílaflota þeirra.  Það á að fara að dæmi Norðmanna, sem banna svona dalla í norskum fjörðum og gera að skilyrði fyrir móttöku þeirra, að þau séu annaðhvort knúin jarðgasi eða rafmagni, á meðan þau eru innan norskra fjarða.  Það er til skammar, að skortur á raforku úr endurnýjanlegum lindum skuli standa rafvæðingu hafnanna á Vestfjörðum fyrir þrifum.  

Úrtölumenn á við píratakjánana halda því fram, að ekki sé unnt að heimila nýjar virkjanir, af því að þörfin sé ekki ljós, hægt sé að spara orkutöp, hætta að selja orku til námugraftrar gervimynta og þar fram eftir götunum. Ekki sé hægt að tryggja, að ný orka fari í orkuskipti.  Allt er þetta tómur fyrirsláttur til að drepa umræðunni á dreif, og það hefur tekizt, því að ekkert stórt virkjanaverkefni er nú í gangi, eftir að Hvammsvirkjun fór á ís á fáránlegum grundvelli, þ.e. vatnalögum Evrópusambandsins.   

Þörfin hefur verið kortlögð og nemur um 80 MW eða 400 GWh/ár.  Allar stærðirnar, sem píratakjánarnir nefna til sönnunar þess, að ekki þurfi að virkja, verða eins og dropi í hafið, þegar þessar árlegu þarfir eru lagðar saman yfir byggingartíma virkjunar á borð við Hvammsvirkjun.  Undanfarin ár hefur aðeins brot af ofangreindum stærðum bætzt við uppsett afl og árlega orkuvinnslugetu. 

Það er mjög annkannalegur málflutningur hjá pírötum, sem að upplagi eru stjórnleysingjar, að vinza eigi úr viðskiptamannahópi raforkufyrirtækjanna eftir geðþótta stjórnmálamanna.  Það verður hér eftir sem higað til að vera greiðslugeta fyrirtækjanna, sem ræður því, hvort þau fá raforku eða ekki.  Annað er óþolandi forræðishyggja og mismunun í anda kommúnista, sem vart stenzt Stjórnarskrá.  

"Þá segir Sturla stóra Akkilesarhælinn vera, að ekki megi virkja fyrir vestan, þó [að] nóg sé af fallvatni, og því geti skemmtiferðaskipin ekki nýtt sér rafmagn, þegar þau leggjast þar að bryggju.

"Þó [að] þessi skip myndu vilja fara þá leið, þá er þetta rafmagn bara ekki [fyrir hendi]. Það er ekki nóg að setja upp kapla og tengingar, ef engin er orkan", segir Sturla og bætir við, að fólk sé kannski ekki almennt að setja sig upp á móti skemmtiferðaskipum, heldur sjái frekar hið jákvæða vegna afkomunnar fyrir bæjarfélagið, þó [að] vissulega sé mengunin óþægilegur fylgifiskur þessa tiltekna ferðamáta"."  

Það þarf mikið afl til að sjá stórum skemmtiferðaskipum fyrir nægu afli, enda eru þetta heil bæjarfélög á floti, þegar mest er. Það gæti þurft 10 MW aflfæðingu að höfninni á Ísafirði fyrir þetta, og það er óvíst, að flutningskerfið að bænum geti annað því núna, og núverandi vatnsaflsvirkjanir á Vestfjörðum geta ekki bætt við sig þessu álagi. 132 kV Byggðalínan er fulllestuð, svo að þótt  132 kV Vestfjarðalína gæti bætt þessu álagi á sig, kemur það ekki að haldi, enda er árlegt viðhaldstímabil hennar að sumarlagi, og allir, nema píratar og forysta Landverndar, sjá, að engin glóra er í að gangsetja olíukyntar varaaflsstöðvar Vestfjarða til að anna raforkuþörf skemmtiferðaskipta. Þess vegna hefur téður Sturla Páll lög að mæla um raforkuskortinn, þótt með ólíkindum sé á Íslandi 2023. 

Vegna óstjórnar og misheppnaðrar lagaumgjarðar orkumálanna að hætti þröskulda samfélagsins siglir Ísland nú inn í Suður-Afríkanskt ófremdarástand með straumleysi vegna yfirálags og orkuskerðinga vegna orkuskorts.  Orkuskerðingar hafa verið staðreynd um langa hríð staðbundið, t.d. í Eyjafirði í tvo áratugi vegna ófullnægjandi flutningsgetu, þegar tekin er með í reikninginn raforka, sem óskað hefur verið eftir, en ekki fengizt.  Þetta hefur valdið þjóðfélaginu tugmilljarða ISK tekjutapi á ári.  

Nú er sú staða að koma upp á Vestfjörðum vegna rífandi gangs útflutningsgreina þar og fólksfjölgunar, að aðeins verður unnt að anna aukinni aflþörf Vestfirðinga með olíukyntum rafstöðvum.  Það er reginhneyksli og falleinkunn fyrir landsstjórnina, sem stöðugt gumar af endurnýjanlegum orkulindum og orkuskiptum. 

Elías Jónatansson, orkubússtjóri Orkubús Vestfjarða, er ötull talsmaður heilbrigðrar skynsemi í orkumálum Vestfirðinga og hefur iðulega skrifað fróðlegar greinar í Morgunblaðið um þetta brýna mál, sem þolir ekki lengri bið og Þyrnirósarsvefn yfirvalda, því að trúverðugleiki stefnunnar um samdrátt koltvíildislosunar og orkuskiptin liggur við:  

"Í þágu Landverndar".

Greinin 26. júlí 2023 hófst þannig:

"Landvernd sendi Orkubúi Vestfjarða formlega beiðni 21. júlí 2023 um, að bregðast við meintum rangfærslum í grein umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra í grein, sem birtist í Morgunblaðinu 7. júlí [2023].  Það er óvenjulegt, að Orkubúið fái slíka beiðni.  Orkubúinu er málið hins vegar skylt og því sjálfsagt að leysa úr smávægilegum misskilningi, sem snýst reyndar ekki um, hversu mikið varaafl var framleitt með dísilolíu né um það, hversu stórt kolefnisspor þeirrar framleiðslu var, heldur um það, hver á varaaflsstöðina, sem um ræðir.  Það er því upplýst hér á sama vettvangi, að umrætt varaafl er í eigu Orkubús Vestfjarða.  Gagnvart kolefnissporinu og verndun loftslags er eignarhaldið á varaaflsstöðinni aukaatriði, en varmaorkuna, sem um ræðir, þarf að framleiða með dísilolíu vegna skorts á raforku [úr endurnýjanlegum orkulindum - innsk. BJo]. Það er óumdeilt."

Þessi sparðatíningur Landverndar er broslegur og varpar aðeins ljósi á, að þar á bæ kemst fólk aldrei að kjarna málsins, heldur reynir með heimatilbúnum og hrásoðnu fótalausu þvaðri að halda því fram, að ekki vanti meiri raforku í landið, því að Íslendingar framleiði manna mesta raforku úr endurnýjanlegum orkulindum í heiminum.  Þetta er sértrúarflokkur, sem einföldustu rök bíta ekki á.  Þessi einföldu rök eru, að andrúmsloftið er aðeins eitt, og ef þessi raforka væri framleidd annars staðar, þá kæmi sú raforka að megninu til úr varmaorku jarðefnaeldsneytis og að mestu úr kolum. 

Þá er gengið um á skítugum skónum í húsi staðreyndanna í aumkunarverðri tilraun til að sverta íslenzka stóriðju. Því er haldið fram, að Norðmenn framleiði ál með meiri orkunýtni en Íslendingar.  Svona samanburður er afar villandi, því að staðreynd er, að með hærri straumstyrk og stærri kerum fæst að öðru jöfnu hærri orkunýtni.  Tæknimönnum íslenzku álveranna og öðrum starfsmönnum þeirra hefur tekizt að bezta rekstur þeirra m.v. það, sem fræðilega er talið unnt með þeirri kertækni, sem hér er í brúki. Ef Landvernd og píratar vilja spara raforku til álveranna, eru þeir að biðja um gríðarlegar fjárfestingar þar, en það er tómt mál að tala um slíkt, nema samtímis megi og verði til raforka til að auka framleiðsluna umtalsvert.  Grillur Landverndar og pírata eru legío, en þau taka sjálf sig hins vegar gríðarlega alvarlega og gefa sér forsendur sjálf og þykjast þannig alltaf hafa rétt fyrir sér.  Þetta er bara hlægilegt viðhorf illa upplýsts safnaðar.

Talnameðferð þessa safnaðar er óboðleg, og ættu skussar að forðast viðfangsefni, sem þeir ráða ekki við.  Skussarnir bera kinnroðalaust saman epli og appelsínur og draga af því ályktanir, sem þeir höfðu áður klambrað saman.  Þeir tóku orkunotkun rafgreiningar ISAL og lögðu orkunotkun steypuskálans við.  ISAL hefur einmitt gert átak í rafvæðingu steypuskálaofna og stundar nú framleiðslu á eftirsóttri, sérhæfðri vöru í steypuskála sínum, sem eru álsívalningar af ýmsum lengdum, gildleikum og melmum. Þetta bera skussarnir saman við orkunotkun rafgreiningar einvörðungu hjá Norsk Hydro í Noregi og fá út, að ISAL noti 3 % meiri raforku á hvert áltonn en Norsk Hydro eða 100 GWh/ár.  Niðurstaða dæmisins er vitlaus hjá pírötum og Landvernd, en athygli vekur, hversu munurinn er þó lítill.  Hann nemur aðeins um  þriðjungi af árlegri aukningu raforkuþarfar landsins, og hvað eru þessi illa upplýstu afturhaldsöfl búin að tefja virkjanaframkvæmdir hér um mörg ár ?

 

"Orkubú Vestfjarða vinnur nú að rannsóknum vegna 9,9 MW Kvíslatunguvirkjunar í Steingrímsfirði og 20-30 MW Vatnsdalsvirkjunar inn af Vatnsfirði. Með tilkomu þeirra virkjana mætti draga úr framleiðslu raforku með dísilolíu á Vestfjörðum um 90 %.  Auk þess vinnur Orkubúið að jarðhitaleit bæði á Ísafirði og Patreksfirði.  Nýting jarðhita gæti minnkað þörfina á raforku til kyndingar.  Virkjanaáformin munu að sjálfsögðu þurfa að hljóta lögbundna skipulagsmeðferð og fara m.a. í umhverfismat.  Orkubúið telur þó, að hægt sé að tryggja lágmarksáhrif á umhverfið í báðum þessum virkjanakostum."

Þakka ber Orkubússtjóranum fyrir þessa áhugaverðu upplýsingagjöf um leið og lýst er þeirri skoðun, að sjálfsagt sé að styðja Vestfirðinga á þeirri vegferð, sem þarna er lýst, til að auka afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum og draga úr sótmengun og losun CO2.  Afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum er hið langminnsta á landinu, og samfélaginu (ríkisvaldinu) ber skylda til þess að jafna þann aðstöðumun, sem nú stendur Vestfirðingum fyrir þrifum. Í þessum efnum hefur umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra mikilvægu hlutverki að gegna.  Hann hefur lýst yfir siðferðilegum stuðningi við þessi áform Vestfirðinga, en þau verða ekki í askana látin.  Hann verður að láta hendur standa fram úr ermum og láta verkin tala varðandi Vatnsdalsvirkjun.  Væmið malarafturhaldið í þéttbýli suð-vestur-hornsins mun rísa upp á afturfæturna í formyrkvuðu ofstæki sínu, og það getur orðið harðsnúinn pólitískur bardagi.  Menn verða einfaldlega að verða tilbúnir til að láta sverfa til stáls gegn svartnættinu, sem hér tröllríður húsum.     

   

 

 


Oviðunandi ábyrgðarleysi meirihluta borgarstjórnar

Reykjavíkurflugvöllur í Vatnsmýri var, er, og á að verða happafengur fyrir höfuðborgina og landsmenn alla, sem þó er ekki öllum gefið að bera skynbragð á, eins og meðferð pótintáta Samfylkingarinnar og gjaldþrota vinstri meirihluta hennar á vellinum og öryggismálum hans ber glöggt vitni um. Um þetta má hafa eitt orð: óhæfa. 

Hvers vegna er þessi flugvöllur, öryggi notenda hans og sem hæst nýtingarhlutfall hans hagsmunamál allra landsmanna ? 

 

Í fyrsta lagi þarf ekki að orðlengja samgöngubótina, sem hann veitir þeim, sem þurfa að gegna erindum til höfuðborgar og nágrennis eða þaðan og út á land í yfir 200 km vegfjarlægð, en á vegum landsins er mikil þungaumferð og þung umferð ferðamanna, þeir eru flestir þröngir og mjög misöryggir yfirferðar eftir árstíma. Flugumferðin á að vera öruggari og létta dálítið á þjóðvegunum.

Í öðru lagi veitir nálægð flugvallarins við akkerið í sjúkraþjónustu landsins, Landsspítalann, nánast öllum landsmönnum aukið öryggi, því að öll getum við átt brýnt erindi þangað í neyð, sem dunið getur á fjarri spítalanum.  Um þessar mundir munu um 1000 sjúklingar og slasaðir njóta þjónustu sjúkraflugsins á ári.  Það getur verið, að þyrlupalli verði komið fyrir á Nýja Landsspítalanum, en bæði er hann dýr og notkun hans hefur í för með sér mikinn hávaða, titring og rykþyrlun í og við byggingar spítalans, sem allt er óheppilegt þar og kann að verða metið sem frágangssök, þegar ákvörðun um þyrlupall þar verður tekin (í ljósi nálægðar við Reykjavíkurflugvöll). 

Í þriðja lagi er hlutverk Reykjavíkurflugvallar sem varaflugvöllur fyrir Keflavíkurflugvöll gríðarmikilvægt, því að oftast er lendingarhæft í Reykjavík, þótt svo sé ekki á Miðnesheiði, þótt undarlegt kunni að þykja. Ef svo verður þrengt að Reykjavíkurflugvelli, eins og Samfylkingin og meðreiðarsveinar eru að undirbúa með Framsókn í gíslingu með valdalítið borgarstjóraembætti að beitu undir eftirliti tilsjónarmanns með fjármálaóreiðunni, mun nothæfisstuðullinn lækka og hugsanlega svo mikið, að millilandavélar geti ekki reitt sig á hann og verði að hafa um borð meiri eldsneytisforða fyrir vikið.  Slíkt mun hafa í för með sér lakari samkeppnishæfni Íslands sem ferðamannalands og hækkun neyzluverðsvísitölunnar. 

Í fjórða lagi verður að hafa í huga aðstöðuna fyrir verklega flugkennslu, sem völlurinn veitir, og aðstöðu fyrir fjölmarga einkaflugmenn, innlenda sen erlenda, sem auðvitað eru háðir nothæfisstuðlinum, eins og aðrir notendur flugvallarins. 

Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hefur kynnt sér málefni þessa fjölmenna vinnustaðar og tekjulindar fyrir sísvangan borgarsjóðinn ítarlega.  Afstaða hennar er, að það sé með öllu óverjandi að rýra öryggi flugvallarins með nokkrum hætti meira en orðið er.  Þá skipta auðvitað umtalaðar mótvægisaðgerðir með óljósa virkni engu máli.  Það er siðferðilega rangt að gera þeim, sem þurfa á flugvellinum að halda, lífið erfiðara og hættulegra, en siðlaus Samfylking virðir allt slíkt að vettugi. 

Þann 6. maí 2023 birtist grein eftir Mörtu í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:

"Skýrsla um flugöryggi".

Þar stóð um afstöðu innviðaráðherrans, sem virðist standa í hrossakaupum við Samfylkinguna um borgarstjórastólinn í skiptum fyrir nýja byggð í Skerjafirði:

"Í Morgunblaðsviðtali við innviðaráðherra sl. laugardag [29.04.2023] segir hann m.a.: "Starfshópurinn telur ekki þörf á að hætta við byggingarhugmyndir í Nýja Skerjafirði, en ný byggð kalli á mótvægisaðgerðir."

Þetta er afar villandi túlkun, byggð á tvíræðni.  Skýrslan segir ekkert um það, hvort hætt skuli við byggðina eða ekki.  Orðrétt segir í skýrslunni:

"Ekki er hægt að fullyrða án frekari rannsókna, að byggðin hafi slík áhrif á aðstæður fyrir flug á Reykjavíkurflugvelli, að þörf sé á að hætta við byggingarhugmyndir í Nýja Skerjafirði."

Þessi yfirlýsing gefur alls ekki grænt ljós á fyrirhugaða íbúðabyggð."

 Dýralæknirinn á stóli innviðaráðherra virðist ekki skilja inntak téðrar skýrslu um öryggismál Vatnsmýrarvallarins, eða hann sveigir túlkun á henni að pólitískum þörfum Framsóknarflokksins, sem gætu hafa myndazt við hrossakaup um borgarstjórastólinn við hina siðlausu Samfylkingu, sem hefur staðið að því að rýra notagildi flugvallarins og þar með öryggi hans. Ályktun skýrsluhöfunda er einfaldlega sú, að rannsóknir skorti til að hægt sé að leyfa ráðagerð borgarstjórnarmeirihlutans um nýja byggð við enda flugbrautar í Skerjafirði.  Það vantar m.ö.o. líkan til að áætla áhrif mismunandi byggingarfyrirkomulags á vindhvirflamyndun og áhrif þeirra á mismunandi flugvélar í mismunandi vindáttum og vindstyrk o.s.frv.

Líkanið getur ekki gefið nákvæma niðurstöðu, en getur veitt vísbendingu um áhrifin á öryggi flugsins og nothæfisstuðul flugvallarins. Sé vísbending um neikvæð áhrif á flugið, er full ástæða fyrir innviðaráðuneytið til að hafna fyrirætlunum borgarinnar um þessar framkvæmdir.  Öryggi flugfarþega og áhafna flugvélanna, sem vilja leggja leið sína um Vatnsmýrarvöllinn, verður að ganga fyrir eða njóta vafans, eins og sumir segja.  Annað viðhorf er siðlaust og forkastanlegt.  Ætlar forysta Framsóknarflokksins að láta Samfylkinguna draga sig ofan í þann fúla pytt ?  Það þarf enga mannvitsbrekku til að sjá í hendi sér, að Framsóknarflokkurinn er að skjóta sig í fótinn (í borginni og á landsvísu) með þessu framferði. 

"Á borgarstjórnarfundi sl. þriðjudag [02.05.2023] segir borgarstjóri m.a. um afstöðu skýrsluhöfundanna á kynningarfundi um skýrsluna:

"En þeir voru alveg rólegir með þetta.  Sögðu bara: Já !  Það er ekkert, sem ætti að tefja eða koma í veg fyrir, að þarna yrði byggt."

Þetta er óheyrileg rangfærsla.  Í fyrsta lagi voru fæstir skýrsluhöfundar á téðum kynningarfundi.  Í öðru lagi er lýsing borgarstjóra á afstöðu skýrsluhöfunda ekki í neinu samræmi við innihald skýrslunnar.  Í kafla um helztu niðurstöður skýrslunnar segir:

"Byggð í Nýja Skerjafirði samkvæmt fyrirliggjandi skipulagi þrengir að starfsemi flugvallarins frá því, sem nú er, breytingar verða á vindafari á flugvellinum og í næsta nágrenni hans, og nothæfi hans skerðist."

Þar segir einnig: "Þar sem meðalvindhraðabreyting fer nú þegar yfir vindhraðamörk, þarf að gæta sérstakrar varúðar við að bæta við fleiri áhættuþáttum svo sem aukinni kviku.  Ljóst er af þeim gögnum og úttektum, sem fyrir liggja, að kvika eykst yfir flugvallarsvæðinu með tilkomu Nýja Skerjafjarðar samkvæmt fyrirliggjandi skipulagi. Mun ítarlegri greiningu og mælingar vantar til að meta, hve mikil þessi breyting verður." 

Hér er grafalvarlegt mál á ferðinni.  Sá maður, sem Samfylkingin hefur útnefnt sem sinn æðsta mann í Reykjavík og farið hefur með æðstu völd í Reykjavík í a.m.k. áratug, borgarstjórinn, opinberar hér tregan skilning á viðkvæmu, jafnvel örlagaríku máli (flugöryggi) eða óleyfilega og ósvífnislega umgengni við sannleikann, nema hvort tveggja sé.  Þetta framferði er með öllu óviðunandi, þegar um líf eða dauða getur verið að tefla, og reyndar tortímir hegðun af slíku tagi öllu trausti, sem samferðamenn geta haft á viðkomandi. 

Þannig er nú komið, að Samfylkingin ber ábyrgð á manni, sem beitir rangfærslum til að hafa sitt fram og þar með að auka svo ókyrrð í lofti yfir Reykjavíkurflugvelli, að farþegum og áhöfnum flugvéla, sem nota vilja flugvöllinn, er aukin hætta búin og nothæfisstuðullinn mun vísast lækka.   

 

   

 

 

 

 

 


Fótalausar hugdettur um föngun og förgun CO2

Hræðsluáróðurinn um heimsendi handan við hornið af völdum hækkandi koltvíildisstyrks í andrúmslofti hefur fætt af sér ýmsar rándýrar viðskiptahugmyndir, sem haldið er lífi í með peningum úr alls konar styrktarsjóðum, m.a. frá Evrópska efnahagssvæðinu (EES).  Samt hafa heimsendaspámenn komið sér undan að svara því, hvað hafi valdið 4 hlýskeiðum á undan núverandi.  Vitað er, að ástæðan var þá ekki hækkandi styrkur koltvíildis í andrúmslofti. Hvað stjórnaði þessum hlýskeiðum þá ? Það er líka vitað, að mælingar og spár IPCC um þróun hitastigs eru mun hærri en vísindamanna, t.d. prófessors dr John Christy, sem vinna gögn úr hitastigsmælingum gervihnatta í veðrahvolfinu frá um 1980.  

Ein hugdettan er að sjúga CO2 úr verksmiðjureyk, en koltvíildisstyrkurinn þar er yfirleitt svo lágur, að þetta sog er rándýrt.  Það er dýrara en nemur bindingu CO2 með skógrækt á Íslandi.  Samt hafa nokkrar verksmiðjustjórnir áhuga á þessu, og er það vegna koltvíildisskattsins í Evrópu, sem fer hækkandi og nálgast 100 EUR/t CO2.  Af þessum sökum hefur Rio Tinto samþykkt að gera tilraun með þetta í Straumsvík, og stendur hún yfir.  

Út yfir allan þjófabálk tekur þó sú "viðskiptahugmynd" hjá "Coda Terminal" að flytja inn CO2 frá útlöndum, blanda það vatni úr Kaldánni, sem rennur út í Straumsvík, og dæla blöndunni síðan niður í bergið þar.  Hvers vegna er þetta út í hött ?  Það er vegna þess, að það er dýrt að einangra CO2 úr afsogi, og sá útlendingur, sem búinn er að því, getur selt það sem hráefni í rafeldsneyti, hvar sem er.  Það mun hann kjósa fremur en að borga undir það flutning til Íslands, dýra meðhöndlun þar og niðurdælingu. 

 Í Bændablaðinu 12. janúar 2023 birtist frétt og mynd af 4 manneskjum að undirrita viljayfirlýsingu í Ráðhúsi Hafnarfjarðar.  Þetta voru Rannveig Rist, Rósa Guðbjartsdóttir, Grettir Haraldsson og Edda Aradóttir.  Höfundur þessa vefpistils mun éta hattinn sinn, ef þessi viljayfirlýsing þróast áfram og raungerist í stórfellda niðurdælingu á innfluttu koltvíildi með ágóða.  Fyrirsögn fréttarinnar var þessi:

"Byggja kolefnismóttöku- og förgunarstöð í Straumsvík".

Hún hófst þannig:

"Carbfix, Coda Terminal, Hafnarfjarðarbær og Rio Tinto á Íslandi undirrituðu fyrir skömmu viljayfirlýsingu um uppbyggingu kolefnismóttöku- og förgunarstöðvar í Straumsvík undir heitinu Coda Terminal.  

Edda Aradóttir, framkvæmdastjóri Carbfix [á Hellisheiði - innsk. BJo], segir, að með verkefninu sé lagður grunnur að nýrri atvinnugrein hérlendis, sem byggir á íslenzku hugviti, sem geti með tímanum orðið að útflutningsgrein. 

"Ráðgert er, að fyrsti áfangi stöðvarinnar taki til starfa 2026 og að hún nái fullum afköstum árið 2031.  Fullbyggð mun stöðin geta tekið á móti og bundið um 3  Mt/ár af CO2, sem samsvarar meira en helmingi af árlegri losun Íslands", segir Edda."

Hér eru hátimbraðar hugmyndir á ferð, sem hætt er við, að aldrei verði barn í brók.  Áætlaður kostnaður er um mrdISK 50, og árið 2022 mun þessu verkefni hafa verið veittur styrkur úr Nýsköpunarsjóði Evrópu upp á um mrdISK 16.  Fyrir þetta fé verður líklega borað fyrir vatni við Straumsvík, því að verkefnið krefst mjög mikillar vatnstöku, og reist móttökustöð fyrir gas við höfnina.  Hér er rennt blint í sjóinn með arðsama nýtingu þessara fjárfestinga, því að varla fæst nokkur til að gera lagalega skuldbindandi samninga um afhendingu CO2 til langs tíma.

Nú hefur Evrópusambandið (ESB) samþykkt að hvetja aðildarlöndin með styrkveitingum til að tífalda framleiðslugetu sína á rafgreiningarbúnaði til vetnisframleiðslu úr vatni.  Innan 3 ára ætlar ESB að tífalda vetnisframleiðslu innan sinna vébanda, og verður hún þá 10 kt/ár.  Til hvers á að nota þetta vetni ?  Aðallega til að framleiða rafeldsneyti, og þar er CO2 hráefni.  Halda menn, að Coda Terminal geti keppt um hlutdeild í aukinni spurn eftir CO2 ?  Fátt styður það.

Nú styttist í, að ESB dragi úr úthlutun ókeypis  koltvíildiskvóta til evrópskra flugfélaga.  Ætlunin er að draga úr spurn eftir flugferðum innan Evrópu, með því að flugmiðinn verði svo dýr, að ferðalangar velji fremur járnbrautarlestir sem samgöngumáta.  Þetta mun bitna hart á flugfarþegum til og frá Íslandi, og verður ferðaþjónustan vafalaust fyrir verulegri fækkun ferðamanna, sem setur alvarlegt strik í íslenzkan þjóðarbúskap og afkomu fyrirtækja, sem gera út á ferðamenn.  Á sama tíma mun koltvíildiskvótinn á markaði hækka í verði vegna aukinnar eftirspurnar. 

Coda Terminal getur ekki orðið til bjargar í þessu máli, því að þá þyrftu flugfélögin að sjúga hundruði þúsunda tonna á ári af CO2 úr andrúmsloftinu, og það er hvorki tæknilega né kostnaðarlega fýsilegt.  Fýsilegra væri að gera samninga við skógarbændur um stóraukna bindingu með skógrækt. 

Hér er um svo mikið hagsmunamál að ræða fyrir Ísland, að utanríkisráðherra verður nú þegar að reka niður hælana á vettvangi EFTA, þar sem boð verði látið út ganga um það, að í Sameiginlegu EES-nefndinni muni Ísland leita eftir undanþágu, en ella hafna innleiðingu þessarar ESB-löggjafar (um skyldu flugfélaga til að kaupa koltvíildiskvóta) í íslenzkan rétt.  Það er tímabært að ræða þetta mál í utanríkismálanefnd Alþingis og móta afstöðu þar. Þar munu "the usual suspects" taka grunnhyggna afstöðu gegn hagsmunum eyríkisins. 

  

 

 


Aðlögun ferðaþjónustu að nýjum aðstæðum

Ýmsir spámenn hafa tjáð sig um framtíð ferðaþjónustu í heiminum.  Áhrif COVID-19 hafa varpað ljósi á fallvaltleika þessarar atvinnugreinar.  Hið sama gerðist í Eyjafjallagosinu 2010, en það reyndist í kjölfarið hin vænsta auglýsing fyrir Ísland.  Hver veit, nema ferðamenn muni í kjölfar COVID-19 leita meira á fáfarnari slóðir ?  Það gæti orðið ferðaþjónustunni í dreifðum byggðum Íslands til framdráttar.

Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur, ritar áhugaverðar greinar í Morgunblaðið um umhverfismál, þjóðmál og heimsmál.  Þann 11. maí 2020 birtist þar eftir hann grein með fyrirsögninni:

"Maðurinn þarf að laga sig að náttúrunni sem við erum hluti af".

Þar stóð m.a.:

"Eins og horfir, má telja útilokað, að ferðalög hefjist í einhverjum mæli til og frá landinu fyrr en í fyrsta lagi næsta vetur, og móttaka stórra farþegaskipa frá útlöndum hlýtur að bíða um sinn."

Mánuði seinna benti fátt til, að þessir spádómar muni rætast.  Þann 15. júní 2020 var krafan um sóttkví fyrir fólk frá öðru Schengen-landi gerð valkvæð á móti skimun fyrir SARS-CoV-2 veirunni, og f.o.m. 1. júlí 2020 á hið sama að gilda um farþega frá ýmsum öðrum löndum, sem ESB af sinni vizku dæmir sem tiltölulega hrein af þessari kórónuveiru. Leitt er til þess að vita, að ESB skuli ekki meta sýnatöku á landamærum Íslands og skimun að verðleikum.  Það er meira hald í þessari skimun en einhvers konar huglægri síun embættismanna í Brüssel á grundvelli smittalna frá löndum vítt og breitt um heiminn. Sýnir þetta í hnotskurn tréhestaeðli fjarlægrar stjórnunar á málefnum Íslands.

Ferðamenn eru farnir að tínast til landsins, e.t.v. að jafnaði 2000-3000 á sólarhring, og ekkert snöggt hopp upp á við er í vændum í vetur, þótt ekki sé það útilokað.  Móttaka "stórra farþegaskipa frá útlöndum" bíður ekki um sinn, heldur hefur verið tilkynnt um þau eitt af öðru í sumar.  Að sjálfsögðu verður fjöldinn mun minni en síðast liðin ár, þegar þau hafa verið yfir 100 talsins. Mikill fjöldi er ekki keppikefli, heldur hámörkun tekna af hverjum ferðalangi. 

Þá minntist Hjörleifur á skýrsluna "Endimörk vaxtarins" eða "Limits to Growth", 1972.  Hjörleifur telur, að greining höfunda skýrslunnar hafi í meginatriðum reynzt rétt.  Sú einkunn kann að orka tvímælis, t.d. varðandi nytjaefni í jörðu, sem höfundarnir töldu, að ganga mundu til þurrðar innan fárra ára, en enginn skortur er á enn þá. 

Í inngangi skýrslunnar segir samkvæmt Hjörleifi:

"Niðurstöður skýrslunnar sýna, að mannkynið fær ekki ætlað sér þá dul að margfaldast með sívaxandi hraða og láta efnislegar framfarir sitja í fyrirrúmi án þess að rata í ógöngur á þeirri vegferð; að við eigum um það að velja að leita nýrra markmiða og ráða þannig sjálf örlögum okkar eða kalla yfir okkur afleiðingar hins taumlausa vaxtar, sem við fáum þá óumflýjanlega að kenna enn harðar á."  

 Það, sem mest hefur munað um í þessu tilliti síðan 1990 er stórsókn fjölmennra ríkja Asíu til bættra lífskjara, og munar þar mest um Kínverja og Indverja. Kínverjar eru gríðarlega þurftarfrekir á hráefni jarðar og matvæli, og hefur þetta valdið mikilli mengun lofts, láðs og lagar í Kína og aukið styrk koltvíildis í andrúmslofti mikið, en mestu losarar heims á CO2. Hafa Kínverjar varizt gagnrýni með því að halda því fram, að þeir séu að vinna upp áratuga forskot Vesturlanda í góðum lífskjörum. 

Kínverjar eru ekki einsdæmi um þetta val á milli bættra lífskjara og þess að hlífa jörðunni við miklu vistfræðilegu álagi og mengun.  Það virðist t.d. verða mjög á brattann að sækja fyrir flestar þjóðir heims að standa við skuldbindingar sínar gagnvart Parísarsáttmálanum frá 2015. Með fjárfestingum í orkuskiptum eygja Íslendingar raunhæfa möguleika á að standa við markmið sín fyrir 2030, sem þeir hafa samið um á vettvangi EES. 

Hjörleifur hélt áfram að rifja upp sögu alþjóðlegrar viðleitni til að snúa mannkyninu af þeirri óheillabraut, sem lýst var í "Endimörkum vaxtarins":

"Vegna áframhaldandi vaxandi umhverfisvanda settu Sameinuðu þjóðirnar á fót árið 1983 sérstaka nefnd, "World Commission on environment", undir formennsku Gro-Harlem Brundtland, forsætisráðherra Noregs.  Skilaði nefndin af sér 1987 með skýrslunni "Sameiginleg framtíð okkar" ( Our common Future, Oxford 1987), oftast kennd við hugtakið sjálfbæra þróun. Skilgreining þess hugtaks var: "Mannleg starfsemi, sem fullnægir þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum framtíðarkynslóða til að fullnægja sínum þörfum.""

Þessi skilgreining á nauðsynlegum skilyrðum fyrir athafnir manna til að tryggja viðunandi lífsgæði í nútíð og framtíð á þessari jörð hefur staðizt tímans tönn.  Ef við lítum á höfuðatvinnuvegi Íslendinga í þessu ljósi sést, að fiskveiðistjórnunarkerfið tryggir sjálfbæra nýtingu sjávarauðlindarinnar, iðnaðurinn nýtir orku, sem fengin er með sjálfbærri nýtingu innlendra orkulinda, en hann nýtir að vísu einnig vörur unnar úr jarðefnaeldsneyti, sem ekki er hægt að flokka sem sjálfbæra starfsemi, en allt stefnir það til bóta. Bæði á iðnaðurinn þess kost að kolefnisjafna starfsemi sína með því að fjárfesta í landgræðslu og/eða skógrækt, hann getur hugsanlega bundið gróðurhúsalofttegundir, t.d. í "steindum" neðanjarðar, og síðast, en ekki sízt, getur hann þróað nýjar framleiðsluaðferðir án losunar koltvíildis.  Á vegum Alcoa og Rio Tinto hefur um nokkurra ára skeið verið starfrækt þróunarverkefnið Elysis, sem miðar að því að leysa núverandi forskaut og bakskaut rafgreiningarkeranna af hólmi með kolefnislausum efnablöndum.  Nú er góð framvinda í þessu verkefni, og er stefnt að því, að fyrir árslok 2021 verði hafin framleiðsla á áli með fullum iðnaðarstraumstyrk í slíkum kolefnisfríum kerum í tilraunaverksmiðju Rio Tinto í Voreppe í Frakklandi.  Gastegundin, sem myndast, er súrefni, O2. 

Um íslenzkan landbúnað verður ekki annað sagt en hann sé nú rekinn með umhverfislega sjálfbærum hætti, þótt e.t.v. kunni notkun tilbúins áburðar að orka tvímælis. Þá kann beitarþoli sumra hrjóstugra svæða að vera ofgert, og verður þá að bæta úr því snarlega. Afurðir íslenzkra bænda eru af gæðum, sem vandfundin eru í heiminum.  Ferðaþjónustan með sinni miklu brennslu eldsneytis og of mikla álagi á viss svæði landsins getur ekki talizt umhverfislega sjálfbær, en allt getur það staðið til bóta með orkuskiptum og bættu skipulagi. 

Í lokin skrifaði Hjörleifur Guttormsson:

"Núverandi lífsmynztur samræmist engan veginn burðarþoli móður jarðar, og þar er breyting á ríkjandi efnahagskerfi og viðskiptaháttum lykilatriði.  Svonefnt fótspor okkar Íslendinga í umhverfislegu samhengi er talið a.m.k. 5-falt stærra en góðu hófi gegnir, og losun gróðurhúsalofts hérlendis hefur verið með því hæsta í Evrópu, eða 14 tonn á mann.  Um leið og staldrað er við vegna veirunnar, þarf að leggja grunn að lífsháttum, sem raunverulega skila afkomendum okkar sjálfbæru umhverfi."

Það þarfnast útskýringa, hvernig komizt er að því, að "umhverfisfótspor" Íslendinga sé "a.m.k. 5-falt stærra en góðu hófi gegnir", í ljósi þess, sem að framan er skráð um sjálfbærni höfuðatvinnuveganna. 

Sú atvinnugrein, sem mest orkar tvímælis frá umhverfisverndarsjónarmiði, kann nú að standa andspænis markaði, sem féll til grunna í kórónuveirufaraldrinum COVID-19 og mun tæplega vaxa í sömu hæðir hérlendis eða alþjóðlega, hvað fjölda ferðalanga snertir.  Baldur Arnarson birti um þetta baksviðsgrein í Morgunblaðinu 12. júní 2020 undir fyrirsögninni:

 "Ferðaþjónusta í nýju ljósi".

Þar var vitnað til Gylfa Zoega, hagfræðiprófessors við Háskóla Íslands, og hófst greinin þannig:

"Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, telur það ekki æskilegt að stefna að mikilli fjölgun erlendra ferðamanna, þegar ferðalög aukast á ný eftir kórónuveirufaraldurinn.

Þvert á móti sé rétt að staldra við og gera langtímaáætlanir.  "Ferðaþjónustan var gríðarlegur búhnykkur síðustu árin og hefur aflað mikils gjaldeyris.  Gjaldeyrisstaða landsins hefur snarbatnað og hefur aldrei verið betri. Það er líka jákvætt við þessa grein, að tekjurnar hafa dreifzt yfir þjóðfélagið miklu meira en segjum tekjur af sjávarútvegi.  En mótsögnin í greininni er, að hún byggist á lágum launakostnaði og keppir við önnur lönd í ferðaþjónustu, þar sem laun eru lægri", segir Gylfi og rökstyður mál sitt."

Eyjafjallagosið setti Ísland á radar ferðamanna, og þá var ISK mjög ódýr eftir hrun ofvaxins fjármálakerfis landsins.  Með fjölgun ferðamanna styrktist gengi ISK, og svo var komið árið 2019, að erlendum ferðamönnum fækkaði um 13 % m.v. toppárið 2018 með 2,3 M ferðalanga.  Það kemur spánskt fyrir sjónir, að Gylfi telur tekjur af erlendum ferðamönnum hafa dreifzt betur um landið en frá sjávarútvegi.  Lungi ferðamannanna dvaldi á hótelum höfuðborgarsvæðisins og skrapp í skoðunarferðir þaðan.  Sjávarútvegurinn er með starfsemi nánast meðfram allri ströndinni og kaupir sér þjónustu hvaðanæva að af landinu, t.d. frá vélsmiðjum og fyrirtækjum, sem þróa og selja iðntölvustýrð framleiðsluferli.  Íslendingar þurfa einmitt á slíkri starfsemi að halda.  Þeir þurfa fyrirtæki með mikla fjárfestingarþörf og mikla framleiðni.  Þannig verður til mikil verðmætasköpun á hvern starfsmann.  Íslenzki vinnumarkaðurinn er lítill og dýr, og þess vegna henta vinnuaflsfrekar greinar aðeins upp að vissu marki.

""Samkvæmt OECD voru meðallaun á Íslandi árið 2018 þau hæstu í OECD-ríkjunum.  Lífskjörin eru óvíða betri, og launin eru mjög há.  Þegar grein, sem byggist á því að halda launakostnaði í hófi, fer að vaxa mikið í hálaunalandi, skapast togstreita.  Greinin vex með því að ráða til starfa á ári hverju fjölda aðfluttra starfsmanna, sem felur í sér aðflutning fólks frá löndum, sem eru yfirleitt með lægri laun.  Þá myndast sú mótsögn, að fólkið kemur hingað, af því að launakjör í ferðaþjónustu eru betri en kjörin í heimalandinu, en launin eru hins vegar að jafnaði lág í samanburði við laun í öðrum greinum hér innanlands.  Þá myndast spenna á vinnumarkaði, sem brauzt út fyrir rúmu ári.  Þá var samið um hóflega launahækkun, fasta krónutöluhækkun upp á 17 þúsund, sem fór mjög illa með þessa grein.  Það má t.d. ætla, að rekstrargrundvöllur margra veitingastaða í miðborginni hafi brostið með þessari hækkun, en hann var veikur fyrir." 

Staðan í hnotskurn er þá sú, að ferðaþjónustan er í alþjóðlegri samkeppni um ferðamenn.  Löndin, sem samkeppni veita, eru auðvitað önnur norræn lönd, en einnig lönd með mun lægri tilkostnað, m.a. launakostnað, en hér.  Spurningin er sú, hvort eftirsóknarvert sé fyrir Íslendinga að keppa á sviði vinnuaflsfrekrar láglaunastarfsemi.  Starfsemin á auðvitað fullan rétt á sér með annarri atvinnustarfsemi, en umfangið í árlegum ferðamannafjölda talið orkar meir tvímælis.  Að hámarka tekjur af hverjum ferðamanni er eftirsóknarverðara en mikill fjöldi.

""Svo myndast spenna í þjóðfélaginu milli láglaunahóps í þessari stóru og mikilvægu atvinnugrein og meðaltekjuhópa í landinu.  Láglaunahópurinn hefur það ekki eins gott og aðrir íbúar landsins.  Þannig eru innri mótsagnir í þessu öllu saman, sem voru farnar að valda erfiðleikum í ferðaþjónustu", segir Gylfi.  Ásamt launaliðnum hafi skapazt spenna vegna gengisþróunar.  Gjaldeyriskaup hafi haldið genginu niðri fram til ársins 2016 og byggt upp mikinn gjaldeyrisforða.  Um leið hafi ferðaþjónustan notið góðs af lægra gengi."

Á árinu 2019 var svo komið, að hröð fækkunarþróun var hafin í komum erlendra ferðamanna til landsins, en þá fækkaði þeim um 300 k  frá árinu áður. Meginástæðan var vafalaust versnandi samkeppnisstaða vegna aukins kostnaðar við ferðir hingað mælt í erlendum myntum.  Botninn hrundi auðvitað í veirufárinu, og markaðurinn er sennilega ekki tilbúinn til að standa undir sama umfangi og áður og þjóðhagslega er óvíst, að slíkt sé áhættunnar virði.

Síðan sló Gylfi fram hugmynd um kvótasetningu, en ekki er víst, að nokkur þörf verði fyrir hana:

""Hver segir, að allir sem vilji, eigi að geta fengið lendingarleyfi í Keflavík ?  Fyrirkomulagið er t.d. þannig víða annars staðar, að leyfin eru gefin út í kvótum, sem ganga kaupum og sölum milli flugfélaga.  Með því að takmarka leyfin mætti tryggja, að ferðamönnum fjölgi ekki nema um vissa tölu á ári, svo [að] fjöldinn fari ekki yfir þolmörk", segir Gylfi." 

Að svo búnu kom Gylfi að kjarna málsins.  Kannski mun markaðurinn dæma áhyggjuefnið sem einvörðungu akademísks eðlis:

"Gylfi segir hætt við, að ef ferðaþjónustan verði gerð að aðalatvinnugrein landsins [aftur-innsk. BJo], verði Ísland um leið gert að láglaunalandi.  Heppilegra sé að gera langtímaáætlanir, "þannig að kraftar einkafjármagnsins fari í að skapa betri störf"." 

Það er hægt að taka undir þessa skoðun Gylfa Zoega, hagfræðiprófessors, og einnig lokaorð hans í þessu baksviðsviðtali:

"Það er gott að hafa ferðaþjónustu.  Hún er góð búbót, einkum í sveitum landsins, en ekki góð sem leiðandi atvinnugrein."

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Risi í hagkerfinu

Það getur verið óheppilegt, að mikill stærðarmunur sé á útflutningsgreinum.  Það er út af því, að risinn getur þá hæglega gert öðrum erfitt fyrir og jafnvel rutt þeim úr vegi.  Þetta eru svo kölluð ruðningsáhrif, og þeirra hefur vissulega gætt hérlendis frá ferðaþjónustunni, en gjaldeyristekjur hennar eru nú meiri en frá sjávarútvegi og iðnaði til samans. Umfang ferðaþjónustunnar hefur reyndar Síðan 2016 leitt til minni framlegðar í öllum útflutningsgreinum, einnig hjá ferðaþjónustunni sjálfri, og sterk staða ISK í skjóli ríflegs viðskiptaafgangs hefur reyndar dempað vöxt ferðaþjónustunnar, sem brýna nauðsyn bar til.

Vöxtur ferðaþjónustunnar í kjölfar Eyjafjallajökulsgossins hefur verið meiri en innviðir landsins hafa ráðið við, og náttúra landsins hefur sums staðar beðið hnekki sökum ágangs ferðamanna.  Þá er alræmd saurmengun á víðavangi sökum skorts á salernisaðstöðu heilsuverndarlegt hneyksli, sem of hraður vöxtur hefur leitt af sér.

Þversögnin í umræðunni um umhverfisleg áhrif ólíkra atvinnugreina er sú, að "eitthvað annað", sem s.k. "umhverfisverndarsinnar" jöpluðu löngum á, þegar þeir voru spurðir um valkost við virkjanir endurnýjanlegra orkulinda og málmiðnað, reyndist vera ferðaþjónusta, en það er þekkt um allan heim, að sú atvinnugrein er stækasti umhverfisskaðvaldur okkar tíma.

Á gististöðum fellur til gríðarlegt magn úrgangs, lífræns og ólífræns, sem er byrði fyrir staðarumhverfið, og ofboðsleg eldsneytisnotkun þessarar orkufreku greinar er stórfelld ógn við lífríki jarðar í sinni núverandi mynd vegna gróðurhúsaáhrifa eldsneytisbrunans.  Þau eru þreföld á hvert tonn eldsneytis, sem brennt er í þotuhreyflum í háloftunum m.v. bruna á jörðu niðri, hvort sem bókhald ESB um losun gróðurhúsalofttegunda sýnir það eða ekki.

Flugfélögin í EES-löndunum eru háð úthlutunum á koltvíildiskvóta frá framkvæmdastjórn ESB.  Þessi losunarkvóti mun fara síminnkandi og mismuni raunlosunar og leyfislosunar verða flugfélögin að standa skil á með kvótakaupum.  Fyrir íslenzku millilandaflugfélögin er langeðlilegast og vafalítið hagkvæmast til langs tíma að semja við íslenzka bændur, skógarbændur og aðra, sem stundað geta skilvirka landgræðslu, að ógleymdri minnkun losunar CO2 með endurbleytingu lands með skurðfyllingum. 

Ríkið getur hjálpað til við að koma þessu af stað, t.d. með því að leggja ríkisjarðir, sem nú eru vannýttar, undir þessa starfsemi.

Hjörtur H. Jónsson skrifaði um

"Ruðningsáhrif ferðaþjónustu" 

í Morgunblaðið 14. september 2017:

"Niðurstaðan af þessu er, að þótt almennt séu jákvæð tengsl á milli vaxtar ferðaþjónustu og hagvaxtar í þróuðum ríkjum, þá eru tengslin oft á tíðum veik og hverfa, þegar spenna á vinnumarkaði er orðin það mikil, að jafnverðmætar greinar geta ekki lengur keppt við ferðaþjónustuna um vinnuafl og fjármagn.

Fyrst eftir hrunið 2008 bar íslenzkt efnahagslíf mörg einkenni þróunarríkja.  Atvinnuleysi var mikið, framleiðni lítil og efnahagslífið tiltölulega einhæft, en raungengið var líka lágt, og vinnuafl gat leitað til útlanda, sem hvort tveggja hjálpaði til.  Aðstæður voru því hagstæðar fyrir hraðan vöxt ferðaþjónustunnar, sem fyrst um sinn var nokkurn veginn hrein viðbót við hagkerfið.  En þrátt fyrir að til Íslands sé nú komið umtalsvert erlent vinnuafl til starfa í láglaunageirum, þá eru í dag ýmis merki um, að við séum komin á þann stað, að frekari vöxtur ferðaþjónustunnar kosti okkur álíka mikið í öðrum atvinnugreinum og að þar með muni hægja hratt á hagvexti, sem rekja má til ferðaþjónustunnar.  Það eru vísbendingar um, að ruðningsáhrif ferðaþjónustunnar vegi í dag mikið til upp á móti ávinninginum af frekari vexti hennar.  

Við slíkar aðstæður er rétt að stíga varlega til jarðar, því að ekki er víst, að atvinnugreinar, sem ekki lifa af samkeppnina, geti risið upp á ný, ef bakslag verður í ferðaþjónustu, og þá stöndum við eftir með einhæfara hagkerfi, sem ræður ekki eins vel við breyttar aðstæður."

Það er hægt að taka undir þetta og um leið draga þá ályktun, að fjölgun gistinátta erlendra ferðamanna umfram 5 %/ár á næstu misserum sér efnahagslega beinlínis óæskileg.  Hún er líka óæskileg af umhverfisverndarlegum ástæðum.  Það er hægt að hafa mikil áhrif á vöxtinn með verðlagningu þjónustunnar. Greinin mun enn um sinn verða í lægra virðisaukaskattsþrepinu, sem er e.t.v. eðlilegt, þar sem í raun er um útflutningsgrein að ræða. 

Ferðaþjónustan ætti nú að treysta stöðu sína fremur en að vaxa hratt, t.d. með því að dreifa ferðamönnum miklu betur um landið, aðallega til Austurlands og Vestfjarða.  Suðurland er mettað af erlendum ferðamönnum.  Innanlandsflugið gæti hér leikið stórt hlutverk, en einnig beint flug til Akureyrar og Egilsstaða að utan og framhaldsflug til Ísafjarðar og annarra innanlandsflugvalla utan Reykjavíkur frá Keflavíkurflugvelli.

Millilandaflugflugfélögin leika aðalhlutverkið í þróun ferðaþjónustu á Íslandi.  Þau eru eins og ryksugur með mörg úttök, sem sjúga til sín ferðamenn og dreifa þeim þangað, sem þeim hentar og spurn er eftir.  Það er spurn eftir norðrinu núna, af því að það er friðsamt og þar koma gróðurhúsaáhrifin greinilega fram og vekja forvitni fólks.  Ef þessum u.þ.b. 30 millilandaflugfélögum, sem hingað hafa vanið komur sínar, þóknast að vekja athygli ferðamanna á dýrð Austurlands og Vestfjarða, þá er björninn unninn.

Nú stendur fyrir dyrum endurnýjun á flugflota Icelandair, en félagið hefur enn stærsta markaðshlutdeild hér.  Í ársbyrjun 2013 var gerður samningur á milli Icelandair Group og Boeing-verksmiðjanna um framleiðslu á 16 flugvélum af gerðinni Boeing 737 - MAX fyrir Icelandair og kauprétt á 8 slíkum til viðbótar, alls 24 flugvélum. Þessar 16 umsömdu vélar á að afhenda 2017-2021.  Hér eru risaviðskipti á ferð, sem fyrir 16 flugvélar af þessari gerð gætu numið miaISK 150.  

Þessar flugvélar bætast í 30 flugvéla hóp, 25 stk Boeing 757-200, 1 stk Boeing 757-300 og 4 stk Boeing 767-300, og er ætlað að leysa af hólmi 26 stk af gerð 757 í fyllingu tímans.  Nýju flugvélarnar eru af gerð 737-MAX 8 og 9 og taka þær 160 og 178 farþega, en þær gömlu taka 183 farþega.  

Þannig rýrnar flutningsgetan við að setja gerð 737 í rekstur alfarið í stað gerðar 757.  Líklegt er þess vegna, að breiðþotum verði bætt í hópinn, því að nýting flugflota Flugleiða er mjög góð.

Nýju flugvélarnar eru sagðar verða 20 % sparneytnari á eldsneyti en samkeppnisvélar.  Árið 2016 er talið, að millilandaflugið hafi losað 7,1 Mt af koltvíildisjafngildi, sem þá var langstærsti losunarvaldurinn á eftir framræstu landi, sem gæti hafa losað 8,2 Mt eða 40 % heildar.  7,1 Mt nam þá 59 % losunar Íslendinga án framræsts lands og 35 % að því meðreiknuðu. 

Losun millilandaflugsins hefði orðið 1,4 Mt minni árið 2016, ef flugvélarnar hefðu verið 20 % sparneytnari.  Íslenzk yfirvöld eru ábyrg fyrir aðeins 2,7 Mt/ár gagnvart Parísarsamkomulaginu til að setja losun millilandaflugsins í samhengi.  Flugfélögin og stóriðjufyrirtækin eru ábyrg fyrir öðru, þ.e. 9,7 Mt/ár gagnvart framkvæmdastjórn ESB.  

Þrátt fyrir minni losun millilandaflugvéla á hvern farþegakm, mun heildarlosun þeirra vegna flugs til og frá Íslandi líklega aukast á næstu árum vegna meiri flutninga.  Ef gert er ráð fyrir 40 % aukningu, þurfa flugfélögin að kaupa um 8 Mt/ár koltvíildiskvóta.  Hvað þyrfti að endurvæta mikið land og rækta skóg á stórum fleti til að jafna þetta út, sem dæmi ? 

Óræktað, þurrkað land er nú um 3570 km2.  Ef helmingur þess, 1800 km2, verður til ráðstöfunar í endurheimt votlendis, má þar útjafna 3,5 Mt/ár eða 44 % af þörf millilandaflugsins.  Ef plantað er í þetta endurheimta votlendi, myndast þar reyndar ekki mýri, en 1,1 Mt/ár CO2 bindast í tré og jarðveg.  Þá þarf að planta hríslum í 5500 km2 lands til viðbótar.  

Þetta jafngildir gríðarlegu skógræktarátaki, aukinni plöntuframleiðslu og auknum mannafla við ræktunarstörf og viðhald skóga.  Land fyrir þetta er sennilega fáanlegt, og ríkið getur lagt fram eyðijarðir í sinni eigu í þetta verkefni.  Ekki er ráð, nema í tíma sé tekið, svo að þegar í stað þarf að hefjast handa.  Samkvæmt öllum sólarmerkjum að dæma, verður um viðskiptalega hagkvæmt verkefni að ræða.  

 Bombardier C

 

 

 

 

 

 

 


Verðmætasköpun og draumóramenn

Öll verðmætasköpun samfélagsins á sér stað í fyrirtækjum landsins.  Stjórnmálamenn, ríkisvald, embættismenn og sveitarstjórnir, sjá svo um að eyða jafngildi tæplega helmings vergrar landsframleiðslu af verðmætasköpun fyrirtækjanna. 

Skýjaglópar og harðsvíraðir vinstri menn virðast enga grein gera sér fyrir því, hvernig verðmæti verða til.  Verknaðir og umræður sýna þetta ljóslega.  Þeir slátra  mjólkurkúnni og éta útsæðið, ef þeir komast í aðstöðu til þess.  Þetta lá í augum uppi á dögum vinstri stjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, og málflutningur ríkisstarfsmannsins, Tómasar Guðbjartssonar, læknis á Landsspítalanum, ber dálítið keim af blindu á það, hvernig verðmæti verða til, og þeirri rörsýn, að eitt útiloki annað, þegar mismunandi verðmætasköpun er annars vegar.  Þetta hefur einnig verið nefnt naumhyggja.  Sem dæmi þá finnast engin tilvik um það í heiminum, að vatnsaflsvirkjanir hafi haft neikvæð áhrif á ferðaþjónustu; þvert á móti, vatnsaflsvirkjanir hafa verið aðdráttarafl fyrir ferðamenn, enda hefur vegalagning fyrir virkjanir víða auðveldað ferðamönnum að komast leiðar sinnar. 

Tómas, læknir, skrifar enn eina tilfinningaþrungnu greinina í Fréttablaðið, 21. september 2017.  Ber þessi grein heitið:

"Þarfnast móðir náttúra umboðsmanns ?

Í greininni svarar ríkisstarfsmaðurinn spurningu sinni játandi; það sé þörf á að bæta í báknið og auka ríkisútgjöldin til þess eins að auka tvíverknað í kerfinu og skörun embætta.  Blekbóndi vill aftur á móti halda því fram, að fyrir sé meira en nóg af silkihúfum á ríkisjötunni, sem geri fátt gagnlegt til að létta landanum lífsbaráttuna, en verji of miklum tíma í að fægja á sér klærnar.  

Téð grein Tómasar hefst þannig:

"Það er flestum ljóst, sem fylgzt hafa með umræðunni um fyrirhugaða Hvalárvirkjun og stóriðju í Helguvík, að náttúra Íslands á undir högg að sækja.  Orkufyrirtæki og erlend stóriðja ásælast vatnsföll okkar og jarðhitasvæði til raforkuframleiðslu."

Hér er gamalkunnug klisja á ferð, fimmtug afturganga frá orðafari Einars, heitins, Olgeirssonar, kommúnistaforingja, í eldheitri umræðu á Alþingi um Búrfellsvirkjun og Alusuisse, fyrsta eiganda ISAL í Straumsvík.  Þá var málið samsæri erlends auðvalds og innlendrar borgarastéttar gegn verkalýð landsins um að ræna hann arðinum af orkulindunum á "hausaskeljastað". 

Þessi áróður læknisins er alger tímaskekkja, því að nú erum við reynslunni ríkari og vitum, að vatnsaflsvirkjanirnar mala alþýðu landsins gull og knýja fyrirmyndar vinnustaði, hvað aðbúnað starfsmanna, launakjör og mengunarvarnir snertir.  Svartagallsraus af þessu tagi sæmir illa háskólaborgara.  Honum væri nær að vara við mestu umhverfisvá nútímans, ferðamanninum, og taka upp baráttu til eflingar gróðurþekju lands með stærstu eyðimörk Evrópu.  Það gerir hann ekki; þvert á móti ráðleggur hann Vestfirðingum að hætta við Hvalárvirkjun, sem þó verður grundvöllur að uppbyggingu fjölbreytilegs atvinnulífs og orkuskiptum á Vestfjörðum, og einbeita sér að ferðaþjónustu.  Það hefur aldrei þótt ráðlegt að setja öll eggin í eina körfu.  Þetta er afleit ráðgjöf læknis í Reykjavík til Vestfirðinga.

"Nú eru á teikniborðinu 8 stórvirkjanir á Íslandi.  Þær eiga alls að framleiða 419 MW af orku (sic), sem að langmestu leyti (80 %) er hugsuð til stóriðju, ekki sízt kísilvera í Helguvík.  Þessar virkjanir kosta gríðarlegt fé, og arðsemi þeirra er umdeild, enda virðist hagnaður af starfseminni, sem þær þjóna, oft á tíðum færður með bókfærslubrögðum til útlanda."

Þessi málflutningur læknisins orkar tvímælis og þarfnast skoðunar:

Á Íslandi er það Verkefnisstjórn Rammaáætlunar, sem gerir tillögu til Alþingis um flokkun orkunýtingarkosta í nýtingu, bið eða vernd.  Samkvæmt gildandi Rammaáætlun eru 18 virkjanakostir í nýtingarflokki að aflgetu alls 1421 MW.  Þar af eru 6 virkjanir yfir 100 MW og mega e.t.v. kallast stórvirkjanir á íslenzkan mælikvarða.  Þær eru (JG=jarðgufa, VA=vatnsafl, VM=vindmyllur):

  • Kröfluvirkjun, JG, 150 MW
  • Austurengjar,  JG, 100 MW
  • Sandfell,      JG, 100 MW
  • Sveifluháls,   JG, 100 MW
  • Urriðafoss,    VA, 140 MW
  • Blöndulundur,  VM, 100 MW
  • Alls               690 MW

Það er áreiðanlega ofsögum sagt, að 4 þessara stórvirkjana séu á hönnunarstigi, hvað þá að búið sé að semja um orkusölu frá 4 stórvirkjunum.  Hvaðan í ósköpunum kemur þá lækninum sú vizka, að "arðsemi þeirra [sé] umdeild" ?  Hagkvæmniathugun fer ekki fram fyrr en verkhönnun er langt komin og söluverð orku er ljóst.

Lækninum verður tíðrætt um stóriðju og ætíð í niðrandi tóni.  Hér skal benda þessum lækni á tvær staðreyndir í sambandi við stóriðju og raforkufyrirtæki á Íslandi:

  1. Raforkukerfi landsins væri aðeins svipur hjá sjón án stóriðjunnar, enda mundi þá einingarkostnaður (ISK/kWh eða ISK/MW) vera mun hærri en nú er.
  2. Íslendingar búa við eitt lægsta raforkuverð í heimi.  Það stafar af því, að markaður var í landinu fyrir raforkuvinnslu og raforkuflutning í stórum stíl.  Stóriðjan hefur gert meira en greiða fyrir sína hlutdeild í raforkukerfiskostnaðinum.  Með öðrum orðum: lægsta raforkuverð í heimi væri ekki mögulegt á Íslandi án mikillar raforkusölu samkvæmt langtímasamningum við öflug fyrirtæki, sem njóta trausts lánastofnana, og þar með getur virkjunarfyrirtækið notið hagstæðari lánakjara.   

Dylgjur læknisins um bókhaldssvindl og skattaundanskot alþjóðlegra fyrirtækja hér eru í anda annarra einangrunarsinna, sem horn hafa í síðu erlendra fjárfesta hérlendis.  Allar vestrænar þjóðir keppast þó um að laða til sín beinar erlendar fjárfestingar, því að þær hafa góð áhrif á hagvöxt og þekkingarstig í þjóðfélaginu og draga úr lánsfjárþörf atvinnulífsins.  Viðurkennd endurskoðunarfyrirtæki rýna og árita bókhald þessara fyrirtækja, og það er ótrúlegur barnaskapur hjá lækninum að væna öll þessi fyrirtæki um svindl og svínarí.  Gengur hann heill til skógar ? 

Að einu leyti hefur blekbóndi samúð með sjónarmiðum læknisins, en það er, þegar hann gagnrýnir hugmyndina um sæstreng á milli Íslands og Skotlands.  Hann virðist þó halda, að viðskiptahugmyndin sé sú að senda Skotum "græna orku" til notkunar í Skotlandi.  Það er engin þörf á því.  Skotar eiga nóg af endurnýjanlegum orkulindum.  Hugmyndin er að selja Englendingum íslenzka orku og kaupa af þeim raforku, þegar þörf krefst hérlendis.  Slík tenging mun óhjákvæmilega hækka raforkuverðið hérlendis, og íslenzkar orkulindir hrökkva fyrirsjáanlega ekki til fyrir vaxandi þjóð, orkuskipti og sæstreng. Þessi rök nefnir læknirinn þó ekki.  

Það slær hins vegar alveg út í fyrir lækninum, þegar hann kveður "tímabært að setja á stofn nýtt embætti; Umboðsmann náttúrunnar, sem gjarna mætti vera kona, því að þær virðast iðulega víðsýnni en karlar, þegar kemur að náttúruvernd."                                Það væri augljóst brot á jafnréttislögum að auglýsa eftir öðru kyninu í þessa stöðu, en aðalatriðið er, að stöðunni yrði algerlega ofaukið í íslenzku stjórnsýslunni við hliðina á Umhverfisstofnun og Umhverfisráðuneytinu, og að stofnsetja það væri aðeins til að þenja út báknið og að fjölga silkihúfunum.  Hver veit, nema það verði eitt af gæluverkefnum nýrrar vinstri stjórnar að stofna þetta þarflausa embætti til þess eins að koma skattpeningum í lóg.  Samkvæmt lögmáli Parkinsons yrði þarna komið 10 manna starfslið innan tíðar, sem mundi ekkert annað gera en að tefja afgreiðslu stjórnsýslunnar, og er hún þó nógu hæg fyrir.

                                                Læknirinn gerist skáldlegur á köflum, en þó flækist alltaf rörsýnin fyrir honum, sem t.d. fyrirmunar honum að skilja slagorðið:"nýtum og njótum":                 "Ég tel ljóst, að unaðsstundir í náttúru Íslands séu í huga flestra Íslendinga og erlendra gesta dýrmætari en kílovattstundir." 

Þetta á ekki að vera spurning um annaðhvort eða, heldur hvort tveggja.  Tæknin leyfir slíkt nú á dögum.  Sjálfbær kílowattstund er unaðsleg í heimi rafmagnslegrar ósjálfbærni, og hún fer vel með unaðsstundum í faðmi náttúrunnar.    

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Váboðar á bæði borð

Að ofmetnast er dauðasynd.  Íslendingar hafa tilefni til að líta til baka yfir tímabil síðustu 8 ára með velþóknun, enda hefur þjóðin á þessu tímabili risið úr öskustó eins og fuglinn Fönix.

Þjóðin varð að standa á eigin fótum í hinni alþjóðlegu fjármálakreppu, sem hámarki náði á Íslandi í október 2008.  Það var lán í óláni, að allar lánalínur lokuðust og rotið fjármálakerfi hrundi til grunna.  Við þurftum ekki einu sinni á að halda lánum frá Alþjóða gjaldeyrissjóðinum, sem þó voru tekin með harmkvælum og háum vöxtum.  Þau hafa nú öll verið endurgreidd og gott betur.  Nettó fjárhagsstaða hins opinbera hefur ekki verið betri frá því í lok Heimsstyrjaldarinnar síðari.  Þeim auði var sólundað, svo að Íslendingar komust á vonarvöl og voru taldir verðskulda Marshall-aðstoð.  Það verður engin Marshall-aðstoð í boði, ef illa tekst að spila úr núverandi góðu stöðu og sjóðum verður sólundað, eins og veruleg ástæða er til að bera kvíðboga fyrir.

Náttúruöflin eru virkari á Íslandi en víðast hvar og náttúran er hér síkvik.  Það á einnig við um hafið í kringum landið, sem á síðustu árum hefur verið að hlýna og lífríki þess að breytast samkvæmt því.  Sunnudaginn 6. nóvember 2016 fengu landsmenn t.d. þær ískyggilegu fréttir frá sérfræðingum á þessu sviði, að nú væri svo komið, að loðnan veigraði sér við að ganga vestur með Suðurströndinni til hrygninga vegna hlýsjávar.

Ef þetta gengur eftir, mun það ekki aðeins hafa neikvæð áhrif á loðnuveiði innan íslenzkrar fiskveiðilögsögu, heldur líka neikvæð áhrif á fæðuframboð þorskinum til vaxtar og viðurværis, þannig að jafnvel yrði þorskveiðibrestur í lögsögunni, og fleiri tegundir mundu kunna að forða sér í kjölfarið. 

Sem betur fer eru þetta enn aðeins vangaveltur á rannsóknarstigi eða tilgáta um það, sem líklegt er, að gerist, ef svo fer fram sem horfir um hlýnun sjávar.  Til mótvægis þessari hlýnun af völdum vaxandi lofthita hlýtur að koma um sinn bráðnun Norðurskautsíssins og Grænlandsjökuls.  Er á meðan er.  Vísindamenn eiga þakkir skildar fyrir að upplýsa almenning um vísbendingar, sem þeir komast á snoðir um, þótt óþægilegar séu. 

Það, sem varð Íslendingum til bjargar í áður nefndu hruni var, að þeir stóðu á rétti sínum sem fullvalda þjóð og neituðu að láta Breta og Hollendinga með fulltingi Evrópusambandsins troða öfugum ofan í kokið á sér skuldum "óreiðumanna", sem almenningur hérlendis bar enga ábyrgð á.  Þetta var sögulegur varnarsigur, því að þjóðin var þá sem næst á hnjánum, er þarna var komið, umkomulaus í áfalli og án ytri stuðnings frá öðrum en sínum ágætu nágrönnum og frændum, Færeyingum.  Sem betur fór áttum við þá sem fyrr nokkra kappa, sem ekki lágu á liði sínu, heldur sneru vörn í sókn með meistaralegum hætti. 

Þjóðin var með sína eigin mynt, og hún hrapaði að verðgildi í takti við ástand hagkerfisins.  Þetta skóp landinu viðspyrnu, því að samkeppnishæfnin á erlendum mörkuðum batnaði að sama skapi, og sjávarútvegurinn blómstraði við þessar aðstæður og ól af sér alls konar hliðargreinar og sprota, sem ásamt miklum fjárfestingum hjá ISAL í Straumsvík vegna endurnýjunar og stækkunar, og þar af leiðandi um saminni nýrri vatnsaflsvirkjun Landsvirkjunar við Búðarháls á milli Tungnaár og Þjórsár, áttu þátt í að snúa við óheillaþróun á vinnumarkaði. Þetta ásamt landflótta hélt atvinnuleysi langt undir þeim tölum, sem illa leiknar þjóðir með fastgengisstefnu, t.d. evruna, máttu glíma við.   

Það, sem þó réði úrslitum um viðsnúning á vinnumarkaði, var gosið á Fimmvörðuhálsi og undir Eyjafjallajökli, sem lamaði innanlandsflug og millilandaflug víða í Evrópu og á milli heimsálfa vikum saman.  Þetta kom Íslandi rækilega á kortið á sama tíma og vinsælir ferðamannastaðir lokuðust vegna blóðugra árása ofstækisfullra trúmanna í miðaldamyrkri eyðimarkanna, og af því að hugur margra stóð til Norðurslóða vegna afleiðinga hlýnunar jarðar, sem þar eru áberandi.

Fjöldi erlendra ferðamanna stóð í 0,5 M manns 2008-2010, en strax árið 2011 hófst aukningin, sem hefur verið veldisaukning síðan, þ.e. sívaxandi fjölgun ár frá ári.  Árið 2016 er búizt við 1,8 M manns með flugi til landsins, og sjóleiðina koma líklega 0,1-0,2 M, svo að farþegafjöldinn slagar í 2,0 M í ár.  Arion-banki og Íslandsbanki spá 2,2-2,4 M manns 2017, og er þá ótalinn sægur, sem aðeins millilendir og dvelur um skamma hríð í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.  

Hér er um að ræða meðalstigul 0,3 M/ár 2011-2017, og þar sem hann kom algerlega flatt upp á landsmenn, hefur þeim ekki veitzt neitt ráðrúm til að undirbúa sig.  Fyrir vikið eru allir innviðir vanbúnir til að taka við aukningunni, sem hefur neikvæð áhrif á ímynd landsins.  Grunnþörfum hreinlætis hefur ekki einu sinni verið fullnægt með hræðilegum sóðaskap,  sóttkveikjuhættu, vanlíðan og álitshnekki sem afleiðingu. 

Sem dæmi stendur þetta í fréttaskýringu Morgunblaðsins,

"Innviðauppbygging heldur ekki í við fjölgun ferðamanna",

þann 22. september 2016:

"Í annarri skýrslunni, sem EFLA skilaði af sér, kom í ljós, að þörf er á allt að 200 salernum á fjölsóttustu ferðamannastöðum landsins.  Þörfin er að vísu miðuð við fjölda ferðamanna á stöðunum árið 2015 [sem er furðulegt, því að enginn spáði stöðvun fölgunar það ár - innsk. BJo], og því má gera ráð fyrir því, gangi fjöldaspár eftir [5,0 M árið 2035-innsk. BJo], að þörfin muni sízt minnka á komandi árum.  Telur verkfræðistofan, að það muni kosta miaISK 1,4-2,1 að koma salernunum 200 í gagnið."

Aðeins salernisvæðingin fyrir spáðan fjölda 2017 mun þá kosta allt að miaISK 2,8.  Úthlutað hefur verið 512 styrkjum úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða árin 2012-2016 að upphæð alls miaISK 2,9, dreift á alls konar verkefni, og árið 2016 aðeins miaISK 0,6.  Salernismálin verða þannig fyrirsjáanlega enn í ólestri á næsta ári.  Ef forðast á öngþveiti á vinsælustu ferðamannastöðunum og/eða meiriháttar náttúruspjöll, þá verður að skammta fjöldann inn á þessi svæði með svipuðum hætti og gert er erlendis. Mótvægisaðgerð er að stofna til nýrra áfangastaða.  Brýnt er að lækka opinber gjöld af innanlandsflugi og freista þess þannig að draga úr álagi á vegakerfið, einkum á leiðum út frá Reykjavík.

Margt getur orðið til að stöðva aukningu ferðamannafjöldans og jafnvel að snúa þróuninni á verri veg:

Dýrtíð á Íslandi:

Gengi sterlingspunds gagnvart USD hefur dalað um ríflega 20 % síðan Brexit-var samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu og er spáð lækkun um 3 % þar til í marz 2017, þegar Theresa May ætlar að hefja úrsagnarferlið.  Þetta og meira fall pundsins gagnvart ISK en líklega öllum öðrum myntum árið 2016 gæti farið að hafa áhrif á kauphegðun Breta, fjölmennasta þjóðernis ferðamanna á Íslandi.  Kaupmáttur þeirra fer nú hratt þverrandi, hagvöxtur er lítill, þótt hann sé meiri en á evrusvæðinu, og atvinnuleysi gæti farið stígandi. 

Íslenzk peningamálayfirvöld fljóta því miður sofandi að feigðarósi og láta enn hjá líða að grípa til nauðsynlegra mótvægisaðgerða til að snúa þessari óheillaþróun við.  Ísland er þess vegna á góðri leið með að verða dýrasta land heims fyrir útlendinga, og slíkt land getur ekki samtímis verið mesta ferðamannaland heims talið í fjölda erlendra ferðamanna per íbúa.  Staða fiskútflytjenda á mörkuðum er í uppnámi og samkeppnishæfni landsins er í voða.

Mettun landsins af ferðamönnum:

Það er engin launung á því, að svo mikil árleg aukning í fjölda erlendra ferðamanna býður hættunni heim, af því að landsmönnum gefst þá ekki kostur á nægum undirbúningi til að taka vel á móti þeim og án þess, að náttúran bíði tjón af. Það verður hörgull á öllu, sem við á að éta, og þjónustan versnar til muna, af því að landsmenn anna ekki fjöldanum.  Þetta skaðar orðsporið, sem strax mun hafa neikvæð áhrif á eftirspurnina.

Náttúruhamfarir:

Katla hefur bært á sér undanfarið og gæti farið í gang "hvenær sem er", ef gostíðni er skoðuð í sögulegu ljósi.  Vonandi er viðbúnaður við Kötlugosi nægur til að hindra manntjón af völdum Kötlugoss í þetta skiptið, en það mun valda tugmilljarðatjóni á mannvirkjum, kvikfé, landi og löskuðu tekjustreymi af völdum rafmagnstruflana og samgöngutruflana. 

Íslenzk náttúra er í sífelldri mótun, og hún er breytingum undirorpin á landi og í sæ.  Íbúarnir á landinu lifa að langmestu leyti á því að nýta þessa síkviku náttúru með einum eða öðrum hætti, og sú staðreynd skapar óstöðugleika í atvinnuumhverfinu.  Hér má þess vegna alltaf búast við sveiflukenndum búskap.  Við slíkar aðstæður er mikilvægt að nota "feitu árin" til að safna í sjóði til "mögru áranna" og auðvitað til að greiða niður skuldir, þannig að svigrúm verði til lántöku, þegar að herðir og nauðsyn krefur. 

 

 

 

 


Sterkt gengi ISK ógnar stöðugleika

Gengisvísitalan er nú komin undir 164 vegna mjög hagstæðs viðskiptajafnaðar og of hárra vaxta í landinu.  Greiningardeildir bankanna hafa varað við því, að framleiðnin í landinu aukist ekki í takti við gengishækkunina og að hún sé þess vegna ósjálfbær.  Krónan (ISK) þarf að lækka strax aftur og Seðlabankinn þarf að halda gengisvísitölunni á bilinu 175-185 til að tryggja jafnvægi í hagkerfinu til lengdar. Til þess að Seðlabankinn bregðist almennilega við þeirri ógn, sem að landinu stafar vegna tímabundinnar styrkingar krónunnar þarf að breyta lögum um Seðlabankann, svo að Peningastefnunefnd hans taki tillit til fleiri þátta en nú og horfi til lengri tíma en nú virðist raunin.  Nú dugar ekki að horfa í baksýnisspegilinn, því að þjóðfélagið er á nýju breytingaskeiði.

Þetta þýðir, að gengisskráningin er farin að ógna samkeppnishæfni útflutningsatvinnuveganna, að ferðaþjónustunni meðtalinni, og ýta undir gjaldeyrisnotkun landsmanna í meiri mæli en góðu hófi gegnir.  Ef ekkert verður að gert, stefnir í, að Ísland verði dýrasta land í heimi, erlendum ferðamönnum fækki, útflutningsfyrirtæki leggi upp laupana og viðskiptajöfnuður verði neikvæður árin 2018-2019.  Þá mun gengið hrapa og valda hér verðbólgu yfir efri þolmörkum Seðabankans, 4,0 %, með öllum þeim neikvæðu keðjuáhrifum, sem há verðbólga hefur í verðtryggingarsamfélagi skulda. 

Nú er starfsstjórn við völd, sem ekkert frumkvæði tekur í stefnumarkandi málum, enda skortir hana þinglegan stuðning.  Seðlabankinn hefur hins vegar frelsi til athafna, eins og áður, og hann verður að taka nú niður námuhesta blöðkurnar, sem hann sjálfur hefur sett upp, og lækka stýrivextina í 0,5 % skrefum þar til gengishækkunin stöðvast í nafni stöðugleika til lengri tíma litið.  Það er ólíklegt við núverandi aðstæður, þrátt fyrir fulla nýtingu tiltæks vinnuafls, að vaxtalækkun muni valda verðlagshækkun.  Þvert á móti lækkar hún tilkostnað fyrirtækjanna, sem hafa þá minni tilhneigingu til að ýta hækkunarþörf sinni út í verðlagið.  Aðstreymi erlends vinnuafls dregur úr þenslu á vinnumarkaði. 

Hættulega hátt verðlag:

Samkvæmt Hagspá Greiningardeildar Arion-banka frá 1. nóvember 2016 var gengi íslenzku krónunnar þá þegar orðið 8 % - 10 % hærra en sjálfbært má telja fyrir hagkerfi landsins.  Þetta þýðir, að nú er grafið undan arðsemi útflutningsatvinnuveganna og viðskiptajöfnuðinum.  Með sama áframhaldi er hætta á því, að viðskiptajöfnuðurinn verði neikvæður á árunum 2018-2019, ef ekki verður þegar gripið í taumana.  Afleiðingin verður fjöldagjaldþrot, atvinnuleysi og há verðbólga, og allt verður vitlaust á vinnumarkaði.  Þar sem við erum nú þegar á feigðarsiglingu, hlýtur Stöðugleikaráð að verða að koma þegar saman og snúa þjóðarskútunni við á þessari siglingu.

Sem dæmi um óefnið, sem verðlagið hér séð frá buddu útlendinga er komið í, má nefna, að það er orðið hærra en í Noregi, sem lengi var dýrasta land í heimi.  Það var ósjálfbært ástand þar, af því að hátt olíuverð gaf Norðmönnum gríðarlegar útflutningstekjur, en aðrir atvinnuvegir landsins dröbbuðust niður. Olían tekur enda. Sem dæmi um ósjálfbærnina er, að útflutningur norska sjávarútvegsins er niðurgreiddur þrátt fyrir gjöful fiskimið úti fyrir langri ströndu. Hér má ekki verða "norskt ástand", sem lýsir sér með 30 % falli gjaldmiðilsins, m.v. stærstu myntir, og verðbólgu, sem gæti orðið enn meiri hér en í Noregi, ef samtímis verður uppsveifla í heimshagkerfinu.

Nú munar aðeins 7 % á verðlagi Íslands og Sviss, sem er dýrasta land í heimi, en þar er framleiðnin hærri en á Íslandi, enda eru ríkisumsvifin þar mun minni en hér þrátt fyrir svissneska herinn. 

Konráð Guðjónsson hjá Greiningardeild Arion leggur til, að hluti gjaldeyrisinnflæðisins verði settur í "sérstakan auðlegðarsjóð":

"Það eru dæmi um, að ríki hafi safnað í stóran gjaldeyrisforða til að halda aftur af styrkingu gjaldmiðilsins og lagt í sérstakan sjóð.  Þessi aðferð er vissulega umdeild, en í löndum eins og Singapúr hefur safnazt upp andvirði MISK 6-7 á mann í slíkan sjóð.  Sú fjárhæð hefur að megninu til komið í gegnum gjaldeyriskaup Seðlabankans."

Á Íslandi mundi þessi sérstaki auðlegðarsjóður svara til miaISK 2100, sem er 2/3 af núverandi stærð lífeyrissjóðanna.  Nú er spurningin, hvort stjórnmálamennirnir hafa bein í nefinu til slíkra heilbrigðra aðhaldsaðgerða, eða hvort þeir ætla að verða jólasveinar án búnings og hleypa þessu fé lausu, þannig að það kveiki í púðurtunnu hagkerfisins. 

Vöruútflutningurinn:

Það er nú þegar dúndrandi halli eða miaISK 120/ár á vöruskiptum við útlönd, ef fyrstu 9 mánuðir 2016 eru framreiknaðir til áramóta.  Þetta er 22 % af útflutningsverðmætum, sem er hættulega hátt.  

Alþjóðabankinn spáir versnandi viðskiptakjörum, t.d. 28 % verðhækkun á olíu árið 2017, og hækkun á verði hrávöru og matar.  Jákvætt er fyrir íslenzkar útflutningstekjur, að verð á málmum er nú tekið að þokast upp á við úr langvinnri, djúpri lægð, og er t.d. álverð komið upp fyrir 1700 USD/t Al og hefur þá hækkað á einum mánuði um a.m.k. 5 %, en það er ekki fyrr en við a.m.k. 1850 USD/t Al, sem allur íslenzki áliðnaðurinn fer að skila hagnaði. Þangað til eiga álframleiðendur án orkuverðstengingar við álverð mjög undir högg að sækja.

Framlegð sjávarútvegsins árið 2015 var viðunandi m.v. íslenzk fyrirtæki almennt.  Hún nam þá miaISK 71, og opinber gjöld hans námu þá miaISK 28, sem er 39 % af framlegð, sem er tiltölulega hátt hlutfall og afsannar með öllu, að sjávarútvegurinn skili óeðlilega lágum upphæðum til samfélagsins.  Þvert á móti skilar hann mestu í sameiginlega sjóði allra atvinnugreina, og ofangreind upphæð er t.d. ferföld opinber gjöld áliðnaðarins í landinu 2014, en þá áraði reyndar ekki vel á álmörkuðum. 

Skattlagningarvaldinu er reyndar beitt gegn útgerðinni á fölskum forsendum, eins og þar sé auðlindarenta í starfseminni, en því fer fjarri, þar sem aflahlutdeildir ganga kaupum og sölum á frjálsum markaði og íslenzki sjávarútvegurinn á í harðvítugri samkeppni á alþjóðlegum mörkuðum við sumpart niðurgreiddan sjávarútveg, þar sem engum dettur í hug að leggja á veiðigjöld, svo að ekki sé nú minnzt á fyrningarhörmungina og uppboð fyrntra eigna, sem dæmd hefur verið ónothæf aðferð til skattheimtu á þeim fáu stöðum, þar sem tilraunir með hana hafa verið gerðar. 

Nú eru blikur á lofti hjá sjávarútveginum vegna loðnubrests, verðlækkunar á makríl og gengishækkunar ISK og mikillar lækkunar sterlingspundsins, en frá Englendingum hefur fimmtungur tekna sjávarútvegsins  komið.  Spáð er 30 % minni framlegð sjávarútvegs árið 2016 en árið á undan m.v. gengið 1.11.2016.  Þetta jafngildir rúmlega miaISK 20 tekjutapi eða rúmlega 8 % m.v. árið á undan.  Ef gengið styrkist um 10 % til viðbótar, þá verður framlegðin aðeins 54 % af því, sem hún var 2015, og fer niður í miaISK 38.  Þetta er svo lítil framlegð, að fjárfestingargeta sjávarútvegsins og opinber gjöld hans munu stórlækka.  Skuldalækkun hans mun stöðvast, og fjárhagsafkomu veikburða fyrirtækja verður stefnt í voða.  Þessa óheillaþróun verða stjórnvöld að stöðva og snúa henni við í tæka tíð. Slíkt mun gagnast samkeppnishæfni landsins almennt.

Ferðaþjónustan:

Stigullinn í straumi erlendra ferðamanna til Íslands hefur komið öllum í opna skjöldu eða sem "julen på kjerringa", eins og Norðmenn orða það.  Á 4 árum hefur fjöldinn tvöfaldazt og nær líkla 2 milljóna markinu árið 2017.  Ísland er nú þegar mesta ferðamannaland Evrópu að tiltölu með yfir 5 erlenda ferðamenn á íbúa. Þessi snöggi vöxtur hefur valdið alls konar vandkvæðum, sem landsmenn hafa enn ekki náð tökum á, og hann veldur hér óstöðugleika og áhættu, því að það sem vex hratt, getur yfirleitt líka fallið hratt með alvarlegum afleiðingum:

Hagræn áhrif:

Mjög jákvætt er, að gjaldeyrisvarasjóðurinn skuli nú nema miaISK 800 eða þriðjungi af VLF/ár. Á sama tíma og erlendur gjaldeyrir streymir til landsins að mestu frá ferðamönnum, magnar Seðlabankinn vandann, sem af þessu leiðir, með því að halda hér uppi himinháum vöxtum í samanburði við viðskiptalönd okkar, svo að útstreymi gjaldeyris til fjárfestinga er lítið, en of mikil hækkun gengisins hefur þrefaldað vöruskiptahallann síðan 2015 og auðvitað aukið ferðagleði landans til útlanda.  Brýnt er að stöðva gengishækkun og lækka gengið niður í það, sem talið er langtíma jafnvægisgengi í kringum USD/ISK = 125. Þetta er t.d. gert með mikilli vaxtalækkun og fjárbindingu í jöfnunarsjóð, sem þá mætti líkja við s.k. olíusjóð Norðmanna, sem reyndar er þeirra framtíðar lífeyrissjóður, því að þeir eiga ekki söfnunarsjóði, eins og við. 

Álag á ferðamannastaði:

Sigurður Sigurðsson, byggingaverkfræðingur, ritaði greinina:

"Hrollkaldur veruleiki ferðaþjónustunnar á Íslandi"

í Morgunblaðið 13. október 2016.  Þar segir m.a. af varnaðarorðum Önnu Dóru Sæþórsdóttur, ferðamálafræðings við Háskóla Íslands í viðamiklum skýrslum og sorglega litlum viðbrögðum við þeim.  Hvers vegna hafa yfirvöld stungið hausnum í sandinn að hætti strútsins varðandi ferðaþjónustuna ?  Líklega er hún, eins og ýmislegt annað, dreifð um smákóngaveldi embættismannakerfisins, báknsins, og full þörf á að sameina málefni stærstu atvinnugreinar landsins í eitt ráðuneyti:

"Að lokum kom yfir 200 bls. skýrsla fræðimannsins á vegum Háskóla Íslands og Ferðamálastofu um allt þetta efni saman tekið.  Tugir eða hundruð skýrslna um þessi ferðamál hafa verið birt án þess, að það hafi borið neinn árangur til úrbóta.  Ragnheiður Elín Árnadóttir, ferðamálaráðherra, gat þess á þingi Samtaka atvinnulífsins nú í september, að skúffur hennar væru fullar af skýrslum um ferðaþjónustuna. 

Niðurstöður í skýrslum Önnu Dóru Sæþórsdóttur eru mjög sláandi.  Ráðamenn hafa ekki hlustað á vísindalegar ábendingar um það í hvað stefndi, eins og fagleg rannsóknarvinna og skýrslur þessa fræðimanns og Háskóla Íslands hafa bent á ár eftir ár og Ferðamálastofa hefur gefið út á undanförnum árum."

Það hefnir sín alltaf að hunza beztu þekkingu á hverju sviði, og við svo búið má alls ekki standa.  Það eru gríðarlegir hagsmunir í húfi, og undirstöður stærstu tekjulindarinnar geta hæglega hrunið vegna vanrækslu og skipulagsleysis.  Hvorki þessi né önnur starfsemi má einkennast af gullgrafaraæði. 

Samgöngumál:

Fólksbílafjöldinn eykst um yfir 2 % á ári, og fjöldi bílaleigubíla og langferðabíla enn meira, og er nú fjöldi hinna fyrr nefndu um 20´000 í landinu.  Umferðin eykst hlutfallslega enn meir en bílafjöldinn vegna mikils hagvaxtar, 4 %-5 %, gríðarlegrar aukningar ráðstöfunartekna heimilanna, um 10 %/ár þessi misserin, og lágs eldsneytisverðs. Á höfuðborgarsvæðinu hefur umferðin aukizt 6,5 % fyrstu 10 mánuði ársins 2016 m.v. sama tímabil 2015. Nú ríkir "framkvæmdastopp" stórframkvæmda til gatnakerfisbóta í Reykjavík eftir samning Reykjavíkurborgar og Vegagerðar um, að Vegagerðin setti í staðinn "stórfé" í strætisvagnasamgöngur á milli Reykjavíkur og fjarlægra staða.  Rafvæðing bílaflotans mun framkalla aukningu á umferð, af því að orkukostnaður á hvern ekinn km minnkar um 2/3 m.v. núverandi orkuverð. 

Við þessari þróun er bráðnauðsynlegt að bregðast við af myndarskap, en þá vill svo óheppilega til, að í Reykjavík ræður afturhald ríkjum, sem vill synda á móti straumnum og er með kenningar um, að yfirvöld eigi að vinna gegn umferðaraukningu af völdum einkabílsins með því að halda nýjum umferðarmannvirkjum í lágmarki og tefja för vegfarenda með þrengingum gatna og öðru ámóta. Á sama tíma eru gælur gerðar við "Borgarlínu".  Þetta nær engri átt. 

Höggva þarf á þennan hnút og setja nú þegar í gang verkefni við Sundabraut og tvöföldun Hvalfjarðarganga. Spölur mun afhenda Vegagerðinni Hvalfjarðargöngin í árslok 2018, og allt bendir til, að árið 2019 verði meðalumferð þar í gegn yfir 8000 farartæki á sólarhring, sem er viðmiðunar hámark.  Strax þarf að hefja undirbúning tvöföldunar, og þessi 2 nefndu verkefni eru upplögð í einkaframkvæmd og vegtollheimtu, af því að leiðirnar verða valfrjálsar.  Fjárveitingu til Vegagerðarinnar þarf jafnframt að auka um 40 % upp í a.m.k. 35 miaISK/ár.

Fjármögnun innviðaframkvæmda:

Ferðamennskan hefur ekki aðeins valdið auknu álagi á vegakerfið, heldur líka á heilbrigðiskerfið og löggæzluna, svo að eitthvað sé nefnt.  Hér gæti verið um 10 % aukningu álags að ræða af völdum ferðamanna, sem bregðast verður við með auknum fjárveitingum úr ríkissjóði að sama skapi.  

Þetta kallar á nýja fjármögnun, og er álagning gistiskatts í stað gistináttagjalds, e.t.v. 1000 kr/fullorðinn per nótt, og hækkun virðisaukaskatts upp í 24 % og afnám undanþága, leið til að fjármagna hin auknu útgjöld. 

Jafnframt þarf að fara að huga að útjöfnun hinna gríðarlegu gróðurhúsaáhrifa af völdum flugsins, sem fyrir 2,0 milljónir gesta til Íslands gæti numið 2,3 Mt, sem er helmingur af allri losun  á landi og sjó hérlendis.  Til þess mætti leggja á hóflegt komugjald, t.d. 2´000 kr á hvern fullorðinn, og leggja þetta fé til skógræktar og landgræðslu. 

Náttúruhamfarir:

Ferðaþjónustan getur beðið mikinn hnekki af völdum goss undir jökli, eins og dæmin sanna.  Flutningar í lofti að og frá landinu geta teppzt um tíma, og jökulflóð geta rofið hringveginn, og verulegar truflanir geta orðið á afhendingu rafmagns.  Aðrar atvinnugreinar en ferðaþjónustan munu að vísu verða fyrir meira tjóni af völdum rafmagnsleysis, en hætt er við stóráfalli í ferðaþjónustunni, því meiru þeim mun fleiri ferðamenn, sem eru staddir á landinu, þegar ósköpin dynja yfir, fyrirvaralítið.  Þess vegna er bráðnauðsynlegt að fjölga áfangastöðum erlendra ferðamanna utan gosbeltisins, t.d. á Snæfellsnesi, Vestfjörðum, Norðurlandi vestra og Austurlandi. 

Samantekt:

Ferðaþjónustan stendur að baki núverandi hagvexti og velmegun á Íslandi að miklu leyti.  Hún er hins vegar afar viðkvæm atvinnugrein, og með afturkippi í henni er efnahagsstöðugleika á Íslandi ógnað.  Veldisvöxtur greinarinnar er ekki einvörðungu blessun, heldur getur hann leitt til hruns þessarar stærstu atvinnugreinar landsins með fjöldagjaldþrotum og fjöldaatvinnuleysi sem afleiðingu.  Sumu er hægt að stemma stigu við, en öðru ekki með góðu móti.

 

 

 

 


Váboðar í vændum

Gott gengi íslenzks efnahagslífs stingur algerlega í stúf við bágborið efnahagsástand annars staðar á Vesturlöndum.  Þar ríkir víðast stöðnun, þ.e. sáralítill hagvöxtur, og barátta við hinn illa spíral verðhjöðnunar með stýrivöxtum um og undir 0. 

Þetta hefur valdið bönkum miklum rekstrarerfiðleikum, og jafnvel "klettar í hafinu" riða nú til falls.  Á sama tíma virðist andstaða við frjáls heimsviðskipti aukast víða samfara vaxandi einangrunarhyggju.  Þetta birtist t.d. í því, að samningaviðræður ESB og BNA um brotfellingu á viðskiptahömlum á milli þessara stóru viðskiptasvæða hafa stöðvazt vegna andstöðu beggja vegna Atlantshafs. 

Við þessar erfiðu aðstæður ákváðu Bretar að segja sig úr ESB og virðast nú stefna á fríverzlunarsamning við bæði þessi svæði og Brezku samveldislöndin. Reyndar sló Theresa May algerlega nýjan tón á nýafstöðnu flokksþingi Íhaldsmanna, þar sem hún kvað ákvörðun meirihluta kjósenda um að segja skilið við ESB eiga sér margvíslegar orsakir, sem ríkisstjórn Íhaldsflokksins ætlar að bregðast við með því að halda inn á miðju stjórnmálanna, enda er Verkamannaflokkurinn þar ekki lengur, heldur hefur gufað upp á leið sinni langt til vinstri.

 Það er rétt við þessar aðstæður að huga að þeim áhættuþáttum, sem helzt steðja að Íslendingum á vissum tímamótum í vályndum heimi.

Stjórnmálin: 

Í Alþingiskosningunum 29. október 2016 eru 13 stjórnmálaflokkar nefndir til sögunnar, hvernig sem framboðum þeirra verður háttað.  Dreifing atkvæða verður væntanlega mikil, svo að myndun tveggja flokka ríkisstjórnar verður vart í boði.  Þetta býður upp á langdregnar stjórnarmyndunarviðræður og að lokum stjórnarmyndun, kannski utanþings í boði forseta lýðveldisins eftir mikið japl og jaml og fuður, þar sem stefnumörkun verður óljós og ríkisstjórnarsamstarfið brothætt. 

Slíkt ástand býður ekki upp á efnahagslega festu og aðhald við stjórnun ríkisfjármálanna, eins og þó ríður á nú, heldur lausatök, gáleysislega aukningu ríkisútgjalda og skattahækkanir á fyrirtæki og einstaklinga, ef eitthvað er að marka málflutning núverandi stjórnarandstöðu.  Samfylkingin, sem er í útrýmingarhættu undir stjórn Oddnýjar Harðardóttur, hefur í örvæntingu sinni boðað fyrirfram greiddar bætur (vaxtabætur) úr ríkissjóði.  Þetta er eitt hæpnasta gylliboðið, sem heyrzt hefur á þessu hausti.

Stjórnkerfisástand af þessu tagi leiðir óhjákvæmilega til þess, að verðlagsstöðugleikanum verður kastað á glæ, og verðbólgan mun þess vegna hefja innreið sína á ný vegna skilningsleysis á efnahagsáhrifum skattahækkana og opinberra framkvæmda og getuleysis valdhafa við jafnvægisstillingu hagkerfisins.  Þetta ásamt ytra áfalli getur orðið upphafið að nýrri kreppu hérlendis eftir hagvaxtarskeið 2011-2016, sem leitt hefur til hærri VLF/mann nú en 2008 á föstu verðlagi, sem er meira en annars staðar frá hefur frétzt af.

Þá er afar ólíklegt, að fjölflokkastjórn, og þaðan af síður utanþingsstjórn, muni hafa þann innri styrk og bolmagn, sem þarf til að halda áfram vegferð mikilvægra kerfisbreytinga, sem núverandi ríkisstjórn hóf.  

Peningamálin:   

Seðlabankinn hefur ekki verið með á nótunum, heldur haldið verðbólguvæntingum við með of háum verðbólguspám í 2-3 ár. Líkön hans af hagkerfinu þarfnast endurbóta, t.d. áhrif innflutts vinnuafls á launaskrið.  Með þessu hefur hann valdið of háum breytilegum vöxtum á óverðtryggðum lánum, og með allt of háum stýrivöxtum hefur hann valdið ásókn spákaupmanna í ISK og þrýst upp gengi ISK, sem er til óþurftar fyrir hagkerfið við núverandi aðstæður.

Seðlabankinn hefur með óþarflega háum stýrivöxtum valdið miklum kostnaðarauka á öllum stigum samfélagsins og auðvitað aukið samtímis sparnaðinn, en hann hefði átt að nýta sér innflutta verðhjöðnun og lækkun innflutningsgjalda að hálfu ríkissjóðs til að feta vaxtalækkunarbraut niður fyrir 4 % í stað núverandi 5,25 %. 

Hann er nú að gefast upp við gjaldeyriskaup, sem aðallega eru ætluð til að vinna gegn hækkun ISK. Gengisvísitalan er núna a.m.k. 5 % of lág, og bankinn verður að lækka stýrivexti, þar til gengisvísitalan hækkar í 180-190 (er rúmlega 170 í byrjun október 2016). 

Hátt gengi ISK hefur nú þegar veikt samkeppnisstöðu íslenzkra útflutningsgreina um of.  Bretland er helzta viðskiptaland Íslands, og gengi sterlingspunds hefur á skömmum tímum lækkað úr 210 ISK/GBP í 140 ISK/GBP eða um 33 %.  Þetta hefur þegar haft mjög tekjurýrandi áhrif á fyrirtæki, sem flytja út á Bretlandsmarkað, t.d. í sjávarútvegi, og það hlýtur að fara að nálgast þolmörk brezkra ferðamanna hingað til lands.

Seðlabankinn notaði ekki tækifærið 5. október 2016 á vaxtaákvörðunardegi að lækka stýrivexti sína.  Það sýnir, að kominn er tími til að endurnýja Peningastefnunefnd, sem virðist vera í öðrum heimi. 

Alþingi hefur nú samþykkt verulegar tilslakanir á fjármagnshöftum.  Ætla má, að vinstri stjórn í landinu hefði ekki átt neitt frumkvæði að slíku, því að Samfylkingin hefur látið í ljós, að það væri ekki hægt, nema að ganga í ESB, og Vinstri hreyfingin grænt framboð er haftaflokkur, því að þannig halda stjórnmálamenn fleiri valdataumum í sínum höndum.  Ríkisforsjárflokkar losa aldrei um gjaldeyrishöft né önnur höft á einkaframtakið.

 

Verðlagsmálin:

Hjörtur H. Jónsson, forstöðumaður áhætturáðgjafar hjá ALM Verðbréfum, skrifaði Sjónarhól Morgunblaðsins, 22. september 2016,

"Hver er hræddur við verðbólgu ?":

"En hvað hefur stuðlað að lágri verðbólgu síðustu ár ?  Ef við skoðum þróunina frá 2014, t.d. með vísan til hrávöruvísitalna Deutsche Bank, hefur orka lækkað um 60 % [Nú er afkoma stærstu íslenzku orkufyrirtækjanna, LV og OR, orðin svo góð, að svigrúm hefur skapazt til að lækka raforkuverð og verð á heitu vatni, en ekkert hefur frétzt um, að slíkt sé í bígerð.  Þvert á móti hefur frétzt af áformum um auknar arðgreiðslur til eigendanna. - innsk. BJo], landbúnaðarvörur um á milli 20 % og 25 % og málmar um 20 %.  Og á sama tíma og innlend aðföng hafa lækkað umtalsvert í erlendri mynt, hefur krónan styrkzt um nærri 20 %. [Hún þarf að lækka aftur um 5 %, sjá "Peningamálin" að ofan. - innsk. BJo.] Þessar miklu lækkanir á innfluttri vöru [Hér má minna á afnám vörugjalda, oft 15 %, af öllu, nema jarðefnaeldsneyti og bifreiðum, sem knúnar eru slíku, afnám tolla af fötum & skóm og lækkun þeirra á öðru en matvælum.]  hafa unnið gegn innlendum hækkunum, en launavísitalan hefur t.d. hækkað u.þ.b. um 20 % frá 2014. 

Mikið hefur hins vegar dregið úr erlendum lækkunum að undanförnu, og orkuverð fer t.d. aftur hækkandi.  Þótt ekki sé útilokað, að ferðaþjónustan haldi áfram að vaxa og skila gjaldeyri inn í landið með tilheyrandi styrkingu krónu, er ólíklegt, að ytri aðstæður verði áfram jafnhagstæðar, þ.e. að innfluttar vörur haldi áfram að lækka jafnhratt og þær hafa gert að undanförnu, að því ógleymdu, að styrking krónu grefur undan vöruskiptajöfnuðinum og vinnur gegn vexti ferðaþjónustunnar.  Það er því líklega kominn tími til, að fyrirtæki, sem nota verðtryggð lán sem óbeina gengisvörn, hafi varann á." 

Af þessu er ljóst, að nú mun reyna meira á innlenda hagstjórn til að halda verðbólgunni í skefjum en á tíma erlendra verðlækkana.  Þá þarf að grípa til þeirra verðlækkunarleiða, sem færar eru.  Fjárfestingar heimila og fyrirtækja eru ekki þensluhvetjandi núna, þar sem nettó skuldastaða þeirra hefur lækkað.  Lækkun vaxtastigs í landinu mun valda kostnaðarlækkunum og þannig draga úr þenslu. Þetta virðist þó ekki fást út úr hagkerfislíkönum Seðlabankans.  Kannski er þetta bara almannarómur ?  

Hagvöxtur:

Hagvöxtur er nauðsynlegur hjá vaxandi þjóð til að tryggja kjarabætur, ný atvinnutækifæri og jöfnuð í samfélaginu.  Vinstri flokkarnir og Píratar hafa horn í síðu hagvaxtar, og þeir skilja þess vegna ekki mikilvægi þess, að valdhafar skapi grundvöll hagvaxtar.  Þeir virðast ekki átta sig á neikvæðum áhrifum skattahækkana á hagvöxtinn, eða þeim er alveg sama. Það er einmitt eitt áhættuatriðið núna fyrir velferðarþjóðfélag á Íslandi, að slíkt fólk komist til valda í Stjórnarráðinu í vetur, því að þá mun þar hefjast sama dæmalausa geðþóttastjórnun sérvizku og efnahagslegrar fávizku og nú blasir við í Reykjavíkurborg.  

Þar ríður  nú lestarsérvizka húsum, og er fjöldi manns sendur í heimsreisur til að kynna sér rekstur sporvagna, þótt kunnáttumaður um arðsemisútreikninga þyrfti aðeins eina klst til að sýna fram á glapræði slíkrar fjárfestingar í borginni yfir 100 miakr, og að miklu arðsamara er að verja fé borgarinnar og Vegagerðarinnar til að auka flutningsgetu núverandi gatnakerfis í Reykjavík.  Sérvizka vinstri manna ríður ekki við einteyming, og hún reynist skattborgurum jafnan dýrkeypt. 

Hagvöxtur 2016 verður um 4,5 %, sem er einn mesti hagvöxtur á Vesturlöndum, en hann er líklega svipaður á Írlandi.  Þar er hann knúinn áfram af beinum erlendum fjárfestingum í krafti lágs tekjuskatts á fyrirtæki eða um 12 %, en hér er hann enn 20 %.  Á Íslandi er hagvöxturinn líka knúinn áfram af fjárfestingum, en hér eru þær bæði innlendar og erlendar.  Nú horfir að vísu óbjörgulega fyrir erlendri fjárfestingu á Bakka við Húsavík og innlendri fjárfestingu á Þeistareykjum, og er það þyngra en tárum taki að sjá skemdarverkamenn komast upp með að kasta rýrð á orðspor Íslands sem áreiðanlegs lands, þar sem af öryggi má fjárfesta í trausti þess, að staðið verði við samninga.  Þetta er áhættuatriði fyrir framtíðar fjárfestingar í landinu. 

Atvinnuvegafjárfesting jókst um 15,1 % árið 2014 m.v. 2013, en þá var 6,7 % samdráttur í fjárfestingum.  Aukningin 2015 m.v. 2014 varð um 21 %, og spáð er 18 % vexti atvinnuvegafjárfestinga 2016.  Þar munar töluvert um innflutning skipa og flugvéla ásamt búnaði í stóriðjuver, virkjanir og flutningslínur.  Stóriðjuframkvæmdir munu ná hámarki 2016-2017, enda hörgull að verða á raforku, sem takmarka mun hagvöxtinn. 

Nú kann orðspor Íslands sem áreiðanlegt land varðandi umsamda raforkuafhendingu að vera í húfi vegna tafaleikja andstæðinga loftlínulagna, sem hefur neikvæð áhrif á samningsstöðu Íslands við erlenda fjárfesta.  Hætta ætti reyndar öllum skattalegum ívilnunum í þeirra garð og annarra fjárfesta, svo að allur atvinnurekstur sitji við sama borð gagnvart hinu opinbera hérlendis.  Andstæðingar hagvaxtar berjast með kjafti og klóm gegn framkvæmdum, þótt þær hafi farið í umhverfismat og framkvæmdaleyfi verið gefið.  Ábyrgðarlausar úrskurðarnefndir ættu ekki að geta stöðvað framkvæmdir.  Aðeins lögbann dómstóls ætti að geta stöðvað framkvæmdir, sem hlotið hafa framkvæmdaleyfi.     

Til að tryggja framtíðartekjur í þjóðfélaginu án þensluáhrifa á framkvæmdastigi þurfa fjárfestingar atvinnuvega að vera á bilinu 20 % - 25 % af VLF, og árið 2016 eru þær að öllum líkindum á þessu bili.  Það vitnar um styrk hagkerfisins, að þrátt fyrir miklar fjárfestingar og 4,5 % hagvöxt 2016, þá stefnir samt í yfir 4,0 % af VLF jákvæðan viðskiptajöfnuð . 

Þetta getur hratt snúizt við.  Hægt er að kyrkja fjárfestingargetu með hækkaðri skattheimtu, t.d. sértækri á sjávarútveginn, eins og nokkrir stjórnmálaflokkar hafa boðað, og gjaldeyristekjur geta hrapað með óhóflegri hækkun gengis eða náttúruhamförum (Katla).  Nú stefnir t.d. í mun minni hagnað sjávarútvegsfyrirtækja en á árabilinu 2012-2015 vegna óhóflegrar gengishækkunar, sem Seðlabankinn illu heilli heyktist á að vinna gegn með vaxtalækkun í byrjun október 2016.  Vitnar það um ótrúlegt sinnuleysi um hag atvinnulífsins og skrýtna forgangsröðun.  Er orðið brýnt að endurskoða lög um Seðlabankann, sem alræmdur vinstri meirihluti setti á síðasta kjörtímabili, og velja þangað nýtt fólk til forystu.  Núverandi Seðlabanki er áhættuþáttur fyrir hagkerfið. 

Skattheimta:

Miðað við umræðuna núna er líklegt, að á næsta kjörtímabili muni koma fram frumvarp á Alþingi um breytingar á skattalögunum.  Innihald slíks frumvarps er algerlega háð því, hvernig úrslit kosninganna verða.  Vinstri menn munu vilja færa allt í svipað horf og var hjá þeim á síðasta kjörtímabili, þar sem ekkert var hirt um einföldun og aukna skilvirkni skattkerfisins, heldur hlaupið eftir pólitískum duttlungum og sérvizku um að rífa sem mest af þeim, sem hærri hafa tekjurnar, og auðvitað urðu millistéttin, menntaðri hluti hennar aðallega, og gamlingjar, sem áttu nokkrar eignir, en voru jafnvel mjög tekjulitlir, helztu fórnarlömbin.  Þetta skilaði litlu í ríkiskassann, enda var ekkert hugað að hagvaxtarhvetjandi aðgerðum.  Það er miklu áhrifaríkara fyrir tekjustreymið til ríkissjóðs að stækka skattstofninn en að auka skattheimtuna. 

Borgaralega sjónarmiðið er það, að skattkerfið sé tekjuöflunarkerfi hins opinbera, ríkissjóðs og sveitarsjóða, og það beri að gera þannig úr garði, að það virki sem minnst letjandi til vinnu og framtaks.  Góð laun, sem fengin eru á heiðvirðan hátt, skaða engan, og því ber alls ekki að refsa neinum löghlýðnum borgara fyrir háar tekjur. Það er misnotkun á valdi ríkisins að refsa fólki fyrir háar tekjur.

Nú hefur forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins viðrað hugmynd um skattkerfisbreytingu, sem felur í sér lækkun á neðsta þrepi tekjuskatts einstaklinga úr rúmlega 37 % í 25 % (vonandi er það að meðtöldu útsvari, því að annars er þetta engin lækkun), og lækkun efra þreps úr rúmlega 46 % í 43 %, og hækkun byrjunarupphæðar þess úr ISK 836´990  í ISK 970´000 .  Miðþrepið, 38,35 %, fellur brott í árslok 2016. 

Lækkun lægra þrepsins er sanngjörn fyrir alla, ekki sízt hina tekjulægri.  Við þetta mætti bæta að fella niður skattheimtu af greiðslum frá TR.  Það er einfalt, skilar sér að miklu leyti aftur í ríkiskassann og er sanngjarnt fyrir þá, sem ekki hafa aðrar tekjur. 

Jaðarskattheimtan, 43 %, er svo há, að hún hvetur til undanskota og virkar hamlandi á aukið vinnuframlag og framtak fólks.  Ef þessi tillaga er miðuð við lungann úr millistéttinni, ætti að lækka þetta jaðarskattstig niður í 35 %, enda ættu ekki að vera meira en 10 % á milli skattþrepa.  Annars verða jaðaráhrifin of tilfinnanleg.  

Ef ríkissjóður kveinkar sér undan þessu og ef hætt verður að heimta skatt af greiðslum frá TR, mætti jafnvel fella persónuafsláttinn á brott. 

Verkefnisstjórn um úttekt á íslenzka skattkerfinu undir formennsku Daða Más Kristóferssonar, hagfræðings, leggur til, að virðisaukaskattstigin tvö, 11 % og 24 %, verði sameinuð í eitt skattþrep, 18,6 %.  Þriðja skattþrepið er fyrir hendi, og það er 0.  Þar er menntastarfsemi, og þar ætti menningarstarfsemi og útgáfa hugverka líka að vera ásamt allri heilbrigðisþjónustu, nuddi, nálastungum, grasalækningum, smáskammtalækningum o.s.frv., lyfjum og bætiefnum. 

Til að draga úr hækkun matarkostnaðar við einföldunina í eitt þrep, er ráð að setja allar innlendar landbúnaðarvörur í núll virðisaukaskattsflokk.  Jafnframt yrðu tollar á erlendum mat, sem ekki er fáanlegur frá innlendum framleiðendum, felldur niður í áföngum, og lækkaður umtalsvert á öðrum gegn fríum aðgangi að erlendum mörkuðum fyrir ákveðið magn íslenzkra landbúnaðarvara. Algert skilyrði fyrir upplýst kaup neytenda er að upprunamerkja allar landbúnaðarvörur kyrfilega, svo að neytandinn fari ekki í neinar grafgötur um uppruna matfanganna, sem hann er að festa kaup á.  

Fjármálaþjónusta og tryggingastarfsemi eru erlendis undanþegnar virðisaukaskatti, og svo er einnig hérlendis, og hefur ekki verið gerð tillaga um annað, enda er þessi þjónusta nú í hæstu hæðum kostnaðarlega fyrir íslenzka neytendur. 

Núverandi ríkisstjórn hefur fækkað undanþágum ferðaþjónustu frá VSK, og afnema ætti unanþágur þessar með öllu.  Sérskilmála bílaleiga við innkaup á bílum á að fella niður, þó að þær verði þá að hækka leiguverðið.  Með yfir 20 þúsund bíla í útleigu lungann úr árinu eru slíkar ívilnanir tímaskekkja. 

Ferðaþjónustan:

Ofboðsleg árlega aukning á fjölda erlendra ferðamanna hefur komið öllum hérlendis í opna skjöldu.  Norðurslóðir njóta vinsælda um þessar mundir sem áfangastaður ferðamanna, af því að þar blasa afleiðingar hlýnunar andrúmsloftsins við, þar er náttúran tiltölulega óspillt og þar er friðsælt og tiltölulega öruggt. Þessi atvinnugrein er hins vegar viðkvæm gagnvart kostnaðarbreytingum, ekki sízt á stöðnunar- og samdráttartímum, eins og nú ríkja.

Yfir 21 þúsund launþegar eru árið 2016 starfandi að meðaltali yfir árið í ferðaþjónustu, en voru árið 2009 um 11 þúsund talsins, þ.e. 13 % aukning á ári að meðaltali.  Í greininni eru til viðbótar tæplega 3 þúsund verktakar.

Til samanburðar er fjöldi beinna starfa í málmframleiðslufyrirtækjunum 1900 eða 9 % af fjöldanum í ferðageiranum, sjómenn eru um 4400 talsins, 21 %, og í fiskiðnaði eru 4700 manns. Það er athyglivert, að fjöldi starfsmanna í hinum meginútflutningsgreinunum er aðeins um helmingur af fjölda starfsmanna í ferðageiranum, að verktökum meðtöldum í öllum geirum, og þar eru yfir 13 % starfanna í landinu. Ef eitthvað bregður út af í ferðageiranum, er voðinn vís fyrir atvinnustigið á Íslandi og gjaldeyristekjur landsins.

Eftirfarandi tilvitnun í Böðvar Þórisson, skrifstofustjóra fyrirtækjasviðs Hagstofunnar, í Viðskipta-Mogganum 13. ágúst 2015, sýnir mikil ruðningsáhrif ferðageirans í íslenzku atvinnulífi:

"Það hefur ekki orðið nein breyting að ráði á heildarfjölda starfa í landinu frá árinu 2008, og hafa því þessi nýju störf, sem hafa skapazt í ferðaþjónustunni, komið í stað starfa í öðrum atvinnugreinum."

Allt sýnir þetta, hversu gríðarlega er búið að magna umfang ferðaþjónustu í íslenzku samfélagi.  Þessu fylgir mikil fjárhagsleg áhætta, því að tekjustreymið, sem aðallega er háð fjölda erlendra ferðamanna, getur hæglega snarminnkað af völdum náttúruhamfara, t.d. Kötlugoss, eða vegna fjármála, t.d. mikillar lækkunar sterlingspunds, en fjölmennasta þjóðernið, sem hér gistir í orlofi, er brezkt.  Meiri hækkun ISK en þegar er orðin, gæti leitt til viðsnúnings í fjölgun ferðamanna.  Afleiðingarnar yrðu fjöldagjaldþrot og fjöldaatvinnuleysi.  Sem mótvægisaðgerð er tímabært að stofna jöfnunarsjóð ferðageirans, t.d. með komugjöldum, 2000 ISK per einstakling, 18 ára og eldri, yfir háannatímann. 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Mengunarvaldurinn mikli

Mesta bábilja umræðunnar um íslenzku atvinnuvegina sem mengunarvalda er, að ferðaþjónustan sé umhverfisvænst.  Þessu er þveröfugt farið; hún er verst, þegar að er gáð, og kemst upp með það, enn sem komið er, án þess að greiða fyrir tjónið.  Lágmark er, að hún greiði fyrir þær mótvægisaðgerðir, sem tiltækar eru.  Ofurvöxtur í greininni sýnir, að það er borð fyrir báru hjá henni að hækka verðið til að mæta slíkum umhverfiskostnaði, enda er fátt um fína drætti hjá ferðamönnum, þegar kemur að staðkvæmni fyrir Ísland.

Landnotkun ferðaþjónustunnar, eins og hún er nú rekin á Íslandi, má víða kalla áníðslu, sem fer jafnvel ver með landið en ofbeit sauðfjár og hrossa.  Nú mótar loksins fyrir vitrænum tillögum til að stemma stigu við átroðslunni, þ.e. að landeigandi og/eða umráðaaðili lands taki bílastæðagjald, sem standi undir uppbyggingu  aðstöðusköpunar og þjónustu á staðnum.  Þessi aðferð felur í sér möguleika á að stjórna fjöldanum með verðlagningu, eins og víða er gert.

Það er líka eðlilegt að taka gistináttagjald, sem renni að mestu leyti til viðkomandi sveitarfélags, því að meðhöndlun úrgangs, þ.m.t. skólps, frá 2,0 M ferðamönnum, lendir á sveitarfélaginu og útheimtir miklar fjárfestingar, ef vel á að standa að hreinsun, svo að úrgangurinn, sem jafngildir úrgangi frá a.m.k. 50 þúsund manna sveitarfélagi, verði ekki stórskaðlegur umhverfinu. Nýlega hefur komið fram, að meðhöndlun skólps hérlendis nær ekki máli og er til skammar, þegar borið er saman við síun skólps á hinum Norðurlöndunum, sem er 50 sinnum öflugri en hér.   

Akkilesarhæll ferðaþjónustunnar í mengunarmálum er þó loftmengunin. Það eru um 20 k (þúsund) bílaleigubílar í rekstri hér, sem er tæplega 9 % bílaflotans, og erlendir ferðamenn eru stærsti viðskiptamannahópurinn.  Þessum bílum er ekið margfalt meira en öðrum bílum landsmanna að meðaltali, eða líklega um 100 kkm/ár.  Þannig gæti eldsneytisnotkun ferðamannanna á vegum numið um þriðjungi heildareldsneytisnotkunar bílaflotans, sem árið 2015 nam 260 kt, og verið valdur að 6 % losun gróðurhúsalofttegunda án flugs og millilandaskipa. 

Þetta stendur þó til bóta vegna umhverfisvænni bíla, aðallega rafbíla, sem senn munu taka við af bílum knúnum jarðefnaeldsneyti.  Nú (2015) er innlend olíunotkun 523 kt/ár.  Henni er spáð hægt vaxandi fram til 2020, þegar hún gæti numið tæplega 600 kt vegna hagvaxtarins, en eftir það fari hún minnkandi vegna minni eldsneytisnotkunar bílaflotans, fiskiskipaflotans og iðnaðarins. 

Árið 2035 gæti olíunotkun á Íslandi (án millilandaflutninga) hafa minnkað um helming niður í 300 kt, sem skiptist þannig:

  • bílaflotinn              57 % (nú 50 %)
  • fiskiskip                35 % (nú 40 %)
  • landb.& iðn.& innanl.fl.  8 % (nú 10 %)

Þessar tölur eru ágizkun blekbónda, og þróun bílaflotans verður vonandi hraðari en þarna er gert  ráð fyrir. Allt önnur og verri sviðsmynd er uppi á teninginum, þegar eldsneytisnotkun millilandaflugvéla og -skipa er tekin með í reikninginn. 

Árið 2015 nam hún 261 kt eða 33 % af heild.  Árið 2025 er þessari notkun spáð 463 kt, sem jafngildir 77 % aukningu á 10 árum og að hún nemi þá 44 % af heildarnotkun Íslendinga á olíuvörum ættuðum úr iðrum jarðar. 

Árið 2035  verður notkun millilandaflugvéla og millilandaskipa íslenzkra komin upp í 562 kt samkvæmt spá og er þá orðin 2,15-föld á við notkunina 20 árum fyrr og nemur þá 65 % af heildar jarðefnaeldsneytisnotkun landsmanna. 

Megnið af þessu er vegna flugsins og má segja, að þessi mengunarþróun stefni í algert óefni, eins og bezt sést á því, að árið 2035 mun losun gróðurhúsalofttegunda samkvæmt þessari spá nema 100 % af allri núverandi losun Íslands á CO2 jafngildum án millilandaflutninga. 

Millilandafluginu ber sjálfu að mynda mótvægi við þessu.  Það er t.d. hægt að gera með skógrækt.  Setjum sem svo, að millilandafluginu verði gert að mynda mótvægi árið 2035 við allri aukningunni síðan árið 2015, þ.e. mótvægi við 2,7 Mt af CO2 jafngildum.  Til þess þarf skógrækt á um 6000 km2 lands.  Kostnaðurinn er um 30 Mkr/km2, svo að heildarkostnaður nemur 180 miakr eða 9 miakr/ár.  Kostnaðinn má lækka með endurheimt votlendis til að mæta voveiflegri aukningu að hluta, sem er mun ódýrari aðgerð. 

Þetta mundi aðeins jafngilda 2-3 kkr/farmiða fram og tilbaka, ef millilendingarfarþegum er sleppt og farþegaaukningunni vindur fram, eins og ferðaþjónustumenn gera skóna, svo að það er alls engin goðgá að láta flugfarþega útjafna kolefnisspor sitt með þessum hætti.  Augljóslega stendur ferðaþjónustan í mikilli skuld við landsmenn og heimsbyggðina alla, sem verður fyrir barðinu á hlýnandi loftslagi. 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband