Færsluflokkur: Dægurmál
3.9.2024 | 14:22
Sjálfstæðinu í loftslagsmálum fórnað 2009
Ekki þarf að rekja sorgarsögu vinstri stjórnarinnar 2009-2013, en hún vann mörg óþurftarverk, enda þurfti allt undan að láta hjá henni, svo að málið eina fengi framgang. Enginn fer í grafgötur um, að það var að þóknast stækkunarkommisarnum í Brüssel í einu og öllu. Þar með var látið af sjálfstæðri loftslagsstefnu í íslenzka stjórnarráðinu og fórnað sterkri samningsstöðu, sem fólst í einstaklega háu hlutfalli endurnýjanlegrar orku í heildarorkunotkun landsmanna, m.a. til húshitunar og til að knýja málmframleiðslu, sem yfirleitt notaði raforku úr kolaorkuverum. Þarna nýttu Íslendingar sér auðvitað sérstaka samkeppnishæfni landsins á sviði vatnsfalla og jarðgufu. Vinstri stjórnin gaf þetta allt upp á bátinn og hengdi Ísland aftan í loftslagsstefnu Evrópusambandsins, sem var algerlega óraunhæft og allt of dýrt, en þar við situr. Katrín Jakobsdóttir, sem var menntamálaráðherra í þessari vinstri stjórn og vann menntakerfinu mikið tjón, bætti um betur sem forsætisráðherra síðar og skuldbatt Íslendinga á alþjóðavettvangi með óraunsæjum og raunar óframkvæmanlegum markmiðasetningum um samdrátt losunar 2030 og nettó núlllosun 2040. Fíflagangurinn mun koma okkur í koll, ef svo heldur fram sem horfir. Tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins (og kannski fleiri) vilja taka í taumana, en þar verður á brattann að sækja.
Björn Lomborg skrifaði enn eina merka grein í Morgunblaðið 17. ágúst 2024 um loftslagstengd efni, og hét þessi:
"Mýtan um græn orkuskipti".
Hún hófst þannig:
"Þótt mörg og fögur orð sé að finna í lofræðum um græn orkuskipti úr jarðefnaeldsneyti, þá eru þau umskipti samt ekki að verða. Það reynist óviðráðanlega kostnaðarsamt að ná markverðri breytingu með núverandi stefnu. Við þurfum að gjörbreyta stefnunni."
Þetta er nú orðið augljóst mál, en stjórnmálamenn, sem reka þessa andvana fæddu stefnu, hafa stungið hausnum í sandinn og þar við situr, þótt slík hegðan þjóni ekki hagsmunum umbjóðenda þeirra, og þeir hafi ekki verið kosnir til að fara undan í flæmingi, þegar nýrrar stefnumörkunar er þörf. Þetta er þó því miður einkenni á stjórnmálum samtímans, einnig í ráðuneytum stórra og mikilvægra málaflokka.
"Á heimsvísu eyðum við nú þegar tæpum 2 billjónum bandaríkjadala árlega [ 1 billjón=1 trilljón(trn)=1 þúsund milljarðar] til að reyna að knýja fram orkuskipti. Undanfarinn áratug hefur notkun sólar- og vindorku aukizt í það mesta, sem hefur verið. En það hefur ekki dregið úr notkun jarðefnaeldsneytis. Á sama tíma höfum við bara aukið enn meira við brennslu jarðefnaeldsneytis."
Þessi sorglega niðurstaða stafar sumpart af því, að vegna óhjákvæmilegs slitrótts rekstrar sólar- og vindorkuvera þarf að brenna jarðefnaeldsneyti til að fylla í skarðið, en sumpart er ástæðan aukin orkueftirspurn. Á Íslandi er yfirleitt unnt að fylla í skarðið með vatnsafli.
"Ótal rannsóknir sýna, að þegar samfélög auka við endúrnýjanlega orku, kemur sú orka sjaldnast í stað kola, gass eða olíu. Heildarnotkunin eykst bara. Nýlegar rannsóknir sýna, að fyrir hverjar 6 einingar af nýrri grænni orku kemur minna en 1 eining í stað jarðefnaeldsneytis [< 17 %]. Greining í Bandaríkjunum sýnir, að niðurgreiðslur á endurnýjanlegum orkugjöfum leiða einfaldlega til þess, að meiri heildarorka er notuð. M.ö.o.: aðgerðir, sem ætlað er að efla græna orku leiða til meiri losunar."
Ekki er víst, að þetta síðasta sé alls kostar rétt, því að aukinni orkuþörf hefði ella verið fullnægt með enn meiri eldsneytisbrennslu. Hins vegar er ljóst af þessu, að niðurgreiðslur á sólar- og vindorku auka orkueftirspurn og eru óskilvirk leið og slæm ráðstöfun skattfjár í viðleitni til að draga úr losun koltvíildis. Á Íslandi koma slíkar niðurgreiðslur ekki til greina, enda mun notkun þessara orkugjafa hækka meðalraforkuverð í landinu og verða þar með verðbólguvaldandi.
"Mannkynið hefur [er haldið] óslökkvandi þorsta í orku á viðráðanlegu verði, sem er nauðsynlegt fyrir alla þætti nútímalífs. Á síðustu hálfri öld hefur orkan, sem við fáum úr olíu og kolum, tvöfaldazt, vatnsaflið hefur þrefaldazt og gasið fjórfaldazt, og við höfum upplifað sprengingu í notkun kjarnorku, sólar- og vindorku. Allur heimurinn, og einstaklingar að jafnaði, hefur aldrei haft meiri orku tiltæka.
Sú mikilfenglega áætlun, sem liggur til grundvallar grænum orkubreytingum nútímans, snýst að mestu leyti um að þrýsta á mikla niðurgreiðslu endurnýjanlegrar orku, sem alls staðar muni með töfrum láta jarðefnaeldsneyti hverfa. En nýleg rannsókn dró fram þá niðurstöðu, að tal um "umskipti" væri villandi. Vísindahópurinn komst að því, að viðbót nýrra orkugjafa hefði hvergi, án undantekninga, leitt til viðvarandi samdráttar í notkun þekktra orkugjafa."
Stjórnmálamenn og embættismenn þeirra hafa rétt einu sinni tekið algerlega rangan pól í hæðina í stórmáli. Þeir hafa litið fram hjá aðalforsendunni fyrir því, að "orkuumskipti" séu möguleg, en hún er sú, að tæknin sé raunverulega tilbúin til að leysa verkefnið. Þeir virðast hafa ímyndað sér, að slitróttir orkugjafar á borð við vind og sól gætu leyst jarðefnaeldsneytið af hólmi, en það er borin von. Þeim hefði verið nær að setja brot af því fé, sem þeir hafa sólundað í gagnslítil verkefni, í rannsóknir og þróun á umhverfisvænum, stöðugum og hagkvæmum orkugjöfum. Það hefur alltaf verið tækniþróunin, sem leyst hefur orkuskiptaviðfangsefnið þangað til nú, að pólitíkusar tóku til sinna ráða og hafa auðvitað keyrt allt í skrúfuna.
"Aðaldrifkrafturinn hefur alltaf verið sá, að nýja orkan er annaðhvort betri eða ódýrari [eða hvort tveggja - innsk. BJo].
Sól og vindur bregðast í báðum atriðum. Þau eru ekki betri, því [að] ólíkt jarðefnaeldsneyti, sem getur framleitt rafmagn, hvenær sem við þurfum á því að halda, geta þau aðeins framleitt orku í samræmi við duttlunga dagsbirtu og veðurs.
Þetta þýðir, að þau eru ekki heldur ódýrari. Í bezta falli eru þau aðeins ódýrari, þegar sólin skín eða vindurinn blæs á réttum hraða. Þess utan eru þau að mestu gagnslaus og óendanlega dýr.
Þegar við reiknum með kostnaði af aðeins 4 tíma geymslu, verða vind- og sólarorkulausnir ósamkeppnishæfar m.v. jarðefnaeldsneyti. Til þess að ná raunverulega sjálfbærum umskiptum yfir í sólar- eða vindorku mundi þurfa geymslurými af umfangi, sem gerir þessa kosti óviðráðanlega óhagkvæma."
Í vatnsorkulöndum, þar sem vatnsskortur er, eins og á Íslandi, eru þessi gölluðu orkuform dýrmætari en annars staðar, ef þau geta komið í veg fyrir orkuskerðingu. Hér geta m.ö.o. þessir aflgjafar keyrt á öllu því afli, sem vindur og sól leyfa, alltaf, því að vatnsfallsver eru auðstýranleg og þá er sparað vatn í miðlunarlónum með því að draga úr afli þeirra á móti, og fjöldi véla í rekstri miðaður við hámarksnýtni vél- og rafbúnaðar. Engu að síður munu þessir nýju orkugjafar hækka meðalkostnað í íslenzka raforkukerfinu meira en nýjar hefðbundnar íslenzkar virkjanir, og neikvæð umhverfisáhrif vindhverflanna og þeirra risastóru spaða eru ískyggileg og miklu meiri en hefðbundinna íslenzkra virkjana reiknað í framleiddri raforku (km2/GWh) yfir tæknilegan endingartíma.
"Á þessari braut munum við aldrei ná orkuskiptum frá jarðefnaeldsneyti. Það mundi krefjast miklu meiri niðurgreiðslu á sólar- og vindorku sem og rafhlöðum og vetni fyrir okkur öll [og fórna] að sætta okkur við óhagkvæmari tækni fyrir mikilvægar vörur eins og stál og áburð. Í ofanálag mundu raunveruleg umskipti einnig krefjast þess, að stjórnmálamenn legðu gríðarlega skatta á jarðefnaeldsneyti til að gera það síður eftirsóknarvert. McKinsey áætlar verðmiðann á raunverulegum breytingum yfir 5 trnUSD/ár.
Þessi eyðsla myndi hægja á hagvexti og gera raunkostnað fimmfalt hærri. Árlegur kostnaður fyrir fólk, sem býr í ríkum löndum, gæti farið yfir 13 kUSD/íb ár. Kjósendur mundu ekki samþykkja þann sársauka."
Það er svo gríðarlegur kostnaður, sem stjórnmálamenn eru að flækja almenning í með rangri stefnumörkun í loftslagsmálum, að sliga mundi hagkerfi landanna, sem þátt taka í vitleysunni, og valda þar óðaverðbólgu, sem brjóta mundi niður efnahagslega getu til stórverkefna og auka fátækt í heiminum. Andstæðingar neyzlu yrðu þá kátir, en skamma stund yrði sú hönd höggi fegin.
"Eina raunhæfa leiðin til að ná fram umskiptum er að stórbæta grænu orkutæknina. Þetta þýðir meiri fjárfestingu í rannsóknum og þróun á grænni orku. Nýsköpunar er þörf í vindi og sól, en einnig í geymslum, kjarnorku og mörgum öðrum mögulegum lausnum. Að ná kostnaði við aðra orku niður fyrir verð jarðefnaeldsneytis er eina leiðin til að hægt sé innleiða grænar lausnir á heimsvísu, ekki bara hjá yfirstétt fáeinna ríkra landa, sem hafa áhyggjur af loftslagsmálum."
Lomborg segir í raun og veru, að núverandi tæknistig megni ekki að leiða fram raunveruleg orkuskipti. Gerviorkuskiptum var þjófstartað samkvæmt reglu allmargra stjórnmálamanna um, að betra sé að veifa röngu tré en öngvu. Stjórnmálamenn veðjuðu á rangan hest með gríðarlegri sóun á opinberu fé sem afleiðingu og seinkun á raunverulegum umbótum. Hvenær mun yfirstéttin sjá að sér ? Þá verður hún að kyngja stórum fullyrðingum og heitstrengingum, en þá mun lýðum verða ljóst, að keisarinn er ekki í neinu. Almenn þjóðfélagsóánægja og -óþol er svo mikil í ríka heiminum um þessar mundir, að áfallaþol almennings er orðið lítið áður en upp úr sýður. Kannski koma einhverjir stjórnmálamenn með vit í kollinum fram á sjónarsviðið og ná að greiða úr þessari flækju. Þá er betra að hafa í huga, að kraftaverkin taka tíma.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.8.2024 | 18:27
Óttinn við loftslagsbreytingar að dvína ?
Loftslagstrúboðið hefur horn í síðu sjálfstæðs predikara heilbrigðrar skynsemi í þeim efnum, Danans Björns Lomborg, forseta Copenhagen Consensus og gestafyrirlesara við Hoover-stofnun Stanford háskóla í Bandaríkjunum. Morgunblaðið hefur verið iðið við að kynna lesendum sínum skrif þessa sjálfstæða fræðimanns, sem hefur gagnrýnt viðhorf vestrænna stjórnmálamanna og ýmissa sérfræðinga um það, hvernig barizt skuli við hlýnun jarðar, enda hefur sá skortur á kerfisbundinni aðferðarfræði, sem þar ríkir, valdið öngþveiti og árangursleysi. Björn Lomborg hefur bent á, að brýnna sé að verja fé í baráttu við hungur og sjúkdóma í þriðja heiminum.
Þann 29. júlí 2024 birtist enn ein ádeilugreinin á vestræn stjórnvöld undir tvíræðri fyrirsögn þýðandans:
"Þessi alheimska samstaða var aðeins tíbrá".
Hún hófst þannig:
"Frá 10. áratuginum hafa loftslagsbreytingar orðið þráhyggja stjórnmálamanna og yfirstétta ríkra landa. Hún fæddist og dafnaði í jarðvegi, þar sem heimurinn hafði rétt naumlega séð fyrir endann á Kalda stríðinu [sem eins og kunnugt er lauk með ósigri kommúnismans - innsk. BJo]. Í sögulegu ljósi var friðsælt, traust ríkti um allan heim, víðtækur hagvöxtur og örar framfarir gegn fátækt. Sérstaklega leið íbúum höfuðborga Evrópu, eins og stærstu vandamál plánetunnar væru leyst. Loftslagsbreytingar væru síðasta víglínan.
Þessir talsmenn loftslagsaðgerða hafa beitt sér af miklum ákafa og sannfæringu fyrir því, að við hættum að nota jarðefnaeldsneyti. Einmitt þann orkugjafa, sem hafði knúið áfram tveggja alda undraverðan vöxt. Vissulega myndi þetta kosta hundruð billjóna [trilljóna-1 trilljón=1000 milljarðar] dala, en það yrði alltaf meiri hagvöxtur.
Þvílík þröngsýn og barnaleg sýn á heiminn. Tíminn hefur leikið grátt þá heimskulegu hugmynd, að loftslagsbreytingar væru síðasta víglína mannkyns, sem eftir væri, eða að íbúar jarðar myndu sameinast um að leysa vandann. Geopólitískir árekstrar og viðskiptahagsmunir valda því, að hröð alþjóðleg umskipti frá jarðefnaeldsneyti eru óhugsandi."
Þetta er hinn bitri sannleikur, og þess vegna stendur hin opinbera loftslagsstefna Vestursins á brauðfótum. Orkuskipti á heimsvísu í anda loftslagspostula eru ómöguleg fyrr en tækniþróunin hefur fært manninum raunhæfan orkugjafa til að taka við kolum, olíu og gasi. Þjóðir á borð við Íslendinga, sem búa við mikið af s.k. endurnýjanlegum stöðugum orkulindum, s.s. vatnsföll og jarðgufu, og geta þannig framleitt næga raforku til að rafvæða eldsneytisferla og framleiða lífeldsneyti, sem leyst getur jarðefnaeldsneyti af hólmi, komast næst því að leysa þau verkefni, sem þarf til að uppfylla draumóra stjórnmálamanna. Vinstri stjórnin 2009-2013 kom hins vegar á fót slíku skrifræðisbákni í kringum leyfisveitingaferli virkjana, að stöðnun hefur orðið á sviði nýrra virkjana yfir 10 MW. S.k. Rammaáætlun er eitt af því, sem kasta þarf á haugana og hefur reynzt verri en gagnslaus. Afleiðingin af vitleysunni, sem viðgengst, er, að upp spretta vindorkuver, eins og gorkúlur á haugi, sem eru miklu dýrari og umhverfisverndarlega verri kostur en vel hannaðar vatnsafls- og jarðgufuvirkjanir, reiknað á einingu framleiddrar raforku.
"Leiðtogar frá Evrópu og Bandaríkjunum tala um "núllmarkmið", eins og það hafi alþjóðlegan stuðning. En fljótt var ljóst, að þessi alheimska samstaða var aðeins tíbrá. Fyrir það fyrsta er hinn óstöðugi möndull Rússlands, Írans og Norður-Kóreu ekkert á því að styðja viðleitni vestrænna ríkja við að draga úr loftslagsbreytingum. Reyndar, samkvæmt McKinsey, myndi núllmarkmiðið krefja Rússa um mrdUSD 273 til loftslagsaðgerða á hverju ári. U.þ.b. þrefalt það, sem þeir eyddu til hermála á síðasta ári. Það mun ekki gerast.
Geopólitískar hindranir rista enn dýpra. Vöxtur Kína hefur þarfnazt þess að brenna sífellt meira af kolum. Þaðan kemur yfirgnæfandi mesta magn gróðurhúsalofttegunda í heiminum auk þess að vera með mestu aukningu allra þjóða á síðasta ári. Endurnýjanleg orka var 40 % af orkuframleiðslu Kína árið 1971, en minnkaði niður í 7 % árið 2011 með stigvaxandi kolabrennslu. Síðan þá hefur endurnýjanleg orka aukizt aftur í 10 %. Öflugar loftslagsaðgerðir gætu kostað Kína næstum 1,0 trnUSD/ár [1000 mrdUSD/ár] og hamlað vegferð þess í átt að því að verða rík þjóð."
Evrópusambandið (ESB) hefur í hyggju að leggja innflutningstolla á vörur, sem framleiddar eru með stóru kolefnisspori, en gæti verið að skjóta sig í fótinn með svo sértækum aðgerðum. Tíminn einn vinnur þessa baráttu, þ.e. það verður að gefa tækninni hvata til að þróa lausnir. Vind-og sólarorka geta ekki varðað veginn að lokalausninni, en kjarnorkan getur það, en er ekki síður áhættusöm en aukinn koltvíildisstyrkur í andrúmslofti enn sem komið er. Þetta sýnir ótti Alþjóða kjarnorkumálastofnunarinnar um öryggi stærsta kjarnorkuvers Evrópu, sem rússneski herinn hertók og hefur nú hætt framleiðslu rafmagns í, en frá kjarnakljúfunum stafar enn mikil hætta, ef kælikerfi versins laskast eða byggingar þess verða fyrir eldflaug eða stórri sprengju.
"Á sama tíma, þrátt fyrir allt málskrúðið, eiga auðug lönd sífellt minna fé handbært fyrir loftslagsbaráttuna. Árlegur hagvöxtur á mann [á] meðal ríkra landa dróst saman úr 4 % á 7. áratuginum [20. aldar] í 2 % á 10. áratuginum. Núna erum við rétt yfir 1,0 %. Mörg þessara landa standa frammi fyrir þrýstingi á að eyða meira í varnarmál, heilbrigðisþjónustu og innviði á sama tíma og pólitískur þrýstingur og breyttar þjóðfélags- og aldurssamsetningar gera leiðir þeirra til stöðugleika og vaxtar mun óvissari.
Samt sem áður heldur fólk um alla Evrópu og Norður-Ameríku, sem fæddist í tiltölulega rólegum heimi 10. áratugarins, áfram í einstrengingslegum ákafa að þrýsta á afiðnvæðingu og samdrátt til að takast á við loftslagsbreytingar. Þ.á.m. í vaxandi hagkerfum heimsins. Öllum skal líða jafnilla."
Í ESB er staðnað hagkerfi, sumpart vegna evrunnar, sem hentar ekki öllum þjóðunum alltaf á evrusvæðinu. Vaxtastig evrubankans er jafnvel of hátt um þessar mundir fyrir þýzka hagkerfið, sem hefur glímt við miklar orkuverðshækkanir vegna kúgunartilburða Rússa. Loftslagsstefna ESB er að sama skapi að verða afar íþyngjandi fyrir hagkerfin þar og rýrir samkeppnishæfni þeirra á alþjóðamörkuðum. Hér innanlands hefur einmitt borið á innflutningi á þeim veruleikafirrtu kenningum róttækra græningja, sem Lomborg gerir að umræðuefni, þ.e. að alls ekki skuli virkja meira, en skapa svigrúm fyrir orkuskipti með því að loka iðjuverum landsins. Þessi stefna, t.d. Landverndar, ber feigðina í sér og er dauðadómur yfir góðum lífskjörum á Íslandi. Slíkar kenningar eru illa ígrundaðar, eiginlega bara kaffihúsasnakk, enda varða þær leiðina til fátæktaránauðar.
"Nú þegar eru kjósendur í Evrópu að snúa baki við stjórnmálamönnum, sem hafa talað fyrir minni hagvexti og hagsæld í nafni loftslagsbreytinga. 6-7 kosningalotur eru framundan fyrir miðja öld, og hörð loftslagsstefna, sem getur kostað hvern mann í ríka heiminum meira en 10 kUSD/ár [1,4 MISK/ár] er dauðadæmd. Þessar stefnur munu gera það líklegra, að kjósendur snúi sér að popúlískum [lýðskrums] þjóðernissinnuðum leiðtogum, sem munu alfarið hverfa frá rándýrum núllmarkmiðum. Þá verður loftslagsstefnan í molum."
Kostnaður við "núllstefnuna" er svo hár, að lífskjörin verða rekin aftur um 40 ár, ef henni verður haldið til streitu, og það er engin glóra í því að keyra lífskjörin á Vesturlöndum niður, á meðan aðalmengunarvaldarnir þeysa fram í lífskjarasókn. Allt sýnir þetta, hvað loftslagsstefna ESB, sem er sú stefna, sem rekin er blint hérlendis, er illa ígrunduð.
"Heimurinn þarf betri leið fram á við. Bezta lausnin er ekki sú að þrýsta á fólk til að hafa það verra með því að þvinga fram ótímabær umskipti úr jarðefnaeldsneyti yfir í ófullnægjandi græna valkosti. Þess í stað ættum við að auka fjárfestingar í grænni nýsköpun í því [augnamiði] að draga úr kostnaði við hreina orku, þar til [að] hún verði orðin hagkvæmari en jarðefnaeldsneyti. Þetta er miklu kostnaðarminna og mun hvetja alla, þ.á.m. Indland og önnur vaxandi hagkerfi, til að vilja breyta sínum orkugjöfum."
Þetta er hárrétt stefnumörkun af hálfu Lomborg að mati þessa skrifara og sú eina sjálfbæra, sem í augsýn er. Jarðefnaeldsneytisforðinn fer minnkandi, sem mun valda hækkandi verði, svo að ekki mun líða á löngu, þar til að vestræn tækni getur boðið upp á eitthvað skárra en kjarnorku úr afar geislavirkum úranísótópi, hráefnisfrekar sólarhlöður eða hrottalega landfrekar vindmyllur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.7.2024 | 10:08
Fleiri leiðir í boði en leið kollsteypu
Sjálfshól og drýldni Samfylkingarforystunnar er við brugðið. "Vér einir vitum" skín stundum úr þeim ranni, og það á við um skipulagsmál höfuðborgarinnar, sem búið er að keyra í algerar ógöngur, landsmönnum öllum til mikils kostnaðarauka. Þetta á ekki sízt við um umferðarmálin, en það eru til leiðir út úr þeim ógöngum, sem fela í sér raunverulegar lausnir á vandamálinu, sem meirihluti borgarstjórnar er búinn að keyra í harðan hnút. Tvímenningarnir Þórarinn Hjaltason og Þorkell Sigurlaugsson gerðu grein fyrir hugmyndum frá samtökunum "Samgöngur fyrir alla" í Morgunblaðinu 29. júní 2024 undir fyrirsögninni:
"Tillögur um bráðaaðgerðir í samgöngumálum":
"Hér á eftir eru 11 tillögur, sem áætlað er, að kosti alls um mrdISK 115 í framkvæmd, sem er umtalsvert lægri upphæð en þær, sem blasa við okkur samkvæmt fyrirhuguðum framkvæmdum. Miklubrautargöng og Sundagöng/braut ekki með talin, sem geta jafnvel orðið að mestu sjálfbær verkefni með hóflegri gjaldtöku."
"1. Taka í notkun nýtt leiðakerfi strætó, byggt að mestu á fyrirliggjandi drögum. Kostnaðaráætlun um mrdISK 35."
Hér er miðað við vagna á hliðsettum akreinum hægra megin við bifreiðaumferðina. Miklu ódýrara og truflar ekki bílaumferð að ráði, hvorki á framkvæmdatíma né rekstrartíma veganna, eins og stórborgardraumórar Samfylkingarinnar um s.k. Borgarlínu.
"2. Einföld mislæg gatnamót sem vegbrú yfir Reykjanesbraut við Bústaðaveg. Kostnaðaráætlun um mrdISK 3."
Þessi framkvæmd hefur dregizt úr hömlu í boði Samfylkingar og mun skapa viðunandi tengingu Bústaðavegar, þar sem íbúum hefur fjölgað talsvert, við stóra umferðaræð.
"3. Auka flutningsgetu Hafnarfjarðarvegar og Kringlumýrarbrautar. Kostnaðaráætlun um mrdISK 10." Þarna hafa í 20 ár mundazt sístækkandi biðraðir á umferðartímum. Að Samfylkingin skuli ekki hafa séð sóma sinn í að koma með frambærilega lausn á þessu umferðarviðfangsefni, heldur þvert á móti gert sér leik að því að auka umferðartafirnar með ljósastýrðri gangbraut við Hamrahlíð, sýnir, að þar á bæ er eigin sérvizka og falskar kennisetningar (það þýðir ekkert að fjölga akreinum, því að þær fyllast strax af bílum) settar ofar almannahagsmunum.
"4. Fjórar akreinar Kringlumýrarbrautar settar í göng undir Miklubraut. Kostnaðaráætlun um mrdISK 4."
Með þessari lausn verður beygjuumferð til austurs og vesturs af Kringlumýrarbraut fyrir miklum töfum af umferðarljósum. Hægri beygju mætti hafa án ljósa með beygjureinum.
"5. Reykjanesbraut verði breikkuð í 6 akreinar frá Breiðholtsbraut að Álftanesvegi. Kostnaðaráætlun um mrdISK 9."
Þessi aukning afkastagetu á fjölförnum vegarkafla mun fara langt með að eyða biðraðatöfum þar um hríð.
"6. Sæbraut við Skeiðarvog-Kleppsmýrarveg. Kostnaðaráætlun um mrdISK 4. Fjórar akreinar Sæbrautar verða teknar í tiltölulega ódýr og einföld undirgöng undir Skeiðarvog-Kleppsmýrarbraut með svipuðum hætti og Kringlumýrarbraut undir Miklubraut."
Þarna framkvæmdu umferðaryfirvöld borgarinnar glapræði 2023 með því að afnema aðrar beygjureinina til vinstri inn á Sæbraut af Kleppsmýrarbraut. Þarna er þung umferð stórra flutningatækja og að gera þetta í nafni öryggis er yfirvarp eitt. Afnámið veldur miklum umferðartöfum, og það eru ær og kýr meirihluta Samfylkingar og meðreiðarsveina í borginni. Þetta sýnir vel fúsk og sérvizku, sem er einkennandi fyrir Samfylkinguna. Það er engin ástæða til að halda, að vinnubrögðin yrðu skárri í Stjórnarráðinu.
"7. Arnarnesvegur og mislæg gatnamót við Breiðholtsbraut. Kostnaðaráætlun um mrdISK 8."
Þetta verk er í gangi, en án mislægra gatnamóta, en Samfylkingin má ekki heyra minnzt á þá lausn, sem þó er til að bæta umferðarflæði og auka öryggi. Það er algert ábyrgðarleysi að láta pólitíska fordild trompa velferð og öryggi almennings. Þótt Kristrún Frostadóttir þykist hafa breytt Samfylkingunni í orði, hefur hún ekkert breytzt á borði.
"8. Tvöföldun Suðurlandsvegar sunnan og austan við Bæjarháls í samræmi við samgöngusáttmála. Kostnaðaráætlun um mrdISK 2."
Þetta er bráðnauðsynleg framkvæmd til að tengja höfuðborgarsvæðið Suðurlandi með sómasamlegum hætti. Þarna er allt of þröngt nú og þar af leiðandi óþarflega hættulegt og tafsamt.
"9. Fossvogsbrú (fyrir strætó, gangandi og hjólandi) í samræmi við samgöngusáttmála. Kostnaðaráætlun um mrdISK 10, og er þá miðað við núverandi hönnun."
Það er furðulegt af ríkisvaldinu að samþykkja þá fordild og útilokunarstefnu Samfylkingar að útiloka almennar bifreiðar, þ.m.t. einkabílinn, frá Fossvogsbrú. Snúa þyrfti ofan af þeirri vitleysu um leið og verkfræðingum væri falið að hanna nýja brú, þar sem tekið er tillit til lágmörkunar líftímakostnaðar, en að sleppa sérvizkulegum útlitskröfum Samfylkingarfólksins í borgarstjórn, sem kosta skattborgarana talsvert fé. Ekki verður logið á Samfylkinga, þegar kemur að meðferð opinbers fjár.
"10. Hafnarfjarðarvegur í stokk í Garðabæ í samræmi við samgöngusáttmála. Kostnaðaráætlun im mrdISK 10."
Þetta er í samræmi við vilja bæjaryfirvalda í Garðabæ og skipulag þar á bæ, enda er þar með leyst úr flæðisvanda innan bæjar og hættu á mótum Vifilsstaðavegar og gatnamóta þar sunnan og norðan við. Bráðabirgða lausnin við Vífilsstaðaveg bætti mjög úr skák.
"11. Reykjanesbraut [á] milli Lækjargötu og Álftanesvegar í Hafnarfirði í jarðgöng undir Setberg. Kostnaðaráætlun um mrdISK 20."
Þetta leysir umferðarvandann á hringtorgi Lækjargötu/Reykjanesbrautar/Setbergs og á gatnamótum í Kaplakrika og væntanlega einnig í láginni við Hafnarfjarðarveg.
Þeir félagar klykkja út með eftirfarandi, sem hægt er að taka undir um leið og þeim er þakkað mikilsvert framlag til málaflokks, sem Samfylkingin hefur notað krafta sína til að valda miklu tjóni á.
"Góðar samgöngur fyrir alla ferðamáta gera gera höfuðborgarsvæðið áfram samkeppnishæft og sveigjanlegt fyrir fólk, fyrirtæki og farartæki af öllum gerðum og fótgangandi."
Þetta mundi vera stefna heilbrigðrar skynsemi í samgöngumálum höfuðborgarsvæðisins, en henni er alls ekki að heilsa, því að stærsta sveitarfélagið, Reykjavík, býr við útúrborulegan hugsunarhátt meirihluta borgarstjórnar, sem er að úthýsa einkabílnum og reisa sjálfum sér bautastein, sem væri í raun algert skemmdarverk á samgöngumálum landsmanna, enda í boði amatöra og sérvitringa, sem fá að móta stefnu Samfylkingarinnar á þessu sviði. Ef þessi stjórnmálaflokkur fær byr í seglin í næstu Alþingiskosningum, mun í ljós koma, að þetta einkenni hennar á við um mun fleiri svið landsmálanna. Um það vitnar fortíðin, og ekki þarf annað en að nefna Reykjavíkurflugvöll til að styðja þá fullyrðingu rökum. Fjandskapur Samfylkingarinnar og fylgihnattarins pírata við hann er reginhneyksli.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.7.2024 | 10:23
Ábyrgð Samfylkingar á umferðaröngþveiti í Reykjavík er mikil
Samfylkingarfólk í borgarstjórn hefur mótað stefnuna í umferðarmálum borgarinnar, sem leitt hefur bílaumferðina inn í öngstræti, og það stefnir í botnlausa útgjaldahít án nokkurs árangurs fyrir umferðina. Þetta er vegna þeirrar áráttu jafnaðarmanna að hafa vit fyrir öðrum, "vér einir vitum". Í þessu tilviki hafa fúskarar í umferðarmálum og skipulagsmálum borga úr röðum Samfylkingar haldið á lofti þeirri utan að lærðu kenningu, að fjölgun akreina eða mislæg gatnamót séu þýðingarlaus á höfuðborgarsvæðinu, af því að ný mannvirki fyllist strax af bílum. Þórarinn Hjaltason, samgönguverkfræðingur, hefur í Morgunblaðsgrein sýnt fram á, að í borg á borð við höfuðborgarsvæðið sé þessi kenning firra. Samt hefur aðgerðarleysi í vegaframkvæmdum í Reykjavík verið reist á þessari fjarstæðukenndu kenningu á ábyrgð Samfylkingar.
Aðalleiðarstef Samfylkingar í málefnum umferðar á höfuðborgarsvæðinu hefur verið borgarlína, sem eru hraðferðir á miðjusettum akreinum eftir aðallega tveimur ásum. Aðstæður á höfuðborgarsvæðinu, dreifð byggð og erfitt veðurfar, eru með þeim hætti, að hlutdeild Strætó í heildarumferð er aðeins um 4 %. Þetta er allt of lítið til að réttlæta fjárfestingar upp á mrdISK 130 eða meira (endurskoðun Samgöngusáttmálans er enn í burðarliðnum), og þess vegna hefur Samfylkingarfólkið, trútt sinni forræðishyggju, reynt að pína ökumenn bíla og farþega þeirra til að leggja bílnum og velja almenningssamgöngur í staðinn, og með bættri þjónustu borgarlínu dreymir þetta lið um þreföldun hlutdeildar, en ekkert bendir til, að það sé raunhæft. Þetta hefur verið gert með ýmsum aðgerðum til að tefja umferðina, og er það svínslegt ráðslag af þeim, sem trúað hefur verið fyrir að fara með völdin í þágu borgarinnar. Samfylkingin kann ekki að skammast sín, og hefur bitið höfuðið af skömminni með þéttingu byggðar meðfram ásum borgarlínu. Þetta hefur stórhækkað íbúðaverð og valdið lóðaskorti, sem er líklega stærsti verðbólguvaldurinn um þessar mundir. Þannig rekur hvað sig á annars horn í höfuðborginni, þar sem Samfylkingin hefur haft töglin og hagldirnar í á annan áratug. Ef kjósendur fela Samfylkingunni stjórn landsins í næstu Alþingiskosningum, munu þeir fara úr öskunni í eldinn, enda máttu þeir vita vegna óstjórnarinnar í Reykjavík, að þeir væru að kaupa köttinn í sekknum.
Tveir mætir menn eiga heiður skilinn fyrir að láta ekki umferðarmálin liggja í láginni. Það eru þeir Þorkell Sigurlaugsson og téður Þórarinn Hjaltason, sem í júní 2024 rituðu 2 greinar um málaflokkinn í Morgunblaðið. Birtist sú fyrri þann 21. undir fyrirsögninni:
"Bráðavandi í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu".
Hófst hún þannig:
"Svo kölluð endurskoðun samgöngusáttmála ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu frá 2019 hefur tekið meira en heilt ár, en er nú lofað á næstunni, jafnvel fyrir júnílok [2024]. Miklar væntingar byggðust upp í kjölfar undirritunar hans og nú endurskoðunarinnar. Strax í tengslum við borgarstjórnarkosningar 2022 bentu ýmsir á þörf fyrir róttæka endurskoðun, en þöggun var í gangi."
Þessi samgöngusáttmáli eru Pótemkíntjöld, sem Samfylkingunni þótti heppilegt að setja upp til að hylja eigin eymd, "framkvæmdastopp" vegaumbóta á höfuðborgarsvæðinu í áratug gegn 1 mrdISK/ár frá ríkinu til að halda gjaldþrota almenningssamgöngum á floti. Á meðan hafa umferðartafir aukizt, og hættan á fjölförnum gatnamótum og víðar magnazt. Þetta var furðuráðstöfun að frumkvæði Samfylkingarinnar, sem hefur reynzt vegfarendum á höfuðborgarsvæðinu dýrkeypt. Kostnaðaráætlun þessara pótemkíntjalda var út í hött, og þegar þetta er birt 8. júlí 2024 hefur þessi óþarfa pólitíska sýndarmennska ekki litið dagsins ljós endurskoðuð.
Samfylkingin skákar gjarna í því skjólinu, að hún reki umhverfisvæna samgöngustefnu. Þetta er tóm vitleysa. Hvað halda menn að umferðartafirnar kosti mikla aukningu á bruna jarðefnaeldsneytis, og það er hrein hörmung að horfa upp á stóra "tóma" vagna á götunum megnið af deginum, valdandi miklu dekkja- og vegsliti auk eldsneytisbruna. Sú stefna Samfylkingar að beita borgarkerfinu til að tefja vegfarendur, svo að þeir hrökklist í strætisvagninn, ætti að valda almennri fordæmingu á þeim stjórnmálaflokki, en þess í stað sýna skoðanakannanir, að með sýndarveruleika og látbragðskúnstum hefur tekizt að villa um fyrir mörgum kjósendum, enda leitar klárinn þangað, sem hann er kvaldastur.
"Umferðartafir á höfuðborgarsvæðinu kosta íbúa, fyrirtæki og þjóðina vel yfir 30 mrdISK/ár vegna aukins kostnaðar fyrirtækja og einstaklinga í samgöngum, minni framleiðni, minni skatttekna ríkis og sveitarfélaga, auk meiri mengunar og skertra lífsgæða almennings. [Annar kostnaðarliður vegna illa ígrundaðrar stefnu Samfylkingar í umferðarmálum er aukinn slysakostnaður og bifreiðatjón.]
Stytting vinnuvikunnar er löngu farin í tímasóun í einkabílnum eða í strætó. Á næstu 10 árum mun kostnaður vegna umferðartafa á svæðinu aukast verulega."
Jafnaðarmenn við stjórn borgarinnar hafa rænt nýlegri vinnutímastyttingu af launamönnum með því meðvitað að þvinga þá í umferðarteppur - og -hnúta í þeirri bornu von, að þeir fari að ferðast með strætó. Hvernig má það vera, að verkalýðsforkólfar, sem annars láta sér fátt vera óviðkomandi, gagnrýni ekki aðgerðarleysi borgaryfirvalda, sem skert hafa verulega lífsgæði skjólstæðinga þeirra ? Sama má segja um landlæknisembættið. Þar á bæ eru oft uppi pólitískar hugmyndir um neyzlustýringu með gjaldtöku af óhollustu. Hvers vegna heyrist ekki bofs um lýðheilsumál Reykvíkinga í uppnámi vegna aukinnar hættu, streitu og mengunaráreitis í umferðinni af mannavöldum. Almennt má segja, að borgarstjóri og meðreiðarsveinar hans í borgarstjórn hafi komizt upp með stefnumörkun og stjórnarhætti, sem eru fyrir neðan allar hellur, furðu gagnrýnilítið.
"Fossvogsbrúin, eins mikilvæg og hún gæti verið, er orðin deila um kostnað, og hvort þetta eigi að vera listaverk. Sæbrautarstokkur er allt of dýr framkvæmd. Miklubrautarstokkur er rándýr og illframkvæmanlegur. Jarðgöng undir Miklubraut eru orðin álitlegri kostur að mati Vegagerðarinnar og fleiri fagaðila. Fækkun akreina úr tveimur í eina í hvora átt efst á Laugavegi og Suðurlandsbraut, lækkun umferðarhraða og miðjusetning borgarlínu mun umturna og tefja gífurlega alla bílaumferð.
Borgarlína mun skerða bílastæði við fyrirtækin og aðkomu að þeim við göturnar. Aðkoma að Laugardalsvelli og fyrirhugaðri Þjóðarhöll verður algjörlega óviðunandi fyrir mörg þúsund manns, sem koma þangað á viðburði á stuttum tíma. Heildarhönnun og framkvæmd borgarlínu mun taka mjög langan tíma, jafnvel 15-20 ár."
Þarna heyrist rödd heilbrigðrar skynsemi og fagmennsku á sviði umferðarmála höfuðborgarsvæðisins. Hvorugu er til að dreifa í ranni meirihluta borgarinnar, þar sem trippin eru rekin af Samfylkingunni, sem er endemis meinlokuflokkur, þar sem stefnan er mótuð af amatörum, sérvitringum og skýjaglópum. Að haldið skuli áfram út í borgarlínufenið í stað þess að gera sér grein fyrir, að um mikla fjárhagslega og tæknilega ófæru er að ræða, sem skynsamlegast er að læsa ofan í skúffu strax, sýnir, að pólitísk hugsun í Samfylkingunni er mótuð af kreddum og trúarkenningum. Þetta er ekkert nýtt, heldur hefur verið viðloðandi flokkinn frá stofnun hans og var áberandi í vinstri stjórninni 2009-2013. Verkin tala, og ekkert er að marka fagurgala núna. Þessi fagurgali hefur þó greitt götu óánægjufylgis frá stjórnarflokkunum, og sú óánægja með blöndu stjórnleysis og verkleysis ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er ekkert grín. Ef núverandi forystu ríkisstjórnarinnar tekst ekki að vinda ofan af verstu vitleysunni, t.d. í útlendingamálum og virkjanamálum, þá verður hér gallískt (franskt) ástand eftir næstu Alþingiskosningar, þ.e. enginn starfhæfur ríkisstjórnarkostur í boði.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.6.2024 | 09:34
Loftslagsstefnan er kjánaleg óskyggja
Það hefur sáralítill árangur orðið af þeirri stefnu á heimsvísu að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, enda eykst hún enn, þrátt fyrir allt blaðrið og heimsendaspádóma stjórnmálamanna og loftslagspostula.
Fáir hafa verið ötulli við að benda á fánýti þeirrar stefnu, sem rekin er á Vesturlöndum og víðar, en Björn Lomborg. Hann hefur þó ekki látið þar við sitja, heldur hefur hann bent á leiðir til að aðlaga mannkynið að afleiðingunum til að draga úr tjóninu, og hann hefur líka bent á leið til að stöðva hlýnunina og jafnvel að snúa þróuninni við. Það gerði hann í góðri grein í Morgunblaðinu 10. júní 2024 undir fyrirsögninni:
"Þetta eru ekki vísindi, heldur kredda".
Hún hófst þannig:
"Loftslagsrannsóknir eru í auknum mæli orðnar pólitískar. Harvard-háskóli lagði nýlega niður lykilrannsóknarverkefni í jarðverkfræði vegna mikilla neikvæðra viðbragða, þrátt fyrir drauma háskólans um að verða "alþjóðlegt leiðarljós loftslagsbreytinga".
Jarðverkfræði er ein leið mannkyns til að takast á við raunveruleg vandamál loftslagsbreytinga. Staðalnálgunin, sem flestir í ríka heiminum einbeita sér að, er að reyna að draga úr kolefnislosun og beina fjárfestingum að sólar- og vindorku.
Hins vegar er þessi aðferð ótrólega erfið og dýr, vegna þess að jarðefnaeldsneyti knýr enn í raun mestan hluta heimsins. Þrátt fyrir áratuga pólitískan stuðning við að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis eykst útblástur enn, og síðasta ár var hann hinn mesti frá upphafi.
Aftur á móti snýst jarðverkfræði um að draga beint úr hitastigi jarðar. Ein leiðin er að losa brennisteinsdíoxíð [SO2] út í heiðhvolfið, sem mundi kæla plánetuna. Það eru nægar vísbendingar um, að þetta virki. Gjósandi eldfjöll dæla venjulega ögnum inn í heiðhvolfið, þar sem hver ögn endurkastar smásólarljósi aftur út í geiminn. Árið 1991 kældi eldgosið í Pinatubo-fjalli jörðina um 0,6°C í 18 mánuði."
Loftslagstrúboðið leggst gegn tilraunum með að losa SO2 í heiðhvolfið; ekki vegna umhverfislegrar áhættu, sem tilraunin e.t.v. felur í sér, heldur vegna þess, að þessi lausn felur í sér að hverfa frá kreddum loftslagstrúboðsins um að draga úr losun CO2 og setja upp vindorkuver og sólarorkuver, hvað sem það kostar. Sýnir þetta, að loftslagstrúboðið hagar sér eins og staðnað trúarsamfélag, þar sem óvísindalega þenkjandi ofstækisfólk ræður ferðinni. Þess vegna er árangur erfiðisins sorglega lítill, en kostnaðurinn er samt orðinn gríðarlega mikill.
"Rannsakendurnir í Harvard voru ekki að reyna neitt svo stórfenglegt. Þeir vildu einfaldlega skjóta upp einum belg, sem mundi losa örlítið magn af svifryki hátt yfir jörðinni. Tilraun þeirra hefði safnað gögnum um, hvernig agnir dreifast, og hversu miklu sólarljósi þær endurkasti.
Vegna þess að heiminum hefur hingað til að mestu mistekizt að takast á við loftslagsbreytingar með því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis, virðist skynsamlegt að rannsaka einnig aðrar aðgerðir, sem gætu tekið á hluta vandans. Jafnvel Sameinuði þjóðirnar viðurkenndu árið 2019, að "engin raunveruleg breyting hefði orðið á losun á síðasta áratugi". Þrátt fyrir Parísarsamkomulagið frá 2015. Síðan þá hefur losun gróðurhúsalofttegunda haldið áfram að ná nýjum metum og "enginn endir í sjónmáli á vaxandi þróun", samkvæmt nýrri skýrslu frá Alþjóða veðurfræðistofnuninni."
Aðgerðasinnar á loftslagssviði mótmæltu fyrirhugaðri tilraun Harvard, og pólitíkusar tóku undir vitleysuna, svo að Harvard sá sitt óvænna og hætti við. Auðvitað kom Greta Thunberg þar við sögu. Fátt er svo þröngsýnt á jörðu hér, að slái við þröngsýni loftslagstrúboðsins. Allt er þetta með endemum sorglegt. Meira vit verður að víkja fyrir minna viti í þessu tilviki. Er jörðinni þá ekki við bjargandi ?
"Þetta eru ekki vísindi, heldur kredda eða trúarbrögð. Hugmyndin um, að það sé aðeins ein rétt stefna: að minnka kolefnislosun í 0 á stuttum tíma, er fáránleg. Sérstaklega þegar þessi eina aðferð hefur hvergi virkað. Sannleikurinn er sá, að jarðverkfræði gæti verið ótrúlega gagnleg nýjung, jafnvel þó að hún feli í sér áhættu.
Jarðverkfræði er eina mögulega leiðin, sem mannkynið hefur til þessa fundið til að lækka hitastig hratt. Ef við mundum sjá íshelluna á vesturhluta Suðurskautsins byrja að renna út í hafið, sem væri hörmung á heimsvísu, gæti engin stöðluð jarðefnaeldsneytisstefna hamlað því með nokkrum hætti. Jafnvel þótt það ómögulega yrði að veruleika, og allar þjóðir minnkuðu losun sína niður í 0 á nokkrum mánuðum, myndi hitastig ekkert lækka, heldur bara hætta að hækka."
Það er til vanza fyrir Sameinuðu þjóðirnar, enda virðist allt vera á sömu bókina lært á þeim bænum, að IPCC, Loftslagsráð SÞ, skyldi ekki taka upp hanzkann fyrir tilraun Harvard og mæla með tilrauninni, sem fyrirhuguð var. Það eru margir, sem hanga á spenanum og virðast hafa hagsmuni af, að allt hjakki í sama farinu, skýrslur séu samdar og ráðstefnur haldnar um eilífðarmálefni. Þetta er auðvitað algerlega óábyrg og óvísindaleg afstaða. Hvers vegna ekki að reyna að brjótast út úr sjálfheldunni og gera tilraun í litlum mæli með vænlega tilgátu ?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.6.2024 | 14:06
Sjókvíaeldið batnar og eykst
Fjárfestar láta ekki móðursjúka gapuxa hræða sig frá að fjárfesta í laxeldi í sjó við strendur Íslands, og þeir veðja að öllum líkindum á réttan hest þar. Annars konar fjárfestar stunda hér glórulausa niðurrifsstarfsemi á efnilegri sprotagrein, sem er í þróun hér við land í samstarfi við rannsóknarstofnanir, og hefur þegar skipað sér á fremsta bekk framleiðenda próteinríkrar fæðu, hvað lítið kolefnisspor áhrærir. Þetta eru auðjöfrar, sem stunda hér landakaup og ná þar með eignarhaldi á laxveiðiám, og aðrir landeigendur og frístundaveiðimenn. Þessi veiðimennska fylgir ekki vísindalegri ráðgjöf um veiðiálag á hverjum stað, heldur ræður græðgi veiðiréttarhafa för.
Siðfræðingar og fleiri beturvitar hafa gert athugasemdir við dauðastríð hvala, sem veiddir (voru) hér við land, en þeim hefur láðst að veita athygli dauðastríði laxfiska, sem hér á sér stað í ám landsins frístundaveiðimönnum til skemmtunar, og síðan er særðum fiskum jafnvel sleppt.
Staðreynd er, að laxastofnar Norður-Atlantshafs eiga í vök að verjast, og hafa of litlar rannsóknir farið fram á þessu, enda eru orsakirnar í þoku. Það gæti t.d. verið afrán í hafinu, fæðuskortur eða ofveiði í ánum. Veiðiálagið í íslenzkum laxveiðiám virðist vera allt of mikið m.v. alþjóðlega viðurkennda ráðgjöf Hafró á nytjastofnum hafsins. Borið er í bætifláka fyrir þetta með því að telja bara fiska, sem drepnir eru á staðnum, en ekki hina, sem sleppt er mismikið særðum. Er einhver rannsókn til á afdrifum þessara slepptu fiska ? Sennilega ekki sérlega ítarlegar, enda er þetta eitt af uppátækjum veiðiréttarhafa til að auka við sölu veiðileyfa. Hér gæti þó verið um að ræða hreinræktað dýraníð, sem þátt á í lélegum viðgangi laxastofna Norður-Atlantshafsins. Væri veiðiréttarhöfum sæmst að afleggja þennan ósóma, þar til haldbærar rannsóknarniðurstöður eru fyrir hendi um þessa aðferð, og óska veiðiráðgjafar Hafró.
Hérlendir áróðursaðilar gegn sjókvíaeldi halda mjög á lofti erfðablöndun erlendis og yfirfæra hana síðan til Íslands. Þessi samanburður getur bara gefið vitlausa niðurstöðu, af því að þegar í upphafi þessarar aldar mæltu yfirvöld þessara mála fyrir mikilli takmörkun á athafnasvæði sjókvíaeldis fyrir lax til að halda því sem fjærst frá helztu laxveiðiám landsins. Það var hvorki gert í Noregi né Skotlandi og vart tök á því í Færeyjum. Þegar af þessum ástæðum hafa sleppingar hér valdið minni erfðabreytingum en í þessum löndum. Það verður líka að árétta, að slepping jafngildir ekki erfðablöndun og erfðablöndun af þessu tagi þarf ekki að jafngilda erfðabreytingu til langframa.
Þann 7. júní 2024 birtist "baksviðsfrétt" í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:
"Skapi samkeppnishæf störf".
Hún hófst þannig:
"Á markaðsdegi laxeldisfyrirtækisins Kaldvíkur á Eskifirði í síðustu viku [v. 22/2024] kom fram í máli Asles Rönnings, forstjóra Austur holding, sem á 55,3 % í Kaldvík, en Rönning er jafnframt stjórnarformaður Kaldvíkur, að 3 meginástæður væru fyrir því, að hann væri stoltur af því að vera í laxeldi [í sjó].
Í fyrsta lagi væri hann stoltur af því að taka þátt í að fæða heiminn með sjálfbærum matvælum. Hann sagði, að 10 mrd manna myndu búa á jörðinni árið 2050, sem er 25 % aukning frá því, sem nú er. Þá muni hagvöxtur aukast um 50 % á tímabilinu. Það auki eftirspurn eftir fæðu um 50 %-60 %.
"Matvælaframleiðsla er loftslagsáskorun nr 2 á eftir [raf]orkuframleiðslu og stendur fyrir um 30 % alls kolefnisútblásturs. Núna kemur mest af dýrapróteini frá fiskveiðum og landbúnaði, en þar er lítið hægt að auka við. Framleiðsla á laxi er mjög samkeppnishæf og mun umhverfisvænni er t.d. svínarækt, sem losar 100 % meira kolefni en laxeldi [væntanlega per kg afurða - innsk. BJo]."
Það er ljóst, að full þörf er á vaxandi matvælaframleiðslu í heiminum, og svigrúm er til að auka laxeldið umtalsvert með sjálfbærum hætti og með lágmarks kolefnisspori. Það er í bígerð hérlendis bæði í sjókvíum úti fyrir ströndum Vestfjarða og Austfjarða og í landeldiskerum. Þeir, sem nú heimta, að sjókvíaeldi við Ísland verði lagt af taka fullkomlega óábyrga afstöðu til fæðuþarfar mannkynsins í framtíðinni. Þeir stilla málinu þannig upp, að það verði að velja á milli leikaraskapar frístundaveiðimennskunnar í ám landsins og próteinframleiðslu fyrir sveltandi heim. Hvað Ísland áhrærir, styðst þetta ekki við nein vísindaleg gögn, enda er sjókvíaeldið stundað samkvæmt vísindalegum ráðleggingum Hafrannsóknarstofnunar, en frístundaveiðar eru algerlega út í loftið og fela sennilega í sér grimmilega ofveiði, þar sem barátta laxfiska fyrir lífi sínu hefur verið gerð að skemmtiatriði.
"Í öðru lagi sagði Rönning, að verið væri að skapa samkeppnishæf störf á Íslandi, á landsbyggðinni og utan Íslands. "Í Noregi, þar sem við búum að 50 ára reynslu af laxeldi, verður eitt starf í stoðiðnaði til fyrir hvert starf í laxeldinu. Ég geri ráð fyrir, að það sama gerist hér."
Hann lagði áherzlu á, að enn þyrfti talsverða fjárfestingu til að efla og þróa iðnaðinn, og hann vonaðist til, að stjórnmálamenn væru meðvitaðir um það. Aðstæður greinarinnar þyrftu að vera réttar og samkeppnishæfar."
Samkeppnishæfni starfa ræðst af tvennu. Er framleiðsla starfsmannanna umhverfislega sjálfbær og samkeppnishæf á markaði ? Svo er í tilviki sjókvíaeldis á laxi við Ísland, enda undir ströngu vísindalegu eftirliti, bæði innra eftirliti og ytra eftirliti. Hins vegar af launagreiðslum starfseminnar í samanburði við aðra atvinnustarfsemi í landinu. Komið hefur fram, að launin í sjókvíaeldi eru yfir meðaltali í landinu, svo að telja má rétt hermt, að þessi starfsemi sé samkeppnishæf.
"Þriðja atriðið, sem hann kvaðst [vera] stoltur af, var, að fiskneyzla hjálpar til við að koma í veg fyrir hjartasjúkdóma [betra er: dregur úr líkum á hjartasjúkdómum að öðru jöfnu-innsk.]. Hann sagði, að Kaldvík myndi búa til u.þ.b. 2 M/viku heilsusamlegra máltíða um allan heim á árinu 2024."
Fjárfestingar fyrirtækja, sem stunda sjókvíaeldi á laxi við Ísland, munu á næstunni beinast að auknu rekstraröryggi og bættri fóðurnýtni. Sjálfvirkni við fóðurgjöf og eftirlit með fiskum og kvíum mun aukast og heilnæmar sjúkdómavarnir einnig. Kvíarnar sjálfar verða styrktar til að auka veðurþol, ölduþol og áverkaþol. Gangi allt að óskum, er með núverandi atvinnu- og rekstrarleyfum unnt að tvöfalda framleiðsluna upp í um 100 kt/ár og nefnd hefur verið draumsýn um yfir 200 kt/ár með auknum leyfisveitingum. Líklega þarf að leggja út í miklar fjárfestingar í úthafskvíum til að komast yfir 200 kt/ár við Ísland. Þegar landeldi laxa verður komið á góðan rekspöl, munu útflutningstekjur af laxeldi alls verða meiri en af nýtingu hefðbundinna nytjastofna við Ísland.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.6.2024 | 14:59
Orkuskortur, hagvöxtur og úrræði
Tap þjóðarbúsins vegna skerðinga á ótryggðri raforku í vetur olli svo mikilli tekjuskerðingu, að áhrif hefur á niðurstöðu útreikninga á hagvexti. Kemur þetta ofan í tekjutap af loðnubresti, sem gæti hafa numið mrdISK 40, og makríllinn er hættur að birtast. Starfandi rekstur iðnaðarins varð fyrir alls tæplega mrdISK 20 tekjutapi, og starfsemi, sem ekkert varð af vegna orkuleysis, hefði getað skilað svipaðri upphæð. Þarna er um að ræða um 1 % af vergri landsframleiðslu. Nú er komið fram frumvarp á Alþingi, sem Teitur Björn Einarsson, þingmaður sjálfstæðismanna, mælir fyrir og mun stytta málsmeðferðartíma leyfisveitenda umtalsvert.
Frétt birtist í Morgunblaðinu 17. maí 2024 undir fyrirsögninni:
"Mikið tap vegna skerðinga á raforku".
Hún hófst þannig:
"Talið er, að á fyrstu mánuðum þessa árs [2024] hafi tapazt mrdISK 14-17 útflutningstekjur vegna skerðingar Landsvirkjunar á raforku [að söluandvirði um mrdISK 2,0 innsk. BJo]. Þetta kemur fram í nýrri greiningu Samtaka iðnaðarins, sem byggð er á mati stjórnenda fyrirtækja í orkusæknum iðnaði. Þeir telja, að á bilinu mrdISK 14-17 útflutningstekjur þjóðarbúsins hafi tapazt á þessum tíma vegna raforkuskerðinganna, en slakur vatnsbúskapur leiddi til þess, að Landsvirkjun gat ekki framleitt nægilega raforku, eins og fram hefur komið."
"Í ljós kemur, að tapið er mest hjá álverunum. Er það metið á bilinu mrdISK 9-10, en það er um 2,8 % - 3,2 % af útflutningstekjum áliðnaðarins á seinasta ári.
Bent er á, að skerðingarnar hafa bein áhrif til lækkunar tekna, en einnig óbein vegna [neikvæðra] áhrifa þeirra á viðskiptasamninga. Þessu til viðbótar fylgi skerðingunum aukinn kostnaður m.a. vegna þess, að skerðingarnar stytta líftíma fjárfestinga í kerum."
Þjóðarbúið verður á árinu 2024 fyrir tilfinnanlegum efnahagslegum höggum, sem numið geta alls mrdISK 160 eða um 4,6 % af VLF, þegar taldir eru saman loðnubrestur, orkubrestur og ferðamannabrestur. Þetta mun valda samdrætti hagkerfisins m.v. 2023, sem hlýtur að keyra niður verðbólguna og valda auknu atvinnuleysi.
"Þögn verði sama og samþykki":
"Komið er fram frumvarp á Alþingi um breytingar á lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana og skipulagslögum til þess að koma í veg fyrir óhóflegar tafir á framkvæmdum vegna seinagangs í kerfinu.
Þar er sú nýlunda helzt, að umsagnaraðilar verði að virða tímafresti laga, sem ekki verði meiri en 8 vikur. Berist ekki umsögn áður en frestur rennur út, skuli líta svo á, að viðkomandi stofnun samþykki efnislega umsóknina, sem til hennar var beint, eða telji ekki ástæðu til að bregðast við með umsögn; að þögn sé sama og samþykki."
Þetta er þarfasta frumvarpið, sem sézt hefur á Alþingi um háa herrans tíð, enda hefur ekkert til þess spurzt. Er þess að vænta, að flutningsmaðurinn, hinn ötuli þingmaður Sjálfstæðisflokksins Teitur Björn Einarsson, láti ekki deigan síga, þótt afturhaldið hafi vafalaust prjónað, þegar það leit raunverulegt framfaramál augum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.5.2024 | 17:55
Gnægð raforku er undirstaða velferðarþjóðfélagsins
Það eru margar stoðir undir íslenzka velferðarsamfélaginu. Ein sú mikilvægasta og allt um grípandi í samfélaginu er, að nægt afl og orka sé jafnan fyrir hendi um allt land til að anna þörfum almenningsrafveitna, hitaveitna og iðnaðar hvers konar, nema í landshlutabundinni mikilli þurrkatíð, sem búast má við á 3 árum af 30. Skerðingarástand síðasta vetrar í öllum landshlutum var fullkomlega óeðlilegt og langt umfram það, sem skortur á innrennsli í lónin gaf tilefni til. Það dró hratt niður í miðlunarlónum vegna mikils álags á kerfið, sem ekki hefur verið komið til móts við með nýjum virkjunum í allt of langan tíma vegna doða á Alþingi. Alþingi hefur sett vænlega virkjunarkosti í bið, öndvert við tillögur Verkefnisstjórnar um Rammaáætlun. Það segir mikla sögu um afturhaldstilhneiginguna á þeim bænum. Ólíklegt er þó, eins og nú er komið, að stjórnmálaflokkar geti lengur slegið pólitískar keilur með því að sýna framkvæmdadoða.
Þann 27.04.2024 birtist í Morgunblaðinu fróðleg grein efir 2 framámenn Landsvirkjunar, Einar Mathiesen, framkvæmdastjóra Vinds og jarðvarma, og Gunnar Guðna Tómasson, framkvæmdastjóra Vatnsafls, undir dramatískri fyrirsögn:
"Tryggjum súrefni samfélagsins".
Það er ekki ofsögum sagt, að samfélagið sé að kafna af orkuskorti. Kjósendur verða að gera sér grein fyrir, hvers vegna svo er komið. Það er vegna þess, að vinstra liðið, í og utan ríkisstjórnar, hefur bitið í sig, að óþarfi sé að virkja meira. Einhver afturhaldspúkinn, líklega nálægt Landvernd, hefur komið þessari flugu í koll þingmanna. Það er mikill áfellisdómur yfir "upplýsingasamfélagi" nútímans, sem líkist æ meir forheimskunarsamfélagi mismunandi bergmálshella. Greinin hófst þannig:
"Íslenzkt samfélag og atvinnulíf vex hratt, og um leið er það að umbreytast með grænum lausnum. Við vitum, að orka er undirstaða bæði vaxtarins og framtíðar lausna í loftslagsmálum. Án nýs framboðs raforku getum við ekki haldið áfram með orkuskipti bæði á landi og hafi og síðar lofti. Það er hlutverk okkar hjá Landsvirkjun að mæta þörfum íbúa samfélagsins, sem hér hefur verið byggt upp af miklu harðfylgi - þau [íbúarnir] eru eigendur orkufyrirtækja þjóðarinnar og mega gera ríkar kröfur til þess. Við hyggjumst leggja okkar af mörkum til að standa undir þeim kröfum, en þá verðum við líka að geta treyst á stuðning stjórnvalda. Raforkan er súrefni samfélagsins, og það súrefni verður að tryggja öllum til heilla."
"Hver, sem heimsækir aflstöð í eigu Landsvirkjunar, sér strax, að þar er vel hugsað um mannvirki og búnað. Skiptir þá engu, hvar er borið niður, á Þjórsársvæði, í Soginu, í Blöndu, Kröflu, Laxá, á Þeistareykjum eða í Fljótsdalsstöð. Fyrir utan reglubundið viðhald og eftirlit hefur tæpum mrdISK 25 verið varið í endurbætur á orkumannvirkjum Landsvirkjunar síðasta áratuginn. Þrátt fyrir misjafnt gengi í rekstrinum höfum við aldrei gefið neinn afslátt af viðhaldi og endurbótum.
Við höfum líka unnið samfellt að undirbúningi næstu virkjanakosta, bæði í vatnsafli og jarðvarma, en einnig í vindi. Undirbúningskostnaðurinn er þegar orðinn rúmir mrdISK 30 og löngu tímabært að hrinda einhverjum af þeim framkvæmdum í framkvæmd. Það er nauðsynlegt til að geta mætt framtíðareftirspurn á raforkumarkaði."
Það er laukrétt hjá höfundunum, að viðhald og snyrtimennska er til fyrirmyndar hjá Landsvirkjun. Ef svo má taka til orða, hefur náttúran batnað við inngrip Landsvirkjunar til að breyta orku hennar í beinhörð verðmæti í héraði og á landsvísu. Það stafar af því, að kappkostað er hvarvetna að fella mannvirkin vel að umhverfinu og áherzla hefur verið lögð á uppgræðslu og gróðursetningu. Grunnvatnsstaðan hækkar í grennd við miðlunarlónin, sem ýtir undir gróður þar. Nöldur og úrtölur um nýtingu orkuauðlinda Íslands eru hvorki reist á efnislegum dæmum né á heilbrigðri skynsemi á sviði atvinnulífs og velmegunar landsmanna.
Hins vegar sýnist of litlu vera varið til endurbóta, aðeins 2,5 mrdISK/ár að jafnaði. Það er óeðlilega lítið af andvirði eignasafnsins í ljósi þess, að vel hannaðar endurbætur á búnaði skila sér strax í aukinni nýtni og auknu rekstraröryggi.
Að sitja uppi með mrdISK 30 fjárfestingu í virkjanaundirbúningi í jafnvel meira en áratug án nokkurrar tekjuaukningar er hins vegar þungbært, og þar hafa stjórnmálamenn brugðizt fyrirtækinu og þjóðinni með allt of torsóttum leyfisveitingaferlum. Það er þyngra en tárum taki, að stjórnmálastéttin skuli unnvörpum þvælast endalaust fyrir sjálfsögðum framförum í landinu.
"Á næstu árum stefnir Landsvirkjun að mikilli uppbyggingu. 4 verkefni eru vonandi við það að komast af stað: fyrsta stóra vindorkuver landsins, Búrfellslundur, Hvammsvirkjun í Þjórsá, stækkun jarðvarmastöðvarinnar að Þeistareykjum og loks stækkun Sigöldu, samtals 335 MW aukning. Þessi verkefni munu skila um 1750 GWh/ár af nýrri raforku, sem er um 12 % aukning á raforkuvinnslu Landsvirkjunar. Okkur er ekki kunnugt um, að önnur orkuvinnslufyrirtæki hyggist bæta við framboð sitt á næstu 5 árum fyrir utan 20 MW áætlaða stækkun HS Orku í Svartsengi, sem gerir framgang þessara verkefna enn brýnni.
Landsvirkjun vinnur jafnframt að rannsóknum og undirbúningi nýrra virkjana, sem munu koma í næsta fasa orkuuppbyggingar, þegar framangreindum verkefnum er lokið."
Fram hefur komið, að Orkubú Vestfjarða hefur mikinn hug á að auka framboð sitt á raforku, enda er það gríðarlegt hagsmunamál fyrir Vestfirðinga, sem verða þó að glíma við ýmsa bergþursa á leiðinni, þótt útrúlegt megi virðast á tímum brennslu jarðefnaeldsneytis til raforkuvinnslu fyrir vestfirzka notendur rafmagns. Það verða líklega einvörðungu smávirkjanir, sem komast munu í gagnið á Vestfjörðum á tímabilinu 2025-2030. Það segir alla söguna um ráðaleysi ráðamanna, að öðrum fyrirtækjum en Landsvirkjun skuli ekki hafa tekizt að koma með raunhæfar áætlanir um aukningu raforkuframboðs á næstu 5 árum, nema HS Orku í Svartsengi, sem er í uppnámi vegna kvikusöfnunar undir athafnasvæðinu, sem enginn veit, hvar á eftir að brjótast upp á yfirborðið.
"Á meðan önnur Evrópulönd vinna að því hörðum höndum að einfalda regluverk til að hraða aukinni raforkuvinnslu með endurnýjanlegum orkugjöfum, tekur mörg ár að fara í gegnum ferlið hérlendis [mest 2 ár í ESB - innsk. BJo]. Sömu stofnanir fá t.a.m. sömu umsókn til umfjöllunar margoft, og lögbundnir tímafrestir eru ekki alltaf virtir. Fullkomin óvissa og skortur á fyrirsjáanleika hefur gert þetta ferli að því sem næst ókleifum múr. Við viljum þó ítreka, að krafan um bætt leyfisveitingaferli snýst ekki um að draga úr kröfum eða gefa orkufyrirtækjum afslátt af þeim skilyrðum, sem þarf að uppfylla til að ráðast í virkjunarframkvæmdir. Aukin skilvirkni þýðir ekki minni kröfur."
Í því leyfisveitingakerfi, sem þarna er lýst, felst gríðarleg sóun, sem kostar samfélagið tugi mrdISK/ár. Samt aðhefst orku-, loftslags- og umhverfisráðherrann ekkert af viti, eða ræður hann ekkert við vinstri sinnaða afturhaldsklíku opinberra embættismanna ? Hvað sem því líður er núverandi doði alger falleinkunn yfir stjórnkerfi landsins.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.5.2024 | 17:21
Er kolefnisbinding í bergi fýsileg ?
Carbfix hefur stundað niðurdælingu á uppleystum gastegundum í vatni við Hellisheiðarvirkjun. Tekizt hefur að draga úr mengun af völdum hinnar ætandi gastegundar H2S, sem er þarfur gjörningur. Meiri áhöld eru um að festa stórfelldar fjárhæðir í bindingu CO2, koltvíildis, í jarðlögum í Straumsvík á vegum Carbfix, og fyrirtækið undirbýr nú móttöku- og geymslustöð fyrir CO2 þar, s.k. Coda Terminal. Viðskiptahugmyndin er, að útlendingar sendi gasflutningaskip frá sér til Straumsvíkur. Þar verði því dælt í geymslurými, gasið leyst upp í vatni og síðan dælt niður í bergið.
Ef tekið er mið af Morgunblaðsviðtali við fjölfræðinginn David Friedman, sem lagt var út af í síðasta pistli á þessum vef, "Margt er orðum aukið um loftslagsbreytingarnar", er engin glóra í þessari hugmynd, hún er "futile" eða gagnslaus, af því að afleiðingar hlýnunar verða ekki sérlega alvarlegar og kostnaður við mótvægisaðgerðir viðráðanlegar. Það er hins vegar ein lykilbreyta á markaði, sem öllu máli skiptir fyrir arðsemi þessa verkefnis, og hún er verðið á markaði fyrir koltvíildisheimildir í EUR/t CO2. Ef kostnaður við að einangra CO2, flytja það til Coda Terminal og kostnaðurinn við bundið fé í Coda Terminal ásamt upplausn gassins og niðurdælingu, er hærri en þessi markaðsbreyta, þá verður tap á þessari starfsemi og betur heima setið en af stað farið. Fjárfestingar eru miklar, orkuþörf mikil og vatnsþörf mikil og það er dýrt að ná CO2 út úr efnaferli verksmiðja. Þess vegna er augljós fjárhagsleg áhætta á ferðum, sem minnkar þó eitthvað, ef styrkveitingar úr vösum skattborgara fást, en hversu siðlegt er það ?
Þann 2. maí 2024 birtist í Morgunblaðinu grein eftir 2 höfunda, sem ætla má, að viti mest um þessi mál, en þar var þó ekkert minnzt á auðlindaþörfina (vatn, rafmagn) á hvert t koltvíildis, sem sent hefur verið niður í iður jarðar, né áætlaðan kostnað við það. Þetta er galli á annars góðri grein höfundanna Eddu Sif Pind Aradóttur, framkvæmdastýru Carbfix, og Söndru Ósk Snæbjörnsdóttur, yfirvísindakonu Carbfix. Greinin bar yfirskriftina:
"Raunverulegar loftslagsaðgerðir í hlýnandi heimi".
Þar stóð þetta m.a.:
"Jafnvel þótt hraði hlýnunar haldist óbreyttur, er aðeins tímaspursmál, hvenær við þurfum að takast á við afleiðingarnar af fullum þunga. [Afleiðingarnar eru óvissar, bæði jákvæðar og neikvæðar, en virðast verða tiltölulega auðveldar viðfangs á Íslandi, sbr David Friedman - innsk. BJo.]
Hlýnun jarðar heldur áfram. Viðbrögðin við þessari stærstu ógn samtímans [!?] eru hins vegar ekki í neinum takti við alvarleikann. [Coda Terminal á að taka til starfa á fullum afköstum árið 2032, sem eru áætluð allt að 3 Mt/ár CO2. Um þessa niðurdælingu munar ekkert, þ.e. engin mælanleg áhrif á hlýnun jarðar - innsk. BJo.]
Á meðan hitametin falla, er losun Íslands á koldíoxíði (CO2) enn að aukast, þvert á öll markmið, og losun á hvern íbúa með því mesta, sem gerist í heiminum."
Þetta er villandi framsetning, sem setur Ísland í verra ljós en efni standa til. Ísland er strjálbýl eyja með háa landsframleiðslu á mann, og miklar fiskveiðar eru stundaðar við landið. Af þessu leiðir tiltölulega mikla jarðefnaeldsneytisnotkun, en hún er þó með tiltölulega hárri nýtni í alþjóðlegum samanburði. Stóriðjan (málmframleiðslan) í landinu sparar losun á meira en 12 Mt/ár af koltvíildi út í andrúmsloftið, sem eru ferföld áætluð hámarksafköst hjá stöllunum í Straumsvík. Til hvers eru þær með þennan málflutning ?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
11.5.2024 | 17:43
Jákvæð þróun laxeldis
Laxeldi í sjókvíum er með minnst kolefnisspor allra eldisaðferða, sem framleiða dýraprótein. Með miklu ofstæki og fjáraustri hefur verið efnt til harðvítugs samblásturs gegn þessari fullkomlega löglegu atvinnugrein, sem sennilega fellur undir stjórnlagagrein um atvinnufrelsi. Svo rammt kveður að þessu, að vart getur verið þar allt með felldu, enda er beitt fullyrðingum, sem eru algerlega út í loftið, t.d. að íslenzku laxastofnarnir séu í þeirri hættu að verða fyrir erfðamengun og verði þess vegna að víkja af búsvæðum sínum fyrir "úrkynjuðum" eldislaxi. Það er alveg nýtt af nálinni, ef sterkari tegund þarf að víkja fyrir veikari tegund, enda skrifa erfðafræðingar Hafrannsóknastofnunar ekki undir þessa kenningu. Þvert á móti. Þeir strika yfir hana.
Íslenzku laxastofnarnir eiga undir högg að sækja, en það á sér allt aðrar skýringar, sem þarf auðvitað að komast til botns í. Ein af aðferðunum til að rétta stofnana af er að setja þá undir vísindalega veiðistjórnun í stað þess að láta græðgi veiðiréttarhafa ráða ferðinni. Rannsaka þarf, hvort veiða og sleppa aðferðin geri illt verra og geti jafnvel í sumum tilvikum flokkazt undir dýraníð.
Það er hér verulegur maðkur í mysunni, enda er engu líkara en verið sé með herferðum að hengja bakara fyrir smið. Með öðrum orðum er auglýsingaherferð og undirskriftasöfnun til að hvetja Alþingi til að leggja niður trausta starfsgrein á Vestfjörðum og Austfjörðum ein risavaxin smjörklípa. Hver fjármagnar þá smjörklípu ?
Í 200 mílum Morgunblaðsins 2. maí 2024 er gerð grein fyrir einni af mörgum endurbótum, sem fyrirtæki í greininni með gæða- og umhverfismetnað til að bera, standa að. Svo vel vill til, að sjókvíaeldið á Íslandi nýtur tæknilegs og markaðslegs stuðnings frá bakhjörlum sínum í Noregi, sem ofstækismenn í hópi sefasýkislegra andstæðinga þessarar starfsemi hafa farið ósvífnum orðum um. Skýtur hatur á erlendu eignarhaldi skökku við úr þeim herbúðum, þar sem í hópi veiðiréttarhafa eru moldríkir, erlendir landeigendur á Íslandi. Allar vestrænar þjóðir fagna erlendri fjárfestingu í atvinnustarfsemi landa sinna, en gagnvart fjárfestingu í landi hafa víða verið settir meiri varnaglar en hér eru við lýði. Ætlar afturhaldið aldrei að láta af órökréttum andróðri sínum gegn beinum erlendum fjárfestingum í atvinnulífinu ?
Verður nú vitnað í téðar 200 mílur:
"Hröð tækniþróun á sér nú stað innan fiskeldis í átt að hringrásarhagkerfi, þar sem bætt nýting skilar betri umgengni [við] náttúruna og aukinni þjóðhagslegri hagkvæmni. Eitt af merkilegustu verkefnum í þeim efnum eru eru tilraunir í Noregi með samþættingu þararæktunar og laxeldis.
Fóður er einn stærsti kostnaðarliður í laxeldi, og í Noregi fást fyrir hvert kg af fóðri um 0,86 kg af laxi, en þar eru framleidd um 1,3 Mt/ár af laxi. Hér á landi er framleiðslan í kringum 45 kt/ár [3,5 % af norsku framleiðslunni], og má því reikna með, að fóðurþörfin sé [rúmlega] 52 kt/ár.
Framleiðsla fóðurs, rétt eins og í öðrum búskap, krefst hráefnis og orku með tilheyrandi umhverfisáhrifum. Það er því óæskilegt, að um helmingur [?] næringarefna í laxafóðri glatast og dreifist um nærliggjandi svæði við sjókvíarnar. En hvað, ef það væri hægt að nýta þessi næringarefni í aðra framleiðslu ?
Það er einmitt spurningin, sem norska nýsköpunarfyrirtækið Folla Alger AS leitar nú svara við í samstarfi við rannsóknarfyrirtækið SINTEF [Senter for industriell teknologisk forskning-2200 manna brimbrjótur norskrar tækniþróunar í Þrándheimi], fiskeldisfyrirtækið Cermaq, norska tækniháskólann NTNU [áður NTH-Norsk teknologisk höyskole - innsk. BJo] og Háskóla Norður-Noregs (Nord Universitet)."
Hér er um gríðarlega áhugavert verkefni að ræða, einnig fyrir Íslendinga, sem geta orðið sjálfum sér nógir um framleiðslu dýrafóðurs. Með því að nýta þarann eru slegnar 3 flugur í einu höggi. Botnfall minnkar og hvíldartími eldissvæðisins getur stytzt, við þarasláttinn fæst efniviður í fóðurgerð og kolefnisspor fiskeldisins, sem var lítið, minnkar enn.
"Framleiddur hefur verið þari hér á landi með slætti, en aðeins tilraunir hafa verið gerðar með þararæktun á Íslandi. Nordic Kelp, sem hefur gert tilraunir með ræktun beltisþara í Patreksfirði, hóf tilraunina vegna vaxtar laxeldis á Vestfjörðum með von um, að þarinn mundi draga úr umhverfisáhrifum sjókvíaeldisins. Hafa stofnendur vísað til þess, að þara-, skeldýra og lindýraræktun gæti virkað sem náttúrulegt síukerfi fyrir úrgang, sem fellur til við sjókvíaeldi."
"Reynist svo, að þararæktun geti einnig nýtzt í fóðurgerð, gæti slíkt skapað fjölda möguleika hér á landi, en uppi er áform um að reisa á Íslandi gríðarstóra fóðurverksmiðju fyrir fiskeldi. Hafa Síldarvinnslan og BioMar unnið að því að skipuleggja uppbyggingu fóðurverksmiðju, en Síldarvinnslan er framleiðandi fiskimjöls og lýsis, sem er dýrasta hráefnið í fóðurgerð."
Það virðist sjálfsagt að reikna með ræktuðum þara frá fiskeldinu inn í þessa nýju fóðurverksmiðju, svo og úrgang frá íslenzka matvælaiðnaðinum, ef hann er talinn heppilegur í laxafóður.
"Við þetta bætast tilraunir vísindamanna við tækniháskólann NTNU, sem hafa gert tilraunir með að nýta afskurð og annan afgang, sem fellur til við vinnslu laxafurða í framleiðslu á laxamjöli og -lýsi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)