Færsluflokkur: Dægurmál
20.11.2024 | 16:33
Vestfirðingar í orkusvelti
Aflþörf Vestfirðinga um þessar mundir er um 50 MW og fer enn vaxandi vegna atvinnulífs, mannfjölgunar og orkuskipta. Uppsett afl vatnsaflsvirkjana Vestfjarða er innan við helmingur af núverandi þörf landshlutans, og sér Vesturlína og stofnkerfi landsins fyrir því, sem upp á vantar og jafnvel olíukynt raforkuver. Vestfirðir eru þannig eini landshlutinn, sem ekki nýtur hringtengingar við stofnkerfið. Þess vegna er afhendingaröryggi raforku minnst á Vestfjörðum allra landshluta (að Vestmannaeyjum undanskildum) og olíubrennsla til raforkuvinnslu mest.
Hvernig er þjóðhagslega hagkvæmast að leysa úr þessum vanda ? Það er áreiðanlega ekki með því að bæta við olíukyntum búnaði, eins og tilhneigingin hefur verið undanfarið (á afneitunarskeiði vinstri grænna), heldur með því að hefja sókn á vatnsvirkjunarsviðinu, en þar hefur skort á atbeina orkuráðherrans, sem Vestfirðingar hafa þó leitað til. Með myndarlegri orkuverauppbyggingu þarf jafnvel ekki tvær Vesturlínur.
Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungarvík, telur, að uppsett afl virkjana á Vestfjörðum gæti í framtíðinni numið 150 MW. Slíkt fæli ekki aðeins í sér búbót fyrir Vestfirði, heldur yrði af slíkri raforkuvinnslu mikill léttir fyrir landskerfið.
Með viðtölum við Vestfirðinga gerði Ásgeir Ingvarsson grein fyrir orkumálum Vestfirðinga í Morgunblaðinu 14. október 2024 undir fyrirsögninni:
"Hafa mikinn kraft, en skortir orku".
""Undanfarna 12 mánuði hefur þurft að ræsa varaaflstöðvar Landsnets 26 sinnum eða 2 skipti/mán að meðaltali, og þá er eftir að bæta við, hversu oft Orkubú Vestfjarða hefur þurft að kveikja á sínum stöðvum", segir Þorsteinn Másson. "Fólk bjóst við því, að þessar varaaflsstöðvar yrðu notaðar sjaldan og kæmu kannski til bjargar í verstu vetrarveðrum, ef flutningskerfið skyldi bila, en reyndin hefur verið að ræsa þarf stöðvarnar í tíma og ótíma allan ársins hring. Ég held t.d., að varaaflstöðin í Bolungarvík hafi núna verið í gangi nokkra daga í röð vegna viðhalds á gamalli línu hjá Landsneti."
Þorsteinn er framkvæmdastjóri orkuverkefnisins Bláma í Bolungarvík, en um er að ræða samstarfsverkefni Orkubús Vestfjarða, Landsvirkjunar, Vestfjarðastofu og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis."
Þarna hefði verið gagnlegt að upplýsa um gangtíma hverrar varaaflsstöðvar og heildar raforkuvinnslu þeirra á s.l. 12 mánuðum. Það skiptir máli, hvort keyrslan er vegna brottfalls Vesturlínu, flutningskerfis innan Vestfjarða, dreifikerfis, eða hvort verið er að "keyra niður toppa". Þó er ljóst, að aðgerða er þörf strax. Það þarf að setja 60 kV flutningskerfið í jörðu og dreifikerfið líka. Þá þarf þegar að hefjast handa við tvöföldun uppsetts afls á Vestfjörðum í vatnsaflsvirkjunum. Satt að segja hefur atbeini ríkisvaldsins verið þar skammarlega dauðyflislegur.
""Við þurfum að komast út úr þessari dísilbrennslu, sem er bæði dýr og óumhverfisvæn og ljóst, að fyrirtæki munu eiga erfitt með að byggja upp starfsemi á svæðinu. Þetta er í sjálfu sér ekki flókið: samfélög, sem hafa ekki aðgengi að nægilegri orku á eðlilegu verði, eiga erfitt með að vaxa og dafna, og helzt hagvöxtur í hendur við orkuframboð og orkuverð.""
Hvað er eðlilegt raforkuverð ? Það er reiknað verð, sem fyrir vatnsorkuvirkjanir fæst m.v. 40 ára fjárhagslegan afskriftatíma og 7 %/ár ávöxtunarkröfu og 1 %/ár rekstrarkostnað af stofnkostnaði. Virkjanirnar, sem Vestfirðingar hafa áhuga á núna að hrinda í framkvæmd, eru allar samkeppnishæfar.
"Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri Kerecis, tekur í sama streng og segir, að orkuskortur og vöntun á afhendingaröryggi skapi flöskuháls fyrir atvinnulífið á Vestfjörðum. "Vestfirðingar þurfa á meiri orku að halda og eðlilegast er, að orkan verði þá til í fjórðunginum, og ekki er hægt að velta ábyrgðinni yfir á aðra landshluta á að búa til raforkuna, sem Vestfirðir þurfa. Við þurfum að búa til okkar orku sjálf, og til skamms tíma litið er t.d. hægt að stækka Mjólkárvirkjun og hefja framkvæmdir við Vatnsfjarðarvirkjun og Hvalárvirkjun. Til lengri tíma mætti síðan styrkja orkuframleiðslu enn meira með vindorkuverum og sjávarfallsvirkjunum", segir Guðmundur og bendir á, að með fjölgun orkuvera skapist forsendur fyrir eflingu og stækkun dreifikerfisins. Hann segir sóknarhug í Vestfirðingum, en ef [á] orkuna skorti, sé hætt við, að samfélagið standi í stað: "Það er vöxtur hjá Kerecis, í fiskeldinu, í ferðaþjónustunni og aukin fjárfesting í sjávarútveginum, og hefur hlutur Vestfjarða í útflutningstekjum þjóðarinnar aukizt gríðarlega undanfarin ár. Ef við leggjum saman útflutningstekjur Kerecis og fiskeldisins á síðasta ári, þá munu þær slaga hátt upp í heildarverðmæti alls þorskútflutnings landsins, og það er óhætt að segja, að efnahagslegt ævintýri sé hafið á Vestfjörðum."
Af þessum sökum er fyrir neðan allar hellur, að ríkisvaldið skuli ekki reyna að koma Vestfirðingum til aðstoðar við úrlausn orkumálanna, eins og þeir hafa farið fram á, t.d. varðandi Vatnsfjarðarvirkjun. Líklega refsa kjósendur fyrir sleifarlag, og þess vegna skýtur skökku við, að orkuráðherranum sé umbunað með 1. sæti í öðru Reykjavíkurkjördæmanna. Hefur hann unnið fyrir því ?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.11.2024 | 15:36
Beturviti (Besserwisser) afhjúpaður
Kristrún Frostadóttir er óttalega regingslegur formaður "Skattafylkingarinnar". Hún gerir sér far um að setja sig á stall sem vel undirbúinn formann til að taka við stjórn landsins. Þetta eru þó einvörðungu umbúðir utan um flaustur, fávísi og yfirborðsmennsku, eins og komið hefur fram í formannaumræðum í Sjónvarpssal um ríkisfjármálin, og nú hefur Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, flett ofan af fávísi téðrar Kristrúnar um gjaldtöku fyrir auðlindaafnot. Kristrún þessi hefur látið í veðri vaka, að "Skattafylkingin" hafi "Plan" um stóraukna gjaldtöku með samræmdu aðlindagjaldi að hætti hinna Norðurlandaþjóðanna, en þar stendur ekki steinn yfir steini hjá henni, því að á Íslandi er greitt miklu meira fyrir afnot sjávarauðlindarinnar en þar.
Þann 7. nóvember 2024 birtist í Morgunblaðinu fróðleg afjúpunargrein eftir Heiðrúnu, sem hún nefndi:
"Norska leiðin í auðlindagjaldtöku".
Hún hófst þannig:
""Við erum að tala um sanngjörn, réttlát auðlindagjöld á sjávarútveg, fiskeldi, ferðaþjónustu og orku. Þetta eru leiðir, sem nágrannar okkar á Norðurlöndunum, sérstaklega í Noregi, hafa farið og samfélagsleg sátt er um."
Þetta sagði Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, í samtali við Heimi Má Pétursson á Stöð 2. Hún ítrekaði þetta svo í leiðtogakappræðum á RÚV á föstudagskvöldið [01.11.2024]."
Guð forði okkur frá sanngirni og réttlæti Samfylkingarinnar. Dómgreindarleysi téðrar Kristrúnar, þ.e. vandkvæði við að skilja á milli rétts og rangs, opinberaðist, þegar í ljós kom, að hún hugðist skjóta tugum milljóna ISK undan skatti af bónusi, sem hún þáði ofan á laun sín hjá fyrrverandi vinnuveitanda.
Heiðrún Lind rekur síðan, hvernig auðlindagjaldtöku er háttað í Noregi af nýtingu sjávarauðlindarinnar. Af þeirri lýsingu að dæma, hafði téð Kristrún ekki hugmynd um, hvernig þeim málum er háttað, sem hún þó kvað til fyrirmyndar fyrir flokkinn sinn. Kristrún þessi siglir undir fölsku flaggi. Hún er ekki bara krati; hún er "hippókrati".
"Í Noregi er ekkert auðlindagjald í sjávarútvegi. Það, sem kannski meira er um vert; Norðmenn flytja nánast allan fisk úr landi óunninn, mest til láglaunalanda, eins og Póllands. Þeir skapa því fá störf í landi, ólíkt því sem tíðkast hér á landi, og laun við veiðar og vinnslu eru mun lægri en á Íslandi. Verðmætasköpun - og þar með framlag til hagvaxtar og lífskjara - er því til muna minni en á Íslandi."
Af þessari lýsingu sést, að sjávarútvegur á Íslandi er ósambærilegur við sjávarútveg í Noregi. Norski sjávarútvegurinn er að vissu leyti á opinberu framfæri, en íslenzki sjávarútvegurinn, þar sem veiðar og vinnsla eru tengd, verður að keppa á mörkuðum við norskan fisk, sem ríkið styður við og unninn er í láglaunalöndum. Það er ekki víst, að "Besserwisserinn" skilji, hvað þetta þýði. Það þýðir, að íslenzk yfirvöld verða að fara mjög varlega í sérskattheimtu á sjávarútveginn, ef þau ætla ekki að stórskaða þjóðarbúið með því að grafa undan honum til langs tíma litið (draga óhóflega úr fjárfestingargetu hans og launagreiðslugetu). Nú er langt gengið í þessum efnum.
"Í sjókvíaeldi í Noregi var nýlega lagt á auðlindagjald, sem er 25 % skattur af hagnaði. Ekkert gjald er þó greitt af tæplega fyrsta milljarðinum, sem félög hagnast um. Það gerir það að verkum, að áætlað er, að um 70 % fiskeldisfyrirtækja í Noregi greiði engan auðlindaskatt. Að auki miðast þessi skattur eingöngu við þann virðisauka, þegar fiskurinn er í sjónum. Stór hluti starfsemi fiskeldisfyrirtækjanna er því undanþeginn skattheimtunni, eins og fóðurframleiðsla, seiðaeldi, vinnsla, sala og flutningar. Vegna þessara víðtæku undanþága þá hefur verið áætlað, að skattheimtan sé nær 10 % af hagnaði stærri fyrirtækjanna. Þá eru dæmi um stór fyrirtæki, sem hafa ekki þurft að greiða neinn skatt og áunnið sér yfirfæranlegt rekstrartap vegna takmarkaðs hagnaðar á framleiðslu í sjó. Þetta er þá væntanlega norska leiðin, sem Samfylkingin vill fara."
Kratar og fylgifiskar þeirra í vinstri villunni hafa tamið sér að tala niður til atvinnuveganna og sá tortryggni í þeirra garð. Þannig hefur viðkvæðið verið, að ríkið geti og eigi að láta greipar sópa um eigur sjávarútvegs og fiskeldis, því að erlendis, þ.m.t. á hinum Norðurlöndunum, sé auðlindagjaldið hærra en hér. Þetta er bull og vitleysa, eins og þessi upptalning Heiðrúnar sýnir. Kristrún Frostadóttir er algerlega úti að aka í auðlindamálum og að því er virðist í skattamálum yfirleitt.
"Fyrirtæki í sjávarútvegi á Íslandi greiða auðlindagjald, sem er 33 % af reiknuðum hagnaði við veiðar. Á meðan íslenzka ríkið tekur þriðjung af hagnaði í auðlindagjald af sjávarútvegi, þá tekur norska ríkið ekkert.
Þegar kemur að sjókvíaeldinu, greiða íslenzku fyrirtækin auðlindagjald, sem kallað er fiskeldisgjald. Gjaldið er tekið af alþjóðlegu markaðsverði á laxi og er þannig hlutfall af áætluðum tekjum án nokkurs tillits til raunkostnaðar. Þetta gjald hefur 20 faldazt undanfarin 4 ár og á eftir að hækka meira. Íslenzku fyrirtækin greiða einnig umhverfisgjald, sem er ætlað að greiða kostnað við rannsóknir, vöktun og önnur verkefni, sem hafa það að markmiði að lágmarka umhverfisáhrif. Svo greiða íslenzk fyrirtæki hafnargjöld, sem eru mun víðtækari og hærri en þau, sem greiða þarf í Noregi.
Þegar aðeins þetta er lagt saman, greiddu íslenzku fyrirtækin yfir mrdISK 1,2 í fyrra [2023], og þessi upphæð nær líklega mrd 2,0 í ár. Við þetta bætist svo að sjálfsögðu kolefnisgjald, tryggingargjald, tekjuskattur og sitthvað fleira.
Stóri munurinn á íslenzku og norsku leiðinni í auðlindagjaldtöku af fiskeldi er þó sá, að íslenzku fyrirtækin þurfa að greiða þessa skatta óháð afkomu. Í Noregi er aðeins greitt af hagnaði. Í raun er staðan sú, að íslenzk fiskeldisfyrirtæki greiddu 8 sinnum hærri fjárhæð í auðlindagjald á árinu 2023 en þau hefðu greitt samkvæmt norsku leiðinni !
Það þarf líka að hafa í huga, að fiskeldi á íslandi er ung grein. Eftir erfið ár erum við farin að sjá til sólar. Ef greinin fær að vaxa og dafna, mun hún skila miklum útflutningstekjum komandi ár og vissulega ríkulegum skatttekjum. En þá þarf að gæta hófs og sanngirni í skattheimtunni. Fyrirtækin þurfa fyrirsjáanleika í rekstri og svigrúm til víðtækra fjárfestinga til þess að leggja grunn að þessari verðmætasköpun."
Á Íslandi hefur verið gengið lengra í sértækri skattheimtu undir merkjum auðlindagjalds en góðu hófu gegnir, því að hún er svo miklu hærri en í samkeppnilöndunum, að samkeppnistöðunni og þar með undirstöðu gjaldeyrisöflunar er ógnað. Þetta skilur Kristrún Frostadóttir ekki, því að hún heldur, að hún geti í næstu ríkisstjórn hækkað s.k. auðlindagjöld mikið með vísun til þess, sem tíðkast annars staðar í Evrópu. Hér gerir hún sig seka um að bulla út í eitt. Að taka upp á að blaðra um málefni, sem varða afkomu fyrirtækja miklu og atvinnuöryggi og vaxtarmöguleika á mörgum stöðum á landinu, áður en hún hefur kynnt sér málin, er algert ábyrgðarleysi. Hún gortar mikið af, að Samfylkingin hafi unnið heimavinnuna sína fyrir þessar kosningar og sé eini flokkurinn "með Plan", en á fyrstu beygju keyrir hún beint út í skurð, gjörsamlega óundirbúin og fávís um málefnið, sem hún gasprar um.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.11.2024 | 17:58
Óhjákvæmileg stjórnarslit
Svandís Svavarsdóttir, formaður VG, virtist telja það bezta ráðið til að lyfta fylgi flokksins yfir 5 % línuna, sem skilur á milli lífs og dauða í landsmálapólitíkinni, að setja hornin hvað eftir annað í Sjálfstæðisflokkinn, nánar tiltekið formann hans, á meðan hún enn sat með honum í ríkisstjórn. Þetta reyndist gera illt verra fyrir flokk hennar, því að enn fjaraði undan flokkinum í mælingum á fylgi.
Þessi alræmdi fulltrúi þröngsýni og vinstra ofstækis í pólitíkinni virðist vera heillum horfin og í raun ekkert erindi eiga í pólitík, því að hún hefur sýnt fádæma dómgreindarleysi í öllum sínum ráðherraembættum og hlotið dóma fyrir lögbrot. Á fundi formanna stjórnmálaflokkanna hjá Sjónvarpi RÚV skömmu eftir, að forsætisráðherra tilkynnti ákvörðun sína um að rjúfa þing, sem hann einn hefur vald til, opinberaði téð Svandís fáfræði sína um stjórnskipan landsins og skítlegt eðli sitt með því að tilkynna, að hún vildi annars konar starfsstjórn, þ.e. stjórnarmyndun Sigurðar Inga, formanns Framsóknarflokksins. Allt var þetta fádæma einfeldningslegt, enda er hún nú rúin trausti.
Úr því að formaður Framsóknarflokksins er nefndur hér til sögunnar, verður að nefna hér þá gríðarlegu áhættu, sem hann hefur nú tekið með því að bjóða Framsóknarmönnum og stuðningsfólki flokksins í Suðurlandskjördæmi upp á forystu yfirborðskennds forsetaframbjóðanda á B-listanum. Ekki kæmi á óvart, að Framsóknarmönnum væri nú nóg boðið og höfnuðu slíkum "trakteringum" formannsins með þeim afleiðingum, að hann dytti út af þingi. Eftir sæti forystulaus sveit Framsóknarmanna á Suðurlandi og á þingi. Gluggaskreytingar af þessu tagi eru móðgun við kjósendur.
Óli Björn Kárason, þingmaður sjálfstæðismanna í Kraganum, ákvað að gefa ekki kost á sér til setu á D-listanum fyrir kosningarnar 30.11.2024. Það er eftirsjá að Óla Birni, því að hann hefur gert sér far um að leggja rækt við grunngildi Sjálfstæðisflokksins, sem hverfa sjónum kjósenda, þegar flokkurinn tekur þátt í samsteypustjórnum. Grunngildi Sjálfstæðisflokksins höfða til a.m.k. fjórðungs þjóðarinnar, og þess vegna verður að skrifa lágt gengi flokksins undanfarin misseri á stjórnarsamstarfið.
Óli Björn ritaði grein í Morgunblaðið 9. október 2024 undir fyrirsögninni:
"Hingað og ekki lengra".
Hún hófst þannig:
"Svandís Svavarsdóttir, nýr formaður Vinstri grænna, er að misskilja eigin stöðu og flokks síns í samstarfi við Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn. Vinstri grænum var ekki afhent einhliða neitunarvald í ríkisstjórn. Heimild til þingrofs er heldur ekki í höndum Svandísar, þótt hún hafi stigið fram og boðað til kosninga áður en kjörtímabilinu er lokið.
Það þarf ekki að fara eins og köttur í kringum heitan graut. Vinstri grænir undir forystu eins reyndasta og, að því er ég hélt [?!-innsk. BJo], eins klókasta stjórnmálamanns samtímans [oflof, það er háð-innsk.BJo], hafa í raun bundið enda á stjórnarsamstarfið. Ég efast ekki um, að Vinstri grænir trúi því og treysti, að samstarfsflokkarnir í ríkisstjórn láti það yfir sig ganga, að minnsti flokkurinn taki þingrofsheimildina af forsætisráðherra og setji samráðherrum sínum stólinn fyrir dyrnar í mikilvægum málum."
Vinstri grænir voru búnir að komast að þeirri niðurstöðu á fundum sínum, að til að endurheimta fylgi sitt yrðu þeir að fara í naflaskoðun. Það var auðvitað kolrangt mat hjá þeim, því að nafli vinstri grænna er ekkert augnayndi fyrir nútíma kjósendur. Þetta leiddi hins vegar til þess, að ráðherrar vinstri grænna juku þvergirðing sinn við ríkisstjórnarborðið um allan helming, og þá var ekki til setunnar boðið, og forsætisráðherra var búinn að skjóta því aðvörunarskoti að VG-kænunni, en þar um borð lét fólk sér ekki segjast, enda alræmdir þvergirðingar.
"Í pistli hér á þessum stað fyrir réttri viku benti ég á, að málamiðlanir milli ríkisstjórnarflokkanna hefðu ekki alltaf endurspeglað þá staðreynd, að Sjálfstæðisflokkurinn er fjölmennasti þingflokkurinn á Alþingi og í ríkisstjórn. Sáttfýsi okkar sjálfstæðismanna hefði því verið meiri en efni hafa staðið til út frá þingstyrk. Þessi sáttfýsi hefur reynzt Sjálfstæðisflokkinum dýrkeypt þrátt fyrir augljósan árangur í efnahagsmálum."
Það er algert neyðarbrauð að mynda ríkisstjórn þvert yfir hið pólitíska litróf, því að þá verður til slík útþynning á stefnumálum flokkanna, að kjósendur vita ekki sitt rjúkandi ráð. Þar að auki komst minnsti flokkurinn, sem lengst af fór með forsætisráðherraembættið, upp með að koma í veg fyrir nýjar virkjanir, sem þó eru undirstaða frekari verðmætasköpunar í landinu. Þessi afturhaldsflokkur, sem jafnframt virðist vera flokkur opinna landamæra, kom líka lengst af í veg fyrir samræmingu íslenzkrar hælisleitendalöggjafar við t.d. þá norrænu, sem virkaði sem hvati fyrir hælisleitendur um að leita hingað ásjár. Hingað hafa nú hrúgazt heilaþvegnir múhameðstrúarmenn, sem láta oft á tíðum ófriðlega og eru ógnandi, eins og Kóraninn innrætir þeim að vera gagnvart kristnu fólki. Þetta er hrottalegur baggi á þjóðfélaginu, því að þessu fólki dettur ekki í hug að leggja sig fram um aðlögun að íslenzku samfélagi, en það fyllir fangelsin.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.10.2024 | 14:56
Viðsjár stjórnmálanna
Miklar breytingar á fylgi stjórnmálaflokkanna hérlendis samkvæmt s.k. skoðanakönnunum hafa valdið titringi í stjórnmálaheiminum. Þau eindæmi urðu á fundi hjá VG 06.10.2024, að flokkurinn sleit stjórnarsamstarfinu hálft ár fram í tímann. Þetta er blaut tuska framan í andlit formanna hinna stjórnarflokkanna, sem báðir höfðu lýst áhuga sínum á að sitja út kjörtímabilið (september 2025). Nú verður ekki tekizt á með silkihönzkum, og vetrarkosningar (marz 2025) koma fyllilega til greina. VG valdi skemmt vín á gömlum belg í forystuna, ætlar í naflaskoðun, og verður sennilega skilin eftir við þá iðju norpandi í kuldanum utan Alþingis.
Það er ekki ólíklegt, að aðvörunarskot fylgismanna hinna stjórnarflokkanna framan stefnis muni fá þá til að sýna vígtennurnar og höfða til kjósenda sinna fyrrum tíð með því að draga fram sérkenni sín, sem í sögulegu samhengi eru borgaraleg viðmið með áherzlu á verðmætasköpun annars vegar með einkaframtaki, samkeppni og einkaeign með hóflegri skattheimtu - og hins vegar samvinnuhugsjónin með blönduðu hagkerfi, sem óhjákvæmilega fylgir stærra ríkisbákn og meiri skattheimtu eða skuldasöfnun ríkissjóðs.
Það er hollt fyrir kjósendur, að stjórnmálamenn takist á um hugsjónir og meginstefnur. Hinum megin víglínunnar séð frá borgaraflokkunum er hið ókræsilega lið opinbers rekstrar og eignarhalds, útþensla ríkisbáknsins og þar af leiðandi óbærilega áþján skattheimtu á bæði einstaklinga, fjölskyldur og fyrirtæki og einnig skuldasöfnun og þar af leiðandi hærri verðbólga en hollt er. Þegar þessi ólíkindatól, sem nú eru í stjórnarandstöðu, verða krufin um fyrirætlanir sínar á næsta kjörtímabili, mun þeim vefjast tunga um tönn, og getan er ekki meiri en svo, að þau munu óhjákvæmilega skjóta sig í fótinn, og fylgistölur þar af leiðandi verða allt aðrar en nýlegar skoðanakannanir gefa til kynna.
Til marks um gerjunina, sem í gangi er víða, birtist 4. október 2024 grein eftir Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmann, undir fyrirsögninni:
"Flokkur frelsis og ábyrgðar ?".
Hún hófst þannig:
"Ég hef jafnan í alþingiskosningum kosið Sjálfstæðisflokkinn. Ástæðan er sú, að mér hefur fundizt hann standa nær afstöðu minni til frelsis og ábyrgðar en aðrir, auk þess sem flokkurinn hefur haft uppi stefnumið í ýmsum málum, sem mér hafa þótt burðugri en annarra.
Nú eru mér hins vegar að fallast hendur í stuðningi við þennan flokk. Hann hefur nefnilega hreinlega fórnað mörgum stefnumálum í þágu samstarfs í ríkisstjórn með verstu vinstri skæruliðum, sem finnast í landinu. Það er eins og fyrirsvarsmenn flokksins hafi verið tilbúnir að fórna stefnumálum sínum fyrir setu í ríkisstjórn. Þá má spyrja: Til hvers eru menn í stjórnmálum, ef þeir eru ekki að koma fram þeim stefnumálum, sem þeir segjast hafa ?"
Þetta er auðvitað umhugsunarvert og spurning, hvaða umboð stjórnmálamenn hafa til að aðstoða við að koma annarra flokka stefnumálum fram og að gera við þá hrossakaup um stuðning við þeirra mál gegn stuðningi við eigin mál. Þetta er lýðræðisvandamál kjördæmaskipunar og kosningafyrirkomulags, sem leitt hefur til flokkafjölda á Alþingi, sem útilokar tveggja flokka ríkisstjórn. Þingflokkar gætu orðið fleiri eftir næstu kosningar, af því að vonbrigði Jóns Steinars eru ekki einsdæmi.
VG tók það upp hjá sjálfri sér að stytta kjörtímabilið um a.m.k. 4 mánuði. Þetta er líklega einsdæmi, enda helber ósvífni án samráðs við kóng eða prest.
Forsætisráðherra hugðist leggja á djúpið í nafni þess, að stjórnarflokkarnir hafi komið sér saman um þingmálaskrá, en VG-liðar hafa lýst því yfir, að þeir muni hlaupa út undan sér í a.m.k. einu þingmáli dómsmálaráðherra, Guðrúnar Hafsteinsdóttur, 1. þingmanns Suðurlands. Erfitt stjórnarsamstarf þriggja stjórnarflokka, þar sem VG-ráðherrar hafa að mati margra flokksmanna hinna stjórnarflokkanna orðið brotlegir við lög, hefur leitt til óvenjumikilla fylgisbreytinga, sem verkefni stjórnmálamanna í kosningabaráttunni verður að snúa við eða auka fram að kosningum háð því, hvar þeir eru staddir. Mikilvægt er að toppa á réttum tíma.
Yfirgangur og ósvífni er brennimark á þessum stjórnmálaflokki -VG, enda virðast áhangendur villta vinstrisins ætla að gefa þessum armi frí og senda félaga í Sósíalistaflokkinum á þing í staðinn.
Frumhlaup VG með að flýta kosningum varð ekki liðið. Forsætisráðherra, sem einn fer með þingrofsvaldið, tók af skarið, þegar hann sá, að Svandís var ekki í neinum samstarfshugleiðingum. Það verður bið á því, að Sjálfstæðisflokkur setjist aftur í ríkisstjórn með svartasta afturhaldi landsins, sem tekizt hefur að þvælast fyrir framfaramálum í landinu allt of lengi og valda stórtjóni og tekjutapi samfélagsins. Þetta stjórnarsamstarf var dýru verði keypt, og kjósendur voru lítt hrifnir.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.10.2024 | 14:18
Varnir í skötulíki ?
Stórnotendur rafmagns hafa verið við lýði í landinu síðan 1969, en enn er raforkukerfið vanbúið að hýsa þau og búnað skortir til að bregðast sómasamlega við miklum álagssveiflum, þannig að aðrir raforkunotendur en sá, sem sveiflunni veldur, verði ekki fyrir tjóni.
Stórar spennusveiflur verða eðlilega, þegar kerskáli í álveri er rofinn frá sinni afriðlastöð. Hið skrýtnasta við fréttir af atvikinu um hádegisbil 2. október 2024 er, að Norðurál heldur því fram, að um viðhaldsaðgerð hafi verið að ræða. Sé svo, átti hún að fara fram í fullu samráði við Landsnet, sem þá gafst tækifæri til að velja tímasetningu og gera ráðstafanir til spennulækkunar í kerfinu. Það er afar ósennilegt, að Landsnet hafi valið hádegisbil á virkum degi til prófunar á kerfisviðbrögðum af þessu tagi. Það hefur ekki komið fram, hvort um annan eða báða kerskála Norðuráls var að ræða.
Vatnsorkuverin í Þjórsá/Tungnaá brugðust hratt við, en ekki hafa borizt fregnir af viðbrögðum Hellisheiðarvirkjunar og annarra gufuaflsvirkjana sunnanlands. Hins vegar virðast jarðgufuvirkjanirnar í Þingeyjarsýslu hafa brugðizt of hægt við, því að í Þingeyjarsýslum varð tjónið mest vegna yfirspennu.
Um það leyti, sem truflunin varð, hefur aflflutningur væntanlega verið til suðurs og verið rofinn á Grundartanga við spennuhækkunina. Við það verður spennuhækkun á Norðurlandi. Spyrja má, hvort sömu viðbrögð hefðu ekki orðið með 220 kV línu að norðan, en Landsnet gerir mikið úr því, að línan sé fimmtug 132 kV lína. Alls ekki skal hér gera lítið úr þörfinni á að leysa hana af hólmi með nýrri 220 kV línu, en það er vegna ófullnægjandi flutningsgetu. Allar einingar kerfisins verða að þola snöggt brottfall stærsta álagsins, og því er greinilega enn ekki að heilsa. Það er hneisa í landi með mestu orkunotkunina á mann í heiminum.
Óskar Bergsson gerði þessu atviki skil í Morgunblaðinu 4. október 2024 undir fyrirsögn, sem ekki er víst, að kasti ljósi á aðalsökudólgana:
"Veikasta svæðið þoldi ekki höggið".
Fréttin hófst þannig:
""Höggið á kerfið varð vegna þess, að álverið leysti út og því varð þessi keðjuverkun á veikasta svæðinu, sem var byggðalínusvæðið. Virkjanirnar, sem eru tengdar við sterkasta kerfið, gátu skrúfað niður framleiðsluna hjá sér til að bregðast við þessu", segir Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets um ástæðu þess, að stór hluti landsins varð rafmagnslaus í fyrradag. Mikið tjón varð af völdum rafmagnstruflana, í einstaka tilvikum upp á tugi milljóna ISK, en vel á annað hundrað tjónatilkynningar höfðu borizt RARIK í gær."
Eftir að aflflutningurinn suður um Byggðalínu hafði verið rofinn, hefur tíðnin væntanlega hækkað um hríð á Suðurlandi, en vatnsaflsvirkjanirnar náð að regla sig niður. Meira ójafnvægi hefur orðið á Norðurlandi með jarðgufuvirkjanir á fullu álagi (til að spara vatn), og Fljótsdalsvirkjun e.t.v. líka að keyra suður.
Guðmundur Ingi notar þetta tækifæri ekki opinberlega til að rýna í það, sem var ábótavant í sjálfvirkum kerfisviðbrögðum, heldur til að blanda að mestu óskyldu máli inn, sem er hneykslanlega langur undirbúningstími fyrir flutningslínur. Í ESB Orkupakka 4 tekur leyfisveitingaferlið mest 2 ár, en á Íslandi tífalt lengri tíma. Er kyn, þótt keraldið leki ?
""Við höfum lagt mesta áherzlu á að komast í Blöndulínu 3, en það kann að vera, að sú framkvæmdaröð breytist eftir því, hvernig gengur að klára leyfisferlið, sem er gríðarlega flókið og erfitt. Til þess að fá leyfi fyrir raflínum þarf fyrst að klára umhverfismat og skipulag, sem síðan fer í umsagnarferli. Að því loknu þarf framkvæmdaleyfi frá sveitarfélögum, og samhliða því þarf að semja við landeigendur. Í þessu ferli opnast mikið af kæruleiðum, sem hafa tafið málin.""
Það er geisilega mikið í húfi að tengja Akureyri með traustum hætti báðum megin frá. Þetta s.k. leyfisveitingaferli er leikaraskapur, enda lagt upp með ósköpin í tíð vinstri stjórnar Jóhönnu og Steingríms. Þar er búinn til leikvöllur fyrir sérvitringa og afturhald landsins í formi félagasamtaka eins og Landvernd. Þessi fíflagangur hefur valdið gríðarlegum töfum, kostnaði og tekjutapi og verður að afnema hið fyrsta. Evrópusambandið er búið að yfirtaka þessi mál með sínum 4 orkupökkum, þannig að hámarks umþóttunartími yfirvalda hvers lands eru 2 ár. Orkupakkar ESB gilda sem lög á Íslandi, og munu væntanlega úrelda fíflaganginn, sem er við lýði á Íslandi, þegar Orkupakki 4 tekur hér gildi, en það er allt of langt að bíða eftir því, svo að orkuráðherra ætti að rumska og afgreiða svipaðar reglur og gilda í ESB sem frumvarp til Alþingis.
"Guðmundur Ingi segir nauðsynlegt að endurskoða þetta ferli og gera það skilvirkara án þess að slá af kröfum, ef markmiðið um orkuskipti eigi að nást.
"Við erum komin á skrið með þessar línur allar í góðu samstarfi við sveitarfélög og erum að koma þessum verkefnum inn á skipulag og klára umhverfismatið."
Hann segir vinnu við Blöndulínu 3 hafa staðið yfir í 20 ár, og það séu deilur af ýmsum toga, sem hafi tafið framkvæmdina."
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.9.2024 | 17:45
Skynsamleg tillaga kunnáttumanns virt að vettugi
Hvers vegna er gagntillögu reynds íslenzks samgönguverkfræðings um "létta hliðsetta borgarlínu", sem útheimtir mun minni fjárfestingar og veldur miklu minni tafakostnaði á framkvæmdatíma en miðjusetta borgarlínan, sópað út af borðinu sem ótækri eða ógildri, jafnvel af hinum ágæta stjórnanda, bæjarstjóranum í Kópavogi. Það olli vonbrigðum, því að vissulega er um raunhæfan valkost að ræða. Þegar takmarkað fé er til ráðstöfunar í mörg verkefni, eru ýmsar viðurkenndar leiðir farnar til að forgangsraða fénu, ef pólitísk hentistefna ræður ekki ferðinni eða aðrar hundakúnstir. Ein er t.d. að forgangsraða eftir arðsemi framkvæmda, og ef um umferðarmannvirki er að ræða, er að sjálfsögðu reiknaður með áætlaður kostnaður af slysum fyrir og eftir framkvæmd. Þetta er ekki hægt að gera fyrir borgarlínuna, því að arðsemi hennar hefur ekki verið reiknuð, en að líkindum verður stórtap af henni, og þess vegna er ótímabært að ráðstafa fé til hennar. Henni er þess vegna pakkað inn í umbúðir, sem heita "Samgöngusáttmáli, og smyglað þannig inn á framkvæmdaáætlun. Þetta er verk Samfylkingar og pírata, enda óeðlileg vinnubrögð. Þörf fyrir borgarlínu gæti komið síðar á þessari öld, og þá er hægt að setja hana á braut yfir öðrum mannvirkjum eða neðan jarðar. Núverandi hugmyndafræði borgarlínu er úrelt og sogar til sín fjármagn, en ekki farþega.
Morgunblaðið lætur ekki sjónhverfingar ósvífinna stjórnmálamanna villa sér sín. Þar birtist skörp forystugrein 22.08.2024 undir fyrirsögninni:
"Borgin blekkt".
Hún hófst þannig:
"Yfirgengilega orlofssugan, Dagur B., formaður borgarráðs, virðist enn halda á lofti hinu óskiljanlega verkefni sínu um "borgarlínu", og snýtir það fyrirbæri óendanlegum fjármunum úr nösum fjármálaráðherrans, og virðist þá engu skipta, hver það er, sem situr í fjármálaráðherrastóli það augnablikið.
Á borgarstjóratíð sinni lofaði "orlofssugu óhemjan" því margoft og reglubundið og helzt svona 3 mánuðum fyrir hverjar kosningar, að einmitt það kjörtímabil, sem senn færi nú í hönd, myndi borgin í allri sinni góðsemi og takmarkalausri framsýni leggja Miklubrautina loks í stokk, á meðan borgin yrði jafnframt á fleygiferð um leið að leggja "borgarlínuna", sem myndi þó í bezta falli flytja svo sem 4 % þeirra, sem fara þyrftu um borgina. Og þá byndu borgaryfirvöld vonir við, að fullkomlega væri búið að eyðileggja alla bifreiðaumferð í borginni og trylla almenna borgara með himinháum gjöldum frá hverju horni til horns og margt benti til, að þeim myndi einnig takast í sömu andrá að setja borgarsjóð Reykjavíkur á höfuðið, eins og meirihlutinn hefði lengi stefnt að."
Loforðaflaumur stjórnmálamanna um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu einkennist af litlu viti, engri framsýni og stórkarlalegum loftköstulum um hundruða milljarða ISK verkefni á sama tíma og Samfylkingin hefur tekið út af aðalskipulagi borgarinnar mannvirki, sem með tiltölulega litlum kostnaði mundu greiða mjög úr umferðarteppum í borginni á fljótvirkan hátt, ekki sízt, ef samhliða yrði fjölgað akreinum efir hentugleikum. Hér er átt við mislæg gatnamót. Óvitarnir sóa fjármunum í að fækka akreinum og vilja grafa göng og leggja vegstokka. Að skipuleggja umferðarkerfið er ekki á færi skammsýnna og sveimhuga stjórnmálamanna, sem ekki kunna með fé að fara, heldur er þetta eðlilegt viðfangsefni sérfræðinga í umferðarfræðum. Hvers vegna að mennta umferðarverkfræðinga, ef þekking þeirra er sniðgengin, en amatörar látnir um stefnumörkun ? Úr þekkingaráttinni hafa komið ágætar tillögur, sem kosta aðeins brot af draumórum stjórnmálamanna. Ef ekki verður farið að greiða úr umferðarvandanum á höfuðborgarsvæðinu með arðsömustu fjárfestingunum þegar í stað, blasir við umferðartæknilegt og fjárhagslegt skipbrot í boði Samfylkingarinnar.
"Þegar upp komst um strákinn Dag B., og hvernig hann hefði hagað sér, er hann saug ólöglegar orlofsgreiðslur til sín og sinna upp úr botnlausum borgarsjóði, sem hann hafði gert gjaldþrota, þá svaraði hann, eins og aðeins sá einn getur, sem kann ekki að skammast sín. Hann sagði, að þessar ótrúlegu orlofsgreiðslur til sín hefðu komið "algjörlega sjálfvirkt", eins og þegar menn vinna hæsta vinning í lottóinu. En það er reyndar einnig þekkt úr lottóinu, að þegar aðeins einn fær risavinninginn, getur hann orðið stór, eins og í orlofstilviki Dags B. Eggertssonar."
Téður Dagur hefur fyrir löngu sýnt og sannað, að þar fer algerlega ábyrgðarlaus stjórnmálamaður. Hann hefur reynzt vera ótrúlega dýr á fóðrum, en skaðlegust hefur "borgarlínan" hans reynzt, því að hún er látin móta skipulagsmál borgarinnar með lóðum á dýrum þéttingarreitum, og nágrannasveitarfélögin hafa undirgengizt helsi, sem felst í banni við að brjóta nýtt land til byggðar utan ákveðinna marka. Þau verða að brjótast undan þessu helsi, en skipulag "borgarlínunnar" ætti að verða banabiti Samfylkingarinnar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.9.2024 | 18:01
Sleifarlag á orkusviði
Það þurfti enga mannvitsbrekku til að sjá fyrir kæru Skeiða- og Gnúpverjahrepps vegna virkjunarleyfis vinds ofan Búrfells. Það virðist vera sleifarlag í samskiptum Landsvirkjunar og orkuráðherrans við þennan hagsmunaaðila. Orkuráðherranum Guðlaugi Þór Þórðarsyni virðast vera mjög mislagðar hendur, enda hefur engin ný virkjun yfir 10 MW komizt á framkvæmdastig á hans dögum í loftslags- orku og umhverfisráðuneytinu. Ráðherrann virðist skorta hugmyndaflug til að ná frumkvæði, þegar á þarf að halda, t.d. í samningaviðræðum. Framkoma forstjóra Landsvirkjunar við ýmsa viðsemjendur sína hefur heldur ekki einkennzt af samningalipurð og kurteisi. Þetta tvíeyki er illa fallið til að liðka fyrir nýjum virkjunum, þar sem fyrirstaða er. Íslands óhamingju verður allt að vopni, var einu sinni sagt.
Óskar Bergsson birti sláandi frétt í Morgunblaðinu 28.08.2024 af ömurlegri stöðu raforkumála Vestfjarða, en ekki er að sjá, að þessi volaði orkuráðherra hafi orðið Vestfirðingum að nokkru gagni, en þó hafa þeir leitað til hans með sín mál. Þessi sjónumhryggi riddari virðist ekki eiga erindi sem erfiði í pólitíkina, en þó bauð hann sig fram gegn sitjandi formanni á síðasta Landsfundi Sjálfstæðisflokksins, enda vantar ekki gortið og sjálfshælnina. Téð frétt bar fyrirsögnina:
"Rafmagn á Vestfjörðum framleitt með olíubrennslu".
Hún hófst þannig:
"Orkubú Vestfjarða hefur brennt 60-70 þúsund lítrum af olíu vegna rafkyntra hitaveitna á Ísafirði, Suðureyri, Flateyri, Patreksfirði og í Bolungarvík [sem ekki fá rafmagn frá stofnkerfi landsins, þegar ein stofnlína er óvirk - innsk. BJo]. Ástæðan er sú, að Landsnet vinnur nú að fyrirbyggjandi viðhaldi á Vesturlínu, og því hefur Orkubúið þurft að grípa til olíubrennslu [í olíukyntum kötlum hitaveitanna - innsk. BJo] og skerðinga á raforku. Landsnet hefur einnig þurft að brenna 45-50 þúsund lítrum í ágúst [2024] vegna viðhaldsins."
Þessi olíubrennsla til raforkuframleiðslu á Vestfjörðum um hásumar er vegna þess, að virkjanir Vestfjarða anna álaginu ekki þá, hvað þá yfir veturinn. Þrátt fyrir þetta ófremdarástand gerist lítið í virkjanamálum Vestfirðinga. Hvalárvirkjun var seinkað eftir offors nokkurt, og téður ráðherra virðist hvorki hreyfa legg né lið til að greiða götu Vatnsdalsvirkjunar, eins og Orkubúið hefur þó farið fram á. Afturhaldið heldur því enn fram, að næg umhverfisvæn orka sé í landinu, en nú ríkir mikill kvíði fyrir komandi vetri, því að ekkert þriggja stærstu miðlunarlónanna mun ná að fyllast í haust og munar talsverðu. Óreiðan og óstjórnin er slík, að helzt lítur út fyrir, að reisa verði gasknúið raforkuver á Íslandi til að leysa bráðan aflvanda.
"Elías Jónatansson, orkubússtjóri, segir, að í tilvikum sem þessum hafi Landsnet heimild til að skerða flutning til notenda, sem séu með samninga um skerðanlegan flutning. Hann tekur undir orð Kristjáns Jóns Guðmundssonar, skrifstofustjóra rækjuvinnslunnar Kampa á Ísafirði, sem lét þau orð falla í Morgunblaðinu sl. mánudag [26.08.2024], að ef búið væri að virkja í Vatnsfirði, hefði verið óþarfi hjá Landsneti að skerða flutning á raforku til Vestfjarða. [Landsnet mun áfram verða að taka straum af Vesturlínu vegna viðhalds og viðgerða, en það mun ekki valda olíubrennslu, eins og nú, eftir að ný almennileg Vestfjarðavirkjun kemst í gagnið.]
"Það er ekki nægjanleg orka fyrir hendi, þegar eina flutningslínan inn á svæðið er straumlaus. Það er óásættanlegt, að heill landshluti hafi ekki nægjanlegan aðgang að orku. Ástæða þess, að Orkubú Vestfjarða hefur haldið Vatnsdalsvirkjun svo mikið á lofti í umræðunni er, að hún leysir umrætt vandamál, um leið og hún eykur afhendingaröryggi um 90 %. Virkjunin er nálægt tengipunktinum í Mjólká, þar sem 90 % af orkunotkun Vestfirðinga fara um. Verði virkjunin að veruleika, þarf ekki að bíða eftir tvöföldun flutningslínunnar inn á Vestfirði eða nýrri línu í tengipunkt í Ísafjarðardjúpi og uppbyggingu nýrra virkjana þar."
Ef ráðizt verður strax í hönnun nýrra virkjana á Vestfjörðum af myndarskap, t.d. í Vatnsfirði, þar sem orku-, loftslags- og umhverfisráðherra virðist reyndar draga lappirnar við að breyta friðlýsingu í þágu hagkvæmrar og umhverfisvænnar virkjunar, þá má fresta Vestfjarðalínu 2 lengi. Hana ætti að leggja í jörðu norðan Gilsfjarðar, svo að rekstraröryggið verði fullnægjandi. Sinnuleysi orkuráðherrans vegna orkumálefna Vestfirðinga er yfirþyrmandi, því að íbúar og fyrirtæki búa við miklu meira hamlandi skilyrði í orkumálum en annars staðar á landinu þekkist, og er þá langt til jafnað. Loftslagsráðherrann hlýtur að sjá, að með umbótum í orkumálum Vestfirðinga mun talsvert draga úr losun koltvíildis.
"Þrjú fyrirtæki á Vestfjörðum hafa orðið fyrir skerðingu á raforku vegna viðhaldsins á Vesturlínu: Rækjuverksmiðjan Kampi, Kalkþörungaverksmiðjan á Bíldudal og Orkubú Vestfjarða, þar sem skerðingin var mest. Orkubúið kaupir skerðanlegan flutning vegna rafkyntra hitaveitna í sveitarfélögunum.
"Á öllum þessum stöðum þarf í tilvikum sem þessum að keyra olíukatla til að halda húsum heitum á þessum stöðum", segir Elías.
Í langtímaáætlunum Landsnets stendur til að tvöfalda Vesturlínu að hluta. Þær áætlanir miða við, að búið verði að byggja nýjar virkjanir og tengja þær inn á tengipunkt í Ísafjarðardjúpi."
Þar sem Vestfirðir njóta ekki hringtengingar við stofnkerfi raforku, eins og aðrir landshlutar hafa notið frá lokun hrings Byggðalínu, þá er furðulegt, að ríkisvaldið skuli ekki hafa beitt sér meira fyrir eflingu rafmagnsframleiðslu innan Vestfjarða en raun ber vitni um. Vestfirðingar þurfa einfaldlega að lágmarki að verða sjálfum sér nógir um rafmagn. Þeir eiga hönk upp í bakið á ríkisvaldinu að þessu leyti, ef svo má segja. Þeir hafa vissulega undanfarið farið á fjörurnar við ríkisvaldið, en er þá mætt með súðarsvip og dauðyflishætti. Það er vissulega svo, að í ýmsum ráðherrastólanna virðast sitja hrein dauðyfli, sem ófær eru um að veita nokkra raunverulega forystu, en á bekk stjórnarandstöðunnar er útlitið ekki gæfulegra. Margir þeirra, sem gefa kost á sér til forystu í pólitíkinni, gera það án þess, að séð verði, að þeir eigi þangað nokkurt erindi. Þjóðfélagið famleiðir ekki lengur forystusauði. Það er alvarlegt mál.
Dægurmál | Breytt 15.9.2024 kl. 17:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.9.2024 | 14:22
Sjálfstæðinu í loftslagsmálum fórnað 2009
Ekki þarf að rekja sorgarsögu vinstri stjórnarinnar 2009-2013, en hún vann mörg óþurftarverk, enda þurfti allt undan að láta hjá henni, svo að málið eina fengi framgang. Enginn fer í grafgötur um, að það var að þóknast stækkunarkommisarnum í Brüssel í einu og öllu. Þar með var látið af sjálfstæðri loftslagsstefnu í íslenzka stjórnarráðinu og fórnað sterkri samningsstöðu, sem fólst í einstaklega háu hlutfalli endurnýjanlegrar orku í heildarorkunotkun landsmanna, m.a. til húshitunar og til að knýja málmframleiðslu, sem yfirleitt notaði raforku úr kolaorkuverum. Þarna nýttu Íslendingar sér auðvitað sérstaka samkeppnishæfni landsins á sviði vatnsfalla og jarðgufu. Vinstri stjórnin gaf þetta allt upp á bátinn og hengdi Ísland aftan í loftslagsstefnu Evrópusambandsins, sem var algerlega óraunhæft og allt of dýrt, en þar við situr. Katrín Jakobsdóttir, sem var menntamálaráðherra í þessari vinstri stjórn og vann menntakerfinu mikið tjón, bætti um betur sem forsætisráðherra síðar og skuldbatt Íslendinga á alþjóðavettvangi með óraunsæjum og raunar óframkvæmanlegum markmiðasetningum um samdrátt losunar 2030 og nettó núlllosun 2040. Fíflagangurinn mun koma okkur í koll, ef svo heldur fram sem horfir. Tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins (og kannski fleiri) vilja taka í taumana, en þar verður á brattann að sækja.
Björn Lomborg skrifaði enn eina merka grein í Morgunblaðið 17. ágúst 2024 um loftslagstengd efni, og hét þessi:
"Mýtan um græn orkuskipti".
Hún hófst þannig:
"Þótt mörg og fögur orð sé að finna í lofræðum um græn orkuskipti úr jarðefnaeldsneyti, þá eru þau umskipti samt ekki að verða. Það reynist óviðráðanlega kostnaðarsamt að ná markverðri breytingu með núverandi stefnu. Við þurfum að gjörbreyta stefnunni."
Þetta er nú orðið augljóst mál, en stjórnmálamenn, sem reka þessa andvana fæddu stefnu, hafa stungið hausnum í sandinn og þar við situr, þótt slík hegðan þjóni ekki hagsmunum umbjóðenda þeirra, og þeir hafi ekki verið kosnir til að fara undan í flæmingi, þegar nýrrar stefnumörkunar er þörf. Þetta er þó því miður einkenni á stjórnmálum samtímans, einnig í ráðuneytum stórra og mikilvægra málaflokka.
"Á heimsvísu eyðum við nú þegar tæpum 2 billjónum bandaríkjadala árlega [ 1 billjón=1 trilljón(trn)=1 þúsund milljarðar] til að reyna að knýja fram orkuskipti. Undanfarinn áratug hefur notkun sólar- og vindorku aukizt í það mesta, sem hefur verið. En það hefur ekki dregið úr notkun jarðefnaeldsneytis. Á sama tíma höfum við bara aukið enn meira við brennslu jarðefnaeldsneytis."
Þessi sorglega niðurstaða stafar sumpart af því, að vegna óhjákvæmilegs slitrótts rekstrar sólar- og vindorkuvera þarf að brenna jarðefnaeldsneyti til að fylla í skarðið, en sumpart er ástæðan aukin orkueftirspurn. Á Íslandi er yfirleitt unnt að fylla í skarðið með vatnsafli.
"Ótal rannsóknir sýna, að þegar samfélög auka við endúrnýjanlega orku, kemur sú orka sjaldnast í stað kola, gass eða olíu. Heildarnotkunin eykst bara. Nýlegar rannsóknir sýna, að fyrir hverjar 6 einingar af nýrri grænni orku kemur minna en 1 eining í stað jarðefnaeldsneytis [< 17 %]. Greining í Bandaríkjunum sýnir, að niðurgreiðslur á endurnýjanlegum orkugjöfum leiða einfaldlega til þess, að meiri heildarorka er notuð. M.ö.o.: aðgerðir, sem ætlað er að efla græna orku leiða til meiri losunar."
Ekki er víst, að þetta síðasta sé alls kostar rétt, því að aukinni orkuþörf hefði ella verið fullnægt með enn meiri eldsneytisbrennslu. Hins vegar er ljóst af þessu, að niðurgreiðslur á sólar- og vindorku auka orkueftirspurn og eru óskilvirk leið og slæm ráðstöfun skattfjár í viðleitni til að draga úr losun koltvíildis. Á Íslandi koma slíkar niðurgreiðslur ekki til greina, enda mun notkun þessara orkugjafa hækka meðalraforkuverð í landinu og verða þar með verðbólguvaldandi.
"Mannkynið hefur [er haldið] óslökkvandi þorsta í orku á viðráðanlegu verði, sem er nauðsynlegt fyrir alla þætti nútímalífs. Á síðustu hálfri öld hefur orkan, sem við fáum úr olíu og kolum, tvöfaldazt, vatnsaflið hefur þrefaldazt og gasið fjórfaldazt, og við höfum upplifað sprengingu í notkun kjarnorku, sólar- og vindorku. Allur heimurinn, og einstaklingar að jafnaði, hefur aldrei haft meiri orku tiltæka.
Sú mikilfenglega áætlun, sem liggur til grundvallar grænum orkubreytingum nútímans, snýst að mestu leyti um að þrýsta á mikla niðurgreiðslu endurnýjanlegrar orku, sem alls staðar muni með töfrum láta jarðefnaeldsneyti hverfa. En nýleg rannsókn dró fram þá niðurstöðu, að tal um "umskipti" væri villandi. Vísindahópurinn komst að því, að viðbót nýrra orkugjafa hefði hvergi, án undantekninga, leitt til viðvarandi samdráttar í notkun þekktra orkugjafa."
Stjórnmálamenn og embættismenn þeirra hafa rétt einu sinni tekið algerlega rangan pól í hæðina í stórmáli. Þeir hafa litið fram hjá aðalforsendunni fyrir því, að "orkuumskipti" séu möguleg, en hún er sú, að tæknin sé raunverulega tilbúin til að leysa verkefnið. Þeir virðast hafa ímyndað sér, að slitróttir orkugjafar á borð við vind og sól gætu leyst jarðefnaeldsneytið af hólmi, en það er borin von. Þeim hefði verið nær að setja brot af því fé, sem þeir hafa sólundað í gagnslítil verkefni, í rannsóknir og þróun á umhverfisvænum, stöðugum og hagkvæmum orkugjöfum. Það hefur alltaf verið tækniþróunin, sem leyst hefur orkuskiptaviðfangsefnið þangað til nú, að pólitíkusar tóku til sinna ráða og hafa auðvitað keyrt allt í skrúfuna.
"Aðaldrifkrafturinn hefur alltaf verið sá, að nýja orkan er annaðhvort betri eða ódýrari [eða hvort tveggja - innsk. BJo].
Sól og vindur bregðast í báðum atriðum. Þau eru ekki betri, því [að] ólíkt jarðefnaeldsneyti, sem getur framleitt rafmagn, hvenær sem við þurfum á því að halda, geta þau aðeins framleitt orku í samræmi við duttlunga dagsbirtu og veðurs.
Þetta þýðir, að þau eru ekki heldur ódýrari. Í bezta falli eru þau aðeins ódýrari, þegar sólin skín eða vindurinn blæs á réttum hraða. Þess utan eru þau að mestu gagnslaus og óendanlega dýr.
Þegar við reiknum með kostnaði af aðeins 4 tíma geymslu, verða vind- og sólarorkulausnir ósamkeppnishæfar m.v. jarðefnaeldsneyti. Til þess að ná raunverulega sjálfbærum umskiptum yfir í sólar- eða vindorku mundi þurfa geymslurými af umfangi, sem gerir þessa kosti óviðráðanlega óhagkvæma."
Í vatnsorkulöndum, þar sem vatnsskortur er, eins og á Íslandi, eru þessi gölluðu orkuform dýrmætari en annars staðar, ef þau geta komið í veg fyrir orkuskerðingu. Hér geta m.ö.o. þessir aflgjafar keyrt á öllu því afli, sem vindur og sól leyfa, alltaf, því að vatnsfallsver eru auðstýranleg og þá er sparað vatn í miðlunarlónum með því að draga úr afli þeirra á móti, og fjöldi véla í rekstri miðaður við hámarksnýtni vél- og rafbúnaðar. Engu að síður munu þessir nýju orkugjafar hækka meðalkostnað í íslenzka raforkukerfinu meira en nýjar hefðbundnar íslenzkar virkjanir, og neikvæð umhverfisáhrif vindhverflanna og þeirra risastóru spaða eru ískyggileg og miklu meiri en hefðbundinna íslenzkra virkjana reiknað í framleiddri raforku (km2/GWh) yfir tæknilegan endingartíma.
"Á þessari braut munum við aldrei ná orkuskiptum frá jarðefnaeldsneyti. Það mundi krefjast miklu meiri niðurgreiðslu á sólar- og vindorku sem og rafhlöðum og vetni fyrir okkur öll [og fórna] að sætta okkur við óhagkvæmari tækni fyrir mikilvægar vörur eins og stál og áburð. Í ofanálag mundu raunveruleg umskipti einnig krefjast þess, að stjórnmálamenn legðu gríðarlega skatta á jarðefnaeldsneyti til að gera það síður eftirsóknarvert. McKinsey áætlar verðmiðann á raunverulegum breytingum yfir 5 trnUSD/ár.
Þessi eyðsla myndi hægja á hagvexti og gera raunkostnað fimmfalt hærri. Árlegur kostnaður fyrir fólk, sem býr í ríkum löndum, gæti farið yfir 13 kUSD/íb ár. Kjósendur mundu ekki samþykkja þann sársauka."
Það er svo gríðarlegur kostnaður, sem stjórnmálamenn eru að flækja almenning í með rangri stefnumörkun í loftslagsmálum, að sliga mundi hagkerfi landanna, sem þátt taka í vitleysunni, og valda þar óðaverðbólgu, sem brjóta mundi niður efnahagslega getu til stórverkefna og auka fátækt í heiminum. Andstæðingar neyzlu yrðu þá kátir, en skamma stund yrði sú hönd höggi fegin.
"Eina raunhæfa leiðin til að ná fram umskiptum er að stórbæta grænu orkutæknina. Þetta þýðir meiri fjárfestingu í rannsóknum og þróun á grænni orku. Nýsköpunar er þörf í vindi og sól, en einnig í geymslum, kjarnorku og mörgum öðrum mögulegum lausnum. Að ná kostnaði við aðra orku niður fyrir verð jarðefnaeldsneytis er eina leiðin til að hægt sé innleiða grænar lausnir á heimsvísu, ekki bara hjá yfirstétt fáeinna ríkra landa, sem hafa áhyggjur af loftslagsmálum."
Lomborg segir í raun og veru, að núverandi tæknistig megni ekki að leiða fram raunveruleg orkuskipti. Gerviorkuskiptum var þjófstartað samkvæmt reglu allmargra stjórnmálamanna um, að betra sé að veifa röngu tré en öngvu. Stjórnmálamenn veðjuðu á rangan hest með gríðarlegri sóun á opinberu fé sem afleiðingu og seinkun á raunverulegum umbótum. Hvenær mun yfirstéttin sjá að sér ? Þá verður hún að kyngja stórum fullyrðingum og heitstrengingum, en þá mun lýðum verða ljóst, að keisarinn er ekki í neinu. Almenn þjóðfélagsóánægja og -óþol er svo mikil í ríka heiminum um þessar mundir, að áfallaþol almennings er orðið lítið áður en upp úr sýður. Kannski koma einhverjir stjórnmálamenn með vit í kollinum fram á sjónarsviðið og ná að greiða úr þessari flækju. Þá er betra að hafa í huga, að kraftaverkin taka tíma.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.8.2024 | 18:27
Óttinn við loftslagsbreytingar að dvína ?
Loftslagstrúboðið hefur horn í síðu sjálfstæðs predikara heilbrigðrar skynsemi í þeim efnum, Danans Björns Lomborg, forseta Copenhagen Consensus og gestafyrirlesara við Hoover-stofnun Stanford háskóla í Bandaríkjunum. Morgunblaðið hefur verið iðið við að kynna lesendum sínum skrif þessa sjálfstæða fræðimanns, sem hefur gagnrýnt viðhorf vestrænna stjórnmálamanna og ýmissa sérfræðinga um það, hvernig barizt skuli við hlýnun jarðar, enda hefur sá skortur á kerfisbundinni aðferðarfræði, sem þar ríkir, valdið öngþveiti og árangursleysi. Björn Lomborg hefur bent á, að brýnna sé að verja fé í baráttu við hungur og sjúkdóma í þriðja heiminum.
Þann 29. júlí 2024 birtist enn ein ádeilugreinin á vestræn stjórnvöld undir tvíræðri fyrirsögn þýðandans:
"Þessi alheimska samstaða var aðeins tíbrá".
Hún hófst þannig:
"Frá 10. áratuginum hafa loftslagsbreytingar orðið þráhyggja stjórnmálamanna og yfirstétta ríkra landa. Hún fæddist og dafnaði í jarðvegi, þar sem heimurinn hafði rétt naumlega séð fyrir endann á Kalda stríðinu [sem eins og kunnugt er lauk með ósigri kommúnismans - innsk. BJo]. Í sögulegu ljósi var friðsælt, traust ríkti um allan heim, víðtækur hagvöxtur og örar framfarir gegn fátækt. Sérstaklega leið íbúum höfuðborga Evrópu, eins og stærstu vandamál plánetunnar væru leyst. Loftslagsbreytingar væru síðasta víglínan.
Þessir talsmenn loftslagsaðgerða hafa beitt sér af miklum ákafa og sannfæringu fyrir því, að við hættum að nota jarðefnaeldsneyti. Einmitt þann orkugjafa, sem hafði knúið áfram tveggja alda undraverðan vöxt. Vissulega myndi þetta kosta hundruð billjóna [trilljóna-1 trilljón=1000 milljarðar] dala, en það yrði alltaf meiri hagvöxtur.
Þvílík þröngsýn og barnaleg sýn á heiminn. Tíminn hefur leikið grátt þá heimskulegu hugmynd, að loftslagsbreytingar væru síðasta víglína mannkyns, sem eftir væri, eða að íbúar jarðar myndu sameinast um að leysa vandann. Geopólitískir árekstrar og viðskiptahagsmunir valda því, að hröð alþjóðleg umskipti frá jarðefnaeldsneyti eru óhugsandi."
Þetta er hinn bitri sannleikur, og þess vegna stendur hin opinbera loftslagsstefna Vestursins á brauðfótum. Orkuskipti á heimsvísu í anda loftslagspostula eru ómöguleg fyrr en tækniþróunin hefur fært manninum raunhæfan orkugjafa til að taka við kolum, olíu og gasi. Þjóðir á borð við Íslendinga, sem búa við mikið af s.k. endurnýjanlegum stöðugum orkulindum, s.s. vatnsföll og jarðgufu, og geta þannig framleitt næga raforku til að rafvæða eldsneytisferla og framleiða lífeldsneyti, sem leyst getur jarðefnaeldsneyti af hólmi, komast næst því að leysa þau verkefni, sem þarf til að uppfylla draumóra stjórnmálamanna. Vinstri stjórnin 2009-2013 kom hins vegar á fót slíku skrifræðisbákni í kringum leyfisveitingaferli virkjana, að stöðnun hefur orðið á sviði nýrra virkjana yfir 10 MW. S.k. Rammaáætlun er eitt af því, sem kasta þarf á haugana og hefur reynzt verri en gagnslaus. Afleiðingin af vitleysunni, sem viðgengst, er, að upp spretta vindorkuver, eins og gorkúlur á haugi, sem eru miklu dýrari og umhverfisverndarlega verri kostur en vel hannaðar vatnsafls- og jarðgufuvirkjanir, reiknað á einingu framleiddrar raforku.
"Leiðtogar frá Evrópu og Bandaríkjunum tala um "núllmarkmið", eins og það hafi alþjóðlegan stuðning. En fljótt var ljóst, að þessi alheimska samstaða var aðeins tíbrá. Fyrir það fyrsta er hinn óstöðugi möndull Rússlands, Írans og Norður-Kóreu ekkert á því að styðja viðleitni vestrænna ríkja við að draga úr loftslagsbreytingum. Reyndar, samkvæmt McKinsey, myndi núllmarkmiðið krefja Rússa um mrdUSD 273 til loftslagsaðgerða á hverju ári. U.þ.b. þrefalt það, sem þeir eyddu til hermála á síðasta ári. Það mun ekki gerast.
Geopólitískar hindranir rista enn dýpra. Vöxtur Kína hefur þarfnazt þess að brenna sífellt meira af kolum. Þaðan kemur yfirgnæfandi mesta magn gróðurhúsalofttegunda í heiminum auk þess að vera með mestu aukningu allra þjóða á síðasta ári. Endurnýjanleg orka var 40 % af orkuframleiðslu Kína árið 1971, en minnkaði niður í 7 % árið 2011 með stigvaxandi kolabrennslu. Síðan þá hefur endurnýjanleg orka aukizt aftur í 10 %. Öflugar loftslagsaðgerðir gætu kostað Kína næstum 1,0 trnUSD/ár [1000 mrdUSD/ár] og hamlað vegferð þess í átt að því að verða rík þjóð."
Evrópusambandið (ESB) hefur í hyggju að leggja innflutningstolla á vörur, sem framleiddar eru með stóru kolefnisspori, en gæti verið að skjóta sig í fótinn með svo sértækum aðgerðum. Tíminn einn vinnur þessa baráttu, þ.e. það verður að gefa tækninni hvata til að þróa lausnir. Vind-og sólarorka geta ekki varðað veginn að lokalausninni, en kjarnorkan getur það, en er ekki síður áhættusöm en aukinn koltvíildisstyrkur í andrúmslofti enn sem komið er. Þetta sýnir ótti Alþjóða kjarnorkumálastofnunarinnar um öryggi stærsta kjarnorkuvers Evrópu, sem rússneski herinn hertók og hefur nú hætt framleiðslu rafmagns í, en frá kjarnakljúfunum stafar enn mikil hætta, ef kælikerfi versins laskast eða byggingar þess verða fyrir eldflaug eða stórri sprengju.
"Á sama tíma, þrátt fyrir allt málskrúðið, eiga auðug lönd sífellt minna fé handbært fyrir loftslagsbaráttuna. Árlegur hagvöxtur á mann [á] meðal ríkra landa dróst saman úr 4 % á 7. áratuginum [20. aldar] í 2 % á 10. áratuginum. Núna erum við rétt yfir 1,0 %. Mörg þessara landa standa frammi fyrir þrýstingi á að eyða meira í varnarmál, heilbrigðisþjónustu og innviði á sama tíma og pólitískur þrýstingur og breyttar þjóðfélags- og aldurssamsetningar gera leiðir þeirra til stöðugleika og vaxtar mun óvissari.
Samt sem áður heldur fólk um alla Evrópu og Norður-Ameríku, sem fæddist í tiltölulega rólegum heimi 10. áratugarins, áfram í einstrengingslegum ákafa að þrýsta á afiðnvæðingu og samdrátt til að takast á við loftslagsbreytingar. Þ.á.m. í vaxandi hagkerfum heimsins. Öllum skal líða jafnilla."
Í ESB er staðnað hagkerfi, sumpart vegna evrunnar, sem hentar ekki öllum þjóðunum alltaf á evrusvæðinu. Vaxtastig evrubankans er jafnvel of hátt um þessar mundir fyrir þýzka hagkerfið, sem hefur glímt við miklar orkuverðshækkanir vegna kúgunartilburða Rússa. Loftslagsstefna ESB er að sama skapi að verða afar íþyngjandi fyrir hagkerfin þar og rýrir samkeppnishæfni þeirra á alþjóðamörkuðum. Hér innanlands hefur einmitt borið á innflutningi á þeim veruleikafirrtu kenningum róttækra græningja, sem Lomborg gerir að umræðuefni, þ.e. að alls ekki skuli virkja meira, en skapa svigrúm fyrir orkuskipti með því að loka iðjuverum landsins. Þessi stefna, t.d. Landverndar, ber feigðina í sér og er dauðadómur yfir góðum lífskjörum á Íslandi. Slíkar kenningar eru illa ígrundaðar, eiginlega bara kaffihúsasnakk, enda varða þær leiðina til fátæktaránauðar.
"Nú þegar eru kjósendur í Evrópu að snúa baki við stjórnmálamönnum, sem hafa talað fyrir minni hagvexti og hagsæld í nafni loftslagsbreytinga. 6-7 kosningalotur eru framundan fyrir miðja öld, og hörð loftslagsstefna, sem getur kostað hvern mann í ríka heiminum meira en 10 kUSD/ár [1,4 MISK/ár] er dauðadæmd. Þessar stefnur munu gera það líklegra, að kjósendur snúi sér að popúlískum [lýðskrums] þjóðernissinnuðum leiðtogum, sem munu alfarið hverfa frá rándýrum núllmarkmiðum. Þá verður loftslagsstefnan í molum."
Kostnaður við "núllstefnuna" er svo hár, að lífskjörin verða rekin aftur um 40 ár, ef henni verður haldið til streitu, og það er engin glóra í því að keyra lífskjörin á Vesturlöndum niður, á meðan aðalmengunarvaldarnir þeysa fram í lífskjarasókn. Allt sýnir þetta, hvað loftslagsstefna ESB, sem er sú stefna, sem rekin er blint hérlendis, er illa ígrunduð.
"Heimurinn þarf betri leið fram á við. Bezta lausnin er ekki sú að þrýsta á fólk til að hafa það verra með því að þvinga fram ótímabær umskipti úr jarðefnaeldsneyti yfir í ófullnægjandi græna valkosti. Þess í stað ættum við að auka fjárfestingar í grænni nýsköpun í því [augnamiði] að draga úr kostnaði við hreina orku, þar til [að] hún verði orðin hagkvæmari en jarðefnaeldsneyti. Þetta er miklu kostnaðarminna og mun hvetja alla, þ.á.m. Indland og önnur vaxandi hagkerfi, til að vilja breyta sínum orkugjöfum."
Þetta er hárrétt stefnumörkun af hálfu Lomborg að mati þessa skrifara og sú eina sjálfbæra, sem í augsýn er. Jarðefnaeldsneytisforðinn fer minnkandi, sem mun valda hækkandi verði, svo að ekki mun líða á löngu, þar til að vestræn tækni getur boðið upp á eitthvað skárra en kjarnorku úr afar geislavirkum úranísótópi, hráefnisfrekar sólarhlöður eða hrottalega landfrekar vindmyllur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.7.2024 | 10:08
Fleiri leiðir í boði en leið kollsteypu
Sjálfshól og drýldni Samfylkingarforystunnar er við brugðið. "Vér einir vitum" skín stundum úr þeim ranni, og það á við um skipulagsmál höfuðborgarinnar, sem búið er að keyra í algerar ógöngur, landsmönnum öllum til mikils kostnaðarauka. Þetta á ekki sízt við um umferðarmálin, en það eru til leiðir út úr þeim ógöngum, sem fela í sér raunverulegar lausnir á vandamálinu, sem meirihluti borgarstjórnar er búinn að keyra í harðan hnút. Tvímenningarnir Þórarinn Hjaltason og Þorkell Sigurlaugsson gerðu grein fyrir hugmyndum frá samtökunum "Samgöngur fyrir alla" í Morgunblaðinu 29. júní 2024 undir fyrirsögninni:
"Tillögur um bráðaaðgerðir í samgöngumálum":
"Hér á eftir eru 11 tillögur, sem áætlað er, að kosti alls um mrdISK 115 í framkvæmd, sem er umtalsvert lægri upphæð en þær, sem blasa við okkur samkvæmt fyrirhuguðum framkvæmdum. Miklubrautargöng og Sundagöng/braut ekki með talin, sem geta jafnvel orðið að mestu sjálfbær verkefni með hóflegri gjaldtöku."
"1. Taka í notkun nýtt leiðakerfi strætó, byggt að mestu á fyrirliggjandi drögum. Kostnaðaráætlun um mrdISK 35."
Hér er miðað við vagna á hliðsettum akreinum hægra megin við bifreiðaumferðina. Miklu ódýrara og truflar ekki bílaumferð að ráði, hvorki á framkvæmdatíma né rekstrartíma veganna, eins og stórborgardraumórar Samfylkingarinnar um s.k. Borgarlínu.
"2. Einföld mislæg gatnamót sem vegbrú yfir Reykjanesbraut við Bústaðaveg. Kostnaðaráætlun um mrdISK 3."
Þessi framkvæmd hefur dregizt úr hömlu í boði Samfylkingar og mun skapa viðunandi tengingu Bústaðavegar, þar sem íbúum hefur fjölgað talsvert, við stóra umferðaræð.
"3. Auka flutningsgetu Hafnarfjarðarvegar og Kringlumýrarbrautar. Kostnaðaráætlun um mrdISK 10." Þarna hafa í 20 ár mundazt sístækkandi biðraðir á umferðartímum. Að Samfylkingin skuli ekki hafa séð sóma sinn í að koma með frambærilega lausn á þessu umferðarviðfangsefni, heldur þvert á móti gert sér leik að því að auka umferðartafirnar með ljósastýrðri gangbraut við Hamrahlíð, sýnir, að þar á bæ er eigin sérvizka og falskar kennisetningar (það þýðir ekkert að fjölga akreinum, því að þær fyllast strax af bílum) settar ofar almannahagsmunum.
"4. Fjórar akreinar Kringlumýrarbrautar settar í göng undir Miklubraut. Kostnaðaráætlun um mrdISK 4."
Með þessari lausn verður beygjuumferð til austurs og vesturs af Kringlumýrarbraut fyrir miklum töfum af umferðarljósum. Hægri beygju mætti hafa án ljósa með beygjureinum.
"5. Reykjanesbraut verði breikkuð í 6 akreinar frá Breiðholtsbraut að Álftanesvegi. Kostnaðaráætlun um mrdISK 9."
Þessi aukning afkastagetu á fjölförnum vegarkafla mun fara langt með að eyða biðraðatöfum þar um hríð.
"6. Sæbraut við Skeiðarvog-Kleppsmýrarveg. Kostnaðaráætlun um mrdISK 4. Fjórar akreinar Sæbrautar verða teknar í tiltölulega ódýr og einföld undirgöng undir Skeiðarvog-Kleppsmýrarbraut með svipuðum hætti og Kringlumýrarbraut undir Miklubraut."
Þarna framkvæmdu umferðaryfirvöld borgarinnar glapræði 2023 með því að afnema aðrar beygjureinina til vinstri inn á Sæbraut af Kleppsmýrarbraut. Þarna er þung umferð stórra flutningatækja og að gera þetta í nafni öryggis er yfirvarp eitt. Afnámið veldur miklum umferðartöfum, og það eru ær og kýr meirihluta Samfylkingar og meðreiðarsveina í borginni. Þetta sýnir vel fúsk og sérvizku, sem er einkennandi fyrir Samfylkinguna. Það er engin ástæða til að halda, að vinnubrögðin yrðu skárri í Stjórnarráðinu.
"7. Arnarnesvegur og mislæg gatnamót við Breiðholtsbraut. Kostnaðaráætlun um mrdISK 8."
Þetta verk er í gangi, en án mislægra gatnamóta, en Samfylkingin má ekki heyra minnzt á þá lausn, sem þó er til að bæta umferðarflæði og auka öryggi. Það er algert ábyrgðarleysi að láta pólitíska fordild trompa velferð og öryggi almennings. Þótt Kristrún Frostadóttir þykist hafa breytt Samfylkingunni í orði, hefur hún ekkert breytzt á borði.
"8. Tvöföldun Suðurlandsvegar sunnan og austan við Bæjarháls í samræmi við samgöngusáttmála. Kostnaðaráætlun um mrdISK 2."
Þetta er bráðnauðsynleg framkvæmd til að tengja höfuðborgarsvæðið Suðurlandi með sómasamlegum hætti. Þarna er allt of þröngt nú og þar af leiðandi óþarflega hættulegt og tafsamt.
"9. Fossvogsbrú (fyrir strætó, gangandi og hjólandi) í samræmi við samgöngusáttmála. Kostnaðaráætlun um mrdISK 10, og er þá miðað við núverandi hönnun."
Það er furðulegt af ríkisvaldinu að samþykkja þá fordild og útilokunarstefnu Samfylkingar að útiloka almennar bifreiðar, þ.m.t. einkabílinn, frá Fossvogsbrú. Snúa þyrfti ofan af þeirri vitleysu um leið og verkfræðingum væri falið að hanna nýja brú, þar sem tekið er tillit til lágmörkunar líftímakostnaðar, en að sleppa sérvizkulegum útlitskröfum Samfylkingarfólksins í borgarstjórn, sem kosta skattborgarana talsvert fé. Ekki verður logið á Samfylkinga, þegar kemur að meðferð opinbers fjár.
"10. Hafnarfjarðarvegur í stokk í Garðabæ í samræmi við samgöngusáttmála. Kostnaðaráætlun im mrdISK 10."
Þetta er í samræmi við vilja bæjaryfirvalda í Garðabæ og skipulag þar á bæ, enda er þar með leyst úr flæðisvanda innan bæjar og hættu á mótum Vifilsstaðavegar og gatnamóta þar sunnan og norðan við. Bráðabirgða lausnin við Vífilsstaðaveg bætti mjög úr skák.
"11. Reykjanesbraut [á] milli Lækjargötu og Álftanesvegar í Hafnarfirði í jarðgöng undir Setberg. Kostnaðaráætlun um mrdISK 20."
Þetta leysir umferðarvandann á hringtorgi Lækjargötu/Reykjanesbrautar/Setbergs og á gatnamótum í Kaplakrika og væntanlega einnig í láginni við Hafnarfjarðarveg.
Þeir félagar klykkja út með eftirfarandi, sem hægt er að taka undir um leið og þeim er þakkað mikilsvert framlag til málaflokks, sem Samfylkingin hefur notað krafta sína til að valda miklu tjóni á.
"Góðar samgöngur fyrir alla ferðamáta gera gera höfuðborgarsvæðið áfram samkeppnishæft og sveigjanlegt fyrir fólk, fyrirtæki og farartæki af öllum gerðum og fótgangandi."
Þetta mundi vera stefna heilbrigðrar skynsemi í samgöngumálum höfuðborgarsvæðisins, en henni er alls ekki að heilsa, því að stærsta sveitarfélagið, Reykjavík, býr við útúrborulegan hugsunarhátt meirihluta borgarstjórnar, sem er að úthýsa einkabílnum og reisa sjálfum sér bautastein, sem væri í raun algert skemmdarverk á samgöngumálum landsmanna, enda í boði amatöra og sérvitringa, sem fá að móta stefnu Samfylkingarinnar á þessu sviði. Ef þessi stjórnmálaflokkur fær byr í seglin í næstu Alþingiskosningum, mun í ljós koma, að þetta einkenni hennar á við um mun fleiri svið landsmálanna. Um það vitnar fortíðin, og ekki þarf annað en að nefna Reykjavíkurflugvöll til að styðja þá fullyrðingu rökum. Fjandskapur Samfylkingarinnar og fylgihnattarins pírata við hann er reginhneyksli.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)