Færsluflokkur: Menntun og skóli

Hvernig var hægt að eyðileggja grunnskólann - og hvers vegna ?

Þegar höfundur gekk í grunnskóla, var öldin önnur.  Námið hófst í sjálfseignarstofnuninni Skóla Ísaks Jónssonar í Hlíðunum í Reykjavík, enda bjó fjölskylda höfundar þá í Eskihlíðinni.  Lestrarkennsluaðferðin þótti foreldrum nýstárleg og framandi.  Hún var nefnd hljóðlestur og var kveðið að og hafði hver bókstafur sitt hljóð. Af þessum sökum var aðstoð við lestrarnámið heima við takmörkuð, en það kom ekki að sök, því að mjög góður kennari í skólanum sá vel um nemendur, sem þó voru af misjöfnu sauðahúsi. 

Strax var líka hafizt handa við að kenna skrift, reikning og teikningu.  Fyrir alla vinnu var veitt umbun, hálf stjarna, heilstjarna eða 2 stjörnur, og einkunn var gefin fyrir frammistöðuna strax á fyrsta ári. Allt var þetta örvandi og efldi vilja til að standa sig vel í samanburðinum og veitti foreldrum yfirsýn.  

Íslenzka skólakerfið hefur síðan orðið fórnarlamb ábyrgðarlausrar tilraunastarfsemi, sem eftir á að hyggja virðist hafa verið hreinræktað fúsk, því að afraksturinn er miklu ófróðari nemendur en áður og nemendur, sem engan veginn standast jafnöldrum sínum á hinum Norðurlöndunum og víðar snúning í færni á mikilvægum sviðum.  Öðru vísi mér áður brá. Það er auðvitað eftir öðru, að ríkisvaldið, sem þessu stjórnar, stendur hvumsa og hefur engin raunhæf  umbótaáform á takteinum. Hvernig væri hreinlega að játa mistökin, stokka upp og leita faglegrar ráðgjafar, hvar sem hana er að finna á meðal þeirra, sem vel hafa staðið sig á PISA ? 

Auðvitað verður að gæta þess, að menningarheimar eru ólíkir, og sinn er siður í hverju landi.  Það er þó klárt, að meiri kröfur verður að gera til nemenda um þekkingaröflun og hana verður að mæla reglubundið, bæði innan skóla og á samræmdum prófum á landsvísu. Svara verður þeirri spurningu, hvernig blöndun nemenda með ólíka frammistöðu í deildir hefur tekizt, hver er árangur hennar, og hverjar eru afleiðingarnar fyrir kennara og nemendur m.t.t. álags í starfi og námsárangurs nemenda. 

Meyvant Þórólfsson, háskólakennari á eftirlaunum, hefur skrifað af viti um íslenzka skólakerfið og PISA.  Eftir hann birtist grein í Morgunblaðinu 02.12.2023, áður en niðurstaða PISA 2022 var birt, undir fyrirsögninni:

"OECD PISA - Vísindalegt læsi".

  Hún hófst þannig:  

"Fátt bendir til, að viðsnúningur muni sjást í árangri íslenzkra unglinga, þegar niðurstöður OECD PISA munu birtast okkur hinn 5. desember n.k. Íslenzkum þátttakendum á síðasta ári skyldunáms hefur hrakað jafnt og þétt frá upphafi PISA-mælinganna árið 2000, einkum í náttúruvísindum og almennum lesskilningi.  Árið 2018 mældist Ísland neðst á Norðurlöndum og undir meðaltali OECD.  Að auki hefur íslenzkum nemum farið fjölgandi, sem lenda undir hæfniþrepi 2, og þeim fækkar, sem ná afburðahæfni á þrepum 5 eða 6.  Viðvörunarbjöllurnar hafa því ómað um nokkurt skeið, sbr skýrslur OECD (PISA og TALIS) síðustu ára, Eurodice og fleiri gögn."   

Skólakerfið íslenzka er ein rjúkandi rúst, eftir að illa gefnir sósíalistar hafa farið um það höndum, drepið þar niður allan metnað og gert foreldrum og öðrum örðugt um vik að fylgjast með námsárangri barnanna, því að próf má helzt ekki nefna lengur, og þess vegna skortir íslenzka PISA-þátttakendur það, sem kalla má próftækni, sem kemur sér vel síðar á lífsleiðinni í atvinnuviðtölum, og þegar skila þarf af sér tilteknu verkefni innan ákveðins tíma.  Sósíalistarnir halda því fram, að prófin trufli skólastarfið, en þau, þ.m.t. skyndiprófin, eru eðlilegur þáttur í náminu.  Það segir sína sögu um gæðarýrnunina, sem átt hefur sér stað í skólakerfinu, að afburðanemendum hefur fækkað hlutfallslega mest.  Þeir komu vanalega úr öllum stéttum þjóðfélagsins, og skólakerfið hefur nú svikið þá um tækifæri til að njóta sín og svikið um leið samfélagið um að njóta krafta þeirra, sem dregið geta verðmætasköpunina áfram.  Án þeirra mun einfaldlega kakan aldrei geta orðið jafnstór og ella, sem til skiptanna er.

"Því miður verður ekki sagt, að stefnumótun í menntamálum hérlendis hafi byggzt á langtíma sjónarmiðum.  Sífelldar skyndibreytingar á námsskrám, námsefni og námsmati hafa líkzt öfgahreyfingum pendúls í takti við ólíkar stefnur pólitískt kjörinna ráðherra."

Þarna lýsir Meyvant fúski og ábyrgðarleysi yfirstjórnar menntamála í tímans rás. Þetta hringl með menntastefnuna er skaðlegt, enda eru ábyggilega ýmsar ástæður fyrir hinni hrikalegu útreið, og ekki virðist núverandi yfirstjórn líkleg til að sigla skútunni gegnum skerjagarðinn klakklaust. 

""Síðasta menntastefnubreytingin kom í kjölfar efnahagshrunsins með tilkomu svo nefndra grunnþátta og andstöðu við hefðbundnar námsgreinar.  "Það er ekki hlutverk skóla að kenna námsgreinar, heldur að mennta nemendur og koma hverjum og einum til nokkurs þroska."  (Aðalnámskrá grunnskóla 2013, bls. 51.)"

Þarna var Katrín Jakobsdóttir að verki, alger fúskari með miklar hugmyndir um sjálfa sig, sem snýr einfaldlega öllu á haus í aðalnámskrá með þeim afleiðingum, að skólinn hætti að vera menntastofnun og varð geymslustaður ungviðis.  Ef það varð ekki lengur hlutverk kennaranna að kenna nemendum námsgreinar, þá var náttúrulega fokið í flest skjól og afleiðingin fyrirsjáanleg. 

 "Undirritaður [Meyvant] telur menntun reyndar óhugsandi án námsgreina á borð við náttúruvísindi, sem eru reyndar án nokkurs vafa lykilnámsgrein til að mennta nemendur, koma þeim til þroska og búa þá undir líf og starf í nútímaþjóðfélagi.  Þetta hafa fjölmargir sérfræðingar bent á með gildum rökum.  Þrátt fyrir það hafa náttúruvísindi átt undir högg að sækja í íslenzku skólakerfi alla síðustu öld og fram á okkar daga í samanburði við húmanískar greinar.  Samkvæmt úttekt OECD fyrir tæpum 40 árum þótti íslenzka námskráin skera sig úr vegna mikils tíma, sem hér væri varið í kennslu móðurmáls á kostnað náttúruvísinda (OECD, 1987, bls. 23).  Sú staða hefur ekki breytzt."

Það sýnir, hversu lítið aðhald er að mistækum ráðherrum, að Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, skyldi komast upp með að snúa öllu á haus í aðalnámskrá grunnskóla án þess að hafa hugmynd um, hvað hún var að gera, og eyðileggja þar með þetta skólastig.  Ríkisvald lýðveldisins er því hættulegt.  Það er rétt hjá Meyvant, að steingelt húmanistískt stagl tók of langan tíma á kostnað t.d. eðlisfræði og efnafræði í grunnskóla í gamla daga. 

"Í nýlegum gögnum OECD (2018) og Eurydice (2022) kemur fram, að hlutfall náttúruvísinda á unglingastigi er lægst hér [á] meðal Evrópulanda.  Menntastefnu stjórnvalda til ársins 2030 fylgdi tillaga um að auka þetta hlutfall á unglingastigi úr 8 % í 11 %, og færa þannig vægi þessa mikilvæga námssviðs nær því, sem þekkist hjá nágrannaþjóðum okkar.  Viðvarandi slakt gengi í PISA var jafnframt nefnt sem rök með breytingunni. Þegar tillagan birtist í samráðsgátt, reyndust mótbárur svo ákafar, að tillagan missti óðara flugið; síðan hefur ekki til hennar spurzt." 

Þarna sést, hvað við er að eiga.  Sósíalistar og jafnaðarmenn eru búnir að draga námsgæðin niður fyrir það, sem þekkist í nágrannalöndunum, og þegar á að reyna einhverjar mótvægisaðgerðir, er því borið við, að ekki sé til nóg af menntuðum kennurum á raungreinasviði.  Það er nóg til af raunvísindamönnum, sem geta hlaupið undir bagga, á meðan kennarar afla sér nauðsynlegrar menntunar.  Nú dugir enginn bútasaumur, heldur róttækar endurbætur í átt að fyrirkomulagi hinna Norðurlandanna, en ekki róttækni út í loftið, eins og hjá tækifærissinnanum Katrínu Jakobsdóttur.  


Grunnskólakerfið: keisarinn er ekki í neinu

Heildarniðurstöður PISA-prófa 2022 leiða í ljós, að grunnskólakerfi landsmanna, sem kostar 200 mrdISK/ár, eru umbúðir án innihalds.  Hver voru fyrstu viðbrögð æðsta strumps menntamálanna við þessum grafalvarlegu tíðindum ?  Að nú þyrfti að koma á laggirnar stofnun með nýju nafni í stað Menntamálastofnunar, sem verið er að leggja niður.  Æðsti strumpur er ófær um að setja sig inn í ógöngurnar, sem ríkisvaldið hefur átt dágóðan þátt í að valda menntakerfinu.  Honum væri nær að kalla saman fólk, sem nú hefur tjáð sig af viti um þessar ógöngur, t.d. Jón Pétur Zimsen og Meyvant Þórólfsson, til að semja leikskólastiginu og grunnskólastiginu gagnlega námsskrá, en sú núverandi er frá dögum Katrínar Jakobsdóttur sem menntamálaráðherra 2013 og er hvorki fugl né fiskur, eins og eftirfarandi krúsidúlla þaðan ber með sér: "Það er ekki hlutverk skóla að kenna námsgreinar, heldur að mennta nemendur og koma hverjum og einum til nokkurs þroska." [Aðalnámskrá grunnskóla 2013, bls. 51.]  Á grundvelli þvaðurs af þessu tagi verja skólarnir drjúgum tíma í umbúðir án innihalds, sem mörgum nemendum finnst skemmtilegt, en er hrein tímasóun og gagnast hvorki á PISA-prófi né í skóla lífsins.  Þarna liggur hundurinn grafinn (einn af þeim).

Einkennandi fyrir skólakerfið hérlendis er, hversu einsleitt rekstrarformið er.  Í samanburði við önnur Evrópulönd vantar hér önnur eignarform en opinbera eign á skólum.  Þessi einsleitni dregur úr samkeppni í kerfinu.  Strax mætti þó örva samkeppnina með öðru móti. Það er algerlega sjálfsagt að nota PISA-prófniðurstöðurnar og tölfræðilega úrvinnslu þeirra til að gefa hverjum þátttökuskóla kost á að skipuleggja starf sitt með því að afhenda honum tiltækan tölfræðilegan samanburð.  Ekki nóg með það, heldur ætti tölfræðileg samantekt fyrir hvern skóla að vera aðgengileg foreldrum og nemendum og raunar að vera opinber gögn, þar sem skólakerfið er á framfæri hins opinbera.

  Þetta er sjálfsögð þjónusta við nemendur og getur ýtt undir metnað í skólastarfi.  Það er eftir öðru hjá mennta- og barnamálaráðuneytinu, að undirstofnun þess, Menntamálastofnun, kemst upp með það að sitja á þessum gögnum og neitar að afhenda þau.  Viðbáran er tilbúningur einn, þ.e. að prófið sé bara mælikvarði á kerfið.  Það er alrangt, því að þá væru allir skólar eins, sem eðlilega er ekki raunin.  Það verður að reyna að nýta prófniðurstöðurnar til hins ýtrasta, en ekki að stinga hausnum í sandinn og gera ekki neitt, nema kannski hrinda af stokkunum einhverju vanhugsuðu lestrarátaki.  

Vert er að gefa gaum að því, að það er sama tilhneiging á öllum Norðurlöndunum, þ.e. til lakari árangurs á PISA-prófum, en sýnu verst er hún á Íslandi.  Þetta bendir til sameiginlegs þáttar, sem gæti verið síma- og tölvunotkun nemenda, sem leiðir til minni bóklestrar og minni ástundunar náms.  Hérlendis bætist svo umbúðakennsla ofan á í stað staðreyndafræðslu (stagls), sem tölvutæknin úreldir ekki, þótt einhverjir ímyndi sér það. Að láta sér detta í hug, að staðreyndaöflun sé þarflaus, af því að nú er hægt "að fletta öllu upp á netinu", er grundvallar misskilningur á sígildu eðli náms.  

Nefna má fleiri blóraböggla.  Árangri íslenzkra nemenda á PISA-prófum tók að hraka, eftir að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þáverandi menntamálaráðherra, aflagði samræmd lokapróf árið 2008, og núverandi aðalnámskrá Katrínar Jakobsdóttur er gjörsamlega haldlaust plagg og sennilega stórskaðlegt vegna algers metnaðarleysis fyrir hönd kennara og nemenda. Aðalnámskrá ætti að tilgreina nokkur samræmd próf, og hvaða þekkingu nemendur þurfi þá að geta staðið skil á.  Skyndipróf ættu að vera framlag skólanna til að þjálfa nemendur í próftöku og gefa þeim til kynna stöðu þeirra í hverri grein og hjálpa kennaranum við mat á kunnáttu nemandans í lok annar. 

Jón Pétur Zimsen, aðstoðarskólastjóri Réttarholtsskóla, var ómyrkur í máli í viðtali við Morgunblaðið, sem birtist 06.12.2023 undir hinni skuggalegu fyrirsögn:

 "Rúmlega heilt ár farið í súginn"

"Niðurstöðurnar koma mér bara akkúrat ekkert á óvart - ekki neitt.  Þetta er algjörlega það, sem ég bjóst við.  Þetta var í farvatninu og verður áfram."

Það hlýtur að vera ömurlegt fyrir menn á borð við Jón Pétur að starfa við skilyrði, þar sem hann horfir upp á árangursleysi síns fólks í starfi án þess að geta spyrnt við fótum, því að þá fara alls kyns þokulúðrar í gang, varðhundar stöðnunar, sem eru ekki hrifnir af því, að neinn skari fram úr.  

"Þú hefur sem sagt orðið var við, að færni nemenda hafi hrakað svona mikið og á svona skömmum tíma ?

"Já, þessu er búið að hraka frá aldamótum.  Árin 2009  og 2018 komu smá uppsveiflur, en þessu er búið að hraka frá aldamótum, og það er ekkert, sem bendir til þess, að þetta sé að fara að batna.  Það er ekkert í spilunum með það.  Það er bara sama stefna, sem er búin að vera nokkurn veginn frá aldamótum eða síðan sveitarfélögin tóku við grunnskólunum.""

Það er athyglisvert, að þessi skólamaður tengir hrakfallabálk grunnskólanna við eignarhald sveitarfélaganna.  Þegar lélegt taumhald er úr mennta- og barnamálaráðuneytinu og aðalnámskrá einkennist af fullmomnu metnaðarleysi, er jarðvegur fyrir ringulreið í grunnskólum landsins. 

""Það er náttúrulega í raun brot á grunnskólalögum [léleg kennsla - innsk. BJo].  Þar stendur, að við eigum að búa nemendur undir að taka þátt í lýðræðissamfélagi.  Og þegar við erum með rétt rúmlega 50 % drengja, sem geta skilið það, sem fer fram í fjölmiðlum, í töluðu máli og í rituðu máli, þá er það bara ávísun á, að nemendur geti ekki tekið þátt í lýðræðissamfélagi.  Ekki þegar þeir skilja ekki, hvað er í gangi í kringum þá", segir Jón Pétur."

Það er mjög loðið og teygjanlegt, hvað þarf til að geta skammlaust tekið þátt í lýðræðissamfélagi, og þess vegna er ekkert hald í lagatexta af þessu tagi.  Þetta er angi af þeirri tilraunastarfsemi, sem hefur tröllriðið grunnskólum landsins með þeim afleiðingum, að þeir eru að lenda á botninum í Evrópu.  Ef að er gáð, blasir við metnaðarleysið og útjöfnun (andskotans) niður á við, sem endar með því, að íslenzka grunnskólakerfið verður Júmbó Evrópu, og framhaldsskólakerfið dregur dám af því, sem frá grunnskólanum kemur. 

""Þetta er alveg grafalvarlegt."  Spurður um orsakir þessa nefnir hann, að umbúðanám, eins og hann kýs að kalla það, hafi færzt í aukana.  

"Það er nám, sem lítur vel út á pappírunum, en innihaldið er ekkert.  Það er ríkjandi allt of víða og hjálpar ekki til.  En það bitnar síðan mest á þeim, sem standa höllustum fæti.  Bitnar mest á þeim, sem hafa slakasta félagslega, fjárhagslega bakgrunninn, þeim, sem fá minnstu hjálpina heima.  Þar sem skólinn á að vera jöfnunartæki - þar bregst skólinn algjörlega.""

Þetta er harðari gagnrýni starfandi skólamanns á skólakerfið en höfund rekur minni til að hafa barið augum.  Hún passar við það, sem höfundur hefur séð nýlega til skólakerfisins (sem afi).  Aðalnámskrá Katrínar Jakobsdóttur á drjúgan þátt í metnaðarleysinu, sem hrjáir skólakerfið, eða hvað segja menn um eftirfarandi holtaþokuvæl í aðalnámskrá leik- og grunnskóla frá 2011, þar sem læsi á að heita  skilgreint á eftirfarandi hátt, en textinn uppfyllir ekkert skilyrða fyrir skilgreiningu, heldur er algerlega út og suður og fjarri því að vera leiðbeinandi sem færnimælikvarði á læsi:

"Meginmarkmið læsis er, að nemendur séu virkir þátttakendur í að umskapa og umskrifa heiminn með því að skapa eigin merkingu og bregðast á persónulegan og skapandi hátt við því, sem þeir lesa, með hjálp þeirra miðla og tækni, sem völ er á."

Þarna er sullað saman fjölmörgum óskyldum atriðum, sem eru gagnslausir við mat á læsi nemandans. Hvernig væri eftirfarandi viðmiðun ?:  Lesfærni spannar bæði leshraða og lesskilning.  Lesfærni nemanda telst ágæt (hæsta ágætiseinkunn), ef hann getur lesið rétt a.m.k. n orð á 3 mínútum og endursagt textann merkingarlega án vantana í töluðu eða rituðu máli á 6 mínútum.  Síðan má kvarða endurgjöf niður á við, eftir því sem fleiru er áfátt. 

"Tæknin er orðin þannig, að þú getur púslað saman verkefni, sem lítur út fyrir að vera gott, þó að þú vitir eiginlega ekki neitt."

Þarna er hættan, og hún steðjar að öllum þjóðum, þar sem tölvu- og símanotkun er orðin útbreidd.  Ef marka má niðurstöðu PISA, hafa aðrar þjóðir haft meiri vara á sér en Íslendingar og ekki hundsað grundvallar þekkingaröflun.  Þegar nám er orðin sýndarmennska eða umbúðir utan um loftið eitt, þá er ekki seinna vænna að staldra við. Lélegar leiðbeiningar til kennara á borð við þokukennd plögg frá menntamálaráðuneytinu, vöntun á prófum og metnaðarleysi í skólakerfinu, leggjast á eitt og úr verður handónýtt grunnskólakerfi. 

 "Á sama tíma séu grunnatriði námsins og sterkari grundvöllur frekara náms virt að vettugi í kennslu.  

"Þessi grunnhugsun um hvað nám gengur út á, orðaforða og hugtakaskilning, það þykir bara ekkert fínt.  En orðaforði er algjör grunnur að öllum greinum.""

Kennara virðist vanta skýr viðmið, og þeir hafa ekki hugmynd um, hvar þeir eru staddir með nemendur sína í samanburði við aðra skóla. Úr þessu má bæta með almennilegri námskrá, fleiri samræmdum prófum, og það á að birta skólum og nemendum alla þá tölfræði, sem unnt er að vinna úr niðurstöðunum, þótt eitthvað annað sé ríkjandi viðhorf innan OECD.

Í lokin gaf aðstoðarskólastjórinn til kynna, að eftir þessa útreið þyrfti einhver, sem ábyrgð ber á þessu meingallaða menntakerfi, að axla sín skinn.  Í þessu kerfi kunna viðkomandi þó ekki að skammast sín.

"Ef eitthvert fyrirtæki sýndi þennan árangur, þá væri einfaldlega búið að láta alla fara.  Þetta er bara ekki boðlegt.  Að bjóða börnum upp á þetta í 10 ára skyldunámi."

 

 

 

 

 


Staðnað og svifaseint menntakerfi

Mjög lítið er um einkaskóla á Íslandi og mun minna en í öðrum vestrænum löndum.  Hið opinbera, sveitarfélög og ríkisvald, rekur sjálft flesta skólana og árangurinn er eftir því dapurlegur í fjölþjóðlegum samanburði og m.t.t. þarfa atvinnulífsins.  Hið opinbera er afleitlega fallið til að tryggja gæði (góðan framleiðsluárangur) og að fara á sama tíma vel með opinbert fé.  Allt of margt, sem hið opinbera kemur nálægt, er í skötulíki.  Í menntakerfinu má nefna hátt brottfall, litla færni samkvæmt PISA, allt of marga án viðunandi lágmarksfærni í lykilgreinum á borð við lestur, réttritun og reikning, og hversu Háskóla Íslands gengur hægt að feta sig upp að markmiði sínu um að komast í hóp hinna beztu. Kannski er sú markmiðasetning ekki aðeins óraunhæf, heldur óskynsamleg.  

Afleiðingin af þessu er, að það vantar fólk í lykilgreinar atvinnulífsins, iðngreinarnar, og hefur svo verið svo lengi, að skólakerfið hefði fyrir löngu átt að aðlaga sig að þörfinni, en í staðinn vísar það nú frá um 600 áhugasömum nemendum, sem sækja um iðnnám árlega.  Þetta er falleinkunn fyrir stjórnun menntamála í landinu.  Hvers vegna er ekki reynt að fitja upp á nýjungum, t.d. með virku samstarfi við fyrirtækin í landinu ?

Morgunblaðið vakti rækilega athygli á þessu með viðtali við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, SI, 2. nóvember 2023, undir fyrirsögninni: 

"Skortur á vinnuafli hamlar vexti".

Fréttin hófst þannig:

"Menntakerfi landsins hefur mistekizt að sinna þeirri mannauðsþörf, sem hlotizt hefur af vexti iðnaðarins á síðustu árum að mati Samtaka iðnaðarins, SI.  Hafi stórum hluta þarfarinnar verið mætt með innfluttu vinnuafli, en meira þurfi til.  Ljóst er, að skortur á vinnuafli hafi verið dragbítur á vöxt iðnaðarins síðustu ár og tækifærum til aukinnar verðmætasköpunar greinarinnar hafi verið fórnað vegna skorts á vinnuafli með rétta færni.

"Krafa iðnaðarins er alveg skýr", segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.  Það er óviðunandi, að á sama tíma og metfjöldi, eða nærri 1200 manns, hafi útskrifazt úr iðnnámi á síðasta skólaári, hafi þurft að hafna nærri 600 nemendum, sem sóttu um iðnnám í haust, vegna skorts á fagmenntuðum kennurum og viðeigandi húsnæði eða tækjabúnaði.  Úr þessu verði að bæta."

Almenningur kannast vel við grafalvarlegan skort á iðnaðarmönnum um árabil og virðist bara fara versnandi. Það er þess vegna dæmalaust getu- og forystuleysi af hálfu menntamálaráðuneytisins, að ekki skuli hafa tekizt betur en raun ber vitni um að fullnægja eftirspurn.  Þegar fátið í kringum frumhlaup menntamálaráðherrans haustið 2023 við að reyna að sameina 2 grónar og ólíkar skólastofnanir á Akureyri, menntaskólann og verkmenntaskólann, er haft í huga, er ekki kyn, þótt keraldið leki. 

Það hefur vantað hæfileika og forystu af hálfu ríkisvaldsins til að stjórna menntamálum þjóðarinnar af skynsamlegu viti.  Þess vegna eru þau í ólestri og í viðjum mistækra embættismanna og stjórnmálamanna, sem fá fyrirtæki mundu vilja hafa í vinnu til lengdar. 

Í lok téðrar fréttar stóð þetta:

"Samtökin [SI] segja, að stíga þurfi strax inn í og byrja á því að tryggja verk- og starfsmenntaskólum fjármagn og auka áherzlu á iðnnám um allt land.  "Fólk sækir í það nám, sem er í boði í sinni heimabyggð.  Skólar gætu nýtt fyrirtæki meira í kennslu, þar sem þau eru í flestum tilvikum miklu betur tækjum búin en skólarnir sjálfir.  Einnig mætti huga að auknu samstarfi [á] milli skóla og tækifærum til að innleiða nýja menntatækni og nýta fjarkennslu eða dreifnám til að gera nemendum kleift að stunda nám í heimabyggð."

Þá segjast SI telja mikilvægt, að iðnnám standi áhugasömum nemendum til boða óháð aldri.  Í því skyni mætti skoða fleiri möguleika eins og kvöldnám."  

Iðnnámið má aldrei verða endastöð og er það reyndar ekki lengur.  Það má ekki aftra nemendum frá að sækjast eftir iðnnámi, að þá sé braut frekari tæknimenntunar í tæknifræði og verkfræði, síður greið en um menntaskólana. Það er ótrúlega léleg frammistaða menntayfirvalda, sem staða menntamálanna ber vitni um.  Þarna reytir SI af sér nokkrar hugmyndir í snatri til að bæta úr skák.  Munu embættismenn og ráðherra stökkva á þær eða bara velta sér á hina hliðina ?  


Til hvers er verið að setja markmið ?

Markmið verður að vera mælanlegt og tímasett.  Annars er það eitthvað annað, t.d. stefnumið.  Þetta er þó ekki nóg.  Það verður að vera raunhæfur möguleiki á að ná markmiðinu með hnitmiðaðri áætlun og skipulegri og faglegri vinnu.  Í kjölfar samþykktrar markmiðssetningar þarf áætlunin fljótlega að fæðast og vinnan að henni að hefjast.  Þannig vinna fyrirtækin í landinu að því að bæta rekstur sinn eða fjárhagsstöðu.  Markmiðasetning er öflugt stjórntæki til að beina vinnu starfsmanna inn á umbótabrautir, sem stjórnendur telja vænlega til árangurs fyrir fyrirtækið. 

Komið hefur í ljós, að þessu er allt öðru vísi varið hjá sumum stjórnmálamönnum og embættismönnum, sem stjórna mikilvægum málaflokkum á vegum ríkisins.  

Alræmdasta nýlega dæmið er af ráðherrum Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, sem á síðasta kjörtímabili fóru með umhverfismál og forsæti ríkisstjórnarinnar, þegar ákveðið var að bæta um betur, svo að um munaði, og setja markið á 55 % samdrátt koltvíildislosunar út í andrúmsloftið árið 2030 m.v. losunina árið 1990.  Það var þegar í upphafi ljóst, að í framkvæmdaáætluninni til að ná þessu markmiði yrðu að vera virkjanir endurnýjanlegrar orku, sem mundu leysa af hólmi eldsneytisorkuna, sem spöruð yrði.  Ekkert bólaði á þessu hjá Katrínu Jakobsdóttur, sem básúnaði þetta markmið hins vegar út erlendis í hópi annarra þjóðarleiðtoga, sem grunaði ekki, að manneskjan færi með fleipur. 

Nú er komið í ljós, að vonlaust er að reyna að ná þessu markmiði, því að forsendur skortir, enda hefur verið setið með hendur í skauti í orkumálunum og stóð aldrei annað til hjá Katrínu. Nú er hún búin að spila rassinn úr buxunum. Brennsla jarðefnaldsneytis á Íslandi og í íslenzkum skipum og flugvélum mun ná nýjum hæðum í ár og líklega á næstu árum ár frá ári, enda þarf að brenna tugþúsundum tonna af olíu til að framleiða rafmagn. Katrín verður þjóðinni til skammar með innihaldslausu rausi sínu á erlendri grundu. Þessi ólíkindalæti reyfarahöfundarins í forsætinu ganga ekki lengur. 

Nú hefur annarri hneykslunarhellu skotið upp á yfirborðið, nokkuð óvænt m.v. digurbarkalega markmiðasetningu þar. Það eru háskólarnir.  Þeir dala stöðugt í samanburði við marga erlenda háskóla. Sé rétt munað, setti núverandi rektor HÍ markmið um að koma HÍ í hóp 100 beztu á lista "Times Higher Education" á tilgreindu ári, en hann hefur nú fallið á botninn þar.  Það kemur höfundi þessa pistils ekki sérlega mikið á óvart, að HÍ standist ekki samanburð við háskóla nágrannalandanna.  Kennsla til fyrrihluta prófs í verkfræði tók á sínum tíma 3 ár í HÍ, en þegar kandídatarnir settust í Norðurlandaskólana, a.m.k. hinn ágæta "Norges Tekniske Högskole" - NTH í Þrándheimi, þá voru þeir settir með 3. árs nemum þar.  Ástæðan var sennilega sú, að námið á NTH var mun nær þörfum atvinnulífsins og verklegra en námið í HÍ, og sennilega er það þannig enn þá. Það kostar mikið að koma upp verklegri kennsluaðstöðu, en það skilar sér fljótt.  Það er líka dýrkeypt að útskrifa unnvörpum kandidata úr háskólum, sem atvinnulífið hefur litla eða enga þörf fyrir og á sama tíma að takmarka svo aðgengi að eftirsóttum greinum, t.d. sjúkraþjálfun, líftækni, lyfjafræði og hugbúnaðargerð, að hörgull í atvinnulífinu upp á tæplega 10 þúsund manns hefur myndazt. 

Frétt Gísla Freys Valdórssonar í Morgunblaðinu 10. marz 2023 undir fyrirsögninni:

"Þörf á orku og fjölbreyttari menntun",

hófst þannig:

""Það er ekki nóg að setja sér markmið um orkuskipti og loftslagsmál; það þarf líka að standa við þau."  

Þetta sagði Árni Sigurjónsson, formaður Samtaka Iðnaðarins (SI) í opnunarávarpi sínu á fjölmennu Iðnþingi samtakanna, sem haldið var í gær.  Þar fjallaði Árni m.a. um orkuþörfina hér á landi og benti á, að raforka á Íslandi væri nú uppseld og aflgeta kerfisins komin að þolmörkum.  Eftirspurnin eftir raforku hafi þó sennilega aldrei verið meiri og mörgum álitlegum verkefnum hafi á undanförnum árum verið ýtt út af borðinu vegna framboðsskorts."

Þetta er ófögur lýsing á stöðu orkumála í landinu og í raun alger áfellisdómur yfir yfirvöldum orkumála í landinu.  Hér á árum áður hefðu þessar lýsingar getað átt við síðasta árið fyrir gangsetningu nýrrar virkjunar, en nú er því ekki að heilsa. Næsta virkjun af þokkalegri stærð (um 100 MW) er ekki í sjónmáli, og þessi staða hefur í raun varað í meira en ár.  Samfélagið hefur orðið fyrir stórtapi, enda hægir á hagvexti, þegar innlenda orku skortir. Ástandið er grafalvarlegt, enda er markmið ríkisstjórnarinnar um minnkun koltvíildislosunar gjörsamlega komið á hliðina, og Katrín, forsætisráðherra, hefur með óraunsæi og hégómagirni sinni hengt stórskuld koltvíildisgjalda til útlanda um háls skattborgaranna.  Þessir stjórnarhættir eru óráðsía, en sennilega yppir frú Katrín bara öxlum, tekur eina eða tvær fettur og skellihlær svo að öllu saman í fullkomnu ábyrgðarleysi.  Einhver annar á að bjarga málum, þegar þar að kemur.  

""Stórnotendur þurfa að búa við mögulegar skerðingar raforku, og ekkert er til aukreitis vegna orkuskipta hérlendis né nýrra tækifæra í iðnaði.  Engu að síður eru markmið stjórnvalda skýr: að Ísland nái kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum árið 2040", sagði Árni.  "Því blasir það við, að auka þarf raforkuframleiðslu á Íslandi verulega, ef við ætlum að vera virkir þátttakendur í hinni grænu iðnbyltingu með áframhaldandi hagvexti og bættum lífskjörum."  

Það væri réttara að tala hreint út.  Hér verður raforku- og rafaflskortur næstu 5 árin hið minnsta, og þess vegna er tómt mál að tala um kolefnishlutleysi og full orkuskipti árið 2040.  Reyndar er hægt að ná kolefnishlutleysi á undan fullum orkuskiptum með því að binda CO2, t.d. með skógrækt, og fá alþjóðlega vottun á þá bindingu.  Samtök iðnaðarins hefðu mátt svara spurningunni fyrir sitt leyti um, hvernig á að auka raforkuvinnslu með jarðgufu og orku fallvatna sem hraðast, því að vindknúnir rafalar koma að afar takmörkuðu gagni einir og sér og landskemmdir af þeirra völdum eru allt of víðfeðmar m.v. gagnsemina. Véfréttin í Delfí mundi svara þannig, að ríkisstjórnin og þingmeirihluti hennar verði að taka af skarið með einum eða öðrum hætti, en er þingmeirihluti fyrir hendi til þess ?  Stendur hnífurinn þar í kúnni ?

"Áslaug Arna benti þó á, að íslenzkir háskólar væru langt á eftir norrænum háskólum í menntun í svonefndum STEAM-greinum (vísinda- og tæknigreinum, verkfræði, listgreinum og stærðfræði).  Þá birti hún jafnframt tölur um samanburð á íslenzku háskólunum, þar sem fram kemur, að Háskólinn í Reykjavík (HR) er í neðsta sæti af 37 skólum á Norðurlöndum, þar sem gæði kennslu eru metin, og [að] Háskóli Íslands (HÍ) [sé] í 32. sæti.  

Þá situr HR í 301.-350. sæti á lista "Times Higher Education", en HÍ í 501.-600. sæti.  Það var á þessum lista, sem HÍ hafði sett sér markmið um að vera [á] meðal 100 beztu."

Þetta er hrikalegur áfellisdómur yfir íslenzka menntakerfinu og sérstaklega háskólastiginu.  Þó að þarna sé augljóst ósamræmi, þar sem HR liggur á botninum í samanburði innan Norðurlandanna, en HÍ hjá "Times Higher Education", er þó full ástæða til að taka mark á þessum niðurstöðum, enda eru þær samhljóma árangri íslenzkra grunnskólanemenda í PISA-könnunum. Hið alsorglegasta við að horfa upp á þessi ósköp er, að þeir, sem eiga að stjórna þessum málum, virðast  alls ekki vita, hvað til bragðs á að taka, og æpa bara á meira fé, sem annaðhvort kemur þá úr vösum stúdenta eða úr tómum ríkissjóði (auknar lántökur).  Í báðum tilvikum er verið að kaupa gallaða vöru, og það er óviðunandi.   


Stjórnmálamenn, embættismenn og rekstur fara illa saman

Það, sem talið er upp í fyrirsögninni, virðist vera eitruð blanda, þótt kaffihúsasnatinn Karl Marx hafi um miðja 19. öldina talið fyrirkomulagið varða leiðina inn í draumaríki kommúnismans, sem mundi leysa auðmagnskerfi Adams Smiths af hólmi.  Allt voru þetta ranghugmyndir raunveruleikafirrts heimspekings.

Hérlendis hafa undanfarið dunið á almenningi fréttir um ríkisrekið heilbrigðiskerfi, sem sé að hruni komið, og leikskólakerfi borgarinnar, sem annar ekki þörfinni.  Einkenni opinbers rekstrar eru óhóflegar biðraðir, sem oftast lengjast, og sú er einmitt raunin í þessum tveimur kerfum.  Samt er gríðarleg tregða hjá embættismönnum og stjórnmálamönnum að grípa til þeirra einu ráða, sem duga til að bæta þjónustuna, þ.e. úthýsingar starfsemi hins opinbera til einkaframtaksins. Á því græða bæði skjólstæðingar ömurlegrar þjónustu hins opinbera og skattborgararnir. Opinber rekstur stenzt einkaframtakinu einfaldlega ekki snúning, og það er reginhneyksli hérlendis á 21. öldinni, að stjórnmálamenn skuli standa uppi ráðþrota og bara berja hausnum við steininn. Vilji er allt, sem þarf til að berjast við embættismennina, sem standa vörð um þetta rotna kerfi.   

Þann 16. ágúst 2022 birti Morgunblaðið lýsandi viðtal um þá stöðu, sem að ofan er lýst. Þar er lýst ofan í ormagryfjuna. Fréttin hófst þannig:

"Eins og fram hefur komið, er mikill skortur á læknum á Íslandi.  Nú er svo komið, að í nokkrum sérfræðigreinum er meirihluti lækna yfir 60 [ ára] og mikill skortur á nýliðun [svo !; nýliðun er lítil].  Þannig er staðan í augnlækningum í dag.  59 % starfandi augnlækna eru 60 ára eða eldri, og meira en helmingur þeirra, sem eru eldri en 60, eru komnir yfir 70.  Ljóst er, að bregðast þarf við þessu grafalvarlega ástandi. 

Jóhannes Kári Kristinsson, augnlæknir á augnlæknastöðinni Augljós, segir, að ekki hafi verið gerð nákvæm úttekt á því, hversu marga augnlækna þurfi, til að ástandið [verði] bærilegt. 

"Það er erfitt að meta þetta, en hins vegar er alveg ljóst, að heilbrigðisyfirvöld, og þá sérstaklega Sjúkratryggingar, hafa að mörgu leyti brugðizt sinni skyldu.  Augnlækningar eru fag, sem byggist oft eingöngu á samningum við Sjúkratryggingar, því [að] það eru ekki allir augnlæknar, sem vinna á sjúkrahúsum [betra er: ekki vinna allir augnlæknar á sjúkrahúsum-innsk. BJo].  Nú hafa samningar verið lausir í 4 ár; nýir sérfræðingar úr námi hafa átt erfitt með að komast á samning, og án samnings eru þeir ekki samkeppnishæfir við aðra augnlækna.  Þeir geta jafnvel séð hag sínum betur borgið að verða áfram erlendis eða flytja aftur út með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir íslenzkt heilbrigðiskerfi.""  

Hér er vandamál ríkisrekstrarins í hnotskurn.  Embættismenn í heilbrigðisráðuneyti og/eða hjá Sjúkratryggingum Íslands draga lappirnar við samningsgerð við sérfræðilækna, t.d. á sviði augnlækninga, og búa þar með til tvöfalt heilbrigðiskerfi og læknaskort vegna þess, að ungir læknar í sérnámi erlendis skortir réttu hvatana frá ríkisvaldinu til að hasla sér völl á íslenzkum vinnumarkaði. Aðalástæða þessarar óeðlilegu og stórskaðlegu hegðunar embættismannanna er af hugmyndafræðilegum toga.  Þeir eru illa haldnir af grillum um, að heilbrigðisþjónusta eigi hvergi annars staðar heima en á stofnun í opinberri eigu, helzt í ríkiseigu, en rekstur slíkra stofnana er nánast undantekningarlaust með þeim ömurlega hætti, að þar myndast biðraðir, jafnvel með bið í meira en eitt ár. Nýtingu tækjakosts er þar ábótavant og óánægja í starfi landlæg, sem leiðir til starfsmannahörguls og yfirálags.  Engu virðist breyta, þótt hellt sé í hítina fé úr ríkissjóði í meira mæli en nokkru sinni fyrr á alla mælikvarða.

 

Auðvitað kom þessi ömurlega hugmyndafræði alla leið frá ráðherra málaflokksins í síðustu ríkisstjórn, sem hrúgaði nýjum verkefnum á yfirlestaðan Landsspítalann glórulaust með slæmum afleiðingum.  Eins og nýr stjórnarformaður Landsspítalans hefur ýjað að, verða þessi vandamál ekki leyst, nema Landsspítalinn taki upp nýtt fjármögnunarkerfi (greiðslu fyrir verkþátt) og úthýsingu til einkarekinna læknastofa. 

Svipað vandamál er fyrir hendi í menntageiranum.  Svik borgarstjórans í Reykjavík gagnvart foreldrum með börn á 2. ári hafa verið í sviðsljósinu, enda svæsin og endurtekin.  Ástandið í Reykjavík er þannig, að augljóslega ráða stjórnmálamenn og embættismenn ekki við viðfangsefnið, enda gufaði borgarstjóri upp strax eftir fyrsta hústökufundinn í Ráðhúsinu, eins og hans var von og vísa, sbr skolpmálið alræmda, þegar hann lét ekki ná í sig.  Hvers vegna er ekki löngu búið að virkja einkageirann á þessu sviði og hætt að láta stjórnmálamenn og embættismenn borgarinnar fást við það, sem löngu er útséð með, að þeir ráða ekki við ?  Þaðan kemur ekkert annað en froðusnakk og þokulegar glærusýningar, sem foreldrar hafa ekkert gagn af og fóru þar af leiðandi í taugarnar á þeim á hústökufundi með varaborgarstjóra.  Viðbára jafnaðarmanna er jafnan sú, að enginn megi græða á þessari starfsemi.  Hvers vegna er það "tabú", ef það leysir brýnan vanda fjölda fólks og veitir samfélagslegan sparnað og/eða tekjuauka ?  Fordómar eru vandi jafnaðarstefnunnar í hnotskurn. Jafnaðarstefnan glímir við tæringu.  Farið hefur fé betra.  

"Jóhannes var yfirlæknir hjá augnlækningastöðinni Sjónlagi á árum áður. "Á árunum 2006-2008 reyndum við að koma á augnsteinsaðgerðum fyrir utan spítala í fyrsta sinn. Það hafði myndazt 2 ára biðlisti, og vandinn fór sífellt vaxandi. Við áttum samtal við 3 heilbrigðisráðherra, og það var alltaf sama sagan.  Gríðarleg tregða er gagnvart því að koma verkum út af spítalanum til að framkvæma þau í miklu ódýrara húsnæði.  Það endaði með því, að við keyptum bara inn tæki til augnsteinsaðgerða án þess að hafa fengið samning, og þau lágu nær ónotuð í 2 ár. Þetta bjó þó til þrýsting á Sjúkratryggingar og á ráðherra.  Þó var það ekki fyrr en í ráðherratíð Guðlaugs Þ. Þórðarsonar, að loksins var tekin ákvörðun í málinu árið 2008.  Í kjölfarið voru augasteinsaðgerðir boðnar út, og þær voru þá framkvæmdar í fyrsta sinn utan spítala hér á landi.  Við þetta styttust biðlistarnir hratt, og viðbótar tilkostnaður varð ekki mikill.  Þessir samningar, sem verið er að gera við augnlækna utan spítalans, eru alveg gríðarlega hagstæðir.  Það er stjarnfræðilegur munur á kostnaði við að senda sjúkling til útlanda í aðgerðir eða sinna þeim hér á stofum.  Þessi tregða við að gera hlutina ódýrar og hagkvæmar er óskiljanleg."

Þetta er afar lýsandi dæmi um tregðu embættismannakerfisins til breytinga, sem leitt geta til samkeppni við ríkisstofnun.  Frumkvöðlar ræða við ráðherra og gera honum grein fyrir því, að tækniþróunin hafi nú gert kleift að auka afköstin og spara ríkissjóði fé með úthýsingu verkefna frá Landsspítala-háskólasjúkrahúsi, sem annar ekki verkefnunum og veldur þar með þjáningum fjölmargra og óþarfa samfélagslegum kostnaði.  Ráðherra talar við ráðuneytisfólk sitt, en það er í hugmyndafræðilegum viðjum ríkisrekstrar og lítur jafnvel á nýbreytni sem ógnun við kerfið fremur en tækifæri fyrir sjúklinga og skattgreiðendur. Hann talar síðan við forstjóra Landsspítalans, sem strax fer í vörn og finnur samkeppni um sjúklingana flest til foráttu.  Ráðherrann skortir sannfæringu, innsæi og/eða  stjórnunarhæfileika til að halda áfram með málið, og þingflokkur hans maldar jafnvel í móinn.  Þetta er meginskýringin á botnfrosnu kerfi, sem ræður ekkert við verkefnin sín og er að hruni komið (lýsing núverandi forstjóra Landsspítalans á stöðu spítalans var sú nú í ágúst, að staðan þar hefði aldrei verið verri og að spítalinn væri að þrotum kominn, sem þýðir , að sjúklingarnir muni ekki njóta eðlilegrar þjónustu).  Þetta hreyfir ekkert við búrókratíinu.  Það er að veita neina þjónustu.  Það er að standa vörð um kerfið sitt.

Nú er komin stjórn yfir Landsspítalann með stjórnarformann með auga fyrir skilvirkri stjórnun og rekstri.  Ráðherra er þannig kominn með viðmælanda, sem getur ráðlagt honum af viti um útvistun verkefna, og ráðherrann verður að hrista upp í gaddfreðnum Sjúkratryggingum Íslands og koma á alvöru samningaviðræðum við "stofulæknana". 

"Núna er staðan mjög slæm og líklega að verða tveggja ára bið eftir að komast í augasteinsaðgerð.  Það er bilað ástand.  Þessar hefðbundnu aðgerðir, sem flestir fara í, taka 10 mín/auga."  Hann bendir á, að önnur aðgerð, sem er nú eingöngu gerð á sjúkrahúsi, ætti betur heima utan þess.  "Það eru sprautumeðferðir í augnbotni, s.k. glerhlaupsinndælingar.  Þá er lyfi sprautað inn í augað við sjúkdómi, sem fellur undir ákveðna gerð af hrörnun í augnbotnum.  Þessi aðgerð hefur verið bylting í meðferð á þessum sjúkdómi.  Hún tekur stuttan tíma og er framkvæmd aðallega af aðstoðarlæknum á spítalanum á skurðstofu, en væri hægt að framkvæma á hvaða stofu sem er, eins og víða er gert í löndunum í kringum okkur.  Hérlendis má ekki framkvæma þessa aðgerð á stofu, því [að] lyfin, sem notuð eru til að sprauta í augun, eru með S-merkingu, sem þýðir, að eingöngu megi nota þau á spítala.

Það er engin ástæða fyrir því, að þessi lyf eru S-merkt í þessum tilvikum.  Ef því væri breytt, væri hægt að framkvæma inndælingarnar á stofu sérfræðinga og nýta skurðstofur spítalans betur til að stytta biðlista fyrir augasteinsaðgerðir."

Þetta er svakaleg lýsing á heilbrigðiskerfi í fjötrum einokunar ríkisrekstrar.  Klóför embættismanna, sem berjast með kjafti og klóm fyrir einokun Landsspítalans í smáu og stóru, má greina. Þarna binda búrókratarnir notkun lyfs við spítala í stað þess að binda hana við viðurkennda sérfræðinga.  Þessi mismunun lækna á spítala og sérfræðinga á stofu varðar líklega við lög.  Það er verið að skerða atvinnufrelsi, sem varið er í Stjórnarskrá.  Þegar svona er í pottinn búið, er aðeins von, að keraldið leki.  Ráðherrann verður að fá einhvern með rekstrarvit og auga fyrir sparnaði til að greina kerfisbundið, hvaða verkefni hins opinbera eru hæf til útvistunar og leggja tillöguna fyrir stjórn Landsspítalans og fulltrúa stofulækna til umsagnar. 

Á meðan uppstokkun verkefnaskiptingar Landsspítalans og læknastofanna er látin dankast og samningsgerð Sjúkratrygginga Íslands við sérfræðilækna á stofum er látin reka á reiðanum, lengjast biðlistar með hörmulegum afleiðingum og læknaskorturinn verður sárari.  Verknámsaðstaða Landsspítala er flöskuháls á útskriftarfjölda lækna og þar með innritunarfjölda.  Jafnframt alvöru samningaviðræðum við fulltrúa læknastofanna má ræða við þá um möguleika á að taka við læknanemum í þjálfun til að auka útskriftargetuna.  Þessi ofurtrú á stofnanaveldi og ríkisrekstur er ótrúlega lífseig tímaskekkja m.v. ömurlega reynslu hér og annars staðar af þessu trénaða fyrirkomulagi.  

 


Menntunarkröfur

Það hafa sézt stórkarlalegar yfirlýsingar um hina svo kölluðu "Fjórðu iðnbyltingu", sem gjörbreyta muni vinnumarkaðinum.  Ein slík er, að eftir 20 ár verði 65 % núverandi starfa ekki til.  

Þetta er loðin yfirlýsing. Er meiningin sú, að 65 % færra fólk starfi að núverandi störfum, eða er virkilega átt við, að 65 % núverandi verkefna verði annaðhvort horfin eða unnin af þjörkum ?

Fyrri merkingin er að mati blekbónda harla ólíkleg, en sú seinni nánast útilokuð.  Það er, að mati blekbónda", ekki mögulegt að framleiða róbóta með gervigreind, sem verði samkeppnishæf við "homo sapiens" við að leysa 65 % starfategundir af hólmi.

Hins vegar gefur þessi framtíðarsýn réttilega vísbendingu um gríðarlegar þjóðfélagsbreytingar á næstu áratugum, sem tækniþróunin mun leysa úr læðingi.  Aðalbreytingin verður ekki fólgin í því, að margar tegundir starfa hverfi, eins og ýjað er að, heldur í því, að verkefni, ný af nálinni, verða til.  

Þessu þarf menntakerfið að bregðast við á hverjum tíma, því að það á ekki einvörðungu að búa fólk undir að takast á við viðfangsefni líðandi dags, heldur viðfangsefni morgundagsins.  Þetta er hægara sagt en gert, en það er hægt að nálgast viðfangsefnið með því að leggja breiðan grunn, þaðan sem vegir liggja til allra átta, og það verður að leggja meiri áherzlu á verknám og möguleikann á tækninámi í framhaldi þaðan. Þá er höfuðnauðsyn á góðri verklegri kennslu í tæknináminu, iðnfræði-, tæknifræði- og verkfræðinámi, og þar með að ýta undir eigin sköpunarkraft og sjálfstæði nemandans, þegar út í atvinnulífið kemur.  Þótt þetta sé dýrt, mun það borga sig, enda fengist viðunandi nýting á búnaðinn með samnýtingu iðnskóla (fjölbrauta), tækniskóla (HR) og verkfræðideilda.

Það er áreiðanlegt, að orkuskiptin munu hafa í för með sér róttækar breytingar á samfélaginu.  Sprengihreyfillinn mun að mestu heyra sögunni til um miðja 21. öldina.  Þetta hefur auðvitað áhrif á námsefni skólakerfisins og ákveðin störf, t.d. bifvélavirkja, en bíllinn, eða landfartækið í víðum skilningi, verður áfram við lýði og viðfangsefni bifvélavirkjans sem rafknúið farartæki. Námsefni bifvélavirkjans færist meira yfir í rafmagnsfræði, skynjaratækni, örtölvur og hugbúnað. 

Rafmagnið verður aðalorkuberinn á öllum sviðum þjóðlífsins, þegar orkuskiptin komast á skrið eftir áratug eða svo.  Það er tímabært að taka þessu sem staðreynd og haga námskrám, námsefni, ekki sízt hjá kennurum, samkvæmt því nú þegar.  Sama gildir um forritun.  Það er nauðsynlegt að hefja kynningu á þessum tveimur fræðigreinum, rafmagnsfræði og forritunarfræði, í grundvallaratriðum, við 10 ára aldur.  

Jafnframt er nauðsynlegt að auka tungumálalega víðsýni barna með því að kynna þeim fleiri tungumál en móðurmálið og ensku við 11 ára aldur.  Ekki ætti að binda sig við dönsku, heldur gefa kost á norsku, sænsku, færeysku, þýzku, frönsku, spænsku og jafnvel rússnesku, eftir getu hvers skóla til að veita tungumálatilsögn.  

Það er skylda grunnskólans að veita nemendum trausta grunnþekkingu á uppbyggingu móðurmálsins, sem óhjákvæmilega þýðir málfræðistagl, því að málfræði hvers tungumáls er beinagrind þess, og hvað getur líkami án beinagrindar ?  Hann getur skriðið, en alls ekki gengið, hvað þá með reisn.  Góður kennari getur gert málfræði aðgengilega og vel þolanlega fyrir meðalnemanda.  Til að að ráða við stafsetningu íslenzkunnar er grundvallaratriði að leita uppruna orðanna.  Þetta innrætir góður kennari nemendum, og þannig getur stafsetning jafnvel orðið spennandi fag.  Það er t.d. alger misskilningur, að reglur um z í málinu séu snúnar.  Þær eru einfaldar, þegar leitað er upprunans, og það voru mikil mistök að leggja þennan bókstaf niður á sínum tíma.  Afleiðingin er sú, að ritháttur sumra orða verður afkáralegur í sumum myndum.  

Niðurstöður PISA-kannananna gefa til kynna, að gæði íslenzka grunnskólakerfisins séu að versna í samanburði við gæði grunnskólakerfa annarra landa, þar sem 15 ára nemendur á Íslandi ná sífellt lakari árangri, t.d. í raungreinum.  Þessu verður að snúa við hið snarasta, því að annars fellur íslenzka grunnskólakerfið á því prófi, að búa ungu kynslóðina undir hina títt nefndu "Fjórðu iðnbyltingu", sem reyndar er þegar hafin.  Þessi ófullnægjandi frammistaða 15 ára nemenda er með ólíkindum, og hér er ekki um að kenna of litlu fjármagni til málaflokksins, því að fjárhæð per nemanda í grunnskóla hérlendis er á meðal þeirra hæstu, sem þekkjast.  Það er vitlaust gefið. Þetta er kerfislægur vandi, sem m.a. liggur í of mikilli einhæfni, skólinn er um of niður njörvaður og einstaklingurinn í hópi kennara og nemenda fær of lítið að njóta sín.  Það er sjálfsagt að ýta undir einkaskóla, og það er sjálfsagt að leyfa duglegum nemendum að njóta sín og læra meira.  Skólinn þarf að greina styrkleika hvers nemanda ekki síður en veikleika og virkja styrkleikana.  Allir eiga rétt á að fá tækifæri til að veita kröftum sínum viðnám innan veggja skólans, ekki bara í leikfimisalnum, þótt nauðsynlegur sé.  

Skólakerfið er allt of bóknámsmiðað.  Það þarf að margfalda núverandi fjölda, sem fer í iðnnám, og vekja sérstakan áhuga nemenda á framtíðargreinum tengdum rafmagni og sjálfvirkni.

Sigurbjörg Jónsdóttir, kennari, hefur skrifað lokaritgerð í meistaranámi í verkefnastjórnun við Háskólann í Reykjavík.  Þann 7. nóvember 2017 sagði Höskuldur Daði Magnússon stuttlega frá henni í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:

"Mælivilla í niðurstöðum PISA":

""Þegar PISA er kynnt fyrir nemendum, er þeim sagt, að þeir séu að fara að taka próf, sem þeir fái ekki einkunn fyrir og skili þeim í raun engu.  Þetta eru 15-16 ára krakkar, og maður spyr sig, hversu mikið þeir leggja sig fram.  Ég veit, að sums staðar hefur þeim verið lofað pítsu að launum.  Ég hugsa, að anzi margir setji bara X einhvers staðar", segir Sigurbjörg Jónsdóttir, kennari, um lokaritgerð sína í meistaranámi í verkefnastjórnun við Háskólann í Reykjavík."

Eigi er kyn, þótt keraldið leki, þegar nemendum er gert að gangast undir próf án nánast nokkurs hvata til að standa sig vel.  Ætli þetta sé ekki öðru vísi í flestum samanburðarlöndunum ?  Það virðist ekki ósanngjarnt, að viðkomandi skóli mundi bjóða nemendum það að taka niðurstöðuna með í lokamatið á þeim, ef hún er til hækkunar á því, en sleppa því ella.  

"Þegar ég fór svo að kafa betur ofan í PISA-verkefnið, kemur í ljós, að það er mikil mælivilla í niðurstöðunum hér á landi.  Við erum einfaldlega svo fá hér.  Í öðrum löndum OECD eru tekin úrtök nemenda, 4-6 þúsund, en hér á landi taka allir prófið.  Þar að auki svara krakkarnir hér aðeins 60 spurningum af 120, og í fámennum skólum eru ekki allar spurningar lagðar fyrir.  Svo hefur þýðingunni verið ábótavant, eins og fram hefur komið."

Þetta er réttmæt gagnrýni á framkvæmd PISA-prófanna hérlendis, og andsvör Arnórs Guðmundssonar, forstjóra Menntamálastofnunar baksviðs í Morgunblaðinu, 9. nóvember 2017 í viðtali við Höskuld Daða Magnússon undir fyrirsögninni,:

"Meintar mælivillur byggðar á misskilningi", eru ósannfærandi.  

Að aðrir hafi um úrtak að velja, skekkir samanburðinn líklega íslenzkum nemendum í óhag, en það er lítið við því að gera, því að það er ekki til bóta, að hér taki færri þetta samanburðarpróf en annars staðar.  

 Það hefur engin viðunandi skýring fengizt á því, hvers vegna allar spurningar prófsins eru ekki lagðar fyrir alla íslenzku nemendurna, og þetta getur skekkt niðurstöðuna mikið.  Hvers vegna eru lagðar færri spurningar fyrir nemendur í minni skólum en stærri ?  Það er afar skrýtið, svo að ekki sé sterkar að orði kveðið.  

Ef þýðing prófs á móðurmál viðkomandi nemanda er gölluð, veikir það augljóslega stöðu nemenda í viðkomandi landi.  Það er slæm röksemd  Menntamálastofnunar, að endurtekinn galli ár eftir ár eigi ekki að hafa áhrif á samanburð prófa í tíma.  Þýðingin á einfaldalega að vera gallalaus og orðalagið fullkomlega skýrt fyrir nemanda með góða málvitund.  Þýðingargallar ár eftir ár bera vitni um óviðunandi sleifarlag Menntamálastofnunar og virka til að draga Ísland stöðugt niður í samanburði á milli landa.  Nóg er nú samt.  Noregsferð apríl 2011 006

 

 

 


Stjórnarandstaða í ruslflokki

Stjórnarandstaðan á Íslandi hefur engan annan valkost við ríkisstjórnina fram að færa en stórhækkaða skattbyrði á miðstéttina, útþenslu ríkisbáknsins með hallarekstri, verðbólgu og vinnudeilum sem afleiðingu.  

Nú síðast hafa talsmenn Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, Katrín Jakobsdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir o.fl., tekið að fjargviðrast út af sýnilegum viðbúnaði lögreglunnar á mannamótum í Reykjavík gegn illvirkjum. Er svo að skilja af málflutninginum, að slík návist lögreglunnar sé viðstöddum hættuleg; hún dragi að illvirkja.  

Hér er svo nýstárlegur málflutningur á ferð, að nauðsynlegt er að deila þessari speki með lögregluyfirvöldum í öðrum löndum, sem tekin eru upp á þessu sama í kjölfar viðbjóðslegra hryðjuverka Múhameðstrúarmanna á Vesturlöndum, sem standa nú í forneskjulegu "heilögu stríði", Jihad, gegn Vesturlöndum og þeirri menningu, sem þau standa fyrir. 

Hér er á ferðinni eitt dæmið af mörgum um glópsku fólksins í stjórnarandstöðunni.  Þau hafa löngum haldið því fram, að vörnum landsins yrði bezt fyrir komið án hervarna og án aðildar að NATO.  Nú halda þau því með sama hætti fram, að hættulegt sé að hafa í frammi sýnilegar varnir og viðbúnað gegn hryðjuverki.  Vinstri menn eru öfugmælaskáld okkar tíma, og enginn kemst með tærnar, þar sem þeir hafa hælana í fíflaganginum. Eru vinstri menn margir hverjir hérlendir sennilega lengst til vinstri í vinstra litrófinu á Vesturlöndum og svipar til "Die Linke" í Þýzkalandi, sem eru arftakar SED, "Sozialistische Einheitspartei Deutschlands", sem fór með alræðisvald í DDR á sinni tíð.  Er það ekki leiðum að líkjast, eða hitt þó heldur.   

Kári er maður nefndur, Stefánsson, kenndur við Erfðagreiningu, sonur Stefáns Jónssonar, frábærs fréttamanns og liðtæks penna, fyrrverandi þingmanns Alþýðubandalagsins, sem var arftaki Kommúnistaflokks Íslands á sinni tíð.  Þrátt fyrir að vera framtaksmaður virðist Kári, þessi, vera býsna langt til vinstri í ýmsum skoðunum, en það aftrar honum þó ekki frá því að gefa núverandi stjórnarandstöðu á Íslandi falleinkunn fyrir ferlega frammistöðu.  Hann líkir henni við sveitahund, sem beit í álfótlegg föður hans forðum og vissi ekki, hvaðan á sig stóð veðrið.  Kári ritaði um þetta óvenju skemmtilega grein í Fréttablaðið 6. júní 2017,

"Heppin þjóð":

"Og ég prísa okkur samt sæl, þótt undarlegt megi virðast.  Þegar bölvunin verður blessun, sem gerist af og til [danskt orðalag-innsk. BJo], minnir það mig gjarnan á sögu, sem ég hef oft sagt af því, þegar faðir minn sté út úr bíl við bæ í Suðursveit, og hundur rauk á hann og beit hann  í hægri fótlegginn.  Faðir minn var einfættur og með gervifótlegg úr áli hægra megin, þannig að hundgreyið fékk taugaáfall og þaut ýlfrandi frá bænum, niður brekkuna, fyrir fjóshorn og sást ekki aftur í nokkra daga.  En faðir minn leit á mig og sagði brosandi út undir eyru: "þarna sérðu, strákur, það er ekki alltaf vont að hafa glatað fæti".

Stjórnarandstaðan á Þingi er sá hundur, sem hefur sannfært mig um, að núverandi ríkisstjórn sé ekki það versta, sem hefði getað komið fyrir okkur.  Stjórnarandstaðan er gagnslaus, hugmyndasnauð og málstola.  Hvar eru tillögur stjórnarandstöðunnar um endurreisn heilbrigðiskerfisins, til minnkunar á muninum á þeim, sem eiga og eiga ekki, að heilbrigðu bankakerfi og til þess að takast á við árekstra hagsmuna samfélagsins og hagsmuna þeirra, sem samfélagið hefur kosið til þess að stjórna sér ?  Hvar er stjórnarandstaðan ?  Skyldi hún halda, að hún sé að ferja okkur inn í betri heim og að leiðin liggi í gegnum Vaðlaheiðargöngin ?  Það er eins gott fyrir hana að gera sér grein fyrir því, að í þá ferð fer hún ein.  Það fylgir henni enginn.  

Að lokum ráð til lesandans: þegar þú fyllist örvæntingu út af vesöld ríkisstjórnarinnar, mundu, að þetta hefði gerað verið verra.  Við hefðum getað endað með núverandi stjórnarandstöðu í ríkisstjórn, og það er staðreynd, að þótt ríkisstjórnin sé býsna slöpp, er stjórnarandstaðan líklega verri.  Þar af leiðandi eigum við kannski að prísa okkur sæl fyrir þann gervifót, sem ríkisstjórnin er, þótt það þýði, að við verðum ein og óstudd að sjá um að veita henni aðhald.  Stjórnarandstaðan á Þingi leggur þar næstum ekkert af mörkum."

Hér tekur framtaksmaður af eðalkommaætt stjórnarandstöðuna á kné sér og lætur hana hafa það óþvegið að hætti hússins.  Hér er enginn aukvisi á ferð og augljóst, að getuleysi, flumbrugangur, kjaftavaðall og rangar áherzlur stjórnarandstöðunnar hafa gengið svo fram af vinstri manninum, að hann sér þann kost vænstan að stofna nýjan stjórnmálaflokk, "Kárínurnar", til að freista þess að berjast fyrir hugðarefnum sínum á Alþingi, þar sem þar sé enginn, sem talar máli hans.  Þetta eru nokkur tíðindi ofan á "ekki-fréttina" af stofnun Sósíalistaflokks Íslands.  Skyldu ekki vinstri menn fyllast valkvíða, þegar þeir ganga að kjörborðinu næst ?  Kannski þeir gefist þá upp á að gera upp á milli fulltrúa hins eina sannleika og kjósi bara Píratana, sem hvarvetna annars staðar eru að hverfa af vettvangi stjórnmálanna.  

Hvernig svara stjórnmálaflokkarnir kalli framtíðarinnar ?  Hvað bíður okkar í framtíðinni ?  Um það skrifaði Þorkell Sigurlaugsson, viðskiptafræðingur og formaður menntamálanefndar Sjálfstæðisflokksins, áhugaverða grein í Viðskiptablaðið 8. júní 2017,

"Er erfitt að spá fyrir um framtíðina ?:

"Ferðaþjónustan er gott dæmi um undirbúningsleysi stjórnvalda, en fiskveiðistjórnun og stýring á því sviði er að flestu leyti til fyrirmyndar.  Stefnumörkun, t.d. í atvinnumálum, menntamálum og á öðrum sviðum, þarf að vera mun skýrari og byggja á meira samstarfi stjórnvalda og atvinnufyrirtækja."

Er stjórnarandstaðan líkleg til afreka á þessu sviði ?  Hún vill rífa niður fiskveiðistjórnunarkerfið. Afstaða hennar til atvinnulífsins er bæði einhæf og neikvæð, enda reist á skilningsleysi á þörfum þess og getu.  Stjórnarandstaðan lítur á atvinnulífið sem skattstofn, og er sjávarútvegurinn gott dæmi um það, en hún hefur lýst fyrirætlunum sínum um stórfellt aukna skattheimtu af honum til að fjármagna aukin ríkisumsvif.  Við núverandi aðstæður mundi slíkt hafa hrun hinna minni fyrirtækja vítt og breitt um landið í för með sér, sem oft eru reist á dugnaði eins framtaksmanns eða framtakshjóna.  

"Þetta [ný iðnbylting] kallar á nýja hugsun, alveg eins og rafmagnið umbreytti þjóðfélaginu.  Við hættum fyrir löngu að tala um rafmagnið og mikilvægi þess.  Það er orðið sjálfsagður hlutur, og allt okkar líf og starf byggist á því.  Sama gildir um Internetið, það er orðið 40 ára gamalt.  Við tölum um það með öðrum hætti en áður, og það er orðið sjálfsagt til samskipta og viðskipta.  Nýting Internetsins, þráðlausra og stafrænna lausna og nýting gervigreindar, er rétt að byrja."

Það er ekki ríkisvaldið, heldur einkaframtakið, stórfyrirtæki, framtaksmenn og frumkvöðlar, sem eru í fararbroddi þessarar þróunar.  Stjórnarandstaðan vill bara skattleggja einkaframtakið undir drep og þenja út ríkisbáknið.  Þar með kæfir hún þróun og frumkvöðlastarfsemi hérlendis og veldur atgervisflótta og flótta verðmætra starfa til útlanda.  Stefna íslenzku stjórnarandstöðunnar er í þágu nýrra starfa á erlendri grundu.  

"Við verðum að taka þátt í þessari 4. iðnbyltingu, því að lífskjör Íslendinga, lífsgæði og lífsgleði, munu ráðast af því, hvernig til tekst.  Verðmætasköpun mun í vaxandi mæli byggja á hugviti, sköpun og þekkingu til að auka framleiðni og verðmætasköpun.  Þekkingin getur auðveldlega flutzt af landi brott, ef við sköpum ekki tækifæri hér á landi.  Hún verður ekki í höftum eða bundin við Ísland, eins og fasteignir, fiskveiðikvóti eða aðrar náttúruauðlindir.  Auk innlendrar þekkingar verður að laða til landsins erlenda þekkingu, erlenda nemendur og erlent vinnuafl á sviði þekkingarsköpunar, en ekki eingöngu láglaunastarfa."

Tæknibyltingin, sem Þorkell Sigurlaugsson lýsir hér, verður reist á tækniþekkingu einstaklinga, frumkvöðlum og einkaframtaksmönnum, en ekki á frumkvæði að hálfu ríkisvaldsins.  Hlutverk stjórnmálamanna í þessari þróun er að skapa hagstæða efnahagslega umgjörð um þessa starfsemi, sem flyzt óhjákvæmilega þangað, sem starfsskilyrðin eru bezt, eins og Þorkell bendir á.  Stjórnarandstaðan hefur margsýnt það, þegar hluti hennar hefur verið við völd og með málflutningi sínum á síðasta og núverandi kjörtímabili, að hún hefur engan skilning á þörfum framtaksmanna, og hún hefur þannig dæmt sig úr leik sem valkostur til að leiða þjóðina inn í framtíðina, enda getur hún ekki haft augun af baksýnisspeglinum.    

 

 

 

 


Skólakerfi í úlfakreppu

Í fersku minni er slök og versnandi frammistaða íslenzkra 15 ára nemenda á 6. PISA (Programme for International Student Assessment) prófunum árið 2015. Ætlunin með þessum prófum er að veita skólayfirvöldum í hverju landi innsýn í árangur grunnskólastarfsins með alþjóðlegum samanburði. 

Ekkert hefur þó enn verið látið uppskátt um úrbótaviðleitni íslenzkra yfirvalda og legið er á upplýsingum um frammistöðu einstakra skóla sem ormur á gulli.  Þessi fælni við að horfast í augu við vandann og doði í stað þess að ganga til skipulegra úrbóta er einkennandi fyrir þrúgandi miðstýringu og fordóma gagnvart einkaframtaki í þessum geira og reyndar fleiri.  Samkeppni er þó einn þeirra hvata, sem bætt geta árangur skólanna. Er keppnisandi ekki hluti af manneðlinu og þar af leiðandi öfugsnúið að forðast hann ?  Það vantar nýja stefnumörkun í skólamálin til að snúa af þeirri óheillabraut, sem PISA-prófin 2015 sýndu, að íslenzkir grunnskólar eru á.  Vandi grunnskólanna flyzt auðvitað með nemendunum upp í framhaldsskólana eða út í þjóðlífið. Það er í verkahring nýs mennta- og menningarmálaráðherra að hafa forgöngu um  stefnumörkun í menntakerfinu, sem hafi að markmiði bættan árangur eigi síðar en 2021.

Framkvæmd grunnskólastarfs er í verkahring sveitarfélaganna, en ríkisvaldið samræmir starfið með Aðalnámskrá, sem öllum ber að fara eftir.  Hvernig skyldi nú vera staðið að skólamálum í stærsta sveitarfélaginu, Reykjavík, sem oft á árum áður gaf tóninn, en er nú orðin eftirbátur annarra sveitarfélaga í mörgu tilliti ?  Um það skrifar Áslaug María Friðriksdóttir í Morgunblaðsgreininni:

"Þreyttar áætlanir og lævís leikur", þann 22. apríl 2017:

"Gott samfélag býr að góðu menntakerfi.  Matið er einfalt.  Gott menntakerfi er samanburðarhæft við menntakerfi annarra ríkja [þ.e. stenzt samjöfnuð-innsk. BJo].  Árangur íslenzkra nemenda í lesskilningi og læsi á stærðfræði og náttúrufræði hefur hins vegar versnað síðastliðinn áratug og er verri en í samanburðarlöndum okkar.  Um þetta er enginn ágreiningur.  Því hefði mátt halda, að helzta áherzla meirihluta borgarinnar yrði að líta á málið sem algjört forgangsmál og leggja allt á vogarskálarnar [rangt orðalag, ef átt er við að leggja allt í sölurnar-innsk. BJo] til að gera betur.  Því miður blasir annað við.

Að skerða fjármagn til skólanna hefur verið helzt á dagskrá meirihlutans.  Skólastjórnendur hafa þurft að standa í karpi og mikilli baráttu við að fá skilning um, að ekki sé hægt að ná meiri árangri með slíkum hætti.  Hvergi hefur orðið vart við, að skólafólk fái hvatningu til að vinna að breytingum til að mæta slökum árangri.  Meirihlutinn hefur einnig staðið í vegi fyrir, að upplýsingum um árangur verði miðlað á þann hátt til skólanna, svo að þeir geti notað þær til að efla eigið starf.

Ljóst er, að hér verður að gera betur.  Vinna verður að því að fá fram breytingar á kennsluháttum og breytingar á aðbúnaði.  Menntastofnanir verða fyrst og fremst að geta sinnt kennsluhlutverki sínu.  Nauðsynlegt er að skýra línurnar og verja menntaþáttinn."

Hér er kveðinn upp þungur áfellisdómur yfir viðbrögðum borgaryfirvalda við niðurstöðum PISA 2015.  Ljóst er, að annaðhvort skilja borgaryfirvöld ekki til hvers PISA er eða þau nenna ekki að fara í nauðsynlega greiningarvinnu og úrbótaverkefni í kjölfarið.  Ríkjandi meirihluta vantar sem sagt hæfileika til að veita leiðsögn í þessu máli.  Borgaryfirvöld eru stungin svefnþorni, þau eru ófær um að veita nokkra vitræna forystu.  Stjórnendur af þessu tagi eru á rangri hillu og eiga skilda falleinkunn fyrir frammistöðu sína, sem jafngildir brottrekstri úr starfi eigi síðar en við næstu borgarstjórnarkosningar. 

Það er nauðsynlegt að fylgjast með því, hvað í ósköpunum fer fram í skólastofunum og gefur svo slakan námsárangur sem raun ber vitni um.  Af lauslegum viðræðum blekbónda við 15 ára nemendur virðist honum, að þekkingarstig þeirra komist ekki í samjöfnuð við þekkingarstig jafnaldra nemenda, sem þreyttu og náðu Landsprófi á sinni tíð, en það var þá inntökupróf í menntaskóla. Þetta er aðeins óformleg og lausleg athugun, sem e.t.v. veitir vísbendingu, og þekking 15 ára nemenda nú og fyrir hálfri öld er jafnvel ekki sambærileg. Í hvað fer tími nemenda nú um stundir ?

  Það þarf að beina sjónum að kennurunum, menntun þeirra og færni, og veita þeim umbun fyrir árangur í starfi, sem er að vissu marki mælanlegur sem einkunnir nemenda þeirra.  Standa kennarasamtökin e.t.v. gegn aðgerðum, sem bætt gætu árangur nemenda, ef hægt er að kenna slíkar aðgerðir við samkeppni á milli kennara ?  Hvers vegna er heilbrigð samkeppni á milli nemenda, kennara og skóla eitur í beinum sumra kennara og jafnvel stéttarfélagsins ?  Er ekki tímabært að losa sig við fordóma, sem standa skjólstæðingum kennara og hag kennara fyrir þrifum ?  Til að virðing kennara á Íslandi komist í samjöfnuð við virðingu stéttarsystkina þeirra í Finnlandi, sem hafa náð góðum árangri með nemendur sína á PISA, þarf mælanlegur árangur íslenzkra kennara að batna til muna.

Það vantar ekki fé í málaflokkinn, því að samkvæmt OECD batnar árangur óverulega við að setja meira en nemur 50 kUSD/nemanda alla hans grunnskólatíð í skólastarfið, að teknu tilliti til kaupgetu í hverju landi (purchasing power parity 2013), og hérlendis er varið mun hærri upphæð á hvern grunnskólanemanda. Það, sem vantar, er skilvirkni, mælanlegur árangur fjárfestingar í þekkingu ungviðisins.

 Bretland, Bandaríkin, Austurríki, Noregur, Sviss og Lúxemborg vörðu meira en tvöfaldri þessari upphæð samkvæmt athugun OECD árið 2013 í kennslu hvers nemanda, en nemendur þeirra náðu þó aðeins miðlungsárangri, um 490 stigum, á PISA 2015.  Íslenzkir nemendur voru undir þessu meðaltali í öllum prófgreinum, og árangur þeirra fer enn versnandi. Þetta er svo hraklegur árangur, að furðu má gegna, hversu lítil og ómarkviss viðbrögðin urðu. Það er pottur brotinn í grunnskólanum, og það er einfaldlega ekki í boði að stinga hausnum í sandinn gagnvart vandamálinu, því að framtíð landsins er í húfi.  Vendipunktur þarf að verða nú þegar, en mælanlegra framfara er þó ekki að vænta fyrr en 2021.   

Góður efnahagur og meiri jöfnuður hérlendis en í öllum 72 löndum þeirra 540´000 þúsund nemenda, sem þreyta PISA-þrautirnar, gera að verkum, að lélegur árangur Íslands á PISA er með öllu óeðlilegur.  Í OECD eru "fátækir" nemendur nærri þrisvar sinnum líklegri en nemendur í góðum efnum til að búa yfir minna en grunnfærni í raungreinum (science).  Nemendur, hverra foreldrar eru fæddir erlendis, koma jafnvel enn verr út.  Engu að síður eru 29 % fátækra barna á meðal 25 % hæstu nemendanna innan OECD.  Í Singapúr, Japan og Eistlandi, sem öll fengu yfir 525 stig árið 2015 og eru jafnan á meðal hinna beztu, er nálægt 50 % fátækra nemenda í efsta kvartili stiga (meðaleinkunnar).  Í þessu er fólginn hinn mikli og æskilegi þjóðfélagsjöfnunarkraftur skólakerfisins, þar sem hæfileikar fá að njóta sín án tillits til efnahags, en með dyntóttri doðastefnu sinni eru skólayfirvöld á Íslandi mest að bregðast þeim skjólstæðingum sínum, sem sízt mega við slíku.  Viðkomandi starfsmenn bregðast þá jafnframt hlutverki sínu.  Menntamálaráðherra verður að beita valdi sínu og beita áhrifavaldi, þar sem boðvald skortir.  Annars lendir hann í súpunni. 

Framhaldsskólarnir eru háðir fjárframlögum ríkisins.  Rektor Háskóla Íslands, Jón Atli Benediktsson, segir farir sínar ekki sléttar í baráttunni um hlutdeild í ríkisútgjöldum í grein í Fréttablaðinu 12. apríl 2017:

"Fjárfestum í framtíðinni:

"Það er óumdeilt meðal framsýnna ríkja í Evrópu, Norður-Ameríku og Asíu, að opinber fjárfesting í menntun, rannsóknum og nýsköpun, hefur bein áhrif á framleiðni, hagvöxt og ný störf.  Þannig er í nýrri skýrslu Evrópusambandsins fullyrt, að rekja megi 2/3 hagvaxtar í Evrópu á tímabilinu 1995-2003 til þekkingarsköpunar, en áhrifin voru mest í Bretlandi (50 %) og Finnlandi (40 %) og minnst (innan við 10 %) í löndum á borð við Ungverjaland, Grikkland og Slóveníu.  Tölurnar tala skýru máli: opinber fjárfesting í menntun og rannsóknum er fjárfesting í samkeppnishæfni og farsæld til framtíðar."

Það er tvennt, sem ekki er skýrt í þessum texta rektors.  Annað er, hvernig 2/3 (67 %) hagvaxtar í ESB á tilteknu tímabili geti átt rætur að rekja til "þekkingarsköpunar", ef mestu áhrifin í einu landi voru 50 % ?  Hitt er, hvers vegna þessi áhrif eru bundin við opinberar fjárfestingar ?  Einkafjárfestingar eru venjulega hnitmiðaðri, markvissari og árangursríkari í krónum mældar. Um meginniðurstöðu rektors þarf þó ekki að deila.   

Háskóli Íslands er búinn að dreifa kröftunum mjög með ærnum tilkostnaði og má nefna doktorsnám í nokkrum greinum sem dæmi.  Honum væri nær á tímum aðhaldsþarfar að einbeita kröftunum að nokkrum greinum á borð við verkfræði, þar sem mjög mikið vantar upp á aðstöðu til verklegrar þjálfunar, t.d. í rafmagnsverkfræði, læknisfræði í samstarfi við Háskólasjúkrahúsið, lögfræði, sem sniðin er að íslenzkri löggjöf og íslenzk fræði og fornbókmenntir, sem hvergi er eðlilegra að rannsaka en hér. Í íslenzkum fræðum er óplægður akur innan háskólasamfélagsins að rannsaka, hvernig íslenzkar bókmenntir spruttu upp af hinum gelíska arfi landnámsmanna, og hvernig gelísk orð voru felld inn í íslenzkuna. Hvers vegna er verið að festa fé í monthúsi á borð við hús tungumálanna á undan góðum tilraunasölum á sviði verkfræði eða Húsi íslenzkra fræða, sem vinstri stjórnin skyldi við sem forarpytt ?

Grein háskólarektors er rituð til að brýna stjórnvöld til að breyta 5 ára fjármálaáætlun ríkisins þannig, að fjárveitingar úr ríkissjóði nái meðaltali OECD.  Slíkt er verðugt markmið í lok áætlunartímabilsins, en stúdentar hér eru margir á hvern íbúa landsins.  E.t.v. væri ráð að setja á hófleg skólagjöld, t.d. 100 kISK/önn ofan á innritunargjöld, samhliða styrkjakerfi lánasjóðsins á móti, sem tengt væri árangri í námi, til að bæta úr brýnasta fjárhagsvanda skólans.  

Það er einfaldlega svo, að mjög mikil fjárfestingarþörf er í öllum innviðum landsins núna eftir óþarflega langdregna efnahagslægð vegna rangra stjórnarhátta í kjölfar hinnar alþjóðlegu fjármálakreppu 2007-2009, sem Íslendingar voru berskjaldaðir fyrir vegna oflátungslegrar hegðunar, sem aldrei má endurtaka sig. Á sama tíma ber brýna nauðsyn til að greiða hratt niður skuldir ríkissjóðs til að spara skattgreiðendum óhóflegan vaxtakostnað, auka mótlætaþol ríkisins í næstu kreppu og hækka skuldhæfiseinkunn ríkisins, sem lækka mun vaxtaálag í öllu hagkerfinu.  Kostnaðarbyrði fyrirtækja og einstaklinga áf völdum skattheimtu er nú þegar mjög há á mælikvarða OECD og litlu munar, að stíflur bresti og kostnaðarhækkanir flæði út í verðlagið.  Skattahækkanir eru þess vegna ekki fær leið.  Gríðarlegar raunhækkanir útgjalda ríkisins þessi misserin skjóta skökku við í þensluástandi, eins og nú ríkir, þannig að rekstrarafgangur ríkissjóðs þyrfti helzt að vera þrefaldur á við áætlaðan afgang til að treysta fjármálastöðugleikann. 

Rektor Háskóla Íslands verður að laga útgjöld skólans að tekjum hans á þrengingaskeiði, sem að óbreyttu mun standa í 2-3 ár enn.  Þetta verður hann að gera í samráði við menntamálaráðuneytið, eins og aðrir ríkisforstjórar verða að gera í samráði við sitt ráðuneyti.  Að æpa í fjölmiðlum á hærri peningaútlát úr ríkissjóði en rétt kjörin stjórnvöld hafa ákveðið og Alþingi hefur staðfest, verður þeim sízt til sóma. Ríkisstofnunum, eins og einkafyrirtækjum og einstaklingum, gagnast fjármálalegur stöðugleiki betur en há verðbólga.   

 


PISA ríður nú um þverbak

Fyrir tveimur áratugum ferðaðist blekbóndi til hinnar miklu iðnaðar- og viðskiptaborgar Mílanó á Norður-Ítalíu og þaðan með lest til hinnar stórkostlegu höfuðborgar Toskana-héraðs Etrúskanna fornu, Flórens.  Þeir voru á hærra þekkingarstigi en Rómverjar á 1. öld fyrir krist, t.d. í verkfræðilegum og listrænum efnum, en höfðu ekki roð við rómverska hernum, og Rómverjar innlimuðu Etrúskana í ríki sitt og lærðu margt af þeim. Þetta hernám styrkti Rómarveldi mjög. 

Á ferðum blekbónda um Toskana var m.a. komið til hafnarborgarinnar Pisa,og var ætlunin að fara upp í turninn fræga, en þegar að honum var komið, var hann girtur af og lokaður ferðamönnum, því að hallinn var farinn að nálgast hættustig, og voru Ítalir að undirbúa að draga úr hallanum.  Sú aðgerð krafðist mikillar tækniþekkingar og nákvæmra vinnubragða, eins og nærri má geta.

Það er bráðnauðsynlegt, að skólakerfið hlúi að og rækti þá hæfileika, sem í æskunni búa, svo að þjóðfélagið allt megi njóta ávaxta sköpunargleði og frumlegrar hugsunar, þar sem hana er að finna, og frumlegrar hugsunar við lausn óvæntra viðfangsefna, eins og að minnka halla á um 500 ára gömlum turni. Skólakerfið er síður en svo hjálplegt við slíka þróun, á meðan höfuðáherzlan er á að steypa alla einstaklingana í sama mótið. 

Nú eru greinileg teikn á lofti um, að grunnskólinn sói tíma nemenda með slæmu skipulagi, svo að hæfileikar margra þeirra fara í súginn í stað þess að þroskast og dafna, einstaklingsbundið. Þess vegna er rík ástæða til að spyrna hraustlega við fótum með því að losa um viðjar miðstýringar ríkis og sveitarfélaga og virkja einkaframtakið þó án aukinnar beinnar kostnaðarþátttöku aðstandenda barnanna, því að jöfn tækifæri til náms, óháð efnahag, er öflugasta samfélagslega jöfnunartækið og nokkuð góð samstaða um slíkt í þjóðfélaginu. Stefnan er þá sú, að allir fái að njóta sín, en margir detti ekki af vagninum, af því að þeir passi ekki í sniðmát embættismanna og stjórnmálamanna.    

Því er þessi Pisa-saga leidd fram hér, að kunnáttumat 15 ára unglinga frá 2015 með sama nafni, PISA - Programme for International Student Assessment, hefur nýlega verið gert opinbert. Það er skemmst frá að segja, að niðurstaðan er með öllu óviðunandi fyrir Íslendinga, þar sem íslenzku nemendurnir voru undir meðaltali OECD-landanna og á niðurleið. 

Hugmyndir yfirvalda menntamála hérlendis um viðspyrnu og viðsnúning bera þess þó enn ekki merki, að um viti borið fólk, sem vinni fyrir kaupinu sínu, sé að ræða á Menntamálastofnun, þar sem eina hugmyndin, enn sem komið er, er sú að ausa meiru opinberu fé í málaflokkinn. Árangurinn hingað til stendur þó í öfugu hlutfalli við opinberar fjárveitingar, svo að ráðleysið virðist algert á þeim bænum.  Eina huggun Arnórs Guðmundssonar, forstjóra Menntamálastofnunar, er sú, að mesta jafnræðið innan OECD sé á meðal íslenzkra skóla.  Það er slæmur og óviðeigandi mælikvarði, því að einsleitni skólanna kann að vera verulegur hluti meinsemdarinnar í þessu tilviki, þegar góðar fyrirmyndir og valkosti bráðvantar. Það er nefnilega í þessu tilviki jafnað niður á við að hætti kratismans í sinni verstu mynd.  Því verður að linna, ef ekki á mikill sálarháski að hljótast af, og það er framkvæmanlegt strax. 

Vilji er allt, sem þarf, en ef ályktun téðs Arnórs um, að ekki beri "að líta á þessa slæmu niðurstöðu sem áfellisdóm yfir einum né neinum", á að ráða för, þá eru öll sund lokuð áður en lagt er upp í umbótaleiðangur. Skilja má á forstjóra Menntamálastofnunar, að hann vilji láta allt hjakka í sama farinu, aðeins með meiri fjárútlátum. OECD hefur þó komizt að þeirri niðurstöðu, að hafi framlög hins opinbera náð kUSD 50 á nemanda allan tímann hans í grunnskóla, þá sé nemendum gagnslaust, að framlög séu aukin.  Framlögin hér eru hærri en þetta í öllum sveitarfélögum landsins. 

Niðurnjörvuð einhæfni og einsleitni skólanna, þar sem hvata skortir á öllum sviðum til að skara fram úr, er sökudólgurinn.

Ingveldur Geirsdóttir gerði góða grein fyrir PISA í Morgunblaðsfrétt, 7. desember 2016: 

"Nemendur aldrei komið verr út":

"Íslenzkir nemendur koma mjög illa út úr PISA-könnuninni, sem var lögð fyrir 2015.  Niðurstöður hennar voru kynntar í gær, og benda þær til þess, að frammistaða íslenzkra nemenda sé lakari en árið 2012, þegar könnunin var gerð síðast.

PISA-könnunin er alþjóðleg og er lögð fyrir 15 ára nemendur til að mæla lesskilning, læsi á náttúrufræði og stærðfræði [reading, mathematics and science - betri þýðing er lestur, stærðfræði og raunvísindi - innsk. BJo], á þriggja ára fresti. Þetta er eina alþjóðlega samanburðarmælingin á frammistöðu menntakerfisins, sem fram fer hér á landi. 

Niðurstöður PISA 2015 sýna, að íslenzkum nemendum hefur hrakað mikið á síðast liðnum áratug í náttúruvísindum.  Þeim hefur einnig hrakað stöðugt í stærðfræði, frá því að færnin var fyrst metin árið 2003, og lesskilningur hefur minnkað frá 2000 til 2006, en eftir það hefur hann nánast staðið í stað. 

Árangur íslenzkra nemenda er lakari en á hinum Norðurlöndunum í öllum fögunum þremur.  Þá hefur nemendum, sem geta lítið, fjölgað, og afburðanemendum hefur fækkað."  

Ískyggileg lýsing að tarna fyrir samkeppnishæfni þjóðarinnar í náinni framtíð.  Til að við stöndum öðrum þjóðum á sporði, hvert sem litið verður, og til að í landinu verði áfram menningarlegt velferðarsamfélag, verður grunnskólinn að vera í lagi.  Hann er það augljóslega alls ekki núna, og yfirvöld menntamála með Menntamálastofnun framarlega í fylkingu eru greinilega heldur ekki í lagi, því að þau virðast algerlega ráðalaus, og viðbrögðin þar á bæ eru helzt þau, að hella þurfi meiru opinberu fé í málaflokkinn.  Það er vonlaus aðferð, sem hefur verið beitt undanfarin ár og engum árangri skilað.

Verður nú gripið niður í Óðin í Viðskiptablaðinu, 8. desember 2016:

"Reyndar er ekki rétt, að ekkert hafi gerzt í skólamálum, frá því að íslenzkir skólakrakkar tóku fyrst þátt í PISA-könnuninni árið 2000.  Frá árinu 1998 hafa útgjöld sveitarfélaga til grunnskólanna aukizt um 60,9 % á föstu verðlagi, samkvæmt tölum Hagstofunnar.  Kennurum hefur fjölgað um 20,5 %, og þar af hefur kennurum með kennsluréttindi fjölgað um ein 38,3 %, og eru þeir nær einráðir í kennslu í grunnskólum. 

Útgjöld sveitarfélaganna á hvern nemanda hafa aukizt um 56 %, og útgjöld á hvern kennara hafa aukizt um 33,5 % á sama tíma. Þetta hefur allt gerzt á sama tíma og nemendum í grunnskóla hefur aðeins fjölgað um 3,2 %."

Þessi fjáraustur er birtingarmynd rangrar skólastefnu og ráðleysis, enda eru nú útgjöld á hvern grunnskólanemanda einna hæst á Íslandi af samanburðarlöndunum.  Af ofangreindum tölum að dæma lítur út fyrir, að spara megi fé án þess slíkur sparnaður bitni á árangri nemenda. Ýmis kostnaður er orðinn öfgakenndur, t.d. er talið, að fjöldi nemenda, sem skólasálfræðingur úrskurðar, að þurfi sérkennslu, sé nú tífaldur sá fjöldi, sem búast má við, eða 25 %-30 % af heildarfjölda nemenda. 

Í þessu viðfangsefni er hins vegar þrennt, sem þarf aðallega að gefa gaum: nemendur, kennarar og kennsluumgjörðin.

Nemendur þrífast greinilega illa í skólunum (af árangri þeirra að dæma), enda er þeim skipað saman í bekki án tillits til áhuga og getu.  Slíkt kallar Menntamálastofnun skóla án aðgreiningar og hefur lengi verið kratískt trúaratriði, en er sennilega til ills eins fyrir alla hlutaðeigandi.  Þetta er gildishlaðið orðalag og minnir á "Apartheit" eða aðgreingu kynþátta.  Ekkert slíkt er á dagskrá hér, hvorki á grundvelli uppruna, efnahags, litarafts né trúarbragða.  Hér skal fullyrða, að heilbrigður metnaður nemenda fær ekki að njóta sín, nema færni þeirra og geta, sem eru saman í hópi að reyna að tileinka sér boðskap kennarans, sé á svipuðu stigi.  

Við beztu aðstæður fá nemendur að keppa um sæti í þeim bekk, sem hugur þeirra stendur til, eða að verja sæti sitt með því að leggja sig fram.  Með "kerfi án aðgreiningar" fær enginn að njóta sín, hvorki nemendur né kennarar.  Efnilegum nemendum leiðist aðgerðarleysið, og hinir fá minnimáttarkennd, af því að kennarinn er stöðugt að stagla í þeim. Báðir hóparnir verða órólegir og tefja óafvitandi hvor fyrir öðrum. Fyrir kennarann verður starfið mun erfiðara en ella, þar sem mikill munur er á getu nemenda, því að beita verður ólíkum kennsluaðferðum á ólíka nemendur í sömu deild. Afleiðingin verður sú í sinni verstu mynd, að allir dragast niður á lægra plan en nauðsynlegt er.   

Menntun kennara er á háskólastigi, eins og eðlilegt er, en hún var nýlega lengd undirbúningslítið í 5 ár hérlendis.  Þessi gjörningur þarfnast endurskoðunar og sömuleiðis allt námsefni kennara og þjálfun til að miðla þekkingu á raungreinafögum með fullnægjandi hætti, en þar virðist pottur helzt vera brotinn í færni nemenda auk ófullnægjandi lestrarkunnáttu.

 Fæstir kennaranemar koma af raungreinabrautum framhaldsskóla, og hafa þess vegna haft lítinn gáning á slíkum fögum. Það þarfnast þá átaks að verða fær um að miðla slíkri þekkingu af góðri yfirsýn og með líflegum hætti, ef áhugann hefur vantað áður. Það ætti að þjappa kennaranáminu saman á 4 ár í stað útþynningar, eins og nú er, og veita hins vegar kost á framhaldsnámi í 1-2 ár með hærri námsgráðu.  Námskröfur til kennara þarf að herða, svo að tryggt sé, að þeir valdi því vel, sem þeir eiga að miðla. Hvernig skyldu þeir standa sig á PISA-prófi ?

Hvað hafði Óðinn meira að skrifa um árangursleysi fjárausturs í grunnskólann ?:

"Gríðarleg útgjaldaaukning hefur hins vegar ekki skilað neinu, nema versnandi árangri íslenzkra grunnskólanemenda.  Nú er svo komið, að tæpir 9 nemendur eru á hvern grunnskólakennara, en þeir voru tæplega 10,5 árið 1998.  Ef aðeins er miðað við kennara með kennsluréttindi, eru nemendur á hvern slíkan kennara nú 9,5, en voru 12,7 árið 1998. 

Fleiri kennarar, meira menntaðir kennarar og stóraukin útgjöld.  Árangurinn er hins vegar verri en enginn."

Það er áreiðanlegt, að þegar nemendum er hrúgað saman í bekk án tillits til færni, þá kemst kennarinn ekki yfir að aðstoða hvern og einn samkvæmt einstaklingsbundnum þörfum í sama mæli og í einsleitari bekkjardeildum. 

Þegar blekbóndi var í grunnskóla fyrir meira en hálfri öld, þá voru iðulega 30 nemendur í bekk og einn kennari kenndi öll fögin, nema teikningu, tónmennt, söng, leikfimi og sund. Kennslan gekk samt ágætlega, enda voru kennararnir þá afar hæfir (í minningunni), þótt sennilega hafi þeir haft styttri skólagöngu en kennarar, sem útskrifast úr háskóla nú á dögum. Það þarf ekki að orðlengja, að í þá daga var nemendum raðað í deildir eftir getu og áhuga. 

Kennararnir höfðu strangan aga á sjálfum sér og nemendum sínum, og stundum  þurfti að tukta nemendur til, aðallega strákana. Kennararnir ólu líka heilbrigðan metnað með nemendum um að hækka sig upp í betri bekk eða að halda sæti sínu í góðum bekk, þar sem þeir vildu vera.  Einkunnir á skyndiprófum voru lesnar upp, þannig að innbyrðis keppni var á milli nemenda í hverjum bekk.  Þetta jók áhugann fyrir náminu og kynti undir metnaði, sem nemendur tileinkuðu sér.  Allt er þetta með öðrum, verri og vonlausari brag til árangurs nú á dögum, og þess vegna sekkur íslenzki grunnskólinn nú til botns í feni jafnaðarmennskunnar.

Sú óheillaþróun, sem PISA endurspeglar, jafngildir glötuðum tækifærum einstaklinga í tugþúsundavís og gríðarlegu tekjutapi og kostnaðarauka fyrir samfélag, sem eyðileggur möguleika fjölda manns á að þróa með sér þá hæfileika og þroska, sem gott grunnskólakerfi getur leitt fram.  Eina ráðið til úrbóta er kerfisbreyting, þar sem einsleitni og ímynduðum jöfnuði er kastað fyrir róða, en lögð áherzla á fjölbreytni skóla, samkeppni á milli þeirra og á milli nemenda.

Sveitarfélögin keppa nú þegar um hylli íbúanna, og ríkisvaldið þarf að efla þessa samkeppni íbúunum til hagsbóta.  Það þarf að afnema gólf útsvarsins, veita sveitarfélögunum fullt svigrúm við álagningu allra annarra gjalda og síðast, en ekki sízt, þarf að veita þeim frelsi til að keppa sín á milli á grundvelli gæða grunnskólans, sem er á þeirra snærum. 

Þetta þýðir, að skólar í hverju sveitarfélagi eiga að ráða því, hvernig þeir haga niðurröðun nemenda í bekki, og hvernig þeir meta námsárangur.  Þegar kemur að lokaprófi upp úr grunnskóla í 10. bekk, þarf þó e.t.v. samræmd próf í einni eða fáeinum greinum samkvæmt ríkisnámskrá og staðlað árangursmat til að auðvelda val framhaldsskólanna á nemendum. Annars eiga skólarnir að hafa frjálst val um námstilhögun, námsefni og námsmat, en ríkisnámskrá grunnskóla skal aðeins vera til hliðsjónar. Þetta yrði róttæk breyting til að efla sveitarfélög, skóla þeirra, kennara og nemendur til dáða.

Til að auka líkurnar á betri árangri nemenda og meiri starfsánægju kennara en raunin er í einsleitu kerfi opinbers rekstrar þurfa sveitarfélögin að lýsa yfir áhuga sínum á að fjölga rekstrarformum grunnskólanna, breyta rekstrarformi einhvers eða einhverra núverandi skóla, eða að nýir skólar skuli feta sig áfram á braut, sem vel er þekkt erlendis, einnig á hinum Norðurlöndunum, og fellur undir hugtakið einkarekstur, ekki einkavæðing. 

Þar getur t.d. verið um að ræða sjálfseignarstofnun eða hlutafélag.  Skilyrði er, að hið opinbera standi straum af rekstrinum, eins og það gerir nú, með umsömdu greiðsluþaki, svo að hið opinbera skaðist ekki fjárhagslega af þessu fyrirkomulagi, og gjaldtaka af foreldrum verði bönnuð með sama hætti og í skólum með gamla fyrirkomulaginu.  Enginn ætti að skaðast fjárhagslega, en stefnan með þessari tilraun væri að auka frelsi skólastjórnenda og kennara og bæta líðan nemendanna með viðfangsefnum, sem eru í meira samræmi við getu hvers og eins.   

 

 


Æskan og menntakerfið

Fyrir hag almennings á Íslandi skiptir samkeppnishæfni landsins við útlönd meginmáli.  Á síðasta kjörtímabili fór Íslandi mjög fram, hækkaði um 4 sæti frá 2013-2015, hvað samkeppnishæfni varðar, að mati World Economic Forum-Global Competitiveness Index-WEF-GCI, en hrörnun samkeppnishæfni og lífskjara hefur hins vegar verið óumflýjanlegur fylgifiskur vinstri stjórna. 

Samkvæmt skýrslu WEF eru helztu hamlandi þættir á samkeppnishæfni hérlendis: gjaldeyrishöft, skattheimta og verðbólga.  Þessir þættir stóðu allir til bóta árið 2016, og munu þeir draga úr rýrnun samkeppnishæfni af völdum um 20 % styrkingar ISK á árinu.  Nú, 16.11.2016, hafa furðufuglarnir í Peningastefnunefnd Seðlabankans hins vegar ákveðið, að vegna um 5,0 % hagvaxtar 2016 sé óráð að lækka vexti.  Með þessu ráðslagi grefur bankinn undan trúverðugleika hagstjórnarinnar, því að ISK ofrís nú, og slíkt endar aðeins með kollsteypu. Í þessu sambandi má benda á Svíþjóð.  Þar er hagvöxtur um 4 % 2016, en stýrivextir sænska seðlabankans eru neikvæðir.  Hagfræðingarnir, sem þessu ráða í þessum tveimur löndum,virðast hafa gengið í mjög ólíka skóla.  Vonandi bjagar fortíð íslenzka Seðlabankastjórans sem Trotzkyisti ekki lengur viðhorf hans til raunveruleikans. 

Sviss, Singapúr og Bandaríkin eru efst á þessum lista WEF.  Svissneski frankinn, CHF, hefur fallið mjög m.t.t. USD á þessu ári, enda stýrivextir við 0 í Sviss.  Nú eru teikn á lofti um, að USD muni stíga m.v. aðra gjaldmiðla, einkum EUR og GBP, vegna vaxandi hagvaxtar og hækkandi stýrivaxta í upphafi valdatíðar Donalds J. Trump.

Hið merkilega er, m.v. umræðuna í fjölmiðlum, að á Íslandi stendur grunnskólakerfið og heilbrigðiskerfið vel að vígi samkvæmt WEF og skorar 6,6 af 7,0, og er Ísland þar í 7. sæti af 138 löndum. 

Þá er Ísland vel í sveit sett, hvað varðar að tileinka sér nýja tækni, skorar 6,2 og lendir í 8. sæti.

Hið síðast nefnda hlýtur að vera háð menntunarstigi í landinu og gæðum framhalds- og háskóla.  Vitað er hins vegar, að þar er pottur brotinn, svo að slembilukka gæti ráðið mikilli aðlögunarhæfni að nýrri tækni. 

Mennta- og menningarmálaráðherra vinstri stjórnarinnar 2009-2013 reif niður framhaldsskólakerfið með stórfelldum skerðingum á framlögum ríkisins til þess. Það var kreppa, en það er almennt viðurkennt, að við slíkar aðstæður má ekki ráðast á fræðslukerfið, því að það er undirstaðan fyrir viðsnúning.  Þá er mikilvægast að fjárfesta í framtíðinni

Þrátt fyrir þessi afglöp og stórfelld svik við kjósendur VG með umsókn ríkisstjórnar um aðild að ESB og undirlægjuhátt hennar við AGS og kröfuhafa föllnu bankanna, þá er téð Katrín samt vinsælasti stjórnmálamaður þjóðarinnar.  Ávirðingar hennar virðast enn ekki festast við hana, svo að hún verðskuldar vissulega heitið Teflón-Kata.

Illugi Gunnarsson, mennta-og menningarmálaráðherra ríkisstjórna Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Sigurðar Inga, 2013-2016, er af allt öðru sauðahúsi, enda lét hann hendur standa fram úr ermum við að bæta fyrir kárínur Katrínar í embætti.  Hann skrifaði mjög góða grein í Morgunblaðið 18. október 2016, "Endurreisn framhaldsskólans",

og verður nú vitnað í hana:

"Þegar núverandi ríkisstjórn tók við sumarið 2013, voru framlög á hvern nemanda í framhaldsskólum landsins um kkr 900 á verðlagi 2016.  Á árunum fyrir hrun hafði aðhaldskröfu verið beint að skólunum, en í kjölfar hrunsins var gengið mjög hart fram gagnvart framhaldsskólunum og þeir skornir mjög grimmt niður.  Til að setja kkr 900 framlagið á hvern nemanda í samhengi, þá er framlag á verðlagi ársins 2016 á hvern grunnskólanemanda um kkr 1´700.  Þessi skelfilega lága tala, sem blasti við sumarið 2013, stefndi öllu skólastarfi í voða, og engar raunhæfar áætlanir voru uppi um, hvernig unnið yrði úr þeirri stöðu."

Þessi hrikalega lýsing eftirmanns Teflón-Kötu á viðskilnaði hennar við embætti menntamálaráðherra bendir til, að hún sé óhæfur stjórnandi.  Ekki einvörðungu skar hún framhaldsskólana inn að beini, svo að starfsemi þeirra beið tjón af, heldur var hún svo sinnulaus um starf sitt, að hún lét undir höfuð leggjast að gera áætlun um endurreisnina.  Öll sú vinna féll í skaut eftirmanns hennar í embætti, og hann hafði forgöngu um kerfisbreytingar, sem leggja munu grundvöll að framhalds- og háskólakerfi í fremstu röð og að menntakerfi, sem eykur samkeppnishæfni þjóðfélagsins:

"Fjölmargar ástæður liggja því til grundvallar að fara úr fjögurra ára framhaldsskólakerfi í þriggja ára kerfi.  Ljóst var, að Ísland var eina landið innan OECD, þar sem 14 ár þurfti til að undirbúa ungmenni fyrir háskólanám, en önnur lönd kláruðu það verkefni á 12 eða 13 árum.  Ekki var hægt að víkja sér undan því að breyta þessu, gríðarlegir hagsmunir eru undir fyrir þjóðarbúið allt, og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur metið það svo, að þjóðarframleiðslan muni verða hærri sem nemur 14-17 miökr/ár vegna þessarar breytingar.  Ríkissjóður mun þar af leiðandi fá í sinn hlut um 5-7 miakr/ár í auknar skatttekjur, og munar um minna."

Illugi gat ekki vikizt undan skyldum sínum sem menntamálaráðherra til að auka skilvirkni framhaldsskólanna, um leið og hann skaut traustum fótum undir umbætur með mjög auknum fjárframlögum úr ríkissjóði.  Teflón-Kata átti hins vegar í engum erfiðleikum með það.  Hennar aðferð er að stinga hausnum í sandinn, ef hana grunar, að krefjandi verkefni sé handan við hornið: 

"Það, sem ég ekki sé, það er ekki fyrir hendi."

"Til viðbótar því fjármagni, sem mun bætast við framlög á hvern nemanda vegna styttingarinnar, þá liggur nú fyrir í samþykktri áætlun um ríkisfjármál til ársins 2021 ákvörðun um að auka framlög til framhaldsskólans um miakr 2,6 á þeim tíma, sem áætlunin nær til. 

Þar með mun framlag á hvern nemanda aukast úr rúmum kkr 900 í um kkr 1´570 árið 2021, og svigrúm er til enn frekari hækkana, ef vilji stendur til slíks. 

Þetta mun gjörbreyta öllu starfi framhaldsskólanna, möguleikum þeirra til að sinna hverjum nemanda með fullnægjandi hætti og tryggja, að menntun ungmenna á Íslandi sé jafngóð því, sem bezt gerist í þeim löndum, sem við viljum bera okkur saman við um lífskjör."

Ofan á sveltigildi Teflón-Kötu er Illugi búinn að bæta kkr 670 eða 74 % sem framlagi ríkisins per nemanda á ári að raunvirði.  Þá verður þetta framlag hærra en allra hinna Norðurlandanna, nema Noregs, og 42 % hærra en meðaltal OECD var árið 2012.  Ef svo fer fram sem horfir um þróun efnahagsmála, verður framlag ríkisins á Íslandi hið hæsta á Norðurlöndunum árið 2021. Er það vel að verki verið hjá Illuga og ríkisstjórninni, sem hann sat í 2013-2016. 

Átak er nauðsynlegt á þessu kjörtímabili í fjármögnun háskólanna, svo að góður menntunargrunnur beri hámarks ávöxt.  Illu heilli stöðvaði Teflón-Kata, ásamt öðrum afturhaldsöflum í blóra við vilja stúdenta, framgang frumvarps Illuga um fjárhagslegt stuðningskerfi við stúdenta í lok síðasta þings haustið 2016.  Frumvarpið innihélt fjárhagslega hvata fyrir stúdenta til að standa sig í námi og ljúka því án tafa.  Umbætur Illuga beinast allar að aukinni framleiðni og auknum gæðum, en skilvirkni er eitur í beinum Teflón-Kötu. Þar situr aumingjavæðingin í fyrirrúmi, enda þjónar slíkt flokkshagsmunum Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs.  Stórskuldugir eilífðarstúdentar, sem aldrei verða borgunarmenn himinhárra skulda við LÍN, eru hennar menn. 

Mjög jákvætt teikn við íslenzka þjóðfélagið er atvinnuþátttaka ungmenna á aldrinum 15-29 ára.  Á meðal aðildarríkja OECD er hún mest á Íslandi eða um 78 %. Aðgerðarleysi og atvinnuleysi ungmenna er í mörgum löndum stórfellt þjóðfélagslegt og efnahagslegt vandamál.

Í Sviðsljósi Björns Jóhanns Björnssonar í Morgunblaðinu, 13. október 2016, stendur þetta í upphafi greinarinnar:

"Atvinnuþátttaka ungmenna hvergi meiri":

"Samkvæmt nýrri skýrslu frá OECD, Efnahags- og framfarastofnuninni, virðast íslenzk ungmenni búa við mun betri aðstæður en [ungmenni] í öðrum löndum.  Þannig er atvinnuþátttaka 15-29 ára um 80 % hér á landi, en hlutfallið er 2 % í Grikklandi og 28 %-37 % á Ítalíu, Spáni og Portúgal."

Að Ísland skuli fá hæstu einkunn innan OECD fyrir atvinnutækifæri til handa ungmennum, er einhver þýðingarmesta umsögn, sem íslenzka þjóðfélagið getur fengið, og vitnar um heilbrigði þess, fólks, atvinnulífs og stjórnarfars, hvað sem úrtöluröddum niðurrifsaflanna líður.  Ýmsar úrtöluraddir telja íslenzka samfélagið of lítið til að geta staðizt sjálfstætt.  Af 35 ríkjum OECD í þessum samanburði er meðaltalið rúmlega 50 % atvinnuþátttaka ungmenna.  Til hvers að vera stór eða hluti af stóru ríkjasambandi, ef það þýðir mun verri aðstæður og færri atvinnutækifæri fyrir nýja kynslóð ?

Þessu tengd eru lífslíkur, sem eru einna hæstar á Íslandi innan OECD, svo og lífsánægjan, sem fær 7,5 af 10,0 á Íslandi. 

Að lokum skal birta hér upplýsingar um fátækt innan OECD, sem sýna svart á hvítu, að jöfnuður er tiltölulega mikill á Íslandi, enda er menntakerfi, eins og hið íslenzka, öflugasta jöfnunartækið:

"Þegar tölur um fátækt eru skoðaðar, er hlutfall ungmenna einna hæst í flestum ríkjum, einkum þar sem ungmenni fara fyrr að heiman.  Á Íslandi er hlutfall ungmenna, sem teljast búa við fátækt, rúm 5 %.  Um 3 % eldri borgara á Íslandi búa við fátækt samkvæmt OECD.  Eru þær tölur frá árinu 2014.

Athygli vekur, að 25 % ungmenna (16-29 ára) í Bandaríkjunum búa við fátækt, um 24 % í Danmörku, 23 % í Noregi og tæp 20 % í Svíþjóð.  Hvað Norðurlöndin varðar, er í skýrslunni sérstaklega bent á, að ungt fólk flytji fyrr úr foreldrahúsum en víðast annars staðar."

Íslendingar geta verið stoltir af þjóðfélagi sínu varðandi aðbúnað ungmenna og tækifæri þeirra til náms og starfa.  Það er þó vissulega hægt að gera betur. Viðskilnaður fráfarandi ríkisstjórnar er glæsilegur í þessum efnum, en hvort ný ríkisstjórn hefur vit á því að beina kröftunum í rétta átt, þ.e. þangað, sem mestu varðar að ná frábærum árangri út frá sanngirnissjónarmiðum og fjárhagslegum ávinningi samfélagsins er önnur saga.  Það er líka undir hælinn lagt, hvort hún ratar rétta braut að ákvörðunarstað eða þvælist bara fyrir framförum.  Sporin hræða.

 

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband