Færsluflokkur: Menntun og skóli
23.8.2022 | 17:02
Stjórnmálamenn, embættismenn og rekstur fara illa saman
Það, sem talið er upp í fyrirsögninni, virðist vera eitruð blanda, þótt kaffihúsasnatinn Karl Marx hafi um miðja 19. öldina talið fyrirkomulagið varða leiðina inn í draumaríki kommúnismans, sem mundi leysa auðmagnskerfi Adams Smiths af hólmi. Allt voru þetta ranghugmyndir raunveruleikafirrts heimspekings.
Hérlendis hafa undanfarið dunið á almenningi fréttir um ríkisrekið heilbrigðiskerfi, sem sé að hruni komið, og leikskólakerfi borgarinnar, sem annar ekki þörfinni. Einkenni opinbers rekstrar eru óhóflegar biðraðir, sem oftast lengjast, og sú er einmitt raunin í þessum tveimur kerfum. Samt er gríðarleg tregða hjá embættismönnum og stjórnmálamönnum að grípa til þeirra einu ráða, sem duga til að bæta þjónustuna, þ.e. úthýsingar starfsemi hins opinbera til einkaframtaksins. Á því græða bæði skjólstæðingar ömurlegrar þjónustu hins opinbera og skattborgararnir. Opinber rekstur stenzt einkaframtakinu einfaldlega ekki snúning, og það er reginhneyksli hérlendis á 21. öldinni, að stjórnmálamenn skuli standa uppi ráðþrota og bara berja hausnum við steininn. Vilji er allt, sem þarf til að berjast við embættismennina, sem standa vörð um þetta rotna kerfi.
Þann 16. ágúst 2022 birti Morgunblaðið lýsandi viðtal um þá stöðu, sem að ofan er lýst. Þar er lýst ofan í ormagryfjuna. Fréttin hófst þannig:
"Eins og fram hefur komið, er mikill skortur á læknum á Íslandi. Nú er svo komið, að í nokkrum sérfræðigreinum er meirihluti lækna yfir 60 [ ára] og mikill skortur á nýliðun [svo !; nýliðun er lítil]. Þannig er staðan í augnlækningum í dag. 59 % starfandi augnlækna eru 60 ára eða eldri, og meira en helmingur þeirra, sem eru eldri en 60, eru komnir yfir 70. Ljóst er, að bregðast þarf við þessu grafalvarlega ástandi.
Jóhannes Kári Kristinsson, augnlæknir á augnlæknastöðinni Augljós, segir, að ekki hafi verið gerð nákvæm úttekt á því, hversu marga augnlækna þurfi, til að ástandið [verði] bærilegt.
"Það er erfitt að meta þetta, en hins vegar er alveg ljóst, að heilbrigðisyfirvöld, og þá sérstaklega Sjúkratryggingar, hafa að mörgu leyti brugðizt sinni skyldu. Augnlækningar eru fag, sem byggist oft eingöngu á samningum við Sjúkratryggingar, því [að] það eru ekki allir augnlæknar, sem vinna á sjúkrahúsum [betra er: ekki vinna allir augnlæknar á sjúkrahúsum-innsk. BJo]. Nú hafa samningar verið lausir í 4 ár; nýir sérfræðingar úr námi hafa átt erfitt með að komast á samning, og án samnings eru þeir ekki samkeppnishæfir við aðra augnlækna. Þeir geta jafnvel séð hag sínum betur borgið að verða áfram erlendis eða flytja aftur út með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir íslenzkt heilbrigðiskerfi.""
Hér er vandamál ríkisrekstrarins í hnotskurn. Embættismenn í heilbrigðisráðuneyti og/eða hjá Sjúkratryggingum Íslands draga lappirnar við samningsgerð við sérfræðilækna, t.d. á sviði augnlækninga, og búa þar með til tvöfalt heilbrigðiskerfi og læknaskort vegna þess, að ungir læknar í sérnámi erlendis skortir réttu hvatana frá ríkisvaldinu til að hasla sér völl á íslenzkum vinnumarkaði. Aðalástæða þessarar óeðlilegu og stórskaðlegu hegðunar embættismannanna er af hugmyndafræðilegum toga. Þeir eru illa haldnir af grillum um, að heilbrigðisþjónusta eigi hvergi annars staðar heima en á stofnun í opinberri eigu, helzt í ríkiseigu, en rekstur slíkra stofnana er nánast undantekningarlaust með þeim ömurlega hætti, að þar myndast biðraðir, jafnvel með bið í meira en eitt ár. Nýtingu tækjakosts er þar ábótavant og óánægja í starfi landlæg, sem leiðir til starfsmannahörguls og yfirálags. Engu virðist breyta, þótt hellt sé í hítina fé úr ríkissjóði í meira mæli en nokkru sinni fyrr á alla mælikvarða.
Auðvitað kom þessi ömurlega hugmyndafræði alla leið frá ráðherra málaflokksins í síðustu ríkisstjórn, sem hrúgaði nýjum verkefnum á yfirlestaðan Landsspítalann glórulaust með slæmum afleiðingum. Eins og nýr stjórnarformaður Landsspítalans hefur ýjað að, verða þessi vandamál ekki leyst, nema Landsspítalinn taki upp nýtt fjármögnunarkerfi (greiðslu fyrir verkþátt) og úthýsingu til einkarekinna læknastofa.
Svipað vandamál er fyrir hendi í menntageiranum. Svik borgarstjórans í Reykjavík gagnvart foreldrum með börn á 2. ári hafa verið í sviðsljósinu, enda svæsin og endurtekin. Ástandið í Reykjavík er þannig, að augljóslega ráða stjórnmálamenn og embættismenn ekki við viðfangsefnið, enda gufaði borgarstjóri upp strax eftir fyrsta hústökufundinn í Ráðhúsinu, eins og hans var von og vísa, sbr skolpmálið alræmda, þegar hann lét ekki ná í sig. Hvers vegna er ekki löngu búið að virkja einkageirann á þessu sviði og hætt að láta stjórnmálamenn og embættismenn borgarinnar fást við það, sem löngu er útséð með, að þeir ráða ekki við ? Þaðan kemur ekkert annað en froðusnakk og þokulegar glærusýningar, sem foreldrar hafa ekkert gagn af og fóru þar af leiðandi í taugarnar á þeim á hústökufundi með varaborgarstjóra. Viðbára jafnaðarmanna er jafnan sú, að enginn megi græða á þessari starfsemi. Hvers vegna er það "tabú", ef það leysir brýnan vanda fjölda fólks og veitir samfélagslegan sparnað og/eða tekjuauka ? Fordómar eru vandi jafnaðarstefnunnar í hnotskurn. Jafnaðarstefnan glímir við tæringu. Farið hefur fé betra.
"Jóhannes var yfirlæknir hjá augnlækningastöðinni Sjónlagi á árum áður. "Á árunum 2006-2008 reyndum við að koma á augnsteinsaðgerðum fyrir utan spítala í fyrsta sinn. Það hafði myndazt 2 ára biðlisti, og vandinn fór sífellt vaxandi. Við áttum samtal við 3 heilbrigðisráðherra, og það var alltaf sama sagan. Gríðarleg tregða er gagnvart því að koma verkum út af spítalanum til að framkvæma þau í miklu ódýrara húsnæði. Það endaði með því, að við keyptum bara inn tæki til augnsteinsaðgerða án þess að hafa fengið samning, og þau lágu nær ónotuð í 2 ár. Þetta bjó þó til þrýsting á Sjúkratryggingar og á ráðherra. Þó var það ekki fyrr en í ráðherratíð Guðlaugs Þ. Þórðarsonar, að loksins var tekin ákvörðun í málinu árið 2008. Í kjölfarið voru augasteinsaðgerðir boðnar út, og þær voru þá framkvæmdar í fyrsta sinn utan spítala hér á landi. Við þetta styttust biðlistarnir hratt, og viðbótar tilkostnaður varð ekki mikill. Þessir samningar, sem verið er að gera við augnlækna utan spítalans, eru alveg gríðarlega hagstæðir. Það er stjarnfræðilegur munur á kostnaði við að senda sjúkling til útlanda í aðgerðir eða sinna þeim hér á stofum. Þessi tregða við að gera hlutina ódýrar og hagkvæmar er óskiljanleg."
Þetta er afar lýsandi dæmi um tregðu embættismannakerfisins til breytinga, sem leitt geta til samkeppni við ríkisstofnun. Frumkvöðlar ræða við ráðherra og gera honum grein fyrir því, að tækniþróunin hafi nú gert kleift að auka afköstin og spara ríkissjóði fé með úthýsingu verkefna frá Landsspítala-háskólasjúkrahúsi, sem annar ekki verkefnunum og veldur þar með þjáningum fjölmargra og óþarfa samfélagslegum kostnaði. Ráðherra talar við ráðuneytisfólk sitt, en það er í hugmyndafræðilegum viðjum ríkisrekstrar og lítur jafnvel á nýbreytni sem ógnun við kerfið fremur en tækifæri fyrir sjúklinga og skattgreiðendur. Hann talar síðan við forstjóra Landsspítalans, sem strax fer í vörn og finnur samkeppni um sjúklingana flest til foráttu. Ráðherrann skortir sannfæringu, innsæi og/eða stjórnunarhæfileika til að halda áfram með málið, og þingflokkur hans maldar jafnvel í móinn. Þetta er meginskýringin á botnfrosnu kerfi, sem ræður ekkert við verkefnin sín og er að hruni komið (lýsing núverandi forstjóra Landsspítalans á stöðu spítalans var sú nú í ágúst, að staðan þar hefði aldrei verið verri og að spítalinn væri að þrotum kominn, sem þýðir , að sjúklingarnir muni ekki njóta eðlilegrar þjónustu). Þetta hreyfir ekkert við búrókratíinu. Það er að veita neina þjónustu. Það er að standa vörð um kerfið sitt.
Nú er komin stjórn yfir Landsspítalann með stjórnarformann með auga fyrir skilvirkri stjórnun og rekstri. Ráðherra er þannig kominn með viðmælanda, sem getur ráðlagt honum af viti um útvistun verkefna, og ráðherrann verður að hrista upp í gaddfreðnum Sjúkratryggingum Íslands og koma á alvöru samningaviðræðum við "stofulæknana".
"Núna er staðan mjög slæm og líklega að verða tveggja ára bið eftir að komast í augasteinsaðgerð. Það er bilað ástand. Þessar hefðbundnu aðgerðir, sem flestir fara í, taka 10 mín/auga." Hann bendir á, að önnur aðgerð, sem er nú eingöngu gerð á sjúkrahúsi, ætti betur heima utan þess. "Það eru sprautumeðferðir í augnbotni, s.k. glerhlaupsinndælingar. Þá er lyfi sprautað inn í augað við sjúkdómi, sem fellur undir ákveðna gerð af hrörnun í augnbotnum. Þessi aðgerð hefur verið bylting í meðferð á þessum sjúkdómi. Hún tekur stuttan tíma og er framkvæmd aðallega af aðstoðarlæknum á spítalanum á skurðstofu, en væri hægt að framkvæma á hvaða stofu sem er, eins og víða er gert í löndunum í kringum okkur. Hérlendis má ekki framkvæma þessa aðgerð á stofu, því [að] lyfin, sem notuð eru til að sprauta í augun, eru með S-merkingu, sem þýðir, að eingöngu megi nota þau á spítala.
Það er engin ástæða fyrir því, að þessi lyf eru S-merkt í þessum tilvikum. Ef því væri breytt, væri hægt að framkvæma inndælingarnar á stofu sérfræðinga og nýta skurðstofur spítalans betur til að stytta biðlista fyrir augasteinsaðgerðir."
Þetta er svakaleg lýsing á heilbrigðiskerfi í fjötrum einokunar ríkisrekstrar. Klóför embættismanna, sem berjast með kjafti og klóm fyrir einokun Landsspítalans í smáu og stóru, má greina. Þarna binda búrókratarnir notkun lyfs við spítala í stað þess að binda hana við viðurkennda sérfræðinga. Þessi mismunun lækna á spítala og sérfræðinga á stofu varðar líklega við lög. Það er verið að skerða atvinnufrelsi, sem varið er í Stjórnarskrá. Þegar svona er í pottinn búið, er aðeins von, að keraldið leki. Ráðherrann verður að fá einhvern með rekstrarvit og auga fyrir sparnaði til að greina kerfisbundið, hvaða verkefni hins opinbera eru hæf til útvistunar og leggja tillöguna fyrir stjórn Landsspítalans og fulltrúa stofulækna til umsagnar.
Á meðan uppstokkun verkefnaskiptingar Landsspítalans og læknastofanna er látin dankast og samningsgerð Sjúkratrygginga Íslands við sérfræðilækna á stofum er látin reka á reiðanum, lengjast biðlistar með hörmulegum afleiðingum og læknaskorturinn verður sárari. Verknámsaðstaða Landsspítala er flöskuháls á útskriftarfjölda lækna og þar með innritunarfjölda. Jafnframt alvöru samningaviðræðum við fulltrúa læknastofanna má ræða við þá um möguleika á að taka við læknanemum í þjálfun til að auka útskriftargetuna. Þessi ofurtrú á stofnanaveldi og ríkisrekstur er ótrúlega lífseig tímaskekkja m.v. ömurlega reynslu hér og annars staðar af þessu trénaða fyrirkomulagi.
28.11.2017 | 11:29
Menntunarkröfur
Það hafa sézt stórkarlalegar yfirlýsingar um hina svo kölluðu "Fjórðu iðnbyltingu", sem gjörbreyta muni vinnumarkaðinum. Ein slík er, að eftir 20 ár verði 65 % núverandi starfa ekki til.
Þetta er loðin yfirlýsing. Er meiningin sú, að 65 % færra fólk starfi að núverandi störfum, eða er virkilega átt við, að 65 % núverandi verkefna verði annaðhvort horfin eða unnin af þjörkum ?
Fyrri merkingin er að mati blekbónda harla ólíkleg, en sú seinni nánast útilokuð. Það er, að mati blekbónda", ekki mögulegt að framleiða róbóta með gervigreind, sem verði samkeppnishæf við "homo sapiens" við að leysa 65 % starfategundir af hólmi.
Hins vegar gefur þessi framtíðarsýn réttilega vísbendingu um gríðarlegar þjóðfélagsbreytingar á næstu áratugum, sem tækniþróunin mun leysa úr læðingi. Aðalbreytingin verður ekki fólgin í því, að margar tegundir starfa hverfi, eins og ýjað er að, heldur í því, að verkefni, ný af nálinni, verða til.
Þessu þarf menntakerfið að bregðast við á hverjum tíma, því að það á ekki einvörðungu að búa fólk undir að takast á við viðfangsefni líðandi dags, heldur viðfangsefni morgundagsins. Þetta er hægara sagt en gert, en það er hægt að nálgast viðfangsefnið með því að leggja breiðan grunn, þaðan sem vegir liggja til allra átta, og það verður að leggja meiri áherzlu á verknám og möguleikann á tækninámi í framhaldi þaðan. Þá er höfuðnauðsyn á góðri verklegri kennslu í tæknináminu, iðnfræði-, tæknifræði- og verkfræðinámi, og þar með að ýta undir eigin sköpunarkraft og sjálfstæði nemandans, þegar út í atvinnulífið kemur. Þótt þetta sé dýrt, mun það borga sig, enda fengist viðunandi nýting á búnaðinn með samnýtingu iðnskóla (fjölbrauta), tækniskóla (HR) og verkfræðideilda.
Það er áreiðanlegt, að orkuskiptin munu hafa í för með sér róttækar breytingar á samfélaginu. Sprengihreyfillinn mun að mestu heyra sögunni til um miðja 21. öldina. Þetta hefur auðvitað áhrif á námsefni skólakerfisins og ákveðin störf, t.d. bifvélavirkja, en bíllinn, eða landfartækið í víðum skilningi, verður áfram við lýði og viðfangsefni bifvélavirkjans sem rafknúið farartæki. Námsefni bifvélavirkjans færist meira yfir í rafmagnsfræði, skynjaratækni, örtölvur og hugbúnað.
Rafmagnið verður aðalorkuberinn á öllum sviðum þjóðlífsins, þegar orkuskiptin komast á skrið eftir áratug eða svo. Það er tímabært að taka þessu sem staðreynd og haga námskrám, námsefni, ekki sízt hjá kennurum, samkvæmt því nú þegar. Sama gildir um forritun. Það er nauðsynlegt að hefja kynningu á þessum tveimur fræðigreinum, rafmagnsfræði og forritunarfræði, í grundvallaratriðum, við 10 ára aldur.
Jafnframt er nauðsynlegt að auka tungumálalega víðsýni barna með því að kynna þeim fleiri tungumál en móðurmálið og ensku við 11 ára aldur. Ekki ætti að binda sig við dönsku, heldur gefa kost á norsku, sænsku, færeysku, þýzku, frönsku, spænsku og jafnvel rússnesku, eftir getu hvers skóla til að veita tungumálatilsögn.
Það er skylda grunnskólans að veita nemendum trausta grunnþekkingu á uppbyggingu móðurmálsins, sem óhjákvæmilega þýðir málfræðistagl, því að málfræði hvers tungumáls er beinagrind þess, og hvað getur líkami án beinagrindar ? Hann getur skriðið, en alls ekki gengið, hvað þá með reisn. Góður kennari getur gert málfræði aðgengilega og vel þolanlega fyrir meðalnemanda. Til að að ráða við stafsetningu íslenzkunnar er grundvallaratriði að leita uppruna orðanna. Þetta innrætir góður kennari nemendum, og þannig getur stafsetning jafnvel orðið spennandi fag. Það er t.d. alger misskilningur, að reglur um z í málinu séu snúnar. Þær eru einfaldar, þegar leitað er upprunans, og það voru mikil mistök að leggja þennan bókstaf niður á sínum tíma. Afleiðingin er sú, að ritháttur sumra orða verður afkáralegur í sumum myndum.
Niðurstöður PISA-kannananna gefa til kynna, að gæði íslenzka grunnskólakerfisins séu að versna í samanburði við gæði grunnskólakerfa annarra landa, þar sem 15 ára nemendur á Íslandi ná sífellt lakari árangri, t.d. í raungreinum. Þessu verður að snúa við hið snarasta, því að annars fellur íslenzka grunnskólakerfið á því prófi, að búa ungu kynslóðina undir hina títt nefndu "Fjórðu iðnbyltingu", sem reyndar er þegar hafin. Þessi ófullnægjandi frammistaða 15 ára nemenda er með ólíkindum, og hér er ekki um að kenna of litlu fjármagni til málaflokksins, því að fjárhæð per nemanda í grunnskóla hérlendis er á meðal þeirra hæstu, sem þekkjast. Það er vitlaust gefið. Þetta er kerfislægur vandi, sem m.a. liggur í of mikilli einhæfni, skólinn er um of niður njörvaður og einstaklingurinn í hópi kennara og nemenda fær of lítið að njóta sín. Það er sjálfsagt að ýta undir einkaskóla, og það er sjálfsagt að leyfa duglegum nemendum að njóta sín og læra meira. Skólinn þarf að greina styrkleika hvers nemanda ekki síður en veikleika og virkja styrkleikana. Allir eiga rétt á að fá tækifæri til að veita kröftum sínum viðnám innan veggja skólans, ekki bara í leikfimisalnum, þótt nauðsynlegur sé.
Skólakerfið er allt of bóknámsmiðað. Það þarf að margfalda núverandi fjölda, sem fer í iðnnám, og vekja sérstakan áhuga nemenda á framtíðargreinum tengdum rafmagni og sjálfvirkni.
Sigurbjörg Jónsdóttir, kennari, hefur skrifað lokaritgerð í meistaranámi í verkefnastjórnun við Háskólann í Reykjavík. Þann 7. nóvember 2017 sagði Höskuldur Daði Magnússon stuttlega frá henni í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:
"Mælivilla í niðurstöðum PISA":
""Þegar PISA er kynnt fyrir nemendum, er þeim sagt, að þeir séu að fara að taka próf, sem þeir fái ekki einkunn fyrir og skili þeim í raun engu. Þetta eru 15-16 ára krakkar, og maður spyr sig, hversu mikið þeir leggja sig fram. Ég veit, að sums staðar hefur þeim verið lofað pítsu að launum. Ég hugsa, að anzi margir setji bara X einhvers staðar", segir Sigurbjörg Jónsdóttir, kennari, um lokaritgerð sína í meistaranámi í verkefnastjórnun við Háskólann í Reykjavík."
Eigi er kyn, þótt keraldið leki, þegar nemendum er gert að gangast undir próf án nánast nokkurs hvata til að standa sig vel. Ætli þetta sé ekki öðru vísi í flestum samanburðarlöndunum ? Það virðist ekki ósanngjarnt, að viðkomandi skóli mundi bjóða nemendum það að taka niðurstöðuna með í lokamatið á þeim, ef hún er til hækkunar á því, en sleppa því ella.
"Þegar ég fór svo að kafa betur ofan í PISA-verkefnið, kemur í ljós, að það er mikil mælivilla í niðurstöðunum hér á landi. Við erum einfaldlega svo fá hér. Í öðrum löndum OECD eru tekin úrtök nemenda, 4-6 þúsund, en hér á landi taka allir prófið. Þar að auki svara krakkarnir hér aðeins 60 spurningum af 120, og í fámennum skólum eru ekki allar spurningar lagðar fyrir. Svo hefur þýðingunni verið ábótavant, eins og fram hefur komið."
Þetta er réttmæt gagnrýni á framkvæmd PISA-prófanna hérlendis, og andsvör Arnórs Guðmundssonar, forstjóra Menntamálastofnunar baksviðs í Morgunblaðinu, 9. nóvember 2017 í viðtali við Höskuld Daða Magnússon undir fyrirsögninni,:
"Meintar mælivillur byggðar á misskilningi", eru ósannfærandi.
Að aðrir hafi um úrtak að velja, skekkir samanburðinn líklega íslenzkum nemendum í óhag, en það er lítið við því að gera, því að það er ekki til bóta, að hér taki færri þetta samanburðarpróf en annars staðar.
Það hefur engin viðunandi skýring fengizt á því, hvers vegna allar spurningar prófsins eru ekki lagðar fyrir alla íslenzku nemendurna, og þetta getur skekkt niðurstöðuna mikið. Hvers vegna eru lagðar færri spurningar fyrir nemendur í minni skólum en stærri ? Það er afar skrýtið, svo að ekki sé sterkar að orði kveðið.
Ef þýðing prófs á móðurmál viðkomandi nemanda er gölluð, veikir það augljóslega stöðu nemenda í viðkomandi landi. Það er slæm röksemd Menntamálastofnunar, að endurtekinn galli ár eftir ár eigi ekki að hafa áhrif á samanburð prófa í tíma. Þýðingin á einfaldalega að vera gallalaus og orðalagið fullkomlega skýrt fyrir nemanda með góða málvitund. Þýðingargallar ár eftir ár bera vitni um óviðunandi sleifarlag Menntamálastofnunar og virka til að draga Ísland stöðugt niður í samanburði á milli landa. Nóg er nú samt.
16.6.2017 | 15:02
Stjórnarandstaða í ruslflokki
Stjórnarandstaðan á Íslandi hefur engan annan valkost við ríkisstjórnina fram að færa en stórhækkaða skattbyrði á miðstéttina, útþenslu ríkisbáknsins með hallarekstri, verðbólgu og vinnudeilum sem afleiðingu.
Nú síðast hafa talsmenn Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, Katrín Jakobsdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir o.fl., tekið að fjargviðrast út af sýnilegum viðbúnaði lögreglunnar á mannamótum í Reykjavík gegn illvirkjum. Er svo að skilja af málflutninginum, að slík návist lögreglunnar sé viðstöddum hættuleg; hún dragi að illvirkja.
Hér er svo nýstárlegur málflutningur á ferð, að nauðsynlegt er að deila þessari speki með lögregluyfirvöldum í öðrum löndum, sem tekin eru upp á þessu sama í kjölfar viðbjóðslegra hryðjuverka Múhameðstrúarmanna á Vesturlöndum, sem standa nú í forneskjulegu "heilögu stríði", Jihad, gegn Vesturlöndum og þeirri menningu, sem þau standa fyrir.
Hér er á ferðinni eitt dæmið af mörgum um glópsku fólksins í stjórnarandstöðunni. Þau hafa löngum haldið því fram, að vörnum landsins yrði bezt fyrir komið án hervarna og án aðildar að NATO. Nú halda þau því með sama hætti fram, að hættulegt sé að hafa í frammi sýnilegar varnir og viðbúnað gegn hryðjuverki. Vinstri menn eru öfugmælaskáld okkar tíma, og enginn kemst með tærnar, þar sem þeir hafa hælana í fíflaganginum. Eru vinstri menn margir hverjir hérlendir sennilega lengst til vinstri í vinstra litrófinu á Vesturlöndum og svipar til "Die Linke" í Þýzkalandi, sem eru arftakar SED, "Sozialistische Einheitspartei Deutschlands", sem fór með alræðisvald í DDR á sinni tíð. Er það ekki leiðum að líkjast, eða hitt þó heldur.
Kári er maður nefndur, Stefánsson, kenndur við Erfðagreiningu, sonur Stefáns Jónssonar, frábærs fréttamanns og liðtæks penna, fyrrverandi þingmanns Alþýðubandalagsins, sem var arftaki Kommúnistaflokks Íslands á sinni tíð. Þrátt fyrir að vera framtaksmaður virðist Kári, þessi, vera býsna langt til vinstri í ýmsum skoðunum, en það aftrar honum þó ekki frá því að gefa núverandi stjórnarandstöðu á Íslandi falleinkunn fyrir ferlega frammistöðu. Hann líkir henni við sveitahund, sem beit í álfótlegg föður hans forðum og vissi ekki, hvaðan á sig stóð veðrið. Kári ritaði um þetta óvenju skemmtilega grein í Fréttablaðið 6. júní 2017,
"Heppin þjóð":
"Og ég prísa okkur samt sæl, þótt undarlegt megi virðast. Þegar bölvunin verður blessun, sem gerist af og til [danskt orðalag-innsk. BJo], minnir það mig gjarnan á sögu, sem ég hef oft sagt af því, þegar faðir minn sté út úr bíl við bæ í Suðursveit, og hundur rauk á hann og beit hann í hægri fótlegginn. Faðir minn var einfættur og með gervifótlegg úr áli hægra megin, þannig að hundgreyið fékk taugaáfall og þaut ýlfrandi frá bænum, niður brekkuna, fyrir fjóshorn og sást ekki aftur í nokkra daga. En faðir minn leit á mig og sagði brosandi út undir eyru: "þarna sérðu, strákur, það er ekki alltaf vont að hafa glatað fæti".
Stjórnarandstaðan á Þingi er sá hundur, sem hefur sannfært mig um, að núverandi ríkisstjórn sé ekki það versta, sem hefði getað komið fyrir okkur. Stjórnarandstaðan er gagnslaus, hugmyndasnauð og málstola. Hvar eru tillögur stjórnarandstöðunnar um endurreisn heilbrigðiskerfisins, til minnkunar á muninum á þeim, sem eiga og eiga ekki, að heilbrigðu bankakerfi og til þess að takast á við árekstra hagsmuna samfélagsins og hagsmuna þeirra, sem samfélagið hefur kosið til þess að stjórna sér ? Hvar er stjórnarandstaðan ? Skyldi hún halda, að hún sé að ferja okkur inn í betri heim og að leiðin liggi í gegnum Vaðlaheiðargöngin ? Það er eins gott fyrir hana að gera sér grein fyrir því, að í þá ferð fer hún ein. Það fylgir henni enginn.
Að lokum ráð til lesandans: þegar þú fyllist örvæntingu út af vesöld ríkisstjórnarinnar, mundu, að þetta hefði gerað verið verra. Við hefðum getað endað með núverandi stjórnarandstöðu í ríkisstjórn, og það er staðreynd, að þótt ríkisstjórnin sé býsna slöpp, er stjórnarandstaðan líklega verri. Þar af leiðandi eigum við kannski að prísa okkur sæl fyrir þann gervifót, sem ríkisstjórnin er, þótt það þýði, að við verðum ein og óstudd að sjá um að veita henni aðhald. Stjórnarandstaðan á Þingi leggur þar næstum ekkert af mörkum."
Hér tekur framtaksmaður af eðalkommaætt stjórnarandstöðuna á kné sér og lætur hana hafa það óþvegið að hætti hússins. Hér er enginn aukvisi á ferð og augljóst, að getuleysi, flumbrugangur, kjaftavaðall og rangar áherzlur stjórnarandstöðunnar hafa gengið svo fram af vinstri manninum, að hann sér þann kost vænstan að stofna nýjan stjórnmálaflokk, "Kárínurnar", til að freista þess að berjast fyrir hugðarefnum sínum á Alþingi, þar sem þar sé enginn, sem talar máli hans. Þetta eru nokkur tíðindi ofan á "ekki-fréttina" af stofnun Sósíalistaflokks Íslands. Skyldu ekki vinstri menn fyllast valkvíða, þegar þeir ganga að kjörborðinu næst ? Kannski þeir gefist þá upp á að gera upp á milli fulltrúa hins eina sannleika og kjósi bara Píratana, sem hvarvetna annars staðar eru að hverfa af vettvangi stjórnmálanna.
Hvernig svara stjórnmálaflokkarnir kalli framtíðarinnar ? Hvað bíður okkar í framtíðinni ? Um það skrifaði Þorkell Sigurlaugsson, viðskiptafræðingur og formaður menntamálanefndar Sjálfstæðisflokksins, áhugaverða grein í Viðskiptablaðið 8. júní 2017,
"Er erfitt að spá fyrir um framtíðina ?:
"Ferðaþjónustan er gott dæmi um undirbúningsleysi stjórnvalda, en fiskveiðistjórnun og stýring á því sviði er að flestu leyti til fyrirmyndar. Stefnumörkun, t.d. í atvinnumálum, menntamálum og á öðrum sviðum, þarf að vera mun skýrari og byggja á meira samstarfi stjórnvalda og atvinnufyrirtækja."
Er stjórnarandstaðan líkleg til afreka á þessu sviði ? Hún vill rífa niður fiskveiðistjórnunarkerfið. Afstaða hennar til atvinnulífsins er bæði einhæf og neikvæð, enda reist á skilningsleysi á þörfum þess og getu. Stjórnarandstaðan lítur á atvinnulífið sem skattstofn, og er sjávarútvegurinn gott dæmi um það, en hún hefur lýst fyrirætlunum sínum um stórfellt aukna skattheimtu af honum til að fjármagna aukin ríkisumsvif. Við núverandi aðstæður mundi slíkt hafa hrun hinna minni fyrirtækja vítt og breitt um landið í för með sér, sem oft eru reist á dugnaði eins framtaksmanns eða framtakshjóna.
"Þetta [ný iðnbylting] kallar á nýja hugsun, alveg eins og rafmagnið umbreytti þjóðfélaginu. Við hættum fyrir löngu að tala um rafmagnið og mikilvægi þess. Það er orðið sjálfsagður hlutur, og allt okkar líf og starf byggist á því. Sama gildir um Internetið, það er orðið 40 ára gamalt. Við tölum um það með öðrum hætti en áður, og það er orðið sjálfsagt til samskipta og viðskipta. Nýting Internetsins, þráðlausra og stafrænna lausna og nýting gervigreindar, er rétt að byrja."
Það er ekki ríkisvaldið, heldur einkaframtakið, stórfyrirtæki, framtaksmenn og frumkvöðlar, sem eru í fararbroddi þessarar þróunar. Stjórnarandstaðan vill bara skattleggja einkaframtakið undir drep og þenja út ríkisbáknið. Þar með kæfir hún þróun og frumkvöðlastarfsemi hérlendis og veldur atgervisflótta og flótta verðmætra starfa til útlanda. Stefna íslenzku stjórnarandstöðunnar er í þágu nýrra starfa á erlendri grundu.
"Við verðum að taka þátt í þessari 4. iðnbyltingu, því að lífskjör Íslendinga, lífsgæði og lífsgleði, munu ráðast af því, hvernig til tekst. Verðmætasköpun mun í vaxandi mæli byggja á hugviti, sköpun og þekkingu til að auka framleiðni og verðmætasköpun. Þekkingin getur auðveldlega flutzt af landi brott, ef við sköpum ekki tækifæri hér á landi. Hún verður ekki í höftum eða bundin við Ísland, eins og fasteignir, fiskveiðikvóti eða aðrar náttúruauðlindir. Auk innlendrar þekkingar verður að laða til landsins erlenda þekkingu, erlenda nemendur og erlent vinnuafl á sviði þekkingarsköpunar, en ekki eingöngu láglaunastarfa."
Tæknibyltingin, sem Þorkell Sigurlaugsson lýsir hér, verður reist á tækniþekkingu einstaklinga, frumkvöðlum og einkaframtaksmönnum, en ekki á frumkvæði að hálfu ríkisvaldsins. Hlutverk stjórnmálamanna í þessari þróun er að skapa hagstæða efnahagslega umgjörð um þessa starfsemi, sem flyzt óhjákvæmilega þangað, sem starfsskilyrðin eru bezt, eins og Þorkell bendir á. Stjórnarandstaðan hefur margsýnt það, þegar hluti hennar hefur verið við völd og með málflutningi sínum á síðasta og núverandi kjörtímabili, að hún hefur engan skilning á þörfum framtaksmanna, og hún hefur þannig dæmt sig úr leik sem valkostur til að leiða þjóðina inn í framtíðina, enda getur hún ekki haft augun af baksýnisspeglinum.
27.4.2017 | 13:48
Skólakerfi í úlfakreppu
Í fersku minni er slök og versnandi frammistaða íslenzkra 15 ára nemenda á 6. PISA (Programme for International Student Assessment) prófunum árið 2015. Ætlunin með þessum prófum er að veita skólayfirvöldum í hverju landi innsýn í árangur grunnskólastarfsins með alþjóðlegum samanburði.
Ekkert hefur þó enn verið látið uppskátt um úrbótaviðleitni íslenzkra yfirvalda og legið er á upplýsingum um frammistöðu einstakra skóla sem ormur á gulli. Þessi fælni við að horfast í augu við vandann og doði í stað þess að ganga til skipulegra úrbóta er einkennandi fyrir þrúgandi miðstýringu og fordóma gagnvart einkaframtaki í þessum geira og reyndar fleiri. Samkeppni er þó einn þeirra hvata, sem bætt geta árangur skólanna. Er keppnisandi ekki hluti af manneðlinu og þar af leiðandi öfugsnúið að forðast hann ? Það vantar nýja stefnumörkun í skólamálin til að snúa af þeirri óheillabraut, sem PISA-prófin 2015 sýndu, að íslenzkir grunnskólar eru á. Vandi grunnskólanna flyzt auðvitað með nemendunum upp í framhaldsskólana eða út í þjóðlífið. Það er í verkahring nýs mennta- og menningarmálaráðherra að hafa forgöngu um stefnumörkun í menntakerfinu, sem hafi að markmiði bættan árangur eigi síðar en 2021.
Framkvæmd grunnskólastarfs er í verkahring sveitarfélaganna, en ríkisvaldið samræmir starfið með Aðalnámskrá, sem öllum ber að fara eftir. Hvernig skyldi nú vera staðið að skólamálum í stærsta sveitarfélaginu, Reykjavík, sem oft á árum áður gaf tóninn, en er nú orðin eftirbátur annarra sveitarfélaga í mörgu tilliti ? Um það skrifar Áslaug María Friðriksdóttir í Morgunblaðsgreininni:
"Þreyttar áætlanir og lævís leikur", þann 22. apríl 2017:
"Gott samfélag býr að góðu menntakerfi. Matið er einfalt. Gott menntakerfi er samanburðarhæft við menntakerfi annarra ríkja [þ.e. stenzt samjöfnuð-innsk. BJo]. Árangur íslenzkra nemenda í lesskilningi og læsi á stærðfræði og náttúrufræði hefur hins vegar versnað síðastliðinn áratug og er verri en í samanburðarlöndum okkar. Um þetta er enginn ágreiningur. Því hefði mátt halda, að helzta áherzla meirihluta borgarinnar yrði að líta á málið sem algjört forgangsmál og leggja allt á vogarskálarnar [rangt orðalag, ef átt er við að leggja allt í sölurnar-innsk. BJo] til að gera betur. Því miður blasir annað við.
Að skerða fjármagn til skólanna hefur verið helzt á dagskrá meirihlutans. Skólastjórnendur hafa þurft að standa í karpi og mikilli baráttu við að fá skilning um, að ekki sé hægt að ná meiri árangri með slíkum hætti. Hvergi hefur orðið vart við, að skólafólk fái hvatningu til að vinna að breytingum til að mæta slökum árangri. Meirihlutinn hefur einnig staðið í vegi fyrir, að upplýsingum um árangur verði miðlað á þann hátt til skólanna, svo að þeir geti notað þær til að efla eigið starf.
Ljóst er, að hér verður að gera betur. Vinna verður að því að fá fram breytingar á kennsluháttum og breytingar á aðbúnaði. Menntastofnanir verða fyrst og fremst að geta sinnt kennsluhlutverki sínu. Nauðsynlegt er að skýra línurnar og verja menntaþáttinn."
Hér er kveðinn upp þungur áfellisdómur yfir viðbrögðum borgaryfirvalda við niðurstöðum PISA 2015. Ljóst er, að annaðhvort skilja borgaryfirvöld ekki til hvers PISA er eða þau nenna ekki að fara í nauðsynlega greiningarvinnu og úrbótaverkefni í kjölfarið. Ríkjandi meirihluta vantar sem sagt hæfileika til að veita leiðsögn í þessu máli. Borgaryfirvöld eru stungin svefnþorni, þau eru ófær um að veita nokkra vitræna forystu. Stjórnendur af þessu tagi eru á rangri hillu og eiga skilda falleinkunn fyrir frammistöðu sína, sem jafngildir brottrekstri úr starfi eigi síðar en við næstu borgarstjórnarkosningar.
Það er nauðsynlegt að fylgjast með því, hvað í ósköpunum fer fram í skólastofunum og gefur svo slakan námsárangur sem raun ber vitni um. Af lauslegum viðræðum blekbónda við 15 ára nemendur virðist honum, að þekkingarstig þeirra komist ekki í samjöfnuð við þekkingarstig jafnaldra nemenda, sem þreyttu og náðu Landsprófi á sinni tíð, en það var þá inntökupróf í menntaskóla. Þetta er aðeins óformleg og lausleg athugun, sem e.t.v. veitir vísbendingu, og þekking 15 ára nemenda nú og fyrir hálfri öld er jafnvel ekki sambærileg. Í hvað fer tími nemenda nú um stundir ?
Það þarf að beina sjónum að kennurunum, menntun þeirra og færni, og veita þeim umbun fyrir árangur í starfi, sem er að vissu marki mælanlegur sem einkunnir nemenda þeirra. Standa kennarasamtökin e.t.v. gegn aðgerðum, sem bætt gætu árangur nemenda, ef hægt er að kenna slíkar aðgerðir við samkeppni á milli kennara ? Hvers vegna er heilbrigð samkeppni á milli nemenda, kennara og skóla eitur í beinum sumra kennara og jafnvel stéttarfélagsins ? Er ekki tímabært að losa sig við fordóma, sem standa skjólstæðingum kennara og hag kennara fyrir þrifum ? Til að virðing kennara á Íslandi komist í samjöfnuð við virðingu stéttarsystkina þeirra í Finnlandi, sem hafa náð góðum árangri með nemendur sína á PISA, þarf mælanlegur árangur íslenzkra kennara að batna til muna.
Það vantar ekki fé í málaflokkinn, því að samkvæmt OECD batnar árangur óverulega við að setja meira en nemur 50 kUSD/nemanda alla hans grunnskólatíð í skólastarfið, að teknu tilliti til kaupgetu í hverju landi (purchasing power parity 2013), og hérlendis er varið mun hærri upphæð á hvern grunnskólanemanda. Það, sem vantar, er skilvirkni, mælanlegur árangur fjárfestingar í þekkingu ungviðisins.
Bretland, Bandaríkin, Austurríki, Noregur, Sviss og Lúxemborg vörðu meira en tvöfaldri þessari upphæð samkvæmt athugun OECD árið 2013 í kennslu hvers nemanda, en nemendur þeirra náðu þó aðeins miðlungsárangri, um 490 stigum, á PISA 2015. Íslenzkir nemendur voru undir þessu meðaltali í öllum prófgreinum, og árangur þeirra fer enn versnandi. Þetta er svo hraklegur árangur, að furðu má gegna, hversu lítil og ómarkviss viðbrögðin urðu. Það er pottur brotinn í grunnskólanum, og það er einfaldlega ekki í boði að stinga hausnum í sandinn gagnvart vandamálinu, því að framtíð landsins er í húfi. Vendipunktur þarf að verða nú þegar, en mælanlegra framfara er þó ekki að vænta fyrr en 2021.
Góður efnahagur og meiri jöfnuður hérlendis en í öllum 72 löndum þeirra 540´000 þúsund nemenda, sem þreyta PISA-þrautirnar, gera að verkum, að lélegur árangur Íslands á PISA er með öllu óeðlilegur. Í OECD eru "fátækir" nemendur nærri þrisvar sinnum líklegri en nemendur í góðum efnum til að búa yfir minna en grunnfærni í raungreinum (science). Nemendur, hverra foreldrar eru fæddir erlendis, koma jafnvel enn verr út. Engu að síður eru 29 % fátækra barna á meðal 25 % hæstu nemendanna innan OECD. Í Singapúr, Japan og Eistlandi, sem öll fengu yfir 525 stig árið 2015 og eru jafnan á meðal hinna beztu, er nálægt 50 % fátækra nemenda í efsta kvartili stiga (meðaleinkunnar). Í þessu er fólginn hinn mikli og æskilegi þjóðfélagsjöfnunarkraftur skólakerfisins, þar sem hæfileikar fá að njóta sín án tillits til efnahags, en með dyntóttri doðastefnu sinni eru skólayfirvöld á Íslandi mest að bregðast þeim skjólstæðingum sínum, sem sízt mega við slíku. Viðkomandi starfsmenn bregðast þá jafnframt hlutverki sínu. Menntamálaráðherra verður að beita valdi sínu og beita áhrifavaldi, þar sem boðvald skortir. Annars lendir hann í súpunni.
Framhaldsskólarnir eru háðir fjárframlögum ríkisins. Rektor Háskóla Íslands, Jón Atli Benediktsson, segir farir sínar ekki sléttar í baráttunni um hlutdeild í ríkisútgjöldum í grein í Fréttablaðinu 12. apríl 2017:
"Fjárfestum í framtíðinni:
"Það er óumdeilt meðal framsýnna ríkja í Evrópu, Norður-Ameríku og Asíu, að opinber fjárfesting í menntun, rannsóknum og nýsköpun, hefur bein áhrif á framleiðni, hagvöxt og ný störf. Þannig er í nýrri skýrslu Evrópusambandsins fullyrt, að rekja megi 2/3 hagvaxtar í Evrópu á tímabilinu 1995-2003 til þekkingarsköpunar, en áhrifin voru mest í Bretlandi (50 %) og Finnlandi (40 %) og minnst (innan við 10 %) í löndum á borð við Ungverjaland, Grikkland og Slóveníu. Tölurnar tala skýru máli: opinber fjárfesting í menntun og rannsóknum er fjárfesting í samkeppnishæfni og farsæld til framtíðar."
Það er tvennt, sem ekki er skýrt í þessum texta rektors. Annað er, hvernig 2/3 (67 %) hagvaxtar í ESB á tilteknu tímabili geti átt rætur að rekja til "þekkingarsköpunar", ef mestu áhrifin í einu landi voru 50 % ? Hitt er, hvers vegna þessi áhrif eru bundin við opinberar fjárfestingar ? Einkafjárfestingar eru venjulega hnitmiðaðri, markvissari og árangursríkari í krónum mældar. Um meginniðurstöðu rektors þarf þó ekki að deila.
Háskóli Íslands er búinn að dreifa kröftunum mjög með ærnum tilkostnaði og má nefna doktorsnám í nokkrum greinum sem dæmi. Honum væri nær á tímum aðhaldsþarfar að einbeita kröftunum að nokkrum greinum á borð við verkfræði, þar sem mjög mikið vantar upp á aðstöðu til verklegrar þjálfunar, t.d. í rafmagnsverkfræði, læknisfræði í samstarfi við Háskólasjúkrahúsið, lögfræði, sem sniðin er að íslenzkri löggjöf og íslenzk fræði og fornbókmenntir, sem hvergi er eðlilegra að rannsaka en hér. Í íslenzkum fræðum er óplægður akur innan háskólasamfélagsins að rannsaka, hvernig íslenzkar bókmenntir spruttu upp af hinum gelíska arfi landnámsmanna, og hvernig gelísk orð voru felld inn í íslenzkuna. Hvers vegna er verið að festa fé í monthúsi á borð við hús tungumálanna á undan góðum tilraunasölum á sviði verkfræði eða Húsi íslenzkra fræða, sem vinstri stjórnin skyldi við sem forarpytt ?
Grein háskólarektors er rituð til að brýna stjórnvöld til að breyta 5 ára fjármálaáætlun ríkisins þannig, að fjárveitingar úr ríkissjóði nái meðaltali OECD. Slíkt er verðugt markmið í lok áætlunartímabilsins, en stúdentar hér eru margir á hvern íbúa landsins. E.t.v. væri ráð að setja á hófleg skólagjöld, t.d. 100 kISK/önn ofan á innritunargjöld, samhliða styrkjakerfi lánasjóðsins á móti, sem tengt væri árangri í námi, til að bæta úr brýnasta fjárhagsvanda skólans.
Það er einfaldlega svo, að mjög mikil fjárfestingarþörf er í öllum innviðum landsins núna eftir óþarflega langdregna efnahagslægð vegna rangra stjórnarhátta í kjölfar hinnar alþjóðlegu fjármálakreppu 2007-2009, sem Íslendingar voru berskjaldaðir fyrir vegna oflátungslegrar hegðunar, sem aldrei má endurtaka sig. Á sama tíma ber brýna nauðsyn til að greiða hratt niður skuldir ríkissjóðs til að spara skattgreiðendum óhóflegan vaxtakostnað, auka mótlætaþol ríkisins í næstu kreppu og hækka skuldhæfiseinkunn ríkisins, sem lækka mun vaxtaálag í öllu hagkerfinu. Kostnaðarbyrði fyrirtækja og einstaklinga áf völdum skattheimtu er nú þegar mjög há á mælikvarða OECD og litlu munar, að stíflur bresti og kostnaðarhækkanir flæði út í verðlagið. Skattahækkanir eru þess vegna ekki fær leið. Gríðarlegar raunhækkanir útgjalda ríkisins þessi misserin skjóta skökku við í þensluástandi, eins og nú ríkir, þannig að rekstrarafgangur ríkissjóðs þyrfti helzt að vera þrefaldur á við áætlaðan afgang til að treysta fjármálastöðugleikann.
Rektor Háskóla Íslands verður að laga útgjöld skólans að tekjum hans á þrengingaskeiði, sem að óbreyttu mun standa í 2-3 ár enn. Þetta verður hann að gera í samráði við menntamálaráðuneytið, eins og aðrir ríkisforstjórar verða að gera í samráði við sitt ráðuneyti. Að æpa í fjölmiðlum á hærri peningaútlát úr ríkissjóði en rétt kjörin stjórnvöld hafa ákveðið og Alþingi hefur staðfest, verður þeim sízt til sóma. Ríkisstofnunum, eins og einkafyrirtækjum og einstaklingum, gagnast fjármálalegur stöðugleiki betur en há verðbólga.
17.12.2016 | 15:39
PISA ríður nú um þverbak
Fyrir tveimur áratugum ferðaðist blekbóndi til hinnar miklu iðnaðar- og viðskiptaborgar Mílanó á Norður-Ítalíu og þaðan með lest til hinnar stórkostlegu höfuðborgar Toskana-héraðs Etrúskanna fornu, Flórens. Þeir voru á hærra þekkingarstigi en Rómverjar á 1. öld fyrir krist, t.d. í verkfræðilegum og listrænum efnum, en höfðu ekki roð við rómverska hernum, og Rómverjar innlimuðu Etrúskana í ríki sitt og lærðu margt af þeim. Þetta hernám styrkti Rómarveldi mjög.
Á ferðum blekbónda um Toskana var m.a. komið til hafnarborgarinnar Pisa,og var ætlunin að fara upp í turninn fræga, en þegar að honum var komið, var hann girtur af og lokaður ferðamönnum, því að hallinn var farinn að nálgast hættustig, og voru Ítalir að undirbúa að draga úr hallanum. Sú aðgerð krafðist mikillar tækniþekkingar og nákvæmra vinnubragða, eins og nærri má geta.
Það er bráðnauðsynlegt, að skólakerfið hlúi að og rækti þá hæfileika, sem í æskunni búa, svo að þjóðfélagið allt megi njóta ávaxta sköpunargleði og frumlegrar hugsunar, þar sem hana er að finna, og frumlegrar hugsunar við lausn óvæntra viðfangsefna, eins og að minnka halla á um 500 ára gömlum turni. Skólakerfið er síður en svo hjálplegt við slíka þróun, á meðan höfuðáherzlan er á að steypa alla einstaklingana í sama mótið.
Nú eru greinileg teikn á lofti um, að grunnskólinn sói tíma nemenda með slæmu skipulagi, svo að hæfileikar margra þeirra fara í súginn í stað þess að þroskast og dafna, einstaklingsbundið. Þess vegna er rík ástæða til að spyrna hraustlega við fótum með því að losa um viðjar miðstýringar ríkis og sveitarfélaga og virkja einkaframtakið þó án aukinnar beinnar kostnaðarþátttöku aðstandenda barnanna, því að jöfn tækifæri til náms, óháð efnahag, er öflugasta samfélagslega jöfnunartækið og nokkuð góð samstaða um slíkt í þjóðfélaginu. Stefnan er þá sú, að allir fái að njóta sín, en margir detti ekki af vagninum, af því að þeir passi ekki í sniðmát embættismanna og stjórnmálamanna.
Því er þessi Pisa-saga leidd fram hér, að kunnáttumat 15 ára unglinga frá 2015 með sama nafni, PISA - Programme for International Student Assessment, hefur nýlega verið gert opinbert. Það er skemmst frá að segja, að niðurstaðan er með öllu óviðunandi fyrir Íslendinga, þar sem íslenzku nemendurnir voru undir meðaltali OECD-landanna og á niðurleið.
Hugmyndir yfirvalda menntamála hérlendis um viðspyrnu og viðsnúning bera þess þó enn ekki merki, að um viti borið fólk, sem vinni fyrir kaupinu sínu, sé að ræða á Menntamálastofnun, þar sem eina hugmyndin, enn sem komið er, er sú að ausa meiru opinberu fé í málaflokkinn. Árangurinn hingað til stendur þó í öfugu hlutfalli við opinberar fjárveitingar, svo að ráðleysið virðist algert á þeim bænum. Eina huggun Arnórs Guðmundssonar, forstjóra Menntamálastofnunar, er sú, að mesta jafnræðið innan OECD sé á meðal íslenzkra skóla. Það er slæmur og óviðeigandi mælikvarði, því að einsleitni skólanna kann að vera verulegur hluti meinsemdarinnar í þessu tilviki, þegar góðar fyrirmyndir og valkosti bráðvantar. Það er nefnilega í þessu tilviki jafnað niður á við að hætti kratismans í sinni verstu mynd. Því verður að linna, ef ekki á mikill sálarháski að hljótast af, og það er framkvæmanlegt strax.
Vilji er allt, sem þarf, en ef ályktun téðs Arnórs um, að ekki beri "að líta á þessa slæmu niðurstöðu sem áfellisdóm yfir einum né neinum", á að ráða för, þá eru öll sund lokuð áður en lagt er upp í umbótaleiðangur. Skilja má á forstjóra Menntamálastofnunar, að hann vilji láta allt hjakka í sama farinu, aðeins með meiri fjárútlátum. OECD hefur þó komizt að þeirri niðurstöðu, að hafi framlög hins opinbera náð kUSD 50 á nemanda allan tímann hans í grunnskóla, þá sé nemendum gagnslaust, að framlög séu aukin. Framlögin hér eru hærri en þetta í öllum sveitarfélögum landsins.
Niðurnjörvuð einhæfni og einsleitni skólanna, þar sem hvata skortir á öllum sviðum til að skara fram úr, er sökudólgurinn.
Ingveldur Geirsdóttir gerði góða grein fyrir PISA í Morgunblaðsfrétt, 7. desember 2016:
"Nemendur aldrei komið verr út":
"Íslenzkir nemendur koma mjög illa út úr PISA-könnuninni, sem var lögð fyrir 2015. Niðurstöður hennar voru kynntar í gær, og benda þær til þess, að frammistaða íslenzkra nemenda sé lakari en árið 2012, þegar könnunin var gerð síðast.
PISA-könnunin er alþjóðleg og er lögð fyrir 15 ára nemendur til að mæla lesskilning, læsi á náttúrufræði og stærðfræði [reading, mathematics and science - betri þýðing er lestur, stærðfræði og raunvísindi - innsk. BJo], á þriggja ára fresti. Þetta er eina alþjóðlega samanburðarmælingin á frammistöðu menntakerfisins, sem fram fer hér á landi.
Niðurstöður PISA 2015 sýna, að íslenzkum nemendum hefur hrakað mikið á síðast liðnum áratug í náttúruvísindum. Þeim hefur einnig hrakað stöðugt í stærðfræði, frá því að færnin var fyrst metin árið 2003, og lesskilningur hefur minnkað frá 2000 til 2006, en eftir það hefur hann nánast staðið í stað.
Árangur íslenzkra nemenda er lakari en á hinum Norðurlöndunum í öllum fögunum þremur. Þá hefur nemendum, sem geta lítið, fjölgað, og afburðanemendum hefur fækkað."
Ískyggileg lýsing að tarna fyrir samkeppnishæfni þjóðarinnar í náinni framtíð. Til að við stöndum öðrum þjóðum á sporði, hvert sem litið verður, og til að í landinu verði áfram menningarlegt velferðarsamfélag, verður grunnskólinn að vera í lagi. Hann er það augljóslega alls ekki núna, og yfirvöld menntamála með Menntamálastofnun framarlega í fylkingu eru greinilega heldur ekki í lagi, því að þau virðast algerlega ráðalaus, og viðbrögðin þar á bæ eru helzt þau, að hella þurfi meiru opinberu fé í málaflokkinn. Það er vonlaus aðferð, sem hefur verið beitt undanfarin ár og engum árangri skilað.
Verður nú gripið niður í Óðin í Viðskiptablaðinu, 8. desember 2016:
"Reyndar er ekki rétt, að ekkert hafi gerzt í skólamálum, frá því að íslenzkir skólakrakkar tóku fyrst þátt í PISA-könnuninni árið 2000. Frá árinu 1998 hafa útgjöld sveitarfélaga til grunnskólanna aukizt um 60,9 % á föstu verðlagi, samkvæmt tölum Hagstofunnar. Kennurum hefur fjölgað um 20,5 %, og þar af hefur kennurum með kennsluréttindi fjölgað um ein 38,3 %, og eru þeir nær einráðir í kennslu í grunnskólum.
Útgjöld sveitarfélaganna á hvern nemanda hafa aukizt um 56 %, og útgjöld á hvern kennara hafa aukizt um 33,5 % á sama tíma. Þetta hefur allt gerzt á sama tíma og nemendum í grunnskóla hefur aðeins fjölgað um 3,2 %."
Þessi fjáraustur er birtingarmynd rangrar skólastefnu og ráðleysis, enda eru nú útgjöld á hvern grunnskólanemanda einna hæst á Íslandi af samanburðarlöndunum. Af ofangreindum tölum að dæma lítur út fyrir, að spara megi fé án þess slíkur sparnaður bitni á árangri nemenda. Ýmis kostnaður er orðinn öfgakenndur, t.d. er talið, að fjöldi nemenda, sem skólasálfræðingur úrskurðar, að þurfi sérkennslu, sé nú tífaldur sá fjöldi, sem búast má við, eða 25 %-30 % af heildarfjölda nemenda.
Í þessu viðfangsefni er hins vegar þrennt, sem þarf aðallega að gefa gaum: nemendur, kennarar og kennsluumgjörðin.
Nemendur þrífast greinilega illa í skólunum (af árangri þeirra að dæma), enda er þeim skipað saman í bekki án tillits til áhuga og getu. Slíkt kallar Menntamálastofnun skóla án aðgreiningar og hefur lengi verið kratískt trúaratriði, en er sennilega til ills eins fyrir alla hlutaðeigandi. Þetta er gildishlaðið orðalag og minnir á "Apartheit" eða aðgreingu kynþátta. Ekkert slíkt er á dagskrá hér, hvorki á grundvelli uppruna, efnahags, litarafts né trúarbragða. Hér skal fullyrða, að heilbrigður metnaður nemenda fær ekki að njóta sín, nema færni þeirra og geta, sem eru saman í hópi að reyna að tileinka sér boðskap kennarans, sé á svipuðu stigi.
Við beztu aðstæður fá nemendur að keppa um sæti í þeim bekk, sem hugur þeirra stendur til, eða að verja sæti sitt með því að leggja sig fram. Með "kerfi án aðgreiningar" fær enginn að njóta sín, hvorki nemendur né kennarar. Efnilegum nemendum leiðist aðgerðarleysið, og hinir fá minnimáttarkennd, af því að kennarinn er stöðugt að stagla í þeim. Báðir hóparnir verða órólegir og tefja óafvitandi hvor fyrir öðrum. Fyrir kennarann verður starfið mun erfiðara en ella, þar sem mikill munur er á getu nemenda, því að beita verður ólíkum kennsluaðferðum á ólíka nemendur í sömu deild. Afleiðingin verður sú í sinni verstu mynd, að allir dragast niður á lægra plan en nauðsynlegt er.
Menntun kennara er á háskólastigi, eins og eðlilegt er, en hún var nýlega lengd undirbúningslítið í 5 ár hérlendis. Þessi gjörningur þarfnast endurskoðunar og sömuleiðis allt námsefni kennara og þjálfun til að miðla þekkingu á raungreinafögum með fullnægjandi hætti, en þar virðist pottur helzt vera brotinn í færni nemenda auk ófullnægjandi lestrarkunnáttu.
Fæstir kennaranemar koma af raungreinabrautum framhaldsskóla, og hafa þess vegna haft lítinn gáning á slíkum fögum. Það þarfnast þá átaks að verða fær um að miðla slíkri þekkingu af góðri yfirsýn og með líflegum hætti, ef áhugann hefur vantað áður. Það ætti að þjappa kennaranáminu saman á 4 ár í stað útþynningar, eins og nú er, og veita hins vegar kost á framhaldsnámi í 1-2 ár með hærri námsgráðu. Námskröfur til kennara þarf að herða, svo að tryggt sé, að þeir valdi því vel, sem þeir eiga að miðla. Hvernig skyldu þeir standa sig á PISA-prófi ?
Hvað hafði Óðinn meira að skrifa um árangursleysi fjárausturs í grunnskólann ?:
"Gríðarleg útgjaldaaukning hefur hins vegar ekki skilað neinu, nema versnandi árangri íslenzkra grunnskólanemenda. Nú er svo komið, að tæpir 9 nemendur eru á hvern grunnskólakennara, en þeir voru tæplega 10,5 árið 1998. Ef aðeins er miðað við kennara með kennsluréttindi, eru nemendur á hvern slíkan kennara nú 9,5, en voru 12,7 árið 1998.
Fleiri kennarar, meira menntaðir kennarar og stóraukin útgjöld. Árangurinn er hins vegar verri en enginn."
Það er áreiðanlegt, að þegar nemendum er hrúgað saman í bekk án tillits til færni, þá kemst kennarinn ekki yfir að aðstoða hvern og einn samkvæmt einstaklingsbundnum þörfum í sama mæli og í einsleitari bekkjardeildum.
Þegar blekbóndi var í grunnskóla fyrir meira en hálfri öld, þá voru iðulega 30 nemendur í bekk og einn kennari kenndi öll fögin, nema teikningu, tónmennt, söng, leikfimi og sund. Kennslan gekk samt ágætlega, enda voru kennararnir þá afar hæfir (í minningunni), þótt sennilega hafi þeir haft styttri skólagöngu en kennarar, sem útskrifast úr háskóla nú á dögum. Það þarf ekki að orðlengja, að í þá daga var nemendum raðað í deildir eftir getu og áhuga.
Kennararnir höfðu strangan aga á sjálfum sér og nemendum sínum, og stundum þurfti að tukta nemendur til, aðallega strákana. Kennararnir ólu líka heilbrigðan metnað með nemendum um að hækka sig upp í betri bekk eða að halda sæti sínu í góðum bekk, þar sem þeir vildu vera. Einkunnir á skyndiprófum voru lesnar upp, þannig að innbyrðis keppni var á milli nemenda í hverjum bekk. Þetta jók áhugann fyrir náminu og kynti undir metnaði, sem nemendur tileinkuðu sér. Allt er þetta með öðrum, verri og vonlausari brag til árangurs nú á dögum, og þess vegna sekkur íslenzki grunnskólinn nú til botns í feni jafnaðarmennskunnar.
Sú óheillaþróun, sem PISA endurspeglar, jafngildir glötuðum tækifærum einstaklinga í tugþúsundavís og gríðarlegu tekjutapi og kostnaðarauka fyrir samfélag, sem eyðileggur möguleika fjölda manns á að þróa með sér þá hæfileika og þroska, sem gott grunnskólakerfi getur leitt fram. Eina ráðið til úrbóta er kerfisbreyting, þar sem einsleitni og ímynduðum jöfnuði er kastað fyrir róða, en lögð áherzla á fjölbreytni skóla, samkeppni á milli þeirra og á milli nemenda.
Sveitarfélögin keppa nú þegar um hylli íbúanna, og ríkisvaldið þarf að efla þessa samkeppni íbúunum til hagsbóta. Það þarf að afnema gólf útsvarsins, veita sveitarfélögunum fullt svigrúm við álagningu allra annarra gjalda og síðast, en ekki sízt, þarf að veita þeim frelsi til að keppa sín á milli á grundvelli gæða grunnskólans, sem er á þeirra snærum.
Þetta þýðir, að skólar í hverju sveitarfélagi eiga að ráða því, hvernig þeir haga niðurröðun nemenda í bekki, og hvernig þeir meta námsárangur. Þegar kemur að lokaprófi upp úr grunnskóla í 10. bekk, þarf þó e.t.v. samræmd próf í einni eða fáeinum greinum samkvæmt ríkisnámskrá og staðlað árangursmat til að auðvelda val framhaldsskólanna á nemendum. Annars eiga skólarnir að hafa frjálst val um námstilhögun, námsefni og námsmat, en ríkisnámskrá grunnskóla skal aðeins vera til hliðsjónar. Þetta yrði róttæk breyting til að efla sveitarfélög, skóla þeirra, kennara og nemendur til dáða.
Til að auka líkurnar á betri árangri nemenda og meiri starfsánægju kennara en raunin er í einsleitu kerfi opinbers rekstrar þurfa sveitarfélögin að lýsa yfir áhuga sínum á að fjölga rekstrarformum grunnskólanna, breyta rekstrarformi einhvers eða einhverra núverandi skóla, eða að nýir skólar skuli feta sig áfram á braut, sem vel er þekkt erlendis, einnig á hinum Norðurlöndunum, og fellur undir hugtakið einkarekstur, ekki einkavæðing.
Þar getur t.d. verið um að ræða sjálfseignarstofnun eða hlutafélag. Skilyrði er, að hið opinbera standi straum af rekstrinum, eins og það gerir nú, með umsömdu greiðsluþaki, svo að hið opinbera skaðist ekki fjárhagslega af þessu fyrirkomulagi, og gjaldtaka af foreldrum verði bönnuð með sama hætti og í skólum með gamla fyrirkomulaginu. Enginn ætti að skaðast fjárhagslega, en stefnan með þessari tilraun væri að auka frelsi skólastjórnenda og kennara og bæta líðan nemendanna með viðfangsefnum, sem eru í meira samræmi við getu hvers og eins.
Menntun og skóli | Breytt 20.12.2016 kl. 10:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.11.2016 | 11:44
Æskan og menntakerfið
Fyrir hag almennings á Íslandi skiptir samkeppnishæfni landsins við útlönd meginmáli. Á síðasta kjörtímabili fór Íslandi mjög fram, hækkaði um 4 sæti frá 2013-2015, hvað samkeppnishæfni varðar, að mati World Economic Forum-Global Competitiveness Index-WEF-GCI, en hrörnun samkeppnishæfni og lífskjara hefur hins vegar verið óumflýjanlegur fylgifiskur vinstri stjórna.
Samkvæmt skýrslu WEF eru helztu hamlandi þættir á samkeppnishæfni hérlendis: gjaldeyrishöft, skattheimta og verðbólga. Þessir þættir stóðu allir til bóta árið 2016, og munu þeir draga úr rýrnun samkeppnishæfni af völdum um 20 % styrkingar ISK á árinu. Nú, 16.11.2016, hafa furðufuglarnir í Peningastefnunefnd Seðlabankans hins vegar ákveðið, að vegna um 5,0 % hagvaxtar 2016 sé óráð að lækka vexti. Með þessu ráðslagi grefur bankinn undan trúverðugleika hagstjórnarinnar, því að ISK ofrís nú, og slíkt endar aðeins með kollsteypu. Í þessu sambandi má benda á Svíþjóð. Þar er hagvöxtur um 4 % 2016, en stýrivextir sænska seðlabankans eru neikvæðir. Hagfræðingarnir, sem þessu ráða í þessum tveimur löndum,virðast hafa gengið í mjög ólíka skóla. Vonandi bjagar fortíð íslenzka Seðlabankastjórans sem Trotzkyisti ekki lengur viðhorf hans til raunveruleikans.
Sviss, Singapúr og Bandaríkin eru efst á þessum lista WEF. Svissneski frankinn, CHF, hefur fallið mjög m.t.t. USD á þessu ári, enda stýrivextir við 0 í Sviss. Nú eru teikn á lofti um, að USD muni stíga m.v. aðra gjaldmiðla, einkum EUR og GBP, vegna vaxandi hagvaxtar og hækkandi stýrivaxta í upphafi valdatíðar Donalds J. Trump.
Hið merkilega er, m.v. umræðuna í fjölmiðlum, að á Íslandi stendur grunnskólakerfið og heilbrigðiskerfið vel að vígi samkvæmt WEF og skorar 6,6 af 7,0, og er Ísland þar í 7. sæti af 138 löndum.
Þá er Ísland vel í sveit sett, hvað varðar að tileinka sér nýja tækni, skorar 6,2 og lendir í 8. sæti.
Hið síðast nefnda hlýtur að vera háð menntunarstigi í landinu og gæðum framhalds- og háskóla. Vitað er hins vegar, að þar er pottur brotinn, svo að slembilukka gæti ráðið mikilli aðlögunarhæfni að nýrri tækni.
Mennta- og menningarmálaráðherra vinstri stjórnarinnar 2009-2013 reif niður framhaldsskólakerfið með stórfelldum skerðingum á framlögum ríkisins til þess. Það var kreppa, en það er almennt viðurkennt, að við slíkar aðstæður má ekki ráðast á fræðslukerfið, því að það er undirstaðan fyrir viðsnúning. Þá er mikilvægast að fjárfesta í framtíðinni.
Þrátt fyrir þessi afglöp og stórfelld svik við kjósendur VG með umsókn ríkisstjórnar um aðild að ESB og undirlægjuhátt hennar við AGS og kröfuhafa föllnu bankanna, þá er téð Katrín samt vinsælasti stjórnmálamaður þjóðarinnar. Ávirðingar hennar virðast enn ekki festast við hana, svo að hún verðskuldar vissulega heitið Teflón-Kata.
Illugi Gunnarsson, mennta-og menningarmálaráðherra ríkisstjórna Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Sigurðar Inga, 2013-2016, er af allt öðru sauðahúsi, enda lét hann hendur standa fram úr ermum við að bæta fyrir kárínur Katrínar í embætti. Hann skrifaði mjög góða grein í Morgunblaðið 18. október 2016, "Endurreisn framhaldsskólans",
og verður nú vitnað í hana:
"Þegar núverandi ríkisstjórn tók við sumarið 2013, voru framlög á hvern nemanda í framhaldsskólum landsins um kkr 900 á verðlagi 2016. Á árunum fyrir hrun hafði aðhaldskröfu verið beint að skólunum, en í kjölfar hrunsins var gengið mjög hart fram gagnvart framhaldsskólunum og þeir skornir mjög grimmt niður. Til að setja kkr 900 framlagið á hvern nemanda í samhengi, þá er framlag á verðlagi ársins 2016 á hvern grunnskólanemanda um kkr 1´700. Þessi skelfilega lága tala, sem blasti við sumarið 2013, stefndi öllu skólastarfi í voða, og engar raunhæfar áætlanir voru uppi um, hvernig unnið yrði úr þeirri stöðu."
Þessi hrikalega lýsing eftirmanns Teflón-Kötu á viðskilnaði hennar við embætti menntamálaráðherra bendir til, að hún sé óhæfur stjórnandi. Ekki einvörðungu skar hún framhaldsskólana inn að beini, svo að starfsemi þeirra beið tjón af, heldur var hún svo sinnulaus um starf sitt, að hún lét undir höfuð leggjast að gera áætlun um endurreisnina. Öll sú vinna féll í skaut eftirmanns hennar í embætti, og hann hafði forgöngu um kerfisbreytingar, sem leggja munu grundvöll að framhalds- og háskólakerfi í fremstu röð og að menntakerfi, sem eykur samkeppnishæfni þjóðfélagsins:
"Fjölmargar ástæður liggja því til grundvallar að fara úr fjögurra ára framhaldsskólakerfi í þriggja ára kerfi. Ljóst var, að Ísland var eina landið innan OECD, þar sem 14 ár þurfti til að undirbúa ungmenni fyrir háskólanám, en önnur lönd kláruðu það verkefni á 12 eða 13 árum. Ekki var hægt að víkja sér undan því að breyta þessu, gríðarlegir hagsmunir eru undir fyrir þjóðarbúið allt, og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur metið það svo, að þjóðarframleiðslan muni verða hærri sem nemur 14-17 miökr/ár vegna þessarar breytingar. Ríkissjóður mun þar af leiðandi fá í sinn hlut um 5-7 miakr/ár í auknar skatttekjur, og munar um minna."
Illugi gat ekki vikizt undan skyldum sínum sem menntamálaráðherra til að auka skilvirkni framhaldsskólanna, um leið og hann skaut traustum fótum undir umbætur með mjög auknum fjárframlögum úr ríkissjóði. Teflón-Kata átti hins vegar í engum erfiðleikum með það. Hennar aðferð er að stinga hausnum í sandinn, ef hana grunar, að krefjandi verkefni sé handan við hornið:
"Það, sem ég ekki sé, það er ekki fyrir hendi."
"Til viðbótar því fjármagni, sem mun bætast við framlög á hvern nemanda vegna styttingarinnar, þá liggur nú fyrir í samþykktri áætlun um ríkisfjármál til ársins 2021 ákvörðun um að auka framlög til framhaldsskólans um miakr 2,6 á þeim tíma, sem áætlunin nær til.
Þar með mun framlag á hvern nemanda aukast úr rúmum kkr 900 í um kkr 1´570 árið 2021, og svigrúm er til enn frekari hækkana, ef vilji stendur til slíks.
Þetta mun gjörbreyta öllu starfi framhaldsskólanna, möguleikum þeirra til að sinna hverjum nemanda með fullnægjandi hætti og tryggja, að menntun ungmenna á Íslandi sé jafngóð því, sem bezt gerist í þeim löndum, sem við viljum bera okkur saman við um lífskjör."
Ofan á sveltigildi Teflón-Kötu er Illugi búinn að bæta kkr 670 eða 74 % sem framlagi ríkisins per nemanda á ári að raunvirði. Þá verður þetta framlag hærra en allra hinna Norðurlandanna, nema Noregs, og 42 % hærra en meðaltal OECD var árið 2012. Ef svo fer fram sem horfir um þróun efnahagsmála, verður framlag ríkisins á Íslandi hið hæsta á Norðurlöndunum árið 2021. Er það vel að verki verið hjá Illuga og ríkisstjórninni, sem hann sat í 2013-2016.
Átak er nauðsynlegt á þessu kjörtímabili í fjármögnun háskólanna, svo að góður menntunargrunnur beri hámarks ávöxt. Illu heilli stöðvaði Teflón-Kata, ásamt öðrum afturhaldsöflum í blóra við vilja stúdenta, framgang frumvarps Illuga um fjárhagslegt stuðningskerfi við stúdenta í lok síðasta þings haustið 2016. Frumvarpið innihélt fjárhagslega hvata fyrir stúdenta til að standa sig í námi og ljúka því án tafa. Umbætur Illuga beinast allar að aukinni framleiðni og auknum gæðum, en skilvirkni er eitur í beinum Teflón-Kötu. Þar situr aumingjavæðingin í fyrirrúmi, enda þjónar slíkt flokkshagsmunum Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs. Stórskuldugir eilífðarstúdentar, sem aldrei verða borgunarmenn himinhárra skulda við LÍN, eru hennar menn.
Mjög jákvætt teikn við íslenzka þjóðfélagið er atvinnuþátttaka ungmenna á aldrinum 15-29 ára. Á meðal aðildarríkja OECD er hún mest á Íslandi eða um 78 %. Aðgerðarleysi og atvinnuleysi ungmenna er í mörgum löndum stórfellt þjóðfélagslegt og efnahagslegt vandamál.
Í Sviðsljósi Björns Jóhanns Björnssonar í Morgunblaðinu, 13. október 2016, stendur þetta í upphafi greinarinnar:
"Atvinnuþátttaka ungmenna hvergi meiri":
"Samkvæmt nýrri skýrslu frá OECD, Efnahags- og framfarastofnuninni, virðast íslenzk ungmenni búa við mun betri aðstæður en [ungmenni] í öðrum löndum. Þannig er atvinnuþátttaka 15-29 ára um 80 % hér á landi, en hlutfallið er 2 % í Grikklandi og 28 %-37 % á Ítalíu, Spáni og Portúgal."
Að Ísland skuli fá hæstu einkunn innan OECD fyrir atvinnutækifæri til handa ungmennum, er einhver þýðingarmesta umsögn, sem íslenzka þjóðfélagið getur fengið, og vitnar um heilbrigði þess, fólks, atvinnulífs og stjórnarfars, hvað sem úrtöluröddum niðurrifsaflanna líður. Ýmsar úrtöluraddir telja íslenzka samfélagið of lítið til að geta staðizt sjálfstætt. Af 35 ríkjum OECD í þessum samanburði er meðaltalið rúmlega 50 % atvinnuþátttaka ungmenna. Til hvers að vera stór eða hluti af stóru ríkjasambandi, ef það þýðir mun verri aðstæður og færri atvinnutækifæri fyrir nýja kynslóð ?
Þessu tengd eru lífslíkur, sem eru einna hæstar á Íslandi innan OECD, svo og lífsánægjan, sem fær 7,5 af 10,0 á Íslandi.
Að lokum skal birta hér upplýsingar um fátækt innan OECD, sem sýna svart á hvítu, að jöfnuður er tiltölulega mikill á Íslandi, enda er menntakerfi, eins og hið íslenzka, öflugasta jöfnunartækið:
"Þegar tölur um fátækt eru skoðaðar, er hlutfall ungmenna einna hæst í flestum ríkjum, einkum þar sem ungmenni fara fyrr að heiman. Á Íslandi er hlutfall ungmenna, sem teljast búa við fátækt, rúm 5 %. Um 3 % eldri borgara á Íslandi búa við fátækt samkvæmt OECD. Eru þær tölur frá árinu 2014.
Athygli vekur, að 25 % ungmenna (16-29 ára) í Bandaríkjunum búa við fátækt, um 24 % í Danmörku, 23 % í Noregi og tæp 20 % í Svíþjóð. Hvað Norðurlöndin varðar, er í skýrslunni sérstaklega bent á, að ungt fólk flytji fyrr úr foreldrahúsum en víðast annars staðar."
Íslendingar geta verið stoltir af þjóðfélagi sínu varðandi aðbúnað ungmenna og tækifæri þeirra til náms og starfa. Það er þó vissulega hægt að gera betur. Viðskilnaður fráfarandi ríkisstjórnar er glæsilegur í þessum efnum, en hvort ný ríkisstjórn hefur vit á því að beina kröftunum í rétta átt, þ.e. þangað, sem mestu varðar að ná frábærum árangri út frá sanngirnissjónarmiðum og fjárhagslegum ávinningi samfélagsins er önnur saga. Það er líka undir hælinn lagt, hvort hún ratar rétta braut að ákvörðunarstað eða þvælist bara fyrir framförum. Sporin hræða.
26.3.2015 | 13:56
Efnahagslegur hreyfanleiki
Efnahagslegur hreyfanleiki, EH, var hvergi meiri í EES-Evrópska efnahagssvæðinu (ESB, Ísland, Noregur, Liechtenstein) en á Íslandi árin 2009-2012. Með efnahagslegum hreyfanleika er átt við það, hve stór hluti þjóðar færist á milli tekjuhópa á tilteknu tímabili, t.d. á þremur árum. Sem mestur efnahagslegur hreyfanleiki upp á við, EHU, þykir eftirsóknarverður, því að hann vitnar um góða dreifingu tækifæra og möguleika margra á að bæta hag sinn. Þetta er hollt fyrir aðila vinnumarkaðarins, ekki sízt forystusveit verkalýðsfélaganna, að hafa í huga nú í aðdraganda kjarasamninga, því að verði hér kollsteypa, þá snarfækkar tækifærum, efnahagslegur hreyfanleiki fellur og atvinnuleysi snareykst. Þetta gerðist hérlendis síðast árið 2008, en þá féll EHU úr 22 % í 16 % og varð einna lægst hér innan EES. EHU á Íslandi var kominn yfir 22 % árið 2012, og er líklega farinn að nálgast 24 % nú á árinu 2015, sem er hæsti EHU, sem þekkist innan EES. Til samanburðar var EHU árið 2012 tæplega 18 % að meðaltali í ESB og aðeins um 17 % að meðaltali í evru-ríkjunum. Verkalýðsforingjar geta ekki verið þekktir fyrir að segja, að þá varði ekkert um þjóðfélagslegar afleiðingar þess að verða við kröfum þeirra. Slíkt geta menn einvörðungu sagt, þar sem allt er í rúst, og engu er að tapa. Það er ábyrgðarleysi að taka ekki tillit til raka opinberra stofnana, t.d. Seðlabankans, um svigrúmið, sem er til launahækkana, því að fórnarkostnaður óráðsíunnar er geigvænlegur, ekki sízt fyrir umbjóðendur verkalýðsforingjanna.
Noregi, sem oft er vitnað til sem gósenlands að búa í, hefur hrakað varðandi efnahagslegan hreyfanleika samfellt frá 2009, og árið 2012 var EHU þar aðeins rúmlega 15 %. Þetta er slæm staða fyrir Noreg og vitnar um slælega nýtingu mannauðsins. Síðan 2012 hafa lífskjör enda hríðfallið í Noregi vegna fallandi NOK og aukins atvinnuleysis með minnkandi umsvifum norska olíuiðnaðarins. Hagkerfi þeirra er of einsleitt og háð olíuiðnaðinum. Þá er skattbyrðin mjög há. Það væri mikill ábyrgðarhluti af aðilum vinnumarkaðarins hérlendis að fórna toppstöðu Íslands, hvað efnahagslegan hreyfanleika varðar, en taki launavísitalan eitthvert tveggja tölustafa stökk, er úti um efnahagsstöðugleikann, og þar með missum við áunnið forskot í EHU, og það er umbjóðendum verkalýðsforingjanna, sem blæðir fyrir slík axarsköpt.
Tekjudreifingin er mjög góð á Íslandi samkvæmt Eurostat, sem er hagstofa ESB. Gini-stuðullinn mælir tekjudreifinguna á kvarðanum 0-100, þar sem við 0 eru allir á sömu launum, en við 100 fær einn öll launin. Meðaltal Evrópusambandsríkjanna árið 2012 var 30,6, en á Íslandi 24,0, þ.e.a.s. það var 22 % meiri jöfnuður á Íslandi en í ESB. Ísland er á mjög eftirsóknarverðum stað á Gini-kvarðanum, en aukist atvinnuleysi, t.d. vegna launahækkana, sem atvinnulífið ræður ekki við, svo að segja verði upp starfsfólki, þá mun snarast á merinni hérlendis einnig, hvað tekjujöfnuð varðar. Á að trúa því, að læmingjahegðun geri nú vart við sig, og allir marséri í halarófu fram af bjargbrúninni ? Slík hjarðhegðun er ósæmandi í upplýstu þjóðfélagi og í upplýsingasamfélagi.
Verkalýðsforingjar hafa vitnað í miklar launahækkanir lækna og kennara til rökstuðnings tveggja stafa launahækkun fyrir umbjóðendur sína. Halda mætti, að sú sama forysta hafi legið í dvala í bjarnarhýði, þegar þessar stéttir voru hér í verkfalli. Hrun blasti við í heilbrigðisgeiranum og flótti úr kennarastétt. Það var almennt viðurkennt, að koma yrði til móts við kröfur lækna, og vinnufyrirkomulagi var jafnframt breytt hjá þeim, til að almenningur fengi lágmarks læknisþjónustu hér innanlands og hjá innlendum, en ekki innfluttum, læknum. Læknar eru tiltölulega fáir, svo að þessar hækkanir höfðu ekki skaðleg áhrif á hagkerfið. Þó hækka ríkisútgjöldin merkjanlega. Það er hundalógík að halda því fram, að stytta verði bil félaga í verkalýðsfélögunum og lækna í launum.
Skólakerfið á við ramman reip að draga, og t.d. er lesfærni 15 ára nemenda bókaþjóðarinnar léleg samkvæmt PISA-mælingum. Það var sátt um það að forsenda þess að lyfta kennslugæðunum væri að gera kennarastarfið eftirsóknarverðara með launahækkun. Kennarar fara vart utan í atvinnuleit, en þeir líta í kringum sig og eru víða eftirsóttir á vinnumarkaðinum. Almenn góð menntun er stór þáttur í hreyfanleika á milli stétta og EHU, sem er stórfellt hagsmunamál fyrir fjölskyldur félagsmanna verkalýðsfélaganna. Að halda því fram, að nú sé rétti tíminn til að taka risastökk í launum iðnaðarmanna til að þeir fari ekki utan í atvinnuleit er mótsagnakennt, því að kaupmáttur hækkar mest með hófsamlegum launahækkunum, og hvergi í Evrópu hafa orðið viðlíka kjarabætur og á Íslandi undanfarin ár. Hafnar eru skattalækkanir á Íslandi, en þær eru ekki í sjónmáli í Evrópu, t.d. á hinum Norðurlöndunum. Hóf er bezt í hverjum leik.
Það er mun minni launamunur á Íslandi en víðast annars staðar, eins og Gini-kvarðinn, sem vitnað er til hér að ofan, bendir til. Ef Gini er reiknaður án opinberra tekjujöfnunaraðgerða, fæst Gini-stuðull í mörgum EES ríkjum yfir 50, en á Íslandi er hann þá um 40. Þetta sýnir a.m.k. 25 % meiri tekjumun í þessum EES ríkjum en á Íslandi. Þegar verkalýðsleiðtogar segjast þurfa að elta launahækkanir hinna hæst launuðu, ættu þeir að gefa gaum að því, að launajöfnuður er hvergi meiri en á Íslandi.
Þá er jafnframt vert að gefa gaum að því, að opinberar afkomujöfnunaraðgerðir lækka Gini á Íslandi um 16 einingar eða 40 %, en í EES um 19,4 einingar eða 39 %, sem eru sambærilegar tölur.
Önnur aðferð til að leggja mat á tekjudreifingu er s.k. 80/20 aðferð. Þá er þjóð skipt í 5 tekjuhópa og tekið hlutfall meðaltals í efsta og lægsta hópnum. Meðaltalið samkvæmt þessari aðferð í ESB 2012 var 5,1, á Íslandi 3,2 og í Noregi 3,1. Allt ber að sama brunni. Tekjujöfnuður er einna mestur á Íslandi.
Þann 18. marz 2015 birti Stefán E. Stefánsson frétt í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni, "Minnstur ávinningur er af aukinni mentun á Íslandi". Þar voru borin saman 9 lönd og kom í ljós, að launamunur fólks með einvörðungu grunnskólapróf og fólks með háskólapróf var langminnstur á Íslandi. Þetta er hættulegt fyrir Ísland, því að það getur hæglega leitt til atgervisflótta, eins og hræðilega áberandi hefur verið með læknastéttina, þar sem fullnuma og reyndir læknar skiluðu sér ekki heim. Þess vegna var óhjákvæmilegt að veita læknum ríflega launahækkun, en hún getur á engan hátt orðið fordæmisgefandi fyrir umbjóðendur verkalýðsforingjanna né aðrar stéttir. Hér að neðan er gefinn munur á árslaunum fólks með grunnskólapróf og háskólapróf í kEUR (þúsundum evra) í nokkrum löndum. Röðin fer eftir launum háskólamanna 2013:
- Noregur: kEUR 12 ( 92 %)
- Danmörk: kEUR 12 ( 92 %)
- Finnland: kEUR 8 ( 62 %)
- Svíþjóð: kEUR 7 ( 54 %)
- Bretland: kEUR 13 (100 %)
- Þýzkaland:kEUR 9 ( 69 %)
- Holland: kEUR 7 ( 54 %)
- Ísland: kEUR 4 ( 31 %)
- Spánn: kEUR 8 ( 62 %)
Í svigum eru hlutföll launamunar af mesta launamun, og kemur í ljós, að launamunur grunnskólafólks og háskólafólks á Íslandi er aðeins 45 % af meðaltalinu í þessum 9 löndum. Þessi launamunur á Íslandi er aðeins um 19 %. Til að sanngirni sé gætt og fólk endi með svipaðar ævitekjur, þarf téður munur a.m.k. að tvöfaldast. Að félagar í verkalýðshreyfingunni sjái ofsjónum yfir nýlegri launahækkun lækna á sér engin sanngirnisrök.
26.4.2014 | 13:05
Flugkennsla á faraldsfæti ?
Það er fáheyrt ábyrgðarleysi og helber ósvífni að hálfu borgarstjórnarmeirihlutans að setja nám æskufólks, sem sérhæfa vill sig á sviði flugsins, í uppnám með því annars vegar að reka alla, sem aðstöðu hafa í Fluggörðum, sem er á borgarlandi, út á Guð og gaddinn, og hins vegar að þrengja að Reykjavíkurflugvelli, á ríkislandi, með óbilgjörnum hætti þar til hann verður órekstrarhæfur, og loka verður honum vegna skorts á áreiðanleika, fyrir kennsluflugi og öllu öðru flugi, enda ætlar Björt framtíð, Samfylking og Vinstri grænir að sprengja upp núverandi mannvirki, keyra burtu til hreinsunar gríðarlegu magni af menguðum jarðvegi, leggja götur og allar nauðsynlegar lagnir fyrir lóðirnar, sem ekki munu nú verða af ódýrara taginu.
"Við teljum ekki raunhæft að byggja upp kennsluflugið á Selfossi. Fjarlægðin frá höfuðborginni veikir starfsemina þar", sagði Matthías Sveinbjörnsson, formaður Flugmálafélags Íslands í viðtali við Morgunblaðið 12. apríl 2014 undir fyrirsögninni "Aðstaðan stenst ekki skilyrði".
Matthías kvað margar ástæður vera fyrir því, að bezt sé að hafa Reykjavíkurflugvöll áfram sem miðstöð flugmennta á Íslandi. Flugkennslan verði að fara fram í stjórnuðu loftrými, sem þýði, að fyrir hendi séu blindflugsbúnaður, flugturn og flugumferðarstjórar að störfum.
Þótt kennsluvélarnar yrðu færðar til Selfoss, kvað Matthías umferð á Reykjavíkurflugvelli lítið minnka við það, því að þangað yrðu nemar að leita til að læra við þessar stýrðu aðstæður. Ef vel á að vera, þurfi nemendur að búa í grennd við kennsluflugvöllinn, því að verklega kennslan sé veðurháð.
Allir hljóta að skilja, hversu flugið skipar mikilvægan sess í samgöngumálum Íslands bæði vegna legu landsins og þess, að á landinu eru engar járnbrautarsamgöngur. Af eðlilegum ástæðum eru Íslendingar flugþjóð. Einkaflugmenn á Íslandi eru þrefalt fleiri en í Bandaríkjunum á hvern íbúa, atvinnuflugmenn 3,7 sinnum fleiri og svifflugmenn 4,2 sinnum fleiri. Árið 2010 stóð flugrekstur undir 6,6 % af landsframleiðslu og 9200 störfum. Þessar stærðir hafa vaxið á tímabilinu 2011-2014 og munu enn fara vaxandi, ef forræðishyggjusinnaðir stjórnmálamenn fá ekki tækifæri til að setja sand í tannhjólin.
Árleg verðmætasköpun hvers starfsmanns í loftferðaþjónustu var 70 % meiri en meðalstarfsmanns á Íslandi samkvæmt upplýsingum Matthíasar Sveinbjörnssonar í Morgunblaðinu 15. aðríl 2014.
Það er kominn tími til þess fyrir S. Björn og Dag að átta sig á því, að flugkennslan myndar hornstein þessara mikilvægu innviða landsins. Það er samt ástæða til að óttast, að þeir kumpánar, sem nú ryðjast fram með nýtt aðalskipulag, þar sem Reykjavíkurflugvöllur hverfur af kortinu árið 2022 og með kynningu á hverfaskipulagi í Vesturbænum, sem er endurskoðað deiliskipulag, þar sem freklega á að ganga á eignarrétt íbúanna með því að byggja íbúðarhús, þar sem nú eru bílastæði, bílskýli eða bílskúrar. Það verður stríðsástand í Vesturbænum, ef þröngsýn og fáfróð borgaryfirvöld keyra þessa stefnu á framkvæmdastig.
Fyrir hvern er eiginlega þessi þétting byggðar ? Fyrir skipulagsviðvaninga og sérvitringa, sem gleypa skipulagsklisjur erlendis frá hráar, þar sem skortur er á landrými. Að nýta hvern óbyggðan blett undir byggingar er að níðast á íbúum, sem þar eignuðust íbúðir í þeirri góðu trú, að "lífsrýmið" héldist nokkurn veginn óbreytt. Þétting byggðar skerðir lífsgæði fólks. Um það er engum blöðum að fletta. Að fækka bílastæðum er liður í þéttingu byggðar, því að fólk borgarstjórnarmeirihlutinn og Sóley Tómasdóttir ímynda sér, að með því muni þau minnka útblástur frá bifreiðum. Þau ætla að vekja kaupmanninn á horninu upp frá dauðum og breyta Vatnsmýrinni í byggingarland. Þessi hugmyndafræði er byggð á sandi. Bílum mun ekki fækka, og fólk mun kjósa að verzla, þar sem vöruval er mikið og vöruverð hagstætt. Ef Reykjavíkurflugvöllur verður lagður niður eykst aukamagn eldsneytis í flugvélum að og frá landinu um allt að 10 t, sem hafa mun í för með sér mikla aukningu á losun gróðurhúsalofttegunda og annarri mengun út í andrúmsloftið á hvern farþega. Í heild yrði lokun Reykjavíkurflugvallar ein sóðalegasta aðgerð í umhverfisverndarlegu tilliti, sem hugsazt getur. Fáfræði forræðishyggjunnar kemur þannig almenningi illilega í koll, eins og fyrri daginn.
Fólki er lífsnauðsynlegt að hafa græna bletti innan byggðar sem útivistarsvæði. Slíkt minnkar þörf á akstri langar leiðir til að njóta útiveru. Íslendingar verða að geta ferðazt um á bílum vegna veðurfars og flutninga á börnum sínum í gæzlu, skóla eða frístundastarf. Þétting byggðar og fækkun bíla gengur ekki upp í raunveruleikanum, en lítur þokkalega út á blaði, ef þarfir mannsins eru teknar út fyrir sviga og þeim eytt að hætti sameignarsinna.
Valur Stefánsson skrifaði góða grein í Morgunblaðið, 25. apríl 2014, "Eru flugnemar annars flokks nemar ?". Hann greinir þar frá því, að í Fluggörðum við Reykjavíkurflugvöll er grasrót almannaflugs á Íslandi, sem er flugkennsla, æfinga- og einkaflug. Þetta sé 8 ha svæði með yfir 80 flugvélum og 500-600 flugnemum. Reykjavíkurborg ætti að hýsa slíka starfsemi með myndarbrag og stolti í stað þess að vera eins og naut í flagi og reka í hana hornin.
Matthías Sveinbjörnsson, forseti Flugmálafélags Íslands, hefur upplýst, að fjöldi íslenzkra og erlendra flugnema í bóklegu einkaflugmannsnámi og atvinnuflugnámi, í verklegu námi auk nema í flugkennaranámi, blindflugsnámi, áhafnasamstarfi, sérþjálfun á tilteknar flugvélagerðir, flugvirkjun og flugumferðarstjórn, sé alls 612 hjá Flugskóla Íslands og Flugfélaginu Geirfugli, stærstu flugskólunum á Reykjavíkurflugvelli. Samkvæmt nýju deiliskipulagsdrögunum á að úthýsa þessu öllu og byggja í staðinn kennsluaðstöðu fyrir nemendur í Háskóla Íslands. Þessi aðför að flugkennslu vitnar um hroðalega grunnfærnisleg áform í skipulagsmálum og hreinan yfirgang og átroðslu yfirvalda Reykjavíkurborgar gagnvart "grasrót almannaflugs á Íslandi". Hneykslanlegt athæfi !
Sér til málsbóta hafði S. Björn Blöndal, arftaki og hvíslari Gnarrs, að hann hélt, að flugkennsla færi að mestu fram erlendis, upplýsti Valur Stefánsson, formaður Félags íslenskra einkaflugmanna, í téðri grein. Er fáfræði gild afsökun fyrir stjórnmálamann í valdaaðstöðu ? Nei, og það er engin afsökun til fyrir því að kjósa slíkt fólk til valda. Slíkt fólk á alls ekki að véla um almannahagsmuni. Það getur borað upp í nefið á sér á eigin bleðli og á ekki að kássast upp á annarra manna jússur, eins og þar stendur.
Allt ber að sama brunni. Núverandi meirihluti borgarstjórnar hefur opinberað sig óhæfan til að stjórna borginni. Hann hefur gert sig sekan um glapræði í skipulagsmálum, hunzun á 75 000 manna undirskriftasöfnun án nokkurra skýringa og þar með lýst frati á lýðræðið, orðið uppvís að slæmri framkomu við foreldra vegna sameiningar skóla og sett á ruglingslegar breytingar á stjórnkerfi borgarinnar, þannig að of margar silkihúfur vísa erindisleitendum hver á aðra með gríðarlegum töfum á afgreiðslu sem afleiðingu miðað við það, sem áður var. Nú er hún Snorrabúð stekkur, og borgarstjórinn hefur auðvitað ekki verið til viðtals lengi, enda fullt starf að hafa reiður á fataskápinum og ákveða klæðnað fyrir næstu uppákomu.
31.12.2013 | 17:00
Háskólarnir
Vetrarhefti tímaritsins Þjóðmála, 2013, kom út skömmu fyrir jól og hefur verið holl jólalesning. Þar eru þó ekki einvörðungu jólasögur. Til hrollvekju í tímaritinu má telja grein Einars Steingrímssonar, stærðfræðings og prófessors, "Vondir háskólar, viljalaus stjórnvöld".
Hann staðfestir þar grunsemdir um, að á tímum Katrínar Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra vinstri stjórnarinnar, ólánlegu og starfalitlu, voru efld til muna Pótemkíntjöld rektors Háskóla Íslands (HÍ) og annarra forystusauða háskólasamfélagsins. Téð Katrín, sem læzt vera handhafi stjórnmálalegs réttlætis á Íslandi, gerði ekkert róttækt í málefnum hins ríkisrekna háskóla, en stagaði stöðugt í gatslitin Pótemkíntjöld HÍ. Þó hún færi með utana að lærðan fagurgala um að efla samkeppni um fé úr vísindasjóðum til rannsóknarverkefna í HÍ, þá seig allt á ógæfuhliðina undir stjórn handhafa réttlætisins og ausið var (og er enn) úr ríkishirzlunni í undirmálsverkefni, samkvæmt tilvitnaðri grein prófessors Einars.
Að frumkvæði Kristínar Ingólfsdóttur, rektors, var árið 2006 sett markmið um að koma HÍ í hóp 100 beztu háskóla í heimi án þess að gera nokkuð raunhæft til að ná því, enda eru áhöld um, að þetta markmið sé skynsamlegt fyrir HÍ og eiganda hans. Hér er um að ræða algerlega óraunhæft markmið, sem mætti e.t.v. kalla montmarkmið, af því að því er flíkað á tyllidögum, en lítið raunhæft gert til að ná því. Til að ná þessu þarf alvöru rannsóknarvinnu við Háskólann, en ekki ráðningu manna frá rannsóknarfyrirtækjum á borð við Íslenzka erfðagreiningu og fölsun bókhaldsins með því að telja verkefni fyrirtækjanna til verka Háskólans.
Í stuttu máli ríkir óhæf klíkustjórn í HÍ samkvæmt téðri grein prófessors Einars, sem hyglir meðalmennskunni og hrekur burt hæfileikafólk. Þar er undirmálsfólki hrúgað á jötuna án þess að stunda nokkrar rannsóknir, sem undir nafni standa, og þess vegna birtast aldrei neinar vísindaritgerðir eftir þetta starfsfólk Háskólans í viðurkenndum vísindaritum. Ljótt er, ef satt er, og prófessor Einar fer örugglega ekki með fleipur, því að mat hans er ekki huglægt, heldur hlutlægt og reist á mælanlegum þáttum. Stjórn Háskólans hlýtur falleinkunn hjá téðum starfsmanni sínum. Í Mennta- og menningarmálaráðuneytinu er núna unnið undir ábyrgari stjórn en svo að láta þetta viðgangast án þess að hreyfa legg né lið, eins og þó áður tíðkaðist.
Sem dæmi um sóunina skrifar Einar:
"Á Menntavísindasviði Háskóla Íslands eru um 130 akademískir starfsmenn (lektorar, dósentar og prófessorar) og um 20 í slíkum stöðum við Háskólann á Akureyri. Það eru því um 150 starfsmenn í rannsóknastöðum í menntavísindum við íslenzka háskóla. Allt þetta fólk fær helming launa sinna fyrir að stunda rannsóknir, og yfirlýst stefna HÍ er að komast í fremstu röð rannsóknaháskóla á alþjóðavettvangi, en það krefst þess, að rannsóknastarf skólans sé hátt metið í alþjóðlegum samanburði."
Einar segir síðan frá, hvernig menntavísindamálum er háttað í Bandaríkjunum, BNA, og ber saman við Ísland:
"Það er því nokkuð ljóst, að á Íslandi eru, hlutfallslega, að minnsta kosti tífalt fleiri á launum við rannsóknir í menntavísindum en í Bandaríkjunum. Þetta er ein af mörgum sláandi staðreyndum um risavaxna stærð svokallaðs rannsóknastarfs við íslenzku háskólana."
Síðan ber prófessor Einar þetta ofvaxna ríkisrekna "rannsóknakerfi" saman við annað morkið kerfi, sem var sýndarmennskan helber og féll eins og spilaborg:
"Fjöldi þess fólks, sem fær stóran hluta launa sinna greiddan fyrir rannsóknir í íslenzkum háskólum, er jafnfáránlegur og stærð íslenzku bankanna fyrir hrun."
Þetta opinbera sóunarkerfi óx og dafnaði undir verndarvæng Katrínar, fyrrverandi menntamálaráðherra Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, þó að henni væri kynnt vandamálið og bent á lausn vandans. Núverandi formaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs getur talað mikið og farið með frasa, en hún reyndist algerlega ófær um að hrinda af stað nokkrum umbótum á ríkisrekstrinum, enda hefði hún þar með veitzt að ormagryfju, sem er ein af undirstöðum VG og rétttrúnaðaráróðri vinstri aflanna í landinu. Réttlæti téðrar Katrínar, handhafa hins stjórnmálalega réttlætis, er réttlæti þjófsnautarins, sem nýtir fé, sem tekið er frá eigendum þess með valdi, lagavaldi í þessu tilviki, og dreift til annarra að geðþótta handhafa réttlætisins.
Réttu gæðahvatana vantar í stigakerfi HÍ. Taldar eru greinar og umfang þeirra, en ekkert mat lagt á gæðin. Þetta er úrkynjað stigakerfi, sem tíðkast ekki í góðum háskólum. Til að bæta gráu ofan á svart, fást fleiri stig fyrir birtingu í íslenzku riti en í alþjóðlega viðurkenndu vísindariti. Með eftirfarandi gefur prófessor Einar stjórnkerfi HÍ falleinkunn:
"Staðreyndin er auðvitað sú, að mikill fjöldi akademískra starfsmanna í HÍ ræður alls ekki við neinar rannsóknir, sem ná máli á þeim alþjóðavettvangi, sem skólinn vill gera sig gildandi á."
Og enn er hnykkt á, svo að ekkert fari á milli mála hjá núverandi mennta- og menningarmálaráðherra, Illuga Gunnarssyni, sem ekki getur látið þetta framhjá sér fara, heldur verður að taka á þessu máli og slá þar með tvær flugur í einu höggi:
1) að spara ríkissjóði fé og 2)
að lyfta Háskóla Íslands upp um nokkur gæðaþrep, svo að vægt sé að orði kveðið.
Þetta mundi væntanlega bæta gæði kennslunnar fyrir stúdenta, og þjóðfélagið fengi þá vonandi hæfara fólk úr Háskólanum til starfa.
"Afleiðingin er, að á Íslandi er margfalt fleira fólk á launum en í nokkru sambærilegu landi við að stunda rannsóknir, sem eru einskis virði og sem margar fara beint í þá ruslatunnu, sem flest íslenzk tímarit eru, því að þau eru ólæsileg fyrir meira en 99,9 % viðkomandi vísindasamfélags."
Er þetta rödd hrópandans í eyðimörkinni ? Við svo búið má ekki sitja. Hér skrifar vel metinn prófessor við Háskóla Íslands og bendir á vandamálið og á lausn þess, sem fólgin er í, að fræðimennirnir við háskólana, sem greitt fá fyrir vísindastörf, sem vart ná máli á alþjóðlegan mælikvarða og lítið er gert til að kynna alþjóðlega, leggi sig nú fram um að afla fjár til verkefna sinna úr samkeppnisjóðum.
11.12.2013 | 18:26
PISAPRÓF-2012
OECD, Efnahags- og framfarastofnunin í París, lætur þriðja hvert ár fara fram stöðumat á kunnáttu 15 ára unglinga um allan heim. Birtingu niðurstaðna fylgir urgur í löndum, sem hallar á. Prófað er í stærðfræði, lestri og náttúrufræði.
Kunnáttu íslenzku nemendanna hrakaði frá stöðumati 2009, ef borinn er saman árangur nemendanna árin 2009 og 2012. Verður að segja, að þessi þróun mála er ekki rós í hnappagat fyrrverandi mennta- og menningarmálaráðherra, Katrínar Jakobsdóttur, núverandi formanns Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, enda verður ekki sagt um hana, að hún hafi staðið sig vel í starfi; var óttalega verklítil og virtist líta á það sem meginhlutverk sitt að viðhalda flatneskju og miðstýringu, sem óhjákvæmilega dregur úr fjölbreytni skólakerfisins og sveigjanleika, svo og að leggja stein í götu einkaframtaks á sviði skólamála. Með svo steinrunnin viðhorf í æðsta sessi menntamálanna var von á hlutfallslegri hnignun, eins og raun varð á, enda jókst brottfall nemenda úr námi á dögum téðrar Katrínar. Hún lét viðvörunarorð sem vind um eyru þjóta, enda virtist sem henni væri einhvers konar stéttavarðstaða hugleiknari en hagur nemenda. Er það gamla sagan með sameignarsinnana, að kerfið er þeim mikilvægara en enstaklingurinn.
Stór orð hafa verið látin falla um frammistöðu íslenzku nemendanna, en slíkur málflutningur er líklegast stormur í vatnsglasi og óréttmætur. Miðað við þá beztu, sem voru nemendur í kínversku risaborginni Shanghai, náðu íslenzku nemendurnir 80 % árangri að meðaltali. Það er ekki slæmt og hefur aldrei verið talið slæmt að fá 8,0 í einkunn, þó að einhver hafi fengið 10. Það þarf enginn að fara á límingunum út af þessu. Við viljum ekki það skipulag, sem útheimtir árangur ungviðisins í Shanghai. Við vinnum að líkindum forskot þeirra upp síðar á ævinni með frjóari huga og meiri dugnaði.
Það er óþarfi að kollsteypa íslenzka skólakerfinu eða að fara út í stórkarlalegar ásakanir á hendur íslenzku kennarastéttinni þrátt fyrir síðustu PISA-niðurstöður. Til að auka líkur á hlutfallslega bættri frammistöðu íslenzkra nemenda og þar með að bæta kunnáttu þeirra og færni til að takast á við viðfangsefni framtíðarinnar þarf aðeins að sníða nokkra agnúa af kerfinu til að beina því inn á árangursmiðaðri braut en vinstri vellingurinn hefur lagt upp með:
- Það þarf að gefa skólastjórunum og kennurunum lausari tauminn við að velja námsefni og kennsluaðferðir. Það má bjóða upp á samræmd próf í t.d. íslenzku, reikningi, eðlisfræði, náttúrufræði og erlendu tungumáli á grundvelli staðlaðrar námskráar, en skólunum ætti að vera frjálst að velja eitthvað eða ekkert af þessu fyrir hvern árgang. Það verður þó augljóslega að gæta samræmis yfir landið með lokapróf upp úr grunnskólum, nema framhaldsskólarnir taki upp inntökupróf.
- Rekstrarform skólanna verða að vera frjáls, og hverjum nemanda ætti að fylgja sama upphæð frá hinu opinbera. Foreldrar eru lykilatriði í velgengni barna sinna í lífinu, og ef þeir kjósa að velja einhvern skóla fyrir barn sitt eða börn, sem er dýrari en svo, að opinbera upphæðin hrökkvi til, þá á að leyfa þeim að leggja fram þá viðbót, sem skólinn setur upp. Stuðningur og þátttaka foreldranna í skólastarfinu er barninu ómetanlegur. Það á ekki að draga úr valfrelsi þeirra, sem geta og vilja njóta þess, þó að einhverjir annaðhvort ekki geti né vilji leggja fram viðbótar fé í menntun barna sinna. Slík þröngsýni og/eða öfund dregur úr framþróunarhraða þjóðfélagsins sem heildar, kemur öllum í koll og má þess vegna vel nefna jafnaðarstefnu andskotans.
- Það á að hafa kennsluna meira einstaklingsmiðaða en nú er. Þetta þýðir einfaldlega það, að veita ber skólum frelsi til að raða nemendum saman í deildir, eins og skólunum þykir árangursríkast. Hvers vegna á að skapa hjá nemendum skólaleiða, af því að þeir fá ekki viðfangsefni við sitt hæfi ? Það er enginn bættari með því.
- Verklega námið er vanrækt, og við svo búið má ekki standa. Nemendur eiga að fá tækifæri til að þróa alhliða hæfileika sína, og áhugasvið sumra er aðallega á sviði bóklegrar kunnáttu, en annarra á verklegum sviðum. Hvoru tveggja á að gera jafnhátt undir höfði, því að markmið grunnskólans á ekki að vera einhvers konar síun hafra frá sauðum, heldur að veita æskunni nútímaleg tækifæri til að þroska hæfileika sína og þróa kunnáttuna samkvæmt eigin áhugasviðum. Ef kerfið er niður njörvað, minnkar námsáhugi flestra, árangur skólanna verður lakari og fleiri tæpir nemendur falla úr námi.
- Brottfall úr skóla er helzti ljóður á ráði skólakerfisins nú um stundir og gefur til kynna, að það mæti ekki þörfum æskunnar, viðskiptavina sinna, með viðeigandi hætti. Upp úr grunnskóla þurfa þess vegna að liggja a.m.k. 2 samræmdar leiðir, sem í grundvallaratriðum má kalla bóklegu leiðina og verklegu leiðina. Fábreytnin eykur spennu á meðal kennara og nemenda, sem jafngildir sóun hæfileika. Skólakerfið verður að sníða að nemendunum til að forðast sóun, en Katrín Jakobsdóttir og hennar nótar eru grunaðir um öfuga hugmyndafræði í anda hugmyndarinnar um "homo sovieticus", þar sem laga átti einstaklinginn að kerfinu. "Nómenklatúran" er með allt á hreinu og sýnir enga miskunn. Þess vegna setti Katrín jafnan kíkinn fyrir blinda augað, þegar kom að því að leysa vandamál á borð við brottfallið.
Almenningur um heim allan upplifir nú örar breytingar, sem knúnar eru áfram af tækniframförum á sviði tölvukerfa, bæði hugbúnaðar og vélbúnaðar. Þetta er að vísu mjög tvíeggjað vopn, þegar kemur að börnunum, og tölvubúnaður er því miður á Vesturlöndum notaður þannig í uppeldinu, að fallið er til að spilla fyrir alhliða þroska barnanna, gera þau veruleikafirrt, hugmyndasnauð og jafnvel taugaveikluð. Ábyrgðarhluti foreldranna er stór í þessum efnum, og vandrataður er hinn gullni meðalvegur.
Að mörgu leyti leiða Asíuþjóðir skynsamlega hagnýtingu hinnar nýju tækni við uppeldið, sem endurspeglast í staðgóðum þekkingargrunni 15 ára nemenda þessara landa. Þar leiðir hin nýja tækni ekki til forheimskunar æskulýðsins, að því er virðist.
Kína er þarna leiðandi, en því fer þó fjarri, að við ættum að leita fyrirmynda þar í landi, enda hefur gæðastig framleiðslu Kínverja alls ekki enn náð gæðastigi á Vesturlöndum, yfirleitt. Einnig er athyglivert að sjá, hversu vel Singapúr gengur og yfir langt tímabil. Singapúr er borgríki, þar sem auðvaldsskipulag ríkir, og þar er samkeppni á milli skóla um hylli nemenda og foreldra, sem greiða þurfa til skólanna, sem þeir velja.
Finnar hafa um hríð þótt vera til fyrirmyndar í menntamálum, mennta kennara sína vel, og þeir munu vera á tiltölulega góðum launum. Þá þykir kennarastéttin njóta óskoraðrar virðingar í Finnlandi, líkt og hér var á árum áður og vert er. Finnar hafa komið vel út úr PISA-prófum í um tvo áratugi. Nú bregður hins vegar svo við, að þeir gefa eftir fyrir Asíubúum og árangur Finna versnar að tiltölu. Þetta er í samræmi við þá þróun, að Asía skákar Vesturlöndum, þ.e. Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku, aftur fyrir sig á mörgum sviðum. Sennilega eru skipuleg vinnubrögð og agi bæði kennara og nemenda stór þáttur í sókn Asíubúa.
Við Íslendingar þurfum ekki að una okkar hlut illa með 80 % árangur á við hina beztu og eigum einfaldlega að halda þá leið í menntamálunum, sem við teljum henta okkur bezt. Það er óskynsamlegt að reyna að apa menntunarfyrirkomulag og hegðun upp eftir öðrum, sem sniðið er við aðrar menningarlegar aðstæður, þó að hollt sé að hafa kerfi til hliðsjónar, sem skilað hafa góðum árangri. Aðalatriðið er, að skólarnir líti á nemendur sem viðskiptavini, sem komnir eru í skólana til að þroska hæfileika sína á einstaklingsgrunni til að verða sem nýtastir þegnar í þjóðfélaginu.