Flugkennsla á faraldsfæti ?

Það er fáheyrt ábyrgðarleysi og helber ósvífni að hálfu borgarstjórnarmeirihlutans að setja nám æskufólks, sem sérhæfa vill sig á sviði flugsins, í uppnám með því annars vegar að reka alla, sem aðstöðu hafa í Fluggörðum, sem er á borgarlandi, út á Guð og gaddinn, og hins vegar að þrengja að Reykjavíkurflugvelli, á ríkislandi, með óbilgjörnum hætti þar til hann verður órekstrarhæfur, og loka verður honum vegna skorts á áreiðanleika, fyrir kennsluflugi og öllu öðru flugi, enda ætlar Björt framtíð, Samfylking og Vinstri grænir að sprengja upp núverandi mannvirki, keyra burtu til hreinsunar gríðarlegu magni af menguðum jarðvegi, leggja götur og allar nauðsynlegar lagnir fyrir lóðirnar, sem ekki munu nú verða af ódýrara taginu.

"Við teljum ekki raunhæft að byggja upp kennsluflugið á Selfossi.  Fjarlægðin frá höfuðborginni veikir starfsemina þar", sagði Matthías Sveinbjörnsson, formaður Flugmálafélags Íslands í viðtali við Morgunblaðið 12. apríl 2014 undir fyrirsögninni "Aðstaðan stenst ekki skilyrði".

Matthías kvað margar ástæður vera fyrir því, að bezt sé að hafa Reykjavíkurflugvöll áfram sem miðstöð flugmennta á Íslandi.  Flugkennslan verði að fara fram í stjórnuðu loftrými, sem þýði, að fyrir hendi séu blindflugsbúnaður, flugturn og flugumferðarstjórar að störfum. 

Þótt kennsluvélarnar yrðu færðar til Selfoss, kvað Matthías umferð á Reykjavíkurflugvelli lítið minnka við það, því að þangað yrðu nemar að leita til að læra við þessar stýrðu aðstæður.  Ef vel á að vera, þurfi nemendur að búa í grennd við kennsluflugvöllinn, því að verklega kennslan sé veðurháð.

Allir hljóta að skilja, hversu flugið skipar mikilvægan sess í samgöngumálum Íslands bæði vegna legu landsins og þess, að á landinu eru engar járnbrautarsamgöngur.  Af eðlilegum ástæðum eru Íslendingar flugþjóð.  Einkaflugmenn á Íslandi eru þrefalt fleiri en í Bandaríkjunum á hvern íbúa, atvinnuflugmenn 3,7 sinnum fleiri og svifflugmenn 4,2 sinnum fleiri.  Árið 2010 stóð flugrekstur undir 6,6 % af landsframleiðslu og 9200 störfum.  Þessar stærðir hafa vaxið á tímabilinu 2011-2014 og munu enn fara vaxandi, ef forræðishyggjusinnaðir stjórnmálamenn fá ekki tækifæri til að setja sand í tannhjólin. 

Árleg verðmætasköpun hvers starfsmanns í loftferðaþjónustu var 70 % meiri en meðalstarfsmanns á Íslandi samkvæmt upplýsingum Matthíasar Sveinbjörnssonar í Morgunblaðinu 15. aðríl 2014. 

Það er kominn tími til þess fyrir S. Björn og Dag að átta sig á því, að flugkennslan myndar hornstein þessara mikilvægu innviða landsins.  Það er samt ástæða til að óttast, að þeir kumpánar, sem nú ryðjast fram með nýtt aðalskipulag, þar sem Reykjavíkurflugvöllur hverfur af kortinu árið 2022 og með kynningu á hverfaskipulagi í Vesturbænum, sem er endurskoðað deiliskipulag, þar sem freklega á að ganga á eignarrétt íbúanna með því að byggja íbúðarhús, þar sem nú eru bílastæði, bílskýli eða bílskúrar.  Það verður stríðsástand í Vesturbænum, ef þröngsýn og fáfróð borgaryfirvöld keyra þessa stefnu á framkvæmdastig.  

Fyrir hvern er eiginlega þessi þétting byggðar ?  Fyrir skipulagsviðvaninga og sérvitringa, sem gleypa skipulagsklisjur erlendis frá hráar, þar sem skortur er á landrými.  Að nýta hvern óbyggðan blett undir byggingar er að níðast á íbúum, sem þar eignuðust íbúðir í þeirri góðu trú, að "lífsrýmið" héldist nokkurn veginn óbreytt.  Þétting byggðar skerðir lífsgæði fólks.  Um það er engum blöðum að fletta.  Að fækka bílastæðum er liður í þéttingu byggðar, því að fólk borgarstjórnarmeirihlutinn og Sóley Tómasdóttir ímynda sér, að með því muni þau minnka útblástur frá bifreiðum.  Þau ætla að vekja kaupmanninn á horninu upp frá dauðum og breyta Vatnsmýrinni í byggingarland.  Þessi hugmyndafræði er byggð á sandi.  Bílum mun ekki fækka, og fólk mun kjósa að verzla, þar sem vöruval er mikið og vöruverð hagstætt.  Ef Reykjavíkurflugvöllur verður lagður niður eykst aukamagn eldsneytis í flugvélum að og frá landinu um allt að 10 t, sem hafa mun í för með sér mikla aukningu á losun gróðurhúsalofttegunda og annarri mengun út í andrúmsloftið á hvern farþega.  Í heild yrði lokun Reykjavíkurflugvallar ein sóðalegasta aðgerð í umhverfisverndarlegu tilliti, sem hugsazt getur.  Fáfræði forræðishyggjunnar kemur þannig almenningi illilega í koll, eins og fyrri daginn.   

Fólki er lífsnauðsynlegt að hafa græna bletti innan byggðar sem útivistarsvæði.  Slíkt minnkar þörf á akstri langar leiðir til að njóta útiveru.  Íslendingar verða að geta ferðazt um á bílum vegna veðurfars og flutninga á börnum sínum í gæzlu, skóla eða frístundastarf.  Þétting byggðar og fækkun bíla gengur ekki upp í raunveruleikanum, en lítur þokkalega út á blaði, ef þarfir mannsins eru teknar út fyrir sviga og þeim eytt að hætti sameignarsinna.

Valur Stefánsson skrifaði góða grein í Morgunblaðið, 25. apríl 2014, "Eru flugnemar annars flokks nemar ?".  Hann greinir þar frá því, að í Fluggörðum við Reykjavíkurflugvöll er grasrót almannaflugs á Íslandi, sem er flugkennsla, æfinga- og einkaflug.  Þetta sé 8 ha svæði með yfir 80 flugvélum og 500-600 flugnemum.  Reykjavíkurborg ætti að hýsa slíka starfsemi með myndarbrag og stolti í stað þess að vera eins og naut í flagi og reka í hana hornin. 

Matthías Sveinbjörnsson, forseti Flugmálafélags Íslands, hefur upplýst, að fjöldi íslenzkra og erlendra flugnema í bóklegu einkaflugmannsnámi og atvinnuflugnámi, í verklegu námi auk nema í flugkennaranámi, blindflugsnámi, áhafnasamstarfi, sérþjálfun á tilteknar flugvélagerðir, flugvirkjun og flugumferðarstjórn, sé alls 612 hjá Flugskóla Íslands og Flugfélaginu Geirfugli, stærstu flugskólunum á Reykjavíkurflugvelli. Samkvæmt nýju deiliskipulagsdrögunum á að úthýsa þessu öllu og byggja í staðinn kennsluaðstöðu fyrir nemendur í Háskóla Íslands.  Þessi aðför að flugkennslu vitnar um hroðalega grunnfærnisleg áform í skipulagsmálum og hreinan yfirgang og átroðslu yfirvalda Reykjavíkurborgar gagnvart "grasrót almannaflugs á Íslandi".  Hneykslanlegt athæfi !

Sér til málsbóta hafði S. Björn Blöndal, arftaki og hvíslari Gnarrs, að hann hélt, að flugkennsla færi að mestu fram erlendis, upplýsti Valur Stefánsson, formaður Félags íslenskra einkaflugmanna, í téðri grein.  Er fáfræði gild afsökun fyrir stjórnmálamann í valdaaðstöðu ?  Nei, og það er engin afsökun til fyrir því að kjósa slíkt fólk til valda.  Slíkt fólk á alls ekki að véla um almannahagsmuni.  Það getur borað upp í nefið á sér á eigin bleðli og á ekki að kássast upp á annarra manna jússur, eins og þar stendur.

Allt ber að sama brunni.  Núverandi meirihluti borgarstjórnar hefur opinberað sig óhæfan til að stjórna borginni.  Hann hefur gert sig sekan um glapræði í skipulagsmálum, hunzun á 75 000 manna undirskriftasöfnun án nokkurra skýringa og þar með lýst frati á lýðræðið, orðið uppvís að slæmri framkomu við foreldra vegna sameiningar skóla og sett á ruglingslegar breytingar á stjórnkerfi borgarinnar, þannig að of margar silkihúfur vísa erindisleitendum hver á aðra með gríðarlegum töfum á afgreiðslu sem afleiðingu miðað við það, sem áður var.  Nú er hún Snorrabúð stekkur, og  borgarstjórinn hefur auðvitað ekki verið til viðtals lengi, enda fullt starf að hafa reiður á fataskápinum og ákveða klæðnað fyrir næstu uppákomu. 

Listakjör

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband