Færsluflokkur: Fjármál
7.1.2023 | 13:48
Niðurlæging höfuðborgarinnar
Það er alveg sama, hvar borið er niður. Niðurlæging höfuðborgarinnar á þeim tíma, sem "good for nothing persons" undir forystu Samfylkingarinnar hafa verið þar við völd, er alger, og þessi sjálfhælna einskis nýta stjórnmálahreyfing, sem í krafti forsjárhyggju sósíalismans þykist vera í stakk búin að hafa vit fyrir öðrum, kann ekki fótum sínum forráð, þegar til kastanna kemur.
Ef mótdrægir atburðir verða, sem krefjast skjótra og fumlausra viðbragða stjórnendanna, er það segin saga, að allt fer í handaskolum. Samfylkingin er búin að ganga af stjórnkerfi borgarinnar dauðu. Nú eru hæfileikasnauðir stjórmálamenn sem stjórnendur yfirgripsmikilla málaflokka látnir stjórna málaflokkum, sem öflugir embættismenn með fullt vald á tæknihliðum sinna málaflokka, stjórnuðu áður af röggsemi undir beinni stjórn borgarstjóra. Það er borin von um breytingar til batnaðar í borginni, á meðan ráðstjórnarfyrirkomulag Samfylkingarinnar er þar við lýði.
Dæmi um þetta er embætti borgarverkfræðings, sem aflagt var, og við tók m.a. umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur. Þetta er í anda gömlu sovétanna eða ráðanna, sem kommúnistaflokkur Ráðstjórnarríkjanna raðaði sínu fólki í. Hvernig fór fyrir Ráðstjórnarríkjunum ? Þau hrundu 1991 vegna rotnunar innan frá.
Eftir mikla snjókomu, hvassviðri og kulda helgina 18.-19. desember 2022 kom í ljós alvarleg brotalöm í snjómokstri borgarinnar. Hún stóð sig miklu lakar en nágrannasveitarfélögin. Var þá m.a. kallaður til útskýringa formaður ofangreinds ráðs borgarinnar, sem virtist vera nýdottinn ofan úr tunglinu og ekki vita í þennan heim né annan. Varð þessari formannsdulu það helzt fyrir að leita blóraböggla utan borgarkerfisins, og urðu verktakar fyrir valinu og þvaðraði um handbók, sem væri í smíðum. Meiri verður firringin (fjarlægðin frá raunveruleikanum) ekki. Allt er þetta eins lágkúrulegt og hugsazt getur.
Lítið skánaði málið, þegar leitað var ráða hjá nýjustu mannvitsbrekkunni, sem inn í þetta sovétkerfi borgarinnar gekk eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar með slagorð á borð við breytum borginni, varð óðara formaður borgarráðs og á að taka við borgarstjóraembættinu af fallkandidatinum Degi B. Eggertssyni. Verkvit væntanlegs borgarstjóra lýsti sér mjög vel með þeirri uppástungu, að borgin skyldi kaupa nokkra pallbíla með tönn framan á. Hjá borginni leiðir blindur haltan, og firringin er allsráðandi.
Ekki verður hjá því komizt í kuldakastinu í desember 2022 að minnast á hlut Orkuveitu Reykjavíkur-OR og dótturfélaga í velferð íbúa höfuðborgarsvæðisins. Nýlega kom framkvæmdastjóri ON, dótturfélags OR, sem sér um orkuöflun og hefur algerlega látið hana sitja á hakanum undandarinn áratug, með spekingssvip í fréttatíma sjónvarps allra landsmanna og boðaði þar þá kenningu í tilefni vetrarkulda, að óskynsamlegt væri að afla heits vatns til að anna toppálagi hjá hitaveitunni. Þetta er nýstárleg kenning um hitaveituþjónustu fyrir almenning. Tímabil með -5°C til -10°C, eins og var á jólaföstunni á höfuðborgarsvæðinu, getur varað vikum saman. Ef ekkert borð er haft fyrir báru, eins og nú virðist vera uppi á teninginum hjá OR og dætrum, gerist einmitt það, sem gerðist í aðdraganda jóla, að ein bilun veldur svo stórfelldum vatnsskorti (20 %), að loka verður öllum útilaugum á höfuðborgarsvæðinu í 2 sólarhringa og hefði getað varað lengur. Þetta er óboðleg stefna. Miða á við s.k. (n-1) reglu, sem þýðir, að í kerfinu er borð fyrir báru til að halda uppi fullri þjónustu, þótt ein eining bili á háálagstíma. Þá er líka nauðsynlegt svigrúm til fyrirbyggjandi viðhalds fyrir hendi á hverjum tíma.
Hér gætir fingrafara Samfylkingarinnar, eins og alls staðar í borgarkerfinu. Hún lætur borgarsjóð blóðmjólka OR til að standa straum af gæluverkefnum sínum og silkihúfum, en fórnar fyrir vikið hagsmunum íbúanna, sem ekki hafa í önnur hús að venda, nema að flytjast um set a.m.k. 50 km.
Þarna er Samfylkingunni rétt lýst. Hún smjaðrar fyrir almenningi og þykist allt vilja gera fyrir alla á kostnað sameiginlegra sjóða, en hikar ekki við að fórna hagsmunum almennings til að geta haldið uppi sukkinu, sem völd hennar í Reykjavík hvíla á. Stefna Samfylkingarinnar er reist á botnlausri skattpíningu og skuldasöfnun, sem er eitruð blanda, sem getur ekki gengið upp til lengdar, enda er nú komið nálægt leiðarenda og allt í hönk.
Morgunblaðið gerði sorglegum stjórnarháttum Samfylkingarinnar verðug skil í forystugrein 20. desember 2022:
"Grátlegt að horfa upp á niðurlæginguna".
Hún hófst þannig:
"Það er sárt til þess að vita, hvernig komið er fyrir borginni okkar, höfuðborginni. Það er sama, hvert litið er. Hvernig gat þetta farið svona illa ? Stóru málin sýna þetta og sanna. Fjármál borgarinnar og þá ekki síður vandræðin í skipulagsmálum hennar. Þetta tvennt er auðvitað nægjanlega yfirþyrmandi, enda mun hvert það sveitarfélag bágt, þar sem bæði fjárhagsstaða og skipulagsmál hafa verið keyrð í þrot af fullkomlega óhæfum stjórnendum, sem hafa ekki auga fyrir slíkum þáttum og sitja þó keikir í stólunum í Ráðhúsinu, sem þeir voru á móti því, að yrði byggt og þar með fyrir þeim, sem gætu gert betur, en aldrei verr."
Samfylkingin hefur eyðilagt stjórnkerfi borgarinnar með sovétvæðingu sinni, ráðsmennsku, og þar með varðað leið höfuðborgarinnar til glötunar. Stjórnmálamennirnir, sem öllu ráða í ráðum borgarinnar, eru óhæfir stjórnendur; það er ekki ofmælt hjá ritstjóra Morgunblaðsins, enda sýna verkin merkin. Það er sama, hversu hæfir embættismenn eru ráðnir inn í svona kerfi. Þeir fá ekki tækifæri til að njóta sín undir ráðunum, eins og samanburður á frammistöðu Véladeildar borgarverkfræðings forðum tíð og umhverfis- og skipulagssviðs nú í snjómokstri sýnir glögglega.
Ritstjórinn vék að mannvitsbrekkunni, sem nú er afleysingaborgarstjóri og hefur valdið villuráfandi kjósendum Framsóknarflokksins ómældum vonbrigðum á undraskömmum tíma:
"En ásamt borgarfulltrúum minnihlutans hefur formaður borgarráðs, sem vann óvæntan sigur og hefur á örfáum mánuðum siglt með málefni borgarinnar úr öskunni í eldinn, látið óhæfan borgarstjóra, sem keyrt hefur fjármál og skipulagsmál í rjúkandi rúst, teyma sig út á berangur spillingur. Allt er þetta með ólíkindum."
Þeim mun verr gefast heimskra manna ráð, sem þeir koma fleiri saman, var einu sinni sagt, og það hefur berlega sannazt í Ráðhúsi Reykjavíkur. Það gafst afleitlega að fjölga borgarfulltrúum og hefur reynzt rándýrt. Miðað við meginkosningaloforð Framsóknar í borginni hefur efsti maður listans reynzt ómerkur orða sinna. Engin breyting til batnaðar hefur orðið á högum borgarinnar við komu hans í pólitíkina. Hann lætur ferðaglaða lækninn teyma sig á asnaeyrunum, hvert sem er.
"En tilfallandi mál opinbera einnig stjórnleysi og aumingjadóm. Og það gerði svo sannarlega snjóhríð og erfið átt, sem hvorugt var af verstu gerð, þótt slæmt væri. Þegar í stað varð algerlega ófært um alla borg ! Ríkisútvarpið "RÚV" spurði mann hjá borginni, sem var sagður eiga að bregðast við atvikum eins og þessum, út í öngþveitið, sem varð. Hann viðurkenndi aftur og aftur, að þetta hefði ekki verið nægjanlega gott, og var sú játning þó óþörf. En hann bætti því við til afsökunar, að borgin hefði aðeins "tvær gröfur" - "TVÆR GRÖFUR", sem nota mætti í verkefni af þessu tagi, og hefðu þær ekki haft undan. Engu var líkara en "RÚV" hefði farið þorpavillt og náð sambandi við 150 manna sveitarfélag úti á landi, þar sem alls ekki væri útilokað, að tvær gröfur hefðu getað hjálpað til að halda 200 m aðalgötu sveitarfélagsins opinni."
Það er deginum ljósara nú í skammdeginu, að viðbúnaðaráætlun borgarinnar gagnvart hríðarviðri er hvorki fugl né fiskur eða innleiðing hennar hefur farið fyrir ofan garð og neðan, nema hvort tveggja sé. Við blasir ónýtt stjórnkerfi borgarinnar, enda er þetta ráðstjórn með silkihúfum stjórnmálanna, sem hefur safnað öllum völdum í sínar hendur og lagt sína dauðu hönd þekkingarleysis og ráðleysis á verkstjórn borgarinnar. Tiltækur tækjafloti borgarinnar núna er miklu minni en á dögum borgarverkfræðings og gatnamálastjóra, sem áður fyrr voru ábyrgir fyrir snjómokstri í borginni undir yfirstjórn borgarstjóra. Að venju, þegar eitthvað bjátar á, hvarf borgarstjóri, og mun Dagur hafa skroppið til Suður-Afríku. Ráðstjórnarkerfi hans er ónýtt, og það verður að fleygja því á öskuhaugana áður en nokkur von getur vaknað um tök á þessum málum. Síðan verður að ráða menn með bein í nefinu og verkþekkingu til að skipuleggja viðbúnað og framkvæma hann eftir þörfum. Stjórnunarleikir silkihúfanna eru dramatískir sorgarleikir óhæfra leikara.
Að lokum sagði í téðri forystugrein:
"Á meðan borgin var og hét og var ekki stjórnað af óvitum, þá hafði hún öfluga sveit Véladeildar borgarinnar, sem búin var beztu tækjum, sem völ var á í landinu. Einatt, þegar von var atburða, eins og urðu í gær, þá færði borgarstjórinn í alvöru borg sig inn í höfuðstöðvar Véladeildar borgarinnar, sem var hið næsta höfuðstöðvum borgarverkfræðings, og fylgdist með viðbrögðum öflugra sveita fram eftir nóttu. En nú þarf ekki annað en smáa snjósnerru og goluþyt, til að öllu sé siglt í strand í borg manna, sem treysta á 2 litlar gröfur í veðurneyð.
Niðurlæging borgarinnar í fjármálaólestri og strandi skipulagsmála, sem eru þó helztu afreksverk Dags. B. Eggertssonar, er bersýnileg, en þegar fjármálabrall leggst við umferðaröngþveiti, sem sífellt versnar, er orðið fátt um fína drætti."
Þetta er athygliverð frásögn fyrrverandi borgarstjóra um stjórnarhætti í skilvirku stjórnkerfi borgarinnar, eins og það var áður en vinstri menn rústuðu því og stofnuðu ráðin, þar sem stjórnmálamenn Samfylkingar og fylgifiska fara með öll völd án þess að hafa nokkra stjórnunargetu eða verksvit. Borgarstjórinn móðgar ekki afæturnar í ráðunum með því að taka fram fyrir hendur þeirra og setja þar með hagsmunabandalag vinstri klíkanna í uppnám. Þó er til neyðarstjórn í borginni, þar sem borgarstjóri er í formennsku, en hún var ekki kölluð saman, þótt ástæða hefði verið til, enda borgarstjóri að spóka sig á suðurhveli jarðar.
Menn taki eftir því, að hinir hæfu embættismenn, borgarverkfræðingur og gatnamálastjóri, sáu ástæðu til þess, að borgin réði sjálf yfir öflugum tækjaflota af beztu gerð. Amlóðar Samfylkingarinnar og fylgitunglanna reiða sig hins vegar alfarið á verktaka án þess að hafa gengið frá almennilega öruggum samningum við þá. Hvers vegna er dæminu ekki snúið við til öryggis og verktökum leigðar vélarnar með áhöfn á sumrin, þegar borgin þarf ekki á þeim að halda, en yfirleitt er törn hjá verktökum ? Að auki þarf sérútbúnað, eins og snjóblásara, sem blása snjónum upp á vörubílspalla, því að mikil vandræði myndast annars við heimreiðar aðliggjandi lóða og á gangstéttum.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.11.2022 | 11:38
Reginhneyksli ríkisrekstrar á fjármálastofnun
Af einhverjum undarlegum ástæðum er hópur manna í þjóðfélaginu á þeirri skoðun, að ríkisrekstur á fjármálakerfinu eða drjúgum hluta þess sé heppilegasta rekstrarformið fyrir hag almennings. Ekkert er fjær sanni en stjórnmálamenn séu öðrum hæfari til að móta fjármálastofnanir og stjórna þeim. Dæmin þessu til staðfestingar eru mýmörg, en nýjasta dæmið er af Íbúðalánasjóði, sem stjórnmálamenn og embættismenn komu á laggirnar til að keppa við almenna bankakerfið um hylli húsbyggjenda og húsnæðiskaupenda. Þar tókst ekki betur til en svo, að gjaldþrot blasir við með um mrdISK 450 tjóni fyrir ríkissjóð [reiknað til núvirðis mrdISK 200]. Fjármála- og efnahagsráðherra ætlar að koma í veg fyrir þetta mikla tjón með viðræðum við lánadrottnana og viðeigandi aðgerðum í kjölfarið.
Margir hafa fundið sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka allt til foráttu. Ýmist er það aðferðin, sem Bankasýslan mælti með, eða tímasetningin, sem látið er steyta á. Allt er þetta þó skálkaskjól fyrir þau, sem eru með sem mest ríkisafskipti og ríkisrekstur sem einhvers konar trúarsetningu í lífi sínu, alveg sama hversu misheppnað þetta fyrirkomulag er í raun, hvað sem heimspekingar segja um það á pappírnum.
Kaffihúsasnatinn Karl Marx var enginn mannþekkjari, heldur draumóramaður og "fúll á móti", sem hélt hann hefði fengið bráðsnjalla hugmynd, sem kölluð hefur verið kommúnismi. Kommúnisminn í einhverri mynd hefur alls staðar leitt til kollsteypu, og þarf ekki að tíunda það frekar.
Ríkisrekin fjármálafyrirtæki eru þar engin undantekning, eins og hrakfallasaga Íbúðalánasjóðs er gott dæmi um. Hætta ber vífilengjum og staðfesta síðasta söluferli Íslandsbanka og bjóða það, sem eftir er af ríkiseign í bankanum, til sölu. Það er afleitt, að ríkisfyrirtæki séu á samkeppnismarkaði og að ríkissjóður standi fjárhagslega ábyrgur fyrir glappaskotum stjórnmálamanna og ríkisstarfsmanna í bankageiranum.
Þóra Birna Ingvarsdóttir birti fróðlega baksviðsumfjöllun í Morgunblaðinu 24. október 2022 undir fyrirsögninni:
"Svarti sauðurinn, Íbúðalánasjóður".
Þar stóð þetta m.a.:
"Árið 2011 beindi eftirlitsstofnun [EFTA] ESA tilmælum að íslenzkum stjórnvöldum, þar sem lánsfyrirkomulag Íbúðalánasjóðs samrýmdist ekki reglum EES-samningsins um bann við ríkisaðstoð á samkeppnismarkaði. Í tilmælunum fólst, að breyta þyrfti lánastarfsemi Íbúðalánasjóðs þannig, að hann byði ekki lán til kaupa á dýrara húsnæði, takmarka þyrfti lán til leigufélaga og aðgreina þyrfti hina ríkisstyrktu starfsemi frá öðrum þáttum starfseminnar."
EES-samningurinn er ekki alslæmur, því að hann veitir ríkisrekstrarsinnuðum stjórnmálamönnum aðhald, eins og í þessu tilviki, þótt Samkeppniseftirlitið mundi geta tekið í taumana, ef það væri virkt til annars en að þvælast fyrir lúkningu stórsamninga og valda eigendum (hluthöfum) stórtjóni, eins og í tilviki sölu Símans á Mílu. Þar er ekki hægt að sjá, að nokkurt vit hafi verið í tafaleikjum og kröfum Samkeppniseftirlitsins um breytingar á sölusamningi, en hluthafar Símans misstu af of mörgum milljörðum ISK vegna óhæfni embættismanna.
Í lokin sagði í téðri baksviðsfrétt:
"Ríkið ber ábyrgð á skuldbindingum ÍL-sjóðsins. Um er að ræða einfalda ábyrgð, en ekki sjálfskuldarábyrgð. Í einfaldri ábyrgð felst, að ríkissjóður tryggir endurgreiðslur á nafnvirði skulda auk áfallinna vaxta og verðbóta til uppgjörsdags. Hefði verið um sjálfskuldarábyrgð að ræða, hefði ábyrgð ríkisins gagnvart kröfuhöfum í megindráttum verið sú sama og ábyrgð sjóðsins.
Til þess að reka sjóðinn út líftíma skulda [hans] þarf ríkissjóður að leggja til um mrdISK 450 eða um mrdISK 200 á núvirði. Ef sjóðnum yrði aftur á móti slitið nú og eignir seldar og ráðstafað til greiðslu á skuldum, myndi neikvæð staða hans nema mrdISK 47."
Þetta sýnir í hnotskurn, hversu glórulaust fyrirkomulag það var að láta fólk á vegum ríkisins, sem var vitsmunalega og þekkingarlega alls ekki í stakkinn búið til að móta og reka fjármálastofnun, bauka við það viðfangsefni með baktryggingu ríkissjóðs Íslands á fjármálagjörningum sínum. Það á að láta einkaframtakinu þetta eftir á samkeppnismarkaði, þar sem hluthafarnir standa sjálfir fjárhagslega ábyrgir fyrir gjörningunum og veita stjórnendum fyrirtækisins aðhald. Að ímynda sér, að viðvaningar úr stjórnmálastétt og embættismannastétt geti á einhvern hátt staðið betur að þessum málum, er draumsýn, sem fyrir löngu hefur orðið sér til skammar, og almenningur má þá borga brúsann fyrir óhæfnina. Í þessum sósíalisma felst hvorki skynsemi né réttlæti.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.10.2022 | 16:51
Fúsk og bruðl í umferðarmálum býður hættunni heim
Nýlega greindi einn ráðherranna frá því í viðtali í fréttum Ríkissjónvarpsins, að í undirbúningi væri að setja upp gjaldtöku á bifreiðir á leið til höfuðborgarinnar, og væri ætlunin með henni að stýra umferðinni framhjá mesta tafatímanum og að fjármagna framkvæmdir, sem eiga að greiða úr umferðarhnútunum. Þótt þessi aðferð sé viðhöfð víða erlendis, er ekki þar með sagt, að hún sé skynsamleg og réttlætanleg hérlendis. Umferðarhnútarnir í Reykjavík eru vegna vanfjárfestinga í umferðarmannvirkjum á stofnleiðum í Reykjavík, en gjöld á bifreiðaeigendur hafa þó ekki lækkað. Það er órökrétt og ósanngjarnt að taka gjald af umferðinni til að fjármagna það, sem vanrækt hefur verið, og að auki að fjármagna allt of viðamikla og dýra Borgarlínu. Strætó á í fjárhagslegum rekstrarerfiðleikum, en tapið af Borgarlínu, sem er "ofurstrætó, sumir segja strætó á sterum, verður fyrirsjáanlega margfalt, því að spár um þróun hlutdeildar Strætó í heildarumferð á höfuðborgarsvæðinu með tilkomu Borgarlínu úr núverandi 4 % í 12 % eru draumórar einir. Borgarlínan er afsprengi fúskara í umferðartæknilegum efnum og stjórnmálamanna, sem haldnir eru slíkri andúð á einkabílnum, að þeir vilja hrekja almenning út úr honum, þarfasta þjóninum.
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, fyrrverandi borgarstjóri, skrifar iðulega fróðlegar greinar í Morgunblaðið. Ein slík birtist 6. október 2022 undir fyrirsögninni:
"Stefnuleysi og óráðsía".
Hún hófst þannig:
"Núverandi borgarlínutillögur munu aldrei ganga upp. Kostnaður við þá framkvæmd var áætlaður um mrdISK 120, líklega nú kominn í mrdISK 130-140, sem er óheyrilegur og gott dæmi um óráðsíu borgarstjórnarmeirihlutans í fjármálastjórn undanfarin kjörtímabil. Ýmsar borgir, sem upphaflega ætluðu að byggja borgarlínu í háum gæðaflokki, hættu við það og byggðu þess í stað miklu ódýrari borgarlínu, stundum nefnd BRT-Lite [Bus Rapid Transit-innsk. BJo] eða létt borgarlína. Sýnt hefur verið fram á, án þess að gerðar hafi verið athugasemdir, að kostnaður við létta borgarlínu sé rúmar mrdISK 20."
Þórarinn Hjaltason, samgönguverkfræðingur, o.fl. hafa komið fram með þessa Léttlínulausn, sem eru sérreinar hægra megin, en ekki fyrir miðju. Léttlausnin skerðir hvergi venjulegt umferðarflæði, en hætt er við, að Draumóralínan geri það, og hún mun valda gríðarlegri umferðarröskun á framkvæmdatíma.
Það eru engin haldbær rök fyrir því að kasta mrdISK 120 af aflafé almennings út um gluggann í glórulaust gæluverkefni, þegar hið opinbera vanhagar alls staðar um fjármuni. Það er óviðunandi, að hið opinbera ætli nú að forgangsraða fjáröflun sinni til bruðlverkefna, sem engin þörf er á og sem verður viðkomandi sveitarfélögum myllusteinn um háls, þegar kemur að rekstrinum, eins og botnlaus hít Strætó er forsmekkurinn að. Hér hafa fúskarar um samgöngutækni látið eigin forræðishyggju um lifnaðarhætti almennings fengið að ráða för, fólk, sem er svo raunveruleikafirrt, að það gerir sér enga grein fyrir bruðlinu eða er nógu siðlaust til að láta sér það í réttu rúmi liggja.
Þórarinn Hjaltason, samgönguverkfræðingur, skrifaði góða grein í Morgunblaðið 28. september 2022 undir fyrirsögninni:
"Samgöngumál í strjálbýlu landi".
Þar stóð m.a. þetta:
"Þjóðvegir á höfuðborgarsvæðinu hafa líka goldið þess, að vegafé hefur verið af skornum skammti. Á undanförnum áratugum hafa árlegar fjárveitingar til þjóðvega á svæðinu að jafnaði verið um 2 mrdISK/ár, en hefðu þurft að vera 5 mrdISK/ár. Það skýrir, hvers vegna umferðartafir eru óeðlilega miklar á höfuðborgarsvæðinu saman borið við önnur borgarsvæði af svipaðri stærð."
Tekjur ríkisins á þessu tímabili af ökutækjaeigendum hafa verið meiri en útgjöld til vegaframkvæmda- og viðhalds. Í ljósi þess er óásættanlegt, að borg og ríki skuli hafa leyft núverandi umferðarhnútum að myndast í stað þess að t.d. reisa mislæg gatnamót. Borgin á höfuðsök á þessu með því að taka þau út af aðalskipulagi og þvælast fyrir raunverulegum framfaramálum umferðar, t.d. Sundabraut, og til að kóróna vitleysuna hefur áhugafólk um bíllausan lífsstíl vísvitandi og að óþörfu skert umferðarþol gatna borgarinnar með fækkun akreina, þrengingum og álíka ónytjungslegum aðgerðum undir yfirskini umferðaröryggis.
Þetta er fullkomin hræsni, því að þau, sem látið hafa ljósastýrð gatnamót viðgangast á fjölförnum og varasömum gatnamótum, þótt fyrir löngu sé tímabært að setja þar upp mislæg gatnamót, bera ábyrgð á alvarlegum slysum á fólki og stórfelldu fjárhagstjóni. Það er ófært, að ökumenn, sem hafa verið snuðaðir um nauðsynlegar framkvæmdir í öryggisskyni og til tímasparnaðar, eigi nú að borga viðbótar gjald fyrir löngu tímabærar framkvæmdir og að auki fyrir gjörsamlega óþarft bruðlverkefni, sem mun valda bílaumferð auknum vandræðum og soga til sín fjármagn frá öðrum og þarfari verkefnum á höfuðborgarsvæðinu og reyndar um allt land (vegna þátttöku ríkisins).
"Árið 2019 gerðu ríkið og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu með sér samgöngusáttmála um, að á 15 ára tímabili, 2019-2034, yrðu byggð samgöngumannvirki á höfuðborgarsvæðinu fyrir mrdISK 120. Þessi framkvæmdapakki er myndarlegt átak að því leyti, að á 15 ára tímabili á að verja jafnmiklu fé og samsvarar hefðbundnu framlagi ríkisins til þjóðvega á svæðinu í 50 ár. Þegar nánar er skoðað, kemur í ljós, að framkvæmdaáætlun sáttmálans mun ekki minnka umferðartafir. Skýringin er einföld. Borgarlínan mun ekki leysa neinn umferðarvanda. Stokkar og/eða jarðgöng eru tvöfalt til þrefalt dýrari en hefðbundnar lausnir með mislægum gatnamótum. Umferðartafir á höfuðborgarsvæðiu munu því halda áfram að aukast, ef ekki er breytt um stefnu."
Það, sem samgönguverkfræðingurinn Þórarinn upplýsir þarna um, er reginhneyksli. Í stað þess að beita beztu verkfræðilegu þekkingu til að hanna lausn á umferðarmálum höfuðborgarsvæðisins, þar sem fjármagnið nýtist bezt til að greiða fyrir umferðarflæðinu og hámarka öryggi vegfarenda, eru fúskarar, draumóramenn og sérvitringar látnir ráða ferðinni. Það verður viðkomandi stjórnmálamönnum til ævarandi hneisu að standa svona að verki.
Þarfri grein sinni lauk Þórarinn þannig:
"Vegna fámennis verðum við að gæta ýtrustu hagkvæmni við uppbyggingu samgönguinnviða. Við höfum einfaldlega ekki efni á rándýrri útfærslu á borgarlínu. Við höfum heldur ekki efni á því að setja þjóðvegi á höfuðborgarsvæðinu að óþörfu í stokka eða jarðgöng. Við þurfum að fara vel með fjárveitingar til samgönguinnviða. Veljum því tillögu SFA (Samgöngur fyrir alla) https://www.samgongurfyriralla.com um létta borgarlínu (BRT-Lite) og höfum Reykjavíkurflugvöll áfram í Vatnsmýrinni."
Þetta eru hógvær lokaorð samgönguverkfræðingsins, en þeim fylgir mikill þungi og undir hvert orð er hægt að taka. Samgöngumál höfuðborgarinnar eru í fullkomnum ólestri, af því að þar hefur verið látið reka á reiðanum og látið hjá líða að beita beztu fáanlegu samgöngutækni til að leita hagkvæmustu lausna, sem þó losa vegfarendur undan umferðarhnútum, auka öryggi vegfarenda og tryggja snurðulaust umferðarflæði um langa framtíð.
Í staðinn sitja íbúar höfuðborgarsvæðisins og aðrir vegfarendur þar uppi með rándýrt örverpi, sem leysir ekki nokkurs manns vanda, en mun valda fjársvelti til margra þarfra verkefna, ef því verður hleypt áfram, eins og yfirvöld borgarinnar berjast fyrir.
Það verður ekki af Samfylkingunni skafið, að hún er trú skortstefnu sinni á öllum sviðum. Hér slær hún 2 flugur í einu höggi: skapar skort á fé til gagnlegra samgönguverkefna og skort á frambærilegum umferðaræðum í Reykjavík, m.a. með úreltum ljósastýrðum gatnamótum í stað mislægra gatnamóta, sem svara kalli nútímans. Stefna Samfylkingarinnar er í raun að stöðugt vaxandi óreiðu, af því að getuna til að standa uppbyggilega og af ábyrgð að málum skortir.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.5.2022 | 11:22
Geðshræring, þegar yfirvegunar er þörf
Ótrúlegu moldviðri hefur verið þyrlað upp vegna sölu á 22,5 % eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka. Þar eru lítilsigldir stjórnmálamenn að fiska í gruggugu vatni í ljósi sveitarstjórnarkosninganna 14. maí 2022, og ofan á bætist innbyrðis ómerkingakeppni þeirra um athygli og vegsemd innan eigin stjórnmálaflokka. Þetta er frumhlaup stjórnarandstöðunnar í ljósi þess, að Seðlabankinn og Ríkisendurskoðun eru með undirbúning og söluferlið sjálft til skoðunar. Ófáir gagnrýnendanna hefðu notað hvaða fjöður, sem þeir komust yfir, til að búa til 10 hænsni, svo að úthúða mætti þeim gjörningi per se að selja ríkiseignir. Forstokkaðir sameignarsinnar eru ófærir um að draga rökréttar ályktanir af atburðum, gömlum og nýjum, sem sýna glögglega, að binding á ríkisfé í banka í miklum mæli er engu þjóðfélagi til heilla, enda er slíkt yfirleitt ekki tíðkað.
Kolbrúnu Bergþórsdóttur blöskrar framganga stjórnarandstöðunnar í þessu bankasölumáli, enda í raun ótímabær, þar til málið hefur verið krufið til mergjar af til þess settum aðilum. Skýring á þessari hegðun gæti verið tilraun til að draga athygli kjósenda frá gjörsamlega óboðlegum kreddum meirihluta borgarstjórnar, sem hafa valdið stórvandræðum á húsnæðismarkaðnum og fullkominni stöðnun í umferðarmálum, sem auðvitað jafngildir afturför. Gatnakerfi Reykjavíkur er með öllu óboðlegt fyrir þá umferð, sem það þarf að þjóna, það er tæknilega aftarlega á merinni og býður hættunni heim með frumstæðum gatnamótum. Hugmyndafræði meirihluta borgarstjórnar um að fækka bílunum með ofurstrætó á miðju vegstæði eru andvana fæddar skýjaglópahugmyndir. Ofan á þessa hörmung bætist óstjórn fjármála og leynibrall borgarstjóra með "útrásarvíkingi", sem nú er stærsti hluthafi Skeljungs.
Kolbrún ritaði forystugrein Fréttablaðsins 6. maí 2022, sem hún nefndi því lýsandi nafni:
"Vanstilling".
Forystugreinin hófst þannig:
"Það er örugglega ekki vinsæll þankagangur nú um stundir, en samt skal spurt, hvort æsingurinn vegna sölunnar á hlut ríkisins í Íslandsbanka sé ekki fullmikill ? [Þetta mætti Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingar, hugleiða sérstaklega, en hún hefur flestum öðrum átt auðveldan leik við ávöxtun hlutabréfa, sem henni hafa áskotnazt á sérkjörum sem starfsmaður í banka - innsk. BJo.]
Djöfulgangur stjórnarandstöðunnar er skiljanlegur, þótt erfitt sé að hafa þolinmæði með honum. Stjórnarandstaðan þráir ekkert meir en að fella ríkisstjórnina og virðist tilbúin að grípa til hvaða ráða sem er til að það markmið náist. Um leið verða ýkjur, gífuryrði og útúrsnúningar sjálfsagður hluti af málflutninginum. Einmitt þetta gerir stjórnarandstöðuna ótrúverðuga í þessu ákveðna máli, eins og reyndar ýmsum öðrum.
Vissulega blasir við, að í Íslandsbankamálinu var sumu klúðrað. Það jafngildir hins vegar ekki siðleysi, spillingu og svikum við þjóðina, þótt fjölmargir haldi því fram. Það hentar stjórnarandstöðunni t.d. afskaplega vel að nota sem sterkust orð um söluna og sá fræjum tortryggni [á] meðal almennings.
Í mótmælum á Austurvelli sjást margir þeir, sem höfðu sig hvað mest í frammi í skrílslátum á þessum stað eftir bankahrun ["the usual suspects"-innsk. BJo]. Það hvarflar jafnvel að manni, að þetta fólk sakni tímans, þegar það gat æpt sem hæst og barið í potta og pönnur, og sé nú að reyna að endurskapa hann. Þótt slatti af fólki sé á Austurvelli, þá eru mótmælin nú ekki verulega fjölmenn. Það hljóta að vera umtalsverð vonbrigði fyrir æsingafólkið."
Þessi mótmæli í hlaðvarpa Hallveigar og Ingólfs eru óttalega hvimleið og skilja ekkert annað eftir sig en svigurmæli og annan sóðaskap. Þetta fólk hefur lítið fyrir stafni, úr því að það finnur sér ekkert annað til dundurs en að misþyrma vikulega þessum hlaðvarpa fyrstu skrásettu landnámshjónanna á Íslandi og verða til almennra leiðinda með ópum og skrækjum. Það ætti að finna sér einangrað rými og fá þar útrás með því að syngja "Nallann" nokkrum sinnum. Boðskapurinn er enginn, nema almenn samfélagsleg vonbrigði.
Lok þessarar forystugreinar Kolbrúnar voru þannig:
"Spyrja má, hvort það hafi ekki alltaf legið fyrir, að þetta fólk færi upp á háa c-ið, hvernig sem hefði verið staðið að sölu Íslandsbanka. Það hefði ætíð þefað uppi tækifæri til að öskra uppáhaldsorð sín: Spilling ! Vanhæf ríkisstjórn ! [meinar líklega "óhæf ríkisstjórn" !?-innsk. BJo]. Það er bæði sjálfsagt og eðlilegt að fara ofan í saumana á sölu Íslandsbanka, en þeir, sem fá það hlutverk, verða að búa yfir yfirvegun, en ekki lifa í stöðugri vanstillingu."
Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa opinberað vangetu sína (óhæfni) til að taka við upplýsingum og vinna úr þeim, en það er grundvallar atriði fyrir þingmenn að ráða við þetta. Þeir hafa eftir söluna komið eða þótzt koma af fjöllum um aðferðina, sem beitt var, en formaður og forstjóri Bankasýslunnar voru þó búnir að gera þingnefndum ítarlega grein fyrir aðgerðinni og þingmenn ekki gert athugasemdir, nema til að gera sölu ríkiseigna yfirleitt tortryggilega. Morgunblaðið gerði grein fyrir þessu 7. maí 2022 undir fyrirsögninni:
"Fengu kynningu á tilboðsleiðinni".
Fréttin hófst þannig:
"Á fundum með fjárlaganefnd Alþingis 21. febrúar [2022] og með efnahags- og viðskiptanefnd þremur dögum síðar kynntu fulltrúar Bankasýslu ríkisins með ítarlegum hætti, hvaða leið stofnunin legði til við við sölu á frekari hlut ríkisins í Íslandsbanka. Þar var helzt lagt til, það sem kallað er "tilboðsfyrirkomulag", sem var sú leið, sem farin var í útboðinu 22. marz [2022], þegar ríkið seldi 22,5 % hlut í bankanum fyrir um mrdISK 53."
Það er þess vegna helber hræsni stjórnarandstöðunnar á Alþingi, að sú leið, sem farin var, hafi komið þinginu í opna skjöldu. Að einhverju leyti kann sofandaháttur og misskilningur þingmanna að hafa ráðið för, en árásir á ríkisstjórnina í kjölfar útboðsins bera aðeins vitni ómerkilegri tækifærismennsku. Í sumum tilvikum notuðu sameignarsinnar tækifærið til að koma höggi á ríkisstjórnina fyrir yfirleitt að dirfast að koma eigum ríkisins í verð í stað þess að liggja aðgerðalitlar og með talsverðri áhættu sem eigið fé banka. Engum rekstri hentar ríkiseign og ríkisafskipti, og bankastarfsemi er þar engin undantakning.
"Eins og fram kom í úttekt ViðskiptaMogga, fór mikil umræða fram um málið á fundum nefndanna, en enginn nefndarmaður gerði þó efnislega athugasemd við þá leið, sem farin var, þ.e. tilboðsfyrirkomulagið. Þá var heldur ekki gerður fyrirvari um það, hverjir mættu eða mættu ekki fjárfesta í útboðinu.
Í fyrrnefndum glærum kemur fram, að bankasýslan leggi til tilboðsfyrirkomulag í þeim tilgangi að fá sem hæst verð fyrir eignarhlutinn með sem minnstum tilkostnaði. Þótt deilt hafi verið um fyrirkomulagið eftir á, þá gekk þetta markmið eftir."
(Undirstr. BJo) Þar sem söluferlið var með blessun Alþingis og megináformin gengu eftir, er engin málefnaleg ástæða fyrir þingmenn að hneykslast á ferlinu eftir og því síður er ástæða fyrir þingið að haga sér, eins og himinninn hafi hrunið, og að þingið þurfi strax að skipa "óháða" rannsóknarnefnd með öllum þeim tilkostnaði. Rétt bærir eftirlitsaðilar ríkisins fara nú yfir þessa hnökra. Geðshræring þingmanna og vanstilling hefur smitað út frá sér. Fullyrðingar loddara í þeirra röðum um, að fjármála- og efnahagsráðherra hafi átt að hindra föður sinn í að neyta réttar síns til viðskipta í þessu tilviki eru svo ósvífnar og heimskulegar, að engu lagi er líkt. Bankasýslan upplýsti engan um viðskiptamenn á meðan á viðskiptunum stóð og taldi sig ekki einu sinni mega upplýsa ráðuneytið eftir á. Ráðherrann sjálfur skarst þá í leikinn, fékk skrá um kaupendur og opinberaði hana umsvifalaust. Hvernig getur nokkur verið svo skyni skroppinn, að kaup þessa ættmennis ráðherrans hafi farið fram með vitund hans og vilja ? Uppþotið væri of dýru verði keypt. Upphæðin var lág, en öllum mátti vera ljóst, að það er fátt og lítið, sem hundstungan finnur ekki.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.3.2022 | 10:48
Kúvending við örlagaþrungna atburði
Í fyrsta sinn frá Heimsstyrjöld 2 hefur stórveldi ráðizt með hervaldi á fullvalda nágranna sinn í því skyni að ná tökum á öllu landinu. Það gerðist 24.02.2022 með innrás Rússlands í Úkraínu, þrátt fyrir fullyrðingar forseta Rússlands um, að liðssafnaðurinn við landamæri Úkraínu væri þar í æfingaskyni. Sannleikurinn vefst ekki fyrir þessum fyrrum leyniþjónustumanni, sem Kasparof, fyrrum heimsmeistari í skák, líkti nýlega við mafíuforingja.
Sovét-Rússland réðist að vísu með her inn í Ungverjaland og hertók Búda-Pest 1956 og inn í Tékkóslóvakíu árið 1968, en varla er hægt að kalla fórnarlömbin þá fullvalda ríki, enda voru þau á bak við járntjald alræðis kommúnismans í þá daga. Þá horfði Evrópa og upp á hin hræðilegu Balkanstríð á 10. áratugi 20. aldarinnar, þegar Serbar reyndu að sameina ríkin, sem áður voru hluti Júgóslavíu, undir veldi sitt, en Serbar voru ekki stórveldi. Þannig er hinn voveiflegi atburður að næturlagi 24. febrúar 2022 einstakur í sögunni og mun eðlilega hafa gríðarlegar, jafnvel geigvænlegar, afleiðingar. Miklar afleiðingar hafa þegar komið í ljós. Núverandi atburðir munu móta söguna í mannsaldur eða meir. Af afstöðu Kínverja að dæma til hinnar villimannlegu innrásar í Úkraínu, er Rússland að einangrast á öllum sviðum. Ríkisstjórn og herráð Rússlands hafa gert herfileg mistök með innrásinni í Úkraínu, herinn hefur lent í kviksyndi stríðsglæpa með árásum, einnig eldflaugaárásum, á saklausa borgara, íbúðarhús, skóla og sjúkrahús, og vakið viðurstyggð umheimsins. Óskandi væri, að bardagaþrek þessa rússneska innrásarhers þryti alveg og að hann hundskaðist heim til sín með skottið á milli lappanna.
Við sjáum nú, að glæpsamlegt atferli lygalaupsins og ómerkingsins, sem situr enn með valdataumana í Kreml, hefur ekki aðeins náð að sameina Úkraínumenn í blóðugri baráttu gegn ofurefli liðs einræðisseggsins, heldur einnig Vesturlönd og bandamenn þeirra. Þau hafa sameinazt um hörðustu refsiaðgerðir á fjármálasviðinu, sem þekkjast, með þeim afleiðingum, að rússneska rúblan hefur hrunið ásamt rússneska verðbréfamarkaðinum, ýmsum ólígörkum í kringum forseta Rússlands hefur verið meinaður aðgangur að fjárhirzlum sínum á Vesturlöndum, bankaviðskipti Rússa hafa verið torvelduð verulega (SWIFT-takmarkanir) og síðast en ekki sízt hafa eigur rússneska seðlabankans á Vesturlöndum verið teknar eignarnámi um sinn (á meðan Vladimir Putin er við völd). Það er athyglisvert, að Svissland, með alla sína bankaleynd, tekur þátt í ströngum refsiaðgerðum gegn téðum Pútin og hirðinni í kringum hann.
Téður Vladimir Pútín greip þá til vitlausasta svarsins, sem hugsazt gat, þ.e. að hóta kjarnorkustríði. Rússar eiga nú engra annarra kosta völ en að fjarlægja þennan mann úr valdastóli. Æ fleiri valdamönnum í Rússlandi hlýtur að verða það ljóst, að héðan af liggur leiðin bratt niður á við fyrir Pútín, og Rússland má ekki við því að verða dregið lengra ogan í svaðið. Það er þó hægara sagt en gert að losna við einræðisseggi, eins og sannaðist með hetjulegri tilraun Claus von Stauffenbergs og félaga 20. júlí 1944 í Úlfsgreninu í Austur-Prússlandi.
Vesturlönd standa nú sameinuð gegn Rússlandi. Þjóðverjar hafa gert sér grein fyrir áhættunni, sem fylgir kaupum á jarðeldsneytisgasi frá Rússlandi og stöðvað leyfisveitingaferli fyrir Nord Stream 2 gasleiðslu Gazprom á botni Eystrasalts. Þeir hafa kappkostað viðskipti við Rússa í nafni friðsamlegrar samvinnu, en hafa nú áttað sig á því, að hagsmunirnir fara ekki saman. 40 % af orkunotkun Þjóðverja á uppruna sinn í jarðgasi, og u.þ.b. helmingur þessa gass kemur frá Rússlandi.
Skyndilega er rússneska ríkið orðið fjandmaður Sambandslýðveldisins, þar sem sú ógn liggur í loftinu eftir ritgerðaskrif og ræðuhöld forseta Rússlands undanfarna mánuði, að hann sé haldinn einhvers konar köllun um að endurreisa rússneska ríkið með landvinningum, þar sem taka Úkraínu væri bara forsmekkurinn að því, sem koma skal. Fyrir vikið hefur Sambandslýðveldið nú orðið við beiðnum Úkraínustjórnar um að senda Úkraínuher öflug varnarvopn, og munar þar e.t.v. mest um handhæg flugskeyti gegn skriðdrekum og herflugvélum/herþyrlum. Ekki hefur þó frétzt af Leopard 2. skriðdrekanum enn í Úkraínu. Er þó um að ræða hressilega viðbót við þá 5000 hjálma, sem ríkisstjórn Olaf Scholz áður sendi, og sumir litu á sem lélegan brandara, en reyndist síðasti liðurinn í friðþægingarferli Þjóðverja gagnvart Rússum, sem mafíósar túlka bara sem veikleikamerki. Friðþægingarstefnan heyrir nú sögunni til.
Þá var sunnudaginn 27. febrúar 2022 tilkynnt í Berlín um, að ríkisstjórnin hygðist leggja fram fjáraukalagafrumvarp fyrir Bundestag, sem kveður á um mrdEUR 100 eða rúmlega 14 trilljóna ISK (tæplega 5-föld VLF Íslands) viðbótar fjárveitingu til Bundeswehr á örfáum árum til að fullnægja strax viðmiðum NATO um a.m.k. 2,0 % af VLF til hermála á ári. Það mundi svara til mrdISK 60 til varnarmála hérlendis.
Þjóðverjar gera það ekki endasleppt, þegar þeir finna, að að þeim er sorfið. Um þessa sömu helgi söðlaði ríkisstjórnin í Berlín um í orkumálunum. Í stað þess að hvetja til fjárfestinga í vindmyllum og sólarhlöðum, sem eru í senn lítilvirk, plássfrek og óáreiðanleg framleiðslutæki, sem krafjast gasorkuvera með til að fylla í eyður slitrótts rekstrar, þá var ákveðið að leysa raforkuvanda landsins með því að flýta fyrir því að reisa kjarnorkuver, en eins og mörgum er kunnugt, ákvað Bundestag 2011 að tilhlutan fyrrverandi kanzlara CDU, Angelu Merkel, í kjölfar Fukushima hamfaranna í Japan, að loka öllum kjarnorkuverum Þýzkalands í síðasta lagi 2022. Þarna hafa Þjóðverjar loksins tekið raunhæfa stefnu um að verða sjálfum sér nógir með rafmagn án þess að brenna jarðefnaeldsneyti.
Með þessum 3 ákvörðunum ríkisstjórnar og þings í Berlín, þ.e. að senda vopn til stríðandi aðila, að gera Bundeswhr vel bardagahæfan á ný og að reisa kjarnorkuver, hafa Jafnaðarmenn (SPD) kastað friðþægingarstefnu sinni gagnvart Rússum á haugana, og Græningjar hafa kastað friðarstefnu sinni (uppruni þessa flokks eru friðarhreyfingar í Þýzkalandi á 8. og 9. áratug 20. aldar) og hatrammri andstöðu við kjarnorkuver fyrir róða. Miklir atburðir hafa orðið, og er þó innan við vika síðan hinir örlagaþrungnu atburðir hófust.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
4.10.2021 | 18:32
Skattaáþjánin
Nú stendur fyrir dyrum að rita nýjan stjórnarsáttmála, og mun hann veita forsögn um þróun ríkisfjármálanna. Staða þeirra er óviðunandi eftir Kófið. Kjósendur í nýafstöðnum Alþingiskosningum hafa líklega haft þetta í huga, þegar þeir ákváðu, hvernig verja ætti atkvæðinu, því að flokkum hóflausrar þenslu ríkisútgjalda og lántöku á kostnað framtíðarinnar var hafnað. Hafa verður líka í huga, að Seðlabankinn mun neyðast til að bregðast við áframhaldandi þenslustefnu ríkissjóðs með enn harðari aðhaldsaðgerðum en ella, því að hann mun leitast við að koma hér á jákvæðum raunvöxtum sem fyrst, sem dregur úr einkaneyzlu til mótvægis við opinbera þenslustefnu.
Stjórnarflokkarnir virtust samstiga um það í kosningabaráttunni, að hvorki yrði hér þörf á skattahækkunum til að koma böndum á ríkissjóð né róttækum aðhaldsaðgerðum í rekstri ríkissjóðs, ef nauðsynlegur hagvöxtur yrði aðeins tryggður. Þetta er vandrötuð hagstjórnarleið, en ríkisvaldið hefur í sínum höndum ýmis tól og tæki til að örva hagvöxt. Síðan hefur landsmönnum reyndar hlotnazt ávísun á tæplega 100 mrdISK/ár happdrættisvinning, þar sem er spá Hafró um öflugar loðnugöngur 2022-2023.
Eitt af verkfærum ríkisstjórnarinnar til að efla nauðsynlegan hagvöxt er að ýta undir nýjar virkjanir í landinu til að standa undir orkuskiptunum, sem verða aldrei barn í brók án nýrra virkjana, sem hefja þarf strax til að forðast orkuskort. Afturhaldið í landinu þvælist fyrir öllum nýjum virkjunum, en virðist vilja umbylta hér neyzlumynztri og draga úr framleiðslu útflutningsatvinnuveganna til að fá umhverfisvæna orkugjafa til að leysa jarðefnaeldsneytið af hólmi.
Þetta er afspyrnu útúrboruleg hugmyndafræði, sem engum mun gagnast, en mun keyra hér hagkerfið í samdrátt og verða öllum landsmönnum til tjóns og mest þeim, sem minnst mega sín. Þessi sérvizka er ósjálfbær fyrir Ísland, því að þar með væri, allsendis að óþörfu, verið að leggja þungar byrðar á unga fólkið í landinu og gamlingjar og sjúklingar mundu fá að lepja dauðann úr skel. Dæmigerður sósíalismi andskotans þarna á ferðinni hjá Landvernd o.fl.
Samkeppnishæfni landsins er í uppnámi vegna hárra launa og áframhaldandi hækkana, sem eru meiri en í helztu samkeppnislöndum okkar. Viðskiptafrétt Baldurs Arnarsonar í Morgunblaðinu 24. september 2021 hófst þannig:
"Launakostnaður á hverja unna stund á Íslandi var um 8 % hærri á 2. ársfjórðungi [2021] en árið áður. Það var 3. mesta hækkunin í Evrópu á tímabilinu, en miðað er við vísitölu launakostnaðar."
Fyrir ofan voru Kýpur og Serbía, en t.d. hin Norðurlöndin voru með hækkun, sem nam 6,4 % (Svíþjóð), 3,3 % (Danmörk), 2,9 % (Noregur) og 2,5 % (Noregur). Í Þýzkalandi stóð launakostnaður í stað, og í ESB varð meðalhækkun 0,6 %. Það er hætt við, að framleiðniaukning á Íslandi hafi orðið langt undir 8 % á ári undanfarin misseri, og þess vegna er þessi þróun launakostnaðar á Íslandi ósjálfbær og stefnir í allt of hátt raungengi, sem yrði mikil byrði á útflutningsatvinnuvegunum.
Þrátt fyrir engar launahækkanir í Þýzkalandi er þar "mikil" verðbólga á mælikvarða Þjóðverja. Verðbólga heildsöluverðs reyndist 12,3 %/ár í ágúst 2021, sem er met síðan í olíukreppunni 1973-1974, en verðbólga neyzluverðs er þar enn um 4 %.
"Aðilar vinnumarkaðarins" og ríkisvaldið verða í komandi kjaraviðræðum að sameinast um leiðir til að verja núverandi kjör og viðhalda efnahagsstöðugleikanum. Líklega hafa margir kjósendur verið sér meðvitaðir um þessa þörf, þegar þeir sniðgengu glundroðann í stjórnmálunum.
Baldur vitnaði í Jón Bjarka Bentsson, aðalhagfræðing Íslandsbanka:
"Líkt og víðar sé að hægja á aukningu framleiðni, eftir því sem hagkerfið þroskast, þjóðin eldist o.s.frv., nema til komi nýir atvinnuvegir eða atvinnuhættir, sem herði aftur á þeirri þróun. M.ö.o. þurfi að styrkja grunnstoðir hagkerfisins eða skapa nýjar til að standa undir enn meiri launahækkunum. Sú þróun eigi sér stað samtímis því sem Íslendingar glími við verðbólguþrýsting, sem sé að hluta vegna innfluttrar verðbólgu, þ.e.a.s. hækkandi verðlags erlendis."
Ef fyrirtækin halda áfram að fjárfesta, þá mun tæknin gera þeim kleift að auka framleiðni sína áfram. Þetta á við í landbúnaði, sjávarútvegi og iðnaði. Orkuskiptin kalla á miklar fjárfestingar, t.d. í virkjunum, sem eru forsenda þess, að draga megi úr eldsneytisinnflutningi. Þessi gjaldeyrissparnaður mun ýta undir hagvöxt.
Fyrir ráðstöfunarfé almennings er skattheimtan þungvæg. Ungt fólk, sem er að stofna heimili, leggur oft mikið á sig við að afla tekna til að standa straum af mesta kostnaðinum á ævinni og skuldar jafnvel námslán. Það er mikið óréttlæti fólgið í að skattleggja þetta fólk með háum jaðarskatti, eins og eru ær og kýr vinstri hjarðarinnar. Í Fréttablaðinu 25. september 2021 blöskraði framkvæmdastjóra SA skattaumræðan undir fyrirsögninni:
"Umræðu um skatta snúið á haus fyrir kosningarnar":
"Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir, að í umræðu um skattkerfið í aðdraganda kosninga sé öllu snúið á haus. "Vandséð er, hvað vakir fyrir þeim flokkum, sem tala með þeim hætti, að skattkerfið sé sérstaklega ósanngjarnt hér á landi, annað en einbeittur vilji til að rugla fólk í ríminu", segir Halldór.
Hér á landi séu greidd ein hæstu lágmarks- og meðallaun í heimi. Báðar stærðir séu leiðréttar fyrir kaupmætti og taki þannig tillit til hás framfærslukostnaðar hér á landi."
Mesta fjárfestingarátak flestra fjölskyldna felst í að "koma sér þaki yfir höfuðið", og það gerist yfirleitt á fyrstu búskaparárunum. Verð húsnæðis hefur verið spennt upp með lóðaskorti. Sveitarfélögin maka krókinn af hækkun húsnæðisverðs, af því að fasteignagjöldin taka mið af markaðsverði. Það er ekkert vit í þessari skattheimtu og ber að rjúfa tafarlaust tengslin á milli fasteignamats og fasteignagjalda. Ef tekst að lækka fasteignaverð og varðveita núverandi kaupmátt launa, mun Ísland standa vel að vígi í samkeppninni um fólkið.
""Lágtekjufólk býr ekki við háa skattbyrði, enda á það ekki að gera það. Þeir, sem hærra standa í tekjustiganum, skila sannarlega sínu til samfélagsins og búa við mun hærri skattbyrði, hvort sem talið er í % eða ISK. Það blasir við, að tekjuskattskerfið á Íslandi er öflugt við að jafna kjör í landinu", segir Halldór."
Það er eðli jafnaðarmanna og sósíalista að efna til sundrungar á meðal fólks, og þá er iðulega gripið til öfundarinnar. Þetta var kjarni kommúnismans, en þar sem kommúnistar náðu völdum, töldu þeir sig verða að berja alla andstöðu niður, enda vekur þjóðnýting atvinnutækjanna auðvitað upp mikla andstöðu og jafnvel átök. Hagfræðilega og siðferðilega eru kommúnisminn og öll afsprengi hans á vinstri kantinum vitlausasta hugmyndafræði, sem hægt er að hugsa sér, út frá hagsmunum launþega og alls almennings vegna einokunar ríkisins á störfum og skoðunum. Endastöðin er sú, að "nómenklatúra" flokksins ráði öllu, og er þá engu líkara en afturhvarf til lénsveldisins hafi átt sér stað að breyttu breytanda. Hjá okkur er opinbera báknið nú þegar orðið of stórt og þar af leiðandi of þungur baggi á atvinnuvegunum, sem undir öllu standa, en 30 % launþega þiggur laun frá ríki og sveitarfélögum, og eru þá hvorki ellilífeyrisþegar né örorkulífeyrisþegar taldir sérstaklega.
"Hann [Halldór] segir mikilvægt að skoða tekjuskatta í samhengi við heildartekjur og vaxta- og barnabætur auk annarra tekjutilfærslna ríkisins [til jöfnunar-innsk. BJo]. "Tekjuskattsgreiðslur, að frádregnum vaxta- og barnabótum, leiða í ljós mikil jöfnunaráhrif. Tekjuhæstu 10 % framteljenda greiða um 50 % af öllum tekjuskatti til samneyzlu og fjárfestinga ríkisins. Næstu 10 % greiða 22 % alls tekjuskatts. Lægstu 5 tekjutíundirnar, sem eru framteljendur með heildartekjur, að undanskildum fjármagnstekjum, undir 490 kISK/mán, greiða 1 % af öllum tekjuskatti. Tekjujöfnunaráhrif skattkerfisins eru þannig miklu meiri en ég held, að fólk geri sér almennt grein fyrir", segir hann."
Þetta má umorða þannig: Hátekju- og millitekjufólkið stendur undir velferðarkerfinu og greiðir fyrir lungann af samneyzlu á vegum ríkisins, því að 2 hæstu tekjutíundirnar greiða 72 % (næstum 3/4) af öllum tekjuskattinum, og þær eru líklegar til að greiða yfir helminginn af virðisaukaskattinum vegna meiri neyzlu og fjárfestinga.
Millitekjufólkið, í 6., 7. og 8. tekjutíund, greiðir 27 % af tekjuskattinum, og lágtekjufólkið, undir 5,9 MISK/ár, greiðir nánast engan tekjuskatt. Það er augsýnilega lágtekjufólki mjög í hag, að hátekjufólkið efnist sem mest, því að þá verður enn meira til skiptanna fyrir lágtekjufólk af samneyzlunni. Þetta er þveröfugt við boðskap arftaka kommúnismans, vinstri hjarðarinnar með alls konar heiti á flokksbrotunum, sem jarmar hástöfum um, "að auka þurfi jöfnuð". Jöfnuður er samt sá mesti í heimi á meðal vel stæðra þjóða samkvæmt hinum alþjóðlega GINI-stuðli. Er kyn, þótt enginn jarðvegur sé á Íslandi fyrir afætuboðskap vinstri flokkanna um enn meiri skattheimtu. Samkvæmt Laffler munu þá skatttekjurnar einfaldlega lækka, því að hvatinn til að afla viðbótartekna hverfur (skattstofnar skreppa saman). Þetta hafa sófakommarnir aldrei skilið.
"Bæði Sósíalistaflokkurinn og Flokkur fólksins vilja gera lágmarkslaun skattfrjáls. "Lágmarkslaun duga ekki fyrir framfærslu. Eftirlaun og örorkulaun enn síður", segir Gunnar Smári Egilsson [GSE], oddviti Sósíalistaflokks Íslands í Reykjavíkurkjördæmi norður. "Fyrir 30 árum var enginn skattur greiddur af lágmarkslaunum, eftirlaunum eða örorkulífeyri. Það er siðlaust, að fjármálaráðherra komi og taki fé af fólki, sem á ekki fyrir mat. Það vissi fólk fyrir 30 árum."
Halldór segir það alveg rétt, að lægstu laun hafi verið skattfrjáls þá. "En munurinn er sá, að þá voru lágmarkslaun töluvert lægri en nú. Á árinu 1992 voru lágmarkslaun 133 kISK/mán á verðlagi dagsins í dag, en eru nú 351 kISK/mán eða næstum þrefalt hærri. Bætt lífskjör hafa leitt til þess, að á síðustu 3 áratugum hefur framteljendum, sem greiða tekjuskatt, fjölgað hlutfallslega. Það er heilbrigðismerki, að fleiri launamenn geti tekið þátt í fjármögnun samneyzlunnar", segir Halldór."
Téður GSE er ómarktækur vegna órökstuddra fullyrðinga, sem hann slengir fram í tíma og ótíma, og eru oftast hálfsannleikur eða helber ósannindi. Þannig lætur hann þess ógetið hér að ofan, að lægstu laun og skattheimta af þeim nú og 1992 eru ósambærileg. Að lokum kom þetta fram í téðri umfjöllun Fréttablaðsins:
"Gunnar Smári segir, að á umliðnum árum hafi stjórnvöld, með 25 ára setu Sjálfstæðisflokksins í fjármálaráðuneytinu, lækkað skatta á þá ríku, en lagt þá á fólk, sem hefur ekki efni á mat út mánuðinn. "Þetta er alvarlegt siðrof í samfélaginu, sem almenningur verður að rísa upp gegn.""
Siðblindir menn setja sig gjarna í dómarasæti, fullir vandlætingar, enda sér téður GSE ekkert að því að "ryðja Hæstarétt", ef sá dæmir ekki í anda alræðis öreiganna. Hinir ríku standa undir megninu af samneyzlunni, eins og rakið var hér að ofan, þannig að hatursáróður hins siðblinda lýðskrumara er tómur þvættingur.
"Halldór segir mikilvægt, að allar tillögur um skattkerfisbreytingar, bæði stórar sem smáar, séu settar í samhengi. "Tekjur ríkissjóðs myndu skerðast um 162 mrdISK/ár, ef lágmarkslaun yrðu gerð skattfrjáls. Það svarar til um 80 % af öllum tekjuskattsgreiðslum einstaklinga til ríkisins. [Hér verður að hafa í huga, að einstaklingar með undir 490 MISK/mán greiða aðeins 1 % af öllum tekjuskatti til ríkisins-innsk. BJo.] Slík skattalækkun er óraunhæf, nema stefnt sé að samsvarandi niðurskurði samneyzlunnar, eða að byrðinni verði velt yfir á millitekjuhópa, sem raunar enginn hefur lagt til", segir Halldór."
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.9.2021 | 11:24
Gjaldeyrisvarasjóðurinn yrði hafður að skotspæni spákaupmanna
Morgunblaðið birti afhjúpandi útdrátt úr Dagmálaviðtali við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur (ÞKG), formann Viðreisnar, 16. september 2021. Þar kom í ljós, að keisaraynja ESB-hirðarinnar á Íslandi er ekki í neinu. Málflutningur hennar stendst ekki rýni. Hann er reistur á fáfræði um eðli ESB, misskilningi um þetta yfirþjóðlega ríkjasamband eða rangtúlkun á staðreyndum. Engin alvarleg greining hefur farið fram á þeim bænum um kosti og galla aðildar. Það skín í gegnum viðtalið.
Hér er á ferðinni af hálfu Viðreisnar fullkomlega léttúðug og óábyrg umfjöllun um fjöregg þjóðarinnar, fullveldið, svo að það er ekki hægt að láta það átölulaust, að fjallað sé um aðild að Evrópusambandinu (ESB) eða myntsamstarfi þess án þess, að staðreyndir fái að njóta sín á nokkurn hátt. Hér er ekki hægt að samþykkja, að þýzka máltækið: "der Erfolg berechtigt das Mittel" (tilgangurinn helgar meðalið), eigi við.
"Ef við tölum ekki um það [ESB], þá gerir það enginn. Við erum ekki að því bara til þess að fara inn í Evrópusambandið samningsins vegna. Við teljum, að lífskjörin muni batna og styrkjast, efnahagslegur stöðugleiki aukast o.s.frv. En ef og þegar við náum samningum, og þeir eru ekki góðir, þá verður Viðreisn fyrsti flokkurinn til þess að leggjast gegn þeim."
Hér beitir ÞKG samningshugtakinu á kolrangan hátt. Stöðunni er ekki hægt að líkja við 2 aðila, sem hvor um sig gengur með sín samningsmarkmið til samninga. Nær er að líkja þessu við háskólastúdent, sem sækir um inngöngu í eitthvert nám í háskóla, og háskólinn skoðar nákvæmlega, hvað stúdentinn hefur lært og árangur hans í hverri grein til að kanna, hvort stúdentinn fullnægi inntökuskilyrðum skólans.
Þetta kom greinilega í ljós í aðlögunarferli Íslands að ESB 2009-2013. Þar var hverri "bókinni" á fætur annarri lokað, eftir að aðlögun hafði verið sannreynd, þangað til kom að sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum. Þá fór allt í hund og kött, af því að Alþingi hafði sett skilyrði, sem ekki samrýmdust CFP og CAP-sameiginlegu sjávarútvegs- og landbúnaðarstefnu ESB. Það er ómerkilegt af ÞKG að vera með þetta "samningskjaftæði".
Hvernig í ósköpunum getur ÞKG borið það á borð fyrir kjósendur, að lífskjör þeirra muni batna við inngöngu í ESB, þegar þau eru miklu betri á Íslandi en í ESB-löndunum að Lúxemborg undanskilinni (skattaparadís) ?
Það er rangt, að efnahagsstöðugleiki muni aukast við fastgengi með evru. Þá munu aðrar sveiflur en gengissveiflur þvert á móti aukast, þegar hagkerfið verður fyrir innri eða ytri truflun, t.d. á formi kjarasamninga, sem útflutningsatvinnuvegirnir geta ekki staðið undir, verðhækkunum eða verðlækkunum á erlendum mörkuðum, eða hruni greinar, t.d. ferðageirans. Gengið er nú dempari á efnahagssveiflur.
" Ég geri mér grein fyrir, að við þurfum meiri umræðu, meiri upplýsingu. Við erum að heyra alls konar rangfærslur um, að útlendingar fái fiskimiðin okkar og orkan verði tekin - tómt píp, auðvitað - en við þurfum meiri upplýsingu. Þess vegna höfum við lagt til, að þverpólitísk nefnd taki við málinu og undirbúi þá atkvæðagreiðslu, þar sem við spyrjum fólkið, hvað eigi að gera."
Þetta er léttúðug og óábyrg afgreiðsla á örlögum fiskimiðanna eftir inngöngu. Stjórnun fiskimiðanna er ekki umsemjanleg af hálfu ESB við aðlögunarríki, af því að kveðið er á um það í sáttmála ESB, að ríki ESB skuli lúta sameiginlegri landbúnaðar- og fiskveiðistefnu ESB, CFP (Common Fisheries Policy). Það var lengi mikið óánægjuefni í strandbæjum Bretlands, að flotar hinna ESB-landanna ryksuguðu fiskimið Breta upp að 12 sjómílum. Eftir útgönguna losna Bretar af klafa þessarar ofveiði í áföngum á 5 árum.
Í byrjun þessarar aldar (21.) gaf framkvæmdastjórn ESB út "grænbók" um framtíðarfyrirkomulag úthlutunar fiskveiðiheimilda í lögsögu ESB-ríkjanna. Þar var stefnt að markaðsvæðingu, þannig að kvótarnir gætu gengið kaupum og sölum á Innri markaði ESB. Stefna Viðreisnar um þjóðnýtingu aflaheimilda í áföngum og síðan uppboð á þeim er ekkert annað en aðlögun að framtíðarstefnu ESB. Viðreisn hagar sér sem leppur Evrópusambandsins á Íslandi. Ef þessi uppboðsstefna á fiskveiðiheimildum verður ofan á, munu þessi uppboð verða talin málefni Innri markaðarins, og þverska gegn því verður kærð til ESA. Þetta er verra tilræði við efnahagslegt sjálfstæði Íslands en Icesave-svikasamningar vinstri stjórnarinnar 2009-2013. Hvaða heilvita manni dettur í hug, að það verði samþykkt hér í þjóðaratkvæðagreiðslu að aðlagast ESB að fullu ?
"Hefði það verið ákjósanlegt í kórónukreppunni undanfarna 18 mánuði, þar sem ferðaþjónustan þurrkaðist út, að gjaldmiðillinn hefði ekki haggazt ?"
"Það er oft sagt um krónuna, að það megi láta hana falla til þess að koma í veg fyrir atvinnuleysi. Samt jókst atvinnuleysi meira hér en víða í sambærilegum löndum. Ég hefði viljað gjaldmiðil, sem hefði veitt okkur meiri fyrirsjáanleika."
Hvaða "sambærilegu" lönd er ÞKG að tuða um þarna úti í sínu horni evru-trúarbragðanna ? Það var ekkert land í Evrópu, og þótt víðar væri leitað, með fjölda erlendra ferðamanna á ári í námunda við 5-faldan eiginn íbúafjölda, þegar Kófið dundi á. Þess vegna varð efnahagsáfallið jafngríðarlegt hér og raun bar vitni um (6,5 % minnkun VLF 2020), og mikið atvinnleysi hlaut að fylgja. Eitt er mjög líklegt: hefði þessi evru-tilbeiðandi verið búin að festa ISK við EUR, þegar Kófið skall á, hefði gjaldeyrisvarasjóðurinn þurrkast upp. Spákaupmenn hefðu tekið sér stöðu og fellt ISK léttilega og hirt gjaldeyrisvarasjóðinn á spottprís í leiðinni. Það er þessi "rússneska rúlletta", sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir býður Íslendingum upp á af fláræði sínu eða skilningsleysi. Hvort tveggja er afleitt fyrir stjórnmálamann. Blaðamenn Morgunblaðsins höfðu þetta líka í huga:
"Í dag eru 29 ár síðan George Soros gerði atlögu að Englandsbanka og Bretar hrökkluðust úr evrópska myntsamstarfinu. Þegar sú stóra þjóð átti ekki séns (sic !), eigum við meiri séns (sic !) ?"
"Það hafa menn á undan mér í pólitík bent á, að fara ætti einhverja svipaða leið. Á þeim tíma hefði það ekki endilega verið skynsamlegt, en þar sem staða gjaldeyrisvaraforðans er jafnsterk og raun ber vitni, þá er það raunhæft."
Þetta svar ÞKG er algerlega út í hött. Dómgreindarleysið er yfirþyrmandi. Heldur hún virkilega, að jafnvirði um mrdEUR 5 standi eitthvað í spákaupmönnum að snara út til að græða á gjaldeyrisbraski ?
Það vill svo til, að Morgunblaðið gerði þessi mál að umræðuefni í forystugrein 16. september 2021 undir fyrirsögninni:
"Að bjóða hættunni heim".
Bretar höfðu þá um 2 ára skeið haldið uppi einhliða fastgengi við þýzka markið innan evrópska myntsamstarfsins (ERM), en áhlaup spákaupmanna hafði staðið um hríð. Englandsbanki hækkaði stýrivexti sína upp í 10 % og seldi ógrynni af gjaldeyri til þess að verja pundið, en allt kom fyrir ekki. [ÞKG heldur, að gengistenging ISK við EUR muni lækka vexti hér niður að vöxtum evrubankans. Hún hundsar staðreyndir, ef þær gagnast ekki ESB-trúboði hennar-innsk. BJo.] Hinn 16. september var gjaldeyrisforðinn uppurinn, Bretar gáfust upp og þurftu að draga sig út úr ERM við mikla niðurlægingu. Englandsbanki tapaði a.m.k. mrdISK 600 í einu vetfangi, ríkisstjórn Íhaldsflokksins náði sér aldrei á strik aftur og galt afhroð í næstu kosningum."
Það er mjög þungur áfellisdómur yfir Viðreisn, að forysta flokksins skuli vera svo óvarkár í fjármálum að leggja til leið í gjaldeyrismálum, sem sagan sýnir einfaldlega, að er stórhættuleg. Ef ÞKG heldur, að mrdISK 800 gjaldeyrisvaraforði muni veita fastgengisstefnu hennar einhverja vörn, þá hefur hún ekkert lært á sínum pólitíska ferli, sem máli skiptir, og er einfaldari í kollinum en formanni stjórnmálaflokks ætti að leyfast.
Í viðtalinu var haldið áfram að afhjúpa formann Viðreisnar:
"Á hvaða gengi verður ISK fest við EUR ?"
"Á markaðsgengi."
"Á markaðsgengi dagsins, þegar bindingin á sér stað ? Þá verðum við nú fljótt vogunarsjóðunum að bráð. Dauð á fyrsta degi."
"Ef þú getur sagt mér það, [hvert] gengið er eftir ár, þá skal ég svara þér."
"Það eruð þið, sem eruð að leggja til gengisbindingu."
"Ég er að segja þér þetta: ef þú getur svarað mér því."
"Er það þá stefna ykkar að taka gengisbindingu upp á genginu, sem verður, þegar skrifað verður undir ?"
"Við skulum bara sjá til með það."
"Það skiptir öllu. Sigmar Guðmundsson, frambjóðandi Viðreisnar, lofaði okkur því hér í þættinum, að þetta yrði gert heyrinkunnugt fyrir kosningar, af því að það skiptir fólk máli. Þið hljótið að hafa einhverja hugmynd um á hvaða gengi það skuli gert."
"Það er ekkert ólíklegt, að það verði einhvers staðar nálægt markaðsgenginu. En það fer auðvitað allt eftir samningunum."
Þessi yfirborðslegu og raunar forheimskulegu svör Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur sýna, svo að ekki verður um villzt, að keisaraynjan er ekki í neinu í gengisfrumskóginum. Viðreisn hefur augljóslega enga áhættugreiningu gert á þeirri stefnumörkun sinni að tengja ISK við EUR. Þorgerður Katrín minnir á skessu, sem leikur sér hlæjandi að fjöreggi þjóðarinnar, eins og um getur í þjóðsögunum. Stefna Viðreisnar er vítaverð, af því að hún endar óhjákvæmilega með ósköpum.
Áfram með hina fróðlegu forystugrein Morgunblaðsins:
"Bretar voru ekki einir um að falla í þá freistni [að tengja gengið annarri mynt - innsk. BJo]. Það gerðu Svíar og Finnar einnig, en urðu líka fyrir árás spákaupmanna og neyddust til að slíta gengistengingunni og fella gengið haustið 1992. Hafði þó ekki lítið gengið á, og Svíar í örvæntingu hækkað millibankavexti í 500 % ! Sömu sorgarsögu er að segja af ámóta tilraunum annars staðar, frá Tequila-kreppunni í Suður-Ameríku 1994 til Asíukreppunnar 1998."
Viðreisn lifir í sérkennilegum, rósrauðum draumaheimi lepps Evrópusambandsins. Kerling kostar öllu til, til að smygla sál karlsins inn um Gullna hliðið. Vankunnátta og óraunsæi einkenna vinnubrögðin, enda helgar tilgangurinn meðalið. Væri ekki ráð, að flokksforystan kynnti sér gjaldmiðlaþátt hagsögunnar ? Það er reyndar borin von, að heilaþvegnir láti af trúnni.
Kjarninn í tilvitnaðri forystugrein Morgunblaðsins var þessi:
"Einhliða fastgengi á tímum frjálsra fjármagnsflutninga er einfaldlega skotheld uppskrift að spákaupmennsku, gjaldeyriskreppu, bankakreppu og loks efnahagskreppu. Þau víti þekkja Íslendingar og verða að varast þau."
Nokkru síðar var Viðreisn rassskellt þannig:
"Einhliða fastgengi er peningastefna fortíðar, sem felur í sér, að allur gjaldeyrisforði þjóðarinnar er lagður að veði og getur hæglega tapazt til spákaupmanna á einni nóttu. Sem er alls ekki ólíklegt, vegna þess að slíkur fjársjóður dregur að sér athygli þeirra og ágirnd.
Fastgengisstefna myndi - þvert á það, sem boðberar hennar segja - að öllum líkindum hækka vexti, þar sem allt myndi miðast við að verja gengið, en ekki hagsmuni heimila og fyrirtækja í landinu. Þá myndu Íslendingar ekki lengur hafa sveigjanleika til þess að bregðast við áföllum í útflutningi, líkt og átti sér stað í nýliðinni kórónukreppu, en rétt er að hafa í huga, að allar helztu útflutningsgreinar Íslands - sjávarútvegur, orkunýting og ferðaþjónusta - eru háðar ytri þáttum, sem við fáum engu um ráðið. Við blasir, að atvinnuleysi hefði orðið miklu meira og útgjöld ríkisins mun hærri, hefði ekki verið unnt að beita peningastefnunni til sveiflujöfnunar, líkt og gert var með afgerandi og farsælum hætti."
Þessi greining Morgunblaðsins er að öllum líkindum hárrétt. Gengisbindingarstefnan er vanhugsuð og þjóðhættuleg. Með henni væri kastað fyrir róða mikilvægu sveiflujöfnunartæki, sem er hagkerfi á borð við okkar bráðnauðsynlegt, sem nánast aldrei sveiflast í fasa við meginhagkerfin, sem marka peningastefnu evrubankans í Frankfurt. Núna er reyndar mikill og vaxandi klofningur á milli germanskra og rómanskra ríkja evrunnar um peningastefnu evrubankans, sem hefur valdið mestu verðbólgu á evrusvæðinu frá stofnun hennar og mestu verðbólgu í Þýzkalandi frá endursameiningu landsins 1990.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
26.5.2021 | 17:05
Brýn skilaboð
Seðlabankastjóri, Ásgeir Jónsson, talaði tæpitungulaust í prýðisviðtali við Hörð Ægisson í Markaði Fréttablaðsins 20. maí 2021. Báðir hafa þeir tileinkað sér rökrétta og gagnrýna hugsun, og þess vegna fá skilaboð Seðlabankastjóra þunga vigt. Á þessu undirbúningsstigi fyrir skipun framboðslista í Alþingiskosningum í haust hefur annar maður kveðið sér hljóðs á grundvelli rökréttrar og gagnrýninnar hugsunar, en það er Arnar Þór Jónsson, dómari, sem býður sig fram í 2.-3. sæti á lista sjálfstæðismanna í Kraganum. Verður líka vitnað í hann í þessum pistli.
Viðtalsgrein Harðar bar heitið:
"Getum ekki lifað í einhverri hliðarveröld".
Hún hófst þannig:
"Vaxtahækkunarferli Seðlabankans er hafið, en hversu hratt það verður, fer eftir verðbólguþróuninni. Seðlabankastjóri vill, að ríkið fari að draga sig í hlé og varar við hröðum vaxtahækkunum, verði ákall um frekari launahækkanir. Auðvelt [er] að eyðileggja samkeppnisstöðuna."
Óhætt er að segja, að Seðlabankastjóri segi ríkisstjórninni til syndanna fyrir lausbeizlaða fjármálastjórnun og skuldasöfnun, sem nú þurfi að fara binda enda á, enda atvinnulífið að taka við sér, og spáð er 3,1 % hagvexti í ár og 5,2 % hagvexti 2022. Hann hrósar ríkisstjórninni þó fyrir að hafa deyft höggið, sem á mörgum launþegum og fyrirtækjum reið vegna sóttvarnarráðstafana yfirvalda hér og erlendis, en nú sé tími kominn til að snúa við blaðinu. Verkalýðsleiðtogum, sem grafi undan efnahag almennings með launakröfum, sem reistar eru á sandi, þ.e. helberu óraunsæi, ef ekki einhverju enn verra, hótar hann bannfæringu í anda Jóns Arasonar, Hólabiskups, en uppreisn hans gegn Danaveldi á Íslandi gerði Seðlabankastjóri frábær skil í nýlegri bók sinni.
""Það er engin framtíð í því fyrir landið að ætla að búa til hagvöxt með skuldsetningu og opinberum útgjöldum. Það er mun æskilegra, ef okkur farnast að búa til þannig aðstæður, að ný störf skapist í einkageiranum með hagstæðum fjármögnunarskilyrðum og þannig örva fjárfestingu í atvinnulífinu. Það er hin eðlilega leið að mínu viti, og þess vegna verður ríkið að fara að stefna að því að draga sig í hlé og minnka hallareksturinn", segir Ásgeir Jónsson í viðtali við Fréttablaðið."
Ríkisvaldið er ekki lengur þrískipt á Íslandi, heldur fjórskipt, þar sem Seðlabankinn hefur mikið sjálfstæði gagnvart framkvæmdavaldinu til athafna að þýzkri fyrirmynd. Slíkt gafst Þjóðverjum prýðilega, á meðan die Deutsche Mark var og hét, og nú virka fjármálatól Seðlabankans vel á Íslandi, en fulltrúar die Bundesbank eru nú oftast í andófi gegn meirihluta bankastjórnar ECB, evrubankans.
Nú virðast endurráðningar vera að hefjast í ferðageiranum, og nýting gististaða vex með hverri vikunni, svo að tímabært er nú að hægja á lántökum ríkissjóðs vegna atvinnulífsins. Annars mun hægja á endurreisninni vegna áframhaldandi hækkunar vaxta.
Launin eru aðalkostnaðurþáttur margra fyrirtækja, ekki sízt í ferðaþjónustu. Launakostnaður er einna hæstur hér í heiminum sem hlutfall af verðmætasköpun fyrirtækjanna. Þetta minnkar svigrúm þeirra til fjárfestinga og til framleiðniaukningar. Nú ber nauðsyn til að fylgja fordæmi hinna Norðurlandanna og láta útflutningsatvinnuvegina gefa tóninn varðandi svigrúm til launahækkana. Seðlabankastjóri er ómyrkur í máli:
""Ef við erum t.d. að fara að sjá ákall um launahækkanir til að bregðast við minni kaupmætti vegna aukinnar verðbólgu, þá verður Seðlabankinn neyddur til þess að bregðast við strax. Það er engin spurnig", útskýrir Ásgeir."
Agaleysi verkalýðsfélaga og Alþýðusambands getur hæglega leitt til mjög versnandi lífsskilyrða í landinu og áframhaldandi fjöldaatvinnuleysis. Það er einfalt lögmál framboðs og eftirspurnar á vinnumarkaði. ASÍ getur ekki haldið áfram á braut þess ábyrgðarleysis að krefjast áframhaldandi lántöku ríkissjóðs til að fjármagna hærri atvinnuleysisbætur. Alþýðusambandið hefur engan siðferðislegan rétt til að krefjast þess, að byrðunum verði velt yfir á framtíðina í stað þess að leggja lóð sín á vogarskálar samkeppnishæfs atvinnulífs, sem skapar öllum, sem vilja vinna, vinnu.
Seðlabankastjóri hélt áfram:
"Það er orsakasamband á milli launa og verðbólgu, og það sama má segja um ríkisútgjöldin, en það liggur fyrir, að hið opinbera hefur verið á útopnu til að bregðast við efnahagslegum áhrifum farsóttarinnar."
Menn geta rétt ímyndað sér, hvernig verðbólguþróunin væri hér, ef Ísland væri í ESB og hefði þar af leiðandi orðið að taka upp evru. Stjórn peningamála landsins væri í höndum evrubankans í Frankfurt am Main og stýrivextir þar með við 0. Stjórnendur þar á bæ mundu ekki skeyta nokkurn skapaðan hlut um það, þótt húsnæðisverð ryki hér upp úr öllu valdi knúið áfram af ódýru lánsfé og lóðaskorti aðallega í boði óhæfs meirihluta borgarstjórnar undir forystu Samfylkingar. Þá (við Main-fljótið í Hessen) mundi heldur ekkert varða um það, þótt verkalýðsfélögin á Íslandi heimtuðu hækkun launataxta til að vega upp á móti mikilli verðbólgu. Þeir gætu hins vegar gert athugasemd við hækkun skulda ríkissjóðs umfram 60 % af VLF, þótt hærra skuldahlutfall sé nú fremur regla en undantekning á evrusvæðinu þrátt fyrir Maastricht-skilmálana. Án þess að beita öflugum tólum peningamálastjórnunar, væri hérlendis ríkjandi óstöðugleiki í verðlagsmálum, og samkeppnishæfni atvinnuveganna væri þar af leiðandi í hers höndum.
"Þegar rætt er um ábyrgð aðila vinnumarkaðarins á þeirri stöðu, sem nú er að teiknast upp, bætir Seðlabankastjóri því við, að þeir verði að átta sig á því, "að við getum ekki lifað í einhverri hliðarveröld hérna á norðurhveli jarðar með því að hækka launin á allt öðrum hraða en aðrar þjóðir og telja okkur síðan trú um, að það hafi ekki afleiðingar fyrir verðbólgu og gengisstöðugleika. Þetta er einhver séríslenzk hugsun, sem hefur margoft sýnt sig, að gengur ekki upp.""
Þetta eru einföld sannindi, en vandinn er sá, að skammtíma hugsun virðist vera ráðandi í verkalýðshreyfingunni í stað þess að hugsa um, hvað þjónar bezt hagsmunum félagsmanna verkalýðsfélaganna til langs tíma. Samt er margbúið að reyna að leiða verkalýðsleiðtogunum fyrir sjónir, hvers konar vinnubrögð gagnast skjólstæðingum þeirra bezt. Einhvers konar pissukeppni virðist vera í gangi á milli þeirra um það, hver treystir sér til að ganga lengst í vitlausum og ábyrgðarlausum málflutningi og gerðum. Það er miður, að efnahagslögmál og heilbrigð skynsemi skuli vera litin hornauga á þeim bæ.
Nú setur Seðlabankastjóri hnefann í borðið og hótar að grípa til sinna ráða, ef verkalýðsleiðtogarnir láta sér ekki segjast. Munu þá renna á þá tvær grímur ?
Óveðursský eru úti við sjóndeildarhringinn:
""Ef það verður ekkert lát á hallarekstri ríkissjóðs eftir lok farsóttarinnar eða við sjáum áframhald á launahækkunum, sem eru margfaldar á við það, sem þekkist í öðrum löndum, þá er ljóst, að það verður auðvelt að eyðileggja þá góðu samkeppnisstöðu, sem við njótum núna", segir Seðlabankastjóri."
Lok þessa merka viðtals, sem sýndi okkur skriftina á veggnum, hljóðuðu þannig:
"Sjálfstæð peningastefna hefur létt mikið á ríkisfjármálunum og þannig sparað skattgreiðendum háar fjárhæðir. Að öðrum kosti hefði ríkissjóður þurft að vera einn með fótinn á bensíngjöfinni - og eyða því enn meiri peningum í því skyni að reyna að ýta undir eftirspurn og örva hagkerfið", segir seðlabankastjóri og furðar sig á því, að þetta sé ekki haft í huga, þegar stjórnvöld eru gagnrýnd fyrir að hafa ekki beitt ríkisfjármálunum af enn meiri krafti en samt var gert."
Það er Samfylkingin, sem ekki hefur skilið þetta samspil og lagt til aukin ríkisútgjöld. Ljóst er af eldræðu Seðlabankastjóra, að stjórnvalda, löggjafarvalds, framkvæmdavalds og Seðlabanka, bíða erfið viðfangsefni á næsta kjörtímabili. Þá þarf að skapa skilyrði öflugs hagvaxtar, ná jafnvægi í opinberum rekstri, hefja lækkun skulda og tryggja samkeppnishæfni atvinnuveganna. Öruggast er þá, að þingflokkur sjálfstæðismanna stjórni för. Borgaraleg ríkisstjórn er bezt hæf til að fást við þessi verkefni, og til þess að auðvelda myndun hennar þarf Sjálfstæðisflokkurinn að hljóta gott brautargengi, talsvert betra en síðast.
Til að auðvelda nýju fólki að styðja flokkinn, er affarasælt fyrir hann að tefla fram fullveldissjónarmiðum og viðhorfum um mikilvægi lýðræðislegra ákvarðana sem næst kjósendum í þeim anda, sem Arnar Þór Jónsson, frambjóðandi í 2.-3. sæti D-listans í Kraganum, hefur verið óþreytandi við að boða. Er þá ekki úr vegi að líta á atriði, sem hann birti í Morgunblaðinu 3. apríl 2021:
- "Allt vald þarf að tempra, embættisvaldið ekki sízt." Forræðishyggjan hefur riðið húsum á kjörtímabilinu. Frumvarp um þjóðgarð á allt að 40 % af flatarmáli landsins, s.k. Miðhálendisþjóðgarð, er dæmi um tilhneigingu til miðstýringar, sem er algerlega óþörf og aðför að skynsamlegri nýtingu náttúrunnar. Þá hefur mörgum ofboðið stjórnfyrirkomulag sóttvarna, þar sem skort hefur á heildarsýn. Dæmi eru að koma fram hér og annars staðar um skaðlegar afleiðingar þröngsýnnar sóttvarnarstefnu.
- "Virða ber sérhvern mann og meta út frá orðum hans og athöfnum, en ekki á grundvelli útlitseinkenna, kynferðis, kynhneigðar o.fl." Hver er sinnar gæfu smiður. Öllum á að gera kleift að ná þeim þroska, sem hugur þeirra og geta stendur til. Þannig tryggjum við bezt streymi hæfileika á milli stétta, sem lágmarkar stéttaskiptingu í landinu. Teikn eru á lofti um, að vaxandi stéttaskiptingar gæti í landinu á milli aðflutts fólks af erlendu bergi brotnu, sem vilja setjast hér að, og borinna og barnfæddra Íslendinga. Sumpart kann þetta að stafa af of miklum straumi útlendinga til landsins á skömmum tíma. Það er sérstaklega mikilvægt, að börnum innflytjenda gefist kostur á því námi, sem hugur þeirra og geta stendur til.
- ""Merkimiðastjórnmál" (e. identity politics) bjóða þeirri hættu heim, að menn taki sér siðferðilegt vald yfir öðrum, brennimerki fólk eins og sauðfé, útiloki og dragi menn í dilka sem "seka" og "saklausa", þar sem sérvöldum einkennum er beitt til alhæfinga, ásakana og sakfellinga. (Saga 20. aldar ætti að hafa kennt okkur að varast fólk, sem talar á síðastnefndum forsendum.)" Eins og AÞJ bendir á, er þetta hvimleiða fyrirbrigði í umræðunni ekki nýtt af nálinni, en á okkar dögum hefur aukið úrval tjáningarmöguleika gert þessa undirmálsumræðu meira áberandi en áður. Þeir, sem halda henni uppi, eru oftar en ekki haldnir andlegum skavönkum, en sagan sýnir, að einnig þeir geta við vissar þjóðfélagsaðstæður haft áhrif á talsverðan fjölda. Grunnhygni, tómleiki og andleg vesöld leynir sér þó sjaldnast.
- "Lýðræðið grundvallast á því, að sérhver einstaklingur sé metinn að verðleikum, en ekki sem hluti af hópi." Það er margþekkt að sigla undir fölsku flaggi og að leika tveimur skjöldum. Slíkt er óheiðarlegt atferli og skapar vantraust á viðkomandi, þegar upp kemst. Þá má hafa þessi orð AÞJ í huga, þegar sóttvarnaraðgerðir eru metnar. Þær hafa komið mörgum mjög illa, t.d. öðrum sjúklingum en C-19 sjúklingum, nemendum, mörgum launþegum og lögaðilum, andlega veikburða fólki o.fl. Heilsufarslegar afleiðingar þessara aðgerða eru þess vegna af margvíslegu tagi. Þess vegna þarf að líta vítt yfir sviðið, þegar stórfelldum frelsisskerðingum er skellt á einstaklingana í nafni sóttvarna hópa (t.d. aldraðra) eða heildarinnar.
- "Lýðræðið hvílir á þeirri forsendu, að við verjum klassískt frjálslyndi, sem viðurkennir málfrelsi, fundafrelsi og frelsi til skoðanaskipta, þ.m.t. frelsi okkar og getu til að skipta um skoðanir." Þetta eru mannréttindi, sem fjarri fer, að öllum þjóðum hafi hlotnazt, eins og allir vita. Órjúfanlega tengd þessum mannréttindum virðast vera atvinnufrelsi, þ.e. frelsi til að stunda þá starfsemi, sem hugurinn girnist og ekki er bannaður eða háður leyfisveitingum með málefnalegum rökum, t.d. á grundvelli mannhelgi, heilsufars eða sjálfbærni. Heilbrigð atvinnustarfsemi og frjálst framtak virðast ennfremur þurfa að njóta verndunar eignarréttarins og löggjafar, sem stuðlar að frjálsri samkeppni og hófsamri skattheimtu. Við þetta má bæta atvinnulöggjöf, sem temprar átök á vinnumarkaði og möguleika aðila vinnumarkaðarins til kúgunar í því skyni að fá kröfum sínum framgengt. Íslenzka vinnulöggjöfin er barn síns tíma frá kreppuárunum fyrir Síðari heimsstyrjöld og þarfnast endurskoðunar eða aðlögunar að nútímanum með hliðsjón af vinnumálalöggjöf hinna Norðurlandanna.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.4.2021 | 10:35
Alvarlegur undirtónn
Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, SA, Halldór Benjamín Þorbergsson, ritaði grein í Morgunblaðið 10. apríl 2021 undir heitinu:
"Tækifæri í kreppunni".
Það var alvarlegur undirtónn í þessari grein framkvæmdastjórans, sem vonandi hefur ýtt við ýmsum. Atvinnulífið stefnir í óheillavænlega átt með stöðuga hækkun kaupmáttar launa og vaxandi atvinnuleysi. Þessi kaupmáttaraukning á krepputíma með 6,6 % samdrátt landsframleiðslu 2020 og framleiðniaukningu, sem er mun lægri en kaupmáttaraukningin, er ósjálfbær. Það þýðir einfaldlega, að hún mun gufa upp í verðbólgu. Samfélagið lifir á lánum, sem halda uppi fölskum lífskjörum. Af þessari óheillabraut verður að hverfa hið fyrsta. Ella bíður há verðbólga og lífskjarahrun handan við hornið. Landsmenn lifa nú um efni fram, því að fyrirtækin eru veik og ráða ekki við gegndarlausar kostnaðarhækkanir vegna starfsmanna sinna. Það leiðir til verðlagshækkana. Hvaða stjórnmálaflokkum er bezt treystandi til að fást við þetta ójafnvægi, sem fram er komið ?
Lausnin hlýtur að felast í að draga úr launakostnaði fyrirtækjanna í hlutfalli af verðmætasköpun þeirra. Þetta hlutfall gæti verið hið hæsta í heimi núna, sem boðar ekki gott. Ef hlutfallið lækkar, er von til þess, að fyrirtækin fari að fjárfesta og ráða til sín fólk af atvinnuleysisskrá. Mikið atvinnuleysi er versta þjóðfélagsbölið núna og skapar óþolandi óréttlæti. Ef einhver veigur er í verkalýðsfélögunum, hljóta þau að vilja leggjast á eitt með SA til að móta stefnu, sem getur dregið úr þessu alvarlega óréttlæti.
Grein Halldórs Benjamíns hófst þannig:
"Fólk, sem stöðu sinnar vegna er tekið alvarlega [t.d. titill prófessors og aðild að Peningastefnunefnd Seðlabankans - innsk. BJo], hefur nýverið haldið fram þeirri firru [t.d. í Kastljósi RÚV - innsk. BJo], að staðan í atvinnulífinu væri góð. Einungis 10 % hagkerfisins væri í vanda [þótt landið missti 1/3 gjaldeyristekna sinna - innsk. BJo]. En þá gleymdist að geta þess, að landsframleiðslan dróst saman um mrdISK 200 í fyrra [árið 2020, u.þ.b. 6,6 % brottfall verðmætasköpunar - innsk. BJo], hvað þá, að ríkissjóður verður rekinn með ríflega mrdISK 500 halla á árunum 2020-2021 með tilheyrandi skuldasöfnun eða að Seðlabankinn hefur selt gjaldeyri fyrir mrdISK 170 frá ársbyrjun 2020 [á 5 ársfjórðungum hefur 1/4 gjaldeyrisvaraforðans verið varið til að halda sæmilegum gengisstöðugleika - innsk. BJo]. Það gleymdist reyndar líka að nefna, að um 25 þúsund einstaklingar eru á skrá um atvinnulausa með öllum þeim áhyggjum, sem því fylgja fyrir fólkið og félagslegum afleiðingum. Þess var heldur ekki getið, að atvinnuþátttaka á Íslandi hefur ekki verið minni í áratugi."
Atvinnulausir í meira en eitt ár hafa ekki verið fleiri en núna áratugum saman eða tæplega 7000, og er fjöldinn enn vaxandi, þótt heildarfjöldinn lækki aðeins. Heilsufarslegar afleiðingar eru miklar fyrir þennan hóp og grafalvarlegar fyrir um 3 % þessa hóps eða um 200 manns samkvæmt athugunum austan hafs og vestan.
Þetta langtíma atvinnuleysi er vegna þess, að ferðageirinn hefur lagzt í dvala, og þrátt fyrir gos á sprungu frá Geldingadölum og upp fyrir Meradali á Reykjanesi virðast erlendir ferðamenn ekki munu ná viðmiðunartölu fjárlaganna 2021 með öllum þeim neikvæðu áhrifum á efnahaginn, sem af því leiða. Reikna má með, að strangar hömlur á landamærunum, þar sem mest munar um 5 daga sóttkvína, hafi leitt til helmingsins af þessu langtíma atvinnuleysi eða um 100 grafalvarlegra tilvika heilsumissis. Þetta er líklega svipaður fjöldi og sá, sem látizt hefur af völdum C-19 og lent í langtíma einkennum, sem rakin eru til sýkingarinnar.
Af þessu sést, að við ákvörðun alls konar hamla í þjóðfélaginu í sóttvarnarskyni verður að taka neikvæðar afleiðingar þeirra með í reikninginn, því að þær geta vegið upp gagnsemina af fækkun smita.
Þegar strangar hömlur innanlands voru settar á 24. marz 2021 voru engin smit utan sóttkvíar, og þau hafa síðan haldizt á bilinu 0-2 fyrir utan einn sólarhring, 30. marz, þegar þau mældust 5 talsins, og 24. apríl, þegar þau voru 8 talsins. Lokanir þessa tímabils, t.d. á sundstöðum, þreksölum og íþróttaæfingum barna, hafa líklega verið allsendis óþarfar, enda hóf boðuð 4. bylgja aldrei flugið hér, og þótt 4. bylgjan hefði látið á sér kræla, hefðu afleiðingarnar orðið minni en í 1. og 2. bylgju vegna ónæmis. Hræðsluáróður virðist hafa hrint mjög íþyngjandi lokunum af stað. Þetta sýnir, að sóttvarnaryfirvöld eru á röngu róli hérlendis og valda jafnvel meira tjóni en gagni.
Áfram með Halldór Benjamín:
"Nú er spáð yfir 5 % atvinnuleysi næstu 5 ár. Þorri Íslendinga hefur hingað til ekki sætt sig við mikið og langvinnt atvinnuleysi, og það viðhorf hefur ekki breytzt. Aðilar vinnumarkaðarins verða að horfast í augu við staðreyndir og bregðast við af raunsæi. Samfélagslegur kostnaður atvinnuleysis er of mikill, og aðstæður fólks eru óviðunandi. Því miður hafa samningsaðilar brugðizt hlutverki sínu. Kaupmáttur launa starfandi fólks batnar stöðugt, en atvinnulausir sitja eftir. Laun hafa hækkað of mikið og fjölgað fólki án vinnu."
Þetta er þungur áfellisdómur yfir viðsemjendum SA, og virðist framkvæmdastjórinn vera svartsýnn á, að tauti verði komið við þá. Þó er það sameiginlegt hagsmunamál aðila vinnumarkaðarins að nýta framleiðslutæki og framleiðslukrafta atvinnulífsins upp undir 100 %, en því fer fjarri að meðaltali núna, þótt vissir geirar séu fullnýttir, a.m.k. staðbundið.
Þegar svo er komið, að samningsaðilar á vinnumarkaði hafa brugðizt hlutverki sínu, verða þjóðkjörnir fulltrúar á löggjafarsamkomunni að grípa til sinna ráða. Eitt af úrræðunum kann að vera stöðvun allra samningsbundinna launahækkana frá ákveðnum tíma og þar til tekizt hefur að ráða bug á atvinnuleysinu.
"Í aðdraganda alþingiskosninga hljóta stjórnmálaflokkar að setja atvinnumál á oddinn, og þá með öðrum hætti en innihaldslausum tillögum um fjölgun starfa hjá hinu opinbera [eins og t.d. Samfylking hefur gert sig seka um - innsk. BJo]. Annars bregðast þeir kjósendum sínum og sérstaklega þeim, sem eru án atvinnu.
Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði losna eftir 18 mánuði. Það ætti öllum að vera ljóst, að ekki verður haldið áfram á þeirri braut að hækka laun hér á landi margfalt meira en svigrúm er fyrir og fela Seðlabankanum að stuðla að stöðugu verðlagi á sama tíma. Mótsögnin er augljós og afleiðingarnar þekktar."
Ef svo fer fram sem horfir, verður lunginn úr gjaldeyrisvarasjóðnum horfinn við lok samningstímabilsins. Það eitt skapar óstöðugleika í gjaldeyrisviðskiptunum og hreinlega hættu á stöðutöku gegn ISK. Þess vegna er brýnt, að innstreymi gjaldeyris fari nú að aukast til að bæta viðskiptajöfnuðinn. Það mun þó tæpast gerast fyrr en lönd flestra ferðamanna hingað verða græn á Covid-landakortinu.
Það er hárrétt hjá Halldóri Benjamín, að eðlilegast er að stjórnmálaflokkarnir verji drjúgum hluta kosningabaráttunnar í að gera kjósendum grein fyrir afstöðu þeirra til atvinnumálanna. Það þarf að koma fram, hvaða ráðum stjórnmálaflokkarnir hyggjast beita á næsta kjörtímabili á þingi og/eða í ríkisstjórn til að koma nýtingu atvinnutækja og vinnukrafts aftur upp undir 100 %. Kjósendur munu þá dæma um, hvað er lýðskrum, og hvað er raunhæft. Þá verða auðvitað að koma hugmyndir frá flokkunum með tímasettri áætlun um að ná jafnvægi á ríkisbúskapinn.
"Fyrirtæki og atvinnulífið í heild skapa verðmætin, sem standa undir samneyzlu og velferðarkerfi. Heilbrigð og samkeppnishæf rekstrarskilyrði, hóflegir skattar og gegnsæjar reglur eru forsendur þróttmikils atvinnulífs. Fjárfestingar, vöruþróun, nýsköpun og markaðssókn er eina færa leiðin til að skapa verðmæti og leggja grunn að fjölgun starfa, auknum tekjum fólks og skatttekjum hins opinbera. Sem dæmi er nýliðin loðnuvertíð gríðarleg innspýting í lykilbyggðarlög á krefjandi tíma."
Segja má, að þarna leggi framkvæmdastjóri SA fram sitt mat á því, hvaða rekstrarumhverfi þarf að búa atvinnulífinu til að komast út úr núverandi efnahagsþrengingum. Það blasir við, að vinstri flokkarnir í landinu eru óhæfir til að skapa þessi skilyrði, því að þeirra tilhneiging er jafnan að blóðmjólka mjólkurkýrnar, og forystumenn þar á bæ virðast ekki gera sér grein fyrir til hvers það óhjákvæmilega leiðir.
Fyrirtækin sjá um sig sjálf, ef þau fá aðstöðu til að dafna. Þá munu þau fjárfesta og ráða til sín fólk. Kostnaðarhækkanir nú og á næstu misserum, hækkanir launakostnaðar eða opinberra gjalda, munu aðeins magna kreppuna.
Í lokin skrifaði Halldór Benjamín:
"Það má láta sig dreyma um álíka samstöðu um leið út úr atvinnuvandanum og ríkt hefur gegn kórónuveirunni. Þótt slík samstaða sé ekki í augsýn, kæmi hún atvinnulausum bezt og stuðlaði að sjálfbærri þróun á komandi árum. En sporin hræða."
Ríkisstjórn og Alþingi hafa skuldbundið ríkissjóð fyrir gríðarlegum kostnaði vegna þessarar kórónuveiru, sem nemur a.m.k. andvirði einna fjárlaga. Skuldina þarf að greiða, og það er bezt að gera sem hraðast af nokkrum ástæðum. Ef skuldinni er bara ýtt á undan sér, eins og vinstri flokkarnir eru líklegir til að gera, mun hún hlaða utan á sig þungri vaxtabyrði og lenda á unga fólkinu, sem er ósiðleg ráðstöfun. Afleiðingin verður þá líka sú, að þjóðin verður vanbúin fjárhagslega til að taka á sig næsta efnahagsskell á eftir Kófinu, og ábyrgðarhluti þeirra, sem taka ákvörðun um slíkt, er mikill.
Eina raunhæfa ráðið er að þrengja ýstruólina aðeins, tímabundið, og nýta allar færar leiðir, þar með nýja nýtingu náttúruauðlinda, til að knýja fram góðan hagvöxt með viðbótar gjaldeyrissköpun eða gjaldeyrissparnaði. Orkuskiptin (núverandi) munu t.d. fela í sér a.m.k. mrdISK 150 gjaldeyrissparnað, þegar þau verða að fullu um gerð gengin, ef fjörið í samgöngunum verður ekki minna en fyrir Kóf.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.1.2021 | 13:45
Afturhald í efnahagsmálum
Svo virðist sem tími stórra jafnaðarmannaflokka í Evrópu sé liðinn. Þá hefur dagað uppi. Þeir eiga ekkert stjórnmálalegt baráttuhlutverk í þjóðfélagi samtímans, hvað þá í framtíðinni, þar sem gamla baklandið þeirra er ekki nema svipur hjá sjón. Sósíalistaflokkur Frakklands er nánast horfinn. SPD-jafnaðarmannaflokkur Þýzkalands er hugmyndalega steingeldur og undir 20 % í skoðanakönnunum á landsvísu. Svipaða sögu er að segja frá Svíþjóð, og nú hefur hinn sögufrægi Verkamannaflokkur Noregs (Arbeiderpartiet) misst forystusæti sitt í skoðanakönnunum til Miðflokksins (Senterpartiet) og mælist líka undir 20 %. Flokksforystan gengur ekki í takti við verkalýðshreyfinguna, sem í Noregi fylgist vel með gangverki tímans og þróun atvinnulífsins með hag umbjóðenda sinna í fyrirrúmi, en hengir sig ekki í afdankaðar stjórnmálalegar kreddur stéttabaráttunnar. Í þessu sambandi heyrast nú frá Noregi háværar raddir um, að Bretar hafi náð betri kjörum með nýjum fríverzlunarsamningi við Evrópusambandið (ESB) en felist í viðskiptakjörum Norðmanna við ESB með samninginum um Evrópska efnahagssvæðið (EES). Norska verkalýðshreyfingin er afhuga aðild Noregs að ESB, og Verkamannaflokkurinn mun þá, ef að líkum lætur, eiga auðvelt með að söðla um í þeim efnum og ganga í eina sæng með Sp og SV að afloknum næstu kosningum. Þá verður einfaldlega enginn Orkupakki #4 samþykktur inn í EFTA-löndin og EES-samningurinn verður tekinn til endurskoðunar í heild sinni, og er það löngu tímabært.
Jafnaðarmannaflokkur Íslands (Samfylkingin) er steinrunninn stjórnmálaflokkur, og enn er aðalbaráttumál hans að gera Ísland að hluta þessa ríkjasambands, ESB, þótt það sé með þvílíkum böggum hildar eftir BREXIT, að kvarnast gæti enn meir úr því og myntbandalagi þess á nýbyrjuðum áratugi. Grunnstoðir þar á bæ eru ófullgerðar og standast ekki tímans tönn. Það er reyndar mjög Samfylkingarlegt.
Annað aðaláhugamál Samfylkingarinnar er að þenja ríkisbáknið sem mest út, stækka efnahagsreikning ríkisins enn meir og auka tekjur þess með aðgangsharðari skattheimtu; jafnaðarmenn bera í þessu viðfangi fyrir sig réttlæti og snúa þar með staðreyndum á haus, því að ekkert réttlæti getur verið fólgið í því að rífa fé af fólki, sem það hefur unnið sér inn með heiðarlegum hætti í sveita síns andlitis, sem er með margvíslegum hætti, í meiri mæli en þegar á sér stað á Íslandi, sem er með því mesta í OECD.
Vegna C-19 hefur fjárþörf ríkisins aukizt gríðarlega. Það er alveg öruggt mál, að fái "Reykjavíkurlíkanið" umráð yfir ríkissjóði Íslands í kjölfar komandi Alþingiskosninga, munu skella gríðarlegar skattahækkanir á almenningi, svo að sóknarbolmagn atvinnulífsins út úr C-19 kreppunni verður ekki nægt til að rífa hér upp hagvöxt á ný, sem er forsenda aukinnar atvinnusköpunar. Atvinnuleysið er nú þjóðarböl, meira en víðast hvar annars staðar í Evrópu, og meginviðfangsefni stjórnmálanna verður að skapa sjálfbærar forsendur atvinnusköpunar. Nú þegar er yfirbygging ríkisins of stór fyrir þetta litla þjóðfélag, svo að lausnir jafnaðarmanna eru engar lausnir í nútímanum, heldur snara í hengds manns húsi. Þess vegna fjarar undan þeim hvarvetna á Vesturlöndum um þessar mundir.
Hörður Ægisson ritaði forystugrein í Fréttablaðið 15. janúar 2021, þar sem á snöfurmannlegan hátt var hrakinn hræðsluáróður jafnaðarmanna gegn því að skrá Íslandsbanka nú í Kauphöll Íslands og bjóða fjórðung eignarhlutar ríkisins í honum til kaups. Þessi ágæta atlaga gegn afturhaldinu bar þá lýsandi yfirskrift:
"Dragbítar",
og hófst þannig:
"Sumir bregðast aldrei vitlausum málstað. Talsmenn Samfylkingarinnar, ásamt ýmsum fylgihnöttum þeirra í róttækari armi verkalýðshreyfingarinnar, leggja sig fram um að gera það tortyggilegt, að til standi að hefja sölu á hlut í Íslandsbanka með hlutafjárútboði og skráningu í Kauphöll.
Röksemdirnar, sem eru fátæklegar, hverfast um, að tímasetningin sé óheppileg og að ríkið fari árlega á mis við tugmilljarða arðgreiðslur með því að draga úr eignarhaldi. Ekkert er gert með þá staðreynd, að önnur evrópsk ríki hafa fyrir margt löngu talið réttast - jafnvel þótt eignarhlutur þeirra sé hverfandi í samanburði við íslenzka ríkið - að hefja þá vegferð að losa um eignarhluti sína í áhættusömum bankarekstri. Samfylkingin er á öðru máli og telur, að ríkið eigi áfram að vera með mrdISK 400 bundna í tveimur bönkum."
Nú hefur Alþýðusamband Íslands (ASÍ) stigið það einkennilega skref í stéttabaráttu sinni að mótmæla áformum um að losa um bundið fé félagsmanna og annarra landsmanna í starfsemi, sem ríkisvald er illa fallið til að stunda. Sannast þar enn, að þar liggja nú dragbítar heilbrigðrar skynsemi á fleti fyrir, sem alls ekki kunna að verja hagsmuni umbjóðenda sinna.
Bankasýsla ríkisins, sem stofnsett var fyrir um 12 árum, hefur það hlutverk m.a. að ráðleggja ríkisstjórninni um ráðlegan eignarhlut ríkisins í bönkum landsins. Hún mun nú hafa ráðlagt henni að selja fjórðungseignarhlut í Íslandsbanka, og er það í samræmi við Stjórnarsáttmálann. Fjórðungur af eiginfé bankans nemur nú tæplega mrdISK 50. Um fjórðungur eiginfjárins er umfram lögbundið lágmark, og þarf auðvitað að fá það á fullu verði við söluna, svo að söluandvirðið gæti orðið tæplega mrdISK 50, þegar tekið er mið af því, að hlutafé Arion-banka er nú í hæstu hæðum þrátt fyrir áföll, sem hann varð nýlega fyrir í útlánastarfsemi sinni. Arðsemi undanfarinna ára hjá bönkunum er auðvitað engin viðmiðun, þar sem um einskiptiseignamyndun var að ræða í kjölfar fjármálakreppu.
Ef núverandi tími er ekki góður tími til að hefja söluferli bankans, er með öllu óljóst, hvenær ætti að draga úr gríðarlegri og óeðlilegri eignarhlutdeild ríkisins í bönkum landsins. Hlutafjárútboð Icelandair tókst vel í haust og hlutabréf stíga almennt í verði núna, eins og þau gera venjulega á lágvaxtaskeiðum fjármagns. Það vantar nýja kosti á markaðinn og styrkur er að nýju skrásettu fyrirtæki í Kauphöll Íslands fyrir hlutabréfamarkaðinn. Síðast en ekki sízt er rétt, að öðru jöfnu, að innleysa þetta "sparifé" ríkisins núna, þegar fjárþörfin er brýn, því að auðvitað munu vextir hækka aftur.
Þeir, sem ekki vilja innleysa "sparifé ríkisins" nú, ætla sér sennilega að hækka skatta á almenning og atvinnulíf til að fjármagna Kófið. Það er mjög skammsýn ráðstöfun, því að hún hægir á efnahagsbatanum, lengir óviðunandi atvinnuleysi enn þá meir, og ástandið verður vítahringur. Þetta er segin saga með hugmyndafræði jafnaðarmanna. Hún virkar, eins og að míga í skóinn sinn í frosti, en veldur gríðartjóni til lengdar, enda sjónarsviðið þröngt. Allir verða fátækari, ef jafnaðarmenn komast í aðstöðu til að gera þjóðfélagstilraunirnar, sem þá dreymir um.
Áfram með Hörð Ægisson:
"Bankakerfið í dag á ekkert sameiginlegt með því, sem féll 2008. Stundum mætti samt halda annað, ef marka má þá, sem láta eins og ekkert hafi breytzt á tveimur áratugum. Þannig sá efnahagsráðgjafi VR ástæðu til þess í vikunni að láta að því liggja, að hættan nú væri á, að bankinn kæmist í hendur aðþrengdra stórra fjárfesta, sem þyrftu á aukinni lánafyrirgreiðslu að halda, eins og gerzt hefði í aðdraganda bankahrunsins. Þessi málflutningur, komandi frá fyrrverandi stjórnarmanni í Arion til margra ára, stenzt enga skoðun, enda hefur allt regluverk um virka eigendur - þeir, sem fara með 10 % eða meira - og hvað þeir mega eiga í miklum viðskiptum við banka, verið hert til muna. Það er því ekki eftirsótt fyrir fyrirtækjasamstæður og efnameiri fjárfesta að vera stór eigandi, af því að það hamlar viðskiptaumsvifum þeirra."
Guðrún Johnsen er og var efnahagsráðgjafi VR og í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, þegar verkalýðsfélagið beitti sér gegn kaupum Lífeyrissjóðs verzlunarmanna á hlutabréfum í Icelandair í fyrrahaust. Hún hefur væntanlega með ráðgjöf sinni og afstöðu valdið þessum lífeyrissjóði tjóni. Ráðgjöf hennar á fjármálasviðinu hefur gefizt afleitlega, eins og Stefán E. Stefánsson rakti í skoðunargrein í Viðskipta Mogganum 20.01.2021:
"Vargur í véum".
Téður efnahagsráðgjafi titlar sig lektor við Kaupmannahafnarháskóla og vitnar gjarna í rannsóknir sínar þar, en aðrir virðast ekki hafa hug á að vitna í þessar rannsóknir, enda virðist lektorinn vera blindaður í baksýnisspeglinum. SES rifjaði upp skuggalegan feril lektorsins:
"Sá er reyndar víðkunnur fyrir fyrri störf. Nýtti m.a. aðstöðu sína vel sem starfsmaður rannsóknarnefndar Alþingis um fall bankanna, ritaði bók um efnið og fór sem eldibrandur um heiminn og rægði íslenzkt stjórnkerfi og samfélag. Sú vegferð var launuð með stjórnarsæti í Arion banka, þar sem lektorinn sat keikur í lánanefnd. Þar var talið forsvaranlegt að lána WOW milljarða króna, og peningarnir runnu í stríðum straumum í svikamylluna svakalegu í Helguvík. Eitt af síðustu embættisverkum núverandi starfsmanns stærsta stéttarfélags landsins var að samþykkja MISK 150 starfslokasamning við fráfarandi bankastjóra. Þetta er sannarlega langur afrekalisti og leitt, að samtök viðskiptablaðamanna skuli ekki velja mann ársins, eins og kollegarnir á íþróttadeildinni. Þyrfti þá ekki að taka til greina afrekalista lektorsins á vettvangi HR og HÍ."
Formaður VR opnar varla ginið án þess að saka einhverja aðila í þjóðfélaginu um samsæri gegn hagsmunum almennings og spillingu. Þess vegna vekur ráðning þessa lektors til ráðgjafar hjá VR furðu. Hvað skyldi það hafa verið á ferli lektorsins, sem talið var geta orðið félagsmönnum VR að gagni ? Hvað sem því líður, virðist ráðgjöf þessa lektors á sviði fjármála og fjárfestinga einfaldlega ekki vera 5 aura virði.
Lektorinn hefur blásið sig út með hræðsluáróðri um vafasama pappíra, sem muni sitja á svikráðum við Íslandsbanka og aðra eigendur hans eftir að hafa klófest hlutafé í honum. Þetta heitir að kasta steinum úr glerhúsi eftir að hafa átt þátt í að lána til fjárglæfrafélagsins United Silicon og WOW-air á brauðfótum og valda þannig íslenzku viðskiptalífi tjóni. Lektorinn mun vafalaust beita sér fyrir áframhaldandi hjásetu Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, þegar aðrir lífeyrissjóðir munu grípa tækifærið og fjárfesta í banka, sem mun láta að sér kveða í samkeppninni á íslenzka fjármálamarkaðinum, almenningi til hagsbóta.
Skoðunargrein SES lauk með eftirfarandi hætti, og þarf ei um að binda eftir það:
"Allt er þetta þó sagnfræði, sem litlu skiptir. Meira máli skiptir, að stjórnarmaður í stærsta lífeyrissjóði landsins skuli blanda sér í málið með þeim hætti, sem gat að líta í liðinni viku. Væntanlega getur fjármálaráðherrann og Bankasýslan gengið út frá því, að sjóðurinn sitji hjá, þegar útboð í Íslandsbanka fer fram síðar á árinu. Hætt er við, að sú hjáseta muni kosta sjóðfélaga milljarða, rétt eins og dómadagsdellan í tengslum við flugfélagið."
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)