Færsluflokkur: Fjármál

Ríkisbúskapur í hönk

Það er undantekningarlaus regla, að þar sem ríkisbúskapi er leyft að þenjast út og gleypa kæfandi stóra sneið af "þjóðarkökunni", þar lendir þjóðarbúskapurinn í kreppu innan tíðar.  Þetta gerist í Evrópu, Suður-Ameríku og hvarvetna í heiminum.  Svíar urðu fyrir þessu undir "sósíaldemókrötum" - jafnaðarmönnum og söðluðu um í tæka tíð.  

Oft er vitnað til Argentínu í þessu sambandi með allar sínar náttúruauðlindir og með mikla þjóðarframleiðslu á mann á heimsvísu á sinni tíð.  Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, ritar jafnan af yfirgripsmikilli þekkingu.  Staksteinar Morgunblaðsins vitna til skrifa hennar 11. janúar 2024 undir hrollvekjandi fyrirsögn:

"Þörf áminning".

"Hún rifjar upp, að ekki sé ýkja langt síðan Argentína var "glæst efnahagslegt veldi.  Landsframleiðsla á hvern íbúa landsins, sem byggði á útflutningi fjölbreyttra landbúnaðarafurða, var ein sú mesta í heimi.  Í dag er landsframleiðsla á mann ríflega fimmfalt meiri á Íslandi en í Argentínu.""

Á Íslandi er grundvöllur hagvaxtar og VLF/íb líka reistur á hagnýtingu náttúruauðlinda, aðallega á fiskveiðum og vinnslu sjávarafurða og á hagnýtingu vatnsorkulinda og jarðhita til raforkuvinnslu og húsnæðisupphitunar. Rafmagnið er selt í stórum stíl með langtímasamningum til útflutningsiðnaðar, sem framleiðir ál, kísiljárn og kísil. Úrvinnsla og sérhæfing í framleiðslu þessara efna fer vaxandi hjá iðjuverunum, sem hér eiga í hlut, og þar með vaxa verðmætin. Fyrirtæki þessi standa framarlega í framleiðslutækninni, sem hefur leitt til hárra gæða og tiltölulega lítillar losunar gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu.  

Á sviði nýtingar lifandi auðlinda sjávar er óhætt að segja, að Íslendingar standi í fremstu röð.  Fiskveiðarnar hafa alþjóðlega viðurkenningu sem sjálfbærar, sem er óalgengt á heimsvísu, og fiskvinnslan nýtir hráefnið betur en annars staðar þekkist.  Framleiðni sjávarútvegs er há, enda tæknistigið hátt, og þess vegna er sjávarútvegur arðbær, sem er óalgengt í heiminum, og verður að vera það til að draga að sér fjárfestingarfé í hörðum heimi alþjóðlegrar samkeppni. 

Landbúnaðurinn nýtir landsins gæði.  Þau fara vaxandi með hækkandi ársmeðalhitasigi, og kornyrkja hefur fyrir vikið eflzt.  Ylrækt hefur líka eflzt og hlýtur að eiga bjarta framtíð fyrir höndum vegna sjálfbærrar orku á formi hita og rafmagns.  Öflun jarðhita og rafmagns í landinu verður að losa úr gíslingu afturhaldsins, sem undantekningarlítið er ofurselt útópískum hugmyndum sósíalismans, og fara að taka þessi þjóðhagslega mikilvægu mál föstum tökum til að halda verðhækkunum í skefjum.  Landbúnaðurinn á erfitt uppdráttar, því að framleiðslueiningar eru litlar m.v. umfang nauðsynlegra fjárfestinga.  Hátt vaxtastig getur hæglega knésett marga bændur, og þess vegna þarf ríkisstjórnin að huga að stuðningsaðgerðum, t.d. með skattakerfinu, í nafni matvælaöryggis.   

Íslendingum hefur tekizt að hagnýta sér náttúruauðlindir lands og sjávar með skilvirkum hætti, og afraksturinn hefur dreifzt um allt samfélagið, enda er jöfnuður fólks hérlendis, mældur með alþjóðlegum hætti, sem gefur s.k. GINI-stuðul sem útkomu, meiri en annars staðar þekkist.

"Skýringin á þessum umskiptum [í Argentínu - innsk. BJo] sé stjórnarfar: "Hnignunin átti sér heldur ekki stað á einni nóttu.  Frá hátindi efnahagslegs ferils síns hefur saga Argentínu einkennzt af röð alvarlegra hagstjórnarmistaka, sem fólust í ofurtrú á ríkisvaldið, miðstýringu og verndarhyggju, sem leiddu til óðaverðbólgu og óhóflegrar skuldsetningar.  Ekki hefur enn tekizt að vinda ofan af þessum mistökum.  Afleiðingin er efnahagslegur og mannlegur harmleikur.""

Hugmyndafræði kommúnismans og útvötnunar hans eins og jafnaðarstefnunnar hefur valdið með ólíkindum miklu böli í heiminum.  Fá rit hafa verið jafnóþörf og beinlínis skaðleg í heiminum og "Das Kapital".  Miðstýring og ríkisrekstur, sem þeir ólánsmenn Karl Marx og Friedrich Engels boðuðu, fela ekki í sér snefil af þjóðfélagslegu réttlæti, heldur leiða til eymdar og volæðis alþýðu, en hrossataðskögglarnir, flokkspótintátar, sem stjórna ofvöxnu ríkisapparatinu, skara eld að sinni köku og fljóta ofan á.  "Homo sovieticus" verður aldrei annað en furðuhugmynd skýjaglópa.  

  

 

 

 


Meinsemdir opinbers rekstrar

Opinber starfsemi virðist hafa tilhneigingu til að fara úr böndunum, og hún ber þess víða merki í samfélaginu, að um hana gildi Lögmál Parkinsons, sem segir, að viðfangsefni aukist að umfangi í sama mæli og tíminn, sem ætlaður er til að leysa þau af hendi.  Þessa óstjórn má greina víða, þar sem opinberar stofnanir eiga í samskiptum við einkarekið atvinnulíf.  Þetta á t.d. við um stofnanir, sem sjá um leyfisveitingar og eftirlit með atvinnulífinu.  Þar virðist lítið fara fyrir tímaskyni starfsmanna, þótt lög kveði á um annað. 

Kostnaður skattborgaranna af hinu opinbera er of mikill og óþarflega mikill.  Einkaaðilar geta leyst betur af hendi margt það, sem hið opinbera er að vasast í.  Nú er ljóst, að eitt öflugasta útgerðarpláss landsins hefur orðið fyrir alvarlegu tjóni af völdum náttúruhamfara.  Við þessar aðstæður er það siðferðisleg skylda samfélagsins að hlaupa undir bagga með Grindvíkingum, kaupa af þeim verðlausar eignir, e.t.v. á brunabótamatsverði, ef Náttúruhamfaratryggingar bæta aðeins sýnilegt tjón.  Þetta er þess vegna tjón alls samfélagsins, sem væntanlega verður fjármagnað með blöndu af skattahækkunum og lántökum ríkissjóðs, en til viðbótar þarf að leita allra leiða til sparnaðar í opinberum rekstri og koma böndum á hömlulausan vöxt. Þegar í stað á að skrúfa fyrir allar fjárveitingar ríkisins til vanhugsaðra gæluverkefna á borð við borgarlínu og Hvassahraunsflugvallar, sem bæði eru eftirlæti Samfylkingar.  Þá er rétt að hætta akstri strætisvagna hringinn í kringum landið.  Önnur fyrirtæki sjá um rekstur langferðabifreiða. 

Örlagadaginn 10. nóvember 2023 birti Morgunblaðið  viðtal við Gunnar Úlfarsson, hagfræðing Viðskiptaráðs.  Þar er umræðuefnið Stuðningsstuðull Viðskiptaráðs Íslands.  Hann sýnir, hversu margir einstaklingar njóta opinbers fjárhagslegs stuðnings eða fá millifærslur reiknað á hvern vinnandi einstakling á almenna vinnumarkaðinum. Hann gefur góða mynd af byrði hins opinbera fyrir verðmætasköpunina. Þessi stuðull var orðinn ískyggilega hár árið 2022 eða 1,3. Þetta merkir t.d., að fyrir hverja 10, sem störfuðu í einkageiranum, voru 13, sem gerðu það ekki, og eru þó þeir, sem störfuðu í sjálfstæðum opinberum fyrirtækjum, t.d. í Landsvirkjun eða Landsbankanum, taldir til einkageirans.  Þessi hái stuðull er sjúkdómseinkenni á íslenzku hagkerfi. 

""Að mati Viðskiptaráðs ætti að vera keppikefli stjórnvalda að ná stuðlinum enn frekar niður [eftir Kófið-innsk. BJo], enda er einkageirinn drifkraftur verðmætasköpunar og þar með bættra lífskjara.""   

Með öldrun þjóðarinnar hækkar stuðullinn, nema mótvægisaðgerðum sé beitt, og þar þarf að berjast við vinstri græna, sem reka ósjálfbæra og verðbólguhvetjandi efnahagsstefnu. Með þá við stýrið verður torsótt að skapa heilbrigt jafnvægi í hagkerfinu, sem skapar aðstæður fyrir vaxtalækkun, enda mátti skilja Peningastefnunefnd Seðlabankans svo 22.11.2023, að hún hefði hækkað stýrivexti bankans þá, ef hinir ófyrirséðu atburðir 10.11.2023 í Grindavík, sem leiddu til allsherjar rýmingar bæjarins, hefðu ekki orðið.   Spennan á húsnæðismarkaði, sem Samfylkingin ber töluverða ábyrgð á vegna lóðaskortsstefnu og þéttingarstefnu sinnar í höfuðborginni, vex í kjölfar Grindavíkurhörmunganna, þar sem 1200 íbúðir hverfa af markaðinum, a.m.k. um sinn.  Vextir í hæstu hæðum eru líka teknir að hamlega byggingarstarfsemi.  Þetta ástand kallast vítahringur.

Starfsmenn hins opinbera eru í 28 % af heildarstörfum á vinnumarkaði.  Sjúklingum fjölgar og öryrkjum fjölgar miklu örar en á hinum Norðurlöndunum.  Þeim hefur fjölgað um 30 % frá 2012 á Íslandi, um 15 % í Noregi, fækkað um 16 % í Danmörku og 23 % í Finnlandi og 30 % í Svíþjóð.  Hvað er það við lífernið hér, sem fjölgar öryrkjum svona ótæpilega ? Þáttur í sparnaðarviðleitni er að rannsaka það.  Er VG á móti því ?

""Í fyrra [2022] fjölgaði starfandi í einkageiranum um 7 %, en starfandi hjá hinu opinbera fjölgaði um 6,5 %.  Þá fækkaði atvinnulausum um 35 %, og dróst fjöldi utan vinnumarkaðar saman um 1 %", segir Gunnar og bætir við, að hlutfall opinberra starfsmanna sé enn fremur hátt, en á meðan starfandi fjölgaði um 6 % á almennum vinnumarkaði, fjölgaði stöðugildum hjá hinu opinbera um 15 % á árunum 2019-2022 [Kófið-innsk. BJo].

""Fjöldi starfandi hefur aukizt mikið í opinberri stjórnsýslu, en það vekur athygli, að sú þróun endurspeglist ekki í aukinni skilvirkni hins opinbera .  Lögbundnir tímafrestir leyfisveitinga standast ekki, reglubyrði mælist há, og skilvirkni hins opinbera er lág í alþjóðlegum samanburði."

Af þessu má ráða, að Parkinson gamli grasseri hjá hinu opinbera, og stjórnmálamenn þyrftu að láta fara fram faglega rýni á störfum, þar sem þensla í starfsmannahaldi hefur orðið og láti fara fram hagkvæmnimat á úthýsingu á starfsemi.  Virðingarleysi fyrir lögboðnum tímafrestum er plága fyrir þá, sem þurfa að sækja til opinberra stofnana með umsóknir, t.d. um leyfisveitingar.  Þetta sýnir virðingarleysi gagnvart viðskiptavinum stofnananna og embættishroka.

"Gunnar segir, að miklar áhyggjur vakni, ef þróun á fjölda þeirra, sem þiggja örorkulífeyri, er sett í alþjóðlegt samhengi, þar sem á sama tíma og kerfið hér á landi verður dýrara og örorkulífeyrisþegum fjölgar, hefur þeim fækkað á [hinum] Norðurlöndunum um 2 % að jafnaði árlega og útgjöldin til kerfanna dregizt saman um 0,4 % að raunvirði.  Á sama tíma sé staðan sú á Íslandi, að fólki, sem fær örorkulífeyri, hafi fjölgað um tæp 3 %/ár árin 2012-2020, en útgjöldin hafi vaxið mun hraðar eða um 6 %/ár að raunvirði. 

Gunnar bendir jafnframt á, að Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) hafi lengi bent á, að ekki aðeins sé hægt að ná fram hagræðingu í tilfærslukerfum, og þ.á.m. í örorkukerfinu, heldur sé það einnig nauðsynlegt. 

"Helztu tillögurnar snúa að því, að kerfin [verði] endurskipulögð og að aukin áherzla [verði] lögð á stuðning til aukinnar virkni, en einnig að ráðizt verði í fyrirbyggjandi aðgerðir, sérstaklega á meðal ungmenna. Við eigum að vera stolt af stuðningskerfunum okkar, en við þurfum líka að tryggja, að þau séu skilvirk.  Það ætti að vera sameiginlegt markmið okkar allra að draga úr brotthvarfi [af] vinnumarkaði." 

Það þarf að læra af t.d. Svíum við endurskoðun á örorkumatsaðferðum og að rótargreina ástæðurnar fyrir öfugþróun í fjölda öryrkja á Íslandi m.v. hin Norðurlöndin.  Tengist hún samfélagsmeinum á borð við mikla lyfjaneyzlu hérlendis ? 

 

 


Lítið lagðist fyrir drottninguna af Kviku

Hvar gerist það í raunhagkerfinu, að MISK 3 verði að MISK 104 á um 2 árum.  Það þarf líklega annaðhvort að fara í undirheimana eða á slóðir þess vafasama pappírs Samfylkingarinnar til að finna aðra eins ávöxtun.  Núverandi formaður Samfylkingarinnar gegndi áður stöðu aðalhagfræðings Kviku-banka og naut þá þessara vildarkjara þar.  Hún fór á flot með það í skattframtali sínu, að MISK 101, sem hún var allt í einu með í höndunum, væri ávöxtun og bæri þá 22 % skattheimtu.  Þessu trúði Skatturinn ekki, því að slíkt gerist ekki í raunheimum ofan jarðar.  Skatturinn taldi þetta einfaldlega launaumbun (bónus) til aðalhagfræðingsins frá Kviku og ætti því að bera jaðarskattheimtuna um 46 %. 

Þarna munar hárri upphæð, sem núverandi formaður Samfylkingarinnar ætlaði í græðgi sinni að sleppa við að borga til samfélagsþarfanna.  Það er nauðsynlegt fyrir kjósendur að gera sér grein fyrir innræti og gerð formanns Samfylkingarinnar áður en þeir ljá henni atkvæði.  Hún talar beint og óbeint fyrir vaxandi skattheimtu á fyrirtæki og almenning, en hún virðist nota hvert tækifæri, sem hún telur sig fá, til að að lækka skattheimtu af eigin ofurtekjum.  Þetta er sérlega skammarlegt fyrir hana og Samfylkinguna, sem verður tíðrætt um "að láta breiðu bökin borga".

Morgunblaðið gerði málinu skil 30. júní 2023 undir ósköp sakleysislegri fyrirsögn, þótt sú, sem í hlut á, sé ekki sakleysingi:

"Hagnaðurinn metinn sem laun".

Sú frétt hófst þannig:

"Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi aðalhagfræðingur Kviku banka, greiddi Skattinum tæpar MISK 25 í vor vegna hagnaðar af áskriftarréttindum bankans, sem hún hafði fjárfest í.  Kristrún sagði í samtali við mbl.is í gær, að málinu væri lokið af sinni hálfu, en þetta væri ekki endilega endanleg niðurstaða, þar sem fara má með mál af þessu tagi fyrir yfirskattanefnd."

 Ekki er víst, að allir átti sig á skattalagabroti formannsins af þessu orðalagi.  Nær er að segja hverja sögu, eins og hún er.  Formaður Samfylkingar gerðist brotleg við skattalög með því að vantelja fram launatekjur sínar og hugðist þannig halda MISK 25 í eigin vasa sínum í stað þess að láta þessa fjárhæð greiðlega af hendi rakna til samfélagsþarfanna. Þetta er hrikalegur vitnisburður um siðleysið og hræsnina, sem lekur af þessum nýja formanni Samfylkingarinnar, sem sótt var í fjármálaheiminn.  Það segir meira en mörg orð um það, hvar hjarta Samfylkingarinnar slær, og hvaða hagsmuni hún kann að setja á oddinn.  Hvort það samræmist hagsmunum alþýðunnar, sem Samfylkingin ber í orði kveðnu fyrir brjósti, er umdeilanlegt, en það er óumdeilanlega óheiðarlegt að koma ekki til dyranna, eins og maður er klæddur. 

Kristrún læðist með veggjum í þessu máli og er greinilega í vondum málum.  Hún rembist við að láta líta út fyrir, að hún hafi lagt fram MISK 3 sem áhættufé, sem hún hefði getað tapað.  Eru fordæmi fyrir því í sambærilegum málum ?  Ekki er svo, ef afstaða Skattsins er skoðuð, því að hann telur skýlaust um launaumbun til Kristrúnar að ræða:

 "Það fór þó ekki svo, því [að] hlutabréf Kviku hækkuðu mikið [eins og búizt var við - innsk. BJo] frá þeim tíma, sem Kristrún hóf þar störf.  Kristrún gat innleyst fjárfestinguna á 3 mismunandi dagsetningum fram í tímann, og var endanlegur hagnaður hennar um MISK 101."

Þarna lýsa blaðamenn Morgunblaðsins leikriti, sem Kvika setti á svið fyrir drottninguna af Kviku o.fl. starfsmenn fyrirtækisins til þess að fara í kringum orðið "bónus", sem hefði óhjákvæmilega þurft að fara í hæsta tekjuskattsþrepið. Með því að lýsa þessum vildargerningi sem "fjárfestingu", gátu óprúttnir spreytt sig á að reyna að borga ríflega helmingi lægri skatt, en Skatturinn sá við þeim, og var það vel.  Allt lyktar þetta ákaflega illa. 

Staksteinar Morgunblaðsins 30.06.2023 vitnuðu í pistilinn "Tilfallandi athugasemdir", sem ekki var gerð nánari grein fyrir:

""Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingar, segir fátt um Íslandsbankamálið, ólíkt formönnum allra annarra stjórnmálaflokka.  Ástæðan er Kvika, fjárfestingarbanki, sem hyggst ná eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka með samruna.

Kristrún var, þar til fyrir skemmstu, aðalhagfræðingur Kviku.  Hún hagnaðist um MISK 100 á kaupréttarsamningum.  Hún var lengi í vandræðum með að gefa skiljanlegar skýringar á því.""

   Það er út af því, að téð Kristrún er tvöföld í roðinu.  Hún ætlaði að komast upp með að telja Skattinum trú um, að ofangreind upphæð væri ávöxtun MISK 3 hennar, en Skatturinn sá við blekkingarstarfseminni.  Nú segir hún, að málinu sé lokið af sinni hálfu.  Það er út af því, að hún veit, að málstaður hennar er óverjandi gagnvart Yfirskattanefnd og að sú kynni að úrskurða 25 % sektarálag á skattstofninn.  Hitt er svo allt annað mál, hvort kjósendur, sem einnig eru skattborgarar í þessu landi, gera sér þessar "trakteringar" drottningarinnar af Kviku að góðu.  Þeir hafa enga ástæðu til þess.  Nú hafa þeir séð inn í kviku formanns Samfylkingarinnar, og ef allt er með felldu, munu þeir forðast að lyfta litla fingri til að lyfta drottningunni af Kviku til valda á Íslandi.  Hún er einskis trausts verð, og bezt fer á því að refsa henni með því að leiða Samfylkinguna á eyðimerkurgöngu hennar.

""En kom svo með þessa hagfræðilegu skýringu: "Ég datt í lukkupottinn", sagði Kristrún.  Íslandsbankamálið, sem nú er til umræðu, er aðeins undanfari að yfirtöku Kviku á Íslandsbanka.""

 Í þessu samhengi er vert að hafa í huga hið fornkveðna: "æ sér gjöf til gjalda".  MISK 100 eru ekkert annað en gjöf til Kristrúnar frá Kviku.  Með þetta veganesti fer hún í pólitíkina, og í fjármálageiranum hlýtur að vera ætlazt til, að þetta fé ávaxtist með afstöðu formanns Samfylkingarinnar.  Það er löngu þekkt, að ógerlegt er að þjóna tveimur herrum.  Aðeins þeir kjósendur Samfylkingarinnar, sem telja hagsmuni sína og Kviku-fjárfestingarbanka fara saman, geta með góðri samvizku kosið þennan stórundarlega stjórnmálaflokk. 

""Galdurinn, sem nú er í gangi, er oft nefndur: "Glitnir, taka tvö".  Samfylkingin hefur frá stofnun verið fimmta herdeild auðmanna.  Með formennsku Kristrúnar er innvígð og smurð auðkona í kjörstöðu til að hjálpa baklandi sínu að "detta í lukkupottinn".""

 Mun samsærið ganga upp ?

 

 


Matvælaráðherra er heimaskítsmát

Matvælaráðherra fór svo óhönduglega að ráði sínu gagnvart löglegri atvinnustarfsemi Hvals hf og starfsmönnum fyrirtækisins, að hún varð heimaskítsmát.  Hún á engan annan kost í stöðunni en að viðurkenna afglöp sín, sem valdið hafa tjóni og afkomuáhyggjum fjölda manns, afturkalla svokallað tímabundið bann á veiðum langreyða og segja síðan af sér með skömm. Hana vantar mikilvæga eiginleika til að gegna ráðerraembætti, þar sem þjóðarhagur verður að vera í fyrirrúmi.  Að bjóða þjóðinni upp á þvætting af því tagi, að eftir lestur skýrslu fagráðs Matvælastofnunar hafi hún sem umboðsmaður hvala á vegum ríkisins orðið að fresta veiðum til haustsins, þar til endanleg ákvörðun yrði tekin um hvalveiðar, sýnir í senn ósvífni og dómgreindarleysi ofstækisfulls stjórnmálamanns, sem ekkert erindi á í Stjórnarráð Íslands. 

Ekkert bólar samt á stuðningi heildarsamtaka verkalýðsins, ASÍ, við Verkalýðsfélag Akraness og formann þess, Vilhjálm Birgisson, sem haldið hefur uppi ötulli baráttu fyrir þá, sem missa vinnuna vegna forkastanlegra vinnubragða kommúnistans í ráðherrastóli. Oft hefur forseti ASÍ geiflað sig framan í fjölmiðla af minna tilefni en því, að allt að 200 manns missi af mrdISK 1,2 í tekjur, þar sem mannskapurinn var búinn að ráða sig í vinnu.  Sofandaháttur Alþýðusambandsins á líklega rætur í pólitískri meðvirkni, en í því felst mikil blinda gagnvart þeim hagsmunum alþýðu, sem í húfi eru. 

Forhertur ráðherrann grefur gröf sína, á meðan hún er í felum og svarar engum.  Hún er ekki með neitt í höndunum til að rökstyðja gjörning sín af neinu viti.  Fagráð Matvælastofnunar með vanhæfan talsmann í líki hræsnara, sem lyftir sér ögn yfir meðbræður sína með titlinum siðfræðingi (er það ekki einhvers konar Sókrates okkar tíma ?), var ekki einu sinni aðili að málinu gagnvart ráðuneytinu, heldur bar ráðherra að sinna sjálfstæðri rannsóknarskyldu sinni og leita eftir afstöðu Matvælastofnunar o.fl., sem reyndar var fyrir hendi áður og þá andstæð tilfinningavellunni í fagráðinu. 

Morgunblaðið hefur sinnt vandaðri blaðamennsku í þessu máli sem öðrum, og þann 28. júní 2023 birtist þar viðtal við téðan Vilhjálm Birgisson undir sláandi fyrirsögn:    

"Matvælaráðherrann svarar engu"

Hún hófst þannig:

""Það hafa engin svör borizt, sem er að mínum dómi mjög ámælisvert m.v. þá miklu hagsmuni, sem starfsmennirnir eiga í þessu máli", sagði Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, í samtali við Morgunblaðið.

Félagið sendi matvælaráðherra bréf 22. júni sl., þar sem þess var krafizt, að ákvörðun um tímabundna stöðvun hvalveiða yrði afturkölluð.  Ef ekki, krefðist félagið þess, að matvælaráðherra gripi til aðgerða til að bæta fjárhagstjón félagsmanna verkalýðsfélagsins.  Ráðherra var gefinn frestur til sl. mánudags [26.06.2023] til þess að svara framangreindum kröfum félagsins.  Erindinu hefur ekki verið svarað."

Óhæfur ráðherra Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs (VG) er í stríði við Verkalýðsfélag Akraness, sem gætir mikilla hagsmuna (1,2 mrdISK/ár) félagsmanna sinna.  Ráðherrann og flokkssystir hennar, forsætisráðherrann, skáka báðar í því skjólinu, að ekki sé um bann að ræða, heldur frestun á veiðum.  Það er einskær orðhengilsháttur, því að tjón starfsmanna og fyrirtækisins í ár verður hið sama, þar sem enn meiri hætta er á langvinnu dauðastríði dýranna við dráp við haust- og vetraraðstæður, og fyrirtækið vill vart standa þannig að málum.  Frá viðskiptavinum fyrirtækisins hafa borizt fregnir af því, að mikill hörgull sé á hvalkjöti í Japan og þarlendir muni neyðast til að leita að staðgönguvöru, ef afhending frá Íslandi bregzt.  Fyrir að líkindum ólöglegan tilverknað óhæfs ráðherra mun Hvalur hf tapa miklum tekjum í ár og gæti hæglega misst markaðsaðstöðu sína. Það er ljóst, að óhæfur ráðherra bakar hér ríkissjóði afar háa skaðabótakröfu og að líkindum skaðabótaskyldu, eftir að deilumálið hefur farið fyrir dómstóla.   

Þetta fjárhagstjón verður einvörðungu fyrir dynti í ráðherra, sem ofmetur meingallaða skýrslu fagráðs Matvælastofnunar, þar sem tekin er þröngsýn og tilfinningaþrungin afstaða til veiða á langreyði.

Það hefði verið nær fyrir ráðherra að leita eftir viðhorfum virtra fræðimanna, t.d. á Hafrannsóknarstofnun og í Landbúnaðarháskóla Íslands.  Þá hefði hún fengið víðsýnni viðhorf en sífrið í einhverjum siðfræðingi við HÍ.  

200 mílur Morgunblaðsins gerðu einmitt þetta 29. júní 2023 undir fyrirsögninni:

"Gæti leitt til ójafnvægis".

""Ég hef ekki gert neinn greinarmun á hvölum og öðrum dýrum, sem við erum að veiða; hvalir eru bara stór spendýr", sagði Guðni Þorvaldsson, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands, í samtali við Morgunblaðið.  Sjálfsagt sé að stefna að því að lágmarka þjáningar villtra dýra, þegar þau eru veidd, en það sé bara lítill hluti af myndinni, þegar kemur að velferð og líðan villtra dýra.

Svo sem kunnugt er, ákvað Svandís Svavarsdóttir að stöðva veiðar á langreyðum í sumar, og gildir veiðibannið til 1. september [2023].  Meginröksemd ráðherrans fyrir stöðvun veiðanna var sú, að aflífun dýranna tæki of langan tíma út frá meginmarkmiðum laga um velferð dýra.

Guðni bendir á móti á, að ef slík dýr nái að fjölga sér óhindrað, þá geti það leitt til annarra vandamála:

"Ég tel, að þetta geti gerzt í tilviki hvala, að þeim fjölgi svo mikið, að fæðuskortur verði og ójafnræði í lífríkinu.  Ég tel, að hóflegar veiðar og takmarkanir á hinum ýmsu stofnum sé liður í því að láta dýrunum líða vel.  Ég álít, að hluti af dýravelferðinni sé, að eitthvað sé til fyrir þau að éta og [að] þau séu ekki í stöðugri baráttu við önnur dýr um takmarkaða fæðu.  Ég hef litið á hvali sem hver önnur dýr, og ef þeim fjölgar úr hófi fram, geta þeir farið að skemma mikið", sagði Guðni."

Þarna talar fræðimaður af víðsýni og í jafnvægi.  Rök hans höfða til heilbrigðrar skynsemi, en það gera hvorki rökleysur ráðherrans um hana sjálfa sem umboðsmanns hvala né einhliða tilfinningavella siðfræðingsins, talsmanns fagráðs Matvælastofnunar.  

 


",,, þeir eru að mótmæla sjálfum sér."

Bullustampur í hópi verkalýðsformanna hefur farið í hlutverk "karlsins á kassanum" og valið Austurvöll Ingólfs Arnarburs sem vettvang til að veita lýðnum innsýn í þann hliðarveruleika, sem sálarháski getur leitt fólk út í. Þá afneitar það staðreyndum og býr til firrur, sem það kveður trompa viðtekin lögmál og staðreyndir.  Allt er þetta hjákátlega sorglegt firruleikhús.  Um þetta sagði Seðlabankastjóri í Morgunblaðsviðtali við Andrés Magnússon 8. júní 2023:

"Það er ekki hægt að breyta hagfræðilögmálum með því að halda mótmæli á Austurvelli."  Þar með er formaður VR kominn á spjöld sögunnar með riddaranum sjónumhrygga, sem réðist á vindmyllur og taldi sig þá berjast við forynjur. 

Fyrirsögn viðtalsins var viðspyrnuhugmynd Seðlabankastjóra gegn verðbólgu, sem væri vís leið til að kveða niður verðbólgu eftir næstu almennu kjarasamninga, enda fannst forseta ASÍ í góðu lagi að nota þetta viðmið á topplög ríkisins:

 "2,5 % hækkun viðmiðið í samningum". 

Seðlabankastjóri: "Ég hélt síðastliðið haust [2022], að verkalýðshreyfingin myndi átta sig á því, að það að ætla að elta verðbólguna í launahækkunum myndi leiða til vaxtahækkana.  Það hlyti að vera alveg skýrt, en þannig fór það nú samt.  Jafnvel sumir verkalýðsforingjar, sem voru mjög æstir yfir að geta ekki fengið meira.  Nú vilja sömu foringjar halda útifundi til þess að mótmæla afleiðingum gerða sinna."

Albert Einstein sagði eitthvað á þá leið, að það væri einkenni heimskingja að gera 13 tilraunir í röð, breyta engu, en ætlast til gjörólíkrar niðurstöðu í þeirri seinni.  Nú stefnir í, að íslenzk verkalýðshreyfing ætli að verða sú eina í Evrópu til að saga þá greinina, sem hún situr á.  Seðlabankastjóri lagði til 2,5 % viðmið í næstu kjarasamningum, en það virðist ekki ætlunin að fylgja ráðum hans, heldur kveður forseti ASÍ gamla stefið um að elta verðbólguna, sem er stórskaðleg hugmynd, eins og dæmin sanna. Það vantar frjóa hugsun í steinrunna verkalýðshreyfingu.

"Já, og það var ákveðin meðvirkni í gangi [í síðustu kjarasamningalotu 2022-innsk. BJo].  Ríkissáttasemjari var hringjandi hingað til þess að hafa áhrif á Seðlabankann.  Við ættum ekki að hækka vexti og helzt ekki [að] tjá okkur, af því að formaður VR væri ekki stöðugur í skapi og hlypi út af fundum, ef hann sæi eitthvað úr Seðlabankanum.  Reyndu síðan að fresta vaxtaákvörðunarfundi o.s.frv.  Það er ekkert annað en meðvirkni." 

Það er fullkomlega eðlilegt, að upplýst sé með þessum hætti um samskipti tveggja embættismanna ríkisins, þjóna þjóðarinnar, þegar ekki er samkomulag um (tímabundna) þagnarskyldu. Fyrrverandi Ríkissáttasemjari hefði ekki átt að hlaupa í gönur vegna  einhvers æsingaskíts á samningafundi.  Seðlabankanum er algerlega óheimilt að fara að slíkum tilmælum úr Karphúsinu eða annars staðar frá.  Líklega var verið að fara fram á lögbrot. Lýsingin er líklega dæmigert fyrir vinnubrögð núverandi formanns VR.  Hann fer úr jafnvægi, þegar umhverfið, samningafundur, aðgerðir Seðlabanka eða annað, passar ekki við sýndarveruleika hans sjálfs. Bullið í honum stangast á við staðreyndir, efnahahslögmál og heilbrigða skynsemi.  Hann virðist ófær til vitrænnar rökræðu og þá er undankomuleið hans að rjúka af fundi í fússi og skella hurð, ef hún býður upp á það. Ríkissáttasemjari hefði frekar átt að vísa þessum bullustampi út af fundi en að hlaupa eftir dyntum hans. 

"Erlendis hafa launþegar að miklu leyti tekið á sig verðbólguna.  Enn sem komið er hefur vinnumarkaðurinn [erlendis-innsk. BJo] ekki svarað verðbólgu með miklum launakröfum, sem hefur [þar] leitt til þess, að raunlaun hafa lækkað og verðbólga gefið eftir.  

En hér [á Íslandi] hefur það ekki verið þannig.  Hér hafa launin ekki lækkað, laun hafa hækkað í takti við verðbólgu, og verðbólgan er ekki að gefa eftir [þótt vísbendingar bendi til, að svo muni verða, ef skynsamlega er haldið á málum innanlands-innsk. BJo].  Það hefur þá leitt til þess, að við [Seðlabankinn] beitum þeim tækjum, sem við höfum.  

Það ætti enginn að velkjast í vafa um það, að stýrivextirnir virka hjá okkur.  Og hafa virkað.  Við getum rétt ímyndað okkur, hvernig ástandið væri, ef við hefðum ekki hækkað vexti" [og ef beturvitinn Ragnar Þór Ingólfsson hefði ráðið stefnunni í peningamálum-innsk. BJo].

Sú mynd, sem Seðlabankastjóri dregur upp af ólíkri nafnlaunaþróun í okkar viðskiptalöndum og hér, er ískyggileg, því að hún mun fyrr en seinna leiða til veikingar gengisins.  Sú þróun leiðir til verðbólgu og knýr Seðlabankann til að viðhalda hér háum stýrivöxtum.  Gengið styrkist um þessar mundir (um miðjan júní 2023) vegna jákvæðs viðskiptajafnaðar við útlönd og hárra stýrivaxta.  Af þessu sést ("som den observante læser umiddelbart ser"), að verkalýðshreyfingin á Íslandi á ekki annarra kosta völ en að haga sér með svipuðum hætti og Seðlabankastjóri lýsir, að hún geri erlendis, ef hún ætlar að forðast efnahagslega kollsteypu, sem verður alfarið skrifuð á Jóns Hreggviðssonar-eðli hennar.  Þetta eðli getur komið sér vel, en getur verið sjálfstortímandi, ef því er beitt ranglega. Þetta eðli krefst góðs skynbragðs á umhverfið.  

Þá spyr blaðamaðurinn, hvort Seðlabankastjóri hafi e.t.v. verið of hóflegur m.v. verðbólguþróun, sem orkar tvímælis m.t.t. þolmarka hagkerfisins: 

"Algjörlega.  Það er oft látið, eins og Seðlabankinn sé að skemma fasteignamarkaðinn með því að hækka vexti og þrengja lántökuskilyrði. Ókey, en ef við hefðum ekki gert það, hvað hefði þá gerzt ?  Vandinn liggur í of litlu framboði, svo [að] þá hefði verðið hækkað enn frekar, væri kannski 30 % hærra fasteignaverð, og fólk gæti ekki keypt á því verði. 

Vandamálið á fasteignamarkaði er skortur á framboði og of lítil eftirspurn.  Bara hagfræði 101."  

Sjálfsprottnir spekingar í hagfræði innan verkalýðshreyfingarinnar, sem loka eyrunum fyrir staðreyndum og "hagfræði 101", af því að þeir lifa í hliðarveruleika, sem er stórhættulegt fyrir skjólstæðinga þeirra og hefur eyðileggjandi áhrif á hagkerfið allt, þurfa að svara spurningu Seðlabankastjóra um það, hvernig efnahagsástandið væri nú, ef kröfu þeirra um að hækka ekki stýrivextina hefði verið hlýtt.  Að öðrum kosti ættu þeir að hafa hljótt um sig og helzt að láta sig hverfa. 

"Við getum vel náð verðbólgu niður með þeim tækjum, sem við höfum, bæði í peningamálum og fjármagnsstöðugleika.  En það gæti hefnt sín með niðursveiflu. Sérstaklega ef við erum að fá launahækkanir ofan í vaxtahækkanir, eins og sumir verkalýðsforingjar hafa hótað.  Þá munum við fá yfir okkur kreppuverðbólgu, sem væri versta niðurstaðan."

Sumir verkalýðsleiðtogar gangast upp í því að berja sér á brjóst og gefa út digurbarkalegar yfirlýsingar um að "verja kaupmáttinn".  Í stuttu máli vita þeir ekkert, hvað þeir eru að segja. Þeir eru ekki starfi sínu vaxnir og misskilja hlutverk sitt í grundvallaratriðum.  Þeim er fyrirmunað að greina viðfangsefnið og leita raunhæfra lausna í anda starfssystkina sinna á hinum Norðurlöndunum og vítt og breitt um Evrópu.  Íslenzkir verkalýðsformenn, sem ætla að kveikja hér verðbólgubál og valda um leið kreppu og fjöldaatvinnuleysi, eru eins ófaglegir í sinni nálgun viðfangsefnisins og hugsazt getur. 

Síðan snupraði Seðlabankastjóri furðudýrið á formannsstóli VR:

"Það er ekki hægt að breyta hagfræðilögmálum með því að halda mótmæli á Austurvelli." 

Það er hvorki hægt að breyta einu né neinu með því, en sjálfumglaðir furðufuglar geta galað þar fyrir egóið sitt.  

Að lokum kom Seðlabankastjóri með athyglisverða tillögu fyrir komandi kjarasamninga, og það var eins og við manninn mælt.  Hún fór öfugt ofan í verkalýðsformenn, sem botna ekkert í stöðu hagkerfisins:

"Raunar tel ég, að þessi stefna, sem var mörkuð með því að lækka kauphækkanir æðstu embættismanna, sé orðin stefnumarkandi fyrir marlaðinn í heild.  Það voru verkalýðsleiðtogar, sem báðu um þetta og fengu; þá hlýtur að vera eðlilegt, að það verði línan upp úr og niður úr."

Verkalýðsformenn gætu átt það til að sýna orðhengilshátt og snúa út úr þessu og miða við meðaltals krónutöluhækkun til þingmanna og æðstu embættismanna í næstu samningum. Það væru þó óviturleg vinnubrögð.  Það þarf að finna út, hvað útflutningsgreinarnar þola mikla hækkun launakostnaðar síns, án þess að hún veiki samkeppnisstöðu þeirra, en ekki í barnslegri öfund að horfa á hækkanir til annarra eða verðbólguna. 

 

 

  


Grundvöll raunlaunahækkana vantar

Mikill hagvöxtur eftir Kófið er skiljanlegur, en á óvart kemur, að hann er að mestu leyti vegna fjölgunar á vinnumarkaði.  Á síðustu 10 árum hafa að jafnaði 5 þúsund fleiri með erlendan ríkisborgararétt flutzt til landsins en frá því.

Þótt margt aðkomumanna sé hörkuduglegt fólk, virðast þessir aðkomumenn ekki hafa staðið undir framleiðniaukningu í landinu.  Þannig minnkaði landsframleiðsla á mann í landinu á 1. fjórðungi 2023, þótt þá hafi umreiknað til árs mælzt 7 % hagvöxtur. Að nokkru tengist þetta því, að erlendu ríkisborgararnir búa fæstir yfir þekkingu, sem er mikils metin á vinnumarkaði, en í annan stað stafar þetta af mikilli fjölgun opinberra starfsmanna, sem draga niður meðalafköstin, og verðmætasköpunin er misjöfn og oftast torreiknanleg. 

Málið er alvarlegt, og það þarf að kryfja til mergjar með það að stefnumiði að snúa þróuninni við, því að þessi stærð er undirstaða raunkjarabóta í landinu.  Eftir því sem þjónustugreinar verða umfangsmeiri í hagkerfinu, er þessi neikvæða þróun viðbúin, því að þar er erfiðara að koma við sjálfvirknivæðingu að ráði en í vöruframleiðslu. Það er þó eitthvað mikið að hér, því að að Ísland situr á botninum, hvað þetta varðar, innan OECD. Fjármála- og efnahagsráðherra hefur skilað ríkisstjórninni minnisblað um þetta, en stjórnin hefur sett á laggirnar ónauðsynlegri vinnuhópa en þann, sem skipaður væri um téða krufningu, þ.e. að finna á þessu handfastar skýringar, og að varða leiðina til viðsnúnings. Eru fjárfestingar í nýsköpun misheppnaðar að miklu leyti ?

Árið 2000 jókst landsframleiðsla á mann um 2,5 %, og meðaltalið síðan til 2023 nemur 1,4 %, en leitni stærðarinnar stefnir í 0 2024.  Það þýðir einfaldlega, að það er tómt mál að tala um nokkrar raunlaunahækkanir á því herrans ári. Við þessar aðstæður er það algerlega óábyrgt hjal, að hægt verði í næstu kjarasamningum að sækja raunlaunahækkanir í greipar atvinnurekenda. Launahækkanir munu við þessar aðstæður aðeins kynda undir verðbólgu og verða að engu.  Sumir verkalýðsformenn lifa í hliðarveruleika við raunheiminn og þykjast búa yfir "betri sannleika" en t.d. Seðlabankinn, en þeirra sannleikur er froða uppskafninga án nokkurrar fræðilegrar festu.  

Baldur Arnarson birti baksviðsfrétt í Morgunblaðinu 6. júni 2023, sem reist var á útreikningum Yngva Harðarsonar, framkvæmdastjóra Analytica, undir fyrirsögninni:

"Minna til skiptanna":

""Ársbreytingin minnkar kerfisbundið yfir þetta tímabil. Þannig að dregið hefur úr vexti framleiðni.  Leitnin er komin mjög nálægt núllinu.  Við ættum í raun að hafa orðið fyrir talsverðri kjararýrnun frá því fyrir faraldurinn.  Þetta er ein af ástæðum verðbólgu.  Laun hafa hækkað langt umfram framleiðni", segir Yngvi."

Umframverðbólga á Íslandi m.v. evrusvæðið og Bandaríkin (BNA) er alfarið í boði verkalýðshreyfingarinnar.  Á þessum svæðum hafa launþegar tekið á sig kjaraskerðingar með launahækkunum, sem eru langt undir verðhækkunum þar.  Þar af leiðandi hjaðnar verðbólga þar nú og er um 6,1 % á evrusvæðinu og 4,9 % í BNA, en um 9 % hér.  

Ef verkalýðsformenn sýna af sér stillingu (skynsemi er varla hægt að biðja um), bera teikn á lofti merki um, að góðra tíðinda kunni einnig hér að vera að vænta, þ.e. að aðgerðir Seðlabankans í baráttunni við verðbólgu hafi nú jákvæð áhrif á þætti, sem reka hana áfram. 

Steingrímur Arnar Finnsson, framkvæmdastjóri markaðsviðskipta hjá Fossum, fjárfestingarbanka, reit um þetta áhugaverða verð á Sjónarhóli VIÐSKIPTAMOGGANS 7. júní 2023:

"Vísbendingar um hraðari hjöðnun verðbólgu".

 

"Þegar horft er fram á veginn, þá glittir í jákvæðar leiðandi vísbendingar um, að verðbólgan eigi mögulega eftir að hjaðna hraðar en spár Seðlabankans gera ráð fyrir og [þess], sem verðlagning á skuldabréfamarkaði bendir til.  Þar fer saman samspil ytri þátta í heimshagkerfinu, og að vaxtaleiðni peningastefnunnar miðlast með æ kröftugri hætti í gegnum hagkerfið."

Forseti ASÍ af öllum mönnum fór eindregið fram á það við ríkisstjórnina á dögunum, að hún sæi til þess, að ráðherrar, aðrir þingmenn og hátt settir embættismenn, sem eiga að fá launahækkanir samkvæmt lögum í samræmi við launaþróun ríkisstarfsmanna, tækju á sig enn meiri raunkjaraskerðingu en Hagstofan var búin að reikna þeim til handa ( með um 6 % launahækkun).  Niðurstaðan verður 2,5 % launahækkun.  Þetta var skot út í loftið í baráttunni við verðbólguna hjá forsetanum, nema hann beiti sér nú af hörku fyrir því, að þessi prósenthækkun verði viðmið launþegahreyfingarinnar í næstu kjarasamningum. Hann verður að sýna einhverja samkvæmni.  Annars er hann ómarktækur. Nú reynir á forystu launþegahreyfingarinnar.  Ætlar hún að láta af skrípalátum og fara að taka hlutverk sitt alvarlega ?  Valið stendur á milli heilbrigðs vaxtar og fullrar atvinnu eða kreppuverðbólgu ("stagflation").  Sú síðar nefnda mundi leika alla grátt, en koma verst niður á þeim, sem sízt skyldi. 

"Jákvætt var að sjá vöxt einkaneyzlu á 1. ársfjórðungi undir væntingum Seðlabankans - eða um 2,5 %.  Þá dróst kortavelta í apríl [2023] saman að raunvirði á milli ára í fyrsta skipti í rúm 2 ár þrátt fyrir sögulega 3,6 % íbúafjölgun á sama tíma.  Fjármunamyndun var einnig undir spám bankans, og skrapp atvinnuvegafjárfesting saman um 14 % frá fyrri ársfjórðungi (árstíðaleiðrétt), sem er mesti samdráttur í 3 ár.  Til viðbótar við þetta gefa neikvæðari væntingar heimila og fyrirtækja til kynna, að spennan í hagkerfinu hafi náð hámarki.  Hóflegur, en heilbrigður vöxtur ætti að taka við."

Þetta eru allt vísbendingar um, að aðgerðir Seðlabankans séu teknar að bera árangur við að minnka þenslu, sem er undanfari verðbólguhjöðnunar. 

Raunhæfs bjartsýnistóns gætti í lok greinar Steingríms:

"Ef fram fer sem horfir, getur sú sviðsmynd teiknazt hratt upp, að toppi vaxtahækkunarferlisins sé náð, og fram undan blasir við umhverfi, þar sem núverandi vaxtastig vinnur með kröftugum hætti á þeirri þenslu, sem skapaðist í íslenzku efnahagslífi á liðnum misserum."

Íslenzkt hagkerfi þolir ekki núverandi vaxtastig til lengdar áfallalaust, þ.e. án þess að sligast og síga í kreppuástand.  Svo er að sjá af ýmsum viðbrögðum verkalýðshreyfingar við skýrum skilaboðum Seðlabankastjóra, m.a. í viðtali við Morgunblaðið 8.júní 2023, þar sem hann talaði tæpitungulaust, að þar á bæ er fólk ófært um að greina stöðuna og móta langtímastefnu öllum launþegum til heilla.  Samkvæmt þessu munu verkalýðsformenn stinga hausnum í sandinn og framkalla enn meiri vaxtahækkanir, sem munu skapa hér fjöldauppsagnir og atvinnuleysi.  Það þýðir ekki að fara þá fram með dólgshætti og kenna öllum öðrum um ömurlega stöðu.  Ábyrgðin hvílir á herðum samtaka launafólks, hvort sem formönnum sumra verkalýðsfélaga líkar það betur eða ver.  Hvers vegna gengur þeim ver að skilja staðreyndir en verkalýðsformönnum á hinum Norðurlöndunum og víðar ?

 

 

   

 


Efnahagslíf í gíslingu

Nú er glímt við afleiðingar lausataka á peningamálum og ríkisfjármálum í Kófinu og síðan við gríðarlegar vöruverðshækkanir á alþjóðlegum mörkuðum vegna útrýmingarstríðs grimmra og yfirgangssamra villimanna í Rússneska ríkjasambandinu gegn sjálfstæðri þjóð Úkraínu.  Málstaður fasistastjórnarinnar í Kreml er engu betri en nazistastjórnarinnar í Berlín 1933-1945.  Hugmyndafræðin er keimlík, en verður hún upprætt með sigri úkrínska hersins á rotnum rússneskum her ?  Það er ólíklegt, og þess vegna m.a. er styrking hervarna NATO óumflýjanleg. Lönd varnarbandalagsins hafa flest sofið á verðinum gagnvart óargadýrinu í austri, en eru nú að ranka við sér. 

Ísland getur ekki skorizt þar úr leik, þótt ekki sé landið herveldi.  Nú um stundir er peningum til varnarmála bezt varið með fjármögnun á fjölþættri aðstoð við Úkraínumenn, sem nú úthella blóði sínu í þágu tilvistar þjóðarinnar og frelsis. Ísland hefur þegar farið inn á þessa braut og ætti að halda því áfram í samráði við Úkraínumenn og NATO.   

Fyrirtækin í landinu njóta flest mikillar eftirspurnar, en glíma við miklar kostnaðarhækkanir, ekki sízt við miklu meiri kostnaðarhækkanir vinnuafls en fyrirtæki erlendis.  Í þensluástandinu hafa þau getað varpað kostnaðarhækkunum út í verðlagið, og þetta ásamt hækkun erlends verðlags hefur valdið seigri verðbólgu hér nálægt 10 %.  Ef ekki tekst að vinna bug á þessari verðbólgu fljótlega, mun gengið gefa eftir, og þá verður fjandinn laus.  Fjandinn yrði líka laus með evru, því að þá yrði hér fjöldaatvinnuleysi, því að fyrirtækin færu á höfuðið.

  Gíslingin er fólgin í því, að það skortir skilning á því hjá stjórnmálamönnum og verkalýðsformönnum mörgum, að skattheimta og  og launakostnaður fyrirtækja hérlendis umfram það, sem tíðkast í okkar helztu viðskiptalöndum, gerir landið ósamkeppnisfært, sem leiðir til kollsteypu efnahagslífsins. 

Óli Björn Kárason, formaður þingflokks sjálfstæðismanna, ritaði góða grein um verðbólguna o.fl. í Morgunblaðið 31. maí 2023 undir fyrirsögninni:

"Stærsta og erfiðasta verkefnið".

Þar stóð m.a.:

"Voru aðgerðir ríkissjóðs [í Kófinu] of viðamiklar ?  Kann að vera.  Lækkaði Seðlabankinn vexti of mikið ?  Það er hugsanlegt.  En allt er þetta eftir á speki.  Aðalatriðið er, að vörnin tókst, eins og sést vel á þeirri staðreynd, að í gegnum allt kófið jókst kaupmáttur launa. [Það er líklega einsdæmi og bendir til yfirskots - innsk. BJo.]  Seðlabankinn bendir á, að á undanförnum 3 árum, þ.e. frá upphafi farsóttarinnar, jókst kaupmáttur launa um að meðaltali 2 % á ári hér á landi, en til samnaburðar dróst hann saman um 1 % á ári í öðrum Evrópuríkjum og um 0,3 % í Bandaríkjunum."

Það var engin innistæða fyrir þessari kaupmáttaraukningu, og samkeppnisstaða landsins versnaði sem nam meiri falskri kaupmáttaraukningu hér en annars staðar. Þessi falska kaupmáttaraukning var reist á innistæðulausri seðlaprentun, aukningu peningamagns í umferð, og hún kyndir nú undir verðbólgu af meiri krafti hérlendis en víða annars staðar.  Seðlabankinn gekk of langt, ríkissjóður gekk of langt og sóttvarnaryfirvöld fóru hreinlega offari og skiluðu af sér neikvæðum árangri, sem lýsti sér í mun fleiri umframdauðsföllum  2020-2022 hér en í Svíþjóð, þar sem meira hófs var gætt. 

Með öðrum orðum: ríkisvald og þjóðþing brugðust algerlega.  Valdsækni ríkisins er bæði sjúkleg og hættuleg.  Borgurunum er fyrir beztu að reiða sig mest á sjálfa sig og takmarka vald ríkisins af fremsta megni.  Þar undir heyrir auðvitað skattheimtan.  Affarasælast er, að borgararnir haldi eftir sem mestu af sjálfsaflafé sínu.  Hlaupið hefur verið eftir skemmdarverkalöngun vinstra fólksins með skattlagningu sparnaðar.  Mikill sparnaður og lág verðbólga eru heilbrigðismerki á einu þjóðfélagi, en hér er gengið svo langt að skattleggja verðbætur, sem er líklega heimsmet í heimsku á sviði fjármálastjórnar ríkisvalds. 

"Heimilin og fyrirtækin nýttu sér góðan [hann ver ekki góður, heldur mikill-innsk. BJo] varnarleik á síðasta ári.  Hagvöxtur var 6,4 %.  Þetta er mesti hagvöxtur, sem mælzt hefur síðan árið 2007.  Vöxturinn var drifinn áfram af miklum vexti innlendrar eftirspurnar, sérstaklega einkaneyzlu, sem jókst um 8,6 % milli ára.  Í Peningamálum Seðlabankans kemur fram, að svo virðist sem hagvöxtur á 1. fjórðungi þessa árs [2023] hafi verið töluvert meiri en spáð var í febrúar [2023], og því er útlit fyrir, að hann verði meiri á árinu í heild eða 4,8 % í stað 2,6 %."

Þarna er einfaldlega verið að lýsa einkennum of hitaðs hagkerfis af völdum hagstjórnarmistaka ríkisvaldsins.  Rugluð stjórnarandstaða á Alþingi gagnrýndi helzt hinn afdrifaríka ofvaxna varnarleik ríkissjóðs fyrir að vera ekki nægur.  Ef Samfylkingin hefði verið við stjórnvölinn, væri verðbólguvandinn enn illkynjaðri en reyndin er, og verðbólgan væri jafnvel nær 20 % en 10 %.  Að kjósa slíkt krataafstyrmi, siglandi undir fölsku flaggi til ESB, til valda væri svo sannarlega að fara úr öskunni í eldinn fyrir borgarana, enda benti fjármála- og efnahagsráðherra nýlega á það í sjónvarpsumræðum (RÚV), að þar færi bara gamla Samfylkingin.  Nú þykist hún vera eitthvað annað en hún er.  Það er kallað að bera kápuna á báðum öxlum.

"Á síðasta ári [2022] er áætlað, að hallinn [á ríkissjóði] hafi verið 3,5 % af landsframleiðslu, sem er ríflega 4 % minna en á árinu á undan.  Batinn á síðasta ári var meiri en hann var að jafnaði á meðal annarra þróaðra ríkja, sem við berum okkur saman við.  Skuldir eru með því lægsta, sem þekkist, en eru sannanlega of miklar og fjármagnskostnaður of hár.  Sem hlutfall af landsframleiðslu verða skuldir hins opinbera hér á landi um 40 %, 83 % í löndum Evrópusambandsins." 

Efnahagslífið á Íslandi er í flestu tilliti á allt öðru róli en í Evrópusambandinu (ESB), og þess vegna yrði innganga Íslands í ESB að efnahagslegri byrði fyrir landsmenn. Þetta má í megindráttum skýra á einfaldan hátt:

  1. Atvinnuvegirnir eru ólíkt upp byggðir.  Hér standa auðlindir fiskistofna, orku og náttúru undir megintekjustofnum.  Fiskveiðar eru arðbærar og orkan er úr endurnýjanlegum orkulindum fallvatns og jarðhita.  Verkefnið er að auka verðmæti sjávarútvegsins með tækniþróun og að virkja svo mikið, að ekki hamli þróun atvinnulífs og orkuskpta, eins og nú er verkurinn. 
  2. Lýðfræðileg samsetning landsmanna er með allt öðrum og hagstæðari hætti en í ESB-löndunum.  Þar af leiðandi er meiri kraftur í hagkerfinu hér, og lífeyristryggingar eru að mestu fjármagnaðar með ævisparnaði í lífeyrissjóðum, en ekki með stórskuldugum ríkissjóðum, eins og yfirleitt í ESB.  Nú hefur lífeyrissjóður ríkisstarfsmanna tilkynnt skerðingu lífeyris vegna aukins langlífis félaganna.  Einkennilegt er að bregðast við því með því að heimta bætur fyrir langlífið.  Ef um þokkalega heilsu er að ræða, er hækkandi dánaraldur fagnaðarefni.  Ef heilsan er bágborin, er ekki víst, að svo sé, og gríðarlegur kostnaður lendir þá á ríkissjóði.  Það verður að gæta að því að hlaða ekki óþarfa byrðum á hann.

 Það er engum vafa undirorpið, að með Kristrúnu Frostadóttur, formann Samfylkingarinnar, í ríkisstjórn, t.d. forsætis- eða fjármála- og efnahagsráðuneyti, undanfarin ár, væru landsmenn ekki jafnborubrattir núna og þó er reyndin.  Það væri ekki rífandi gangur í hagkerfinu, því að hún hefði aukið skattheimtu á landsmenn og varið fénu í alls kyns gæluverkefni að hætti krata í borgarstjórn, þar sem sukkið hefur verið þvílíkt, að borgarsjóði liggur við greiðslufalli. Staða ríkissjóðs væri samt verri en núna, vegna þess að aukin skattheimta hægir á hagkerfinu, sem dregur stórlega úr eða étur upp ávinning fyrir ríkissjóð af hærri skattheimtu. 

Næst kom hjá Óla Birni það, sem skilur á milli feigs og ófeigs, Samfylkingar og sjálfstæðismanna, eins og berlega hefur undanfarið komið í ljós í sveitarstjórnum: 

"Það blasir við, að auka verður aðhald í fjármálum hins opinbera - ríkis og sveitarfélaga.  Við getum ekki hegðað okkur líkt og strúturinn og stungið hausnum í sandinn.  Við verðum að horfast í augu við þá staðreynd, að útgjöld ríkissjóðs hafa hækkað að raunvirði um 39 % - að frátöldum vaxtagjöldum - frá árinu 2017 eða um liðlega mrdISK 346.  Þetta er liðlega mrdISK 10 hærri fjárhæð en áætlað er, að fari til heilbrigðiskerfisins á þessu ári [2023]; í sjúkrahús, heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa, hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu, lyf og lækningavörur." 

Tæplega 6 % raunhækkun ríkisútgjalda á ári er ósjálfbær í þeim skilningi, að hún dregur svo mikið fé frá einkageiranum og heimilum, að þar verður lífskjararýrnun.  Ástæðan er sú, að þetta er miklu meiri hækkun en meðaltalshagvöxtur tímabilsins.  Mikill hluti þessarar hækkunar fór til heilbrigðiskerfisins, sem er skiljanleg afleiðing öldrunar þjóðarinnar, en þáttur í álagsaukningunni þar er einnig gríðarlegt aðstreymi erlendra ferðamanna og hælisleitenda.  Í fyrr nefnda hópinum eru margir gamlingjar í alls konar áhættuhópum fyrir heilsufar, og í síðar nefnda hópnum er heilsufarið í mörgum tilvikum bágborið, enda hefur sá hópur sjaldnast búið við frían aðgang að heilbrigðisþjónustu.  Útgjöld til heilbrigðismála vaxa stjórnlaust, og biðraðirnar vaxa stöðugt, hvort tveggja einkenni ríkisrekstrar, sem notandinn veit lítið um, hvað kostar.  Þetta er ekki beinlínis hvati til heilbrigðs lífernis landsmanna, enda er stór hluti ríkisútgjaldanna vegna lífstílssjúkdóma, sem hæglega hefði mátt komast hjá. Verkefnið er að finna lausnir til hagkvæmari rekstrar.  Það hefur ekki gengið vel á LSH, og til þess er heilbrigðisráðuneytið illa hæft.  Eina ráðið er að fela einkageiranum á þessu sviði fleiri verkefni, því að þar er einingarkostnaðurinn lægri og afköstin meiri með viðunandi gæðum.

"Breyttar aðstæður og verri þróun verðbólgunnar og þá sérstaklega auknar verðbólguvæntingar kalla á, að gripið verði til enn meira aðhalds í ríkisfjármálum en áður var talið nauðsynlegt.  Og til lengri tíma verður að vinna skipulega að því að lækka fjármagnskostnað ríkissjóðs, m.a. með sölu sölu ríkiseigna og niðurgreiðslu skulda."

Þetta er gott og blessað, svo langt sem það nær, en það tekur ekki á kjarna vandans, sem knýr innlenda verðbólgu áfram. Hann er sá, að launahækkanir í landinu hafa verið margfalt meiri hérlendis en erlendis og margfalt meiri en vöxtur landsframleiðslu á mann og þar með framleiðniaukningin. Frá aldamótunum 2000 hefur leitni aukningar landsframleiðslu á mann verið niður á við, er nú nálægt 0 og stefnir í mínus. Í stað þess að kryfja þetta mál til mergjar (leita orsaka) með Samtökum atvinnulífs og ríkisvalds stinga verkalýðsformenn hausnum í sandinn og heimta bara meiri launahækkanir, sem er nokkurn veginn það versta, sem þeir geta gert sínum skjólstæðingum við núverandi aðstæður.  Með hlutdeild vinnuafls af verðmætasköpun í toppi, eins og hér, munu allar launahækkanir aðeins fóðra verðbólgubálið, ef framleiðnivöxtur samfélagsins er nánast enginn.    

 

 


Strandkapteinn hverfur frá borði

Reykvíkingum og landsmönnum öðrum má vera ljóst, að fjármálamarkaðurinn er hættur að treysta því, að Reykjavíkurborg geti staðið í skilum með fjárhagslegar skuldbindingar sínar.  Að lána höfuðborg landsins undir stjórn Samfylkingarborgarstjóra er að taka áhættu með stórfelldar afskriftir lána.  Fjármál borgarinnar hafa tekið allt aðra stefnu en fjármál tveggja næstu sveitarfélaganna að stærð, Kópavogs og Hafnarfjarðar, enda eru bæjarstjórar þar sjálfstæðismenn og fylgja þar af leiðandi sjálfbærri fjármálastefnu, en hjá meirihluta borgarstjórnar rekur allt á reiðanum, stjórnkerfið lamað, óreiðan alger og ráðleysið sömuleiðis. Þar fer höfuðlaus her.

Það er þó ekki nóg með þessa ömurlegu stöðu, heldur hafa heybrækurnar í meirihlutanum, sem leiddur hefur verið lengi af Samfylkingunni, ekki enn þá mannað sig upp í að greina borgarbúum satt og rétt frá stöðunni.  Borgarstjóri stingur höfðinu í sandinn við óþægilega atburði eins og að fá alvarlegar athugasemdir frá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga og talar um "rútínubréf".  Það eru ill örlög Reykvíkinga að þurfa að lúta stjórn svo dáðlauss borgarstjóra.  Þar er alger "gúmmíkarl" á ferð, og hætt er við, að á landsvísu sé staðan engu skárri hjá Samfylkingunni.  Þar vantar hryggjarstykkið.  

Það, sem heyrzt hefur frá borgarstjóra, er, eins og vænta mátti, að kenna öðrum um.  Hann kennir verðbólgunni um og kostnaði við fatlaða.  Þegar frammistaða borgarinnar er borin saman við næstu sveitarfélög í stærðarröðinni, fellur þessi hráskinnaleikur Samfylkingarborgarstjórans um sjálfan sig. Ef frammistöðuvísitölur eru settar á 100 árið 2014 og þær kannaðar árið 2022, sést, að vísitala skulda A-hluta borgarsjóðs hafði hækkað í 194, bæjarsjóðs Kópavogs í 107 og bæjarsjóðs Hafnarfjarðar í 109.  Sú síðast nefnda hafði lækkað síðan 2020.

Vísitala skulda á hvern íbúa Reykjavíkur hefur farið stöðugt hækkandi og var 169 árið 2022, en hún hefur lækkað í Kópavogi í 89 í Hafnarfirði í 98.  Þessi seinni vísitala sýnir, að fjármál Reykjavíkur eru ósjálfbær - stjórnlaus, en í báðum hinum bæjarfélögunum er þeim stjórnað í æskilegan farveg. 

Umfjöllun Viðskipta Moggans 12.04.2023 sýndi svart á hvítu, að markaðurinn er búinn að gera sér grein fyrir þessu og hefur afskrifað Reykjavíkurborg sem traustvekjandi skuldara.  Þegar lánalínur borgarinnar í bönkum verða upp urnar, mun styttast mjög í greiðsluþrot borgarinnar, og henni verður þá væntanlega skipaður tilsjónarmaður.  Um svipað leyti mun strandkapteinn Samfylkingarinnar hverfa frá borði, enda verri en enginn, þegar á reynir.

"Viðmælendur ViðskiptaMoggans telja auðsýnt, að ástæða þess, að borgin hefur nú í tvígang fallið frá útboði, sé, að ekkert bendi til þess, að eftirspurn eða kjör á markaði hafi batnað, frá því [að] borgin greip því sem næst í tómt á markaði í síðasta útboði.  Ætla megi, að vænt áhugaleysi á fyrirhugaðri útgáfu myndi reynast borginni niðurlægjandi, enda felist í því ákveðið vantraust á fjárhagsstöðu hennar og greiðslugetu.  Síðasta skuldabréfaútboð Reykjavíkurborgar fór fram í febrúar [2023], en þá reyndist eftirspurn dræm, og þau kjör, sem buðust, þóttu síður en svo gæfuleg."

Þetta þýðir í raun, að skuldabyrði borgarinnar er orðin henni ofviða.  Veltufé frá rekstri er of lítið, til að hún geti staðið undir fjárhagsskuldbindingum sínum, og þá reynir hún að fleyta sér áfram á lánum.  Hvers vegna ?  Bíður Samfylkingarfólkið og meðreiðarpakkið eftir kraftaverki til að komast hjá þeirri niðurlægingu, að Samfylkingin verði dæmd í sögunni sem sá stjórnmálaflokkur, sem rústaði stjórnkerfi borgarinnar, kom þar að getulitlum og sérlunduðum pólitískum silkihúfum og hefur nú keyrt höfuðborg landsins í fjárhagslegt þrot ? 

Það má vissulega segja, að nú sé hún Snorrabúð stekkur, því að fyrir um 30 árum, áður en ruglið hófst í borgarstjórn, stóð fjárhagur borgarinnar í blóma, þar var mikið framkvæmt, og borgin var eftirsótt starfsstöð fyrirtækja og sem sveitarfélag til að stofna heimili í og búa í.  Allt ber þetta stjórnarháttum Samfylkingarinnar ömurlegt vitni.  Fyrir þá á hún flengingu skilda frá kjósendum.  Svona gera menn ekki. 

Borgin hyggst á fyrri hluta 2023 fá lánveitendur til að lána sér mrdISK 21 bæði með skuldabréfaútgáfu og bankalánum.  Á þetta fé að fara í arðbærar framkvæmdir eða til að borga vexti og afborganir lána, sem eru ódýrari en það, sem borginni býðst nú ?  Það er engin leið að sjá, að nokkur glóra sé í að íþyngja borgarsjóði æ meir.  Hann er nú þegar ósjálfbær. Stöðva verður skuldasöfnunina. Samfylkingin hefur stefnt fjárhag borgarinnar í slíkar ógöngur, að hún verður nauðug viljug að selja eignir til að létta á skuldabagganum.  Hvað skyldi verða fyrir valinu ?  Orkuveita Reykjavíkur ?

 

  


Samfylkingin sinnir almannahagsmunum með ömurlegum hætti

Segja má, að víðast hvar á landinu, þar sem brölt Samfylkingarinnar hefur skilað liðsmönnum hennar í stjórnunaraðstöðu, hafi hagsmunamál almennings í byggðarlaginu þróazt mjög til verri vegar og fjármálin snarazt undir kvið drógarinnar. Verst og afdrifaríkast er þetta í stærsta sveitarfélaginu, en þar hefur verið rekin sérvizkuleg, raunar fávísleg skipulagsstefna, sukk og svínarí, sem nú virðist ætla að enda með skipbroti og greiðsluþroti borgarsjóðs. Það er saga til næsta bæjar. Í Reykjavík hefur læknir með strútsheilkenni farið með völdin fyrir hönd Samfylkingarinnar í meira en áratug með grafalvarlegum afleiðingum fyrir borgarbúa og landsmenn alla. Þessu ættu landsmenn að gefa gaum, þegar þeir íhuga stuðning við stjórnmálaflokka á landsvísu og staðbundið.  Vítin eru til þess að varast þau. 

Morgunblaðið hefur gert óstjórninni í Reykjavík rækileg skil í leiðurum, enda þar á bæ kunnáttumenn um málefni Reykjavíkur og fjármál almennt.  Einn slíkur leiðari birtist 14. apríl 2023 og hét:

"Afneitun borgarstjóra".

Þar stóð m.a.:

"Því trúir enginn lengur, nema mögulega borgarstjóri sjálfur, sem lætur augljósar staðreyndir og opinberar aðfinnslur sem vind um eyru þjóta.  Jafnvel umsögn borgarinnar sjálfrar árið 2020: "Vandinn snýst [...] ekki aðeins um skammtíma fjármögnunarvanda, heldur stefnir í algerlega ósjálfbæran rekstur til margra ára.". 

Afleiðingarnar blasa nú við, þó [að] sennilega muni þær reynast enn kaldranalegri við birtingu ársuppgjörs borgarsjóðs undir lok þessa mánaðar [apríl 2023].  Allt bendir til þess, að enn frekar og hraðar hafi sigið á ógæfuhliðina síðustu mánuði. 

Skýr vísbending um það kom á þriðjudag [11.04.2023], þegar Reykjavíkurborg læddi út tilkynningu að loknum starfsdegi um, að fyrirvaralaust væri hætt við annað skuldabréfaútboð hennar í röð, en borgin hyggst afla sér mrdISK 21 á fyrri hluta ársins [2023] með þeim hætti. Á því komu engar skýrar skýringar, en augljóst er, að borgin óttaðist, að henni byðust aðeins niðurlægjandi afarkjör.  Hversu lengi hún getur afþakkað þau án þess að eiga greiðsluþrot á hættu, er önnur saga."

Nú er öldin önnur en þá er Gaukur bjó á Stöng.  Sú var tíðin, að Reykjavíkurborg var orðlögð fyrir góða og trausta fjármálastjórn.  Þá stjórnuðu sjálfstæðismenn málefnum hennar, og þá var enginn fíflagangur á ferð á borð við lokun Reykjavíkurflugvallar, þéttingu byggðar, þrengingar gatna, risavaxið strætókerfi staðsett á miðjum núverandi akbrautum, sniðið að útlendum fyrirmyndum við ósambærilegar aðstæður, snjóruðningsviðbúnaður vanbúinn og stjórnlaus (og vitlaus), lóðahörgull og lóðaokur og svo mætti lengi telja.  Nú er Samfylkingarfólk í forystu borgarinnar ásamt auðsveipum liðleskjum búið að keyra málefni höfuðborgarinnar gjörsamlega út í eitt fúafen.  Þetta flokksafstyrmi, sem segir eitt og gerir annað, talar fjálglega um opna stjórnsýslu, en stundar meiri leyndarhyggju og þöggun umræðu en nokkur annar. Samfylkingarpótintátinn Dagur B. Eggertsson hefur brugðið upp Pótemkíntjöldum kringum fjármál borgarinnar og jafnan látið sem allt sé í himnalagi.  Að afneita staðreyndum er einkenni þeirra, sem búnir eru með andvaraleysi og mistökum að klúðra málum og hafa enga burði til að greiða úr þeim.  Eftirmæli þessa borgarstjóra Samfylkingarinnar verða ömurleg.

Þetta er ekki pólitískt tuð sjálfstæðismanna, ætlað til að koma höggi á Samfylkinguna.  Nei, þetta er dómur markaðarins.  Markaðurinn stingur ekki hausnum í sandinn, heldur greinir stöðuna af vandvirkni og kemst að þeirri niðurstöðu, að áhættan við að kaupa skuldabréf af borginni sé meiri en við flest önnur viðskipti hérlendis nú um stundir, og neitar að eiga í þessum viðskiptum, nema gegn niðurlægjandi háu áhættuálagi.  Þegar svona er komið, er orðið stutt í lokadóminn yfir starfsháttum Samfylkingarinnar og liðsodda hennar. Vilja menn þetta í landsmálin ? 

"Hinar hrollvekjandi staðreyndir málsins birtust með enn eindregnari hætti í bréfi, sem eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga sendi til borgarstjórnar í lok febrúar [2023] vegna fjárhagsáætlunar fyrir 2023, þar sem fram kom, að borgin uppfyllti ekki lágmarksviðmið fyrir A-hluta rekstrar hennar.  Þar skeikar miklu.

Fyrir sitt leyti er borgarstjóri enn í afneitun, en í viðtali við mbl.is sagði hann:

"Þetta er bara rútínubréf frá eftirlitsnefndinni."  

Þessi orð þarf borgarstjóri að skýra betur og án tafar.  Hafa Reykjavíkurborg borizt mörg slík bréf frá eftirlitsnefndinni ?"  

Sú tilhneiging borgarstjórans að slá bara hausnum við steininn, þegar hann stendur frammi fyrir krefjandi og jafnvel óþægilegum viðfanfsefnum, fer langt með að útskýra þær ógöngur, sem borgina hefur rekið í. Skútan er í raun stjórnlaus.  Þar er enginn "skipper", bara gúmmíkarl á launum hjá borgarbúum án þess að skila neinu, sem ætlast mætti til af honum. Það er stórhættulegt að hafa svona lyddur við stjórnvölinn, en þetta er eftirlæti Samfylkingarinnar. 

Engum dettur í hug, að fréttamaðurinn fyrrverandi af RÚV snúi stöðunni hratt við.  Það er þó hægt, eins og dæmið frá Árborg 2010 sýnir. Þar höfðu Samfylkingin o.fl vinstri spekingar gengið allt of hratt um gleðinnar dyr, farið óvarlega með fé, svo að sveitarfélagið var komið í klær téðrar eftirlitsnefndar.  Sjálfstæðisflokkurinn fékk þá hreinan meirihluta þar og viti menn; hann sneri stöðunni við á einu ári með sársaukafullum aðgerðum, sem voru þó nauðsynlegar.  

Aftur gerðist hið sama í Árborg.  Það er engu líkara en Samfylkingin megi ekki koma nálægt stjórnvelinum, og aftur hafa sjálfstæðismenn forgöngu um að koma lektunni á réttan kjöl. Þeir vita, að skilningur og heiðarleg upplýsingagjöf til íbúanna er grundvöllur úrbótanna, og þess vegna var haldinn íbúafundur í Árborg til að útskýra stöðuna.  Öðru vísi ferst leyndarhyggjuflokkinum Samfylkingunni í Reykjavík, eins og reifað var í téðri forystugrein Morgunblaðsins:

"Í bréfi eftirlitsnefndar kom fram, að fjalla þyrfti um það í borgarstjórn.  Þrátt fyrir að umræddir 2 mánuðir verði liðnir 28. apríl [2023], hefur efni þess ekki enn verið tekið á dagskrá borgarstjórnar, en hún kemur saman næsta þriðjudag [18. apríl 2023], svo [að] enn er von."

Það er ekki nóg með, að stefna Samfylkingarinnar leiði til glötunar, heldur eru vinnubrögðin afkáraleg og kolómöguleg.  Ekkert hefur í þessum efnum breytzt með tilkomu nýja formannsins beint úr bankanum.  Kristrún Frostadóttir, sem nú er í foreldraorlofi, virðist ekki hafa nægt bein í nefinu til að knýja Samfylkjarana til sómasamlegra vinnubragða.  Samfylkingarfólkið í borgarstjórn hefur lagt sig í framkróka við að fegra ömurlega fjárhagsstöðu og látið hjá líða í lengstu lög að gæta þeirrar lýðræðislegu skyldu sinnar að ræða fjárhagsstöðuna á hinum rétta opinbera vettvangi, sem er borgarstjórnin.  Þar með ljóstar Samfylkingin upp um sitt rétta eðli, sem er leyndarhyggja og hrossakaup á bak við luktar dyr.  Tal forsprakkanna um, að flokkurinn vilji hafa allt uppi á borðum og stjórna fyrir opnum tjöldum, er froðusnakk helbert.  Það er einkenni spilltra stjórnmálaflokka að reyna að telja kjósendum trú um, að flokkurinn standi fyrir einhver allt önnur gildi en reynslan sýnir, að eru í öndvegi þar.  Þannig er það líklega bara pólitískt "trix" hjá nýja formanninum að flíka ekki lengur trúaratriðinu um að halda áfram aðlögunarferlinu fyrir fulla aðild að Evrópusambandinu.  Samfylkingunni er ekki unnt að treysta fyrir horn.  

 

 

 

 


Þróun fjárfestinga í fiskeldi

Nöldrarar, sem allt hafa á hornum sér, en leggja lítið vitrænt til mála, hafa gagnrýnt norskt eignarhald á fyrirtækjum, sem stunda laxeldi í sjó hér við land. Staða þeirra mála er þó að því leyti sambærileg við orkukræfa málmframleiðslu landsins, að lífvænlegur stóratvinnurekstur á þessu sviði hefði aldrei orðið barn í brók án fjárfestinga erlendra þekkingarfyrirtækja á þessum sviðum atvinnurekstrar. Í tilviki laxeldisins urðu Norðmenn fyrir valinu í krafti umsvifa sinna við Norður-Atlantshafið, og af því að þeir voru þá þegar í útrás. (Minnir dálítið á landnám Íslands.) 

 Laxeldið er fjármagnsfrekt, og til að fjárfestingar nýtist, þarf framleiðsluþekkingu, sem reist er á vísindalegum rannsóknum og reynslu af rekstri eldiskera við fjölbreytilegar aðstæður.  Það þarf líka markaðsþekkingu, bæði fyrir aðföng og afurðir.  Þessa grunnþætti til árangurs skorti hérlendis, þegar Norðmenn hófu uppbyggingu sína hér, og síðast en ekki sízt skorti hér fjármagn, því að lánstraust innlendra aðila, sem fengizt höfðu við starfsemina, var ekki fyrir hendi hjá innlendum lánastofnunum. 

Gagnrýni á erlent eignarhald er þess vegna gagnrýni á uppbyggingu þessarar efnilegu starfsemi í heild sinni.  Af henni hefði alls ekki orðið án erlends eignarhalds.  Úrtöluraddirnar eru eins og venjulega á vinstri kanti stjórnmálanna, en þar liggja málpípur Evrópusambands aðildar Íslands á fleti fyrir, sbr umsókn ríkisstjórnar Samfylkingar og VG 2009.  Þarna er á ferðinni einhvers konar pólitískur geðklofi, þegar kemur að erlendum fjárfestingum.   

Í Morgunblaðinu 18. marz 2023 birtist afar greinargóð baksviðsfrétt Helga Bjarnasonar um þetta efni undir fyrirsögninni:

"Hlutur íslenzkra fjárfesta eykst".

Fréttin hófst þannig:

"Íslenzk sjávarútvegsfyrirtæki hafa verið að koma sterkt inn í laxeldi.  Með því eykst hlutur Íslendinga í vissum félögum verulega.  Með kaupum Ísfélags Vestmannaeyja á hlut í eignarhaldsfélagi um meirihlutaeign í Ice Fish Farm á Austfjörðum á félagið 16,44 % hlut í félaginu og íslenzkt eignarhald [þá] komið upp í um 42 %.  Síldarvinnslan á rúmlega þriðjung í Arctic Fish á Vestfjörðum.  Þá eiga íslenzk útgerðarfélög eða hafa átt að fullu vaxandi fiskeldisfyrirtæki eins og Háafell í Ísafjarðardjúpi og Samherja fiskeldi.  Íslenzkir lífeyrissjóðir, sérstaklega Gildi, hafa verið að fjárfesta í fiskeldi.

Rökrétt virðist, að sjávarútvegsfyrirtæki, sem búa við kvótaþak og ýmsar takmarkanir, og í ljósi þess, að ekki eru líkur á auknum veiðum, hugi að fjárfestingum í fiskeldi.  Nokkur ár eru síðan framleiðsla eldisfisks í heiminum varð meiri en veiðar skila á land og ljóst, að heimurinn hefur þörf fyrir aukna matvælaframleiðslu á næstu árum og áratugum. 

Sigurður Pétursson, stofnandi Lax-inn, fræðsluseturs í fiskeldi, telur það jákvætt fyrir íslenzkt fiskeldi að fá sjávarútvegsfyrirtæki og fleiri íslenzka fjárfesta í hluthafahópinn.  Það sé gott fyrir ímynd atvinnugreinarinnar, sem gagnrýnd hefur verið fyrir erlent eignarhald.  Það hafi ekki síður þýðingu, að sjávarútvegsfyrirtækin hafi þekkingu á og reynslu af fullvinnslu og sölu sjávarafurða, sem geti nýtzt fiskeldinu."

Ímynd fyrirtækja vegna eignarhalds verður varla í askana látin.  Meira virði eru samlegðaráhrifin, sem af þessum innlendu fjárfestingum hljótast.  Það er ekki hægt að hugsa sér eðlilegri íslenzka fjárfesta í laxeldinu, hvort sem er í sjó við Ísland eða á landi, en íslenzku sjávarútvegsfyrirtækin.  Það er t.d. vegna tækniþróunar þeirra á sviði fullnýtingar hráefnisins, tilreiðslu og pökkun og markaðssetningar.  Það er líklegt, að einhverjir viðskiptavina þeirra vilji líka kaupa íslenzkan eldislax.  Að geta boðið hann styrkir markaðsstöðu íslenzku sjávarútvegsfyrirtækjanna í Evrópu, Bandaríkjunum og víðar.  Þessi samlegðaráhrif munu styrkja íslenzkan þjóðarbúskap, því að framleiðnin getur vaxið og afurðaverð jafnvel hækkað fyrir vikið. 

"Aðild stórs framleiðanda fiskimjöls og lýsis að fiskeldisfyrirtæki, sem notar mikið fóður, er einnig rökrétt skref í þróun sjávarútvegsfyrirtækjanna.  Megnið af fóðrinu, sem notað er í sjóeldi hér á landi, er framleitt í Noregi, m.a. úr hráefni frá íslenzkum framleiðendum. Það hlýtur að vera skynsamlegra út frá umhverfissjónarmiðum og hagkvæmara að framleiða fóðrið hér á landi.  Síldarvinnslan á meirihlutann í stærstu fóðurverksmiðju landsins, Laxá á Akureyri, og tilkynnti á síðasta ári, að fyrirtækið og fóðurframleiðandinn BioMar Group hefðu skrifað undir viljayfirlýsingu um að byggja fóðurverksmiðju hér á landi." 

Fjárfestingar íslenzkra sjávarútvegsfyrirtækja í fiskeldisfyrirtækjum hérlendis opna möguleika á innlendri samþættingu allrar framleiðslukeðju fiskeldisins.  Það er verðugt stefnumið að samþætta framleiðslukeðju laxeldisins innlendum iðnaði, og það ætti vissulega að verða þekkingargrundvöllur í landinu til þess, því að aðgangur að framleiðslutækni og framleiðsluleyfum batnar til muna við tengt eignarhald. Samkeppnisgrundvöllurinn ætti og að vera fyrir hendi vegna mun minni flutningsþarfar innlendrar framleiðslu.

Aðeins rafkynt framleiðsla þessa mjöls kemur til greina, og þar rekst iðnaðurinn enn og aftur á þá nöturlegu staðreynd í landi náttúrulegrar og endurnýjanlegrar orkugnóttar, að raforku vantar fyrir nýja notendur. Engu er líkara en hin forpokaða og glórulausa skoðun Landverndar, að nóg sé komið af virkjunum og flutningslínum, af því að raforkunotkun á mann sé hér meiri en annars staðar, tröllríði húsum leyfisveitingavaldsins á Íslandi, svo að hér ríkir nú raunverulega "virkjanastopp".  Þetta er ömurlegt sjálfskaparvíti, þar sem hvorki Landsvirkjun né orkuráðherrann hafa uppi sjáanlega tilburði til lausnar. Sérvizka og beturvitablæti Landverndar o.fl. kostar samfélagið nú þegar tugi mrdISK/ár í beinum útgjöldum og glötuðum atvinnutækifærum.  Þetta er óviðunandi með öllu og ábyrgðarleysi af Alþingi og stjórnvöldum að láta þetta viðgangast.  

Þessari fróðlegu baksviðsgrein lauk þannig:

"Fyrirtækin, sem eru að byggja upp landeldisstöðvöðvar, eru í fjármögnunarferli og þess vegna óvíst um endanlegt eignarhald.  Samherji fiskeldi hefur verið hreint dótturfélag Samherja.  Það var gert að sjálfstæðu félagi vegna fjárfrekrar uppbyggingar á Reykjanesi og víðar. Í tengslum við mrdISK 3,5 hlutafjáraukningu var tilkynnt um, að Alf-Helge Aarskog, fyrrverandi forstjóri Mowi, hefði tekið þátt í hlutafjáraukningunni og verið kosinn í stjórn.  

Fjárfestingafélagið Stoðir er stærsti einstaki hluthafinn í Landeldi með um þriðjungs eignarhlut, en Landeldi er að byggja stóra stöð í Þorlákshöfn.  Stofnendur félagsins og starfsmenn eru enn með meirihluta hlutafjár á sínu valdi.  Virðast stjórnendur horfa meira til íslenzkra fjárfesta en erlendra.  Íslenzk og sænsk félög, sem tengjast Aðalsteini Gunnari Jóhannssyni, athafnamanni, eru eigendur að Geo Salmo, sem er að undirbúa landeldisstöð í Þorlákshöfn.  Félagið lítur til norskra fjárfesta og íslenzkra í þeirri vinnu við fjármögnun, sem nú stendur yfir, að því er fram hefur komið í Morgunblaðinu. 

Icelandic Land Farmed Salmon (ILFS), sem er að byggja landeldisstöð í Vestmannaeyjum, er í eigu fjölskyldu úr sjávarútvegi í Eyjum, sem ætlar að taka fyrstu skrefin í verkefninu, hvað svo sem síðar verður."

Það er ótrúlega mikill áhugi á meðal innlendra fjárfesta á landeldi laxins.  Það virðist samt vera á brattann að sækja með fé, enda vextir alls staðar óvenju háir, verkefnin fjármagnsfrek, rekstrarkostnaður hár og lítil tæknileg reynsla af þessum rekstri. Óvissa um arðsemi er þess vegna fyrir hendi.  Markaðirnir munu hins vegar reynast gjöfulir.  Einkar athyglisvert er, að tekin er sú áhætta að reisa landeldisstöð í Vestmannaeyjum í ljósi mikillar raforkuþarfar og þarfar á hitaveituvatni.  Þessi starfsemi krefst mikils áreiðanleika í afhendingu hvors tveggja, en hörgull hefur verið á þessum gæðum í Vestmannaeyjum, sem þó stendur til bóta.  Raforkuafhending til þessarar starfsemi verður að lúta (n-1) reglunni, sem þýðir, að stærsta einingin má falla úr rekstri án þess afhending verði rofin, nema örstutt.

Það verður tæplega jafnarðsamur rekstur í landeldi og í sjóeldi, en viðskiptahugmyndin er virðingarverð og áhugaverð í ljósi próteinþarfar heimsins, einkum þar sem áreiðanlegur aðgangur er að rafmagni og heitu vatni.  Vindrafalaraforka kemur hér ekki til greina.     

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband