Færsluflokkur: Fjármál
21.1.2021 | 13:45
Afturhald í efnahagsmálum
Svo virðist sem tími stórra jafnaðarmannaflokka í Evrópu sé liðinn. Þá hefur dagað uppi. Þeir eiga ekkert stjórnmálalegt baráttuhlutverk í þjóðfélagi samtímans, hvað þá í framtíðinni, þar sem gamla baklandið þeirra er ekki nema svipur hjá sjón. Sósíalistaflokkur Frakklands er nánast horfinn. SPD-jafnaðarmannaflokkur Þýzkalands er hugmyndalega steingeldur og undir 20 % í skoðanakönnunum á landsvísu. Svipaða sögu er að segja frá Svíþjóð, og nú hefur hinn sögufrægi Verkamannaflokkur Noregs (Arbeiderpartiet) misst forystusæti sitt í skoðanakönnunum til Miðflokksins (Senterpartiet) og mælist líka undir 20 %. Flokksforystan gengur ekki í takti við verkalýðshreyfinguna, sem í Noregi fylgist vel með gangverki tímans og þróun atvinnulífsins með hag umbjóðenda sinna í fyrirrúmi, en hengir sig ekki í afdankaðar stjórnmálalegar kreddur stéttabaráttunnar. Í þessu sambandi heyrast nú frá Noregi háværar raddir um, að Bretar hafi náð betri kjörum með nýjum fríverzlunarsamningi við Evrópusambandið (ESB) en felist í viðskiptakjörum Norðmanna við ESB með samninginum um Evrópska efnahagssvæðið (EES). Norska verkalýðshreyfingin er afhuga aðild Noregs að ESB, og Verkamannaflokkurinn mun þá, ef að líkum lætur, eiga auðvelt með að söðla um í þeim efnum og ganga í eina sæng með Sp og SV að afloknum næstu kosningum. Þá verður einfaldlega enginn Orkupakki #4 samþykktur inn í EFTA-löndin og EES-samningurinn verður tekinn til endurskoðunar í heild sinni, og er það löngu tímabært.
Jafnaðarmannaflokkur Íslands (Samfylkingin) er steinrunninn stjórnmálaflokkur, og enn er aðalbaráttumál hans að gera Ísland að hluta þessa ríkjasambands, ESB, þótt það sé með þvílíkum böggum hildar eftir BREXIT, að kvarnast gæti enn meir úr því og myntbandalagi þess á nýbyrjuðum áratugi. Grunnstoðir þar á bæ eru ófullgerðar og standast ekki tímans tönn. Það er reyndar mjög Samfylkingarlegt.
Annað aðaláhugamál Samfylkingarinnar er að þenja ríkisbáknið sem mest út, stækka efnahagsreikning ríkisins enn meir og auka tekjur þess með aðgangsharðari skattheimtu; jafnaðarmenn bera í þessu viðfangi fyrir sig réttlæti og snúa þar með staðreyndum á haus, því að ekkert réttlæti getur verið fólgið í því að rífa fé af fólki, sem það hefur unnið sér inn með heiðarlegum hætti í sveita síns andlitis, sem er með margvíslegum hætti, í meiri mæli en þegar á sér stað á Íslandi, sem er með því mesta í OECD.
Vegna C-19 hefur fjárþörf ríkisins aukizt gríðarlega. Það er alveg öruggt mál, að fái "Reykjavíkurlíkanið" umráð yfir ríkissjóði Íslands í kjölfar komandi Alþingiskosninga, munu skella gríðarlegar skattahækkanir á almenningi, svo að sóknarbolmagn atvinnulífsins út úr C-19 kreppunni verður ekki nægt til að rífa hér upp hagvöxt á ný, sem er forsenda aukinnar atvinnusköpunar. Atvinnuleysið er nú þjóðarböl, meira en víðast hvar annars staðar í Evrópu, og meginviðfangsefni stjórnmálanna verður að skapa sjálfbærar forsendur atvinnusköpunar. Nú þegar er yfirbygging ríkisins of stór fyrir þetta litla þjóðfélag, svo að lausnir jafnaðarmanna eru engar lausnir í nútímanum, heldur snara í hengds manns húsi. Þess vegna fjarar undan þeim hvarvetna á Vesturlöndum um þessar mundir.
Hörður Ægisson ritaði forystugrein í Fréttablaðið 15. janúar 2021, þar sem á snöfurmannlegan hátt var hrakinn hræðsluáróður jafnaðarmanna gegn því að skrá Íslandsbanka nú í Kauphöll Íslands og bjóða fjórðung eignarhlutar ríkisins í honum til kaups. Þessi ágæta atlaga gegn afturhaldinu bar þá lýsandi yfirskrift:
"Dragbítar",
og hófst þannig:
"Sumir bregðast aldrei vitlausum málstað. Talsmenn Samfylkingarinnar, ásamt ýmsum fylgihnöttum þeirra í róttækari armi verkalýðshreyfingarinnar, leggja sig fram um að gera það tortyggilegt, að til standi að hefja sölu á hlut í Íslandsbanka með hlutafjárútboði og skráningu í Kauphöll.
Röksemdirnar, sem eru fátæklegar, hverfast um, að tímasetningin sé óheppileg og að ríkið fari árlega á mis við tugmilljarða arðgreiðslur með því að draga úr eignarhaldi. Ekkert er gert með þá staðreynd, að önnur evrópsk ríki hafa fyrir margt löngu talið réttast - jafnvel þótt eignarhlutur þeirra sé hverfandi í samanburði við íslenzka ríkið - að hefja þá vegferð að losa um eignarhluti sína í áhættusömum bankarekstri. Samfylkingin er á öðru máli og telur, að ríkið eigi áfram að vera með mrdISK 400 bundna í tveimur bönkum."
Nú hefur Alþýðusamband Íslands (ASÍ) stigið það einkennilega skref í stéttabaráttu sinni að mótmæla áformum um að losa um bundið fé félagsmanna og annarra landsmanna í starfsemi, sem ríkisvald er illa fallið til að stunda. Sannast þar enn, að þar liggja nú dragbítar heilbrigðrar skynsemi á fleti fyrir, sem alls ekki kunna að verja hagsmuni umbjóðenda sinna.
Bankasýsla ríkisins, sem stofnsett var fyrir um 12 árum, hefur það hlutverk m.a. að ráðleggja ríkisstjórninni um ráðlegan eignarhlut ríkisins í bönkum landsins. Hún mun nú hafa ráðlagt henni að selja fjórðungseignarhlut í Íslandsbanka, og er það í samræmi við Stjórnarsáttmálann. Fjórðungur af eiginfé bankans nemur nú tæplega mrdISK 50. Um fjórðungur eiginfjárins er umfram lögbundið lágmark, og þarf auðvitað að fá það á fullu verði við söluna, svo að söluandvirðið gæti orðið tæplega mrdISK 50, þegar tekið er mið af því, að hlutafé Arion-banka er nú í hæstu hæðum þrátt fyrir áföll, sem hann varð nýlega fyrir í útlánastarfsemi sinni. Arðsemi undanfarinna ára hjá bönkunum er auðvitað engin viðmiðun, þar sem um einskiptiseignamyndun var að ræða í kjölfar fjármálakreppu.
Ef núverandi tími er ekki góður tími til að hefja söluferli bankans, er með öllu óljóst, hvenær ætti að draga úr gríðarlegri og óeðlilegri eignarhlutdeild ríkisins í bönkum landsins. Hlutafjárútboð Icelandair tókst vel í haust og hlutabréf stíga almennt í verði núna, eins og þau gera venjulega á lágvaxtaskeiðum fjármagns. Það vantar nýja kosti á markaðinn og styrkur er að nýju skrásettu fyrirtæki í Kauphöll Íslands fyrir hlutabréfamarkaðinn. Síðast en ekki sízt er rétt, að öðru jöfnu, að innleysa þetta "sparifé" ríkisins núna, þegar fjárþörfin er brýn, því að auðvitað munu vextir hækka aftur.
Þeir, sem ekki vilja innleysa "sparifé ríkisins" nú, ætla sér sennilega að hækka skatta á almenning og atvinnulíf til að fjármagna Kófið. Það er mjög skammsýn ráðstöfun, því að hún hægir á efnahagsbatanum, lengir óviðunandi atvinnuleysi enn þá meir, og ástandið verður vítahringur. Þetta er segin saga með hugmyndafræði jafnaðarmanna. Hún virkar, eins og að míga í skóinn sinn í frosti, en veldur gríðartjóni til lengdar, enda sjónarsviðið þröngt. Allir verða fátækari, ef jafnaðarmenn komast í aðstöðu til að gera þjóðfélagstilraunirnar, sem þá dreymir um.
Áfram með Hörð Ægisson:
"Bankakerfið í dag á ekkert sameiginlegt með því, sem féll 2008. Stundum mætti samt halda annað, ef marka má þá, sem láta eins og ekkert hafi breytzt á tveimur áratugum. Þannig sá efnahagsráðgjafi VR ástæðu til þess í vikunni að láta að því liggja, að hættan nú væri á, að bankinn kæmist í hendur aðþrengdra stórra fjárfesta, sem þyrftu á aukinni lánafyrirgreiðslu að halda, eins og gerzt hefði í aðdraganda bankahrunsins. Þessi málflutningur, komandi frá fyrrverandi stjórnarmanni í Arion til margra ára, stenzt enga skoðun, enda hefur allt regluverk um virka eigendur - þeir, sem fara með 10 % eða meira - og hvað þeir mega eiga í miklum viðskiptum við banka, verið hert til muna. Það er því ekki eftirsótt fyrir fyrirtækjasamstæður og efnameiri fjárfesta að vera stór eigandi, af því að það hamlar viðskiptaumsvifum þeirra."
Guðrún Johnsen er og var efnahagsráðgjafi VR og í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, þegar verkalýðsfélagið beitti sér gegn kaupum Lífeyrissjóðs verzlunarmanna á hlutabréfum í Icelandair í fyrrahaust. Hún hefur væntanlega með ráðgjöf sinni og afstöðu valdið þessum lífeyrissjóði tjóni. Ráðgjöf hennar á fjármálasviðinu hefur gefizt afleitlega, eins og Stefán E. Stefánsson rakti í skoðunargrein í Viðskipta Mogganum 20.01.2021:
"Vargur í véum".
Téður efnahagsráðgjafi titlar sig lektor við Kaupmannahafnarháskóla og vitnar gjarna í rannsóknir sínar þar, en aðrir virðast ekki hafa hug á að vitna í þessar rannsóknir, enda virðist lektorinn vera blindaður í baksýnisspeglinum. SES rifjaði upp skuggalegan feril lektorsins:
"Sá er reyndar víðkunnur fyrir fyrri störf. Nýtti m.a. aðstöðu sína vel sem starfsmaður rannsóknarnefndar Alþingis um fall bankanna, ritaði bók um efnið og fór sem eldibrandur um heiminn og rægði íslenzkt stjórnkerfi og samfélag. Sú vegferð var launuð með stjórnarsæti í Arion banka, þar sem lektorinn sat keikur í lánanefnd. Þar var talið forsvaranlegt að lána WOW milljarða króna, og peningarnir runnu í stríðum straumum í svikamylluna svakalegu í Helguvík. Eitt af síðustu embættisverkum núverandi starfsmanns stærsta stéttarfélags landsins var að samþykkja MISK 150 starfslokasamning við fráfarandi bankastjóra. Þetta er sannarlega langur afrekalisti og leitt, að samtök viðskiptablaðamanna skuli ekki velja mann ársins, eins og kollegarnir á íþróttadeildinni. Þyrfti þá ekki að taka til greina afrekalista lektorsins á vettvangi HR og HÍ."
Formaður VR opnar varla ginið án þess að saka einhverja aðila í þjóðfélaginu um samsæri gegn hagsmunum almennings og spillingu. Þess vegna vekur ráðning þessa lektors til ráðgjafar hjá VR furðu. Hvað skyldi það hafa verið á ferli lektorsins, sem talið var geta orðið félagsmönnum VR að gagni ? Hvað sem því líður, virðist ráðgjöf þessa lektors á sviði fjármála og fjárfestinga einfaldlega ekki vera 5 aura virði.
Lektorinn hefur blásið sig út með hræðsluáróðri um vafasama pappíra, sem muni sitja á svikráðum við Íslandsbanka og aðra eigendur hans eftir að hafa klófest hlutafé í honum. Þetta heitir að kasta steinum úr glerhúsi eftir að hafa átt þátt í að lána til fjárglæfrafélagsins United Silicon og WOW-air á brauðfótum og valda þannig íslenzku viðskiptalífi tjóni. Lektorinn mun vafalaust beita sér fyrir áframhaldandi hjásetu Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, þegar aðrir lífeyrissjóðir munu grípa tækifærið og fjárfesta í banka, sem mun láta að sér kveða í samkeppninni á íslenzka fjármálamarkaðinum, almenningi til hagsbóta.
Skoðunargrein SES lauk með eftirfarandi hætti, og þarf ei um að binda eftir það:
"Allt er þetta þó sagnfræði, sem litlu skiptir. Meira máli skiptir, að stjórnarmaður í stærsta lífeyrissjóði landsins skuli blanda sér í málið með þeim hætti, sem gat að líta í liðinni viku. Væntanlega getur fjármálaráðherrann og Bankasýslan gengið út frá því, að sjóðurinn sitji hjá, þegar útboð í Íslandsbanka fer fram síðar á árinu. Hætt er við, að sú hjáseta muni kosta sjóðfélaga milljarða, rétt eins og dómadagsdellan í tengslum við flugfélagið."
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.12.2020 | 21:18
Beinar erlendar fjárfestingar eru nauðsyn
Það hefur lengi verið alið á ótta hérlendis í garð þeirra útlendinga, sem vilja fjárfesta í íslenzku atvinnulífi. Samt er þar iðulega um að ræða brautryðjendastarfsemi hérlendis, sem færir nýja þekkingu inn í landið og ný störf, sem ekki hefur veitt af á tímum atvinnuleysis. Ný áhættulítil verðmætasköpun fyrir landsmenn í erlendum gjaldeyri á sér stað. Viðkvæðið er, að "gróðinn verði fluttur úr landi". Þá gleymist, að fjármagn kostar, og fyrir hérlandsmenn er mun áhættusamara að standa í öllu sjálfir, taka þess vegna tiltölulega dýr lán erlendis, kaupa nýja þekkingu, sem sumpart er illfáanleg, og síðast en ekki sízt að berjast inn á nýja markaði með viðeigandi undirboðum og aukakostnaði.
Beinar erlendar fjárfestingar eru í mörgum tilvikum eftirsóknarverðar, en þurfa ekki að vera það í öllum tilvikum. Af sögulegum ástæðum komst Alþingi að þeirri niðurstöðu, að beinar erlendar fjárfestingar í íslenzkum sjávarútvegi væru óæskilegar og setti þeim þröngar skorður. Þróunin hefur sýnt, að þetta var rétt stefnumörkun. Þessi auðlindanýting hefur staðið undir hraðri og metnaðarfullri tækniþróun, þannig að íslenzkur sjávarútvegur stendur öðrum á sporði, og sömu söguna er að segja af veiðiskipulagningu, vinnslu og markaðssetningu. Órofin keðja frá veiðum til markaðar, aðallega erlends markaðar, ásamt nærliggjandi gjöfulum miðum, gefur íslenzkum sjávarútvegi það markaðslega forskot, sem þarf til, ásamt öðru, að standa undir samkeppnishæfum lífskjörum hérlendis.
Dæmi um vel heppnaða stefnumörkun á sviði beinna erlendra fjárfestinga er sú stefnumörkun Viðreisnarstjórnarinnar undir forystu dr Bjarna Benediktssonar að skapa innviði hérlendis til stórsölu ríkisins á raforku til erlendra fjárfesta á sviði málmframleiðslu, aðallega álvinnslu. Sú hugmynd rættist, að með þessu móti yrði hluti af orkulindum landsins virkjaður og flutningskerfi og dreifikerfi reist til að afla almenningi ódýrrar raforku með þokkalegu afhendingaröryggi. Kröfur um hið síðar nefnda aukast eðlilega stöðugt eftir því sem tjón af straumleysi eykst.
Með stóriðjunni fluttist margvísleg þekking til landsins á sviði tækni og stjórnunar, t.d. gæða- og öryggisstjórnunar, og alls konar þjónusta spratt upp við þessa nýju framleiðendur í landinu. Landsmenn hefðu ekki haft bolmagn í þessa uppbyggingu sjálfir, enda er þetta sama leiðin og Norðmenn fóru rúmri hálfri öld fyrr við iðnvæðinguna þar í landi.
Vaxtarbroddur erlendrar fjárfestingar á Íslandi um þessar mundir er í laxeldinu, þar sem Norðmenn miðla af beztu fáanlegu þekkingu á sviði sjókvíaeldis með frábærum árangri að því, er bezt verður séð. Engu að síður kom fram í Morgunblaðsfrétt Stefáns E. Stefánssonar 2. desember 2020, að "[á] tímabilinu 2018 - 2020 minnkaði bein erlend fjárfesting á Íslandi um mrdISK 180." Þessi staðreynd er ávísun á daufara atvinnulíf í nánustu framtíð, minni hagvöxt og þar af leiðandi jafnvel lífskjaraskerðingu þjóðar, sem fjölgar tiltölulega mikið.
Við athugun OECD (Efnahags- og framfarastofnunarinnar) hefur komið í ljós, að hérlendis eru tæplega þrefalt meiri (þungvægari) hömlur á beinar erlendar fjárfestingar en að meðaltali innan OECD, tæplega tvöfalt meiri en í EFTA/EES-landinu Noregi og rúmlega tvöfalt meiri en í EFTA-landinu Sviss. Ísland sker sig algerlega úr öðrum EES-löndum, hvað þetta varðar. Á mælikvarðann 0-100 hjá OECD hafa hömlur Hollendinga ekkert vægi, 0, en hömlur Íslendinga 17. Hvers vegna er þetta svona ?
Frétt Stefáns,
"Örva þarf erlenda fjárfestingu",
hófst þannig:
""Til þess að auka erlenda fjárfestingu á Íslandi þarf að auka tiltrú og traust á fjárfestingarkostinum Íslandi". Þetta segir Konráð S. Guðjónsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, en ráðið hefur nú tekið saman tillögur í 7 liðum, sem ætlað er að ýta undir erlenda fjárfestingu hér á landi. Bendir það á, að það sé ekki aðeins nauðsynlegt til þess að halda uppi lífsgæðum hér á landi, heldur einnig til þess að tryggja getu lífeyrissjóða til þess að auka fjárfestingar utan landsteinanna. Án erlendrar fjárfestingar til mótvægis við útflæði fjármagns sjóðanna skapist þrýstingur til lækkunar gengis krónunnar, sem aftur leiði til verðbólgu og óstöðugleika."
Allt er þetta satt og rétt, og skortur á "tiltrú og trausti" var t.d. talsverður þröskuldur í upphaflegum samningaviðræðum á vegum Viðreisnarstjórnarinnar við erlenda fjárfesta um stóriðju og við Alþjóðabankann um fjármögnun Búrfellsvirkjunar og tengdra mannvirkja. Þessi skortur var vegna reynsluleysis Íslendinga á þessum sviðum þá, en Íslendingar áunnu sér fljótlega traust og tiltrú með verkum sínum, sem aftur leiddi til meiri orkusölu og hærra verðs fyrir raforkuna.
Það er ekki vel til þess fallið að auka tiltrú og traust erlendra fjárfesta til Íslands sem fjárfestingarkosts, þegar í kjölfar frétta af kaupum í félagi við Íslendinga á Hjörleifshöfða og sandnámum þar til atvinnurekstrar taka að heyrast úrtöluraddir um jarðasölu til útlendinga, sem ríkisvaldið ætti að girða fyrir með því að ganga inn í kaupin. Þar með mundi hvati til framkvæmda og verðmætasköpunar þar verða úr sögunni, svo að þetta er dæmi um of dýrkeypta varfærni.
Orkunýting í stórum stíl á Íslandi hefur ætíð verið nátengd beinum erlendum fjárfestingum. Landsmenn standa nú frammi fyrir dýpstu efnahagskreppu í heila öld, og sem liður í að koma af stað góðum hagvexti á ný er fullkomlega eðlilegt að reyna að örva erlendar fjárfestingar. Það verður enn og aftur unnt að gera í tengslum við orkunýtinguna; í þetta skipti með því að færa verðið fyrir orkuna niður í samkeppnishæft verð m.v. önnur ríki í EES, ekki sízt Noreg með framleiðslugetu um 1,5 Mt Al/ár. Norðmenn vinna úr 0,3-0,4 Mt Al/ár, t.d. hjólfelgur, og flytja þess vegna meira en 1,0 Mt Al/ár sem hálfunna vöru, eins og Íslendingar, hverra framleiðslugeta er um 0,9 Mt Al/ár.
Þórður Gunnarsson hefur birt fróðlegar greinar í Markaði Fréttablaðsins um orkumál og stóriðju. Þann 2. desember 2020 hélt hann uppteknum hætti með greininni:
"Stóriðjan njóti sömu kjara og í Noregi".
Hún hófst þannig:
"Landsvirkjun hefur komið því á framfæri við atvinnuvegaráðuneytið, að tryggja verði getu íslenzka ríkisins til að styðja við orkufrekan iðnað með sama hætti hér á landi og gert er í Noregi, svo að tryggja megi samkeppnishæfni stóriðju á Íslandi. Norskir álframleiðendur munu á þessu og næsta ári fá sem nemur á bilinu 10-12 USD/MWh til niðurgreiðslu á kostnaði vegna kolefnislosunar frá norska ríkinu á næsta ári, en norska Stórþingið hefur málið nú til meðferðar. Engar líkur eru á öðru en málið fái samþykki þingsins, enda um að ræða framlengingu á fyrirkomulagi, sem þegar er í gildi. Samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) liggur þó ekki enn fyrir. Endurgreiðslur vegna kostnaðar, sem tengist kolefnislosun (ETS-einingum) hafa tíðkazt í Noregi allt frá árinu 2013, en hækkandi verð á ETS-einingum frá árinu 2018 hefur aukið getu norskra stjórnvalda til að styðja við orkufrekan iðnað í Noregi."
Tómlæti iðnaðarráðuneytisins íslenzka undir stjórn núverandi ferða-, nýsköpunar- og iðnaðarráðherra er við brugðið, en kólfunum kastar, þegar svefnhöfginn er svo djúpur, að Landsvirkjun sér sig knúna til að benda ráðuneytinu á, hvernig Norðmenn styrkja samkeppnisstöðu síns orkukræfa iðnaðar. Niðurgreiðslan er ekkert smáræði eða svipuð og Rio Tinto fer fram á við Landsvirkjun, að orkuverðið til ISAL verði lækkað vegna taprekstrar í slæmu árferði. 11 USD/MWh niðurgreiðsla norska ríkissjóðsins til álveranna í Noregi er ekkert smáræði og er í raun ferföld á við það, sem tæknilega vel rekið álver á borð við íslenzku álverin borgar fyrir ETS-kolefniskvóta, ef hann kostar 25 USD/t CO2. Norska ríkið er í raun að viðurkenna, að orkuverðið í Noregi sé 9 USD/MWh of hátt vegna tengingar Noregs við eldsneytisknúin raforkukerfi Evrópu. Það er löngu kominn tími til, að íslenzki iðnaðarráðherrann rumski og að hún og fjármála- og efnahagsráðherra hlutist til um lækkun óeðlilega hárrar ávöxtunarkröfu ríkisins á hendur Landsvirkjun.
Svo virðist sem 25 % tollur ESB á ál frá löndum með mikla losun koltvíildis samfara álframleiðslu (frá raforkuvinnslu og rafgreiningu) hafi slegið á framboð áls frá Kína inn á Innri markaðinn, því að álverðið hefur hækkað um 40 % frá lágmarkinu í Kófinu (komið yfir 2000 USD/t). Þetta hefur valdið því, að álfyrirtækin eru að auka framleiðslu sína. Dæmi um það er endurræsing annars kerskálans í verksmiðju Norsk Hydro á Husnes í Vestur-Noregi, sem er systurverksmiðja ISAL í Straumsvík frá dögum Alusuisse, sem reisti báðar verksmiðjurnar 1965-1972. ISAL aftur á móti eykur ekki framleiðslu sína fyrr en raforkusamningurinn hefur verið endurnýjaður. Það er óþolandi, að ríkisfyrirtækið Landsvirkjun skuli enn draga lappirnar, þegar hagkerfi landsins ríður á, að öll framleiðslugetan sé fullnýtt, ef markaðirnir leyfa.
Þann 25. nóvember 2020 birtist frétt efst og með fyrirsögn þvert yfir forsíðu Morgunblaðsins:
"Þokast í átt að samkomulagi".
Var þar átt við samningaviðræður á milli Rio Tinto/ISAL og Landsvirkjunar um endurskoðun raforkusamnings þeirra. Lyktir þessara samningaviðræðna hafa dregizt á langinn, og er það ljóður á ráði ríkisfyrirtækisins og ríkisstjórnarinnar að hafa ekki tryggt farsæla lausn á þessu deilumáli í Kófinu, svo að ISAL geti með öflugum hætti lagt hönd á plóg við endurreisn hagkerfisins úr Kófinu í líkingu við hið öfluga fjárfestingarátak eiganda ISAL í kjölfar kerfishrunsins 2008. Ef allt fer á versta veg, mun lokun ISAL hins vegar magna atvinnuleysi og efnahagskreppu. Það er eðlilegt, að Morgunblaðið láti sér annt um þetta mál, sem varðar þjóðarhag. Fréttin á forsíðunni hófst þannig:
"Nokkur gangur hefur verið í viðræðum milli Landsvirkjunar og Rio Tinto varðandi endurskoðun þess raforkuverðs, sem síðar nefnda fyrirtækið greiðir í tengslum við framleiðslu sína í Straumsvík. Eru vonir bundnar við, að samkomulag um verulega lækkun orkuverðsins náist fyrir áramót, og herma heimildir Morgunblaðsins, að raforkuverðið til verksmiðjunnar kunni að lækka um 30 % í kjölfar endurskoðunarinnar. Hafa forsvarsmenn Rio Tinto verið skýrir um það, að verksmiðjunni verði lokað, ef raforkusamningurinn verður ekki endurskoðaður hið fyrsta."
Það er einkennilegt og gæti borið vitni um forystuleysi, sem oft leiðir til eitraðs andrúmslofts, að ekki skuli hafa verið gefin út opinber yfirlýsing um það, sem hér er á seyði. Það er búið að draga stjórn og forstjóra Landsvirkjunar "að samningaborðinu" (fjarfundir, bréf og skeyti), því að framtíð Straumsvíkurverksmiðjunnar, örlög Hafnarfjarðar og afkoma fjölda fólks innan og utan verksmiðjulóðarinnar, er í húfi. Efnahagsleg endurreisn eftir Kófið verður miklu torsóttari án öflugrar viðspyrnu alls iðnaðarins.
Á sama tíma og þessu vindur fram, undirbýr flutningsfyrirtækið Landsnet hækkun á gjaldskrá, sem er þegar of há m.v. raunverulegar þarfir fyrirtækisins. Þórður Gunnarsson gerði ágæta grein fyrir þessu í Markaði Fréttablaðsins 25. nóvember 2020. Grein hans hófst þannig:
"Landsnet hefur tilkynnt stórnotendum flutningskerfis raforku á Íslandi, að f.o.m. janúar n.k. muni gjaldskrá fyrirtækisins hækka um 5,5 %. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðarráðherra, segir, að ráðgert sé að leggja fram breytingar á raforkulögum á komandi vorþingi, þar sem byggt verður á yfirstandandi greiningarvinnu [Deloitte], sem snýr að tekjumörkum Landsnets."
Eins og fyrri daginn er þessi ráðherra á seinni skipunum með sín mál. Hún er það, sem Englendingar kalla "reactive", en manneskja í hennar stöðu þarf að vera "proactive". Hún hlýtur að hafa vitað fyrir löngu, ef hún hefur ekki verið steinsofandi á vaktinni, að hjá Landsneti er borð fyrir báru, og það hefði getað liðkað fyrir samningum í Straumsvík og á Grundartanga að lækka flutningsgjaldið.
Það var vel til fundið hjá Þórði að leita í smíðju hjá SI:
"Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins [SI], segir algerlega óskiljanlegt, að Landsnet ætli að hækka gjaldskrá sína í janúar. "Hækkunin leggst á öll heimili og fyrirtæki landsins, langt umfram almenna hækkun verðlags á Íslandi, og tímasetningin er með ólíkindum. Í fyrsta lagi vegna þess, sem sýnt hefur verið fram á, að arðsemi fyrirtækisins er langt umfram það, sem ætla má hjá fyrirtæki með lögbundnum tekjumörkum. Í öðru lagi vegna þess, að nýútkomin skýrsla Fraunhofer um íslenzka raforkumarkaðinn sýndi með óyggjandi hætti, að flutningskostnaður raforku á Íslandi er allt of hár. Í þriðja lagi vegna þess, að iðnaðarráðherra hefur nýlega óskað eftir úttekt á fyrirkomulagi flutnings raforku á Íslandi m.t.t. kostnaðar notenda, sem er nú þegar mjög íþyngjandi. Ástæða þess er, að allir eru sammála um, að vandinn sé raunverulegur, en ekki er vitað, hvar hann liggur nákvæmlega. Það þarf að greina til hlítar og gera viðeigandi ráðstafanir.""
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.11.2020 | 12:09
Kófið og ríkissjóður
Nú ríður á að auka atvinnuna í landinu aftur. Með tvöfalda skimun fyrir alla komufarþega til landsins mun ferðageirinn ekki lifna við, eins og ríkisstjórnin þó reiknar með í fjármálaáætlun sinni. Nýgengi smita er tiltölulega hátt á Íslandi þrátt fyrir þetta kverkatak á ferðaþjónustunni. Að herða bönn, lokanir og athafnatakmarkanir, þegar nýgengið fer lækkandi, er illa ígrunduð ráðstöfun, sem tekur ekkert tillit til fórnarkostnaðarins. Þegar nýgengið tekur að lækka í þeim löndum, hvaðan ferðamenn mega koma hingað, ætti að láta einfalda skimun fyrir aðra en íbúa hérlendis duga.
Alvarleg staða er hjá mörgum fyrirtækjum í þjónustugeirum og fiskvinnslu út af Kófinu, og ætti ríkissjóður að beita sér fyrir sjóðsstofnun, sem fjárfesti í lífvænlegum fyrirtækjum á þessum sviðum, og e.t.v. öðrum,í því augnamiði að koma atvinnusköpun og verðmætasköpun í gang aftur, en taka fyrirtæki hins vegar af ríkisspenanum. Það verður þegar í stað að hægja á skuldasöfnun ríkissjóðs. Áhyggjur fjármálamarkaðarins út af endurgreiðslugetu ríkissjóðs eru þegar komnar fram í hækkun langtímavaxtaálags ríkisskuldabréfa. Þetta mun brátt smita yfir á almennan fjármálamarkað, draga enn úr fjárfestingum og keyra fleiri í þrot. Þessa vaxtaálags verður ekki vart enn á hinum Norðurlöndunum, svo að þetta er hættumerki hér.
Ríkisfyrirtækið Landsvirkjun verður að semja um verðlækkun á raforkunni, svo að fjárfestingar hefjist af alvöru aftur, t.d. í stóriðjunni. Norðurál er tilbúið að fara strax í mrdISK 10-20 fjárfestingu, og ISAL og Elkem Ísland hafa lengi haldið að sér höndum vegna þess, að raforkuverð til þeirra skapar ólífvænlega afkomu. Ekki kæmi á óvart, að þessi fyrirtæki mundu að fengnum viðunandi langtímasamningi um raforku fljótlega fara í um mrdISK 10 fjárfestingu alls, enda uppsöfnuð þörf mikil. Ef Landsvirkjun lækkar sitt orkuverð til almenningsveitnanna, mun það örva allt atvinnulífið. Orð og athafnir stjórnmálamanna um nauðsyn þess að koma hjólunum í gang verða að fara saman. Eitt öflugasta tæki þeirra er ríkisfyrirtækið Landsvirkjun. Ekki þarf að hafa áhyggjur af ESA, því að í Kófinu hefur ekki verið amazt við neyðarafskiptum ríkisvalds á raforkumarkaði EES.
Um daginn var athyglisverð frétt úr Reykjanesbæ um, að þreifingar væru á milli Samherja og Norðuráls um kaup þess fyrr nefnda á kerskálum í Helguvík til að setja þar upp landeldi fyrir fisk. Slíkt þarf talsvert rafmagn og mikið vatn, hitaveituvatn og ferskvatn, ásamt hafnaraðstöðu. Það mundi verða stórkostleg lyftistöng fyrir bágborið atvinnuástand á Suðurnesjum, ef slíkar framkvæmdir færu af stað í Helguvík, og þetta gæti orðið brautryðjandi framkvæmd á sínu sviði. Ef ríkisvaldið getur eitthvað liðkað til fyrir þessum samningum, ætti það ekki að hika við það vegna neyðarástands, sem nú ríkir í atvinnumálum Suðurnesjamanna. Þótt Kófið leiki laxaframleiðendur grátt um þessar mundir, er hér um að ræða skilvirka próteinframleiðslu með lítið kolefnisspor og þar af leiðandi bjartar framtíðarhorfur.
Nú er framleiðslugeta fiskeldis á og við Ísland um 30 kt/ár. Með áhættugreiningum hefur Hafrannsóknarstofnun sett ramma um leyfisveitingar upp á um 100 kt/ár. Líklega mun burðarþolsmat leyfilegra fiskeldisfjarða við Ísland, þegar það hefur verið gert, nema um 200 kt/ár. Síðan mun taka við úthfseldi, eins og Norðmenn eru að feta sig áfram með núna í risalaxeldiskvíum. Nú þarf að flýta leyfisveitingum án flausturs til að flýta þróuninni hérlendis og til að skapa enn meiri vinnu og verðmæti á þessu sviði, sem gríðarleg þörf er á.
Hörður Ægisson hefur ritað mjög áhugaverðar forystugreinar í Fréttablaðið í Kófinu. Þann 23. október 2020 braut hann enn blað og ritaði þungvæg aðvörunarorð um skuldasöfnun ríkissjóð, sem reynast mun landsmönnum fjötur um fót á næstu árum vegna þungrar vaxtabyrði. Í þetta sinn mun ekki koma neinn björgunarpakki úr þrotabúum fallinna banka, heldur verða launamenn og atvinnurekstur í landinu að axla byrðarnar af þeirri óábyrgu skuldasöfnun, sem nú á sér stað. Varðhundar sósíalisma og útþenslu ríkisbáknsins blása á aðvörunarorð Viðskiptaráðs og beita í því sambandi útþvældum orðaleppum á borð við "nýfrjálshyggju", en þeir munu skríða ofan í holur sínar, þegar að skuldadögunum kemur.
Téð forystugrein bar fyrirsögnina:
"Ábyrgðarleysi":
"Þingmaður VG [Kolbeinn Proppé] afgreiddi þannig í vikunni nýútgefið rit Viðskiptaráðs, þar sem settar eru fram hófsamar tillögur um, hvernig megi forgangsraða í ríkisfjármálum til stuðnings verðmætasköpun og nýta fjármagn hins opinbera betur, sem "úrelta hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar [...] frá því fyrir hrun". Ekki er að sjá, að margir hafi áhyggjur af því, hvaða áhrif þúsund milljarða skuldsetning ríkissjóðs á komandi árum, sem þarf að fjármagna með lántökum á markaði, kunni að hafa á hagvaxtarhorfur og vaxtabyrði skattgreiðenda."
Hættan er sú, að ríkissjóður lendi í vítahring, sem endað getur með ósköpum. Til að stöðva skuldasöfnun og standa undir greiðslubyrðinni muni þurfa að skera niður útgjöld/fjárfestingar ríkissjóðs og hækka skatta, sem aftur dregur úr hagvexti. Þessi neikvæða þróun mun framkalla verra lánshæfismat, sem gerir lán ríkissjóðs enn dýrari. "Stagflation" eða stöðnun og verðbólga mun þá keyra lífskjörin niður í svaðið. Slíkar eru afleiðingar óábyrgrar fjármálastjórnar ríkisins. "There is no free lunch in this world." Það er enginn ókeypis hádegisverður til eða "Æ sér gjöf til gjalda". Vinstri sósíalistar hafa enn ekki skilið það. Þeim eru hins vegar hugleiknar "úreltar hagfræðikenningar", því að þeir eru pikkfastir í gjaldþrota hugmyndafræði Karls Marx.
Forystugreininni lauk Hörður Ægisson þannig:
"Þróunin á skuldabréfamarkaði ætti að vera flestum tilefni til að staldra við. Áhyggjur af því, hvernig fjármagna eigi gríðarlegan hallarekstur ríkissjóðs og sveitarfélaga, ásamt þrýstingi stjórnmálaafla á enn meiri útgjöld án þess, að nokkur ráðdeild komi á móti, hefur valdið því, að langtímavextir á markaði - grunnur fyrir vaxtakjör heimila og fyrirtækja - hafa snarhækkað á örfáum vikum og eru komnir á sama stað og í janúar [2020].
Sú þróun er grafalvarleg og skýtur skökku við, enda hafa stýrivextir Seðlabankans á sama tíma lækkað úr 3 % í 1 %. Árlegur vaxtakostnaður ríkisins m.v. núverandi fjárlagafrumvarp stefnir af þeim sökum í að verða yfir 2 % af landsframleiðslu, eða um mrdISK 60, sem er á pari við Grikkland. Það er óásættanlegt, og við því þurfa stjórnvöld að bregðast."
Það er allt á huldu um framtíðar tekjur atvinnuveganna og þar af leiðandi um einkaneyzlu og opinberar fjárfestingar. Spár um efnahagslegan viðsnúning á næsta ári eftir e.t.v. 6 % samdrátt landsframleiðslu á þessu ári, eru óraunhæfar. Hagvöxtur á mann verður sáralítill, ef veiruófétinu leyfist áfram að drepa hér allt í dróma. Þá er komin hér uppskrift að grísku ógæfunni, sligandi opinberar skuldir og hagkerfi með sáralitlum fjárfestingum, sem hjakkar í sama farinu. Verður einhver stjórnmálaflokkanna fær um að veita leiðsögn út úr þessari blöndu ytra áfalls og sjálfskaparvítis ? Það mun koma í ljós í komandi kosningabaráttu fyrir Alþingiskosningar.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.10.2020 | 13:37
Atvinnuleysi kostar mannslíf
Það hefur verið sýnt fram á það með ítarlegum tölfræðilegum rannsóknum, bæði austan hafs og vestan, að marktæk aukning verður á fjölda dauðsfalla í kjölfar efnahagssamdráttar, sem leiðir til atvinnumissis margra og fækkunar nýráðninga. Áhrifin á dánartölur koma fram næstu árin á eftir uppsagnahrinum, og er dauðdaginn af völdum alvarlegra sjúkdóma, andlegs og líkamlegs eðlis.
Núverandi efnahagskreppa er af völdum sóttvarnaraðgerða yfirvalda um heim allan. Morgunblaðið er farið að efast um þá stefnu að reyna að fækka smitum sem mest í þeirri von, að bóluefni gegn SARS-CoV-2-veirunni sé á næstu grösum. Forystugrein blaðsins í dag, 09.10.2020, ber vott um þetta. Núverandi bælingarstefna skilar okkur í sömu sporum gagnvart veirunni, en sýnu nær fátæktarmörkum. Hún gengur engan veginn upp. Um valkosti er þó ekki á vísan að róa. Skynsamlegast er að móta sóttvarnarstefnu, sem er reist á því, að "öruggt" bóluefni verði ekki í hendi á næsta ári og jafnvel ekki fyrr en árið 2023. Þá þarf að spila sóttvarnir samkvæmt álagi hverju sinni á heilbrigðiskerfið. Þar er lítið borð fyrir báru vegna skorts á viðeigandi húsnæði. E.t.v. mætti bæta úr skák með því að virkja aðstöðu einkageirans, en þar sem heilbrigðisráðherra hefur horn í síðu hans, er það sennilega "tabú". Nú eru á sjúkrahúsi 2,6 % C-19 sjúklinganna eða 24 og í gjörgæzlu 0,33 % sjúklinganna eða 3. Óljóst er, hversu marga sjúklinga sjúkrahúsin ráða við, e.t.v. aðeins tvöfaldan núverandi fjölda, en þyrftu að ráða við tífaldan fjölda, og sæti þá óvenju margt á hakanum. Það er nauðsynlegt að auka athafnafrelsi í samfélaginu og þar með tekjuöflun um leið og horfið er frá bælingarstefnunni. Ekkert lát verður á núverandi ófremdarástandi fyrr en vísir að hjarðónæmi er kominn upp í samfélaginu. Viðkvæma hópa ber að vernda, eins og kostur er.
Morgunblaðið var mjög hógvært í gagnrýni sinni á íslenzku sóttvarnarstefnuna í forystugrein sinni 24. september 2020, en efasemdir eru þó ljóslega uppi þar á bæ um árangur hennar:
"Margt tekizt vel, en erum við nær ?"
"Dansinn í kringum veiruna hefur nú staðið í 7 mánuði, og var því ekki spáð í upphafi. Og við höfum litið svo á, að sú staðreynd, að einungis rúmt prósent þjóðarinnar hafi tekið smit og mun færri dáið vegna þess en gerist í árlegum flensufaraldri, sé fagnaðarundur. En hitt blasir einnig við, að á 7 mánuðum hefur aðeins örlítið úrtak komið sér upp virku mótefni og þjóðin því nánast í sömu sporum og í byrjun fársins.
Varla verður lengur komizt hjá að taka alvarlega umræðu um það, hvort okkar stríðsáætlun hafi að öllu leyti gengið upp. Þótt ekki sé dregið í efa, að áætlunin sjálf hafi lukkazt, er spurningin enn opin um það, hvort hún hafi verið rétt og við því betur sett, eða hvort aðrar leiðir hefðu verið raunsærri, þegar til lengri tíma er horft.
Verði nú tekin önnur og dýpri umræða, þá ættu þeir, sem fara með ábyrgð í umboði almennings ekki að koma sér undan því að axla hana með svipuðum hætti og tíðkast í "löndunum í kringum okkur", nú þegar svo mikið er undir."
Hver er "stríðsáætlun" yfirvalda á Íslandi gagnvart þessu veirufári ? Það veit enginn almennilega, og það er gjörómögulegt. Hún virðist vera sú að halda fjölda smitaðra í lágmarki. Það er kolröng stefna, því að hún leiðir ekki til neins annars en að draga þennan faraldur á langinn, bylgju eftir bylgju, með ógurlegum kostnaði, og það er stórskaðlegt heilbrigði þjóðarinnar og efnahag.
Þessi stefna er rekin við bumbuslátt lyfjaframleiðenda, sem vinna að þróun bóluefnis, en slíkt hefur af tæknilegum og öryggislegum ástæðum hingað til tekið 5-10 ár. Betri er 1 fugl í hendi en 2 í skógi. "Spádómar" um 1-2 ára þróunartíma bóluefnis núna eru óáreiðanlegir og jafnvel hættulegir. Verst af öllu væri, að í flaustri yrði farið að bólusetja almenning með vanþróuðu efni, sem ylli jafnvel verri aukaverkunum en veiran sjálf.
Það á ekki að reisa sóttvarnarstefnu hérlendis á tálsýn. Það á að reisa hana á ströngum persónulegum vörnum, sem gera kleift að halda úti allri venjulegri virkni samfélagsins án tálmana, markvissri vernd viðkvæmra hópa og stýringu á álagi heilbrigðiskerfisins innan getu þess. Þannig næst eitthvað, sem nálgazt getur að kallast hjarðónæmi á sem stytztum tíma og með lágmarkstjóni á sviði heilsu og mannslífa. Höfum í huga, að brotið atvinnulíf hefur alvarlega slæm áhrif á heilbrigðiskerfið, veikir það og eykur álag þess. Ef öruggt bóluefni skyldi koma á markaðinn áður en hjarðónæmi næst (60 %), verður það "fagnaðarundur".
Viðbrögð ríkisstjórna við þessum heimsfaraldri, COVID-19, hafa ýmist verið í ökkla eða eyra. Þau hafa víðast hvar orðið þjóðfélögunum miklu kostnaðarsamari en efni standa til. Efnahagssamdrátturinn hefur leitt til uppsagna mikils fjölda fólks, sem kemur niður á heilsufari þeirra og mun lenda á heilbrigðiskerfunum í nánustu framtíð. Af þessum sökum er brýnt, að yfirvöld beiti markvissri stjórnun og virði meðalhófsreglu. Að draga allan mátt úr fyrirtækjunum magnar vandann. Alþýðusamband Íslands "hefur stimplað sig út úr vitrænni efnahagslegri umræðu" með því að viðurkenna ekki þessa staðreynd. Þar með fórnar ASÍ óþarflega mörgum félagsmanna sinna á altari atvinnuleysis.
Óli Björn Kárason ritaði í Morgunblaðspistli sínum 2. september 2020 m.a. eftirfarandi:
"Fyrir þá, sem gera sér grein fyrir því, að atvinnulífið - fyrirtækin í landinu - skapa þau verðmæti, sem okkur eru nauðsynleg til að standa undir velferðarsamfélaginu, er það sérstakt áhyggjuefni, hve atvinnuvegafjárfesting hefur dregizt saman. Á öðrum ársfjórðungi minnkaði hún um 17,8 % og um 4,7 % á fyrstu 6 mánuðum ársins m.v. sama tímabil 2019. Ný tækifæri og ný störf verða ekki til án fjárfestinga. Það er því eitt helzta verkefni stjórnvalda að örva atvinnuvegafjárfestingu til lengri og skemmri tíma."
Þetta skilur ekki forysta ASÍ, sem vill ganga enn harðar að fyrirtækjunum með launahækkunum um næstkomandi áramót, þrátt fyrir grundvallarforsendubrest kjarasamninga, með þeim afleiðingum, að sum hinna betur stæðu fyrirtækja verða að leggja fjárfestingaráform sín á hilluna, en sum hinna verr settu fyrirtækja munu verða að fækka í starfsliði sínu og önnur munu leggja upp laupana.
Halldór Benjamín Þorbergsson hefur orðað þetta svo, að forysta ASÍ hafi "stimplað sig út úr vitrænni umræðu um efnahagsmál". Þegar hægt er að líkja forseta ASÍ við Münchhausen, sem togaði sig upp á hárinu, er ljóst, að verkalýðsforkólfar eru heillum horfnir í Kófinu og vita ekki sitt rjúkandi ráð. Formaður Einingar er sprenghlægilegur, þegar hún blæs sig út í anda löngu steindauðrar hugmyndafræði Komintern, sem afneitar staðreyndum og boðar þess í stað stöðuga baráttu við auðvaldið. Formaðurinn ætlar að nota Kófið til að skella á einum leikþætti um hina heilögu stéttabaráttu, sem er niðurrifsstarfsemi, sem engu skilar í vasa verkalýðsins. Verkalýðurinn verður leiksoppur í pólitísku skaki forystumannanna.
Í stað hinnar stöðugu stéttabaráttu, þar sem útsæðið er étið og féð jafnan án hirðis, gefst slagorðið "Stétt með stétt" ásamt hugmyndafræði Óla Björns Kárasonar betur:
"Markmiðið er að fjölga tækifærunum, bæta lífskjör allra og búa í haginn fyrir framtíðina. Rauði þráðurinn í hugmyndabaráttu okkar hægri manna er mannhelgi einstaklingsins. Við lítum svo á, að andlegt og efnahagslegt frelsi sé frumréttur hvers og eins. Virðing fyrir frumréttinum tryggir betur en nokkuð annað velsæld samfélaga. Þegar stjórnvöld telja nauðsynlegt að ganga á þennan frumrétt, þó [að] ekki sé nema í takmarkaðan tíma í nafni almannaheilla, er nauðsynlegt, að byggt sé á skýrum lagalegum grunni. Almenningur verður að skilja rökin, sem liggja þar að baki og fá skýrar upplýsingar um, hvenær og undir hvaða skilyrðum hömlum verður aflétt. Annars missa stjórnvöld trúverðugleika, samstaða samfélagsins brestur, og aðgerðir til varnar almenningi snúast upp í andhverfu sínu. Í stað þess að takast á við ný verkefni situr samfélagið í heild sinni með hendur í skauti. Fjárfesting - trúin á framtíðina - gufar upp."
Þetta er gagnrýni á framkvæmd sóttvarnarstefnu, sem er loðin, teygjanleg, illskiljanleg og gengur freklega á athafnafrelsi og frelsi einstaklingsins. Árangur óhófsviðbragða við tiltölulega vægri sóttkveikju er mjög lítill miðað við tilkostnað og tekjutap. Það er ófært að leggja upp með að hjakka í þessu fari þar til nothæft bóluefni verður aðgengilegt almenningi á Íslandi.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.8.2020 | 18:37
Bjargi sér hver sem bezt hann getur
Allar iðnaðarþjóðir heims og flestar, ef ekki allar, aðrar hafa orðið fyrir alvarlegum skráveifum af völdum hinnar bráðsmitandi veiru SARS-CoV-2, sem hefur valdið illræmdasta faraldri í sögu Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, að sögn framkvæmdastjóra hennar. WHO gaf sjúkdóminum hið bráðstofnanalega heiti COVID-19, en Bandaríkjaforseta, sem dró BNA út úr WHO, er tamara að tala um Kínaveiruna. Þetta kvikindi hefur á ferli sínum innvortis í hýslinum "homo sapiens" stökkbreytt sér nokkrum sinnum, eins og ólíkindatólið og vísindamaðurinn Kári Stefánsson í Íslenskri erfðagreiningu, ÍE, hefur frætt Íslendinga fjálglega um. Þótt sósíalistanum Svandísi Svavarsdóttur, hafi ekki þóknazt að strjúka Kára eðlilega meðhárs fyrir ómetanlega góðan þátt ÍE við að fást við vágestinn, þá hefur þetta merkilega einkafyrirtæki, að miklu eða öllu leyti í erlendri eigu, haldið áfram að leggja sig í líma við að draga þunglamalegt ríkisapparatið að landi. Er ekki kominn tími til, að innlend einkafyrirtæki á sviði læknisfræði fái loks að njóta sín, t.d. á sviðum, þar sem hið opinbera er með allt á hælunum ?
Þann 27. júlí 2020 ritaði Philippe Legrain, fyrrverandi efnahagsráðgjafi forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, ESB, athyglisverða grein í Morgunblaðið, sem hann nefndi þó því villandi heiti:
"Evrópa bjargar sér".
Fyrirsögnin ber með sér alþekktan ruglanda á Evrópusambandinu og Evrópu. Þennan ruglanda er t.d. að finna í heiti evrubankans og æðsta dómstóls Evrópusambandsins. Því fer fjarri, að rétt sé að setja jafnaðarmerki á milli ESB og Evrópu og sú villa óx gróflega við úrsögn næst öflugasta ríkis Evrópu (vestan Rússlands) úr ESB. ESB ætlar ekki að bera sitt barr eftir það áfall.
Ágreiningur innan sambandsins vex og verður illvígari. Nú er ekki lengur hægt að skella skuld misklíðarinnar á Breta, heldur virðist Sambandið vera að gliðna um fellingafjöll Alpanna. Það er líka gjá á milli austurs og vesturs innan Sambandsins, sem liggur austan Þýzkalands og að öðru leyti um gamla "Járntjaldið". Hvort Úrsúlu von der Leyen tekst að bera græðandi smyrsl á sárin (hún er læknir), er óvíst. Ferill hennar sem varnarmálaráðherra Þýzkalands var ófagur, en Bundeswehr er í sárum eftir asnaspörk hennar þar við að reyna að uppræta fornar hefðir hersins og virðingu fyrir föllnum stríðshetjum. Jafnvel mynd af Helmut Schmidt, fyrrum kanzlara Vestur-Þýzkalands, í einkennisbúningi Wehrmacht, lét hún rífa ofan af vegg. Stríðsmáttur Bundeswehr, ekki sízt Luftwaffe, var í molum eftir ráðstafanir hennar. Hvernig mun viðskilnaður hennar verða í Brüssel ? Þar eru nú lykilstöður mannaðar Þjóðverjum og þeim hefur fjölgað mjög í Berlaymont. Kannski þeim takist að halda ferlíkinu á floti ?
Grein sína hóf Legrain þannig:
"Eftir 4 sólarhringa af erfiðum samningaviðræðum og mörgum sársaukafullum málamiðlunum hafa leiðtogar Evrópu komizt að samkomulagi um byltingarkenndan mrdEUR 750 björgunarsjóð. Sem merki um samhug gagnvart Ítalíu, Spáni og öðrum löndum, sem enn eru í sárum vegna COVID-19-krísunnar, er samkomulagið stórt skref fram á við fyrir Evrópusambandið. Það gerir hins vegar lítið til að taka á dýpstu vandamálum evrusvæðisins."
Að risavaxinn björgunarsjóð þurfi að setja á koppinn handa ríkjum, sem orðið hafa undir í samkeppninni við germönsku ríkin á evrusvæðinu, Þýzkaland, Austurríki og Holland, er sjúkdómseinkenni á myntsamstarfinu. Þar er vonlaust að vera, nema reka stranga aðhaldsstefnu í ríkisfjármálum og tryggja samkeppnishæfni atvinnulífs landsins. Hið fyrra hafa Þjóðverjar gert með því að binda í Stjórnarskrá Sambandslýðveldisins reglur um ríkisbúskapinn, og hið síðara er gert með framleiðnihvetjandi umhverfi fyrir fyrirtækin og hóflegum launahækkunum, sem ekki verða umfram framleiðniaukninguna.
"Enn betra er, að samkomulagið [leiðtoganna] felur í sér marga jákvæða þætti tillögu Merkel og Macron, þar sem mrdEUR 390 vegna ESB-styrkja eru efstir á blaði án margra skilyrða. Fjögur af efnaðri ríkjum Norður-Evrópu með Hollendinga í fararbroddi höfðu áður sett það sem skilyrði, að ESB veitti eingöngu lán, sem væru háð því, að ríkisstjórnirnar, sem þægju þau, framkvæmdu umbætur, sem ESB krefðist (og að þjóðirnar samþykktu þau). En ágeng skilyrði af því taginu hafa slæmt orð á sér eftir samskipti ESB og Grikklands fyrir áratug, þannig að Suður-Evrópuþjóðirnar gátu engan veginn samþykkt neitt slíkt."
Hrakfallasaga evrusamstarfsins er dæmalaus, og meðferðin á Grikkjum fyrir tæplega áratug var forkastanleg, þar sem þeim var fórnað á altari peningaveldis í ESB. Þýzkir og franskir bankar, lánadrottnar Grikklands, voru skornir úr snörunni og lengt í hengingaról Grikkja. Evrópusambandið er ekki góðgerðarstofnun, sem hleypur undir bagga með aðildarríkjunum, þegar á bjátar. Evrópusambandið er samansúrrað hagsmunaveldi evrópsks stórauðvalds og búrókrata í Brüssel, sem maka krókinn með risasporslum og skattafríðindum.
Hérlendis eru barnalegar sálir, sem vilja fyrir alla muni troða Íslandi inn í þessa samkundu og japla jafnan á tuggunni um friðarhlutverk ESB í Evrópu, sem er ímyndun ein. Vinstri stjórninni 2009-2013 mistókst ætlunarverk sitt með aðildarumsókn og aðlögunarferli í kjölfarið, en umsóknin er enn geymd í skúffu í aðalstöðvunum, Berlaymont, í Brüssel. Trúin á nytsemi aðildar hefur nú breytzt í trúarbrögð.
"Helzti kosturinn við björgunarsjóðinn er þó pólitískur. Með honum sýnir Evrópusambandið, að það getur komið Evrópubúum til hjálpar, þegar þeir þurfa mest á því að halda. Þetta ætti að veita nauðsynlegt mótvægi við vantrú á sambandið og draga úr reiði fólks vegna krísunnar."
Þarna er mikil óskhyggja á ferðinni. Evrópusambandið mundi gera Evrópubúum mest gagn með því að leggja sjálft sig niður og leysa upp evruna. Þar með mundu Evrópubúar losna við 40 k blýantsnagara, sem virka sem hreinræktaðar afætur á vinnandi fólk Evrópu. Núverandi aðildarríki myntsamstarfsins mundu þá annaðhvort taka upp sinn gamla gjaldmiðil, eða þau mundu bindast samtökum um einhvers konar gjaldmiðilssamstarf, e.t.v. í tvennu eða þrennu lagi. Það blasir við, að germanskar þjóðir bindist slíkum samtökum, rómanskar þjóðir myndi sín samtök og e.t.v. slavneskar. Finnar munu að fornu fylgja Germönum, en Grikkir munu sennilega lýsa yfir þjóðargjaldþroti með skuldir ríkissjóðs um 180 % af landsframleiðslu. COVID-19 kann að ríða efnahag Ítala gjörsamlega á slig líka, þótt mrdEUR 82 í títtnefndum björgunarsjóði ESB séu markaðir Ítölum. Það er dropi (5 %) í hafið hjá 60 M manna þjóð, þar sem ríkisskuldir stefna í 160 % af landsframleiðslu árið 2021.
"Frá sjónarhóli stjórnsýslu er samkomulagið mikill sigur fyrir Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, sem var oft utanveltu í myntbandalagskreppunni 2010-2012. Það verður Framkvæmdastjórnin, sem tekur mrdEUR 750 lánið til að fjármagna sjóðinn, og hún mun beina styrkjum og lánum með fjárveitingarvaldi sínu innan ESB. Með annað augað á greiðslu skuldarinnar eftir 2027 mun hún einnig hafa yfirumsjón með leit að nýjum tekjustofnum fyrir ESB, svo sem skatti á stafræna þjónustu eða kolefnisjöfnunarskatti innflutnings."
Þjóðverjar hafa nú undirtökin í Berlaymont, og hér má greina handbragð þeirra. Þeir ætla að standa í stafni björgunaraðgerðanna, og munu reyna að gæta þess vandlega, að féð nýtist af skynsamlegu viti, en brenni ekki á spillingarbáli. Þeir ætla greinilega að auka við fjárlög ESB, þótt síðustu 10 Sambandsreikningar eða svo hafi ekki hlotið samþykki skipaðra endurskoðenda, af því að þeir töldu fullnægjandi skýringar með útgjöldum skorta.
Það var vonum seinna, að sást til áforma um kolefnisjöfnunargjald á innflutning. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagðist í nýlegu blaðaviðtali vera orðinn þreyttur á tvískinnungi í umhverfisverndarumræðunni. Annars vegar væru lagðar þungar byrðar á hagkerfi EES-ríkjanna til að ná metnaðarfullum markmiðum í loftslagsmálum, en hins vegar væri flutt inn á svæðið ótæpilegt vörumagn frá ríkjum, sem losuðu margfalt meira út í umhverfið en ríkin í EES við sams konar framleiðslu, ekki sízt Íslendingar, sem eru þar fremstir í flokki ásamt Norðmönnum.
Í næstu tilvitnun í Legrain kemur fram, að ESB-ríkin séu nú að heykjast á orkustefnu sinni, enda er hún óskilvirk og dýr. Henni hefur nú verið skákað aftar í forgangsröðina með krókódílstárum í Berlaymont:
"Gallinn er sá, að vegna þess, að björgunarsjóðurinn var felldur inn í víðtækari samningaviðræður um fjárhagsáætlun ESB 2021-2027, þurfti að gera nokkrar óheppilegar málamiðlanir. Áður en heimsfaraldurinn brast á var Evrópska græna samkomulagið til að takast á við loftslagsbreytingar flaggskipsframtak Ursulu von der Leyen, forseta Framkvæmdastjórnarinnar. Nú hefur verið dregið úr fjárveitingum til að styðja við umskipti í hreinni orkugjafa."
Það er reyndar engin þörf á því lengur á meginlandinu að greiða niður sólar- og vindorku vegna mikils framboðs slíkrar orku á samkeppnishæfu verði m.v. kol og jarðgas. Það er hins vegar full ástæða til að huga að "lokalausn" á þessum málum og þróa umhverfisvæna orkugjafa, sem staðið geta undir jafnri og mikilli framleiðslu. Hér er væntanlega helzt um að ræða kjarnorku, þ.e. sundrun annarra efna en úrans og samruna vetnisatóma.
Í lokin skrifaði Philippe Legrain:
"Eftir myntbandalagskrísuna 2010-2012 benti mannúðarfrömuðurinn George Soros á, að Merkel gerði alltaf rétt nóg til að halda evrunni gangandi, "en aldrei meira en það". Þetta á enn við. Björgunarsjóðurinn er kærkomið skref fram á við, en hann leysir ekki grunnvanda evrusvæðisins, s.s. ósjálfbæra skuldaþróun á Ítalíu, tilhneigingu til verðhjöðnunar í Þýzkalandi og skort á endurstillingu hagkerfa. Evrusvæðið er sloppið fyrir horn í þetta sinn, en það er samt engan veginn komið í varanlegt skjól."
Spurningin er sú, hvort verr hafi verið farið en heima setið, þ.e. að samkomulag leiðtoganna hafi verið svo dýru verði keypt, að kalla megi Phyrrosarsigur fyrir ESB. Evrópusambandið er ófært um að ráðast að rótum vandamála sinna. Angela Merkel er á útleið, og arftaki hennar mun verða annarrar gerðar, sem þýðir, að það heyri brátt fortíðinni til, að Þjóðverjar skrifi upp á stórfelldar millifærslur úr vösum sínum til þeirra, sem neita að beita sig þeim lágmarksaga, sem ríki þurfa til að tekjur hrökkvi fyrir útgjöldum.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
24.5.2020 | 18:05
"Óttast um framtíð evrunnar"
Ofangreind fyrirsögn var á frétt Stefáns Gunnars Sveinssonar í Morgunblaðinu 7. maí 2020 í tilefni dóms Stjórnlagadómstóls Sambandslýðveldisins í Karlsruhe. Hvort ástæða er til að óttast um framtíð evrunnar vegna þess dóms skal ósagt láta, enda hefur hún ýmsa fjöruna sopið. Í kjölfar hruns fjármálakerfisins 2007-2008, þegar evran stóð tæpast 2012, var henni haldið uppi af framleiðslumætti Þýzkalands. Nú hefur framleiðslumáttur Þýzkalands lamazt, og æðsti dómstóll Þýzkalands hefur skotið aðvörunarskoti bæði í átt að Evrópudómstólinum, ECJ, og Evrubankanum, ECB, fyrir það að túlka heimildir ECB til ríkisskuldabréfakaupa allt of vítt og frjálslega. Þetta er gamalkunnugt viðhorf þýzkra hagfræðinga í Bundesbank og fulltrúa hans í stjórn ECB og stangast alveg á við stefnu rómanskra þjóða um lausatök á ríkisfjármálum, dúndrandi ríkissjóðshalla og skuldasöfnun hins opinbera. Fyrir vikið er efnahagslegur viðspyrnukraftur þessara þjóða núna afar takmarkaður, og þau reiða sig á, að germönsku þjóðirnar á evru-svæðinu hlaupi undir bagga með sér aftur.
Til þess m.a. að kaupa ríkisskuldabréf hefur Evrópusambandið (ESB) safnað saman í "Faraldurseignakaupasjóð" - "Pandemic Equity Purchase Program" - PEPP, mrdEUR 750. Hinn franski bankastjóri ECB hafði hins vegar ekki þolinmæði til að bíða eftir þessum sjóði og taldi, að miklu meira þyrfti til, enda hefur ECB nú þegar spreðað út mrd EUR 2´200 frá 2014. Þetta var kært í hópmálssókn Þjóðverja til Karlsruhe.
"Óvæntur úrskurður þýzka stjórnlagadómstólsins í fyrradag hefur hleypt mikilli óvissu í tilraunir Evrópusambandsins til þess að finna sameiginlega lausn fyrir ríki evrusvæðisins á kórónaveirukreppunni.
Stjórnlagadómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu, að Seðlabanki Evrópu hefði líklega farið gróflega fram úr heimildum sínum við kaup á skuldabréfum vegna kórónaveirunnar, en upphæð þeirra nemur nú um 2´200 milljörðum evra [nær yfir lengra tímabil-innsk. BJo]. Um leið hefði bankinn óbeint seilzt inn í fjárveitingarvald þýzka sambandsþingsins.
Gaf dómstóllinn bankanum þrjá mánuði til þess að sanna, að meðalhófi hefði verið fylgt við skuldabréfakaupin, ellegar yrði Seðlabanka Þýzkalands meinað að taka frekari þátt í magnbundinni íhlutun evrópska bankans.
Niðurstaða dómstólsins kemur á einkar óheppilegum tíma fyrir Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, sem leggur nú allt kapp á að finna sameiginlega lausn á kórónaveirukreppunni."
Hér er gamalkunnugt deilumál Þjóðverja og Frakka í brennidepli. Réttara væri að segja, að germönsku þjóðirnar eru hallar undir þýzka hagfræðiskólann, sem leggur áherzlu á aðskilnað ríkisstjórnar og seðlabanka, þar sem annar á að sjá um hallalausan rekstur ríkisins, en hinn á að varðveita heilbrigði peningakerfisins með lágri verðbólgu og jákvæðri ávöxtun sparnaðar. Það er órói á meðal Þjóðverja með það, að raunvextir eru nánast engir orðnir, en Þjóðverjar eru sparsöm þjóð og spara m.a. til elliáranna á bankareikningum.
Rómönsku þjóðirnar vilja, að ríkisstjórnirnar grauti í öllu saman, aðhaldslítið (og drekki rauðvín með). Afleiðingin af því er bullandi halli á ríkissjóði, skuldasöfnun og verðbólga.
Stjórnlagadómstóli Þýzkalands hefur ofboðið hegðun ECB í kórónafárinu og telur evrubankann skorta heimildir til stórfelldra skuldabréfakaupa af ríkissjóðum, sem Gallinn Lagarde hefur beitt sér fyrir. Stjórnlagadómstóllinn leitaði álits ESB-dómstólsins, ECJ, sem taldi ECB mega stunda þessa peningaprentun. Hugsunargangur Framkvæmdastjórnarinnar kemur vel fram í eftirfarandi:
"Sagði Paolo Gentiloni, framkvæmdastjóri Sambandsins í efnahagsmálum, að ef sum ríki svæðisins drægjust um of aftur úr öðrum, gæti það hæglega ógnað framtíð evrunnar og Innri markaði ESB, en að um leið væri hægt að koma í veg fyrir hana [ógnina-innsk. BJo] með sameiginlegum aðgerðum."
Það sem ECB er að gera er að kaupa skuldabréf ríkissjóða rómönsku landanna og Grikkja í miklum mæli og í minni mæli af öðrum, til að koma í veg fyrir, að ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa illa settra ríkja rísi upp í himinhæðir yfir ávöxtunarkröfu skuldabréfa þýzka ríkissjóðsins og lendi þar með í ruslflokki. Þar með yrði hætt við greiðsluþroti þessara ríkissjóða, einnig hins franska, svo að mjög mikið hangir á spýtunni. Þjóðverjar telja, að Christine Lagarde, hinn franski aðalbankastjóri ECB, sé að draga allt evrusvæðið ofan í svaðið, og Karlsruhe beitir fyrir sig lagabókstaf, að sjálfsögðu:
"Það vakti sérstaka athygli, að fyrir utan "viðvörunarskot" stjórnlagadómstólsins þýzka í átt að Seðlabanka Evrópu, setti hann einnig ofan í við dómstól Evrópusambandsins og sagði, að afstaða hans til meðalhófs í þessu efni væri "óskiljanleg" og í engu samræmi við afstöðu dómstólsins á nánast öllum öðrum sviðum Evrópuréttar. Ályktaði stjórnlagadómstóllinn því sem svo, að dómarar Evrópudómstólsins hefðu farið út fyrir lagalegar heimildir sínar.
Þetta er í fyrsta sinn frá upphafi Evrópusamrunans árið 1957, sem Stjórnlagadómstóllinn kemst að þeirri niðurstöðu, að ákvarðanir og gerðir evrópskra stofnana hafi brotið í bága við þýzku stjórnarskrána, en Stjórnlagadómstóllinn hefur aldrei viðurkennt, að lög og reglur Evrópusambandsins séu rétthærri en þýzka stjórnarskráin.
Um leið benti Stjórnlagadómstóllinn á það sérstaklega í úrskurði sínum, að Lissabon-sáttmálinn hefði ekki sett lög ESB ofar lögum aðildarríkjanna og að Evrópusambandið væri ekki sambandsríki."
Hér er fram komin tímabær og gagnmerk yfirlýsing, eins konar fullveldisyfirlýsing æðsta dómstóls Sambandslýðveldisins Þýzkalands, sem hafa mun lögfræðileg og fullveldisleg bylgjuáhrif um allt Evrópska efnahagssvæðið.
Þetta kom flatt upp á ECJ, dómstól ESB, sem tók þessari þýzku breiðsíðu ekki þegjandi, eins og frétt Stefáns Gunnars Sveinssonar í Mogganum 9. maí 2020 bar með sér. Hún hafði fyrirsögnina:
"Hafnar niðurstöðu stjórnlagadómstólsins":
"Evrópudómstóllinn lýsti því yfir í gær, að hann einn hefði lögsögu yfir evrópska seðlabankanum. Hafnaði dómstóllinn þar með alfarið niðurstöðu þýzka stjórnlagadómstólsins, þar sem bæði bankinn og Evrópudómstóllinn voru gagnrýndir fyrir afstöðu sína gagnvart skuldabréfakaupum bankans.
Í tilkynningu dómstólsins sagði m.a., að til þess, að hægt væri að tryggja, að lög ESB væru alls staðar túlkuð á sama hátt, hefði dómstóllinn einn "lögsögu til að skera úr um, að [hvort] aðgerð stofnunar ESB sé í trássi við lög Sambandsins.
Þá sagði, að skoðanamunur milli dómstóla hvers og eins aðildarríkis um lögmæti slíkra gjörða myndi vera líklegur til að setja hina lagalegu skipan sambandsins úr skorðum og draga úr réttaröryggi."
Þetta er þunnur þrettándi hjá ESB-dómstólinum og jafngildir pólitískum orðahnippingum við þýzku Stjórnlagadómarana, því að ECJ hefur enga tilburði uppi til að vísa í þá lagagrein, sem veitir evrubankanum svo takmarkalitlar heimildir, sem hann hefur tekið sér, eða hvaðan ECJ hefur einn lögsögu yfir evrubankanum.
"Úrskurður stjórnlagadómstólsins á þriðjudaginn var sérstaklega harðorður í garð Evrópudómstólsins, sem að sögn þýzku dómaranna hafði farið fram úr lagalegum heimildum sínum, þegar hann fjallaði um mál Seðlabankans, og hefði í raun gerzt "afgreiðslustofnun" fyir bankann.
Þá áréttaði Stjórnlagadómstóllinn þá afstöðu sína, að aðildarríki Sambandsins væru "ábyrg fyrir [gagnvart - innsk. BJo] sáttmálum þess" og að ESB væri ekki sambandsríki."
Hér eru stórtíðindi á ferð. Dómstóll ESB, ECJ, er vanur að fara sínu fram og skeytir lítt um lagaheimildir, ef "eining ESB" er annars vegar. Nú mætir hann aðhaldi, er bent á af stjórnlagadómurum aðildarlands, að hann skorti heimildir fyrir gjörðum sínum og sé í reynd þægt verkfæri annarra; starfi eftir pöntun. Þá firrtist ECJ og fer í ham einvaldskonunga í Evrópu á fyrri tíð:
"Vér einir vitum".
Hvorki ECB né ECJ hafa heimildir fyrir gjörðum sínum samkvæmt stjórnarskrárígildi ESB, Lissabonsáttmálanum. ESB er ekki sambandsríki og er þess vegna ekki ábyrgt gagnvart þessum sáttmála eða öðrum, heldur aðildarríkin, og æðsti dómstóll hvers aðildarríkis sker úr um, hvað má og hvað má ekki. Nú flæðir undan réttargrundvelli óhófsaðgerða ECB.
Frétt Morgunblaðsins, þar sem óttast var um framtíð evrunnar, lauk þannig:
"Sú ályktun [Karlsruhe] kallaði á svar frá Brüssel, og sagði talsmaður Framkvæmdastjórnar ESB það vera skoðun Sambandsins [svo ?], að lög þess væru rétthærri lögum aðildarríkjanna og að ríki þess hefðu fallizt á að vera bundin af úrskurðum dómstóls ESB. Framundan gæti því verið hörð lagaleg rimma um stöðu Evrópuréttar innan Þýzkalands, eins helzta forysturíkis ESB.
Um leið virðist nokkuð ljóst, að tilraunir til þess að leysa kórónaveirukreppuna með útgáfu sameiginlegra "kórónuskuldabréfa" muni rekast á þýzku stjórnarskrána og komi því ekki til greina.
Ríkisstjórnir Spánar og Ítalíu gætu því orðið nauðbeygðar til þess að sækja um neyðarlán til Seðlabanka Evrópu, en þær hafa verið tregar til þess að stíga slík skref, ekki sízt í ljósi þess fordæmis, sem Grikklandskreppan 2012 gaf, þar sem harðir skilmálar fylgdu neyðarláni bankans.
Úrskurður Stjórnlagadómstólsins hefur því leitt til stórra spurninga um framvinduna innan ESB, og hvernig það muni leysa úr þeirri stöðu, sem kórónaveirufaraldurinn færði því."
Neyðarlán frá ECB einum til ríkisstjórna kemur ekki til greina nú fremur en 2012, því að bankinn er ekki þrautavaralánveitandi. Árið 2012 endurskipulagði þríeykið AGS, ESB og ECB, ríkisfjármál Grikklands, og sami háttur verður líklega hafður á aftur, ef ríkissjóðir aðildarlanda ESB lenda í greiðsluþroti. Það er svo lítillækkandi ferli, að reyna mun mjög á veru viðkomandi ríkis í myntsamstarfinu. Ekki var í fréttinni minnzt á bleika fílinn í stofunni, Frakkland. Þjóðverjar munu væntanlega ekki taka þá neinum vettlingatökum nú fremur en á krossgötum fyrri tíðar.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.5.2020 | 13:15
Margt riðar til falls og víða
Samkvæmt AGS (Alþjóða gjaldeyrissjóðnum), sem við höfum ekki enn þurft aftur að segja okkur til sveitar hjá, og losnum vonandi við að þessu sinni, verður enginn hagvöxtur í Asíu sem heild á árinu 2020 í fyrsta skipti í 60 ár. Þetta sýnir grafalvarlegt efnahagsástand í kjölfar Wuhan-veirunnar, SARS-CoV-2, og veitir smjörþefinn af því, sem koma skal, því að þessi veira er aðeins ein af nokkrum, sem komið hafa fram frá síðustu aldamótum í Kína, Afríku og í Mið-Austurlöndum.
Mannkynið slapp fyrir horn með SARS, MERS og ebóluna. Ef SARS og MERS hefðu verið meira smitandi, hefðu þær getað dreifzt um heim allan. Ebóla var bráðsmitandi, og um 60 % sýktra lézt af hennar völdum, en með stórkostlegu átaki tókst að kveða hana niður á þeim svæðum Afríku, þar sem hún herjaði. Af þeim dæmum, sem hér hafa verið nefnd, má leiða líkum að því, að veirufaraldrar verði alvarlegasti vágestur heimsbyggðarinnar á næstu áratugum, og auðvitað hverfur þá losun CO2 í skuggann, enda munu breyttir lifnaðarhættir í kjölfar COVID-19 líklega leiða að einhverju leyti til minni losunar. Aukin áherzla á sjálfbærni samfélaga og "sjálfsþurftarbúskap" með lífsnauðsynjar (minni flutningar) kann að verða eitt af einkennum næstu ára.
Þótt smit Wuhan-veirunnar virðist af fréttum frá Kína að dæma aðallega hafa verið í héraðinu, þar sem Wuhan er aðalborgin, virðast Kínverjar hafa tekið smithættuna föstum tökum á öllum helztu framleiðslu- og viðskiptasvæðum Kína. Til marks um það er bæði árangur þeirra við að hefta útbreiðslu veirunnar og, að í fyrsta skipti frá upphafi skráninga á hagvexti í Kína 1992, skrapp verg landsframleiðsla þeirra saman á fyrsta ársfjórðungi 2020. Þetta er gríðarlegt efnahagshögg, því að hún hefur oftast numið 6 %-12 % á ári frá 1992. Hún minnkaði um 6,8 % á fyrsta ársfjórðungi m.v. sama tíma árið áður, en þá jókst hún um 6,0 %.
Bretar fara mjög illa út úr þessum veirufaraldri. Þeir reyndust óviðbúnir og brugðust seint við. Spáð er 35 % samdrætti landsframleiðslu þeirra í júní 2020. Hagkerfi þeirra er mjög þjónustudrifið. Þjóðverjar virðast munu fara út úr COVID-19 viðureigninni með minna tapi en Bretar, enda voru þeir betur undirbúnir ("alles muss ganz gut vorbereitet sein" er enda viðkvæði þeirra). Smit hjá þeim eru færri en hjá öðrum meginþjóðum Evrópu, og dauðsföll í Þýzkalandi af völdum COVID-19 eru tiltölulega fá. Undirbúningur, skipulag og þjálfun borgar sig, en mestu skiptir þolgæði og seigla í allri baráttu.
Launagreiðslur til stórs hluta atvinnulífs á Vesturlöndum eru nú á höndum ríkisins, á sama tíma og tekjur hins opinbera dragast stórlega saman. Í ESB hefur triEUR 3 (trilljón = 1000 milljarðar) verið veitt til atvinnulífsins og í BNA var í marzlok samþykkt að veita triUSD 2 til stuðnings atvinnulífinu. Þar hefur æðsti maður landsins ekki veitt landslýðnum gagnlega leiðsögn, og stundum hefur slegið svo alvarlega út í fyrir honum, að margir hljóta að efast um, að hann verðskuldi endurkjör í ár, þótt hinn öldungurinn í framboði sé ekki mikið gæfulegri, og þó. Hann sætir nú ásökun fyrir kynferðislega áreitni fyrir löngu.
Hér á þessu vefsetri var í einni vefgrein vitnað til Morgunblaðsgreinar Ragnars Árnasonar 21. apríl 2020:
"Covid-kreppan: Mesta efnahagshögg í heila öld",
og verður nú gripið niður í síðari hluta greinarinnar:
"Stóra spurningin er, hvernig við sem þjóð bregðumst við þessari vondu stöðu. Ef brugðizt er við af skynsemi og fyrirhyggju, er unnt að lágmarka tjónið, sérstaklega þegar til lengri tíma er litið. Sé hins vegar ranglega við brugðizt og rasað um ráð fram, er hætta á, að þetta upphaflega efnahagsáfall leiði til langvarandi uppdráttarsýki í þjóðarbúskapnum. Hvað þetta snertir, er rétt að hafa hugfast, að framleiðslugeta þjóðarinnar hefur ekki minnkað. Efnahagskreppan nú stafar stafar annars vegar af minni eftirspurn erlendis og hins vegar þeim takmörkunum, sem við höfum sjálf sett á atvinnulífið innanlands til að draga úr áhrifum Covid-veirunnar. Þjóðarframleiðslan getur því frá tæknilegu sjónarmiði vaxið aftur hratt og vel. Hvort hún gerir það, fer eftir því, hvernig tekið verður á vandanum."
Þetta er satt og rétt, svo langt sem það nær, og þarfnast nokkurrar útlistunar lesandans til að tengja við raunstöðuna. Í fyrsta lagi hefur COVID-19 hjaðnað hraðar hérlendis en sóttvarnaryfirvöld áttu von á. Landlæknir boðaði það nálægt toppi faraldursins (hámarksfjölda sjúklinga), að farsóttin myndi láta hægar undan síga en hún sótti á. Það var ekki rökstutt sérstaklega, en spekin reyndist vera ættuð frá WHO-Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni. Þarna vanmátu sóttvarnaryfirvöld áhrifamátt eigin ákvarðana og fyrirmæla, en Íslendingar virðast hafa fylgt þessum fyrirmælum út í æsar, þó sjálfsagt með einstaka undantekningum. Þetta hefur komið mörgum landsmönnum þægilega á óvart, en sams konar sögu er að segja af Grikkjum, sem ekki hafa verið þekktir af yfirþyrmandi hlýðni við yfirvöld sín.
Í byrjun 2020 ber ekki á öðru en búið sé að uppræta smit, þótt talsverður fjöldi sé enn í sóttkví, og þá verða yfirvöld auðvitað að endurskoða fyrri áform sín og flýta afléttingu kvaða á hegðun fólks og starfsemi fyrirtækja og stofnana. Það er t.d. óþarflega íþyngjandi að miða samkomubann við 50 eftir 4. maí 2020, og sjálfsagt að opna sundstaði sem fyrst til heilsueflingar. Nær væri að miða við t.d. 500, og þegar ekkert smit hefur greinzt í 2 vikur, ætti hreinlega að aflétta öllum hömlum af starfsemi í landinu. Áfram munu auðvitað flutningar fólks á milli landa verða háðir sóttkví um sinn, en tvíhliða samningar um óhefta flutninga kunna að verða gerðir á milli þjóða, sem treysta sér til þess. Þó er líklegt, að við verðum í aðalatriðum að fylgja ákvörðunum Schengen-samningsins.
Gríðarlegt fé streymir úr ríkissjóði til ferðaþjónustunnar, eins og hún var í febrúar 2020. Þessi ferðaþjónusta var í stakk búin til að taka við 2,0 M ferðamanna á ári hið minnsta. Það er algerlega útilokað, að svo margir erlendir ferðamenn leggi leið sína til landsins á þessu ári, og afar ólíklegt á árinu 2021. Það er ekki sennilegt, að slíkt geti orðið fyrr en í fyrsta lagi 2023, og þá sitjum við uppi með ofvaxinn ferðamannageira í 4 ár í höndum ríkisins. Það gengur auðvitað ekki. Þegar reiðarslag af þessu tagi ríður yfir þjóðfélagið og af mestum þunga yfir eina atvinnugrein, er óhjákvæmilegt, að sársaukafullar breytingar og endurskipulagning eigi sér stað. Það hefur í för með sér minnstar almannafórnir að horfast í augu við líklegustu sviðsmyndina strax, en gæla ekki lengur við snögga endurræsingu á öllum vélunum, og að rándýr auglýsingaherferð stjórnvalda og greinarinnar muni valda kraftaverki á viðhorfum væntanlegra ferðamanna.
Prófessor emeritus í hagfræði, Ragnar Árnason, varaði reyndar við þessu sama í næstu undirgrein, þar sem hann skrifaði:
"Mikilvægt er að átta sig á því, að hið opinbera, þ.e. ríki og sveitarfélög, getur ekki verið hjálpræði í þessari stöðu."
Á öðrum Vesturlöndum eru þó uppi hafðir miklir tilburðir af hálfu ríkisvaldsins til að dæla fé í atvinnulífið "til að viðhalda ráðningarsambandi" á milli vinnuveitanda og launþega. Forsendan er þó væntanlega oftast sú, að þörf verði á lítt breyttri afkastagetu viðkomandi atvinnugreinar, eftir að ósköpin eru um garð gengin. Þeim fækkar táknum á lofti um það, að slíkt geti átt við um spurn erlendra ferðamanna eftir þjónustu á Íslandi. Stóra spurningin í þessu viðfangsefni er þó, hvernig þróun millilandaflugsins verður, svo að úr afar vöndu er að ráða fyrir stjórnvöld.
Það kom þess vegna eins og skrattinn úr sauðarleggnum, þegar haft var eftir formanni Framsóknarflokksins, Sigurði Inga Jóhannssyni, að Icelandair yrði að bjarga sér sjálft. Þetta félag er þó eins konar grunnstoð íslenzkrar ferðaþjónustu, þannig að fjárstuðningur og ábyrgðir ríkisins til annarra ferðaþjónustufélaga virðast verða unnin fyrir gýg, ef Icelandair getur svo bara étið, það sem úti frýs. Þarna hlýtur eitthvað að fara á milli mála.
Í lokin reit Ragnar:
"Þjóðin á einn sjóð raunverulegra verðmæta. Það er gjaldeyrisvarasjóðurinn. Í honum liggur mjög há upphæð, nálægt mrdISK 800, á litlum sem engum vöxtum. Sjálfsagt virðist að nota hluta þessa sjóðs til að brúa óhjákvæmilegan gjaldeyrishalla vegna kreppunnar og koma þar með í veg fyrir enn frekari gengislækkun krónunnar og verulega verðbólgu í framhaldinu."
Taka skal undir þetta. Tímabundinn halli á viðskiptum við útlönd virðist nú valda allt of hröðu gengissigi fyrir kaupmáttinn innanlands. Viðsnúningur virðist reyndar orðinn. Kaupgetan er verulega skert nú hjá þorra fólks vegna tekjumissis, og ef ekki á að láta gjaldeyrisvarasjóðinn halda genginu í skefjum núna, t.d. við 10 % sig frá febrúarlokum 2020, hvenær á þá eiginlega að nota hann almenningi til hagsbóta ?
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.4.2020 | 13:47
Stærsta höggið
Lömun íslenzks atvinnulífs af völdum kóróna-veirunnar SARS-COV-2 verður líklega meira efnahagsáfall hérlendis en hrun fjármálakerfisins 2008 vegna þess, hversu vel Neyðarlögin vernduðu landsmenn þá. Líklega er þetta hlutfallslega meira efnahagsáfall en reið yfir þjóðina, þegar síldin hvarf 1967, og í Kreppunni miklu, sem hófst 1929, og erfiðara áfall en Fyrri heimsstyrjöldin, Spænska veikin og vandræðin í kjölfar erfiðleikaskeiðsins 1914-1918.
Gæti jafnvel þurft að leita aftur til Móðuharðindanna 1783-1785 til að finna hlutfallslega meira tekjutap sem hlutfall af vergri landsframleiðslu en nú ríður yfir, um 15 %. Þar með er ekki sagt, að afleiðingarnar verði jafnalvarlegar og í þessum fyrri efnahagsáföllum. Það er vegna þess, að nú eiga landsmenn drjúga sjóði og ríkissjóður var orðinn skuldlítill. Þau búmannshyggindi, sem í hag koma síðar, verða einfaldlega að halda áfram, þegar hjól atvinnulífsins fara aftur að snúast á eðlilegum hraða. Það er alveg öruggt, að aftur mun ríða yfir efnahagsáfall, sem verður dýrkeypt, en það er skylda okkar að verða svo vel brynjuð, að ekki þurfi að segja landið til sveitar á meðal þjóðanna, hvað þá að til þjóðargjaldþrots komi.
Allir vita, að það er ekkert skjól að hafa í EES eða ESB. Hið eina, sem hjálpar er eiginn styrkur, lágar skuldir, öflugur gjaldeyrisvarasjóður og mikill hagvöxtur. Til þess þarf lágt raforkuverð í landinu, áherzlu á innlenda framleiðslu, aðhald í öllum rekstri og miklar (skynsamlegar) fjárfestingar.
Nú eru um 50 þúsund manns á atvinnuleysisskrá með einum eða öðrum hætti. Það er meira en fjórðungur vinnuaflsins og um þriðjungur vinnuafls einkageirans, en höggið lendir langþyngst á honum. Ekki getur orðið sátt í þjóðfélaginu um annað en allir geirar samfélagsins taki á sig kjaraskerðingar af þessum völdum, því að kjaraskerðing er óumflýjanleg í öllum löndum. Verkfallsboðun nú er hrópleg tímaskekkja, skemmdarverk og félagslegur vanþroski. Það má búast við, að tekjutap landsins nemi a.m.k. mrdISK 500 eða tæplega 40 % af árlegum gjaldeyristekjum landsins, því að samdráttur gjaldeyristekna mun vara mun vara mun lengur en eitt ár. Þetta högg lendir á þjóðinni, en ríkisstjórnin deyfir það með feiknarlegum lántökum, sem þarf að borga upp sem fyrst. Alþýðusamband Íslands hefur enn ekki horfzt í augu við þennan vanda, heldur stungið hausnum í sandinn. Þar með bregst forystan félagsmönnum sínum. Fyrr en síðar verður hún að draga hausinn upp úr sandinum og horfa raunsæjum augum á viðfangsefnið, sem er að lágmarka tjón almennings núna og að búa hann fjárhagslega sem bezt undir næsta áfall í stað þess að grafa sig ofan í enn dýpri holu.
Iðnaðurinn hefur náð því að standa undir 30 % útflutningstekna landsins. Áliðnaðurinn hefur í þokkalegu árferði staðið undir um 70 % af þessum tekjum. Hann stendur mjög illa núna, reyndar víðast hvar í heiminum, þó misvel, svo að búizt er við fækkun álvera í rekstri. Það mun draga markaðinn í átt að jafnvægi framboðs og eftirspurnar. Hvað er að gerast hjá Landsvirkjun. Í hádegisfréttum RUV í gær, 28.02.2020, var sagt frá 25 % lækkun raforkuverðs til stóriðju, en síðan ekki söguna meir. Hvers konar reykmerki var þetta ? Er bálköstur í háhýsinu ofarlega á Háaleitisbraut ?
Ekki er nóg með, að fyrrnefnd veira komi frá Kína, heldur voru Kínverjar búnir að eyðileggja þennan markað með offramboði, og vegna eftirspurnarleysis hefur botninn nú gjörsamlega fallið úr markaðinum, svo að CRU (brezkt ráðgjafarfyrirtæki) spáir því, að verðið eigi enn eftir að lækka um 100 USD/t eða niður í 1350 USD/t Al. Alls staðar hefur samfara þessu raforkuverðið lækkað, nema hjá ISAL í Straumsvík, enda er fyrirtækið nú í andarslitrunum, eins og fram hefur komið. Verður nú vitnað í nokkrar fréttaskýringar um þetta:
"Álverin í miklum vanda" var heiti baksviðsfréttar Baldurs Arnarsonar í Morgunblaðinu 2. apríl 2020. Hún hófst þannig:
"Íslenzkur áliðnaður hefur sjaldan eða aldrei staðið frammi fyrir jafnkrefjandi markaðsaðstæðum [og nú]. Vegna kórónuveirufaraldursins hefur eftirspurnin hrunið og við það safnazt upp miklar birgðir.
Áður en faraldurinn breiddist út til Evrópu var mikil umræða um rekstrarvanda álversins í Straumsvík. Til skoðunar var [og er] að loka álverinu vegna taprekstrar árum saman.
Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samtaka álframleiðenda (Samáls), segir ekki hægt að útiloka, að dregið verði enn frekar úr álframleiðslu á Íslandi vegna erfiðra aðstæðna."
Þessi sérstöku vandræði áliðnaðarins auka enn aðsteðjandi vanda landsmanna. Hvorki verkalýðshreyfing né aðrir geta litið undan og látið sem ekkert sé, enda gilda nýir kjarasamningar í Straumsvík aðeins til 30.06.2020. Þeir innihalda framlengingarákvæði, en það er skilyrt samkomulagi við Landsvirkjun fyrir þann tíma. Þar sem hvorki virðist ganga né reka í viðræðum Rio Tinto/ISAL við Landsvirkjun, stefnir nú í lokun eins af hryggjarstykkjum atvinnumarkaðarins á höfuðborgarsvæðinu. Veigamikil veiking iðnaðarins við þessar ömurlegu aðstæður mun gera endurreisnarstarfið enn erfiðara.
Baldur sýnir graf um verð áls á LME 01.03.2020-31.03.2020, þar sem það lækkar frá 1890 USD/t Al í 1489 USD/t Al, og nú er það komið nálægt 1450 USD/t Al og hefur þess vegna lækkað um tæpan fjórðung á rúmu ári. ISAL var rekið með um mrdISK 18 tapi árin 2018-2019, og þess vegna eru engar forsendur fyrir rekstri áfram að óbreyttu. 10 % lækkun raforkuverðs dugar ekki þar, svo að dæmi sé tekið.
Í lok baksviðsfréttaskýringarinnar vitnaði Baldur í Pétur Blöndal:
"Á þessum fordæmalausu tímum er mikilvægt sem aldrei fyrr að standa vörð um samkeppnishæfni íslenzks orkusækins iðnaðar. Það liggur fyrir, að ekki er framleitt á fullum afköstum í Straumsvík, en ISAL hefur bent á, að orkuverðið sé ekki samkeppnishæft. Ekki er heldur framleitt á fullum afköstum hjá Norðuráli, en samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu er það vegna þess, að ekki er í boði orka á samkeppnishæfu verði. Þetta hefur ekki einungis í för með sér tap fyrir álverin og orkufyrirtækin, heldur verður þjóðarbúið af miklum gjaldeyristekjum.
Það hlýtur að vera verkefnið að tryggja orkusæknum iðnaði á Íslandi sjálfbærar rekstrarforsendur, til þess að hann haldi áfram að blómgast hér á landi. Sú staða, sem komin er upp í viðskiptalífinu, er fordæmalaus og getur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar. Íslenzkur áliðnaður er þar auðvitað ekki undanskilinn, og skapazt hefur mikil óvissa á mörkuðum. Ég hef hins vegar þá trú, að áliðnaður á Íslandi eigi framtíðina fyrir sér, ef rekstrarforsendur eru sjálfbærar til framtíðar og samkeppnishæfnin treyst", segir Pétur."
Ef það er stefna Landsvirkjunar, þá getur hún vissulega gengið á milli bols og höfuðs á iðnaðinum. Orkulögin á Íslandi fría orkufyrirtækin ábyrgð á afdrifum viðskiptavina sinna og uppáleggja þeim einvörðungu að hámarka eigin gróða. Við fordæmalausar aðstæður kemur skýrt í ljós það, sem þó mátti öllum vera ljóst fyrir, að orkulöggjöf innflutt frá ESB og auðvitað sniðin við gjörólíkar markaðs- og orkukerfisaðstæður þeim, sem hér ríkja, að þessi orkulöggjöf samrýmist ekki hagsmunum atvinnulífs og almennings á Íslandi. Það má jafnvel búast við endurskoðun orkustefnunnar á meginlandi Evrópu í kjölfar COVID-19, því að til að knýja endurreisnina áfram mun þurfa tiltölulega lágt orkuverð. Stefna ESB hefur verið hátt orkuverð til að ýta undir virkjanir endurnýjanlegra orkugjafa. Er þá ekki Orkupakki 4 sjálfdauður ?
Þetta krystallaðist í efstu forsíðufrétt Morgunblaðsins nú í dymbilvikunni, 7. apríl 2020, en dymbill getur verið kólfur í bjöllu eða kirkjuklukku. Þarna glumdi sú klukka landsmönnum, að undirbúningur eiganda ISAL-verksmiðjunnar að stöðvun hennar um árabil eða að endanlegri lokun væri í fullum gangi.
Hvaða áhrif ætli stöðvun starfseminnar í Straumsvík hefði á þjóðarhag ? Það kom m.a. fram í baksviðsfrétt Baldurs Arnarsonar í Morgunblaðinu 14. febrúar 2020:
"Lokun álvers hefði víðtæk áhrif":
""Lokun álversins í Straumsvík myndi hafa víðtæk efnahagsáhrif á Íslandi. Bæði mun það draga úr hagvexti og auka atvinnuleysi, sem þegar er mikið", sagði Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins, og vísar til lykilstærða. Álverið skapi um 60 mrdISK/ár í gjaldeyristekjur og af þeim tekjum fari um 22-23 mrdISK/ár í að greiða fyrir innlenda þætti á borð við laun og raforku."
""Til að undirbyggja nýja uppsveiflu efnahagslífsins þarf að auka gjaldeyristekjur. Lokun álversins í Straumsvík færi þvert gegn því og myndi gera okkur erfiðara fyrir að snúa hagkerfinu frá samdrætti yfir í vöxt", segir Ingólfur."
Hver eru svo viðbrögð öflugasta ríkisfyrirtækis landsins, Landsvirkjunar, við fordæmalausum aðstæðum á Íslandi ? Af viðbrögðum forstjóra Landsvirkunar við aðalfrétt Morgunblaðsins 7. apríl 2020 að dæma eru þau bæði óyfirveguð, vanstillt og fálmkennd. Í viðtali Stefáns E. Stefánssonar við hann í Morgunblaðinu á bls. 12, 3. apríl 2020, kom ekkert handfast fram. Bara reykur til að villa stjórnvöldum sýn. Þessi sömu stjórnvöld verða nú að taka af skarið:
"Hann segir, að Landsvirkjun vinni náið með viðskiptavinum sínum og vilji tryggja samkeppnishæfni sína til lengri tíma litið. Því leiti fyrirtækið leiða til að koma til móts við viðskiptavini sína, m.a. með lengri gjaldfresti, þar sem það á við.
Fyrir skemmstu var greint frá því, að Rio Tinto í Straumsvík hefði kallað eftir samtali um endurskoðun á raforkusamningi við LV vegna breyttra markaðsaðstæðna. Hörður segir, að það samtal standi enn yfir."
Það er ekki langur tími til stefnu að leiða þetta mál til lykta, og tíminn hleypur frá landsmönnum og fyrirtæki þeirra, Landsvirkjun, vegna þess, hvernig þar er haldið á málum. Stjórnvöld ættu nú að vera meðvituð um, hvað þarf að gera.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.4.2020 | 11:22
Hagkerfi á heljarþröm
Kórónaveiran SARS-CoV-2 er ekki jafnbráðdrepandi og SARS-CoV-1, sem gekk í Kína og fáeinum öðrum ríkjum 2003-2004, en var ekki jafnsmitandi. Þekkt er frá þessari öld önnur og bráðdrepandi veira, sem olli EBÓLU-veikinni á afmörkuðu svæði Afríku, en hana tókst að hefta og kveða niður sem betur fór.
Mjög mismunandi dánarfregnir berast frá löndum um hlutfall dauðsfalla af af smituðum af SARS-CoV-2 veirunni. Á Íslandi virðist hlutfall látinna af fjölda sýktra vera einna lægst eða tæplega 0,6 %. Yfirleitt er hlutfallið 10-20 sinnum hærra. Á meðan svo er, er ekki hægt að áfellast stjórnun sóttvarna hérlendis, heldur vera þakklátur stjórnendunum og öllu heilbrigðisstarfsfólki.
Hins vegar er ljóst, að efnahagsleg fórnarlömb hérlendis og á alþjóðavísu verða fjölmörg, og íslenzka hagkerfið og hagkerfi heimsins verða lengi að ná sér, enda gæti verið um að ræða versta efnahagsáfall hérlendis síðan í Móðuharðindunum, þótt ólíku sé saman að jafna um fjárhagslegan og heilsufarslegan viðnámsþrótt. Verst er, að nægilega skelegga forystu virðist vanta á landsvísu og á meðal launþega til að sammælast um nauðsynleg neyðarlög til að draga úr reiðarslaginu á atvinnulífið. Fjármála- og efnahagsráðherra hefur þó á Alþingi viðrað það, að æðstu menn ríkisvaldsins gengju á undan með góðu fordæmi um launalækkanir. Verkalýðsforingjar virðast sumir halda, að ríkissjóður einn geti séð um að létta byrðum í nægilegum mæli af fyrirtækjum, sem nú brenna upp eigin fé sínu, til að þau tóri nógu lengi til að ná bata, þegar rofar til. Það er dýrkeypt strútshegðun.
Af grunnatvinnuvegunum mun matvælaframleiðslan braggast fyrst, iðnaðurinn mun vonandi braggast síðar á þessu ári eftir miklar fórnir, en ferðageirinn mun koma með gjörbreytta ásýnd, og þar verða ekki veruleg umsvif fyrr en 2021. Allt hefur þetta sýnt ofboðslega veikleika nútíma þjóðfélags. Það hlýtur að verða sett í framhaldinu mikið fé til höfuðs veirum til að draga úr líkum á faröldrum af þessu tagi. Þær virðast flestar gjósa upp í Kína, og hefur athyglin beinzt að matarmörkuðum þar, sem eru varla mönnum bjóðandi nú á tímum. Þar á ofan bætist hættan á, að hættulegar veirur sleppi út af rannsóknarstofum. Kínverski herinn mun t.d. reka eina slíka í borginni Wuhan, en veirur eru þróaðar í nokkrum löndum í hernaðarskyni.
Ragnar Árnason, prófessor emeritus við HÍ, ritaði þann 21. apríl 2020 eina hinna fróðlegustu greina í Morgunblaðið um hagfræðilegar afleiðingar COVID-19, sem birzt hafa í fjölmiðlum landsins. Hún hét:
"Covid-kreppan: Mesta efnahagshögg í heila öld"
Þar var boðskapurinn sá, að þegar upp verður staðið, mun tjónið af völdum veirunnar markast af viðbrögðunum. Sem fyrr erum við okkar eigin gæfu smiðir. Þá kvað hann "mikilvægt að átta sig á því, að hið opinbera, þ.e. ríki og sveitarfélög, getur ekki verið hjálpræði í þessari stöðu. Þessir aðilar eru ekki framleiðendur. Þeir ráðstafa einungis þeirri framleiðslu þjóðarinnar, sem hún lætur þeim í té með sköttum." Þess vegna er það arfavitlaus leið, sem þingmaður Samfylkingar lagði til sem lausn á atvinnuleysinu, að nú skyldi ríkið hefja stórfelldar ráðningar. Það eru villuljós af þessum toga, sem eru til þess eins fallin að lengja í hengingaról landsmanna. Það vantar framsæknar tillögur, sem lágmarka tjónið og flýta endurreisninni, sem jafnframt verður að fela í sér hraða uppgreiðslu lána til að vera í stakk búin að mæta næsta áfalli án þess að renna á rassinum í fang AGS.
"Afleiðingar Covid-faraldursins bitna á flestum höfuðgreinum íslenzks efnahagslífs. Ferðaþjónustan, sem lagt hefur beint um 8 % til íslenzkrar þjóðarframleiðslu og e.t.v. 10-12 %, þegar allt (beint og óbeint) er talið, hefur því nær verið þurrkuð út. Sjávarútvegur og stóriðja hafa orðið að þola verulegar verðlækkanir og sölutregðu. Framlag þessara atvinnugreina til þjóðarframleiðslunnar minnkar að sama skapi. Svipaða sögu má segja um fjölmargar iðnaðargreinar. Margar þjónustugreinar og verzlun hafa orðið að þola enn meiri samdrátt."
Þessar hörmungar hafa opnað augu manna fyrir því, að ferðaþjónustan er ekki venjuleg atvinnugrein, heldur stóráhættu grein ("high risk activity"). Fjárfestingar í þessari grein hljóta að draga dám af því. Greinin, sem hefur státað af að draga hlass "íslenzka efnahagsundursins" eftir 2009, er nú að miklu leyti við dauðans dyr í fangi ríkisins sem aðalfórnarlamb veirunnar. Það verður mjög áhættusamt að láta þessa grein áfram í framtíðinni verða stærstu gjaldeyristekjulind landsins. Það verður að þróa aðrar gjaldeyrislindir, sem eru ekki jafnsveiflugjarnar, og umfram allt þarf að fjölga stoðum gjaldeyrisöflunar. Bent hefur verið á fiskeldið í því sambandi, og yfirvöld landsins verða fremur að liðka þar fyrir nýjungum en að þvælast fyrir, t.d. varðandi þróun úthafskvía, sem t.d. Norðmenn eru með á tilraunastigi núna.
"Eins og staðan er núna, má fullvíst telja, að þjóðarframleiðsla Íslands minnki mjög mikið á þessu ári. Nánar tiltekið eru nú horfur á, að hún minnki um 10-15 % frá árinu 2019. Þetta merkir, að þjóðin hefur mrdISK 300-450 minna af raunverulegum verðmætum til að ráðstafa til neyzlu og fjárfestinga.
Ástæða er til að undirstrika, að hér er um gríðarmikið efnahagshögg að ræða, sennilega það mesta í heila öld. Þarf að leita aftur til ársins 1920 til að finna svipaða samdráttartölu í þjóðarbúskapnum. Jafnvel í kreppunni miklu 1931 og fjármálakreppunni 2008-2009, sem mörgum er í fersku minni, var samdrátturinn ekki svona mikill."
Af nýjustu fréttum má ráða, að efri mörk Ragnars, 15 % samdráttur þjóðartekna m.v. 2019, verði nær sanni. Það gefur til kynna, hver niðurfærsla launa í landinu þarf að verða til að aðlaga launastigið raunhagkerfinu í stað verðbólgu vegna gengissigs. Um 10 % m.v. meðallaunataxta 2019 er lágmarks tímabundin lækkun, sem æðsta stjórn ríkisins ætti að ganga á undan með til að vera fordæmisgefandi. Þetta mun létta og flýta fyrir endurreisninni.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
12.4.2020 | 18:13
Bandaríkin og Ísland
Fróðlegt er að bera saman stöðu Bandaríkjanna og Íslands nú á krepputíma. Ýmsir hagvísar bentu til þess fyrir SARS-CoV-2 kreppuna, að fjármálakerfi heimsins væri komið á yztu brún og að stutt væri í fjármálakreppu, þegar þessi veira tók að breiðast út fyrir Kína. Alþjóðleg fjármálakreppa var í raun orðin óhjákvæmileg vegna eignabólu langt umfram raunverðmæti í Bandaríkjunum (BNA) og misvægis á milli norðurs og suðurs á evrusvæðinu. Þetta misvægi í Evrópu er óbrúanlegt um fyrirsjáanlega framtíð vegna djúpstæðs mismunar, sem Evrópusambandið (ESB) hefur að sumu leyti magnað (frjáls för fólks hefur magnað vinnuaflsskort af völdum öldrunar samfélaga). Efnahagslegar afleiðingar CoVid-19 veikinnar bætast við eignabólusprengingu í BNA og væntanlegt uppgjör á evrusvæðinu. Þetta saman mun skapa djúpa og langvinna efnahagskreppu í heiminum. Við þessar aðstæður mun taka tíma fyrir tapaðar tekjulindir Íslendinga að jafna sig að fullu, og þess vegna er ekki hægt að búast við snöggum bata. Lífskjaraskerðing hérlendis er óhjákvæmileg, eins og annars staðar. Það væri fásinna að láta þessar aðstæður af völdum ytri krafta leiða til þjóðfélagsátaka hér.
Undir þetta rennir Kristrún Frostadóttir stoðum í grein sinni í Markaðnum 18. marz 2020:
"Hagstjórnarfyrirmynd annarra":
"Talsverður aðdragandi hefur verið að núverandi markaðstitringi víða um heim. Stutta útgáfan af sögunni snýr að áhrifum lágra vaxta og ódýrs fjármagns í Evrópu og Bandaríkjunum á skuldsetningu og sókn í ávöxtun síðastliðinn áratug.
Mikið fjármagn hefur streymt inn á hlutabréfamarkaði víða um heim, sérstaklega til Bandaríkjanna. Í upphafi ársins [2020] var markaðsvirði bandaríska hlutabréfamarkaðarins 160 % af landsframleiðslu. Árið 2007 var hlutfallið 100 %. Ásókn í ávöxtun hefur einnig ýtt undir hraðan vöxt fyrirtækjaskulda í formi skuldabréfa í Bandaríkjunum á meðan hægt hefur á útlánavexti banka.
Útgáfa annarra skuldaskjala hefur einnig stóraukizt, enda opinberar skuldir í Bandaríkjunum farið úr 60 % af VLF í rúmlega 100 % frá 2007.
Bandaríski fjármálamarkaðurinn, þ.e. hlutabréf að meðtöldum skuldabréfum ríkis og fyrirtækja, mældist þrefalt stærri en raunhagkerfið í upphafi ársins [2020], en var 185 % af hagkerfinu 2007. Húsnæðisskuldir hafa þó farið fallandi á þennan mælikvarða frá síðustu kreppu, úr 100 % af VLF í 75 %. Hraður vöxtur á fyrrnefndum mörkuðum leiðir líklega til kreppu í raunhagkerfinu, sem er langt umfram COVID áfallið."
Þarna er lýst sjúku ástandi fjármálakerfis, sem hlaut að enda með verðmætahruni, enda stóð það á brauðfótum. Skýringarinnar er að nokkru leyti að leita í lágum vöxtum Seðlabanka BNA, en lýsingin ætti þá að eiga í enn sterkari mæli við evrusvæðið, þar sem stýrivextir seðlabanka evrunnar hafa verið niðri við núllið. Die Bundesbank, Seðlabanki Sambandslýðveldisins, hefur verið mótfallinn þessari lágvaxtastefnu einmitt af því, að hún hvetur til óarðbærra fjárfestinga og spákaupmennsku, sem endar í útþaninni blöðru, sem er dæmd til að springa með alvarlegum afleiðingum fyrir almenning. Lágvaxtastefnan hefur hentað þýzku þjóðfélagi illa, því að Þjóðverjar spara mikið á bankareikningum, t.d. til elliáranna, og kunna ekki að meta mjög lága eða jafnvel neikvæða ávöxtun.
Hvað hafði Kristrún Frostadóttir að skrifa um stöðuna á Íslandi ?:
"Ójafnvægi hefur einnig verið til staðar í íslenzka hagkerfinu síðustu ár, en af öðrum toga. Laun hafa hækkað mikið samhliða vexti mannaflafrekra greina [á borð við ferðaþjónustuna - innsk. BJo] og mælast nú 55 % af VLF. Aðeins einu sinni á síðustu 50 árum hefur hlutfallið mælzt hærra eða 2007. [Þetta er ótvírætt hættumerki og vísbending til verkalýðshreyfingarinnar um, að nú sé tími kröfugerða á enda, en komið að því að einbeita sér að því að treysta grundvöll lífskjaranna með framleiðniaukningu-innsk. BJo.] Aukin greiðslugeta heimilanna, frekar en skuldsetning, hefur því drifið fasteignamarkaðshækkanir hér heima. [Þetta er ekki næg skýring á óhóflegum fasteignaverðshækkunum, heldur koma þar til aukinn kostnaður vegna byggingarreglugerðar, lóðaokur og lóðaskortur, aðallega í höfuðstaðnum - innsk. BJo.]
Til samanburðar hefur launahlutfallið farið nær stöðugt lækkandi í Bandaríkjunum frá 1970 og stendur nú í 43 %. [Þetta er enn óheilbrigðari þróun en á Íslandi. Raunlaun hafa á þessu tímabili lítið hækkað í BNA og launþegar verið hlunnfarnir um ávinning framleiðniaukningarinnar, þótt eðlilegt sé, að launþegar og vinnuveitendur skipti honum á milli sín - innsk. BJo.] Þetta er spegilmynd hækkana á hlutabréfamörkuðum vestanhafs, þar sem hagnaður fyrirtækja [og arðgreiðslur - innsk. BJo] hefur aukizt hratt á kostnað launafólks og samneyzlu. Þessi þróun hefur veikt stoðir samfélagsins til að bregðast við áföllum í bókstaflegri merkingu þessa dagana.
Hér hefur hlutabréfamarkaðurinn hins vegar lítið tekið við sér síðustu misseri þrátt fyrir mikinn hagvöxt, en markaðsvirði fyrir núverandi áfall var um þriðjungur af landsframleiðslu samanborið við 200 % árið 2007. Skuldabréfamarkaður með ríkis- og fyrirtækjabréf hérlendis er um 40 % af landsframleiðslu, en var tæplega 60 % árið 2007."
Nú eru stýrivextir Seðlabanka Íslands í sögulegu lágmarki, 1,75 %. Það ætti að styðja við endurfjármögnun fyrirtækja með hlutabréfakaupum í þeim, enda hafa nú myndazt þar kauptækifæri. Jafnframt er ljóst, að skuldabréfamarkaðurinn mun aukast á þessu ári vegna fjármögnunarþarfar hins opinbera og fyrirtækja, en ríkið hlýtur jafnframt að leita eftir lánveitingum erlendis. Mun þá reyna á raunverulegan trúverðugleika ríkissjóðs Íslands á erlendum lánamörkuðum og formlegt lánshæfismat, og hvort lausafjárþurrð er orðið vandamál á heimsvísu. Seðlabanki Íslands ætlar að hindra offramboð skuldabréfa með því að kaupa þau á eftirmarkaði, og fetar þar í fótspor margra annarra seðlabanka, þótt hann hafi látið þetta ógert síðan 1993.
Botninn virðist vera dottinn úr álmörkuðum heimsins með álverð að nálgast 1400 USD/t, en fisk og aðrar matvörur verður fólk að kaupa, hvernig sem allt veldur, svo að sjávarútvegur og fiskeldi sigla vonandi hraðbyri gegnum þessa gríðarlega erfiðu tíma. Nú berast þó þau tíðindi af sjávarútvegi, að útflutningsverðmæti hans kunni að dragast saman á þessu ári vegna afleiðinga SARS-CoV-2 veirunnar bæði hérlendis og erlendis. Vonandi nær sjávarútvegurinn þó fljótt og vel vopnum sínum, því að við þurfum á öllu að halda til að laga viðskiptastöðuna við útlönd.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)