Færsluflokkur: Fjármál

Átrúnaðargoðið gallað

Á Alþingi er margt fólk, sem ákallar evruna með svipuðum trúarhita og sameignarsinnar ákölluðu Ráðstjórnarríkin og blóði drifið alræðisstjórnkerfi þeirra á sinni tíð.  Af máli evrusinna í Viðreisn og Samfylkingu má ráða, að þeir telji inngöngu Íslands í Evrópusambandið (ESB) og upptöku evrunnar sem lögeyris frelsun Íslendinga undan ánauð hárra  vaxta og verðbólgu.  Jafnvel þetta fer þó á milli mála, þegar þróun þessara mála í löndum ESB, t.d. í Eystrasaltslöndunum, er skoðuð.  Hitt er þó aðalatriðið, að það er grunnhyggið viðhorf að reisa skoðun sína á yfirborðslegri athugun í stað þess að kryfja málið til mergjar. 

Það hefur lengi verið áhyggjuefni í Evrópu, hversu mjög verg landsframleiðsla og lífskjör í ESB hafa dregizt aftur úr Bandaríkjunum.  Framkvæmdastjórn ESB fékk þess vegna fyrrverandi seðlabankastjóra evrunnar í Frankfurt am Main og fyrrverandi ítalskan forsætisráðherra, Mario Draghi, til að greina ástæður hagvaxtarvanda ESB-ríkjanna og gera tillögur til úrbóta.  Draghi benti á, að frá upptöku evrunnar hefur framleiðni vinnuafls í ESB sem hlutfall af framleiðni vinnuafls í Bandaríkjunum minnkað.  Það er freistandi að nota tölfræði til að slá fram bólgnum fullyrðingum.  Þetta er vissulega sláandi samhengi, þótt fleiri skýringar megi tína til, sem þá magna afturförina í ESB. 

 

Nú hefur komið fram gagnrýni á Draghi fyrir að minnast ekki á evruna sem eina af fleiri skýringum á afturför eða stöðnun í hagkerfum ESB-landanna.  Kannski vill bankastjórinn fyrrverandi ekki kasta rýrð á evruna, því að staða hennar er viðkvæm og veikari en Bandaríkjadalsins, á meðan evru-ríkin eru ekki með sameiginlegan ríkissjóð og fjárlög, en það verður líklega eftir að frýs í helvíti. Þann 30. september 2024 birtist í Morgunblaðinu viðtal Ásgeirs Ingvarssonar við dr Jón Helga Egilsson undir fyrirsögninni:   

"Aukin samvinna krefst ekki evru".

"Dr Jón Helgi Egilsson, meðstofnandi og stjórnarformaður fjártæknifélagsins Monerium og fyrrverandi formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands, segir skýrsluna um margt athyglisverða, en þögn Draghi um þátt evrunnar í vandanum sé æpandi.  Jón Helgi bendir á, að skýrslan sýni viðsnúning og hnignun frá upptöku evru fyrir aldarfjórðungi, en sú staðreynd sé ekkert rædd.  "Ekki er að finna orð um það á þessum 397 blaðsíðum.  Það vita það allir, að evran hentar mörgum aðildarríkjum ESB illa, og það hefur áhrif á framleiðni þeirra og samkeppnishæfni.  Af hverju má ekki ræða það, ef markmiðið er að takast á við áratuga hlutfallslega hnignun í Evrópu."

Það er skiljanlegt, að fyrrverandi aðalbankastjóri evrubankans í Frankfurt am Main eftirláti öðrum að benda á hinn augljósa sökudólg, til að hann verði ekki sakaður um að grafa undan evrunni, en hann birtir í staðinn graf, sem sýnir, að framleiðni vinnuafls í ESB hætti að vaxa, þegar Maastricht-sáttmáli evrunnar sá dagsins ljós, og hefur lækkað síðan.  Þetta eru a.m.k. ekki meðmæli með evrunni.  Hagsveiflan á Íslandi er ekki í góðum takti við hagsveiflu þungamiðju evrunnar, og þess vegna mundi íslenzkt hagkerfi verða á meðal þeirra, sem líða fyrir að nota evru sem lögeyri. Pólitískum sprelligosum er ekki gefin rökhugsun, en telja sig geta flotið á tilfinningum sínum og upphrópunum.  Almenningur sér í gegnum innantóman fagurgalann.

"Jón Helgi segir evruna vissulega bara einn af fleiri þáttum, sem valdi hægum vexti evrópska hagkerfisins.  Í umræðunni, sem spunnizt hefur um skýrslu Draghis, hefur m.a. verið bent á, að breytingar á aldurssamsetningu evrópsks vinnuafls og afslöppuð vinnumenning í Evrópu kunni að skýra rólegri hagvöxt í álfunni, og eins geri mikill uppgangur bandaríska tæknigeirans allan samanburð óhagfelldan."

Það er þó fleira, sem hér kemur við sögu, og ber fyrst að nefna fleiri og öflugri árangurs og afkastahvata efnahagskerfis BNA en ESB, lægri skattheimtu og minni opinber umsvif, sem alls staðar eru dragbítar á hagkerfið.  Orkuverð, bæði á jarðefnaeldsneyti og rafmagni, er lægra í BNA en í ESB.  Þetta er lærdómsríkt fyrir Íslendinga, sem glíma við háa skattheimtu og mikil opinber umsvif.  Það, sem bjargar lífskjörunum á Íslandi, er há framleiðni grunnatvinnuveganna (ekki túrismans) og lágt raforkuverð til almennings. Með ríkisstjórn undir forystu Samfylkingar og án Sjálfstæðisflokks verður skattheimtan aukin, ríkisbáknið þanið enn meira út og ríkissjóður látinn safna enn meiri skuldum.  Þessi stefna jafnaðarmanna, sem hefur t.d. verið stunduð undanfarinn áratug við stjórnun Reykjavíkurborgar, mun raska jafnvæginu í hagkefinu, kynda undir verðbólgu og reka hagvöxt niður að núlli. Allt þetta lækkar ráðstöfunartekjur heimilanna.

"Að mati Jóns Helga má samt ekki hunza áhrif evrunnar.  "Vissulega eru fleiri þættir en gengi gjaldmiðla, sem hafa áhrif á samkeppnishæfni og famleiðni, en er þessi skýri viðsnúningur tilviljun ?  Sameiginlegur gjaldmiðill er eðli málsins samkvæmt ekki fær um að endurspegla efnahagslegan veruleika einstakra aðildarríkja.  Lönd, eins og Grikkland, Ítalía og Spánn, sem áður höfðu eigin gjaldmiðla, sem löguðu sig að þeirra efnahagslega raunveruleika, gátu áður endurheimt samkeppnishæfni sína í kjölfar efnahagsáfalla og breytinga. Þessi lönd misstu þennan sveigjanleika við upptöku evrunnar", segir hann.  Þetta varð sérstaklega áberandi eftir fjármálakreppuna 2008, þegar þessi lönd stóðu frammi fyrir gríðarlegum efnahagsáföllum án möguleika á aðlögun, nema í gegnum vinnumarkaðinn með tilheyrandi langvarandi atvinnuleysi og þeim hörmungum, sem slíku fylgja, auk brottflutnings vel menntaðs og hreyfanlegs vinnuafls til annarra landa innan og utan Evrópu, sem enn sér ekki fyrir endann á.""

Íslendingar urðu illilega fyrir barðinu á téðri fjármálakreppu 2007-2009, en lífskjaraáfallið hefði orði enn stærra en sem nam 6 % samdrætti landsframleiðslu og varað lengur en 4 ár, ef landið hefði þá verið í ESB og með evru sem lögeyri.  Þótt ISK (og seðlabanki hennar) sé ekki lamb að leika sér við, er hún þó eins konar öryggisloki fyrir hagkerfið og lífskjör almennings. Samfylking og Viðreisn eru fús til að fórna hagvexti og þar með lífskjörum almennings til að fullnægja pólitískri meinloku sinni. 

"Þykir Jóni Helga löngu tímabært að skoða hlut evrunnar í mikilli hnignun efnahagslífs Evrópu og endurskoða kröfuna um, að aðildarríki verði að nota evru.  "Af hverju að undanskilja heiðarlega greiningu á þætti evrunnar í hnignun framleiðni og samkeppnishæfni Evrópu, og láta sem sameiginlegur gjaldmiðill skipti ekki máli ?  Hann skiptir heldur betur máli", segir Jón Helgi og bætir við, að það að forðast þessa umræðu, eins og Draghi geri í sinni skýrslu, sé að setja kíkinn fyrir blinda augað."  

Þetta eru tímabærar umræður á Íslandi nú í aðdraganda kosninga, þegar sumir líta öfundaraugum til þjóða með evru sem lögeyri og benda á lægra vaxtastig en hér tíðkast.  Á þeim peningi eru þó 2 hliðar.  Þjóðverjar, sem eru miklir sparendur, eru óánægðir með lágt vaxtastig evrubankans, sem hefur gefið þeim afar lága raunvexti m.v. það, sem tíðkaðist á dögum DEM.  Á Íslandi eru líka margir sparendur, einkum í eldri kantinum, þrátt fyrir vinstri dellu um fjármagnstekjuskatt og skattheimtu af verðbótum. Ráðstöfunartekjur launa á Íslandi eru með þeim hæstu, sem þekkjast í Evrópu, og veitir ekki af vegna hás verðlags.  Allur samanburður á milli landa er flókinn.    

 

 


Meingallaður og varasamur samgöngusáttmáli

S.k. Samgöngusáttmáli fyrir höfuðborgarsvæðið er reistur á röngum forsendum, enda hefur hann hlotið alvarlega og málefnalega gagnrýni fagfólks.  Hann er hugarfóstur og óskhyggja stjórnmálamanna, en án jarðtengingar við raunveruleikann að talsverðu leyti. Hann opnar fyrir stórhættu á bruðli með almannafé vegna kolrangrar forgangsröðunar verkefna, og bráðnauðsynleg verkefni um allt land munu fyrir vikið líða fyrir enn meiri fjárskort en ella. Amatörar í verkefnastjórn virðast síðan eiga að höndla með þennan sáttmála í stað þess að framkvæma rökrétta forgangsröðun með ströngum reglum verkefnastjórnunar, sem tryggja eins góða meðferð opinbers fjár og kostur er. 

Miðjusett borgarlína leysir engan umferðarvanda. Hún magnar hann, því að hún mun þrengja að almennri bifreiðaumferð, og hún mun ekki ná að draga til sín nógu marga farþega til að fækka svo bílum í umferðinni, að auknar tafir hennar vegna verði vegnar upp. Því mun fara fjarri.  Borgarlínan mun fara úr böndunum fjárhagslega m.v. hvert stefnir nú, og hún verður hræðilegur fjárhagslegur myllusteinn um háls sveitarfélaganna, sem hafa ekki efni á þessu bruðli.  Bruðl er það, þegar offjárfest er m.v. þörfina, og þessi offjárfesting slær líklega öll slík met í landinu.  Það er algert dómgreindarleysi að hleypa þessu afkvæmi Samfylkingarinnar jafnlangt og raun ber vitni um núna. 

Svana Helen Björnsdóttir, formaður Verkfræðingafélags Íslands og bæjarfulltrúi á Seltjarnarnesi, ritaði ítarlega og rökfasta grein um þennan dæmalausa sáttmála, sem birtist í Morgunblaðinu 12. september 2024 undir fyrirsögninni:  

   "Alvarlegir ágallar samgöngusáttmálans".

"Ágallar samgöngusáttmálans eru m.a. þessir:

1. Fyrst ber að geta þess, að samgöngusáttmálinn er út frá fræðum verkefnastjórnunar ekki verkefni (e. project), heldur verkefnaáætlun (e. program).  Í verkefnaáætluninni er listi af verkefnum, sem ná yfir a.m.k. 16 ár, þ.e. til ársins 2040.  Á þessu tímabili munu fara fram fjórar sveitarstjórnarkosningar.  Það skiptir öllu máli, að verkefnaáætlunin byggi á vönduðu stjórnkerfi verkefnastjórnsýslu (e. project governance framework).  Rannsóknir, sem gerðar hafa verið á opinberum framkvæmdum hér á landi á síðari árum sýna fram á, að við Íslendingar erum langt á eftir öðrum þjóðum, þegar kemur að verkefnastjórnsýslu." 

Skilningur "Betri samgangna" á verkefnastjórnsýslu virðist því miður ekkert skárri en almennt hjá hinu opinbera, og það er ávísun á fjárhagslegt fúafen.  Sum einkafyrirtæki kunna góð skil á kerfisbundinni verkefnastjórnun allt frá verkefnishugmynd að afhendingu framkvæmdarinnar til eigandans eftir vel heppnaða ræsingu og frágengnar úrbætur.  

Forgangsröðun verkefna í tímaröð er heldur ekki reist á almennri skynsemi, því að samkvæmt almennri skynsemi ætti að ráðast fyrst í afmarkaðar aðgerðir, sem bæta augljóslega umferðarflæðið og eru þess vegna arðsamastar.  Enn ríkir í Reykjavík forkastanlegt og sérvizkulegt bann við mislægum gatnamótum, sem leiðir til klúðurslegra lausna með ljósastýringum og þar af leiðandi hættu á gatnamótum.  Fordild og ofstæki Samfylkingarvitringanna um umferðarmál lætur ekki að sér hæða.  

"Þannig hafa nær allar opinberar stórframkvæmdir hér á landi farið umtalsvert fram úr kostnaðar- og tímaáætlunum.  Nægir að nefna Hörpu, nýjan Landsspítala og Vaðlaheiðargöng.  Lítil viðleitni hefur verið í opinbera stjórnkerfinu, m.a. í fjármálaráðuneytinu, til að bæta úr þessu.    

Upplýsingar um vandað stjórnkerfi verkefnastjórnsýslu til að stjórna verkefnaáætlun og einstökum verkefnum vantar í gögn um sáttmálann.  Það virðist m.ö.o. ekki vera gert ráð fyrir faglegri verkefnastjórnsýslu í samgöngusáttmálanum."   

Þeir, sem halda um taumana í apparatinu Betri samgöngum, virðast m.ö.o. ekki hafa þá verkþekkingu, hvað þá sérþekkingu á verkefnastjórnun, til að gera sér grein fyrir mikilvægi hennar við undirbúning, framkvæmd og frágang stórverkefna.  Það er stórhættulegt að spyrða saman svona mörg verk í eina verkefnasyrpu án þess að hafa nokkra þekkingu á því, hvernig bezt er og hagkvæmast að standa að stjórnuninni. Hvers vegna er verið að búa til þetta pólitíska apparat, Betri samgöngur, þegar Vegagerðin er fyrir hendi og á lögum samkvæmt að sjá um stofnbrautir í þéttbýli ?  Er það til þess að koma hinu pólitísk gæluverkefni Borgarlínunni á koppinn, þótt fjárhagur borgarinnar sé nú með þeim endemum, að hún hefur ekki efni á Strætó, hvað þá "strætó á sterum", og er að koma þessu vonlausa fyrirbæri yfir á ríkið. Samfylkingin og fylgihnettir hennar í borgarstjórn er ekki bara fjárhagslegt vandamál vegna báknsútþenslu og bruðls, heldur samgönguvandamál, því að hún hefur gelt aðalskipulagið með fíflagangi eins og að fjarlægja mislæg gatnamót þaðan.  Í mörgum tilvikum eru þau hagkvæmasti og öruggasti kosturinn, og þess vegna fyrsti valkostur Vegagerðarinnar.  Þarna er sama sagan og í orkumálunum.  Rugludallar vinstrisins standa í vegi framfara.  Til að höggva á hnútinn þarf þá að koma til kasta Alþingis. 

 "Við samanburð á upplýsingum Vegagerðarinnar frá 2023 og gögnum samgöngusáttmálans kemur í ljós, að forsendur, verk- og tímaáætlanir sáttmálans byggja á veikum grunni."

Sáttmálinn og Betri samgöngur eru pólitísk hugarfóstur, þar sem umferðartæknileg þekking og almenn verkefnastjórnunarþekking koma lítið sem ekkert við sögu.  Slíkt ber eðli málsins samkvæmt feigðina í sér og ætti að spara skattgreiðendum stórfé með því að leysa hvort tveggja upp. 

"Fjármögnun verkefna samgöngusáttmálans er forsenda þess, að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu geti með góðri samvizku axlað fjárhagslega ábyrgð á sáttmálanum.  Sveitarfélögin eru öll illa stödd fjárhagslega eftir að hafa tekið við fjölda verkefna frá ríkinu á síðustu áratugum án þess, að tilsvarandi fjármagn hafi fylgt.  Rekstur sveitarfélaganna, sem bera eiga þessa fjárhagslegu skuldbindingu, er þegar í járnum, og munu þau varla ráða við þann aukakostnað, sem hlýzt af samgöngusáttmálanum, hvorki á framkvæmdatíma né síðar, þegar rekstur kerfisins tekur við."

Þetta er skýringin á draugaganginum í kringum borgarlínu, sem lýst hefur sér í furðuvendingum á borð við samgöngusáttmála og Betri samgöngur, sem hvort tveggja er óþarft, ef allt er með felldu.  Hvort tveggja verður hengingaról sveitarfélaganna og Samgönguáætlunar Alþingis, sem sveltur illu heilli fyrir vikið. 

"5. Í uppfærðum samgöngusáttmála er gert ráð fyrir, að Betri samgöngur ohf. fari fyrir verkefnum sáttmálans og fái heimildir til lántöku.  Annars vegar verða það lán, sem sveitarfélögin ábyrgjast til framkvæmda og hins vegar lán með ríkisábyrgð til að fjármagna nauðsynleg húsnæðis- og lóðakaup og niðurrif vegna framkvæmda við stofnvegi.  Þar sem fjárhagur sveitarfélaganna allra er bágur, er nokkuð ljóst, að framkvæmdir verða að mestu fjármagnaðar með lántöku.  Sú ábyrgð, sem sveitarfélögin undirgangast í því efni, er gríðarlega mikil og óvissan einnig mjög mikil.  Auk þess virðist ekki vera gert ráð fyrir fjármagns- og vaxtakostnaði í kostnaðaráætlunum.  Sveitarfélögin eru hér sett í mjög erfiða stöðu, því [að] gríðarleg fjárhagsleg áhætta fylgir því að undirrita sáttmálann." 

Þetta nær engri átt.  Með allt á hælunum, hvað áætlanagerð varðar, á að þröngva sveitarfélögunum út í skuldafen, sem mun standa þeim fyrir þrifum í marga áratugi, á meðan örfáar hræður munu nota hugarfóstur Samfylkingarinnar, "strætó á sterum", sem er allt of fyrirferðamikill á samgönguásum höfuðborgarsvæðisins m.v. þær örfáu hræður, sem nota hann allt árið.   


Rotið ráðhús í boði Samfylkingar

Nýr formaður Samfylkingar fer mikinn í því skyni að búa til ímynd jafnaðarflokks með kjörþokka, en Samfylkingin féll ekki af himnum ofan.  Hún er með hugmyndafræðileg og persónuleg lík í lestinni, sem nýr formaður hefur ekki losað sig við.  Því fer fjarri, að æðstu fulltrúar flokksins vinni af einlægni að bættum hag almennings.  Flokkurinn hefur tekið ábyrgð á borgarstjóranum fyrrverandi, Degi B. Eggertssyni, og ekki fett út í ámælisverð vinnubrögð hans, en það hefur aftur á móti fyrrverandi borgarstjóri séð ástæðu til að gera í fjölmiðli, sem hann ritstýrir.  

Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins 10.05.2024 bar fyrirsögnina:

"Ráðhúsinu breytt í spillingarbæli ?"

Þar var fáheyrður gjafagjörningur borgarinnar til handa olíufélögum, sem láta af sölu jarðefnaeldsneytis á tilteknum lóðum í borginni, gerður að umfjöllunarefni, og birtist þar í hnotskurn spillingareðli jafnaðarmannaflokksins, sem af hræsni reynir að breiða yfir sitt rétta eðli með orðskrúði:

"En samningarnir við þessi félög [olíufélögin] byggðust allir á því, að myndu olíufélögin láta af þeim rekstri, gengju lóðirnar til borgarinnar á ný og hún gæti skipulagt þær að sínum hentugleikum og úthlutað eftir eðlilega samkeppni.  Í Morgunblaðinu hefur margoft verið á það bent, að þessi mál hafi þróazt illa og bragðarefir beggja vegna borðs ákveðið að koma málinu í farveg, sem algjörlega væri sniðinn að persónulegum hagsmunum þeirra félaga, sem bar að skila lóðunum til borgarinnar á ný, þegar eldsneytisstarfsemi þeirra væri úr sögunni.  Stórundarleg væri sú framganga Dags B. Eggertssonar að koma þessu vonda máli "í gegn" og troða því niður kok borgarbúa í fullkomnu heimildarleysi." 

Það er grafalvarlegt spillingareinkenni á fyrrverandi borgarstjóra og samverkamanna hans og í raun á Samfylkingunni, hverrar formaður lætur þessa ósvinnu viðgangast í höfuðborginni, að færa gróðapungum eign borgarbúa á silfurfati gjörsamlega að þarflausu viðskiptalega og lagalega séð. Þetta verður bautasteinninn yfir ráðsmennsku Samfylkingarinnar í Reykjavík.  Flokkurinn ætti ekki að eiga sér viðreisnar von í borginni eftir þetta baktjaldamakk við peningapúka á kostnað borgarbúa.  Þetta er jafnaðarstefnan í reynd.  Þess vegna flæðir alls staðar í heiminum undan henni. 

"Kerfið, sem þáverandi borgarstjóri lét klambra saman í kringum tilbúning þessa máls, er algerlega óþekkt í borgarkerfinu, þótt einstök dæmi séu til um slíka aðgerð í þinginu [á dögum vinstri stjórnar Samfylkingar og VG - innsk. BJo], en þau lúta öðrum lögmálum.  Hér var allt byggt á því, að koma þyrfti tugum milljarða [ISK] frá borgarbúum til gæðinga og með hinni skrítnu aðferð.  Sett var upp lokað herbergi, sem borgarfulltrúar gátu farið inn í einir (!) og án þess, að neinar upplýsingar væru veittar, eða þeir fengju að bera sig saman við sína samstarfsmenn.  Minnihlutinn átti þannig ekki nokkur tök á því að ræða þetta mikla mál í sínum ranni.  Og engin rök lágu til þessara undarlegheita."

 Þessi ólýðræðislegu vinnubrögð eru kennimörk jafnaðarmanna og annarra sameignarsinna, sem hvorki skilja né virða grundvallaratriði lýðræðisins, og við slíkar aðstæður skýtur alltaf óhugnanlegum krumlum Leníns og Stalíns upp á yfirborðið.  Jafnaðarmenn játast lýðræðinu aðeins af illri nauðsyn á yfirborðinu.  Annars gildir bara hið sama og hjá löglausum einræðisherrum: "Tilgangurinn helgar meðalið".  (Der Erfolg berechtigt das Mittel.) 

Það er óskiljanlegt, að minnihluti borgarstjórnar skyldi láta beita sig þessum fantatökum.  Þetta mál hefði átt að fara til sveitarstjórnaráðuneytisins og til dómstóla.

Höfundur Reykjavíkurbréfsins dregur reyndar ekkert undan og af uppljóstruninni má álykta, að víðar þurfi að hreinsa til og lofta út.  Sérhagsmunagæzla af þessu tagi er dauðasök í pólitík:

 "Það sárgrætilega var svo til viðbótar, að leiðtogi stærsta minnihlutaflokksins í borgarstjórn tók þátt í því að leiða málið hjá sér, en greiða atkvæði sitt með því á lokapunkti.  Ekki verður séð, að nein önnur skýring sé á svo óábyrgri hegðun en eiginmaður leiðtogans sé sérstakur sendiboði og hlaupastrákur Jóns Ásgeirs Jóhnnessonar, eins af stóru þiggjendunum í þessu sóðalega svindli.  Öllum öðrum borgarfulltrúum var vorkunn, þótt þeim fipaðist, enda refirnir til þess skornir, að hver og einn þeirra gæti ekki rætt þetta mikla mál í sínum hópi, nema eftir minni úr stuttu stoppi í "leyniherberginu". 

 Sjálfstæðisflokkurinn glataði þarna gullnu tækifæri til að sýna kjósendum, að hann hefði burði til að leiða nauðsynlega siðbót í borgarstjórn eftir áralangt sukk Samfylkingar við kjötkatlana.  

Leiðtogi borgaralegs flokks, sem vill sýna, að í honum sé einhver veigur, en tekur þátt í "sóðalegu svindli" á kostnað skattborgaranna, fremur þar með pólitíska kviðristu og glatar siðferðislegum grundvelli til að leiða sjálfstæðismenn til sigurs í borginni.  Sá hjalli er nógu erfiður samt. 

""Í viðtengdri frétt segir af lítilsvirtri fréttakonu á RÚV.  María Sigrún, fréttamaður, fékk þá umsögn frá  yfirmanni, að hún væri skjáfríð, en kynni ekki "rannsóknarfréttamennsku", eins og það heitir í Efstaleiti.  Hugtakið nær einnig til byrlunar og stuldar, samkvæmt viðurkenndu verklagi ríkisfjölmiðilsins.  Fréttir án rannsóknar eru trúlega réttum megin við lögin.  En þær má ekki segja.

María Sigrún vann frétt, sem kom við kaunin á Degi, fyrrum borgarstjóra, og vinstri meirihlutanum í ráðhúsinu við Tjörnina. Stefán, útvarpsstjóri, hefur ekki tjáð sig um meferðina, sem María Sigrún sætir.  Áður en Stefán varð útvarpsstjóri fyrir 4 árum var hann staðgengill Dags, borgarstjóra, og bar titilinn borgarritari.""

Í téðu Reykjavíkurbréfi er ofangreind tilvitnun í Pál Vihjálmsson, bloggara og kennara.  Höfundur þessa pistils hér sá umræddan þátt Maríu Sigrúnar og getur vitnað um, að honum þótti vera um afbragðs fréttamennsku að ræða, og þess vegna er úthúðun einhverra montinna "Kveikjara" út í hött og næg ástæða til, að taka ætti í hnakkadrambið á ófaglegum monthananum.  Ummæli af þessu tagi um samstarfsmann eru með eindæmum ruddaleg og í þessu tilviki út í hött.  Þau ættu því að öðru jöfnu að hafa alvarlegar afleiðingar fyrir fyrir þann, sem lét sér þau um munn fara, en í ormagryfju fréttastofu RÚV gerist það ekki.  Þetta opinbera hlutafélag er ekki hafið yfir siðræn viðmið.  Það er löngu tímabært að draga verulega úr umsvifum þarna, kostnaði skattborgaranna og vandræðum einkarekinna fjölmiðla vegna risans, sem gín yfir markaðinum.  

  

  


Forsetaembætti í mótun

Segja má, að forsetaembættið á Íslandi sé dálítið kindugt m.v. það, sem annars staðar þekkist.  Þar sem meginhlutverkið er þjóðhöfðingjahlutverkið (head of state), en pólitísk völd afar takmörkuð, þar er yfirleitt hafður sá háttur á, að þjóðþingið velur forsetann, og gefur þá auga leið, að stjórnmálaflokkarnir hafa þar hönd í bagga, og það getur sett sitt óheppilega mark á störf forsetans.  Í frumvarpi til Alþingis um stofnsetningu forsetaembættis var m.v. þennan hátt, en þingið breytti þessu fyrirkomulagi við sína umfjöllun og gerði forseta þjóðkjörinn í lögunum. Það breytir stöðu forsetans til hins betra og styrkir hann í aðhalds- og eftirlitshlutverki með Alþingi.

Síðan 1952 hafa stjórnmálaflokkarnir reynt að halda sig til hlés við val á forseta, en það þýðir ekki, að frambjóðendur hljóti að vera ópólitískir.

Það er einsdæmi á Íslandi, og þótt víðar væri leitað, að forsætisráðherra stigi niður af valdastóli og sækist eftir þjóðhöfðingjaembætti með afar takmörkuð völd.  Þennan fordæmalausa gjörning framdi Katrín Jakobsdóttir um páskana 2024 og hefur síðan lýst því yfir, að hún vilji sameina þjóðina að baki sér.  Það er útilokað, að fyrrverandi ráðherra, sem stóð að lagasetningu um Icesave-nauðungina tvisvar sinnum að þarflausu, eins og síðar kom í ljós við úrskurð EFTA-dómstólsins í janúar 2013, og sem er andsnúin aðild Íslands að NATO, njóti nægilegs trausts þorra þjóðarinnar.  Borgaraleg öfl ættu að hugleiða rækilega, að einstaklingur með slíka fortíð og pólitískar jaðarhugmyndir um lífshagsmuni elur í raun á sundrungu á meðal þjóðarinnar, ekki sízt með búsforræði á Bessastöðum. 

Framganga umdeilds stjórnmálafræðings við Háskóla Íslands, Baldurs Þórhallssonar, hefur að vonum ekki verið hnökralaus, en gengi sitt í skoðanakönnunum má hann sennilega þakka PR-kæti sinni og landsþekktum makanum Felix Bergssyni, en Baldur verður þó aldrei "forsetalegur" talinn og skortir fyrirmannafas.  Hann beit höfuðið af skömm sinni um daginn, þegar hann var spurður, hvernig hann hafi greitt atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslunum tveimur um Icesave.  Hann bar þá við minnisleysi, þannig að svar kom ekki.  Hvort sem hér er um óheilindi að ræða hjá Baldri eða alvarlega heilahrörnun, dæmir þetta atvik hann úr leik, ef allt er með felldu. 

Baldur hefur lengi verið ötull talsmaður inngöngu Íslands í Evrópusambandið (ESB).  ESB var meðflutningsaðili Breta og Hollendinga að þessu máli gegn Íslandi fyrir EFTA-dómstólinum, og ýmsir fylgjendur ESB-aðildar fylgdu vinstri stjórninni 2009-2013 að málum í afstöðunni til Icesave-deilunnar.

Forstjóri Orkustofnunar (OS), Halla Hrund Logadóttir, er í framboði og hefur hlotið ótrúlega gott gengi í skoðanakönnunum.  Skyldi hún hafa verið krufin um stjórnmálaskoðanir sínar, t.d. um afstöðuna í utanríkismálum ?

Morgunblaðið brá birtu yfir kynningarmál þessa frambjóðanda með frétt 27. apríl 2024, sem setur stjórnarhætti Höllu Hrundar ekki í gott ljós, en forsetaframbjóðandi ætti að þurfa að hafa flekklausa ferilskrá til að ná góðum árangri í kosningum:

"Samskiptastjóri OS í frí og kosningastarf":

"Meginreglan hjá ríkinu er, að auglýsa beri laus störf og að þau séu ótímabundin, en í afmörkuðu verkefni má nota tímabundnar ráðningar eða þjónustu verktaka, yfirleitt til tveggja mánaða.

Ekki er ljóst, hvort það eigi við Karen [Kjartansdóttur, samskiptastjóra OS [Orkustofnunar] í verktöku - innsk. BJo], sem þar hefur starfað samkvæmt samningi OS við fyrirtækið Langbrók ehf., þar sem hún er einn eigenda.  [Það er ljóst, að starf samskiptastjóra OS er ekki tímabundið verkefni til 2 mánaða eða annars stutts tíma, og þess vegna hefur Orkumálastjóri farið á skjön við ráðningareglur ríkisins með þessum gjörningi gagnvart Langbrók ehf.  Þegar greiðsluupphæð OS fyrir þessa þjónustu er skoðuð, virðist vera komið efni í úttekt Ríkisendurskoðanda á stjórnarháttum í OS - innsk. BJo.]

Ekki liggur heldur fyrir, hvort verkefnið var auglýst, eins og venja er [vildargjörningur ?], en það er ekki að sjá á vef OS eða félagsmiðlum, þar sem vakin er athygli á lausum störfum.

Samningurinn var gerður til eins árs hinn 31. marz 2023 og var nýlega framlengdur um annað ár og er enn í gildi.  Aðrir starfsmenn Langbrókar munu sinna verkefnum OS [á] meðan Karen er í leyfi, en ljóst, að hún hefur a.m.k. í tæpar 3 vikur samtímis sinnt störfum fyrir bæði Orkustofnun og forsetaframboð Höllu Hrundar."

Þarna er flett ofan af of veikri hagsmunagæzlu Höllu Hrundar fyrir ríkissjóð, sem hún er á launum hjá, þegar einkahagsmunir hennar sjálfrar eru annars vegar.  Þetta er merki um siðferðisbrest, sem taka ber alvarlega hjá einstaklingi í forsetaframboði, og rétt fyrir kjósendur að taka sem viðvörun um, að þeir kunni að vera að kaupa köttinn í sekknum með því að kjósa þann sama einstakling sem forseta lýðveldisins. 

 "Í samninginum er sérstaklega kveðið á um hagsmunaárekstra, og að það sé á ábyrgð Langbrókar ehf. og Karenar að fyrirbyggja slíkt.  [Í þessu tilviki fær Halla Hrund Karen til að starfa að kynningarmálum framboðs síns, þótt Halla viti ósköp vel, að Karen vinnur áfram sem verktaki fyrir Orkustofnun.  Þetta er fingurbrjótur Höllu Hrundar - innsk. BJo.]

Allt frá því, að fyrrgreindur samningur var gerður, hefur Orkustofnun greitt Langbrók MISK 12,8 samkvæmt opnum reikningum ríkisins.  Langbrók hefur unnið að ráðgjöf fyrir ýmsa aðila aðra, þ.á.m. Landsvirkjun, Landsnet, Norðurál og Alcoa Fjarðaál. 

Í samninginum var kveðið á um, að Langbrók héldi sundurliðað verkbókhald, en við eftirgrennslan OS kom í ljós, að slíkt yfirlit hefur ekki fylgt með reikningum.  Stofnunin hyggst framvegis fylgja því eftir, að verkbókhald og/eða tímaskýrslur fylgi reikningum."

Hver hefur heimild til að samþykkja reikninga frá verktakanum Langbrók ehf. án fylgiskjala, sem áskilin  eru í pöntuninni ?  Hér er um að ræða meiri háttar lausatök í stjórnsýslu OS á ábyrgð forstjórans, Höllu Hrundar Logadóttur.  Upphæðin, MISK 12,8, er þó ekki smáræði fyrir vinnu Karenar í heilt ár, sem enginn veit í hverju var fólgin.  Hefur einhver heyrt þennan samskiptastjóra koma fram fyrir hönd OS ?

Nú er ljóst, að frambjóðendur í forsetakjöri 2024 verða 12 (postulatalan).  Starfslýsing forsetans er ófrágengin í stjórnarskránni, og ekki hefur reynzt ráðrúm á lýðveldistímanum til að gera hana skýrari.  Þó er ljóst, að forseti á að forðast að blanda sér í ríkisstjórnarmálefni, nema hann telji ríka ástæðu til, t.d. að ríkisstjórn og Alþingi brjóti ákvæði stjórnarskrár eða hafi samþykkt mál að óþörfu í andstöðu við verulega hagsmuni þjóðarinnar.  Þá getur hann gripið til neyðarúrræðis, sem er að vísa ágreiningsefni forseta og ríkisstjórnar/meirihluta þings í dóm kjósenda.

Ef forseti stendur sig vel í starfi, er hann aðhalds- og eftirlitsaðili með löggjafar- og framkvæmdavaldinu.  Hann fylgist með störfum þeirra og kemur sínum sjónarmiðum á framfæri við forsætisráðherra reglubundið og les allt rækilega yfir áður en hann staðfestir skjöl með undirritun sinni.  Þá eru ótaldir Ríkisráðsfundirnir, þar sem forseti hittir alla ríkisstjórnina. 

 

Þótt sviptingar við ríkisstjórnarmyndun séu ótaldar, er ljóst, að forseti, sem ætlar að vera miklu meira en upp á punt, þarf að hafa bein í nefinu og leggja fram mikla vinnu.  Hann þarf að hafa ferilslýsingu, sem styður, að hann geti leyst þetta af hendi. 

Það blasir við, að einn frambjóðendanna er sem sniðinn í þetta alvöru hlutverk æðsta embættis landsins. Hann er vel að sér um stjórnskipun landsins og landshagi, gagnmenntaður innan lands og utan og hefur setið á Alþingi (sem varamaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn, en er ekki lengur flokksbundinn), og hann er þjálfaður við að kryfja mál til mergjar.  Nú ríkir þingræði á Íslandi að forminu til, en það hefur verið útþynnt allrækilega með aðildinni að Evrópska efnahagssvæðinu, EES, sem leiðir til innleiðingar afar viðamikillar löggjafar Evrópusambandsins (ESB) í íslenzka lagasafnið um málefni, sem ESB telur eiga við um Innri markað EES.  Íslenzkir embættismenn hafa tekið upp á því að blýhúða þessa löggjöf, þ.e. að gera hana meira íþyngjandi fyrir atvinnulíf og almenning en efni standa til, en verst er, að sumt frá Brüssel samræmist illa stjórnarháttum hér og stjórnarskrá.  Neyðarhemil væri ómetanlegt að hafa í þessum efnum á Bessastöðum, en af 12- menningunum, sem valið stendur um 2024, er aðeins einn, sem líklegur er til að koma að haldi í þeim efnum, og hann heitir Arnar Þór Jónsson. Þetta fékkst rækilega staðfestst í Sjónvarpsumræðum allra frambjóðendanna hjá Ríkisútvarpinu föstudagskvöldið 3. maí 2024.  

 

 

  

 


Vanstilltur fullyrðingaflaumur

"Opið bréf til Alþingismanna frá forystufólki í íslensku þjóðlífi og landeigendum" birtist í Morgunblaðinu 4. apríl 2024 undir ábúðarmikilli fyrirsögn: 

"Fimm staðreyndir um Ísland".

Þar gat að líta eftirfarandi:

"01 Sjálfsmynd Íslands tengist náttúruauðlindum og legu landsins órjúfanlegum böndum.  Þegar horft er til jarðfræðilegs mikilfengleika eldgosa og heitra lauga, stórbrotinna norðurljósa, villts dýralífs og ósnortinnar náttúru, er Ísland einstakt á heimsvísu."

Lönd hafa enga sjálfsímynd.  Það er hæpið að alhæfa með þessum síðrómantíska hætti um sjálfsímynd þjóðar, sem orðin er fjölmenningarleg, enda kemur þetta hástemmda náttúrublaður laxeldi í sjó við fáeinar strendur Íslands ekkert við, nema höfundarnir kjósi helzt, að fólkið í landinu verði bara sýningargripir í þjóðgarði fyrir túrhesta af malbiki stórborganna. 

"02 Í dag byggir Ísland sjálfstæð þjóð, sem trúir á sjálfsákvörðunarrétt sinn. Íslendingar mótuðust í deiglu sjálfstæðisþrár (sic ! - þráar) og ættu aldrei að láta erlenda hagsmuni ganga í berhögg við sína eigin."

Þetta er algerlega úrelt viðhorf.  Aðeins elztu núlifandi frumbyggjar mótuðust af sjálfstæðisþrá.  Nú er alþjóða samvinna komin á slíkt stig, að það að etja saman erlendum og innlendum hagsmunum í landi, sem er á Innri markaði Evrópusambandsins, þar sem "frelsin fjögur" eru grundvöllur EES-samningsins, sem Alþingi hefur fullgilt, er fullkomin tímaskekkja.  Þarna er verið að bera brigður á erlendar fjárfestingar og gildi þeirra fyrir hagkerfi landsins, sem fjárfest er í.  Erlendar fjárfestingar í löglegri atvinnustarfsemi eru alls staðar, nema í Norður-Kóreu og ámóta ríkjum, mikið keppikefli.  Þær eru reyndar allt of litlar á Íslandi.  Fjárfestingar Norðmanna í sjókvíaeldi við Ísland hafa komið fótunum undir laxeldi í sjó hérlendis, sem á sér brösuglega fortíð, þegar frumkvöðlarnir börðust í bökkum við þetta.  Laxeldi í sjó hefur leitt nýtt blómaskeið yfir byggðir Vestfjarða og styrkt byggðir Austfjarða í sessi.  Sefasýkislegur atvinnurógur í garð þessarar starfsemi er sorglegur upp á að horfa.  

"03 Við hvetjum heimsbyggðina til að sækja okkur heim, njóta gæða landsins og fjárfesta af ábyrgð, fremur en að ganga á auðlindir þessa stórkostlega lands.  Við getum ekki látið það viðgangast, að erlend fyrirtæki hagnýti meira af arfleifð okkar og þjóð en þau skila til baka."

Þarna er verið að hvetja til aukinnar ferðamennsku, en í ljósi þess, sem nú er að gerast á Kanaríeyjum, þar sem ferðamennskan er yfirþyrmandi og hefur leitt til fátæktar frumbyggjanna, sem reyna að lifa á sínum hefðbundnu atvinnugreinum.  Það er með öllu ósannað og verður að telja til ósanninda, að sjókvíaeldið gangi á auðlindir Íslands.  Landeigendur og veiðiréttarhafar ættu að líta sér nær varðandi mikla fækkun villtra laxa í íslenzkum ám.  Miðað við veiðiálagið og viðmiðanir vísindamanna um sjálfbært veiðiálag í íslenzkri lögsögu á sér stað rányrkja úr íslenzkum ám, en ástandinu er reynt að klína á sjókvíaeldið, sem er einfaldlega algerlega úr lausu lofti gripið og virðist vera ein rándýr smjörklípa. Það er tímabært, að Alþingi fjalli um að setja nytjar dýralífs í ám á Íslandi undir vísindalega stjórnun Hafrannsóknastofnunar. 

"04 Hagkerfi eyríkis á borð við okkar þarfnast þess að hugsa og skipuleggja langt fram í tímann.  Auðlindir eru alls staðar dýrmætar, en eyþjóð verður að standa dyggan vörð um þær, sem hún sjálf býr yfir. 

 Þetta er skrýtinn texti.  Hagkerfi hvorki hugsa né skipuleggja.  Þurfa ekki jafnvel fjölskyldur að hugleiða framtíðina og skipuleggja langt fram í tímann ?  Þarna virðist vera reynt að segja, að eyþjóð þurfi að standa dyggari vörð um auðlindir sínar en aðrar þjóðir.  Engin rök eru færð fyrir því, bara fullyrt.  Það er í anda þeirra smjörklípumanna, sem ofsækja sjókvíaeldi hér við land og kenna því um ófarir sínar.  Þarna á við hin kristna speki.  Þú sérð flísina í auga samferðarmanns þíns, en ekki bjálkann í eigin auga.  

Það hefði verið eðlilegra og nærtækara áður en vaðið var fram með órökstuddum fullyrðingum, svívirðingum og dylgjum, í garð heillar atvinnugreinar, að þau sem hér eiga í hlut mundu hafa gert mótvægisáætlun við hraða hnignun villtra laxastofna í ám Íslands, sem fæli í sér stórfelldan niðurskurð eða jafnvel friðun stofnanna, þar til þeir næðu sér á strik að nýju.  Ofstækið, sem felst í eftirfarandi málsgrein þeirra, er ekki aðeins forkastanlegt, heldur kann að vera brot á stjórnarskrárreglu um atvinnufrelsi á Íslandi:

"Við biðlum því til Alþingismanna okkar og ráðherra að vinna að því að draga úr og stöðva að lokum sjókvíaeldi."

Það hafa engin haldbær rök og gögn verið lögð fram, sem réttlæta mundu frekleg og rándýr stjórnvaldsinngrip af þessu tagi langt úr meðalhófi fram og án viðeigandi rannsóknarniðurstaðna, sem væru einstæð í sögunni og mundu draga dilk á eftir sér um langa framtíð.  Það lýsir dómgreindarleysi að senda þvílíka beiðni frá sér.  Ef flugufótur væri fyrir hrikalegum ásökunum hópsins, sem að þessari öfugsnúnu herferð stendur gegn lögbundinni atvinnustarfsemi í landinu, þá væru starfsmenn eftirlits- og ráðgjafarstofnana ríkisins, sem komið hafa að leyfisveitingum, eftirliti og ráðgjöf með þessari starfsemi, með öllu óhæfir og ekki starfi sínu vaxnir.  Það er fásinna að halda slíku fram og jafgildir atvinnurógi.  Þetta er mjög ljótt mál. 

 

 

 


Snarazt hefur á merinni

Á stuttu tímabili hefur verið hlaðið á ríkissjóð gríðarlegum böggum, sem auðvitað er í anda flokks fosætisráðherra, og Framsóknarflokkurinn hefur gjarna ratað inn í þessa blindgötu líka, eins og nýleg tillögugerð menningar-og viðskiptaráðherra um auknar ölmusur til listamanna, sem er algerlega úr takti við almennan boðskap ríkisstjórnarinnar um aðhald í ríkisrekstri nú um stundir.  Það bráðvantar fé í marga þarfa málaflokka, t.d. rekstrar- og viðhaldsfé til vegamála, og á sama tíma keppast Framsóknarráðherrarnir um að leggja fram gæluverkefni sín.  Hvað skyldi 1 stk "Þjóðarhöll" kosta, þegar upp verður staðið ?  Dettur einhverjum til hugar, að MISK 15 dugi ? Einhver nefndi leiðréttingarstuðul pí. 

Ábyrgðarlaus umgengni stjórnmálamanna við ríkissjóð hefur valdið mikilli skuldasöfnun hans síðan 2020, og þess vegna er lántaka ríkissjóðs til að fjármagna nýlegar skuldbindingar hans ekki fær leið. Meðalfjölskyldan í landinu þufti að greiða um kISK 700 árið 2022 vegna skuldabyrðarinnar.  Rúmur þriðjungur af greiddum tekjuskatti einstaklinga fór þá í þessa hít, sem var þreföldun hlutfallsins frá 2020. 

Á þessu tímabili hafa útjöld til útlendingamála farið úr böndunum og einboðið er að minnka útgjöldin með því að stemma stigu við mannfjöldanum, sem tekið verður á móti næstu áin, enda vantar húsnæði fyrir þetta fólk og innfædda, sérstaklega eftir rýmingu Grindavíkur. 

Skólarnir ráða ekki við verkefnið, sem er mjög erfitt, svo að ekki hillir undir betri kennslu almennt, sem lyft gæti PISA-meðaltalinu upp.  Hælisleitendur eru margir hverjir í þörf fyrir mikla læknisþjónustu, og  hópar af framandi slóðum, jafnvel heilaþvegnir af ofstækismönnum, aðlagast illa, sem kemur fram í yfirgengilega mörgum, sem komast í kast við lögin og eru dæmdir til fangavistar.  Allt veldur þetta gríðarlega miklum samfélagskostnaði, sem verður að koma böndum á með frávísun úr landinu, nema vinum okkar frá Úkraínu, sem eru frá stríðshrjáðu landi og hafa aðlagazt vel hér. Úkraínumenn og frumbyggjar voru beztu vinir íslenzkra landnema vestanhafs á 19. öld.

Í stöðu eins og þessari, þegar innviðir hrópa á meira fjármagn, en byrðar ríkissjóðs vaxa, verður ríkið að huga að sölu eigna, sérstaklega þar sem viðkomandi fyrirtæki eru í samkeppni við einkaframtakið að þarflausu.  Er ríkisrekin póstþjónusta tímaskekkja ?  Sjálfsagt er að losa alfarið um eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka og koma afrakstrinum "í vinnu" annars staðar.  Er fýsilegt að selja RARIK og/eða Orkubú Vestfjarða ?  Svona mætti lengi telja. 

Þessar vangaveltur eru ekki frumlegar, eins og sjá mátti af forystugrein Morgunblaðsins 14. marz 2024,

"Þörf þingsályktunartillaga",

en hún hófst svona:

"Óli Björn Kárason og nokkrir aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um sölu ríkiseigna, lækkun skulda ríkissjóðs og fjárfestingu í innviðum. Í tillögunni segir, að fjármála-og efnahagsráðherra sé falið að "skipa nefnd, sem móti langtímaáætlun um sölu ríkiseigna, lækkun á skuldum ríkissjóðs og fjáfestingu í innviðum.  Nefndin verði skipuð 3 sérfræðingum á sviði hagfræði, fjármála og lögfræði.  Nefndin skili áfangaskýrslu eigi síðar en 6 mánuðum eftir skipun og lokaskýrslu eigi síðar en 12 mánuðum eftir skipun."

 Þetta er ágætis tillaga, sem getur skilað samantekt um eignir ríkisins, sem til greina kemur að selja, og áætlun um það ásamt áætlun um lækkun skulda.  Það mun hins vegar aðallega koma í hlut næstu ríkisstjórna að nýta þá eigna- og skuldaskýrslu við framkvæmd stefnu sinnar, og þess vegna er allsendis óþarfi að bíða aðgerðarlaus eftir skýrslunni, heldur ljúka þegar höfnum söluferlum ríkisstjórnarinnar og fitja upp á annarri sölu úr samkeppnisgeiranum, sem hún telur sig geta leitt til lykta á kjörtímabilinu.  

"Í greinarerð með tillögunni er vakin athygli á, að skuldsetning ríkissjóðs og gríðarlegar vaxtagreiðslur hafi lamandi áhrif á íslenzkt efnahagslíf og hamli getu ríkisins til að veita þá þjónustu, sem ætlazt sé til, og að lækka álögur á launamenn og fyrirtæki."  

Ef tekið er mið af Svíþjóð, var gengið allt of langt í sóttvarnaraðgerðum hér og í að láta ríkissjóð deyfa fjárhagslegar afleiðingar þess fyrir einstaklinga og fyrirtæki.  Það er eins og örvænting hafi gripið ráðamenn og eytt var stórfé í að bólusetja almenning, þ.m.t. börn að óþörfu og með áhættu, margoft með tilraunaefnum (mRNA-genatækni), sem virkuðu mjög stutt og höfðu margvíslegar aukaverkanir á gollurshúsið, ónæmiskerfið o.fl.  Þegar enn alvarlegri faraldur gýs upp, munu aðgerðir að óbreyttu hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir afkomu og lánstraust ríkissjóðs, svo að draga verður lærdóm af reynslunni og horfa til Svíþjóðar.

"Þess vegna er það rétt, sem einnig kemur fram í greinargerðinni, að "lækkun skulda ríkissjóðs er eitt brýnasta verkefni samtímans og mikilvæg forsenda sóknar til bættra lífskjara.  Ungt fólk horfir upp á, að skuldirnar og tilheyrandi fjármagnskostnaður rýri lífskjör þess í framtíðinni.  Fyrir tugþúsundir ungra karla og kvenna, sem koma út á vinnumarkaðinn á komandi árum, er ekki sérstaklega eftirsóknarvert að eiga hlut í banka eða öðrum fyrirtækjum í gegnum sameiginlegt eignarhald ríkisins, ef greitt er fyrir eignarhaldið í formi verri lífskjara, með hærri sköttum og verri þjónustu hins opinbera.   Þeir, sem eldri eru, og ekki sízt þeir, sem þurfa nauðsynlega á þjónustu heilbrigðiskerfisins að halda eða fá aðra aðstoð, verða að sætta sig við lakari þjónustu og minni aðstoð en ella.  Miklar skuldir ríkissjóðs hafa því bein áhrif á daglegt líf þúsunda Íslendinga."

Þetta eru nokkuð góð rök fyrir því að selja sem fyrst, ef gott verð fæst, eignarhluti ríkisins í áhætturekstri og samkeppnisrekstri, t.d. Íslandsbanka, 40 % hlut í Landsbanka, Póstinn o.fl.  Landsmenn njóta nú langtíma fjárfestingar sinnar í Landsvirkjun með lágu raforkuverði og hárri arðsemi og ætti svo áfram að vera, þótt stjórnun fyrirtækisins sé áfátt.

Hvað skyldi vera að frétta af hástökkvara skoðanakannana um þessar mundir, Samfylkingunni, varðandi fullyrðingu tillögugerðarmanna um, að "lækkun skulda ríkissjóðs [sé] eitt brýnasta verkefni samtímans ..." ?  Ekkert bitastætt hefur heyrzt frá flokkinum síðan formaðurinn kúventi í málefnum hælisleitenda og  vakti um leið úlfúð í flokkinum.  Spyrja má, hvort flokkurinn sé stjórntækur vegna stefnuleysis.  Þá er hætt við, að hann leiði þjóðina út í algerar ógöngur með óábyrgri útgjaldaaukningu og skuldasöfnun.  

 


Hið opinbera fitnar, eins og púkinn á fjósbitanum

Það er sterk tilhneiging í samtímanum til að þenja hið opinbera út og þar með að fjölga starfsmönnum á launaskrám þess.  Heilbrigðis- og umönnunarkerfið er dæmi um þetta, og undirliggjandi kraftur þar er öldrun þjóðarinnar, en heilsufar eldri borgara er miklu bágbornara en vera þyrfti, sem stafar af óhollum lifnaðarháttum í allsnægtaþjóðfélaginu. Það er vandlifað í henni versu. Lyfjaátið er yfirþyrmandi og allt of lítið mark tekið á næringarráðgjöfum og þjálfunarsérfræðingum á borð við Janus Guðlaugsson. Þegar allt er komið í óefni, er heimtað "quick fix", en slíkt er ekki til. 

Grunnskólakerfið hefur þanizt út að mannafla í mun meira mæli en nemendafjöldinn.  Að sama skapi hefur árangur nemenda 10. bekkjar versnað að mati OECD og PISA-prófdómaranna, enda eru komnar alls konar aðrar starfsstéttir inn í kerfið en áður tíðkuðust þar.  Þegar nemendum var raðað eftir getu í bekkjardeildir, var minna álag á kennurum í tímum, þótt í bekkjardeild væri yfir 30 manns, og árangur nemenda var að jafnaði betri en síðar varð, þegar "kerfi án aðgreiningar" hafði haslað sér völl.  Er einhver í stakk búinn til að mótmæla með rökum þessum tveimur staðhæfingum, sem hér eru settar fram sem tilgátur án eigin rannsóknar.  Ef ekki, hvers vegna er þá viðhöfð sú þrákelkni á grunnskólastiginu að viðhalda þessari aðferðarfræði, sem er óframkvæmanleg með góðu móti og hefur reynzt afspyrnu illa (dregið meðaltalsárangur niður) ?

Þann 9. febrúar 2024 birti Magdalena Anna Torfadóttir fróðlega yfirlitsfrétt um umfang hins opinbera á viðskiptafréttasíðu Morgunblaðsins undir sláandi fyrirsögn:

"Ráðstafar annarri hverri krónu".

Hún hófst þannig:

"Hið opinbera velti árið 2022 um mrdISK 1650, sem þýðir, að það ráðstafar tæplega annarri hverri krónu, sem verður til í hagkerfinu.  Hlutfallið hefur vaxið jafnt og þétt, allt frá lýðveldisstofnun, þegar um 5. hver króna fór um hendur hins opinbera [þ.e. úr 20 % í 50 % á 78 árum, eða um 0,4 % VLF/ár að meðaltali - innsk. BJo].

Þetta er meðal þess, sem kom fram í skýrslu Viðskiptaráðs, sem kynnt var á Viðskiptaþingi ráðsins í gær [08.02.2024].  Gunnar Úlfarsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs, kynnti skýrsluna og niðurstöður hennar.  Í skýrslunni er fjallað um hið opinbera, og hvernig megi bæta þjónustu þess til lengri tíma litið.

"Í ljósi umfangs ríkis og sveitarfélaga er rétt að rýna, hvernig þessum fjármunum er varið, hvar og hvernig megi gera betur, og hvort hið opinbera þurfi að sinna öllum þeim verkefnum, sem það hefur nú á sinni könnu", segir í skýrslunni."

Umfang opinbers rekstrar á Íslandi vex með ósjálfbærum hætti.  Þingmenn og sveitarstjórnarmenn hafa verið of leiðitamir þrýstihópum og fyrir vikið fórnað mikilvægum hagsmunum skattborgaranna og þjóðarinnar allrar, sem sýpur seyðið af óskilvirku bákni, sem er ekki nægilega vel stjórnað og mikil byrði fyrir  avinnulífið.  Í EES-samninginum er mikil áherzla lögð á, að hið opinbera gæti sín í hvívetna að skekkja ekki samkeppnisstöðu, þar sem það er á markaði í samkeppni við einkafyrirtæki.  Á þessu er misbrestur hérlendis, sem er ein ástæða ofþenslu báknsins.  Ríkisútvarpið er skýrt dæmi um þetta, en það er mjög óeðlilegt, að það keppi um auglýsingar á miðlamarkaði, því að það getur notað skattfé til að viðhalda markaðsráðandi stöðu sinni.  Menningar- og viðskiptaráðherra talar og skrifar mikið og stundar pólitík í anda lýðskrums, en gerir fátt af viti og þ.á.m. næsta lítið, sem máli skiptir, til að minnka umsvif ríkisrekna risans á fjölmiðlamarkaði, sem stöðugt færir út kvíarnar sem opinbert hlutafélag án lagaheimilda til þess. 

Landsvirkjun er annars konar dæmi um ríkisfíl í postulínsbúð.  Þar er að vísu ekki um ríkisframlög að ræða, heldur arðgreiðslur til ríkisins, en hegðunin er ámælisverð, og hana verður að skrifa á lyndiseinkenni forstjórans, sem nýlega gekk hart fram um setningu laga um viðbrögð við skorti á rafmagni á markaði, sem áttu að hlaða enn meira undir Landsvirkjun, og dylgjaði þessi forstjóri þar um "leka á milli markaða", þ.e. að aðrir en Landsvirkjun hygluðu stórfyrirtækjum á kostnað almennra neytenda. Allt koðnaði það niður hjá honum, enda bitu menn frá sér.  Á Alþingi var hætt við þessa lagasetningu, enda hún einskær vitleysa frá Orkustofnun og ráðuneyti orkumála.  Eftir stendur, að Landsvirkjun eyðileggur alla raunverulega samkeppni á raforkumarkaði vegna stærðar sinnar og þeirrar staðreyndar, að megnið af tekjum hennar kemur frá stórnotendum á grundvelli langtímasamninga, sem ríkið veitti Landsvirkjun forgang að án samkeppni.  Þar af leiðandi mega stjórnendur fyrirtækisins alls ekki traðka í salatinu.  Meira að segja Samkeppnisetirlitið mælti gegn téðri skömmtunarlagasetningu.  Hvenær gerir stofnunin frumkvæðisathugun á samkeppni á raforkumarkaði ?

Heilbrigðiskerfið er mikið vandræðabarn á ríkissjóði, enda að mestu fjármagnað af honum.  Nú er langt komið eða jafnvel búið að meta alla helztu verkþætti Landsspítalans til kostnaðar og spítalinn farinn að fá greitt samkvæmt innsendum reikningum, enda hafa ekki heyrzt núna þau relubundnu harmakvein um fjármagnsskort, sem landsmenn áttu að venjast.  Þetta kerfi gerir Sjúkratryggingum kleift að bjóða fyrirhafnarlítið út verkþætti, sem hægt er að úthýsa innanlands og jafnvel á Evrópska efnahagssvæðinu, er útboðið er stórt.  Það verður að ganga út frá því sem vísu, að Sjúkratryggingar Íslands nýti útboðsleiðina út í yztu æsar og gefi íslenzkum sérhæfðum læknastofum tækifæri til að hagnýta fjárfestingar sínar í nannauði, húsnæði og tækjabúnaði, og spari um leið skattgreiðendum landsins stórfé. 

Kostnaður við hvern grunnskólanemanda hefur vaxið mikið á þessari öld og á sama tíma hefur árangur hans versnað í alþjóðlegu samhengi.  Nemendur koma með furðulega gloppótta þekkingu út úr grunnskóla.   Kerfið þarf þess vegna að stokka upp.  Væri ekki ráð að veita skólunum meira sjálfstæði og ýta undir samkeppni þeirra á milli, t.d. með birtingu meðaltala úr PISA fyrir hvern skóla ?  Skólarnir gætu t.d. ráðið því, hvernig þeir raða í bekkjardeildir og mættu flokka nemendur í deildir eftir getustigi, eins og gert var áður fyrr með góðum árangri. 

"Svanhildur Hólm stýrði stýrði umræðum með Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur, stofnanda Kara Connect, og Andra Heiðari Kristinssyni, fyrrverandi leiðtoga Stafræns Íslands.  Þau ræddu m.a. þær áskoranir og hindranir, sem verða á vegi tæknifyrirtækja í samskiptum við opinberar stofnanir.  Þorbjörg Helga lýsti m.a. samskiptum sínum við opinberar stofnanir, þá sérstaklega embætti Landlæknis, sem lagt hafa stein í götu félagsins og starfsemi þess.  Hún sagði, að þrátt fyrir yfirlýsinar stjórnmálamanna um nýsköpun í heilbrigðiskerfinu og mikilvægi þess að leita nýrra lausna í þjónustu, væri því ekki fylgt eftir með almennilegum hætti."  

Embætti Landlæknis virðist vera steinrunnið apparat, sem er mjög umhendis að veita almenningi þjónustu.  Frammistaðan í Kófinu var fyrir neðan allar hellur, þar sem beitt var ótæpilegum og dýrum höftum á umgengni fólks, sem hafði alvarlegar afleiðingar fyrir hagkerfið og andlega líðan fólks.  Þetta voru aðgerðir, sem sniðgengu meðalhófsreglu stjórnsýslulaga rýrðu pesónufrelsi án umtalsverðrar gagnsemi.  Eins og spáð var um á grundvelli fræða um þessi mál, varð dánartíðnin í kjölfar aðgerðanna hærri en efni stóðu til.  Þar bætti ekki úr skák sú stefna embættisins að beita margítrekuðum sprautunum gegn veirunni með tilraunaefnum á bráðabirgðaleyfi Lyfjaefirlits Evrópu.  Af þeim hafa hlotizt margvíslegir skaðar á heilsu fólks, en varnarvirknin dalaði mjög hatt eftir inngjöf.  Tilraunaefnin hefðu að réttu lagi ekki komizt í gegnum hefðbundið prófunarferli lyfja, og það vekur mikla furðu, að enn skuli þau vera í brúki hérlendis.  

"Í fyrrnefndri skýrslu Viðskiptaráðs kemur fram, að undanfarin 30 ár hefur fjöldi starfsfólks í stjórnsýslunni tæplega tvöfaldazt.  Árið 1995 störfuðu 387 manns í um 11 ráðuneytum, en í dag starfa 724 í 12 ráðuneytum.

"Að mati Viðskiptaráðs sýnir þróunin, að verulega skorti á hagræðingu hjá hinu opinbera [ríkinu í þessu tilviki - innsk. BJo].  Leiða má líkur að því, að lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins leggi stein í götu stjórnvalda til að bregðast við, þegar verkefni breytast, falla niður eða ný verða til.  Tækifæri til meira hagræðis í starfsmannahaldi eru vannýtt, og stafræn umbylting virðist frekar hafa verið nýtt til að auka umfang stjórnarráðsins en annað.  Það ætti ekki að vera náttúrulögmál, að stöðugt fjölgi í stjórnarráðinu, þótt á þessu tímabili hafi starfsmönnum einungis fækkað á árunum 2013-2016", segir í skýrslunni."

Höfundar skýrslu Viðskiptaráðs hljóta að hafa kynnt sér Lögmál Parkinsons, sem einmitt fjallar um hina ríku tilhneigingu innan opinberrar stjónsýslu að þenjast út, engum til gagns. Þar að auki eru 2 utan að komandi kraftar að verki.  Á árunum 2009-2013 var í gangi umsókn um aðild að Evrópusambandinu (ESB), og þar á bæ var óspart fundið að fámenni og getuleysi íslenzkrar stjórnsýslu.  Vafalaust brást hin "fyrsta tæra vinstri stjórn" hart við þessu, og aldrei hefur verið undið ofan af þeirri fjölgun, enda á sér stað umfangsmikil innleiðing ESB-reglugerða og -tilskipana, sem útheimtir starfsfólk.  Þá má ekki gleyma því, að síðan árið 2017 hefur harðsvíraður miðstýringar- og ríkisafskiptaflokkur leitt hér ríkisstjórn og sett af stað gæluverkefni og gælustofnanir, sem eru óþörf fyrir ríkisreksturinn.    

Það var þarfur gjörningur hjá Viðskiptaráði að benda á talnalegar staðreyndir málsins, en þróunin var við búin og er bein afleiðing vanhugsaðrar ákvarðanatöku kjósenda og Alþingismanna.  Það er ekki hægt að snúa þessari óheppilegu þróun við, nema henda vinstri mönnum út úr stjórnarráðinu og hætta að rembast við að aðlaga löggjöf smáríkis að löggjöf stórrar ríkjasamsteypu. 

  

   

 

              


Ríkisbúskapur í hönk

Það er undantekningarlaus regla, að þar sem ríkisbúskapi er leyft að þenjast út og gleypa kæfandi stóra sneið af "þjóðarkökunni", þar lendir þjóðarbúskapurinn í kreppu innan tíðar.  Þetta gerist í Evrópu, Suður-Ameríku og hvarvetna í heiminum.  Svíar urðu fyrir þessu undir "sósíaldemókrötum" - jafnaðarmönnum og söðluðu um í tæka tíð.  

Oft er vitnað til Argentínu í þessu sambandi með allar sínar náttúruauðlindir og með mikla þjóðarframleiðslu á mann á heimsvísu á sinni tíð.  Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, ritar jafnan af yfirgripsmikilli þekkingu.  Staksteinar Morgunblaðsins vitna til skrifa hennar 11. janúar 2024 undir hrollvekjandi fyrirsögn:

"Þörf áminning".

"Hún rifjar upp, að ekki sé ýkja langt síðan Argentína var "glæst efnahagslegt veldi.  Landsframleiðsla á hvern íbúa landsins, sem byggði á útflutningi fjölbreyttra landbúnaðarafurða, var ein sú mesta í heimi.  Í dag er landsframleiðsla á mann ríflega fimmfalt meiri á Íslandi en í Argentínu.""

Á Íslandi er grundvöllur hagvaxtar og VLF/íb líka reistur á hagnýtingu náttúruauðlinda, aðallega á fiskveiðum og vinnslu sjávarafurða og á hagnýtingu vatnsorkulinda og jarðhita til raforkuvinnslu og húsnæðisupphitunar. Rafmagnið er selt í stórum stíl með langtímasamningum til útflutningsiðnaðar, sem framleiðir ál, kísiljárn og kísil. Úrvinnsla og sérhæfing í framleiðslu þessara efna fer vaxandi hjá iðjuverunum, sem hér eiga í hlut, og þar með vaxa verðmætin. Fyrirtæki þessi standa framarlega í framleiðslutækninni, sem hefur leitt til hárra gæða og tiltölulega lítillar losunar gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu.  

Á sviði nýtingar lifandi auðlinda sjávar er óhætt að segja, að Íslendingar standi í fremstu röð.  Fiskveiðarnar hafa alþjóðlega viðurkenningu sem sjálfbærar, sem er óalgengt á heimsvísu, og fiskvinnslan nýtir hráefnið betur en annars staðar þekkist.  Framleiðni sjávarútvegs er há, enda tæknistigið hátt, og þess vegna er sjávarútvegur arðbær, sem er óalgengt í heiminum, og verður að vera það til að draga að sér fjárfestingarfé í hörðum heimi alþjóðlegrar samkeppni. 

Landbúnaðurinn nýtir landsins gæði.  Þau fara vaxandi með hækkandi ársmeðalhitasigi, og kornyrkja hefur fyrir vikið eflzt.  Ylrækt hefur líka eflzt og hlýtur að eiga bjarta framtíð fyrir höndum vegna sjálfbærrar orku á formi hita og rafmagns.  Öflun jarðhita og rafmagns í landinu verður að losa úr gíslingu afturhaldsins, sem undantekningarlítið er ofurselt útópískum hugmyndum sósíalismans, og fara að taka þessi þjóðhagslega mikilvægu mál föstum tökum til að halda verðhækkunum í skefjum.  Landbúnaðurinn á erfitt uppdráttar, því að framleiðslueiningar eru litlar m.v. umfang nauðsynlegra fjárfestinga.  Hátt vaxtastig getur hæglega knésett marga bændur, og þess vegna þarf ríkisstjórnin að huga að stuðningsaðgerðum, t.d. með skattakerfinu, í nafni matvælaöryggis.   

Íslendingum hefur tekizt að hagnýta sér náttúruauðlindir lands og sjávar með skilvirkum hætti, og afraksturinn hefur dreifzt um allt samfélagið, enda er jöfnuður fólks hérlendis, mældur með alþjóðlegum hætti, sem gefur s.k. GINI-stuðul sem útkomu, meiri en annars staðar þekkist.

"Skýringin á þessum umskiptum [í Argentínu - innsk. BJo] sé stjórnarfar: "Hnignunin átti sér heldur ekki stað á einni nóttu.  Frá hátindi efnahagslegs ferils síns hefur saga Argentínu einkennzt af röð alvarlegra hagstjórnarmistaka, sem fólust í ofurtrú á ríkisvaldið, miðstýringu og verndarhyggju, sem leiddu til óðaverðbólgu og óhóflegrar skuldsetningar.  Ekki hefur enn tekizt að vinda ofan af þessum mistökum.  Afleiðingin er efnahagslegur og mannlegur harmleikur.""

Hugmyndafræði kommúnismans og útvötnunar hans eins og jafnaðarstefnunnar hefur valdið með ólíkindum miklu böli í heiminum.  Fá rit hafa verið jafnóþörf og beinlínis skaðleg í heiminum og "Das Kapital".  Miðstýring og ríkisrekstur, sem þeir ólánsmenn Karl Marx og Friedrich Engels boðuðu, fela ekki í sér snefil af þjóðfélagslegu réttlæti, heldur leiða til eymdar og volæðis alþýðu, en hrossataðskögglarnir, flokkspótintátar, sem stjórna ofvöxnu ríkisapparatinu, skara eld að sinni köku og fljóta ofan á.  "Homo sovieticus" verður aldrei annað en furðuhugmynd skýjaglópa.  

  

 

 

 


Meinsemdir opinbers rekstrar

Opinber starfsemi virðist hafa tilhneigingu til að fara úr böndunum, og hún ber þess víða merki í samfélaginu, að um hana gildi Lögmál Parkinsons, sem segir, að viðfangsefni aukist að umfangi í sama mæli og tíminn, sem ætlaður er til að leysa þau af hendi.  Þessa óstjórn má greina víða, þar sem opinberar stofnanir eiga í samskiptum við einkarekið atvinnulíf.  Þetta á t.d. við um stofnanir, sem sjá um leyfisveitingar og eftirlit með atvinnulífinu.  Þar virðist lítið fara fyrir tímaskyni starfsmanna, þótt lög kveði á um annað. 

Kostnaður skattborgaranna af hinu opinbera er of mikill og óþarflega mikill.  Einkaaðilar geta leyst betur af hendi margt það, sem hið opinbera er að vasast í.  Nú er ljóst, að eitt öflugasta útgerðarpláss landsins hefur orðið fyrir alvarlegu tjóni af völdum náttúruhamfara.  Við þessar aðstæður er það siðferðisleg skylda samfélagsins að hlaupa undir bagga með Grindvíkingum, kaupa af þeim verðlausar eignir, e.t.v. á brunabótamatsverði, ef Náttúruhamfaratryggingar bæta aðeins sýnilegt tjón.  Þetta er þess vegna tjón alls samfélagsins, sem væntanlega verður fjármagnað með blöndu af skattahækkunum og lántökum ríkissjóðs, en til viðbótar þarf að leita allra leiða til sparnaðar í opinberum rekstri og koma böndum á hömlulausan vöxt. Þegar í stað á að skrúfa fyrir allar fjárveitingar ríkisins til vanhugsaðra gæluverkefna á borð við borgarlínu og Hvassahraunsflugvallar, sem bæði eru eftirlæti Samfylkingar.  Þá er rétt að hætta akstri strætisvagna hringinn í kringum landið.  Önnur fyrirtæki sjá um rekstur langferðabifreiða. 

Örlagadaginn 10. nóvember 2023 birti Morgunblaðið  viðtal við Gunnar Úlfarsson, hagfræðing Viðskiptaráðs.  Þar er umræðuefnið Stuðningsstuðull Viðskiptaráðs Íslands.  Hann sýnir, hversu margir einstaklingar njóta opinbers fjárhagslegs stuðnings eða fá millifærslur reiknað á hvern vinnandi einstakling á almenna vinnumarkaðinum. Hann gefur góða mynd af byrði hins opinbera fyrir verðmætasköpunina. Þessi stuðull var orðinn ískyggilega hár árið 2022 eða 1,3. Þetta merkir t.d., að fyrir hverja 10, sem störfuðu í einkageiranum, voru 13, sem gerðu það ekki, og eru þó þeir, sem störfuðu í sjálfstæðum opinberum fyrirtækjum, t.d. í Landsvirkjun eða Landsbankanum, taldir til einkageirans.  Þessi hái stuðull er sjúkdómseinkenni á íslenzku hagkerfi. 

""Að mati Viðskiptaráðs ætti að vera keppikefli stjórnvalda að ná stuðlinum enn frekar niður [eftir Kófið-innsk. BJo], enda er einkageirinn drifkraftur verðmætasköpunar og þar með bættra lífskjara.""   

Með öldrun þjóðarinnar hækkar stuðullinn, nema mótvægisaðgerðum sé beitt, og þar þarf að berjast við vinstri græna, sem reka ósjálfbæra og verðbólguhvetjandi efnahagsstefnu. Með þá við stýrið verður torsótt að skapa heilbrigt jafnvægi í hagkerfinu, sem skapar aðstæður fyrir vaxtalækkun, enda mátti skilja Peningastefnunefnd Seðlabankans svo 22.11.2023, að hún hefði hækkað stýrivexti bankans þá, ef hinir ófyrirséðu atburðir 10.11.2023 í Grindavík, sem leiddu til allsherjar rýmingar bæjarins, hefðu ekki orðið.   Spennan á húsnæðismarkaði, sem Samfylkingin ber töluverða ábyrgð á vegna lóðaskortsstefnu og þéttingarstefnu sinnar í höfuðborginni, vex í kjölfar Grindavíkurhörmunganna, þar sem 1200 íbúðir hverfa af markaðinum, a.m.k. um sinn.  Vextir í hæstu hæðum eru líka teknir að hamlega byggingarstarfsemi.  Þetta ástand kallast vítahringur.

Starfsmenn hins opinbera eru í 28 % af heildarstörfum á vinnumarkaði.  Sjúklingum fjölgar og öryrkjum fjölgar miklu örar en á hinum Norðurlöndunum.  Þeim hefur fjölgað um 30 % frá 2012 á Íslandi, um 15 % í Noregi, fækkað um 16 % í Danmörku og 23 % í Finnlandi og 30 % í Svíþjóð.  Hvað er það við lífernið hér, sem fjölgar öryrkjum svona ótæpilega ? Þáttur í sparnaðarviðleitni er að rannsaka það.  Er VG á móti því ?

""Í fyrra [2022] fjölgaði starfandi í einkageiranum um 7 %, en starfandi hjá hinu opinbera fjölgaði um 6,5 %.  Þá fækkaði atvinnulausum um 35 %, og dróst fjöldi utan vinnumarkaðar saman um 1 %", segir Gunnar og bætir við, að hlutfall opinberra starfsmanna sé enn fremur hátt, en á meðan starfandi fjölgaði um 6 % á almennum vinnumarkaði, fjölgaði stöðugildum hjá hinu opinbera um 15 % á árunum 2019-2022 [Kófið-innsk. BJo].

""Fjöldi starfandi hefur aukizt mikið í opinberri stjórnsýslu, en það vekur athygli, að sú þróun endurspeglist ekki í aukinni skilvirkni hins opinbera .  Lögbundnir tímafrestir leyfisveitinga standast ekki, reglubyrði mælist há, og skilvirkni hins opinbera er lág í alþjóðlegum samanburði."

Af þessu má ráða, að Parkinson gamli grasseri hjá hinu opinbera, og stjórnmálamenn þyrftu að láta fara fram faglega rýni á störfum, þar sem þensla í starfsmannahaldi hefur orðið og láti fara fram hagkvæmnimat á úthýsingu á starfsemi.  Virðingarleysi fyrir lögboðnum tímafrestum er plága fyrir þá, sem þurfa að sækja til opinberra stofnana með umsóknir, t.d. um leyfisveitingar.  Þetta sýnir virðingarleysi gagnvart viðskiptavinum stofnananna og embættishroka.

"Gunnar segir, að miklar áhyggjur vakni, ef þróun á fjölda þeirra, sem þiggja örorkulífeyri, er sett í alþjóðlegt samhengi, þar sem á sama tíma og kerfið hér á landi verður dýrara og örorkulífeyrisþegum fjölgar, hefur þeim fækkað á [hinum] Norðurlöndunum um 2 % að jafnaði árlega og útgjöldin til kerfanna dregizt saman um 0,4 % að raunvirði.  Á sama tíma sé staðan sú á Íslandi, að fólki, sem fær örorkulífeyri, hafi fjölgað um tæp 3 %/ár árin 2012-2020, en útgjöldin hafi vaxið mun hraðar eða um 6 %/ár að raunvirði. 

Gunnar bendir jafnframt á, að Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) hafi lengi bent á, að ekki aðeins sé hægt að ná fram hagræðingu í tilfærslukerfum, og þ.á.m. í örorkukerfinu, heldur sé það einnig nauðsynlegt. 

"Helztu tillögurnar snúa að því, að kerfin [verði] endurskipulögð og að aukin áherzla [verði] lögð á stuðning til aukinnar virkni, en einnig að ráðizt verði í fyrirbyggjandi aðgerðir, sérstaklega á meðal ungmenna. Við eigum að vera stolt af stuðningskerfunum okkar, en við þurfum líka að tryggja, að þau séu skilvirk.  Það ætti að vera sameiginlegt markmið okkar allra að draga úr brotthvarfi [af] vinnumarkaði." 

Það þarf að læra af t.d. Svíum við endurskoðun á örorkumatsaðferðum og að rótargreina ástæðurnar fyrir öfugþróun í fjölda öryrkja á Íslandi m.v. hin Norðurlöndin.  Tengist hún samfélagsmeinum á borð við mikla lyfjaneyzlu hérlendis ? 

 

 


Lítið lagðist fyrir drottninguna af Kviku

Hvar gerist það í raunhagkerfinu, að MISK 3 verði að MISK 104 á um 2 árum.  Það þarf líklega annaðhvort að fara í undirheimana eða á slóðir þess vafasama pappírs Samfylkingarinnar til að finna aðra eins ávöxtun.  Núverandi formaður Samfylkingarinnar gegndi áður stöðu aðalhagfræðings Kviku-banka og naut þá þessara vildarkjara þar.  Hún fór á flot með það í skattframtali sínu, að MISK 101, sem hún var allt í einu með í höndunum, væri ávöxtun og bæri þá 22 % skattheimtu.  Þessu trúði Skatturinn ekki, því að slíkt gerist ekki í raunheimum ofan jarðar.  Skatturinn taldi þetta einfaldlega launaumbun (bónus) til aðalhagfræðingsins frá Kviku og ætti því að bera jaðarskattheimtuna um 46 %. 

Þarna munar hárri upphæð, sem núverandi formaður Samfylkingarinnar ætlaði í græðgi sinni að sleppa við að borga til samfélagsþarfanna.  Það er nauðsynlegt fyrir kjósendur að gera sér grein fyrir innræti og gerð formanns Samfylkingarinnar áður en þeir ljá henni atkvæði.  Hún talar beint og óbeint fyrir vaxandi skattheimtu á fyrirtæki og almenning, en hún virðist nota hvert tækifæri, sem hún telur sig fá, til að að lækka skattheimtu af eigin ofurtekjum.  Þetta er sérlega skammarlegt fyrir hana og Samfylkinguna, sem verður tíðrætt um "að láta breiðu bökin borga".

Morgunblaðið gerði málinu skil 30. júní 2023 undir ósköp sakleysislegri fyrirsögn, þótt sú, sem í hlut á, sé ekki sakleysingi:

"Hagnaðurinn metinn sem laun".

Sú frétt hófst þannig:

"Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi aðalhagfræðingur Kviku banka, greiddi Skattinum tæpar MISK 25 í vor vegna hagnaðar af áskriftarréttindum bankans, sem hún hafði fjárfest í.  Kristrún sagði í samtali við mbl.is í gær, að málinu væri lokið af sinni hálfu, en þetta væri ekki endilega endanleg niðurstaða, þar sem fara má með mál af þessu tagi fyrir yfirskattanefnd."

 Ekki er víst, að allir átti sig á skattalagabroti formannsins af þessu orðalagi.  Nær er að segja hverja sögu, eins og hún er.  Formaður Samfylkingar gerðist brotleg við skattalög með því að vantelja fram launatekjur sínar og hugðist þannig halda MISK 25 í eigin vasa sínum í stað þess að láta þessa fjárhæð greiðlega af hendi rakna til samfélagsþarfanna. Þetta er hrikalegur vitnisburður um siðleysið og hræsnina, sem lekur af þessum nýja formanni Samfylkingarinnar, sem sótt var í fjármálaheiminn.  Það segir meira en mörg orð um það, hvar hjarta Samfylkingarinnar slær, og hvaða hagsmuni hún kann að setja á oddinn.  Hvort það samræmist hagsmunum alþýðunnar, sem Samfylkingin ber í orði kveðnu fyrir brjósti, er umdeilanlegt, en það er óumdeilanlega óheiðarlegt að koma ekki til dyranna, eins og maður er klæddur. 

Kristrún læðist með veggjum í þessu máli og er greinilega í vondum málum.  Hún rembist við að láta líta út fyrir, að hún hafi lagt fram MISK 3 sem áhættufé, sem hún hefði getað tapað.  Eru fordæmi fyrir því í sambærilegum málum ?  Ekki er svo, ef afstaða Skattsins er skoðuð, því að hann telur skýlaust um launaumbun til Kristrúnar að ræða:

 "Það fór þó ekki svo, því [að] hlutabréf Kviku hækkuðu mikið [eins og búizt var við - innsk. BJo] frá þeim tíma, sem Kristrún hóf þar störf.  Kristrún gat innleyst fjárfestinguna á 3 mismunandi dagsetningum fram í tímann, og var endanlegur hagnaður hennar um MISK 101."

Þarna lýsa blaðamenn Morgunblaðsins leikriti, sem Kvika setti á svið fyrir drottninguna af Kviku o.fl. starfsmenn fyrirtækisins til þess að fara í kringum orðið "bónus", sem hefði óhjákvæmilega þurft að fara í hæsta tekjuskattsþrepið. Með því að lýsa þessum vildargerningi sem "fjárfestingu", gátu óprúttnir spreytt sig á að reyna að borga ríflega helmingi lægri skatt, en Skatturinn sá við þeim, og var það vel.  Allt lyktar þetta ákaflega illa. 

Staksteinar Morgunblaðsins 30.06.2023 vitnuðu í pistilinn "Tilfallandi athugasemdir", sem ekki var gerð nánari grein fyrir:

""Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingar, segir fátt um Íslandsbankamálið, ólíkt formönnum allra annarra stjórnmálaflokka.  Ástæðan er Kvika, fjárfestingarbanki, sem hyggst ná eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka með samruna.

Kristrún var, þar til fyrir skemmstu, aðalhagfræðingur Kviku.  Hún hagnaðist um MISK 100 á kaupréttarsamningum.  Hún var lengi í vandræðum með að gefa skiljanlegar skýringar á því.""

   Það er út af því, að téð Kristrún er tvöföld í roðinu.  Hún ætlaði að komast upp með að telja Skattinum trú um, að ofangreind upphæð væri ávöxtun MISK 3 hennar, en Skatturinn sá við blekkingarstarfseminni.  Nú segir hún, að málinu sé lokið af sinni hálfu.  Það er út af því, að hún veit, að málstaður hennar er óverjandi gagnvart Yfirskattanefnd og að sú kynni að úrskurða 25 % sektarálag á skattstofninn.  Hitt er svo allt annað mál, hvort kjósendur, sem einnig eru skattborgarar í þessu landi, gera sér þessar "trakteringar" drottningarinnar af Kviku að góðu.  Þeir hafa enga ástæðu til þess.  Nú hafa þeir séð inn í kviku formanns Samfylkingarinnar, og ef allt er með felldu, munu þeir forðast að lyfta litla fingri til að lyfta drottningunni af Kviku til valda á Íslandi.  Hún er einskis trausts verð, og bezt fer á því að refsa henni með því að leiða Samfylkinguna á eyðimerkurgöngu hennar.

""En kom svo með þessa hagfræðilegu skýringu: "Ég datt í lukkupottinn", sagði Kristrún.  Íslandsbankamálið, sem nú er til umræðu, er aðeins undanfari að yfirtöku Kviku á Íslandsbanka.""

 Í þessu samhengi er vert að hafa í huga hið fornkveðna: "æ sér gjöf til gjalda".  MISK 100 eru ekkert annað en gjöf til Kristrúnar frá Kviku.  Með þetta veganesti fer hún í pólitíkina, og í fjármálageiranum hlýtur að vera ætlazt til, að þetta fé ávaxtist með afstöðu formanns Samfylkingarinnar.  Það er löngu þekkt, að ógerlegt er að þjóna tveimur herrum.  Aðeins þeir kjósendur Samfylkingarinnar, sem telja hagsmuni sína og Kviku-fjárfestingarbanka fara saman, geta með góðri samvizku kosið þennan stórundarlega stjórnmálaflokk. 

""Galdurinn, sem nú er í gangi, er oft nefndur: "Glitnir, taka tvö".  Samfylkingin hefur frá stofnun verið fimmta herdeild auðmanna.  Með formennsku Kristrúnar er innvígð og smurð auðkona í kjörstöðu til að hjálpa baklandi sínu að "detta í lukkupottinn".""

 Mun samsærið ganga upp ?

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband