Færsluflokkur: Fjármál
3.12.2024 | 18:28
Iðnaður í heljargreipum raforkuskorts
Það er til vitnis um breytileika tilverunnar og ófyrirsjánlega framtíð fyrirtækja á þeirri stundu, þegar fjárfesting fer fram, að raforkuskortur ár eftir ár á Íslandi skuli standa framleiðslunni fyrir þrifum og þar með ávöxtun fjárfestinganna. Vitað var, að vatnsrennsli gæti brugðið til beggja vona í u.þ.b. 3 ár á 30 ára tímabili, en nú er orðin regla fremur en hitt, að vatnsskortur herji á Þjórsár/Tungnaár virkjanir Landsvirkjunar. Þáttur í þessu óeðlilega ástandi er aukning álags á kerfið án nokkurra nýrra "stórra" virkjana síðan Búrfellsvirkjun 2 kom til skjalanna, en henni var ætlað að nýta umframrennsli, sem vart hefur verið fyrir hendi um árabil.
Þessi slæma staða orkuvinnslunnar mun skána árið 2029, þegar Hvammsvirkjun með sín 95 MW kemst loks í gagnið, en hún mun nýta sama vatnið og virkjanirnar ofar í Þjórsá gera.
Þessi staða sýnir líka, hversu mikilvægar jarðgufuvirkjanirnar eru, en frá gangsetningu Þeistareykjavirkjunar hefur engin slík virkjun verið tekin í notkun. Þær eru að vísu háðar árlegum niðurdrætti í gufuforðabúri hverrar virkjunar, en hann er mun fyrirsjáanlegri og veldur minni samdrætti í orkuvinnslugetu en slök vatnsrennslisár geta valdið. Þess vegna þarf að leggja áherzlu á báðar gerðir þessara hefðbundnu virkjana á Íslandi.
Á seinni árum hefur 3. gerð virkjana náttúrulegra orkulinda verið til umræðu á Íslandi, en það eru vindorkuverin. Þau eru langóstöðugust allra þessara 3 valkosta, og var þó ekki á óstöðugleikann bætandi. Landsvirkjun er að hefja framkvæmdir við s.k. Búrfellslund, um 100 MW, sem er raunhæf stærð í því orkuumhverfi, en gjalda verður miklum varhug við stærð "vindmyllugarðs" í Fljótsdal, sem er áformaður 350 MW að uppsettu afli. Að þessi óstöðuga raforkuvinnsla gangi truflanalaust upp á Austurlandi þarf að sannreyna með keyrslum í hermilíkönum, því að annars er reglunarvandi raforkukerfisins viðbúinn með óstöðugleika í tíðni og spennu sem afleiðingu. Íslendingar eru hvekktir af kostnaðarsömum áföllum í raforkukerfinu bæði af völdum vatnsskorts og snöggra breytinga á álagi eða framleiðslugetu. Þegar kerskáli Norðuráls á Grundartanga leysti út eða var leystur út haustið 2024, olli það meiri spennuhækkun á svæði Kröflu og Þeistareykjavirkjunar en notendabúnaður réði við, svo að stórtjón varð á rafbúnaði. Þessa sviðsmynd hefðu Landsnet og Landsvirkjun átt að sjá fyrir og hafa sjálfvirkar mótvægisaðgerðir tiltækar til að varðveita kerfisjafnvægi.
Í Morgunblaðinu 25. október 2024 gerði blaðamaðurinn Ólafur E. Jóhannsson grein fyrir helztu afleiðingum afl- og orkuskerðinga Landsvirkjunar, sem nú eru hafnar eða á döfinni í vetur, undir fyrirsögninni:
"Milljarða tekjutap vegna skerðinga".
Fréttin hófst þannig:
"Landsvirkjun hefur boðað skerðingar á forgangsorku [rangt, hér er átt við ótryggða orku-innsk. BJo] til 11 stórnotenda sinna, og þurfa þá fyrirtækin í einhverjum tilvikum að draga úr starfsemi sinni sem því nemur. Hér er um að ræða álverin á Reyðarfirði, á Grundartanga og í Straumsvík, járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga, kísiljárnsverksmiðjuna við Húsavík, 4 gagnaver með starfsstöðvar á nokkrum stöðum á landinu, aflþynnuverksmiðju á Akureyri og fiskeldisfyrirtæki í Þorlákshöfn. Þar við bætast fiskimjölsverksmiðjur á Austfjörðum og í Vestmannaeyjum, sem munu þurfa að keyra vélar sínar á jarðefnaeldsneyti.
Raforkuskeðingar hófust í gær [24.10.2024] á Suðvesturlandi, en á Norður- og Austurlandi munu þær hefjast eftir mánuð [mánuði síðar]. Í tilkynningu frá Landsvirkjun kemur fram, að ekki sé hægt að segja til um, hversu lengi þær muni standa, en reikna megi með skerðingum til til næsta vors [2025]. Skerðing á raforku til stórnotenda Landsvirkjunar er bundin í samninga, þannig að þegar staða miðlunarlóna er lág, er heimilt að skerða afhendingu raforku.
Ekki er ljóst, hvert tekjutap Landsvirkjunar verður vegna þeirra skerðinga, sem fyrirtækið er nauðbeygt til að grípa til, en tekjutap fyrirtækisins vegna skerðinga fyrr á þessu ári nam hundruðum milljóna ISK."
Landsvirkjun hefur ekki jafnfrjálsar hendur með að ganga í skrokk á viðskiptavinum sínum, þegar vatnsskortur er, hvort sem vatnsbúskapurinn er í aumara lagi eða látið hefur verið undir höfuð leggjast að bæta við virkjunum, nema hvort tveggja sé, og þarna er gefið til kynna, því að á hverju 5 ára tímabili má orkuskerðingin ekki fara yfir ákveðinn fjölda MWh hjá hverju fyrirtæki. Landsvirkjun verður þannig skaðabótaskyld, ef hún tekur upp á því að skerða forgangsorku eða ótryggða orku yfir ákveðin mörk, nema um "Force Majeur" ástand eða óviðráðanlega atburði sé að ræða.
Hér er um gríðarmikið tjón viðskiptavina Landsvirkjunar að ræða, margfalt meira en hjá Landsvirkjun sjálfri. Að svona sé komið á Íslandi 2024 þýðir ekkert minna en orkustefna landsins hafi beðið algert skipbrot. Þótt fyrirtæki vilji virkja, þá kemur stjórnkerfi orkumálanna í veg fyrir það. Það verður að ryðja þessum hindrunum úr vegi, og til þess þarf vafalítið atbeina Alþingis. Hvort stuðningur við verulega aukið framboð raforku í landinu verður meiri á nýju þingi eftir kosningarnar 30.11.2024 en verið hefur á nýrofnu þingi, er ekki sjálfgefið. Þess vegna er ekki sérlega bjart yfir þessum málaflokki, sem er þá ávísun á hækkandi raforkuverð, hagvaxtarstíflu og gríðarlegan kostnaðarauka atvinnulífsins.
Um þessar mundir er álverð hátt eða um 3000 USD/t með s.k. premíu, sem fyrirtæki fá fyrir sérhæfða framleiðsluvöru. Fyrirtækin verða ekki einungis fyrir sölutapi og hugsanlegum missi viðskiptavina, heldur eykst rekstrarkostnaður þeirra líka vegna styttri endingar og hærri endurnýjunarkostnaðar framleiðslubúnaðar. Það má gizka á, að tjón þessara 11 fyrirtækja, sem talin eru upp í fréttinni, nemi a.m.k. 11 mrdISK vegna boðaðra raforkuskerðinga.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.11.2024 | 16:32
Grobb og froða í stað innihalds
Grobb forystusauðs Samfylkingar ríður ekki við einteyming. Það vellur upp úr pottunum hjá henni í Morgunblaðsgrein 15. nóvember 2024. Hún þykist hafa til að bera hæfni í hagstjórn, en nákvæmlega ekkert í málflutningi hennar bendir til einhverrar nýbreytni til hins betra. Þá er hún drýgindaleg yfir "plani" Samfylkingar, en það er hvorki fugl né fiskur. Henni væri nær að útlista fyrir kjósendum, hvernig Samfylkingin ætlar að breyta ríkisbúskapnum, ef hún kemst til valda eftir kosningarnar 30.11.2024.
Téð grein bar digurbarkalega yfirskrift:
"Neglum niður vextina".
Hún hófst þannig:
"Samfylkingin ætlar að negla niður vextina. Með hæfni í hagstjórn. Við munum lækka kostnað heimila og fyrirtækja í landinu - fáum við til þess traust í kosningunum 30. nóvember [2024].
Þetta er stærsta hagsmunamál almennings á Íslandi eftir óstjórn síðustu ára. Fráfarandi ríkisstjórn brást fólkinu í landinu með því að passa ekki upp á efnahagsmálin. Nú er kominn tími á breytingar."
Þetta er ótrúlega grautarlegur texti, þar sem ægir saman inantómum fullyrðingum um eigið ágæti og órökstuddum ávirðingum í garð annarra.
Það er út í hött að halda því fram, að Samfylkingin muni "negla niður vextina". Ætlar hún að negla þá fasta ? Það er Seðlabankinn, sem tekur ákvörðun um stýrivexti, og þenslustefna Samfylkingar í ríkisfjármálum mun vinna gegn lækkun stýrivaxta. Aðaldrifkraftur verðbólgu undanfarið hefur komið frá húsnæðisgeiranum, en fáránleg þéttingarárátta Samfylkingar í borginni hefur valdið lóðaskorti og keyrt upp byggingarkostnað. Samfylkingin þrjózkast við að samþykkja útvíkkuð vaxtarmörk á höfuðborgarsvæðinu, sem setur lóðafjölda á hverjum tíma skorður. Samfylkingin undir forystu Dags B. Eggertssonar hefur einfaldlega gert það, sem á hennar valdi hefur verið til að kynda verðbólgubálið. Nú er Kristrún með téðan Dag í aukaleikarahlutverki á sínum lista í Reykjavík, og það er fullkomlega ótrúverðugt, að Samfylkingin muni með ráðstöfunum sínum í ríkisstjórn viðhalda núverandi vaxtalækkunarhraða, hvað þá að auka hann.
Í hverju er óstjórn síðustu ára fólgin ? Er hún fólgin í því að fylgja í einu og öllu ofstækisfullum tillögum Ölmu Möllers, landlæknis, og sóttvarnalæknis hennar í Kófinu, en téð Alma skipar nú efsta sæti á einum lista Samfylkingar fyrir Alþingiskosningarnar 30.11.2024 ? Var það sök ríkisstjórnarinnar, að stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar fór á hliðina í Kófinu ? Íslenzka ríkisstjórnin brást við Kófinu með svipuðum hætti og víða átti sér stað. Það ásamt tekjutapi og dúndrandi halla á ríkissjóði olli hárri verðbólgu ? Hvaða athugasemdir gerði Samfylkingin við það á sínum tíma ? Það er lítilmannlegt að koma eftir á og gefa í skyn, að Samfylkingin hefði staðið öðru vísu að málum. Það er einfeldningslegt og ótrúverðugt að halda því fram, að efnahagsstjórnin hefði farið betur úr hendi Samfylkingar í Kófinu og í kjölfar þess.
"Samfylkingin er eini flokkurinn með plan um að negla niður vexti og verðbólgu. Allir flokkar tala um að gera þetta - en hverjum er treystandi ? Alla vega ekki þeim, sem hafa stjórnað landinu síðustu árin, og ekki þeim, sem lofa öllum öllu alls staðar.
Plan Samfylkingar til að negla niður vextina er þríþætt. Bráðaaðgerðir í húsnæðismálum til að fjölga íbúðum strax. Stöðugleikaregla í ríkisfjármálum til að ríkissjóður hætti að valda verðbólgu. Og tiltekt í ríkisrekstri ásamt tekjuöflun með skynsamlegum skattkerfisbreytingum - án þess að hækka skatta á almenning."
Hvers konar bull er þetta eiginlega í bankaprinsessunni. Verðbólga hjaðnar nú tiltölulega hratt, og 20. nóvember 2024 voru stýrivextir lækkaðir um 0,5 %. "Plan" Samfylkingar er hvorki fugl né fiskur. Það sem þarf að gera í húsnæðismálum er einfaldlega að brjóta nýtt byggingarland í miklu magni og selja lóðaafnotin á verði sem næst kostnaði. Húsnæðisverð er nú svo hátt, að spurn eftir slíkum lóðum mun verða gríðarleg. Klunnaleg forræðisinngrip Samfylkingar munu aðeins gera illt verra.
Það er fyrir hendi stöðugleikaregla í ríkisfjármálum, en Samfylkingin ætlar að finna upp hjólið. Það er þvættingur, að aukin skattheimta af fjármagni og fyrirtækjum komi ekki niður á almenningi. Aukin skattheimta af sparnaði mun draga úr sparnaði, sem hefur tilhneigingu til að hækka vexti. Aukin skattheimta af fyrirtækjum er líka verðbólguhvetjandi. Ef fyrirtækin geta ekki sett kostnaðarauka sinn út í verðlagið, minnkar geta þeirra til launahækkana og fjárfestinga, sem getur valdið ólgu á vinnumarkaði og samdrætti í byggðum, þar sem fyrirtækin starfa. Samfylkingin ætlar að hrifsa í stýri ríkisfjármálanna með skatta- og gjaldahækkunum, sem draga munu úr hagvexti og vera verðbólguhvetjandi. Þetta eru eins viðvaningsleg vinnubrögð og hugsazt getur og algerlega óþörf.
Kristrún Frostadóttir er úti á túni sem formaður stjórnmálaflokks. Hún heldur því fram, að stýrivextir hafi verið 9,00 % í meira en eitt ár. Þeir voru lækkaðir í 9,00 % við vaxtaákvörðun Peningastefnunefndar Seðlabankans næstu á undan þeirri 20.11.2024. Þá er villandi hjá henni að tala um hallarekstur á ríkissjóði í 9 ár. Ríkisstjórnin reiknar með 2 árum í viðbót, þ.e. afgangi 2027, sem verður fyrr, ef ríkisstjórn búhygginda og hagvaxtar tekur hér við eftir næstu kosningar, en það er borin von með ríkisstjórn viðvaninga með þenslu ríkisbúskapar á stefnuskrá sinni.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.11.2024 | 16:36
Skellibjalla bullar
Málflutningur formanns "Skattfylkingarinnar", Kristrúnar Frostadóttur, í aðdraganda nóvemberkosninganna á Íslandi 2024, hefur verið sérkennilegur. Hún lætur í það skína, að hún hafi legið undir feldi með flokksmönnum sínum og gert þar áætlun um lausn jafnaðarmanna á þeim málum, sem helzt hvíla á landsmönnum um þessar mundir. Þegar kjánalegir stjórnmálamenn forræðishyggjunnar gera áætlanir um samfélagsbreytingar, er eins gott fyrir þjóðina að biðja guð að gleypa sig eða hreinlega að hafna forræðishyggjunni við kjörborðið.
Formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, gerði formann Samfylkingar afturreka með drýldni sína um áætlun fyrir ríkisfjármálin á fyrri formannafundi RÚV Sjónvarps fyrir þessar Alþingiskosningar. "Skattfylkingin" ætlar að hækka útgjöld ríkissjóðs um 77 mrdISK/ár. Hvernig ætlar forræðishyggjufólkið að fjármagna þennan úgjaldaauka ? Það var talið upp í áætlun "snillinganna", en skattstofnarnir, sem "Skattfylkingin" ætlar að þurrmjólka, eru svo takmarkaðir, að þar er í mesta lagi hægt að kreista 20 mrdISK/ár. Þá kom fát á drýldnu skellibjölluna, sem fór að bulla um aðhaldsaðgerðir. Hverjum dettur í hug, að "Skattfylkingin" muni beita sér fyrir aðhaldsaðgerðum í rekstri ríkissjóðs ? Hún hefur keyrt borgarsjóð í þrot, skuldsett hann upp í rjáfur, svo að skuldir borgarinnar eru komnar yfir leyfileg mörk.
Þann 5. nóvember 2024 þóknaðist skellibjöllunni að fá birta eftir sig öfugmælagrein með innantómum fullyrðingum í sandkassastíl um, að "Sjálfstæðisflokkurinn hækki vexti", "Sjálfstæðisflokkurinn hækki verð", "Sjálfstæðisflokkurinn hækki skatta", og að "Samfylkingin sé eini flokkurinn með plan".
Þetta er ótrúlega barnaleg og vantillt grein, sem þarfnast þó umfjöllunar í ljósi kosninganna. Fyrirsögnin bar þessu vitni:
"Sjálfstæðisflokkurinn hækkar kostnað heimilanna".
Öfugmælin hófust þannig:
"Samfylkingin ætlar að lækka kostnað heimilanna. [1]
Kostnaðurinn við að lifa venjulegu lífi hefur rokið upp úr öllu valdi á Íslandi. [2]
Það er of dýrt að borga vexti, of dýrt að borga húsnæði, og það er meira að segja of dýrt að kaupa í matinn hérna. [3]
Þessu ætlar Samfylkingin að breyta - fáum við til þess traust hjá þjóðinni í kosningunum þann 30. nóvember [2024]."
[1] Er þetta trúverðugt í ljósi þess, að Samfylkingin ætlar að hækka skatta á almenning og fyrirtæki ? Allar skattahækkanir bitna að lokum á heimilunum. Það eru engar "góðar" skattahækkanir til, sem ekki bitna á almenningi með einum eða öðrum hætti. Þungar byrðar á fyrirtæki minnkar getu þeirra til stækkunar og/eða hækkunar launa og getur leitt til samdráttar og uppsagna starfsfólks.
Er Samfylkingin fús til að lækka kolefnisgjöldin á eldsneytið, nú þegar verið er að hækka og útvíkka gjaldtöku fyrir veganotkun ? Nei, Samfylkingin hefur ekki léð máls á því og yfirleitt alls engum lækkunum skattheimtu og opinberra gjalda. Það er mjög greinilegt í höfuðborginni, þar sem hún hefur ráðið undanfarinn rúman áratug og spennt allar álögur í botn. Það er eins og hvert annað bull, að Samfylkingin muni verða líkleg til að lækka kostnað heimilanna.
[2] Framfærslukostnaður á Íslandi hefur hækkað undanfarin ár á Íslandi, eins og í öllum öðrum löndum. Framleiðsla og flutningar röskuðust í Kófinu (C-19), sem leiddi til hækkunar vöruverðs og þjónustu 2020-2022. Síðan hóf Rússland ólöglega og grimmdarlega alls herjar innrás sína í Úkraínu 24.02.2022. Hún leiddi til enn meiri truflana á ýmsum aðdráttum ásamt verðhækkunum. Verðbólguskot varð um allan heim, og Ísland fór ekki varhluta af því, og fyrst núna er verðbólgan tekin að hjaðna í nægilegum mæli, til að Seðlabankinn hafi séð sér fært að hefja vaxtalækkunarferli.
Með mjög óeðlilegum stjórnarháttum sínum í Reykjavík hefur Samfylkingin valdið lóðaskorti í Reykjavík og húsnæðisskorti, nema á rándýrum íbúðum á s.k. þéttingarreitum. Þetta keyrði upp verðbólguna í landinu og heldur henni enn uppi.
Bullið í formanni Samfylkingar hreinsar ekki sök af Samfylkingu um stórfelldar byrðar á heimilin í landinu.
[3] Samfylkingin hefur neitað að víkka uppbyggingarmörk höfuðborgarsvæðisins, og þannig komið í veg fyrir, að nágrannasveitarfélög Reykjavíkur geti brotið nýtt land undir byggingar, sem þó er nauðsynlegt til að leysa úr lóðaskorti og byggingaskorti á höfuðborgarsvæðinu, sem valdið hefur miklum hækkunum húsnæðisverðs þar. Það er húsnæðisverðið sem er aðalhvati verðbólgunnar um þessar mundir.
Formanninum þykir dýrt að kaupa í matinn á Íslandi. Er hún fús til að fara í raunhæfar aðgerðir til lækkunar, t.d. lækkun eða afnám virðisaukaskatts á matvæli eða að afnema kolefnisgjald á olíu, sem þá lækkar flutningskostnað og framleiðslukostnað íslenzks landbúnaðar ? Samfylkingin hefur aldrei gert neitt raunhæft til að lækka kostnað heimila.
Bullið í formanni Samfylkingar hreinsar ekki sök Samfylkingar á háum kostnaði og háum vöxtum á Íslandi.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.11.2024 | 17:58
Óhjákvæmileg stjórnarslit
Svandís Svavarsdóttir, formaður VG, virtist telja það bezta ráðið til að lyfta fylgi flokksins yfir 5 % línuna, sem skilur á milli lífs og dauða í landsmálapólitíkinni, að setja hornin hvað eftir annað í Sjálfstæðisflokkinn, nánar tiltekið formann hans, á meðan hún enn sat með honum í ríkisstjórn. Þetta reyndist gera illt verra fyrir flokk hennar, því að enn fjaraði undan flokkinum í mælingum á fylgi.
Þessi alræmdi fulltrúi þröngsýni og vinstra ofstækis í pólitíkinni virðist vera heillum horfin og í raun ekkert erindi eiga í pólitík, því að hún hefur sýnt fádæma dómgreindarleysi í öllum sínum ráðherraembættum og hlotið dóma fyrir lögbrot. Á fundi formanna stjórnmálaflokkanna hjá Sjónvarpi RÚV skömmu eftir, að forsætisráðherra tilkynnti ákvörðun sína um að rjúfa þing, sem hann einn hefur vald til, opinberaði téð Svandís fáfræði sína um stjórnskipan landsins og skítlegt eðli sitt með því að tilkynna, að hún vildi annars konar starfsstjórn, þ.e. stjórnarmyndun Sigurðar Inga, formanns Framsóknarflokksins. Allt var þetta fádæma einfeldningslegt, enda er hún nú rúin trausti.
Úr því að formaður Framsóknarflokksins er nefndur hér til sögunnar, verður að nefna hér þá gríðarlegu áhættu, sem hann hefur nú tekið með því að bjóða Framsóknarmönnum og stuðningsfólki flokksins í Suðurlandskjördæmi upp á forystu yfirborðskennds forsetaframbjóðanda á B-listanum. Ekki kæmi á óvart, að Framsóknarmönnum væri nú nóg boðið og höfnuðu slíkum "trakteringum" formannsins með þeim afleiðingum, að hann dytti út af þingi. Eftir sæti forystulaus sveit Framsóknarmanna á Suðurlandi og á þingi. Gluggaskreytingar af þessu tagi eru móðgun við kjósendur.
Óli Björn Kárason, þingmaður sjálfstæðismanna í Kraganum, ákvað að gefa ekki kost á sér til setu á D-listanum fyrir kosningarnar 30.11.2024. Það er eftirsjá að Óla Birni, því að hann hefur gert sér far um að leggja rækt við grunngildi Sjálfstæðisflokksins, sem hverfa sjónum kjósenda, þegar flokkurinn tekur þátt í samsteypustjórnum. Grunngildi Sjálfstæðisflokksins höfða til a.m.k. fjórðungs þjóðarinnar, og þess vegna verður að skrifa lágt gengi flokksins undanfarin misseri á stjórnarsamstarfið.
Óli Björn ritaði grein í Morgunblaðið 9. október 2024 undir fyrirsögninni:
"Hingað og ekki lengra".
Hún hófst þannig:
"Svandís Svavarsdóttir, nýr formaður Vinstri grænna, er að misskilja eigin stöðu og flokks síns í samstarfi við Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn. Vinstri grænum var ekki afhent einhliða neitunarvald í ríkisstjórn. Heimild til þingrofs er heldur ekki í höndum Svandísar, þótt hún hafi stigið fram og boðað til kosninga áður en kjörtímabilinu er lokið.
Það þarf ekki að fara eins og köttur í kringum heitan graut. Vinstri grænir undir forystu eins reyndasta og, að því er ég hélt [?!-innsk. BJo], eins klókasta stjórnmálamanns samtímans [oflof, það er háð-innsk.BJo], hafa í raun bundið enda á stjórnarsamstarfið. Ég efast ekki um, að Vinstri grænir trúi því og treysti, að samstarfsflokkarnir í ríkisstjórn láti það yfir sig ganga, að minnsti flokkurinn taki þingrofsheimildina af forsætisráðherra og setji samráðherrum sínum stólinn fyrir dyrnar í mikilvægum málum."
Vinstri grænir voru búnir að komast að þeirri niðurstöðu á fundum sínum, að til að endurheimta fylgi sitt yrðu þeir að fara í naflaskoðun. Það var auðvitað kolrangt mat hjá þeim, því að nafli vinstri grænna er ekkert augnayndi fyrir nútíma kjósendur. Þetta leiddi hins vegar til þess, að ráðherrar vinstri grænna juku þvergirðing sinn við ríkisstjórnarborðið um allan helming, og þá var ekki til setunnar boðið, og forsætisráðherra var búinn að skjóta því aðvörunarskoti að VG-kænunni, en þar um borð lét fólk sér ekki segjast, enda alræmdir þvergirðingar.
"Í pistli hér á þessum stað fyrir réttri viku benti ég á, að málamiðlanir milli ríkisstjórnarflokkanna hefðu ekki alltaf endurspeglað þá staðreynd, að Sjálfstæðisflokkurinn er fjölmennasti þingflokkurinn á Alþingi og í ríkisstjórn. Sáttfýsi okkar sjálfstæðismanna hefði því verið meiri en efni hafa staðið til út frá þingstyrk. Þessi sáttfýsi hefur reynzt Sjálfstæðisflokkinum dýrkeypt þrátt fyrir augljósan árangur í efnahagsmálum."
Það er algert neyðarbrauð að mynda ríkisstjórn þvert yfir hið pólitíska litróf, því að þá verður til slík útþynning á stefnumálum flokkanna, að kjósendur vita ekki sitt rjúkandi ráð. Þar að auki komst minnsti flokkurinn, sem lengst af fór með forsætisráðherraembættið, upp með að koma í veg fyrir nýjar virkjanir, sem þó eru undirstaða frekari verðmætasköpunar í landinu. Þessi afturhaldsflokkur, sem jafnframt virðist vera flokkur opinna landamæra, kom líka lengst af í veg fyrir samræmingu íslenzkrar hælisleitendalöggjafar við t.d. þá norrænu, sem virkaði sem hvati fyrir hælisleitendur um að leita hingað ásjár. Hingað hafa nú hrúgazt heilaþvegnir múhameðstrúarmenn, sem láta oft á tíðum ófriðlega og eru ógnandi, eins og Kóraninn innrætir þeim að vera gagnvart kristnu fólki. Þetta er hrottalegur baggi á þjóðfélaginu, því að þessu fólki dettur ekki í hug að leggja sig fram um aðlögun að íslenzku samfélagi, en það fyllir fangelsin.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.10.2024 | 18:00
Skattheimta í refsingarskyni
Skattheimtuárátta vinstri grænna er ofstækisfull og efnahagslega fullkomlega glórulaus. Þeim dettur ekki í hug að gaumgæfa, hvaða skattheimtustig er þjóðhagslega hagkvæmast, þ.e. gefur stærstu kökuna til skiptanna. Þá virðist skorta þroska til að hugsa á slíkum rökréttum brautum, en bleyta í þess stað vinstri þumalinn og stinga honum upp í loftið til að finna út, hvers konar lýðskrum hentar þeim bezt í hvert skiptið. Þetta er fullkomlega ábyrgðarlaus hegðun gagnvart launþegum, sem eiga atvinnuöryggi sitt undir fjárfestingum í fyrirtækjunum, en þegar jafna má skattheimtunni við eignaupptöku, en það eru hreðjatökin, sem VG leggur til, að sjávarútvegurinn verði tekinn, er skörin tekin að færast upp í bekkinn. Hingað og ekki lengra !
Kolefnisgjald á jarðefnaeldsneyti hefur hækkað úr hófi fram og heldur enn áfram að hækka. Þessari skattheimtu verður auðvitað að stilla í hóf á útflutningsatvinnugreinar og taka mið af því, sem lagt er á samkeppnisfyrirtækin erlendis. Það er ekki gert hérlendis og vitnar um ruddalegar aðfarir skilningslítilla embættis- og stjórnmálamanna. ESB hóf þessa skattheimtu til að beina fyrirtækjum í umhverfisvænni kosti, en á tímum raforkuskorts í boði stjórnvalda geta vinnuvélaeigendur og útgerðarmenn ekki keypt rafeldsneyti í stað jarðefnaolíu. Kerfið setur undir sig hausinn og lemur honum við steininn, enda breytir það engu um stjórnvizku hins opinbera.
Þann 19. september 2024 birtist fróðleiksgrein eftir kunnáttukonurnar Birtu Karen Tryggvadóttur, hagfræðing hjá SFS, og Hildi Hauksdóttur, sérfræðing í umhverfismálum hjá SFS, undir fyrirsögninni:
"En að létta róðurinn ?"
"Kolefnisgjald er eitt þeirra gjalda, sem stjórnvöld leggja á íslenzkan sjávarútveg. Engar undanþágur eru veittar frá gjaldinu, en þar sker Ísland sig frá öðrum Evrópuþjóðum. Kolefnisgjaldinu er ætlað að hvetja til orkusparnaðar, notkunar á vistvænni ökutækjum, samdráttar losunar gróðurhúsalofttegunda og aukinnar notkunar á innlendum orkugjöfum, sem í dag eru af skornum skammti.
Olíukostnaður hefur að jafnaði verið annar stærsti kostnaðarliður í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja á eftir launum. Allar breytingar á olíuverði hafa því mikil áhrif á rekstrarskilyrði sjávarútvegs - líka, ef þær verða til með hækkun kolefnisgjalds.
Kolefnisgjaldið stendur nú í 13,45 ISK/l ol, en það hefur hækkað um 364 %, síðan það var fyrst lagt á árið 2010. Á sama tíma hefur verðlag hækkað um 70 %. Kolefnisgjaldið hefur þannig hækkað langt umfram verðlagsbreytingar, og það hefur óhjákvæmilega mikil áhrif á rekstrarskilyrði í sjávarútvegi. Í liðinni viku [v.37/2024] kynnti ríkisstjórn Íslands svo enn frekari hækkanir á kolefnisgjaldi.
Fyrirtæki í sjávarútvegi hafa greitt tæpa mrdISK 19 í kolefnisgjald á árunum 2011-2023. Heildartekjur ríkissjóðs vegna gjaldsins námu tæpum mrdISK 60 á sama tímabili. Sjávarútvegurinn hefur þannig staðið undir greiðslu á á um þriðjungi kolefnisgjaldsins á Íslandi."
Þetta er dæmi um tillitslausa og skattheimtugríð íslenzkra embættismanna og stjórnmálamanna, því að yfirleitt er sjávarútvegi hlíft við henni. Þarna er um þjóðhagslega óhagkvæma skattheimtu að ræða, því að hún skekkir samkeppnishæfnina. Þarna er verið að gera íslenzkum atvinnuvegi erfitt fyrir með svipuðum hætti og með s.k. blýhúðun ESB-reglugerða og tilskipana.
"Íslenzkur sjávarútvegur er í fararbroddi í umhverfismálum á heimsvísu, og það stendur ekki á atvinnugreininni að ná enn frekari árangri í þeim efnum. En næstu skref í átt að markinu eru snúin. Þegar miklum samdrætti í olíunotkun hefur verið náð, verða frekari skref fram á við bæði vandasamari og kostnaðarsamari. Af þeim sökum skiptir sköpum, að stjórnvöld tryggi svigrúm til verulegra fjárfestinga í greininni næstu árin, m.a. með hóflegri gjaldtöku og fyrirsjáanlegu rekstrarumhverfi."
Þetta skilja ekki vinstri grænir, og þess vegna er í meira lagi umdeilanlegt að fela þeim forsjá atvinnuvegaráðuneytis. Þeir skilja ekki, að í atvinnugrein, hverrar velgengni er reist á miklum fjárfestingum í framleiðniaukandi og gæðaaukandi búnaði ásamt nýsköpun til að skáka samkeppnisaðilum, þarf framlegðin frá rekstri að vera há. Núna er sérstök skattheimta á útgerðir 33 % af hagnaði og almenni tekjuskatturinn leggst ofan á þetta. Þarna er augljóslega teflt á tæpasta vað, enda einsdæmi í heiminum. Nei, vinstri græna ofstækið ætlar ekki að láta þar við sitja, heldur hækka sértæku skattheimtuna verulega. Það er ótækt, enda setur slíkt fjölda fyrirtækja í uppnám og þar með lífsafkomu fjölda fólks. Ábyrgðarleysið er algert, og sjálfstæðismenn geta ekki fallizt á þessi vinnubrögð.
"Hafa verður í huga, að kolefnisgjald úr hófi stendur í vegi fyrir því, að ná megi háleitum markmiðum um aukinn samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda í sjávarútvegi og veikir sömuleiðis samkeppnisstöðu sjávarafurða á erlendri grundu.
Ný aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum mætir því miður ekki þeim áskorunum, sem sjávarútvegur stendur frammi fyrir og varðar ekki leið að frekari samdrætti í olíunotkun. Áherzlan er enn á óraunhæfar og íþyngjandi aðgerðir tengdar sjávarútvegi í stað þess að treysta betur fjárhagslegt svigrúm til fjárfestinga og aukinnar verðmætasköpunar með hóflegri gjaldtöku ýmiss konar og traustari innviðum. Markmiði um 55 % samdrátt í losun frá sjávaútvegi verður ekki náð, nema stjórnvöld og atvinnulífið hafi sameiginlegan skilning á verkefninu."
Það er ekki nóg með, að stjórnmálamenn, svífandi í lausu lofti, setji landsmönnum óraunhæf markmið í loftslagsmálum, heldur hafa embættismenn svo lítið vit á að smíða aðgerðaáætlun, að hún hjálpar heilli atvinnugrein ekkert við að ná markmiðinu, heldur torveldar það fremur. Hrokinn og minnimáttarkenndin er svo ríkur í þessu slekti, sbr "vér einir vitum", að ekki er borið við að ráðfæra sig við samtök atvinnugreinarinnar um það, hvernig bezt má verða að liði við að leysa verkefnið. Niðurstaðan er fyrirsjáanleg: það eru bara lagðir steinar í götu atvinnugreinarinnar.
Fyrir hvað er þá verið að refsa þessari öflugustu atvinnugrein landsins ? Jú, það er verið að refsa útgerðarmönnum fyrir að eiga aflahlutdeildirnar, sem ríkið úthlutar þeim árlega á grundvelli ráðlegginga Hafrannsóknarstofnunar um heildarveiði úr mismunandi nytjastofnum við Ísland. Þetta einkaeignarréttarlega fyrirkomulag er grundvöllurinn að góðum árangri fiskveiðistjórnunarkerfisins íslenzka, hvort sem litið er til framleiðni og hagræðingar kerfisins, sótspors sjávarútvegsins eða ábyrgrar umgengni hans við auðlindina. Einkaeignarréttarlega fyrirkomulagið hámarkar stöðugleikann, sem greinin getur búið við, og fjárfestingargetu hans, en sameignarsinnar o.fl. hafa mikið reynt til að gera þetta fyrirkomulag tortryggilegt í augum almennings. Kerfið er uppnefnt gjafakvótakerfi. Hvílíkur uppspuni. Þeir, sem stunduðu útgerð, þegar kerfið var sett á, og gátu sýnt fram á 3 ára aflareynslu, fengu úthlutað aflahlutdeild í byrjun. Hverjir aðrir áttu meiri rétt á þessu ? Kerfið er nefnt "grandfathering" á ensku og er vel þekkt erlendis. Síðan hafa aflahlutdeildir gengið kaupum og sölum, svo að yfir 90 % þeirra hafa verið keyptar. Auðvitað fellur þetta kerfi ekki að afdankaðri og vonlausri sameignarhugmyndafræði vinstri grænna, og það hefur komið vel fram hjá ráðherrum þeirra í matvælaráðuneytinu. Þar hefur greinilega verið efst á dagskrá að bregða fæti fyrir útgerðirnar, enda stendur góður árangur þeirra undir þessu markaðsdrifna kerfi eins og fleinn í holdi vinstri manna (Samfylkingin meðtalin.). Nú ætla þessir sjálfskipuðu alþýðuleiðtogar með hugmyndafræði, sem alls staðar leiðir til ófara, þar sem hún er reynd, að jafna hlut alþýðunnar. Hvílík sjálfsblekking, fáfræði og grunnhyggni. Þetta ofstjórnar- og ríkisbákns fyrirbrigði, sem vinstri grænir eru, verður að stöðva í skemmdarverkum þess á hagkerfi landsins.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.10.2024 | 14:56
Viðsjár stjórnmálanna
Miklar breytingar á fylgi stjórnmálaflokkanna hérlendis samkvæmt s.k. skoðanakönnunum hafa valdið titringi í stjórnmálaheiminum. Þau eindæmi urðu á fundi hjá VG 06.10.2024, að flokkurinn sleit stjórnarsamstarfinu hálft ár fram í tímann. Þetta er blaut tuska framan í andlit formanna hinna stjórnarflokkanna, sem báðir höfðu lýst áhuga sínum á að sitja út kjörtímabilið (september 2025). Nú verður ekki tekizt á með silkihönzkum, og vetrarkosningar (marz 2025) koma fyllilega til greina. VG valdi skemmt vín á gömlum belg í forystuna, ætlar í naflaskoðun, og verður sennilega skilin eftir við þá iðju norpandi í kuldanum utan Alþingis.
Það er ekki ólíklegt, að aðvörunarskot fylgismanna hinna stjórnarflokkanna framan stefnis muni fá þá til að sýna vígtennurnar og höfða til kjósenda sinna fyrrum tíð með því að draga fram sérkenni sín, sem í sögulegu samhengi eru borgaraleg viðmið með áherzlu á verðmætasköpun annars vegar með einkaframtaki, samkeppni og einkaeign með hóflegri skattheimtu - og hins vegar samvinnuhugsjónin með blönduðu hagkerfi, sem óhjákvæmilega fylgir stærra ríkisbákn og meiri skattheimtu eða skuldasöfnun ríkissjóðs.
Það er hollt fyrir kjósendur, að stjórnmálamenn takist á um hugsjónir og meginstefnur. Hinum megin víglínunnar séð frá borgaraflokkunum er hið ókræsilega lið opinbers rekstrar og eignarhalds, útþensla ríkisbáknsins og þar af leiðandi óbærilega áþján skattheimtu á bæði einstaklinga, fjölskyldur og fyrirtæki og einnig skuldasöfnun og þar af leiðandi hærri verðbólga en hollt er. Þegar þessi ólíkindatól, sem nú eru í stjórnarandstöðu, verða krufin um fyrirætlanir sínar á næsta kjörtímabili, mun þeim vefjast tunga um tönn, og getan er ekki meiri en svo, að þau munu óhjákvæmilega skjóta sig í fótinn, og fylgistölur þar af leiðandi verða allt aðrar en nýlegar skoðanakannanir gefa til kynna.
Til marks um gerjunina, sem í gangi er víða, birtist 4. október 2024 grein eftir Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmann, undir fyrirsögninni:
"Flokkur frelsis og ábyrgðar ?".
Hún hófst þannig:
"Ég hef jafnan í alþingiskosningum kosið Sjálfstæðisflokkinn. Ástæðan er sú, að mér hefur fundizt hann standa nær afstöðu minni til frelsis og ábyrgðar en aðrir, auk þess sem flokkurinn hefur haft uppi stefnumið í ýmsum málum, sem mér hafa þótt burðugri en annarra.
Nú eru mér hins vegar að fallast hendur í stuðningi við þennan flokk. Hann hefur nefnilega hreinlega fórnað mörgum stefnumálum í þágu samstarfs í ríkisstjórn með verstu vinstri skæruliðum, sem finnast í landinu. Það er eins og fyrirsvarsmenn flokksins hafi verið tilbúnir að fórna stefnumálum sínum fyrir setu í ríkisstjórn. Þá má spyrja: Til hvers eru menn í stjórnmálum, ef þeir eru ekki að koma fram þeim stefnumálum, sem þeir segjast hafa ?"
Þetta er auðvitað umhugsunarvert og spurning, hvaða umboð stjórnmálamenn hafa til að aðstoða við að koma annarra flokka stefnumálum fram og að gera við þá hrossakaup um stuðning við þeirra mál gegn stuðningi við eigin mál. Þetta er lýðræðisvandamál kjördæmaskipunar og kosningafyrirkomulags, sem leitt hefur til flokkafjölda á Alþingi, sem útilokar tveggja flokka ríkisstjórn. Þingflokkar gætu orðið fleiri eftir næstu kosningar, af því að vonbrigði Jóns Steinars eru ekki einsdæmi.
VG tók það upp hjá sjálfri sér að stytta kjörtímabilið um a.m.k. 4 mánuði. Þetta er líklega einsdæmi, enda helber ósvífni án samráðs við kóng eða prest.
Forsætisráðherra hugðist leggja á djúpið í nafni þess, að stjórnarflokkarnir hafi komið sér saman um þingmálaskrá, en VG-liðar hafa lýst því yfir, að þeir muni hlaupa út undan sér í a.m.k. einu þingmáli dómsmálaráðherra, Guðrúnar Hafsteinsdóttur, 1. þingmanns Suðurlands. Erfitt stjórnarsamstarf þriggja stjórnarflokka, þar sem VG-ráðherrar hafa að mati margra flokksmanna hinna stjórnarflokkanna orðið brotlegir við lög, hefur leitt til óvenjumikilla fylgisbreytinga, sem verkefni stjórnmálamanna í kosningabaráttunni verður að snúa við eða auka fram að kosningum háð því, hvar þeir eru staddir. Mikilvægt er að toppa á réttum tíma.
Yfirgangur og ósvífni er brennimark á þessum stjórnmálaflokki -VG, enda virðast áhangendur villta vinstrisins ætla að gefa þessum armi frí og senda félaga í Sósíalistaflokkinum á þing í staðinn.
Frumhlaup VG með að flýta kosningum varð ekki liðið. Forsætisráðherra, sem einn fer með þingrofsvaldið, tók af skarið, þegar hann sá, að Svandís var ekki í neinum samstarfshugleiðingum. Það verður bið á því, að Sjálfstæðisflokkur setjist aftur í ríkisstjórn með svartasta afturhaldi landsins, sem tekizt hefur að þvælast fyrir framfaramálum í landinu allt of lengi og valda stórtjóni og tekjutapi samfélagsins. Þetta stjórnarsamstarf var dýru verði keypt, og kjósendur voru lítt hrifnir.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.10.2024 | 09:17
Átrúnaðargoðið gallað
Á Alþingi er margt fólk, sem ákallar evruna með svipuðum trúarhita og sameignarsinnar ákölluðu Ráðstjórnarríkin og blóði drifið alræðisstjórnkerfi þeirra á sinni tíð. Af máli evrusinna í Viðreisn og Samfylkingu má ráða, að þeir telji inngöngu Íslands í Evrópusambandið (ESB) og upptöku evrunnar sem lögeyris frelsun Íslendinga undan ánauð hárra vaxta og verðbólgu. Jafnvel þetta fer þó á milli mála, þegar þróun þessara mála í löndum ESB, t.d. í Eystrasaltslöndunum, er skoðuð. Hitt er þó aðalatriðið, að það er grunnhyggið viðhorf að reisa skoðun sína á yfirborðslegri athugun í stað þess að kryfja málið til mergjar.
Það hefur lengi verið áhyggjuefni í Evrópu, hversu mjög verg landsframleiðsla og lífskjör í ESB hafa dregizt aftur úr Bandaríkjunum. Framkvæmdastjórn ESB fékk þess vegna fyrrverandi seðlabankastjóra evrunnar í Frankfurt am Main og fyrrverandi ítalskan forsætisráðherra, Mario Draghi, til að greina ástæður hagvaxtarvanda ESB-ríkjanna og gera tillögur til úrbóta. Draghi benti á, að frá upptöku evrunnar hefur framleiðni vinnuafls í ESB sem hlutfall af framleiðni vinnuafls í Bandaríkjunum minnkað. Það er freistandi að nota tölfræði til að slá fram bólgnum fullyrðingum. Þetta er vissulega sláandi samhengi, þótt fleiri skýringar megi tína til, sem þá magna afturförina í ESB.
Nú hefur komið fram gagnrýni á Draghi fyrir að minnast ekki á evruna sem eina af fleiri skýringum á afturför eða stöðnun í hagkerfum ESB-landanna. Kannski vill bankastjórinn fyrrverandi ekki kasta rýrð á evruna, því að staða hennar er viðkvæm og veikari en Bandaríkjadalsins, á meðan evru-ríkin eru ekki með sameiginlegan ríkissjóð og fjárlög, en það verður líklega eftir að frýs í helvíti. Þann 30. september 2024 birtist í Morgunblaðinu viðtal Ásgeirs Ingvarssonar við dr Jón Helga Egilsson undir fyrirsögninni:
"Aukin samvinna krefst ekki evru".
"Dr Jón Helgi Egilsson, meðstofnandi og stjórnarformaður fjártæknifélagsins Monerium og fyrrverandi formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands, segir skýrsluna um margt athyglisverða, en þögn Draghi um þátt evrunnar í vandanum sé æpandi. Jón Helgi bendir á, að skýrslan sýni viðsnúning og hnignun frá upptöku evru fyrir aldarfjórðungi, en sú staðreynd sé ekkert rædd. "Ekki er að finna orð um það á þessum 397 blaðsíðum. Það vita það allir, að evran hentar mörgum aðildarríkjum ESB illa, og það hefur áhrif á framleiðni þeirra og samkeppnishæfni. Af hverju má ekki ræða það, ef markmiðið er að takast á við áratuga hlutfallslega hnignun í Evrópu."
Það er skiljanlegt, að fyrrverandi aðalbankastjóri evrubankans í Frankfurt am Main eftirláti öðrum að benda á hinn augljósa sökudólg, til að hann verði ekki sakaður um að grafa undan evrunni, en hann birtir í staðinn graf, sem sýnir, að framleiðni vinnuafls í ESB hætti að vaxa, þegar Maastricht-sáttmáli evrunnar sá dagsins ljós, og hefur lækkað síðan. Þetta eru a.m.k. ekki meðmæli með evrunni. Hagsveiflan á Íslandi er ekki í góðum takti við hagsveiflu þungamiðju evrunnar, og þess vegna mundi íslenzkt hagkerfi verða á meðal þeirra, sem líða fyrir að nota evru sem lögeyri. Pólitískum sprelligosum er ekki gefin rökhugsun, en telja sig geta flotið á tilfinningum sínum og upphrópunum. Almenningur sér í gegnum innantóman fagurgalann.
"Jón Helgi segir evruna vissulega bara einn af fleiri þáttum, sem valdi hægum vexti evrópska hagkerfisins. Í umræðunni, sem spunnizt hefur um skýrslu Draghis, hefur m.a. verið bent á, að breytingar á aldurssamsetningu evrópsks vinnuafls og afslöppuð vinnumenning í Evrópu kunni að skýra rólegri hagvöxt í álfunni, og eins geri mikill uppgangur bandaríska tæknigeirans allan samanburð óhagfelldan."
Það er þó fleira, sem hér kemur við sögu, og ber fyrst að nefna fleiri og öflugri árangurs og afkastahvata efnahagskerfis BNA en ESB, lægri skattheimtu og minni opinber umsvif, sem alls staðar eru dragbítar á hagkerfið. Orkuverð, bæði á jarðefnaeldsneyti og rafmagni, er lægra í BNA en í ESB. Þetta er lærdómsríkt fyrir Íslendinga, sem glíma við háa skattheimtu og mikil opinber umsvif. Það, sem bjargar lífskjörunum á Íslandi, er há framleiðni grunnatvinnuveganna (ekki túrismans) og lágt raforkuverð til almennings. Með ríkisstjórn undir forystu Samfylkingar og án Sjálfstæðisflokks verður skattheimtan aukin, ríkisbáknið þanið enn meira út og ríkissjóður látinn safna enn meiri skuldum. Þessi stefna jafnaðarmanna, sem hefur t.d. verið stunduð undanfarinn áratug við stjórnun Reykjavíkurborgar, mun raska jafnvæginu í hagkefinu, kynda undir verðbólgu og reka hagvöxt niður að núlli. Allt þetta lækkar ráðstöfunartekjur heimilanna.
"Að mati Jóns Helga má samt ekki hunza áhrif evrunnar. "Vissulega eru fleiri þættir en gengi gjaldmiðla, sem hafa áhrif á samkeppnishæfni og famleiðni, en er þessi skýri viðsnúningur tilviljun ? Sameiginlegur gjaldmiðill er eðli málsins samkvæmt ekki fær um að endurspegla efnahagslegan veruleika einstakra aðildarríkja. Lönd, eins og Grikkland, Ítalía og Spánn, sem áður höfðu eigin gjaldmiðla, sem löguðu sig að þeirra efnahagslega raunveruleika, gátu áður endurheimt samkeppnishæfni sína í kjölfar efnahagsáfalla og breytinga. Þessi lönd misstu þennan sveigjanleika við upptöku evrunnar", segir hann. Þetta varð sérstaklega áberandi eftir fjármálakreppuna 2008, þegar þessi lönd stóðu frammi fyrir gríðarlegum efnahagsáföllum án möguleika á aðlögun, nema í gegnum vinnumarkaðinn með tilheyrandi langvarandi atvinnuleysi og þeim hörmungum, sem slíku fylgja, auk brottflutnings vel menntaðs og hreyfanlegs vinnuafls til annarra landa innan og utan Evrópu, sem enn sér ekki fyrir endann á.""
Íslendingar urðu illilega fyrir barðinu á téðri fjármálakreppu 2007-2009, en lífskjaraáfallið hefði orði enn stærra en sem nam 6 % samdrætti landsframleiðslu og varað lengur en 4 ár, ef landið hefði þá verið í ESB og með evru sem lögeyri. Þótt ISK (og seðlabanki hennar) sé ekki lamb að leika sér við, er hún þó eins konar öryggisloki fyrir hagkerfið og lífskjör almennings. Samfylking og Viðreisn eru fús til að fórna hagvexti og þar með lífskjörum almennings til að fullnægja pólitískri meinloku sinni.
"Þykir Jóni Helga löngu tímabært að skoða hlut evrunnar í mikilli hnignun efnahagslífs Evrópu og endurskoða kröfuna um, að aðildarríki verði að nota evru. "Af hverju að undanskilja heiðarlega greiningu á þætti evrunnar í hnignun framleiðni og samkeppnishæfni Evrópu, og láta sem sameiginlegur gjaldmiðill skipti ekki máli ? Hann skiptir heldur betur máli", segir Jón Helgi og bætir við, að það að forðast þessa umræðu, eins og Draghi geri í sinni skýrslu, sé að setja kíkinn fyrir blinda augað."
Þetta eru tímabærar umræður á Íslandi nú í aðdraganda kosninga, þegar sumir líta öfundaraugum til þjóða með evru sem lögeyri og benda á lægra vaxtastig en hér tíðkast. Á þeim peningi eru þó 2 hliðar. Þjóðverjar, sem eru miklir sparendur, eru óánægðir með lágt vaxtastig evrubankans, sem hefur gefið þeim afar lága raunvexti m.v. það, sem tíðkaðist á dögum DEM. Á Íslandi eru líka margir sparendur, einkum í eldri kantinum, þrátt fyrir vinstri dellu um fjármagnstekjuskatt og skattheimtu af verðbótum. Ráðstöfunartekjur launa á Íslandi eru með þeim hæstu, sem þekkjast í Evrópu, og veitir ekki af vegna hás verðlags. Allur samanburður á milli landa er flókinn.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.10.2024 | 16:34
Meingallaður og varasamur samgöngusáttmáli
S.k. Samgöngusáttmáli fyrir höfuðborgarsvæðið er reistur á röngum forsendum, enda hefur hann hlotið alvarlega og málefnalega gagnrýni fagfólks. Hann er hugarfóstur og óskhyggja stjórnmálamanna, en án jarðtengingar við raunveruleikann að talsverðu leyti. Hann opnar fyrir stórhættu á bruðli með almannafé vegna kolrangrar forgangsröðunar verkefna, og bráðnauðsynleg verkefni um allt land munu fyrir vikið líða fyrir enn meiri fjárskort en ella. Amatörar í verkefnastjórn virðast síðan eiga að höndla með þennan sáttmála í stað þess að framkvæma rökrétta forgangsröðun með ströngum reglum verkefnastjórnunar, sem tryggja eins góða meðferð opinbers fjár og kostur er.
Miðjusett borgarlína leysir engan umferðarvanda. Hún magnar hann, því að hún mun þrengja að almennri bifreiðaumferð, og hún mun ekki ná að draga til sín nógu marga farþega til að fækka svo bílum í umferðinni, að auknar tafir hennar vegna verði vegnar upp. Því mun fara fjarri. Borgarlínan mun fara úr böndunum fjárhagslega m.v. hvert stefnir nú, og hún verður hræðilegur fjárhagslegur myllusteinn um háls sveitarfélaganna, sem hafa ekki efni á þessu bruðli. Bruðl er það, þegar offjárfest er m.v. þörfina, og þessi offjárfesting slær líklega öll slík met í landinu. Það er algert dómgreindarleysi að hleypa þessu afkvæmi Samfylkingarinnar jafnlangt og raun ber vitni um núna.
Svana Helen Björnsdóttir, formaður Verkfræðingafélags Íslands og bæjarfulltrúi á Seltjarnarnesi, ritaði ítarlega og rökfasta grein um þennan dæmalausa sáttmála, sem birtist í Morgunblaðinu 12. september 2024 undir fyrirsögninni:
"Alvarlegir ágallar samgöngusáttmálans".
"Ágallar samgöngusáttmálans eru m.a. þessir:
1. Fyrst ber að geta þess, að samgöngusáttmálinn er út frá fræðum verkefnastjórnunar ekki verkefni (e. project), heldur verkefnaáætlun (e. program). Í verkefnaáætluninni er listi af verkefnum, sem ná yfir a.m.k. 16 ár, þ.e. til ársins 2040. Á þessu tímabili munu fara fram fjórar sveitarstjórnarkosningar. Það skiptir öllu máli, að verkefnaáætlunin byggi á vönduðu stjórnkerfi verkefnastjórnsýslu (e. project governance framework). Rannsóknir, sem gerðar hafa verið á opinberum framkvæmdum hér á landi á síðari árum sýna fram á, að við Íslendingar erum langt á eftir öðrum þjóðum, þegar kemur að verkefnastjórnsýslu."
Skilningur "Betri samgangna" á verkefnastjórnsýslu virðist því miður ekkert skárri en almennt hjá hinu opinbera, og það er ávísun á fjárhagslegt fúafen. Sum einkafyrirtæki kunna góð skil á kerfisbundinni verkefnastjórnun allt frá verkefnishugmynd að afhendingu framkvæmdarinnar til eigandans eftir vel heppnaða ræsingu og frágengnar úrbætur.
Forgangsröðun verkefna í tímaröð er heldur ekki reist á almennri skynsemi, því að samkvæmt almennri skynsemi ætti að ráðast fyrst í afmarkaðar aðgerðir, sem bæta augljóslega umferðarflæðið og eru þess vegna arðsamastar. Enn ríkir í Reykjavík forkastanlegt og sérvizkulegt bann við mislægum gatnamótum, sem leiðir til klúðurslegra lausna með ljósastýringum og þar af leiðandi hættu á gatnamótum. Fordild og ofstæki Samfylkingarvitringanna um umferðarmál lætur ekki að sér hæða.
"Þannig hafa nær allar opinberar stórframkvæmdir hér á landi farið umtalsvert fram úr kostnaðar- og tímaáætlunum. Nægir að nefna Hörpu, nýjan Landsspítala og Vaðlaheiðargöng. Lítil viðleitni hefur verið í opinbera stjórnkerfinu, m.a. í fjármálaráðuneytinu, til að bæta úr þessu.
Upplýsingar um vandað stjórnkerfi verkefnastjórnsýslu til að stjórna verkefnaáætlun og einstökum verkefnum vantar í gögn um sáttmálann. Það virðist m.ö.o. ekki vera gert ráð fyrir faglegri verkefnastjórnsýslu í samgöngusáttmálanum."
Þeir, sem halda um taumana í apparatinu Betri samgöngum, virðast m.ö.o. ekki hafa þá verkþekkingu, hvað þá sérþekkingu á verkefnastjórnun, til að gera sér grein fyrir mikilvægi hennar við undirbúning, framkvæmd og frágang stórverkefna. Það er stórhættulegt að spyrða saman svona mörg verk í eina verkefnasyrpu án þess að hafa nokkra þekkingu á því, hvernig bezt er og hagkvæmast að standa að stjórnuninni. Hvers vegna er verið að búa til þetta pólitíska apparat, Betri samgöngur, þegar Vegagerðin er fyrir hendi og á lögum samkvæmt að sjá um stofnbrautir í þéttbýli ? Er það til þess að koma hinu pólitísk gæluverkefni Borgarlínunni á koppinn, þótt fjárhagur borgarinnar sé nú með þeim endemum, að hún hefur ekki efni á Strætó, hvað þá "strætó á sterum", og er að koma þessu vonlausa fyrirbæri yfir á ríkið. Samfylkingin og fylgihnettir hennar í borgarstjórn er ekki bara fjárhagslegt vandamál vegna báknsútþenslu og bruðls, heldur samgönguvandamál, því að hún hefur gelt aðalskipulagið með fíflagangi eins og að fjarlægja mislæg gatnamót þaðan. Í mörgum tilvikum eru þau hagkvæmasti og öruggasti kosturinn, og þess vegna fyrsti valkostur Vegagerðarinnar. Þarna er sama sagan og í orkumálunum. Rugludallar vinstrisins standa í vegi framfara. Til að höggva á hnútinn þarf þá að koma til kasta Alþingis.
"Við samanburð á upplýsingum Vegagerðarinnar frá 2023 og gögnum samgöngusáttmálans kemur í ljós, að forsendur, verk- og tímaáætlanir sáttmálans byggja á veikum grunni."
Sáttmálinn og Betri samgöngur eru pólitísk hugarfóstur, þar sem umferðartæknileg þekking og almenn verkefnastjórnunarþekking koma lítið sem ekkert við sögu. Slíkt ber eðli málsins samkvæmt feigðina í sér og ætti að spara skattgreiðendum stórfé með því að leysa hvort tveggja upp.
"Fjármögnun verkefna samgöngusáttmálans er forsenda þess, að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu geti með góðri samvizku axlað fjárhagslega ábyrgð á sáttmálanum. Sveitarfélögin eru öll illa stödd fjárhagslega eftir að hafa tekið við fjölda verkefna frá ríkinu á síðustu áratugum án þess, að tilsvarandi fjármagn hafi fylgt. Rekstur sveitarfélaganna, sem bera eiga þessa fjárhagslegu skuldbindingu, er þegar í járnum, og munu þau varla ráða við þann aukakostnað, sem hlýzt af samgöngusáttmálanum, hvorki á framkvæmdatíma né síðar, þegar rekstur kerfisins tekur við."
Þetta er skýringin á draugaganginum í kringum borgarlínu, sem lýst hefur sér í furðuvendingum á borð við samgöngusáttmála og Betri samgöngur, sem hvort tveggja er óþarft, ef allt er með felldu. Hvort tveggja verður hengingaról sveitarfélaganna og Samgönguáætlunar Alþingis, sem sveltur illu heilli fyrir vikið.
"5. Í uppfærðum samgöngusáttmála er gert ráð fyrir, að Betri samgöngur ohf. fari fyrir verkefnum sáttmálans og fái heimildir til lántöku. Annars vegar verða það lán, sem sveitarfélögin ábyrgjast til framkvæmda og hins vegar lán með ríkisábyrgð til að fjármagna nauðsynleg húsnæðis- og lóðakaup og niðurrif vegna framkvæmda við stofnvegi. Þar sem fjárhagur sveitarfélaganna allra er bágur, er nokkuð ljóst, að framkvæmdir verða að mestu fjármagnaðar með lántöku. Sú ábyrgð, sem sveitarfélögin undirgangast í því efni, er gríðarlega mikil og óvissan einnig mjög mikil. Auk þess virðist ekki vera gert ráð fyrir fjármagns- og vaxtakostnaði í kostnaðaráætlunum. Sveitarfélögin eru hér sett í mjög erfiða stöðu, því [að] gríðarleg fjárhagsleg áhætta fylgir því að undirrita sáttmálann."
Þetta nær engri átt. Með allt á hælunum, hvað áætlanagerð varðar, á að þröngva sveitarfélögunum út í skuldafen, sem mun standa þeim fyrir þrifum í marga áratugi, á meðan örfáar hræður munu nota hugarfóstur Samfylkingarinnar, "strætó á sterum", sem er allt of fyrirferðamikill á samgönguásum höfuðborgarsvæðisins m.v. þær örfáu hræður, sem nota hann allt árið.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.6.2024 | 17:03
Rotið ráðhús í boði Samfylkingar
Nýr formaður Samfylkingar fer mikinn í því skyni að búa til ímynd jafnaðarflokks með kjörþokka, en Samfylkingin féll ekki af himnum ofan. Hún er með hugmyndafræðileg og persónuleg lík í lestinni, sem nýr formaður hefur ekki losað sig við. Því fer fjarri, að æðstu fulltrúar flokksins vinni af einlægni að bættum hag almennings. Flokkurinn hefur tekið ábyrgð á borgarstjóranum fyrrverandi, Degi B. Eggertssyni, og ekki fett út í ámælisverð vinnubrögð hans, en það hefur aftur á móti fyrrverandi borgarstjóri séð ástæðu til að gera í fjölmiðli, sem hann ritstýrir.
Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins 10.05.2024 bar fyrirsögnina:
"Ráðhúsinu breytt í spillingarbæli ?"
Þar var fáheyrður gjafagjörningur borgarinnar til handa olíufélögum, sem láta af sölu jarðefnaeldsneytis á tilteknum lóðum í borginni, gerður að umfjöllunarefni, og birtist þar í hnotskurn spillingareðli jafnaðarmannaflokksins, sem af hræsni reynir að breiða yfir sitt rétta eðli með orðskrúði:
"En samningarnir við þessi félög [olíufélögin] byggðust allir á því, að myndu olíufélögin láta af þeim rekstri, gengju lóðirnar til borgarinnar á ný og hún gæti skipulagt þær að sínum hentugleikum og úthlutað eftir eðlilega samkeppni. Í Morgunblaðinu hefur margoft verið á það bent, að þessi mál hafi þróazt illa og bragðarefir beggja vegna borðs ákveðið að koma málinu í farveg, sem algjörlega væri sniðinn að persónulegum hagsmunum þeirra félaga, sem bar að skila lóðunum til borgarinnar á ný, þegar eldsneytisstarfsemi þeirra væri úr sögunni. Stórundarleg væri sú framganga Dags B. Eggertssonar að koma þessu vonda máli "í gegn" og troða því niður kok borgarbúa í fullkomnu heimildarleysi."
Það er grafalvarlegt spillingareinkenni á fyrrverandi borgarstjóra og samverkamanna hans og í raun á Samfylkingunni, hverrar formaður lætur þessa ósvinnu viðgangast í höfuðborginni, að færa gróðapungum eign borgarbúa á silfurfati gjörsamlega að þarflausu viðskiptalega og lagalega séð. Þetta verður bautasteinninn yfir ráðsmennsku Samfylkingarinnar í Reykjavík. Flokkurinn ætti ekki að eiga sér viðreisnar von í borginni eftir þetta baktjaldamakk við peningapúka á kostnað borgarbúa. Þetta er jafnaðarstefnan í reynd. Þess vegna flæðir alls staðar í heiminum undan henni.
"Kerfið, sem þáverandi borgarstjóri lét klambra saman í kringum tilbúning þessa máls, er algerlega óþekkt í borgarkerfinu, þótt einstök dæmi séu til um slíka aðgerð í þinginu [á dögum vinstri stjórnar Samfylkingar og VG - innsk. BJo], en þau lúta öðrum lögmálum. Hér var allt byggt á því, að koma þyrfti tugum milljarða [ISK] frá borgarbúum til gæðinga og með hinni skrítnu aðferð. Sett var upp lokað herbergi, sem borgarfulltrúar gátu farið inn í einir (!) og án þess, að neinar upplýsingar væru veittar, eða þeir fengju að bera sig saman við sína samstarfsmenn. Minnihlutinn átti þannig ekki nokkur tök á því að ræða þetta mikla mál í sínum ranni. Og engin rök lágu til þessara undarlegheita."
Þessi ólýðræðislegu vinnubrögð eru kennimörk jafnaðarmanna og annarra sameignarsinna, sem hvorki skilja né virða grundvallaratriði lýðræðisins, og við slíkar aðstæður skýtur alltaf óhugnanlegum krumlum Leníns og Stalíns upp á yfirborðið. Jafnaðarmenn játast lýðræðinu aðeins af illri nauðsyn á yfirborðinu. Annars gildir bara hið sama og hjá löglausum einræðisherrum: "Tilgangurinn helgar meðalið". (Der Erfolg berechtigt das Mittel.)
Það er óskiljanlegt, að minnihluti borgarstjórnar skyldi láta beita sig þessum fantatökum. Þetta mál hefði átt að fara til sveitarstjórnaráðuneytisins og til dómstóla.
Höfundur Reykjavíkurbréfsins dregur reyndar ekkert undan og af uppljóstruninni má álykta, að víðar þurfi að hreinsa til og lofta út. Sérhagsmunagæzla af þessu tagi er dauðasök í pólitík:
"Það sárgrætilega var svo til viðbótar, að leiðtogi stærsta minnihlutaflokksins í borgarstjórn tók þátt í því að leiða málið hjá sér, en greiða atkvæði sitt með því á lokapunkti. Ekki verður séð, að nein önnur skýring sé á svo óábyrgri hegðun en eiginmaður leiðtogans sé sérstakur sendiboði og hlaupastrákur Jóns Ásgeirs Jóhnnessonar, eins af stóru þiggjendunum í þessu sóðalega svindli. Öllum öðrum borgarfulltrúum var vorkunn, þótt þeim fipaðist, enda refirnir til þess skornir, að hver og einn þeirra gæti ekki rætt þetta mikla mál í sínum hópi, nema eftir minni úr stuttu stoppi í "leyniherberginu".
Sjálfstæðisflokkurinn glataði þarna gullnu tækifæri til að sýna kjósendum, að hann hefði burði til að leiða nauðsynlega siðbót í borgarstjórn eftir áralangt sukk Samfylkingar við kjötkatlana.
Leiðtogi borgaralegs flokks, sem vill sýna, að í honum sé einhver veigur, en tekur þátt í "sóðalegu svindli" á kostnað skattborgaranna, fremur þar með pólitíska kviðristu og glatar siðferðislegum grundvelli til að leiða sjálfstæðismenn til sigurs í borginni. Sá hjalli er nógu erfiður samt.
""Í viðtengdri frétt segir af lítilsvirtri fréttakonu á RÚV. María Sigrún, fréttamaður, fékk þá umsögn frá yfirmanni, að hún væri skjáfríð, en kynni ekki "rannsóknarfréttamennsku", eins og það heitir í Efstaleiti. Hugtakið nær einnig til byrlunar og stuldar, samkvæmt viðurkenndu verklagi ríkisfjölmiðilsins. Fréttir án rannsóknar eru trúlega réttum megin við lögin. En þær má ekki segja.
María Sigrún vann frétt, sem kom við kaunin á Degi, fyrrum borgarstjóra, og vinstri meirihlutanum í ráðhúsinu við Tjörnina. Stefán, útvarpsstjóri, hefur ekki tjáð sig um meferðina, sem María Sigrún sætir. Áður en Stefán varð útvarpsstjóri fyrir 4 árum var hann staðgengill Dags, borgarstjóra, og bar titilinn borgarritari.""
Í téðu Reykjavíkurbréfi er ofangreind tilvitnun í Pál Vihjálmsson, bloggara og kennara. Höfundur þessa pistils hér sá umræddan þátt Maríu Sigrúnar og getur vitnað um, að honum þótti vera um afbragðs fréttamennsku að ræða, og þess vegna er úthúðun einhverra montinna "Kveikjara" út í hött og næg ástæða til, að taka ætti í hnakkadrambið á ófaglegum monthananum. Ummæli af þessu tagi um samstarfsmann eru með eindæmum ruddaleg og í þessu tilviki út í hött. Þau ættu því að öðru jöfnu að hafa alvarlegar afleiðingar fyrir fyrir þann, sem lét sér þau um munn fara, en í ormagryfju fréttastofu RÚV gerist það ekki. Þetta opinbera hlutafélag er ekki hafið yfir siðræn viðmið. Það er löngu tímabært að draga verulega úr umsvifum þarna, kostnaði skattborgaranna og vandræðum einkarekinna fjölmiðla vegna risans, sem gín yfir markaðinum.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.5.2024 | 07:39
Forsetaembætti í mótun
Segja má, að forsetaembættið á Íslandi sé dálítið kindugt m.v. það, sem annars staðar þekkist. Þar sem meginhlutverkið er þjóðhöfðingjahlutverkið (head of state), en pólitísk völd afar takmörkuð, þar er yfirleitt hafður sá háttur á, að þjóðþingið velur forsetann, og gefur þá auga leið, að stjórnmálaflokkarnir hafa þar hönd í bagga, og það getur sett sitt óheppilega mark á störf forsetans. Í frumvarpi til Alþingis um stofnsetningu forsetaembættis var m.v. þennan hátt, en þingið breytti þessu fyrirkomulagi við sína umfjöllun og gerði forseta þjóðkjörinn í lögunum. Það breytir stöðu forsetans til hins betra og styrkir hann í aðhalds- og eftirlitshlutverki með Alþingi.
Síðan 1952 hafa stjórnmálaflokkarnir reynt að halda sig til hlés við val á forseta, en það þýðir ekki, að frambjóðendur hljóti að vera ópólitískir.
Það er einsdæmi á Íslandi, og þótt víðar væri leitað, að forsætisráðherra stigi niður af valdastóli og sækist eftir þjóðhöfðingjaembætti með afar takmörkuð völd. Þennan fordæmalausa gjörning framdi Katrín Jakobsdóttir um páskana 2024 og hefur síðan lýst því yfir, að hún vilji sameina þjóðina að baki sér. Það er útilokað, að fyrrverandi ráðherra, sem stóð að lagasetningu um Icesave-nauðungina tvisvar sinnum að þarflausu, eins og síðar kom í ljós við úrskurð EFTA-dómstólsins í janúar 2013, og sem er andsnúin aðild Íslands að NATO, njóti nægilegs trausts þorra þjóðarinnar. Borgaraleg öfl ættu að hugleiða rækilega, að einstaklingur með slíka fortíð og pólitískar jaðarhugmyndir um lífshagsmuni elur í raun á sundrungu á meðal þjóðarinnar, ekki sízt með búsforræði á Bessastöðum.
Framganga umdeilds stjórnmálafræðings við Háskóla Íslands, Baldurs Þórhallssonar, hefur að vonum ekki verið hnökralaus, en gengi sitt í skoðanakönnunum má hann sennilega þakka PR-kæti sinni og landsþekktum makanum Felix Bergssyni, en Baldur verður þó aldrei "forsetalegur" talinn og skortir fyrirmannafas. Hann beit höfuðið af skömm sinni um daginn, þegar hann var spurður, hvernig hann hafi greitt atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslunum tveimur um Icesave. Hann bar þá við minnisleysi, þannig að svar kom ekki. Hvort sem hér er um óheilindi að ræða hjá Baldri eða alvarlega heilahrörnun, dæmir þetta atvik hann úr leik, ef allt er með felldu.
Baldur hefur lengi verið ötull talsmaður inngöngu Íslands í Evrópusambandið (ESB). ESB var meðflutningsaðili Breta og Hollendinga að þessu máli gegn Íslandi fyrir EFTA-dómstólinum, og ýmsir fylgjendur ESB-aðildar fylgdu vinstri stjórninni 2009-2013 að málum í afstöðunni til Icesave-deilunnar.
Forstjóri Orkustofnunar (OS), Halla Hrund Logadóttir, er í framboði og hefur hlotið ótrúlega gott gengi í skoðanakönnunum. Skyldi hún hafa verið krufin um stjórnmálaskoðanir sínar, t.d. um afstöðuna í utanríkismálum ?
Morgunblaðið brá birtu yfir kynningarmál þessa frambjóðanda með frétt 27. apríl 2024, sem setur stjórnarhætti Höllu Hrundar ekki í gott ljós, en forsetaframbjóðandi ætti að þurfa að hafa flekklausa ferilskrá til að ná góðum árangri í kosningum:
"Samskiptastjóri OS í frí og kosningastarf":
"Meginreglan hjá ríkinu er, að auglýsa beri laus störf og að þau séu ótímabundin, en í afmörkuðu verkefni má nota tímabundnar ráðningar eða þjónustu verktaka, yfirleitt til tveggja mánaða.
Ekki er ljóst, hvort það eigi við Karen [Kjartansdóttur, samskiptastjóra OS [Orkustofnunar] í verktöku - innsk. BJo], sem þar hefur starfað samkvæmt samningi OS við fyrirtækið Langbrók ehf., þar sem hún er einn eigenda. [Það er ljóst, að starf samskiptastjóra OS er ekki tímabundið verkefni til 2 mánaða eða annars stutts tíma, og þess vegna hefur Orkumálastjóri farið á skjön við ráðningareglur ríkisins með þessum gjörningi gagnvart Langbrók ehf. Þegar greiðsluupphæð OS fyrir þessa þjónustu er skoðuð, virðist vera komið efni í úttekt Ríkisendurskoðanda á stjórnarháttum í OS - innsk. BJo.]
Ekki liggur heldur fyrir, hvort verkefnið var auglýst, eins og venja er [vildargjörningur ?], en það er ekki að sjá á vef OS eða félagsmiðlum, þar sem vakin er athygli á lausum störfum.
Samningurinn var gerður til eins árs hinn 31. marz 2023 og var nýlega framlengdur um annað ár og er enn í gildi. Aðrir starfsmenn Langbrókar munu sinna verkefnum OS [á] meðan Karen er í leyfi, en ljóst, að hún hefur a.m.k. í tæpar 3 vikur samtímis sinnt störfum fyrir bæði Orkustofnun og forsetaframboð Höllu Hrundar."
Þarna er flett ofan af of veikri hagsmunagæzlu Höllu Hrundar fyrir ríkissjóð, sem hún er á launum hjá, þegar einkahagsmunir hennar sjálfrar eru annars vegar. Þetta er merki um siðferðisbrest, sem taka ber alvarlega hjá einstaklingi í forsetaframboði, og rétt fyrir kjósendur að taka sem viðvörun um, að þeir kunni að vera að kaupa köttinn í sekknum með því að kjósa þann sama einstakling sem forseta lýðveldisins.
"Í samninginum er sérstaklega kveðið á um hagsmunaárekstra, og að það sé á ábyrgð Langbrókar ehf. og Karenar að fyrirbyggja slíkt. [Í þessu tilviki fær Halla Hrund Karen til að starfa að kynningarmálum framboðs síns, þótt Halla viti ósköp vel, að Karen vinnur áfram sem verktaki fyrir Orkustofnun. Þetta er fingurbrjótur Höllu Hrundar - innsk. BJo.]
Allt frá því, að fyrrgreindur samningur var gerður, hefur Orkustofnun greitt Langbrók MISK 12,8 samkvæmt opnum reikningum ríkisins. Langbrók hefur unnið að ráðgjöf fyrir ýmsa aðila aðra, þ.á.m. Landsvirkjun, Landsnet, Norðurál og Alcoa Fjarðaál.
Í samninginum var kveðið á um, að Langbrók héldi sundurliðað verkbókhald, en við eftirgrennslan OS kom í ljós, að slíkt yfirlit hefur ekki fylgt með reikningum. Stofnunin hyggst framvegis fylgja því eftir, að verkbókhald og/eða tímaskýrslur fylgi reikningum."
Hver hefur heimild til að samþykkja reikninga frá verktakanum Langbrók ehf. án fylgiskjala, sem áskilin eru í pöntuninni ? Hér er um að ræða meiri háttar lausatök í stjórnsýslu OS á ábyrgð forstjórans, Höllu Hrundar Logadóttur. Upphæðin, MISK 12,8, er þó ekki smáræði fyrir vinnu Karenar í heilt ár, sem enginn veit í hverju var fólgin. Hefur einhver heyrt þennan samskiptastjóra koma fram fyrir hönd OS ?
Nú er ljóst, að frambjóðendur í forsetakjöri 2024 verða 12 (postulatalan). Starfslýsing forsetans er ófrágengin í stjórnarskránni, og ekki hefur reynzt ráðrúm á lýðveldistímanum til að gera hana skýrari. Þó er ljóst, að forseti á að forðast að blanda sér í ríkisstjórnarmálefni, nema hann telji ríka ástæðu til, t.d. að ríkisstjórn og Alþingi brjóti ákvæði stjórnarskrár eða hafi samþykkt mál að óþörfu í andstöðu við verulega hagsmuni þjóðarinnar. Þá getur hann gripið til neyðarúrræðis, sem er að vísa ágreiningsefni forseta og ríkisstjórnar/meirihluta þings í dóm kjósenda.
Ef forseti stendur sig vel í starfi, er hann aðhalds- og eftirlitsaðili með löggjafar- og framkvæmdavaldinu. Hann fylgist með störfum þeirra og kemur sínum sjónarmiðum á framfæri við forsætisráðherra reglubundið og les allt rækilega yfir áður en hann staðfestir skjöl með undirritun sinni. Þá eru ótaldir Ríkisráðsfundirnir, þar sem forseti hittir alla ríkisstjórnina.
Þótt sviptingar við ríkisstjórnarmyndun séu ótaldar, er ljóst, að forseti, sem ætlar að vera miklu meira en upp á punt, þarf að hafa bein í nefinu og leggja fram mikla vinnu. Hann þarf að hafa ferilslýsingu, sem styður, að hann geti leyst þetta af hendi.
Það blasir við, að einn frambjóðendanna er sem sniðinn í þetta alvöru hlutverk æðsta embættis landsins. Hann er vel að sér um stjórnskipun landsins og landshagi, gagnmenntaður innan lands og utan og hefur setið á Alþingi (sem varamaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn, en er ekki lengur flokksbundinn), og hann er þjálfaður við að kryfja mál til mergjar. Nú ríkir þingræði á Íslandi að forminu til, en það hefur verið útþynnt allrækilega með aðildinni að Evrópska efnahagssvæðinu, EES, sem leiðir til innleiðingar afar viðamikillar löggjafar Evrópusambandsins (ESB) í íslenzka lagasafnið um málefni, sem ESB telur eiga við um Innri markað EES. Íslenzkir embættismenn hafa tekið upp á því að blýhúða þessa löggjöf, þ.e. að gera hana meira íþyngjandi fyrir atvinnulíf og almenning en efni standa til, en verst er, að sumt frá Brüssel samræmist illa stjórnarháttum hér og stjórnarskrá. Neyðarhemil væri ómetanlegt að hafa í þessum efnum á Bessastöðum, en af 12- menningunum, sem valið stendur um 2024, er aðeins einn, sem líklegur er til að koma að haldi í þeim efnum, og hann heitir Arnar Þór Jónsson. Þetta fékkst rækilega staðfestst í Sjónvarpsumræðum allra frambjóðendanna hjá Ríkisútvarpinu föstudagskvöldið 3. maí 2024.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)