Færsluflokkur: Fjármál

Evrópa á tímamótum

Evrópa stendur nú skyndilega frammi fyrir þeirri nöturlegu staðreynd að geta ekki lengur reitt sig á hernaðarlegan stuðning Bandaríkjanna, ef ráðizt verður á eitthvert NATO-land. Þar af leiðandi er hafin hervæðing í Evrópu, sem sumpart beinist að því að styrkja Úkraínuher og sumpart að eflingu eigin hers.  Þetta mun hafa mikla útgjaldaaukningu ríkissjóða í för með sér, enda ætla NATO-ríkin að stefna að 5,0 % af VLF til hernaðartengdra mála, 3,5 % til að efla herina sjálfa og 1,5 % til innviða tengdra landvörnum. 

Hvernig ætlar ríkisstjórn Íslands að verða við þessum gríðarlegu kröfum ? Það verður tæpast liðið öllu lengur, að eitt ríkasta land Evrópu sé stikk frí, þegar kemur að eflingu varna Evrópu.  Sú starfsemi á Íslandi, sem næst kemst hernaði, þótt hún sé það alls ekki, Landhelgisgæzlan og Víkingasveitin, er fjársvelt.  Skattfé verður væntanlega ekki vel varið með því að stofna íslenzkan her, en það þarf að halda utan um það fé, sem varið er til varnarmála með miðlægum hætti, svo að hægt sé að gefa NATO trúverðugar upplýsingar um fjárveitingarnar.  Innviðirnir, sem flokka má til varnarmála, eru væntanlega aðallega flugvellir, hafnir og vegir.  Allir þessir þættir eru nú sveltir, svo að veruleg útgjöld ríkisins virðast nú framundan, ef landinu á að verða vært í NATO. 

Núverandi ríkisstjórn virðist ekkert vita, hvað hún er að gera verðmætasköpun, samkeppnishæfni og opinberum tekjum, þegar hún dembir miklum kostnaðarauka á grunnatvinnuvegi þjóðarinnar.  Henni er þess vegna ekki treystandi til að standa undir þeim mikla útgjaldaauka, sem hér um ræðir, af einhverju viti. Landinu er ekki stjórnað af heilbrigðri skynsemi til að hámarka verðmætasköpun, heldur af gömlum fordómum í garð ákveðinnar starfsemi og skilningsleysi á hagfræðilegum hugtökum á borð við auðlindarentu, sem forsætisráðherra segir markast af "huglægu mati", sem er kolrangt mat hjá henni.

Þann 3. desember 2024 birtist í Morgunblaðinu grein eftir Kenneth Rogoff, prófessor í hagfræði við Harvard-háskóla, undir fyrirsögninni:

"Efnahagur Evrópu er að staðna".

"Er efnahagsleg stöðnun í Evrópu afleiðing ófullnægjandi keynesískra efnahagshvata, eða er þrútnun og hnignandi velferðarkerfum um að kenna ?  Í öllu falli er ljóst, að þeir, sem trúa því, að einfaldar aðgerðir, eins og að auka fjárlagahalla eða lækka vexti, geti leyst vandamál Evrópu, eru raunveruleikafirrtir. 

T.d. hefur ágeng örvunarstefna Frakklands þegar þrýst fjárlagahallanum  upp í 6 % af landsframleiðslu, og skuldahlutfall landsins hefur farið úr 95 % árið 2015 í 112 %.  Árið 2023 stóð Emmanuel Macron, forseti,  frammi fyrir víðtækum mótmælum vegna ákvörðunar sinnar um að hækka eftirlaunaaldur úr 62 árum í 64 - en þótt sú ráðstöfun væri þýðingarmikil, dugði hún skammt til að mæta áskorunum í ríkisfjármálum.  Eins og Christine Lagarde, forseti Seðlabanka Evrópu, varaði nýlega við, eru efnahagsmál franska ríkisins á ósjálfbærri vegferð, ef ekki verða gerðar víðtækar umbætur." 

Þetta er ekki dæmigerð lýsing fyrir ESB-löndin, heldur er Frakkland óvenju djúpt sokkið í skuldafen vegna ofþenslu ríkisbáknsins.  Hins vegar gefur þetta til kynna veikleika Evrópusambandsins-ESB, sem er grafalvarlegt á viðsjárverðum tíma í Evrópu, þar sem Bandaríkjaforseti sýnir henni kuldalegt þel og hefur hótað að verja hana ekki, verði á hana ráðizt, og Pútín, Rússlandsforseti, stendur blóðugur upp að öxlum í stríði við Úkraínumenn og beitir þar ótrúlega lúalegum brögðum á borð við eiturefnaárásir og eldflauga- og drónaárásir á íbúðarhús og barnaheimili.

"Þar sem búizt er við, að raunvextir á háþróuðum ríkisskuldum verði áfram háir - nema kreppa gangi í garð - getur Frakkland ekki einfaldlega klórað sig út úr skulda- og lífeyrisvandamálum með hagvexti. Þess í stað mun þung skuldabyrði landsins nánast örugglega skerða langtímahorfur í efnahagsmálum.  Árin 2010 og 2012 birtum við Carmen M. Reinhart 2 greinar, þar sem við héldum því fram, að óhóflegar skuldir væru skaðlegar hagvexti.  Syfjuleg og skuldsett hagkerfi Evrópu eru gott dæmi um þetta, eins og rannsóknir hafa síðan sýnt fram á.  Þung skuldabyrði hindrar hagvöxt með því að takmarka getu ríkisstjórna til að bregðast við samdrætti og kreppu.  Þar sem hlutfall skulda af landsframleiðslu er aðeins 63 %, hefur Þýzkaland nægt svigrúm til að hressa upp á brakandi innviði sína og bæta menntakerfi sitt, sem er ekki að skora hátt."

Þetta er óbjörguleg lýsing á Evrópu nútímans, sem nú stendur á tímamótum.  Bandaríkin eru hætt stuðningi sínum við Úkraínu, sem berst fyrir tilveru sinni.  Sá lúalegi gjörningur verður lengi í minnum hafður, enda stílbrot á stefnu Bandaríkjamanna um að verja lýðræðisþjóðir og sjálfsákvörðunarrétt þeirra, þegar hart er að þeim sótt af heimsvaldasinnuðum einræðisríkjum. Smjaður og undirlægjuháttur Bandaríkjaforsetans Trumps gagnvart Rússlandsforsetanum Pútín er blaut tuska í andlit flestra forystumanna Evrópuríkjanna.  Úr því að Bandaríkjaþing ekki stöðvar þessa ósvinnu, er Bandaríkjunum héðan af ekki treystandi.  Ísraelsmenn treystu ekki Bandaríkjastjórn fyrirfram fyrir upplýsingum um 200 flugvéla loftárás sína á Íran aðfararnótt 13. júní 2025 af ótta við, að upplýsingarnar lækju til Kremlverja, bandamanna Írana.  Þetta ástand er algerlega óeðlilegt og óviðunandi. 

Við þessar örlagaríku aðstæður rísa Þjóðverjar upp og hlaupa í skarð Bandaríkjamanna í stuðningi við Úkraínumenn.  Í upphafi innrásar Rússa í Úkraínu var hlutfallið á milli fjölda sprengikúlna rússneska og úkraínska hersins 10:1, en er nú 2:1 og fer minnkandi.  Rheinmetall hefur tífaldað framleiðslu sína á sprengikúlum á 3 árum. 

 

Efnahagur Þjóðverja er ótrúlega öflugur.  Þeir hafa losað sig úr viðjum rússneskrar orkuafhendingar og við það a.m.k. tvöfaldaðist orkukostnaður heimila og fyrirtækja.  Nú eru þeir að umbylta Bundeswehr og halda Úkraínu uppi fjárhagslega og hernaðarlega.  Rússar senda hverja bylgjuna á fætur annarri af illa þjálfuðum og illa búnum hermönnum út í opinn dauðann án þess að  verða nokkuð ágengt. Loftvarnir Úkraínumanna fara batnandi, þótt enn sleppi of mikið í gegn.  Má þar nefna IRIS-T þýzka skammdræga loftvarnakerfið, sem þegar hefur gert mikið gagn.  Þá  eflist úkraínskur vopnaiðnaður með hverjum mánuðinum, og eru t.d. nú jafngildi þýzku Taurus-flauganna í fjöldaframleiðslu.  Bundnar eru vonir við úkraínska gagnsókn á 4. ársfjórðungi 2025. 

"Mitt í þessu pólitíska umróti glímir Þýzkaland við vaxandi áskoranir, sem ógna stöðu þess sem efnahagslegs stórveldis Evrópu.  Þar sem stríðið í Úkraínu heldur áfram að draga úr trausti fjárfesta, hefur þýzkur iðnaður enn ekki náð sér á strik, eftir að hætt var að flytja inn ódýra rússneska orkugjafa.  Á sama tíma hefur bílaiðnaðurinn verið eftirbátur erlendra keppinauta í skiptum frá bensínknúnum bílum yfir í rafbíla og útflutningur til Kína - þar sem hagkerfið er einnig í hnignun - hefur dregizt verulega saman." 

Við þessar aðstæður hefur þýzki ríkissjóðurinn aukið skuldsetningu sína, enda nýtur hann beztu kjara.  Friedrich Merz losaði um skuldabremsuna, enda liggur nú mikið við.  Framtíð Evrópu er í húfi.  Evrópuleiðtogar ætla ekki að leggja örlög hennar í hendur Trumps. Evrópa er nú fjárhagslegur og hernaðarlegur bakhjarl Úkraínu.  Úkraínumenn sýna mikla sköpunargleði í hernaðinum gegn innrásarlandinu og hergagnaiðnaðinum, sem Evrópa hefur eflt mjög. 

"Þó að flest önnur evrópsk hagkerfi [en það þýzka-innsk.BJo] standi frammi fyrir svipuðum áskorunum, gæti Ítalía staðið sig aðeins betur með Giorgiu Meloni sem forsætisráðherra - en færa má rök fyrir því, að hún sé áhrifaríkasti leiðtogi álfunnar.  Spánn og nokkur smærri hagkerfi, sérstaklega Pólland, gætu fyllt upp í tómarúmið, sem Þýzkaland og Frakkland skilja eftir sig.  En þau geta ekki að fullu vegið upp á móti slæmu ástandi efnahagslegu stórveldanna tveggja innan ESB."

Eftir að Friedrich Merz tók við kanzlaraembætti Þýzkalands eftir sambandsþingskosningarnar í febrúar 2025 á það ekki lengur við, að Meloni sé áhrifaríkasti leiðtogi leiðtogi Evrópu.  Skeleggur og einarður málflutningur Merz hefur orðið ríkjum Evrópu hvatning til mikils stjórnmálalegs og efnahagslegs átaks til að frjáls og lýðræðisleg Evrópa geti staðið á eigin fótum hernaðarlega og komið á friði í Evrópu, sem tryggi landamæri Úkraínu, aðild landsins að Evrópusambandinu og öryggi landsins gagnvart innlimunaráráttu og útþenslustefnu Rússlands.  Bandaríkjamenn standa gegn aðild Úkraínu að NATO, og er það enn eitt dæmið um þjónkun stjórnvalda þar í landi við Kremlarherrana.  Kreml kemur ekki við, hvernig Úkraína hagar varnarmálum sínum.  Í þeim efnum hafa Finnar sýnt fagurt fordæmi. 

  

  


Borgarlínan er stórlega áhættusamt verkefni

Ekkert einkafyrirtæki mundi nokkru sinni hætta fé sínu í verkefni á borð við Borgarlínuna.  Hún getur enn síður en Strætó staðið undir sér fjárhagslega, og hún er meira að segja þjóðhagslega stórlega óhagkvæm.  Hvernig stendur þá á því, að sumir stjórnmálamenn vilja leggja allt í sölurnar fyrir þetta verkefni ?  Það er líklega vegna þess, að þeir trúa því, að svona eigi almenningssamgöngur að vera.  Það er hins vegar alger misskilningur.  Í sambærilegu þéttbýli og höfuðborgarsvæðið er, hefur hvergi verið farið út í sambærilega framkvæmd, enda er um að ræða kostnaðarhít með gríðarlegu óhagræði fyrir flesta vegfarendur og ávinningi fyrir fáa.  Reksturinn verður myllusteinn um háls sveitarfélaganna, sem hlut eiga að máli, og ríkissjóðs.  

Þann 27. marz 2025 birtist grein í Morgunblaðinu eftir 2 valinkunna sómamenn með vit á málefninu, þá Ragnar Árnason, sérfræðing í hagfræði, og Þórarin Hjaltason, sérfræðing í samgöngumálum, undir fyrirsögninni:

 "Borgarlínan er enn sem fyrr þjóðhagslega óhagkvæmt".

"Borgarlínan sem samheiti um endurbættar almenningssamgöngur er einungis hluti þessara hugmynda [Samgöngusáttmálans-innsk. BJo].  Öfugt við flestar hinna framkvæmdanna í samgöngusáttmálanum er borgarlínan afar óhagkvæm.  Borgarlínan er hugsuð sem hraðvagnakerfi (Bus Rapid Transit eða BRT), þar sem samanlögð lengd borgarlínuleiða er 60 km.  Hluta leiðanna munu borgarlínuvagnar aka eftir rándýru sérrými í núverandi gatnakerfi höfuðborgarsvæðisins, sem lokað verður fyrir almennri umferð.  Áætlaður beinn kostnaður við borgarlínuna er um mrdISK 140, en þá er kostnaður við uppkaup á landi og fasteignum ekki með talinn.  Það er án fordæma í hinum vestræna heimi að ráðast í jafndýrt og umfangsmikið hraðvagnakerfi á aðeins 250 k íbúa borgarsvæði. 

Borgarlínan mun aðeins nýtast miklum minnihluta íbúa á höfuðborgarsvæðinu.  Í fyrsta áfanga borgarlínu er fyrirhugað að fækka akreinum fyrir almenna umferð á ýmsum umferðarmiklum fjögurra akreina götum, m.a. Laugavegi og Suðurlandsbraut til þess að skapa sérrými fyrir borgarlínuna.  Gera má ráð fyrir, að það sama verði uppi á teninginum í seinni áföngum borgarlínu. 

 Borgarlínan mun því valda miklum meirihluta borgarbúa verulega auknum töfum í umferðinni með tilheyrandi kostnaði fyrir einstaklinga og fyrirtæki.  Kostnaðurinn við þessar tafir hefur ekki verið tekinn með í fram lögðum hagkvæmnisreikningum fyrir borgarlínuna, nema að mjög óverulegu leyti.  Þetta er eitt af nokkrum atriðum, sem valda því, að það hagkvæmnismat er afar misvísandi, svo að ekki sé dýpra í árinni tekið.  Séu augljósustu villurnar leiðréttar, kemur í ljós, að borgarlínan er afskaplega óhagkvæm."  

Það er falleinkunn fyrirhugaðrar útfærslu Borgarlínu, að ferðatími flestra vegfarenda á höfuðborgarsvæðinu lengist með þessu verkefni.  Á framkvæmdatíma verkefnisins eru fyrirsjáanlegar gríðarlegar tafir.  Reykjavík verður tafaborg á öllum sviðum, enda eru vinstri mönnum afar mislagðar hendur við stjórnun borgarinnar.  Fjárhagur borgarinnar stendur tæpt, og brýn umferðarverkefni bíða fjárveitinga ríkisins, sem hefur komið sér upp innviðaskuld á þessu sviði og öðrum.  Við þessar aðstæður er ekkert vit í því fyrir þessa aðila að fjárfesta í gæluverkefni vinstri manna, sem aldrei mun borga sig upp, heldur verða fjárhagsleg hengingaról. 

"Hvað almannasamgöngur snertir, er miklu betri kostur að bæta leiðakerfi Strætó samkvæmt drögum, sem þegar liggja fyrir, og bæta við forgangsakreinum með hefðbundnum hætti, þar sem nú eru langar biðraðir bíla á álagstímum.  Þetta er margfalt ódýrari leið en borgarlínan, ávinningurinn fyrir farþega strætisvagnanna verður næstum jafnmikill, og ekki verður lagður stórkostlegur viðbótar kostnaður á aðra vegfarendur."

Borgarfullrúar Samfylkingarinnar fengu þá flugu í höfuðið, að sporvagn væri höfuðborgarsvæðinu nauðsynlegur til að greiða úr samgöngum.  Síðan var horfið frá þessu og sett gúmmídekk undir sporvagninn, en áfram er hann bundinn á miðjusettum sérreinum.  Þetta er tæknilega og fjárhagslega fótalaus hugmynd, sem borgarfulltrúum Samfylkingar hefur samt tekizt að selja samstarfsfólki sínu.  Eins og fram kemur hér að ofan, mæla umferðarsérfræðingar og hagfræðingar með allt annarri lausn, en vinstri flokkarnir vaða samt út í foraðið, blindir af órökstuddri hugljómun.  Ríkisvaldið styður vitleysuna á fjárfestingar- og rekstrarstigi verkefnisins.  Hér er á ferðinni hrikalegt bruðl með almannafé, eins og vinstri menn eru svo veikir fyrir, þegar þeir finna fyrir einhvers konar hugsjónaeldi.  Þegar þessi hengingaról fer að draga úr súrefni ríkissjóðs og sveitarsjóðanna, sem hafa látið ginnast, geta pólitíkusarnir ekki borið því við að hafa ekki verið rækilega varaðir við.  

"Borgarlínan er ein af þessum grillum, sem stundum grípa það afbrigði af stjórnmálamönnum, sem eru framkvæmdaglaðir á annarra kostnað, en skeyta lítt um hagsmuni almennings.  Þrátt fyrir augljósa alvarlega meinbugi og þjóðhagslega óhagkvæmni þessarar framkvæmdar virðist hún engu að síður vera orðin að þráhyggju, sem þessir stjórnmálamenn geta ekki losnað undan.  Með því að fela neikvæðan ábata borgarlínunnar inni í heildarábata af samgönguséttmálanum hafa þessir aðilar eygt snjalla leið til að koma borgarlínunni í framkvæmd þvert ofan í þjóðarhag."

Gengur fyrirhuguð Borgarlína e.t.v. einnig þvert gegn þjóðarvilja og sérlega gegn vilja íbúa sveitarfélaganna, sem hér eiga hlut að máli ?  Vegna umfangs verkefnisins í kostnaði, tíma og töfum og miklum ágreiningi um það og gagnrýni úr hópi þeirra, sem gerst mega vita, væri eðlilegt, að almenn atkvæðagreiðsla færi fram um það í sveitarfélögunum, sem að því standa.  Þar væru greidd atkvæði um þá 2 meginvalkosti, sem nú hafa verið kynntir til sögunnar, og væri niðurstaðan bindandi.  Mun meiri sátt yrði um úrbætur á sviði almenningssamgangna, ef lausnin mundi vera valin af þeim, sem þurfa að búa við hana og standa að talsverðu leyti undir kostnaði við hana.

 

 


Borubrattur fjári

Það er gorgeir í fjármála- og efnahagsráðherra, og hann þykist hafa tök á ríkisfjármálunum með skattahækkunum sínum. Í háskattalandi eins og Íslandi hafa skattahækkanir hins vegar neikvæð áhrif á hagkerfið, sem leiða til rýrnandi skattstofna, sem jafngilda minni tekjum hins opinbera, ríkissjóðs og sveitarsjóða.  Þar að auki eru áætlanir ríkisstjórnarinnar um launakostnað ríkissjóðs óraunhæfar, ef litið er til sögunnar.  Þessi ríkisstjórn mun ekki vinna bug á halla ríkissjóðs, heldur mun hún auka skuldir hans, ef fram fer sem horfir. 

Innherji Viðskipta-Moggans skrifaði um þetta 2. apríl 2025 undir fyrirsögninni:

"Ríkissjóður ósjálfbær með óraunhæfar áætlanir".

"Fjármála- og efnahagsráðherra, Daði Már Kristófersson, lagði fram fjármálaáætlun fyrir árin 2026-2030 í vikunni.  Helzta forgangsmál er að stöðva hallarekstur ríkissjóðs.

Samhliða er nefnt að bæta vegakerfið, utanríkismál, félags- og tryggingakerfið og heilbrigðismál.  Framlög til samgöngumála verði aukin um 8 mrdISK/ár.

Ráðherra vísar síðan til þess, að fjármálaáætlanir síðustu ára eða allt frá því lög um opinber fjármál tóku gildi fyrir áratug hafi allar verið óraunhæfar. 

Nú blasa við nýir tímar, segir Daði.  Þetta mun allt breytast á árinu 2027, þegar ríkissjóður verður rekinn í jafnvægi.  Sannarlega áhugavert, að nú muni allt breytast, þegar sama fólkið í grunninn er að gera áætlanirnar í ráðuneytinu.  Áætlanir, sem allar voru óraunhæfar að mati ráðherra.  

Daði bendir á, að þessu göfuga markmiði verði náð með auknum álögum á ökutæki, og hinir ýmsu skattar í þeim málaflokki, sem alla tíð hafa átt að fara í vegakerfið, hafa endað í öðrum verkefnum stjórnmálamanna.  Daði bendir á, að mrdISK 7 eigi að fara í gatnakerfið 2026.  Af hverju ekki strax; gatnakerfið er ónýtt núna ? Reyndar er innviðaskuld í vegakerfinu samkvæmt skýrslu Samtaka iðnaðarins, á bilinu mrdISK 265-290.  Þetta útspil er því einungis gert til að friða háværar raddir samfélagsins um lagfæringar. 

Annað, sem Daði nefnir, eru auknar álögur á sjávarútveginn.  Það er reyndar ekki skattur að mati ríkisstjórnarinnar, heldur auðlindagjald.  Það hljómar mun betur. Því miður fyrir ríkisstjórnina er alls ekki öruggt, að þetta leiði til tekjuauka fyrir ríkissjóð, þar sem sjávarútvegurinn muni laga viðskiptalíkan sitt að breyttum veruleika og ýmiss rekstur mögulega færast úr landi."

Sennilega er ríkisstjórninni alveg sama um það, hvaða áhrif þessi fyrirhugaða skattheimta hefur á ríkissjóð, því að hér er um að ræða pólitíska grillu, sem kratískir og sósíalistískir stjórnmálamenn hafa gengið með sem steinbarn í maganum og eru að gjóta núna. Þeir hafa enn ekki lært að greina á milli stjórnmála og trúarbragða.  Fjandinn í trú þessara vandræðagemsa er kapítalisminn eða auðvaldið, og af lágkúrulegum öfundarorsökum hafa þeir persónugert auðvaldið með útgerðarmönnum.  Þetta er auðvitað frumstætt viðhorf og fráleitt, en skýrir, hvers vegna frumvarp atvinnuvegaráðherra og málatilbúnaður allur eru svo óvönduð sem raun ber raunalega vitni um.  Tilgangurinn helgar einfaldlega meðalið.  Vonandi mun landsbyggðin refsa stjórnarflokkunum ríkulega í næstu kosningum, eftir að afleiðingarnar af þessum flumbrugangi koma í ljós.    

 

 


Ranghugmyndir ríkisstjórnar um skattheimtu

Sjávarútveginum er stjórnað af ríkisvaldinu með árlegri úthlutun aflaheimilda á skip, aflahlutdeild, í samræmi við ákvarðað heildaraflamark á tegund, sem er reist á ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar og langoftast samhljóða henni. Aðeins útgerðarmenn, sem eiga aflahlutdeild á skip, og þeir hafa yfirleitt keypt hana á frjálsum markaði, fá úthlutað veiðileyfi. Þeir hafa þannig keypt sér aðgang að þessari takmörkuðu auðlind, sem er í umsjón ríkisvaldsins. Þeir áttu ekki von á að þurfa að borga meira fyrir veiðiheimildir. Þessi ríkisafskipti eru mjög mikil af þessari tilteknu atvinnugrein , sem fyrir 1983 var opin öllum, og hún var rekin með bullandi tapi á tímum minnkandi fiskgengdar og allt of margra veiðiskipa.  Ríkisafskiptin og lokunin voru réttlætt með nauðsynlegri verndun nytjastofnanna gegn ofveiði, og að þannig væri verið að verja hagsmuni þjóðarinnar, enda hefðu miðin löngum verið almenningur, þ.e. öllum opin.  Miðin eru augljóslega ekki almenningur lengur, heldur hafa þeir einir rétt til nytja, sem kaupa sér aðgang.  Um þetta eru nokkrar undantekningar, t.d. strandveiðarnar. Engin ákvæði eru um fjölda veiðiskipa, en með fjárfestingum í nýrri tækni hefur framleiðni þeirra aukizt.  Auðvitað á fjárfestirinn að njóta góðs af því, en ekki ríkið sérstaklega. 

Útgerðarmenn báðu ekki um þetta kvótakerfi, heldur var það stjórnvaldsákvörðun, en ekkert var á sínum tíma rætt um greiðslu fyrir aðgang að miðunum á grundvelli auðlindarentu eða annars. Með frjálsu framsali aflaheimilda frá 1989 jukust mjög viðskipti með kvóta, og kaupendur voru í góðri trú um, að kvótinn væri eign þeirra og jafngilti veiðileyfi á ótilgreindu magni.  Þegar hagur strympu (útgerðanna) tók að vænkast, komu upp öfundarraddir um, að þetta lokaða kerfi byði upp á meiri hlutfallslegan hagnað en aðrar atvinnugreinar. Var þessi umframarðsemi nefnd auðlindarenta, en þarna voru menn of fljótir á sér, því að engum hefur tekizt að sýna fram á með gildum rökum auðlindarentu í sjávarútvegi á Íslandi, enda reksturinn háður duttlungum náttúrunnar, sem takmörkuð þekking er á. Samt hafa stjórnvöld hérlendis um hríð  lagt á s.k. veiðileyfagjald, sem er viðbótar tekjuskattur á útgerðirnar á grundvelli einhverrar meintrar auðlindarentu.  Þarna er vitlaust gefið. 

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, skrifaði grein um verðmætasköpun og skattheimtu á sjávarútveginn í Morgunblaðið 1. apríl 2025 undir fyrirsögninni:

"Íslenskur sjávarútvegur er óvinurinn".

Eins og fyrirsögnin gefur til kynna, er þessi skattheimta af pólitískum toga að mati framkvæmdastjórans, og engin efnahagsleg rök hníga að henni, því að hún er dæmd til að draga úr verðmætasköpun og þar með heildarskattspori sjávarútvegsins til ríkis og sveitarfélaga. Ríkið er nú að undirbúa alvarleg mistök við tekjuöflun.  Eftirfarandi tilvitnun í Sigríði Margréti ætti að færa mönnum heim sanninn um það:

"Virkur tekjuskattur [þ.e. raun tekjuskattur - innsk. BJo] fyrirtækja er í dag tæp 38 %.  Virkur tekjuskattur þeirra fyrirtækja, sem stunda fiskveiðar, er 58 %.  Nýtt frumvarp atvinnuvegaráðherra mun hækka virkan tekjuskatt þeirra, sem stunda fiskveiðar, í 76 %."  

Af þessu er ljóst, að um skemmdarverk stjórnvalda á heilli atvinnugrein er að ræða, sem lama mun starfsemina, valda fjármagnsflótta úr greininni og fjárfestingar og eiginfjárstaða munu ekki verða svipur hjá sjón.  Þessar tölur sýna svart á hvítu, að verðmætasköpun og skattspor munu dragast saman vegna glórulausrar skattheimtu samkvæmt lögmáli Lafflers, og sveitarfélög og ríkissjóður munu tapa á þessu.  Með flumbruhætti og pólitískum einstrengingshætti er þessi vinstri stjórn að skjóta sig í fótinn. Ekki kæmi á óvart, að slík ofurskattheimta, sem gera mun út af við sum minni útgerðarfélögin og þrýsta á samþjöppun, væri brot á stjórnarskrárákvæði um atvinnufrelsi. Það þarf mjög sterk rök til þess að réttlæta mismunandi tekjuskattsheimtu af atvinnugreinum, því að hún skekkir samkeppnisstöðu og jafngildir mismunun ríkisvalds gagnvart borgurunum.

Svanur Guðmundsson, framkvæmdastjóri Bláa hagkerfisins ehf og sjávarútvegsfræðingur, skrifaði um málefni sjávarútvegsins af reynslu sinni og þekkingu í Morgunblaðið 18.02.2025 undir fyrirsögninni:

"Hvað er raunverulegt gagnsæi í sjávarútvegi ?"

"Ein stærsta breytingin, sem ríkisstjórnin boðar í sjávarútvegsmálum, er aukin skattheimta á greinina í formi s.k. auðlindaskatta.  En hvers vegna er verið að herða skattheimtu á grein, sem hefur þegar skilað ríkinu verulegum tekjum ?  Íslenzkur sjávarútvegur greiðir bæði veiðigjöld og tekjuskatta og stendur ekki undir neinum ríkisstyrkjum, ólíkt mörgum öðrum atvinnugreinum.  Í raun er Ísland eina landið innan OECD, þar sem sjávarútvegur greiðir meira til ríkisins en hann fær í stuðning."

Auðlindagjald þetta er reist á falsrökum, enda hefur Hæstiréttur jafnan nefnt fyrirbærið skatt, þegar hann hefur fjallað um mál af þessu tagi.  Sjávarútvegurinn hefur mun meira  vægi í byggðarlögum úti á landi en á höfuðborgarsvæðinu, og þess vegna má nefna þessa skattheimtu byggðaskattheimtu.  Þingmenn dreifbýlisins hljóta að beita sér gegn þessum fjármagnsflutningi. 

"Ef útgerðum verður gert að greiða enn hærri auðlindaskatta, þarf að svara þeirri spurningu, hvernig tryggja á áframhaldandi samkeppnishæfni greinarinnar.  Sjávarútvegsfyrirtæki í samkeppnislöndum okkar njóta opinbers stuðnings, en hér er greinin stöðugt skotmark pólitískra ákvarðana, sem draga úr rekstraröryggi. Í stað þess að styrkja greinina og tryggja stöðugleika er ríkisstjórnin að leggja grunn að óvissu, sem gæti grafið undan fjárfestingum og nýsköpun í greininni."  

Vinnubrögð ríkisstjórnarinnar eru handahófskennd.  Það er engin tilraun gerð til að grafast fyrir um auðlindarentuna, heldur er fyrri skattheimtuformúla notuð með uppboðsmarkaðsverðum, sem eru ómarktæk til þessara nota, því að tiltölulega mjög lítið magn fer um þá, og fyrir uppsjávarfiskinn er leitað til norskra uppboðsmarkaða, þar sem  gjörólíkar markaðsaðstæður ríkja. Þetta eru óviðunandi vinnubrögð.  Það dettur engum heilvita manni í hug, að tvöfalt arðsamara sé að gera út fiskiskip í íslenzkri lokaðri landhelgi en að meðaltali að reka annars konar fyrirtæki á Íslandi, en þetta verður hlutfall virks tekjuskatts útgerða og annars konar fyrirtækja á landinu (76 %/38 %).  Þessi fyrirhugaða skattheimta er glórulaus.  Auðvitað á aðeins eitt virkt tekjuskattshlutfall að vera á fyrirtækjum landsins.  

"Ef raunverulegt gagnsæi á að vera markmið, ætti umræðan ekki að snúast um eignatengsl, heldur um skýra stefnu í auðlindastýringu, betri greiningu og langtímaáætlun um aflaheimildir.  Það þarf að tryggja rekstrarlegan fyrirsjáanleika og koma á skilvirkum aðgerðum, sem styðja við byggðaþróun og atvinnu.  Þetta snýst ekki um aukið eftirlit og reglugerðir, sem kæfa greinina, heldur um að tryggja, að hún geti starfað áfram á sjálfbærum og arðbærum grunni."

Núverandi stjórnvöld á Íslandi fara þveröfuga leið við auðlindastýringu m.v. ofangreint.  Það er engin tilraun gerð til að greina auðlindarentuna og ákveða, hversu stór hluti hennar skuli ganga til ríkisins.  Þvert á móti er að hætti lýðskrumara ákveðið að reikna veiðigjaldið á bolfiski út frá innlendum uppboðsmarkaði, sem kippa mundi grundvellinum undan innlendri fiskvinnslu, væri hann lagður til grundvallar, og að þessari dæmalausu lýðskrumsákvörðun tekinni, eru engir tilburðir hafðir uppi um að  áhættugreina þessa ákvörðun m.t.t. samkeppnishæfni, sjálfbærni, atvinnuöryggis, og tekna ríkissjóðs og sveitarfélaga. Varðandi veiðigjöld á uppsjávarfiski datt búrókrötunum það snjallræði í hug að miða við uppboðsverð í Noregi.  Allt er þetta svo óvandað, að til stórskammar er, þegar haft er í huga, hversu mikið er í húfi. Flaustur og flumbrugangur ríkisstjórnar K. Frost. er slíkt, að halda mætti, að náungi að nafni Donald Trump hafi haft hönd í bagga.   

 

 

 

  

 


Iðnaður í heljargreipum raforkuskorts

Það er til vitnis um breytileika tilverunnar og ófyrirsjánlega framtíð fyrirtækja á þeirri stundu, þegar fjárfesting fer fram, að raforkuskortur ár eftir ár á Íslandi skuli standa framleiðslunni fyrir þrifum og þar með ávöxtun fjárfestinganna. Vitað var, að vatnsrennsli gæti brugðið til beggja vona í u.þ.b. 3 ár á 30 ára tímabili, en nú er orðin regla fremur en hitt, að vatnsskortur herji á Þjórsár/Tungnaár virkjanir Landsvirkjunar.  Þáttur í þessu óeðlilega ástandi er aukning álags á kerfið án nokkurra nýrra "stórra" virkjana síðan Búrfellsvirkjun 2 kom til skjalanna, en henni var ætlað að nýta umframrennsli, sem vart hefur verið fyrir hendi um árabil.

Þessi slæma staða orkuvinnslunnar mun skána árið 2029, þegar Hvammsvirkjun með sín 95 MW kemst loks í gagnið, en hún mun nýta sama vatnið og virkjanirnar ofar í Þjórsá gera. 

Þessi staða sýnir líka, hversu mikilvægar jarðgufuvirkjanirnar eru, en frá gangsetningu Þeistareykjavirkjunar hefur engin slík virkjun verið tekin í notkun.  Þær eru að vísu háðar árlegum niðurdrætti í gufuforðabúri hverrar virkjunar, en hann er mun fyrirsjáanlegri og veldur minni samdrætti í orkuvinnslugetu en slök vatnsrennslisár geta valdið.  Þess vegna þarf að leggja áherzlu á báðar gerðir þessara hefðbundnu virkjana á Íslandi. 

Á seinni árum hefur 3. gerð virkjana náttúrulegra orkulinda verið til umræðu á Íslandi, en það eru vindorkuverin.  Þau eru langóstöðugust allra þessara 3 valkosta, og var þó ekki á óstöðugleikann bætandi.  Landsvirkjun er að hefja framkvæmdir við s.k. Búrfellslund, um 100 MW, sem er raunhæf stærð í því orkuumhverfi, en gjalda verður miklum varhug við stærð "vindmyllugarðs" í Fljótsdal, sem er áformaður 350 MW að uppsettu afli.  Að þessi óstöðuga raforkuvinnsla gangi truflanalaust upp á Austurlandi þarf að sannreyna með keyrslum í hermilíkönum, því að annars er reglunarvandi raforkukerfisins viðbúinn með óstöðugleika í tíðni og spennu sem afleiðingu. Íslendingar eru hvekktir af kostnaðarsömum áföllum í raforkukerfinu bæði af völdum vatnsskorts og snöggra breytinga á álagi eða framleiðslugetu.  Þegar kerskáli Norðuráls á Grundartanga leysti út eða var leystur út haustið 2024, olli það meiri spennuhækkun á svæði Kröflu og Þeistareykjavirkjunar en notendabúnaður réði við, svo að stórtjón varð á rafbúnaði.  Þessa sviðsmynd hefðu Landsnet og Landsvirkjun átt að sjá fyrir og hafa sjálfvirkar mótvægisaðgerðir tiltækar til að varðveita kerfisjafnvægi.  

Í Morgunblaðinu 25. október 2024 gerði blaðamaðurinn Ólafur E. Jóhannsson grein fyrir helztu afleiðingum afl- og orkuskerðinga Landsvirkjunar, sem nú eru hafnar eða á döfinni í vetur, undir fyrirsögninni:

"Milljarða tekjutap vegna skerðinga".

Fréttin hófst þannig:

 "Landsvirkjun hefur boðað skerðingar á forgangsorku [rangt, hér er átt við ótryggða orku-innsk. BJo] til 11 stórnotenda sinna, og þurfa þá fyrirtækin í einhverjum tilvikum að draga úr starfsemi sinni sem því nemur.  Hér er um að ræða álverin á Reyðarfirði, á Grundartanga og í Straumsvík, járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga, kísiljárnsverksmiðjuna við Húsavík, 4 gagnaver með starfsstöðvar á nokkrum stöðum á landinu, aflþynnuverksmiðju á Akureyri og fiskeldisfyrirtæki í Þorlákshöfn. Þar við bætast fiskimjölsverksmiðjur á Austfjörðum og í Vestmannaeyjum, sem munu þurfa að keyra vélar sínar á jarðefnaeldsneyti.

 Raforkuskeðingar hófust í gær [24.10.2024] á Suðvesturlandi, en á Norður- og Austurlandi munu þær hefjast eftir mánuð [mánuði síðar].  Í tilkynningu frá Landsvirkjun kemur fram, að ekki sé hægt að segja til um, hversu lengi þær muni standa, en reikna megi með skerðingum til til næsta vors [2025].  Skerðing á raforku til stórnotenda Landsvirkjunar er bundin í samninga, þannig að þegar staða miðlunarlóna er lág, er heimilt að skerða afhendingu raforku. 

 Ekki er ljóst, hvert tekjutap Landsvirkjunar verður vegna þeirra skerðinga, sem fyrirtækið er nauðbeygt til að grípa til, en tekjutap fyrirtækisins vegna skerðinga fyrr á þessu ári nam hundruðum milljóna ISK." 

Landsvirkjun hefur ekki jafnfrjálsar hendur með að ganga í skrokk á viðskiptavinum sínum, þegar vatnsskortur er, hvort sem vatnsbúskapurinn er í aumara lagi eða látið hefur verið undir höfuð leggjast að bæta við virkjunum, nema hvort tveggja sé, og þarna er gefið til kynna, því að á hverju 5 ára tímabili má orkuskerðingin ekki fara yfir ákveðinn fjölda MWh hjá hverju fyrirtæki.  Landsvirkjun verður þannig skaðabótaskyld, ef hún tekur upp á því að skerða forgangsorku eða ótryggða orku yfir ákveðin mörk, nema um "Force Majeur" ástand eða óviðráðanlega atburði sé að ræða. 

Hér er um gríðarmikið tjón viðskiptavina Landsvirkjunar að ræða, margfalt meira en hjá Landsvirkjun sjálfri. Að svona sé komið á Íslandi 2024 þýðir ekkert minna en orkustefna landsins hafi beðið algert skipbrot.  Þótt fyrirtæki vilji virkja, þá kemur stjórnkerfi orkumálanna í veg fyrir það.  Það verður að ryðja þessum hindrunum úr vegi, og til þess þarf vafalítið atbeina Alþingis.  Hvort stuðningur við verulega aukið framboð raforku í landinu verður meiri á nýju þingi eftir kosningarnar 30.11.2024 en verið hefur á nýrofnu þingi, er ekki sjálfgefið. Þess vegna er ekki sérlega bjart yfir þessum málaflokki, sem er þá ávísun á hækkandi raforkuverð, hagvaxtarstíflu og gríðarlegan kostnaðarauka atvinnulífsins. 

Um þessar mundir er álverð hátt eða um 3000 USD/t með s.k. premíu, sem fyrirtæki fá fyrir sérhæfða framleiðsluvöru.  Fyrirtækin verða ekki einungis fyrir sölutapi og hugsanlegum missi viðskiptavina, heldur eykst rekstrarkostnaður þeirra líka vegna styttri endingar og hærri endurnýjunarkostnaðar framleiðslubúnaðar.  Það má gizka á, að tjón þessara 11 fyrirtækja, sem talin eru upp í fréttinni, nemi a.m.k. 11 mrdISK vegna boðaðra raforkuskerðinga.     


Grobb og froða í stað innihalds

Grobb forystusauðs Samfylkingar ríður ekki við einteyming.  Það vellur upp úr pottunum hjá henni í Morgunblaðsgrein 15. nóvember 2024.  Hún þykist hafa til að bera hæfni í hagstjórn, en nákvæmlega ekkert í málflutningi hennar bendir til einhverrar nýbreytni til hins betra.  Þá er hún drýgindaleg yfir "plani" Samfylkingar, en það er hvorki fugl né fiskur.  Henni væri nær að útlista fyrir kjósendum, hvernig Samfylkingin ætlar að breyta ríkisbúskapnum, ef hún kemst til valda eftir kosningarnar 30.11.2024.

Téð grein bar digurbarkalega yfirskrift:

"Neglum niður vextina".

Hún hófst þannig:

"Samfylkingin ætlar að negla niður vextina.  Með hæfni í hagstjórn.  Við munum lækka kostnað heimila og fyrirtækja í landinu - fáum við til þess traust í kosningunum 30. nóvember [2024]. 

Þetta er stærsta hagsmunamál almennings á Íslandi eftir óstjórn síðustu ára.  Fráfarandi ríkisstjórn brást fólkinu í landinu með því að passa ekki upp á efnahagsmálin.  Nú er kominn tími á breytingar."

Þetta er ótrúlega grautarlegur texti, þar sem ægir saman inantómum fullyrðingum um eigið ágæti og órökstuddum ávirðingum í garð annarra. 

Það er út í hött að halda því fram, að Samfylkingin muni "negla niður vextina".  Ætlar hún að negla þá fasta ?  Það er Seðlabankinn, sem tekur ákvörðun um stýrivexti, og þenslustefna Samfylkingar í ríkisfjármálum mun vinna gegn lækkun stýrivaxta.  Aðaldrifkraftur verðbólgu undanfarið hefur komið frá húsnæðisgeiranum, en fáránleg þéttingarárátta Samfylkingar í borginni hefur valdið lóðaskorti og keyrt upp byggingarkostnað.  Samfylkingin þrjózkast við að samþykkja útvíkkuð vaxtarmörk á höfuðborgarsvæðinu, sem setur lóðafjölda á hverjum tíma skorður.  Samfylkingin undir forystu Dags B. Eggertssonar hefur einfaldlega gert það, sem á hennar valdi hefur verið til að kynda verðbólgubálið.  Nú er Kristrún með téðan Dag í aukaleikarahlutverki á sínum lista í Reykjavík, og það er fullkomlega ótrúverðugt, að Samfylkingin muni með ráðstöfunum sínum í ríkisstjórn viðhalda núverandi vaxtalækkunarhraða, hvað þá að auka hann.  

Í hverju er óstjórn síðustu ára fólgin ?  Er hún fólgin í því að fylgja í einu og öllu ofstækisfullum tillögum Ölmu Möllers, landlæknis, og sóttvarnalæknis hennar í Kófinu, en téð Alma skipar nú efsta sæti á einum lista Samfylkingar fyrir Alþingiskosningarnar 30.11.2024 ?  Var það sök ríkisstjórnarinnar, að stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar fór á hliðina í Kófinu ?  Íslenzka ríkisstjórnin brást við Kófinu með svipuðum hætti og víða átti sér stað.  Það ásamt tekjutapi og dúndrandi halla á ríkissjóði olli hárri verðbólgu ?  Hvaða athugasemdir gerði Samfylkingin við það á sínum tíma ? Það er lítilmannlegt að koma eftir á og gefa í skyn, að Samfylkingin hefði staðið öðru vísu að málum.  Það er einfeldningslegt og ótrúverðugt að halda því fram, að efnahagsstjórnin hefði farið betur úr hendi Samfylkingar í Kófinu og í kjölfar þess.

"Samfylkingin er eini flokkurinn með plan um að negla niður vexti og verðbólgu.  Allir flokkar tala um að gera þetta - en hverjum er treystandi ?  Alla vega ekki þeim, sem hafa stjórnað landinu síðustu árin, og ekki þeim, sem lofa öllum öllu alls staðar.  

Plan Samfylkingar til að negla niður vextina er þríþætt.  Bráðaaðgerðir í húsnæðismálum til að fjölga íbúðum strax.  Stöðugleikaregla í ríkisfjármálum til að ríkissjóður hætti að valda verðbólgu.  Og tiltekt í ríkisrekstri ásamt tekjuöflun með skynsamlegum skattkerfisbreytingum - án þess að hækka skatta á almenning."

Hvers konar bull er þetta eiginlega í bankaprinsessunni.  Verðbólga hjaðnar nú tiltölulega hratt, og 20. nóvember 2024 voru stýrivextir lækkaðir um 0,5 %.  "Plan" Samfylkingar er hvorki fugl né fiskur.  Það sem þarf að gera í húsnæðismálum er einfaldlega að brjóta nýtt byggingarland í miklu magni og selja lóðaafnotin á verði sem næst kostnaði.  Húsnæðisverð er nú svo hátt, að spurn eftir slíkum lóðum mun verða gríðarleg.  Klunnaleg forræðisinngrip Samfylkingar munu aðeins gera illt verra.

Það er fyrir hendi stöðugleikaregla í ríkisfjármálum, en Samfylkingin ætlar að finna upp hjólið.  Það er þvættingur, að aukin skattheimta af fjármagni og fyrirtækjum komi ekki niður á almenningi.  Aukin skattheimta af sparnaði mun draga úr sparnaði, sem hefur tilhneigingu til að hækka vexti.  Aukin skattheimta af fyrirtækjum er líka verðbólguhvetjandi.  Ef fyrirtækin geta ekki sett kostnaðarauka sinn út í verðlagið, minnkar geta þeirra til launahækkana og fjárfestinga, sem getur valdið ólgu á vinnumarkaði og samdrætti í byggðum, þar sem fyrirtækin starfa.  Samfylkingin ætlar að hrifsa í stýri ríkisfjármálanna með skatta- og gjaldahækkunum, sem draga munu úr hagvexti og vera verðbólguhvetjandi.  Þetta eru eins viðvaningsleg vinnubrögð og hugsazt getur og algerlega óþörf. 

Kristrún Frostadóttir er úti á túni sem formaður stjórnmálaflokks.  Hún heldur því fram, að stýrivextir hafi verið 9,00 % í meira en eitt ár.  Þeir voru lækkaðir í 9,00 % við vaxtaákvörðun Peningastefnunefndar Seðlabankans næstu á undan þeirri 20.11.2024.  Þá er villandi hjá henni að tala um hallarekstur á ríkissjóði í 9 ár.  Ríkisstjórnin reiknar með 2 árum í viðbót, þ.e. afgangi 2027, sem verður fyrr, ef ríkisstjórn búhygginda og hagvaxtar tekur hér við eftir næstu kosningar, en það er borin von með ríkisstjórn viðvaninga með þenslu ríkisbúskapar á stefnuskrá sinni.  

 

  


Skellibjalla bullar

Málflutningur formanns "Skattfylkingarinnar", Kristrúnar Frostadóttur, í aðdraganda nóvemberkosninganna á Íslandi 2024, hefur verið sérkennilegur. Hún lætur í það skína, að hún hafi legið undir feldi með flokksmönnum sínum og gert þar áætlun um lausn jafnaðarmanna á þeim málum, sem helzt hvíla á landsmönnum um þessar mundir.  Þegar kjánalegir stjórnmálamenn forræðishyggjunnar gera áætlanir um samfélagsbreytingar, er eins gott fyrir þjóðina að biðja guð að gleypa sig eða hreinlega að hafna forræðishyggjunni við kjörborðið. 

Formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, gerði formann Samfylkingar afturreka með drýldni sína um áætlun fyrir ríkisfjármálin á fyrri formannafundi RÚV Sjónvarps fyrir þessar Alþingiskosningar.  "Skattfylkingin" ætlar að hækka útgjöld ríkissjóðs um 77 mrdISK/ár. Hvernig ætlar forræðishyggjufólkið að fjármagna þennan úgjaldaauka ?  Það var talið upp í áætlun "snillinganna", en skattstofnarnir, sem "Skattfylkingin" ætlar að þurrmjólka, eru svo takmarkaðir, að þar er í mesta lagi hægt að kreista 20 mrdISK/ár.  Þá kom fát á drýldnu skellibjölluna, sem fór að bulla um aðhaldsaðgerðir.  Hverjum dettur í hug, að "Skattfylkingin" muni beita sér fyrir aðhaldsaðgerðum í rekstri ríkissjóðs ?  Hún hefur keyrt borgarsjóð í þrot, skuldsett hann upp í rjáfur, svo að skuldir borgarinnar eru komnar yfir leyfileg mörk.  

Þann 5. nóvember 2024 þóknaðist skellibjöllunni að fá birta eftir sig öfugmælagrein með innantómum fullyrðingum í sandkassastíl um, að "Sjálfstæðisflokkurinn hækki vexti", "Sjálfstæðisflokkurinn hækki verð", "Sjálfstæðisflokkurinn hækki skatta", og að "Samfylkingin sé eini flokkurinn með plan".

Þetta er ótrúlega barnaleg og vantillt grein, sem þarfnast þó umfjöllunar í ljósi kosninganna.  Fyrirsögnin bar þessu vitni:

"Sjálfstæðisflokkurinn hækkar kostnað heimilanna".

Öfugmælin hófust þannig:

"Samfylkingin ætlar að lækka kostnað heimilanna. [1]

Kostnaðurinn við að lifa venjulegu lífi hefur rokið upp úr öllu valdi á Íslandi. [2]

Það er of dýrt að borga vexti, of dýrt að borga húsnæði, og það er meira að segja of dýrt að kaupa í matinn hérna. [3]

Þessu ætlar Samfylkingin að breyta - fáum við til þess traust hjá þjóðinni í kosningunum þann 30. nóvember [2024]."

[1] Er þetta trúverðugt í ljósi þess, að Samfylkingin ætlar að hækka skatta á almenning og fyrirtæki ?  Allar skattahækkanir bitna að lokum á heimilunum.  Það eru engar "góðar" skattahækkanir til, sem ekki bitna á almenningi með einum eða öðrum hætti.  Þungar byrðar á fyrirtæki minnkar getu þeirra til stækkunar og/eða hækkunar launa og getur leitt til samdráttar og uppsagna starfsfólks.  

Er Samfylkingin fús til að lækka kolefnisgjöldin á eldsneytið, nú þegar verið er að hækka og útvíkka gjaldtöku fyrir veganotkun ? Nei, Samfylkingin hefur ekki léð máls á því og yfirleitt alls engum lækkunum skattheimtu og opinberra gjalda.  Það er mjög greinilegt í höfuðborginni, þar sem hún hefur ráðið undanfarinn rúman áratug og spennt allar álögur í botn.  Það er eins og hvert annað bull, að Samfylkingin muni verða líkleg til að lækka kostnað heimilanna.

[2] Framfærslukostnaður á Íslandi hefur hækkað undanfarin ár á Íslandi, eins og í öllum öðrum löndum. Framleiðsla og flutningar röskuðust í Kófinu (C-19), sem leiddi til hækkunar vöruverðs og þjónustu 2020-2022.  Síðan hóf Rússland ólöglega og grimmdarlega alls herjar innrás sína í Úkraínu 24.02.2022.  Hún leiddi til enn meiri truflana á ýmsum aðdráttum ásamt verðhækkunum.  Verðbólguskot varð um allan heim, og Ísland fór ekki varhluta af því, og fyrst núna er verðbólgan tekin að hjaðna í nægilegum mæli, til að Seðlabankinn hafi séð sér fært að hefja vaxtalækkunarferli. 

Með mjög óeðlilegum stjórnarháttum sínum í Reykjavík hefur Samfylkingin valdið lóðaskorti í Reykjavík og húsnæðisskorti, nema á rándýrum íbúðum á s.k. þéttingarreitum. Þetta keyrði upp verðbólguna í landinu og heldur henni enn uppi. 

Bullið í formanni Samfylkingar hreinsar ekki sök af Samfylkingu um stórfelldar byrðar á heimilin í landinu. 

[3] Samfylkingin hefur neitað að víkka uppbyggingarmörk höfuðborgarsvæðisins, og þannig komið í veg fyrir, að nágrannasveitarfélög Reykjavíkur geti brotið nýtt land undir byggingar, sem þó er nauðsynlegt til að leysa úr lóðaskorti og byggingaskorti á höfuðborgarsvæðinu, sem valdið hefur miklum hækkunum húsnæðisverðs þar. Það er húsnæðisverðið sem er aðalhvati verðbólgunnar um þessar mundir. 

Formanninum þykir dýrt að kaupa í matinn á Íslandi.  Er hún fús til að fara í raunhæfar aðgerðir til lækkunar, t.d. lækkun eða afnám virðisaukaskatts á matvæli eða að afnema kolefnisgjald á olíu, sem þá lækkar flutningskostnað og framleiðslukostnað íslenzks landbúnaðar ?  Samfylkingin hefur aldrei gert neitt raunhæft til að lækka kostnað heimila. 

 

Bullið í formanni Samfylkingar hreinsar ekki sök Samfylkingar á háum kostnaði og háum vöxtum á Íslandi.     

 

 

 

 


Óhjákvæmileg stjórnarslit

Svandís Svavarsdóttir, formaður VG, virtist telja það bezta ráðið til að lyfta fylgi flokksins yfir 5 % línuna, sem skilur á milli lífs og dauða í landsmálapólitíkinni, að setja hornin hvað eftir annað í Sjálfstæðisflokkinn, nánar tiltekið formann hans, á meðan hún enn sat með honum í ríkisstjórn.  Þetta reyndist gera illt verra fyrir flokk hennar, því að enn fjaraði undan flokkinum í mælingum á fylgi. 

 Þessi alræmdi fulltrúi þröngsýni og vinstra ofstækis í pólitíkinni virðist vera heillum horfin og í raun ekkert erindi eiga í pólitík, því að hún hefur sýnt fádæma dómgreindarleysi í öllum sínum ráðherraembættum og hlotið dóma fyrir lögbrot. Á fundi formanna stjórnmálaflokkanna hjá Sjónvarpi RÚV skömmu eftir, að forsætisráðherra tilkynnti ákvörðun sína um að rjúfa þing, sem hann einn hefur vald til, opinberaði téð Svandís fáfræði sína um stjórnskipan landsins og skítlegt eðli sitt með því að tilkynna, að hún vildi annars konar starfsstjórn, þ.e. stjórnarmyndun Sigurðar Inga, formanns Framsóknarflokksins.  Allt var þetta fádæma einfeldningslegt, enda er hún nú rúin trausti. 

Úr því að formaður Framsóknarflokksins er nefndur hér til sögunnar, verður að nefna hér þá gríðarlegu áhættu, sem hann hefur nú tekið með því að bjóða Framsóknarmönnum og stuðningsfólki flokksins í Suðurlandskjördæmi upp á forystu yfirborðskennds forsetaframbjóðanda á B-listanum.  Ekki kæmi á óvart, að Framsóknarmönnum væri nú nóg boðið og höfnuðu slíkum "trakteringum" formannsins með þeim afleiðingum, að hann dytti út af þingi.  Eftir sæti forystulaus sveit Framsóknarmanna á Suðurlandi og á þingi.  Gluggaskreytingar af þessu tagi eru móðgun við kjósendur.  

Óli Björn Kárason, þingmaður sjálfstæðismanna í Kraganum, ákvað að gefa ekki kost á sér til setu á D-listanum fyrir kosningarnar 30.11.2024.  Það er eftirsjá að Óla Birni, því að hann hefur gert sér far um að leggja rækt við grunngildi Sjálfstæðisflokksins, sem hverfa sjónum kjósenda, þegar flokkurinn tekur þátt í samsteypustjórnum.  Grunngildi Sjálfstæðisflokksins höfða til a.m.k. fjórðungs þjóðarinnar, og þess vegna verður að skrifa lágt gengi flokksins undanfarin misseri á stjórnarsamstarfið.

Óli Björn ritaði grein í Morgunblaðið 9. október 2024 undir fyrirsögninni:

"Hingað og ekki lengra".

Hún hófst þannig:

"Svandís Svavarsdóttir, nýr formaður Vinstri grænna, er að misskilja eigin stöðu og flokks síns í samstarfi við Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn.  Vinstri grænum var ekki afhent einhliða neitunarvald í ríkisstjórn.  Heimild til þingrofs er heldur ekki í höndum Svandísar, þótt hún hafi stigið fram og boðað til kosninga áður en kjörtímabilinu er lokið.

Það þarf ekki að fara eins og köttur í kringum heitan graut.  Vinstri grænir undir forystu eins reyndasta og, að því er ég hélt [?!-innsk. BJo], eins klókasta stjórnmálamanns samtímans [oflof, það er háð-innsk.BJo], hafa í raun bundið enda á stjórnarsamstarfið.  Ég efast ekki um, að Vinstri grænir trúi því og treysti, að samstarfsflokkarnir í ríkisstjórn láti það yfir sig ganga, að minnsti flokkurinn taki þingrofsheimildina af forsætisráðherra og setji samráðherrum sínum stólinn fyrir dyrnar í mikilvægum málum."

Vinstri grænir voru búnir að komast að þeirri niðurstöðu á fundum sínum, að til að endurheimta fylgi sitt yrðu þeir að fara í naflaskoðun. Það var auðvitað kolrangt mat hjá þeim, því að nafli vinstri grænna er ekkert augnayndi fyrir nútíma kjósendur.  Þetta leiddi hins vegar til þess, að ráðherrar vinstri grænna juku þvergirðing sinn við ríkisstjórnarborðið um allan helming, og þá var ekki til setunnar boðið, og forsætisráðherra var búinn að skjóta því aðvörunarskoti að VG-kænunni, en þar um borð lét fólk sér ekki segjast, enda alræmdir þvergirðingar. 

"Í pistli hér á þessum stað fyrir réttri viku benti ég á, að málamiðlanir milli ríkisstjórnarflokkanna hefðu ekki alltaf endurspeglað þá staðreynd, að Sjálfstæðisflokkurinn er fjölmennasti þingflokkurinn á Alþingi og í ríkisstjórn.  Sáttfýsi okkar sjálfstæðismanna hefði því verið meiri en efni hafa staðið til út frá þingstyrk. Þessi sáttfýsi hefur reynzt Sjálfstæðisflokkinum dýrkeypt þrátt fyrir augljósan árangur í efnahagsmálum."  

Það er algert neyðarbrauð að mynda ríkisstjórn þvert yfir hið pólitíska litróf, því að þá verður til slík útþynning á stefnumálum flokkanna, að kjósendur vita ekki sitt rjúkandi ráð.  Þar að auki komst minnsti flokkurinn, sem lengst af fór með forsætisráðherraembættið, upp með að koma í veg fyrir nýjar virkjanir, sem þó eru undirstaða frekari verðmætasköpunar í landinu.  Þessi afturhaldsflokkur, sem jafnframt virðist vera flokkur opinna landamæra, kom líka lengst af í veg fyrir samræmingu íslenzkrar hælisleitendalöggjafar við t.d. þá norrænu, sem virkaði sem hvati fyrir hælisleitendur um að leita hingað ásjár. Hingað hafa nú hrúgazt heilaþvegnir múhameðstrúarmenn, sem láta oft á tíðum ófriðlega og eru ógnandi, eins og Kóraninn innrætir þeim að vera gagnvart kristnu fólki. Þetta er hrottalegur baggi á þjóðfélaginu, því að þessu fólki dettur ekki í hug að leggja sig fram um aðlögun að íslenzku samfélagi, en það fyllir fangelsin.     

 

 

 


Skattheimta í refsingarskyni

Skattheimtuárátta vinstri grænna er ofstækisfull og efnahagslega fullkomlega glórulaus.  Þeim dettur ekki í hug að gaumgæfa, hvaða skattheimtustig er þjóðhagslega hagkvæmast, þ.e. gefur stærstu kökuna til skiptanna.  Þá virðist skorta þroska til að hugsa á slíkum rökréttum brautum, en bleyta í þess stað vinstri þumalinn og stinga honum upp í loftið til að finna út, hvers konar lýðskrum hentar þeim bezt í hvert skiptið.  Þetta er fullkomlega ábyrgðarlaus hegðun gagnvart launþegum, sem eiga atvinnuöryggi sitt undir fjárfestingum í fyrirtækjunum, en þegar jafna má skattheimtunni við eignaupptöku, en það eru hreðjatökin, sem VG leggur til, að sjávarútvegurinn verði tekinn, er skörin tekin að færast upp í bekkinn.  Hingað og ekki lengra !

 

Kolefnisgjald á jarðefnaeldsneyti hefur hækkað úr hófi fram og heldur enn áfram að hækka.  Þessari skattheimtu verður auðvitað að stilla í hóf á útflutningsatvinnugreinar og taka mið af því, sem lagt er á samkeppnisfyrirtækin erlendis.  Það er ekki gert hérlendis og vitnar um ruddalegar aðfarir skilningslítilla embættis- og stjórnmálamanna.  ESB hóf þessa skattheimtu til að beina fyrirtækjum í umhverfisvænni kosti, en á tímum raforkuskorts í boði stjórnvalda geta vinnuvélaeigendur og útgerðarmenn ekki keypt rafeldsneyti í stað jarðefnaolíu. Kerfið setur undir sig hausinn og lemur honum við steininn, enda breytir það engu um stjórnvizku hins opinbera.

Þann 19. september 2024 birtist fróðleiksgrein eftir kunnáttukonurnar Birtu Karen Tryggvadóttur, hagfræðing hjá SFS, og Hildi Hauksdóttur, sérfræðing í umhverfismálum hjá SFS, undir fyrirsögninni:

"En að létta róðurinn ?"

"Kolefnisgjald er eitt þeirra gjalda, sem stjórnvöld leggja á íslenzkan sjávarútveg.  Engar undanþágur eru veittar frá gjaldinu, en þar sker Ísland sig frá öðrum Evrópuþjóðum.  Kolefnisgjaldinu er ætlað að hvetja til orkusparnaðar, notkunar á vistvænni ökutækjum, samdráttar losunar gróðurhúsalofttegunda og aukinnar notkunar á innlendum orkugjöfum, sem í dag eru af skornum skammti.  

Olíukostnaður hefur að jafnaði verið annar stærsti kostnaðarliður í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja á eftir launum. Allar breytingar á olíuverði hafa því mikil áhrif á rekstrarskilyrði sjávarútvegs - líka, ef þær verða til með hækkun kolefnisgjalds. 

Kolefnisgjaldið stendur nú í 13,45 ISK/l ol, en það hefur hækkað um 364 %, síðan það var fyrst lagt á árið 2010.  Á sama tíma hefur verðlag hækkað um 70 %.  Kolefnisgjaldið hefur þannig hækkað langt umfram verðlagsbreytingar, og það hefur óhjákvæmilega mikil áhrif á rekstrarskilyrði í sjávarútvegi. Í liðinni viku [v.37/2024] kynnti ríkisstjórn Íslands svo enn frekari hækkanir á kolefnisgjaldi. 

Fyrirtæki í sjávarútvegi hafa greitt tæpa mrdISK 19 í kolefnisgjald á árunum 2011-2023. Heildartekjur ríkissjóðs vegna gjaldsins námu tæpum mrdISK 60 á sama tímabili. Sjávarútvegurinn hefur þannig staðið undir greiðslu á á um þriðjungi kolefnisgjaldsins á Íslandi."   

 Þetta er dæmi um tillitslausa og skattheimtugríð íslenzkra embættismanna og stjórnmálamanna, því að yfirleitt er sjávarútvegi hlíft við henni.  Þarna er um þjóðhagslega óhagkvæma skattheimtu að ræða, því að hún skekkir samkeppnishæfnina.  Þarna er verið að gera íslenzkum atvinnuvegi erfitt fyrir með svipuðum hætti og með s.k. blýhúðun ESB-reglugerða og tilskipana. 

"Íslenzkur sjávarútvegur er í fararbroddi í umhverfismálum á heimsvísu, og það stendur ekki á atvinnugreininni að ná enn frekari árangri í þeim efnum.  En næstu skref í átt að markinu eru snúin.  Þegar miklum samdrætti í olíunotkun hefur verið náð, verða frekari skref fram á við bæði vandasamari og kostnaðarsamari. Af þeim sökum skiptir sköpum, að stjórnvöld tryggi svigrúm til verulegra fjárfestinga í greininni næstu árin, m.a. með hóflegri gjaldtöku og fyrirsjáanlegu rekstrarumhverfi." 

Þetta skilja ekki vinstri grænir, og þess vegna er í meira lagi umdeilanlegt að fela þeim forsjá atvinnuvegaráðuneytis.  Þeir skilja ekki, að í atvinnugrein, hverrar velgengni er reist á miklum fjárfestingum í framleiðniaukandi og gæðaaukandi búnaði ásamt nýsköpun til að skáka samkeppnisaðilum, þarf framlegðin frá rekstri að vera há. Núna er sérstök skattheimta á útgerðir 33 % af hagnaði og almenni tekjuskatturinn leggst ofan á þetta.  Þarna er augljóslega teflt á tæpasta vað, enda einsdæmi í heiminum. Nei, vinstri græna ofstækið ætlar ekki að láta þar við sitja, heldur hækka sértæku skattheimtuna verulega. Það er ótækt, enda setur slíkt fjölda fyrirtækja í uppnám og þar með lífsafkomu fjölda fólks.  Ábyrgðarleysið er algert, og sjálfstæðismenn geta ekki fallizt á þessi vinnubrögð. 

"Hafa verður í huga, að kolefnisgjald úr hófi stendur í vegi fyrir því, að ná megi háleitum markmiðum um aukinn samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda í sjávarútvegi og veikir sömuleiðis samkeppnisstöðu sjávarafurða á erlendri grundu.

Ný aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum mætir því miður ekki þeim áskorunum, sem sjávarútvegur stendur frammi fyrir og varðar ekki leið að frekari samdrætti í olíunotkun.  Áherzlan er enn á óraunhæfar og íþyngjandi aðgerðir tengdar sjávarútvegi í stað þess að treysta betur fjárhagslegt svigrúm  til fjárfestinga og aukinnar verðmætasköpunar með hóflegri gjaldtöku ýmiss konar og traustari innviðum.  Markmiði um 55 % samdrátt í losun frá sjávaútvegi verður ekki náð, nema stjórnvöld og atvinnulífið hafi sameiginlegan skilning á verkefninu."

Það er ekki nóg með, að stjórnmálamenn, svífandi í lausu lofti, setji landsmönnum óraunhæf markmið í loftslagsmálum, heldur hafa embættismenn svo lítið vit á að smíða aðgerðaáætlun, að hún hjálpar heilli atvinnugrein ekkert við að ná markmiðinu, heldur torveldar það fremur. Hrokinn og minnimáttarkenndin er svo ríkur í þessu slekti, sbr "vér einir vitum", að ekki er borið við að ráðfæra sig við samtök atvinnugreinarinnar um það, hvernig bezt má verða að liði við að leysa verkefnið.  Niðurstaðan er fyrirsjáanleg: það eru bara lagðir steinar í götu atvinnugreinarinnar. 

Fyrir hvað er þá verið að refsa þessari öflugustu atvinnugrein landsins ? Jú, það er verið að refsa útgerðarmönnum fyrir að eiga aflahlutdeildirnar, sem ríkið úthlutar þeim árlega á grundvelli ráðlegginga Hafrannsóknarstofnunar um heildarveiði úr mismunandi nytjastofnum við Ísland.  Þetta einkaeignarréttarlega fyrirkomulag er grundvöllurinn að góðum árangri fiskveiðistjórnunarkerfisins íslenzka, hvort sem litið er til framleiðni og hagræðingar kerfisins, sótspors sjávarútvegsins eða ábyrgrar  umgengni hans við auðlindina.  Einkaeignarréttarlega fyrirkomulagið hámarkar stöðugleikann, sem greinin getur búið við, og fjárfestingargetu hans, en sameignarsinnar o.fl. hafa mikið reynt til að gera þetta fyrirkomulag tortryggilegt í augum almennings.  Kerfið er uppnefnt gjafakvótakerfi.  Hvílíkur uppspuni.  Þeir, sem stunduðu útgerð, þegar kerfið var sett á, og gátu sýnt fram á 3 ára aflareynslu, fengu úthlutað aflahlutdeild í byrjun.  Hverjir aðrir áttu meiri rétt á þessu ?  Kerfið er nefnt "grandfathering" á ensku og er vel þekkt erlendis.  Síðan hafa aflahlutdeildir gengið kaupum og sölum, svo að yfir 90 % þeirra hafa verið keyptar.  Auðvitað fellur þetta kerfi ekki að afdankaðri og vonlausri sameignarhugmyndafræði vinstri grænna, og það hefur komið vel fram hjá ráðherrum þeirra í matvælaráðuneytinu.  Þar hefur greinilega verið efst á dagskrá að bregða fæti fyrir útgerðirnar, enda stendur góður árangur þeirra undir þessu markaðsdrifna kerfi eins og fleinn í holdi vinstri manna (Samfylkingin meðtalin.).  Nú ætla þessir sjálfskipuðu alþýðuleiðtogar með hugmyndafræði, sem alls staðar leiðir til ófara, þar sem hún er reynd, að jafna hlut alþýðunnar.  Hvílík sjálfsblekking, fáfræði og grunnhyggni.  Þetta ofstjórnar- og ríkisbákns fyrirbrigði, sem vinstri grænir eru, verður að stöðva í skemmdarverkum þess á hagkerfi landsins.    

    

 

   


Viðsjár stjórnmálanna

Miklar breytingar á fylgi stjórnmálaflokkanna hérlendis samkvæmt s.k. skoðanakönnunum hafa valdið titringi í stjórnmálaheiminum.  Þau eindæmi urðu á fundi hjá VG 06.10.2024, að flokkurinn sleit stjórnarsamstarfinu hálft ár fram í tímann.  Þetta er blaut tuska framan í andlit formanna hinna stjórnarflokkanna, sem báðir höfðu lýst áhuga sínum á að sitja út kjörtímabilið (september 2025).  Nú verður ekki tekizt á með silkihönzkum, og vetrarkosningar (marz 2025) koma fyllilega til greina.  VG valdi skemmt vín á gömlum belg í forystuna, ætlar í naflaskoðun, og verður sennilega skilin eftir við þá iðju norpandi í kuldanum utan Alþingis.  

Það er ekki ólíklegt, að aðvörunarskot fylgismanna hinna stjórnarflokkanna framan stefnis muni fá þá til að sýna vígtennurnar og höfða til kjósenda sinna fyrrum tíð með því að draga fram sérkenni sín, sem í sögulegu samhengi eru borgaraleg viðmið með áherzlu á verðmætasköpun annars vegar með einkaframtaki, samkeppni og einkaeign með hóflegri skattheimtu - og hins vegar  samvinnuhugsjónin með blönduðu hagkerfi, sem óhjákvæmilega fylgir stærra ríkisbákn og meiri skattheimtu eða skuldasöfnun ríkissjóðs.

Það er hollt fyrir kjósendur, að stjórnmálamenn takist á um hugsjónir og meginstefnur.  Hinum megin víglínunnar séð frá borgaraflokkunum er hið ókræsilega lið opinbers rekstrar og eignarhalds, útþensla ríkisbáknsins og þar af leiðandi óbærilega áþján skattheimtu á bæði einstaklinga, fjölskyldur og fyrirtæki  og einnig skuldasöfnun og þar af leiðandi hærri verðbólga en hollt er. Þegar þessi ólíkindatól, sem nú eru í stjórnarandstöðu, verða krufin um fyrirætlanir sínar á næsta kjörtímabili, mun þeim vefjast tunga um tönn, og getan er ekki meiri en svo, að þau munu óhjákvæmilega skjóta sig í fótinn, og fylgistölur þar af leiðandi verða allt aðrar en nýlegar skoðanakannanir gefa til kynna.  

Til marks um gerjunina, sem í gangi er víða, birtist 4. október 2024 grein eftir Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmann, undir fyrirsögninni: 

"Flokkur frelsis og ábyrgðar ?".

Hún hófst þannig:

"Ég hef jafnan í alþingiskosningum kosið Sjálfstæðisflokkinn.  Ástæðan er sú, að mér hefur fundizt hann standa nær afstöðu minni til frelsis og ábyrgðar en aðrir, auk þess sem flokkurinn hefur haft uppi stefnumið í ýmsum málum, sem mér hafa þótt burðugri en annarra.  

Nú eru mér hins vegar að fallast hendur í stuðningi við þennan flokk. Hann hefur nefnilega hreinlega fórnað mörgum stefnumálum í þágu samstarfs í ríkisstjórn með verstu vinstri skæruliðum, sem finnast í landinu.  Það er eins og fyrirsvarsmenn flokksins hafi verið tilbúnir að fórna stefnumálum sínum fyrir setu í ríkisstjórn.  Þá má spyrja: Til hvers eru menn í stjórnmálum, ef þeir eru ekki að koma fram þeim stefnumálum, sem þeir segjast hafa ?" 

Þetta er auðvitað umhugsunarvert og spurning, hvaða umboð stjórnmálamenn hafa til að aðstoða við að koma annarra flokka stefnumálum fram og að gera við þá hrossakaup um stuðning við þeirra mál gegn stuðningi við eigin mál.  Þetta er lýðræðisvandamál kjördæmaskipunar og kosningafyrirkomulags, sem leitt hefur til flokkafjölda á Alþingi, sem útilokar tveggja flokka ríkisstjórn. Þingflokkar gætu orðið fleiri eftir næstu kosningar, af því að vonbrigði Jóns Steinars eru ekki einsdæmi.   

VG tók það upp hjá sjálfri sér að stytta kjörtímabilið um a.m.k. 4 mánuði.  Þetta er líklega einsdæmi, enda helber ósvífni án samráðs við kóng eða prest. 

Forsætisráðherra hugðist leggja á djúpið í nafni þess, að stjórnarflokkarnir hafi komið sér saman um þingmálaskrá, en VG-liðar hafa lýst því yfir, að þeir muni hlaupa út undan sér í a.m.k. einu þingmáli dómsmálaráðherra, Guðrúnar Hafsteinsdóttur, 1. þingmanns Suðurlands.  Erfitt stjórnarsamstarf þriggja stjórnarflokka, þar sem VG-ráðherrar hafa að mati margra flokksmanna hinna stjórnarflokkanna orðið brotlegir við lög, hefur leitt til óvenjumikilla fylgisbreytinga, sem verkefni stjórnmálamanna í kosningabaráttunni verður að snúa við eða auka fram að kosningum háð því, hvar þeir eru staddir. Mikilvægt er að toppa á réttum tíma.   

Yfirgangur og ósvífni er brennimark á þessum stjórnmálaflokki -VG, enda virðast áhangendur villta vinstrisins ætla að gefa þessum armi frí og senda félaga í Sósíalistaflokkinum á þing í staðinn. 

Frumhlaup VG með að flýta kosningum varð ekki liðið.  Forsætisráðherra, sem einn fer með þingrofsvaldið, tók af skarið, þegar hann sá, að Svandís var ekki í neinum samstarfshugleiðingum.  Það verður bið á því, að Sjálfstæðisflokkur setjist aftur í ríkisstjórn með svartasta afturhaldi landsins, sem tekizt hefur að þvælast fyrir framfaramálum í landinu allt of lengi og valda stórtjóni og tekjutapi samfélagsins.  Þetta stjórnarsamstarf var dýru verði keypt, og kjósendur voru lítt hrifnir.  


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband