Færsluflokkur: Bloggar
7.9.2024 | 17:15
Óbeysið verður það
Landsmenn hafa gáttaðir fylgzt með sjálftöku fyrrverandi borgarstjóra Samfylkingarinnar, Dags B. Eggertssonar, á MISK 10 orlofsgreiðslu 10 ár aftur í tímann, sem mun vera einsdæmi á Íslandi fyrr og síðar, enda téður Dagur engum líkur. Hann gegndi á tímabilinu æðstu stöðu Reykjavíkurborgar. Hver hélt þá utan um orlofstöku hans ? Enginn veitti honum heimild til að fara í orlof, og enginn hefur hafnað orlofsbeiðni hans. Menn í slíkum stöðum leyfa sér ekki slíkt framferði að safna upp orlofi og senda síðan reikning 10 ár aftur í tímann fyrir orlofi, sem ekkert eftirlit var með, hvort var tekið eður ei. Hér er á ferðinni ótrúleg peningagræðgi og siðleysi.
Slíku fólki er í engu treystandi, allra sízt fyrir opinberum fjármunum. Vitað var, að óreiða hefur ríkt í fjármálum Reykjavíkur í stjórnartíð þessa manns, svo að borgin nýtur ekki lengur lánstrausts. Nú stefnir í, að sá stjórnmálaflokkur, sem þessi óreiðupési hefur boðið sig fram til almannaþjónustu fyrir, Samfylkingin, muni jafnvel leika aðalhlutverkið við næstu stjórnarmyndun, og téður Dagur þá jafnvel sitja á þingi fyrir flokkinn. Þess vegna vekur þögn formanns þessa flokks, Kristrúnar Frostadóttur, alveg sérstaka athygli, því að með þögn sinni um þetta hneykslismál er hún að leggja blessun sína yfir sukk og svínarí í umgengni við opinbert fé. Bankadrottningin þáði stórfé sem bónus frá bankanum, sem hún starfaði hjá, þótt óljóst sé fyrir hvað, og taldi þetta fram til skatts með þeim hætti, sem skattayfirvöld sættu sig ekki við. Fjárhagslegu siðgæði virðist svo ábótavant í forystu Samfylkingar, að flokkinum sé ekki treystandi fyrir horn.
Morgunblaðið gerði þessum borgarstjórablús allgóð skil. Forystugrein blaðsins 19. ágúst 2024 bar yfirskriftina:
"Viðskilnaður fyrrverandi borgarstjóra-Er sjálftakan ásættanleg að mati Samfylkingar ?"
"Þegar Morgunblaðið grennslaðist fyrir um, hvernig þessum málum væri háttað hjá helztu sveitarfélögum öðrum og hjá ríkinu, kom í ljós, eins og við var að búast, að orlofsuppgjör Dags. B. Eggertssonar er algert einsdæmi.
Uppgjörið við fyrrverandi borgarstjóra og raunar einnig aðstoðarmann hans vegna borgarstjóraskiptanna er sérkennilegt af fleiri ástæðum. Þegar samið var um nýtt meirihlutasamstarf, lá fyrir, hvenær þáverandi borgarstjóri myndi hætta. Það kom engum á óvart, og þess vegna hefði fyrrverandi borgarstjóri tæplega þurft á starfslokagreiðslum að halda vegna mismunar á launum borgarstjóra og launum formanns borgarráðs. Þá hefði hann einnig getað tekið orlofsdagana sína, hefði hann talið, að hann ætti þá 10 ár aftur í tímann.
Hið sama gildir um aðstoðarmann fyrrverandi borgarstjóra, Diljá Ragnarsdóttur, áður kosningastjóra Samfylkingarinnar. Diljá var ráðin sem aðstoðarmaður ári áður en Dagur átti að hætta, en safnaði á þeim tíma réttindum, sem við starfslok námu á 8. milljón ISK vegna biðlauna og ótekins orlofs. Með biðlaunum Dags eru greiðslur til borgarstjóra og aðstoðarmanns hans, sem aðeins hafði starfað í ár, hátt á 3. tug milljóna ISK vegna borgarstjóraskiptanna. Má það teljast með miklum ólíkindum."
Þessi frásögn varpar ljósi á það, hvernig Samfylkingin hleður gjörsamlega óverðskuldað skattfé almennings undir hlöðukálfa sína. Tekur framferðið út yfir allan þjófabálk, enda siðlaust og að margra mati löglaust. Fyrrverandi borgarstjóri átti engin biðlaun að fá, því að hann gekk beint í starf formanns borgarráðs. Ósvífnin og græðgin ríða hér ekki við einteyming, og það á líka við um hinn hlöðukálfinn í þessari sögu. Hún var ráðin til tilgreinds stutts tíma sem aðstoðarmaður borgarstjóra. Til hvers í ósköpunum, úr því að hann notaði þá ekki tækifærið til orlofstöku ? Umsamin biðlaun hennar og orlofsinnistæða til greiðslu eru úr öllu hófi fram ? Samfylkingarforkólfum er ekki treystandi fyrir horn, þegar kemur að opinberum fjármunum. Samfylkingin er rotinn stjórnmálaflokkur. Það hefur formaður flokksins staðfest með þögn sinni.
"Samfylkingin hlýtur að þurfa að greina frá því, hvort þessi viðskilnaður er ásættanlegur og þar með, hvort þetta er það, sem vænta má, nái flokkurinn stjórnartaumunum í landsstjórninni í næstu kosningum. Þetta er sérstaklega brýnt í ljósi þess, að skoðanakannanir mæla flokkinn nú stærstan, og líkur standa til, að formaður hans muni leitast eftir að leiða landssjórnina að kosningum loknum. Almenningur á rétt á að vita, hvaða vinnubrögð Samfylkingin telur ásættanleg."
Almenningur hefur þegar fengið svar við þessari áleitnu spurningu, því að með þögninni hefur formaður Samfylkingar gefið hlöðukálfum sínum til kynna, að flokkurinn agnúist ekki út í sjálftöku úr opinberum sjóðum, enda verði "allir skattstofnar nýttir til fulls".
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.9.2024 | 14:22
Sjálfstæðinu í loftslagsmálum fórnað 2009
Ekki þarf að rekja sorgarsögu vinstri stjórnarinnar 2009-2013, en hún vann mörg óþurftarverk, enda þurfti allt undan að láta hjá henni, svo að málið eina fengi framgang. Enginn fer í grafgötur um, að það var að þóknast stækkunarkommisarnum í Brüssel í einu og öllu. Þar með var látið af sjálfstæðri loftslagsstefnu í íslenzka stjórnarráðinu og fórnað sterkri samningsstöðu, sem fólst í einstaklega háu hlutfalli endurnýjanlegrar orku í heildarorkunotkun landsmanna, m.a. til húshitunar og til að knýja málmframleiðslu, sem yfirleitt notaði raforku úr kolaorkuverum. Þarna nýttu Íslendingar sér auðvitað sérstaka samkeppnishæfni landsins á sviði vatnsfalla og jarðgufu. Vinstri stjórnin gaf þetta allt upp á bátinn og hengdi Ísland aftan í loftslagsstefnu Evrópusambandsins, sem var algerlega óraunhæft og allt of dýrt, en þar við situr. Katrín Jakobsdóttir, sem var menntamálaráðherra í þessari vinstri stjórn og vann menntakerfinu mikið tjón, bætti um betur sem forsætisráðherra síðar og skuldbatt Íslendinga á alþjóðavettvangi með óraunsæjum og raunar óframkvæmanlegum markmiðasetningum um samdrátt losunar 2030 og nettó núlllosun 2040. Fíflagangurinn mun koma okkur í koll, ef svo heldur fram sem horfir. Tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins (og kannski fleiri) vilja taka í taumana, en þar verður á brattann að sækja.
Björn Lomborg skrifaði enn eina merka grein í Morgunblaðið 17. ágúst 2024 um loftslagstengd efni, og hét þessi:
"Mýtan um græn orkuskipti".
Hún hófst þannig:
"Þótt mörg og fögur orð sé að finna í lofræðum um græn orkuskipti úr jarðefnaeldsneyti, þá eru þau umskipti samt ekki að verða. Það reynist óviðráðanlega kostnaðarsamt að ná markverðri breytingu með núverandi stefnu. Við þurfum að gjörbreyta stefnunni."
Þetta er nú orðið augljóst mál, en stjórnmálamenn, sem reka þessa andvana fæddu stefnu, hafa stungið hausnum í sandinn og þar við situr, þótt slík hegðan þjóni ekki hagsmunum umbjóðenda þeirra, og þeir hafi ekki verið kosnir til að fara undan í flæmingi, þegar nýrrar stefnumörkunar er þörf. Þetta er þó því miður einkenni á stjórnmálum samtímans, einnig í ráðuneytum stórra og mikilvægra málaflokka.
"Á heimsvísu eyðum við nú þegar tæpum 2 billjónum bandaríkjadala árlega [ 1 billjón=1 trilljón(trn)=1 þúsund milljarðar] til að reyna að knýja fram orkuskipti. Undanfarinn áratug hefur notkun sólar- og vindorku aukizt í það mesta, sem hefur verið. En það hefur ekki dregið úr notkun jarðefnaeldsneytis. Á sama tíma höfum við bara aukið enn meira við brennslu jarðefnaeldsneytis."
Þessi sorglega niðurstaða stafar sumpart af því, að vegna óhjákvæmilegs slitrótts rekstrar sólar- og vindorkuvera þarf að brenna jarðefnaeldsneyti til að fylla í skarðið, en sumpart er ástæðan aukin orkueftirspurn. Á Íslandi er yfirleitt unnt að fylla í skarðið með vatnsafli.
"Ótal rannsóknir sýna, að þegar samfélög auka við endúrnýjanlega orku, kemur sú orka sjaldnast í stað kola, gass eða olíu. Heildarnotkunin eykst bara. Nýlegar rannsóknir sýna, að fyrir hverjar 6 einingar af nýrri grænni orku kemur minna en 1 eining í stað jarðefnaeldsneytis [< 17 %]. Greining í Bandaríkjunum sýnir, að niðurgreiðslur á endurnýjanlegum orkugjöfum leiða einfaldlega til þess, að meiri heildarorka er notuð. M.ö.o.: aðgerðir, sem ætlað er að efla græna orku leiða til meiri losunar."
Ekki er víst, að þetta síðasta sé alls kostar rétt, því að aukinni orkuþörf hefði ella verið fullnægt með enn meiri eldsneytisbrennslu. Hins vegar er ljóst af þessu, að niðurgreiðslur á sólar- og vindorku auka orkueftirspurn og eru óskilvirk leið og slæm ráðstöfun skattfjár í viðleitni til að draga úr losun koltvíildis. Á Íslandi koma slíkar niðurgreiðslur ekki til greina, enda mun notkun þessara orkugjafa hækka meðalraforkuverð í landinu og verða þar með verðbólguvaldandi.
"Mannkynið hefur [er haldið] óslökkvandi þorsta í orku á viðráðanlegu verði, sem er nauðsynlegt fyrir alla þætti nútímalífs. Á síðustu hálfri öld hefur orkan, sem við fáum úr olíu og kolum, tvöfaldazt, vatnsaflið hefur þrefaldazt og gasið fjórfaldazt, og við höfum upplifað sprengingu í notkun kjarnorku, sólar- og vindorku. Allur heimurinn, og einstaklingar að jafnaði, hefur aldrei haft meiri orku tiltæka.
Sú mikilfenglega áætlun, sem liggur til grundvallar grænum orkubreytingum nútímans, snýst að mestu leyti um að þrýsta á mikla niðurgreiðslu endurnýjanlegrar orku, sem alls staðar muni með töfrum láta jarðefnaeldsneyti hverfa. En nýleg rannsókn dró fram þá niðurstöðu, að tal um "umskipti" væri villandi. Vísindahópurinn komst að því, að viðbót nýrra orkugjafa hefði hvergi, án undantekninga, leitt til viðvarandi samdráttar í notkun þekktra orkugjafa."
Stjórnmálamenn og embættismenn þeirra hafa rétt einu sinni tekið algerlega rangan pól í hæðina í stórmáli. Þeir hafa litið fram hjá aðalforsendunni fyrir því, að "orkuumskipti" séu möguleg, en hún er sú, að tæknin sé raunverulega tilbúin til að leysa verkefnið. Þeir virðast hafa ímyndað sér, að slitróttir orkugjafar á borð við vind og sól gætu leyst jarðefnaeldsneytið af hólmi, en það er borin von. Þeim hefði verið nær að setja brot af því fé, sem þeir hafa sólundað í gagnslítil verkefni, í rannsóknir og þróun á umhverfisvænum, stöðugum og hagkvæmum orkugjöfum. Það hefur alltaf verið tækniþróunin, sem leyst hefur orkuskiptaviðfangsefnið þangað til nú, að pólitíkusar tóku til sinna ráða og hafa auðvitað keyrt allt í skrúfuna.
"Aðaldrifkrafturinn hefur alltaf verið sá, að nýja orkan er annaðhvort betri eða ódýrari [eða hvort tveggja - innsk. BJo].
Sól og vindur bregðast í báðum atriðum. Þau eru ekki betri, því [að] ólíkt jarðefnaeldsneyti, sem getur framleitt rafmagn, hvenær sem við þurfum á því að halda, geta þau aðeins framleitt orku í samræmi við duttlunga dagsbirtu og veðurs.
Þetta þýðir, að þau eru ekki heldur ódýrari. Í bezta falli eru þau aðeins ódýrari, þegar sólin skín eða vindurinn blæs á réttum hraða. Þess utan eru þau að mestu gagnslaus og óendanlega dýr.
Þegar við reiknum með kostnaði af aðeins 4 tíma geymslu, verða vind- og sólarorkulausnir ósamkeppnishæfar m.v. jarðefnaeldsneyti. Til þess að ná raunverulega sjálfbærum umskiptum yfir í sólar- eða vindorku mundi þurfa geymslurými af umfangi, sem gerir þessa kosti óviðráðanlega óhagkvæma."
Í vatnsorkulöndum, þar sem vatnsskortur er, eins og á Íslandi, eru þessi gölluðu orkuform dýrmætari en annars staðar, ef þau geta komið í veg fyrir orkuskerðingu. Hér geta m.ö.o. þessir aflgjafar keyrt á öllu því afli, sem vindur og sól leyfa, alltaf, því að vatnsfallsver eru auðstýranleg og þá er sparað vatn í miðlunarlónum með því að draga úr afli þeirra á móti, og fjöldi véla í rekstri miðaður við hámarksnýtni vél- og rafbúnaðar. Engu að síður munu þessir nýju orkugjafar hækka meðalkostnað í íslenzka raforkukerfinu meira en nýjar hefðbundnar íslenzkar virkjanir, og neikvæð umhverfisáhrif vindhverflanna og þeirra risastóru spaða eru ískyggileg og miklu meiri en hefðbundinna íslenzkra virkjana reiknað í framleiddri raforku (km2/GWh) yfir tæknilegan endingartíma.
"Á þessari braut munum við aldrei ná orkuskiptum frá jarðefnaeldsneyti. Það mundi krefjast miklu meiri niðurgreiðslu á sólar- og vindorku sem og rafhlöðum og vetni fyrir okkur öll [og fórna] að sætta okkur við óhagkvæmari tækni fyrir mikilvægar vörur eins og stál og áburð. Í ofanálag mundu raunveruleg umskipti einnig krefjast þess, að stjórnmálamenn legðu gríðarlega skatta á jarðefnaeldsneyti til að gera það síður eftirsóknarvert. McKinsey áætlar verðmiðann á raunverulegum breytingum yfir 5 trnUSD/ár.
Þessi eyðsla myndi hægja á hagvexti og gera raunkostnað fimmfalt hærri. Árlegur kostnaður fyrir fólk, sem býr í ríkum löndum, gæti farið yfir 13 kUSD/íb ár. Kjósendur mundu ekki samþykkja þann sársauka."
Það er svo gríðarlegur kostnaður, sem stjórnmálamenn eru að flækja almenning í með rangri stefnumörkun í loftslagsmálum, að sliga mundi hagkerfi landanna, sem þátt taka í vitleysunni, og valda þar óðaverðbólgu, sem brjóta mundi niður efnahagslega getu til stórverkefna og auka fátækt í heiminum. Andstæðingar neyzlu yrðu þá kátir, en skamma stund yrði sú hönd höggi fegin.
"Eina raunhæfa leiðin til að ná fram umskiptum er að stórbæta grænu orkutæknina. Þetta þýðir meiri fjárfestingu í rannsóknum og þróun á grænni orku. Nýsköpunar er þörf í vindi og sól, en einnig í geymslum, kjarnorku og mörgum öðrum mögulegum lausnum. Að ná kostnaði við aðra orku niður fyrir verð jarðefnaeldsneytis er eina leiðin til að hægt sé innleiða grænar lausnir á heimsvísu, ekki bara hjá yfirstétt fáeinna ríkra landa, sem hafa áhyggjur af loftslagsmálum."
Lomborg segir í raun og veru, að núverandi tæknistig megni ekki að leiða fram raunveruleg orkuskipti. Gerviorkuskiptum var þjófstartað samkvæmt reglu allmargra stjórnmálamanna um, að betra sé að veifa röngu tré en öngvu. Stjórnmálamenn veðjuðu á rangan hest með gríðarlegri sóun á opinberu fé sem afleiðingu og seinkun á raunverulegum umbótum. Hvenær mun yfirstéttin sjá að sér ? Þá verður hún að kyngja stórum fullyrðingum og heitstrengingum, en þá mun lýðum verða ljóst, að keisarinn er ekki í neinu. Almenn þjóðfélagsóánægja og -óþol er svo mikil í ríka heiminum um þessar mundir, að áfallaþol almennings er orðið lítið áður en upp úr sýður. Kannski koma einhverjir stjórnmálamenn með vit í kollinum fram á sjónarsviðið og ná að greiða úr þessari flækju. Þá er betra að hafa í huga, að kraftaverkin taka tíma.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.8.2024 | 18:27
Óttinn við loftslagsbreytingar að dvína ?
Loftslagstrúboðið hefur horn í síðu sjálfstæðs predikara heilbrigðrar skynsemi í þeim efnum, Danans Björns Lomborg, forseta Copenhagen Consensus og gestafyrirlesara við Hoover-stofnun Stanford háskóla í Bandaríkjunum. Morgunblaðið hefur verið iðið við að kynna lesendum sínum skrif þessa sjálfstæða fræðimanns, sem hefur gagnrýnt viðhorf vestrænna stjórnmálamanna og ýmissa sérfræðinga um það, hvernig barizt skuli við hlýnun jarðar, enda hefur sá skortur á kerfisbundinni aðferðarfræði, sem þar ríkir, valdið öngþveiti og árangursleysi. Björn Lomborg hefur bent á, að brýnna sé að verja fé í baráttu við hungur og sjúkdóma í þriðja heiminum.
Þann 29. júlí 2024 birtist enn ein ádeilugreinin á vestræn stjórnvöld undir tvíræðri fyrirsögn þýðandans:
"Þessi alheimska samstaða var aðeins tíbrá".
Hún hófst þannig:
"Frá 10. áratuginum hafa loftslagsbreytingar orðið þráhyggja stjórnmálamanna og yfirstétta ríkra landa. Hún fæddist og dafnaði í jarðvegi, þar sem heimurinn hafði rétt naumlega séð fyrir endann á Kalda stríðinu [sem eins og kunnugt er lauk með ósigri kommúnismans - innsk. BJo]. Í sögulegu ljósi var friðsælt, traust ríkti um allan heim, víðtækur hagvöxtur og örar framfarir gegn fátækt. Sérstaklega leið íbúum höfuðborga Evrópu, eins og stærstu vandamál plánetunnar væru leyst. Loftslagsbreytingar væru síðasta víglínan.
Þessir talsmenn loftslagsaðgerða hafa beitt sér af miklum ákafa og sannfæringu fyrir því, að við hættum að nota jarðefnaeldsneyti. Einmitt þann orkugjafa, sem hafði knúið áfram tveggja alda undraverðan vöxt. Vissulega myndi þetta kosta hundruð billjóna [trilljóna-1 trilljón=1000 milljarðar] dala, en það yrði alltaf meiri hagvöxtur.
Þvílík þröngsýn og barnaleg sýn á heiminn. Tíminn hefur leikið grátt þá heimskulegu hugmynd, að loftslagsbreytingar væru síðasta víglína mannkyns, sem eftir væri, eða að íbúar jarðar myndu sameinast um að leysa vandann. Geopólitískir árekstrar og viðskiptahagsmunir valda því, að hröð alþjóðleg umskipti frá jarðefnaeldsneyti eru óhugsandi."
Þetta er hinn bitri sannleikur, og þess vegna stendur hin opinbera loftslagsstefna Vestursins á brauðfótum. Orkuskipti á heimsvísu í anda loftslagspostula eru ómöguleg fyrr en tækniþróunin hefur fært manninum raunhæfan orkugjafa til að taka við kolum, olíu og gasi. Þjóðir á borð við Íslendinga, sem búa við mikið af s.k. endurnýjanlegum stöðugum orkulindum, s.s. vatnsföll og jarðgufu, og geta þannig framleitt næga raforku til að rafvæða eldsneytisferla og framleiða lífeldsneyti, sem leyst getur jarðefnaeldsneyti af hólmi, komast næst því að leysa þau verkefni, sem þarf til að uppfylla draumóra stjórnmálamanna. Vinstri stjórnin 2009-2013 kom hins vegar á fót slíku skrifræðisbákni í kringum leyfisveitingaferli virkjana, að stöðnun hefur orðið á sviði nýrra virkjana yfir 10 MW. S.k. Rammaáætlun er eitt af því, sem kasta þarf á haugana og hefur reynzt verri en gagnslaus. Afleiðingin af vitleysunni, sem viðgengst, er, að upp spretta vindorkuver, eins og gorkúlur á haugi, sem eru miklu dýrari og umhverfisverndarlega verri kostur en vel hannaðar vatnsafls- og jarðgufuvirkjanir, reiknað á einingu framleiddrar raforku.
"Leiðtogar frá Evrópu og Bandaríkjunum tala um "núllmarkmið", eins og það hafi alþjóðlegan stuðning. En fljótt var ljóst, að þessi alheimska samstaða var aðeins tíbrá. Fyrir það fyrsta er hinn óstöðugi möndull Rússlands, Írans og Norður-Kóreu ekkert á því að styðja viðleitni vestrænna ríkja við að draga úr loftslagsbreytingum. Reyndar, samkvæmt McKinsey, myndi núllmarkmiðið krefja Rússa um mrdUSD 273 til loftslagsaðgerða á hverju ári. U.þ.b. þrefalt það, sem þeir eyddu til hermála á síðasta ári. Það mun ekki gerast.
Geopólitískar hindranir rista enn dýpra. Vöxtur Kína hefur þarfnazt þess að brenna sífellt meira af kolum. Þaðan kemur yfirgnæfandi mesta magn gróðurhúsalofttegunda í heiminum auk þess að vera með mestu aukningu allra þjóða á síðasta ári. Endurnýjanleg orka var 40 % af orkuframleiðslu Kína árið 1971, en minnkaði niður í 7 % árið 2011 með stigvaxandi kolabrennslu. Síðan þá hefur endurnýjanleg orka aukizt aftur í 10 %. Öflugar loftslagsaðgerðir gætu kostað Kína næstum 1,0 trnUSD/ár [1000 mrdUSD/ár] og hamlað vegferð þess í átt að því að verða rík þjóð."
Evrópusambandið (ESB) hefur í hyggju að leggja innflutningstolla á vörur, sem framleiddar eru með stóru kolefnisspori, en gæti verið að skjóta sig í fótinn með svo sértækum aðgerðum. Tíminn einn vinnur þessa baráttu, þ.e. það verður að gefa tækninni hvata til að þróa lausnir. Vind-og sólarorka geta ekki varðað veginn að lokalausninni, en kjarnorkan getur það, en er ekki síður áhættusöm en aukinn koltvíildisstyrkur í andrúmslofti enn sem komið er. Þetta sýnir ótti Alþjóða kjarnorkumálastofnunarinnar um öryggi stærsta kjarnorkuvers Evrópu, sem rússneski herinn hertók og hefur nú hætt framleiðslu rafmagns í, en frá kjarnakljúfunum stafar enn mikil hætta, ef kælikerfi versins laskast eða byggingar þess verða fyrir eldflaug eða stórri sprengju.
"Á sama tíma, þrátt fyrir allt málskrúðið, eiga auðug lönd sífellt minna fé handbært fyrir loftslagsbaráttuna. Árlegur hagvöxtur á mann [á] meðal ríkra landa dróst saman úr 4 % á 7. áratuginum [20. aldar] í 2 % á 10. áratuginum. Núna erum við rétt yfir 1,0 %. Mörg þessara landa standa frammi fyrir þrýstingi á að eyða meira í varnarmál, heilbrigðisþjónustu og innviði á sama tíma og pólitískur þrýstingur og breyttar þjóðfélags- og aldurssamsetningar gera leiðir þeirra til stöðugleika og vaxtar mun óvissari.
Samt sem áður heldur fólk um alla Evrópu og Norður-Ameríku, sem fæddist í tiltölulega rólegum heimi 10. áratugarins, áfram í einstrengingslegum ákafa að þrýsta á afiðnvæðingu og samdrátt til að takast á við loftslagsbreytingar. Þ.á.m. í vaxandi hagkerfum heimsins. Öllum skal líða jafnilla."
Í ESB er staðnað hagkerfi, sumpart vegna evrunnar, sem hentar ekki öllum þjóðunum alltaf á evrusvæðinu. Vaxtastig evrubankans er jafnvel of hátt um þessar mundir fyrir þýzka hagkerfið, sem hefur glímt við miklar orkuverðshækkanir vegna kúgunartilburða Rússa. Loftslagsstefna ESB er að sama skapi að verða afar íþyngjandi fyrir hagkerfin þar og rýrir samkeppnishæfni þeirra á alþjóðamörkuðum. Hér innanlands hefur einmitt borið á innflutningi á þeim veruleikafirrtu kenningum róttækra græningja, sem Lomborg gerir að umræðuefni, þ.e. að alls ekki skuli virkja meira, en skapa svigrúm fyrir orkuskipti með því að loka iðjuverum landsins. Þessi stefna, t.d. Landverndar, ber feigðina í sér og er dauðadómur yfir góðum lífskjörum á Íslandi. Slíkar kenningar eru illa ígrundaðar, eiginlega bara kaffihúsasnakk, enda varða þær leiðina til fátæktaránauðar.
"Nú þegar eru kjósendur í Evrópu að snúa baki við stjórnmálamönnum, sem hafa talað fyrir minni hagvexti og hagsæld í nafni loftslagsbreytinga. 6-7 kosningalotur eru framundan fyrir miðja öld, og hörð loftslagsstefna, sem getur kostað hvern mann í ríka heiminum meira en 10 kUSD/ár [1,4 MISK/ár] er dauðadæmd. Þessar stefnur munu gera það líklegra, að kjósendur snúi sér að popúlískum [lýðskrums] þjóðernissinnuðum leiðtogum, sem munu alfarið hverfa frá rándýrum núllmarkmiðum. Þá verður loftslagsstefnan í molum."
Kostnaður við "núllstefnuna" er svo hár, að lífskjörin verða rekin aftur um 40 ár, ef henni verður haldið til streitu, og það er engin glóra í því að keyra lífskjörin á Vesturlöndum niður, á meðan aðalmengunarvaldarnir þeysa fram í lífskjarasókn. Allt sýnir þetta, hvað loftslagsstefna ESB, sem er sú stefna, sem rekin er blint hérlendis, er illa ígrunduð.
"Heimurinn þarf betri leið fram á við. Bezta lausnin er ekki sú að þrýsta á fólk til að hafa það verra með því að þvinga fram ótímabær umskipti úr jarðefnaeldsneyti yfir í ófullnægjandi græna valkosti. Þess í stað ættum við að auka fjárfestingar í grænni nýsköpun í því [augnamiði] að draga úr kostnaði við hreina orku, þar til [að] hún verði orðin hagkvæmari en jarðefnaeldsneyti. Þetta er miklu kostnaðarminna og mun hvetja alla, þ.á.m. Indland og önnur vaxandi hagkerfi, til að vilja breyta sínum orkugjöfum."
Þetta er hárrétt stefnumörkun af hálfu Lomborg að mati þessa skrifara og sú eina sjálfbæra, sem í augsýn er. Jarðefnaeldsneytisforðinn fer minnkandi, sem mun valda hækkandi verði, svo að ekki mun líða á löngu, þar til að vestræn tækni getur boðið upp á eitthvað skárra en kjarnorku úr afar geislavirkum úranísótópi, hráefnisfrekar sólarhlöður eða hrottalega landfrekar vindmyllur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.8.2024 | 17:05
Stríð í Austur-Evrópu
Grimmdarlegt árásarstríð rússneska sambandsríkisins á hendur sjálfstæðu ríki nágranna þeirra, Úkraínumanna, hefur sýnt heimsbyggðinni fram á ömurlegt eðli rússneskra ráðamanna. Eldflaugum hefur verið látið rigna yfir borgir Úkraínu og engu eirt, hvorki stærsta barnasjúkrahúsi landsins í Kænugarði né stíflu raforkuvers í suðurhluta landsins. Straumleysi hrjáir íbúa landsins á hverjum degi, og komandi vetur er verulegt áhyggjuefni. Kjarnorkuver í Zaphorizhzhia hefur verið í uppnámi, og hernámsliðið hefur stöðvað rekstur þess. Á vígvöllunum hefur allt gengið á afturfótunum hjá rússneska hernum, herskipulagið verið lélegt, miklu herliði fórnað fyrir litla landvinninga, og í átökum við úkraínska herinn hefur óhemju magn rússneskra vígtóla verið eyðilagt.
Vart er hægt að tala um úkraínskan flota, svo að sérstaka athygli hafa vakið ófarir rússneska Svartahafsflotans, en segja má, að hann hafi verið hrakinn frá Krímskaga og til hafna við Azovshaf. Nýjasta dæmið, þegar þetta er ritað, er um kafbátinn Rostov við Don, sem var nýkominn úr þurrkví í Sevastopol, þegar hann varð fyrir úkraínskri Neptúnus eldflaug og sökk.
Úkraínumenn hafa sýnt mikið baráttuþrek gegn ofureflinu, hugmyndaauðgi og herkænsku. Leiftursóknin inn í Kúrsk mun komast í sögubækurnar. T.d. hafa þeir orðið frumkvöðlar í notkun dróna bæði til könnunarferða og árásarferða. Er skemmst að minnast árásar á herflugvöll í Murmansk, um 1800 km leið frá víglínunni í Úkraínu, þar sem rússneskar sprengjuflugvélar, sem notaðar höfðu verið til árása á Úkraínu, voru eyðilagðar.
Vestrænir bandamenn Úkraínumanna hafa í orði stutt þá á þeim forsendum, að einræðisherra mætti ekki enn einu sinni takast að leggja undir sig nágranna sinn og þar með að breyta landamærum í Evrópu með hervaldi. Í verki hefur þessi stuðningur verið mun minni en efni standa til, og þeir hafa af ótrúlegri ragmennsku bannað notkun vopnanna á rússnesku landi, þrátt fyrir þá staðreynd, að Rússar ráðast bæði á hernaðarleg og borgaraleg skotmörk í Úkraínu frá rússnesku landi. Undantekning frá þessu eru þó Kúrsk, Belgorod og Bryansk-héruð. Ef þetta þetta bann væri ekki í gildi, og t.d. Þjóðverjar hefðu látið Úkraínumönnum í té hinar langdrægu Taurus flaugar, þá væri þessu stríði sennilega lokið núna, með því að aðdrættir Rússahers hefðu verið gerðir svo erfiðir, að þá hefði brostið örendið og hörfað yfir landamærin. Þá hefði og verið unnt að lama rússneska flugherinn í enn meira mæli en gert hefur verið.
Gríðarleg eyðilegging blasir við í Úkraínu, og ríkið rambar á barmi greiðslufalls.
Það hefur algerlega skort skelegga forystu að hálfu Vesturlanda í baráttunni við heimsvaldastefnu Rússa. Stjórn Bidens er hálfvolg, Trump er eins og handbendi Pútíns og ólígarka hans, og í forystu öflugasta ríkis Evrópu reyndist vera gúmmíkarl, þar sem er kratinn Olaf Scholz. Þjóðverjar hafa þó stutt hraustlega við bakið á Úkraínumönnum, og hafa nú látið á sér skilja, að þeir styðji Úkraínumenn til sigurs. Pólverjar eru að taka forystuna í bráttunni við rússneska hernaðarógn uppbyggingu eigin hers varðar, dyggilega studdir af Eystrasaltsríkjunum.
Það, sem nú er mikilvægast, er að mynda "stálhjálm" yfir Úkraínu, eins og er yfir Ísrael, með fjölgun loftvarnakerfa og með því að hrekja rússneska flugherinn nógu langt frá landamærunum, m.a. með F16 orrustuþotum, svo að loftvarnarkerfin hafi meira svigrúm til að skjóta árásarflaugar niður í tæka tíð.
Þann 24. júlí 2024 birtist merkileg forystugrein í Morgunblaðinu um þessi mál undir fyrirsögninni:
"Glataðir leiðtogar".
Hún hófst þannig:
"Í liðinni viku [viku 29/2024] komu 45 leiðtogar Evrópuríkja saman til að ræða vanda álfunnar. Þeir hittust í Blenheim-höll á Englandi, glæstu ættaróðali Winstons Churchills, sem var vel til fundið í ljósi ófriðar í Evrópu og þess, að víðar eru blikur á lofti.
Mönnum lærðist um síðir að taka mark á varnaðarorðum hans um alræðisöfl Evrópu og keyptu þann lærdóm dýru verði. En þeir lærðu og á þeim lærdómi Churchills um, að lýðræðisríki yrðu að standa saman gegn ágangi einræðisríkja [og þannig] var Atlantshafsbandalagið stofnað og í raun má segja, að hugmyndin um "Vesturlönd" sé á honum reist.
Úkraína á í langvinnu og hatrömmu stríði fyrir tilverurétti sínum, en fáum dylst, að lyktir þess verða afdrifaríkar fyrir Evrópu alla. Ekki er því aðeins verið að rétta grönnum hjálparhönd, heldur verja menn einnig eigin hagsmuni, frið og frelsi.
Samt er stuðningur Evrópuríkjanna naumur, en Bandaríkin hafa borið hitann og þungann af hernaðarstuðningi við Úkraínu. Í Evrópu tala nú aðeins Bretar og Pólverjar afdráttarlaust um stuðning við Úkraínu og standa við stóru orðin, svo [að] um muni."
Það er vel til fundið að minna á Sir Winston núna, þegar Evrópa horfir framan í blóðþyrstan forseta Sambandsríkisins Rússlands, sem er sambærileg ógn við lýðræðisríkin nú og ríkisleiðtogi Stór-Þýzkalands var á dögum Þriðja-ríkisins. Sá rak skefjalausa útþenslustefnu og hugðist skipta heiminum á milli Berlínar og Tókýó. Frá 2014 hefur forseti Rússlands sent rússneska hermenn til árása inn í Úkraínu og frá 24. febrúar 2022 rekið allsherjar stríð gegn Úkraínumönnum með það í hyggju að leggja land þeirra undir sig. Rússar reka útrýmingarstríð í Úkraínu og fremja þar hvern stríðsglæpinn öðrum verri. Pólverjar og þjóðir Eystrasaltsríkjanna vita mæta vel, að Rússar reka skefjalausa útþenslustefnu og hafa gert í 300 ár. Núverandi forseti Rússlands gefur ekki nokkurn skapaðan hlut fyrir sjálfsákvörðunarrétt ríkja og landamærin, sem sigurvegarar Seinni Heimsstyrjaldarinnar sömdu um í Evrópu. Hann hefur lýst vilja sínum til að endurreisa Ráðstjórnarríkin landfræðilega. Þetta brjálæði verður að stöðva, og fyrsta skrefið er að kenna Rússum þá lexíu, að landamærum í Evrópu verður ekki lengur breytt með hervaldi.
"Vestanhafs bendir margt til, að Donald Trump verði senn forseti á ný, en hann talar enga tæpitungu um, að Evrópuríkin verði sjálf að bera kostnaðinn af eigin vörnum. Hann segist líka geta bundið enda á Úkraínustríðið á fyrsta degi í embætti, sem þá myndi eflaust kosta Úkraínu mestallt hernámssvæði Rússa.
Það væri ömurlegt, ef Pútín auðnaðist þannig að semja sig til sigurs, réttlæta allar blóðsúthellingarnar, en auka um leið freistingu sína til frekari landvinninga."
Eins og nú horfa sakir (um miðjan ágúst 2024) er engan veginn víst, að monthananum og einangrunarsinnanum Trump takist að viðhalda forskoti, sem hann öðlaðist í skoðanakönnunum, á meðan hrumur Biden var enn í framboði. Framboð Kamölu Harris hefur lánazt vel fram að þessu og hún náð forskoti á landsvísu, sem jafnvel dugar til meirihluta kjörmanna fylkjanna. Vonir eru bundnar við, að Bandaríkjamenn bregðist ekki skyldum sínum gagnvart bandamönnum sínum í NATO og Úkraínumönnum, sem eðlilega dreymir um að tryggja öryggi sitt gegn uppivöðslusömum nágranna í austri með því að ganga í NATO.
Eftir þann stóratburð, sem innrás úkraínska hersins(ÚH) í Kúrsk 6. maí 2024 var, hafa orðið þær vendingar á meðal bandamanna, að Þýzkaland hefur tekið opinbera forystu í stuðninginum við Úkraínu, en Bandaríkin draga lappirnar. Þýzkaland hefur lýst því yfir, að samkvæmt alþjóðalögum hafi Úkraína fulla heimild til að ráðast inn í Rússland. Þar getur ÚH valdið rússneska hernum miklu tjóni og hefur þegar gert það. Skömm Rússa er mikil, því að varnarlínan á landamærunum reyndist engin fyrirstaða, og er fjármálaspilling rússneska hersins líkleg skýring. Pólitískur hnekkir blóðþyrsts einræðisherra í Kreml er mikill, þegar næstöflugasti er í Rússlandi reynist vera sá rússneski.
"Allt blasir það við Evrópuleiðtogunum. Samt var ekkert um það rætt, að Evrópuríkin yrðu öll að auka eigin varnarútgjöld hraustlega og bæta í ofanálag verulega við aðstoðina til Úkraínu. Og engum Evrópuleiðtoganna datt í hug, að rétt væri að eiga orð við Trump um lærdóma Churchills.
Því [að] ef Úkraína verður látin sigla sinn sjó vegna stefnubreytingar vestra og sinnuleysis og sérgæzku í Vestur-Evrópu, þá missir hið pólitíska hugtak "Vesturlönd" merkingu, og heimurinn verður mun hættulegri."
Rússar vöktu mikla reiði í Þýzkalandi 2022, þegar þeir reyndu að ýta Þjóðverjum ofan í holu myrkurs og kulda (orkuleysis). Nú gjalda Þjóðverjar gráan belg fyrir svartan með því að lýsa yfir stuðningi Þýzkalands við úkraínskan sigur, nokkuð, sem Bandaríkin hafa ekki gert enn þá. Mun Kamala Harris taka af skarið ?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.8.2024 | 17:52
Koltvíildi er auðlind, ekki úrgangur
Nú er í undirbúningi hjá fyrirtækinu Carbfix, sem er eitt dótturfélaga Orkuveitu Reykjavíkur, OR, heldur betur að færa út kvíarnar frá því að vinna CO2 úr losunargufum Hellisheiðarvirkjunar, blanda þær vatni og dæla niður í bergið á Hellisheiði, yfir í að starfrækja nýtt fyrirtæki, CODA-terminal í Straumsvík, sem ætlað er að flytja inn milljónir tonna af CO2 frá iðjuverum í Evrópu og taka við CO2 frá innlendum fyrirtækjum gegn gjaldi, blanda þessu við gríðarlegt magn vatns, líklega úr Kaldánni, sem rennur þarna til sjávar á um 25 m dýpi undir hrauni, og dæla vökvanum niður í jarðlögin við Straumsvík í von um, að vökvinn krystallist þar. Þessi viðskiptahugmynd er líklega andvana fædd.
Hér á þessu vefsetri hefur verið efazt um þessa viðskiptahugmynd vegna þess, að hún er í samkeppni við nýtingu á CO2 á meginlandi Evrópu og hérlendis í framtíðinni. Hætt er við, að þetta ævintýri verði þungur fjárhagsbaggi á OR, og við hefur bætzt megn óánægja Hafnfirðinga, einkum íbúa á Völlunum, með þessar fyrirhuguðu framkvæmdir og mögulega fjárbindingu Hafnarfjarðarbæjar í gagnsleysi.
Nú er Straumsvík og ströndin úti fyrir ISAL lóðinni hrein og náttúruleg, en er hættandi á að fá aðskotaefni með unnu koltvíildi út í sjóinn ?
Þann 17. júlí 2024 birtist Sjónarhólsgrein í Morgunblaðinu eftir hagfræðinginn Þórð Gunnarsson, sem beinlínis bendir á rísandi stórmarkað fyrir koltvíildið. CODA terminal getur varla keppt við þann iðnað, sem þörf hefur fyrir CO2. Fyrirsögn greinarinnar var:
"Auðlind eða úrgangur".
"Hækkandi koltvísýringsmagn hefur haft áhrif á hitastig jarðar og hefur alltaf gert (á síðast liðnum 100 árum hefur hlutfall koltvísýrings í lofthjúpi jarðar hækkað úr 0,03 % í 0,04 %). Stórbýlið Brattahlíð á Suður-Grænlandi hefði ekki risið fyrir tilstilli Eiríks, rauða, nema því að þá var jökullinn nokkrum km innar í firðinum en hann er í dag - og veðurfar talsvert mildara. Enda var þá loftslag jarðar miklu hlýrra en það er [núna], og var það hundruðum milljóna ára þar á undan [en téð hlýskeið stafaði einmitt ekki af hærri styrk koltvíildis í andrúmslofti en nú er. Það eru deilur um, hversu mikilli hlýnun CO2 veldur.]
Boranir í Grænlandsjökul sýna, að hlýskeið landnámsaldar var af öðrum orsökum en háum CO2 styrk. CO2-kenningin er ofeinföldun á núverandi hlýnun.
"Sú siðmenning og lífsgæði, sem heimsbyggðin er orðin vön og krefst, byggist öðru fremur á orkunotkun. Í hinu hnattræna samhengi hefur sú orkunotkun fyrst og fremst verið byggð á notkun jarðefnaeldsneytis allt frá dögum iðnbyltingarinnar. Vart er raunhæft, að látið verði af notkun kolefniseldsneytis á næstu áratugum.
Stefnumótun stjórnvalda í hinum vestræna heimi hefur öðrum þræði snúið að lágmörkun á óhindraðri losun koltvísýrings út í andrúmsloftið. Tækni við föngun koltvísýrings hefur tekið hröðum framförum á undanförnum árum. Því er vert að spyrja í nafni hringrásarhagkerfisins - hvað gerum við við allar þessar koltvísýringssameindir ? Er um að ræða úrgang eða auðlind ?"
Það er líklega ofmælt, að aðferðarfræðin og búnaðurinn til að draga CO2 úr t.d. kerreyk álvera hafi þróazt hratt á undanförnum árum, því að kostnaðurinn er gríðarlegur. Kostnaður við að fjarlægja CO2 úr kerreyk nemur um þessar mundir um 500 USD/t með búnaði til þess með aðeins 1000 t/ár CO2 afkastagetu. M.v. núverandi losunargjald á CO2 er mun ódýrara að losa út í andrúmsloftið en að rembast við að dæla því niður í jörðina sem úrgangi.
Allt annað er uppi á teninginum, ef þetta unna koltvíildi er meðhöndlað sem auðlind, sem unnt er að skapa verðmæti úr. CO2 er auðvitað notað í gróðurhúsum til að örva vöxt, en ekki er víst að kerreykstvíildi sé nægilega hreint til þess. Það er hins vegar væntanlega ekkert því til fyrirstöðu að fara inn í framleiðsluferli eldsneytis fyrir skip og flugvélar.
"Kröfur eru uppi um aukið hlutfall svo kallaðs sjálfbærs eldsneytis (SAF) í rekstri skipa- og einkum flugsamgangna. Evrópusambandið hefur ákveðið að stefna að 65 % hlutfalli sjálfbærs flugvélaeldsneytis árið 2025.
Óháð umræðu um gullhúðun Evrópureglugerða hér á landi munu mörg evrópsk flugfélög, sem halda úti áætlunarflugi hingað til lands, gera kröfu um aðgengi að téðu eldsneyti hér á landi.
Að óbreyttu mun Ísland því þurfa að flytja það inn, en sökum hás orkuverðs og þar af leiðandi hás framleiðslukostnaðar er SAF töluvert dýrari en steinolían, sem í dag er nýtt á flestar gerðir þotna. Framleiðsluferill SAF krefst bæði mikils magns koltvísýrings sem og orku, en í sem stytztu máli snýst það um að vetnismetta lífrænar olíur á borð við repjuolíu eða notaða djúpsteikingarolíu, og breyta þeim þannig í kolefnisvökva, sem nothæfur er til eldsneytisframleiðslu.
Nokkuð fellur til af koltvísýringi hér á landi við rekstur jarðhitavirkjana, en ekki í nægu magni, svo að byggja megi upp iðnað í kringum framleiðslu eldsneytis. Því mun Ísland þurfa að flytja inn koltvísýring í miklu magni, ef ákveðið verður að ráðast í eldsneytisframleiðslu hér á landi."
Hér er um ótrúlega metnaðarfulla markmiðssetningu ESB að ræða, sem kemur sér illa fyrir Íslendinga, sem eiga enga raforku til nýsköpunar af þessu tagi vegna óskiljanlegrar þvermóðsku afturhaldsins í landinu. Það væri þó alveg kjörið að framleiða sjálfbært eldsneyti á Íslandi vegna gnóttar endurnýjanlegra orkulinda.
Það er villandi að halda því fram, að koltvíildi falli til í jarðhitavirkjunum, því að það þarf að vinna úr gufunum, sem losna úr læðingi í þessum jarðgufuvirkjunum, og það er dýrt og orkukræft. Höfundurinn nefnir ekki CO2-losun þungaiðnaðarins hérlendis, en hann nemur yfir 2,0 Mt/ár. Þessi iðnaður gæti látið CO2 í té á verði, sem jafngildir kostnaðinum, því að í staðinn losnar hann við að kaupa losunarheimildir, sem búið er að skylda hann til. Nú er spurningin, hvort eldsneytisiðnaður á Íslandi yrði samkeppnishæfur með koltvíildi í framleiðsluferlinu, sem kostar um 500 USD/t ?
"Ísland hefur mikla hagsmuni af því að framleiða sitt eigið eldsneyti fremur en að flytja það inn. Í eðlilegu árferði flytur Ísland inn þotueldsneyti fyrir tugi mrdISK/ár. Ef fram heldur sem horfir, verður þessi dýri innflutningur enn þá dýrari á næstu árum og áratugum. Því er til mikils að vinna að koma upp framleiðslu á flugvéla- og skipaeldsneyti hér á landi með framleiðsluaðferðum, sem eru vel þekktar og þrautreyndar.
Ísland ætti að geta náð samkeppnisforskoti við framleiðslu eldsneytis til stórflutninga, ef orkumálum verður hagað með skynsamlegri hætti en verið hefur á undanförnum árum. Það eina, sem vantar hér á landi er meiri koltvísýringur - efnasamband, sem er hreinlega auðlind, ef ætlunin er að framleiða eldsneyti með öðru en vinnslu á nýrri hráolíu."
Annað hráefni inn í þessa framleiðslurás er vetni. Þess vegna þarf vetnisverksmiðju, og hún notar talsvert rafmagn. Iðnaðarráðherra, sem jafnframt er ráðherra nýsköpunar, ætti að láta setja saman framkvæmdaáætlun um þetta verkefni, sem þá verður hægt að kynna fyrir fjárfestum og notendunum, aðallega flugfélögum og skipafélögum. Orkuráðherrann, sem vanalega sefur sitjandi, ætti nú að hrista af sér slenið og láta gera áætlun um virkjanir, aðveitustöðvar og flutningslínur fyrir þetta verkefni, og síðan yrði sett sérlöggjöf um heildarmálið, enda er hér málefni, sem varðar atvinnulíf og efnahagslíf landsins miklu. Ríkissjóður mundi ekki standa í neinum fjárhagsskuldbindingum út af þessari atvinnustarfsemi, enda hefur hann meira en nóg á sinni könnu með sinn hallarekstur og skuldasöfnun.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
28.7.2024 | 14:47
Misráðin loftslagsstefna
Forsendur ESB/EES í losunarmálum CO2, nema þá helzt Noregs, og Íslands eru svo ólíkar, að það var vanhugsað að hengja landið aftan í losunarvagn ESB/EES með sömu hlutfallslegu losunarmarkmið. Þetta sést greinilega, þegar hlutfall jarðefnaeldsneytis í heildarorkunotkun Íslands og Evrópusambandsins er borið saman. Á Íslandi er það um 15 %, en í ESB yfir 80 %. Hér hefur stjórnmálamönnum hérlendum og embættismönnum þeirra enn einu sinni orðið á í messunni að átta sig ekki á, að eftir því, sem losunin er minni, verður dýrara og erfiðara á hvert tonn að draga úr henni. Ráðamenn sjá ekki að sér, heldur þvert á móti. Þeir halda lengra út á foraðið.
Það er mjög ánægjulegt að sjá, að a.m.k. einn Alþingismaður hefur nú komið auga á þetta og tjáð sig með róttækum hætti um málið. Það er Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í NV, sem reit pistil um málið 20. júlí 2024 í Morgunblaðið, og hafi hann þökk fyrir, undir fyrirsögninni:
"Jarðtengja þarf loftslagsstefnu Íslands".
Hann hófst þannig:
"Íslenzk stjórnvöld hafa sett sér metnaðarfulla stefnu í loftslagsmálum. Stefnan er reyndar sú að fylgja ESB í tölulegum markmiðum um minnkun losunar kolefna í samræmi við Parísarsamkomulagið frá 2015 og gott betur. Markmiðið er, að árið 2030 verði losun 55 % minni en árið 2005 og árið 2040 verði Ísland kolefnishlutlaust, 10 árum á undan ESB.
Ísland hefur á síðustu áratugum náð verulegum árangri í orku- og loftslagsmálum með rafvæðingu og uppbyggingu hitaveitukerfa. Hlutfall grænnar orku á Íslandi er mjög hátt eða um 85 %. Þessi 15 %, sem út af standa, er innflutt olía, sem er aðallega sett á ýmis farartæki. Til samanburðar er hlutfall grænnar orku í löndum ESB að meðaltali undir 20 %."
Þessi gríðarlegi munur á hlutfallslegri jarðefnaeldsneytisnotkun Íslendinga og íbúa ESB veldur því, að það er lítið vit í því fyrir Íslendinga að undirgangast sömu hlutfallslegu markmið og gert er í ESB. Íslenzkir embættismenn og stjórnmálamenn sinntu þessu ekkert, heldur hikuðu ekki við að leggja á herðar landsmönnum erfiðari og þungbærari skuldbindingar en aðrir tóku á sig. Katrín Jakobsdóttir og umhverfisráðherra VG bitu síðan höfuðið af skömminni með því að lofa kolefnishlutleysi hér áratugi á undan ESB. Fyrir stjórnmálamenn af þessu tagi er hégómaskapur, sýndarmennska og hanastélsboð aðalatriðið, en kostnaður og heilbrigð skynsemi eru aukaatriði. Stjórnsýsla vinstri hreyfingarinnar græns framboðs er skussa stjórnsýsla, sem hefur orðið og mun verða landsmönnum dýr, enda er ekki heil brú í stefnu flokksins.
"Parísarsamkomulagið kveður á um, að aðildarríki skulu hafa markmið um að minnka losun og veita upplýsingar þar að lútandi. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur ákvað þegar árið 2009 að hætta að halda til haga sérstöðu landsins, og ríkisstjórn Sigmundar Gunnlaugssonar gaf frá sér sjálfstæði í málaflokkinum til að fylgja ESB að málum árið 2015.
Réttast er að vinda ofan af þessum ákvörðunum og taka upp loftslagsstefnu í samræmi við Parísarsamkomulagið, sem sett er á réttum forsendum og byggð er á sérstöðu Íslands og íslenzkum hagsmunum. Stefnan verður að hvíla á raunhæfum grunni, þ.e. efnahagslegum, samfélagslegum og tæknilegum forsendum, sem samstaða ríkir um."
Fyrsta hreina vinstri stjórnin, en svo er téð ríkisstjórn Jóhönnu, 2009-2013, stundum nefnd, var ógæfustjórn. Menntamálaráðherrann, Katrín, eyðilagði aðalnámskrána, lagði af samræmd próf, gerði skóla án aðgreiningar að reglu og lagði grunn að hnignun grunnskólans, sem öllum má nú ljós vera. Þar sem áður var stoltur grunnskóli, sem útskrifaði nemendur með staðgóðan þekkingargrunn fyrir lífið, er nú eitthvað, sem enginn veit, hvað er, enda hulið í sósíalískum moðreyk. Tilraunastarfsemi af þessum toga með fjöregg æskunnar er algerlega ábyrgðarlaus.
Þegar þessi vinstri stjórn leitaði inngöngu fyrir Ísland í ESB, hefur auðvitað verið "tabú" að halda á lofti sérstöðu og hagsmunum Íslands. Þetta metnaðarleysi er til skammar.
"Sem dæmi þá þarf tafarlaust að virkja meiri græna orku hér á landi, til að markmið um orkuskipti í samgöngum náist. Ef ekki næst samstaða um að virkja meira, verður að endurskoða markmið um orkuskipti til samræmis við þann veruleika.
Að sama skapi verður þátttaka Íslands í alþjóðastarfi á sviði loftslagsmála að byggjast á sameiginlegum forsendum og hagsmunum. Eins og sakir standa, er Ísland í slíkum afreksflokki, að ESB er varla réttur samstarfsaðili."
Þarna kveður við nýjan tón í orku- og loftslagsmálum. Aldrei heyrist neitt frumlegt í þessum anda frá ráðherranum, sem með þessi mál fer, enda ríkir þar alger kyrrstaða. Vonandi er, að fyrir næstu Alþingiskosningar myndi Sjálfstæðisflokkurinn stefnu fyrir næsta kjörtímabil og lengur í þessum anda. Það er óboðlegt að hjakka svona í sama farinu og fljóta sofandi að feigðarósi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.7.2024 | 16:26
Vegakerfi í molum
Vegagerðin stendur frammi fyrir gríðarlegri endurbóta- og viðhaldsþörf á megninu af þjóðvegum landsins. Ástæðurnar eru 2: Umferðin, sérstaklega þungaumferðin, er meiri en vegirnir þola, og þeir eru of þröngir. Hvort tveggja gerir vegakerfið hættulegra en ásættanlegt er, og þess vegna þarf þjóðarátak til að endurbæta vegakerfi landsins. Á sama tíma er ekki hægt að ráðast í gagnslaust gæluverkefni Samfylkingar og pírata í Reykjavík, sem kallað er Borgarlína og er í raun stalínísk byltingartilraun samgönguhátta á höfuðborgarsvæðinu frá einkabílnum til almenningsvagna, sem ætlunin er að staðsetja á sérakreinum miðlægt á núverandi vegstæði. Engin spurn er eftir þessari rándýru þvingunartilraun á meðal í íbúa höfuðborgarsvæðisins, og hæpið er að halda því fram, að stjórnmálaflokkar í meirihluta sveitarstjórna hafi í sveitarstjórnarkosningum fengið umboð kjósenda til að standa að þessari hönnun og framkvæmdum. Þetta er nægilega stórt (dýrt) og afdrifaríkt mál til að réttlætanlegt sé að fara út í íbúakosningu um málið í hverju sveitarfélaganna. Verður þá að ganga tryggilega frá því, hversu mikil þátttakan þarf að vera, til að niðurstaðan verði bindandi fyrir stjórnmálamennina. Kjósa mætti um 3 kosti:
a) miðjusettar sérreinar, ein í hvora átt
b) hliðsettar sérreinar til hægri
c) hvorugur ofangreindra kosta
Þann 2. júlí 2024 birtist fróðleg grein í Morgunblaðinu um þessi mál eftir Bjarka Jóhannesson, skipulagsfræðing, verkfræðing og arkitekt:
"Þjóðvegir eða borgarlína".
Hún hófst þannig:
"Banaslys á þjóðvegum landsins eru of mörg, og nýverið voru á þeim 2 alvarleg rútuslys. Framkvæmdastjóri Vörumiðlunar, sem rekur flutningabíla á Sauðárkróki, segir í viðtali við Morgunblaðið 22. júní [2024], að "ástand þjóðveganna sé mjög slæmt. Undirlag fjölförnustu leiða sé mjög veikt, og í sumum tilvikum sé aðeins mulningur ofan á moldinni. Hringvegurinn sé ónýtur að stórum hluta, alveg frá Hvalfjarðargöngum. Vegir séu að gefa sig undan þunga, og grjótkast sé víða vandamál."
Orsök lélegs vegundirlags liggur í því, að að klæðning er notuð sem bundið slitlag á 90 % af íslenzkum þjóðvegum í stað malbiks. Klæðningin er malarslitlag með olíublönduðu asfalti. Umferðin er látin þjappa niður lausamölina með tilheyrandi steinkasti."
Undirlag mikils hluta veganna er of veikt m.v. við núverandi og framtíðar umferðarálag, þar sem tekið er tillit til fjölda öxla og öxulþunga, en álagið fylgir öxulþunga í 4. veldi. Þess vegna munar um alla þungaflutninga, sem fara sjóleiðina, til að létta á þjóðvegunum. M.v. útlit veganna er líklegt, að álagið á þá sé víða komið yfir hönnunarmörk, og breiddin er víða undir mörkum, sem Evrópustaðlar gefa.
"Þrátt fyrir þetta er í tillögu að samgönguáætlun 2024-2040 gert ráð fyrir kostnaði ríkisins við svo nefnda borgarlínu upp á mrdISK 80 á næstu 10 árum. Með upp gefnum óvissustuðli allt að 70 % fer upphæðin í tæpa mrdISK 130.
Ég hef áður skrifað, að hér er verið að kasta peningum út um gluggann, og sýndar hafa verið mun ódýrari lausnir á umferðarvanda höfuðborgarsvæðisins. Þá á eftir að telja þann kostnað, sem fellur á sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins, m.a. við undirbúningsvinnu á hæpnum forsendum og fjáraustur í skrautsamkeppnir um byggð við borgarlínuna."
Það er hægt að taka fyllilega undir þessa hörðu gagnrýni höfundarins, að með opinberum fjáraustri til Borgarlínu er verið að kasta fé út um gluggann, því að engin spurn er eftir verkefninu frá öðrum en stjórnmálamönnum forsjárhyggjunnar undir bumbuslætti Samfylkingarinnar, sem hefur lengi borið þetta gæluverkefni fyrir brjósti. Gallinn er hins vegar sá, að það leysir ekki umferðarvandann, heldur magnar hann. Þetta er algerlega óábyrg forgangsröðun fjármuna, sem Kristrún Frostadóttir virðist leggja blessun sína yfir.
"Þau rök, sem færð hafa verið fyrir borgarlínunni, eru, að hún muni draga úr notkun einkabílsins og þar með hafa jákvæð umhverfisáhrif. Hvort tveggja er mjög hæpið. Þar sem allir armar borgarlínu liggja að miðborginni, er líklegt, að notkun hennar miðist að langmestu við ferðir þangað til og frá vinnu og skóla kringum kl. 9 og 16."
Með núverandi vali á legu Borgarlínunnar er líklegt, að hana dagi uppi sem eins konar steintröll, því að svo getur farið, að ferðum í og úr vinnu í miðborginni muni fækka í framtíðinni vegna þróunar á vinnumarkaði.
"Forsvarsmenn borgarlínu gera ráð fyrir, að 12 % samgangna á höfuðborgarsvæðinu fari um borgarlínuna. Það er ofmetið, og með mikilli bjartsýni má kannski hugsa sér, að 12 % ferða til og frá sjálfri miðborginni yrði með borgarlínunni og heildarhlutur allra ferða á höfuðborgarsvæðinu í mesta lagi um 2 %."
Höfundur þessa vefseturs telur líklegra, að heildarhlutur borgarlínu í ferðum höfuðborgarsvæðisins verði nær 2 % en 12 % m.v. ferðahegðun Íslendinga og íbúa í sambærilegum borgum erlendis, ef farið verður í nokkrar framkvæmdir til að liðka fyrir almennri bílaumferð, sem líklegt er, að ákall verði senn um frá íbúunum. Þá liggur í augum uppi, að fjárfestingar fyrir borgarlínu Samfylkingarinnar eru fásinna og elgerlega út úr korti á tímum æpandi fjárþurrðar til framkvæmda og viðhalds stofnvega landsins, þar sem s.k. "innviðaskuld" gæti numið allt að mrdISK 300.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.7.2024 | 10:08
Fleiri leiðir í boði en leið kollsteypu
Sjálfshól og drýldni Samfylkingarforystunnar er við brugðið. "Vér einir vitum" skín stundum úr þeim ranni, og það á við um skipulagsmál höfuðborgarinnar, sem búið er að keyra í algerar ógöngur, landsmönnum öllum til mikils kostnaðarauka. Þetta á ekki sízt við um umferðarmálin, en það eru til leiðir út úr þeim ógöngum, sem fela í sér raunverulegar lausnir á vandamálinu, sem meirihluti borgarstjórnar er búinn að keyra í harðan hnút. Tvímenningarnir Þórarinn Hjaltason og Þorkell Sigurlaugsson gerðu grein fyrir hugmyndum frá samtökunum "Samgöngur fyrir alla" í Morgunblaðinu 29. júní 2024 undir fyrirsögninni:
"Tillögur um bráðaaðgerðir í samgöngumálum":
"Hér á eftir eru 11 tillögur, sem áætlað er, að kosti alls um mrdISK 115 í framkvæmd, sem er umtalsvert lægri upphæð en þær, sem blasa við okkur samkvæmt fyrirhuguðum framkvæmdum. Miklubrautargöng og Sundagöng/braut ekki með talin, sem geta jafnvel orðið að mestu sjálfbær verkefni með hóflegri gjaldtöku."
"1. Taka í notkun nýtt leiðakerfi strætó, byggt að mestu á fyrirliggjandi drögum. Kostnaðaráætlun um mrdISK 35."
Hér er miðað við vagna á hliðsettum akreinum hægra megin við bifreiðaumferðina. Miklu ódýrara og truflar ekki bílaumferð að ráði, hvorki á framkvæmdatíma né rekstrartíma veganna, eins og stórborgardraumórar Samfylkingarinnar um s.k. Borgarlínu.
"2. Einföld mislæg gatnamót sem vegbrú yfir Reykjanesbraut við Bústaðaveg. Kostnaðaráætlun um mrdISK 3."
Þessi framkvæmd hefur dregizt úr hömlu í boði Samfylkingar og mun skapa viðunandi tengingu Bústaðavegar, þar sem íbúum hefur fjölgað talsvert, við stóra umferðaræð.
"3. Auka flutningsgetu Hafnarfjarðarvegar og Kringlumýrarbrautar. Kostnaðaráætlun um mrdISK 10." Þarna hafa í 20 ár mundazt sístækkandi biðraðir á umferðartímum. Að Samfylkingin skuli ekki hafa séð sóma sinn í að koma með frambærilega lausn á þessu umferðarviðfangsefni, heldur þvert á móti gert sér leik að því að auka umferðartafirnar með ljósastýrðri gangbraut við Hamrahlíð, sýnir, að þar á bæ er eigin sérvizka og falskar kennisetningar (það þýðir ekkert að fjölga akreinum, því að þær fyllast strax af bílum) settar ofar almannahagsmunum.
"4. Fjórar akreinar Kringlumýrarbrautar settar í göng undir Miklubraut. Kostnaðaráætlun um mrdISK 4."
Með þessari lausn verður beygjuumferð til austurs og vesturs af Kringlumýrarbraut fyrir miklum töfum af umferðarljósum. Hægri beygju mætti hafa án ljósa með beygjureinum.
"5. Reykjanesbraut verði breikkuð í 6 akreinar frá Breiðholtsbraut að Álftanesvegi. Kostnaðaráætlun um mrdISK 9."
Þessi aukning afkastagetu á fjölförnum vegarkafla mun fara langt með að eyða biðraðatöfum þar um hríð.
"6. Sæbraut við Skeiðarvog-Kleppsmýrarveg. Kostnaðaráætlun um mrdISK 4. Fjórar akreinar Sæbrautar verða teknar í tiltölulega ódýr og einföld undirgöng undir Skeiðarvog-Kleppsmýrarbraut með svipuðum hætti og Kringlumýrarbraut undir Miklubraut."
Þarna framkvæmdu umferðaryfirvöld borgarinnar glapræði 2023 með því að afnema aðrar beygjureinina til vinstri inn á Sæbraut af Kleppsmýrarbraut. Þarna er þung umferð stórra flutningatækja og að gera þetta í nafni öryggis er yfirvarp eitt. Afnámið veldur miklum umferðartöfum, og það eru ær og kýr meirihluta Samfylkingar og meðreiðarsveina í borginni. Þetta sýnir vel fúsk og sérvizku, sem er einkennandi fyrir Samfylkinguna. Það er engin ástæða til að halda, að vinnubrögðin yrðu skárri í Stjórnarráðinu.
"7. Arnarnesvegur og mislæg gatnamót við Breiðholtsbraut. Kostnaðaráætlun um mrdISK 8."
Þetta verk er í gangi, en án mislægra gatnamóta, en Samfylkingin má ekki heyra minnzt á þá lausn, sem þó er til að bæta umferðarflæði og auka öryggi. Það er algert ábyrgðarleysi að láta pólitíska fordild trompa velferð og öryggi almennings. Þótt Kristrún Frostadóttir þykist hafa breytt Samfylkingunni í orði, hefur hún ekkert breytzt á borði.
"8. Tvöföldun Suðurlandsvegar sunnan og austan við Bæjarháls í samræmi við samgöngusáttmála. Kostnaðaráætlun um mrdISK 2."
Þetta er bráðnauðsynleg framkvæmd til að tengja höfuðborgarsvæðið Suðurlandi með sómasamlegum hætti. Þarna er allt of þröngt nú og þar af leiðandi óþarflega hættulegt og tafsamt.
"9. Fossvogsbrú (fyrir strætó, gangandi og hjólandi) í samræmi við samgöngusáttmála. Kostnaðaráætlun um mrdISK 10, og er þá miðað við núverandi hönnun."
Það er furðulegt af ríkisvaldinu að samþykkja þá fordild og útilokunarstefnu Samfylkingar að útiloka almennar bifreiðar, þ.m.t. einkabílinn, frá Fossvogsbrú. Snúa þyrfti ofan af þeirri vitleysu um leið og verkfræðingum væri falið að hanna nýja brú, þar sem tekið er tillit til lágmörkunar líftímakostnaðar, en að sleppa sérvizkulegum útlitskröfum Samfylkingarfólksins í borgarstjórn, sem kosta skattborgarana talsvert fé. Ekki verður logið á Samfylkinga, þegar kemur að meðferð opinbers fjár.
"10. Hafnarfjarðarvegur í stokk í Garðabæ í samræmi við samgöngusáttmála. Kostnaðaráætlun im mrdISK 10."
Þetta er í samræmi við vilja bæjaryfirvalda í Garðabæ og skipulag þar á bæ, enda er þar með leyst úr flæðisvanda innan bæjar og hættu á mótum Vifilsstaðavegar og gatnamóta þar sunnan og norðan við. Bráðabirgða lausnin við Vífilsstaðaveg bætti mjög úr skák.
"11. Reykjanesbraut [á] milli Lækjargötu og Álftanesvegar í Hafnarfirði í jarðgöng undir Setberg. Kostnaðaráætlun um mrdISK 20."
Þetta leysir umferðarvandann á hringtorgi Lækjargötu/Reykjanesbrautar/Setbergs og á gatnamótum í Kaplakrika og væntanlega einnig í láginni við Hafnarfjarðarveg.
Þeir félagar klykkja út með eftirfarandi, sem hægt er að taka undir um leið og þeim er þakkað mikilsvert framlag til málaflokks, sem Samfylkingin hefur notað krafta sína til að valda miklu tjóni á.
"Góðar samgöngur fyrir alla ferðamáta gera gera höfuðborgarsvæðið áfram samkeppnishæft og sveigjanlegt fyrir fólk, fyrirtæki og farartæki af öllum gerðum og fótgangandi."
Þetta mundi vera stefna heilbrigðrar skynsemi í samgöngumálum höfuðborgarsvæðisins, en henni er alls ekki að heilsa, því að stærsta sveitarfélagið, Reykjavík, býr við útúrborulegan hugsunarhátt meirihluta borgarstjórnar, sem er að úthýsa einkabílnum og reisa sjálfum sér bautastein, sem væri í raun algert skemmdarverk á samgöngumálum landsmanna, enda í boði amatöra og sérvitringa, sem fá að móta stefnu Samfylkingarinnar á þessu sviði. Ef þessi stjórnmálaflokkur fær byr í seglin í næstu Alþingiskosningum, mun í ljós koma, að þetta einkenni hennar á við um mun fleiri svið landsmálanna. Um það vitnar fortíðin, og ekki þarf annað en að nefna Reykjavíkurflugvöll til að styðja þá fullyrðingu rökum. Fjandskapur Samfylkingarinnar og fylgihnattarins pírata við hann er reginhneyksli.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.7.2024 | 10:23
Ábyrgð Samfylkingar á umferðaröngþveiti í Reykjavík er mikil
Samfylkingarfólk í borgarstjórn hefur mótað stefnuna í umferðarmálum borgarinnar, sem leitt hefur bílaumferðina inn í öngstræti, og það stefnir í botnlausa útgjaldahít án nokkurs árangurs fyrir umferðina. Þetta er vegna þeirrar áráttu jafnaðarmanna að hafa vit fyrir öðrum, "vér einir vitum". Í þessu tilviki hafa fúskarar í umferðarmálum og skipulagsmálum borga úr röðum Samfylkingar haldið á lofti þeirri utan að lærðu kenningu, að fjölgun akreina eða mislæg gatnamót séu þýðingarlaus á höfuðborgarsvæðinu, af því að ný mannvirki fyllist strax af bílum. Þórarinn Hjaltason, samgönguverkfræðingur, hefur í Morgunblaðsgrein sýnt fram á, að í borg á borð við höfuðborgarsvæðið sé þessi kenning firra. Samt hefur aðgerðarleysi í vegaframkvæmdum í Reykjavík verið reist á þessari fjarstæðukenndu kenningu á ábyrgð Samfylkingar.
Aðalleiðarstef Samfylkingar í málefnum umferðar á höfuðborgarsvæðinu hefur verið borgarlína, sem eru hraðferðir á miðjusettum akreinum eftir aðallega tveimur ásum. Aðstæður á höfuðborgarsvæðinu, dreifð byggð og erfitt veðurfar, eru með þeim hætti, að hlutdeild Strætó í heildarumferð er aðeins um 4 %. Þetta er allt of lítið til að réttlæta fjárfestingar upp á mrdISK 130 eða meira (endurskoðun Samgöngusáttmálans er enn í burðarliðnum), og þess vegna hefur Samfylkingarfólkið, trútt sinni forræðishyggju, reynt að pína ökumenn bíla og farþega þeirra til að leggja bílnum og velja almenningssamgöngur í staðinn, og með bættri þjónustu borgarlínu dreymir þetta lið um þreföldun hlutdeildar, en ekkert bendir til, að það sé raunhæft. Þetta hefur verið gert með ýmsum aðgerðum til að tefja umferðina, og er það svínslegt ráðslag af þeim, sem trúað hefur verið fyrir að fara með völdin í þágu borgarinnar. Samfylkingin kann ekki að skammast sín, og hefur bitið höfuðið af skömminni með þéttingu byggðar meðfram ásum borgarlínu. Þetta hefur stórhækkað íbúðaverð og valdið lóðaskorti, sem er líklega stærsti verðbólguvaldurinn um þessar mundir. Þannig rekur hvað sig á annars horn í höfuðborginni, þar sem Samfylkingin hefur haft töglin og hagldirnar í á annan áratug. Ef kjósendur fela Samfylkingunni stjórn landsins í næstu Alþingiskosningum, munu þeir fara úr öskunni í eldinn, enda máttu þeir vita vegna óstjórnarinnar í Reykjavík, að þeir væru að kaupa köttinn í sekknum.
Tveir mætir menn eiga heiður skilinn fyrir að láta ekki umferðarmálin liggja í láginni. Það eru þeir Þorkell Sigurlaugsson og téður Þórarinn Hjaltason, sem í júní 2024 rituðu 2 greinar um málaflokkinn í Morgunblaðið. Birtist sú fyrri þann 21. undir fyrirsögninni:
"Bráðavandi í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu".
Hófst hún þannig:
"Svo kölluð endurskoðun samgöngusáttmála ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu frá 2019 hefur tekið meira en heilt ár, en er nú lofað á næstunni, jafnvel fyrir júnílok [2024]. Miklar væntingar byggðust upp í kjölfar undirritunar hans og nú endurskoðunarinnar. Strax í tengslum við borgarstjórnarkosningar 2022 bentu ýmsir á þörf fyrir róttæka endurskoðun, en þöggun var í gangi."
Þessi samgöngusáttmáli eru Pótemkíntjöld, sem Samfylkingunni þótti heppilegt að setja upp til að hylja eigin eymd, "framkvæmdastopp" vegaumbóta á höfuðborgarsvæðinu í áratug gegn 1 mrdISK/ár frá ríkinu til að halda gjaldþrota almenningssamgöngum á floti. Á meðan hafa umferðartafir aukizt, og hættan á fjölförnum gatnamótum og víðar magnazt. Þetta var furðuráðstöfun að frumkvæði Samfylkingarinnar, sem hefur reynzt vegfarendum á höfuðborgarsvæðinu dýrkeypt. Kostnaðaráætlun þessara pótemkíntjalda var út í hött, og þegar þetta er birt 8. júlí 2024 hefur þessi óþarfa pólitíska sýndarmennska ekki litið dagsins ljós endurskoðuð.
Samfylkingin skákar gjarna í því skjólinu, að hún reki umhverfisvæna samgöngustefnu. Þetta er tóm vitleysa. Hvað halda menn að umferðartafirnar kosti mikla aukningu á bruna jarðefnaeldsneytis, og það er hrein hörmung að horfa upp á stóra "tóma" vagna á götunum megnið af deginum, valdandi miklu dekkja- og vegsliti auk eldsneytisbruna. Sú stefna Samfylkingar að beita borgarkerfinu til að tefja vegfarendur, svo að þeir hrökklist í strætisvagninn, ætti að valda almennri fordæmingu á þeim stjórnmálaflokki, en þess í stað sýna skoðanakannanir, að með sýndarveruleika og látbragðskúnstum hefur tekizt að villa um fyrir mörgum kjósendum, enda leitar klárinn þangað, sem hann er kvaldastur.
"Umferðartafir á höfuðborgarsvæðinu kosta íbúa, fyrirtæki og þjóðina vel yfir 30 mrdISK/ár vegna aukins kostnaðar fyrirtækja og einstaklinga í samgöngum, minni framleiðni, minni skatttekna ríkis og sveitarfélaga, auk meiri mengunar og skertra lífsgæða almennings. [Annar kostnaðarliður vegna illa ígrundaðrar stefnu Samfylkingar í umferðarmálum er aukinn slysakostnaður og bifreiðatjón.]
Stytting vinnuvikunnar er löngu farin í tímasóun í einkabílnum eða í strætó. Á næstu 10 árum mun kostnaður vegna umferðartafa á svæðinu aukast verulega."
Jafnaðarmenn við stjórn borgarinnar hafa rænt nýlegri vinnutímastyttingu af launamönnum með því meðvitað að þvinga þá í umferðarteppur - og -hnúta í þeirri bornu von, að þeir fari að ferðast með strætó. Hvernig má það vera, að verkalýðsforkólfar, sem annars láta sér fátt vera óviðkomandi, gagnrýni ekki aðgerðarleysi borgaryfirvalda, sem skert hafa verulega lífsgæði skjólstæðinga þeirra ? Sama má segja um landlæknisembættið. Þar á bæ eru oft uppi pólitískar hugmyndir um neyzlustýringu með gjaldtöku af óhollustu. Hvers vegna heyrist ekki bofs um lýðheilsumál Reykvíkinga í uppnámi vegna aukinnar hættu, streitu og mengunaráreitis í umferðinni af mannavöldum. Almennt má segja, að borgarstjóri og meðreiðarsveinar hans í borgarstjórn hafi komizt upp með stefnumörkun og stjórnarhætti, sem eru fyrir neðan allar hellur, furðu gagnrýnilítið.
"Fossvogsbrúin, eins mikilvæg og hún gæti verið, er orðin deila um kostnað, og hvort þetta eigi að vera listaverk. Sæbrautarstokkur er allt of dýr framkvæmd. Miklubrautarstokkur er rándýr og illframkvæmanlegur. Jarðgöng undir Miklubraut eru orðin álitlegri kostur að mati Vegagerðarinnar og fleiri fagaðila. Fækkun akreina úr tveimur í eina í hvora átt efst á Laugavegi og Suðurlandsbraut, lækkun umferðarhraða og miðjusetning borgarlínu mun umturna og tefja gífurlega alla bílaumferð.
Borgarlína mun skerða bílastæði við fyrirtækin og aðkomu að þeim við göturnar. Aðkoma að Laugardalsvelli og fyrirhugaðri Þjóðarhöll verður algjörlega óviðunandi fyrir mörg þúsund manns, sem koma þangað á viðburði á stuttum tíma. Heildarhönnun og framkvæmd borgarlínu mun taka mjög langan tíma, jafnvel 15-20 ár."
Þarna heyrist rödd heilbrigðrar skynsemi og fagmennsku á sviði umferðarmála höfuðborgarsvæðisins. Hvorugu er til að dreifa í ranni meirihluta borgarinnar, þar sem trippin eru rekin af Samfylkingunni, sem er endemis meinlokuflokkur, þar sem stefnan er mótuð af amatörum, sérvitringum og skýjaglópum. Að haldið skuli áfram út í borgarlínufenið í stað þess að gera sér grein fyrir, að um mikla fjárhagslega og tæknilega ófæru er að ræða, sem skynsamlegast er að læsa ofan í skúffu strax, sýnir, að pólitísk hugsun í Samfylkingunni er mótuð af kreddum og trúarkenningum. Þetta er ekkert nýtt, heldur hefur verið viðloðandi flokkinn frá stofnun hans og var áberandi í vinstri stjórninni 2009-2013. Verkin tala, og ekkert er að marka fagurgala núna. Þessi fagurgali hefur þó greitt götu óánægjufylgis frá stjórnarflokkunum, og sú óánægja með blöndu stjórnleysis og verkleysis ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er ekkert grín. Ef núverandi forystu ríkisstjórnarinnar tekst ekki að vinda ofan af verstu vitleysunni, t.d. í útlendingamálum og virkjanamálum, þá verður hér gallískt (franskt) ástand eftir næstu Alþingiskosningar, þ.e. enginn starfhæfur ríkisstjórnarkostur í boði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.7.2024 | 09:38
Vanhugsuð loftslagsstefna íslenzkra yfirvalda
Á þessu vefsetri hefur rándýr og óskilvirk loftslagsstefna hérlendra yfirvalda verið gagnrýnd, enda er hún bara eftiröpun þess, sem Evrópuþjóðir, sem búa við ríkjandi jarðefnaeldsneytisbrennslu í sínum orkubúskapi, hafa smíðað sér til að verða minna háðar þessu orkuformi. Hér hvorki gengur né rekur við að draga úr bruna jarðefnaeldsneytis, enda hafa sömu yfirvöld hagað málum svo, að skortur er á sjálfbærri raforku til að leysa jarðefnaeldsneytið af hólmi. Hefur vitleysan gengið svo langt síðustu misserin, að hlutur olíu við raforkuvinnslu hefur aukizt af illri nauðsyn. Er það reginhneyksli og hinn versti áfellisdómur yfir ríkjandi stjórnvöldum. Hins vegar gefa stjórnarandstöðuflokkarnir enga von um aukna skynsemi í þessum efnum, komist þeir til valda.
Nú hefur skynsamlegur mælikvarði verið kynntur til sögunnar, sem styður þann málflutning, sem hér á vefsetrinu hefur verið hafður uppi um einn anga þessa máls, sem er sá, að mesta framlag Íslands til loftslagsmálanna er að hýsa hér orkukræfan iðnað. Sú framleiðsla á Íslandi er með minna kolefnisspor en annars staðar þekkist. Þess vegna á ekki að stöðva þessa framleiðslu, eins og erkiafturhaldið í landinu hefur gert opinbera tillögu um, heldur að auka hana. Á öllum sviðum þjóðmálanna er erkiafturhaldið rödd óskynseminnar, sem réttara væri að nefna heimsku.
Sú rödd skynseminnar, sem hér er gerð að umræðuefni, kom frá Samtökum atvinnulífsins - SA, og var það aðstoðarframkvæmdastjórinn, sem þar tjáði sig. Sú tjáning féll ekki í grýttan jarðveg Staksteina Morgunblaðsins, sem 24. júní 2024 voru undir fyrirsögninni:
"Stórslys í uppsiglingu":
"Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, gerir óraunhæf markmið í loftslagsmálum að umræðuefni í pistli í Viðskiptablaðinu. Þar segir hún, að losun gróðurhúsalofttegunda í hlutfalli við verðmætasköpun sé nær hvergi minni en hér á landi."
Þetta er góður mælikvarði á gagnsemi losunarinnar í mismunandi löndum og sýnir viðleitni atvinnulífs viðkomandi þjóðar til að standa sig vel í umhverfismálum. Skrámar umræðunnar grípa hins vegar gjarna metnaðarlausan mælikvarða á lofti, sem er losun koltvíildis á mann. Það er erfitt að verða góður á þennan mælikvarða, nema halda að sér höndum, sem eru ær og kýr afturhaldsins.
"Hún segir:"Ætla mætti, að eftirsóknarvert væri, að hér væru framleiddar vörur með umhverfisvænni hætti en annars staðar. Er skynsamlegt út frá alþjóðlegum umhverfissjónarmiðum að refsa íslenzkum fyrirtækjum fyrir það að auka við slíka framleiðslu ?"
Þessari spurningu hafa íslenzk stjórnvöld svarað fyrir sitt leyti með því að setja þessi og öll önnur fyrirtæki í landinu í orkusvelti, og þau hafa stuðlað að kyndingu olíukatla til að kynda húsnæði. Það þarf enga mannvitsbrekku til að átta sig á, að í landi gnægðar óbeizlaðrar endurnýjanlegrar orku er orkustefna íslenzkra yfirvalda í raun glórulaus. Það verður að söðla algjörlega um og stöðva fíflaganginn, sem er út um allt og setur orkuöflun landsmanna í kyrrstöðu. Ef menn halda, að stjórn Samfylkingarinnar á orkumálunum muni geti hrint kyrrstöðunni, þá fara menn í geitarhús að leita ullar. Öll stórmál, sem sá stjórnmálaflokkur hefur afskipti af, verða að klúðri og enda með öngþveiti. Dæmi um þetta eru lóðamál og umferðarmál og reyndar fjármál Reykjavíkur. Þegar kom að útlendingamálum á Alþingi í vor, sem gætu valdið heildarkostnaði í landinu um 50 mrdISK/ár, þá skilaði Samfylkingin auðu. Þetta er flokkur fagurgalans og hégómaskaparins, sem nú gerir hosur sínar grænar frammi fyrir kjósendum til Alþingis.
"Ef fram fer sem horfir, munu íslenzk fyrirtæki þurfa að kaupa losunarheimildir fyrir umtalsverða fjármuni vegna skuldbindinga, sem ljóst mátti vera frá öndverðu, að væru óraunhæfar vegna forskots okkar í nýtingu grænnar orku. Sá kostnaður mun hamla getu fyrirtækjanna til að fjárfesta frekar í umhverfisvænum lausnum."
Það er með ólíkindum á hvers konar villigötur stjórnmálamenn og embættismenn geta ratað, þegar þeir leika lausum hala. Þarna fullyrðir aðstoðarframkvæmdastjóri SA, að þessi snilldarmenni hefðu mátt vita, að verið væri að hengja þunga kostnaðarbagga á íslenzka skattborgara með gersamlega óraunhæfum markmiðum um losun koltvíildis 2030. Aðalábyrgðina á því ber VG og fyrrverandi formaður hreyfingarinnar, Katrín Jakobsdóttir, sem flúði frá borði. Fékk Katrín samþykki fjárveitingavaldsins, Alþingis, fyrir þessum gjörningi áður en hún hélt utan á montsamkomur í Evrópu af þessu tilefni ? Annað væri ólögmæt fjárhagsleg skuldbinding. Það er alveg makalaust, hversu gjörsamlega úti á túni stjórnmálamenn eru, þegar kemur að fýsileika loftslagsmarkmiða. Umhverfisvænsta land Evrópu sýpur nú seyðið af því, að hafa haft ábyrgðarlausan tækifærissinna á stóli forsætisráðherra 2017-2024.
"Anna Hrefna segir, að skynsamlegast væri að "breyta um kúrs, hampa sérstöðu Íslands og skilgreina okkar eigin raunhæfu langtímamarkmið í umhverfismálum. Að öðrum kosti er kostnaðarsamt stórslys í uppsiglingu.""
Þetta er róttækt sjónarmið, því að það jafngildir því að hætta að binda trúss sitt við EES í loftslagsmálum, en sú tenging á illa við Ísland, því að aðstæður hér eru ósambærilegar við EES að þessu leyti. Taka skal heils hugar undir þessi viðhorf Önnu Hrefnu, því að núverandi tenging við loftslagsmarkmið EES er algerlega vanhugsuð og mun valda íslenzku atvinnulífi og íslenzka ríkissjóðinum tugmilljarða ISK tjóni að þarflausu. Þarna hafa ósjálfstæðir íslenzkir stjórnmálamenn og embættismenn vélað um málafylgju, sem er illa fallin til árangurs, en afar kostnaðarsöm. Hvað verður um sektarféð vegna markmiða, sem ekki náðust ?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)