Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
5.6.2023 | 09:03
Verkalýðshreyfingin
Hérlendis er stjórnarskrárvarið félagafrelsi sniðgengið með ýmsum kúnstum, sem jafngilda í raun skylduaðild að verkalýðsfélögum. Fyrir vikið eru verkalýðsfélög orðin fjármagnseigendur, sem sitja á digrum sjóðum. Þessu er allt öðruvísi varið víðast hvar á Vesturlöndum, þ.á.m. á hinum Norðurlöndunum, þar sem félagafrelsið er virt. Þróun verkalýðshreyfingarinnar virðist hafa orðið með heilbrigðari hætti á hinum Norðurlöndunum en hér, svo að hún hefur tileinkað sér önnur og nútímalegri vinnubrögð í samskiptunum við atvinnurekendur, t.d. í samningum um kaup og kjör. Hér er verkalýðshreyfingin einfaldlega föst í fornu fari upphrópana og átaka í stað vitrænnar, heildrænnar nálgunar hagsmuna launafólks, t.d. við gerð kjarasamninga.
Verkalýðshreyfingar Vesturlanda komu margar hverjar til skjalanna um svipað leyti og rússneska byltingin átti sér stað 1917. Kommúnisminn þar var ætlaður til að verja hagsmuni smælingjanna og lyfta lífskjörum verkafólks upp á kostnað yfirstéttarinnar. Í Rússlandi hafði zarinn verið einvaldur frá 16. öld, og valddreifing frá honum til aðalsins átti sér aldrei stað, en á Vesturlöndum leiddi sú valddreifing smám saman til þingræðis í þeirri mynd, sem við þekkjum nú. Eftir byltinguna, þar sem zarinn var drepinn og pótintátar kommúnistaflokksins urðu hin nýja yfirstétt í Ráðstjórnarríkjunum, hlaut þess vegna að koma fram nýr zar, og sá hét Jósef Stalín. Sá rak skefjalausa heimsvaldastefnu undir merkjum kommúnismans og "frelsun verkalýðsins" í öðrum löndum. Hann beitti moldvörpum hliðhollum kommúnismanum til að grafa undan ríkisstjórnum, t.d. í Evrópu, og þegar þar var komið á öngþveiti, sendi hann Rauða herinn inn til að hernema viðkomandi land, t.d. Úkraínu, og þannig var ætlunin að fara með hin Austur-Evrópulöndin og Þýzkaland, sem var í sárum eftir Heimsstyrjöldina fyrri og afar íþyngjandi byrðar "friðarsamninganna" í Versölum 1919.
Þetta tókst hinum grimma zar við lok Heimsstyrjaldarinnar síðari, þegar landamæri í Austur-Evrópu voru færð til vesturs og Þýzkalandi var skipt upp í hernámssvæði. M.v. framgöngu Rauða hersins í Vetrarstríðinu 1939-1940 og gegn Wehrmacht 1941-1945 má telja líklegt, að án gríðarlegra tækja-, hergagna og vistflutninga frá Bandaríkjunum til Ráðstjórnarríkjanna (Murmansk) í stríðinu hefði framvindan á austurvígstöðvunum orðið með öðrum hætti en raunin varð, svo að ekki sé minnzt á loftárásir Bandamanna á Þýzkaland, sem drógu úr framleiðslugetu Þriðja ríkisins, sem var þó ótrúlega mikil neðanjarðar.
Lengi vel litu forkólfar íslenzku verkalýðshreyfingarinnar á Ráðstjórnarríkin sem hið fyrirheitna land verkalýðshreyfingarinnar hérlendis, en fóru þar algerlega villur vegar og voru í raun leiksoppar heimsyfirráðastefnu, sem bar alls enga umhyggju fyrir verkalýðnum, en sá þar nytsama sakleysingja til að nota við valdarán. Þetta var upphaf íslenzkrar verkalýðsbaráttu, og enn er hún illa haldin af fjarstæðukenndri hugmyndafræði um stéttastríð verkalýðs gegn auðvaldi í stað þess að líta raunhæft á viðfangsefnið, sem er að finna sameiginlegan grundvöll með fyrirtækjum, sveitarfélögum og ríkisvaldi til að tryggja launþegum atvinnuöryggi og sjálfbæra (samkeppnishæfa) hlutdeild í verðmætasköpuninni.
Þann 1. maí 2023 birtist athygliverð forystugrein í Morgunblaðinu um verkalýðs- og atvinnumál undir fyrirsögninni:
"Raunsæið ræður, ekki ræðuhöldin".
Þar stóð m.a.:
"Svo [að] horft sé á stöðuna úr hinni áttinni, frá atvinnulífinu, sést, að hlutfall launa og launatengdra gjalda af verðmætasköpun er hvergi á [hinum] Norðurlöndunum jafnhátt og hér á landi. Þetta felur í sér, að launþegar fá meira í sinn hlut hér en þar, og er þá ekki verið að miða við fátæk ríki, heldur mestu velmegunarríki veraldar. Þetta hefur verið atvinnulífinu hér á landi afar þungt, enda þarf ákveðið jafnvægi að vera í þessum efnum, til að hægt sé að viðhalda framleiðslutækjum og almennt kröftugu atvinnulífi, en launþegahreyfingin gæti í það minnsta talið þetta góðan árangur baráttu sinnar."
Sú stærð (verðmætasköpun) og skipting hennar á milli launþega (verkalýðs) og atvinnurekenda (auðvalds) eru lykilatriði þessarar umræðu. Það eru atvinnurekendur og fjármagnseigendur), sem hafa með fjárfestingum sínum í nýrri tækni frá lokum 19. aldar (vélbátaútgerð) og fram á þennan dag gert launþegunum kleift að auka framleiðni launamanna. Erfiði vöðvaaflsins hefur minnkað og vélaraflið tekið við; fyrst knúið af jarðefnaeldsneyti (1. orkubylting) og síðan af rafmagni (2. orkubylting), sem framleitt var og er í sjálfbærum virkjunum landsmanna. Með 3. orkubyltingunni var húshitunarkostnaður landsmanna, launþega, atvinnurekenda og fjármagnseigenda, lækkaður verulega með nýtingu jarðhita. Með 4. orkubyltingunni verður svo jarðefnaeldsneyti leyst af hólmi í samgöngutækjum og vinnuvélum, og þar með sparaður mikill gjaldeyrir, sem mun styrkja gengið, öllum til hagsbóta.
Á Íslandi fá launþegarnir um 2/3 af verðmætasköpuninni í sinn hlut og atvinnurekendur um 1/3. Þessi skipting er of ójöfn í tvennum skilningi. Atvinnurekendur hafa úr hlutfallslega minnu að moða en samkeppnisaðilar erlendis, og þess vegna er getan til nýsköpunar og fjárfestinga í tæknivæðingu og sjálfvirknivæðingu minni hér en erlendis, sem leiðir til hærri framleiðslukostnaðar hér, sem á endanum leiðir til gjaldþrots, verðlagshækkana innanlands eða gengissigs, en launþegarnir míga í skóinn sinn og njóta skammvinns aukins kaupmáttar, þar til verðbólgan étur hann upp.
Þetta hafa stéttastríðsrekendur verkalýðshreyfingarinnar ekki viljað viðurkenna og heimta þar af leiðandi stöðuga hækkun þessa hlutfalls og hafa nú ratað í ógöngur. Færa verður verkalýðsbaráttuna hérlendis inn í nútímann með aflagningu stéttastríðshugarfars og ítarlegri umræðu um kjörhlutfall skiptingar verðmætasköpunar fyrirtækjanna á næstu árum, þ.e. hlutfall, sem tryggir sjálfbærar lífskjarabætur til lengdar.
"Loks geta forystumenn launþegahreyfingarinnar í dag fagnað því, að varla finnst meiri launa- eða lífskjarajöfnuður en hér á landi, þó að stundum mætti ætla af pólitískri umræðu, að því sé öfugt farið. Mælingar á jöfnuði hafa ítrekað staðfest, að fullyrðingar um mikinn ójöfnuð eiga ekki við nein rök að styðjast."
Þetta er hverju orði sannara og eru meðmæli með þessu þjóðfélagi, þótt verið geti, að of langt hafi verið gengið í þessum efnum, því að launamunur er hvati til að gera betur og leita sér eftirsóttrar sérhæfingar. Það er t.d. váboði, að hagvöxtur er hvergi minni á hvern íbúa innan OECD en á Íslandi. Það er of lítill kraftur í hagkerfinu vegna of lítilla fjárfestinga, afar lítilla beinna erlendra fjárfestinga og íslenzk fyrirtæki hafa ekki bolmagn í núverandi hávaxtaþjóðfélagi og með skiptingunni 2/3:1/3 á verðmætasköpuninni, sem er líklega heimsmet. Þetta er ósjálfbær skipting auðsins. Fyrirtækin bera of lítið úr býtum fyrir sitt framlag, sem er fjármagn, þekking (starfsfólk leggur líka til þekkingu), öflun aðfanga og markaðssetning vöru eða þjónustu.
Stéttastríðspostularnir sífra af gömlum vana þvert gegn staðreyndum um misskiptingu auðs í samfélaginu og benda þá gjarna á há laun stjórnenda og eigenda. Þessir postular skilja ekki gangverk hagkerfisins og vita lítið um, hvernig launamuni er varið erlendis, enda forpokaðir heimaalningar í flestum tilvikum. Reyndar er síður en svo einhugur í hinni þröngsýnu verkalýðshreyfingu um launajöfnuð á milli starfsgreina. Þar skoðar hver og einn eigin nafla. Hvers vegna tíðkast hið alræmda "höfrungahlaup" ? Það er vegna þess, að þeim, sem stunda sérhæfð störf, sem spurn er eftir á markaðinum, finnst launabilið ekki lengur endurspegla verðmætamun starfanna. Það er auðvitað ófært, að þjóðfélagið (vinnumarkaðurinn) refsi þeim, sem leita sér menntunar, með lægri ævitekjum en hinum. Það flækir þó málið, að menntun er mjög misverðmæt að mati markaðarins (eftirspurnarinnar). Það er fagnaðarefni, að nú er uppi viðleitni í þá átt að efla iðnmenntun og beina tiltölulega fleiri nemendum í þá átt, enda mikill hörgull í flestum iðngreinum.
Í pólitíkinni þrífst ákveðið sérlundað og sjálfsupphafið fyrirbrigði, sem kallar sig Samfylkingu. Það hefur borið meginábyrgð á stjórnun Reykjavíkurborgar undanfarinn áratug og að nokkru frá 1994 eða í um 3 áratugi, er Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varð borgarstjóri. Auðvitað er nú allt komið í hönk í Reykjavík vegna óstjórnar, enda er þessi pólitíska sneypa algerlega ábyrgðarlaus í stefnumörkun og framkvæmd. Í téðri forystugrein Morgunblaðsins var drepið á þetta:
"Á það hefur verið bent árum saman, að Reykjavíkurborg reki ranga og stórskaðlega stefnu í húsnæðismálum, þar sem öll áherzla er lögð á þéttingu byggðar og þar með á dýra kosti, sem um leið taka langan tíma. Þetta hefur leitt af sér íbúðaskort, sem svo magnast upp við þessa miklu fjölgun íbúa, sem landsmenn horfa nú upp á. Þá verður ekki fram hjá því litið, að með nánast óheftri komu hælisleitenda hingað til lands og gríðarlegum fjölda þeirra misserum saman, verður ástandið á fasteignamarkaði enn erfiðara.
Nú er svo komið, að það er meiri háttar vandamál, sem verður tæpast leyst með því einu að auka framboð húsnæðis. Óhjákvæmilegt er, að stjórnvöld nái tökum á ástandinu á landamærunum og fari að stjórna því, hverjir setjast hér að. Takist það ekki, verður ástandið á húsnæðismarkaði langtímavandamál, sem mun ýta undir verðbólgu og rýra lífskjör launafólks."
Það er auðvitað dæmigert, að Samfylkingin virðist vilja hafa landamærin opin upp á gátt fyrir hælisleitendur, einnig efnahagslegt flóttafólk undan eymd jafnaðarstefnunnar, þar sem hún er rekin ómenguð, og heitir þá víst sósíalismi, t.d. í Venezúela um þessar mundir. Þingmenn Samfylkingar (og hjáleigunnar (pírata) tryllast af bræði, ef Útlendingastofnun vinnur vinnuna sína og vísar slíku fólki úr landi. Samt er ekki nóg með, að húsnæði vanti fyrir allan þennan fjölda, heldur eru skóla- og heilbrigðiskerfið oflestuð og ráða ekki lengur við að veita almennilega þjónustu. Það er alveg sama, hvar klóför Samfylkingarinnar sjást; þar skal ríkja öngþveiti.
2.6.2023 | 09:43
Oviðunandi ábyrgðarleysi meirihluta borgarstjórnar
Reykjavíkurflugvöllur í Vatnsmýri var, er, og á að verða happafengur fyrir höfuðborgina og landsmenn alla, sem þó er ekki öllum gefið að bera skynbragð á, eins og meðferð pótintáta Samfylkingarinnar og gjaldþrota vinstri meirihluta hennar á vellinum og öryggismálum hans ber glöggt vitni um. Um þetta má hafa eitt orð: óhæfa.
Hvers vegna er þessi flugvöllur, öryggi notenda hans og sem hæst nýtingarhlutfall hans hagsmunamál allra landsmanna ?
Í fyrsta lagi þarf ekki að orðlengja samgöngubótina, sem hann veitir þeim, sem þurfa að gegna erindum til höfuðborgar og nágrennis eða þaðan og út á land í yfir 200 km vegfjarlægð, en á vegum landsins er mikil þungaumferð og þung umferð ferðamanna, þeir eru flestir þröngir og mjög misöryggir yfirferðar eftir árstíma. Flugumferðin á að vera öruggari og létta dálítið á þjóðvegunum.
Í öðru lagi veitir nálægð flugvallarins við akkerið í sjúkraþjónustu landsins, Landsspítalann, nánast öllum landsmönnum aukið öryggi, því að öll getum við átt brýnt erindi þangað í neyð, sem dunið getur á fjarri spítalanum. Um þessar mundir munu um 1000 sjúklingar og slasaðir njóta þjónustu sjúkraflugsins á ári. Það getur verið, að þyrlupalli verði komið fyrir á Nýja Landsspítalanum, en bæði er hann dýr og notkun hans hefur í för með sér mikinn hávaða, titring og rykþyrlun í og við byggingar spítalans, sem allt er óheppilegt þar og kann að verða metið sem frágangssök, þegar ákvörðun um þyrlupall þar verður tekin (í ljósi nálægðar við Reykjavíkurflugvöll).
Í þriðja lagi er hlutverk Reykjavíkurflugvallar sem varaflugvöllur fyrir Keflavíkurflugvöll gríðarmikilvægt, því að oftast er lendingarhæft í Reykjavík, þótt svo sé ekki á Miðnesheiði, þótt undarlegt kunni að þykja. Ef svo verður þrengt að Reykjavíkurflugvelli, eins og Samfylkingin og meðreiðarsveinar eru að undirbúa með Framsókn í gíslingu með valdalítið borgarstjóraembætti að beitu undir eftirliti tilsjónarmanns með fjármálaóreiðunni, mun nothæfisstuðullinn lækka og hugsanlega svo mikið, að millilandavélar geti ekki reitt sig á hann og verði að hafa um borð meiri eldsneytisforða fyrir vikið. Slíkt mun hafa í för með sér lakari samkeppnishæfni Íslands sem ferðamannalands og hækkun neyzluverðsvísitölunnar.
Í fjórða lagi verður að hafa í huga aðstöðuna fyrir verklega flugkennslu, sem völlurinn veitir, og aðstöðu fyrir fjölmarga einkaflugmenn, innlenda sen erlenda, sem auðvitað eru háðir nothæfisstuðlinum, eins og aðrir notendur flugvallarins.
Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hefur kynnt sér málefni þessa fjölmenna vinnustaðar og tekjulindar fyrir sísvangan borgarsjóðinn ítarlega. Afstaða hennar er, að það sé með öllu óverjandi að rýra öryggi flugvallarins með nokkrum hætti meira en orðið er. Þá skipta auðvitað umtalaðar mótvægisaðgerðir með óljósa virkni engu máli. Það er siðferðilega rangt að gera þeim, sem þurfa á flugvellinum að halda, lífið erfiðara og hættulegra, en siðlaus Samfylking virðir allt slíkt að vettugi.
Þann 6. maí 2023 birtist grein eftir Mörtu í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:
"Skýrsla um flugöryggi".
Þar stóð um afstöðu innviðaráðherrans, sem virðist standa í hrossakaupum við Samfylkinguna um borgarstjórastólinn í skiptum fyrir nýja byggð í Skerjafirði:
"Í Morgunblaðsviðtali við innviðaráðherra sl. laugardag [29.04.2023] segir hann m.a.: "Starfshópurinn telur ekki þörf á að hætta við byggingarhugmyndir í Nýja Skerjafirði, en ný byggð kalli á mótvægisaðgerðir."
Þetta er afar villandi túlkun, byggð á tvíræðni. Skýrslan segir ekkert um það, hvort hætt skuli við byggðina eða ekki. Orðrétt segir í skýrslunni:
"Ekki er hægt að fullyrða án frekari rannsókna, að byggðin hafi slík áhrif á aðstæður fyrir flug á Reykjavíkurflugvelli, að þörf sé á að hætta við byggingarhugmyndir í Nýja Skerjafirði."
Þessi yfirlýsing gefur alls ekki grænt ljós á fyrirhugaða íbúðabyggð."
Dýralæknirinn á stóli innviðaráðherra virðist ekki skilja inntak téðrar skýrslu um öryggismál Vatnsmýrarvallarins, eða hann sveigir túlkun á henni að pólitískum þörfum Framsóknarflokksins, sem gætu hafa myndazt við hrossakaup um borgarstjórastólinn við hina siðlausu Samfylkingu, sem hefur staðið að því að rýra notagildi flugvallarins og þar með öryggi hans. Ályktun skýrsluhöfunda er einfaldlega sú, að rannsóknir skorti til að hægt sé að leyfa ráðagerð borgarstjórnarmeirihlutans um nýja byggð við enda flugbrautar í Skerjafirði. Það vantar m.ö.o. líkan til að áætla áhrif mismunandi byggingarfyrirkomulags á vindhvirflamyndun og áhrif þeirra á mismunandi flugvélar í mismunandi vindáttum og vindstyrk o.s.frv.
Líkanið getur ekki gefið nákvæma niðurstöðu, en getur veitt vísbendingu um áhrifin á öryggi flugsins og nothæfisstuðul flugvallarins. Sé vísbending um neikvæð áhrif á flugið, er full ástæða fyrir innviðaráðuneytið til að hafna fyrirætlunum borgarinnar um þessar framkvæmdir. Öryggi flugfarþega og áhafna flugvélanna, sem vilja leggja leið sína um Vatnsmýrarvöllinn, verður að ganga fyrir eða njóta vafans, eins og sumir segja. Annað viðhorf er siðlaust og forkastanlegt. Ætlar forysta Framsóknarflokksins að láta Samfylkinguna draga sig ofan í þann fúla pytt ? Það þarf enga mannvitsbrekku til að sjá í hendi sér, að Framsóknarflokkurinn er að skjóta sig í fótinn (í borginni og á landsvísu) með þessu framferði.
"Á borgarstjórnarfundi sl. þriðjudag [02.05.2023] segir borgarstjóri m.a. um afstöðu skýrsluhöfundanna á kynningarfundi um skýrsluna:
"En þeir voru alveg rólegir með þetta. Sögðu bara: Já ! Það er ekkert, sem ætti að tefja eða koma í veg fyrir, að þarna yrði byggt."
Þetta er óheyrileg rangfærsla. Í fyrsta lagi voru fæstir skýrsluhöfundar á téðum kynningarfundi. Í öðru lagi er lýsing borgarstjóra á afstöðu skýrsluhöfunda ekki í neinu samræmi við innihald skýrslunnar. Í kafla um helztu niðurstöður skýrslunnar segir:
"Byggð í Nýja Skerjafirði samkvæmt fyrirliggjandi skipulagi þrengir að starfsemi flugvallarins frá því, sem nú er, breytingar verða á vindafari á flugvellinum og í næsta nágrenni hans, og nothæfi hans skerðist."
Þar segir einnig: "Þar sem meðalvindhraðabreyting fer nú þegar yfir vindhraðamörk, þarf að gæta sérstakrar varúðar við að bæta við fleiri áhættuþáttum svo sem aukinni kviku. Ljóst er af þeim gögnum og úttektum, sem fyrir liggja, að kvika eykst yfir flugvallarsvæðinu með tilkomu Nýja Skerjafjarðar samkvæmt fyrirliggjandi skipulagi. Mun ítarlegri greiningu og mælingar vantar til að meta, hve mikil þessi breyting verður."
Hér er grafalvarlegt mál á ferðinni. Sá maður, sem Samfylkingin hefur útnefnt sem sinn æðsta mann í Reykjavík og farið hefur með æðstu völd í Reykjavík í a.m.k. áratug, borgarstjórinn, opinberar hér tregan skilning á viðkvæmu, jafnvel örlagaríku máli (flugöryggi) eða óleyfilega og ósvífnislega umgengni við sannleikann, nema hvort tveggja sé. Þetta framferði er með öllu óviðunandi, þegar um líf eða dauða getur verið að tefla, og reyndar tortímir hegðun af slíku tagi öllu trausti, sem samferðamenn geta haft á viðkomandi.
Þannig er nú komið, að Samfylkingin ber ábyrgð á manni, sem beitir rangfærslum til að hafa sitt fram og þar með að auka svo ókyrrð í lofti yfir Reykjavíkurflugvelli, að farþegum og áhöfnum flugvéla, sem nota vilja flugvöllinn, er aukin hætta búin og nothæfisstuðullinn mun vísast lækka.
29.5.2023 | 11:34
Kjarnorkuógnin
Aðfararnótt 16. maí 2023 skutu Rússar 6 ofurhljóðfráum eldflaugum af gerðinni Kh-47M2 Dagger á Kænugarð á 2 mín skeiði frá flugvélum og skipum úr 3 höfuðáttum. Aðalskotmarkið mun hafa verið Patriot-loftvarnarkerfið, sem nýlega var sett upp í eða við Kænugarð. Því er skemmst frá að segja, að úkraínska flughernum tókst að skjóta allar þessar ofurhljóðfráu eldflaugar niður áður en þær náðu ætlaðri endastöð. Þar mun 40 ára gömul tækni Patriot-loftvarnarkerfisins hafa komið að betri notum gegn "næstu kynslóðar" árásarvopni stríðspostulans Putins í Kreml en flestir áttu von á. Þetta er betri árangur varnarvopnanna en menn þorðu að vona, enda lét einræðisherrann handtaka 3 vísindamenn, sem tóku þátt í hönnun Dagger-flaugarinnar, og ákæra þá fyrir landráð. Rússneska vísindasamfélagið var ekki beysið fyrir, og vonandi tekst hryðjuverkamanninum í bunkernum að eyðileggja síðasta hvatann til afreka, sem þar kann að hafa leynzt.
Nú lætur hann flytja bæði vígvallarkjarnorkuvopn (tactical nuclear warheads) og gjöreyðingarkjarnorkuvopn (strategic nuclear warheads) til Hvíta-Rússlands. Það er furðuleg ráðstöfun, en sýnir kannski, að hann óttast, hvað gerast mun, ef/þegar þeim verður skotið á loft. Það er þá huggun harmi gegn vestanmegin, að bráðlega verður vissa fyrir því, að allt, sem stríðsglæpamennirnir senda á loft geta Vesturveldin (Úkraína er nú og verður í þeim hópi) skotið umsvifalaust niður. MAD (Mutually Assured Destruction), sem hefur verið skálkaskjól rússnesku herstjórnarinnar, er þess vegna ekki lengur fyrir hendi. Yfirburðir Vesturveldanna í lofti ættu nú að vera öllum augljósir, jafnvel stríðsóðum litlum rússneskum karli í bunkernum sínum.
Framferði rússneska hersins við stærsta kjarnorkuver Evrópu í Zaphorizia í Suður-Úkraínu ætti að hafa fært ollum heim sanninn um, að í Kremlarkastala eru nú við völd hryðjuverkamenn, sem einskis svífast og meta mannslíf einskis annarra en sjálfra sín. Þeir hafa gerzt sekir um það fáheyrða tiltæki að breyta lóð kjarnorkuversins í víghreiður skriðdreka og stórskotaliðs, og þeir hafa skotið á og sprengt upp flutningslínur að orkuverinu. Með þessu leika þeir sér að eldinum, því að án tengingar við stefnkerfið getur verið ekki framleitt raforku, og þá verður kæling kjarnakljúfanna algerlega háð dísilrafstöðvum. Þetta eykur til muna hættuna á ofhitnun kjarnkljúfanna, sem þá bráðna og hættuleg geislun eða jafnvel geislavirkt rykský sleppur út í andrúmsloftið. Svona haga aðeins samvizkulausir glæpamenn sér.
Þann 15. maí 2023 birti Sveinn Gunnar Sveinsson ískyggilega frétt í Morgunblaðinu um mikil ítök Rússa á markaðinum fyrir úranið, sem koma má stýrðri klofnun atóma af stað í og hentar fyrir kjarnorkuver. Þarna opinberast enn sú barnalega trú, sem Vesturveldin höfðu, að Rússum væri treystandi til að eiga við þá viðskipti að siðaðra manna hætti, en nú vita allir, sem vita vilja, að virðing þeirra fyrir gerðum samningum er svipuð og virðing þeirra fyrir mannslífum, þ.e.a.s. engin. Orðum þeirra er ekki treystandi, þeir eru lygnari en Münchausen og sitja á svikráðum við Vesturlönd.
Fréttin var undir fyrirsögninni:
"Uppbygging kjarnorkuvera háð Rússum",
og hófst hún þannig:
"Uppbygging kjarnorkuvera hefur tekið nokkurn kipp á síðustu misserum, og hafa bæði Bandaríkin og svo ýmis ríki Evrópu opnað ný kjarnorkuver og/eða sett upp nýja kjarnaofna við þau ver, sem fyrir voru. Einn helzti vandinn við áframhaldandi uppbyggingu kjarnorkuveranna er þó sá, að kjarnaeldsneytið í ofnana kemur einkum frá Rosatom, rússnesku kjarnorkumálastofnuninni."
Vesturlönd verða að taka þetta skæða vopn úr höndum Rússa, eins og þau losuðu sig við Rússa sem birgja fyrir jarðefnaeldsneyti á einu ári, og aðgerðir eru í gangi með kjarnorkueldsneytið.
"En á sama tíma og Úkraínustríðið hefur fengið flest ríki Evrópu til þess að sniðganga jarðgas- og olíukaup frá Rússum, hefur kjarnorkan aftur komizt í "tízku" sem grænn orkugjafi. Finnar gangsettu t.d. í síðasta mánuði stærsta kjarnaofn Evrópu, og á verið að sinna um 1/3 af orkuþörf Finnlands.
Þá tilkynntu Pólverjar í nóvember [2022], að þeir ætluðu að reisa sitt fyrsta kjarnorkuver í samstarfi við bandaríska orkufyrirtækið Westinghouse Electric, og hyggst fyrirtækið smíða 3 kjarnaofna. Mun verkefnið kosta um mrdUSD 20 eða sem nemur um mrdISK 2775.
Stjórnvöld í Búlgaríu hafa sömuleiðis gert samkomulag við Westinghouse um kaup á kjarnaeldsneyti og um byggingu nýrra kjarnaofna. Þá eru stjórnvöld í Slóvakíu og Ungverjalandi einnig að huga að uppbyggingu, svo [að] nokkur dæmi séu nefnd.
Vandinn er hins vegar sá, að framleiðslugeta Vesturlanda á kjarnaeldsneyti er ekki næg til að mæta þessari uppbyggingu, og áætlað er, að það geti tekið allt að áratug áður en hún verður það. Þess í stað er treyst á eldsneyti frá rússnesku kjarnorkumálastofnuninni, Rosatom."
Bómullarpólitíkusar Evrópu og Bandaríkjanna töldu sér trú um það til hægðarauka án þess að gefa gaum að ýmsum hættumerkjum, sem m.a. birtust í hrokakenndum furðuræðum og ritgerðum Putins um mikilleika og sögulegt forystuhlutverk Rússlands í hinum slavneska heimi, að óhætt væri að afhenda Kremlverjum fjöregg Vesturlanda, orkugjafana. Þegar á fyrstu mánuðum hernámstilraunar Rússa á Úkraínu, sem hófst með allsherjar árás 24.02.2022, kom í ljós, að Kremlverjar ætluðu sér alltaf að ná kverkataki á Evrópu sem orkubirgir hennar.
Á fyrstu mánuðum stríðsins, þegar vinglar í áhrifastöðum á Vesturlöndum sýndu dómgreindarleysi sitt með því að draga lappirnar við vopnaafhendingu til Úkraínumanna af ótta við viðbrögð pappírstígrisdýrsins í austri, tóku Búlgarar lofsvert frumkvæði og sendu mikið vopna- og skotfæramagn úr geymslum sínum frá Ráðstjórnartímanum ásamt dísilolíu til Póllands, þaðan sem Úkraínumönnum barst fljótlega þessi aðstoð, sem talin er hafa bjargað þeim á viðkvæmu skeiði stríðsins, en Búlgarar fengu vestræn vopn í staðinn. Þegar Putin frétti af þessu, lét hann skrúfa fyrir jarðgasflutninga frá Rússlandi til Búlgaríu. Þá sneru Búlgarar sér til Bandaríkjamanna, sem brugðust snöfurmannlega við og sendu strax 2 LNG skip fullhlaðin til Búlgaríu. Þetta var gríðarlega mikilvægt fyrir sjálfstraust og baráttuanda Vesturlanda. Evrópa fékk svo að kenna á hinu sama um haustið 2022, en var þá tilbúin og bjargaði sér úr klóm Putins með viðskiptasamningum við Bandaríkjamenn og Persaflóaríki. Það er ekki glóra í að verða háður Rússum um nokkurn skapaðan hlut.
"Í fréttaskýringu bandaríska dagblaðsins Wall Street Journal (WSJ) er þessi sterka staða rússneska kjarnorkuiðnaðarins rakin til samkomulags, sem gert var árið 1993 og kallaðist "Úr megatonnum í megawött". Tilgangur samkomulagsins var að draga úr líkunum á því, að sovézk kjarnorkuvopn mundu falla í rangar hendur, en það fól í sér, að Bandaríkin keyptu 500 t af auðguðu úrani af Rússum og breyttu því í kjarnorkueldsneyti.
Þetta mikla magn af úrani var ígildi um 20 k kjarnaodda, og þótti samkomulagið því [vera] arðbært fyrir bæði Bandaríkjamenn og Rússa, þar sem Rússar fengu fjármagn og Bandaríkjamenn drógu mjög úr fjölda kjarnaodda, sem annars hefðu getað farið á flakk.
Vandinn samkvæmt greiningu WSJ var sá, að hið mikla magn kjarnaeldsneytis, sem nú var komið tiltölulega ódýrt á markaðinn, hafði áhrif á aðra framleiðendur, sem neyddust fljótlega til að rifa seglin. Áður en langt um leið sáu Rússar um nærri helming þess auðgaða úrans, sem var til sölu. Árið 2013 gerði Rosatom svo samkomulag við bandaríska einkaaðila um að veita þeim eldsneyti til kjarnaofna, og sjá Rússar því um allt að fjórðung þess [kjarnorku] eldsneytis, sem Bandaríkin þurfa.
Orkukreppan, sem blossaði upp í kjölfar innrásarinnar í fyrra [2022], ýtti einnig upp verði á kjarnaeldsneyti, og áætlaði Darya Dolzikova hjá brezku varnarmálahugveitunni RUSI nýlega, að bandarísk og evrópsk fyrirtæki hefðu keypt slíkt eldsneyti af Rússum fyrir rúmlega mrdUSD 1 árið 2022, á sama tíma og Vesturlönd drógu stórlega úr kaupum sínum á öðrum rússneskum orkugjöfum."
Hér veitir ekki af að taka hraustlega til hendinni. Vesturlönd verða að verða sjálfum sér næg með auðgað úran, sem hægt er að vinna áfram fyrir kjarnorkuverin á allra næstu árum. Ef takast á að auka umtalsvert hlutdeild rafmagns á markaðinum, sem ekki er framleitt með jarðefnaeldsneyti, verður að fjölga kjarnorkuverum verulega, og þar með mun spurn eftir unnu úrani vaxa. Það er ekki hörgull á því í náttúrunni á Vesturlöndum.
26.5.2023 | 11:20
Vatnaskil í hernaðarsögunni
Rússar og Kínverjar hafa lagt áherzlu á smíði ofurhljóðfrárra (v>5 Mach) eldflauga í þeirri von að ná frumkvæði á Vesturlönd á einu sviði hergagna. Vesturlönd hafa ekki komið sér upp þessum vígtólum, enda kostar stykkið MUSD 10. Vesturlönd hafa hins vegar þróað varnarbúnað, t.d. bandaríska Patriot-kerfið, sem þó hafði ekki fengizt reynsla af gagnvart ofurhljóðfráum eldflaugum fyrr en við varnir Kænugarðs 16.05.2023.
Hvernig fjallar sérfróður blaðamaður Morgunblaðsins, Stefán Gunnar Sveinsson, um þetta ? Það kom fram í Morgunblaðinu 22. maí 2023 undir fyrirsögninni:
"Loftvarnirnar valda kaflaskiptum".
Fréttin hófst þannig:
"Segja má, að kaflaskipti hafi orðið í hernaðarsögunni í síðustu viku, þegar Úkraínumenn náðu að standa af sér 2 af stærstu eldflaugaárásum sögunnar aðfararnótt þriðjudags og miðvikudags [16.-17. maí 2023].
Rússar skutu þá [urmli] eldflauga að Kænugarði, og voru allar skotnar niður eða gerðar óvirkar af loftvarnarkerfum borgarinnar fyrra kvöldið. Var þar um að ræða 18 eld- og stýriflaugar, sem skotið var með stuttu millibili [á um 1/2 klst-innsk. BJo] úr nokkrum mismunandi áttum [úr norðri, austri og suðri - innsk. BJo] á borgina í því skyni, að eldflaugarnar myndu yfirgnæfa [yfirlesta] loftvarnir hennar. Þess í stað var þeim öllum grandað, auk þess sem 9 drónar voru einnig skotnir niður.
Næsta kvöld sendu Rússar 30 stýriflaugar af ýmsum gerðum og 4 dróna á höfuðborgina, og voru 29 af 30 eldflaugum skotnar niður og allir drónarnir 4."
Þarna opinberaðist tæknilegur og hernaðarlegur vanmáttur Rússlands, en stjórnendurnir eru smáir í sniðum og hafa ekki þrek til að viðurkenna ófarir sínar. Það hefur orðið Rússum sérstakt áfall, að ofurhljóðfráar (hypersonic) (v>5 Mach = 6000 km/klst) eldflaugar komust ekki gegnum loftvarnir Úkraínumanna. Shoigu, landvarnarráðherra, hefur séð sína sæng út breidda, því að hann neitaði að viðurkenna hina nýju staðreynd, og Putin lét í bræði sinni handtaka 3 af hönnuðum Dragger (Kinzhal) eldflauganna og ákæra þá fyrir landráð.
Ekki verður það örvandi fyrir rússneska vísindasamfélagið og mun sennilega tryggja áframhaldandi hrörnun þess. Nú er svo komið, að NATO getur skotið niður allt, sem Rússar senda á loft, og þar með má ætla, að skálkaskjól rússnesku mafíunnar í Kreml, MAD, "Mutuallly Assured Destruction", sé ekki lengur fyrir hendi. Vitað er, að rússneski herinn var með í áætlunum sínum að nota vígvallar kjarnorkuvopn, ef NATO tækist að snúa vörn í sókn, í skjóli MAD. Nú eru þessar fyrirætlanir hrundar, og rússneski herinn er ekki til neins.
Hvers vegna héldu Rússar, að vestræn loftvarnakerfi réðu ekki við ofurhljóðfráar eldflaugar ? Það er vegna þess, að við Mach 5 hefur loftið við trjónu eldflaugarinnar orðið plasmakennt, og plasmað dregur í sig allar útvarpsbylgjur, þ.á.m. frá radarbúnaði loftvarnarkerfanna, sem þá greina óvininn of seint, því að t.d. Patriot Pac-3 flaugin fer aðeins á hraðanum Mach-4.
Hvers vegna greindi þá 40 ára gamalt Patriot kerfið við Kænugarð Dragger-flaugarnar rússnesku ? Það er vegna þess, að kerfið var látið breyta tíðni radarsins í átt að innrauða sviðinu þar til það fann Dragger-flaugarnar, sem gefa frá sér gríðarlegan hita. Þessi þróun kom flatt upp á staðnaða Rússa, en það er miklu meira á döfinni en þetta.
Til að girða fyrir, að heimsvaldasinnaðir einræðisherrar geti beitt langdrægum ofurhljóðfráum eldflaugum, sem fljúga mest megnis leiðarinnar á milli heimsálfa á 20 Mach, er Geimþróunarstofnun Bandaríkjanna (US Space Development Agency) að þróa net gervitungla, sem spanna á allan heiminn og búin eru innrauðum hitanemum, sem greina staðsetningarhnit heitra hluta á ferð í þrívíðu rúmi og senda upplýsingarnar til stjórnstöðva loftvarnarkerfa á jörðu niðri. Kerfið heitir "Tranche 1 Tracking Layer" (T1TRK) og á að taka í brúk 2025.
Í lokin skrifaði Stefán Gunnar:
"Þá eru áhrifin [af Kænugarðsafrekinu 16.05.2023] ekki einungis einskorðuð við mögulega heimstyrjöld. Í greiningu Daily Telegraph á þýðingu árásarinnar segir, að eitt af því, sem gæti mögulega fært Rússum aftur frumkvæðið í Úkraínu væri, ef þeir gætu tekið út loftvarnakerfi landsins, svo að flugher Rússa gæti tekið yfirráðin í lofti. Það markmið hefur gjörsamlega mistekizt til þessa allt frá fyrstu dögum innrásarinnar, og nú virðist ljóst, að jafnvel háþróuðustu vopn Rússa munu lítt duga til.
Þá beinir Telegraph sjónum sínum sérstaklega að Xi Jinping og Kínverjum, sem hafa varið miklu til þróunar ofurhljóðfrárra eldflauga á síðustu árum. Er þeim ætlað að takast á við flugmóðurskip Bandaríkjanna, ef til styrjaldar kemur við þau, en einnig gætu [þær] nýtzt til árása á Taívan-eyjuna. Er bent á, að Taívan ráði einnig yfir Patriot-kerfinu, og því muni Xi og hershöfðingjar hans þurfa að íhuga, hvaða áhrif vopn þeirra muni hafa."
Atburðirnir 16. maí 2023, þegar allar 6 ofurhljóðfráu rússnesku eldflaugarnar, sem beint var að skotmörkum í Kænugarði, voru skotnar niður á um hálftíma, gjörbreytir hernaðarstöðunni Vesturveldunum í vil. Þeir gera um leið mun friðvænlegra í heiminum en áður, því að atburðirnir umturna hernaðaráætlunum hinna samspyrtu einræðisríkja í austri, Rússlands og Kína. Þau sjá nú sæng sína út breidda í átökum við Vesturveldin og munu þess vegna ekki dirfast að hefja kjarnorkuárás né annars konar árás. Þau eru nú meðvituð um, að MAD er ekki lengur fyrir hendi, því að Vesturveldin geta skotið allt niður, sem einræðisríkin kunna að senda á loft. Þess vegna er nú orðið friðvænlegra í heiminum, og síðasta hálmstrá Putins, sem hann af hreinni geðveiki hefur hótað að beita í Úkraínu og nota til þess ofurhljóðfráar eldflaugar, eru ekki lengur neinn valkostur fyrir hann í bunkernum, og fælingarmáttur kjarnorkuvopna Rússa og Kínverja er ekki lengur fyrir hendi. Vesturveldin eiga nú alls kostar við einræðisríkin. Svo er árvekni og færni Úkraínumanna við uppsetningu og beitingu hátæknilegs vopnabúnaðar fyrir að þakka. Rússneska ríkjasambandið er með allt niður um sig. Það kom vel á vondan.
20.5.2023 | 14:37
Staðnir að verki
Þann 22. september 2022 sigldi P524 Nymfen, danskt eftirlitsskip, frá Rödbyhavn, litlum hafnarbæ í Danmörku, á slóðir rússnesk-þýzku jarðgaslagnanna Nord Stream 1 og 2 í lögsögu Danmerkur og Svíþjóðar. Samtímis sigldu bandarísk, þýzk og sænsk herskip inn á svæðið og eftirlitsflugvélar frá Svíþjóð og Póllandi sveimuðu yfir ásamt bandarískri eftirlitsþyrlu. Vart hafði orðið við rússnesku skipin, og tortryggni vaknað, því að þau tilkynntu sig ekki og höfðu slökkt á staðsetningarbúnaði sínum.
Danska eftirlitsskipið sigldi fram og til baka á svæði sunnan og austan sprengingastaðar gaslagnanna og staðnæmdist loks. Þessi vestræni liðssafnaður var þarna, af því að hópur rússneskra skipa hafði óvænt sézt þarna og komu flest frá Kaliningrad (Königsberg) án tilkynningar. Eitt rússnesku skipanna, SS-750, hafði smákafbát um borð, sérhannaðan fyrir neðansjávar aðgerðir, jafnvel á hafsbotni.
Ítarleg rannsókn danska blaðsins Information hefur kastað nýju ljósi á tildrög skemmdarverkanna á gaslögnunum. Sænskur rannsakandi, Rússlandssérfræðingur og leyniþjónustusérfræðingur, Joakim von Braun, sagði þetta við Information:
"Þetta er ótrúlega áhugavert. SS-750 er sérútbúinn farkostur, sem er hannaður einmitt fyrir aðgerðir neðansjávar. Þetta eykur trúverðugleika upplýsinga, sem áður hafa komið fram í dagsljósið. Þessi hópur 6 rússneskra skipa er einmitt gerður fyrir aðgerðir, sem þarna áttu sér stað. Það er mjög líklegt, að áhafnir þessara skipa hafi unnið skemmdarverkin á gaslögnunum", segir Joakim von Braun.
"Auðvitað er sameiginleg rannsókn Danmerkur, Svíþjóðar og Þýzkalands á sprengingum Nord Stram gaslagnanna enn í gangi. Enn er ekki ljóst, hvers vegna rannsóknin er svona tímafrek, og hvers vegna ríkisstjórnirnar 3 hafa enn ekki gert nærveru Rússanna á sprengjusvæðinu kunna heiminum. Málsatvik urðu almenningi kunn einvörðungu vegna eftirgrennslunar danska dagblaðsins og kröfu þess um aðgang "að ljósmyndum og myndbandsupptökum af rússneskum skipum, sem teknar voru um borð í P524 Nymfen þann 22. september 2022".
SS-750 sigldi frá Kaliningrad 21. september 2022 með slökkt á AIS-sendibúnaði sínum, sem er auðkenningarbúnaður á hafi úti. Eftir að SS-750 hafði verið yfir Nord Stream 1 og 2 gaslögnunum, fóru þær að leka. Hér er vert að gefa gaum að tímasetningu lekanna. Lekans varð fyrst vart 26. september 2022, degi áður en "Pólland og Noregur opnuðu Eystrasaltslögnina, sem fer um Danmörku og flytur eldsneytisgas frá Norðursjónum" [til Póllands]. Við árslok 2022 var Noregur orðinn gasbirgir Evrópu nr 1 í stað Rússlands. Saksóknari í þessu máli gæti sett fram eftirfarandi tilgátu um málsástæður Rússa:
Rússneskir ráðamenn óttuðust, að norskt eldsneytisgas gæti gert Evrópu óháða Rússum um þetta eldsneyti. Í stað þess að bíða átekta reyndu þeir að ýta Evrópu út í orkukreppu með því að vinna skemmdarverk á Nord Stream 1 og 2. Rússar sökuðu Breta og jafnvel Bandaríkjamenn um skemmdarverkið, en það er ekki snefill af vísbendingum fyrir hendi um, að flugufótur sé fyrir þessum innantómu rússnesku ásökunum.
Einnig heyrðust hjáróma raddir í fjölmiðlum, sem reyndu að klína sök á Úkraínumenn, en þessir ásakendur útskýrðu aldrei, hvernig hópur skemmdarverkamanna gæti komizt inn á tryggilega vaktað svæði óséður, framkvæmt flókna neðansjávar aðgerð og síðan komizt óséður í burtu.
Við vitum núna, að aðeins eitt ríkisvald, hið rússneska, sem ræður yfir nauðsynlegum búnaði, var á umræddu svæði á réttum tíma til að framkvæma þessa flóknu neðansjávar aðgerð. Þessu má jafna við að vera staðinn að verki.
Mikilvægi Nord Stream 1 og 2:
- Nord Stream 1 var fullgerð 2011 og kostaði yfir mrdUSD 15.
- Nord Stream 2 var fullgerð 2021 með dálítið lægri kostnaði en Nord Stream 1, en var aldrei tekin í notkun vegna réttmætrar tortryggni í garð rússneska ríkisins.
- Lagnirnar 2 (báðar tvöfaldar) sáu Evrópu fyrir beinni og áreiðanlegri tengingu við gaslindir Rússlands.
- Nord Stream 1 flutti 35 % af öllu rússnesku gasi til Evrópusambandsins (ESB).
Rússneska ríkisgasfélagið gaf þær upplýsingar, að árið 2020 hefðu heildartekjur þess numið mrdUSD 83. Stór hluti þeirra kom frá Nord Stream 1.
Hvers vegna ættu Rússar að stíga þetta skref ?
Þann 13. júlí 2022 stefndi fyrsti aðstoðar starfsmannastjóri Kremlar, Sergei Kiriyenko, saman rússneskum stjórnmálalegum stefnumótendum. Á fundi þeirra skýrði hann frá því, að Rússland (les Putin, forseti) vildi grafa undan stuðningi Evrópu við Úkraínu með því að einblína á Þýzkaland. Nord Stream 1 og 2 væru megingasæðarnar til Þýzkalands.
Rússneski ríkismiðillinn RT lagði í kjölfarið enga dul á, hvað Rússar hefðu í hyggju: að valda svo alvarlegum eldsneytisgasskorti veturinn eftir, að þýzkt atvinnulíf mundi lamast og fólk krókna úr kulda heima hjá sér. Þetta töldu Putin og hans glæpagengi, að snúa mundi almenningsálitinu Rússum í vil, svo að samsteypustjórnin í Berlín legðist flöt fyrir þeim, en það fór á annan veg. Þetta varð aðeins eitt af mörgum glappaskotum og asnaspörkum Putins.
Í vetrarsókn sinni 2022-2023 gegn Úkraínumönnum, þar sem Rússar gultu afhroð og misstu m.a. lungann af sérsveitum sínum, Spetznaz, áttu hinir síðar nefndu von á, að aðstoð Þjóðverja við Úkraínumenn mundi gufa upp í sárum orkuskorti, en það fór á annan veg. Rússneska glæpagengið í Kreml vanmat Þjóðverja. Hún stórefldist með Leopard 2, Marder, stórskotakerfum, loftvarnakerfum, herflugvélum Austur-þýzka hersins o.fl.
Rússar vissu, að ef þeir lokuðu einfaldlega fyrir gasið, fengju þeir á sig skaðabótakröfur og öflugri viðskiptahömlur. Í staðinn fyrir að verða opinberlega skaðvaldurinn, reyndu þeir að gera sig að fórnarlömbum skemmdarverka Vesturveldanna, en upp komast svik um síðir, og ekkert lát er á stuðningi Evrópu við Úkraínu. Þessar uppljóstranir um ósvífni rússnesku stjórnarinnar og glæpsamlegt eðli hennar mun auka samstöðu Vesturveldanna um hernaðarstuðning, fjárhagssnuðning og siðferðilegan stuðning við Úkraínu.
Dagana eftir skemmdarverkin á gaslögnunum velti BBC fyrir sér áhrifunum á heimsmarkaðsverð eldsneytisgass. 29. september 2022 kom fram á BBC: "Hið háa gasverð kemur niður á fjárhag fjölskyldna vítt og breitt um Evrópu og hækkar framleiðslukostnað fyrirtækja. Þetta gæti valdið hægagangi í hagkerfum Evrópu og hraðað ferðinni yfir í kreppuástand". Þjóðverjar brugðust hins vegar skjótt við haustið 2022, og þá sýndi þýzka stjórnkerfið, hvað í því býr, þegar á hólminn er komið. Settar voru upp í þýzkum höfnum móttökustöðvar fyrir fljótandi eldsneytisgas, LPG, á mettíma og samið við birgja við Persaflóann og í Bandaríkjunum um afhendingu veturinn 2023 á LPG. Veturinn var mildur, fyrirtæki og heimili spöruðu, svo að enginn skortur varð á gasi, og verðið lækkaði aftur. Nú skiptir Rússland engu máli fyrir kola-, olíu- og gasforða Evrópu. Þjóðverjar sýndu þarna gamalkunna snerpu og sneru á Rússana. Þeir eru nú teknir að auka hergagnaframleiðslu sína og munu taka forystu fyrir lýðræðisríkjum Evrópu í baráttu þeirra við árásargjarna klíkuna í Kreml.
Hvers vegna er rannsókn á Nord Stream sprengingunum mikilvæg ?
Afstaða almennings til stríðsátaka skiptir höfuðmáli. Upplýsingastríð er háð til að sá fræjum efasemda í huga almennings. Stuðningur Vesturveldanna við Úkraínumenn, sem berjast við ofurefli liðs fyrir frelsi og fullveldi lands síns og lýðræðislegum stjórnarháttum þar gegn rússneskum kúgurum, sem einskis svífast og stunda þjóðarmorð í Úkraínu. Fyrir vikið verður Úkraína brátt tæk í NATO og ESB, en Rússneska sambandsríkið mun lenda á ruslahaugum sögunnar. Rússland var undir járnhæl Mongóla frá 1237 og í um 330 ár. Af þessum sökum varð ekki sams konar þróun í átt til valddreifingar og þingræðis í Rússlandi og í Evrópu. Í Rússlandi var zarinn einráður, og sama viðhorf ríkir til valdsins enn á okkar dögum. Þetta stendur Rússum fyrir þrifum, og þjóðin er heilaþvegin af megnum áróðri á flestum miðlum.
GRU, leyniþjónusta rússneska hersins, vinnur markvisst að því að sá tortryggni á milli Bandamanna. Nagdýrin geta nagað stuðninginn við Úkraínu með því að sá misskilningi um fyrirætlanir stríðsaðila. Rússnesk stjórnvöld ásökuðu Stóra-Bretland beint fyrir Nord Stream sprengingarnar, og Putin-moldvörpur í vestri reyndu að klína sökinni á Bandaríkjamenn og/eða Úkraínumenn. Sú rannsókn, sem hér er lýst, mun gera Putin-moldvörpur að gjalti. Þær hafa snúið öllu á haus og burðazt við að gera Putin að fórnarlambinu í þessu stríði, á meðan hann fyrirskipaði innrásina í Úkraínu 24. febrúar 2022 og ber höfuðábyrgðina með sama hætti og Adolf Hitler fyrirskipaði Wehrmacht að ráðast inn í Pólland 1. september 1939 í kjölfar friðarsáttmála við Sovétríkin, sem réðust á Pólland um 3 vikum síðar. Það liggur svipuð hugmyndafræði að baki hjá Hitler og Putin. Í stað hins aríska kynstofns hjá Hitler er kominn hinn rússneski heimur hjá Putin.
Stórir vestrænir miðlar hafa flestir hundsað stórfrétt danska dagblaðsins Information, á meðan moldvörpur Putins á Vesturlöndum hafa einfaldlega hætt að fjalla um Nord Stream sprengingarnar. Ef/þegar téð fjölþjóða rannsókn leiðir fram málsatvik, sem negla niður þann grunaða á líkum, sem hafnar eru yfir skynsamlegan vafa, mun sá grunaði gjalda verknaðar síns, hversu langan tíma, sem það mun svo taka. Rússland hefur þegar goldið lagnasprenginganna, og tapið út af þeim það mun halda áfram um langa framtíð eftir lok rannsóknarinnar. Úkraína sem bandamaður Vesturveldanna í NATO og ESB getur í náinni framtíð séð Evrópu fyrir jarðgasþörf hennar.
Afleiðingarnar:
Til að vega upp á móti því að hafa glatað evrópska markaðinum, sem nam 80 % af útflutningi gasrisans Gazproms, horfir fyrirtækið nú til Kína. Putin reyndi örvæntingarfullur að fá kínverska forsetann, Xi Jinping, til að undirrita samning um gaslögn frá Síberíu til Kína í heimsón Xis til Moskvu í apríl 2023. Á blaðamannafundi talaði Putin, eins og samningurinn væri í höfn, en Kínverjar hafa ekki sagt annað um verkefnið en þeir myndu rýna það. Putin er rúinn trausti alls staðar. Kínverjar hyggja á að endurheimta kínversk landsvæði í austurhluta Rússneska ríkjasambandsins. Vladivostok var áður kínversk borg.
Í ákafa sínum að demba Evrópumönnum ofan í pytt orkukreppu rétt fyrir veturinn 2022-2023 gæti Putin hafa skemmt fyrir viðskiptatækifærum, sem margra mrdUSD gaslagnir til Kína hefðu í för með sér fyrir Rússland. Hver er tilbúinn til að hætta fé sínu í samstarfi við hryðjuverkamann ? Að sjá Kína fyrir gasi var eina undankomuleið hans eftir að hafa glatað öllu viðskiptatrausti hinna vel stæðu Evrópumanna.
Í framtíðinni mun sérhver kaupandi rússneskrar vöru hafa örlög Nord Stream í huga og þar með skilja, hvers konar fantatökum Rússar eru tilbúnir að beita viðskiptavini sína, ef þeir telja, að slík fantabrögð þjóni hagsmunum þeirra sjálfra. Sérhver viðskiptasamningur við Rússa verður gerður í skugga neðansjávar sprenginganna við Danmörku. Rússland mun aldrei komast hjá hinni óttalegu spurningu, "hversu háan afslátt" rússneski birgirinn sé reiðubúinn að veita í ljósi reynslunnar af orkuviðskiptunum við Rússa, og ekkert land mun af fúsum og frjálsum vilja gera Rússland að meginbirgi sínum á neinu sviði. Valdhafarnir í Kreml hafa með framferði sínu 2022-2023 eytt öllu trausti, sem alltaf hefur verið grundvöllur viðskipta á milli siðaðra manna.
17.5.2023 | 11:06
Mun meiri reynsla er í Færeyjum af vindknúnum rafölum en hér
Af því, sem "vindspekúlantar" hafa látið frá sér fara hérlendis, má ráða, að tæknileg þekking þeirra á vindmyllurekstri og þeim erfiðleikum, sem slíks rekstrar bíður á Íslandi vegna harðhnjóskulegs veðurfars, sé af skornum skammti. Látið hefur verið í veðri vaka, að rekstrarsaga tveggja vindknúinna rafala á Hafinu ofan Búrfells gefi fyrirheit um hnökralítinn rekstur hundraða stærri súlna með þremur spöðum og rafala efst. Hvers vegna entust þá 2 slíkir rafalar í Þykkvabænum svo stutt ? Rekstrarlegur viðvaningsháttur "spekúlantanna" skín í gegn. Nú hafa birzt fróðlegar rekstrarsögur frá Færeyjum.
Helgi Bjarnason færði okkur frétt af rekstrarreynslu Færeyinga af téðum orkumannvirkjum í Morgunblaðinu 27. marz 2023 undir lýsandi fyrirsögn:
"Vindmyllur bila oft í Færeyjum".
Hún hófst þannig:
"Erfiðleikar hafa verið í rekstri vindrafstöðva í Færeyjum. Þær hafa bilað oft á ákveðnum svæðum, og svo dýrt er að gera við þær, að það kostar í sumum tilvikum meira en að kaupa nýjar. Sérstaklega rammt kvað að þessu í óveðri, sem gekk yfir Færeyjar í byrjun febrúar [2023]. Þá biluðu margar myllur. Samkvæmt frétt í sjónvarpi Færeyinga virðist einhver hönnunargalli vera í túrbínunum, en einnig kann salt og rakt loft að hafa átt þátt í, að þær stöðvuðust."
Það er hrottalegt, ef hönnunargalli birtist í fjöldaframleiddum hlutum, sem setja á upp í miklum fjölda víðs vegar um heiminn. Öllu líklegra er, að hönnunarforsendur þeirra hafi ekki tekið tillit til þeirra öfgafullu veðurfarsskilyrða, sem oft ríkja á Norður-Atlantshafi með öllum þeim lægðum, sem þar ganga yfir, eins og ýjað er að í fréttinni. Á Íslandi getur salt borizt alla leið upp í Sigölduvirkjun í hvössum SV-áttum.
Engir staðir á Íslandi eru óhultir fyrir óveðrum einhvern tíma ársins, og svipuðu máli gegnir um seltuna. Það verður þess vegna annaðhvort að fjárfesta í svo rammgerðum búnaði, að hann standist a.m.k. s.k. 50 ára veður (kemur tvisvar á öld samkvæmt tölfræðinni), eða að kosta upp á háan rekstrarkostnað vegna tíðra og mikilla viðgerða og jafnvel að greiða sektir fyrir að standa ekki í skilum með umsamið afl og/eða orku.
Hvort tveggja mun hækka vinnslukostnað raforku með vindknúnum rafölum umfram það, sem "spekúlantar" reikna með. Þetta kann að gera þessa raforkuvinnslu algerlega ósamkeppnisfæra á Íslandi, nema á tímum alvarlegs raforkuskorts í landinu, eins og nú stefnir í. Er verið að búa til rétta umhverfið fyrir þessa dýru vinnsluaðferð raforku á Íslandi með því að draga endalaust á langinn að hefja annars konar orkuframkvæmdir af einhverju viti (vatnsafl, jarðgufa) ?
Nú er eins og forráðamenn hitaveitna landsins séu að vakna upp við vondan draum um að afla þurfi meira heits vatns eftir um 20 ára doða á þeim vettvangi, og auðvitað kom orkuráðherrann af fjöllum, eins og fyrri daginn, og hafði sjaldan orðið jafnhissa. Þá heyrast nú raddir um, að viðbótar vatnsöflun sé svo dýr, að fá verði styrk til hitavatnsleitar og -öflunar. Hvers konar ræfildómur er þetta eiginlega í orkugeira nútímans ? Öðru vísi mér áður brá. Þá riðu kempur á vaðið og rifu upp ein orkuskipti með hitaveituvæðingu, virkjunum og flutningslínum um allt land.
Sú snargalna afstaða Samfylkingarinnar í Reykjavík, að Orkuveita Reykjavíkur eigi að þjóna sem mjólkurkýr borgasjóðs, er skammgóður vermir. Þar með meig Samfylkinginn í skóinn sinn. Varminn frá þeirri athöfn er kulnaður, því að eftir leiðréttingu á borgarbókhaldinu kom í ljós, að framlegð borgarinnar 2022 var neikvæð, sem þýðir, að rekstur hennar skilar minna en engu upp í fjárfestingar og fastan kostnað hennar. Þetta er ömurlegri vitnisburður um fjármálaóstjórn Samfylkingarinnar en nokkurn hafði órað fyrir. Þarna er komin skýringin á því, að markaðurinn treystir sér ekki til að lána borginni meira fé með eðlilegum hætti. Væntanlegur Framsóknarborgarstjóri, sem fórnaði flugvellinum í Vatnsmýri fyrir vegtylluna, verður undir eftirliti tilsjónarmanns ríkisins með fjárreiðum greiðsluþrota höfuðborgar. Spilling Samfylkingar verður alls staðar dýr, þar sem henni er treyst fyrir stjórnartaumum. Þess vegna ætti enginn að láta blekkjast af fagurgalanum.
14.5.2023 | 11:13
Strandkapteinn hverfur frá borði
Reykvíkingum og landsmönnum öðrum má vera ljóst, að fjármálamarkaðurinn er hættur að treysta því, að Reykjavíkurborg geti staðið í skilum með fjárhagslegar skuldbindingar sínar. Að lána höfuðborg landsins undir stjórn Samfylkingarborgarstjóra er að taka áhættu með stórfelldar afskriftir lána. Fjármál borgarinnar hafa tekið allt aðra stefnu en fjármál tveggja næstu sveitarfélaganna að stærð, Kópavogs og Hafnarfjarðar, enda eru bæjarstjórar þar sjálfstæðismenn og fylgja þar af leiðandi sjálfbærri fjármálastefnu, en hjá meirihluta borgarstjórnar rekur allt á reiðanum, stjórnkerfið lamað, óreiðan alger og ráðleysið sömuleiðis. Þar fer höfuðlaus her.
Það er þó ekki nóg með þessa ömurlegu stöðu, heldur hafa heybrækurnar í meirihlutanum, sem leiddur hefur verið lengi af Samfylkingunni, ekki enn þá mannað sig upp í að greina borgarbúum satt og rétt frá stöðunni. Borgarstjóri stingur höfðinu í sandinn við óþægilega atburði eins og að fá alvarlegar athugasemdir frá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga og talar um "rútínubréf". Það eru ill örlög Reykvíkinga að þurfa að lúta stjórn svo dáðlauss borgarstjóra. Þar er alger "gúmmíkarl" á ferð, og hætt er við, að á landsvísu sé staðan engu skárri hjá Samfylkingunni. Þar vantar hryggjarstykkið.
Það, sem heyrzt hefur frá borgarstjóra, er, eins og vænta mátti, að kenna öðrum um. Hann kennir verðbólgunni um og kostnaði við fatlaða. Þegar frammistaða borgarinnar er borin saman við næstu sveitarfélög í stærðarröðinni, fellur þessi hráskinnaleikur Samfylkingarborgarstjórans um sjálfan sig. Ef frammistöðuvísitölur eru settar á 100 árið 2014 og þær kannaðar árið 2022, sést, að vísitala skulda A-hluta borgarsjóðs hafði hækkað í 194, bæjarsjóðs Kópavogs í 107 og bæjarsjóðs Hafnarfjarðar í 109. Sú síðast nefnda hafði lækkað síðan 2020.
Vísitala skulda á hvern íbúa Reykjavíkur hefur farið stöðugt hækkandi og var 169 árið 2022, en hún hefur lækkað í Kópavogi í 89 í Hafnarfirði í 98. Þessi seinni vísitala sýnir, að fjármál Reykjavíkur eru ósjálfbær - stjórnlaus, en í báðum hinum bæjarfélögunum er þeim stjórnað í æskilegan farveg.
Umfjöllun Viðskipta Moggans 12.04.2023 sýndi svart á hvítu, að markaðurinn er búinn að gera sér grein fyrir þessu og hefur afskrifað Reykjavíkurborg sem traustvekjandi skuldara. Þegar lánalínur borgarinnar í bönkum verða upp urnar, mun styttast mjög í greiðsluþrot borgarinnar, og henni verður þá væntanlega skipaður tilsjónarmaður. Um svipað leyti mun strandkapteinn Samfylkingarinnar hverfa frá borði, enda verri en enginn, þegar á reynir.
"Viðmælendur ViðskiptaMoggans telja auðsýnt, að ástæða þess, að borgin hefur nú í tvígang fallið frá útboði, sé, að ekkert bendi til þess, að eftirspurn eða kjör á markaði hafi batnað, frá því [að] borgin greip því sem næst í tómt á markaði í síðasta útboði. Ætla megi, að vænt áhugaleysi á fyrirhugaðri útgáfu myndi reynast borginni niðurlægjandi, enda felist í því ákveðið vantraust á fjárhagsstöðu hennar og greiðslugetu. Síðasta skuldabréfaútboð Reykjavíkurborgar fór fram í febrúar [2023], en þá reyndist eftirspurn dræm, og þau kjör, sem buðust, þóttu síður en svo gæfuleg."
Þetta þýðir í raun, að skuldabyrði borgarinnar er orðin henni ofviða. Veltufé frá rekstri er of lítið, til að hún geti staðið undir fjárhagsskuldbindingum sínum, og þá reynir hún að fleyta sér áfram á lánum. Hvers vegna ? Bíður Samfylkingarfólkið og meðreiðarpakkið eftir kraftaverki til að komast hjá þeirri niðurlægingu, að Samfylkingin verði dæmd í sögunni sem sá stjórnmálaflokkur, sem rústaði stjórnkerfi borgarinnar, kom þar að getulitlum og sérlunduðum pólitískum silkihúfum og hefur nú keyrt höfuðborg landsins í fjárhagslegt þrot ?
Það má vissulega segja, að nú sé hún Snorrabúð stekkur, því að fyrir um 30 árum, áður en ruglið hófst í borgarstjórn, stóð fjárhagur borgarinnar í blóma, þar var mikið framkvæmt, og borgin var eftirsótt starfsstöð fyrirtækja og sem sveitarfélag til að stofna heimili í og búa í. Allt ber þetta stjórnarháttum Samfylkingarinnar ömurlegt vitni. Fyrir þá á hún flengingu skilda frá kjósendum. Svona gera menn ekki.
Borgin hyggst á fyrri hluta 2023 fá lánveitendur til að lána sér mrdISK 21 bæði með skuldabréfaútgáfu og bankalánum. Á þetta fé að fara í arðbærar framkvæmdir eða til að borga vexti og afborganir lána, sem eru ódýrari en það, sem borginni býðst nú ? Það er engin leið að sjá, að nokkur glóra sé í að íþyngja borgarsjóði æ meir. Hann er nú þegar ósjálfbær. Stöðva verður skuldasöfnunina. Samfylkingin hefur stefnt fjárhag borgarinnar í slíkar ógöngur, að hún verður nauðug viljug að selja eignir til að létta á skuldabagganum. Hvað skyldi verða fyrir valinu ? Orkuveita Reykjavíkur ?
8.5.2023 | 10:01
Samfylkingin sinnir almannahagsmunum með ömurlegum hætti
Segja má, að víðast hvar á landinu, þar sem brölt Samfylkingarinnar hefur skilað liðsmönnum hennar í stjórnunaraðstöðu, hafi hagsmunamál almennings í byggðarlaginu þróazt mjög til verri vegar og fjármálin snarazt undir kvið drógarinnar. Verst og afdrifaríkast er þetta í stærsta sveitarfélaginu, en þar hefur verið rekin sérvizkuleg, raunar fávísleg skipulagsstefna, sukk og svínarí, sem nú virðist ætla að enda með skipbroti og greiðsluþroti borgarsjóðs. Það er saga til næsta bæjar. Í Reykjavík hefur læknir með strútsheilkenni farið með völdin fyrir hönd Samfylkingarinnar í meira en áratug með grafalvarlegum afleiðingum fyrir borgarbúa og landsmenn alla. Þessu ættu landsmenn að gefa gaum, þegar þeir íhuga stuðning við stjórnmálaflokka á landsvísu og staðbundið. Vítin eru til þess að varast þau.
Morgunblaðið hefur gert óstjórninni í Reykjavík rækileg skil í leiðurum, enda þar á bæ kunnáttumenn um málefni Reykjavíkur og fjármál almennt. Einn slíkur leiðari birtist 14. apríl 2023 og hét:
"Afneitun borgarstjóra".
Þar stóð m.a.:
"Því trúir enginn lengur, nema mögulega borgarstjóri sjálfur, sem lætur augljósar staðreyndir og opinberar aðfinnslur sem vind um eyru þjóta. Jafnvel umsögn borgarinnar sjálfrar árið 2020: "Vandinn snýst [...] ekki aðeins um skammtíma fjármögnunarvanda, heldur stefnir í algerlega ósjálfbæran rekstur til margra ára.".
Afleiðingarnar blasa nú við, þó [að] sennilega muni þær reynast enn kaldranalegri við birtingu ársuppgjörs borgarsjóðs undir lok þessa mánaðar [apríl 2023]. Allt bendir til þess, að enn frekar og hraðar hafi sigið á ógæfuhliðina síðustu mánuði.
Skýr vísbending um það kom á þriðjudag [11.04.2023], þegar Reykjavíkurborg læddi út tilkynningu að loknum starfsdegi um, að fyrirvaralaust væri hætt við annað skuldabréfaútboð hennar í röð, en borgin hyggst afla sér mrdISK 21 á fyrri hluta ársins [2023] með þeim hætti. Á því komu engar skýrar skýringar, en augljóst er, að borgin óttaðist, að henni byðust aðeins niðurlægjandi afarkjör. Hversu lengi hún getur afþakkað þau án þess að eiga greiðsluþrot á hættu, er önnur saga."
Nú er öldin önnur en þá er Gaukur bjó á Stöng. Sú var tíðin, að Reykjavíkurborg var orðlögð fyrir góða og trausta fjármálastjórn. Þá stjórnuðu sjálfstæðismenn málefnum hennar, og þá var enginn fíflagangur á ferð á borð við lokun Reykjavíkurflugvallar, þéttingu byggðar, þrengingar gatna, risavaxið strætókerfi staðsett á miðjum núverandi akbrautum, sniðið að útlendum fyrirmyndum við ósambærilegar aðstæður, snjóruðningsviðbúnaður vanbúinn og stjórnlaus (og vitlaus), lóðahörgull og lóðaokur og svo mætti lengi telja. Nú er Samfylkingarfólk í forystu borgarinnar ásamt auðsveipum liðleskjum búið að keyra málefni höfuðborgarinnar gjörsamlega út í eitt fúafen. Þetta flokksafstyrmi, sem segir eitt og gerir annað, talar fjálglega um opna stjórnsýslu, en stundar meiri leyndarhyggju og þöggun umræðu en nokkur annar. Samfylkingarpótintátinn Dagur B. Eggertsson hefur brugðið upp Pótemkíntjöldum kringum fjármál borgarinnar og jafnan látið sem allt sé í himnalagi. Að afneita staðreyndum er einkenni þeirra, sem búnir eru með andvaraleysi og mistökum að klúðra málum og hafa enga burði til að greiða úr þeim. Eftirmæli þessa borgarstjóra Samfylkingarinnar verða ömurleg.
Þetta er ekki pólitískt tuð sjálfstæðismanna, ætlað til að koma höggi á Samfylkinguna. Nei, þetta er dómur markaðarins. Markaðurinn stingur ekki hausnum í sandinn, heldur greinir stöðuna af vandvirkni og kemst að þeirri niðurstöðu, að áhættan við að kaupa skuldabréf af borginni sé meiri en við flest önnur viðskipti hérlendis nú um stundir, og neitar að eiga í þessum viðskiptum, nema gegn niðurlægjandi háu áhættuálagi. Þegar svona er komið, er orðið stutt í lokadóminn yfir starfsháttum Samfylkingarinnar og liðsodda hennar. Vilja menn þetta í landsmálin ?
"Hinar hrollvekjandi staðreyndir málsins birtust með enn eindregnari hætti í bréfi, sem eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga sendi til borgarstjórnar í lok febrúar [2023] vegna fjárhagsáætlunar fyrir 2023, þar sem fram kom, að borgin uppfyllti ekki lágmarksviðmið fyrir A-hluta rekstrar hennar. Þar skeikar miklu.
Fyrir sitt leyti er borgarstjóri enn í afneitun, en í viðtali við mbl.is sagði hann:
"Þetta er bara rútínubréf frá eftirlitsnefndinni."
Þessi orð þarf borgarstjóri að skýra betur og án tafar. Hafa Reykjavíkurborg borizt mörg slík bréf frá eftirlitsnefndinni ?"
Sú tilhneiging borgarstjórans að slá bara hausnum við steininn, þegar hann stendur frammi fyrir krefjandi og jafnvel óþægilegum viðfanfsefnum, fer langt með að útskýra þær ógöngur, sem borgina hefur rekið í. Skútan er í raun stjórnlaus. Þar er enginn "skipper", bara gúmmíkarl á launum hjá borgarbúum án þess að skila neinu, sem ætlast mætti til af honum. Það er stórhættulegt að hafa svona lyddur við stjórnvölinn, en þetta er eftirlæti Samfylkingarinnar.
Engum dettur í hug, að fréttamaðurinn fyrrverandi af RÚV snúi stöðunni hratt við. Það er þó hægt, eins og dæmið frá Árborg 2010 sýnir. Þar höfðu Samfylkingin o.fl vinstri spekingar gengið allt of hratt um gleðinnar dyr, farið óvarlega með fé, svo að sveitarfélagið var komið í klær téðrar eftirlitsnefndar. Sjálfstæðisflokkurinn fékk þá hreinan meirihluta þar og viti menn; hann sneri stöðunni við á einu ári með sársaukafullum aðgerðum, sem voru þó nauðsynlegar.
Aftur gerðist hið sama í Árborg. Það er engu líkara en Samfylkingin megi ekki koma nálægt stjórnvelinum, og aftur hafa sjálfstæðismenn forgöngu um að koma lektunni á réttan kjöl. Þeir vita, að skilningur og heiðarleg upplýsingagjöf til íbúanna er grundvöllur úrbótanna, og þess vegna var haldinn íbúafundur í Árborg til að útskýra stöðuna. Öðru vísi ferst leyndarhyggjuflokkinum Samfylkingunni í Reykjavík, eins og reifað var í téðri forystugrein Morgunblaðsins:
"Í bréfi eftirlitsnefndar kom fram, að fjalla þyrfti um það í borgarstjórn. Þrátt fyrir að umræddir 2 mánuðir verði liðnir 28. apríl [2023], hefur efni þess ekki enn verið tekið á dagskrá borgarstjórnar, en hún kemur saman næsta þriðjudag [18. apríl 2023], svo [að] enn er von."
Það er ekki nóg með, að stefna Samfylkingarinnar leiði til glötunar, heldur eru vinnubrögðin afkáraleg og kolómöguleg. Ekkert hefur í þessum efnum breytzt með tilkomu nýja formannsins beint úr bankanum. Kristrún Frostadóttir, sem nú er í foreldraorlofi, virðist ekki hafa nægt bein í nefinu til að knýja Samfylkjarana til sómasamlegra vinnubragða. Samfylkingarfólkið í borgarstjórn hefur lagt sig í framkróka við að fegra ömurlega fjárhagsstöðu og látið hjá líða í lengstu lög að gæta þeirrar lýðræðislegu skyldu sinnar að ræða fjárhagsstöðuna á hinum rétta opinbera vettvangi, sem er borgarstjórnin. Þar með ljóstar Samfylkingin upp um sitt rétta eðli, sem er leyndarhyggja og hrossakaup á bak við luktar dyr. Tal forsprakkanna um, að flokkurinn vilji hafa allt uppi á borðum og stjórna fyrir opnum tjöldum, er froðusnakk helbert. Það er einkenni spilltra stjórnmálaflokka að reyna að telja kjósendum trú um, að flokkurinn standi fyrir einhver allt önnur gildi en reynslan sýnir, að eru í öndvegi þar. Þannig er það líklega bara pólitískt "trix" hjá nýja formanninum að flíka ekki lengur trúaratriðinu um að halda áfram aðlögunarferlinu fyrir fulla aðild að Evrópusambandinu. Samfylkingunni er ekki unnt að treysta fyrir horn.
2.5.2023 | 18:34
Sjálfstæðismál
Sú ráðagerð ríkisstjórnarinnar að gefa Evrópusambandslöggjöf, sem Alþingi hefur innleitt hér vegna fyrri samþykktar sinnar á EES-samninginum (1993), forgang á landsrétt, mun vissulega hafa djúptækar pólitískar og réttarfarslegar afleiðingar og getur jafnvel haft þau áhrif á þjóðarvitundina, að almenningur fái svipaða tilfinningu og ríkti hér fyrir Heimastjórn 1904, að æðsta valdið í landinu sé erlendis, ekki í Kaupmannahöfn, eins og þá, heldur í höfuðstöðvum ESB í Brüssel. Þetta er óbærileg tilhugsun, ekki sízt fyrir marga sjálfstæðismenn.
Um lagalegu ringulreiðina, sem af þessu mun hljótast, hafa fræðimenn á sviði lögfræði fjallað allítarlega og m.a. verið gerð grein fyrir í https://bjarnijonsson.blog.is/blog/bjarnijonsson/entry/2289692
Um hinar pólitísku afleiðingar er hægt að velta vöngum, en líklegt er, að innan borgaralegu flokkanna vítt og breitt um landið sé mikil óánægja með þessa ráðagerð, svo mikil, að verði frumvarp utanríkisráðherra "keyrt gegnum þingið", muni ýmsir kjósendur flokkanna, sem eru á móti frumvarpinu, leita annað í næstu kosningum og þá þangað, sem andstaðan við málið er einna skýrust.
Skeleggastur á opinberum vettvangi gegn því að innleiða forgang ESB-löggjafar á Íslandi hefur verið varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Kraganum, Arnar Þór Jónsson, lögfræðingur. Hann hefur talað hart gegn þessu á mannamótum og skrifað rökfasta pistla gegn málinu á vefsetri sínu á Moggablogginu. Hann hefur reyndar verið ódeigur við að vara við því, að fullveldið renni smátt og smátt úr greipum okkar vegna veru okkar á Evrópska efnahagssvæðinu - EES og þess ólýðræðislega fyrirkomulags, að þjóðþing landsmanna þurfi að stimpla fyrirferðarmiklar tilskipanir og reglugerðir inn á lagasafn Íslands.
Hvorki íslenzkir embættismenn né þingmenn eiga aðkomu að þessum málum á mótunarstigum þeirra, og í Sameiginlegu EES-nefndinni, þar sem sitja fulltrúar ESB og EFTA og fjalla um mál, sem ESB vill, að EFTA-ríkin á Innri markaðinum lögleiði, hefur íslenzki fulltrúinn ekki látið að sér kveða, sbr 3. orkupakkann. Þarna er þó möguleiki fyrir Ísland að fá tilhliðranir og jafnvel að beita neitunarvaldi, en fremur slöpp hagsmunagæzla utanríkisráðuneytisins hefur verið reglan þarna. Nú er spurning, hvað gerist með koltvíildisgjaldið á flug á milli ESB og Íslands, sem hækka mun farmiðann umtalsvert.
Morgunblaðið hefur tekið einarða afstöðu gegn frumvarpi utanríkisráðherra eftir að hafa vegið kosti þess og galla. Það hefur verið bent á, að einstaklingar gætu hafa hagnazt í einstökum tilvikum, ef þessi forgangsregla EES-réttar hefði verið í gildi, en aðferðarfræðin við þessa innleiðingu er röng, enda gengur hún í bága við stjórnarskrá lýðveldisins.
Morgunblaðið birti frétt um málið 27. marz 2023, reista á tilvitnunum í prófesor Stefán Má Stefánsson, sem blaðið kallar "einn helzta sérfræðing Íslands í Evrópurétti", og í Arnald Hjartarson, aðjunkt við lagadeild HÍ. Ályktun blaðamannsins er, að "réttaröryggi [sé] teflt í tvísýnu með nýrri forgangsreglu":
"Frumvarp utanríkisráðherra til breytingar á lögum um Evrópska efnahagssvæðið er óheppilegt, þar sem sú breyting hefði í för með sér, að lög, sem Alþingi samþykkir í framtíðinni hefðu ekki í öllum tilvikum tilætluð áhrif að mati Stefáns Más Stefánssonar, prófessors, og Arnaldar Hjartarsonar, aðjunkts við Lagadeild HÍ."
Þessi ágalli frumvarpsins er nýr af nálinni í sögu Alþingis og löggjafar þess. Þess vegna verðskuldar frumvarpið einkunnina örverpi (bastarður) og er ótækt með öllu.
"Í dag gildir sú regla, að skýra skuli lög og reglur til samræmis við EES-samninginn, að svo miklu leyti sem við á.
Breytingartillagan felur aftur á móti í sér, að bætt verði við nýju ákvæði, sem kveður á um, að EES-reglur sem lögfestar hafa verið eða innleiddar með stjórnvaldsfyrirmælum, skuli ganga framar öðrum almennum lagaákvæðum, nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað."
Það skortir stjórnlagalegar forsendur fyrir þessari breytingu. Ef starfsfólk utanríkisráðuneytis Íslands er þeirrar skoðunar, að Íslendingum sé ekki vandara um en Norðmönnum að innleiða slíkt forgangsákvæði fyrir ESB-réttinn, þá er það misskilningur. EES-samningurinn var á sinni tíð samþykktur með auknum meirihluta í Stórþinginu, þ.e. meira en 3/4 greiddra atkvæða og 2/3 þingmanna þurftu að mæta til atkvæðagreiðslu hið minnsta. Í Noregi er þess vegna litið svo á, að EES-samningurinn sé æðri venjulegum lögum, þótt hann jafnist ekki á við stjórnarskrána frá Eiðsvöllum 1814.
Engu slíku er til að dreifa hérlendis, og þess vegna verða ráðherrar og þingmenn að gæta vel að sér við að semja lagafrumvörp, að þau brjóti ekki í bága við stjórnarskrá Íslands. Með frumvarpi utanríkisráðherra um forgang ESB-löggjafar í fortíð (?) og framtíð er ráðherrann að leggja til framsal löggjafarvalds til stofnunar, sem Ísland á ekki aðild að. Það er stjórnarskrárbrot. Hortitturinn um, að Alþingi geti ákveðið annað, er ógildur kattarþvottur í þessu samhengi. Hvað sagði Stefán Már við Morgunblaðið ?:
""Það er svolítið hallærislegt að segja, að EES-réttur skuli hafa forgang, en svo er eiginlega ekkert að marka þetta, því [að] Alþingi getur alltaf skipt um skoðun og breytt því eftir á", segir Stefán Már í samtali við Morgunblaðið. "Hér er verið að segja eitthvað, sem er ekki alveg rétt. Við getum ekki lofað forgangi til framtíðar, því [að] þá væri verið að framselja lagasetningarvaldið, og það bryti gegn stjórnarskránni.""
Skýrari getur falleinkunn lagaprófessorsins vart orðið á framlag utanríkisráðherra til þessa máls með örverpi sínu. Ef ráðherrann dregur ekki málið til baka og skýrir lagahliðina út fyrir ESA, verður Alþingi að grípa til sinna ráða til að hindra framgang þess. Það er engin nýlunda, að undirlægjuflokkarnir á Alþingi með Samfylkinguna í fararbroddi vilji samþykkja örverpið. Það sýnir vel innviðina þar á bæ. Stjórnarflokkarnir mega ekki gefa þessu dómgreindarlitla liði "blod på tanden" með því að traðka á Stjórnarskránni.
"Forsenda frumvarpsins virðist sú, að Alþingi muni taka það sérstaklega fram við síðari lagasetningu, ef til stendur að víkja frá eldri reglum EES-réttar, ella verði yngri reglan að víkja fyrir EES-reglunni.
Arnaldur og Stefán telja, að þessi forsenda fái tæpast staðizt, enda geti hæglega komið til þess, að Alþingi setji skýrar lagareglur í framtíðinni í góðri trú um, að þær standist EES-samninginn, en annað komi svo á daginn. Við slíkar aðstæður væri vegið að réttaröryggi borgaranna. "Borgararnir eiga að geta treyst því, sem fram kemur í íslenzkum lögum", segir Stefán Már og bætir við, að regla á borð við þá, sem tillagan boðar, gæti orðið til þess að koma borgaranum í opna skjöldu, þegar hann heldur, að einhver regla gildi, en í ljós kemur svo, að hún samrýmist ekki EES-reglum. "EES-reglurnar eru mjög matskenndar, og það er ekki alltaf greinilegt, hver EES-reglan er af lestri hennar, heldur byggist reglan oft á túlkun þeim megin. Atriði, sem voru óljós í gær, geta svo verið orðin skilyrðislaus eftir viku, ef ESB-dómstóllinn segir það.""
Þetta er hárrétt greining hjá lagaprófessornum, sem sýnir, hversu veikburða hinn lögfræðilegi grundvöllur lagafrumvarps utanríkisráðherra er. Það er vel þekkt í ESB, að dómstóll þess tekur sér víðtækt vald til túlkunar laga í ágreiningsmálum og setur þar með fordæmi. Dómstóllinn jaðrar við að taka sér lagasetningarvald, og þetta hefur m.a. leitt til þess, að "Rauðhempurnar í Karlsruhe" (Stjórnlagadómstóll Þýzkalands) hafa séð sig knúnar til að taka fram, að Þýzkaland hafi sína stjórnarskrá, sem ESB-dómstóllinn hafi ekki leyfi til að brjóta í bága við, þegar Þjóðverjar eigi í hlut.
Að lokum sagði í tilvitnaðri frétt:
"Stefán telur, að skoða ætti lögskýringarreglu EES-samningsins upp á nýtt og athuga, hvort það sé ekki fær önnur lausn hér á landi, sem gangi skemmra. Spurður, hver sé gallinn við núverandi reglu, svarar Stefán Már: "Ég hef ekki sagt, að það sé neinn galli við hana annar en sá, að ESA sættir sig ekki við hana.""
Þarna heyrist í rödd heilbrigðrar skynsemi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 3.5.2023 kl. 11:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.4.2023 | 17:55
Ætla þingmenn að skapa réttarfarslega ringulreið ?
Vanda verður til verka við lagasetningu, en því hefur ekki alltaf verið að heilsa. Nú virðist ætla að keyra um þverbak og veldur því óþörf auðsveipni við samræmingarþörf EES, en ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, telur íslenzka dómsstóla ekki hafa nægilega skýr lagaleg fyrirmæli um að láta ESB-réttinn njóta skýlauss forgangs í tilvikum, þar sem landsréttur, vilji Alþingis, kveður öðru vísi á.
Ef frumvarp utanríkisráðherra, sem eru viðbrögð stjórnvalda við þessari kvörtun ESA, verður leitt í lög, verður Alþingi gert að hálfgerðum ómerkingi, því að frumvarp ráðherrans virðist geta haft afturvirk áhrif á löggerninga, og lög frá Alþingi eftir innleiðingu ESA-kröfunnar, sem sett eru í góðri trú, verður hægt að dæma ómerk, þótt yngri séu og sértækari en sú lagasetning, sem utanríkisráðherra leggur nú til.
Með vissum hætti er verið að slíta í sundur lögin með því að gefa ESB-rétti skýlausan forgang á landsrétt í fortíð og framtíð. Íslendingar hafa áður lent í svipaðri stöðu. Í fyrra skiptið var það áratug eftir samþykkt Gamla sáttmála, Magnús, konungur, lagabætir vildi samræma íslenzka löggjöf, Grágás, við norska löggjöf, með Járnsíðu. Íslendingar sættu sig ekki við þetta, útkoman varð lögbókin Jónsbók, sem Íslendingar mótuðu og sömdu að mestu. Á meðan Ísland er ekki í Evrópusambandinu, hljóta allir ærlegir menn að sjá, að Alþingi Íslendinga verður að eiga síðasta orðið um gildandi lög í landinu. Ef ríkisstjórn VG, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks ætlar ekki að draga frumvarpið til baka, er lágmark, að þjóðin fái að hafa síðasta orðið í þjóðaratkvæðagreiðslu um það.
Þann 24. apríl 2023 birtist í Morgunblaðinu fréttaskýring Karlottu Lífar Sumarliðadóttur um þetta mál undir fyrirsögninni:
"Ný regla hefði töluverð áhrif hér á landi".
Hún hófst þannig:
"Fyrirhuguð EES-forgangsregla er til þess fallin að hafa töluverð áhrif í íslenzkum rétti og réttarframkvæmd heilt yfir, verði hún að lögum.
Þetta er [á] meðal þess, sem fram kemur í grein Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst, framkvæmdastjóra Lagastofnunar HÍ og doktorsnema við Lagadeild Háskóla Íslands, og dr Hafsteins Dans Kristjánssonar, lektors við Lagadeild HÍ."
Hér vara þungavigtarmenn á lagasviðinu með varfærnu orðalagi sínu, sem mikil alvara býr þó undir, við afleiðingum innleiðingar skýlauss forgangsréttar ESB-réttar, bæði núgildandi og með öllum framtíðar breytingum og viðbótum, sem Íslendingar eiga enga aðkomu að á mótunarstigum. Hér er flausturslega að verki verið hjá utanríkisráðuneytinu, og það virðist enga lögfræðilega greiningu hafa viðhaft á þeirri réttarstöðu, sem uppi yrði í landinu eftir samþykkt þessa frumvarps.
Eftir að hafa kynnt sér efni þessa máls virðist höfundi þessa pistils, sem er leikmaður á sviði lögfræði, að téð frumvarp utanríkisráðherra verðskuldi einkunnargjöfina "lagatæknilegt örverpi". Slíkt sættu Íslendingar sig ekki við, nýkomnir undir hans hátign Noregskonung, í kjölfar Gamla sáttmála og fengu sína Jónsbók, sem entist vel og lengi.
"Greinin birtist í vefriti Úlfljóts um helgina [22.-23.04.2023] og ber heitið: "Inntak fyrirhugaðrar EES-forgangsreglu og áhrif hennar í íslenzkum rétti". Hún er skrifuð í tilefni af frumvarpi utanríkisráðherra til breytinga á lögum um EES-samninginn, sem ætlað er að uppfylla kröfur ESA um forgangsáhrif EES-reglna."
Þessi Úlfljótsgrein gefur utanríkismálanefnd Alþingis tilefni til að kalla fræðimennina, sem eru höfundar hennar, á sinn fund og hlýða vandlega á niðurstöður greiningar þeirra á afleiðingum lögfestingar slíks frumvarps, og hvort samþykkt Alþingis á því muni fela í sér stjórnarskrárbrot. Utanríkismálanefnd kann nú þegar að vera á óheillabraut í umfjöllun sinni, og hún verður að staldra við og kynna sér til hlítar, hvað gagnrýnendur frumvarpsins hafa fram að færa, en ekki að hlýða einvörðungu á þá, sem hengja hatt sinn á, að með slíkri lagasetningu sé borgurum hérlendis færður aukinn réttur. Það er augljóslega ekki hin almenna ályktun, sem draga má af frumvarpinu, þótt svo kunni að vera í einstaka tilvikum um hríð.
"Af fyrirhugaðri forgangsreglu leiðir, að sett lög, sem innleiða EES-reglur, ganga ætíð framar ósamrýmanlegum settum lögum, og skiptir þá ekki máli, hvort síðar nefndu lögin eru yngri eða sértækari að því, er segir í greininni. Mun það jafnframt eiga við um samspil laga, sem sett hafa verið fyrir gildistöku forgangsreglunnar til framtíðar litið."
Þetta er ótæk lagasetning þegar af þeirri ástæðu, að hún skapar ringulreið í réttarframkvæmd. Utanríkisráðherra hengir hatt sinn á það ákvæði frumvarpsins, að Alþingi geti hnýtt aftan við lög sín, að þau skuli njóta forgangs í landinu. Við þetta er tvennt að athuga. Það er lítillækkandi og óviðunandi, að rétt kjörið þjóðþing skuli þurfa að hlíta slíkum afarkostum, til að mark sé takandi á gjörðum þess. Í öðru lagi gengur þetta í berhögg við síðari hluta bókunar 35 við EES-samninginn, sem ráðherrann þó vill véla Alþingi til að samþykkja. Þess vegna er ástæða til að spyrja, hvort utanríkisráðuneytið hafi borið þennan hortitt undir ESA. Eftirlitsstofnunin væri komin í andstöðu við sjálfa sig, ef hún telur þennan hortitt í samræmi við stefnu Evrópusambandsins um einsleitni Innri markaðarins.
Alþingi getur engan veginn verið þekkt fyrir að samþykkja lagasetningu, sem framselur endanlega löggjafarvaldið á Íslandi til Brüssel. Það er þyngra en tárum taki, að varaformaður Sjálfstæðisflokksins reki með þessum hætti djúpan fleyg í raðir sjálfstæðismanna. Heggur hún þar enn í sama knérunn, því að hún sem iðnaðarráðherra studdi dyggilega við Guðlaug Þ. Þórðarson, þegar sá hafði forystu um innleiðingu Þriðja áfanga orkulöggjafar Evrópusambandsins á Íslandi.
"Í viðtali við Morgunblaðið í síðasta mánuði [marz 2023] lýsti Stefán Már Stefánsson, prófessor við lagadeild HÍ, áhyggjum af útvíkkun EES-samningsins, og telur hann frumvarp ráðherra ganga of langt. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, utanríkisráðherra, hefur aftur á móti sagt, að hvorki sé vegið að stjórnarskrá né feli frumvarpið í sér framsal á fullveldi."
Þegar margreyndur fræðimaður á sviði laga tjáir sig með þessu móti, ættu minni spámenn á þessu fræðasviði, þótt þeir gegni háum embættum um sinn, ekki að kasta fram öndverðri skoðun án rækilegrar umhugsunar og rökstuðnings. Hortittur á borð við þann í frumvarpinu, sem kveður á um, að Alþingi geti tekið fram, að einstök lög þess hafi forgang, er hvorki gjaldgengur í fullvalda ríki né samræmist hann kröfugerð ESA um bókun 35. Þess vegna felur lagasetning um forgang ESB-löggjafar á landslög í sér gróft framsal Alþingis á löggjafarvaldi sínu, og slíkt er skýlaust stjórnarskrárbrot. Hvernig stendur á því, að varaformaður Sjálfstæðisflokksins er nú svo heillum horfinn að ætla að troða þvílíkum gjörningi ofan í kok þingflokksins og almennra flokksmanna ? Verði málið keyrt alla leið, mun það hafa í för með sér alvarlegar og þungbærar meltingartruflanir fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Flokksmenn um allt land ættu að láta þingmenn sína heyra sína skoðun á þessu, því að hér er stórmál á ferð.
"Í grein Friðriks Árna og Hafsteins Dans eru færð rök fyrir því, að verði forgangsreglan að lögum, muni einstaklingar og lögaðilar njóta ríkari möguleika en áður til að höfða mál fyrir íslenzkum dómstólum og byggja málatilbúnað sinn á því, að íslenzk lagaákvæði skuli víkja fyrir ákvæðum EES-samningsins og öðrum innleiddum EES-reglum að réttarfarsskilyrðum uppfylltum.
Að sama skapi verði íslenzkum dómstólum skylt að ljá innleiddum EES-reglum aukið vægi í dómsúrlausnum andspænis ósamrýmanlegum settum lögum, sem munu þá víkja fyrir hinum fyrr nefndu á grundvelli forgangsreglunnar, nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað í síðar nefndu lögunum."
Íslenzkt réttarfar yrði mjög einkennilegt eftir innleiðingu téðrar forgangsreglu með innlenda löggjafann svífandi í lausu lofti og lagasetningar, sem hægt væri að ómerkja af minnsta tilefni. Þetta ástand yrði óbærilegt fyrir sjálfstæða þjóð, og hér yrði svipað ástand og var, þegar lagafyrirmæli komu frá kóngsa í Kaupmannahöfn. Það tekur svo af öll tvímæli um, að forgangsregla þessi felur í sér stjórnarskrárbrot, að Íslendingar hafa sjálfir alls enga aðkomu að samningu og/eða setningu þessara laga á vettvangi Evrópusambandsins. Klíni Alþingi hortitti um forgang einstaka lagasetningar aftan við lögin, mun ESA vísast fetta fingur út í það, enda klárlega verra brot í augum ESA/ESB en núverandi fyrirkomulag. Alþingi verður að fella þetta ótæka og óþinglega frumvarp í atkvæðagreiðslu, ef utanríkisráðherra hefur ekki vit á að draga það til baka. Verði stjórnarliðar handjárnaðir, mun það vísast hafa alvarlegar flokkslegar afleiðingar.
Í fréttaskýringunni var réttaróvissan vegna forgangsreglunnar útskýrð. Eitt dæmi um stórhættulegar afleiðingar forgangsreglunnar er lagasetning ESB um ríkisábyrgð bankareikninga. Í nýju bankahruni kæmist ríkissjóður í greiðsluþrot við innleiðingu laga ESB um þessar ríkisábyrgðir:
"Jákvæðu áhrifin mundu felast í því, að einstaklingar gætu framfylgt réttindum sínum samkvæmt innleiddum EES-reglum með markvissari hætti fyrir íslenzkum dómstólum en þeir geta nú.
Neikvæðu áhrifin gætu birzt í því, að einstaklingar og lögaðilar gætu þurft að sæta því, að lagaregla, sem þeir hafa reitt sig á í lögskiptum sínum innbyrðis eða við stjórnvöld, e.t.v. um langa hríð, væri í dómsmáli eða í framkvæmd stjórnvalda vikið fyrirvaralaust til hliðar á þeirri forsendu, að hún samræmdist ekki réttilega innleiddum EES-reglum."
Þessi staða er varhugaverð, því að hún er líkleg til að grafa undan trausti á réttarfari í landinu og fjölga mjög dómsmálum, sem skapar enn meiri tafir þar en nú er reyndin. Frumvarpið er algerlega vanhugsað.
Að lokum sagði í þessari ágætu fréttaskýringu:
"Í greininni er því einnig velt upp, hvort forgangsreglan geti haft afturvirk áhrif á úrlausn ágreinings, sem kemur til kasta dómstóla eða annars úrskurðaraðila eftir gildistöku hennar, ef ágreiningurinn er sprottinn af málsatvikum, sem áttu sér stað áður en reglan tók gildi.
Færð eru rök fyrir því, að þótt fyrirliggjandi frumvarp hafi ekki að geyma ráðagerð um bein afturvirk réttaráhrif forgangsreglunnar, sé ekki útilokað, að hún geti breytt samspili lagareglna, að því er varðar málsatvik til framtíðar litið, þótt þau tengist lögskiptum, sem stofnað hefur verið til fyrir gildistöku hennar."
Frumvarpið mundi innleiða mikinn vafa og rugling í íslenzkan rétt, ef það yrði að lögum, og slíkt ber að forðast eins og heitan eldinn, enda er slíkt einkenni lélegrar lagasetningar. Frumvarpið er hrákasmíð.