Færsluflokkur: Mannréttindi

Stjórnleti

Fáum blandast hugur um, að óþarfleg lausatök séu á málefnum ríkisins, og ríkið virðist stundum reka á reiðanum vegna útvistunar valda frá stjórnmálamönnum og til ýmissa nefnda, oft s.k. úrskurðarnefnda um embættisfærslu stofnana eða millistykki til að skapa s.k. armslengd frá stjórnmálamönnum.  Þetta er gallað fyrirkomulag, sem útvatnar lýðræðið í landinu og skapar þessum nefndum völd án ábyrgðar, sem aldrei er hollt.  Nefndirnar sjálfar eru dýrar í rekstri, en þó kastar tólfunum, þegar kostnaður af gjörningum þeirra er reiknaður.  Dæmi um hið síðar nefnda er, þegar úrskurðanefnd um málefni hælisleitenda mat Venezúela hættulegt land íbúum sínum.  Þessu sneri nefndin síðar við.  Í Venezúela ríkja sósíalískir stjórnarhættir, sem mörgum íbúanna stafar ógn af.  Stjórnarflokkurinn hefur stórskaddað atvinnuvegi landsins, svo að almenningur þar líður skort.  Ísland getur ekki verið allsherjar griðastaður fyrir alla, sem búa við hörmungar, en við sýndum Úkraínumönnum samstöðu, sem sjálfsögð var, þegar miklu stærri nágranni (í austri) hóf landvinningastríð í anda fornfálegrar nýlendustefnu keisara fyrri tíma.  

Morgunblaðið gerði reiðarekið að umræðuefni í forystugrein 20. marz 2024 undir heitinu:

"Kjörnir fulltrúar í aukahlutverki"

"Það er lítið lýðræði í því [þegar stjórnmálamenn fara á bak við kjósendur sína og svíkja kosningaloforð sín], en ekki bætir úr skák sú ásýnd stjórnleysis eða jafnvel hreint stjórnleysi, sem hlýzt af því, þegar látið er reka á reiðanum af ótta við átök innan ríkisstjónar og treyst á, að "kerfið" leysi vandann einhvern veginn. 

Hvernig getur staðið á því, að ríkisstjórnin steypti sér í slíkar ógöngur ? Hún galopnaði þetta litla land fyrir fólki, sem margt vill ekkert hafa með þá að gera, sem fyrir eru.  Rétt nýkomið er öskrað á þá, sem fyrir eru, eins og þingmenn þekkja öðum betur.  Þá er búið að eyðileggja skólakerfið vegna stjórnlauss innflutnings til landsins.  Vegna hans er tilkynnt, að nú sé nauðsynlegt að tvöfalda stærð ríkisfangelsisins. Ekkert af þessu kom þó á óvart. Af hverju sá ekki það fólk, sem var þó skyldugt til að stjórna með augu sín opin ?

Ungviði okkar á þetta ekki skilið. Allur fjöldinn bíður þess aldrei bætur.  Stór hluti af vegi þess til menntunar við forsvarnlegar aðstæður hefur verið eyðilagður.  Dæmin lágu galopin fyrir allra augum.  Ógöngur Svía, sem ráða illa við sín mál og geta ekki tryggt öryggi þeirra, sem fyrir voru, blasa  við öllum,  sem vilja sjá. Það fólk,  var aldrei spurt. Foreldrar barnanna voru aldrei spurðir. Allur almenningur var ekki spurður.  

Fullyrt er,  að þjóðin hafi "komið sér" í þessar ógöngur, án þess að þing og ríkisstjórn  hafi kynnt nokkrum,  hvað stóð til. Áhugamenn og "álitsgjafar" leiddu ráðamenn fram af brúninni.   Hvernig gat þetta gerzt  ?  Það veit enginn,  hvaða einstaklingar felast í þessum taumlausa innflutningi. "

 

 Hér er talað tæpitungulaust á 11. stundu. Útlendingalögin, sem þessi málaflokkur fylgir, voru samin 2016 af skýjaglópum,  sem ekki vissu,  hvað þeir voru að gera,  og  líklega hefur engan órað fyrir afleiðingunum.Í hópi þessara innflytjenda er margt heiðarlegt og duglegt fólk,  en þarna eru líka svartir sauðir,  sem oflesta hér lögreglu,  dómskerfi og fangelsi.  Sumir eru heilaþvegnir af ofstækisfullum trúarpredikurum,  og þeir eru hér eins og tifandi tímasprengjur,  eins og dæmin sanna annars staðar í Evrópu. Dómsmálaráðherra skilur vandann og vinnur að úrbótum,  en þinginu er illa treystandi í þessum efnum. Það er mikil bót í máli, að nýr, hæfileikaríkur forsætisráðherra er tekinn við völdum á Íslandi.  Hann hefur miklu skarpari sýn á aðalatriði mála en fyrirrennarinn, sem á mikla sök á reiðarekinu, sem Morgunblaðið gerði að umfjöllunarefni.  

"Nýjasta dæmið um stjórnleysið og reiðarekið er í Landsbankanum, þar sem stjórnendur fóru fram með offorsi gegn eigendastefnu og samningi við eigendur.  Bankastjórinn segir, að ríkisstjórninni og almenningi komi málið ekki við.  Bankinn sé ekki ríkisbanki, heldur sé hann banki að verulegu leyti í eigu ríkisins.  Af hverju leyfist þessu fólki að standa uppi í hárinu á fulltrúum fólksins í landinu ?  Það fólk hefur aldrei heyrt þennan bankastjóra nefndan.  Af hverju er þessum bankastjóra með derring gagnvart ríkisstjórninni ekki falið að leita sér starfa annars staðar ?  Það getur ekki verið vandamálið og eflaust slegizt um svona opinberan starfsmann. 

Hugmyndir um armslengd frá ráðherra voru ekki ætlaðar til þess að veita starfsmönnum ríkisfyrirtækja olnbogarými til þess að fara sínu fram.  Það er tímabært, að kjörnir fulltrúar, sem almenningur velur og hafnar reglulega og með beinum hætti, verði aftur í aðalhlutverki á sviði hins opinbera; þeirra á valdið að vera, og þeir þurfa að axla þá ábyrgð.  Almannavaldinu má ekki "útvista"." 

Hegðun bankastjórans og bankaráðsins (stjórnar bankans) er einsdæmi.  Bankastjórinn og ráðið virðast samspyrt um þá skoðun, að kaup Landsbankans á TM sé góð viðskiptahugmynd, en um ekki eru allir á einu máli um, að TM standi undir tilboðsupphæð Landsbankans.  Sú aðferðarfræði að binda tilboðið ekki skilyrði um samþykki Bankasýslunnar er forkastanleg í ljósi þess, að gjörningurinn stríðir augljóslega gegn eigandastefnu bankans, og handhafi langstærsta hlutarins í bankanum var búinn að funda með æðstu stjórnendum bankans um málið og láta í ljós skoðun sína.  

Nú er nýr ráðherra tekinn við fjármála- og efnahagsráðuneytinu og hans bíður að sýna viðbrögð eigandans við framferði bankaráðsins, sem tekur út yfir öll þjófamörk.  Eðlilegt er, að bankaráðið víki, og nýtt bankaráð leiti hófanna um ógildingu tilboðsins án verulegra fjárhagsútláta fyrir bankann og eiganda hans.  

Þetta mál er sýnidæmi um það, hversu óheppilegt það er, að ríkissjóður sé bankaeigandi, svo að ekki sé nú talað um þau ósköp, að hann eigi tryggingafélag vegna bankaeignarinnar.  Vonandi tekst á þessu kjörtímabili að losa um allt eignarhald ríkisins á Íslandsbanka og á næsta kjörtímabili að draga verulega úr eignarhaldi ríkisins í Landsbankanum.  Slíkir gjörningar munu vafalaust bæta stjórnarhættina í þessum fjármálastofnunum og gera ríkissjóði kleift að minnka skuldabyrði sína.  Slíkt gerir hann í stakk búinn að fjárfesta í þörfum og arðsömum innviðum vegna lægri skuldabyrði.  Hér þarf að taka fram, að Borgarlínan er algerlega óarðsöm.  Sala á ríkiseignum er síður en svo verðbólguhvetjandi, en lántökur ríkissjóðs eru það.  

 

 


Enn af rússneska fræðimanninum Yudin

Yudin kveður djúpstæðan klofning vera í rússneska þjóðfélaginu.  Klofning vantar ekki á Vesturlöndum, en hann er annars eðlis:

"Við erum að tala um land með ótrúlega lítið persónulegt traust á milli manna, óhemju lítinn áhuga á pólitík og sérstaklega á pólitískri þátttöku og litla trú á að geta haft áhrif á pólitíkina.  Stríðið er almennt talið koma að utan og ekkert við því að gera.  Þetta getur ekki skapað verulega einingu.  Það skapar ótta, óvissu og angist."

Hann fullyrðir, að þjóðfélaginu megi skipta í þrennt: 

Fyrsti hópurinn - minnihluti 15 % - 20 % - styðja herinn, og aðeins þeirra skoðanir eru leyfðar opinberlega.  Þeir eru í eldri kantinum; eldra fólk, sem aðhyllist þá heimssýn, sem ráðamenn setja fram.  Jafnstórum hópi fólks býður við þessu stríði og líta á það sem grundvallar mistök, sem leiða muni miklar þjáningar yfir Rússland.  Mikill meirihluti fólks er þarna á milli og er í grundvallar atiðum fús til að sætta sig við það, sem henda kann.

Annar þjóðfélagsklofningur er fólginn í tekjuskiptingunni.  Þetta er ekki aðeins stríð þeirra gömlu, heldur líka stríð hinna ríku Rússa.  Þetta er í raun stríð þeirra, sem ekki eiga á hættu að deyja.  Þeir gömlu vilja alls herjar herútboð, en þeir verða undanþegnir, þeir munu senda börnin sín á vígstöðvarnar.  Hið sama á við um tekjuhópana.  Ríkisbubbarnir verða ekki sendir á vígstöðvarnar.  Þeir munu bara senda fátæklingana.  Þessi mismunun skapar gíðarlega þjóðfélagsspennu.  Óánægjunni er ekki hleypt út vegna stríðsins, en er fyrir hendi og getur brotizt út af minnsta tilefni. 

 

Afleiðing af þessu er, að Rússland er deyjandi heimsveldi. 

Það hefur ekkert áhugavert fram að færa fyrir þau landssvæði, sem það hefur hug á að stjórna.  Hið eina, sem er í boði, er hugmyndin um endurreisn Ráðstjórnarríkjanna, sem eru aðeins hugarórar.  Þar er engin siðmenninggarleg verkefni að finna.  Þess vegna virka yfirráð Rússa mjög fráhrindandi á Úkraínumenn og aðrar þjóðir.  Þess vegna er valdbeitingin eina haldreipi Rússa. 

 

Yudin ræður frá samningaviðræðum við Pútín: stríðið snýst um, að Úkraínumenn vilja varðveita fullveldi Úkaínu.  Hugmyndin um að þvinga Úkraínumenn að samningaborðinu er öfgakennd forsjárhyggja.  Hún felur í sér að samþykkja þá sturluðu hugmynd Pútíns, að Úkraína sé ekki fullvalda ríki; að einhver utan Úkraínu setji skilmálana. 

"Í huga Pútíns snýst þetta stríð ekki um Úkraínu.  Þetta stríð er til að endurreisa heimsveldið.  Heimsveldið felur að sjálfsögðu í sér Varsjárbandalags-löndin, arfleifð Stalíns. Þar eð hann gefur ekkert fyrir hlutleysi, ætlar hann ekki að gera þessi lönd hlutlaus, heldur að færa þau aftur á áhrifasvæði Rússlands, gera þau leppa þess. Þar er Austur-Þýzkaland meðtalið.  Þetta þarf þýzka ríkisstjórnin í Berlín að gaumgæfa vel.  Ef hún hefði gert það af einhverju viti, væru Taurus flaugar nú þegar komnar í hendur úkraínska hersins og ráðgjafar (forritarar) Bundeswehr með þeim.  Það er stórhættulegt að reyna að taka á rússneska birninum með silkihönzkum. Ef Rússum tekst ætlunarverk sitt í Úkraínu, láta þeir ekki staðar numið þar.  Moldóvía er greinilega inni í hernaðaráætlun Rússa. 

Pútín á í vandræðum með það hrokafulla og ofbeldishneigða viðhorf sitt, að Úkraína sé ekki til.  Úkraínumenn geta ekki setzt niður með slíkum stjórnvöldum til samningaviðræðna, en gætu náð árangri með næstu stjórnvöldum Rússlands.  Framtíðarsýn Pútíns er óhjákvæmilegt stríð við Vestrið, við NATO.  Hann lítur ekki á það sem valkvætt, sem það er, auðvitað.  Hugarfarið, sem hann hamrar á í Rússlandi, er, að Rússar lifi í heimi án vals. 

Nú er Rússland að rifna, því að spennan av völdum óvinnandi stíðs eykst. Pútín er að missa tökin á héraðsstjórnum Sambandsríkisins. Fyrrverandi Ráðstjórnarlönd eru andstæð Kreml. Kazakhstan hefur kallað innásina í Úkraínu stríðsaðgerð og sent hjálp til Úkraínu.  Moldóvía hefur sótt um aðild að ESB, eins og Úkraína. 

 

    

 


Í tilefni landvinningastríðs í Evrópu í meira en eitt ár nú

Þann 24. febrúar 2022 réðist rússneski herinn inn í Ukraínu úr 3 höfuðáttum, úr norðri, austri og suðri, svo að augljóslega var ætlun Kremlar að ná Kænugarði á sitt vald og að leggja alla Úkraínu undir sig.  Úr norðri og norð-austri var stefnt á Kænugarð, enda er hér um nýlendustríð að ræða.  Því voru Úkraínumenn óviðbúnir, en samt tókst úkraínska hernum að stöðva Rússana í útjaðri Kænugarðs, og minnast menn um 80 km langrar raðar vígtóla, aðallega bryndreka, sem stöðvaðist á leið til Kænugarðs fyrir tilverknað skriðdrekabana Úkraínumanna og skorts Rússahers á vistum, þ.m.t. á eldsneyti. Grátbrosleg sýningarþörf á ógnarmætti, sem fór fyrir lítið.  Hið gegnmorkna Rússaveldi kemst ekki upp úr spillingarfeninu, og setur þess vegna upp Pótemkíntjöld, rétt einu sinni.

Innrás Rússa var tilefnislaus og óréttlætanleg með öllu.  Kremlverjar hafa með þessum gjörningi orðið sér ævarandi til háðungar.  Rússar hafa upp skorið hatur og fyrirlitningu allrar úkraínsku þjóðarinnar, einnig í austurhéruðunum, og á meðal allra slavnesku þjóðanna í Evrópu.  Þeir hafa sýnt af sér grafalvarlega siðferðisbresti með því að taka upp á því að ganga í skrokk á varnarlausum borgurum Úkraínu, þegar sókn þeirra inn í landið mætti harðri mótspyrnu og her þeirra var stöðvaður og hrakinn til baka úr hverju héraðinu á fætur öðru.  Framganga hersins og léleg frammistaða á vígvöllunum, þótt ekki vanti vígtólin og fjöldann í eikennisbúningum, sætir furðu og sýnir, að Kremlverjar hafa gortað af herstyrk, sem er ekki fyrir hendi.  Sennilega var svipað uppi á teninginum á dögum Ráðstjórnarinnar.  Það, sem varð henni til bjargar 1941-1943 var harður vetur og gríðarlegur hergagnaflutningur frá Bandaríkjunum.  

Trúðurinn Medvedev, varaformaður öryggisráðs Rússlands og fyrrverandi forseti og forsætisráðherra, er enn með furðulegar ógnanir gagnvart fyrrum leppríkjum Ráðstjórnarríkjanna.  Nýleg furðuyfirlýsing var á þá leið, að til að skapa frið í Úkraínu þyrfti að ýta pólsku landamærunum til vesturs.  Hann horfði fram hjá þeirri staðreynd, að pólski herinn er nú sá öflugasti í Evrópu, og rússneski herinn mundi ekki hafa roð við honum, ef þeim lysti saman.  Pólland þyrfti enga aðstoð NATO til að ganga frá fúnum og gjörspilltum rússneskum her, sem Úkraínumenn eru nú þegar búnir að draga vígtennurnar úr um tíma.

 

 Þann 24. febrúar 2023 birtist frábær grein í Morgunblaðinu eftir Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands.  Var hún eins og hvítt og svart í samanburði við viðbjóðslegan lygaþvætting, sem birtist í Morgunblaðinu 2 dögum fyrr og sendiherra Rússlands á Íslandi var skrifaður fyrir, en það gæti verið lygi líka, því að um var að ræða ömurlega sjúklega og veruleikafirrta þvælu, sem streymir frá Kreml.  Það er öllu snúið á haus.  Þessi samsuða varð Birni Bjarnasyni, fyrrverandi Alþingismanni og ráðherra, tilefni til þess í vefpistli sínum að krefjast brottrekstrar þessa handbendis hryðjuverkamanna Kremlar af landinu, sem verða sóttir til saka fyrir stríðsglæpi í anda Nürnbergréttarhaldanna, ef/þegar réttlætið nær fram að ganga austur þar.   

Merk grein forsætisráðherra Póllands hófst þannig:

"Fyrir sléttu ári, 24. febrúar 2022, hófu rússnesk stjórnvöld stríðsrekstur sinn gegn Úkraínu og splundruðu þar með þeirri skipan, sem komst á eftir kalda stríðið.  Örygginu og hagsældinni, sem heilu kynslóðirnar í löndum Evrópu höfðu fengið áorkað, var stefnt í mikla hættu.  Rússar hafa hafið landvinningastríð sitt með aðeins eitt markmið í huga: að endurheimta áhrifasvæði Sovétríkjanna fyrrverandi, hvað sem það kostar án nokkurs tillits til fórnarlambanna.  Við verðum að gera allt, sem í okkar valdi stendur til að binda enda á þessa verstu heimspólitísku martröð 21. aldarinnar."  

Stríð eru upplýsandi um styrkleika og veikleika stríðsaðila.  Fyrsta ár þessa stríðs Rússa og Úkraínumanna hefur sýnt, að Rússland er hernaðarlegur og siðferðilegur dvergur og að Úkraína er hernaðarlegur og siðferðislegur risi.  Rússland hefur enga burði til að brjóta undir sig aðra Slava eða nágranna af öðrum uppruna og alls enga siðferðislega burði til að leiða þá og stjórna þeim.  Úkraínumenn hafa sameinazt um að berjast fyrir varðveizlu fullveldis síns og endurheimt alls lands, sem Rússar hafa með dæmalausri frekju, siðleysi, grimmd og yfirgangi lagt undir sig síðan 2014. Þessi "versta heimspólitíska martröð 21. aldarinnar" endar ekki fyrr en Úkraínumenn hafa endurheimt allt landsvæði sitt, svo að landamærin frá 1991 verði aftur virk, og gengið í NATO og Evrópusambandið.  Þar með hafa þeir fengið verðskuldaða stöðu sem sjálfstæð þjóð í samfélagi vestrænna ríkja og eiga sér vonandi glæsta framtíð sem traust lýðræðis- og menningarþjóð í auðugu landi af náttúrunnar hendi, en öll vopn snerust í höndum hins glæpsamlega árásargjarna einræðisherra í Kreml, sem hóf tortímingarstríð gegn sjálfstæðum nágranna og mun hljóta fyrir það makleg málagjöld með öllu sínu hyski. Það er engin framtíð til fyrir rússneska sambandslýðveldið í sinni núverandi mynd.  Það hefur fyrirgert tilverurétti sínum og rotnað innan frá.  Það stendur nú á brauðfótum.  

"Hvernig er staðan núna ?  Við höfum orðið vitni að fáheyrðri grimmd Rússlands í 12 mánuði. Mánuðirnir mörkuðust af reglulegum sprengjuárásum á skóla, sjúkrahús og byggingar óbreyttra borgara.  Þeir mörkuðust ekki af fjölda daga, heldur af fjölda fórnarlamba.  Rússar hafa ekki hlíft neinum og drepið karlmenn, konur, gamalt fólk og börn.  Hópmorðin í Bucha, Irpin og fleiri bæjum færa okkur heim sanninn um, að Rússar hafa framið hryllilega glæpi.  Fjöldagrafir, pyntingaklefar, nauðganir og mannrán - þetta er hin sanna ásjóna árásarstríðs Rússa."  

Rússneski herinn og stjórnendur Rússlands sýna þarna sitt rétta andlit.  Þeir eru siðblindir glæpamenn - fjöldamorðingjar.  Við þá er ekki hægt að gera neina samninga, því að þeir eru algerir ómerkingar - virða ekki nokkurn skapaðan hlut.  Eina færa leiðin er að búa Úkraínumenn sem beztum og mestum vopnum fyrir landhernað og lofthernað gegn innrásarher Rússlands í Úkraínu, svo að hann verði rekinn af löglega viðurkenndu úkraínsku landi sem fyrst.  Þannig má lágmarka blóðtöku úkraínsku þjóðarinnar og skapa grundvöll langvarandi friðar í Evrópu, ef NATO ábyrgist varðveizlu landamæranna.

Þegar nánar er að gáð, þarf ömurleg frammistaða rússneska hersins á vígvöllunum ekki að koma á óvart.  Hún hefur lengi verið þekkt.  Það voru úkraínskir kósakkar, sem brutu rússneska hernum leið í austurátt og lögðu megnið af Síberíu undir zarinn.  Það voru þeir, sem veittu hinum 600 k manna her Frakkakeisarans Napóleóns Bonaparte verstu skráveifurnar í innrásinni í Rússland 1812, einkum á undanhaldinu, enda sluppu aðeins 100 k úr þessari svaðilför Frakkahers. Rússakeisari varð fyrstur Evrópumanna til að tapa bardaga við Asíumenn 1905, þegar Japanir gjörsigruðu rússneska herinn.  Frammistaða rússneska keisarahersins í Fyrri heimsstyrjöld var mjög slök, og samið var um frið við Þjóðverja 1917.

Enn áttust þessar þjóðir við 1941-1945.  Stalín hafði látið flytja hergagnaverksmiðjur austur fyrir flugsvið Luftwaffe, og þar framleiddu Sovétríkin 100 skriðdreka á mánuði, á meðan RAF, brezki flugherinn, sprengdi upp hergagnaverksmiðjur Þriðja ríkisins.  Rússneskir herforingjar voru þá, eins og jafnan fyrr og síðar, meiri slátrarar en útsjónarsamir herstjórnendur.  Þeir sendu hverja bylgju lítt þjálfaðra ungra manna fram á vígvöllinn, eins og nú endurtekur sig í Úkraínustríðinu 2022- ?  Af heildarmannfalli Wehrmacht 1939-1945 varð 80 % á Austurvígstöðvunum, en fallnir hermenn Rauða hersins voru 4-5 sinnum fleiri.  Ætli hlutfallið í Úkraínu núna sé ekki svipað ?  

Bandaríkjamenn sendu svo mikið af vígtólum, skriðdrekum, brynvögnum, jeppum, flugvélum, sprengjuvörpum o.fl. til Sóvétríkjanna á árum Síðari heimsstyrjaldarinnar, að vafalaust hefur létt Sovétmönnum mjög róðurinn, þótt "Úlfarnir" í "die Kriegsmarine" næðu að granda nokkrum flutningaskipum með hergögn.  Andvirði hergagnanna, sem sent var frá BNA til Sovétríkjanna, er talið hafa numið mrdUSD 130 að núvirði.  Þá, eins og nú, réðu sovézkir herforingjar ekki við að beita samhæfðum hernaðaraðgerðum skriðdreka, brynvarinna vagna, fótgönguliðs og flughers, eins og Wehrmacht beitti þó eftir mætti, en skortur á hergögnum og vistum takmarkaði löngum aðgerðir Wehrmacht, og Foringinn greip oft óhönduglega fram fyrir hendur herforingjanna, svo að vægt sé til orða tekið.   

"Strax árið 2008, þegar Rússar réðust inn í Georgíu, gaf Lech Kaczynski, þáverandi forseti Póllands, út þessa viðvörun: "Við vitum mjög vel, að núna er það Georgía, sem er að veði, næst gæti það verið Úkraína, þá Eystrasaltsríkin og síðan e.t.v. landið mitt, Pólland."  Þessi orð rættust fyrr en Evrópuríkin höfðu búizt við.  Sex árum síðar, árið 2014, var Krímskagi innlimaður í Rússland. Núna verðum við vitni að allsherjar árás rússneska hersins á Úkraínu. Hvernig verður framtíðin, ef við stöðvum ekki rússnesku stríðsvélina ?"

Eftir langvinna og sára reynslu af kúgun hins frumstæða austræna valds bera Pólverjar Rússum svo illa söguna, að þeir telja þeim raunverulega ekki treystandi fyrir horn.  Við, sem vestar erum, áttum erfitt með að skilja málflutning Pólverja, en nú sjáum við og skiljum, hvað þeir meintu.  Pólverjar hafa haft rétt fyrir sér um Rússa.  Kremlverjar reka og hafa alltaf rekið harðsvíraða heimsveldisstefnu (e. imperialism), og hana verður einfaldlega að stöðva.  Það átti að gera árið 2008 eða árið 2014, en nú eru einfaldlega síðustu forvöð. Hinn uppivöðslusami einræðisherra Rússlands hefur lagt allt undir, og hann þarf nú að brjóta á bak aftur.  Afleiðingarnar verða ekki geðslegar fyrir Rússa, en það er þeirra vandamál, ekki Vesturlanda. 

Það hefur myndazt augljós öxull Washington-Varsjá.  Pólverjar hafa nú á stuttum tíma pantað hergögn frá BNA fyrir um mrd USD 10.  Bandaríkjaforseti hefur síðan 24.02.2022 heimsótt Varsjá tvisvar, en Berlín og París aldrei.  Valdamiðja ESB og NATO í Evrópu mun færast til austurs í átt að Varsjá, enda stafar meginógnin að NATO frá hinum stríðsóða nágranna austan Úkraínu.  Ef ekki tekst að varðveita landamæri Úkraínu frá 1991, verður þessi ógn enn meiri.  Að láta land af hendi fyrir "frið", er óraunhæft gagnvart landi, sem stjórnað er af yfirvöldum, sem virða enga samninga og brjóta allar reglur í alþjóðlegum samskiptum. 

"Þegar við erum í hundraða km fjarlægð heyrum við ekki sprengjugnýinn, hávaðann í loftvarnaflautunum eða harmagrát foreldra, sem hafa misst barn sitt í sprengjuárás. Við getum þó ekki notað fjarlægðina frá Kænugarði til að friða samvizkuna.  Ég óttast stundum, að á Vesturlöndum sé margt fólk, sem telji það að snæða hádegisverð á eftirlætis veitingastaðnum eða að horfa á þætti á Netflix skipta meira máli en líf og dauða þúsunda Úkraínumanna.  Við getum öll séð stríðið geisa.  Enginn getur haldið því fram, að hann eða hún hafi ekki vitað um hópmorðin í Bucha.  Við verðum öll vitni að grimmdarverkunum, sem rússneski herinn fremur.  Það er þess vegna, sem við megum ekki láta okkur standa á sama.  Heimsvaldaáform rússneskra ráðamanna ná lengra en til Úkraínu.  Þetta stríð skiptir okkur öll máli."

Sú staða er uppi, að vinveittir nágrannar Úkraínu eru flestir í NATO.  Annars hefðu þeir sennilega sumir hverjir farið með heri sína inn í Úkraínu og barizt þar við hlið Úkraínumanna gegn ofureflinu, því að hér er um að ræða stríð einræðis gegn lýðræði, kúgunar gegn frelsi, ógnarstjórn gegn persónulegu öryggi. Baráttan stendur um framtíð Evrópu. Þar af leiðandi er gjörsamlega siðlaust af þeim Evrópumönnum, sem láta sér í léttu rúmi liggja blóðtöku Úkraínumanna, að láta sem ekkert sé eða leggjast gegn hámarksaðstoð við þá. Þá eru ótalin handbendi Rússanna á Vesturlöndum, sem reyna að rugla almenning í ríminu með því að dreifa falsfréttum, sem falla að áróðri Kremlar.  Lítil eru geð guma. 

"Orkukreppan í heiminum og verðbólgan, sem við þurfum öll að glíma við, eiga rætur að rekja til landvinningastríðs rússneskra stjórnvalda.  Herská stefna Pútíns, hvað varðar gasviðskipti í júlí og ágúst 2021, var undanfari innrásarinnar í Úkraínu.  Á þeim tíma leiddi fjárkúgun Pútíns til hækkandi gasverðs á mörkuðum Evrópu.  Þetta var aðeins byrjunin.

Rússnesk stjórnvöld vonuðu, að hnignun orkugeirans myndi veikja Evrópuríkin og telja þau á að skipta sér ekki af stríðinu Úkraínu.  Þegar í upphafi var það liður í baráttuáætlun rússneskra stjórnvalda gegn Vesturlöndum að magna orkukreppuna.  Hernaður Rússa er ein af meginástæðum hækkandi orkuverðs í heiminum.  Við höfum öll mikinn kostnað af þeim ákvörðunum, sem teknar eru í Kreml. Tímabært er, að við skiljum, að Rússar kynda undir efnahagskreppu í heiminum." 

Pólverjar hafa lengi haldið því fram, að Rússar mundu beita orkuvopninu, og þess vegna beittu þeir sér hart á vettvangi ESB og í tvíhliða samskiptum við þýzku ríkisstjórnina gegn samkrulli Þjóðverja og Gazprom um lagningu Nord Stream 2.  Þar voru Pólverjar samstiga bandarísku ríkisstjórninni, en sú þýzka var blinduð af eigin barnaskap um glæpsamlegar fyrirætlanir Kremlar.  Pólverjar sömdu við Norðmenn um afhendingu jarðgass úr gaslindum Norðmanna beint til Póllands, og var sú lögn tekin í notkun um svipað leyti og Nord Stream 2 var sprengd í sundur árið 2022. 

Segja má, að hernaður glæpaklíkunnar gegn Vesturlöndum sé fjórþættur í meginatriðum: Í fyrsta lagi dreifir áróðursvél Kremlar ranghugmyndum og samsæriskenningum til Vesturlanda, sem ætlað er að grafa undan málstað lýðræðisaflanna og sundra þeim.  Enduróm þessa sjúklega þvættings má sjá og heyra á Íslandi, eins og annars staðar, t.d. á ýmsum vefmiðlum, þar sem þeir ráða ferðinni, sem af einhverjum ástæðum eru haldnir sjúklegu hatri á samfélagsgerð Vesturlanda og ímynda sér eitthvert "djúpríki", sem ráði ferðinni.  Hér eru þó ekki taldir með þeir, sem jafnan hafa verið móttækilegir fyrir hatursfullum áróðri gegn "auðvaldinu", en neita að horfast í augu við sára reynslu af því, sem gerist, þegar "auðvaldið" er afhöfðað með einum eða öðrum hætti.  Nýjasta dæmið er Venezúela, sem var ríkasta land Suður-Ameríku áður en sósíalistar innleiddu stefnu sína þar með þeim afleiðingum, að landið er eitt samfellt fátæktarbæli, sem allir flýja frá, sem vettlingi geta valdið.

Í öðru lagi hafa Kremlverjar reynt að valda tjóni og lömun innviða með netárásum.  Þeim hefur ekki sízt verið beitt gegn fyrrverandi leppríkjum Ráðstjórnarríkjanna, og á þeim bar mikið í aðdraganda innrásarinnar í Úkraínu í febrúar 2022.  Þá má ekki gleyma gruni um tilraunir til að hafa áhrif á kosningar með stafrænum hætti, jafnvel í BNA.

Í þriðja lagi er það orkuvopnið, sem Kremlverjar beittu miskunnarlaust, aðallga gegn Evrópumönnum, og ætlað var að lama andstöðu þeirra við löglausa og tilefnislausa innrás Rússahers í nágrannaríkið Úkraínu, sérstaklega þegar kuldinn færi að bíta í lítt upphituðu húsnæði.  Það gerðist ekki af tveimur ástæðum.  Veturinn var óvenju mildur í Evrópu, og það á líka við um Úkraínu, þar sem glæpsamlegar eldflauga- og drónaárásir Rússa á virkjanir, aðveitu- og dreifistöðvar Úkraínumanna ollu oft langvinnu straumleysi og skorti á heitu vatni til upphitunar.  Auknar loftvarnir í Úkraínu, minnkandi eldflauga- og drónaforði Rússa og aðstoð Vesturlanda með neyðarrafstöðvar og viðgerðar efni til handa Úkraínumönnum hafa dregið mjög úr straumleysistíðni og -lengd.  Hin ástæðan er, að Evrópumönnum hefur orðið vel ágengt við að útvega sér eldsneytisgas annars staðar frá, og Þjóðverjar hafa á mettíma komið sér upp einni móttökustöð fyrir fljótandi gas og fleiri eru í uppsetningu. 

Í fjórða lagi hefur stríðsrekstur Rússa í Úkraínu frá 24.02.2022 gengið á afturfótunum.  Þeir hafa misst ógrynni liðs, álíka marga fallna og særða og hófu innrásina (200 k) og gríðarlegt magn hergagna.  Bardagageta landhers og flughers er miklu minni en almennt var búizt við á Vesturlöndum og annars staðar.  Fjölþættar ástæður liggja til þess, að rússneski herinn hefur þarna orðið sér til háborinnar skammar og er að ýmsu leyti í ruslflokki.  Þetta mun hafa langtíma áhrif á stöðu Rússlands í heiminum, sem er að verða eins og mús undir hinum kínverska fjalaketti.  Aðeins gorgeir, þjóðernismont, áróður og hótanir standa eftir. 

"Veikleikar Evrópu hafa verið styrkur Rússlands í nokkur ár.  Það, að Evrópuríki eru háð kolefnaeldsneyti frá Rússlandi, hafa átt vafasöm viðskipti við rússneska ólígarka og gert óskiljanlegar tilslakanir, m.a. varðandi lagningu gasleiðslunnar Nord Stream 2 - allt er þetta til marks um sjúkleg tengsl [á] milli Vesturlanda og Rússlands. Stjórnvöld margra Evrópuríkja töldu, að þau gætu gert alvanalega samninga við stjórnina í Moskvu.  Þeir reyndust þó vera samningur við djöfulinn, þar sem sál Evrópu var lögð að veði."

Það má vel kalla það sjúkleg tengsl, eins og forsætisráðherra Póllands gerir, þegar annar aðilinn telur sig eiga í ærlegum samskiptum um að skapa gagnkvæma hagsmuni með viðskiptum og bæta þannig friðarlíkur í Evrópu, en hinn situr á svikráðum, er ekkert, nema fláræðið, og spinnur upp lygaþvælu um friðarvilja sinn, en ræðst svo á nágranna sína, Georgíu 2008 og Úkraínu (Donbass og Krím 2014) og flytur þá þann óhugnanlega boðskap, sem alltaf lá undir niðri, að hin sjálfstæða og fullvalda þjóð, Úkraínumenn, séu ekki þjóð, heldur af rússneskum meiði og eigi þess vegna að verða hluti af Sambandsríkinu Rússlandi.  Þessi boðskapur er algjör lögleysa og stendst ekki sögulega skoðun, þótt Kremlverjar hafi um aldaraðir kúgað Úkraínumenn og reynt að svelta í hel úkraínska menningu og mál. Á tímum ráðstjórnar bolsévíka reyndu þeir jafnvel að svelta úkraínsku þjóðina í hel.  Sennilega eru frumstæðir Rússar haldnir minnimáttarkennd gagnvart Úkraínumönnum, og það er vel skiljanlegt, því að Úkraínumenn standa þeim framar á fjölmörgum sviðum, eru einfaldlega á hærra menningarstigi, enda einstaklingshyggjumenn frá alda öðli.

"Af þessum sökum er ekki hægt að snúa við og láta, eins og ekkert hafi í skorizt.  Menn geta ekki komið á eðlilegum tengslum við glæpastjórn.  Það er orðið löngu tímabært, að Evrópa verði óháð Rússlandi, einkum í orkumálum. Pólverjar hafa lengi lagt áherzlu á þörfina á að auka fjölbreytni í öflun olíu og jarðgass.  Nýjar leiðir til að afla slíkra afurða skapa ný tækifæri.  Uppræting pútínismans, það að rjúfa öll tengsl við einræðis- og ofbeldisvél Pútíns, er algert skilyrði fyrir fullveldi Evrópu."

Pólski forsætisráðherrann hefur lög að mæla.  Vesturlönd verða að klippa á öll viðskiptasambönd við Rússa og útiloka þá frá þátttöku í fjölþjóðlegum keppnum og viðburðum, á meðan glæpastjórn er blóðug upp að öxlum í Kreml í útrýmingarstríði gegn nágrönnum sínum. Það er alvarlegt íhugunarefni, hvort ástæða er til að samþykkja veru sendiherra slíkrar glæpastjórnar í Reykjavík, sem virðist af málflutningi sínum að dæma (í Morgunblaðsgrein í febrúar 2023) vera álíka forhertur öfugmælasmiður og umbjóðendur hans í Kreml. 

Það er ljóst, að nú fer fram barátta upp á líf og dauða á milli lýðræðis og frelsisafla annars vegar og hins vegar einræðis og kúgunarafla.  Úkraínumenn hafa fyrir löngu tekið af öll tvímæli um, hvorum megin þeir vilja standa.  Þeir hafa verið bólusettir um aldur og ævi gegn öllum vinsamlegum samskiptum við rússneska alræðisríkið.  Það eru nokkur ruddaríki, sem styðja glæpastjórnina í Kreml, og má þar nefna Íran, Norður-Kóreu og Kína.  Kínverjar stunda nú skefjalausa útþenslustefnu á Suður-Kínahafi og vilja útiloka 7 önnur aðliggjandi lönd frá lögsögu þar, sem þau eiga þó fullan rétt á samkvæmt Hafréttarsáttmálanum, og Alþjóðadómstóllinn í Haag hefur staðfest í einu tilviki.  Þessi ríki hafa nú myndað bandalag gegn yfirgangi Kínverja, enda er um mikla hagsmuni að tefla undir botni þessa hafsvæðis.

Japanir hafa í ljósi uppivöðslu einræðisríkjanna Kína og Rússlands tvöfaldað útgjöld sín til hermála 2023 m.v. árið á undan. Þeir munu berjast við hlið Bandaríkjamanna og Tævana, ef einræðisstjórnin í Peking ræðst á land hinna síðast töldu.  Það er ljóst, að viðsjár á milli austurs og vesturs munu fara vaxandi á árinu 2023 áður en friðvænlegra verður aftur eða allt fer í bál og brand.  Það verður að mæta einræðisöflum af fullri hörku.  Annars ganga þau á lagið, eins og dæmin sanna. 

 

 

 


Vinnumálalöggjöfin er barn síns tíma

Furðulegar uppákomur í verkalýðshreyfingunni hafa dregið athyglina að rotnun hennar.  Úrelt löggjöf um vinnumarkaðinn, sem að uppistöðu til er frá krepputíma 4. áratugar 20. aldarinnar, á sinn þátt í þessari hrörnun.  Hluti þessarar löggjafar, eins og sá, er varðar raunverulega aðildarskyldu að stéttarfélagi, er gjörsamlega út úr kú, þegar hann er borinn saman við mannréttindaákvæði samtímans og löggjöf annarra vestrænna landa um sama efni.  Steingervingsháttur vinstri flokkanna hefur hindrað umbætur á þessu sviði, og vitnar hann um afturhaldseðli þessara stjórnmálaflokka og hræsni, því að þeir mega vart vatni halda í hverri viku yfir meintum mannréttindabrotum einhvers staðar í heiminum, einkum hérlendis gagnvart hælisleitendum. 

 Nú reyna nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins að rjúfa stöðnunina á þessu sviði, og er það löngu tímabært, en þeir hafa fengið skít og skömm fyrir frá miðstjórn Alþýðusambands Íslands (ASÍ).  Hvað skyldi bankadrottningin, sem nú hefur tekið við formennsku í  "Jafnaðarflokkinum", hafa um þessa nútímavæðingu hluta af íslenzkri vinnulöggjöf að segja ?  Hætt er við, að þar á bæ hafi bara orðið umbúðaskipti fyrir ímyndina, og að þar sé enn á ferðinni gamalt vín á nýjum belgjum.

Í 2. grein lagafrumvarps sjálfstæðisþingmannanna segir:

"Launamenn og vinnuveitendur skulu hafa rétt til þess að stofna og ganga í þau stéttarfélög, sem þeir kjósa, og eru einungis háðir reglum hlutaðeigandi félaga um inngöngu í það.

Óheimilt er að draga félagsgjald af launamanni eða skrá hann sem félagsmann í stéttarfélag, nema með skýru og ótvíræðu samþykki hans.  Óheimilt er að skylda mann til að ganga í tiltekið stéttarfélag."

Þetta, sem virðist sjálfsagt og eðlilegt á 21. öldinni, líta verkalýðsforingjar á sem aðför að frelsi sínu til að ráðskast með alla á sínu fagsviði og svæði.  Þarna er sem sagt stungið á kýli verkalýðshreyfingarinnar, sem verður að fá að vessa úr, ef þessi hreyfing á að eiga sér viðreisnar von í samtímanum.  Þegar formaður Starfsgreinasambandsins sér sig knúinn til að biðja umbjóðendur sína afsökunar á því í beinni útsendingu sjónvarps, hvað sé að gerast á Alþýðusambandsþingi, þegar þar fór allt í háaloft í haust, er ljóst, að ASÍ hefur rotnað innan frá vegna einokunar verkalýðsfélaganna á vinnumarkaðinum í skjóli löggjafarinnar, sem sjálfstæðismenn vilja nú hleypa hleypa nútímanum að.

Til þess enn frekar að herða á rétti launamanna til félagafrelsis á vinnumarkaði stendur þetta í 3. grein frumvarps sjálfstæðismannanna:

"Vinnuveitanda er óheimilt að synja að synja umsækjanda um laust starf eða segja launamanni upp starfi á grundvelli félagsaðildar hans.

Vinnuveitanda er óheimilt að synja umsækjanda um laust starf eða segja launamanni upp starfi á þeim grundvelli, að hann standi utan félags eða félaga."

Þarna er lögð rík áherzla á, að það séu mannréttindi launamanns að ákveða sjálfur án afskipta atvinnurekandans, hvort hann gangi í stéttarfélag eða ekki.  Þetta er í takti við tíðarandann um einstaklingsfrelsi á Vesturlöndum, og allt annað er arfleifð kommúnisma eða þjóðernisjafnaðarstefnu, sem tröllriðu húsum í Evrópu og víðar á þeim tíma, þegar grunnurinn að núgildandi vinnulöggjöf var mótaður.  Að hanga á þessum forréttindum stéttarfélaga um forgangsrétt stéttarfélagsfélaga að vinnu ber dauðann í sér fyrir vinnumarkaðinn, sérstaklega stéttarfélögin, þar sem félagsáhuginn er lítill sem enginn, og hvatinn til að gæta langtímahagsmuna félagsmanna er hverfandi vegna einokunaraðstöðu verkalýðsfélaganna.  Þess vegna komast valdagráðugir slagorðakjánar til valda í verkalýðsfélögunum, oft á tíðum raunveruleikafirrt fólk með sáralítinn eða engan skilning á gangverki efnahagslífsins, fólk, sem afneitar efnahagslegum og fjárhagslegum staðreyndum, en setur í staðinn fram heimskulegar kenningar og gagnrýni á Seðlabankann, sem ná engri átt og þjóna engan veginn hagsmunum umbjóðenda þeirra, launþeganna. 

Morgunblaðið fjallaði um þetta mál í forystugrein 28.10.2022 undir fyrirsögninni:

 "Félagafrelsi".

Þar var getið um taugaveiklunarkennd viðbrögð fyrsta miðstjórnarfundar ASÍ eftir að þing þess splundraðist af ástæðum, sem nokkra vinnustaðasálfræðinga þarf til að greina, en þeir munu áreiðanlega ekki ráða bót á vandanum, því að hann liggur í því heiftarlega ófrelsi, sem ríkir á vinnumarkaðinum og snertir raunverulega skylduaðild að verkalýðsfélögum.  Hún drepur niður áhugann innan félaganna og greiðir leið furðufugla til valda þar:

"Í gær gerðist það t.a.m., að miðstjórn Alþýðusambands Íslands samþykkti sérstaka ályktun um fyrrgreint frumvarp og lýsti þar yfir "mikilli furðu á framkomnu frumvarpi þingmanna Sjálfstæðisflokksins um félagafrelsi á vinnumarkaði".  Í ályktuninni segir, að verkalýðshreyfingin hafi "engan hug á að láta sérvizku jaðarhóps stjórnmálamanna hafa áhrif á þá kjarnastarfsemi sína" að vinna að bættum kjörum launafólks."

Þessi ályktun miðstjórnarinnar er alveg eins og út úr kú.  Hún er þóttafull einkunnargjöf til hóps þingmanna, sem enginn, nema afneitarar staðreynda í hópi furðufugla verkalýðshreyfingarinnar, hefur komið til hugar að kalla jaðarhóp.  Margur heldur mig sig, enda er vægt til orða tekið, að svartagallsrausarar miðstjórnarinnar séu jaðarhópur á Íslandi samtímans. 

Síðar stóð í téðri forystugrein:

"Þetta er raunar ekki meiri sérvizka en svo, að nánast öll vestræn ríki hafa bannað forgangsréttarákvæði kjarasamninga, enda ganga þau gegn hugmyndum um raunverulegt félagafrelsi.  Eins og Óli Björn Kárason, fyrsti flutningsmaður frumvarpsins, benti á í framsöguræðu sinni á þingi, er markmiðið með frumvarpinu að tryggja, að íslenzkt launafólk búi við sömu réttindi og launafólk í nágrannalöndunum. Frumvarpið er "ekki róttækara en það", eins og hann benti á, og bætti við:"Við erum að tryggja íslenzku launafólki sömu réttindi og launafólk hefur í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og öðrum þeim löndum, sem við viljum gjarnan bera okkur saman við".  

Heiftarleg viðbrögð Alþýðusambands Íslands eru mikið umhugsunarefni og eru enn ein vísbendingin um, að stéttarfélögin eru úr tengslum við félagsmenn sína. Þetta kemur fram í sérhverjum kosningum um forystu í þessum félögum, þar sem þátttaka er jafnan sáralítil, og þetta kemur fram í baráttu þessarar forystu, sem iðulega gengur þvert gegn hagsmunum félagsmannanna." 

Verkalýðshreyfingin er helsjúk, eins og uppnám út af engu á ASÍ-þinginu í haust sýndi, en þar gerðu nokkrar prímadonnur þingið óstarfhæft.  Þessi sýki eða úrkynjun stafar af einokunarstöðu verkalýðsfélaganna á vinnumarkaðinum, sem flutningsmenn téðs frumvarps á Alþingi vilja afnema og færa þar með þennan hluta vinnulöggjafarinnar til nútímahorfs.  Fróðlegt verður að sjá afstöðu Viðreisnar, sem aldrei lætur af skjalli sínu á Evrópusambandinu (ESB), en frumvarp sjálfstæðismannanna er í samræmi við stefnu ESB og aðildarlandanna í þessum efnum.  Þá verður athyglisvert að virða fyrir sér bankadrottninguna, sem nú hefur setzt í hásæti Samfylkingarinnar-Jafnaðarflokks og vill afla sér ímyndar ferskra, nútímalegra strauma í stjórnmálunum.  Er það bara í nösunum á henni ? Verður hún ígildi Tonys Blair, formanns brezka Verkamannaflokksins, fyrir misheppnaða Samfylkingu ?  Þá þarf hún á talsverðu hugrekki að halda.  Hefur hún það ? 

 

  


Mannvonzka og lygar í öndvegi Rússaveldis

Að ganga fram með grimmúðlegu og miskunnarlausu nýlendustríði á hendur fullvalda lýðræðisríki í Evrópu árið 2022 er geðveikislegt, enda er það réttlætt af árásaröflunum með fjarstæðum á borð við upprætingu nazisma, og að fórnarlambið eigi að vera nýlenda "mikilfenglegs Rússlands" af sögulegum ástæðum og með fáránlegum söguskýringum. Þessir atburðir eru svo alvarlegir, að þeir hafa sameinað drjúgan hluta heimsbyggðarinnar undir merkjum Vesturlanda og NATO.  Svíar, sem verið hafa hlutlausir í átökum Evrópu síðan á Napóleónstímanum, og Finnar, sem verið hafa á áhrifasvæði Rússa síðan í lok Síðari heimsstyrjaldarinnar, þegar þeir fengu að kenna á vopnuðum yfirgangi Rússa, hafa nú sótt um NATO-aðild.

Þar með gengur einn öflugasti og nútímalegasti her Evrópu til liðs við varnarbandalag vestrænna þjóða, NATO.  Þetta er högg í andlit Putins og kemur vel á vondan, því að alræðisherra Rússlands hefur framkallað þessa stöðu sjálfur. Nú liggur Kola skagi vel við höggi, og auðvelt er að eyðileggja einu veg- og járnbrautartenginguna á milli Kolaskaga og annarra hluta Rússlands.   

Úkraínumenn berjast nú upp á líf og dauða fyrir hinum góða málstað, þ.e. að fá að lifa í friði, sjálfstæðir í fullvalda ríki sínu, og fá að ráða stjórnarformi sínu sjálfir og þróun efnahagslífsins í þessu auðuga landi frá náttúrunnar hendi, og að fá að velja sjálfir sína bandamenn og nánu samstarfsþjóðir.  Hér er líka um að ræða baráttu lýðræðis og frelsis í heiminum við einræði og illyrmislega kúgun.  Málstaður Rússlands er svo slæmur, að þrátt fyrir stanzlausar áróðurslygar Kremlverja, sem dynja á rússnesku þjóðinni, og þótt  sannleikurinn sé bannaður, virðist baráttuandi rússnesku hermannanna ekki vera upp á marga fiska, sem ásamt innanmeinum og rotinni spillingu í rússneska hernum og þjóðfélaginu í heild, virðist munu gera úkraínska hernum kleift að reka fjandmanninn af höndum sér, vonandi fyrir fullt og allt. 

Olga Dibrova, sendiherra Úkraínu á Íslandi með aðsetri í Helsinki, skrifaði upplýsandi og áhrifamikla grein til Íslendinga, sem birtist í Morgunblaðinu 28. apríl 2022, þegar Rússar höfðu níðzt á úkraínsku þjóðinni með sprengjuregni í rúmlega 2 mánuði.  Þegar þetta er skrifað, er 3 mánuðir voru frá innrásinni, sem lygalaupunum þóknast að kalla "sérstaka hernaðaraðgerð", virðast hrakfarir rússneska hersins á vígvöllunum engan endi ætla að taka og að sama skapi heldur ekki lúalegar og illmannlegar árásir hans á almenna borgara. 

Grein sendiherrans hét:

"Stríðsglæpamönnum skal hvergi látið órefsað".

"Um tveggja mánaða skeið hefur heimsbyggðin mátt horfa upp á miskunnarlaust þjóðarmorð Rússa á úkraínskri jörð.  Mannfórnir rússnesku innrásarinnar eru skelfilegar, og sannarlega aðhafðist þjóð mín ekkert það, er ýta mætti undir þær hörmulegu stríðsaðgerðir.  Konur og börn hafa týnt lífinu, þúsundir óbreyttra borgara hafa mátt flýja heimili sín undan skefjalausu ofbeldi.

Engum dylst, að með aðgerðum sínum í Úkraínu stefna stjórnarherrar Rússlands að því markmiði að eyðileggja úkraínsku þjóðina að einhverju eða öllu leyti.  Að því markmiði er sótt með morðum og skefjalausu ofbeldi gagnvart Úkraínumönnum.  Er þar engu eirt og börn okkar jafnvel nauðungarflutt á rússneskt landsvæði, rúmlega 121 000 börn, eins og staðan er nú, höfum við eftir áreiðanlegum heimildum."

"Sérstök hernaðaraðgerð" Vladimirs Putins, einræðisherra Rússlands, var reist á alröngum forsendum um ímyndaða ógn við Rússland og rússneskumælandi Úkraínumenn og kolröngu herfræðilegu mati rússneska herráðsins. Leiftursókn að Kænugarði misheppnaðist hrapallega, og úkraínski herinn rak illa skipulagðan, og óagaðan Rússaherinn af höndum sér frá Kænugarðssvæðinu, svo að sá undir iljar hans norður til Hvíta-Rússlands og móðurlandsins.  Þaðan var þessi sigraði her fluttur til austurhéraðanna, Luhansk og Donetsk, þar sem hann veldur gríðarlegri  eyðileggingu og drápi á almennum borgurum, bæði rússneskumælandi og úkraínskumælandi. 

Þegar herstyrkur úkraínska hersins verður orðinn nægur til sóknar eftir vopnaflutninga Bandaríkjamanna og Breta að landamærum Úkraínu, bíður Spetsnaz og nýliðanna úr Rússaher ekkert annað en flótti heim til móður Rússlands.  Á 3 mánaða afmæli ofbeldisins bárust af því fréttir, að sérsveitirnar, Spetsnaz, hefðu óhlýðnast fyrirmælum yfirmanna um að sækja fram, því að loftvarnir væru ófullnægjandi.  Þetta er vísbending um væntanlega upplausn rússneska hersins, enda baráttuviljinn í lágmarki, og herstjórnin afleit.  Það, sem átti að sýna mátt og mikilleik Rússlands, hefur opinberað risa á brauðfótum og geltandi bolabít með landsframleiðslu á við Spán og undirmálsher, sem yrði auðveldlega undir í beinum átökum við NATO.  Vladimir Putin hefur með yfirgengilegu dómgreindarleysi og siðblindu orðið valdur að fullkominni niðurlægingu Rússlands, sem mun setja svip á þróun heimsmálanna næstu áratugina.  

Í suðri hefur Rússum tekizt að ná Maríupol eftir tæplega 3 mánaða umsátur, og borgin er í rúst eftir þá.  Þetta er villimannlegur hernaður af hálfu Rússa og eins frumstæður og hægt er að hugsa sér.  Vopnin eru miklu öflugri en hæfir þroskastigi þeirra.  Margfalt fleiri óbreyttir borgarar hafa farizt í sprengiregninu á og við Maríupol á þessum tæplega 3 mánuðum en í hertöku borgarinnar og 2 ára hernámi af hálfu Wehrmacht 1941-1943. Heimurinn hefur ekki séð jafnvillimannlegar aðfarir í hernaði og af hálfu þessa Rússahers.  Sárin eftir þetta stríð verða lengi að gróa, og áhrif Rússa í heiminum verða hverfandi. 

"Heilar borgir eru nú rústir einar, s.s. Volnovaka, Isíum, Maríupol, Oktíra, Tsjernihív, Skastía o.fl. Innrásarherinn hefur skaddað eða eyðilagt 14 000 íbúðarhús, 324 sjúkrahús, 1 141 menntastofnun og nær 300 leikskóla auk húsnæðis trúflokka, sveitabæja, landbúnaðarfyrirtækja og stjórnsýslu- og iðnaðarbygginga.  Alls hafa Rússar valdið mismiklu tjóni á um þriðjungi allra innviða landsins; má þar nefna 300 brýr, 8 000 km af vegum, sem gera hefur þurft við eða leggja upp á nýtt og tylft járnbrautarbrúa."

Kostnaðurinn við enduruppbyggingu landsins eftir vandalana, sem kappkosta að eyðileggja sem mest af þjóðarverðmætum Úkraínumanna, svo að enduruppbyggingin taki sem lengstan tíma, og mannslífin og menningarverðmætin verða aldrei bætt.  Kostnaður enduruppbyggingar mun vart nema undir trnUSD 1 í allri Úkraínu.  Frystar eignir Rússlands og ólígarkanna á Vesturlöndum verða vonandi nýttar í uppbygginguna.  Rússar eru sjálfir að eyðileggja sem mest í Úkraínu, sem minnir á nýlendukúgun Rússa, en ný heimili, skólar, sjúkrahús, samgönguinnviðir og veitur verða reist með vestrænni tækni.  Úkraína mun ganga í ESB og NATO og verða gríðarlega samkeppnishæft land með landsframleiðslu á mann, sem verður fljótt miklu meiri en í Rússlandi, þar sem hún var undir 13 kUSD/íb árið  2021.  Landsframleiðsla Rússlands var þá á svipuðu róli og Spánar, sem sýnir, að krafa Kremlar um að verða talin til stórvelda með áhrifasvæði í kringum sig á sér enga stoð.  Eftir ósigurinn í Úkraínu gæti landið liðazt í sundur og Kínverjar tekið ytri Mongólíu, sem var hluti Kínaveldis þar til eftir Ópíumstríðið á 19. öld. 

"Rússar hafa lagt undir sig eignir og valdið eyðileggingu á m.a. innviðum rafmagns, vatns og húshitunar auk þess að standa í vegi fyrir mannúðaraðstoð og brottflutningi borgara, sem fyrir vikið líða illilegan skort lífsnauðsynja um kalda vetrarmánuði, matar, vatns, hita og heilbrigðisaðstoðar.  Þetta ástand er aðeins til þess fallið að valda þjáningum og tæringu fjölda almennra borgara víða um Úkraínu, svo [að] ekki sé minnzt á nýlega flugskeytaárás á Kramatorsk-járnbrautarstöðina, sem kostaði 52 mannslíf, þar af 5 líf barna.  Þar fyrir utan særðust tugir og dvelja nú á sjúkrahúsum, þ.á.m. börn, sem misstu útlimi.  

Að svelta almenna borgara til ávinnings í hernaðarskyni er ekkert annað en glæpur gegn mannkyninu.  Hernám borga á borð við Maríupol og Tsjernív ber þeim ásetningi Rússa vitni að ætla sér að tortíma a.m.k. hluta úkraínsku þjóðarinnar."

Rússar virðast stela öllu steini léttara á hernámssvæðum sínum í Úkraínu. Þeir stunda þar grimma "Rússavæðingu", krefjast þess, að fólk tali rússnesku og börnum er sagt, að þau fái nú ekkert sumarfrí, því að í haust taki við rússnesk námsskrá og þau þurfi að búa sig undir hana. Hér er um illkynja nýlendustríð að ræða, þar sem "ómenningu" herraþjóðarinnar á að troða upp á undirsátana, og fólk hefur verið herleitt til Rússlands, þar sem enginn veit, hvað við tekur. Nái Rússar austurhéruðunum, þar sem m.a. eru ýmis verðmæti í jörðu, verða þessi héruð skítnýtt af herraþjóðinni, og undirsátarnir fá náðarsamlegast að þræla fyrir nýlendukúgarana.  Það er með eindæmum, að þessi forneskjulega atburðarás eigi sér stað framan við nefið á okkur árið 2022. 

"Rússar halda því fram, að þeir ætli sér að "afvæða nasisma" [sic !?] [afnema nazisma] í Úkraínu með aðgerðum sínum. Þau orð hafa þeir notfært sér til að tengja árás sína við tortímingu "nazista", sem að þeirra skoðun búa í Úkraínu.  Stjórnvöld í Rússlandi kalla þá Úkraínubúa "nazista", sem styðja hugmyndina um sjálfstæða Úkraínu og berjast fyrir framtíð landsins í samfélagi Evrópuþjóða." 

 Áróður Kremlverja um nazisma í Úkraínu er gjörsamlega úr lausu lofti gripinn m.v. úrslit þeirra frjálsu kosninga, sem þar hafa verið haldnar undanfarin ár, þar sem örfá % kjósenda léðu stuðning sinn við eitthvað, sem nálgast gæti þjóðernisjafnaðarstefnu.  Þessi firra áróðursmanna Kremlar er einvörðungu til heimabrúks á meðal illa upplýsts lýðs, sem býr við illvíga ritskoðun og ríkisvæddar fréttir.  Annars staðar grefur þessi fáránlegi málflutningur undan trúverðugleika rússneskra stjórnvalda, sem nú er enginn orðinn, þ.e.a.s. það er ekki orð að marka það, sem frá Putin og pótintátum hans kemur.

Hið þversagnakennda er, að þessi rússnesku stjórnvöld minna um margt á fasistastjórn, og hugmyndafræði Putins um Stór-Evrópurússland svipar á marga lund til hugmyndafræði foringja Þriðja ríkisins um Stór-Þýzkaland og "Drang nach Osten für Lebensraum" eða sókn til austurs fyrir lífsrými handa aríum Þriðja ríkisins, en í báðum tilvikum leikur Úkraína aðalhlutverkið, orkurík og gróðursæl (kornforðabúr Evrópu). Hernaður Rússa nú gegn almenningi í Úkraínu, sjúkrahúsum hans, skólum og menningararfleifð, ber þess vitni, að grimmlyndir Rússar með mongólablóð í æðum frá 14. öld vilja eyða þjóðareinkennum Úkraínumanna, og framkoma þeirra við Úkraínumenn ber vitni um hugarfar nýlendukúgara í landi, sem þeir vilja gera að nýlendu sinni með svipuðum hætti og Stormsveitir Himmlers komu fram við "Untermenschen" í Síðari heimsstyrjöldinni, oft í óþökk Wehrmacht. 

 "Heimsbyggðinni væri réttast að skella skollaeyrunum við fölskum málflutningi Rússa og hafa það hugfast að, Rússland er árásaraðili, og stjórnendur landsins eru stríðsglæpamenn. Úkraínumenn treysta á stuðning Íslendinga í sakaruppgjöri við alla þá, sem gerzt hafa sekir um hrottalega glæpi gegn mannkyni, þ.á.m. rússneska stjórnmála-, viðskipta- og hernaðarleiðtoga, er staðið hafa fyrir falsfréttum, hindurvitnum og áróðri til að fela þann hrylling, sem nú á sér stað, og hermenn og herstjórnendur, sem nauðgað hafa úkraínskum konum og jafnvel börnum og bera ábyrgð á dauða og þjáningu þúsunda. Þar skal réttlætinu fullnægt."

Kremlverjar eru algerir ómerkingar, og málflutningur þeirra er heilaspuni og lygaþvættingur, sem því miður endurómar sums staðar, jafnvel hérlendis. Þeir, sem ímynda sér, að raunhæft verði að ganga til einhvers konar "friðarsamninga" við þá um, að þeir komist upp með að ræna austurhéruðunum (Donbass) og suðurhéruðunum við Svartahafið af Úkraínu og að þeir muni láta þar við sitja varanlega, vaða í villu og svíma eða ganga beinlínis erinda ofbeldismannanna rússnesku á Vesturlöndum; eru eins konar kvislingar.  Kremlverjar eru ekki einvörðungu sekir um stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni, sem er nógu slæmt, heldur eru þeir sekir við alþjóðalög um gróft og alvarlegt brot gegn sjálfstæðu og fullvalda ríki í Evrópu.  Evrópa á ekki að una sér hvíldar fyrr en þetta hefur verið leiðrétt, og hún á að nýta sér og ýta undir vilja Bandaríkjamanna til að veita mikla og dýrmæta aðstoð í þessum efnum.  Enginn veit, hvenær vindátt snýst á þeim bænum og stórhættuleg uppgjafar- og einangrunarstefna í anda fyrrverandi forseta, sem smjaðraði fyrir mafíuforingjanum í Kreml, verður tekin þar upp. 

"Alþjóðasamfélaginu er í lófa lagið að hindra glæpina með því að banna þegar í stað öll viðskipti með olíu og gas frá Rússlandi.  Orkuútflutningur Rússa er þeirra helzta hagnaðarvon og þörf annarra þjóða fyrir hann helzta trygging stjórnenda landsins fyrir því, að ríki þeirra sé ósnertanlegt.  Þar með vona þeir, að heimsbyggðin sé tilbúin að líta framhjá stríðsglæpum herja þeirra.  Allir rússneskir bankar eru hluti af stríðsvél landsins og styðja hana með einum eða öðrum hætti.  Afnema þarf tengingu þessara banka við alþjóðahagkerfið. Það er fullkomlega óviðunandi, að þeir, sem standa á bak við helztu ógn öryggis í heiminum græði á tá og fingri."  

Vingulsháttur hefur einkennt afstöðu og aðgerðaleysi stærstu Evrópusambandslandanna, Þýzkalands og Frakklands, til svívirðilegrar tilraunar fasistastjórnarinnar í Moskvu til að hernema Úkraínu og koma þar á leppstjórn.  Fyrir 2 mánuðum lofuðu stjórnvöld Þýzkalands að senda Úkraínumönnum skriðdrekabanann Gephardt, en þessi tæki eru enn ekki komin á vígvöllinn, og sama er að segja um loftvarnarkerfi, sem Úkraínumenn áttu að fá frá Þýzkalandi.  Vingullinn við Elysée í París hefur lítið látið af hendi rakna, og hann virðist enn halda, að hann geti gegnt einhverju hlutverki við friðarsamninga. 

Ursula von der Leyen reynir mikið til að fá leiðtogaráð ESB til að fallast á olíukaupabann á Rússa, en Orban í Búdapest setur löppina fyrir, svo að ekki er hægt að loka dyrunum.  Hann gengur erinda stríðsglæpamannsins í Kreml, sem virðist ætla að leggja borgir og bæi Úkraínu í rúst í sjúklegri heift  yfir harðri andstöðu Úkraínumanna, úkraínskumælandi og rússneskumælandi, við valdatöku Rússa í Úkraínu, sem allir vita, að jafngilda mundi nýlendustöðu landsins gagnvart glæpsamlegum nýlendukúgara. 

 

 ukrainian-cloth-flags-flag-15727


Stríð í hjarta Evrópu 2022

Sá fáheyrði atburður hefur nú gerzt í febrúar 2022, að stórveldi hefur ákveðið að ræna nágrannaríki sitt í Austur-Evrópu réttmætu fullveldi sínu með hervaldi. Þessi siðlausi og ólögmæti ofbeldisgjörningur hófst aðfararnótt fimmtudagsins 24. febrúar 2022, þegar rússneski herinn hóf eldflaugaárásir, stórskotaliðsárásir, flugárásir og skriðdrekaframrás úr norðri, austri og suðri, á Úkraínu. 

Úkraínski herinn og úkraínskur almenningur berst hetjulegri baráttu gegn ofureflinu og sýnir þar með umheiminum, að Úkraínumenn eru tilbúnir til að berjast til þrautar fyrir sjálfstæði og fullveldi lands síns.  Ef þjóð, sem tilbúin er til að færa slíkar fórnir sem Úkraínumenn fyrir fullveldi sitt og sjálfstæði þjóðarinnar, á ekki skilið að halda fullveldi sínu, hver á það þá skilið ? 

Úkraínumenn hlutu fullveldi 1917 með sama hætti og Finnar í kjölfar rússnesku byltingarinnar, en urðu síðar hluti Ráðstjórnarríkjanna og hlutu þar slæma útreið, því að hlutskipti þeirra var að framleiða matvæli ofan í íbúa borga Ráðstjórnarríkjanna.  Stalínstjórnin tók jarðir sjálfstæðra bænda eignarnámi og drap eða flutti þá nauðungarflutningum til Síberíu eða annað, sem ekki vildu taka þátt í samyrkjubúskapinum.  Við þetta hrundi landbúnaðarframleiðsla Úkraínu, og eftirlitsmenn ráðstjórnarinnar tóku matarbirgðir bændanna og færðu þær til borganna. 

Árið 1933 varð svo hungursneyð í Úkraínu og "Holodomer", sem er úkraínska fyrir hungurdauði, þegar ráðstjórn Stalíns lét 4 milljónir manna deyja drottni sínum úr hungri.  Þessir voðaatburðir líða ekki úkraínsku þjóðinni úr minni.

Þótt Rússar og Úkraínumenn sé skyldar þjóðir, hafa Úkraínumenn margoft sýnt, að þeir vilja ekki vera í ríkjasambandi við Rússa.  Þessar þjóðir eiga ekki samleið, og Úkraínumönnum vegnar mun betur sem fullvalda þjóð en í ríkjasambandi, þar sem þeir njóta sín ekki. 

Úkraínumenn kjósa fullveldi sér til handa og lýðræðislegt stjórnarfar, sem reist er á þingræði. Þeir eru vestrænir í hugsun og háttum. Herinn, forsetinn, ríkisstjórn og þing Úkraínu hafa barizt hetjulegri baráttu við ofurefli liðs, og þjóðin hefur staðið að baki þeim, og tugir þúsunda óbreyttra borgara hafa vopnazt og barizt gegn kúgunaraflinu úr austri. 

Allar þjóðir eiga rétt á að öðlast sjálfstæði, kjósi þær það, og að velja sér vini og bandamenn.  Þannig ákváðu Finnar á sínum tíma að ganga í Evrópusambandið (ESB) til að efla tengsl sín við lýðræðisríki Evrópu, en þeir hafa ekki treyst sér til að ganga í NATO, enda hafa Rússar jafnan lýst sig andvíga því. Hins vegar gengu Eystrasaltsríkin bæði í ESB og NATO.  Það hefur nú sýnt sig, að bezta og eina vörn lítilla og meðalstórra ríkja gegn grímulausri árásargirni stórveldis er aðild að NATO.

Vladimir Putin, einvaldur Rússlands, hefur á undanförnum mánuðum sent frá sér ritgerðir og haldið ræður, þar sem fram koma stórhættuleg viðhorf og söguskýringar, sem gefa til kynna, að þar sé einvaldur, haldinn landvinningahugmyndum.  Hann telji hlutverk sitt að færa út yfirráðasvæði Rússa í það horf, sem það mest hefur verið.  Þetta er vitfirringsleg hugmyndafræði á okkar tímum og mun verða þess valdandi, að lýðræðisríki Evrópu munu hervæðast, eins og mest þau mega. Allt er nú gjörbreytt í Evrópu, þar sem stríð hefur brotizt út á ný. 

Þegar ríki sitja uppi með stríðsglæpamenn sem stjórnendur, verða þau að taka afleiðingunum af því.  Það er eðlilegt, að þeim, sem nú ofbýður framferði Kremlverja gagnvart Úkraínu, skeri tengsl við Rússland niður við trog, á meðan glæpsamleg hegðun gagnvart friðsömu nágrannaríki einkennir valdhafa þess. 

Lýðræðisríkin eiga að veita Úkraínumönnum alla þá aðstoð, sem verða má á meðan á þessu stríði stendur, á meðan á hernáminu stendur og á uppbyggingarskeiði landsins í kjölfarið.  Eftir að Úkraínumenn endurheimta frelsi sitt, verður að hjálpa þeim við að tryggja öryggi sitt eftir þeim leiðum, sem þeir kjósa helzt sjálfir. 

Vesturlönd hafa sofið á verðinum gagnvart yfirvofandi hættu og ekki rumskað fyrr en bjallan glumdi að morgni 24. febrúar 2022. Þetta er svipuð sviðsmynd og haustið 1939.  Líklega er meiri hætta nú á 3. heimsstyrjöldinni en nokkru sinni áður.  Eins og áður stafar hættan aðallega af einum manni, siðblindingja, sem virðir lög og reglur einskis, heldur virðir aðeins vald og styrk til valdbeitingar.  Þess vegna ríður nú á, að NATO safni liði og hergögnum í Evrópu hið snarasta og komi sem mestu af vopnabúnaði í hendur Úkraínumanna hið fyrsta.  Þótt NATO lendi ekki í beinum vopnaviðskiptum við fjandmanninn, er þó alveg ljóst, að Vesturlönd og bandamenn þeirra verða að færa fórnir í viðureigninni við árásargjarnt stórveldi til að halda frelsi sínu.    

ukrainian-cloth-flags-flag-15727

 

  

 


Frá fjölbreytni og skilvirkni til einokunar

Það stendur ekki í stjórnarsáttmálanum að hefja skuli atlögu að því að draga nú hlutfallslega úr þjónustu sérfræðilækna á einkareknum læknastofum og færa þjónustu þeirra ýmist til útlanda eða til ríkisins, enda er engin heilbrigð skynsemi á bak við slíka stefnumörkun; ekki umhyggja fyrir sjúklingum eða skattgreiðendum, heldur einvörðungu forstokkuð og steinrunnin pólitísk hugmyndafræði Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og vinstri sósíalista í öðrum löndum, sem alls staðar hefur gefizt illa.

Hvers vegna fer þá ríkisstjórnin fram með þessum hætti í stærsta málaflokki ríkisins ?  Það er vegna þess, að heilbrigðisráðherrann er vinstri grænn og gerir það, sem henni sýnist, enda er  forsætisráðherrann af sama sauðahúsi. 

Sjálfstæðisflokkurinn verður að gefa skýrt til kynna í komandi kosningabaráttu, að hann vilji berjast fyrir eflingu á starfsemi sjálfstæðra lækna innan heilbrigðiskerfisins, þ.e. að auka hlutfallslega hlutdeild þess þáttar heilbrigðiskerfisins í stað þess að eyða honum, eins og Svandís mundar sig til undir merkjum hamars og sigðar.  Til þess liggja 3 meginástæður:

(1) Sjálfstæðisflokkurinn vill tryggja sjúklingum og starfsfólki í heilbrigðiskerfinu valfrelsi og skapa þannig umgjörð um beztu fáanlegu þjónustu, sem sjúklingum stendur yfirleitt til boða. Þetta er í samræmi við grunnstefnu flokksins.

(2) Efling einkarekstrar felur í sér sparnað fyrir ríkissjóð, því að skilvirkni viðtala og aðgerða er meiri í einkageiranum en hjá hinu opinbera, þ.e. einingarkostnaðurinn er lægri, þótt hagnaður sé af starfseminni, enda fer hann mestmegnis til fjárfestinga í dýrum lækningatækjum. Hvort er betra að veita þjóðhagslega hagkvæma þjónustu með jákvæðri framlegð eða að senda sjúklinga á kvalafulla biðlista ?

(3) Til að tryggja nauðsynlega endurnýjun í læknastéttinni er öflug læknastofustarfsemi nauðsynleg.  Hár meðalaldur þar, um 60 ár, veldur endurnýjunarþörf um 25-30 lækna á ári.  Það verður miklu erfiðara að fá fullnuma sérfræðinga heim, ef þessi hluti heilbrigðiskerfisins verður látinn grotna niður. Afleiðingar dauðrar handar róttæks sósíalisma eru alræmdar.  

Stefán E. Matthíasson, læknir, skrifaði grein í Morgunblaðið 12. apríl 2021, sem hann nefndi:

"Í miðjum heimsfaraldri ...".

Með fyrirsögninni vísar hann til þeirrar ömurlegu staðreyndar, að heilbrigðisráðherra landsins skuli hafa valið tíma heimsfaraldurs til að kasta stríðshanzka kommúnismans að sjálfstætt starfandi læknum.  Skemmdarverk þessa VG-ráðherra á heilbrigðiskerfinu verður að stöðva.  Ráðherrann fer sínu fram í skjóli forsætisráðherra, og aðrir ráðherrar geta ekki stöðvað framferðið, því að atkvæði eru yfirleitt ekki greidd í ríkisstjórn (einskipað stjórnvald).

"Þjónustan hefur byggzt á þrem meginstoðum um langan aldur.  Heilsugæzla, sjúkrahús og sérfræðilæknisþjónusta, sem rekin er af læknum og fyrirtækjum þeirra.  Skipulag, sem nágrannar okkar hafa öfundað okkur af.  Um þetta hefur verið víðtæk sátt.  Undanfarna 2 áratugi hefur sjúkrahúsþjónustan færzt á eina hendi.  Hér voru á höfuðborgarsvæðinu 4 spítalar; í Hafnarfirði, Landakot, Borgarspítali og Landsspítali.  Nú er einn spítali og merki fákeppni á þessum markaði æ ljósari.

Núverandi ríkisstjórn hefur aukið framlög til heilbrigðismála umtalsvert, en undir forystu sitjandi heilbrigðisráðherra hefur þess verið gætt, að þessir fjármunir renni að meginhluta til þjónustu, sem rekin er af opinberum aðilum.  Fyrir nokkrum árum voru heildarframlög til sérfræðilæknisþjónustu um 6-7 % af heilbrigðisútgjöldum, en árið 2019 aðeins 4,7 %, og margt bendir til, að sama tala fyrir 2020 sé 4 %.  Komur til sérfræðilækna eru á pari við komur á  Landsspítala og heilsugæzluna [til samans - innsk. BJo], en að auki eru þar allt að 20 þúsund skurðaðgerðir, þúsundir speglana, myndgreiningarannsókna, blóðrannsókna auk ýmissa annarra."   [Undirstr. BJo.]

Það er auðséð, að ráðherrann beinir viðbótarfénu úr ríkissjóði að langmestu leyti framhjá einkageiranum á sínum hugmyndafræðilegu forsendum, en ekki faglegum.  Með því grefur hún undan stöðu sjúklinga, lækna, heilbrigðiskerfisins og ríkissjóðs, því að auðvitað á ekki að svelta þann bezta, þ.e. þann skilvirkasta, þann, sem fer bezt með fé skattborgaranna.  Þvert á móti mætti gjarna auka hlutdeild einkageirans í 10 %.  Vinnubrögð þessa ráðherra eru óþolandi á öllum sviðum. 

"En svo er það rúsínan í pylsuendanum.  Með tilkynningu ráðherrans fylgir, að hún hafi sent SÍ bréf, þar sem hún feli stofnuninni [Sjúkratryggingum-innsk. BJo] að meta á einhvern ónefndan hátt, hvaða verk sérfræðilækna verði tilvísanaskyld til framtíðar, en að auki að grisja gjaldskrá þeirra og fella brott verk, sem betur væru sett innan "opinberra stofnana"." 

Þetta er ekki einvörðungu aðför að sjálfstæðum sérfræðilæknum, heldur að heilbrigðiskerfinu í heild, því að það sem fært verður til hins opinbera mun týnast þar í hítinni og sjúklingar, sem áður nutu lipurrar og snöggrar þjónustu á læknastofum, munu eftirleiðis lenda á biðlistum hins opinbera, eða því, sem nýjast er til að stytta biðlista, á biðlista eftir að komast á biðlista.  Þetta byltingarkennda framferði heilbrigðisráðherrans er geggjun af verstu sort. 

Þann 15. apríl 2021 birtist viðtal við Dagnýju Jónsdóttur, framkvæmdastjóra Orkuhússins í Urðarhvarfi undir fyrirsögninni:

"Bitnar á þeim sem sízt skyldi".

Heilbrigðisráðherrann sólundar dýrmætum tíma fólks í helbera vitleysu og breytir heilbrigðiskerfinu að vissu marki í leikhús fáránleikans, þar sem hin kommúnístíska hugmyndafræði hennar svífur yfir vötnunum:

""Það er verið að stilla okkur upp við vegg", segir Dagný, sem lýsir Orkuhúsinu sem rótgrónu fyrirtæki; það hefur verið rekið í 23 ár og hefur um 50 starfsmenn í vinnu.

"Hér er framkvæmdur stærstur hluti allra bæklunaraðgerða á landinu.  Við fáum 20 þúsund heimsóknir ár hvert og gerum 5 þúsund aðgerðir.  Þessi starfsemi er háð því, að samið sé við lækna, og það er ótækt, að menn geti ekki einfaldlega setzt niður og náð samningum.  Mér finnst undarlegt, að stoppa eigi allt kerfið, sem gengið hefur eins og smurð vél í ár og áratugi", segir hún. 

Framkvæmdastjórinn bætir því við, að allt verði gert, til að sjúklingar fái þá þjónustu, sem þeir þurfi á að halda.  Ekki sé mikil sanngirni í því, að ráðherra ætli að stöðva greiðslur til lækna, þótt læknastöðin rukki gjöld til að mæta launahækkunum og gengisbreytingum síðustu ára.

"Þetta bitnar á þeim, sem sízt skyldi.  Sjúklingar hafa vissulega sinn tryggingarétt, en að ætla að gera þeim erfitt fyrir að sækja hann með þessum hætti, sem boðað hefur verið, er mjög skrýtið.""

Þetta viðtal varpar ljósi á dæmalausan heilbrigðisráðherra, sem orðinn er alræmdur fyrir flumbrugang og vanhugsaðar aðgerðir.  Hversu lengi ætlar Alþingi að umbera þennan óhæfa ráðherra ?  Hún er að störfum í umboði þingsins, en rekur stefnu, sem hvorki er getið í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá myndun hennar né nýtur bakhjarls frá þingsályktun.  Ráðherrann er umboðslaus, þegar hún rífur niður heilbrigðiskerfið. Forsætisráðherra hefur þó blessað yfir gjörninginn, sem sýnir ólýðræðislegt eðli VG í hnotskurn.  

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, rifjaði upp mistakaferil heilbrigðisráðherrans á þessu kjörtímabili, þótt aðeins væri þar stiklað á stóru í pistli á ritstjórnarsíðu Morgunblaðsins 9. apríl 2021:

"Mistökin eru hennar":

(a) Flutningur liðskiptiaðgerða til útlanda með ærnum tilkostnaði (þreföldun innanlandskostnaðar) og pínu kvalinna sjúklinga í stað þess að leyfa þessar aðgerðir innanlands.  Þetta er stríðsyfirlýsing gagnvart sjúklingum, innlendum læknamiðstöðvum og heilbrigðri skynsemi.

(b) Sýnataka og greining á krabbameini í leghálsi kvenna var færð frá einkaaðila til ríkisins, sem varð að senda sýnin til Danmerkur með aukinni óvissu og töfum fyrir skjólstæðingana.  

(c) Hraksmánarleg stjórnun bóluefnaútvegunar við C-19, þar sem allt traust var sett á búrókrata í Brüssel, sem voru algerir viðvaningar á þessu sviði og reyndust ekkert kunna til verka í samanburði við innkaupafólk brezku ríkisstjórnarinnar, þeirrar ísraelsku o.fl.  Hvers vegna í ósköpunum var ekki reynt að standa í lappirnar og semja upp á eigin spýtur ? 

Eftir að hafa fjallað um þetta, skrifaði Bergþór:

"En heilbrigðisráðherra lét ekki þar staðar numið, heldur bætti um betur nú á dögunum og ákvað, að hneppa skyldi íslenzka ríkisborgara í ólögmætt varðhald við komuna til landsins; fólk, sem aðeins hafði unnið sér það til saka að koma heim til sín erlendis frá.  Allt í nafni sóttvarna - þar sem stjórnarskrárvarin mannréttindi mega sín lítils."

Annan eins heilbrigðisráðherra höfum við aldrei haft og munum vonandi aldrei þurfa að horfa upp á slíka hörmung.  Þetta er lágpunktur í embættisfærslu, hvað sem öfugsnúinni einkunnagjöf viðhlæjandans, forsætisráðherrans, líður.  

Að lokum reit Bergþór:

"Sem betur fer birtir þó sífellt til hér innanlands, þegar litið er á tölur um smit, spítalainnlagnir og annað vegna heimsfaraldurs Covid-19. Hálfum mánuði eftir að skellt var aftur í lás, þegar aðeins 3 smit greindust utan sóttkvíar, er enginn á spítala.  Ekki einn. Hamfaraspá margra hefur því ekki rætzt. 

Það þarf hver og einn að bera ábyrgð á sjálfum sér.  Persónulegar sóttvarnir og varúð er það, sem hefur mesta þýðingu í viðbrögðum við heimsfaraldrinum og áframhaldandi bólusetning, sem ver viðkvæmustu hópana og raunar okkur öll.  Stjórnvöld þurfa að gæta að meðalhófi í aðgerðum sínum, og lágmarkskrafan er þó og verður alltaf, að aðgerðirnar þurfa að standast lög.  Stjórnarskrárvarin mannréttindi eru ekki bara upp á punt."

Allt er þetta satt og rétt, en órafjarri hugarheimi heilbrigðisráðherrans.  Spilar sóttvarnarlæknir á veikleika hennar ?

 

 


Firring forsætis

Sóttvarnayfirvöld hafa tvisvar flaskað á s.k. öruggum svæðum í sambandi við hina bráðsmitandi, en yfirleitt fremur skaðlitlu veiru, SARS-CoV-2, sem veldur sjúkdóminum COVID-19.  Þetta er öndunarfærasjúkdómur í ætt við lungnabólgu, sem er reyndar aldrei hættulaus, en meirihluti sýktra af þessari veiru verður fyrir vægum eða engum einkennum.  Sjúkdómurinn getur hins vegar lagzt þungt á fólk, ef ónæmiskerfið er veikt fyrir, og veiran getur valdið tjóni á flestum líffærum líkamans, ef marka má upplýsingar lækna á Langbarðalandi, sem einna lengst hafa barizt við ólíkindatólið, sem veira þessi er. Veira þessi er þannig gerð, að engin furða er, að fjöllunum hærra fljúgi, að hún eigi upphaf sitt á rannsóknarstofu.  Því heldur m.a. fram Nóbelsverðlaunahafi sá, sem fyrstur skilgreindi HIV-veiruna. 

 

Í hið fyrra skiptið héldu hérlend sóttvarnayfirvöld því fram í vetur, að viss skíðasvæði í Ölpunum væru ekki sýkt, þegar hið sanna var, að allir Alparnir voru þá undirlagðir af téðri kórónaveiru.  Fólki frá þessum "öruggu" svæðum var hleypt óhindrað inn í landið, og þess vegna gaus hér upp megn faraldur í marz 2020 með meiri fjölda sýktra sem hlutfall af íbúafjölda en annars staðar þekktist þá.  Með hörðum og viðeigandi sóttvarnaaðgerðum tókst að hemja faraldurinn fyrr en sóttvarnayfirvöld reiknuðu með og má segja, að tilslakanir hafi verið anzi hægar. 

Í hið síðara skiptið voru Norðurlöndin, utan Svíþjóðar, og Þýzkaland skilgreind sem "örugg" svæði, og sluppu þá farþegar frá þessum ríkjum við skimun.  Líklegt er, að með þessum óskimuðu farþegum, hérlendum íbúum og öðrum, hafi smit dreifzt um samfélagið, og það er reyndar vitað í tilviki Rúmena, sem hingað komu frá Þýzkalandi og þóttust hafa dvalið þar í tvær vikur eða svo. 

Það gerist svo í óttablöndnu andrúmslofti s.k. Bylgju 2 af COVID-19 í Evrópu og víðast hvar annars staðar, að ríkisstjórn Íslands tilkynnti 14. ágúst 2020, að hún myndi grípa í neyðarhemilinn þann 19. ágúst 2020 með því að setja alla komufarþega í tvöfalda skimun og 5 daga sóttkví á milli.  Það var fyrirsjáanlegt og við því var varað, að þessi "sóttvarnaraðgerð" yrði hrikalega dýrkeypt og væri óþörf og óviðeigandi við aðstæðurnar, sem þá ríktu.  2/3 farþega afbókuðu ferðir sínar hingað 19. ágúst og dagana í kjölfarið, og sá viðsnúningur, sem var að verða innan ferðaþjónustunnar, gufaði upp í einni svipan, og nú blasa við lokanir og uppsagnir starfsfólks í stórum stíl. 

Hver var staða faraldursins 14. ágúst 2020 ? 

Nýgengið (NG) innanlands var 21,0 og á landamærunum 5,5 eða 26,5 alls, og var þá lægra en dagana 6 á undan.  Smitin sólarhringinn á undan voru 5 og alls engin þróun upp á við sjáanleg.  Sjúklingafjöldinn var 112, þar af 1 á sjúkrahúsi og enginn í gjörgæzlu.  Fjarri fór, að heilbrigðiskerfið væri að oflestast.  Sóttvarnaraðgerðir eru rándýrar, því meiri, þeim mun dýrari, og það er stórlega gagnrýnivert, að stjórnvöld skyldu fáta í neyðarhemlinum án þess að hafa til þess sýnilega ástæðu.  Afleiðingarnar eru, að stöðugleika hagkerfisins er ógnað, erlendum eigendum ríkisskuldabréfa lízt ekki á blikuna, heldur selja eignir sínar, svo að Seðlabankinn verður að verja ISK með því að selja 1 % gjaldeyrisvarasjóðsins og sígur ISK þó. 

Forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, reyndi að bera í bætifláka fyrir gjörðir sínar með því að bregða upp villuljósum í Morgunblaðsgrein þann 24. ágúst 2020, sem hún nefndi:

"Skýr leiðarljós fyrir almannahag".

Verður nú gripið niður í þessa grein forsætisráðherra:

"Frá upphafi hefur leiðarljós stjórnvalda verið að forgangsraða heilbrigði þjóðarinnar, og því hefur verið gripið til töluverðra sóttvarnaráðstafana til að hefta útbreiðslu faraldursins.  

Annað leiðarljós hefur verið að lágmarka samfélagsleg og efnahagsleg áhrif faraldursins bæði til skemmri og lengri tíma, þannig að þau hafi sem minnst áhrif [á] lífsgæði almennings." 

Hér bregður Katrín upp villuljósum, sem leiða til rangra ákvarðana ríkisstjórnarinnar um sóttvarnir vegna ferðalanga til landsins.  Sóttvarnir skerða frelsi fólks og eru dýrkeyptar.  Því meiri sóttvarnir, þeim mun meiri kostnaður eða tekjutap.  Hvers vegna nú að setja "heilbrigði þjóðarinnar" í forgang einvörðungu m.t.t. til veirunnar SARS-CoV-2 ?  Flest slys og líkamstjón verða við einhvers konar íþróttaiðkun.  Á þá að banna íþróttir til að draga úr álagi á heilbrigðisgeirann ?  Sælgæti er viðbjóðslegur óþverri fyrir heilsuna.  Er þá ekki sjálfsögð lýðheilsuaðgerð að banna sælgæti ?  Það stafar engin sú ógn af téðri kórónaveiru fyrir lýðheilsuna eða heilbrigðiskerfið, eins og varpað er ljósi á með tölum úr Kófinu hér að ofan, að réttlætanlegt sé að svæfa áður lamaða ferðaþjónustu um allt land með einstæðum aðgerðum á landamærum, sem talið er, að svipta muni um 5000 manns starfi sínu og lífsbjörg, draga enn meir úr gjaldeyrisöflun með slæmum áhrifum á gengi ISK og auka enn skuldasöfnun ríkissjóðs og samdrátt þjóðarframleiðslu. 

Katrín gumar af öðru "leiðarljósi" sínu, sem sé að lágmarka samfélagsleg og efnahagsleg áhrif faraldursins bæði til skemmri og lengri tíma.  Þessa hagsmuni hefur hún vegið og léttvæga fundið.  Hún hefur nákvæmlega ekkert tillit tekið til þeirra.  Allir almennilegir stjórnendur vega saman kosti og galla aðgerða og búa til lausn, sem lágmarkar tjónið eða hámarkar heildarávinninginn, eftir því hvort við á.  Ef Katrín hefði gert það, hefði hún sagt sem svo: við getum ekki litið á neinn farþega sem örugglega ósmitaðan.  Þess vegna skimum við alla fyrir kórónuveirunni, sem hingað til lands leggja leið sína. Það eru um 20 % líkur á, að sýktur greinist ekki við eina skimun og 0,05 % líkur á, að sýktur sé á meðal farþega.  Þetta þýðir, að 0,01 % af farþegum eða 1 af hverjum 10.000 farþegum sleppa sýktir inn í landið.  Dánarlíkur af völdum kórónaveirunnar á Íslandi eru innan við 0,5 %.  Þetta þýðir, að minna en 1 af hverjum 2 milljón farþegum munu valda hér dauðsföllum.  Þetta er mun minni áhætta en þjóðfélagsþegnarnir hafa sætt sig við á öðrum sviðum samfélagsins, t.d. í umferðinni á vegunum.  Þess vegna eigum við að skima alla farþega einu sinni, og þeir gæti að sóttvörnum sem sýktir væru, þar til niðurstaða skimunar berst.  Jafnframt er ljóst, að engin sóttvarnarrök eru fyrir því að takmarka fjölda brottfararlanda til Íslands með þeim þrönga hætti, sem nú er gert.  Annaðhvort mætti miða við ákveðið nýgengi í brottfararlandi og einfalda skimun, t.d. NG=100, eða heimila einnig þjóðernum með hátt nýgengi, t.d. NG>100, komuna hingað gegn tvöfaldri skimun og sóttkví á milli.  Varla geta yfirvöld hinna Schengen-landanna haft nokkuð á móti þessu ?

"Faraldurinn hefur verið í vexti í heiminum undanfarnar vikur.  Smitum á landamærum hefur fjölgað í réttu hlutfalli við það. [Er það rétt ?-innsk. BJo.] Allt bendir til, að önnur bylgja faraldursins hér á landi tengist smitum, sem hafa flotið yfir landamærin þrátt fyrir varúðarráðstafanir.  Við blasti, að það þurfti að vega og meta, hvernig ætti að heyja næstu orrustu í því stríði, sem staðið hefur yfir á Íslandi frá lokum febrúar. 

Niðurstaða ríkisstjórnarinnar, að fengnum tillögum okkar færustu vísindamanna, var að herða þyrfti aðgerðir á  landamærum með því að taka þar upp tvöfalda skimun með 4-5 daga sóttkví á milli sem valkost við 14 daga sóttkví.  Þar var byggt á reynslunni af aðgerðunum frá 13. júlí, þær útvíkkaðar og hertar.  Ákvörðunin byggist á þróun faraldursins hér heima og erlendis, en líka á þeim leiðarljósum, sem sett voru í upphafi að verja líf og heilsu fólks og tryggja, að samfélagið geti gengið áfram með sem eðlilegustum hætti."

Hugarheimur Katrínar er furðulegur.  Hún upplifir sig vera í stríði og slátrar ferðaþjónustunni með köldu blóði.  Hún sendir líklega 5000 fjölskyldur á vönarvöl með framferði sínu, en bjargar engum frá alvarlegum sjúkdómi, hvað þá dauða.  Hún getur ekki skýlt sér á bak við Sóttvarnalækni, því að hann gerði í þetta sinn enga tillögu til heilbrigðisráðherra, heldur lagði hann fram 9 valkosti.  Ríkisstjórnin valdi þann kost, sem Sóttvarnalæknir taldi beztan út frá sóttvarnasjónarmiðum, en gallinn á gjöf Njarðar er einfaldlega sá, að sá kostur er gjörsamlega óviðeigandi við núverandi aðstæður.  Hann er neyðarhemill, sem ríkisstjórnin misnotaði.  Meðalhófsregla Stjórnsýslulaga er virt að vettugi, því að vægari úrræðum var sjálfsagt að beita með broti af tilkostnaði neyðarhemilsins og með alveg viðunandi árangri. 

"Í aðdraganda þess, að farið var að skima á landamærum og þannig greitt fyrir umferð, lét ríkisstjórnin vinna hagræna greiningu á þeirri stöðu.  Hún hefur nú verið uppfærð m.t.t. reynslunnar.  Margt áhugavert kemur þar fram, m.a. að hagræn rök hnígi að því að herða beri aðgerðir á landamærum til þess að tryggja, að innanlandshagkerfið verði ekki fyrir of miklu raski af hörðum sóttvarnarráðstöfunum.  Þar er enn fremur bent á, að ferðatakmarkanir, sem ákveðnar eru hér á landi, eru ekki það eina, sem ræður fjölda ferðamanna; þar skipta ferðatakmarkanir annarra ríkja líka máli, en einnig almennur ferðavilji, sem gera má ráð fyrir, að minnki, þegar faraldurinn er í miklum vexti.  Stjórnvöld munu áfram vinna að því að meta áhrif faraldursins og sóttvarnaráðstafana á efnahagslífið."

Það er áhyggjuefni, að forsætisráðherra skuli láta frá sér fara svo einfeldningslegan texta.  Hún er ekki að verja "innanlandshagkerfið" með því að herða aðgerðir á landamærunum.  Hún kæfir með því ferðaþjónustuna og veldur þar með stórtjóni á "innanlandshagkerfinu".  Síðan koma "selvfölgeligheder", sem hún ber á borð sem merkilegar niðurstöður "sérfræðinga".  Þeir eru nú ærið mistækir, margir hverjir, og vandasamt að nota þá rétt, eins og alþjóð veit. 

Síðan þylur hún upp efnahagssamdrátt nokkurra ríkja og reynir að tengja hann við sóttvarnaraðgerðir þeirra. Það er mjög óvarlegt að gera, enda fellur hún í þá gryfju að draga af þeim kolranga ályktun: 

"Þarna spilar margt inn í, en segir okkur samt, að ekki er hægt að draga þá einföldu ályktun, að harðar sóttvarnarráðstafanir skili sjálfkrafa meiri samdrætti."

Það er einmitt þannig, að sóttvarnarráðstafanir á borð við ferðatakmarkanir og samkomutakmarkanir eru dýrar og að öðru óbreyttu til þess fallnar að draga úr hagvexti.  Aðalatriðið er, hvort þær eru gagnlegar, þ.e. hvort tjónið af þeirra völdum verði minna en af því að sleppa þeim.  Mikilvægast er, að þær séu réttar, þ.e. viðeigandi og hvorki of litlar né of miklar.  Þær eru þess vegna vandasamar og ekki á færi Sóttvarnalæknis eða Landlæknis að feta þetta einstigi.  Hér hefur Katrín, forsætisráðherra, misstigið sig herfilega, eða eins og Norðmenn segja: "traðkað á salatinu".  

Í lok greinarinnar skrifaði Katrín:

"Baráttunni við veiruna er hvergi nærri lokið.  En þegar henni lýkur, er okkar markmið, að hægt verði að segja, að saman hafi okkur tekizt að vernda heilsu, efnahag og frelsi okkar þannig, að þjóðlífið allt verði fyrir sem minnstum skaða og þjóðinni takist að vinna hratt til baka það, sem tapazt hefur í þessum faraldri.  

Í opnu lýðræðissamfélagi er mikilvægt, að fram fari umræða um ólíka þætti þessarar baráttu og eðlilegt, að það sé rætt með gagnrýnum hætti, hvernig gripið er inn í daglegt líf fólks, og hvernig efnahagslífi þjóðarinnar verði sem bezt borgið.  

Stefna íslenzkra stjórnvalda hefur frá upphafi verið skýr; að verja líf og heilsu fólks og tryggja sem eðlilegastan gang alls samfélagsins.  Allar aðgerðir okkar endurspegla þessi leiðarljós og miða að því að tryggja hag almennings á Íslandi sem allra bezt."

Það er nú þegar ljóst, að tjónið af völdum sóttvarnaaðgerða vegna veirunnar er gríðarlegt og skuldasöfnun hins opinbera ofboðsleg.  Efnahagslífi þjóðarinnar er ekki borgið, heldur er það í algeru uppnámi, þar sem við liggur, að öllum viðsnúningi hins opinbera frá 2013 hafi verið á glæ kastað.  Forsætisráðherra er veruleikafirrt, ef hún heldur, að staðan sé allt önnur. Frelsi einstaklinganna hefur auðvitað verið fórnað á altari sóttvarnanna, en forsætisráðherra skrifar, eins og hún sé að berjast fyrir frelsinu.  Hún snýr öllu á haus.  

Það er alls ekki rétt, að reynt hafi verið að feta hinn gullna meðalveg á milli heilsuverndar og eðlilegs gangs samfélagsins.  Sóttvarnaraðgerðir hafa gengið allt of langt og lamað eðlilegan gang þjóðfélagsins til skamms tíma og bundið þjóðinni þunga skuldabagga til langs tíma.  Það þýðir ekkert fyrir forsætisráðherra að þyrla upp einhverju moldviðri í tilraun til að draga dul á þetta. 

 

 


Persónuvernd með fullveldisframsali

Hin nýja persónuverndargjörð ESB er óskapnaður, sem á eftir að reynast okkur óþægur ljár í þúfu, þótt ekki væri nema vegna kostnaðarlega mjög íþyngjandi áhrifa á atvinnulíf og opinbera stjórnsýslu.  Ef kostnaðaraukinn svarar til 1 % af launakostnaði fyrirtækjanna, sem er vægt áætlað, er um að ræða 10 miaISK/ár, sem betur væru komnir í launaumslögunum eða í fjárfestingum fyrirtækjanna. Verst kemur þetta niður á minnstu fyrirtækjunum, sprotunum, sem eiga að verða drifkraftar framleiðniaukningar í landinu.

Nú er viðkvæðið, að þessi innleiðing sé óhjákvæmileg.  Það er nauðhyggja, sem stafar af innrætingu Evrópusambandsins. Hvernig fara Svisslendingar að, og hvernig ætla Bretar að skiptast á persónuupplýsingum við fyrrverandi félaga sína í ESB, þegar þeir hafa yfirgefið þá ?  Hvernig verður þessum samskiptum við Bandaríki Norður-Ameríku háttað.  Það er holur hljómur í þessu samræmingarhjali ESB.

Hvað sögðu fulltrúar norsku andófssamtakanna "Nei til EU", þegar þeir mættu hjá viðkomandi nefnd Stórþingsins til að veita umsögn um þetta alræmda persónuverndarfrumvarp.  Það er fróðlegt að kynna sér það.  Þýðing vefbónda fer hér á eftir:

""Nei til EU" heldur því fram, að frumvarpið um framkvæmd persónuverndargjörðarinnar hafi í för með sér valdframsal til ESB, sem er mikið áhyggjuefni og sem ríkisstjórnin virðist allt of lítinn gaum gefa.  Enn einu sinni á að yfirfæra vald til yfirþjóðlegrar stofnunar, í þessu tilviki Persónuverndarráðsins (EDPB).  Frumvarpið gefur ekki sannfærandi tryggingu gegn því, að ESB-dómstóllinn fái hlutverk við dómsúrskurð um samþykktir Persónuverndar (-stofnunarinnar norsku).

Gjörðin er reist á því, að hver starfsemi um sig beri ábyrgð á framkvæmd persónuverndarlöggjafarinnar. Það er ekki lengur tilkynningarskylda til Persónuverndarstofnunar né krafa um fyrirframsamþykki hennar.

Það er óljóst, hvernig jafnræðis verður gætt með þessu móti.  Hver starfsemi um sig verður að túlka og vinna á eigin spýtur eftir reglunum og ákvarða sjálf, hvort orðið skuli við kröfum um að fá að sjá gögn eða að þeim verði eytt. Þá getur auðveldlega orðið um mismunandi framkvæmd að ræða frá einni skrá til annarrar.  Krafa um tilkynningarskyldu til eftirlitsstofnunar mundi trúlega veita fyrirsjáanlegri og gegnsærri stjórnun.  

Yfirfærir vald til ESB-stofnunar:

Vandræðalegast við þessa gjörð er samt, að enn einu sinni er yfirþjóðlegt vald veitt ESB-stofnun, sem kölluð er Persónuverndarráðið (EDPB). Ráðið getur úrskurðað um ágreiningsmál á milli tveggja eða fleiri eftirlitsstofnana einstakra þjóða um meðhöndlun málefnis yfir landamæri, eða þegar deilt er um, hvaða eftirlitsstofnun (hvaða lands) á að sjá um mál fyrirtækis, sem starfar í nokkrum löndum.  Eftirlitsstofnanir í hverju landi eru í mörgum tilvikum skyldaðar til að æskja umsagnar Persónuverndarráðsins, sem getur fylgt máli eftir með bindandi samþykkt, ef skyldurnar eru ekki uppfylltar. 

ESB-stofnunin á að geta gert samþykktir, sem eru bindandi fyrir Persónuverndina í Noregi án þess, að samþykktin fari um hendur eftirlitsstofnunarinnar ESA.  Þetta brýtur gegn tveggja stoða kerfi EES-samningsins, þar sem aðgreining á að vera á milli málsmeðferðar gagnvart EFTA- og ESB-löndum.  Völd á sviði persónuverndar á þannig að flytja beint til ESB-stofnunar (1).  

Persónuverndargjörðin slær föstu, að Persónuvernd skal vera óháð stofnun og að yfirvöld í hverju landi skuli ekki geta gefið fyrirmæli (grein 52).  Persónuvernd er núna óháð stjórnvaldsstofnun, og ríkisstjórnin getur ekki skipað fyrir eða breytt einstökum ákvörðunum hennar.  Þessu er ætlað að tryggja sjálfstæða stöðu persónuverndarinnar.  Við erum þeirrar skoðunar, að það sé þá mótsagnakennt, að norska persónuverndin skuli vera óháð innlendum yfirvöldum, en vera gert að taka við fyrirmælum frá Persónuverndarráði ESB (2).  

Ríkisstjórnin viðurkennir í frumvarpinu, að valdaframsal eigi sér stað, en heldur því fram, að það "breyti litlu", sé "lite inngripende", og þar af leiðandi megi beita grein 26 í Stjórnarskrá (um hreinan meirihluta í Stórþinginu).  "Nei til EU" vill þá vísa til þess, að hin svokallaða kenning um "litlar breytingar" er umdeild í lögfræðinni og að hún styðst ekki við neitt í Stjórnarskrá.  Við teljum frumvarpið ekki geta hlotið afgreiðslu samkvæmt grein 26. Það er heldur ekki hægt að afgreiða það samkvæmt gr. 115 (í Stjórnarskrá um aukinn meirihluta), þar eð Noregur á ekki fullgilda aðild með atkvæðisrétti að Persónuverndarráðinu. Frumvarpi ríkisstjórnarinnar um að leggja Persónuvernd undir Persónuverndarráð ESB ber þess vegna að hafna (3).  

Málflutningur fyrir ESB-dómstólinum ?:

Í svarbréfi til laganefndar Stórþingsins mælir dómsmálaráðherrann því í mót, að framkvæmd persónuverndargerðar ESB hafi í för með sér, að ESB-dómstóllinn fái nýtt hlutverk sem æðsta dómsvald gagnvart norsku eftirlitsstofnuninni einnig.  Í bréfinu er fullyrðingin: "Ákvarðanir Persónuverndarinnar er einvörðungu hægt að sannreyna fyrir norskum dómstólum."

Er þetta nú víst ?  Það er ESB-dómstóllinn, sem er úrskurðaraðili um ákvarðanir Persónuverndarráðsins.  Eins og komið hefur fram, eru ákvarðanir Persónuverndarráðsins bindandi einnig fyrir norsku Persónuverndina.  Hvernig mun ESB bregðast við því, að norskur dómstóll breyti ákvörðun, sem raunverulega kemur frá Persónuverndarráði ESB (4)?

Í frumvarpinu eru taldar upp nokkrar aðlaganir, sem gera á fyrir Noreg og hin EFTA-löndin.  Aðalatriðið er, að krafan í kafla 58 nr 4 um að fylgja skuli sáttmálum ESB skuli ekki gilda (orðin "í samræmi við sáttmálann").  EES-aðlögunin er ekki samþykkt í ESB.  Það, sem stendur í persónuverndargjörðinni núna þýðir, að ESB-dómstóllinn fær lögsögu í EFTA-löndunum (5).

Í sögu EES-samningsins eru mörg dæmi um einhliða forsendur norskra ríkisstjórna, sem ekki hafa staðizt.    Við erum þeirrar skoðunar, að tekin sé mikil áhætta með innleiðingu persónuverndargjörðarinnar áður en EES-aðlaganir hafa verið samþykktar í æðstu stofnunum ESB.

(1) Persónuverndarráð ESB gerir bindandi samþykktir fyrir persónuverndarstofnun hvers aðildarlands.  Það er gjörsamlega ótækt fyrir EFTA-löndin, brýtur tveggja stoða grunnregluna og er stjórnarskrárbrot á Íslandi og í Noregi.  Þessi innleiðing er þar af leiðandi ólögleg.

(2)  Að Persónuvernd, sem er sjálfstæð gagnvart íslenzkum stjórnvöldum, skuli eiga að lúta boðvaldi Persónuverndarráðs ESB, skýtur skökku við og er frágangssök í þessu máli.

(3)  "Lítil breyting" er heiti á spægipylsuaðferð við fullveldisframsal.  Þessari rökleysu er líka beitt á Íslandi, en hér á hún mun minna erindi en í Noregi.  Ástæðan er sú, að EES-samningurinn var á sínum tíma samþykktur af Stórþinginu með auknum meirihluta, yfir 75 % mættra þingmanna greiddi atkvæði með, en á Alþingi var EES-samningurinn samþykktur í bullandi ágreiningi og fremur mjótt á munum.  Þjóðin hefur aldrei verið spurð álits í þjóðaratkvæðagreiðslu um þessa aðild.  Þrír eða fjórir lögfræðingar voru fengnir til að meta, hvort samningurinn samræmdist Stjórnarskrá.  Þeir komust að því, að hann væri á mörkunum, væri á "gráu svæði".  Síðan hefur heldur betur snarazt á merinni, og það gengur hreint ekki lengur að halda svona áfram og fótumtroða Stjórnarskrána.

(4)  Hvernig halda menn, að ESB muni bregðast við, ef íslenzkur dómstóll dæmir framkvæmd, sem ættuð er frá Persónuverndarráði ESB, ólöglega ?

(5)  ESB hefur enn ekki samþykkt aðlögun þessar gjörðar að EFTA-ríkjunum.  Þess vegna hefur ESB-dómstóllinn fortakslausa lögsögu þar eftir innleiðingu gjörðarinnar í EES-samninginn.  Er ekki rétt að bíða þessarar staðfestingar ESB ?  Jafnvel Sameiginlega EES-nefndin hefur ekki afgreitt málið.  Það má vel reyna á það hvað gerist, ef samþykkt Alþingis er frestað.  EES-samstarfið er komið á leiðarenda.  

 

 


Jöfnun dreifingarkostnaðar raforku

Lesendur þessa vefrits eru nú orðnir allfróðir um fyrirætlanir Evrópusambandsins (ESB) í orkuflutningsmálum.  Þeir vita, að framkvæmdastjórn ESB og orkustofnun ESB, ACER, leggja mikla áherzlu á að auka hjá sér hlutdeild endurnýjanlegrar orku og bæta flutningsmannvirkin, svo að engir flöskuhálsar hindri frjálst flæði orku frá öllum virkjunum, ekki sízt rafstöðvum endurnýjanlegra orkulinda, hvert sem er innan ESB.  Með þessu á að auka hlutdeild endurnýjanlegrar orku, auka nýtingu fjárfestinga og tryggja með aðferðum frjáls markaðar, að orkan fari þangað, sem hagkvæmast er að nýta hana, þ.e. til hæstbjóðanda hverju sinni.

Ein af afleiðingum þessa kerfis verður útjöfnun orkuverðs.  Við raforkuverð til notenda bætist að sjálfsögðu flutningsgjald einokunarfyrirtækja á borð við Landsnet á Íslandi, Statnett í Noregi og National Grid á Bretlandi, sem hanna, byggja, reka, viðhalda og eiga flutningsmannvirkin og eru reyndar ábyrg fyrir kerfisrekstrinum.  Næst almennum notendum eru hins vegar dreifingarfyrirtækin.  Þau eru sérleyfisskyld, þ.e. standa ein að dreifingu raforku á sínum svæðum og bera auðvitað ríkar skyldur gagnvart "skjólstæðingum" sínum í krafti sérleyfisins. 

Hérlendis er þó pottur brotinn varðandi kostnaðardreifingu dreifingarfyrirtækjanna á viðskiptavini sína eftir búsetu.  Það er ekki eðlilegt, að einokunarfyrirtæki megi mismuna viðskiptavinum á dreifingarsvæði sínu eða dreifingarsvæðum, ef þau eru fleiri en eitt, enda kunna að vera hæpnir kostnaðarútreikningar gerðir í tilraun til að styðja  slíka mismunun viðskiptavina eftir búsetu. Það er hins vegar ekki hægt að fetta fingur út í mishátt dreifingargjald hjá ólíkum veitufyrirtækjum.  

Í ljósi þeirrar viðleitni ESB til jöfnunar raforkuverðs (frá virkjun), sem nú blasir við, er haldlaust að vísa í einhverjar gamlar regur ESB um, að kostnaður notenda eigi að endurspegla raunkostnað við að koma orkunni til þeirra, enda er heilmikill sameiginlegur kostnaður.  Vanalega er um það að ræða hérlendis, að dreifbýlisnotandi borgar hærra verð fyrir dreifingu til sín en þéttbýlisnotandi hjá sömu dreifiveitu.  Kveður svo rammt að þessu hjá einni veitunni, OR, að munurinn virðist geta orðið þar 38 %. Hann er 29 % hjá RARIK og hjá Orkubúi Vestfjarða, OV, 11 %. 

Þingmenn eða ríkisstjórn ættu nú þegar að leggja fram frumvarp til laga um, að sama veitufyrirtæki megi aðeins beita einum dreifingartaxta fyrir raforku.  Eftir sem áður geta verið ólíkir taxtar hjá mismunandi dreifiveitum, og fer verðið einfaldlega eftir meðalkostnaði á dreifiveitusvæðinu.  Þá verður áfram frjáls verðlagning á orku frá virkjun í heildsölu og smásölu.  Flutningsgjaldið er svo annar handleggur, og gæti tekið stakkaskiptum til hins verra, ef til landsins verður lagður aflsæstrengur, því að hann mun útheimta styrkingu stofnkerfisins, hvers kostnaður leggst á rafmagnsnotendur innanlands samkvæmt reglum ACER-orkustofnunar ESB. 

Ef raforkumarkaðurinn á Íslandi fær að þróast eðlilega án afskipta ACER, þ.e. án aflsæstrengstengingar við útlönd, þá mun lítil raunverðhækkun verða á orku frá virkjun. Sigurður Jóhannsson hjá Hagfræðideild Háskóla Íslands skrifaði minnisblað 3. október 2017 um "Líklegar tekjur af vatnsréttindum vegna Hvalárvirkjunar".  Þar skrifar hann m.a.:

"Hér er gert ráð fyrir, að rafmagnsverð frá Hvalárvirkjun hækki um 2 %/ár umfram annað verðlag á 15 árum, en breytist ekki eftir það.  Þetta er í samræmi við algenga spá um rafmagnsverð í Bretlandi.  Sennilega er sú spá varleg fyrir Ísland - ekki er ólíklegt, að munur á verði rafmagns hér á landi og í grannlöndunum fari minnkandi."

Með því að draga líklega þróun rafmagnsverðs á Bretlandi inn í verðspá fyrir raforku á Íslandi, er greinilega verið að gæla við verðlagsáhrif aflsæstrengs á milli Íslands og Bretlands.  Hér skal efast um, að þessi spá rætist, en fremur spá allt að 1 %/ár raunverðhækkun raforku á meðan orkuskiptin standa yfir, enda verður að virkja nýjar orkulindir til að anna viðbótar orkuþörf.  

 

 Vinnslukostnaður nýrra virkjana mun hækka, en á móti kemur, að eldri virkjanir verða skuldlausar og meginkostnaður virkjana, einkum vatnsaflsvirkjana, er fjármagnskostnaður. Engin raunveruleg þörf er þess vegna á 2 %/ár raunhækkun raforkuverðs á smásölumarkaði, hvað þá á því, að verðið á Íslandi nálgist verðið á Bretlandi.  Það er út í hött, nema af sæstreng verði.  

Orkunotkun dreifbýlisnotanda á ári er vanalega mun meiri en t.d. húseiganda í þéttbýli. Meiri orka er  almennt ódýrari á hverja orkueiningu en minni, sem vegur upp á móti gisnari byggð. Þetta stafar af því, að dreifbýlisnotandinn stundar í mörgum tilvikum atvinnustarfsemi.  Magnmunurinn verður mun meiri, ef dreifbýlisnotandinn hitar húsnæði sitt upp með rafmagni, en þéttbýlisnotandinn er með tengingu við hitaveitu.  Ofan á allt ójafnræðið leggst síðan, að dreifbýlisnotandinn hefur í mörgum tilvikum aðeins aðgang að einfasa rafmagni frá veitu, en þéttbýlisnotandinn getur fengið aðgang að þriggja fasa rafmagni frá veitu, ef hann þarf á því að halda.

Nú er fyrirhugað að stofna "stöðugleikasjóð" með tekjum ríkissjóðs af auðlindarentu af náttúruauðlindum og arðgreiðslum fyrirtækja ríkisins af þeim, í fyrsta umgangi vegna nýtingar orkulinda.  Taka má mið af norska Olíusjóðinum, en 18 % útgjalda norska ríkissjóðsins eru um þessar mundir fjármögnuð með Olíusjóðinum. Skal hér gera tillögu um, að íslenzka ríkið vindi bráðan bug að stofnun þessa sjóðs og noti á næstu árum 3 % af höfuðstóli hans til að styðja fjárhagslega við verkefni, sem flýtt geta orkuskiptum og sem stuðla að orkusparnaði eða orkukostnaðarsparnaði og bættri orkunýtni.  Hér má nefna:

a) Leit að volgu eða heitu vatni á "köldum" svæðum.  Getur lækkað hitunarkostnað húsnæðis.

b) Nýtingu varmadælna til upphitunar húsnæðis, t.d. í tengslum við (a).  Getur sparað umtalsverða raforku við upphitun.

c) Flýtingu á lagningu þrífasa jarðstrengja.  Dregur úr orkutöpum og eykur gæði rafmagns á afhendingarstað.  Í kjölfarið eru teknar niður loftlínur, sem léttir á neikvæðum umhverfisáhrifum rafvæðingarinnar og lækkar viðhalds/rekstrarkostnað.

Allt leiðir þetta til jöfnunar lífskjara í landinu, óháð búsetu, en þannig vilja bæði Íslendingar og Norðmenn, að orkuauðlindunum sé varið, en ekki, að raforkan sé send með miklum orkutöpum til útlanda til verðmætasköpunar þar og í staðinn sé flutt inn dýr raforka, sem kyrkir atvinnustarfsemi hér.  

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband