Stríð í hjarta Evrópu 2022

Sá fáheyrði atburður hefur nú gerzt í febrúar 2022, að stórveldi hefur ákveðið að ræna nágrannaríki sitt í Austur-Evrópu réttmætu fullveldi sínu með hervaldi. Þessi siðlausi og ólögmæti ofbeldisgjörningur hófst aðfararnótt fimmtudagsins 24. febrúar 2022, þegar rússneski herinn hóf eldflaugaárásir, stórskotaliðsárásir, flugárásir og skriðdrekaframrás úr norðri, austri og suðri, á Úkraínu. 

Úkraínski herinn og úkraínskur almenningur berst hetjulegri baráttu gegn ofureflinu og sýnir þar með umheiminum, að Úkraínumenn eru tilbúnir til að berjast til þrautar fyrir sjálfstæði og fullveldi lands síns.  Ef þjóð, sem tilbúin er til að færa slíkar fórnir sem Úkraínumenn fyrir fullveldi sitt og sjálfstæði þjóðarinnar, á ekki skilið að halda fullveldi sínu, hver á það þá skilið ? 

Úkraínumenn hlutu fullveldi 1917 með sama hætti og Finnar í kjölfar rússnesku byltingarinnar, en urðu síðar hluti Ráðstjórnarríkjanna og hlutu þar slæma útreið, því að hlutskipti þeirra var að framleiða matvæli ofan í íbúa borga Ráðstjórnarríkjanna.  Stalínstjórnin tók jarðir sjálfstæðra bænda eignarnámi og drap eða flutti þá nauðungarflutningum til Síberíu eða annað, sem ekki vildu taka þátt í samyrkjubúskapinum.  Við þetta hrundi landbúnaðarframleiðsla Úkraínu, og eftirlitsmenn ráðstjórnarinnar tóku matarbirgðir bændanna og færðu þær til borganna. 

Árið 1933 varð svo hungursneyð í Úkraínu og "Holodomer", sem er úkraínska fyrir hungurdauði, þegar ráðstjórn Stalíns lét 4 milljónir manna deyja drottni sínum úr hungri.  Þessir voðaatburðir líða ekki úkraínsku þjóðinni úr minni.

Þótt Rússar og Úkraínumenn sé skyldar þjóðir, hafa Úkraínumenn margoft sýnt, að þeir vilja ekki vera í ríkjasambandi við Rússa.  Þessar þjóðir eiga ekki samleið, og Úkraínumönnum vegnar mun betur sem fullvalda þjóð en í ríkjasambandi, þar sem þeir njóta sín ekki. 

Úkraínumenn kjósa fullveldi sér til handa og lýðræðislegt stjórnarfar, sem reist er á þingræði. Þeir eru vestrænir í hugsun og háttum. Herinn, forsetinn, ríkisstjórn og þing Úkraínu hafa barizt hetjulegri baráttu við ofurefli liðs, og þjóðin hefur staðið að baki þeim, og tugir þúsunda óbreyttra borgara hafa vopnazt og barizt gegn kúgunaraflinu úr austri. 

Allar þjóðir eiga rétt á að öðlast sjálfstæði, kjósi þær það, og að velja sér vini og bandamenn.  Þannig ákváðu Finnar á sínum tíma að ganga í Evrópusambandið (ESB) til að efla tengsl sín við lýðræðisríki Evrópu, en þeir hafa ekki treyst sér til að ganga í NATO, enda hafa Rússar jafnan lýst sig andvíga því. Hins vegar gengu Eystrasaltsríkin bæði í ESB og NATO.  Það hefur nú sýnt sig, að bezta og eina vörn lítilla og meðalstórra ríkja gegn grímulausri árásargirni stórveldis er aðild að NATO.

Vladimir Putin, einvaldur Rússlands, hefur á undanförnum mánuðum sent frá sér ritgerðir og haldið ræður, þar sem fram koma stórhættuleg viðhorf og söguskýringar, sem gefa til kynna, að þar sé einvaldur, haldinn landvinningahugmyndum.  Hann telji hlutverk sitt að færa út yfirráðasvæði Rússa í það horf, sem það mest hefur verið.  Þetta er vitfirringsleg hugmyndafræði á okkar tímum og mun verða þess valdandi, að lýðræðisríki Evrópu munu hervæðast, eins og mest þau mega. Allt er nú gjörbreytt í Evrópu, þar sem stríð hefur brotizt út á ný. 

Þegar ríki sitja uppi með stríðsglæpamenn sem stjórnendur, verða þau að taka afleiðingunum af því.  Það er eðlilegt, að þeim, sem nú ofbýður framferði Kremlverja gagnvart Úkraínu, skeri tengsl við Rússland niður við trog, á meðan glæpsamleg hegðun gagnvart friðsömu nágrannaríki einkennir valdhafa þess. 

Lýðræðisríkin eiga að veita Úkraínumönnum alla þá aðstoð, sem verða má á meðan á þessu stríði stendur, á meðan á hernáminu stendur og á uppbyggingarskeiði landsins í kjölfarið.  Eftir að Úkraínumenn endurheimta frelsi sitt, verður að hjálpa þeim við að tryggja öryggi sitt eftir þeim leiðum, sem þeir kjósa helzt sjálfir. 

Vesturlönd hafa sofið á verðinum gagnvart yfirvofandi hættu og ekki rumskað fyrr en bjallan glumdi að morgni 24. febrúar 2022. Þetta er svipuð sviðsmynd og haustið 1939.  Líklega er meiri hætta nú á 3. heimsstyrjöldinni en nokkru sinni áður.  Eins og áður stafar hættan aðallega af einum manni, siðblindingja, sem virðir lög og reglur einskis, heldur virðir aðeins vald og styrk til valdbeitingar.  Þess vegna ríður nú á, að NATO safni liði og hergögnum í Evrópu hið snarasta og komi sem mestu af vopnabúnaði í hendur Úkraínumanna hið fyrsta.  Þótt NATO lendi ekki í beinum vopnaviðskiptum við fjandmanninn, er þó alveg ljóst, að Vesturlönd og bandamenn þeirra verða að færa fórnir í viðureigninni við árásargjarnt stórveldi til að halda frelsi sínu.    

ukrainian-cloth-flags-flag-15727

 

  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Jónsson

Við getum ekkert nema lagt til að Rússar og Úkranar semji um bandalag sín á milli. Við getum ekki bara stutt annan aðilann. Er annarhvor Slavinn eitthvað betri en hinn? 

Halldór Jónsson, 27.2.2022 kl. 11:15

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, kollega Halldór;

Það er alveg rétt; þarna berast 2 slavneskar þjóðir á banaspjótum, þjóðir, sem saman mynduðu hinn mikla arftaka hins Aust-rómverska ríkis seint á 9. öld í samkrulli við sænska víkinga, sem einmitt höfðu bækistöð í Kænugarði og stunduðu lífleg viðskipti, alveg niður í Miklagarð, enda eru fánalitir Svíþjóðar og Úkraínu hinir sömu.  Þetta skiptir þó ekki höfuðmáli um það, hvernig bregðast ber við voveiflegum atburðum nú. 

Kjarnorkuvætt stórveldi hefur ráðizt á friðsaman nágranna sinn, lýðræðisþjóð, mun fámennari en stórveldið, sem hefur sótzt eftir vernd NATO og inngöngu í Evrópusambandið, samkvæmt uppskrift Eystrasaltslandanna.  Það er gjörsamlega óafsakanlegt framferði af hálfu stórveldisins að ráðast á fullvalda, friðsama lýðræðisþjóð með þá fyrirætlun að breyta landamærum í Evrópu með vopnavaldi og þann boðskap, að þessu stórveldi beri allt það umráðasvæði, sem það áður réði yfir, þegar annars konar valdhafar ríktu.  Hér er verið að leika sér að eldinum á of fífldjarfan hátt, og Vesturveldin og bandamenn þeirra verða að beita öllu afli sínu, eins og hægt er, til að snúa þessu tafli við, enda fylgist stóri drekinn í austri með þessari viðureign af athygli, horfir gráðugum augum yfir sundið til Taiwan, og sleikir út um.  

Bjarni Jónsson, 27.2.2022 kl. 18:38

3 Smámynd: Einar Sveinn Hálfdánarson

Þakka fyrir þarfa grein. Þar er ekki orði ofaukið. - En hvað henti Dóra vin minn kann ég ekki að skýra. Mér er sem ég sjái hann bera í bætifláka fyrir Lenín, Stalín eins og Pútín.

Kannski er það Trump heilkennið? Það veldur geðbilun.

Einar Sveinn Hálfdánarson, 28.2.2022 kl. 20:38

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka þér fyrir, Einar.  Kollega Halldór svarar fyrir sig, en það er ofboðslegt að hlusta á þá, sem virðast vera á valdi hins rússneskættaða áróðurs.  Sumir þeirra hljóma eins og málpípur Kremlverja og gefa í skyn eða segja berum orðum, að Kremlverjar eigi að ráða því, hvaða afstöðu fullvalda þjóðir með landamæri að Rússlandi hafa í utanríkismálum og varnarmálum.  Ef í fullvalda lýðræðisríki er tekin lögformleg ákvörðun um að sækja um aðild að ESB eða NATO, þá á sú ákvörðun að ná fram að ganga eftir þeim reglum, sem um það gilda, og enginn nágranni, hversu voldugur sem hann er, á að komast upp með að ráða því.  Ef hann kemst upp með það, er um s.k. Finnlandiseringu að ræða, sem er alvarleg fullveldisskerðing.  Tal Rússa um, að þeim stafi hætta af NATO-landi við landamæri sín, er skálkaskjól fyrir útþenslustefnu þeirra, eins og við sjáum með boðskapi forseta Rússlands um að endurvekja rússneska keisaradæmið, eins og það var víðfeðmast. Ég er ekki hissa á því, þótt ótti ríki nú í Litháen við hernaðarógn frá Rússlandi, eins og fram kom hjá litháískri konu í Kastjósi kvöldsins. Engu friðsömu ríki stafar ógn af NATO, enda er það varnarbandalag.  

Bjarni Jónsson, 28.2.2022 kl. 21:24

5 Smámynd: Hörður Þormar

Hvað fer fram í höfðinu á Pútín? Hér er klst. viðtal við Michael Ciminos, heimspeking af rússneskum ættum, sem hefur reynt að kanna hugarheim Pútíns.  Viðtalið er á þýsku, en hægt er að ná í tölvuþýddan texta:                          Putins Welt | Sternstunde Philosophie | SRF Kultur           

Hörður Þormar, 4.3.2022 kl. 23:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband