Færsluflokkur: Evrópumál

Stríð í Austur-Evrópu

Grimmdarlegt árásarstríð rússneska sambandsríkisins á hendur sjálfstæðu ríki nágranna þeirra, Úkraínumanna, hefur sýnt heimsbyggðinni fram á ömurlegt eðli rússneskra ráðamanna.  Eldflaugum hefur verið látið rigna yfir borgir Úkraínu og engu eirt, hvorki stærsta barnasjúkrahúsi landsins í Kænugarði né stíflu raforkuvers í suðurhluta landsins. Straumleysi hrjáir íbúa landsins á hverjum degi, og komandi vetur er verulegt áhyggjuefni. Kjarnorkuver í Zaphorizhzhia hefur verið í uppnámi, og hernámsliðið hefur stöðvað rekstur þess.  Á vígvöllunum hefur allt gengið á afturfótunum hjá rússneska hernum, herskipulagið verið lélegt, miklu herliði fórnað fyrir litla landvinninga, og í átökum við úkraínska herinn hefur óhemju magn rússneskra vígtóla verið eyðilagt.  

Vart er hægt að tala um úkraínskan flota, svo að sérstaka athygli hafa vakið ófarir rússneska Svartahafsflotans, en segja má, að hann hafi verið hrakinn frá Krímskaga og til hafna við Azovshaf.  Nýjasta dæmið, þegar þetta er ritað, er um kafbátinn Rostov við Don, sem var nýkominn úr þurrkví í Sevastopol, þegar hann varð fyrir úkraínskri Neptúnus eldflaug og sökk.  

Úkraínumenn hafa sýnt mikið baráttuþrek gegn ofureflinu, hugmyndaauðgi og herkænsku. Leiftursóknin inn í Kúrsk mun komast í sögubækurnar.  T.d. hafa þeir orðið frumkvöðlar í notkun dróna bæði til könnunarferða og árásarferða.  Er skemmst að minnast árásar á herflugvöll í Murmansk, um 1800 km leið frá víglínunni í Úkraínu, þar sem rússneskar sprengjuflugvélar, sem notaðar höfðu verið til árása á Úkraínu, voru eyðilagðar.  

Vestrænir bandamenn Úkraínumanna hafa í orði stutt þá á þeim forsendum, að einræðisherra mætti ekki enn einu sinni takast að leggja undir sig nágranna sinn og þar með að breyta landamærum í Evrópu með hervaldi.  Í verki hefur þessi stuðningur verið mun minni en efni standa til, og þeir hafa af ótrúlegri ragmennsku bannað notkun vopnanna á rússnesku landi, þrátt fyrir þá staðreynd, að Rússar ráðast bæði á hernaðarleg og borgaraleg skotmörk í Úkraínu frá rússnesku landi. Undantekning frá þessu eru þó Kúrsk, Belgorod og Bryansk-héruð.  Ef þetta þetta bann væri ekki í gildi, og t.d. Þjóðverjar hefðu látið Úkraínumönnum í té hinar langdrægu Taurus flaugar, þá væri þessu stríði sennilega lokið núna, með því að aðdrættir Rússahers hefðu verið gerðir svo erfiðir, að þá hefði brostið örendið og hörfað yfir landamærin.  Þá hefði og verið unnt að lama rússneska flugherinn í enn meira mæli en gert hefur verið.

Gríðarleg eyðilegging blasir við í Úkraínu, og ríkið rambar á barmi greiðslufalls. 

Það hefur algerlega skort skelegga forystu að hálfu Vesturlanda í baráttunni við heimsvaldastefnu Rússa.  Stjórn Bidens er hálfvolg, Trump er eins og handbendi Pútíns og ólígarka hans, og í forystu öflugasta ríkis Evrópu reyndist vera gúmmíkarl, þar sem er kratinn Olaf Scholz.  Þjóðverjar hafa þó stutt hraustlega við bakið á Úkraínumönnum, og hafa nú látið á sér skilja, að þeir styðji Úkraínumenn til sigurs. Pólverjar eru að taka forystuna í bráttunni við rússneska hernaðarógn uppbyggingu eigin hers varðar, dyggilega studdir af Eystrasaltsríkjunum.

  Það, sem nú er mikilvægast, er að mynda "stálhjálm" yfir Úkraínu, eins og er yfir Ísrael, með fjölgun loftvarnakerfa og með því að hrekja rússneska flugherinn nógu langt frá landamærunum, m.a. með F16 orrustuþotum, svo að loftvarnarkerfin hafi meira svigrúm til að skjóta árásarflaugar niður í tæka tíð. 

Þann 24. júlí 2024 birtist merkileg forystugrein í Morgunblaðinu um þessi mál undir fyrirsögninni:

"Glataðir leiðtogar".

Hún hófst þannig:

"Í liðinni viku [viku 29/2024] komu 45 leiðtogar Evrópuríkja saman til að ræða vanda álfunnar.  Þeir hittust í Blenheim-höll á Englandi, glæstu ættaróðali Winstons Churchills, sem var vel til fundið í ljósi ófriðar í Evrópu og þess, að víðar eru blikur á lofti.  

Mönnum lærðist um síðir að taka mark á varnaðarorðum hans um alræðisöfl Evrópu og keyptu þann lærdóm dýru verði.  En þeir lærðu og á þeim lærdómi Churchills um, að lýðræðisríki yrðu að standa saman gegn ágangi einræðisríkja [og þannig] var Atlantshafsbandalagið stofnað og í raun má segja, að hugmyndin um "Vesturlönd" sé á honum reist. 

Úkraína á í langvinnu og hatrömmu stríði fyrir tilverurétti sínum, en fáum dylst, að lyktir þess verða afdrifaríkar fyrir Evrópu alla.  Ekki er því aðeins verið að rétta grönnum hjálparhönd, heldur verja menn einnig eigin hagsmuni, frið og frelsi.

Samt er stuðningur Evrópuríkjanna naumur, en Bandaríkin hafa borið hitann og þungann af hernaðarstuðningi við Úkraínu.  Í Evrópu tala nú aðeins Bretar og Pólverjar afdráttarlaust um stuðning við Úkraínu og standa við stóru orðin, svo [að] um muni."

Það er vel til fundið að minna á Sir Winston núna, þegar Evrópa horfir framan í blóðþyrstan forseta Sambandsríkisins Rússlands, sem er sambærileg ógn við lýðræðisríkin nú og ríkisleiðtogi Stór-Þýzkalands var á dögum Þriðja-ríkisins.  Sá rak skefjalausa útþenslustefnu og hugðist skipta heiminum á milli Berlínar og Tókýó.  Frá 2014 hefur forseti Rússlands sent rússneska hermenn til árása inn í Úkraínu og frá 24. febrúar 2022 rekið allsherjar stríð gegn Úkraínumönnum með það í hyggju að leggja land þeirra undir sig.  Rússar reka útrýmingarstríð í Úkraínu og fremja þar hvern stríðsglæpinn öðrum verri.  Pólverjar og þjóðir Eystrasaltsríkjanna vita mæta vel, að Rússar reka skefjalausa útþenslustefnu og hafa gert í 300 ár.  Núverandi forseti Rússlands gefur ekki nokkurn skapaðan hlut fyrir sjálfsákvörðunarrétt ríkja og landamærin, sem sigurvegarar Seinni Heimsstyrjaldarinnar sömdu um í Evrópu.  Hann hefur lýst vilja sínum til að endurreisa Ráðstjórnarríkin landfræðilega.  Þetta brjálæði verður að stöðva, og fyrsta skrefið er að kenna Rússum þá lexíu, að landamærum í Evrópu verður ekki lengur breytt með hervaldi. 

"Vestanhafs bendir margt til, að Donald Trump verði senn forseti á ný, en hann talar enga tæpitungu um, að Evrópuríkin verði sjálf að bera kostnaðinn af eigin vörnum.  Hann segist líka geta bundið enda á Úkraínustríðið á fyrsta degi í embætti, sem þá myndi eflaust kosta Úkraínu mestallt hernámssvæði Rússa.

 Það væri ömurlegt, ef Pútín auðnaðist þannig að semja sig til sigurs, réttlæta allar blóðsúthellingarnar, en auka um leið freistingu sína til frekari landvinninga."

Eins og nú horfa sakir (um miðjan ágúst 2024) er engan veginn víst, að monthananum og einangrunarsinnanum Trump takist að viðhalda forskoti, sem hann öðlaðist í skoðanakönnunum, á meðan hrumur Biden var enn í framboði.  Framboð Kamölu Harris hefur lánazt vel fram að þessu og hún náð forskoti á landsvísu, sem jafnvel dugar til meirihluta kjörmanna fylkjanna.  Vonir eru bundnar við, að Bandaríkjamenn bregðist ekki skyldum sínum gagnvart bandamönnum sínum í NATO og Úkraínumönnum, sem eðlilega dreymir um að tryggja öryggi sitt gegn uppivöðslusömum nágranna í austri með því að ganga í NATO.

Eftir þann stóratburð, sem innrás úkraínska hersins(ÚH) í Kúrsk 6. maí 2024 var, hafa orðið þær vendingar á meðal bandamanna, að Þýzkaland hefur tekið opinbera forystu í stuðninginum við Úkraínu, en Bandaríkin draga lappirnar.  Þýzkaland hefur lýst því yfir, að samkvæmt alþjóðalögum hafi Úkraína fulla heimild til að ráðast inn í Rússland.  Þar getur ÚH valdið rússneska hernum miklu tjóni og hefur þegar gert það.  Skömm Rússa er mikil, því að varnarlínan á landamærunum reyndist engin fyrirstaða, og er fjármálaspilling rússneska hersins líkleg skýring.  Pólitískur hnekkir blóðþyrsts einræðisherra í Kreml er mikill, þegar næstöflugasti er í Rússlandi reynist vera sá rússneski.

"Allt blasir það við Evrópuleiðtogunum.  Samt var ekkert um það rætt, að Evrópuríkin yrðu öll að auka eigin varnarútgjöld hraustlega og bæta í ofanálag verulega við aðstoðina til Úkraínu.  Og engum Evrópuleiðtoganna datt í hug, að rétt væri að eiga orð við Trump um lærdóma Churchills. 

Því [að] ef Úkraína verður látin sigla sinn sjó vegna stefnubreytingar vestra og sinnuleysis og sérgæzku í Vestur-Evrópu, þá missir hið pólitíska hugtak "Vesturlönd" merkingu, og heimurinn verður mun hættulegri."

Rússar vöktu mikla reiði í Þýzkalandi 2022, þegar þeir reyndu að ýta Þjóðverjum ofan í holu myrkurs og kulda (orkuleysis).  Nú gjalda Þjóðverjar gráan belg fyrir svartan með því að lýsa yfir stuðningi Þýzkalands við úkraínskan sigur, nokkuð, sem Bandaríkin hafa ekki gert enn þá.  Mun Kamala Harris taka af skarið ?

 

 

 


Dýr misskilningur íslenzkra embættismanna

Þegar Evrópusambandið (ESB) setur í reglugerðir sínar og tilskipanir, að þær skuli ekki gilda eða gilda í vægari mæli um fyrirtæki undir ákveðinni stærð, t.d. m.v. veltu í EUR/ár eða ársverkum, þá halda íslenzkir embættismenn, sem véla um innleiðingu þess, sem frá Sameiginlegu EES-nefndinni í Brüssel kemur til viðkomandi ráðuneytis, að þeir eigi að staðfæra fyrirtækjastærðina með einhverju ótilgreindu hlutfalli af íbúafjölda Íslands og meðalíbúafjölda í aðildarlöndum ESB.  Hér er grundvallar misskilningur á inntaki gerðanna á ferðinni.  Stærð fyrirtækja er ekki afstæð eftir löndum.  Hún er algild, því að alls staðar gilda sömu lögmál um hagkvæmni stærðarinnar.  Búrókratar í Brüssel hafa fyrir löngu gert sér grein fyrir, að það er hægt að leggja meiri skriffinnsku byrðar á stór fyrirtæki en smá án þess að skekkja samkeppnisstöðuna verulega við lönd utan við "Festung Europa".  

Íslenzkir embættismenn lifa margir hverjir í tómarúmi við sitt skrifborð og bera ekki skynbragð á það, sem að atvinnurekstri í samkeppni snýr, enda er samkeppnisstaða íslenzkra fyrirtækja sú lakasta á Norðurlöndunum og þó víðar væri leitað.  Brýnt er að snúa þessu við m.a. með endurhæfingu embættismannageirans hjá ríki og sveitarfélögum í þá veru að styrkja fremur samkeppnisstöðu fyrirtækjanna en hitt.  Auðvitað þyrftu verkalýðsforkólfar og stjórnmálamenn á slíkri endurhæfingu að halda líka.  

Dóra Ósk Halldórsdóttir birti Sviðsljóssgrein í Morgunblaðinu 19. júní 2024 um efnið undir fyrirsögninni:

"Gullhúðun beitt án eðlilegs rökstuðnings".

Hún hófst þannig:

""Það er gífurlegt hagsmunamál fyrir okkur Íslendinga, að það sé ekki verið að gullhúða EES-gerðir, nema til þess beri brýna nauðsyn", segir Brynjar Níelsson, lögmaður og formaður starfshóps um aðgerðir gegn gullhúðun EES-gerða, en skýrsla á vegum hópsins var birt í gær á vef utanríkisráðuneytisins.  Auk Brynjars voru í starfshópnum dr Margrét Einarsdóttir, prófessor í Háskólanum í Reykjavík, og María Guðjónsdóttir, lögfræðingur Viðskiptaráðs.  

Ástæða þess, að starfshópurinn var stofnaður, var langvarandi umræða og gagnrýni á s.k. gullhúðun, þegar EES-gerðir voru staðfestar í landsrétt og gengið lengra en lágmarkskröfur EES gerðu ráð fyrir.  

"Það þurfti að fara yfir þetta, því [að] í mörgum tilvikum virtust hvorki hagsmunaaðilar né þingmenn hafa nægar upplýsingar um það, þegar verið var að gera löggjöfina meira íþyngjandi en hún þyrfti að vera", segir Brynjar."

Það er algerlega forkastanlegt, að einhverjir embættismenn smygli sérskoðunum sínum og túlkunum inn í lagatexta. Þetta er svo ólýðræðislegt atferli, að það getur varla verið löglegt.  Þetta sýnir í hnotskurn, hvers konar vinnubrögð viðgangast í ráðuneytunum og stofnunum ríkisins.  Er þar smákóngaveldið ríkjandi ? Það eru víða vargarnir, sem gera sér leik að því að leggja stein í götu atvinnurekstrar, hvenær sem þeir fá tækifæri til. 

Til að komast að rótum vandans, þarf að grafast fyrir um, hverjir hafa gert þetta og taka þessi verkefni af þeim.  Annars er hætt við, að ósóminn haldi áfram, því að hvorki þingmenn né ráðuneytisstjórnendur virðast gera nokkra gangskör að því að bera saman frumtextann og þann, sem hér er leiddur í lög. 

""Þetta er umfangsmeira en menn átta sig á, og rökstuðningur ásamt mati á áhrifum gullhúðunar er mjög takmarkaður og stundum enginn", segir Brynjar og bætir við, að það sé lágmarkskrafa, að fyrir liggi góður rökstuðningur, ef EES-gerðir eigi að vera meira íþyngjandi en þær þurfi að vera. 

"Ef við ætlum að gullhúða á annað borð, þarf að vera tilgangur með því, sem er til góðs, en ekki að setja íþyngjandi reglur og tilheyrandi kostnað á fyrirtæki, sem hefur íþyngjandi áhrif á markaðsstöðu þeirra í samkeppni við fyrirtæki í Evrópu." 

Í því sambandi segir Brynjar, að sumar innleiðingarnar vísi til mjög stórra fyrirtækja, en í mörgum tilvikum hafi þær verið færðar á smærri fyrirtæki hérlendis.  "Við getum ekki verið að gera strangari kröfur til okkar fyrirtækja en þörf krefur.  Það veikir samkeppnisstöðu okkar að láta lítil og meðalstór fyrirtæki sæta reglum, sem sambærileg fyrirtæki í Evrópu búa ekki við.  En það er eins og okkur þyki eitthvað göfugt við að gera enn strangari kröfur til okkar fyrirtækja og okkar atvinnulífs." 

Hann bætir við, að til samanburðar hafi Bretar haft það sem meginreglu, þegar þeir voru í ESB, að það sé ekki heimilt að gullhúða, nema alveg sérstakar aðstæður krefjist þess."

Það er fullkominn barnaskapur, ef ekki heimska, af íslenzkum embættismönnum og/eða stjórnmálamönnum að láta sér detta í hug að breyta inntaki gerða ESB til að leggja ósanngjarnar sérkröfur á íslenzkt atvinnulíf og þar með á íslenzkan almenning.  Auðvitað hefst vitleysan hjá íslenzku fulltrúunum í Sameiginlegu EES-nefndinni í Brüssel.  Ef þeir hefðu staðið í stykkinu, hefðu þeir bókað, að viðkomandi gerð ætti ekki við að svo stöddu á Íslandi, eða ætti aðeins við tiltekinn lítinn fjölda fyrirtækja.  Þar með hefðu illa áttaðir ráðuneytismenn hér síður dottið í þá gryfju að breyta inntakinu til að aðlaga gerðina að íslenzkum aðstæðum.  Hvernig háttar þessu til í öðrum fámennum löndum EES ?  Hefur nokkrum embættismanni/stjórnmálamanni þar dottið í hug að fara "íslenzku leiðina" í þessu máli ?  Þegar mál af þessum toga koma upp, renna á mann 2 grímur um það, hvort íslenzka stjórnkerfið sé nægum hæfileikum búið til að gæta hagsmuna þjóðarinnar í alþjóðlegu samstarfi.  Í þeim efnum reynir jafnan mest á utanríkisráðuneytið. 

 "Starfshópurinn leggur til, að allur ramminn í kringum innleiðingu EES-skipana verði gerður skýrari og að krafizt sé rökstuðnings og mats á áhrifum [breyttrar] innleiðingar á samkeppnisumhverfi landsins, þannig að gullhúðun gerist ekki án þess, að fjallað hafi verið sérstaklega um hana á öllum stigum og upplýst ákvörðun hafi verið tekin í hverju tilviki, byggð á því, að gullhúðunin sé til bóta, en ekki íþyngjandi.

Brynjar segir, að í ljósi þess, að gullhúðun fer frekar vaxandi en hitt, sé mikilvægt, að það sé öllum ljóst, hvers vegna henni sé beitt, og þess vegna þurfi öll umgjörð að vera mjög skýr og einföld.  "Við höfum skilað af okkur þessari skýrslu með tillögum um, hvernig hægt sé að gera þetta ferli skýrara, en núna er boltinn hjá Alþingi.""

Það er svo mikið í húfi hér fyrir lífskjör þjóðarinnar, að réttast væri að setja refsiákvæði í væntanleg lög um innleiðingar gagnvart því, að einhverjir pótintátar smygli gullhúðun inn umræðulaust.  Í raun er það sálfræðilegt viðfangsefni að komast að því, hvers vegna menn finna hjá sér þörf til að leika landa sína grátt.  Það er síðan með eindæmum og falleinkunn fyrir viðkomandi ráðuneytisstarfsmenn, að gullhúðun skuli fara vaxandi.  Starfsmenn, sem að þessu vinna, þarfnast endurhæfingar. Það hefur komið fram opinberlega sjónarmið um, að málið sé stórt og knýjandi og réttast væri, að forsætisráðherra gerði að því gangskör, að þegar á haustþingi 2024 verði gerðar stjórnsýslulegar endurbætur til leiðrétta mistök fortíðar og girða fyrir frekari mistök á þessu sviði. Undir það skal taka.

 


Forsetaembætti í mótun

Segja má, að forsetaembættið á Íslandi sé dálítið kindugt m.v. það, sem annars staðar þekkist.  Þar sem meginhlutverkið er þjóðhöfðingjahlutverkið (head of state), en pólitísk völd afar takmörkuð, þar er yfirleitt hafður sá háttur á, að þjóðþingið velur forsetann, og gefur þá auga leið, að stjórnmálaflokkarnir hafa þar hönd í bagga, og það getur sett sitt óheppilega mark á störf forsetans.  Í frumvarpi til Alþingis um stofnsetningu forsetaembættis var m.v. þennan hátt, en þingið breytti þessu fyrirkomulagi við sína umfjöllun og gerði forseta þjóðkjörinn í lögunum. Það breytir stöðu forsetans til hins betra og styrkir hann í aðhalds- og eftirlitshlutverki með Alþingi.

Síðan 1952 hafa stjórnmálaflokkarnir reynt að halda sig til hlés við val á forseta, en það þýðir ekki, að frambjóðendur hljóti að vera ópólitískir.

Það er einsdæmi á Íslandi, og þótt víðar væri leitað, að forsætisráðherra stigi niður af valdastóli og sækist eftir þjóðhöfðingjaembætti með afar takmörkuð völd.  Þennan fordæmalausa gjörning framdi Katrín Jakobsdóttir um páskana 2024 og hefur síðan lýst því yfir, að hún vilji sameina þjóðina að baki sér.  Það er útilokað, að fyrrverandi ráðherra, sem stóð að lagasetningu um Icesave-nauðungina tvisvar sinnum að þarflausu, eins og síðar kom í ljós við úrskurð EFTA-dómstólsins í janúar 2013, og sem er andsnúin aðild Íslands að NATO, njóti nægilegs trausts þorra þjóðarinnar.  Borgaraleg öfl ættu að hugleiða rækilega, að einstaklingur með slíka fortíð og pólitískar jaðarhugmyndir um lífshagsmuni elur í raun á sundrungu á meðal þjóðarinnar, ekki sízt með búsforræði á Bessastöðum. 

Framganga umdeilds stjórnmálafræðings við Háskóla Íslands, Baldurs Þórhallssonar, hefur að vonum ekki verið hnökralaus, en gengi sitt í skoðanakönnunum má hann sennilega þakka PR-kæti sinni og landsþekktum makanum Felix Bergssyni, en Baldur verður þó aldrei "forsetalegur" talinn og skortir fyrirmannafas.  Hann beit höfuðið af skömm sinni um daginn, þegar hann var spurður, hvernig hann hafi greitt atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslunum tveimur um Icesave.  Hann bar þá við minnisleysi, þannig að svar kom ekki.  Hvort sem hér er um óheilindi að ræða hjá Baldri eða alvarlega heilahrörnun, dæmir þetta atvik hann úr leik, ef allt er með felldu. 

Baldur hefur lengi verið ötull talsmaður inngöngu Íslands í Evrópusambandið (ESB).  ESB var meðflutningsaðili Breta og Hollendinga að þessu máli gegn Íslandi fyrir EFTA-dómstólinum, og ýmsir fylgjendur ESB-aðildar fylgdu vinstri stjórninni 2009-2013 að málum í afstöðunni til Icesave-deilunnar.

Forstjóri Orkustofnunar (OS), Halla Hrund Logadóttir, er í framboði og hefur hlotið ótrúlega gott gengi í skoðanakönnunum.  Skyldi hún hafa verið krufin um stjórnmálaskoðanir sínar, t.d. um afstöðuna í utanríkismálum ?

Morgunblaðið brá birtu yfir kynningarmál þessa frambjóðanda með frétt 27. apríl 2024, sem setur stjórnarhætti Höllu Hrundar ekki í gott ljós, en forsetaframbjóðandi ætti að þurfa að hafa flekklausa ferilskrá til að ná góðum árangri í kosningum:

"Samskiptastjóri OS í frí og kosningastarf":

"Meginreglan hjá ríkinu er, að auglýsa beri laus störf og að þau séu ótímabundin, en í afmörkuðu verkefni má nota tímabundnar ráðningar eða þjónustu verktaka, yfirleitt til tveggja mánaða.

Ekki er ljóst, hvort það eigi við Karen [Kjartansdóttur, samskiptastjóra OS [Orkustofnunar] í verktöku - innsk. BJo], sem þar hefur starfað samkvæmt samningi OS við fyrirtækið Langbrók ehf., þar sem hún er einn eigenda.  [Það er ljóst, að starf samskiptastjóra OS er ekki tímabundið verkefni til 2 mánaða eða annars stutts tíma, og þess vegna hefur Orkumálastjóri farið á skjön við ráðningareglur ríkisins með þessum gjörningi gagnvart Langbrók ehf.  Þegar greiðsluupphæð OS fyrir þessa þjónustu er skoðuð, virðist vera komið efni í úttekt Ríkisendurskoðanda á stjórnarháttum í OS - innsk. BJo.]

Ekki liggur heldur fyrir, hvort verkefnið var auglýst, eins og venja er [vildargjörningur ?], en það er ekki að sjá á vef OS eða félagsmiðlum, þar sem vakin er athygli á lausum störfum.

Samningurinn var gerður til eins árs hinn 31. marz 2023 og var nýlega framlengdur um annað ár og er enn í gildi.  Aðrir starfsmenn Langbrókar munu sinna verkefnum OS [á] meðan Karen er í leyfi, en ljóst, að hún hefur a.m.k. í tæpar 3 vikur samtímis sinnt störfum fyrir bæði Orkustofnun og forsetaframboð Höllu Hrundar."

Þarna er flett ofan af of veikri hagsmunagæzlu Höllu Hrundar fyrir ríkissjóð, sem hún er á launum hjá, þegar einkahagsmunir hennar sjálfrar eru annars vegar.  Þetta er merki um siðferðisbrest, sem taka ber alvarlega hjá einstaklingi í forsetaframboði, og rétt fyrir kjósendur að taka sem viðvörun um, að þeir kunni að vera að kaupa köttinn í sekknum með því að kjósa þann sama einstakling sem forseta lýðveldisins. 

 "Í samninginum er sérstaklega kveðið á um hagsmunaárekstra, og að það sé á ábyrgð Langbrókar ehf. og Karenar að fyrirbyggja slíkt.  [Í þessu tilviki fær Halla Hrund Karen til að starfa að kynningarmálum framboðs síns, þótt Halla viti ósköp vel, að Karen vinnur áfram sem verktaki fyrir Orkustofnun.  Þetta er fingurbrjótur Höllu Hrundar - innsk. BJo.]

Allt frá því, að fyrrgreindur samningur var gerður, hefur Orkustofnun greitt Langbrók MISK 12,8 samkvæmt opnum reikningum ríkisins.  Langbrók hefur unnið að ráðgjöf fyrir ýmsa aðila aðra, þ.á.m. Landsvirkjun, Landsnet, Norðurál og Alcoa Fjarðaál. 

Í samninginum var kveðið á um, að Langbrók héldi sundurliðað verkbókhald, en við eftirgrennslan OS kom í ljós, að slíkt yfirlit hefur ekki fylgt með reikningum.  Stofnunin hyggst framvegis fylgja því eftir, að verkbókhald og/eða tímaskýrslur fylgi reikningum."

Hver hefur heimild til að samþykkja reikninga frá verktakanum Langbrók ehf. án fylgiskjala, sem áskilin  eru í pöntuninni ?  Hér er um að ræða meiri háttar lausatök í stjórnsýslu OS á ábyrgð forstjórans, Höllu Hrundar Logadóttur.  Upphæðin, MISK 12,8, er þó ekki smáræði fyrir vinnu Karenar í heilt ár, sem enginn veit í hverju var fólgin.  Hefur einhver heyrt þennan samskiptastjóra koma fram fyrir hönd OS ?

Nú er ljóst, að frambjóðendur í forsetakjöri 2024 verða 12 (postulatalan).  Starfslýsing forsetans er ófrágengin í stjórnarskránni, og ekki hefur reynzt ráðrúm á lýðveldistímanum til að gera hana skýrari.  Þó er ljóst, að forseti á að forðast að blanda sér í ríkisstjórnarmálefni, nema hann telji ríka ástæðu til, t.d. að ríkisstjórn og Alþingi brjóti ákvæði stjórnarskrár eða hafi samþykkt mál að óþörfu í andstöðu við verulega hagsmuni þjóðarinnar.  Þá getur hann gripið til neyðarúrræðis, sem er að vísa ágreiningsefni forseta og ríkisstjórnar/meirihluta þings í dóm kjósenda.

Ef forseti stendur sig vel í starfi, er hann aðhalds- og eftirlitsaðili með löggjafar- og framkvæmdavaldinu.  Hann fylgist með störfum þeirra og kemur sínum sjónarmiðum á framfæri við forsætisráðherra reglubundið og les allt rækilega yfir áður en hann staðfestir skjöl með undirritun sinni.  Þá eru ótaldir Ríkisráðsfundirnir, þar sem forseti hittir alla ríkisstjórnina. 

 

Þótt sviptingar við ríkisstjórnarmyndun séu ótaldar, er ljóst, að forseti, sem ætlar að vera miklu meira en upp á punt, þarf að hafa bein í nefinu og leggja fram mikla vinnu.  Hann þarf að hafa ferilslýsingu, sem styður, að hann geti leyst þetta af hendi. 

Það blasir við, að einn frambjóðendanna er sem sniðinn í þetta alvöru hlutverk æðsta embættis landsins. Hann er vel að sér um stjórnskipun landsins og landshagi, gagnmenntaður innan lands og utan og hefur setið á Alþingi (sem varamaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn, en er ekki lengur flokksbundinn), og hann er þjálfaður við að kryfja mál til mergjar.  Nú ríkir þingræði á Íslandi að forminu til, en það hefur verið útþynnt allrækilega með aðildinni að Evrópska efnahagssvæðinu, EES, sem leiðir til innleiðingar afar viðamikillar löggjafar Evrópusambandsins (ESB) í íslenzka lagasafnið um málefni, sem ESB telur eiga við um Innri markað EES.  Íslenzkir embættismenn hafa tekið upp á því að blýhúða þessa löggjöf, þ.e. að gera hana meira íþyngjandi fyrir atvinnulíf og almenning en efni standa til, en verst er, að sumt frá Brüssel samræmist illa stjórnarháttum hér og stjórnarskrá.  Neyðarhemil væri ómetanlegt að hafa í þessum efnum á Bessastöðum, en af 12- menningunum, sem valið stendur um 2024, er aðeins einn, sem líklegur er til að koma að haldi í þeim efnum, og hann heitir Arnar Þór Jónsson. Þetta fékkst rækilega staðfestst í Sjónvarpsumræðum allra frambjóðendanna hjá Ríkisútvarpinu föstudagskvöldið 3. maí 2024.  

 

 

  

 


Ísland og Evrópusambandið

Af landfræðilegum, menningarlegum og sögulegum ástæðum er gríðarlega mikilvægt fyrir Íslendinga, að samband landsins við Evrópulöndin sé hagfellt og traust. Frá stríðslokum 1945 hefur tilhneigingin í Evrópu verið aukið viðskiptalegt, menningarlegt, peningalegt og pólitískt samband, sem formgert hefur verið með Evrópusambandinu - ESB og Seðlabanka evrunnar.  

Íslendingar eru í viðskiptasamtökunum EFTA með Norðmönnum, Liechtensteinum og Svisslendingum, en mikil samstarfsþjóð Íslendinga, Bretar, ásamt fáeinum öðrum Evrópuþjóðum hafa séð hagsmunum sínum bezt borgið með því að standa utan við bæði ESB og EFTA og reiða sig á fríverzlunarsamninga í sumum tilvikum.  

  Þeim málefnasviðum fer fækkandi í ESB, þar sem aðildarríkin hafa neitunarvald.  Þetta og sú staðeynd, að löggjöf ESB er í mörgum tilvikum sniðin við aðstæður, sem í litlum mæli eða alls ekki eiga við í litlu eyjarsamfélagi, gerir að verkum, að of áhættusamt er fyrir Ísland að leita eftir aðild að ESB, og Norðmenn hafa metið stöðuna á sama veg fyrir Noreg sem auðlindaríkt land. Norðmenn sætta sig við að taka ekki þátt í ákvarðanatöku ESB. Þá vaknar auðvitað spurningin um, hvernig hagfelldast og öruggast sé fyrir Ísland að haga sambandinu við ESB. 

Í byrjun 10. áratugar 20. aldar bjó ESB til biðsal fyrir EFTA-ríki, sem hugsanlega mundu sækja um aðild síðar og mundu nota biðtímann fyrir aðlögun að regluverki ESB.  Þetta var kallað Evrópska efnahagssvæðið - EES.  Síðar breytti ESB umsóknarferlinu, og önnur en EFTA-ríkin hafa ekki gengið í EES.  Þetta fyrirkomulag var hannað til báðabirgða, og hefur augljósa galla, en hefur verið látið dankast, og líklega hefur ESB engan hug á að endurskoða það. 

Meginvalkosturinn við EES fyrir EFTA-ríkin er víðtækur fríverzlunarsamningur við ESB.  Það væri þarfur gjörningur, að utaníkisráðuneytið, hugsanlega í samstarfi við EFTA, léti greina kosti og galla víðtæks fríverzlunarsamnings í samanburði við EES og legði mat á hvort tveggja í EUR/ár m.v. núllstöðuna, sem er að standa utan við hvort tveggja, en í EFTA. 

Hjörtur J. Guðmundsson, sagnfræðingur og alþjóða stjórnmálafræðingur (MA í alþjóða samskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál) hefur aflað sér haldgóðrar yfirlitsþekkingar á þessum málum og skrifað mikið um þau.  Hann reit grein í Morgunblaðið 11. marz 2024 undir fyrirsögninni:

 "Verri viðskiptakjör í gegnum EES".

"Hins vegar hefur sambandið á undanförnum árum samið um víðtæka fríverzlunarsamninga við ríki á borð við Kanada, Japan og Bretland, þar sem kveðið er á um tollfrjáls viðskipti með sjávarafurðir [sem eru betri viðskiptakjör en Ísland nýtur við ESB].

Fyrir vikið hafa íslenzk stjónvöld á liðnum árum ítrekað óskað eftir því við Evrópusambandið, að komið yrði á fullu tollfrelsi í viðskiptum með sjávarafurðir í gegnum EES-saminginn. Óásættanlegt væri, að ríki, sem ekki væru í eins nánum tengslum við sambandið, nytu hagstæðari tollkjara.  Til þessa hefur sú viðleitni ekki skilað tilætluðum árangri, en tollar eru einkum á unnum og þar með verðmætari afurðum." 

Þessi öfugsnúna afstaða ESB gagnvart EFTA-ríkjunum, gæti átt sér eftirfarandi skýringar:  ESB þarf að meðhöndla fiskveiðiþjóðirnar þar innan borðs eins, og það er mikið magn unninna fiskafurða, sem berast mundi Innri markaðinum á meginlandinu frá Íslandi og Noregi.  Framkvæmdastjórnin óttast sennilega afdrif fiskiðnaðar innan ESB, ef slíkt gerist, og neitar því Íslendingum um lækkun þessara tolla.  Af ótta við fordæmi gagnvart Norðmönnum er ekki sérlega líklegt, að ESB væri tilleiðanlegt til að semja um lækkun þessara tolla í fríverzlunarsamningum.  

"Meginástæða þess, að ákveðið var á sínum tíma, að Ísland skyldi gerast aðili að EES-samninginum, var sú, að við Íslendingar áttum að njóta sérstakra kjara fyrir sjávarafurðir inn á markað Evrópusambandsins umfram þá, sem ekki ættu aðild að honum.  Einkum og sér í lagi m.t.t. tolla.  Á móti áttum við að taka upp regluverk sambandsins um innri markað þess.  Var það réttlætt með sérstöku kjörunum."  

Nú hefur ESB grafið undan þessari röksemdafærslu með téðum fríverzlunarsamningum. Það setur EFTA-löndin í óhagkvæma stöðu. Framkvæmdastjórn ESB gerir tillögu um það til Sameiginlegu EES-nefndarinnar, hvað taka beri upp í landslög EFTA-landanna. Eðlilega einblínir hún í því viðfangi á langöflugasta ríkið á þeim vettvangi, Noreg.  Það, sem á vel við Noreg, á alls ekki endilega vel við Ísland.  Dæmi um það er orkulöggjöf ESB, s.k. Orkupakkar 1-4, þar sem Noegur er tengdur við hin skandinavísku löndin með lofttlínum og við Danmörku, Þýzkaland og Holland með sæstrengjum.  Reyndar voru líka miklar deilur um réttmæti innleiðingar þessarar löggjafar í Noregi, og fyrir Ísland er langsótt að tengja raforkukerfi landsins við Innri markað ESB.  Það er fjölmargt, sem kemur frá Sameiginlegu EES-nefndinni til viðkomandi ráðuneytis og síðan Alþingis, sem er meira íþyngjandi en gagnlegt fyrir okkar litla hagkerfi.  Á grundvelli reynslunnar af víðtækum fríverzlunarsamningi við Bretland væri fróðlegt, að "óháð" stofnun eða fyrirtæki mundi gera samanburð á hagkvæmni líklegrar niðurstöðu samningaviðræðna um víðtækan fríverzlunarsamning við ESB annars vegar og hins vegar á óbreyttri aðild að EES.  

"Fram kemur í svari frá utanríkisráðuneytinu í ágúst 2022 við fyrirspurn frá mér, að áætlað sé, að tollar á íslenzkar sjávarafurðir í gegnum EES-samninginn nemi árlega mrdISK 2,5-2,7.  Í svari ráðuneytisins við annarri fyrirspurn minni árið 2019 kemur hins vegar fram, að án samningsins væri aukinn kostnaður vegna útfluttra sjávarafurða áætlaður að lágmarki mrdISK 4,2 vegna eftirlits og skerts greiðsluþols."

Ávinningur EES-samningsins fyrir sjávarútveginn  að öðru óbreyttu er þannig um 1,6 mrdISK/ár og er þannig frekar rýr í roðinu, og kostnaðurinn af innleiðingu reglugerðafargans ESB fyrir Ísland vafalaust hærri, en taka verður tillit til ávinnings allra útflutningsvaranna, áls og annarra iðnaðarvara og þjónustu ásamt styrkjum, skólasamstarfi o.fl., og verður heildarsamanburðurinn þá líklega EES í vil.

Hins vegar væri fróðlegt að færa kostnaðinn 2,6 mrdISK/ár niður á tonn og bera saman við tollkostnað o.þ.h. við útflutning sjávarafurða á tonn til Bretlands samkvæmt fríverzlunarsamninginum við Breta. 

"Miðað við tölur ráðuneytisins má þannig draga þá ályktun, að ef Ísland gerði víðtækan fríverzlunarsamning við Evrópusambandið í stað EES-samningsins og þyrfti þar með að sæta auknu eftirliti með sjávarafurðum af hálfu sambandsins, en nyti á móti fulls tollfrelsis í þeim efnum, væri viðskiptalegur ávinningur af aðildinni, hvað umræddar vörur varðar, mögulega einungis á bilinu 1,5-1,7 mrdISK/ár." 

Það hafa líklega engar þreifingar farið fram af Íslands hálfu gagnvart ESB um, hvers konar skilmálar væru í boði við gerð víðtæks fríverzlunarsamnings við ESB í stað EES-samningsins, og þess vegna er að svo komnu erfitt að meta hagkvæmni fríverzlunarsamnings í samanburði við EES-samninginn.  Á þrítugsafmæli hans um þessar mundir er tímabært að breyta þessu, enda er mikið valdaójafnvægi fólgið í þessu báðabirgða fyrirkomulagi.  Inn í hagkvæmnisamanburð EES og fríverzlunarsamnings er nauðsynlegt að taka kostnað þjóðfélagsins af hinu ólýðræðislega fyrirkomulagi að senda Alþingi Íslendinga lagasetningu í pósti, þar sem engu má breyta.  Svona fyrirkomulag grefur undan lýðræðinu og sjálfstæðisvitund almennings, enda lítillækkandi. Hjörtur minnist á þetta:

"Taka þarf enn femur með í reikninginn vaxandi tilkostnað vegna íþyngjandi regluverks frá Evrópusambandinu fyrir bæði atvinnulífið og almenning, sem innleiða þarf vegna EES-samningsins.  Óheimilt er að innleiða regluverkið minna íþyngjandi, en fullt svigrúm til þess að gullhúða það, eins og það hefur verið kallað.  Utan EES væri hægt að setja minna íþyngjandi regluverk í stað regluverks sambandsins eða alls ekkert." 

Í ljósi reynslunnar ætti að banna embættismönnum ráðuneytanna að breyta reglugerðum og tilskipunum ESB í meira íþyngjandi átt fyrir atvinnulíf og skattgreiðendur en ESB gefur tilefni til og fitja upp á samtali við ESB um það, að Ísland geti í Sameiginlegu EES-nefndinni gert tillögu um efnislegar breytingar á því, sem frá ESB kemur, í ljósi landfræðilegrar legu og fámennis. Það yrði þarft verk að sníða helztu skavankana af þessu samstarfi EFTA/ESB, en það er ekki einfalt eða auðvelt, á meðan utanríkisáðherra Noregs kemur frá stjórnmálaflokki, sem vill sjá Noreg innanborðs í ESB, en þannig er því varið bæði með Hægri og Verkamannaflokkinn.  Hver trúir því, að Samfylkingin, einn jafnaðarmannaflokka Norðurlandanna, muni ekki vilja dusta rykið af alræmdri aðildarumsókn Össurar Skarphéðinssonar frá 2009 ?  

 

 

 

  

 


Rússneski heimspekingurinn og félagsfræðingurinn Grigory Yudin

Nú, seint og um síðir, virðist vera að renna upp ljós fyrir Vestur-Evrópuleiðtogunum, að Evrópu stafar tilvistarhætta af Rússlandi og það verður undir hælinn lagt, hversu gagnlegur hernaðarstuðningur mun berast frá Bandaríkjunum, ef/þegar í harðbakkann slær. Nú bítur Evrópa úr nálinni með að hafa sofið á verðinum frá lokum Kalda stríðsins 1989 og hunzað heri sína.

Frakkar hafa frá forsetatíð Charles de Gaulle, hershöfðingja, þann steininn klappað, að Evrópuþjóðirnar ættu að efla herstyrk sinn, jafnvel undir sameiginlegri herstjórn, en vegna NATO hefur þetta sjónarmið ekki hlotið hljómgrunn fyrr en nú.  Samstaða um að senda evrópskt herlið inn í Úkraínu til að berjast þar við hlið Úkraínumanna hefur þó ekki náðst.  Gjammið í Kreml sem viðbögð við því er þó ekki annað en gelt í grimmum og tannlausum hundi.  Hernaðaryfirburðir NATO gagnvart Rússlandi eru 4-5 faldir á öllum sviðum hernaðar, enda er landsframleiðsla Rússlands ekki meiri en Spánar. 

Rússneski heimsspekingurinn og félagsfræðingurinn Gegory Yudin spáði því, að "stríð Rússlands gegn Úkraínu yrði hörmung (e. disaster) fyrir Rússland á allan mögulegan hátt".  Hann var einn örfárra rússneskra sérfræðinga þeirrar skoðunar í febrúar 2022, að stríð á milli Rússlands og Úkraínu væri óhjákvæmilegt. Í grein, sem birtist 2 dögum fyrir innrásina, spáði Yudin því, að meiriháttar stríð væri yfirvofandi, að Rússar mundu verða ginnkeyptir fyrir ásökunum Kremlar á hendur Vesturveldunum og að viðskiptaþvinganir hefðu engin áhrif á Pútín - allt gekk þetta eftir. 

Hann sagði, að Pútín þyrfti "viðvarandi stríð" til að halda almenningi í skefjum.  Á móti kvað hann breiðfylkingu stríðsandstæðinga mundu myndast í Rússlandi.  Nú er spurning, hvað gerist í kjölfar aftöku aðalstjórnarandstæðingsins Navalny og kosningaskrípaleiks til forsetaembættis. 

 

"Stríðið er nú endalaust.  Með því eru engin náanleg markmið, sem leitt geta til lykta þess.  Það heldur einfaldlega áfram, af því að [í hugarheimi Pútíns] eru þeir óvinir, og þeir ætla að drepa okkur, og við viljum drepa þá.  Fyrir Pútín er þetta tilvistarbarátta við óvin til að eyðileggja hann."

Yudin er prófessor í stjórnmálalegri heimsspeki í Moskvuháskóla fyrir félags- og hagfræði.  Í mótmælum gegn stríðinu var hann barinn og lagður inn á sjúkrahús. 

Hann var líka einn hinna fyrstu til að greina þýðingu uppreisnarinnar gegn Pútín, sem leidd var af foringja Wagner-málaliðanna, Yevgeny Prigozhin. 

Hann benti á, að Prigozhin hafði sakað hernaðarforystu Rússlands um lélega skipulagningu, sem leitt hefði til svika við og fórna á rússneskum hermönnum, og á sama tíma dró hann í efa rökin fyrir stríðinu í Úkaínu. Hann hélt því fram, að allt stríðið væri afleiðing innantóms þjóðernismonts Pútíns, af því að Úkraínuforseti, Volodymyr Zelensky, hefði verið opinn fyrir samningaviðræðum í upphafi. 

Við eitt tækifæri hefði Prigozhin kallað rússnesku forystuna "geðsjúka drullusokka og hálfvita" fyrir að ákveða að "fleygja aftur nokkum þúsundum rússneskra drengja inn í kjöthakkavél til að drepast eins og hundar". 

Vönduð greining Yudins á tilhneigingum og stemningu í rússnesku samfélagi leiðir til einnar ályktunar: æ fleiri Rússum finnst, að landið sé komið í blindgötu. Ennfremur kemst hann að þeirri niðustöðu, að það sé algerlega útilokað fyrir Rússland að vinna. 

Í Úkraínu er engin sýnileg leið til rússnesks sigurs, þótt handbendið Donald Trump nái markmiði sínu, því að Evrópa mun sjá Úkraínu fyrir nauðsynlegum stuðningi, þótt takmarkaður sé.  Pútín spinnur upp sviðsmyndir fyrir óhjákvæmilegan rússneskan sigur: Fyrst átti að nást auðveldur sigur með því að ýta Kænugarðsstjórninni frá völdum, síðan með því að leggja undir sig Donbas, þá með eyðileggingu lífsnauðsynlegra innviða í Úkraínu og valda alvarlegum orkuskorti í Evrópu síðast liðinn vetur, síðan með því að bíða eftir þreytu vestrænna ríkja við stuðning við Úkraínu með vopnasendingum.  Margir Rússar voru fúsir til að leggja trúnað á veruleikafirrtan spuna Pútíns, en fáir geta nú látizt trúa því, að góður endir sé í sjónmáli.  Fremur liggur ósigur í loftinu, og þótt um bannorð sé að ræða í opinberri umræðu, eins og var í Þriðja ríkinu á sinni tíð, skýtur því æ oftar upp í einkasamtölum. Við opinber tækifæri, á meðan á Prigozhin-uppeisninni stóð, ýjaði Pútín þó að möguleikanum á ósigri með því að hefja máls á "rýtingsstungu í bakið". 

Það er eftirtektarvert, að Prigozhin mætti í uppreisn sinni sáralítilli mótspyrnu frá yfirstéttinni, sem þagði að mestu í heilan sólarhring.  Almenningur fagnaði og embættismenn aðhöfðust ekkert, þegar her Prigozhins hélt til Moskvu án teljandi viðnáms rússneska hersins.  Þetta segir þá sögu, að allir séu orðnir hundleiðir á sjúklegum stjórnarháttum Pútíns.      


Úkraína og önnur lönd Evrópu

Flest Evrópuríkin hafa vanrækt varnir sínar síðan Járntjaldið féll og kommúnistastjórnir Austur-Evrópu þar með.  Þau hafa teyst á varnarmátt Bandaríkjanna og skjöldinn, sem NATO-aðildin veitir þeim.  Tvennt hefur valdið algjöru endurmati þeirra á öryggi sínu.  Gáleysisleg og algerlega ábyrgðarlaus ummæli handbendis rússneskra ólígarka, Donalds Tumps. (Þeir hafa forðað honum frá gjaldþroti einu sinni.  Hann á hvergi heima, nema á bak við rimlana.  Hvenær verður hann dæmdur fyrir landráð ?) DT lét hafa eftir sér þau ótrúlegu ummæli, sem gert hefðu út af við framavonir allra, nema hans, að yrði hann forseti BNA aftur, og Rússar réðust á NATO ríki, sem ekki hafa náð markmiði NATO um árleg útgjöld til hermála, mundi Bandaríkjaher ekki verja þau, heldur hvetja Rússa til að hertaka þau.  Þessi maður er greinilega ekki með öllum mjalla.

Hitt atriðið, sem vakið hefur Evrópu upp af Þyrnirósarsvefni hins eilífa friðar, var innrás Rússahers í Úkraínu 24.02.2024, sem augljóslega er tilraun gerspilltra Kremlverja til að hneppa Úkraínu í nýlenduánauð og er aðeins fyrsta skref þeirra til að hneppa öll Varsjárbandalagsríkin í nýlenduánauð.  Þessi ríki fara ekki í grafgötur um þetta óþverrabragð Kremlarfantsins og hervæðast nú sem mest þau mega.

  Eftir mikið japl og jaml og fuður eru Þjóðverjar nú loksins að taka forystu um varnir Evrópu eftir að vera lausir úr viðjum Rússa um orkuafhendingu.  Forysta Þýzkalands viðist hafa sannfærzt um hættuna, sem landinu og hagsmunum þess stafar af útþenslustefnu einræðisríkis í austri og hefur sett hertólaverksmiðjur Þýzkalands á full afköst og verið er að auka framleiðslugetuna, m.a. með verksmiðju Rheinmetall í Úkraínu. 

Á meðan mannfall Rússa í Úkraínu fer yfir 400 k, hefur óvinur þeirra, sem þeir reyna að hræða frá stuðningi við Úkraínu - Evrópa - aftur á móti brýnt sverð sitt.  Öll 31 NATO-ríkin og Svíþjóð hafa hafið æfinguna "Staðfastur varnarher" til að framkalla það, sem varnarmálaráðherra Breta, Grant Shapps, kallar "reassurance against the Putin menace". 

U.þ.b. 90 k hermenn frá öllum NATO-löndunum (Landhelggisgæzlan frá Íslandi ?) taka þátt í þessari miklu heræfingu.  Upphaflega verður einblínt á eflingu yfirráða NATO á öllu Atlantshafinu og í Norður-Íshafinu.  Í síðari þættinum verður æft að senda herlið um alla Evrópu til varnar, frá Íshafinu og að austurvæng NATO. Þetta er umfangsmesta heræfing NATO í 35 ár.  Þannig væri tíminn ranglega valinn nú hjá rússneskum varðmanni á finnsku landamæunum að hleypa "óvart" af skoti. 

Þriðjungur rússneskra hermanna á vígstöðvunum fellur, og er það sama hlutfall og í Rauða hernum í Heimsstyrjöldinni síðari.  Aðaldauðaorsökin er blóðmissir vegna útlimasárs.  Aðalupphafsmeðferð  særðra rússneskra hermanna á sjúkrahúsi er aflimun.  Að komast á sjúkahús er martröð.  Flestir særðra rússneskra hermanna eru fluttir á bílum að vígvallarsjúkrahúsum við landamæri Rússlands, og tekur ferðin að jafnaði einn sólarhring.  Eftir fyrstu aðgerð þar bíða þessir særðu hermenn eftir flugferð langt inn í Rússland, sem yfirleitt tefst.

Hreinlæti og sótthreinsun er ekki viðhaft í rússneska hernum, og heldur ekki í herteknum þorpum og borgum, t.d. Mariupol.  Faraldrar geta þess vegna hafizt þarna senn. 

Rússland hefur misst 6442 skriðdreka frá 24.02.2022 til 31.01.2024. Þetta eru fleiri skriðdrekar en tóku þátt í byrjun innrásarinnar.  Rússar nota nú 50 ára gamla skriðdreka, uppfærða frá 7. áratugi 20. aldarinnar.  Þá hafa rússar á tímabilinu misst 12090 brynvarin bardagatæki, 12691 ökutæki og eldsneytisflutningabíla, 9620 fallbyssur, 671 loftvarnarkerfi, 984 fjölflugskeytapalla, 332 flugvélar, 325 þyrlur, 7404 dróna and 25 herskip og -báta. 

Hermenn, sem fylla skörðin, eru illa þjálfaðir.

Til samanburðar misstu Ráðstjórnarríkin 15 k menn í innrásinni í Afganistan, og íbúar þeirra voru næstum tvöfalt fleiri en Rússlands nú.  

Á sjó er staða Rússa enn verri en á landi og í lofti.  Þriðjungur Svartahafsflota þeirra hefur verið eyðilagður með úkraínskum sjávardrónum, og afgangurinn hefur flúið Krímskagann og halda sig til hlés í rússneskum höfnum, og rússnesk eldflaugaskip hafa flúið út úr Svartahafi.  Svartahafið er nú á valdi Úkraínu, og kornútflutningur landsins fer nú óáreittur af hryðjuverkaríkinu um Svartahafið. 

Mistakasmiðurinn Pútín er að verða uppiskroppa með fallbyssufóður og hertól.  Honum hefu tekizt að mynda almenna samstöðu gegn sér í heiminum og einkum í Evrópu, þar sem menn sjá söguna endurtaka sig að breyttu breytanda.  Þótt Frakkar hafi látið tiltölulega lítinn hernaðarstuðning í té við Úkraínumenn fram að þessu, hefur nú franski forsetinn opinberlega bryddað upp á því, að Evrópurríkin sendi hermenn sína til að berjast við hlið Úkraínumanna.  Þetta óttast Kremlarmafían mjög, enda kom strax hlægileg tilkynning úr Kremlarkjaftinum um, að þar með væri NATO komið í stríð við Rússland.  Þetta er innantóm hótun.  Rússland getur ekki unnið stríð við NATO.  Því lyki löngu áður en allsherjar herútboð gæti farið fram í Rússlandi. 

Ein milljón manns á herskyldualdri hefur flúið Rússland síðan "sérstaka hernaðaraðgerðin" hófst.  Árin 2022-2023 laut rússneski herinn á tímabili í lægra haldi fyrir úkraínska hernum með þeim afleiðingum, að Úkraínumenn náðu að frelsa 40 % af herteknu landi. 

 

Þýzki kanzlarinn, Olaf Scholz, hafði vonandi rétt fyrir sér, þegar hann kvað nýtt tímabil runnið upp, þar sem nýtt Þýzkaland kæmi fram á sjónarsviðið, sem væri reiðubúið að axla nýjar skyldur.  Þar með hefur garminum Pútín tekizt það, sem bandamönnum Þýzkalands tókst ekki: að fá Þýzkaland til að axla hernaðarlegt forystuhlutverk í Evrópu.  Í Heimsstyrjöldinni seinni átti Wehrmacht í höggi við bandarískan vopnaiðnað á  austurvígstöðvunum, sem sá Rauða hernum fyrir stórum hluta af skriðdrekum hans, flutningabílum og fallbyssum.  Það, sem heldur Rússlandi á floti núna, eru Kína og Íran.   

  

 

 

 

 


Pyrrosarsigur Rússa - að míga í skóinn sinn

Barry Gander, Kanadamaður, sem býr í Connecticut í Bandaríkjunum, ritar um samtímaatburði af þekkingu í Mastodon@Barry.  Um miðjan febrúar 2024 skrifaði hann um Úkraínustríð 21. aldarinnar, og verður hér stuðzt við grein, sem heitir: "Today it is 400.000".

Fjöldi fallinna rússneskra hermanna í Úkraínu hefur nú farið yfir 400 k síðan hin ósvífna og skammarlega innrás hófst 24.02.2022.  Þetta þýðir um 550 manns á dag og undanfarnar vikur hefur talan verið 950 á dag, sem sýnir í hnotskurn, hversu gríðarlega mikla áherzlu gerspillt stjórnvöld í Kreml leggja á það að knésetja lýðræðislega kjörin stjórnvöld Úkraínu í Kænugarði. Mannfallið í bardögum um borgina Avdevka, nærri Donetsk borg, hefur verið gríðarlegt, og hún féll um miðjan febrúar 2024 í hendur Rússa, rústir einar. Brezk leyniþjónusta spáir 500 k Rússum föllnum í Úkraínu við árslok 2024.  Enginn veit, hvar víglínan verður þá, en það er ljóst, að harðstjórinn í Kreml ætlar að gera Úkraínu að nýlendu Rússlands.  Það mega Vesturlönd ekki láta kúgarann í Kreml komast upp með á 21. öld, enda væri þá öryggi og stöðugleika í Evrópu ógnað alvarlega. 

Á sama tíma og Rússar hafa misst 400 k, hafa 70 k úkraínskir hermenn fallið og aðrir 120 k særzt.  Þannig hefur 1 úkraínskur hermaður fallið á móti 5,7 Rússum, sem er hátt hlutfall og vitnar um ólíka herstjórnarlist. Staðan versnar enn fyrir Rússa, þegar málaliðar á borð við Wagner-herinn eru teknir með í reikninginn.  Tala fallinna þar er um 100 k.  Hlutfallið hækkar þá í 7,1. 

Í byrjun janúar 2024 voru meira en 320 k rússneskir hermenn í Úkraínu.  Úkraína er með 800 k framlínuhermenn í þjónustu, og 500 k verða kvaddir í herinn fyrir sumarið 2024.  Það gefur 1,3 M undir vopnum, þjálfaðir og einbeittir í að verja fósturjörðina gegn rugluðum villimönnum að austan. 

Rússar berjast með undirmönnunarhlutfall 1:2,5, en innrásarher er jafnan talinn þurfa að vera með yfirmönnunarhlutfall 3:1.  Rússar hafa hins vegar haft meira af skotfærum og ráðið í lofti, ef drónarnir eru undanskildir.  Með tilkomu F16 orrustuþotna í herafla Úkraínumanna munu þeir ná yfirhöndinni í lofti.  Þegar þeir jafnframt fá Taurus stýriflaugarnar þýzku, munu verða kaflaskil í þessum átökum austurs og vesturs.

Enginn viti borinn stjórnmálamaður með sæmilega hernaðarráðgjafa hefði ráðizt með jafnveikum herafla inn í Úkraínu og Pútín gerði 24.02.2022.  Hann er dómgreindarlaus fantur, sem lifir í óraunveruleikaheimi fortíðarþráar.  Haft er eftir Lafrov, utanríkisráðherra Kemlarklíkunnar, þegar hringt var í hann um innrásarnóttina og hann spurður, hver hefði eiginlega ráðlagt forsetanum þetta.  Lafrov sagði þá efnislega, að Pútín hlustaði aðeins á 3 ráðgjafa, og það væru Ívan grimmi, Pétur mikli og Katrín mikla. 

Leyniskýrsla frá herforingjaráði og pólitískri elítu Rússlands til Pútíns, "Conclusions of the war with NATO in Ukraine", klykkti út með, að 5 M rússneska hermenn þyrfi til að vinna slíkt stríð.  (Voru ekki 6 M í Rauða hernum, sem rak Wehrmacht til Berlínar ?) Pútín sigaði 250 k hermönnum inn í Úkraínu 24.02.2024, og þá voru 300 k í úkraínska hernum, og þeir voru betur þjálfaðir. 

Síðar þennan dag komu nokkrar tylftir olígarka saman í Kreml.  Þeir voru meðvitaðir um, að Vesturveldin mundu hrinda af stað refsiaðgerðum gegn Rússum.  "Allir voru gjörsamlega ráðþrota", er haft eftir einum fundarmanna, en þeir sáu illa fenginn auð sinn (að mestu þýfi frá rússneska ríkinu) í algjöru uppnámi. 

Það lítur út fyrir, að Pútín hafi ímyndað sér ríkisstjórn Zelenskys vera veika og óvinsæla, og almenning í Úkraínu upptekinn við vandamál fjárhagslegs eðlis.  Hann óttaðist, að rússnesk áhrif í Úkraínu færu dvínandi, einkum vegna djúptækara samstarfs Kænugarðs við Bandaríkin og NATO-bandamenn þeirra.  Hann leit á Evrópu sem veika og sundraða.  Angela Merkel, kanzlari Þýzkalands, sem hann skemmti sér við að hræða með hundum sínum, af því að hún óttaðist hunda, var að láta af völdum, Bretland væri í óreiðu eftir úrsögnina úr ESB og COVID ylli uppnámi um alla Evrópu.  Hann óttaðist ekki NATO: NATO væri veikt og sundurþykkt. Kjáninn trúði eigin áróðri.  

Allt voru þetta ranghugmyndir vitstola manns, og Rússar gjalda þær dýru verði með ógnarlegu mannfalli og hergagnatapi upp á hundruði mrdUSD.  Mannfallið og hergagnatapið í bardögunum um Avdevka, þar sem Rússar unnu nýlega Pyrrosarsigur, sýnir, að Moskva hefur ekki "lært lexíuna um, hvernig á að standa almennilega að vélahernaði", samkvæmt Riley Bailey, Rússlandssérfræðingi hjá "The Institute for the Study og War".   

Beztu deildir rússneska hersins hafa verið eyðilagðar og allt, sem eftir er af honum, eru illa þjálfaðir herkvaðningarmenn, gamlir skriðdrekar og brynvarðir bílar.  Á meðan fær Úkraínuher nútíma búnað og beztu þjálfun og herstjórnarlist.

Undirbúningsleysi jafngildir alvarlegum afleiðingum.  Í desember 2022 greindu rússneskir sálfræðingar u.þ.b. 100 k hermenn, sem þjáðust af áfallastreituröskun. Þessi fjöldi er ábyggilega meiri, af því að viðverutími hermannanna á vígvöllunum er mjög langur.  Um þetta stóð í brezkri skýrslu: 

"With a lack of care for its soldiers´ mental health and fitness to fight, Russia´s combat fighting effectiveness continues to operate at sub-optimal levels".  

 


Vesturlöndum stendur mikil ógn af glóruleysi Rússlandsstjórnar

Pútín, forseti Sambandslýðveldisins Rússlands, hefur gefið út tilskipun um, að rússneska ríkinu beri að vinna að því ná undir sig öllum löndum, sem voru innan vébanda Ráðstjórnarríkjanna, og öllum öðrum landssvæðum, sem Rússakeisari réði áður.  Til þessara svæða telst m.a. Alaska, sem Bandaríkjamenn keyptu af zarnum 1867.  Þessari tilskipun verður aðeins lýst sem geðveiki einæðisherra, en hún hlýtur að leiða til þess, að Vesturlönd, einkum Evrópuríkin, sjái skriftina á veggnum og endurhervæðist. Samþykkt Ráðherraráðs Evrópusambandsins (ESB) 01.02.2024 á mrdEUR 50 fjárhagsstuðningi við Úkraínu yfir 4 ár ber að fagna, en handbendi Pútíns, Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, skipti um afstöðu til málsins, svo að samþykktin verð einróma.  

 Ef Donald Trump verður næsti forseti Bandaríkjanna, er ógnin geigvænleg, því að þessi fasisti mun svíkja Úkraínu og Eystrasaltslöndin og síðan öll önnur ríki Varsjárbandalagsins sáluga í hendur sálufélaga síns, Pútíns.  Hvernig hann bregzt við kröfunni um Alaska, er efiðara að ímynda sér.  

Nú standa Rússar blóðugir upp að öxlum i Úkraínu.  Vesturlönd verða að átta sig á því, að Úkraínumenn úthella nú blóði sínu ekki einvörðungu til varnar frelsi og sjálfstæði eigin lands, heldur allrar Evrópu. Þessi rússneska útþenslustefna og hatur á Vesturlöndum er ekki bundin við einn mann í Kreml, heldur hefur þessi vitfirring verið við lýði frá stofnun rússneska keisaradæmisins fyrir um 300 árum. Fleiri evrópsk keisaraveldi voru illa haldin af þessari áráttu á 19. og 20. öld, en 2 heimsstyrjaldir hafa læknað viðkomandi þjóðir af árásarhneigð og útþenslustefnu.

Rússneska þjóðin er fátæk og fjölmargir lifa undir fátæktarmörkum, enda viðgengst ægileg spilling og misrétti í Rússlandi.  Rússar hafa reynzt ófærir um að innleiða lýðræði hjá sér og sjúklegt hugarfar og afstaða til annarra þjóða hefur ekki breytzt þar.  Þar verður engin breyting til batnaðar, nema ríkið sundrist, sem gæti orðið við niðurlægjandi tap rússneska hersins í átökunum við úkraínska herinn.  Með óbreyttum stuðningi Vesturlanda verður það þó ekki, og afstaða Bandaríkjamanna ræður þar mestu um.  Það er ótrúlegt, að bandaríska þingið skuli ekki líta á fjárhagsstuðning á formi hergagna og annars við Úkraínu sem mjög hagkvæma fjárfestingu í framtíðinni. Ætlar skammsýnin og blindnin að verða Vesturlöndum að falli ?

Börkur Gunnarsson, kvikmyndaleikstjóri, er ýmsum hnútum kunnugur í Úkraínu og hefur dvalið þar.  Hann hefur frætt lesendur Morgunblaðsins um kynni sín af Úkraínumönnum.  Grein hans 22. janúar 2024 bar yfirskriftina:

       "Innrás Pútíns hefur allt önnur menningarleg áhrif en hann ætlaði":

"En menningarbreytingarnar í Úkraínu eru það, sem ég hef mestan áhuga á.  Sem áhugamaður um sagnfræði las ég mér mikið til um sögu þeirra ríkja, sem mynduðu Sovétríkin.  Þá var hefð [á] meðal sovézkra sagnfræðinga að gera lítið úr því, að það voru norrænir menn, sem áttu mikilvægan þátt í risi Kyiv, en margir rússneskir sagnfræðingar efuðust um heimildir, sem studdu það.  Það hentaði ekki stefnu Kremlar, að víkingar frá Norðurlöndunum ættu eitthvað í því stórveldi, sem Kyiv ríkið var frá 10. öld og fram til ársins 1240, að Mongólar sigruðu her ríkisins, myrtu flesta íbúana og brenndu höfuðborgina til grunna.  

En þegar ég tók viðtal við forstöðumann úkraínska þjóðminjasafnsins í höfuðborginni, varð mér ljóst, að í dag gera Úkraínumenn mikið úr þessum uppruna.  Kenningin er ekki aðeins rökum reist, heldur hentar hún þeim, sem nú stjórna."

Það voru aðallega sænskir víkingar í viðskiptaerindum  eftir fljótum Úkraínu á leið að Svartahafi og niður að Miklagarði, sem sáu sér hag í bandalagi við harðduglega heimamenn, sem þarna áttu í hlut, og má segja, að lengi hafi logað í gömlum glæðum ýmissa tengsla norrænna manna við Úkraínumenn.  Það hefur komið í ljós í blóðugri baráttu Úkraínumanna við arfaka Mongólaveldisins, Rússana, einkum efir innrásina 24. febrúar 2024. 

Blinda vestrænna leiðtoga lýðræðisríkja á söguna og framtíðina er tilefni til áfallastreituröskunar.  Þannig hefur það alltaf verið með þeirri afleiðingu, að hurð hefur skollið nærri hælum í 2 heimsstyrjöldum í viðureigninni við útþenslusinnuð einræðisríki. Bandaríkin komu þá til hjálpar, enda var ráðizt á þau í seinna skiptið og stríði lýst á hendur þeim, en svo bregðast krosstré sem önnur tré.  Fasistinn, sem nú um stundir stefnir hraðast á Hvíta húsið, en kann að verða settur á bak við lás og slá vegna afbrota sinna, er aðdáandi einræðisherra heimsins á borð við Pútín og hefur hótað því að draga Bandaríkin út úr NATO.  Hvers konar hrikalegt döngunar- og úrræðaleysi er það á meðal ríkisstjórna fjölmennustu þjóða Evrópu að hafa ekki nú þegar stóreflt hergagnaframleiðslu sína til að geta staðið myndarlega við bakið á Úkraínumönnum og birgt upp eigin herafla og gert hann bardagahæfan á ný ?  Á meðal Evrópuþjóðanna eru góðar undantekningar, og má þar telja Pólverja, Eystrasaltsþjóðirnar og Finna. 

Þann 23. janúar 2024 birtist önnur grein í Morgunblaðinu eftir sama höfund, Börk Gunnarsson.  Fyrirsögn hennar var þessi:

"Ekki viss um, að hann finni ástina sína í Úkraínu - Karlarnir berjast og konurnar fara".

Þar gat m.a. að líta eftirfarandi:

"Annar piltur, sem ég hitti, er ólmur að komast aftur á vígstöðvarnar og talar um, að það sé hneyksli, hvað Úkraína fái lítinn fjárhagslegan stuðning frá Evrópusambandinu, ungir úkraínskir menn séu að deyja fyrir Vesturlandabúa, á meðan þeir sitji bara uppi í sófa og hámi í sig kartöfluflögur. Maður fær samvizkubit yfir ræðum hans.  Því [að] það er mikið til í þeim.  Við eigum meira að segja fólk á Vesturlöndum, sem gerir lítið úr fórnum úkraínsku þjóðarinnar."

Hið síðast nefnda er hrollvekjandi staðreynd, sem nauðsynlegt er að horfast í augu við. Þessi lýður getur verið af tvennum toga: annars vegar Rússadindlar, sem hafa verið heilaþvegnir af áróðri Kremlar.  Þetta eru oft undanvillingar, sem af einhverjum sjúklegum ástæðum hafa fyllzt hatri á lifnaðarháttum Vesturlanda og fyrirlitningu á lýðræðisfyrirkomulaginu.  Sálfræðilega eru þetta einstaklingar svipaðrar gerðar og aðhylltust nazisma á fyrri tíð.  Hins vegar er um að ræða naflaskoðara með asklok fyrir himin og hafa þar af leiðandi engan skilning á því, hvers konar átök eiga sér stað í heiminum núna né hvers vegna Úkraínumenn leggja nú allt í sölurnar til að halda fullveldi lands síns og sjálfstæði.  Naflaskoðararnir hafa engar forsendur til að átta sig á hrikalegum afleiðingum þess fyrir eina þjóð að lenda undir járnhæl Rússa.  Í tilviki Úkraínumanna mundi það jafngilda tortímingu þjóðarinnar.  Rússneski björninn er viðundur í Evrópu 21. aldarinnar.  

Að lokum skrifaði Börkur:

"Ég hef sjaldan upplifað jafnlitla jólastemningu yfir hátíðarnar, en annað hefði verið undarlegt.  Innrás Rússa í Úkraínu hefur ekki aðeins leitt til dauða tugþúsunda ungra úkraínskra manna, lagt heimili hundruða þúsunda í rúst, heldur einnig rústað heilbrigði og sálarheill tugmilljóna manna þjóðar, fjölskyldum þeirra og börnum, sem munu vaxa úr gasi algjörlega trámatíseruð.  En á meðan getur íslenzkur almenningur borðað kartöfluflögur í rólegheitum í sófanum sínum og jafnvel verið með yfirlætislegar samsæriskenningar og ræktað í sér samúð með innrásarhernum, en ekki fórnarlömbunum."  

Hvernig halda menn, að fólki verði innanbrjósts, sem gengur til hvílu að kveldi vitandi, að húsið þeirra gæti orðið skotmark fjandmannanna um nóttina ?  Hernaður Rússa er eindæma lágkúrulegur.  Að gera saklausar fjölskyldur að skotmarki ónákvæmra flauga og dróna sinna í stað hernaðarmannvirkja er fyrirlitlega heigulslegt atferli, en Rússar eru til alls vísir.  Þeir eru á afar lágu plani bæði siðferðilega og tæknilega.  Fátæktin, andleg og veraldleg, er yfirþyrmandi.  

 

 


Forsjálni Orkustofnunar

Það er átakanlegt að horfa upp á ríkisapparatið Orkustofnun í höndum Höllu Hrundar Logadóttur setja saman áætlun um neyðarviðbrögð með Almannavörnum, HS Orku, HS Veitum og ráðgjafarverkfræðistofu nú í miðjum jarðhræringum, sem leiddu til rýmingar Grindavíkur.  Hvers vegna í ósköpunum var ekki hafizt handa um þetta lífsnauðsynlega verkefni strax og jarðvísindamenn kváðu upp úr með, að eldsumbrotahrina væri hafin á Reykjanesi, og myndi hún standa yfir um aldaraðir, ef dám væri dregið af sögunni.  Þetta er ömurlegt dæmi um ríkjandi sofandahátt hins opinbera.  Það sefur yfirleitt á verðinum, og þar er lítið frumkvæði að finna. 

Kristján Jónsson birti Baksviðsviðtal við Höllu Hrund, Orkumálastjóra, í Morgunblaðinu 21. nóvember 2023:

""Óhjákvæmilega myndi slík niðurstaða [Svartsengisvirkjun óvirk] setja meiri þrýsting á raforkukerfið í heild sinni.  Núna liggur frumvarp fyrir Alþingi, sem snýr að raforkuöryggi almennings og er í meðferð Atvinnuveganefndar.

Stuðla á að því, að almenningur lendi ekki undir í samkeppni um raforku, en um er að ræða breytingartillögu, þar sem frumvarpið óbreytt tryggir almenningi ekki slíkan forgang.  Hættan er sú, að almenningur lendi undir í samkeppni um raforku, og þá er ég ekki að tala um vegna náttúruhamfara, heldur bara við aðstæður, sem við köllum venjulegar.  Samkeppni um raforku er mjög mikil, enda vilja margir kaupa raforku á Íslandi. Ef virkjunin í Svartsengi verður óstarfhæf í ofanálag, þá er enn mikilvægara, að breytingarnar á frumvarpinu nái fram að ganga til að styrkja stöðu almennings á öllu landinu varðandi aðgengi að raforku.  Við leggjum því áherzlu á, að breytingarnar nái í gegn og að frumvarpið verði afgreitt fyrir jól.""

 Frumvarp orkuráðherra í sinni núverandi mynd er runnið undan rifjum Orkustofnunar, enda er það vanhugsað og reist á vanþekkingu. Skömmtun rafmagns allt frá árinu 1969 hefur verið framkvæmd þannig hérlendis, að fyrst hefur s.k. ótryggð raforka, áður afgangsorka, verið tekin af fyrirtækjum með slíka samninga við orkubirgjana. Síðan hefur skömmtun forgangsorku verið látin bitna hlutfallslega jafnt á öllum, og um það eru ákvæði í langtíma raforkusamningum. Þessu vill Orkumálastjóri umturna og hefur talið orkuráðherrann á það, en það er ekki hægt með lagasetningu, því að það er bundið í samningum, þ.á.m. í langtímasamningum við stóriðjufyrirtækin.  Hlýtur hvert barn að sjá, að slík lagasetning felur í sér stórfellt brot á samningum ríkisins við m.a. erlend stórfyrirtæki, sem getur skapað ríkinu stórfellda skaðabótaskyldu og fyrirgert trausti á milli samningsaðila. Ætlar orkuráðherrann að láta draga sig á asnaeyrunum út í þetta Höllufen ?

Hin hlið þessa  máls snýr að þeim uppboðsmarkaði raforku, sem dótturfélag Landsnets undirbýr nú að innleiða á Íslandi samkvæmt Orkupakka #3 frá Evrópusambandinu.  Að undanskilja einn hóp viðskiptavina með lagaboði frá þessum markaði gengur ekki lagalega og er í andstöðu við Orkupakka #3, enda tíðkast slíkt hvergi annars staðar innan EES. Það sætir furðu, að Orkumálastjóri og Landsreglari ACER - Orkustofnunar ESB, sem á Íslandi er sama persónan, láti sér detta í hug, að þessi hugmynd gangi upp.  Miklu nær væri fyrir Landsreglarann (National Regulator) að taka það upp á vettvangi ACER, þar sem hún hefur seturétt án atkvæðisréttar með öðrum Landsreglurum EES, að vegna smæðar og fárra birgja á íslenzka orkumarkaðinum séu fleiri gallar en kostir við að innleiða uppboðsmarkað fyrir raforku á Íslandi og þess vegna leggi hún til, að á meðan Ísland er ótengt raforkukerfi EES þá þrýsti ESB ekki á um að koma þessum markaði á þar. 

Þetta væri ólíkt affarasælli stefnumörkun hérlendis en sú vegferð, sem Orkumálastjóri og orkuráðherra eru á núna með bútasaumi úr Orkustofnun til Alþingis. 

""Æðar raforkukerfisins eru ekki nógu sverar til að geta pumpað rafmagni af fullum krafti til að hita öll hús á Reykjanesi.""

Þetta er afleitt orðalag frá tæknilegu sjónarmiði, því að leiðarinn knýr ekki orkuflutninginn; hann er bara farvegur raforkunnar.  (Ef höfundur man líffræðina rétt, hreyfast hins vegar veggir slagæðanna til að auðvelda blóðstreymið.) Það er auðvitað í virkjununum, sem rafaflið verður til, og þær eru um þessar mundir svo mikið lestaðar, að ekki yrði hægt að bæta því álagi við, sem nemur rafhitunarþörf 10 þús. íbúða, jafnvel þótt Svartsengisvirkjunar nyti að einhverju leyti við.  Hvers vegna nefnir Orkumálastjóri þetta ekki ?

""Því sverari sem æðarnar eru [og hærri spenna á leiðurunum - innsk. BJo], [þeim mun] betur geta þær sinnt þörfum á ólíkum svæðum.  Dreifikerfið ber ekki, að allir íbúar færi sig úr hitaveitu yfir í að fullhita híbýli með rafhitun.  Dreifikerfið er ekki með nógu sverar æðar til að anna slíku [hústöflurnar eru ekki gerðar fyrir slíka álagsaukningu - innsk. BJo], enda kerfið ekki hannað til að fara yfir í rafhitun.  [Það er þjóðhagslegur sparnaður af hitaveitum - innsk. BJo.]  Þess vegna höfum við unnið markvisst með fyrirtækjunum á svæðinu, HS Orku, HS Veitum og Verkís og einnig Almannavörnum að tillögum að neyðarviðbrögðum.  [Hér er um að ræða skjal, sem ætti fyrir löngu að vera tilbúið og farið að vinna eftir.  Í stað þess að viðurkenna framkvæmdaleysi Orkustofnunar reynir Orkumálastjóri að skreyta sig með annarra fjöðrum - innsk. BJo.]  

Þau viðbrögð fela í sér aðgengi að hitagjöfum, eins og litlum rafmagnsblásurum, sem dreifikerfið þolir án þess að slá út, og geta þá haldið húsum fyrir ofan frostmark til að koma í veg fyrir skemmdir.  Í tillögunum er hvatt til þess, að aðgengi að búnaði sé tryggt bæði fyrir rafhitun og einnig fyrir s.k. neyðarhitaveitu.  Þar er átt við varmaskipta annars vegar, sem eru eins konar millistykki, sem tekur einhverjar vikur að smíða, og hins vegar, að hitagjafar, eins og olíukatlar, séu fyrir hendi.  Hluti þess búnaðar er til í landinu, eins og hjá Landsvirkjun og RARIK, en annað væri hægt að nálgast í gegnum leigu í neyð.  Við leggjum áherzlu á að tryggja aðgengi að búnaði strax, en um leið þarf að horfa á frekari nýtingu jarðhita á fleiri stöðum á Reykjanesi." 

Orðasúpa af þessu tagi er svo almenns eðlis og ómagnbundin, að varla getur talizt frambærileg ráðgjöf í neyð.  Mega íbúarnir ekki setja upp hitöld í íbúðum sínum, sem raftafla íbúðarinnar þolir ?  Allt þetta tal um getuleysi dreifikerfisins hjálpar íbúunum ekki neitt. 

Hvers konar varmaskipta á Orkumálastjóri við ?  Hver er varmagjafinn, og hver er varmaþeginn, og hvaða stærð er á þessum gripum ? 

Hvaða olíukatla í eigu Landsvirkjunar á Orkumálastjóri við. Landsvirkjun hefur svo lítinn áhuga á varaafli nú orðið, að hún lét rífa niður 2x35 MW eldsneytisknúna neyðarrafstöð í Straumsvík um 2015, og engum gagnast nú. Líklegt er, að grípa þurfi til olíukatla RARIK og OV, þar sem þeir eru staðsettir, ef Svartsengisvirkjun verður óvirk, svo að þetta er alls ekki tiltækur búnaður.  Orðagjálfur Orkumálastjóra um neyðarviðbúnað á Suðurnesjum sýnir aðeins, að ekkert bitastætt var til hjá Orkustofnun til að grípa til, ef í neyðirnar rekur í Svartsengi. Örlagadaginn 10.11.2023 var rokið upp til handa og fóta og gripið í tómt.  Nú er reynt að breiða yfir það.   

 

 


Orkumálastjóri og hlýindin

Í stað þess að greina lesendum Morgunblaðsins frá stöðu og horfum raforkumálanna, og hvaða úrræða væri helzt að grípa til í úrbótaskyni, þá lagðist Orkumálastjóri í svartnætti loftslagskirkjunnar í grein sinni 18.08.2023.  Hún gat þess, að júní 2023 hefði verið sá hlýjasti, síðan hitastigsskráningar hófust, og hún kennir koltvíildisstyrk lofthjúpsins um það.  Þá má spyrja hana, hvernig standi á því, að meðalhitiastig á jörðunni hefur verið hærra en núna, svo að munar nokkrum °C, þótt koltvíildisstyrkur andrúmsloftsins hafi þá verið mun lægri en nú er samkvæmt rannsóknum.  Er ekki rétt að reyna að átta sig aðeins á eðlisfræðinni, þætti H20 og CO2, og áhrifum El Nino-straumsins, sem flytur gríðarlega varmaorku og er sterkur um þessar mundir, áður en farið er að velta vöngum um heimsendi vegna koltvíildisstyrks í andrúmslofti ?

Téð Grein Orkumálastjóra bar firnalanga fyrirsögn, en ekki að sama skapi hnitmiðaða:

"Átta ár frá Parísarsamkomulagi - loftslagsmálin, stóra samhengið og tækifæri Íslands.

Hún hófst þannig:

"Fréttir af flóðum, aurskriðum, skógareldum og öðrum afleiðingum hækkandi hita á jörðinni hafa borizt frá öllum heimshornum í sumar, en júní í ár var heitasti mánuður, sem mælzt hefur á jörðinni.  Átta ár eru liðin frá því, að Parísarsamkomulagið var undirritað, sem fól í sér yfirlýsingu ríkja um, að þau myndu gera allt, sem í þeirra valdi stæði til að draga úr losun lofttegunda til að halda hækkun á hitastigi innan við 1,5°C."

Þarna leggst Orkumálastjóri á árar loftslagskirkjunnar og fer að stunda hreinræktaðan hræðsluáróður.  Það er ómálefnalegt að benda á hátt meðalhitastig í júní 2023 án þess að drepa á El Nino hafstrauminn, sem var afar mikill áhrifavaldur á veðurfar í sumar. Það er sleggjudómur að fullyrða, að skógereldar stafi af hlýnun jarðar.  Í mörgum tilvikum er um íkveikju að ræða, eins og frétt frá Grikklandi 25.08.2023 ber með sér, og tjónið er tilfinnanlegra en oft áður, af því að byggðin hefur teygzt að skógunum.  Þessi Orkumálastjóri rökstyður mál sitt sínu verr en áður hefur tíðkazt hjá þessu embætti. 

Hafði téð Parísarsamkomulag einhver áhrif ?  Losun gróðurhúsalofttegunda (Orkumálastjóri verður að gá að því, að ekki eru allar lofttegundir gróðurhúsalofttegundir !)  á heimsvísu hefur aukizt síðan 2015, og miklir losunarvaldar virðast alls ekki hafa tekið þennan gerning í desember 2015 alvarlega.  Þar með er loku skotið fyrir nokkurn árangur, sem um munar, enda hefur útblástur gróðurhúsalofttegunda aukizt frá 2015.  Í þessu verkefni pólitíkusanna er allt unnið með öfugum klónum, mikið talað, en lítið gert til bóta, enda er hver afleikurinn leikinn af öðrum. 

Að ætla sér að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi í raforkugeiranum með vindknúnum rafölum og sólarhlöðum er tæknilega eins fráleitt og hugsazt getur.  Umtalsverður árangur víðast erlendis er útilokaður án beizlunar kjarnorkunnar.  

Á Íslandi var fyrir löngu farin allt önnur leið.  Hér virkjuðu menn af miklu viti og framsýni vatnsföll og jarðhita til að leysa jarðefnaeldsneytið að miklu leyti af hólmi, enda er nú svo komið, að það stendur aðeins undir rúmlega 15 % af heildarorkunotkun þjóðarinnar.  Víða erlendis er þetta hlutfall nálægt 75 %.  Það er þess vegna hið versta níð, að landsmönnum skuli hafa verið gert að greiða að jafnvirði allt að MISK 400 fyrir heimskulega markmiðssetningu á síðasta áratug til Evrópusambandsins, sem ekki gat náðst hér, nema hægja á hjólum atvinnulífsins og skapa hér atvinnuleysi.  Vill villta vinstrið það, eða meinar það ekkert með öllu loftslagsprumpinu ? 

"Tragikómískt" er að sjá loftslagsráðherrann bísperrtan gorta af, að landið skulu ekki hafa þurft að greiða skussunum hærri upphæð, eins og Umhverfisstofnun var sennilega búin að áætla (MISK 800) og rataði inn í fjárlögin. Það er meinloka að láta Ísland taka þátt í þessu ETS-kerfi (Emission Trade System), sem er fyrir lönd á allt öðrum stað á jörðunni en við og á allt öðru róli.  Stórundarleg markmiðasetning íslenzkra stjórnvalda á þessum áratug og skortur á tæknilausnum fyrir skip og flugvélar mun valda gríðarlegum refsiskatti til ESB við uppgjör þessa áratugar.  Pólitískir vinglar hafa vélað um þessi mál innanlands og á erlendum vettvangi með þeim afleiðingum, að búið er að flækja þjóðina í skuldbindingar um að draga úr losun, sem ekki er hægt að standa við, nema hægja á öllum hjólum atvinnulífsins.  Það er aftur á móti sérvitringaviðhorf, sem stór meirihluti þjóðarinnar fellir sig ekki við, og sízt af öllu verkalýðshreyfingin né ábyrgðaraðilar ríkissjóðs, sveitarfélaga og lífeyrissjóða. 

"Þó að uppbygging endurnýjanlegrar orkuvinnslu sé lykilatriði fyrir orkuskiptin, er hægt að ná miklum árangri með því að nýta betur þá orku, sem við eigum nú þegar, með bættri orkunýtni. 

Alþjóða orkumálastofnunin hefur bent á, að hægt sé að ná sem nemur 40 % af markmiðum Parísarsáttmálans, er tengist losun frá orku, með þeim hætti."

  Hætt er við, að Orkumálastjóri sé hér algerlega úti á þekju.  Þótt hún telji orkuskipti brýn, tók það Orkustofnun þrefaldan eðlilegan tíma að fjalla um umsókn Landsvirkjunar um virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun.  Ef á að taka Orkumálastjóra alvarlega, verða að fara saman orð og gerðir. 

Þar sem jarðefnaeldsneyti er notað við raforkuvinnslu, er orkunýtnin léleg eða e.t.v. 40 %, ef ekki er um samtvinnun við hitaveitu að ræða, en með slíkri samtvinnun má tvöfalda nýtnina.  Líklega er Alþjóða orkumálastofnunin að vekja athygli á þessari lélegu orkunýtni, sem æskilegt er að komast frá.  Það á hins vegar alls ekki við á Íslandi, þar sem vatnsorkuverin eru rekin með um 90 % heildarnýtni.  Það er hægt að sækja fáein % þar með nýjum búnaði í stað gamals, en það borgar sig aðeins, ef endurnýjunarþörf er komin upp vegna slits hverfla og öldrunar einangrunar.

Á Íslandi eru vissulega varmaorkuver, en þau eru gjörólík flestum erlendum varmaorkuverum, því að þau eru knúin jarðgufu, og þau helztu eru einnig tengd hitaveitu, sem hækkar nýtni þeirra upp í ákjósanlega stærð.

Einnig er hægt að draga úr töpum í flutningskerfinu um fáein %, og það gerist um leið og spennuhækkað er vegna aukinnar flutningsþarfar. 

Orkunýtni á Íslandi batnar með innleiðingu rafgeymaknúinna bíla, og sú þróun er í gangi, en hún batnar ekki við að knýja farartæki með vetni vegna mikilla orkutapa, sem því er samfara. 

 

Hvert er Orkumálastjóri að fara með þessu klisjukennda mali sínu um nauðsyn þess að bæta orkunýtni á Íslandi ?  Orkumálastjóri verður að temja sér að tala skýrt og að vel athuguðu máli, eins og fyrirrennarar hennar hafa gert.  

Að lokum skrifaði Orkumálastjóri:

"Þrátt fyrir fjölbreyttar orkuauðlindir verður Ísland aldrei rafhlaða til að knýja alla raforkuþörf heimsins; það má sjá í heildarsamhengi mála.  [Furðulegt orðalag um einfalt reikningsdæmi - innsk. BJo.]  

Stærsta tækifæri okkar er einfaldlega að styðja við jákvæða þróun annars staðar, með því að flytja út okkar þekkingu um leið og við vinnum að því að klára orkuskiptin hér í takti við áherzlur stjórnvalda.

Þannig á Ísland möguleika á að vera fyrsta ríkið, sem sýnir, að hægt sé að reka heilt samfélag með grænni orku, og verða þar með dæmið, sem heimurinn þarf.  

Slík niðurstaða skapar Íslandi sérstöðu og fjölbreytt sóknarfæri á sviði viðskipta, utanríkis- og umhverfismála.  Spyrja má: ef Ísland getur það ekki, hver getur það þá ?"

Þetta er fullkomlega gagnslaust froðusnakk og draumórar einir án nokkurrar jarðtengingar.  Verkfræðingar Landsnets hafa bæði næga jarðtengingu og einurð til að reikna út á grundvelli líklegustu framvindu framboðs og eftirspurnar rafmagns á Íslandi, að ekki standi steinn yfir steini í tilkynningum stjórnmálamanna og embættismanna (markmið eru þetta ekki fyrir 5 aura) um stöðu á losun koltvíildis frá athöfnum Íslendinga árin 2030 og 2040. Kolefnishlutleysi náist fyrst árið 2050, en það er sá tími, sem ýmsar aðrar þjóðir á vesturhveli jarðar ætla sér.  Rándýrar montyfirlýsingar stjórnmálamanna í þessum skrýtnu málum eru alveg út í loftið og lýsa ábyrgðarleysi þeirra vel. 

Verkfræðingar Landsnets hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að tvöfalda þurfi raforkuvinnslu landsins frá árinu 2023, sem merkir, að virkja þarf með einum eða öðrum hætti 20 TWh/ár, til að Íslendingar verði sjálfum sér nógir með orku.  Með svipaðri framvindu og hér hefur verið í virkjanamálum frá gangsetningu Búðarhálsvirkjunar 2013 verður þessum áfanga náð á síðasta fjórðungi þessarar aldar, og gætu Íslendingar þá hæglega rekið lestina.

Til að forða meiri háttar umhverfisslysi, sem hlytist af uppsetningu risastórra súlna undir óskilvirka, vindknúna rafala í íslenzkri náttúru, þarf að stokka Rammaáætlun upp og færa vatnsaflsverkefni og jarðgufuverkefni úr biðflokki og yfir í nýtingarflokk (framkvæmdaflokk).  Ef snefill af umhverfisverndartilfinningu leynist í dyggðaskrautfjöðrum stjórnmála- og þrýstihópa ýmissa, ætti slík uppstokkun að ganga hljóðalítið fyrir sig. Ætlar loftslagsráðherrann að gera Íslendinga að Júmbóum orkuskiptanna vegna algers framtaksleysis í virkjanamálum ?  Hvað ætlar Orkustofnun að taka sér langan tíma í þetta skiptið til að sýna fram á, að vatnalög ESB/EES séu ekki brotin með núverandi áformum um tilhögun Hvammsvirkjunar.  Stundum er eins og stjórnsýslan sé stungin líkþorni, þegar hæst á að hóa.

  

 

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband