Færsluflokkur: Heimspeki

Adam Smith stendur keikur á stöpli með sínar kenningar

Adam Smith, 1723-1790, er nefndur "faðir hagfræðinnar".  Með riti sínu "The Theory of Moral Sentiments", 1759, lagði hann grunn að síðari höfundarverkum sínum á borð við "Wealth of Nations, 1776, - Auðlegð þjóða, sem oft er vitnað til sem þess hagfræðirits, sem lagði grunn að því, hvernig er auðveldast að sækja fram í efnalegu tilliti, bæði fyrir einstaklinga og samfélög.  Smith var enginn sérstakur auðjöfravinur, heldur bar hann hag almennings fyrir brjósti, og kenningar hans um það hafa gefizt vel.  Öðru máli gegnir um hagfræði- og þjóðfélagskenningar Karls Marx og Friedrichs Engels, sem fram komu um miðja öldina á eftir öld Adams Smith í Kommúnistaávarpinu, en þar var heilbrigðri skynsemi úthýst, hatursfull bylting boðuð og einokun ríkisvaldsins á öllum sviðum, kölluð "alræði öreiganna", skyldi taka við.  Í stuttu máli sagt er hvaða alræði sem er hættulegt og skaðlegt.  Enn sýpur heimurinn soðið af alræðiskenningunum, og þær valda ófriði og óheilbrigðri spennu í heiminum. 

Hannes Hólmsteinn Gissurarson minntist 300 ára afmælis Adams með grein í Morgunblaðinu 5. desember 2023 undir fyrirsögninni:

"Adam Smith enn í fullu fjöri".

Hún hófst þannig:

"Þótt á þessu ári séu liðin rétt 300 ár, frá því að Adam Smith, faðir hagfræðinnar, fæddist, eru hugmyndir hans enn sprelllifandi."

Adam Smith setti hagfræðihugmyndir sínar fram að vandlega íhuguðu máli.  Heimsspeki hans varð grunnurinn að hugmyndafræði Vesturlanda um einkaframtakið, framleiðniaukningu og dreifingu auðsins um samfélagið, sem af henni leiddi.  Hugmyndafræði hans dró ekki sérstaklega taum auðjöfra, en af sjálfu leiddi, að þeim, sem stóðu sig vel í frjálsri samkeppni, gat vaxið fiskur um hrygg. Það þekkjum við æ síðan og er ekki hið minnsta aðfinnsluvert, nema í huga marxistanna, sem alltaf ala á öfund og hafa horn í síðu velgengninnar. Adam Smith rökstuddi réttmæti gróða á frjálsum markaði með því, að eins gróði þyrfi ekki að vera annars tap.  

"Í Auðlegð þjóðanna, sem kom út árið 1776, varpaði Smith fram skýringu á því, hvernig einstaklingar og þjóðir gætu brotizt úr fátækt í bjargálnir.  Hún var fólgin í verkaskiptingunni.  Í frjálsum viðskiptum fá menn það frá öðrum, sem þá vantar og aðrir hafa, og láta aðra fá það, sem aðra vantar og þeir hafa.  Báðir græða, hvorugur tapar."   

Reynslan hefur sannað þessa kenningu.  Hún hefur bætt hag jarðarbúa gríðarlega frá því að heimsviðskiptin efldust í kjölfar loka kalda stríðsins.  Við þau umskipti dró að vísu úr iðnaðarframleiðslu Vesturlanda, um leið og hún hófst og efldist í þróunarlöndunum.  Aukin velmegun í einræðislöndunum, t.d. Kína og Rússlandi, hefur ekki ýtt undir lýðræðisþróun þar og aukna tilhneigingu til friðsamlegrar sambúðar við lýðræðislönd, nema síður sé, því að aukinni verðmætasköpun var þar beint til hernaðarþarfa, og öflugri her leiddi til hótana í garð nágranna, eins og Taiwan, og jafnvel blóðugrar innrásar í nafni heimsvaldastefnu, eins og Rússar eru dæmi um.  Öryggi Vesturlanda er um þessar mundir ógnað af þessum orsökum, og þá þarf að velja á milli öryggissjónarmiða og samkeppnishæfra vara frá þessum löndum.  Öryggið verður að vera í forgrunni á kostnað reglunnar um hagstæðustu verkaskiptinguna. 

"Náttúran hefur dreift mannlegum hæfileikum og landgæðum ójafnt, en frjáls viðskipti jafna metin, gera mönnum kleift að nýta hæfileika annarra og ólík gæði landa.  Saga síðustu 200 ára hefur staðfest kenningu Smiths, svo að um munar.  Þær þjóðir, sem auðvelda frjálsa samkeppni og stunda frjáls viðskipti, hafa stiklað á 7 mílna skóm inn í ótrúlega velsæld samanborið við fyrri tíma. Hinar sitja fastar í fátækt. 

Árlega er reiknuð út vísitala atvinnufrelsis fyrir langflest lönd heims á vegum Fraser-stofnunarinnar í Kanada.  Ef löndunum er skipt í fernt eftir atvinnufrelsi, þá eru meðaltekjur 10 % tekjulægsta hópsins í frjálsasta fjórðunginum hærri en meðaltekjur allra í ófrjálsasta fjórðunginum.  Með öðrum orðum eru lífskjör fátækasta fólksins í frjálsustu löndunum betri en almenn lífskjör í ófrjálsustu löndunum."

 Þessi tölfræði segir mikla sögu, og væri forystufólki vinstri flokkanna á Alþingi nær að kynna sér og tileinka sér staðeyndir á borð við þessar áður en þeir setja á blað þvílíkt aumkvunarvert blaður og lýðskrum, eins og sjá mátti í áramótagreinum þeirra.  Þar réði fávísi og þröngsýni ferðinni og sá reginmisskilningur, að ríkissjóð megi nota í miklu meiri mæli en nú til að efla hag lægstu tíundarinnar.  Lausnin er að efla atvinnufrelsið í landinu og þar með að draga úr skattheimtu, sem á sumum sviðum jaðrar nú þegar við eignaupptöku, t.d. í sjávarútvegi (1/3 framlegðar í veiðigjöld, sem sósíalistinn á viðkomandi ráðherrastóli vill þó hækka enn meira í glóruleysi). 

"Í verkum sínum kom Adam Smith einnig orðum að þeirri merkilegu hugmynd, að skipulag krefjist ekki alltaf skipuleggjanda.  Það gæti sprottið upp úr frjálsum samskiptum, gagnkvæmri aðlögun einstaklinga.  Markaðurinn er sá vettvangur, sem menn hafa til að skiptast á vöru og þjónustu.  Þar hækka menn eða lækka verð á vöru sinni og þjónustu, uns jafnvægi hefur náðst [á] milli framboðs og eftirspurnar, innflutnings og útflutnings, sparnaðar og fjárfestingar.  Þetta jafnvægi er sjálfsprottið, ekki valdboðið. Það fæst með verðlagningu, ekki skipulagningu.  Atvinnulífið getur verið skipulegt án þess að vera skipulagt.  Auðvitað er það jafnvægi, sem þar getur náðst, ekki fullkomið, en það er þó sífellt að leiðrétta sig sjálft eftir þeim upplýsingum, sem berast með gróða eða tapi.  Menn græða, ef þeim tekst að fullnægja þörfum viðskiptavinanna betur en keppinautarnir.  Þeir tapa, ef þeir gera þrálát mistök og skeyta ekki um breytilegan smekk og áhugamál viðskiptavinanna." 

 Þarna gerði Adam Smith grein fyrir lykilatriði, sem var ekki nýtt fyrirbrigði þá, heldur ævagamalt.  Kóngurinn, hertoginn, yfirvöldin, þurftu ekki að skipulegja allt, til að það virkaði, eins og bezt varð á kosið.  Þetta var meginstyrkur lýðræðisþjóðfélaganna umfram þjóðfélög kommúnista, þótt kommúnistar hafi haldið, að skipulagning ráðuneytanna á framleiðsluöflunum gæfi þeim forskot á auðræðið.  Kommúnisminn gat aldrei svarað þörfum neytenda, því að kommúnistar tóku hreinlega markaðinn úr sambandi.  Ef hægt er að koma því við, er bezt að láta markaðinn um að finna beztu lausnina. Í nútíma þjóðfélögum finnst þó alltaf fyrir stjórnvaldsaðgerðum, sem áhrif hafa á markaðina.  Nægir að nefna verðlagningu seðlabankanna á fjármagni.  Fjármagnskostnaður hefur mismikil áhrif á hegðun manna á markaði, því meiri þeim mun lengra frá langtíma jafnvægisástandi vextirnir eru í aðra hvora áttina, eins og Íslendingar hafa kynnzt á eigin skinni á tímabilinu 2020-2024.  

 Nú er orkuskortur á Íslandi.  Það er vegna þess, að yfirvöld hafa lamað framboðshlið þessa markaðar með því að gera pólitískum furðudýrum það kleift að tefja virkjunar- og flutningslínuframkvæmdir endalaust. Á sama tíma er dótturfélag Landsnets að undirbúa að koma á koppinn uppboðsmarkaði fyrir raforku að hætti Evrópusambandsins (ESB), sem gafst upp á þessum markaði, þegar markaðsbrestur varð á framboðshlið, eins og hér er, þegar Rússar skrúfuðu fyrir jarðgas til ESB, og síðar, þegar viðskiptabann var sett á jarðefnaeldsneyti frá Rússlandi.  Við núverandi ójafnvægi á raforkumarkaði, sem stjórnvöld hafa  valdið með aðgerðarleysi gagnvart þjóðhættulegum töfum, væri fráleitt, að sömu stjórnvöld settu á laggirnar nýjan markað fyrir raforku. Markaðsbresturinn mun halda áfram til 2027 eða lengur. Hefur orkuráðherrann tjáð sig um þetta ? Hann virðist vera dálítið utanveltu.  

 "Hann [AS] taldi ríkið gegna þremur mikilvægum hlutverkum: að tryggja landvarnir, halda uppi lögum og reglu og sjá um, að nóg yrði framleitt af s.k. samgæðum (public goods).  M.a. hafði hann áhyggjur af því, að verkaskiptingin gæti þrengt óhóflega sjónarhorn einstaklinganna, og þess vegna þyrfti ríkið að víkka það út með öflugi alþýðumenntun."

 Hér háttar þannig til, að ríkisvaldið hefur stórskaðað menntakerfið með handónýtri og nánast grátbroslegri aðalnámsská grunnskóla, sem Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi menntamálaráðherra, ber höfuðsökina á.  Ríkinu er sem sagt ekki treystandi fyrir menntamálunum.  Þá er spurningin, hvort skipulegt nám getur orðið á leik- og grunnskólastigi án aðalnámskrár ?  Hvernig hefði Adam Smith svarað þeirri spurningu ?  Skólarnir þurfa einhverja leiðisnúru, og það gætu t.d. verið kröfur um kunnáttu eftir 3. 6. og 9. bekk, sem metin væri á samræmdum prófum. 

 "Því er líka haldið fram, að hugmyndin um hagvöxt standist ekki, þega til langs tíma er litið.  Kapítalisminn, hugarfóstur Adams Smiths, sé ekki sjálfbær.  Nú var Smith sjálfur enginn sérstakur stuðningsmaður kapítalista.  Hann studdi frjálsa samkeppni, af því að hún er neytendum í hag, og hann taldi með sterkum rökum verkaskiptinguna greiðfærustu leiðina til almennrar hagsældar. En í raun og veru er hagvöxtur sjaldnast fólginn í að framleiða meira, heldur miklu frekar í að framleiða minna, minnka fyrirhöfnina, finna ódýrari leiðir að gefnu marki, spara sér tíma og orku.  Auk þess er hagvöxturinn afkastamesti sáttasemjarinn.  Í stað þess að auka eigin hlut með því að hrifsa frá öðrum geta menn reynt að auka hann með því að nýta betur það, sem þeir hafa, og bæta það síðan, hlúa að því, svo að það vaxi og dafni í höndum þeirra.  Og þegar að er gáð, eru mengun og rányrkja vegna þess, að enginn á og gætir auðlinda.  Umhverfisvernd krefst umhverfisverndara, einkaeignarréttar eða einkaafnotaréttar á auðlindum." 

Þegar kommúnisminn lognaðist út af, varð sjálfdauður í eigin viðjum kúgunar, ófrelsis og forræðishyggju, þá tóku fylgjendur hans á Vesturlöndum, sem aldrei höfðu fundið fyrir honum á eigin skinni og ætluðu að fljóta ofan á, eins og hrossataðskögglarnir, þegar hann ýtti markaðshyggjunni af stalli, að leggja til atlögu við kenningar Adams Smith, og höfðu þær atlögur raunar hafizt fyrr, t.d. með bókinni "Limits to Growth" - Endimörk vaxtar, þar sem hagvöxturinn var skotspónninn.  Þessar atlögur reyndust aumkvunarvert vindhögg, og allir spádómarnir um þurrð hráefna hafa reynzt ímyndun ein, því að markaðurinn finnur alltaf lausn, ef hinni ósýnilegu hönd hans er leyft að virka.  Þetta er eitur í beinum þeirra, sem eru illa haldnir af forræðishyggju, og þeir eru reyndar líka oft haldnir messíasarkomplexum.  Nú er fjöldi fólks að reyna að bjarga heiminum frá "hamfarahlýnun" og fjölmenna af því tilefni á alls konar ráðstefnur, en samkvæmt tölfræðilegri greiningu á langri röð hitamælinga, beinna og óbeinna, er engin hamfarahlýnun í gangi. Samnefnari loftslagssafnaðarins er einmitt, að snúa þurfi hagvextinum við og framleiða minna af vörum og þjónustu.  Þetta gengur þvert á baráttu verkalýðshreyfingarinnar um stöðugar kjarabætur og fulla atvinnu. Hvers vegna umber verkalýðshreyfingin kjánalegan hræðsluáróðurinn ?  

                                                                     

Vanhæfur talsmaður

Talsmaður fagráðs Matvælastofnunar um dýravelferð hefur gert sig breiðan í fjölmiðlum og greinilegt, að hann setur sig á stall sem betri og siðlegri en gerist um alþýðu manna, a.m.k. á meðal þeirra, sem eru á móti að því er virðist fyrirvaralausu og löglausu sparki ráðherra í löglegan atvinnurekstur, sem hefur í för með sér stórtjón fyrir fyrirtækið og starfsmenn þess.  Þessi aðför ríkisvaldsins að alþýðu manna er með öllu ólíðandi og siðlaus, því að þetta er valdníðsla.    

Siðfræðingur (er það ekki einhvers konar heimsspekingur ?) fór fyrir fagráðinu, sem allri vitleysunni hratt af stað hjá ráðuneytinu, og komið hefur til hnútukasts á milli hans og forstjóra fyrirtækisins, sem varð fyrir sparki Svandísar Svavarsdóttur.  Morgunblaðið gerði þessum þætti skil með frétt 24. júní 2023 undir fyrirsögninni: 

"Siðfræðingur fór á límingunum".

Fréttin hófst þannig:

""Siðfræðingurinn fór algerlega á límingunum.  Hann á því greinilega ekki að venjast, að einhverjir séu ekki sammála áliti hans, sem sýnir kannski, hvert hann og Háskóli Íslands eru komnir í þessum málum", sagði Kristján Loftsson, framkvæmdastjóri Hvals hf, í samtali við Morgunblaðið.  

Kristján var spurður um, hvernig hann brygðist við ummælum Henrys Alexanders Henryssonar, siðfræðings við HÍ, talsmanns fagráðs Matvælastofnunar, sem brást þannig við ummælum Kristjáns í Morgunblaðinu sl. fimmtudag, að þar fullyrti Kristján nokkuð án þess að hafa gögn, sem styddu það."

Siðfræðingurinn, sem þykist stjórnast af rökhugsun, er á valdi tilfinninganna og fer með rangt mál. Hann er ótrúlega siðblindur að vera með fullyrðingar um málflutning Kristjáns, sem augljóslega eru rangar.  Siðleysi hans lýsir sér í því að sjá ekki í hendi sér, að hann er bullandi vanhæfur til setu í þessu fagráði vegna ítrekaðra opinberra yfirlýsinga, sem bera megnri andúð hans á hvalveiðum vitni.  Síðan bítur siðfræðingurinn hausinn af skömminni með fullyrðingum um, að forstjóri Hvals geti ekki sýnt fram á gögn um þetta.  Téð frétt snýst um, að forstjóri Hvals hrekur þá fullyrðingu siðfræðingsins rækilega, svo að siðfræðingurinn stendur ómerkur orða sinna eftir. 

"Segir hann [Kristján], að Henry Alexander hafi ritað a.m.k. 3 skoðanagreinar, sem birtust í fjölmiðlum.  Hann hafi einnig flutt erindi og tekið þátt í pallborðsumræðum á fundi Náttúruverndarsamtaka Íslands, sem bar heitið: "To whale or not to whale".  Kristján segir, að í Vísi 30. janúar 2019 hafi birzt pistill með yfirskriftinni: "Ættum við að veiða hvali", en þar bregst Henry Alexander við skýrslu Hagfræðistofnunar HÍ um hvalveiðar m.a. með þessum orðum: "Slíkt viðhorf var fyrirsjáanlegt.  Maður hefði líka gizkað á jákvætt svar, hefði stofnunin verið spurð um miðja 19. öld, hvort þrælahald væri hagkvæmt.  Í báðum tilvikum er spurningin ekki sú rétta.  Umræða um hvalveiðar hefur lítið sem ekkert með hagkvæmni þeirra að gera í samtímanum; spurningin, sem umræðan leitar alltaf að lokum í, er, hvort skotveiðar á þessum sjávarspendýrum séu siðferðilega réttlætanlegar."  Og  síðar segir Henry Alexander:"Persónulega tel ég, að tími sé kominn til að leyfa umræðunni um mögulegar hvalveiðar Íslendinga að færast nær siðferðilegri hlið spurningarinnar.""

Það fer ekkert á milli mála, að téður siðfræðingur var búinn að móta sér skoðun um hvalveiðar og láta hana í ljós opinberlega áður en hann tók sæti í þessu fagráði og tók til við að fjalla þar um hvalveiðar.  Það er dómgreindarleysi að átta sig ekki á, að með þessu varð hann vanhæfur til að taka sæti í þessu fagráði, og síðan þrefaldar siðfræðingurinn skömm sína með því að viðurkenna þetta ekki, þegar honum er bent á það, og fullyrða, að engin gögn styðji vanhæfni sína.  

Siðfræðingurinn setur sig skör ofar en samferðarmenn sína og telur sig geta greint á milli rétts og rangs út frá einhverju siðferðilegu viðmiði.  Þetta er tóm hræsni, því að siðferðileg viðmið eru í mörgum tilvikum afstæð og háð huglægu mati. Þannig finnst siðfræðinginum viðeigandi að líkja fólki, sem hneppt var í þrælahald á 19. öld, við hvali á 21. öld.  Höfundi þessa pistils þykir þetta aftur á móti afar óviðeigandi og í raun ótækur málflutningur.  Sannast þar hið fornkveðna, að sínum augum lítur hver á silfrið. 

 


Þjóðfélagið og sjúkrahúsið

Nú hefur verið upplýst um samsæri vísindamanna, embættismanna og stjórnmálamanna á Vesturlöndum, aðallega í Bandaríkjunum (BNA), um að kveða í kútinn þann þráláta orðróm, að veiran SARS-CoV-2, hafi sloppið út úr rannsóknarstofnun í veirufræðum í Wuhanborg í Kína, sem naut fjárveitinga frá BNA, líklega af því að rannsóknir í Kína eru ódýrari en í BNA vegna starfsmannakostnaðar og mismunandi varúðarráðstafana.

Sum lyfjafyrirtæki reyndust snör í snúningum gegn hinum nýja vágesti, sem WHO skírði COVID-19 (C-19).  Sjúkdómurinn lýsti sér yfirleitt sem inflúensa, en gat hæglega orðið að lungnabólgu, þar sem varnir voru veikar, og allir vita, að þá er voðinn vís.  Ekki verður farið út í uppbyggingu bóluefnanna, sem öll hafa verið ný af nálinni og með tvennu móti, þótt kenna megi báða hópana við genatækni.  Er annar kenndur genaferjur og er AztraZeneca-bóluefnið þeirra þekktast, en hinn við genaboðefni mRNA, og eru bóluefnin frá Pfizer og Moderna þeirrar gerðar.  Þriðja tegundin, Novavax, er nýsamþykkt af Evrópusambandinu (ESB).  Það inniheldur broddprótein veirunnar, en fyrstu tilraunirnar benda ekki til, að það sé skárra en hin.

Öll bóluefnin hafa valdið svo miklum vonbrigðum, að kalla má þau gjörsamlega misheppnuð.  Kemur þar aðallega þrennt til.

Endingin er til skammar, þar sem verndarvirkni þeirra gegn smiti og gegn alvarlegum einkennum er að engu orðin að hálfu ári liðnu frá bólusetningu.  Virðist sem líkaminn sé fljótur að hafna þessum aðskotaefnum.  Bóluefnin halda ekki máli, sem leyfisveitendur venjulega setja, sem er yfir 50 % virkni að ári liðnu.  Hefði eftirlitsaðilum ekki legið lífið á, hefðu þeir þess vegna hafnað þessum bóluefnum sem ónothæfum.

Neikvæðar aukaverkanir eru fleiri og alvarlegri en sézt hefur frá þalídomíð-ósköpunum. (Lyf þróað á 6. áratugi 20 aldar, notað í 46 löndum og olli vansköpun fóstra.) Í BNA hefur verið tilkynnt um þrefalt fleiri neikvæðar aukaverkanir af bóluefnum gegn C-19 en alls á 35 árum áður(1985-2019).  Víða er hætt að nota AstraZeneca vegna blóðtappamyndunar, og tíðni hjartavöðvabólgu hjá fólki undir fertugu margfaldast eftir 2. bólusetningu með Pfizer og í enn meiri mæli með Moderna, þar sem skammturinn þar er sterkari.  Örvunarbólusetningin mun vafalaust valda aukningu á tíðni hjartavöðvabólgu líka.

Bóluefnin eru þröngt virkandi í mótsetningu við náttúrulegt ónæmi (eftir veikindi).  Þau voru þróuð m.v. broddprótein upphaflegu veirunnar frá Wuhan, en veiran stökkbreytist oft, og bóluefnin virka lítið sem ekkert gegn ríkjandi afbrigði, ómíkron.  Vísindamenn í Hollandi, sem birtu niðurstöður rannsókna sinna á ómíkrón-afbrigðinu í viku 2/2022, ályktuðu, að ómíkrón sé nægilega breytt frá fyrri stökkbreytingum til að geta talizt upphaf að nýjum hópi veira af tegundinni SARS-CoV-2. Ekki fylgdi sögunni, hvort náttúrulegt ónæmi gegn ómíkron muni duga gegn stökkbreyttu ómíkron. 

Sá er hins vegar kosturinn við hið gríðarlega smitandi ómíkron-afbrigði, að það veldur vægum einkennum, sem þó geta magnazt upp í sjúklingum með veikt ónæmiskerfi fyrir.  Einkennum ómíkron má líkja við hálsbólgu.

Sóttvarnaryfirvöld á Íslandi hafa reynzt glámskyggn.  Þau lofuðu hjarðónæmi, ef yfir 70 % landsmanna létu bólusetja sig.  Ekkert hjarðónæmi náðist þrátt fyrir yfir 90 % þátttöku, og ekkert hjarðónæmi mun nást fyrr en nægilega margir hafa smitazt til að mynda náttúrulegt lýðónæmi.  Það er bágborið, að sóttvarnaryfirvöld skuli nú reka harðan áróður fyrir örvunarbólusetningu og barnabólusetningu.  Fyrir hvorugu eru nein haldbær rök lengur. 

14. janúar 2022 hertu sóttvarnaryfirvöld tökin á landsmönnum með ýmsum hætti í nafni þess, að vegna Landsspítalans þyrfti að ná daglegum smitfjölda úr 1100-1200 og niður í 500 til að draga úr álagi á Landsspítalann.  Hann er þó nýlega búinn að fá öfluga blóðgjöf úr einkageiranum og innlagnafjöldi er minni en bjartsýnasta spá Aspelunds. 

Það gengur auðvitað ekki, að eftir tæplega 2 ára farsótt og með fullbólusetta þjóð skuli vera talið réttlætanlegt að sveifla þjóðfélaginu til og frá með gríðarlega kostnaðarsömum hætti eftir því, hvernig Landsspítalanum gengur að fást við hálsbólguveiru.  Það er barnaskapur að halda, að það unga fólk, sem aðallega sækir staði, sem nú er búið að loka eða takmarka gestafjölda mjög á og hefði e.t.v. sýkzt þar, muni eftir herðingu ekki sýkjast annars staðar. Þótt náttúran sé lamin með lurki, þá leitar hún út um síðir, sögðu Rómverjar. 

Þegar óttinn er ekki lengur fyrir hendi, þá mun fólk halda áfram að hittast.  Daglegur smitfjöldi var hættur að aukast áður en aðgerðir voru hertar 14.01.2022, og þeim mun fækka á næstu vikum, hvað sem sóttvarnaryfirvöld taka sér fyrir hendur.  Seinni partinn í febrúar 2022 mun náttúrulegt lýðónæmi að öllum líkindum nást í landinu. 

Sóttvarnaryfirvöld ættu að hætta rándýrum leikaraskap sínum og hreinum skrípaleik með því að sleppa þríbólusettum einum við einkennalausa sóttkví.  Þríbólusettir eru ekki ólíklegri en aðrir til að smita út frá sér af ástæðum, sem hér hafa verið raktar.  Afleggja ætti einkennalausa sóttkví með öllu og einfaldlega biðja fólk um að hafa hægt um sig heima við, ef það finnur fyrir einkennum.  Botnlausum sýnatökum og rakningum má hætta og spara þannig stórfé, sem betur væri komið í fjárveitingum til sjúkrahúsa landsins. 

Þann 10. janúar 2022 birtist grein í Morgunblaðinu eftir Jóhannes Loftsson, verkfræðing, sem aflað hefur sér mikillar þekkingar á tölfræði Kófsins.  Greinin hét einfaldlega:

"Ekki hlýða Víði".

Þar gat m.a. að lesa þetta:

"Ómíkron er svo smitandi, að vírusinn er óstöðvandi.  Frekari frelsisskerðingar munu litlu breyta, og stríðið er tapað.  En þó ekki í raun, því [að] stríðið fyrir eðlilegu lífi er að vinnast.  Hið milda ómíkronkvef býr til svo góða vörn gegn deltalungnabólgunni, að hún er að hverfa.  Fyrir eldheita bólusetningarsinna má kalla þetta "bóluefni, sem virkar", til að aðskilja það frá tilraunabóluefnunum, sem virka ekkert á Ómíkron samkvæmt nýjustu tölfræðiupplýsingum á covid.is. 

Þessu hafa sumir áttað sig á, og í Suður-Afríku og Ástralíu eru menn hættir og farnir að bíða eftir ómíkronhjarðónæminu. Óumfjýjanlegt er, að fleiri fylgi eftir, því [að] svo ört fjölgar smitum um allan heim.  

Sú ákvörðun heilbrigðisráðherra að bólusetja börn með þessu gagnslausa efni við þessar aðstæður á eftir að verða komandi kynslóðum ráðgáta.  Börn eru í hverfandi hættu af covid og enn minni hættu af ómíkron.  Tilraunalyfið, sem þau verða sprautuð með, verður hins vegar á tilraunastigi fram til 2026.  Börn, sem eru sprautuð á mánudaginn [10.01.2022] munu svo ekki verða "fullbólusett" fyrr en 14 dögum eftir seinni bólusetningu eða 14. febrúar.  Líklegt verður að telja, að þá verði síðasta eftirlifandi afbrigði, sem tilraunabólusetningin hefur virkni gegn, deltalungnabólgan, löngu horfin.  Tilraunin virðist því algjörlega tilgangslaus.  Skaði barnanna getur hins vegar orðið margs konar." 

 

Undir allt þetta skal taka heilshugar.  Dr Robert Malone, aðalhöfundur mRNA-tækninnar, flutti um áramótin 2021/2022 ávarp til heimsbyggðarinnar um skaðsemi þessarar tækni fyrir börn, sem sóttvarnaryfirvöld alls staðar hefðu betur tekið mark á, en sums staðar virðist það þó hafa verið gert.  Það er óskiljanleg rökleysa að baki ákvörðun um að leggja heilsu barna í hættu gegn engum ávinningi fyrir heilbrigð börn.  Glámskyggnin ríður ekki við einteyming.  Að bólusetja börnin svo í miðjum faraldrinum stríðir gegn hefðbundinni aðferðarfræði á þessu sviði.  "Something is rotten in the state of Danemark (and Iceland)." 

Þorsteinn Siglaugsson, hagfræðingur, hefur manna ötulastur verið við skriftir um Kófið.  Þann 11. janúar 2022 birtist eftir hann í Morgunblaðinu greinin:

"Þórólfur í Undralandi".

Henni lauk þannig:

"Misráðin áform sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra um bólusetningu 5-11 ára barna og mismunun fólks eftir sprautufjölda, sem þegar eru að hluta komin til framkvæmdar, því miður, grundvallast á úreltum gögnum.  Samkvæmt gögnum frönsku læknaakademíunnar hafa heilbrigð ung börn engan ávinning af bólusetningunni, hvað þá þegar hið nýja afbrigði virðist leiða til þess, að hún auki smittíðni í stað þess að minnka hana. En hætta á alvarlegum aukaverkunum er óbreytt.  Sérréttindi til þeirra, sem nú smitast mest [og þar af leiðandi dreifa veirunni mest - innsk. BJo] eru bersýnilega fjarstæðukennd ráðstöfun.  

Lísa var í Undralandi.  Eru sóttvarnalæknir og heilbrigðisráðherra þar líka ?"

Sóttvarnarlæknir lemur hausnum við steininn.  Hann virðir staðreyndir að vettugi og neitar að láta af ofurtrú sinni á þessa nýju tækni við bóluefnagerð, sem reynzt hefur þó gjörsamlega haldlaus og óvenju skaðleg m.v. hefðbundin bóluefni, sem fengið hafa markaðsleyfi. 

Sóttvarnarlæknir Íslands er orðinn sjálfstætt heilbrigðisvandamál, efnahagsvandamál og jafnréttisvandamál.  Þetta hefst upp úr því að veita einum manni heimild til að hræra upp í tilfinningum fólks með hræðsluáróðri gagnvart nýjum sjúkdómi, og að láta hann síðan um að ráðleggja ráðherra, sem á óhægt um vik með að taka sjálfstæða ákvörðun, þegar sóttvarnarlæknir er búinn að undirbúa jarðveginn (manípúlera) á fjölmiðlunum og með grátkór lækna á Landsspítalanum háværan að ógleymdum ónefndum lækni með vinnustað í Vatnsmýrinni. 

Alþingi verður að taka stjórnkerfi sóttvarna til rækilegrar endurskoðunar með það í huga, að sóttvarnarráð, skipað farsóttarsérfræðingum og hagsmunaaðilum úr þjóðfélaginu, geri ígrundaðar og vel vegnar sóttvarnartillögur til ráðherra, en stundi ekki hræðsluáróður í fjölmiðlum.

Þann 8. janúar 2022 birtist líka grein eftir Þorstein Siglaugsson í Morgunblaðinu. Hún var undir fyrirsögninni:

"Minnkar bólusetning vörn gegn smiti ?"

Það er ekki vafa undirorpið, að hún gerir það fyrst í stað, því að ónæmiskerfið "fer á hliðina" við að fást við aðskotaefnin, en Þorsteinn hefur fundið út leitni til tíðari smita þríbólusettra, er frá líður, enda er léleg ending þessarar nýju bóluefnatækni í líkamanum vel þekkt:

"Nokkuð skýr leitni er í þessum gögnum.  Með sama áframhaldi má vænta þess, að mjög fljótlega verði sú litla vernd, sem þreföld bólusetning veitir enn gegn smiti, alveg horfin - þeir verði jafnlíklegir til að smitast og óbólusettir og bólusett börn einnig."

Þorsteinn er sannspár, enda hafa aldrei staðið neinar líkur til þess, þrátt fyrir fullyrðingar sóttvarnarlæknis, að 3. sprautan mundi endast eitthvað betur en 1. og 2. sprautan.  Líkaminn losar sig við efnin.  Lendir ruslið í lifrinni ?

Þorsteinn lauk grein sinni þannig:

"Það vekur furðu, að þessi stórfellda breyting á smittíðni skuli enn ekki hafa ratað í fjölmiðla og ekki síður, að grundvallarforsendubreyting af þessu tagi virðist engin áhrif hafa á fyrirætlanir stjórnvalda, annars vegar um bólusetningu ungra heilbrigðra barna hverjum veiran er afar hættulítil, og hins vegar fyrirætlanir um að mismuna fólki eftir fjölda bóluefnaskammta.  Það er skylda stjórnvalda að grundvalla aðgerðir á staðreyndum og endurskoða þær, þegar forsendur breytast.  Það hljóta þau að gera nú."

Það er í fersku minni, hversu afdráttarlaust sóttvarnarlæknir fullyrti á sínum tíma, að 3. bólusetningin, örvunarsprautan, mundi skipta sköpum í viðureigninni við C-19.  Þetta fullyrti hann, þótt spá hans eða kannski loforð til landsmanna um hjarðónæmi, ef þeir almennt létu bólusetja sig tvisvar, hefði reynzt alröng, og sérfræðiheiður hans hefði þannig beðið hnekki. 

Leikmönnum, sem lítillega höfðu kynnt sér rannsóknir á virkni og endingu þessara bóluefna í líkamanum, var þó ljóst, að fullyrðing sóttvarnarlæknis um töframátt 3. sprautunnar, var án vísindalegs rökstuðnings, og þess vegna aðeins til vitnis um örvæntingu manns með gjaldþrota málstað, þar sem var misheppnuð tilraun á þjóðinni með nýja bóluefnatækni, sem hefur valdið fleiri og skaðlegri verkunum á líkamann en áður eru dæmi um með bóluefni með markaðsleyfi til almennrar notkunar.  Þegar sami sóttvarnarlæknir síðan gerði tillögu um forréttindi í þjóðfélaginu til handa þríbólusettum, fór traustið fyrir lítið sums staðar. 

 

 

   

 


Evrópa er í losti - hvað svo ?

Framkoma Donalds Trump gagnvart leiðtogum hefðbundinna bandamanna Bandaríkjamanna í Evrópu er einsdæmi á okkar tímum og gerist e.t.v. einu sinni á 200 ára fresti, nema einhver skaðvænleg þróun eigi sér nú stað í framkomu ríkja í millum.  Hvað sem í skerst á næstunni, jafnvel þótt bandaríska þingið taki fram fyrir hendur forsetanum, hefur þegar orðið trúnaðarbrestur yfir Atlantshafið, og kalt stríð virðist hafið yfir Kyrrahafið. Á þetta horfa Rússar og núa saman höndum af ánægju.  Fundur Trumps og Putins í Helsinki í júlí 2018 olli miklu fjaðrafoki í Washington DC, sem vonlegt er, og sennilega angist í Berlín, Brüssel og París. Þjóðverjar hafa nú gert sér grein fyrir, að ekki dugir lengur að hafa varnir landsins í algerum ólestri, eins og reyndin hefur verið á þessari öld.    

Ef einhvers konar söguleg þróun endurspeglast í gjörðum Bandaríkjamanna undanfarið, þá er hún helzt sú á viðskiptasviðinu, að dagar tollabandalaga eru taldir, en tími tvíhliða viðskiptasamninga er runninn upp. Hvaða skjól hafa Þjóðverjar af ESB, ef vera þeirra þar veldur álagningu hárra tolla á bílaútflutning þeirra til Bandaríkjanna, BNA, eins og Bandaríkjaforseti hefur hótað, en nú dregið í land með um sinn ?

Atburðirnir ýta eindregið undir það, að Ísland segi upp EES-samninginum, en bindi ekki trúss sitt við tæknilegar viðskiptahömlur hins pólitíska tollabandalags ESB, sem er auðvitað líka stjórnmálabandalag með löngun til að verða sambandsríki á heimsmælikvarða, sem forseti Bandaríkjanna hefur lýst yfir, að sé versti andstæðingur Bandaríkjanna á viðskiptasviðinu.  Þá er nú langt til jafnað, þegar viðskipti Bandaríkjanna og Kína eru höfð í huga.

Hvaða áhrif hefur þetta ástand á ESB ?  Það aukast líkur á, að enn meir kvarnist úr bandalaginu, þegar einhver mynd kemst loksins á viðskilnað Breta, en nú er allt upp í loft í þeim viðræðum, enda ríkisstjórn Bretlands stórlöskuð.  Verður því samt ekki trúað, að Bretar fari með hálfvelgju út úr ESB, verði í tollabandalagi áfram, jafnvel á Innri markaðinum með fjórfrelsin í einhverri mynd virk og Evrópudómstólinn sem úrskurðaraðila í þrætum þeirra við ESB.  Þá er líklegt, að lífi verði blásið í UKIP, sem nái svo miklu fylgi af hægri væng, að Verkamannaflokkurinn nái völdum með erkisósíalistann og þjóðnýtingarsinnann Corbyn sem húsbónda í nr 10 (Downing Street).  Það yrði afturhvarf til fortíðar fyrir Breta, þegar þeim hins vegar ríður á leiðtoga með framtíðarsýn fyrir öflugt Bretland utan ESB, sem stendur frjálst að gerð viðskiptasamninga við hvern sem er, og verður í fylkingarbrjósti frjálsra alþjóða viðskipta innan vébanda WTO-Alþjóða viðskiptastofnunarinnar, sem Bandaríkjamenn leika svo grátt um þessar mundir.  Þeir neita m.a. að samþykkja dómara í 7 manna úrskurðarteymi, en allar aðildarþjóðirnar, rúmlega 130, verða að samþykkja dómaraskipunina. Þar með lama Bandaríkjamenn þessa mikilvægu alþjóðastofnun.  Vonir standa til, að þeir sjái sig um hönd.   

Það er ekki síður áhugavert, hvernig Þjóðverjar taka nú á málaum. Munu þeir stökkva inn í tómarúmið, sem Bandaríkjamenn skilja eftir sig á alþjóðavettvangi ? Þar er mikil gerjun í gangi.  AfD (Alternative für Deutschland) togar miðju stjórnmálanna til hægri þar í landi.  Þetta sést mjög greinilega í Bæjaralandi núna í aðdraganda þingkosninga í október 2018, þar sem AfD getur kostað valdaflokkinn CSU ríkjandi stöðu í fylkinu.  Ef stjórnmál Þýzkalands hnikast til hægri, jafngildir það sjálfstæðari stefnumörkun innanlands og í utanríkismálum.  Þetta gæti aukið enn á innbyrðis vanda ESB, en þar rekast Austur-Evrópuríkin mjög illa.  Þau hafa t.d. neitað að taka við nokkrum flóttamanni, en Þjóðverjar sitja uppi með 1-2 milljónir slíkra og fyrirséð, að fólkið á erfitt með að fá vinnu, aðlagast þar með seint og illa og verður að skjólstæðingum almannatrygginga fyrir vikið.  Þetta er undirrót óánægjunnar.  

Frá því að Gústaf 2. Adolf, Svíakonungur, tók þátt í 30 ára stríðinu með mótmælendum, sem var borgarastyrjöld í Þýzkalandi 1618-1648, og kannski lengur, hafa sterk og fjölþætt tengsl verið á milli Svía og Þjóðverja.  Þetta kom berlega í ljós í báðum heimsstyrjöldunum á 20. öld. 

Carl Bildt, fyrrverandi forsætisráðherra og utanríkisráðherra Svíþjóðar, fylgist vel með stjórnmálum Þýzkalands og skrifaði grein um þau, sem birtist í Morgunblaðinu 4. júlí 2018 undir fyrirsögninni:

"Orrustan um sál Þýzkalands".

Orrusta um sama málefni hefur áður verið háð.  Niðurstaðan ræður jafnan örlögum Evrópu.  Fyrirsögnin hefur þess vegna djúpa og áhrifamikla skírskotun.  Carl Bildt skrifaði m.a.:

"Á yfirborðinu er umræðan, sem nú heltekur Þýzkaland, um, hvort það eigi að senda hælisleitendur, sem þegar hafa verið skrásettir í öðrum ESB-ríkjum, til baka, eins og innanríkisráðherrann, Horst Seehofer, leiðtogi kristilegra í Bæjaralandi (CSU), hefur talað fyrir.  En þegar kafað er dýpra, er spurningin fyrir Þýzkaland, hvort landið ætti að fara sínar eigin leiðir eða halda áfram að leita sameiginlegra lausna."

Varðandi hælisleitendur er þegar þrautreynt, að það finnast engar sameiginlegar lausnir innan ESB eða innan Evrópu.  Mörg ríki ESB hafa harðneitað að taka við flóttamönnum, þannig að Þýzkaland situr enn uppi með yfir eina milljón flóttamanna frá 2015, sem ætlunin var að dreifa á ESB-ríkin.  Nú er ósköpunum eitthvað að linna í Sýrlandi, þannig að ætla mætti, að margir Sýrlendinganna gætu snúið heim til að taka þátt í uppbyggingunni.  Það er einboðið að fylgja reglunum og senda þá, sem eru skráðir inn í Evrópu annars staðar, þangað. 

Evrópa hvorki getur né vill taka við efnahagsflóttamönnum, sem margir hverjir eru hvorki læsir né skrifandi á latneskt letur, en uppfullir af fornaldargrillum Múhameðs úr Kóraninum og hafa engan vilja til að laga sig að vestrænum hugsunarhætti og lifnaðarháttum.  Velferðarkerfi Vesturlanda fara á hliðina, ef slíkum byrðum verður hlaðið á þau. Þess vegna má víða greina sterk varnarviðbrögð á meðal almennings, og Svíþjóðardemókratarnir gætu t.d. fengið meira en fjórðungsfylgi í þingkosningum í Svíþjóð í september 2018 og þar með orðið stærsti flokkurinn í Riksdagen. 

Síðar í grein sinni skrifar Carl Bildt:

"Árás þjóðernissinnaðra afla á sýn Kohls [Helmut Kohl var kanzlari Þýzkalands í 16 ár, þ.á.m. þegar Austur-Þýzkaland var innlimað í Sambandslýðveldið Þýzkaland-BRD árin 1989-1990, 40 árum eftir stofnun BRD úr rústum hluta Þriðja ríkisins-innsk. BJo.] gæti haft afleiðingar í för með sér, sem næðu langt umfram deiluna um innflytjendamál. Það er ekki bara hlutverk Þýzkalands í Evrópu, sem er í húfi, heldur einnig framtíð samrunaferlis Evrópu.  Þýzkaland, sem varpar af sér arfleifð Kohls, myndi allt í einu verða uppspretta mikillar óvissu, frekar en brjóstvörn stöðugleikans í hjarta Evrópu.  Þar sem Vesturveldin eiga þegar undir högg að sækja frá mönnum eins og Vladimír Pútín, Rússlandsforseta, og Donald Trump, Bandaríkjaforseta, væri það hið síðasta, sem Evrópa þarfnaðist."

Þetta er að nokkru úrelt greining á stöðunni.  Þjóðverjar kæra sig ekki um meiri samruna Evrópuríkjanna, af því að þeir vita sem er, að ekkert ríki ESB hefur áhuga á meiri samruna, nema hann auðveldi þeim að krækja í þýzka peninga, sem alþýða Þýzkalands hefur unnið fyrir og sparað til elliáranna, en hið sama verður ekki sagt um rómönsku þjóðirnar, og slavarnir berjast enn við spillingarhít kommúnistastjórna Kalda stríðsins.

Bandaríkjamenn hafa kastað pólitískum sprengjum inn í ESB-samstarfið og NATO.  Donald Trump hefur úthúðað kanzlara Þýzkalands, heimtað 70 % aukningu strax á framlögum Þjóðverja til varnarmála og hótað háum tollum á bíla, sem ESB-ríkin flytja út til BNA.  Þetta mun hrista ærlega upp í stjórnendum Þýzkalands og færa þeim heim sanninn um, að þeir verða að setja hagsmuni síns eigin lands í forgrunn stjórnmálastefnu sinnar, þótt slíkt verði á kostnað samstarfsins innan ESB og þó að afturkippur komi jafnvel í samrunaferlið.  Þýzkur almenningur er þarna á undan leiðtogunum í Berlín, eins og komið hefur fram í skoðanakönnunum undanfarið og mun sýna sig í næstu fylkiskosningum, sem haldnar verða í Bæjaralandi í október 2018.  

 

 

 


Þvermóðska keyrir um þverbak

Útgjöld til heilbrigðismála eru langstærsti útgjaldaliðurinn á fjárlögum íslenzka ríkisins, og útgjöldin þangað vaxa  reyndar meira en góðu hófi gegnir.  Samt linnir ekki fréttum af ófremdarástandi í þessum geira, sem er miðstýrður af skrifstofu heilbrigðisráðherrans í velferðarráðuneytinu, og heilbrigðisráðherrann er heldur betur frekur til fjárins við gerð fjárlagafrumvarps.   

Heilbrigðisráðherrann núverandi, Svandís Svavarsdóttir, flæmir nú forstjóra Sjúkratrygginga Íslands, Steingrím Ara Arason, úr starfi sínu.  Eftir Steingrím Ara birtist uppgjörsgrein við ráðherrann í Fréttablaðinu, 17. apríl 2018, undir fyrirsögninni:

"Skammsýni og sóun":

Greinin er einn samfelldur áfellisdómur yfir téðum ráðherra.  Málið er grafalvarlegt fyrir þjóðina, um leið og það er hápólitískt.  Ráðherrann hefur sagt starfsemi sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólks stríð á hendur.  Sú stríðsyfirlýsing er glórulaus, því að hún vill færa þessa starfsemi til göngudeilda ríkissjúkrahúsanna, sem ekki eru í nokkrum færum til að taka við henni, eins og sakir standa.  Ráðherrann ætlar með öðrum orðum með háttsemi sinni að auka enn á öngþveitið á Landsspítalanum og víðar með hræðilegum afleiðingum fyrir sjúklingana og óhjákvæmilega auknum samfélagslegum kostnaði.  Spyrja verður: er þetta stefna ríkisstjórnarinnar ?  Ef ekki, er þá ekki komið fullt tilefni fyrir þingmenn að sýna vígtennurnar og undirbúa vantraust á ráðherra, sem leikur "sóló" af þessu tagi ?  

Ef ráðherrann verður ekki bráðlega stöðvaður á sinni óheillabraut, mun það hafa ómældar þjáningar í för með sér fyrir fjölda sjúklinga, mikinn samfélagslegan aukakostnað og óþörf útgjöld úr ríkissjóði.  Forstjóri SÍ hóf grein sína þannig:

"Systur tvær, skammsýni og sóun", fara oft saman.  Í atvinnurekstri og stjórnmálum er viðvarandi viðfangsefni að fyrirbyggja, að þær fái ráðið för.

Ragnar Hall, lögmaður, skrifaði 13.apríl sl. athyglisverða grein, þar sem hann fjallar um þá niðurstöðu Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) og úrskurðarnefndar velferðarmála að synja einstaklingi um greiðsluþátttöku vegna liðskiptaaðgerðar hjá Klínikinni Ármúla.  Þetta gerist þrátt fyrir, að einstaklingurinn hafi verið í brýnni þörf fyrir aðgerðina, þrátt fyrir meira en árs bið eftir aðgerðinni á Landsspítalanum, þrátt fyrir að Klínikin Ármúla hafi uppfyllt öll fagleg skilyrði og þrátt fyrir lægri kostnað ríkisins við að samþykkja aðgerðina hjá íslenzkum fremur en sænskum aðila.  Nei skal það vera, þar sem SÍ hafa einungis heimild til að taka þátt í kostnaði við liðskiptaaðgerðir, sem framkvæmdar eru erlendis."

Hér opnast lesendum sýn inn í forarvilpu sósíalistískrar stjórnunar á einokuðum geira, þar sem aðalatriðið er, að ákvarðanir fylgi hugmyndafræði sósíalismans um að knésetja þjónustu, sem reist er á einkaeignarrétti aðstöðu og tækjabúnaðar, en hagsmunir sjúklinga og ríkissjóðs eru um leið bornir fyrir borð.  Þessari endemis óstjórn, sem enda mun sem venezúelskt ástand í heilbrigðisgeiranum, enda fetar Svandís hér í fótspor ríkisstjórnar Hugos Chavez i Venezúela fyrir hálfum öðrum áratugi, verður að linna.  Þessi ráðherra hefur brugðizt skyldum sínum og misst traust fjölmargra starfsmanna heilbrigðisgeirans.

Hryllingssagan um yfirstjórn heilbrigðisgeirans heldur áfram:

"Samtímis hefur þeirri ósk SÍ verið hafnað að semja um gerviliðaaðgerðir á þeim grunni, að "mæli fagleg og fjárhagsleg rök með því, verði SÍ jafnframt heimilað að semja um hluta aðgerðanna við sjálfstætt starfandi bæklunarlækna."

Ósk, sem er sett fram til að tryggja sjúkratryggðum greiðan aðgang að þjónustunni og til að nýta fjármuni ríkisins, eins vel og kostur er.

Árið 2018 hefur heilbrigðisráðherra ákveðið að fela Landsspítala, Sjúkrahúsinu á Akureyri og Heilbrigðisstofnun Vesturlands að framkvæma allar biðlistaaðgerðir átaksins án sérstaks samnings.  Þetta er ákveðið, þó að fyrir liggi, að sjálfstætt starfandi aðilar séu einnig reiðubúnir að veita þjónustuna og að biðlistaaðgerðirnar koma orðið niður á annarri þjónustu Landsspítalans."

Af þessari lýsingu Steingríms Ara má ljóst vera, að í velferðarráðuneytinu situr nú heilbrigðisráðherra, sem veit ekki sitt rjúkandi ráð.  Heilbrigðisráðherrann tekur geðþóttaákvarðanir án nokkurs tillits til raunveruleikans, sem er sá, að allar þessar þrjár stofnanir eru yfirlestaðar og geta ekki annað þessum viðbótar verkefnum án þess að þau bitni á annarri starfsemi þessara ágætu stofnana.  Skeytingarleysi ráðherrans um hag sjúklinganna og meðferð skattfjár er forkastanlegt.  

Þann 8. júní 2018 skrifuðu tveir menn grein í Morgunblaðið, sem bar heitið:

"Háskaleikur heilbrigðisráðherrans".

Höfundarnir voru Stefán E. Matthíasson, formaður Samtaka heilbrigðisfyrirtækja, og Þórarinn Guðnason, formaður Læknafélags Reykjavíkur.  Grein þeirra hófst þannig:

"Ekki verður betur séð en heilbrigðisráðherra þjóðarinnar sé í einhvers konar afneitun, þegar kostnaður og gæði heilbrigðisþjónustunnar eru annars vegar. Eitt virtasta tímarit heims í læknisfræði, The Lancet, birti fyrir nokkrum dögum úttekt á heilbrigðistengdum gæðavísum og aðgengi að heilbrigðisþjónustu 195 landa fyrir árið 2016.  Til að gera langa sögu stutta toppar Ísland þennan lista.  Erfitt er að ímynda sér, hvernig hægt er að fá betri staðfestingu á góðu kerfi og glæsilegri frammistöðu heilbrigðisstarfsfólks.  Sjálfsagt er að óska því fólki til hamingju.  Við getum verið stolt af árangrinum, enda þótt ráðherrann virðist ekki mega heyra á hann minnzt."

Þeim, sem aðeins þekkja heilbrigðiskerfið af frásögnum í fréttatímum fjölmiðlanna, hlýtur þessi toppeinkunn að koma á óvart, en hinum ekki algerlega.  Þá þarf að hafa í huga samsetningu heilbrigðiskerfisins, sem er í grófum dráttum þrískipt: heilsugæzlur, sjúkrahús og starfsemi sjálfstæðra heilbrigðisstarfsmanna.  Í fréttatímum hefur megináherzlan verið á neikvæðar fréttir af hinum tveimur fyrrnefndu og þó aðallega af Landsspítalanum.  Af þeim fréttum að dæma er sjúkrahúsið þó rekið af duglegu og hæfu starfsfólki, en á yztu mörkum hins mögulega vegna gamallar umgjarðar og óheppilegs stjórnunarfyrirkomulags fastra framlaga úr ríkissjóði samkvæmt fjárlögum í stað afkasta- og gæðahvetjandi greiðslufyrirkomulags fyrir veitta þjónustu.

Það má telja víst, að Ísland hafi lent í efsta sæti téðrar könnunar fyrir tilverknað starfsemi hinna sjálfstæðu heilbrigðisstarfsmanna. Núverandi heilbrigðisráðherra beinir nú spjótum sínum að þeim og ætlar að rífa niður starfsemi þeirra.  Þessa niðurrifsstarfsemi í nafni löngu afskrifaðrar sósíalistískrar hugmyndafræði má Svandís Svavarsdóttir ekki komast upp með, enda eru þetta ólýðræðislegar aðfarir, hvergi getið í stjórnarsáttmálanum og nánast örugglega í blóra við vilja þings og þjóðar.  Ráðherrann hefur nú sjálfviljug sett hausinn í snöruna, og hún ræður ekki hinu pólitíska framhaldi.  

 Um afköst, gæði og kostnað þjónustunnar skrifuðu tilvitnaðir tvímenningar:

"Sérfræðiþjónusta lækna hefur um áraraðir verið kjölfesta góðrar læknisþjónustu hér á landi.  Á síðasta ári [2017] tóku sérfræðilæknar á rammasamningi við Sjúkratryggingar Íslands á móti um 500 þúsund heimsóknum.  Þeir framkvæmdu m.a. um 18 þúsund skurðaðgerðir og þúsundir speglana auk margs konar lífeðlisfræðilegra rannsókna.  Á sama tíma voru um 244 þúsund komur á göngudeild Landsspítala og um 250 þúsund komur á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.  Þannig er stofustarfsemi sérfræðilækna stærri en göngudeildarstarfsemi þessara tveggja stærstu heilbrigðisstofnana landsins."

Það er fullkomið dómgreindarleysi af heilbrigðisráðherra að skerða þessa starfsemi og ætla biðlistahrjáðum Landsspítala, hvers starfsemi er strekkt til hins ýtrasta, að taka við. Eitt er víst: hagsmunir sjúklinganna verða algerlega fyrir borð bornir með slíku fyrirkomulagi.  Það er bæði synd og skömm, að við skulum búa við fyrirkomulag, sem getur veitt misheppnuðum ráðherra tök á að vinna heilbrigðiskerfinu stórfellt tjón.

"Um 350 læknar starfa á samningum í ýmsum sérgreinum.  Til viðbótar eru um 300 önnur stöðugildi fagfólks í ýmsum greinum.  Enda þótt starfsemin sé afar umfangsmikil, er athyglisvert, að hún tekur einungis til sín um 6 % af heildarútgjöldum heilbrigðisþjónustunnar.  Sérfræðiþjónustan er einfaldlega vel rekin, ódýr m.v.í nágrannalöndum og með gott aðgengi sjúklinga.  Gæðin þarf enginn að draga í efa.  Það er vandséð annað en hér sé vel farið með hverja krónu skattfjárins."

Ein af leiðunum út úr kostnaðarógöngum heilbrigðisgeirans er að auka vægi annarra rekstrarforma en hins opinbera.  Með því fá sjúklingar og heilbrigðisstarfsmenn æskilegt valfrelsi, sem er nauðsynlegt fyrir sæmilega heilbrigða þjónustugrein.  Með auknum samanburði og samkeppni verða hagsmunir skattgreiðenda betur tryggðir en nú er, því að reynslan á hinum Norðurlöndunum er sú, að aukin fjölbreytni leiðir til bættrar skilvirkni.  

Marxisminn hefur því miður komið við sögu í þessum pistli um nýjustu vendingar í heilbrigðismálum á Íslandi, og þess vegna er ekki úr vegi að enda hann með tilvitnun í frábæra grein Carls Bildts, sem er fyrrverandi formaður "Moderatarna" í Svíþjóð og fyrrverandi forsætis- og utanríkisráðherra landsins, og birtist í Morgunblaðinu 15. maí 2018 undir fyrirsögninni,

"Hvers vegna Marx hafði rangt fyrir sér":

"Marx leit á eignarréttinn sem rót alls hins illa í þeim kapitalísku samfélögum, sem voru að myndast á dögum hans.  Af því leiddi, að hann trúði því, að bara með því að afnema hann væri hægt að laga stéttaskiptingu samfélagsins og tryggja samlynda framtíð.  Friedrich Engels, samverkamaður Marx, hélt því síðar fram, að undir kommúnismanum myndi ríkið verða óþarft og "veslast upp".  Þessar fullyrðingar voru ekki settar fram sem getgátur, heldur sem vísindalegar fullyrðingar um það, hvað framtíðin hefði í för með sér.

En að sjálfsögðu var þetta allt þvaður, og kenning Marx um söguna - díalektíska efnishyggjan - hefur síðan verið afsönnuð og reynzt hættuleg að nánast hverju einasta leyti." 

 

 

 


Veðurfar

Á Íslandi eru margir veðurfræðingar, bæði hámenntaðir og sjálfmenntaðir.  Þetta er skiljanlegt miðað við, hvað landsmenn eiga mikið undir veðri. Svo hefur alltaf verið og mun verða. Meiru skiptir þó þróun veðurfars en veðurs.  Með því að rýna í nánustu fortíð getur veðurfarsrýnir leyft sér að spá í veðurfarið í nánustu framtíð, þ.e. næstu áratugi, þótt slá beri þann varnagla, að leitnilína veðurs hefur takmarkað forspárgildi.

Staðan núna er sú, að á landsvísu varð meðalhitastig í byggð 5,0°C í fyrra (2016), og aðeins árin 2014 og 2003 varð hitastigið hærra eða 5,1°C.  Í Reykjavík varð meðalhitastig í Reykjavík 6,0°C og hefur aðeins einu sinni mælzt hærra, þ.e. 6,1°C árið 2003. Í Stykkishólmi, sem á lengsta skráða sögu veðurathugana á Íslandi, varð árið 2016 líklega það hlýjasta frá upphafi mælinga árið 1846. Vísindalegum veðurspekingum er meinilla við að fullyrða nokkuð um veðurmet og rýna gögnin vandlega áður en svo sögulegt skref er stigið.  Annars staðar en í Stykkishólmi hófust hitastigsskráningar yfirleitt 1870-1880.

Ef leitnilína er dregin frá 1880 til 2016 fyrir meðalhitastig á landinu fæst líklegt meðalhitastig árið 1880 rúmlega 2,5°C, en var í raun 1,7°C og árið eftir 3,8°C, og hitastigið, sem búast mátti við árið 2016 var 4,0°C, en var 5°C.  Stigull þessarar leitnilínu er 0,011°C, sem bendir til hitastigshækkunar á Íslandi um 1,1°C/öld, sem er meiri hitastigshækkun en talin er hafa orðið að meðaltali á jörðunni frá upphafi iðnvæðingar, 1750. Staðbundnar breytingar eru auðvitað meiri en heildarmeðaltal jarðar sýnir.    

Leitnin gæti endurspeglað hin svo kölluðu gróðurhúsaáhrif, þ.e.a.s. uppsöfnun gastegunda í andrúmsloftinu, sem minnka hitaútgeislun frá jörðunni. Þar er t.d. um að ræða koltvíildi, metan, brennisteinsflúoríð og kolefnisflúoríð.  

Fleiri áhrifaþættir eru þó fyrir hitastigsþróun á Íslandi.  Það er talið, að lækkað seltustig í Atlantshafi vegna jökulbráðnunar og vaxandi úrkomu dragi úr krafti Golfstraumsins, en hann hefur gert löndin norðan 60°N við Norður-Atlantshaf vel byggileg.  Þess vegna kann stigull leitnilínu fyrir Ísland að lækka, er fram líða stundir.

Það virðast hins vegar  vera fleiri áhrifavaldar á veðurfarið en vaxandi gróðurhúsaáhrif, því að áratugsmeðaltal hitastigs sveiflast lotubundið um leitnilínuna.  Lotan er rúmlega 70 ár og skar leitnilínuna um aldamótin síðustu á uppleið.  Það þýðir, að fram til um 2020 má búast við hratt vaxandi meðalhitastigi, eins og hefur verið raunin, og síðan minni árlegri hækkun og jafnvel kólnun eftir miðja öldina. Undir 2040 er líklegt, að gróðurhúsaáhrifin hafi valdið 0,2°C hækkun m.v. núverandi hitafar og að sveiflan hafi valdið 0,8°C hækkun, svo að hitastig verði 1,0°C hærra þá en um þessar mundir. Það er mikið og mun hafa margvísleg áhrif á Íslandi. Veðurfarsrýni þykir líklegt, að skýringa á téðri sveiflu um leitnilínu sé að leita í hegðun sólar eða braut jarðar um sólu.

Hækkandi hitafar, sem í vændum er, ef svo heldur fram sem horfir, hefur margvísleg jákvæð áhrif á landi.  Gróður vex hraðar og gróðrarlína hækkar, jafnvel um 100 m/°C.  Þetta mun auka framleiðni landbúnaðarins, sem er til hagsbóta fyrir bændur og neytendur og styrkir samkeppnisstöðu íslenzks landbúnaðar á innanlandsmarkaði og á útflutningsmörkuðum.  Kornyrkja verður auðveldari og mun spara innflutning.  Skógræktinni mun vaxa fiskur um hrygg og verða álitleg atvinnugrein, sem myndar mótvægi við losun gróðurhúsalofttegunda og sparar innflutning á viði.  Þegar er kominn hér upp nytjaskógur og farið að byggja íbúðarhús úr íslenzkum viði.  Ætli það hafi gerzt síðan á landnámsöld ?

Úrkoma mun að vísu aukast og þar með sólarstundum væntanlega fækka.  Úrkoman í Reykjavík í fyrra varð t.d. 15 % ofan meðallags og 25 % ofan meðallags á Akureyri.  Þetta mun efla vatnsbúskap og aukið orkuframboð mun hjálpa til við að halda raforkuverði áfram lágu, neytendum í hag.  Þetta mun auðvelda orkuskiptin, sem óhjákvæmilega eru framundan og þarf að ljúka fyrir miðja öldina, ef vel á að vera.  Orkuskiptin munu ekki aðeins bæta nærumhverfið og þar með heilsufarið, heldur getur forysta á þessu sviði orðið öðrum að góðu fordæmi og sparað um 100 miaISK/ár innflutningskostnað eldsneytis. 

Hlýnunin mun hafa margvíslegan kostnað í för með sér.  Sjávarstaðan hækkar og leggja þarf í kostnað við að verja land.  Mikil tækni hefur þróazt á því sviði, t.d. í Hollandi.  Það mun senn þurfa að nýta hana við Breiðamerkurlón, þar sem stutt er í að vegstæði og raflínustæði rofni, og Vík í Mýrdal er ógnað af ágangi sjávar.   

Öfgar virðast vaxandi í veðurfari, þurrkar sums staðar og mikil úrkoma annars staðar.  Þetta ásamt fjölgun mannkyns kann að hækka verð landbúnaðarvara á heimsmarkaði, en á móti þeirri þróun vegur ræktun genabreyttra afbrigða, sem aðlöguð eru að erfiðum aðstæðum og með mikinn vaxtarhraða.  Miklar efasemdir eru hins vegar um hollustu þessara jurta, og styrkur íslenzks landbúnaðar mun enn sem fyrr verða fólginn í náttúrulegum og ómenguðum vörum.  Heilnæmið gefur bezt til lengdar, og það þarf að votta í miklu meiri mæli en nú er gert.  Mætti vel veita bændum styrki til slíks, enda hagstætt öllum aðilum. 

Enginn veit, hvað gerast mun með hafið og lífríki þess umhverfis Ísland.  Makríllinn kom, og loðnan hvarf.  Síldarstofnar óbeysnir, en þorskur dafnar.  Þó er óttazt, að hann kunni að leita í svalari sjó. Hvaða áhrif hefur kraftminni Golfstraumur á lífríkið ?  Það er allt á huldu. 

Þegar allt er vegið og metið, virðist þó mega vænta góðæris á næstu áratugum, þótt eldgos kunni að setja tímabundið strik í reikninginn.  Svo munu verða atburðir, sem enginn sá fyrir né bjóst við.  Þá reynir á stjórnvöld landsins og landsmenn alla.

Vöringsfossen á Hörðalandi í Noregi  

 

 

  


Af siðferði sannfæringar og ábyrgðar

Hrikalegum limlestingum máttu yfir 60 manns sæta, og þar af mættu 12 dauða sínum strax, í þröngri Berlínargötu að kvöldi 19. desember 2016, er Norður-afríkanskur glæpamaður á snærum ISIS, ofstækisfullra Múhameðstrúarmanna í heilögu stríði (Jihad) gegn kristnum frelsis- og lýðræðisgildum og nútímalegum lifnaðarháttum, ók stórum hlöðnum flutningabíl miskunnarlaust á fólk, sem átti sér einskis ills von á jólamarkaði.  Þetta er illvirki óðra morðhunda af meiði Súnní-múslima í heilögu stríði í nafni trúar sinnar og helgiritsins Kóransins. Þetta voðaverk getur kveikt í púðurtunnu, sem Angela Merkel, kanzlari, ber ábyrgð á með því þann 4. september 2015 að opna landamæri Þýzkalands fyrir flóttamönnum Mið-Austurlanda, og Norður-Afríkumenn fylgdu í kjölsoginu. Aðrar Evrópuþjóðir kunna Þjóðverjum litlar þakkir fyrir þetta "góðverk" og saka þá nú um siðferðilega útþenslustefnu ("moral imperialism").  Það er vandlifað í þessum heimi. Laun heimsins eru vanþakklæti.    

Þjóðverjar hafa frá lokum Síðari heimsstyrjaldarinnar 1939-1945 lítið sem ekkert beitt sér í löndum Múhameðstrúarmanna, en þeir hafa aftur á móti verið allra manna rausnarlegastir og hjálplegastir gagnvart Múhameðstrúarmönnum í neyð, nú síðast með því að opna landamæri sín fyrir straumi flóttamanna af hörmungarsvæðum, t.d. Sýrlandi í borgarastyrjöld. Þessi góðmennska og rausnarskapur er goldin með vanþakklæti, og gjörðin er nú mjög umdeild í Þýzkalandi og í öðrum löndum Evrópusambandsins, ESB. 

Þeir hafa mikið til síns máls, sem halda því fram, að menningarmunur aðkomufólksins og Evrópumanna sé óbrúanlegur, því að "Ímanarnir", íslömsku prelátarnir á Vesturlöndum, halda áfram heilaþvotti sínum í moskum og öðrum samkomustöðum Múhameðstrúarmanna, þar sem brýnt er fyrir aðkomufólkinu að ganga ekki vestrænum siðum "heiðingjanna" og lífsgildum þeirra á hönd, heldur að halda sem fastast í forneskjulega lifnaðarhætti sína og siði að viðlögðum refsingum þessa heims og annars. 

Aðlögun er ómöguleg við þessar aðstæður, og aðkomufólkið verður áfram í ormagryfju sjúkdóma, fordóma, trúargrillna, kvennakúgunar og haturs á vestrænu fólki og siðum þeirra. Þetta er frjór jarðvegur glæpamanna. Slíkur forneskjuhópur á Vesturlöndum er sem þjóðfélagsleg tímasprengja. 

Þjóðverjar eru NATO-þjóð, en þeir tóku hins vegar engan hernaðarlegan þátt í misheppnuðum aðgerðum Frakka, Breta, Bandaríkjamanna o.fl. út af hinu misheppnaða "arabíska vori", t.d. loftárásunum á Líbýju. Þvert á móti vöruðu þeir við slíkum ríkisreknum ofbeldisaðgerðum gegn Múhameðstrúarmönnum, þótt þeim að nafninu til væri beint gegn brjáluðum einræðisherra, Gaddafi. Múhameðsmenn eru ekki og verða seint tilbúnir til að innleiða vestræna stjórnarhætti heima hjá sér.  Að halda slíkt er vanmat á mætti aldalangs heilaþvottar og heimska. 

Þjóðverjar hafa verið með fámennt stuðningslið í Afghanistan á vegum NATO, og er það eiginlega eina hernaðarþátttaka þeirra á múslímsku landi frá Síðari heimsstyrjöld.  Þrátt fyrir þessa tiltölulega friðsamlegu afstöðu Þjóðverja gagnvart Múhameðsmönnum er nú ráðizt á þá í þeirra helgasta véi, á jólaföstunni sjálfri í höfuðborg þeirra, og hefur fallandi Kalífadæmið lýst fyrirlitlegum verknaðinum á hendur sér. Siðleysi þessa hugleysislega glæps téðrar Íslamsgreinar er algert, og hún verðskuldar útskúfun. 

Þjóðverjum hafa lengi verið hugstæð hugtökin "Gesinnungsethik" og "Verantwortungsethik", sem kannski mætti þýða sem sannfæringarsiðferði og ábyrgðarsiðferði.  Á milli þessara tveggja heimspekilegu hugtaka er spenna, sem endurspeglast í muninum á hugsjónahyggju og raunhyggju, sem þekkist alls staðar, en hugtökin varpa líka ljósi á siðferðisspennu, sem er "mjög þýzk" samkvæmt þjóðfélagsfræðinginum Manfred Güllner. Átökin þarna á milli má sjá í öllum stórmálum Þjóðverja á stjórnmálasviðinu, t.d. evruvandræðunum og flóttamannavandanum. 

Þjóðverjar hafa marga fjöruna sopið í seinni tíma sögu sinni allt frá 30 ára stríðinu 1618-1648, sem var trúarbragðastyrjöld, þar sem erlendir konungar og keisarar blönduðu sér í baráttuna.  Styrjöldin gekk mjög nærri þjóðinni, sem svalt heilu og hálfu hungri og er sögð hafa bjargað sér á kartöflunni, sem þá var nýkomin til Evrópu.  Friðrik, mikli, Prússakóngur, stóð í vopnaskaki við nágranna sína og Rússa og náði naumlega að forða prússneska hernum frá ósigri fyrir rússneska birninum á 18. öld.  19. öldin var blómaskeið Þjóðverja, en hernám Napóleóns mikla blés Þjóðverjum sjálfstæðisbaráttu í brjóst, sem nefnd var rómantíska stefnan, og fangaði hún athygli ungra íslenzkra sjálfstæðisfrumkvöðla í Kaupmannahöfn, sem var margt til lista lagt og lögðu grundvöllinn að íslenzku sjálfstæðisbaráttunni. Sagt er, að Íslendingar verði jafnan varir við það, þegar Þjóðverjar bylta sér. Þjóðverjum sjálfum er hlýtt til sögueyju víkinganna í norðri. 

Hinn menningarlegi grundvöllur fyrir sameiningu Þýzkalands var lagður með rómantísku stefnunni, og stjórnmálaskörungurinn Otto von Bismarck rak smiðshöggið á sameininguna 1871 með klækjum, eldi og blóði.  

Þegar Vilhjálmur 2. varð Þýzkalandskeisari rak hann Bismarck, járnkanzlarann, og var það ógæfuspor, enda reyndist þessi keisari hæfileikasnauður sem stjórnmálamaður og herstjórnandi og hinn mesti óþurftarmaður, sem hratt Þjóðverjum út í styrjöldina 1914-1918.  Ósigurinn leiddi til landmissis, Versalasamninganna, Weimar-lýðveldisins og Þriðja ríkisins með öllum þess hörmungum. Þýzka þjóðin mátti í raun þola sitt annað 30 ára stríð 1914-1945, að breyttu breytanda.

Hugtökin sannfæringarsiðferði og ábyrgðarsiðferði komu fyrst fram hjá þjóðfélagsfræðinginum Max Weber, sem notaði þau í janúar 1919 í ræðu, sem hann hélt fyrir vinstri sinnaða stúdenta í bókabúð í München.  Þýzki herinn hafði gefizt upp á öllum vígstöðvum fyrir 2 mánuðum.  Keisarinn hafði sagt af sér, Þýzkaland var á barmi öreigabyltingar, og München var að verða höfuðborg skammlífs "Ráðstjórnarlýðveldis Bæjara". Þessi ræða Webers er talin vera sígilt innlegg í stjórnmálafræðina.  Ræðan var haldin til að slá á draumórakenndar deilur hugsjónamanna um, hvaða stefnu niðurlægt og sveltandi Þýzkaland ætti að taka. 

Weber lýsti ginnungagapi á milli þessa tvenns konar siðferðis.  Þeir, sem fylgja sannfæringu sinni vilja halda í hreinleika siðferðis síns alveg án tillits til afleiðinga stefnumörkunar þeirra fyrir raunheiminn: 

"Ef verknaður í góðu skyni leiðir til slæmrar niðurstöðu, þá, í augum gerandans, er hann sjálfur ekki ábyrgur fyrir slæmum afleiðingum, heldur heimurinn eða heimska annarra manna eða Guðs vilji, sem skóp þá þannig."

Á hinn bóginn, sá sem lætur stjórnast af ábyrgðartilfinningu "tekur með í reikninginn nákvæmlega meðaltal mannlegra galla ... hann hefur ekki einu sinni rétt til að gera fyrirfram ráð fyrir góðsemi manna og fullkomnun". 

Þessi tegund stjórnmálamanna mun svara fyrir allar afleiðingar gjörða sinna, einnig óvæntar afleiðingar.  Weber lét áheyrendur sína ekki velkjast í vafa um, hvort siðferðið ætti hug hans. Hann kvað þá, sem aðhylltust siðferði sannfæringar, vera "vindbelgi í 9 af 10 tilvikum".

Hr Güllner segir, að almennt sé siðferði sannfæringar algengast á meðal vinstri manna, mótmælenda og í minni mæli á meðal íhaldsmanna og kaþólikkka.

Þannig virðast jafnaðarmenn, sem líta á sig sem krossfara þjóðfélagslegs réttlætis, ekki aðeins vera "ófærir og ófúsir" til að stjórna, þó að þeir beri raunverulega ábyrgð að mati hr Güllners.  Þetta gæti útskýrt, hvers vegna jafnaðarmaður hefur aðeins verið kanzlari í 20 ár síðan 1949 borið saman við 47 ár undir Kristilegum demókrötum. 

Siðferði sannfæringar er þó einnig fyrir hendi í röðum mið-hægrimanna, sem síðan á 6. áratuginum hafa nálgazt Evrópuverkefnið eins og leiðarenda sem leið fyrir Þýzkaland til að þróast upp úr þjóðríkinu og leysa upp sekt sína um leið og fullveldið er gefið upp á bátinn.  Í þessu ferli láðist Þjóðverjum að koma auga á, að fæstar aðrar Evrópuþjóðir deildu þessu markmiði með þeim. Þegar evru-vandræðin gusu upp, þá lýstu margir íhaldsmenn yfir andstöðu við fjárstuðning á grundvelli siðferðis sannfæringar, segir Thilo Sarrazin, umdeildur álitsgjafi.  Þeir vildu lýsa reglubrotum ríkja í vandræðum sem slæmum í eðli sínu, jafnvel þótt það mundi þýða hrun myntsamstarfsins. 

Samkvæmt siðferði ábyrgðar er slík afstaða ekki einvörðungu óraunhæf, heldur röng, og það, sem ekki gengur upp, geti ekki verið siðlegt. Stjórnendur Þýzka sambandslýðveldisins hafa flestir verið af þessu sauðahúsi. 

Á 9. áratugi 20. aldar fóru milljónir Þjóðverja í mótmælagöngur gegn þróun kjarnorkuvopnabúrs NATO, en Helmut Schmidt, kanzlari, sem lét koma þessum vopnum fyrir, féllst þannig á hernaðarleg rök fælingarmáttarins.  Að launum frá félögum sínum í Jafnaðarmannaflokkinum, SPD, fékk hann aðallega fordæmingu.  Í evru-vandræðunum féllst Angela Merkel hikandi á fjárstuðning við veikburða ríki til að halda myntsamstarfinu áfram. Brandenburger Tor

Gagnvart flóttamannastrauminum sneri Merkel við blaðinu og tók upp siðferði sannfæringar. Það var ólíkt henni. Hún var samt ákaft vöruð við þessu af fólki siðferðilegrar ábyrgðar, og Merkel snerist 180° seint á árinu 2016. Uppi sitja þó Þjóðverjar með eina milljón nýkominna múslima frá ýmsum löndum og kunna á þeim engin skil, flestum. Það felur í sér stórvandamál að hleypa svo stórum og framandi hópi fólks inn í land, þegar aðkomufólkið er haldið trúargrillum og prelátar þess halda áfram að ala á tortryggni og jafnvel hatri á gestgjöfunum. 

Það er himinn og haf á milli hugarheims hins venjulega Þjóðverja og Íslamista, og þegar öfgamenn úr röðum gestgjafa eða gesta gera sig seka um hryðjuverk í landinu gagnvart andstæðum hópi, þá getur hið pólitíska ástand fljótt orðið eldfimt og það komið fram þegar haustið 2017 í gjörbreyttum valdahlutföllum á Sambandsþinginu í Berlín (Reichstag) með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.  Nú verður hrært í gruggugu vatni á báða bóga. Dagar dóttur mótmælendaprestsins í DDR (Deutsche Demokratische Republiblik), frú Merkel, sem kanzlara eru sennilega taldir vegna umræddra mistaka hennar.

Þýzkt ESB 

 

  

 


Andstæð stjórnkerfi

Mannkynið hefur séð margs konar stjórnkerfi fyrir þjóðfélögin koma og fara og fyrir um aldarfjórðungi hvarf eitt þeirra, sovézki kommúnisminn, í aldanna skaut.  Þá hafði þetta eins flokks miðstýrða kúgunarkerfi gengið sér siðferðislega og fjárhagslega gjörsamlega til húðar. Í kjölfarið urðu til nokkur sjálfstæð ríki, sem í Mið-Evrópu tóku upp þingræðisstjórn að hætti Vesturlanda og gengu Evrópusambandinu og NATO á hönd. Segja má, að fullreynt sé með miðstýrt þjóðfélag eins flokks, þar sem öll helztu atvinnutæki og fjármálastofnanir eru á höndum ríkisins að hætti hagfræðingsins Karls Marx. Siðferðislegt og fjárhagslegt gjaldþrot Venezúela nú eftir um 15 ára vinstri stjórn sannar, að daufari útgáfur af Karli Marx en ráðstjórnin virka ekki heldur.

Kínverjar hafa þróað sérútgáfu af einræði kommúnistaflokks, þar sem þeir hafa virkjað auðhyggjuna, kapítalismann, í atvinnulífinu, til að knýja fram mikinn hagvöxt með miklum lántökum og bætt lífskjör allra, og þá hafa auðvitað orðið til allmargir auðmenn um leið. Kínverska kerfið er líklega komið á endastöð núna, því að fjölmennasta miðstétt heims, sem orðið hefur til frá þessari umbyltingu Li Hsiao Pin fyrir aldarfjórðungi, krefst nú meira andlegs frelsis og valds yfir eigin lífi og stjórnun nærumhverfis og ríkis en kommúnistaflokkurinn er reiðubúinn til að láta af hendi. 

Í ágúst 2015 tók hlutabréfavísitalan í Shanghai að falla og þar með orðstír kínversku ríkisstjórnarinnar sem stjórnvald rökhyggju, hæfileika og jafnvel heilbrigðrar skynsemi, sem hún hafði innprentað lýðnum.  Það, sem verra var: vonlaus viðbrögð stjórnvalda, þegar loftið fór úr hlutabréfablöðrunni, sem þau höfðu með áróðri sínum átt þátt í að þenja út, voru aðeins ein af mörgum mistökum valdhafanna.  Miklum fjármagnsfótta frá Kína í kjölfarið hefur fylgt gengissig kínverska gjaldmiðilsins, yuan (renminbi), og stjórnvöldum hefur ekki tekizt vel upp við að ná tökum á þessari neikvæðu þróun kínverskra fjármála, sem endað getur með ósköpum.  Hún leiðir til kjaraskerðingar almennings og vaxandi atvinnuleysis, þó að stjórnvöld reyni nú að söðla um frá gegndarlausri og víða glórulausri iðnaðaruppbyggingu flokkspótintáta í héruðum landsins til þjónustustarfsemi.  Flokksforkólfarnir hafa verið metnir eftir framleiðsluaukningu, en ekkert verið hugað að arðseminni, og nú er skuldabyrðin tekin að sliga efnahaginn. 

Grafalvarleg sprenging í hinni norðlægu borg Tianjin leiddi í ljós ógnvekjandi óstjórn.  Allar ríkisstjórnir gera mistök, en sú kínverska reisir tilverurétt sinn á færni sinni fremur en umboði frá íbúunum.  Nú spyrja útlendingar og kínverskir borgarar sig þeirrar spurningar, hvort ríkisstjórnin hafi misst taumhaldið á þróun ríkisins ? 

Fáeinar slæmar vikur eiga þó ekki að verða allsráðandi um um mat á kínverska kerfinu, sem hefur náð ágætum efnahagslegum árangri undandarin 25 ár.  Það sem réttlæta á þetta valdboðna eins flokks kerfi er röð og regla í þjóðfélaginu og vitur forysta, sem tryggi hagvöxt og almenna velmegun.  Stuðningsmenn þessa kerfis bera gjarna saman feril kínverskra leiðtoga og leiðtoga lýðræðisríkjanna, t.d. Bandaríkjanna, BNA.  Barack Obama segja þeir hafa orðið forseta út á lítið annað en hrífandi mælskulist og getu til að safna í kosningasjóð. Eftir á að hyggja er erfitt að andmæla því. Andstætt þessu hafi Xi Jinping, þegar hann varð flokksformaður 2012, unnið sig upp eftir metorðastiga flokks og ríkisstjórnar og hafi unnið bæði í miðlægri stjórnsýslu flokksins og í 4 fylkjum, sem hvert um sig er stærra en mörg ríki heims.

Aðdáendum Kommúnistaflokksins finnst, að Hr Xi sitji á toppi pýramída, þar sem prelátar hljóta framgang á grundvelli eigin verðleika við að leysa verkefni og próf.  Þetta sé kerfi, sem verðlaunar hæfileika og hafi marga kosti umfram lýðræðislegar kosningar.  Kerfið verði ekki fórnarlamb skammtíma lýðskrumsfreistinga, þegar nálgist næstu kosningar.  Þá hafi kerfið enga hagsmuni af að fiska í gruggugu vatni þjóðfélagslegrar spennu til að afla atkvæða.  Það hafi heldur ekki tilhneigingu til að verða andsnúið þeim, sem ekki hafa kosningarétt, t.d. framtíðarkynslóðum og útlendingum.  Um þetta er fjallað í nýútgefinni bók eftir Daniel Bell, kanadískan háskólamann, sem kennir við Tsinghua háskólann í Beijing ("The China Model: Political Meritocracy and the Limits of Democracy").  Kínverska líkanið kann að henta Kínverjum um takmarkaðan tíma, en það á áreiðanlega ekki erindi við Vesturlönd.

Ef áfram heldur að fjara undan efnahag Kínverja allt þetta ár og jafnvel inn í næsta, þá mun molna undan kínverska stjórnkerfinu, því að það mun þá renna upp fyrir fólki, að stjórnendur ríkisins eru ekki starfi sínu vaxnir, þó að höfuðáherzla hafi verið lögð á að telja almenningi trú um hið gagnstæða.  Af þessum ástæðum má búast við vaxandi hernaðarbrölti Kínverja, eins og merki sjást nú þegar um á Suður-Kínahafi, í tilraun til að beina athygli almennings að málefnum, sem líkleg eru til að þjappa þjóðum Kína saman að baki valdhöfunum.  

Vesturlönd, Japan, Eyjaálfa o.fl. búa við mismunandi útgáfur af þingræðisfyrirkomulagi.  Í BNA er valdamikill forseti, forsetaræði, þar sem meirihluti þingsins getur þó sett honum stólinn fyrir dyrnar. Á Íslandi situr tiltölulega valdalítill, þjóðkjörinn forseti, og Stjórnarskráin er of loðin um valdsvið hans.  Þess vegna er nauðsynlegt að taka öll ákvæði hennar, er varða forsetann til endurskoðunar, og þar sem hann er og væntanlega verður þjóðkjörinn, er eðlilegt að fela honum veigameiri hlutverk en hann hefur nú.  Þau geta t.d. verið á sviði öryggismála ríkisins, utanríkismála, og hægt er að búa svo um hnútana, að ríkisstjórnin starfi í raun á pólitíska ábyrgð forsetans, eins og í Frakklandi. 

Á Norðurlöndunum ríkir hefð um þingbundnar ríkisstjórnir, en forseti Finnlands hefur samt nokkur völd, einkum á sviði utanríkismála, þó að hluti þeirra hafi síðar verið færður til þingsins.  Á Íslandi er eðlilegt að fela valinkunnum stjórnlagafræðingum að taka til í Stjórnarskránni, þegar forsetaembættið er annars vegar, og kveða skýrt á um valdsvið og valdmörk embættisins.  Forseti á að fela þeim, sem hann telur njóta mests stuðnings kjósenda að afloknum Alþingiskosningum, ríkisstjórnarmyndun, og forseti lýðveldisins ætti einn að hafa þingrofsheimildina.  Nýleg tilraun til misbeitingar á þessari heimild til skylminga á þinginu styður þessa skoðun. 

Forsetinn á að vera verndari Stjórnarskráarinnar, og með undirskrift sinni við ný lög á hann að staðfesta, að lagasetning sé í samræmi við Stjórnarskrá.  Sé hann í vafa, á hann að geta vísað lögum, fyrir undirritun sína, til úrskurðar Hæstaréttar , en hann á ekki að geta synjað lögum staðfestingar, ef Hæstiréttur telur þau í lagi, nema 40 % þingmanna fari fram á það. Ef forseti synjar lögum staðfestingar að beiðni þessa drjúga minnihluta þingheims, sem skal þó vera hans val, verður að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um þessi lög, nema meirihluti Alþingis afturkalli þau. 

Ennfremur er rétt að þróa hérlendis annars konar beint lýðræði og setja ákvæði þar að lútandi í Stjórnarskrá að fengnum tillögum stjórnlagafræðinga.  Þannig geti ákveðinn fjöldi kjósenda farið fram á við forseta lýðveldisins, að haldin verði ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla, og annað hærra hlutfall kjósenda geti farið fram á, að haldin verði ákvarðandi atkvæðagreiðsla um tiltekið mál.  Til að draga úr kostnaði er rétt að taka tölvutæknina í þjónustu lýðræðisins. 

Frelsi eintaklinganna fer alltaf til lengdar saman við lífskjör þeirra. Það hefur verið sýnt fram á skýra fylgni á milli frelsis í þjóðfélögum og velmegunar þar. Hluti af frelsinu felst í að ráðstafa tekjum sínum að vild.  Þess vegna er sjálfsagt stefnumál, að launþegar haldi sem mestu af tekjum sínum til eigin ráðstöfunar og rekstur og umsvif hins opinbera sé að sama skapi í lágmarki.  Samt hefur gefizt illa, t.d. í Kaliforníu, að kjósendur megi kjósa um tekjuöflun ríkisins, en það mætti íhuga að veita þeim rétt til að kjósa á milli einkarekstrar og opinbers rekstrar, einkafjármögnunar framkvæmda hins opinbera o.s.frv.  Allar tilraunir með Stjórnarskrárbreytingar verður þó að framkvæma af varfærni og að beztu manna yfirsýn.   

 


Óánægja með auðvaldið

Hvað sem öðru líður, hefur auðhyggjan (kapítalisminn) reynzt öflugasti drifkraftur nýbreytni, framþróunar, lífskjarabóta og hagvaxtar af öllum þjóðfélagskerfum, sem fram hafa komið og reynd hafa verið í mannheimum. Dreifing lífsgæðanna á meðal þegnanna, þ.e. sköpun fjölmenns hóps öflugra neytenda, hefur einnig reynzt öflugust og sums staðar jöfnust í markaðshagkerfum frjálsrar samkeppni. Að undanförnu hefur mikil lífskjarasókn átt sér stað á Íslandi, og á sama tíma hefur kjarajöfnuður aukizt á mælikvarða GINI-stuðulsins. Það má þess vegna álykta sem svo, að hérlendis sé nú í grófum dráttum við lýði sjálfbært hagkerfi, sem nefna mætti markaðshagkerfi með félagslegu ívafi. Í þessu kerfi þarf hins vegar tvímælalaust að auka samkeppnina til að knýja fram framleiðniaukningu, sem öllum er hallkvæm.

Sameignarstefnan beið skipbrot og jafnaðarstefnu Norðurlandanna rak upp á sker risavaxinna ríkisútgjalda, sem urðu skattgreiðendum, fyrirtækjum og einstaklingum, þ.e. hagkerfunum, að lokum um megn.  Sparnaði náðu Svíar í ríkisrekstrinum, eftir téð útgjaldafyllerí ríkisins, m.a. með því að leyfa samkeppni með útboðum og einkarekstri á þjónustu, sem hið opinbera þó tekur mestan þátt í að fjármagna. Ofvaxin opinber afskipti af hagkerfinu, þegar umsvif opinbera geirans, ríkis og sveitarfélaga, fara yfir 50 % af landsframleiðslu, leiða skjótlega til fátæktar þegnanna.  Þar sem hið opinbera skilur meira eftir til ráðstöfunar einstaklinga og fyrirtækja, ríkir mun meiri velmegun. 

Vinstri öflin hafa þrátt fyrir lélegan árangur sinn við stjórnvölinn sums staðar fengið byr í seglin nýlega, og er ástæða til að velta vöngum yfir því.    Í Bretlandi hélt Verkamannaflokkurinn fyrsta flokksþing sitt í október 2015 eftir kjör öfgavinstrimannsins Jeremy Corbyn sem formanns flokksins. Þeir, sem kusu Corbyn til forystu, leggja meira upp úr, að flokkurinn leggi rækt við ómengaða vinstri stefnu í flokksstarfinu en hann breyti brezka ríkisvaldinu sem ríkisstjórnarflokkur, því að málflutningur Corbyns og félaga er róttækari en flestum Bretum, einkum Englendingum, fellur í geð.  Reyndar er hægt að falla allur ketill í eld við lestur stefnumála þessa villta vinstris, svo gamaldags og gjörsamlega úreltur er stéttastríðs áróður þessara pólitísku hugsjónamanna og án minnsta jarðsambands.  Kominternmenn hefðu klappað fyrir Corbyn, væru þeir ofar moldu, því að varnarmálin eru sett í skammarkrókinn með sama hætti og vinstri grænir gera á Íslandi, en vinstri græn eru enn á móti NATO og veru Íslands þar. 

Formaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs fór af hjörunum, þegar fréttist af tillögu um miaISK 2,7 til fjárlaga 2017 í BNA um breytingar á flugskýli o.fl. á Keflavíkurflugvelli til að hýsa Orion P8A kafbátaleitarflugvél bandaríska sjóhersins.  Þessi nývakti áhugi Pentagons fyrir aðstöðu á Íslandi er þó aðeins fagnaðarefni, þó að tilefnið sé síður en svo fagnaðarefni.  Katrín Jakobsdóttir vill hins vegar, eins og hún er vön, stinga hausnum í sandinn, þegar vandamál koma upp. Það er hin óskrifaða stefna vinstri grænna. 

Á Grikklandi og á Spáni hafa nýir vinstri flokkar komið fram á sjónarsviðið á síðustu árum og skákað þeim vinstri flokkum, sem fyrir voru. Gríska Sýriza vann tvær kosningar í röð 2015, þótt Brüsselvaldið træði stóryrðum flokksforystunnar ofan í kokið á henni, þar sem þau hafa síðan að mestu haldið kyrru fyrir síðan.  Spænska Podemos varð mikið ágengt í landsþingskosningum í desember 2015, og hefur flokkurinn höggvið skarð í fylgi spænska jafnaðarmannaflokksins. 

Í Bandaríkjunum, BNA, hefur Bernie Sanders, sem lýsir sjálfum sér sem óháðum sósíalista, náð góðum árangri í forkosningum Demókrata. Frans, páfi, hefur, ekki alls fyrir löngu, beint Vatíkaninu á nýja braut í pólitíkinni með fordæmandi yfirlýsingu um "ósýnilega harðstjórn markaðarins" og ráðleggur "að beina hagkerfinu að þjónustu við fólk".  Þetta er athygliverð yfirlýsing páfans, sem fer fyrir auðugri stofnun, sem kom m.a. aflátsbréfum í verð forðum tíð og hefur rekið talsvert umfangsmikla bankastarfsemi við misjafnan orðstír um aldaraðir. Sagt er, að batnandi mönnum sé bezt að lifa, en hér er enginn venjulegur maður á ferð, heldur fulltrúi Guðs á jörðu, samkvæmt kaþólskri trú, svo að orð páfa vega meira en annarra í eyrum margra. Kannski er páfi þarna aðeins að predika fyrir "markaðshagkerfi með félagslegu ívafi", sem ýmsir hérlendis aðhyllast og gefizt hefur vel í þýzka Sambandslýðveldinu.

Ríkjandi stétt um allan heim úthlutar sér ríflegum greiðslum án tillits til árangurs, sem hún hefur náð fyrir eigendur fyrirtækis síns. Dæmi um þetta er viðskilnaður Martins Winterkorns, fyrrverandi aðalforstjóra Volkswagen-samstæðunnar, sem tók á sig ábyrgð á hugbúnaði, sem stýrði hreinsun reyks frá vissum dísilvélum og hafði þar með áhrif á eldsneytisnotkun þeirra með sviksamlegum hætti, og beðizt hefur verið afsökunar á fyrir hönd VW-samstæðunnar.   Þetta hefur valdið VW álitslegum og fjárhagslegum hnekki, sem skiptir tugum milljarða evra.  Téður Herr Winterkorn var leystur frá störfum í kjölfar játningar með gjöf frá stjórn fyrirtækisins upp á MEUR 60 (miaISK 8,5).  Minna mátti ekki gagn gera við þann viðskilnað.  Þetta er hneisa og kórónar mistökin. Þessi gerningur hefur vakið hneykslun til hægri og vinstri, og VW-samstæðan er nú í iðrunar-og yfirbótaferli um leið og hlutabréf hennar hafa fallið um tugi af hundraði.  Markaðurinn hefur þó tekið afsökunarbeiðnina góða og gilda ásamt loforði um bót og betrun og lætur yfirsjónina ekki aftra sér frá að fjárfesta áfram í orðlögðum gæðum samsteypunnar.  

Þann 25. september 2015 skrifaði Charles Moore, opinber ævisöguritari Margrétar Thatcher, fyrrverandi formanns brezka Íhaldsflokksins og frægs forsætisráðherra, í Wall Street Journal, að Karl Marx hefði haft mikilsverðan skilning á "misskiptu vægi eignarhalds á auði".  Þegar gallharður íhaldsmaður er farinn að vitna í höfund Kommúnistaávarpsins þannig, að úr penna þessa misheppnaða postula hafi þrátt fyrir allt hrotið algildur vísdómur inn á milli, þá er það merki um mikla þjóðfélagslega gerjun, og hún á sér líklega stað um allan heim þessi misserin án þess, að rætur hennar hafi verið krufnar til mergjar og án fullnægjandi valkosta um nýja þjóðfélagsskipan.  Hver þjóð verður að leita þess fyrirkomulags, sem henni hentar bezt.

Gallup-skoðanakönnun á trausti almennings til bandarískra stofnana sýndi nýlega, að stórfyrirtækin voru þar næstneðst, nokkru ofan við öldungadeild bandaríska þingsins, þar sem aðeins 21 % spurðra lýsti miklu eða þónokkru tausti á stórfyrirtækjum. Það er sem sagt ekki einsdæmi, að þjóðþingið njóti lágmarks trausts.  Þetta er brýnt að laga, og á Íslandi er áfangi á þeirri leið að styrkja agavald forseta þingsins og veita honum meiri völd yfir dagskrá þingsins.  Bættur bragur á þinginu á formi efnislegri umræðna og banns við langlokum og töfum mundi strax bæta úr skák án þess að rýra möguleika stjórnarandstöðu markvert á að koma efnislegum sjónarmiðum sínum á framfæri. 

Á Íslandi ríkir líka tortryggni í garð fyrirtækja, vaxandi með stærð þeirra, og er þetta þjóðfélagslegt sjúkdómseinkenni, sem vert er að gefa gaum, og það er mjög mikilvægt fyrir stjórnmálalegan stöðugleika að vinna bug á þessu.  Ef fólk er fullt vantrausts gagnvart höndinni, sem brauðfæðir það, er voðinn vís.  Eitt ráð við þessu er að gera almenning að beinni þátttakendum í fyrirtækjarekstri með "Mitbestimmung" eða meðákvörðunarrétti launþeganna í stjórnum fyrirtækjanna, að hætti Þjóðverja, og annað að efla mjög eignarhald almennings með almenningshlutafélögum.  Reyndar er almenningur nú þegar stór eignaraðili atvinnulífsins á Íslandi með aðild sinni að lífeyrissjóðum landsins, en ekki er víst, að fólk sé almennt nægilega meðvitað um sameiginlega hagsmuni sína og fyrirtækjanna í landinu. 

Auðhyggjufólk (kapítalistar) vilja gera greinarmun á fyrirtækjahegðun og auðhyggju (kapítalisma). Því miður hefur hegðun stjórnenda sumra fyrirtækja, hvort sem er kennitöluflakk, einokunartilhneigingar, daður við skattaskjól eða annað, svert auðhyggjuna í hugum þónokkuð margra, með svipuðum hætti og rónarnir  hafa komið óorði á brennivínið með misnotkun sinni. Stuðningsmenn auðhyggjunnar segja þá, að bezta ráðið gegn göllum "slæmrar auðhyggju", t.d. einokunar og vinahygli, sé að sleppa lausum kostum "góðrar auðhyggju", þ.e. samkeppni og nýsköpunar. 

Góðu tíðindin fyrir slíka boðbera frjáls markaðar eru, að góða auðhyggjan styrkist nú á dögum.  Sjáið bara, hversu erfitt er núna fyrir stórfyrirtæki og stórforstjóra að tryggja stöðu sína.  Meðaltími fyrirtækis á Fortune 500 listanum hefur stytzt úr 70 árum árið 1930 í um 15 ár nú, og meðaltími forstjóra í starfi hjá fyrirtækjum á Fortune 500 hefur stytzt úr 10 árum árið 2000 í 5 ár árið 2015.

Alþjóðavæðing viðskiptanna og tölvuvæðingin hafa flýtt fyrir hinni skapandi eyðileggingu.  Árangursrík fyrirtæki geta nú sprottið upp á ólíklegustu stöðum, t.d. í Eistlandi (Skype) og í Galisíu (Inditex), og náð heimsútbreiðslu. Tölvutæknin gerir fyrirtækjum kleift að vaxa mjög hratt. "WhattsApp", skilaboðaskjóða fyrir farsíma, fékk 500 milljón notendur á innan við 5 árum frá stofnun. 

Ekki er allt jafnglæst fyrir launþegana hjá þessum sprotum.  Þau eru venjulega létt á fóðrum, hvað fólk og eignir snertir, sumpart af því að tölvuþjónusta er mjög sjálfvirk og sumpart vegna úthýsingar.  Fyrir 10 árum hafði Blockbuster 9000 starfstöðvar í BNA með 83000 starfsmönnum.  Netflix er með 2000 manns í vinnu og leigir tölvukerfi fyrir sitt efnisstreymi af Amazon.  

Gerald Davis við Ross viðskiptadeildina við Háskólann í Michigan hefur reiknað út, að þau 1200 fyrirtæki, sem hafa verið opinberlega skráð á hlutabréfamarkað í BNA síðan 2000 hafi hvert um sig skapað færri en 700 störf að jafnaði á heimsvísu síðan þá. Þar er engin miskunn sýnd; þessi nýju stjörnufyrirtæki standa í stöðugri sjálfsendurnýjun og umbyltingum til að forðast örlög fyrri stjörnufyrirtækja á borð við AOL og Nokia. Hjá "framsæknum" fyrirtækjum á að heita, að starfsmenn geti tekið sér frí að vild, þ.e. þegar þá lystir og svo lengi sem þá fýsir, en í reynd þorir varla nokkur maður að fara í frí, því að þá lendir hann á eftir áætlun með verkefnin sín, og slíkt er afar illa séð.  Það er ekki allt sem sýnist í glansheiminum. 

Þessi fyrirtæki í upplýsingageiranum þurfa aðallega á sérhæfðu fólki að halda, t.d. forriturum.  Þar sem þau hafa verið vaxtarbroddur, t.d. í BNA, hefur fólk án sérfræðimenntunar að miklu leyti legið óbætt hjá garði í þeim skilningi, að störfum við þess hæfi hefur ekki fjölgað mikið, sem hefur valdið stöðnun lífskjara hjá þorra almennings. 

Íslendingar eru sem betur fer í þeirri stöðu, að allt hagkerfið vex hratt, þ.e. það er fjölbreytni í vextinum, og langflestir fá vinnu við hæfi, þó að það geti tekið tíma, enda eru undirstöður atvinnulífsins allfjölbreytilegar.  Hins vegar er Akkilesarhæll atvinnulífsins of lítil framleiðni, og á því viðfangsefni bera stjórnendur höfuðábyrgð.  Lág framleiðni er áfellisdómur yfir viðkomandi stjórnendum, en lág framleiðni er þó alls ekki alls staðar.  T.d. ber há framleiðni sjávarútvegsins af á heimsvísu og einingarverð afurða hans á útflutningsmörkuðum sömuleiðis, og er það vegna gæða vöru hans og þjónustu.

Fylgjendur auðhyggju þurfa að muna tvennt:

Hið fyrra er, að fæstir greina á milli góðrar og slæmrar auðhyggju; flestir sjá heim, þar sem þeir, sem ofan á fljóta, sigurvegararnir, valda flóðbylgju óánægju og réttlátrar reiði, auka þjóðfélagsóróa, um leið og þeir taka frá fyrir sig lúxusrými í björgunarbátunum. 

Hið síðara er, að kraftarnir, sem leika um auðhagkerfið, leika þá einnig um stjórnmálin.  Gömlu flokksvélarnar gefa eftir, og pólitískir framagosar hafa nú meira svigrúm til að yfirtaka gamla stjórnmálaflokka og mynda nýja.  Andauðhyggja er aftur orðið afl, sem fást þarf við, þrátt fyrir gjaldþrot sameignarstefnunnar.   

 


Pí*ratar

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að frá dögum grísku heimspekinganna og stærðfræðinganna, sem uppi voru nokkrum hundruðum ára fyrir Krists burð og voru upphafsmenn rökhyggjunnar í vestrænni menningu, hefur hlutfallið á milli ummáls hrings og þvermáls hans verið þekktur fasti og kallaður Pí.

Pí er þó óræð tala, því að það er ekki hægt að tákna hana  með heilli tölu og endanlegum fjölda aukastafa, en góð nálgun er 3,1415. Fyrirsögnin þýðir þá rúmlega þrefaldur rati, og af öllum sólarmerkjum að dæma er það ekki of í lagt um stjórnmálamennina, sem kalla sig pírata. Þeir eru líka óræðir, enda oft á tíðum eins og geimverur úr einhverjum gerviheimi tölvuleikjanna. 

Nýlega varð kapteini pí*rata á Íslandi hroðalega á í messunni, en af einhverhum ástæðum, sem þessum blekbónda er hulið sjónum, líkti hún Skagafirði við Sikiley á Ítalíu.  Heimskulegri samanburð er vart hægt að hugsa sér, en þarna átti að vera einhvers konar skírskotun til réttarfarsins á báðum stöðum.  Mann setur hljóðan, en þetta fyrirbrigði, téður kapteinn, situr á Alþingi og rífur þar iðulega stólpakjaft og hagar sér dólgslega í púlti. 

Það, sem á Skagfirðinga, aðra Norðlendinga og landsmenn alla er lagt með fíflaganginum, sem viðgengst á þjóðþinginu að hálfu allra stjórnarandstöðuflokkanna, er þyngra en tárum taki. Kapteinninn má þó eiga það, að hún hefur beðið Skagfirðinga afsökunar á téðu frumhlaupi sínu, og enginn skilur hugrenningatengslin.

Út er komin bók eftir Margréti Tryggvadóttur, Útistöður, þar sem hún lýsir eldfimu sálarástandi félaganna í flokksnefnum, sem voru forverar Pí*rataflokksins.  Þar voru rýtingar ótt og títt á lofti og félagsþroski af skornum skammti.  Téður "kapteinn" virtist hafa litið á sig sem "prímadonnu", sem sjálfkjörin væri til að þvælast út um allar koppagrundir á kostnað skattgreiðenda, m.a. á Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna.   

Afstöðuleysi pí*ratanna til þingmála hefur líka vakið athygli.  Hafa þeir fært fámenni þingflokksins sem skýringu á þessu undarlega og himinhrópandi skoðanaleysi á þingmálum, sem til umfjöllunar eru hverju sinni. Þeir hafa þó verið drjúgir í umræðum um fundarstjórn forseta, enda lýðræðisástin borin í merg og bein.  Fámennisútskýringin er út í hött, því að þingmönnum ber að taka afstöðu til mála sjálfir og gera upp hug sinn á einstaklingsgrundvelli, grundvelli eigin samvizku, en ekki þess, sem aðrir í þingflokkinum kunna að hafa um málið að segja.  Þetta er aumlegt yfirklór hjá þeim. Engu er líkara, en þeir upplifi sig í gagnvirkum tölvuleik, þar sem þeir setji leikreglurnar sjálfir.  Margt er nú þröngsýnt, sem á þingið er valið og víða er asklok fyrir himin, en pi*ratarnir fylla þann flokk manna, sem eru svo firrtir, að þeir lifa í gerviheimi, sem þeir halda, að sé raunheimur.   

Sama er að segja um mætingar þeirra á þingnefndafundi.  Hún er afspyrnu léleg.  Þeir virðast einfaldlega vera húðlatir við þingstörfin, enda liggja rætur píratahreyfingarinnar hjá stjórnleysingjum, sem hafa aldrei haft gáning á þingræðinu.  Að vilja fjölga í þessu liði á Alþingi er þess vegna fullkomlega óskiljanlegt, nema sem sviðsetning á grískum harmleik. Víkur nú sögunni að Pí sem leiðréttingarstuðli opinberra kostnaðaráætlana.

Gárungarnir segja, að opinberar íslenzkar kostnaðaráætlanir megi margfalda með Pí til að fá út lokakostnað.  Þetta er ekki út í hött, og það er hægt að tilfæra nýlegt og þekkt dæmi, sem styður þetta, þó að hlutfallið sé ekki nákvæmlega sá flatarmálsfræðilegi fasti Pí. Um er að ræða Hörpuna.  Áætlaður kostnaður Hörpunnar árið 2002 var ISK 9´736´000´000 eða rúmlega ISK 9,7 milljarðar (mia).  Raunverulegur kostnaður árið 2010 nam hins vegar ISK 28,0 miö, og lætur nærri, að hlutfallið sé 2,9, sem er tæplega Pí.

Þetta leiðir auðvitað hugann að stórverkefni, sem mjög hefur verið í umræðunni, en er undirorpið gríðarlegri tæknilegri og fjárhagslegri óvissu, þar sem svo langur og djúpt liggjandi sæstrengur hefur aldrei verið lagður sem strengurinn Ísland-Skotland, sem nú er verið að kanna hafsbotninn fyrir að hálfu enskra fjárfesta, að sagt er. Reka þarf þennan 1200 km langa sæstreng á jafnspennu, sem er svo há, að engin þekkt plasteinangrunarefni þola slíkt, heldur brotnar einangrunargildið fljótlega niður. Flutningstöpin minnka hratt (kvaðratískt) með rekstrarspennu, og þar af leiðandi verður rekstrarspennan mikilvæg fyrir hagkvæmnina. 

The Economist hefur birt kostnaðartöluna USD 6,0 mia með öllum tengibúnaði, en án virkjana.  Ketill Sigurjónsson, sem lætur sig orkumál miklu varða, opinberlega, og ritar mikið um þetta hugðarefni sitt á vefsetur sitt, véfengir þessa tölu og telur hana of háa. Hann gefur þar með lítið fyrir varúðarreglur um kostnaðaráætlanir, þegar mikil tæknileg óvissa á í hlut, eins og á við um sæstrenginn og fylgibúnað hans.  Dr Baldur Elíasson, verkfræðingur, er annarrar hyggju og sagði í viðtali við Morgunblaðið, 24. júní 2014, að áætlað hafi verið, að téður sæstrengur kosti USD 5,0 milljarða. "Það er, að mínu mati allt of lág tala", sagði dr Baldur, sem áætlar kostnaðinn "tvöfalda þá tölu og sennilega meira".  Þá eru menn komnir með Pí sem leiðréttingarstuðul á talnabilið, sem téður Ketill veifar, á þetta risaverkefni á íslenzkan mælikvarða, sem næmi þá einni landsframleiðslu Íslands á ári, og eru þó virkjanirnar enn ótaldar.

Fjarri fer, að allt of lágar kostnaðaráætlanir séu séríslenzkt fyrirbæri; skárra væri það.  Hér verða talin nokkur erlend dæmi, og er hlutfall lokakostnaðar og kostnaðaráætlunar sýnt með:

  1. Óeruhúsið í Sidney: 14
  2. Höfuðstöðvar norska seðlabankans: 4,4
  3. Hiawatha járnbrautarlínan í Minneapolis: 1,9
  4. Neðanjarðarlestakerfi Kaupmannahafnar: 1,5
  5. Járnbrautarlínan Boston-New York-Washington: 1,3

Meðaltal þessarar upptalningar er 4,6, sem er rúmlega Pí.  Athygli vekur, að af þessum 5 stórverkefnum eru 3 járnbrautarlínur. 

Nú vill svo til, að nýlega hefur verið gerð kostnaðaráætlun um hraðlest á milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og samgöngumiðstöðvar í Vatnsmýri. Það er sem sagt áhugi fyrir þessu verkefni í vissum pólitískum kreðsum, en enginn einkaaðili hefur gefið sig fram til fjárfestingar. Verkið felur í sér lagningu tvöfaldra teina fyrir lest, sem gæti náð yfir 200 km/klst hraða, göng undir Straumsvík, sem kæmu upp í Vatnsmýri auk Lækjargötu í Hafnarfirði, við Vífilsstaði í Garðabæ og Smáranum í Kópavogi, ásamt rafmagnseimreiðum, farþegavögnum og flutningavögnum.  Hugmyndafræðin að baki er græn, þ.e. að spara jarðefnaldsneyti og minnka losun gróðurhúsalofttegunda. 

Runólfur Ágústsson hjá Ráðgjöf og verkefnastjórnun er forsprakki verkefnisins.  Eftir honum er haft baksviðs í Morgunblaðinu þann 6. júní 2015 á bls 26 við hlið leiðarans:

"Við erum að tala um að draga úr notkun á innfluttu eldsneyti og nota þess í stað rafmagn, sem er framleitt með endurnýjanlegum og umhverfisvænum hætti.  Orkunýtingin er allt önnur.  Það þykir líka merkilegt, að þessi lest verður að öllum líkindum knúin gufu, þótt óbeint sé.  Rafmagnið í lestina kemur væntanlega úr gufuaflsvirkjunum á Hellisheiði eða Reykjanesi."

Þessi röksemdafærsla fyrir hraðlest á milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur er anzi gufuleg.  Fyrir dyrum stendur rafvæðing íslenzka bílaflotans, svo að á væntanlegum afskriftatíma þessarar járnbrautalestar verður ekki sá eldsneytissparnaður, sem "Ráðgjöf og verkefnastjórnun" vill vera láta.  Umhverfisverndarhlið málsins er þess vegna léttvæg. 

Það er óvarlegt að gaspra um, hvaðan raforkan kemur til notenda frá sameiginlegu stofnkerfi.  Raforkufæðing hraðlestarinnar verður a.m.k. á tveimur stöðum til að draga úr spennufalli, t.d. inn í sitt hvorn enda.  Þegar álag eykst í Helguvík, má ætla, að orkan frá Svartsengi og Reykjanesvirkjun fari að mestu leyti þangað.  Orkan frá Hellisheiðarvirkjun fer ekki síður til Norðuráls en til Reykjavíkur.  Það er þess vegna órökstudd vænting, að lestin verði "gufuknúin", þó að gufukatlar hafi knúið fyrstu járnbrautarlestirnar.  Ef mál skipast með svo ótrúlegum hætti, að einhver fáist til að fjármagna þetta verkefni, þá verður sú lest að megninu til knúin með raforku úr fallvötnum, enda sjá vatnsorkuver fyrir um 70 % orkunnar inn á stofnkerfið.

"Við hittum alla hlutaðeigandi bæjarstjóra í maí og erum nú að kynna þetta fyrir bæjarráðunum og í einhverjum tilfellum bæjarstjórnum."

Samkvæmt þessum orðum Runólfs er undirbúningsvinna fyrir hraðlestarverkefnið á undirbúningsstigi, og þess vegna er full ástæða til að reikna út, hvort það standist lágmarks arðsemiskröfur, og það hefur þessi blekbóndi hér gert, og er útkoman falleinkunn fyrir þessa viðskiptahugmynd.  Það verður enginn fjárhagslegur ávinningur fyrir farþega slíkrar hraðlestar, en þeir spara um 20 mín ferðatíma.  Öryggi þeirra á leiðinni eykst væntanlega líka. 

Nú er verið að leggja hraðlestarteina á milli Óslóar og Stokkhólms, og þar spara menn 1,5 klst miðað við akstur í bíl.  Margir fljúga þarna á milli, og viðskiptahugmyndin er að keppa við flugið á þessari leið og bjóða upp á umhverfisvænni ferðamáta þessa leið.  

R-listinn í Reykjavík (vinstri menn og framsóknarmenn) sýndi þessu verkefni áhuga á sinni tíð og lét gera kostnaðaráætlun upp á ISK 30 milljarða á verðlagi þess tíma.  Árið 2013 var gerð ný kostnaðaráætlun af  Ráðgjöf og verkefnastjórnun, sem er þættinum Pí hærri en hin. Ný kostnaðar- og tekjuáætlun fyrir hraðlest, Vatnsmýri samgöngumiðstöð-Leifur Eiríksson flugstöð, er á þessa leið samkvæmt Greinargerð Ráðgjafar- og verkefnastjórnunar ehf til Reita hf 2013:

  • Stofnkostnaður: 70-140 mia kr [vítt óvissubil]
  • Árlegur rekstrarkostnaður: 1,3 mia kr [virkar lágur]
  • Farþegafjöldi árið 2020: 2´130´000 [virkar hár]
  • Farþegafjöldi árið 2030: 3´020´000 [virkar mjög hár]
  • Tekjur árið 2020: 4,3-6,4 mia kr [2000-3000 kr/far]
  • Tekjur árið 2030: 6,0-9,1 mia kr [2000-3000 kr/far]

Á þessum grundvelli er unnt að finna út, hvort téð hraðlest verður arðsöm eður ei m.v. gefnar forsendur.  Í stuttu máli er niðurstaða núvirðisreikninga blekbónda sú m.v. 20 ára afskriftatíma og 10 % innri vexti, að hraðlestin verður ekki arðsöm, þó að valið sé hagstæðasta viðmið fyrir samþykkt verkefnisins, þ.e. lágmarksstofnkostnaður og hámarkstekjur lestarinnar árið 2030. 

Árlegur kostnaður hraðlestarinnar verður á bilinu 9,7 - 18,1 mia kr.  Hugmyndin um hraðlest á Íslandi til farþegaflutninga er andvana fædd. Vegna þessarar niðurstöðu orkar eftirfarandi staðhæfing í téðu

viðtali mjög tvímælis, og virðist sett fram í blekkingarskyni gagnvart sveitarstjórnarmönnum og öðrum, sem ekki gæta sín á röngum kostnaðar- og tekjuáætlunum og loddaralegum fyllyrðingum á borð við þessa hér um téða hraðlest:

"Rekstraráætlun fyrstu 10 ára gerir ráð fyrir jákvæðri afkomu fyrirtækisins allt frá byrjun."

Spyrja verður: jákvæðri miðað við hvað ?  Alla vega ekki miðað við eðlilega arðsemiskröfu fjármagns, sem í þetta hraðlestarverkefni yrði lagt. Ástæða er til að vara stjórnvöld við að leggja skattfé borgaranna í undirbúning þessa verkefnis.  Siðferðisgrundvöllurinn um minni mengun farþega er brostinn með væntanlegri rafbílavæðingu landsins, og fjárhagsgrundvöllurinn er langt úti í buskanum.

  

Russ Roberts, hagfræðingur, hefur kannað gæði kostnaðaráætlana, sérstaklega fyrir járnbrautarlestir, og komizt að þeirri niðurstöðu, að yfirleitt eru áætlanir um fjölda farþega fjarri því að rætast, og að meðaltali verða þeir aðeins helmingur af áætluðum fjölda.  Ekki dugar að hækka verðið, því að þá fækkar þeim enn meira.  Sennilega er ofangreindur áætlaður farþegafjöldi sömu annmörkum háður og áætlanir um farþegafjölda yfirleitt.  Þá verður þessi hraðlest aldrei arðsöm, vegna þess að hún mun í framtíðinni þurfa að keppa við rafknúin ökutæki með rekstrarkostnaði u.þ.b. 1/10 af rekstrarkostnaði núverandi ökutækja, sem fara með farþega til og frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Sú er hins vegar hættan, ef Pí*ratar stjórnmálanna ná völdum í landinu, að anað verði út í eitthvert feigðarflan af þessu tagi með skattfé almennings, og ríkissjóður og sveitarsjóðir sitji þá uppi með bagga, sem numið gæti 14 miö kr á ári á meðan lestin væri í rekstri.  Það er mun verra en Harpan, enda um ferfalt dýrara verkefni að ræða. Harpan dregur þó að sér fólk og veitir ánægju, af því að hönnunin og framkvæmdin eru að sumu leyti vel heppnuð, en hæpið er, að hið sama geti átt við um hraðlest, sem veldur gríðarlegri hávaðamengun, þar sem hún fer ofanjarðar.

Það er ekki sama fyrir pyngju almennings, hvers konar stjórnmálamenn eru kosnir til valda.  Á síðasta kjörtímabili voru hreint ótrúlegir ratar í fjármálum við völd.  Þeir skildu ekki, að óhóflegar skattahækkanir sliguðu svo efnahag fjölskyldna og fyrirtækja, að óhjákvæmilegum efnahagsbata eftir mikinn hagkerfissamdrátt seinkaði um a.m.k. 2 ár.  Þeir skildu ekki vofveiflegar afleiðingar Icesave-samninganna fyrir kaupmátt á Íslandi næstu áratugina, og þeir skildu ekki afleiðingar þess fyrir hag ríkissjóðs Íslands að færa kröfuhöfum föllnu bankanna 2 af nýju bönkunum á silfurfati. 

Þessir margföldu ratar skilja ekki efnahagslögmálin og skilja ekki, hvernig verðmæti verða til.  Þeir skilja ekki, að fyrirtæki þurfa gróðahvata til að stunda verðmætasköpun af hvaða tagi sem er, og til að stunda sína starfsemi þurfa fyrirtækin fyrirsjáanlegt rekstarumhverfi og vissu fyrir því, að stjórnmálamenn muni ekki gjörbreyta rekstrarumhverfinu með einu pennastriki.  Af þessum sökum er rétt að halda margföldum rötum, pírötum og jafnaðarmönnum, sem kunna ekkert annað við völd en að jafna út eymdinni, frá völdum, og leyfa þeim að nöldra þar ofan í bringu sér.   

 

 

 

 

 

 

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband