Færsluflokkur: Heimspeki

Pí*ratar

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að frá dögum grísku heimspekinganna og stærðfræðinganna, sem uppi voru nokkrum hundruðum ára fyrir Krists burð og voru upphafsmenn rökhyggjunnar í vestrænni menningu, hefur hlutfallið á milli ummáls hrings og þvermáls hans verið þekktur fasti og kallaður Pí.

Pí er þó óræð tala, því að það er ekki hægt að tákna hana  með heilli tölu og endanlegum fjölda aukastafa, en góð nálgun er 3,1415. Fyrirsögnin þýðir þá rúmlega þrefaldur rati, og af öllum sólarmerkjum að dæma er það ekki of í lagt um stjórnmálamennina, sem kalla sig pírata. Þeir eru líka óræðir, enda oft á tíðum eins og geimverur úr einhverjum gerviheimi tölvuleikjanna. 

Nýlega varð kapteini pí*rata á Íslandi hroðalega á í messunni, en af einhverhum ástæðum, sem þessum blekbónda er hulið sjónum, líkti hún Skagafirði við Sikiley á Ítalíu.  Heimskulegri samanburð er vart hægt að hugsa sér, en þarna átti að vera einhvers konar skírskotun til réttarfarsins á báðum stöðum.  Mann setur hljóðan, en þetta fyrirbrigði, téður kapteinn, situr á Alþingi og rífur þar iðulega stólpakjaft og hagar sér dólgslega í púlti. 

Það, sem á Skagfirðinga, aðra Norðlendinga og landsmenn alla er lagt með fíflaganginum, sem viðgengst á þjóðþinginu að hálfu allra stjórnarandstöðuflokkanna, er þyngra en tárum taki. Kapteinninn má þó eiga það, að hún hefur beðið Skagfirðinga afsökunar á téðu frumhlaupi sínu, og enginn skilur hugrenningatengslin.

Út er komin bók eftir Margréti Tryggvadóttur, Útistöður, þar sem hún lýsir eldfimu sálarástandi félaganna í flokksnefnum, sem voru forverar Pí*rataflokksins.  Þar voru rýtingar ótt og títt á lofti og félagsþroski af skornum skammti.  Téður "kapteinn" virtist hafa litið á sig sem "prímadonnu", sem sjálfkjörin væri til að þvælast út um allar koppagrundir á kostnað skattgreiðenda, m.a. á Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna.   

Afstöðuleysi pí*ratanna til þingmála hefur líka vakið athygli.  Hafa þeir fært fámenni þingflokksins sem skýringu á þessu undarlega og himinhrópandi skoðanaleysi á þingmálum, sem til umfjöllunar eru hverju sinni. Þeir hafa þó verið drjúgir í umræðum um fundarstjórn forseta, enda lýðræðisástin borin í merg og bein.  Fámennisútskýringin er út í hött, því að þingmönnum ber að taka afstöðu til mála sjálfir og gera upp hug sinn á einstaklingsgrundvelli, grundvelli eigin samvizku, en ekki þess, sem aðrir í þingflokkinum kunna að hafa um málið að segja.  Þetta er aumlegt yfirklór hjá þeim. Engu er líkara, en þeir upplifi sig í gagnvirkum tölvuleik, þar sem þeir setji leikreglurnar sjálfir.  Margt er nú þröngsýnt, sem á þingið er valið og víða er asklok fyrir himin, en pi*ratarnir fylla þann flokk manna, sem eru svo firrtir, að þeir lifa í gerviheimi, sem þeir halda, að sé raunheimur.   

Sama er að segja um mætingar þeirra á þingnefndafundi.  Hún er afspyrnu léleg.  Þeir virðast einfaldlega vera húðlatir við þingstörfin, enda liggja rætur píratahreyfingarinnar hjá stjórnleysingjum, sem hafa aldrei haft gáning á þingræðinu.  Að vilja fjölga í þessu liði á Alþingi er þess vegna fullkomlega óskiljanlegt, nema sem sviðsetning á grískum harmleik. Víkur nú sögunni að Pí sem leiðréttingarstuðli opinberra kostnaðaráætlana.

Gárungarnir segja, að opinberar íslenzkar kostnaðaráætlanir megi margfalda með Pí til að fá út lokakostnað.  Þetta er ekki út í hött, og það er hægt að tilfæra nýlegt og þekkt dæmi, sem styður þetta, þó að hlutfallið sé ekki nákvæmlega sá flatarmálsfræðilegi fasti Pí. Um er að ræða Hörpuna.  Áætlaður kostnaður Hörpunnar árið 2002 var ISK 9´736´000´000 eða rúmlega ISK 9,7 milljarðar (mia).  Raunverulegur kostnaður árið 2010 nam hins vegar ISK 28,0 miö, og lætur nærri, að hlutfallið sé 2,9, sem er tæplega Pí.

Þetta leiðir auðvitað hugann að stórverkefni, sem mjög hefur verið í umræðunni, en er undirorpið gríðarlegri tæknilegri og fjárhagslegri óvissu, þar sem svo langur og djúpt liggjandi sæstrengur hefur aldrei verið lagður sem strengurinn Ísland-Skotland, sem nú er verið að kanna hafsbotninn fyrir að hálfu enskra fjárfesta, að sagt er. Reka þarf þennan 1200 km langa sæstreng á jafnspennu, sem er svo há, að engin þekkt plasteinangrunarefni þola slíkt, heldur brotnar einangrunargildið fljótlega niður. Flutningstöpin minnka hratt (kvaðratískt) með rekstrarspennu, og þar af leiðandi verður rekstrarspennan mikilvæg fyrir hagkvæmnina. 

The Economist hefur birt kostnaðartöluna USD 6,0 mia með öllum tengibúnaði, en án virkjana.  Ketill Sigurjónsson, sem lætur sig orkumál miklu varða, opinberlega, og ritar mikið um þetta hugðarefni sitt á vefsetur sitt, véfengir þessa tölu og telur hana of háa. Hann gefur þar með lítið fyrir varúðarreglur um kostnaðaráætlanir, þegar mikil tæknileg óvissa á í hlut, eins og á við um sæstrenginn og fylgibúnað hans.  Dr Baldur Elíasson, verkfræðingur, er annarrar hyggju og sagði í viðtali við Morgunblaðið, 24. júní 2014, að áætlað hafi verið, að téður sæstrengur kosti USD 5,0 milljarða. "Það er, að mínu mati allt of lág tala", sagði dr Baldur, sem áætlar kostnaðinn "tvöfalda þá tölu og sennilega meira".  Þá eru menn komnir með Pí sem leiðréttingarstuðul á talnabilið, sem téður Ketill veifar, á þetta risaverkefni á íslenzkan mælikvarða, sem næmi þá einni landsframleiðslu Íslands á ári, og eru þó virkjanirnar enn ótaldar.

Fjarri fer, að allt of lágar kostnaðaráætlanir séu séríslenzkt fyrirbæri; skárra væri það.  Hér verða talin nokkur erlend dæmi, og er hlutfall lokakostnaðar og kostnaðaráætlunar sýnt með:

  1. Óeruhúsið í Sidney: 14
  2. Höfuðstöðvar norska seðlabankans: 4,4
  3. Hiawatha járnbrautarlínan í Minneapolis: 1,9
  4. Neðanjarðarlestakerfi Kaupmannahafnar: 1,5
  5. Járnbrautarlínan Boston-New York-Washington: 1,3

Meðaltal þessarar upptalningar er 4,6, sem er rúmlega Pí.  Athygli vekur, að af þessum 5 stórverkefnum eru 3 járnbrautarlínur. 

Nú vill svo til, að nýlega hefur verið gerð kostnaðaráætlun um hraðlest á milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og samgöngumiðstöðvar í Vatnsmýri. Það er sem sagt áhugi fyrir þessu verkefni í vissum pólitískum kreðsum, en enginn einkaaðili hefur gefið sig fram til fjárfestingar. Verkið felur í sér lagningu tvöfaldra teina fyrir lest, sem gæti náð yfir 200 km/klst hraða, göng undir Straumsvík, sem kæmu upp í Vatnsmýri auk Lækjargötu í Hafnarfirði, við Vífilsstaði í Garðabæ og Smáranum í Kópavogi, ásamt rafmagnseimreiðum, farþegavögnum og flutningavögnum.  Hugmyndafræðin að baki er græn, þ.e. að spara jarðefnaldsneyti og minnka losun gróðurhúsalofttegunda. 

Runólfur Ágústsson hjá Ráðgjöf og verkefnastjórnun er forsprakki verkefnisins.  Eftir honum er haft baksviðs í Morgunblaðinu þann 6. júní 2015 á bls 26 við hlið leiðarans:

"Við erum að tala um að draga úr notkun á innfluttu eldsneyti og nota þess í stað rafmagn, sem er framleitt með endurnýjanlegum og umhverfisvænum hætti.  Orkunýtingin er allt önnur.  Það þykir líka merkilegt, að þessi lest verður að öllum líkindum knúin gufu, þótt óbeint sé.  Rafmagnið í lestina kemur væntanlega úr gufuaflsvirkjunum á Hellisheiði eða Reykjanesi."

Þessi röksemdafærsla fyrir hraðlest á milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur er anzi gufuleg.  Fyrir dyrum stendur rafvæðing íslenzka bílaflotans, svo að á væntanlegum afskriftatíma þessarar járnbrautalestar verður ekki sá eldsneytissparnaður, sem "Ráðgjöf og verkefnastjórnun" vill vera láta.  Umhverfisverndarhlið málsins er þess vegna léttvæg. 

Það er óvarlegt að gaspra um, hvaðan raforkan kemur til notenda frá sameiginlegu stofnkerfi.  Raforkufæðing hraðlestarinnar verður a.m.k. á tveimur stöðum til að draga úr spennufalli, t.d. inn í sitt hvorn enda.  Þegar álag eykst í Helguvík, má ætla, að orkan frá Svartsengi og Reykjanesvirkjun fari að mestu leyti þangað.  Orkan frá Hellisheiðarvirkjun fer ekki síður til Norðuráls en til Reykjavíkur.  Það er þess vegna órökstudd vænting, að lestin verði "gufuknúin", þó að gufukatlar hafi knúið fyrstu járnbrautarlestirnar.  Ef mál skipast með svo ótrúlegum hætti, að einhver fáist til að fjármagna þetta verkefni, þá verður sú lest að megninu til knúin með raforku úr fallvötnum, enda sjá vatnsorkuver fyrir um 70 % orkunnar inn á stofnkerfið.

"Við hittum alla hlutaðeigandi bæjarstjóra í maí og erum nú að kynna þetta fyrir bæjarráðunum og í einhverjum tilfellum bæjarstjórnum."

Samkvæmt þessum orðum Runólfs er undirbúningsvinna fyrir hraðlestarverkefnið á undirbúningsstigi, og þess vegna er full ástæða til að reikna út, hvort það standist lágmarks arðsemiskröfur, og það hefur þessi blekbóndi hér gert, og er útkoman falleinkunn fyrir þessa viðskiptahugmynd.  Það verður enginn fjárhagslegur ávinningur fyrir farþega slíkrar hraðlestar, en þeir spara um 20 mín ferðatíma.  Öryggi þeirra á leiðinni eykst væntanlega líka. 

Nú er verið að leggja hraðlestarteina á milli Óslóar og Stokkhólms, og þar spara menn 1,5 klst miðað við akstur í bíl.  Margir fljúga þarna á milli, og viðskiptahugmyndin er að keppa við flugið á þessari leið og bjóða upp á umhverfisvænni ferðamáta þessa leið.  

R-listinn í Reykjavík (vinstri menn og framsóknarmenn) sýndi þessu verkefni áhuga á sinni tíð og lét gera kostnaðaráætlun upp á ISK 30 milljarða á verðlagi þess tíma.  Árið 2013 var gerð ný kostnaðaráætlun af  Ráðgjöf og verkefnastjórnun, sem er þættinum Pí hærri en hin. Ný kostnaðar- og tekjuáætlun fyrir hraðlest, Vatnsmýri samgöngumiðstöð-Leifur Eiríksson flugstöð, er á þessa leið samkvæmt Greinargerð Ráðgjafar- og verkefnastjórnunar ehf til Reita hf 2013:

  • Stofnkostnaður: 70-140 mia kr [vítt óvissubil]
  • Árlegur rekstrarkostnaður: 1,3 mia kr [virkar lágur]
  • Farþegafjöldi árið 2020: 2´130´000 [virkar hár]
  • Farþegafjöldi árið 2030: 3´020´000 [virkar mjög hár]
  • Tekjur árið 2020: 4,3-6,4 mia kr [2000-3000 kr/far]
  • Tekjur árið 2030: 6,0-9,1 mia kr [2000-3000 kr/far]

Á þessum grundvelli er unnt að finna út, hvort téð hraðlest verður arðsöm eður ei m.v. gefnar forsendur.  Í stuttu máli er niðurstaða núvirðisreikninga blekbónda sú m.v. 20 ára afskriftatíma og 10 % innri vexti, að hraðlestin verður ekki arðsöm, þó að valið sé hagstæðasta viðmið fyrir samþykkt verkefnisins, þ.e. lágmarksstofnkostnaður og hámarkstekjur lestarinnar árið 2030. 

Árlegur kostnaður hraðlestarinnar verður á bilinu 9,7 - 18,1 mia kr.  Hugmyndin um hraðlest á Íslandi til farþegaflutninga er andvana fædd. Vegna þessarar niðurstöðu orkar eftirfarandi staðhæfing í téðu

viðtali mjög tvímælis, og virðist sett fram í blekkingarskyni gagnvart sveitarstjórnarmönnum og öðrum, sem ekki gæta sín á röngum kostnaðar- og tekjuáætlunum og loddaralegum fyllyrðingum á borð við þessa hér um téða hraðlest:

"Rekstraráætlun fyrstu 10 ára gerir ráð fyrir jákvæðri afkomu fyrirtækisins allt frá byrjun."

Spyrja verður: jákvæðri miðað við hvað ?  Alla vega ekki miðað við eðlilega arðsemiskröfu fjármagns, sem í þetta hraðlestarverkefni yrði lagt. Ástæða er til að vara stjórnvöld við að leggja skattfé borgaranna í undirbúning þessa verkefnis.  Siðferðisgrundvöllurinn um minni mengun farþega er brostinn með væntanlegri rafbílavæðingu landsins, og fjárhagsgrundvöllurinn er langt úti í buskanum.

  

Russ Roberts, hagfræðingur, hefur kannað gæði kostnaðaráætlana, sérstaklega fyrir járnbrautarlestir, og komizt að þeirri niðurstöðu, að yfirleitt eru áætlanir um fjölda farþega fjarri því að rætast, og að meðaltali verða þeir aðeins helmingur af áætluðum fjölda.  Ekki dugar að hækka verðið, því að þá fækkar þeim enn meira.  Sennilega er ofangreindur áætlaður farþegafjöldi sömu annmörkum háður og áætlanir um farþegafjölda yfirleitt.  Þá verður þessi hraðlest aldrei arðsöm, vegna þess að hún mun í framtíðinni þurfa að keppa við rafknúin ökutæki með rekstrarkostnaði u.þ.b. 1/10 af rekstrarkostnaði núverandi ökutækja, sem fara með farþega til og frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Sú er hins vegar hættan, ef Pí*ratar stjórnmálanna ná völdum í landinu, að anað verði út í eitthvert feigðarflan af þessu tagi með skattfé almennings, og ríkissjóður og sveitarsjóðir sitji þá uppi með bagga, sem numið gæti 14 miö kr á ári á meðan lestin væri í rekstri.  Það er mun verra en Harpan, enda um ferfalt dýrara verkefni að ræða. Harpan dregur þó að sér fólk og veitir ánægju, af því að hönnunin og framkvæmdin eru að sumu leyti vel heppnuð, en hæpið er, að hið sama geti átt við um hraðlest, sem veldur gríðarlegri hávaðamengun, þar sem hún fer ofanjarðar.

Það er ekki sama fyrir pyngju almennings, hvers konar stjórnmálamenn eru kosnir til valda.  Á síðasta kjörtímabili voru hreint ótrúlegir ratar í fjármálum við völd.  Þeir skildu ekki, að óhóflegar skattahækkanir sliguðu svo efnahag fjölskyldna og fyrirtækja, að óhjákvæmilegum efnahagsbata eftir mikinn hagkerfissamdrátt seinkaði um a.m.k. 2 ár.  Þeir skildu ekki vofveiflegar afleiðingar Icesave-samninganna fyrir kaupmátt á Íslandi næstu áratugina, og þeir skildu ekki afleiðingar þess fyrir hag ríkissjóðs Íslands að færa kröfuhöfum föllnu bankanna 2 af nýju bönkunum á silfurfati. 

Þessir margföldu ratar skilja ekki efnahagslögmálin og skilja ekki, hvernig verðmæti verða til.  Þeir skilja ekki, að fyrirtæki þurfa gróðahvata til að stunda verðmætasköpun af hvaða tagi sem er, og til að stunda sína starfsemi þurfa fyrirtækin fyrirsjáanlegt rekstarumhverfi og vissu fyrir því, að stjórnmálamenn muni ekki gjörbreyta rekstrarumhverfinu með einu pennastriki.  Af þessum sökum er rétt að halda margföldum rötum, pírötum og jafnaðarmönnum, sem kunna ekkert annað við völd en að jafna út eymdinni, frá völdum, og leyfa þeim að nöldra þar ofan í bringu sér.   

 

 

 

 

 

 

 

 


Adam Smith og Karl Marx

Síðdegis mánudaginn 28. júlí 2014 hélt Rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt, RNH, ásamt Samtökum skattgreiðenda, fund um frelsi.  Fyrirlestur á fundinum hélt Robert Lawson, prófessor við háskóla í Dallas/Texas.  Prófessor Lawson er mjög fær fyrirlesari og fangaði athygli fjölmenns hóps fundarmanna af báðum kynjum á breiðu aldursbili.  Eiga aðstandendur fundarins þakkir skildar.

Prófessor Lawson gat þess í byrjun, að nærfellt um tveggja alda skeið hefðu menn þráttað um, hvor þeirra kenningasmiðanna, Adam Smith eða Karl Marx, hefði haft á réttu að standa.  Adam Smith hélt því fram, að þjóðum (öllum stéttum) vegnaði betur, ef ríkisafskipti af atvinnulífinu væru í lágmarki og launþegar fengju að halda sem mestu eftir af umsömdum launum sínum, þ.e. skattar og önnur skyldugjöld væru lágir, og aðeins notaðir til að fjármagna það, sem ríkið væri betur fallið til að sjá um en einkaframtakið, s.s. löggæzlu og landvarnir. 

Ef menn legðu sig fram og stæðu sig vel í samanburði við aðra á markaðinum, mundu þeir að sönnu auðgast, en sá auður mundi fyrr en seinna hríslast um samfélagið og gera það allt auðugra en ella.  Ríkisvaldið hefði engan siðferðilegan rétt til að hlutast til um aðra dreifingu auðsins en þá, sem ákveðin er á markaðinum, enda væru slík inngrip hins opinbera líkleg til að virka letjandi á einkaframtakið, þannig að verðmætasköpun yrði minni en ella og þar með minni hagvöxtur. 

Heildin hlyti að líða fyrir ríkisafskipti.  Þetta þykir ýmsum liggja í augum uppi, þegar horft er til sögunnar, en ekki eru allir á sama máli.  Jafnvel þó að þeir séu á sama máli um hagvöxtinn, þá segja þeir sem svo, að ríkið þurfi að hafa afskipti af tekjudreifingunni í nafni réttlætisins.  Þetta réttlætishugtak er hins vegar afstætt, og það er erfitt að henda reiður á réttlætinu í því að rífa meira en aðra hverja krónu af ungu fólki, sem í sveita síns andlitis stritar við að koma sér þaki yfir höfuðið, svo að dæmi sé tekið.  

Karl Marx hélt því á hinn bóginn fram, að hefta yrði einkaframtakið verulega með miðstýrðu ríkisvaldi, sem skyldi sjá um, að allir legðu sitt að mörkum til samfélagsins eftir getu og fengju til baka frá samfélaginu eftir þörfum.  Auðvaldskerfið mundi leiða til ringulreiðar, og hin sögulega þróun mundi óhjákvæmilega leiða til falls þess, og framleiðslutækin mundu þá falla í hendur sameignarsinna, sem mundu beita þeim án gróðavonar einungis til að uppfylla þarfir samfélagsins. 

Þessi kenning reyndist alger hugarburður, og hefur ekki reynzt unnt að koma henni á með lýðræðislegum hætti, heldur hafa fylgjendur hennar brotizt til valda með ofbeldi og alls staðar myndað ógnarstjórn, þar sem þeir hafa náð völdum.  Alræði öreiganna hefur alls staðar orðið að fátæktarfangelsi.  

Í upphafi 20. aldar var mynduð lýðræðisútgáfa af Marxisma, jafnaðarstefnan, "socialdemokrati", en hún endar alltaf með að keyra viðkomandi samfélag í þrot með stöðnun hagkerfisins af völdum hárra og stigvaxandi ("progressive") skatta, sem letja til vinnu og hvetja til undanskota, og lamandi skuldasöfnunar hins opinbera, af því að fjárþörf hins opinbera vex stjórnlaust.   

Nú má auðvitað horfa þannig til sögunnar og athuga, hvort auðvaldskerfið eða sameignarkerfið hafi gefizt þjóðum betur.  Ef t.d. afkoma almennings í löndum Vestur-Evrópu og Austur-Evrópu í Kalda stríðinu, þegar Járntjaldið skildi þessar þjóðir að og þær tókust á á stjórnmálavettvangi, er borin saman, þá mundi huglægt mat flestra verða, að auðvaldskerfið hafi borið sigurorð af sameignarkerfinu, enda varð hið síðar nefnda siðferðilega og fjárhagslega gjaldþrota. Það hafði hreinlega ekki efnahagslega burði til að keppa við auðvaldið og var jafnframt siðferðilega gjaldþrota, þefandi upp úr hvers manns koppi með fjölmennri leyniþjónustu og skjótandi flóttamenn á landamærum.

Þessi fallframmistaða nægir samt ekki öllum, eins og sjá má af skaranum á vinstri kantinum, sem enn heldur þar til af hugsjónaástæðum og telur þjóðfélagsmálum betur fyrir komið með forsjárhyggju, þar sem stjórnmálamenn með vissum hætti eru í hlutverki barnfóstra.  Það er ekki tilviljun, að slíkir þiggja margir laun úr ríkissjóði, og þeir eru einnig fjölmennir á fjölmiðlum og í menntakerfinu.      Er jafnan viðkvæðið hjá slíkum, að réttlætið sé vinstra megin í stjórnmálunum.  Ekkert er þó fjær lagi en að þjóðfélagslegt réttlæti eigi heima í höndum stjórnmálamanna, sízt af öllu þeirra, sem þenja vilja út opinbera geirann til að geta ráðskazt með sem mest fjármagn skattgreiðenda og endurúthlutað verðmætum á formi alls kyns fyrirgreiðslu og bóta, sem síðan eiga að tryggja þeim atkvæði bótaþeganna og völdin.  Siðblindan býr vinstra megin væri nær að segja, og hún er tilætlunarsöm: "Allt þitt er mitt", er viðkvæðið. 

Robert Lawson hefur safnað saman miklum tölfræðilegum gögnum og sýnt berlega fram á mikla, nánast einhlíta, fylgni á milli atvinnufrelsis og velmegunar allra stétta.  Hann notar 5 mælikvarða á atvinnufrelsi, þ.e.:

  1. umsvif ríkisins, ríkisafskipti, þ.e. lága skattheimtu, 
  2. traustan lagagrundvöll eignarréttar og skilvirkt og sjálfstætt dómsvald. 
  3. Heilbrigt peningakerfi.
  4. Frelsi til alþjóðlegra viðskipta
  5. Regluverk hins opinbera  

Þjóðir í efsta fjórðungi atvinnufrelsis höfðu að jafnaði þjóðartekjur á mann USD 36.466 árið 2011, en þjóðir í neðsta fjórðungi atvinnufrelsis höfðu USD 4.382.  Meðalaldur er 79,2 ár í efsta fjórðungi atvinnufrelsis og 60,2 ár í þeim neðsta.  Röð landanna eftir atvinnufrelsi er þessi í efsta hluta:

  1. Hong Kong
  2. Singapúr
  3. Nýja Sjáland
  4. Sviss
  5. Sameinaða arabíska furstadæmið
  6. Máritíus
  7. Finnland
  8. Bahrain
  9. Kanada
  10. Ástralía
  11. Chile
  12. Bretland
  13. Jórdanía
  14. Danmörk
  15. Tævan
  16. Eistland
  17. Bandaríkin
  18. Kýpur
  19. Þýzkaland
  20. Írland

Svíþjóð er nr 29, Noregur nr 31, og Ísland er nr 41. 

Það er gjarna viðkvæði vinstri manna, að þjóðfélagsfyrirmynda sé að leita á Norðurlöndunum.  Það kemur hins vegar í ljós, að eftir fjagra ára óstjórn vinstri manna á Íslandi hefur Ísland hrapað niður fyrir öll Norðurlöndin (Færeyjar og Grænland eru ekki í þessari upptalningu) í atvinnufrelsi.  

Undir borgaralegri ríkisstjórn erum við tekin að potazt aðeins upp aftur.  Það er sem sagt meira atvinnufrelsi á hinum Norðurlöndunum en á Íslandi.  Samkvæmt orðbragði vinstri manna er þá meira þjóðfélagslegt óréttlæti þar en hér.  Gaspur þeirra er auðvitað algerlega marklaust hjal, enda eru þeir málsvarar fallvaltrar þjóðfélagsstefnu, sem skortir svör við vandamálum nútímans, af því að hún er trénuð.   

Það er alveg ljóst, hvaða leið ber að fara til að efla hagsæld á meðal almennings á Íslandi ?  Það er sú leið, sem lyftir okkur upp úr 41. sætinu á kvarða atvinnufrelsis og upp fyrir hin Norðurlöndin.    

     

 


Ekkert er nýtt undir sólunni

Því er gjarna haldið fram, að Evrópusambandið (ESB) hafi verið reist á rústum Evrópu eftir heimsstyrjöldina síðari, þegar runnið hafi upp fyrir mönnum, að feta yrði nýjar slóðir í samskiptum Evrópuríkja.

Þeir, sem leggja trúnað á, að hér sé nýtt fyrirbæri á ferð, hafa sofið í mannkynssögutímunum sínum.  Maður var nefndur Karl og kallaður hinn mikli, Karlamagnus eða Charlemagne, af því að hann vann það afrek að sameina ríki Germana, að nokkru leyti Galla og Langbarða á Ítalíu.  Hann gerði þetta með fádæma grimmd og var kallaður afhausarinn fyrir vikið.  Karl mikli stjórnaði ríki sínu frá Aachen í Þýzkalandi, þegar hann lá ekki í hernaði.  Þetta ríki liðaðist í sundur strax eftir hans dag.

Um aldamótin 1500 kemur til skjalanna svissnesk höfðingjaætt, Habsborgarar, sem voru illa séðir í sínu heimalandi fyrir grimmd og fégræðgi.  Þeir náðu völdum í hinu heilaga rómverska ríki þýzkrar þjóðar með höfuðstöðvar í Vínarborg.  Þetta ríki náði yfir svipað landsvæði og ríki Karls, mikla, og var í raun og veru forveri ESB.  Það náði þó ekki að tryggja frið í Evrópu. 

Þrjátíu ára stríðið, 1618-1648, lék sumar Evrópuþjóðir mjög grátt og fækkaði fólki í heild um 30 %, en t.d. Prússum fækkaði um 80 %.  Eftir Þrjátíu ára stríðið var haldinn Reichstag, ríkjaráðstefna, í Regensburg, hinni fögru borg Bæjaralands, og þar komu menn sér saman um samskiptareglur, sem dugðu til að hindra aðra stórstyrjöld.  Habsborgararíkið í þessari mynd stóð til 1806, þegar Frakkar, undir forystu Napóleóns Bonaparte frá Korsíku, tóku völdin í Evrópu tiltölulega mótstöðulítið og héldu þeim til 1812, er þeir fóru feigðarför til Moskvu, og voru síðar gjörsigraðir við Waterloo árið 1814 af enska hernum, undir forystu Wellingtons, og prússneska hernum, undir forystu von Blüchers.

Habsborgararíkið sveiflaðist allan tímann á milli sterkrar miðstjórnar og valddreifingar til prinsa og baróna.  Sérstaklega beittu Prússar sér fyrir valddreifingu, þegar þeim tók að vaxa fiskur um hrygg eftir hildarleik Þrjátíu ára stríðsins.  Nú gæti hið sama verið að gerast með ESB.  Tímabil æ meiri sameiningar, "an ever closer union", gæti nú verið komið á leiðarenda.  Evran hefur misheppnazt, og Bretar o.fl. eru í uppreisn gegn Brüsselvaldinu.  Tíminn virðist vinna með Bretum, því að árangur miðstýringar er langt undir væntingum, og æ fleiri verður ljóst, að miðstýring stenzt valddreifingu ekki snúning.  Einfaldast er í því sambandi að bera saman árangur Þýzkalands og Frakklands á seinni árum.  Í Þýzkalandi ríkir valddreifing, en ekkert ríki Evrópu er svo miðstýrt sem Frakkland. 

Nú er í Evrópu hugað að stefnubreytingu fyrir ESB, því að allir, nema Samfylkingarforkólfar, sjá, að fara verður nýjar leiðir til að finna lífvænlegar lausnir.  Habsborgararíkið var nefnt sem forveri ESB.  Þar voru tvær myntir, ein í norðri og önnur í suðri.  Hér skal gera því skóna, að E-mark verði stofnað af lánadrottnum á núverandi evru-svæði, sem láti skuldunautana róa með evruna, sem geti þá fellt hana að vild.  Lánadrottnar evru-svæðisins eru Þýzkaland, Austurríki, Holland, Lúxemburg og Finnland.

Aðalmunurinn á samsetningu Habsborgararíkisins og ESB felst í því, að Stóra-Bretland, þrátt fyrir Brezka samveldið, er í ESB, en var alltaf utan við ríkjasambönd Evrópu áður fyrr.  Bretar munu af hagfræðilegum og sálfræðilegum ástæðum aldrei fleygja sterlingspundinu og taka upp evru.  Eftir því sem ESB nálgast meira að verða sambandsríki ("an ever closer union"), verða Bretar órólegri sem aðildarríki.  Meirihluti brezku þjóðarinnar vill segja skilið við ESB, og þess vegna eykst þrýstingur brezka þingsins á ríkisstjórnina að finna framtíðarlausn á sambandinu við ESB, sem ekki felur í sér aðild.

Bretar vilja láta sitja við fríverzlunarbandalag Evrópu, þ.e.a.s. þeir vilja vera á Innri markaðinum og njóta frelsanna fjögurra, en sleppa stjórnmálalegum sameiningartilraunum með viðeigandi fullveldisframsali til embættismanna, sem aldrei þurfa að standa brezkum kjósendum reikningsskap gjörða sinna.  Bretar eru eðlilega mjög viðkvæmir fyrir þeim lýðræðishalla, sem þeir verða fyrir með framsali fullveldis brezka þingsins til ókjörinna embættismanna og þings í Brüssel, þar sem sjónarmið Breta verða yfirleitt undir. Það getur vel verið, að Brüssel muni sjá ákveðin tækifæri fólgin í aukaaðildarfyrirkomulagi fyrir Breta og aðra líkt þenkjandi.  Brüssel gæti þá samið við Tyrki um slíka aukaaðild, en langdregið inngönguferli Tyrkja er orðinn stjórnmálalegur baggi á ESB.

Berlaymont vill staðla samninga sína við EES-ríkin og ríki með tvíhliða samninga við ESB. Berlaymont mundi sjá aukna skilvirkni og einföldun felast í sams konar aukaaðild allra þessara ríkja.  Það getur vel verið, að slík aukaaðild í hópi m.a. Noregs, Svisslands og Bretlands geti þjónað hagsmunum Íslands betur en núverandi EES-fyrirkomulag, ef aukaaðildin væri aðeins viðskiptalegs eðlis.  Slíkt mundi sennilega falla að núverandi Stjórnarskrá Íslands, og vangaveltur um að heimila fullveldisframsal í Stjórnarskrá yrðu óþarfar, eins og reyndar allt þetta stjórnarskráarhjal, sem ríkisstjórn vinstri flokkanna notar í vafasömu augnamiði.  Hún er ekki heiðarleg í nokkru máli.

ESB væri þá þrígreint, þ.e. ESB-Berlín, ESB-París og ESB-London.  Það er alveg til í dæminu, að Austur-Evrópa mundi leita aukaaðildar með ESB-London.  Samkeppni mundi líklega skapast á milli þessara þriggja stoða ESB, og slíkt yrði Evrópu hollt.  Þetta eru framtíðar vangaveltur, sem eru ekki að ófyrirsynju, því að núverandi fyrirkomulag ESB gengur ekki upp.  Þróun ESB í átt fjölbreytilegs stjórnarfyrirkomulags er í anda fjölbreytni Evrópu.  Það er borin von, ef horft er til sögunnar, að unnt verði að sameina Evrópu í sambandsríki.  Það gæti gagnast alþýðu manna í Evrópu mun betur að hafa fjölbreytni, þar sem allir keppa á Innri markaðinum, sumir í myntsambandi og aðrir með eigin mynt, sumir í sambandsríki, aðrir í ríkjasambandi og enn aðrir í sínu gamla þjóðríki.  Þetta væri áhugaverð deigla, þar sem þróun væri tryggð með innbyrðis samkeppni og með samkeppni út á við.     

 

 

  

   

 


Hvað er róttækni ?

Eftir að hinn vitiborni maður (homo sapiens) tók sér fasta bólfestu og hóf að yrkja jörðina í stað þess að vera á faraldsfæti í leit að veiðibráð, leið ekki á löngu, unz klíkur mynduðust og hrifsuðu til sín völdin í samfélögunum.  Kaupin gerðust þannig á eyrinni í 8000 ár þar til borgarastríðinu á Englandi lyktaði með sigri Cromwells og þingsins um 1662 og bylting varð í Frakklandi 1789.

Áður hafði aðallinn ráðið lögum og lofum í Evrópu, og honum tókst reyndar lengi vel að klóra í bakkann eftir téðar byltingar.  Á Íslandi réðu landeigendur lögum og lofum.  Höfðingjar, kirkjan og kóngurinn, áttu nærri allar jarðir á Íslandi, en ábúendur voru leiguliðar.  Lýðurinn var skattpíndur og haldið í átthagafjötrum og í fjötrum fáfræði.  Hann var nánast réttlaus, en landeigendurnir réðu ráðum sínum á Alþingi og settu þar lög til að tryggja valdastöðu sína. Þetta var framhald á goðakerfi sögualdar.  Bjó almenningur á Íslandi við verstu kúgun og réttindaleysi, sem jaðrar við þrælahald, allt fram á 20. öld. 

Síðan er mikið vatn til sjávar runnið, og valdið hefur að forminu til færzt til almennings, en því fer þó fjarri, að stjórnað sé með hagsmuni hans fyrir augum. Um þverbak hefur keyrt undir valdstjórn svo kallaðra vinstri flokka, Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, enda forræðishyggjan þeim runnin í merg og bein. Þarna situr í raun lítil, þröngsýn og fáfróð klíka á valdastólunum, sem á enga samleið með almenningi í lífsbaráttu hans.

Aldrei hafa hagsmunir almennings verið jafnheiftarlega fyrir borð bornir og í stjórnartíð Jóhönnu Sigurðardóttur. Nægir þar að nefna Icesave og starfaeyðandi stefnu ríkisstjórnarinnar í garð athafnalífsins, sem ber hagsmuni hins vinnandi manns gjörsamlega fyrir borð. Það var kominn tími til þess, að almenningur sæi svart á hvítu, hverjir fórna hagsmunum hans purkunarlaust á altari Evrópustefnu og sérvizku um málefni ríkisbúskapar og náttúruverndar.  Nú hefur afturhaldið kastað grímunni.  Segja má, að miðaldasvartnætti sé við lýði hjá valdstjórninni og almenningur sé leiksoppur tilraunastarfsemi um andvana félagshyggju í ríkisbúskapi og atvinnumálum.  Þetta sama lið vinnur síðan að því að flytja úrslitavald um málefni lands og þjóðar til nýs stórríkis í Evrópu, sem þegar er á fallanda fæti.  "Ekkert er nýtt undir sólunni."   

Umbætur á Stjórnarskrá þurfa að hafa að meginmarkmiði að færa enn meiri völd til almennings, t.d. með því að færa almenningi rétt til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um ákveðin mál, sem á döfinni eru.  Almenningur ætti og að fá rétt til að setja forseta lýðveldisins og ríkisstjórn af með því að krefjast nýrra forsetakosninga og Alþingiskosninga.

Verkalýðsflokkarnir, svo kölluðu, ráku upphaf sitt til kenninga Karls Marx og Friedrichs Engels og til rússnesku byltingarinnar og byltingarforingjans, Vladimirs Lenins.  Það kom hins vegar strax í ljós árið 1917, að byltingin át börnin sín. Stjórnkerfi kommúnismans byggir upp nýja, gjörspillta valdaklíku.  Hér var um að ræða rétt eina valdaklíkuna gegn hagsmunum almennings, en þessi var reist á lygum, hræsni og loddarahætti.  Valdaklíkan var með hagsmuni öreiganna á vörunum, en stjórnarhættirnir voru algerlega ólýðræðislegir og leiddu ekki til kjarabóta almennings.  Þvert á móti var skapað hagkerfi fátæktar.  Almenningi var beitt fyrir vagn einræðisins. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur er af þessum meiði, þó að hún geri sig ekki seka um blóðsúthellingar.  Ef sama fólk fær völdin að afloknum næstu Alþingiskosningum, verður hagkerfi landsins lagt í rúst.   

Vægari útgáfa alræðis öreiganna var mótuð, þegar hryllingur stjórnarhátta Jósefs Stalíns varð ljós.  Þá var svo kölluð jafnaðarstefna mótuð.  Hugmyndafræðin um, að stjórnmálaflokkur verkalýðsstéttarinnar ætti að móta samfélagsgerðina með ríkisafskiptum á öllum sviðum þjóðfélagsins og hárri skattheimtu af borgarastéttinni, hefur algerlega gengið sér húðar.  Þetta var "kratisminn" eða "socialdemocracy".  Hann lenti í blindgötu stöðnunar hagkerfisins og ægilegri skuldabyrði almennings, sveitarfélaga og ríkissjóðs. Þetta er kjarninn í vandamálum Evrópu þessi misserin, og þessi lýsing á vissulega við um ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur.  Evran hefur magnað vandamál Evrópu, en hún er ekki orsök vandans.  Rætur vandans liggja í stjórnkerfi Evrópu, sem leitt hefur til gríðarlegrar skuldsetningar ríkja, sveitarfélaga, fyrirtækja og einstaklinga.  

Við þjóðargjaldþroti lá í Svíþjóð áður en borgaralegu flokkarnir komust til valda 2006 og sneru af ógæfubrautinni.  Þetta er í raun og veru vandi langflestra Evrópuríkjanna nú um stundir, þó að evrunni sé um kennt, ekki alveg þó að ósekju.  Hún hefur flýtt fyrir því, að þjóðirnar kæmust fram á bjargbrúnina.  Evrópsk þjóðfélög eru flest mjög ósveigjanleg og niður njörvuð í reglugerðafargan og frelsissviptingu athafnalífsins í anda jafnaðarmanna, sem leitt hefur til gríðarlega hás launakostnaðar og geigvænlegs atvinnuleysis.  Þjóðirnar eru af þessum sökum ekki lengur samkeppnihæfar, nema Þjóðverjar, sem tóku sér taki eftir hagbóluna, sem varð í kjölfar endursameiningar Þýzkalands og óhemjulegra fjárfestinga í Austur-Þýzkalandi (mia EUR 2000).  Þeir tröllríða nú hagkerfum hinna evrulandanna, sem mega sín einskis, og munu senn neita þeim um frekari fjárhagsstuðning, enda hafa þeir ekki lengur efni á honum. Hallinn á ríkisbúskap Þýzkalands er árið 2012 EUR 35 milljarðar (mia EUR 35), og stefnir í, að þeir taki á sig skuldbindingar að upphæð mia EUR 300. Stjórnlagadómstóll Þýzkalands mun í septembar 2012 kveða upp úr um, hvort slíkt samrýmist stjórnarskrá Sambandslýðveldisins.  Af þessum sökum fer lánshæfismat þýzka ríkisins lækkandi.  Vonandi rís fuglinn Fönix upp úr öskuhrúgu hagkerfa Evrópu og svífur um án ægivalds sérhagsmunanna, en í byr raunverulegs frelsis og valds almennings.  Það getur þó aðeins orðið við valddreifingu og án miðstýringar frá Brüssel eða Berlín.  

Stjórnmál samtímans ættu að snúast um að finna fyrirkomulag, sem hámarkar lífsgæði almennings. Slíkt fyrirkomulag er órjúfanlega tengt stjórnkerfisumbótum, sem færir almenningi völd til að stöðva "elítuna", þegar "hugsjónir" hennar leiða hana á villigötur stórveldisóra eða annarra óra, sem ganga þvert gegn hagsmunum og óskum almennings í bráð og lengd. Auka ber verðmætasköpun með sjálfbærum hætti með því að nýta beztu fáanlegu tækni og dreifa auðnum til þeirra, sem skapa hann, án milligöngu opinberra aðila.  Þannig verður hagsmunum afkomenda okkar bezt borgið.       

  Stefán Eyjólfsson-Bjarni Jónsson-Auður Eyjólfsdóttir      

 

 


Evrópuhugsjónin fer halloka

Örlagatímar eru nú í Evrópu vegna bresta sameiginlegu myntarinnar á evrusvæðinu. Forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins (ESB), Herman van Rompuy, hefur lýst því yfir, að hrynji evran, þá líði ESB undir lok.  Þessi ummæli vitna um sálarháska þeirra, sem telja Evrópumenn aðeins verða sáluhólpna, lúti þeir stjórnun og reglugerðasetningu miðlægs og sjálflægs skrifræðisbákns, sem lýtur takmörkuðu eða engu lýðræðislegu aðhaldi almennings í Evrópu.  Þetta er ókræsileg Evrópuhugsjón, enda nær hún vart eyrum annarra en opinberra starfsmanna.

Þekktur hagfræðingur, Willem Buiter, sem í skýrslu, saminni fyrir íslenzku bankana sumarið 2008, taldi innviði þeirra vera svo fúna, að þeir væru þá komnir að fótum fram, hefur nú spáð falli evrunnar.  Hann telur hagkerfi Spánar vera mun veikara en bókhaldsbækur sýna og gerir ráð fyrir því, að Evrópubankinn, ECB, sem gárungarnir kalla EBB (European Bad Bank í stað - Central Bank), muni hefja stórfellda prentun peninga í örvæntingarfullri tilraun miðstýringarmanna í Frankfurt og Brüssel til bjargar Spáni.  

Á talsmönnum þýzkra viðhorfa í þessum efnum er hins vegar ekki að heyra, að gripið verði til þess óyndisúrræðis, og tónninn í Berlín er tekinn að draga dám af rómi þýzks almennings, sem líkir opinberum stuðningi við nauðstadda banka við það að reyna að fylla baðker án tappa í niðurfallinu.  Yrði prentun peninga hafin, mundi það leiða til mikillar verðbólgu, og til þess er reyndar leikurinn gerður að grynnka á skuldum evruríkjanna með greiðslum með verðminni mynt.

Þjóðverjar mega hins vegar ekki til slíks óstöðugleika hugsa, sem af slíku kynni að leiða, í ljósi sögunnar.  Weimar lýðveldið féll 1933 vegna ráðleysis ríkisstjórna, fjöldaatvinnuleysis, óðaverðbólgu og auðmýkingar að hálfu Vesturveldanna með Versalasamningunum 1919.  Þýzkur almenningur hefur nú fengið það á tilfinninguna, að ætlunin sé að láta hann greiða skuldir allra evruríkjanna, sem á þurfa að halda.  Þetta er nú að renna upp fyrir stjórnendum við Potzdamer Platz, sem standa andspænis stjórnmálalegum rústum, eða að láta Spán róa og þar með evruna.  Því skal spá hér, að lýðræðið verði ofan á við ákvarðanatöku í Berlín og dálæti Þjóðverja, Deutsche Mark, sjái dagsins ljós að nýju.   

Mynt í skammarkrókiVið þessar aðstæður líður Alþingi Íslendinga s.k. félagshyggjustjórn, ríkisstjórn Samfylkingar og vinstri-grænna, að halda út í aðlögunarferli stjórnkerfis landsins að kröfum ESB á röngum forsendum með miklum peningalegum útlátum úr ríkissjóði, beinum og óbeinum. 

Ríkisstjórnin er í óleyfi við þetta ferli vegna þess, að reginmunur er á samningaviðræðum, sem Alþingi samþykkti með semingi 16. júlí 2009, svo að vægt sé til orða tekið, og aðlögunarferli.  Þá var aldrei minnzt á aðlögun, heldur viðræður, jafnvel könnunarviðræður, með það að markmiði að athuga, hvað byðist í Brüssel.  Grátleg grautargerð það.  Gagnaðilinn, ESB, hefur hins vegar ekki farið í launkofa með eðli málsins og að í boði væri aðeins ein með öllu, Evrópuhugsjón,stofnsáttmálar, lög og tilskipanir ESB, án nokkurra varanlegra undanþága.  

Því má svo bæta við þessar hugleiðingar, að jafnvel þótt undanþágur fengjust við lok aðlögunarferlisins, sem auðvitað væru ætlaðar sem agn fyrir þing og þjóð, þá yrðu þær haldlausar síðar meir, ef einhver aðildarþjóðanna mundi kæra þær til Evrópudómstólsins, sem dæmir jafnan stranglega eftir stofnsáttmálum ESB.  Þar með væri fjöregg þjóðarinnar dæmt í útlegð til Brüssel, og Alþingi og ríkisstjórn í Reykjavík yrðu að lúta boðvaldi þaðan, t.d. varðandi nýtingu lands og sjávar.

Af þessum sökum öllum leggst Alþingi með eindæmum lágt nú að láta bjóða sér framhald þessa ólýðræðislega ferlis, sem Samfylkingin keyrir nú fram af offorsi gegn vilja allra hinna stjórnmálaflokkanna.  Það er skammarlegt út á við og slæm framkoma við ESB að halda því uppi á snakki af algjörri sýndarmennsku og bruðla þannig með fé skattborgaranna, sem í þokkabót er tekið að láni.  Sannast þar enn, að ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms er siðlítil og ábyrgðarlaus.

Sigfusson, Steingrimur JÞað virðist bera brýna nauðsyn til að auka veg Alþingis og sjálfstæði gagnvart framkvæmdavaldinu.  Almennara má orða þetta svo, að gera þurfi sérstakar ráðstafanir í Stjórnarskrá til eflingar þrígreiningar ríkisvaldsins og til eflingar gagnkvæmu aðhaldi. 

Aukin valddreifing og gagnkvæmt aðhald allra þriggja greina ríkisvaldsins er nauðsyn í okkar fámenna þjóðfélagi, þar sem tilhneiging er til valdsamþjöppunar, klíkuskapar og annarra meinsemda lítils kunningjasamfélags.  Þá er alkunna, að staða forsetaembættisins er óljós og hálfutanveltu í fámennu íslenzku þjóðfélagi. 

Til mótvægis þessum veikleikum og áhættuþáttum mætti slá tvær flugur í einu höggi og sameina embætti forseta lýðveldisins og forseta Alþingis.  Forseti Alþingis yrði með öðrum orðum kosinn beint af þjóðinni samhliða Alþingiskosningum og mundi við það öðlast visst sjálfstæði frá stjórnmálaflokkunum, og hann mundi veita Alþingi forystu um aðhald að ríkisstjórn, þar sem ráðherrar gegndu ekki þingmennsku og hann hefði ekki atkvæðisrétt.  Til að lög öðluðust gildi yrði forsetinn að undirrita þau, og hann gæti synjað lögum staðfestingar þar til þjóðin hefði greitt um þau atkvæði.  Viðbótarleiðir til að framkalla þjóðaratkvæði væru tilmæli 20 þingmanna til forseta um slíkt, sem hann féllist á, eða undirskriftir 20 % atkvæðisbærra manna, sem skilmálalaust gætu framkallað þjóðaratkvæði. 

 

Til greina kemur að fækka þingmönnum um 14, að ráðherrarnir verði 7 og að komið yrði upp Stjórnlagadómstóli 7 manna.  Þangað yrði hægt að vísa til úrskurðar deilum um það, hvort samningar ríkisstjórnar, lög þingsins eða dómar Hæstaréttar brytu í bága við Stjórnarskrá landsins. Forseti Alþingis og forseti Hæstaréttar mundu skipa þessa 7 dómara.  Í Hæstarétt mundi Forseti Alþingis skipa að fengnum tillögum innanríkisráðherra og Hæstaréttar.   

Nýkjörið stjórnlagaþing þarf að leggjast undir feld og velta fyrir sér fjölmörgum öðrum mikilvægum málum, er varða stjórnun ríkisins, kjördæmaskipan, kosningafyrirkomulag, og rétt minnihluta.  Eitt af þessu er að móta reglur um með hvaða hætti Stjórnarskrá verður breytt í framtíðinni.  Það má hugsa sér, að frumkvæðið gæti komið frá forseta Alþingis eða Alþingi, sem mundu senda tillögu Stjórnlagadómstóli til umsagnar og síðan þjóðinni til staðfestingar eða synjunar.   

Þorvaldur GylfasonEitt er þó víst, að núverandi Stjórnarskrá verður ekki breytt með öðrum reglum en þeim, sem hún sjálf mælir fyrir um.  Það er ótrúleg hegðun að hálfu þess stjórnlagaþingmanns, sem myndin hér til hliðar er af, að hreyta því í Alþingismenn, að þeir skuli senda tillögur stjórnlagaþings óbreyttar og umsvifalaust í þjóðaratkvæðagreiðslu.  Það mega Alþingismenn ekki gera, því að Stjórnarskráin kveður á um, að tvö Alþingi þurfi til að samþykkja Stjórnarskrárbreytingu og Alþingiskosningar á milli.  Var þetta alveg ótrúlegt frumhlaup að hálfu prófessorsins og lofar ekki góðu um framhaldið. 

Þetta var með eindæmum hrokafull hegðun í ljósi þess, að líta má svo á, að meirihluti þjóðarinnar sé á móti því að setja þetta stjórnlagaþing á laggirnar nú, þar sem hann hunzaði kosningarnar.  Úr því að stjórnlagaþing er nú samt að taka til starfa ber að brýna fyrir því auðmýkt gagnvart því mikilvæga starfi, sem fulltrúarnir 25 eru nú að takast á herðar, og það verður að vona, að lýðskrum víki fyrir íhygli og vönduðum vinnubrögðum.  Niðurstaðan verði innviðum lýðveldisins til eflingar að beztu manna yfirsýn.

         

   


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband