Adam Smith og Karl Marx

Síðdegis mánudaginn 28. júlí 2014 hélt Rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt, RNH, ásamt Samtökum skattgreiðenda, fund um frelsi.  Fyrirlestur á fundinum hélt Robert Lawson, prófessor við háskóla í Dallas/Texas.  Prófessor Lawson er mjög fær fyrirlesari og fangaði athygli fjölmenns hóps fundarmanna af báðum kynjum á breiðu aldursbili.  Eiga aðstandendur fundarins þakkir skildar.

Prófessor Lawson gat þess í byrjun, að nærfellt um tveggja alda skeið hefðu menn þráttað um, hvor þeirra kenningasmiðanna, Adam Smith eða Karl Marx, hefði haft á réttu að standa.  Adam Smith hélt því fram, að þjóðum (öllum stéttum) vegnaði betur, ef ríkisafskipti af atvinnulífinu væru í lágmarki og launþegar fengju að halda sem mestu eftir af umsömdum launum sínum, þ.e. skattar og önnur skyldugjöld væru lágir, og aðeins notaðir til að fjármagna það, sem ríkið væri betur fallið til að sjá um en einkaframtakið, s.s. löggæzlu og landvarnir. 

Ef menn legðu sig fram og stæðu sig vel í samanburði við aðra á markaðinum, mundu þeir að sönnu auðgast, en sá auður mundi fyrr en seinna hríslast um samfélagið og gera það allt auðugra en ella.  Ríkisvaldið hefði engan siðferðilegan rétt til að hlutast til um aðra dreifingu auðsins en þá, sem ákveðin er á markaðinum, enda væru slík inngrip hins opinbera líkleg til að virka letjandi á einkaframtakið, þannig að verðmætasköpun yrði minni en ella og þar með minni hagvöxtur. 

Heildin hlyti að líða fyrir ríkisafskipti.  Þetta þykir ýmsum liggja í augum uppi, þegar horft er til sögunnar, en ekki eru allir á sama máli.  Jafnvel þó að þeir séu á sama máli um hagvöxtinn, þá segja þeir sem svo, að ríkið þurfi að hafa afskipti af tekjudreifingunni í nafni réttlætisins.  Þetta réttlætishugtak er hins vegar afstætt, og það er erfitt að henda reiður á réttlætinu í því að rífa meira en aðra hverja krónu af ungu fólki, sem í sveita síns andlitis stritar við að koma sér þaki yfir höfuðið, svo að dæmi sé tekið.  

Karl Marx hélt því á hinn bóginn fram, að hefta yrði einkaframtakið verulega með miðstýrðu ríkisvaldi, sem skyldi sjá um, að allir legðu sitt að mörkum til samfélagsins eftir getu og fengju til baka frá samfélaginu eftir þörfum.  Auðvaldskerfið mundi leiða til ringulreiðar, og hin sögulega þróun mundi óhjákvæmilega leiða til falls þess, og framleiðslutækin mundu þá falla í hendur sameignarsinna, sem mundu beita þeim án gróðavonar einungis til að uppfylla þarfir samfélagsins. 

Þessi kenning reyndist alger hugarburður, og hefur ekki reynzt unnt að koma henni á með lýðræðislegum hætti, heldur hafa fylgjendur hennar brotizt til valda með ofbeldi og alls staðar myndað ógnarstjórn, þar sem þeir hafa náð völdum.  Alræði öreiganna hefur alls staðar orðið að fátæktarfangelsi.  

Í upphafi 20. aldar var mynduð lýðræðisútgáfa af Marxisma, jafnaðarstefnan, "socialdemokrati", en hún endar alltaf með að keyra viðkomandi samfélag í þrot með stöðnun hagkerfisins af völdum hárra og stigvaxandi ("progressive") skatta, sem letja til vinnu og hvetja til undanskota, og lamandi skuldasöfnunar hins opinbera, af því að fjárþörf hins opinbera vex stjórnlaust.   

Nú má auðvitað horfa þannig til sögunnar og athuga, hvort auðvaldskerfið eða sameignarkerfið hafi gefizt þjóðum betur.  Ef t.d. afkoma almennings í löndum Vestur-Evrópu og Austur-Evrópu í Kalda stríðinu, þegar Járntjaldið skildi þessar þjóðir að og þær tókust á á stjórnmálavettvangi, er borin saman, þá mundi huglægt mat flestra verða, að auðvaldskerfið hafi borið sigurorð af sameignarkerfinu, enda varð hið síðar nefnda siðferðilega og fjárhagslega gjaldþrota. Það hafði hreinlega ekki efnahagslega burði til að keppa við auðvaldið og var jafnframt siðferðilega gjaldþrota, þefandi upp úr hvers manns koppi með fjölmennri leyniþjónustu og skjótandi flóttamenn á landamærum.

Þessi fallframmistaða nægir samt ekki öllum, eins og sjá má af skaranum á vinstri kantinum, sem enn heldur þar til af hugsjónaástæðum og telur þjóðfélagsmálum betur fyrir komið með forsjárhyggju, þar sem stjórnmálamenn með vissum hætti eru í hlutverki barnfóstra.  Það er ekki tilviljun, að slíkir þiggja margir laun úr ríkissjóði, og þeir eru einnig fjölmennir á fjölmiðlum og í menntakerfinu.      Er jafnan viðkvæðið hjá slíkum, að réttlætið sé vinstra megin í stjórnmálunum.  Ekkert er þó fjær lagi en að þjóðfélagslegt réttlæti eigi heima í höndum stjórnmálamanna, sízt af öllu þeirra, sem þenja vilja út opinbera geirann til að geta ráðskazt með sem mest fjármagn skattgreiðenda og endurúthlutað verðmætum á formi alls kyns fyrirgreiðslu og bóta, sem síðan eiga að tryggja þeim atkvæði bótaþeganna og völdin.  Siðblindan býr vinstra megin væri nær að segja, og hún er tilætlunarsöm: "Allt þitt er mitt", er viðkvæðið. 

Robert Lawson hefur safnað saman miklum tölfræðilegum gögnum og sýnt berlega fram á mikla, nánast einhlíta, fylgni á milli atvinnufrelsis og velmegunar allra stétta.  Hann notar 5 mælikvarða á atvinnufrelsi, þ.e.:

  1. umsvif ríkisins, ríkisafskipti, þ.e. lága skattheimtu, 
  2. traustan lagagrundvöll eignarréttar og skilvirkt og sjálfstætt dómsvald. 
  3. Heilbrigt peningakerfi.
  4. Frelsi til alþjóðlegra viðskipta
  5. Regluverk hins opinbera  

Þjóðir í efsta fjórðungi atvinnufrelsis höfðu að jafnaði þjóðartekjur á mann USD 36.466 árið 2011, en þjóðir í neðsta fjórðungi atvinnufrelsis höfðu USD 4.382.  Meðalaldur er 79,2 ár í efsta fjórðungi atvinnufrelsis og 60,2 ár í þeim neðsta.  Röð landanna eftir atvinnufrelsi er þessi í efsta hluta:

  1. Hong Kong
  2. Singapúr
  3. Nýja Sjáland
  4. Sviss
  5. Sameinaða arabíska furstadæmið
  6. Máritíus
  7. Finnland
  8. Bahrain
  9. Kanada
  10. Ástralía
  11. Chile
  12. Bretland
  13. Jórdanía
  14. Danmörk
  15. Tævan
  16. Eistland
  17. Bandaríkin
  18. Kýpur
  19. Þýzkaland
  20. Írland

Svíþjóð er nr 29, Noregur nr 31, og Ísland er nr 41. 

Það er gjarna viðkvæði vinstri manna, að þjóðfélagsfyrirmynda sé að leita á Norðurlöndunum.  Það kemur hins vegar í ljós, að eftir fjagra ára óstjórn vinstri manna á Íslandi hefur Ísland hrapað niður fyrir öll Norðurlöndin (Færeyjar og Grænland eru ekki í þessari upptalningu) í atvinnufrelsi.  

Undir borgaralegri ríkisstjórn erum við tekin að potazt aðeins upp aftur.  Það er sem sagt meira atvinnufrelsi á hinum Norðurlöndunum en á Íslandi.  Samkvæmt orðbragði vinstri manna er þá meira þjóðfélagslegt óréttlæti þar en hér.  Gaspur þeirra er auðvitað algerlega marklaust hjal, enda eru þeir málsvarar fallvaltrar þjóðfélagsstefnu, sem skortir svör við vandamálum nútímans, af því að hún er trénuð.   

Það er alveg ljóst, hvaða leið ber að fara til að efla hagsæld á meðal almennings á Íslandi ?  Það er sú leið, sem lyftir okkur upp úr 41. sætinu á kvarða atvinnufrelsis og upp fyrir hin Norðurlöndin.    

     

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband