Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Vegakerfi í molum

Vegagerðin stendur frammi fyrir gríðarlegri endurbóta- og viðhaldsþörf á megninu af þjóðvegum landsins.  Ástæðurnar eru 2:  Umferðin, sérstaklega þungaumferðin, er meiri en vegirnir þola, og þeir eru of þröngir.  Hvort tveggja gerir vegakerfið hættulegra en ásættanlegt er, og þess vegna þarf þjóðarátak til að endurbæta vegakerfi landsins.  Á sama tíma er ekki hægt að ráðast í gagnslaust gæluverkefni Samfylkingar og pírata í Reykjavík, sem kallað er Borgarlína og er í raun stalínísk byltingartilraun samgönguhátta á höfuðborgarsvæðinu frá einkabílnum til almenningsvagna, sem ætlunin er að staðsetja á sérakreinum miðlægt á núverandi vegstæði.  Engin spurn er eftir þessari rándýru þvingunartilraun á meðal í íbúa höfuðborgarsvæðisins, og hæpið er að halda því fram, að stjórnmálaflokkar í meirihluta sveitarstjórna hafi í sveitarstjórnarkosningum fengið umboð kjósenda til að standa að þessari hönnun og framkvæmdum. Þetta er nægilega stórt (dýrt) og afdrifaríkt mál til að réttlætanlegt sé að fara út í íbúakosningu um málið í hverju sveitarfélaganna.  Verður þá að ganga tryggilega frá því, hversu mikil þátttakan þarf að vera, til að niðurstaðan verði bindandi fyrir stjórnmálamennina.  Kjósa mætti um 3 kosti: 

a) miðjusettar sérreinar, ein í hvora átt

b) hliðsettar sérreinar til hægri 

c) hvorugur ofangreindra kosta

 Þann 2. júlí 2024 birtist fróðleg grein í Morgunblaðinu um þessi mál eftir Bjarka Jóhannesson, skipulagsfræðing, verkfræðing og arkitekt:

 "Þjóðvegir eða borgarlína".

Hún hófst þannig:

"Banaslys á þjóðvegum landsins eru of mörg, og nýverið voru á þeim 2 alvarleg rútuslys.  Framkvæmdastjóri Vörumiðlunar, sem rekur flutningabíla á Sauðárkróki, segir í viðtali við Morgunblaðið 22. júní [2024], að "ástand þjóðveganna sé mjög slæmt.  Undirlag fjölförnustu leiða sé mjög veikt, og í sumum tilvikum sé aðeins mulningur ofan á moldinni.  Hringvegurinn sé ónýtur að stórum hluta, alveg frá Hvalfjarðargöngum.  Vegir séu að gefa sig undan þunga, og grjótkast sé víða vandamál."

Orsök lélegs vegundirlags liggur í því, að að klæðning er notuð sem bundið slitlag á 90 % af íslenzkum þjóðvegum í stað malbiks.  Klæðningin er malarslitlag með olíublönduðu asfalti.  Umferðin er látin þjappa niður lausamölina með tilheyrandi steinkasti."

Undirlag mikils hluta veganna er of veikt m.v. við núverandi og framtíðar umferðarálag, þar sem tekið er tillit til fjölda öxla og öxulþunga, en álagið fylgir öxulþunga í 4. veldi.  Þess vegna munar um alla þungaflutninga, sem fara sjóleiðina, til að létta á þjóðvegunum.  M.v. útlit veganna er líklegt, að álagið á þá sé víða komið yfir hönnunarmörk, og breiddin er víða undir mörkum, sem Evrópustaðlar gefa.  

"Þrátt fyrir þetta er í tillögu að samgönguáætlun 2024-2040 gert ráð fyrir kostnaði ríkisins við svo nefnda borgarlínu upp á mrdISK 80 á næstu 10 árum.  Með upp gefnum óvissustuðli allt að 70 % fer upphæðin í tæpa mrdISK 130.  

Ég hef áður skrifað, að hér er verið að kasta peningum út um gluggann, og sýndar hafa verið mun ódýrari lausnir á umferðarvanda höfuðborgarsvæðisins. Þá á eftir að telja þann kostnað, sem fellur á sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins, m.a. við undirbúningsvinnu á hæpnum forsendum og fjáraustur í skrautsamkeppnir um byggð við borgarlínuna."

Það er hægt að taka fyllilega undir þessa hörðu gagnrýni höfundarins, að með opinberum fjáraustri til Borgarlínu er verið að kasta fé út um gluggann, því að engin spurn er eftir verkefninu frá öðrum en stjórnmálamönnum forsjárhyggjunnar undir bumbuslætti Samfylkingarinnar, sem hefur lengi borið þetta gæluverkefni fyrir brjósti.  Gallinn er hins vegar sá, að það leysir ekki umferðarvandann, heldur magnar hann.  Þetta er algerlega óábyrg forgangsröðun fjármuna, sem Kristrún Frostadóttir virðist leggja blessun sína yfir. 

 

 

"Þau rök, sem færð hafa verið fyrir borgarlínunni, eru, að hún muni draga úr notkun einkabílsins og þar með hafa jákvæð umhverfisáhrif.  Hvort tveggja er mjög hæpið.  Þar sem allir armar borgarlínu liggja að miðborginni, er líklegt, að notkun hennar miðist að langmestu við ferðir þangað til og frá vinnu og skóla kringum kl. 9 og 16."

Með núverandi vali á legu Borgarlínunnar er líklegt, að hana dagi uppi sem eins konar steintröll, því að svo getur farið, að ferðum í og úr vinnu í miðborginni muni fækka í framtíðinni vegna þróunar á vinnumarkaði.  

 

 

"Forsvarsmenn borgarlínu gera ráð fyrir, að 12 % samgangna á höfuðborgarsvæðinu fari um borgarlínuna.  Það er ofmetið, og með mikilli bjartsýni má kannski hugsa sér, að 12 % ferða til og frá sjálfri miðborginni yrði með borgarlínunni og heildarhlutur allra ferða á höfuðborgarsvæðinu í mesta lagi um 2 %."

  Höfundur þessa vefseturs telur líklegra, að heildarhlutur borgarlínu í ferðum höfuðborgarsvæðisins verði nær 2 % en 12 % m.v. ferðahegðun Íslendinga og íbúa í sambærilegum borgum erlendis, ef farið verður í nokkrar framkvæmdir til að liðka fyrir almennri bílaumferð, sem líklegt er, að ákall verði senn um frá íbúunum.  Þá liggur í augum uppi, að fjárfestingar fyrir borgarlínu Samfylkingarinnar eru fásinna og elgerlega út úr korti á tímum æpandi fjárþurrðar til framkvæmda og viðhalds stofnvega landsins, þar sem s.k. "innviðaskuld" gæti numið allt að mrdISK 300. 


Dýr misskilningur íslenzkra embættismanna

Þegar Evrópusambandið (ESB) setur í reglugerðir sínar og tilskipanir, að þær skuli ekki gilda eða gilda í vægari mæli um fyrirtæki undir ákveðinni stærð, t.d. m.v. veltu í EUR/ár eða ársverkum, þá halda íslenzkir embættismenn, sem véla um innleiðingu þess, sem frá Sameiginlegu EES-nefndinni í Brüssel kemur til viðkomandi ráðuneytis, að þeir eigi að staðfæra fyrirtækjastærðina með einhverju ótilgreindu hlutfalli af íbúafjölda Íslands og meðalíbúafjölda í aðildarlöndum ESB.  Hér er grundvallar misskilningur á inntaki gerðanna á ferðinni.  Stærð fyrirtækja er ekki afstæð eftir löndum.  Hún er algild, því að alls staðar gilda sömu lögmál um hagkvæmni stærðarinnar.  Búrókratar í Brüssel hafa fyrir löngu gert sér grein fyrir, að það er hægt að leggja meiri skriffinnsku byrðar á stór fyrirtæki en smá án þess að skekkja samkeppnisstöðuna verulega við lönd utan við "Festung Europa".  

Íslenzkir embættismenn lifa margir hverjir í tómarúmi við sitt skrifborð og bera ekki skynbragð á það, sem að atvinnurekstri í samkeppni snýr, enda er samkeppnisstaða íslenzkra fyrirtækja sú lakasta á Norðurlöndunum og þó víðar væri leitað.  Brýnt er að snúa þessu við m.a. með endurhæfingu embættismannageirans hjá ríki og sveitarfélögum í þá veru að styrkja fremur samkeppnisstöðu fyrirtækjanna en hitt.  Auðvitað þyrftu verkalýðsforkólfar og stjórnmálamenn á slíkri endurhæfingu að halda líka.  

Dóra Ósk Halldórsdóttir birti Sviðsljóssgrein í Morgunblaðinu 19. júní 2024 um efnið undir fyrirsögninni:

"Gullhúðun beitt án eðlilegs rökstuðnings".

Hún hófst þannig:

""Það er gífurlegt hagsmunamál fyrir okkur Íslendinga, að það sé ekki verið að gullhúða EES-gerðir, nema til þess beri brýna nauðsyn", segir Brynjar Níelsson, lögmaður og formaður starfshóps um aðgerðir gegn gullhúðun EES-gerða, en skýrsla á vegum hópsins var birt í gær á vef utanríkisráðuneytisins.  Auk Brynjars voru í starfshópnum dr Margrét Einarsdóttir, prófessor í Háskólanum í Reykjavík, og María Guðjónsdóttir, lögfræðingur Viðskiptaráðs.  

Ástæða þess, að starfshópurinn var stofnaður, var langvarandi umræða og gagnrýni á s.k. gullhúðun, þegar EES-gerðir voru staðfestar í landsrétt og gengið lengra en lágmarkskröfur EES gerðu ráð fyrir.  

"Það þurfti að fara yfir þetta, því [að] í mörgum tilvikum virtust hvorki hagsmunaaðilar né þingmenn hafa nægar upplýsingar um það, þegar verið var að gera löggjöfina meira íþyngjandi en hún þyrfti að vera", segir Brynjar."

Það er algerlega forkastanlegt, að einhverjir embættismenn smygli sérskoðunum sínum og túlkunum inn í lagatexta. Þetta er svo ólýðræðislegt atferli, að það getur varla verið löglegt.  Þetta sýnir í hnotskurn, hvers konar vinnubrögð viðgangast í ráðuneytunum og stofnunum ríkisins.  Er þar smákóngaveldið ríkjandi ? Það eru víða vargarnir, sem gera sér leik að því að leggja stein í götu atvinnurekstrar, hvenær sem þeir fá tækifæri til. 

Til að komast að rótum vandans, þarf að grafast fyrir um, hverjir hafa gert þetta og taka þessi verkefni af þeim.  Annars er hætt við, að ósóminn haldi áfram, því að hvorki þingmenn né ráðuneytisstjórnendur virðast gera nokkra gangskör að því að bera saman frumtextann og þann, sem hér er leiddur í lög. 

""Þetta er umfangsmeira en menn átta sig á, og rökstuðningur ásamt mati á áhrifum gullhúðunar er mjög takmarkaður og stundum enginn", segir Brynjar og bætir við, að það sé lágmarkskrafa, að fyrir liggi góður rökstuðningur, ef EES-gerðir eigi að vera meira íþyngjandi en þær þurfi að vera. 

"Ef við ætlum að gullhúða á annað borð, þarf að vera tilgangur með því, sem er til góðs, en ekki að setja íþyngjandi reglur og tilheyrandi kostnað á fyrirtæki, sem hefur íþyngjandi áhrif á markaðsstöðu þeirra í samkeppni við fyrirtæki í Evrópu." 

Í því sambandi segir Brynjar, að sumar innleiðingarnar vísi til mjög stórra fyrirtækja, en í mörgum tilvikum hafi þær verið færðar á smærri fyrirtæki hérlendis.  "Við getum ekki verið að gera strangari kröfur til okkar fyrirtækja en þörf krefur.  Það veikir samkeppnisstöðu okkar að láta lítil og meðalstór fyrirtæki sæta reglum, sem sambærileg fyrirtæki í Evrópu búa ekki við.  En það er eins og okkur þyki eitthvað göfugt við að gera enn strangari kröfur til okkar fyrirtækja og okkar atvinnulífs." 

Hann bætir við, að til samanburðar hafi Bretar haft það sem meginreglu, þegar þeir voru í ESB, að það sé ekki heimilt að gullhúða, nema alveg sérstakar aðstæður krefjist þess."

Það er fullkominn barnaskapur, ef ekki heimska, af íslenzkum embættismönnum og/eða stjórnmálamönnum að láta sér detta í hug að breyta inntaki gerða ESB til að leggja ósanngjarnar sérkröfur á íslenzkt atvinnulíf og þar með á íslenzkan almenning.  Auðvitað hefst vitleysan hjá íslenzku fulltrúunum í Sameiginlegu EES-nefndinni í Brüssel.  Ef þeir hefðu staðið í stykkinu, hefðu þeir bókað, að viðkomandi gerð ætti ekki við að svo stöddu á Íslandi, eða ætti aðeins við tiltekinn lítinn fjölda fyrirtækja.  Þar með hefðu illa áttaðir ráðuneytismenn hér síður dottið í þá gryfju að breyta inntakinu til að aðlaga gerðina að íslenzkum aðstæðum.  Hvernig háttar þessu til í öðrum fámennum löndum EES ?  Hefur nokkrum embættismanni/stjórnmálamanni þar dottið í hug að fara "íslenzku leiðina" í þessu máli ?  Þegar mál af þessum toga koma upp, renna á mann 2 grímur um það, hvort íslenzka stjórnkerfið sé nægum hæfileikum búið til að gæta hagsmuna þjóðarinnar í alþjóðlegu samstarfi.  Í þeim efnum reynir jafnan mest á utanríkisráðuneytið. 

 "Starfshópurinn leggur til, að allur ramminn í kringum innleiðingu EES-skipana verði gerður skýrari og að krafizt sé rökstuðnings og mats á áhrifum [breyttrar] innleiðingar á samkeppnisumhverfi landsins, þannig að gullhúðun gerist ekki án þess, að fjallað hafi verið sérstaklega um hana á öllum stigum og upplýst ákvörðun hafi verið tekin í hverju tilviki, byggð á því, að gullhúðunin sé til bóta, en ekki íþyngjandi.

Brynjar segir, að í ljósi þess, að gullhúðun fer frekar vaxandi en hitt, sé mikilvægt, að það sé öllum ljóst, hvers vegna henni sé beitt, og þess vegna þurfi öll umgjörð að vera mjög skýr og einföld.  "Við höfum skilað af okkur þessari skýrslu með tillögum um, hvernig hægt sé að gera þetta ferli skýrara, en núna er boltinn hjá Alþingi.""

Það er svo mikið í húfi hér fyrir lífskjör þjóðarinnar, að réttast væri að setja refsiákvæði í væntanleg lög um innleiðingar gagnvart því, að einhverjir pótintátar smygli gullhúðun inn umræðulaust.  Í raun er það sálfræðilegt viðfangsefni að komast að því, hvers vegna menn finna hjá sér þörf til að leika landa sína grátt.  Það er síðan með eindæmum og falleinkunn fyrir viðkomandi ráðuneytisstarfsmenn, að gullhúðun skuli fara vaxandi.  Starfsmenn, sem að þessu vinna, þarfnast endurhæfingar. Það hefur komið fram opinberlega sjónarmið um, að málið sé stórt og knýjandi og réttast væri, að forsætisráðherra gerði að því gangskör, að þegar á haustþingi 2024 verði gerðar stjórnsýslulegar endurbætur til leiðrétta mistök fortíðar og girða fyrir frekari mistök á þessu sviði. Undir það skal taka.

 


Orkuskortur, hagvöxtur og úrræði

Tap þjóðarbúsins vegna skerðinga á ótryggðri raforku í vetur olli svo mikilli tekjuskerðingu, að áhrif hefur á niðurstöðu útreikninga á hagvexti.  Kemur þetta ofan í tekjutap af loðnubresti, sem gæti hafa numið mrdISK 40, og makríllinn er hættur að birtast.  Starfandi rekstur iðnaðarins varð fyrir alls tæplega mrdISK 20 tekjutapi, og starfsemi, sem ekkert varð af vegna orkuleysis, hefði getað skilað svipaðri upphæð.  Þarna er um að ræða um 1 % af vergri landsframleiðslu.  Nú er komið fram frumvarp á Alþingi, sem Teitur Björn Einarsson, þingmaður sjálfstæðismanna, mælir fyrir og mun stytta málsmeðferðartíma leyfisveitenda umtalsvert.  

Frétt birtist í Morgunblaðinu 17. maí 2024 undir fyrirsögninni:

"Mikið tap vegna skerðinga á raforku".

Hún hófst þannig:

"Talið er, að á fyrstu mánuðum þessa árs [2024] hafi tapazt mrdISK 14-17 útflutningstekjur vegna skerðingar Landsvirkjunar á raforku [að söluandvirði um mrdISK 2,0 innsk. BJo].  Þetta kemur fram í nýrri greiningu Samtaka iðnaðarins, sem byggð er á mati stjórnenda fyrirtækja í orkusæknum iðnaði.  Þeir telja, að á bilinu mrdISK 14-17 útflutningstekjur þjóðarbúsins hafi tapazt á þessum tíma vegna raforkuskerðinganna, en slakur vatnsbúskapur leiddi til þess, að Landsvirkjun gat ekki framleitt nægilega raforku, eins og fram hefur komið."

 

"Í ljós kemur, að tapið er mest hjá álverunum.  Er það metið á bilinu mrdISK 9-10, en það er um 2,8 % - 3,2 % af útflutningstekjum áliðnaðarins á seinasta ári.

Bent er á, að skerðingarnar hafa bein áhrif til lækkunar tekna, en einnig óbein vegna [neikvæðra] áhrifa þeirra á viðskiptasamninga.  Þessu til viðbótar fylgi skerðingunum aukinn kostnaður m.a. vegna þess, að skerðingarnar stytta líftíma fjárfestinga í kerum."

Þjóðarbúið verður á árinu 2024 fyrir tilfinnanlegum efnahagslegum höggum, sem numið geta alls mrdISK 160 eða um 4,6 % af VLF, þegar taldir eru saman loðnubrestur, orkubrestur og ferðamannabrestur.  Þetta mun valda samdrætti hagkerfisins m.v. 2023, sem hlýtur að keyra niður verðbólguna og valda auknu atvinnuleysi.    

 

 

"Þögn verði sama og samþykki":

"Komið er fram frumvarp á Alþingi um breytingar á lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana og skipulagslögum til þess að koma í veg fyrir óhóflegar tafir á framkvæmdum vegna seinagangs í kerfinu. 

Þar er sú nýlunda helzt, að umsagnaraðilar verði að virða tímafresti laga, sem ekki verði meiri en 8 vikur.  Berist ekki umsögn áður en frestur rennur út, skuli líta svo á, að viðkomandi stofnun samþykki efnislega umsóknina, sem til hennar var beint, eða telji ekki ástæðu til að bregðast við með umsögn; að þögn sé sama og samþykki."

 Þetta er þarfasta frumvarpið, sem sézt hefur á Alþingi um háa herrans tíð, enda hefur ekkert til þess spurzt.  Er þess að vænta, að flutningsmaðurinn, hinn ötuli þingmaður Sjálfstæðisflokksins Teitur Björn Einarsson, láti ekki deigan síga, þótt afturhaldið hafi vafalaust prjónað, þegar það leit raunverulegt framfaramál augum.   

 

  

  

 

 


Sérstaða Vestfirðinga í orkumálum

Vestfirðingar njóta ekki teljandi jarðhita og eru þess vegna nánast alfarið háðir raforku á sviði nýtingar endurnýjanlegra orkulinda landsins.  Þetta er svipuð staða og Austfirðingar búa við, en mismunurinn er sá, að hinir síðarnefndu búa við öfluga vatnsaflsvirkjun, 690 MW, og hringtengingu við stofnkerfi landsins. 

Núverandi aflþörf Vestfirðinga er a.m.k. 44 MW og vex hratt. Vatnsaflsvirkjanir á Vestfjörðum gefa nú 21 MW afl, þegar bezt lætur.  Þá vantar 23 MW um vetrartímann, þegar veður mæða mest á Vesturlínu, og hún lætur oft undan.  Það er gjörsamlega óviðunandi, hversu oft á ári íbúar og gestir Vestfjarða þurfa að sitja í myrkrinu.  Alþingismenn vita þetta.  Sumir kæra sig kollótta, og hinir láta orðin tóm duga.  Þetta er óskiljanlegt ábyrgðarleysi. 

Þann 4. maí 2024 birtist frétt í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:

"Orkuskortur hrjáir Vestfirðinga".

  "Jarðhitaleit á Vestfjörðum hefur litlu skilað enn sem komið er, ef frá er talinn jarðhiti, sem fannst á Drangsnesi, sem ætlað er, að geti þrefaldað afköst hitaveitunnar á staðnum.  Orkusjóður greiddi tæpar MISK 20 í styrk til jarðhitaátaksins þar, þess fyrsta á öldinni."

Doði í jarðhitaleitinni er dæmi um það algera fyrirhyggjuleysi, sem ríkir í orkumálunum.  Orkustofnun ætti auðvitað að vera í fararbroddi við að leggja drögin að orkuöflun með rannsóknum, þótt orkufyrirtækin sjái um virkjunarstig og rekstur.  Orkustofnun virðist ekki vera þannig mönnuð, að hún sé í stakk búin til að sýna merkilegt tæknilegt frumkvæði.  Æðsti koppur þar hefur ekki meiri áhuga á starfinu en svo, að hún flúði í forsetaframboð, þar sem hún dreifði um sig frösum og froðusnakki. Henni virðast vera mislagðar stjórnunarhendur, því að framboði hennar hafa orðið á 2 fingurbrjótar. Það er allt á sömu bókina lært. Almennilegar hugsjónir og verklega þekkingu vantar.  Samt þenur Orkusetur, sem er á snærum Orkustofnunar, sig yfir því, að orkuskiptin skuli hafa staðnað. Það er ekki hægt í raunheimum að geyma kökuna og éta hana.  

"Nýjar vatnsaflsvirkjanir í nýtingarflokki rammaáætlunar eiga talsvert í land, en þar er einkum horft til Hvalárvirkjunar, sem samþykkt var í öðrum áfanga rammaáætlunar árið 2013, og Austurgilsvirkjunar, sem samþykkt var í 3. áfanga 2022. Þó eru horfur á, að úr rætist með Hvalárvirkjun á næstu árum, en HS Orka vinnur að undirbúningi virkjunarinnar og stefnir að því að sinna skipulagsmálum og verkfræðivinnu á þessu ári [2024].  "Vonandi getum við hafið framkvæmdir í lok næsta árs", segir Tómas Már Sigurðsson, forstjóri fyrirtækisins í samtali við Morgunblaðið.  Gangi það eftir, gæti orkuframleiðsla hafizt árið 2029."

Vonandi ganga þessi áform eftir, því að hvorki Vestfirðingar né aðrir landsmenn mega við frekari töfum á verkefnum, sem uppræta munu þá ósvinnu að þurfa að brenna olíu á Íslandi til að framleiða rafmagn eða heitt vatn.  Kostnaðurinn af þessu er þó aðeins brot af tekjutapinu, sem hlotizt hefur af glötuðum tækifærum til verðmætasköpunar og atvinnusköpunar.  Þá eru 2030 - markmiðin um losun gróðurhúsalofttegunda gjörsamlega komin í vaskinn, og mun það ástand skapa þjóðinni gríðarlegan kostnað, sem skrifa verður á kostnað hégómagirni forsætisráðherrans, Katrínar Jakobsdóttur.

"Á meðan þannig háttar til, að Orkubú Vestfjarða sætir skerðingum frá Landsvirkjun, er fyrirtækið nauðbeygt til að framleiða rafmagn með með dísilolíu með tilheyrandi taprekstri."

Þetta er mótsögn aldarinnar.  Silkihúfur státa af "hreinni" orku Íslands, en það má helzt ekki virkja hana til að efla velsæld í landinu og draga úr losun koltvíildis.  Hvers konar sálarháski og meinlokur eru hér eiginlega á ferðinni ?  Hér hefur angi sjálfseyðingarhvatar náð undirtökunum með mjög alvarlegum fjárhagslegum, umhverfislegum og félagslegum afleiðingum.  Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, hefur það ekki einvörðungu á sínum svarta lista að hafa saltað umsókn Hvals hf um veiðileyfi á tilgreindum hvölum ofan í skúffu í matvælaráðuneytinu, þegar hún var þar í vetur, heldur beitti hún sér þannig sem forsætisráðherra, að hún hefur kallað stórfelldan orkuskort yfir þjóðina með viðeigandi hörmungum.  Að verðlauna hana síðan sem yfirsilkihúfu Íslands á Bessastöðum væri eftir annarri dauðans dellu og er ekki einu sinni fyndið.

"Á vegum Landsnets er unnið að undirbúningi tengipunkts í Ísafjarðardjúpi um hvern raforku frá Hvalárvirkjun og Austurgilsvirkjun verður miðlað, þegar þar að kemur, og áformar Landsnet, að tengingar verði tilbúnar, þegar þeirra verður þörf, en sú dagsetning er eðlilega óviss, enda framkvæmdir við hvoruga virkjunina hafnar."

Þetta eru góð tíðindi af Landsneti og rós í hnappagat þeirra, sem nú stjórna þar áætlanagerð.  Hvernig áformað er að flytja orkuna til álagspunktsins Ísafjarðar, verður spennandi að sjá.

"Þá hefur Orkubú Vestfjarða farið þess á leit við Guðlaug Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, að aflétt verði friðlýsingarskilmálum á afmörkuðu svæði innan friðlandsins í Vatnsfirði, svo [að] unnt verði að undirbúa þar umhverfismat á 20-30 MW virkjun.  Erindið er til skoðunar í ráðuneytinu.  "Þetta er gott dæmi um, hvernig ástandið er á Íslandi.  Þegar verkefni eru vanrækt í 15-20 ár, er engin töfralausn til", segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

"Það er í forgangi hjá okkur að leysa úr þessum málum, og við munum halda áfram að vinna að lausn þeirra með Vestfirðingum, því [að] ástandið er mjög alvarlegt.  Það er hægt að leysa það, en þá þurfa allir að leggjast á eitt, sveitarfélög, orkufyrirtæki og stjórnvöld", segir Guðlaugur Þór."

  Það er kominn tími til, að þessi ráðherra láti hendur standa fram úr ermum í stað þess að draga lappirnar gagnvart Vestfirðingum og bulla um, að ekkert hafi verið gert í 15-20 ár eða síðan 2004.  Nær væri að segja, að engum stórum orkuframkvæmdum hafi verið hleypt af stokkunum í tíð hans sem orkuráðherra.  Hins vegar komu 3 umtalsverðar virkjanir í gagnið á öðrum áratuginum, og nægir að nefna þar Búðarhálsvirkjun, Þeistareykjavirkjun og Búrfell 2.  

Það er skrýtið, að ekkert skuli heyrast af beiðni Orkubúsins til ráðherrans um Vatnsfjörðinn.  Það er lítilmannlegt, ef ráðherra ætlar að skýla sér á bak við neikvæða umsögn eins sveitarfélags, sem tæplega á mestra hagsmuna að gæta í þessu máli.  

 

  

 

 

 

 


Orkumál Íslendinga í öngstræti

Á tímabilinu 2017-2024 var hér við völd forsætisráðherra, sem fylgdi þeirri línu flokks síns, VG, og útibúsins, Landverndar, að búið sé að virkja nóg á Íslandi.  Hvernig í ósköpunum geta stjórnmálamenn verið svo fullkomlega úr tengslum við samfélag sitt að gera þessa fráleitu fullyrðingu, sem er algerlega úr lausu lofti gripin, að sinni pólitísku möntru ?  Þegar þeim er bent á mótsögnina, sem felst í því annars vegar að nota olíukatla í fiskimjölsverksmiðjum og hitaveitum í stað rafskautakatla, þar sem þeir eru fyrir hendi, og skerða orkuafhendingu ár eftir ár til stórnotenda, þá hrökkva þeir í gamla afturhaldsgírinn, að stjórnvöld geti bara lokað grónum verksmiðjum. 

 Sá er hængurinn á, að þetta geta stjórnvöld ekki gert, því að þessar verksmiðjur eru með lagalega skuldbindandi samninga um orkuafhendingu og margt fleira, sem stjórnvöld í réttarríki geta ekki rift á þeim grundvelli, að þau vilji ekki virkja meira.  Þessir samningar eru heldur ekki að renna út.  Hjá elztu verksmiðjunni gerist það t.d. ekki fyrr en árið 2035.  Hugarfar þeirra, sem láta sér svona lagað um munn fara, er ekki hægt að kenna við lýðræðisríki, sem kennt er við lög og rétt frjálsra ríkja, heldur er hægt að kenna málflutning af þessu tagi við einræði og lögleysu.  Ber það hugarfari þessa hóps ófagurt vitni, enda er málflutningurinn til skammar, hvernig sem á hann er litið.  

Í Morgunblaðinu 16. apríl 2024 birtist neðan Staksteina athyglisverð frétt um orkumál undir fyrirsögninni:

"Virkjanakostir duga ekki til".

"Þeir virkjanakostir, sem eru í rammaáætlun munu ekki duga til að mæta orku- og aflþörf til framtíðar, en í virkjanaflokki áætlunarinnar eru 1299 MW tilgreind og í biðflokki 967 MW til viðbótar.  Samtals gera þetta 2266 MW, en samkvæmt raforkuspá Landsnets mun [viðbótar - innsk. BJo] aflþörfin til ársins 2050 aukast í 3300 MW. 

Þeir virkjanakostir, sem eru í nýtingar- og biðflokki rammaáætlunar, munu því í mesta lagi skila 2/3 þess afls, sem þarf til að mæta [viðbótar] eftirspurn framtíðarinnar.  Í raforkuspánni [réttara er hér að nota hugtakið rafaflsspá] er gert ráð fyrir 135 % aukningu eftirspurnar frá því, sem nú er, til ársins 2050, og því liggi ljóst fyrir, að aukin orkuvinnsla [og uppsett aflgeta - innsk. BJo] verði nauðsynleg til að mæta eftirspurn.  
Án vindorku og annarra breytilegra orkugjafa munu markmið stjórnvalda um orkuskipti og skuldbindingar í loftslagsmálum ekki nást."
 
Það er nú þegar búið að sólunda svo miklum tíma í aðgerðaleysi, að það er kýrskýrt, að markmið stjórnvalda fyrir árið 2030 í þessum efnum eru runnin út í sandinn með afl- og orkuskort og stórfelld útgjöld til kaupa á koltvíildiskvótum í mörg ár sem afleiðingu.  Þetta er kostnaðurinn við að leyfa jaðarstjórnmálaflokki á borð við VG að vera í ríkisstjórn og að vera með meingallaða löggjöf um feril virkjanaumsókna, sem er hönnuð til að auðvelda sérvitringum að henda sandi í tannhjólin.
Orkuskipti munu einfaldlega aldrei ná fram að ganga með þessu framhaldi, en það er hins vegar ótímabært að fullyrða, að grípa verði til þess neyðarbrauðs, sem vindorkan er, til að fullnægja afl- og orkueftirspurn 2050.  Allar rammaáætlanir hafa ekki enn séð dagsins ljós, og landsmenn kunna að þurfa að velja á milli vindorku og vatns- og/eða gufuorkuvera úr orkulindum, sem nú eru í s.k. verndarflokki. Í stuttu máli eru vindknúnu rafalarnir tiltölulega litlir og flæmast yfir víðáttumikil svæði með mjög áberandi hætti með miklum hávaða, raski og mengun, á meðan orkuvinnslugeta vatnsafls- og jarðgufuvirkjana er iðulega 50 sinnum meiri og vel hægt að fella þær að landslaginu, svo að lítið fari fyrir þeim.  Vindorkuver eru þannig stílbrot á Íslandi m.v. þróun verkfræðilegra lausna á sviði virkjana. 
 
"Þetta kemur m.a. fram í nýrri skýrslu Landsnets, þar sem fjallað er um mögulegan ábata af virkum raforkumarkaði."
 
 
Verður raforkumarkaður á Íslandi nokkurn tíma virkur sökum fákeppni og eins ríkisrekins risa á markaði ?  Öll stærstu orkuvinnslufyrirtækin, nema eitt, eru alfarið í opinberri eigu.  Orkuverðið ræðst af meðalvinnslukostnaði fyrirtækjanna.  Mikið af virkum eignum er afskrifað, og stórnotendur borga megnið af heildarkostnaði raforkukerfisins.  Hinn almenni notandi rafmagns og heits vatns nýtur góðs af þessu fyrirkomulagi í lágu orkuverði. 
Dótturfélag Landsnets undirbýr uppboðsmarkað raforku á Íslandi.  Þar mun verðið verða ákvarðað með hliðsjón af jaðarkostnaði á kWh, sem er allt önnur Ella en að ofan er lýst og yfirleitt miklu hærri. Það er vandséð, að slíkur uppboðsmarkaður geti þjónað íslenzkum neytendum, þótt orkufyrirtækin muni maka krókinn.  Vegna samsetningar íslenzka raforkumarkaðarins verður þessi uppboðsmarkaður eins og örverpi í íslenzku umhverfi og á hingað ekki erindi, en Orkureglari Evrópusambandsins á Íslandi (Orkumálastjórinn) mun í krafti löggjafarinnar umdeildu, Orkupakka #3, hafa þrýst á um þessa stofnsetningu.  Hún hlýtur að valda usla, þegar hún kemur til framkvæmdar. 
 
"Þar segir enn fremur, að lokun eins eða fleiri stórnotenda raforku muni ekki duga til að mæta orkuþörf til framtíðar, en virkari þátttaka stórnotenda á raforkumarkaði gæti aftur á móti dregið úr virkjanaþörf. Virk þátttaka þeirra á markaði gæti aukið aflöryggi á hagkvæmari hátt en fjárfesting í afli til að mæta aflþörf."
 
Þetta er fótalaus draumsýn á Íslandi, þótt fyrirkomulagið tíðkist erlendis.  Ástæður þessa munar eru aðallega þessar:  Mest munar hér um álag álveranna, en þau eru viðkvæm fyrir álagsbreytingum, og þær eru þeim dýrkeyptar.  Þau þyrftu þess vegna að fá mjög hátt verð fyrir hvert MW, sem þau láta af hendi, líklega hærra verð en nemur jaðarkostnaði á MW í íslenzka raforkukerfinu, og það er hærra en gildandi verð á markaðinum.  Það eru auðvitað margs konar öðruvísi fyrirtæki á markaðinum, og þau kunna sum hver að vera fús til að láta afl af hendi tímabundið gegn gjaldi, sem rúmast á íslenzka markaðinum, en hversu snögglega þau geta brugðizt við, er annað mál.  Þegar vanda hefur borið að höndum í raforkukerfi landsins vegna bilana, hafa álverin alltaf verið liðleg með  álagslækkanir. 
 
 "Í skýrslunni kemur fram, að núverandi fyrirkomulag raforkuviðskipta sé úr sér gengið, valdi fákeppni og sé hindrun í vegi orkuskipta og skilvirks raforkukerfis, en sú sé niðurstaða starfshóps Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands og Landsnets um orkuöryggi á heildsölumarkaði. Einungis 1/10 hluti raforku fer á virkan heildsölumarkað, og viðskipti milli raforkusala, annarra en Landsvirkjunar, séu nánast engin."
 
 Þetta er nokkuð fálmkenndur texti og vitnar fremur um draumsýn en raunsætt mat á raunveruleikanum.  Það er einmitt sérkenni íslenzka raforkumarkaðarins, að megnið af honum er ákvarðað með tvíhliða langtímasamningum, og það mun ekkert breytast, þótt uppboðsmarkaði verði hleypt hér af stokkunum.  Það er ekki hægt að reka gríðarlega fjárfreka og orkukræfa starfsemi með orkuöryggi undir hælinn lagt frá degi til dags.  Þessum sömu stóriðjusamningum er það að þakka, að almenningur á Íslandi býr við einna bezt raforkukjör í heimi, og að setja þá stöðu í uppnám með orkumarkaði að hætti Evrópusambandsins, þar sem eðli orkumarkaðarins er gjörólíkt okkar aðstæðum, er blinda og jaðrar við að leika sér að óþörfu með fjöregg þjóðarinnar. 
 
Í lokin kemur kafli, sem geimvera gæti hafa samið, sem hvorki þekkir haus né sporð á íslenzka raforkukerfinu og er á engan hátt meðvituð um, að allt um lykjandi vandamál geirans er afl -og orkuskortur vegna virkjanastopps í anda afturhaldsins:
 
"Núverandi fyrirkomulag skapi aðgangshindranir fyrir nýja aðila og standi í vegi nýsköpunar.  Virkari raforkumarkaður skapi aftur á móti tækifæri fyrir nýja aðila til þess að koma inn á markaðinn sem og fyrir þá, sem fyrir eru, til að virkja nýja tekjustrauma með því að veita nýjar tegundir þjónustu.  Hann muni og leiða til nýrra og hagkvæmari lausna."
 
Þetta er fagurgali, girnilegar umbúðir utan um ekki neitt.  Helzt virðist þetta vera áróður fyrir innleiðingu spákaupmennsku með orkuna, einhvers konar krambúðarhugsjón, sem ekki mun bæta neinni orku inn á kerfið.  Nær væri að gera tillögur til stjórnvalda um einföldun leyfisveitingaferlis fyrir nýjar hefðbundnar virkjanir og stofnlínulagnir á milli landshluta.  Það er ekki fjarri því að fullyrða megi, að ástand orkumála landsmanna sé til skammar.  Nú á sér stað stórfelld olíubrennsla víða um land vegna raforkuskorts.  Þá er réttilega borið við vatnsskorti í miðlunarlónum, en ástæða hans er ekki einvörðungu óvenju lítið innrennsli, heldur í vaxandi mæli mikið álag á kerfið, sem útheimtir mikið útrennsli.  Sýnidæmi um þetta er, að væri nú búið að fullvirkja Neðri-Þjórsá, þá þyrfti enga raforkuskerðingu á vesturhluta landsins, og sú á austurhluta landsins yrði mun minni að því gefnu, að ný 220 kV Byggðalína væri komin í gagnið.    
 

 


Vaxtarmöguleikar, framleiðni og samkeppni

Hver "spekingurinn" étur upp eftir öðrum, að neytendum sé hætta búin vegna nýlegra breytinga Alþingis á búvörulögum.  Samkeppnisstofnun trommar undir, og aðrir vitna til hennar, en þar eru menn hrikalega þröngsýnir og misskilja oft hlutverk sitt illilega með þeim afleiðingum, að neytendur hafa haft allt of lítið fyrir sinn snúð af öllu brölti Samkeppnisstofnunar.  Alþingi tókst vel upp með sínar leiðréttingar á gölluðu frumvarpi meingallaðs fyrrverandi matvælaráðherra.  Þeir, sem gerzt þekkja til, vita, að vaxtarmöguleikar og þar með svigrúm til framleiðniaukningar vega miklu þyngra við að ná niður verði til neytenda en innlend samkeppni ein og sér.  Erlend samkeppni verður eftir sem áður fyrir hendi fyrir kjötvörurnar.  

Að venju leggur Ragnar Árnason, prófessor emeritus í hagfræði við Háskóla Íslands, þarft til mála, þá er hann stingur niður penna, en það gerði hann á bls. 13 í Morgunblaðinu 17.apríl 2024 undir fyrirsögninni:

"Heimild til samvinnu afurðastöðva í kjötvinnslu er þjóðhagslegt framfaraskref".

"Með breytingu á búvörulögum, sem samþykkt var á Alþingi 21. marz sl. [2024], var afurðastöðvum í kjötvinnslu veitt undanþága frá þeim ákvæðum samkeppnislaga, sem lúta að sameiningu, samvinnu og verkaskiptingu fyrirtækja. Þessi breyting hefur vakið hörð viðbrögð vissra hagsmunasamtaka sem og Samkeppniseftirlitsins.  Þá hefur matvælaráðherra stigið það óvenjulega skref að senda atvinnuveganefnd alþingis sérstakar athugasemdir vegna málsins. 

Ég tel, að ofangreind viðbrögð sniðgangi meginatriði málsins og ofmeti auk þess áhrif samkeppni á vöruverð.  Í þessari grein leitast ég við að útskýra þetta nánar."

Þetta er hárrétt mat fræðimannsins á opinberum viðbrögðum við sjálfsagðri meðferð Alþingis á gallagrip úr matvælaráðuneytinu.  Viðbrögðin einkennast af hroka og yfirborðsmennsku.  Hroka ráðuneytisins er við brugðið.  Það snupraði Alþingi fyrir gagngerar breytingar á frumvarpi Svandísar, fór þar algerlega yfir strikið, og væri nýjum ráðherra sæmst að senda afsökunarbréf til þingsins fyrir hönd ráðherra, en spilltur stjórnmálaflokkur leyfir henni ekki að gera það.  Samkeppniseftirlitið, SKE, fellur á prófinu og þar neita menn að átta sig á lögmálum verðlagningar, sem eru sterkari en þess konar meint samkeppni, sem SKE hélt að ríkti á milli afurðastöðva kjötvinnslu.  Sannast þar enn, að þeir, sem bara svamla á yfirborðinu og hengja sig í formsatriði í stað þess að kafa til botns í málum, eru gagnslitlir og oft á tíðum skaðlegir fyrir þá hagsmuni, sem þeim er ætlað að verja, hér neytendahagsmuni.

"Það er samfélagslegt grundvallaratriði að reka alla atvinnuvegi á eins hagkvæman hátt og unnt er.  Það hámarkar tekjur landsmanna og auðlegð þjóðarinnar.  Hagkvæmasti rekstur þýðir jafnframt lægsta mögulega framleiðslukostnað og þar með lægsta mögulega vöruverð í landinu."

Það eru þessar hagfræðilegu staðreyndir, sem valda því, að SKE er á algerum villigötum í sinni afstöðu til nýsamþykktra undanþágureglna frá samkeppnislögum fyrir afurðastöðvar kjöts.  Búrókratar verða að fara átta sig á, hvaða lögmál vega þyngst í þeirra málaflokkum.  Þá er ljóst, að ekkert mark er takandi á gösprurum í pólitíkinni á borð við Viðreisn, sem virðast ekki einu sinni kynna sér, hvernig kaupin gerast á eyrinni innan Evrópusambandsins, sem er fyrirheitna landið þeirra.  Skelfilegir yfirborðssvamlarar, gagnslausir fyrir fólkið í landinu.

"Alkunna er, að nútímatækni í framleiðslu er oft þannig, að lægsti mögulegi framleiðslukostnaður krefst tiltölulega stórra fyrirtækja m.v. stærð viðkomandi markaðar.  Til að ná sem lægstu vöruverði er því af tæknilegum ástæðum óhjákvæmilegt að notast við tiltölulega stór fyrirtæki.

Stór fyrirtæki geta haft markaðsaðstöðu umfram það, sem fullkomin samkeppni gerir ráð fyrir.  Það væri hins vegar þjóðhagslegt glapræði að banna stór fyrirtæki af þessari ástæðu. Þegar fyrirtæki öðlast markaðsaðstöðu í krafti stærðarhagkvæmni eða annarra hagkvæmnisyfirburða, þarf einungis að gæta þess, að sú markaðsaðstaða sé ekki misnotuð.  Þetta er einmitt verkefni samkeppnisyfirvalda."

  Þetta er hárrétt athugað hjá Ragnari Árnasyni, en Samkeppniseftirlitið hérlenda virðist vera mótað af smásmyglislegri þröngsýni og ekki sjá skóginn fyrir trjánum.  Þannig fara hagfræðilögmálin fyrir ofan garð og neðan hjá SKE, en af þeim má ráða, hver eru aðalatriði máls fyrir neytendur.  Þau eru ekki fjöldi fyrirtækja á markaði, eins og SKE jafnan rembist við að hafa sem mestan, heldur framleiðslukostnaðurinn hjá hagkvæmast rekna fyrirtækinu á markaðinum.  SKE hefur undir núverandi stjórn stofnunarinnar og forstjóra hvað eftir annað tekið kolrangan pól í hæðina, ef miða skal við hagsmuni neytenda.  

"Í þessum skilningi er lágur framleiðslukostnaður mikilvægari þáttur í að skapa lágt vöruverð en samkeppni.  

Það er af þessum ástæðum, sem skynsöm samkeppnisyfirvöld beita sér fyrir lækkun framleiðslukostnaðar og forðast að koma í veg fyrir, að stærðarhagkvæmni sé nýtt.  Þegar markmiðið er sem lægst vöruverð, eru það einfaldlega mistök að einblína á samkeppni."

Það er mjög bagalegt, að SKE skuli vera svo aftarlega á merinni að skilja ekki grundvallaratriðið, sem ræður verði til neytenda.  Þess vegna hittir þessi gagnrýni Ragnars Árnasonar beint í mark, og SKE getur tekið hana beint til sín.  Forstjórinn á þeim bænum er með þvergirðingshátt í blóðinu og þess vegna ólíklegur til að fallast á mistök og leiðrétta kúrsinn.  Hvað á að gera við slíka embættismenn ?

"Bændur eru eigendur meginhluta afurðastöðvanna og ráða úrslitum um það verð, sem þær bjóða bændum.  Á neytendamarkaði eru aðstæður þannig, að stór hluti kjötvörunnar er nú þegar innfluttur.  Þar að auki er nóg af öðrum staðgönguvörum fyrir kjöt á innlendum neyzlumarkaði. Hugsanlegar tilraunir til að hækka verð á kjöti leiða því til miklu minni sölu og eru því ekki vænlegar fyrir kjötvinnslufyrirtækin.

Komi engu að síður í ljós, að endurskipulagðar afurðastöðvar leitist við að nota aðstöðu sína til verðstýringar, er auðvitað sjálfsagt, að Samkeppniseftirlitið grípi í taumana.  Samkeppnislög gilda áfram og þar með talið bann við að nýta markaðsstöðu til að lækka verð til birgja og hækka til neytenda.  Slíkt verður jafnólöglegt eftir sem áður."

Í grein sinni sýnir Ragnar Árnason ljóslega fram á, að þeir, sem snúizt hafa öndverðir gegn nýrri lagasetningu Alþingis um að opna afurðastöðvum kjöts leið til hagræðingar hérlendis, allt frá ráðuneyti matvæla, ýmsum þrýstihópum og til pólitískra loddara og lýðskrumara stjórnarandstöðunnar á Alþingi, eru algerlega úti að aka í verðlagningarmálum.  Ragnar byrjar greinina með fræðilegum útskýringum á lögmálunum, sem gilda í þessum málum, og endar með því að heimfæra raunstöðuna á Íslandi upp á þessi fræði.  Allt fellur þar í ljúfa löð, en eftir situr þurs SKE með skeggið í póstkassanum, eins og Norðmenn taka til orða um þá, sem hafa orðið berir að kolröngu mati og einstrengingshætti, sem jaðrar við fáfræði. 

 

 

 


Ísland og Evrópusambandið

Af landfræðilegum, menningarlegum og sögulegum ástæðum er gríðarlega mikilvægt fyrir Íslendinga, að samband landsins við Evrópulöndin sé hagfellt og traust. Frá stríðslokum 1945 hefur tilhneigingin í Evrópu verið aukið viðskiptalegt, menningarlegt, peningalegt og pólitískt samband, sem formgert hefur verið með Evrópusambandinu - ESB og Seðlabanka evrunnar.  

Íslendingar eru í viðskiptasamtökunum EFTA með Norðmönnum, Liechtensteinum og Svisslendingum, en mikil samstarfsþjóð Íslendinga, Bretar, ásamt fáeinum öðrum Evrópuþjóðum hafa séð hagsmunum sínum bezt borgið með því að standa utan við bæði ESB og EFTA og reiða sig á fríverzlunarsamninga í sumum tilvikum.  

  Þeim málefnasviðum fer fækkandi í ESB, þar sem aðildarríkin hafa neitunarvald.  Þetta og sú staðeynd, að löggjöf ESB er í mörgum tilvikum sniðin við aðstæður, sem í litlum mæli eða alls ekki eiga við í litlu eyjarsamfélagi, gerir að verkum, að of áhættusamt er fyrir Ísland að leita eftir aðild að ESB, og Norðmenn hafa metið stöðuna á sama veg fyrir Noreg sem auðlindaríkt land. Norðmenn sætta sig við að taka ekki þátt í ákvarðanatöku ESB. Þá vaknar auðvitað spurningin um, hvernig hagfelldast og öruggast sé fyrir Ísland að haga sambandinu við ESB. 

Í byrjun 10. áratugar 20. aldar bjó ESB til biðsal fyrir EFTA-ríki, sem hugsanlega mundu sækja um aðild síðar og mundu nota biðtímann fyrir aðlögun að regluverki ESB.  Þetta var kallað Evrópska efnahagssvæðið - EES.  Síðar breytti ESB umsóknarferlinu, og önnur en EFTA-ríkin hafa ekki gengið í EES.  Þetta fyrirkomulag var hannað til báðabirgða, og hefur augljósa galla, en hefur verið látið dankast, og líklega hefur ESB engan hug á að endurskoða það. 

Meginvalkosturinn við EES fyrir EFTA-ríkin er víðtækur fríverzlunarsamningur við ESB.  Það væri þarfur gjörningur, að utaníkisráðuneytið, hugsanlega í samstarfi við EFTA, léti greina kosti og galla víðtæks fríverzlunarsamnings í samanburði við EES og legði mat á hvort tveggja í EUR/ár m.v. núllstöðuna, sem er að standa utan við hvort tveggja, en í EFTA. 

Hjörtur J. Guðmundsson, sagnfræðingur og alþjóða stjórnmálafræðingur (MA í alþjóða samskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál) hefur aflað sér haldgóðrar yfirlitsþekkingar á þessum málum og skrifað mikið um þau.  Hann reit grein í Morgunblaðið 11. marz 2024 undir fyrirsögninni:

 "Verri viðskiptakjör í gegnum EES".

"Hins vegar hefur sambandið á undanförnum árum samið um víðtæka fríverzlunarsamninga við ríki á borð við Kanada, Japan og Bretland, þar sem kveðið er á um tollfrjáls viðskipti með sjávarafurðir [sem eru betri viðskiptakjör en Ísland nýtur við ESB].

Fyrir vikið hafa íslenzk stjónvöld á liðnum árum ítrekað óskað eftir því við Evrópusambandið, að komið yrði á fullu tollfrelsi í viðskiptum með sjávarafurðir í gegnum EES-saminginn. Óásættanlegt væri, að ríki, sem ekki væru í eins nánum tengslum við sambandið, nytu hagstæðari tollkjara.  Til þessa hefur sú viðleitni ekki skilað tilætluðum árangri, en tollar eru einkum á unnum og þar með verðmætari afurðum." 

Þessi öfugsnúna afstaða ESB gagnvart EFTA-ríkjunum, gæti átt sér eftirfarandi skýringar:  ESB þarf að meðhöndla fiskveiðiþjóðirnar þar innan borðs eins, og það er mikið magn unninna fiskafurða, sem berast mundi Innri markaðinum á meginlandinu frá Íslandi og Noregi.  Framkvæmdastjórnin óttast sennilega afdrif fiskiðnaðar innan ESB, ef slíkt gerist, og neitar því Íslendingum um lækkun þessara tolla.  Af ótta við fordæmi gagnvart Norðmönnum er ekki sérlega líklegt, að ESB væri tilleiðanlegt til að semja um lækkun þessara tolla í fríverzlunarsamningum.  

"Meginástæða þess, að ákveðið var á sínum tíma, að Ísland skyldi gerast aðili að EES-samninginum, var sú, að við Íslendingar áttum að njóta sérstakra kjara fyrir sjávarafurðir inn á markað Evrópusambandsins umfram þá, sem ekki ættu aðild að honum.  Einkum og sér í lagi m.t.t. tolla.  Á móti áttum við að taka upp regluverk sambandsins um innri markað þess.  Var það réttlætt með sérstöku kjörunum."  

Nú hefur ESB grafið undan þessari röksemdafærslu með téðum fríverzlunarsamningum. Það setur EFTA-löndin í óhagkvæma stöðu. Framkvæmdastjórn ESB gerir tillögu um það til Sameiginlegu EES-nefndarinnar, hvað taka beri upp í landslög EFTA-landanna. Eðlilega einblínir hún í því viðfangi á langöflugasta ríkið á þeim vettvangi, Noreg.  Það, sem á vel við Noreg, á alls ekki endilega vel við Ísland.  Dæmi um það er orkulöggjöf ESB, s.k. Orkupakkar 1-4, þar sem Noegur er tengdur við hin skandinavísku löndin með lofttlínum og við Danmörku, Þýzkaland og Holland með sæstrengjum.  Reyndar voru líka miklar deilur um réttmæti innleiðingar þessarar löggjafar í Noregi, og fyrir Ísland er langsótt að tengja raforkukerfi landsins við Innri markað ESB.  Það er fjölmargt, sem kemur frá Sameiginlegu EES-nefndinni til viðkomandi ráðuneytis og síðan Alþingis, sem er meira íþyngjandi en gagnlegt fyrir okkar litla hagkerfi.  Á grundvelli reynslunnar af víðtækum fríverzlunarsamningi við Bretland væri fróðlegt, að "óháð" stofnun eða fyrirtæki mundi gera samanburð á hagkvæmni líklegrar niðurstöðu samningaviðræðna um víðtækan fríverzlunarsamning við ESB annars vegar og hins vegar á óbreyttri aðild að EES.  

"Fram kemur í svari frá utanríkisráðuneytinu í ágúst 2022 við fyrirspurn frá mér, að áætlað sé, að tollar á íslenzkar sjávarafurðir í gegnum EES-samninginn nemi árlega mrdISK 2,5-2,7.  Í svari ráðuneytisins við annarri fyrirspurn minni árið 2019 kemur hins vegar fram, að án samningsins væri aukinn kostnaður vegna útfluttra sjávarafurða áætlaður að lágmarki mrdISK 4,2 vegna eftirlits og skerts greiðsluþols."

Ávinningur EES-samningsins fyrir sjávarútveginn  að öðru óbreyttu er þannig um 1,6 mrdISK/ár og er þannig frekar rýr í roðinu, og kostnaðurinn af innleiðingu reglugerðafargans ESB fyrir Ísland vafalaust hærri, en taka verður tillit til ávinnings allra útflutningsvaranna, áls og annarra iðnaðarvara og þjónustu ásamt styrkjum, skólasamstarfi o.fl., og verður heildarsamanburðurinn þá líklega EES í vil.

Hins vegar væri fróðlegt að færa kostnaðinn 2,6 mrdISK/ár niður á tonn og bera saman við tollkostnað o.þ.h. við útflutning sjávarafurða á tonn til Bretlands samkvæmt fríverzlunarsamninginum við Breta. 

"Miðað við tölur ráðuneytisins má þannig draga þá ályktun, að ef Ísland gerði víðtækan fríverzlunarsamning við Evrópusambandið í stað EES-samningsins og þyrfti þar með að sæta auknu eftirliti með sjávarafurðum af hálfu sambandsins, en nyti á móti fulls tollfrelsis í þeim efnum, væri viðskiptalegur ávinningur af aðildinni, hvað umræddar vörur varðar, mögulega einungis á bilinu 1,5-1,7 mrdISK/ár." 

Það hafa líklega engar þreifingar farið fram af Íslands hálfu gagnvart ESB um, hvers konar skilmálar væru í boði við gerð víðtæks fríverzlunarsamnings við ESB í stað EES-samningsins, og þess vegna er að svo komnu erfitt að meta hagkvæmni fríverzlunarsamnings í samanburði við EES-samninginn.  Á þrítugsafmæli hans um þessar mundir er tímabært að breyta þessu, enda er mikið valdaójafnvægi fólgið í þessu báðabirgða fyrirkomulagi.  Inn í hagkvæmnisamanburð EES og fríverzlunarsamnings er nauðsynlegt að taka kostnað þjóðfélagsins af hinu ólýðræðislega fyrirkomulagi að senda Alþingi Íslendinga lagasetningu í pósti, þar sem engu má breyta.  Svona fyrirkomulag grefur undan lýðræðinu og sjálfstæðisvitund almennings, enda lítillækkandi. Hjörtur minnist á þetta:

"Taka þarf enn femur með í reikninginn vaxandi tilkostnað vegna íþyngjandi regluverks frá Evrópusambandinu fyrir bæði atvinnulífið og almenning, sem innleiða þarf vegna EES-samningsins.  Óheimilt er að innleiða regluverkið minna íþyngjandi, en fullt svigrúm til þess að gullhúða það, eins og það hefur verið kallað.  Utan EES væri hægt að setja minna íþyngjandi regluverk í stað regluverks sambandsins eða alls ekkert." 

Í ljósi reynslunnar ætti að banna embættismönnum ráðuneytanna að breyta reglugerðum og tilskipunum ESB í meira íþyngjandi átt fyrir atvinnulíf og skattgreiðendur en ESB gefur tilefni til og fitja upp á samtali við ESB um það, að Ísland geti í Sameiginlegu EES-nefndinni gert tillögu um efnislegar breytingar á því, sem frá ESB kemur, í ljósi landfræðilegrar legu og fámennis. Það yrði þarft verk að sníða helztu skavankana af þessu samstarfi EFTA/ESB, en það er ekki einfalt eða auðvelt, á meðan utanríkisáðherra Noregs kemur frá stjórnmálaflokki, sem vill sjá Noreg innanborðs í ESB, en þannig er því varið bæði með Hægri og Verkamannaflokkinn.  Hver trúir því, að Samfylkingin, einn jafnaðarmannaflokka Norðurlandanna, muni ekki vilja dusta rykið af alræmdri aðildarumsókn Össurar Skarphéðinssonar frá 2009 ?  

 

 

 

  

 


Skaginn til fyrirmyndar

Það er óvenjulegt að sjá vitræna, einróma samþykkt stórs sveitarfélags um málefni, sem tengjast átakalínum í stjórnmálum.  Morgunblaðið gerði þó grein fyrir einni slíkri 27. janúar 2024 undir fyrirsögninni:

"Skagamenn óttast raforkuskerðingu til stóriðju".

Til marks um, að ályktun sveitarfélagsins tengist átakalínu í landsmálum er, að drjúgur hluti eins ríkisstjórnarflokkanna gengur um og boðar hverjum, sem heyra vill, þá draumórakenningu útibúsins Landverndar, að hagkvæmt og pólitískt rétt sé að ljúka þeim kafla í íslenzkri viðskiptasögu að selja raforku til orkukræfrar starfsemi á sviði málmvinnslu.  Hvernig slík bábilja fær fætur í stjórnmálaflokki, sem býður fram á landsvísu, en mun sennilega ekki hafa erindi sem erfiði í næstu Alþingiskosningum, er óskiljanlegt og efamál, að djúpsálfræðingurinn Sigmund Freud eða núlifandi kollegar hans gætu útskýrt það af viti. 

Að þessu sögðu er rétt að snúa sér að hinni gagnmerku frétt Ólafs E. Jóhannessonar:

""Bæjarstjórn Akraneskaupstaðar hefur alvarlegar áhyggjur af stöðu raforkumála og þeirri stöðu, sem frekari orkuöflun er í.  Staðreyndin er, að þegar eru skerðingar á orku, og skortur á orku er farinn að hafa áhrif á fyrirtæki, sem veita hundruðum íbúa Akraness atvinnu og setur störf þeirra og lífsafkomu í hættu."

Svo segir í ályktun bæjarstjórnar Akraneskaupstaðar, sem samþykkt var með atkvæðum allra bæjarfulltrúa  á fundi bæjarstjórnarinnar, sem haldinn var s.l. þriðjudag [23.01.2024], en tilefni ályktunarinnar er yfirvofandi raforkuskerðingar til stóriðju, sem boðaðar hafa verið vegna yfirvofandi raforkuskorts í landinu." 

Téður raforkuskortur er landshlutabundinn við svæði, sem ekki hafa nógu öfluga tengingu við stærstu virkjun landsins, Fljótsdalsvirkjun. Þetta á við um athafnastaði á Austurlandi á borð við Vopnafjörð og Höfn í Hornafirði ásamt vesturhluta landsins.  Ef Landsnet hefði fengið að hraða uppbyggingu nýrrar Byggðalínu norður um og vestur til Klafa í Hvalfirði, þyrfi ekki að skerða þegar umsamda raforkuafhendingu í vetur, en efir sem áður mundi rafmagn til nýrrar starfsemi vanta.  Vinstri hreyfingin grænt framboð og meðreiðarsveinar hennar hafa lagzt þversum gegn þeirri Byggðalínu, sem Landsnet hefur forhannað og telur skynsamlegasta kostinn. Eins og fyrri daginn eru beturvitar legió og hafa allt aðra skoðun á málinu.  Hverjum þykir sinn fugl fagur, og beturvitar hlusta ekki á raffræðileg og fjárhagsleg rök.  Dyntir þeirra um útlit línunnar og legu hafa fengið óheyrilegt vægi, sem miklum kostnaði og mengun vegna olíubruna hefur valdið. 

"Í ályktuninni segir, að um 20 % af heildaratvinnutekjum íbúa Akraness komi [verði] til vegna framleiðslu fyrirtækja á Grundartanga, Norðuráls og Elkem, og skortur á raforku, til lengri eða skemmri tíma, hafi bein áhrif á afkomu íbúa sveitarfélagsins.

 Núverandi ástand og horfur geti leitt til tapaðra starfa og minnkandi verðmæta, sem leiða muni af sér samdrátt og lakari lífskjör.  

Bæjarstjórnin skorar á stjórnvöld að leita allra leiða til að styðja við frekari orkuöflun og hraða uppbyggingu á virkjunum og endurbótum á flutningskerfi raforku."

Þetta eru orð í tíma töluð og hárrétt hjá bæjarstjórninni.  Ástandið er í boði afurhaldsafla, sérvitringa, sem leggjast gegn frekari nýtingu orkulindanna á grundvelli fordildar um, að siðferðilega rangt sé að grípa á nokkurn hátt inn í sköpunarverkið.  Þetta er alger þvættingur, enda er þetta fyrirsláttur til að draga dul á það, sem að baki býr.  Andstaða þessa sérvitringahóps er raunverulega við hagvöxtinn.  Sérvitringarnir vilja draga úr neyzlu almennings, en ekki auka hana, eins og verkalýðsforingjarnir, sem líka lifa í annarlegum heimi og hreykja sér hátt og vilja stjórna Seðlabankanum, sem er að slá á neyzluna til að hægja á verðbólgunni. 

Það vekur athygli, að sambærileg bæjarstjórnarsamþykkt hefur ekki sézt að sinni frá Hafnarfirði.  Menn verða að gera sér grein fyrir því, að með manngerðum og skipulögðum orkuskorti eru forsendur brostnar fyrir sölusamningum raforku til stóriðjuveranna.  Eigendur þeirra sömdu um að taka á sig orkuskort af náttúrunnar völdum, sem áætlaður var um 10 % af rekstrartímanum, en nú dynja raforkuskerðingar á stóriðjunni á næstum   hverju ári og búast má við þeim árlega út þennan áratug. 

Ekki nóg með það, heldur vofir nú yfir forgangsorkuskerðing stóriðju í krafti nýrrar lagasetningar.  Bæjarstjórn Akraness hefur gert sér grein fyrir alvarleika stöðunnar og segir ríkisstjórninni að hysja upp um sig buxurnar og leggja fyrir Alþingi frumvarp til sérlaga um virkjanir og flutningslínur.  Það verður að höggva á hnútinn nú, þegar allt er komið í óefni.

""Í atvinnuteknagreiningu Byggðastofnunar eru um 20 % atvinnutekna íbúa Akraneskaupstaðar vegna framleiðslu án fiskvinnslu, og við vitum, að langstærsti hlutinn af þeirri sneið er vegna starfseminnar á Grundartanga. Þar eru meðallaun góð, en ég ætla ekki að skjóta á neina upphæð, hvað þetta gæti þýtt í töpuðum útsvarstekjum, ef samdráttur verður", segir Haraldur Benediktsson, bæjarstjóri Akraneskaupstaðar í samtali við Morgunblaðið."

Þetta er gríðarlega alvarlegt mál, sem virðist hafa farið fyrir ofan garð og neðan hjá landsfeðrum og -mæðrum, því að annars hefðu þau þegar gert raunhæfar ráðstafanir til að leysa viðfangsefnið, sem þegar væru komnar til framkvæmda.  Í staðinn kemur orðhengilsháttur frá flokki forsætisráðherrans um, að sýna verði fram á orkuskortinn áður en samþykkt verði, að hefjast handa, og útibúið, Landvernd, leggst gegn öllum úrbótum á þessu sviði, nú síðast Vatnsdalsvirkjun, sem þó má kalla borðleggjandi verkefni fyrir Vestfirðinga til að leysa brýnan orkuvanda Vestfjarða.  Orkuráðherra er eins og karlinn í tunglinu, sem horfir hryggum augum á, fer með rullu, en gerir ekkert, sem gefur von um úrbætur á orkuskorti.

Fróðlegt viðtal var við forstjóra Elkem á Íslandi um málið í Morgunblaðinu 09.02.2024.  Elkem kaupir ekki ótryggða orku, heldur forgangsorku með einhverjum afslætti gegn samningsbundnum réttindum Landsvirkjunar til að krefjast endurkaupa á hluta orkunnar, sem þá að sjálfsögðu er ekki afhent.  Þetta hefur síðan í desember 2023 valdið gríðarlegri framleiðsluskerðingu hjá Elkem á Íslandi með tekjutapi upp á um 1 mrdISK/mán, sem miðað við áætlaðar árstekjur 2024 um mrdISK 25 er tilfinnanlegt og getur hæglega leitt til minni fjárfestinga móðurfélagsins í þessu dótturfélagi og uppsagna starfsmanna.  

""Við eigum mjög mikið undir fyrirtækjunum, og mörg þjónustufyrirtæki á svæðinu eiga gríðarlega mikið undir starfsemi fyrirtækjanna á Grundartanga.  Á meðan þau eru í skerðingum, erum við að ógna framtíð þeirra og vaxtarmöguleikum þeirra líka", segir Haraldur og bendir á, að raforkuskerðing hafi bæði bein og einnig afleidd áhrif í tilviki þjónustufyrirtækjanna."

Það, sem Haraldur, bæjarstjóri, er að benda á í sambandi við orkukræfu fyrirtækin, er, að þau hafa margfeldisáhrif í þjóðfélaginu, eins og önnur framleiðslufyrirtæki, sem flytja nánast alla framleiðslu sína út á erlenda markaði.  Þetta þýðir, að margfalda má starfsmannafjöldann með u.þ.b. 3, þegar finna á út jafngildisfjöldann, og sama á við um fé, sem fyrirtækin nota hér innanlands í annað en launakostnað.  Ef þessi fyrirtæki draga saman seglin vegna raforkuskorts, er vá fyrir dyrum og rekstrarhæfni þeirra í húfi. Hafa einhver viðbrögð komið frá iðnaðarráðherranum af þessu tilefni ?  Ef þau birtast ekki senn, er iðnaðarráðuneytið orðið nafnið tómt.   

 

 


Afkáraleg staða orkumála hérlendis

Sjálfskaparvítin eru verst.  Íslendingum hefur borið gæfa til að nýta hluta endurnýjanlegra og nánast kolefnisfrírra orkulinda landsins til að knýja atvinnulífið að töluverðu leyti og til heimilishalds og húsnæðisupphitunar að nánast öllu leyti.  Um 15 % heildarorkunotkunarinnar er enn með jarðefnaeldsneyti og fer jafnvel vaxandi þessi misserin vegna öfugsnúinnar andstöðu sérvitringa (jaðarhópa (borderline)), sem í ótrúlegri forheimskun hafa undanfarin ár lagzt gegn nánast öllum virkjunum yfir 10 MW að stærð og uppsetningu burðugra (220 kV) flutningslína á milli landshluta, sem ætlað er að auka afhendingaröryggi raforku í öllum landshlutum, draga úr orkutöpum á leiðinni og bæta nýtingu uppsafnanlegs vatns miðlunarlónanna. 

 

Við höfum alla burði og tæknilega möguleika á að halda áfram að skjóta stoðum undir atvinnulíf og efnahagslíf landsins með því að hefja framkvæmdir af krafti við virkjanir og línur.  Það er nóg til af óvirkjaðri orku fyrir landsmenn um fyrirsjáanlega framtíð.  Téðir sérvitringar eiga bakhjarla á Alþingi, bæði á meðal stjórnarliða og stjórnarandstöðu, og geta þess vegna enn flækzt fyrir framfaramálum, á meðan hinir taka sig ekki saman í andlitinu og setja þeim stólinn fyrir dyrnar að fremja óhæfuverk sín á framfarasókninni til "grænnar" orkuframtíðar.  Stjórnmálamenn láta eins og þeir komi af fjöllum um orkuskortinn, og þeir forhertustu afneita honum.  Þegar kemur að lausnum, sem duga, vappa þeir eins og kettir í kringum heitan graut. 

Þann 27. janúar 2024 skrifaði vanur maður úr atvinnulífinu, fyrrum stórnotandi raforku og nú framleiðandi raforku, Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku, fróðlega grein í Morgunblaðið um skrýtna stöðu orkumálanna hérlendis undir fyrirsögninni:

"Baráttan um skortinn":

 

"Fyrsta útgáfa frumvarpsins [atvinnuveganefndar um heimildir til að bregðast við raforkuskorti - innsk. BJo] var gölluð.  Þar var í stuttu máli kveðið á um, að í orkuskorti kæmi það nær alfarið í hlut annarra raforkuframleiðenda en Landsvirkjunar að mæta eftirspurn umfram spár á almennum markaði.  Þessir framleiðendur eru HS Orka og ON.  Um 60 % af allri raforkuframleiðslu landsins, sem Landsvirkjun beinir til stórnotenda, væru stikkfrí.  

Þetta er ósanngjarnt,eins og lesa mátti úr flestum umsögnum, sem bárust um frumvarpið.  Í umsögn Samkeppniseftirlitsins segir t.a.m.: "Með hliðsjón af öllu famangreindu mælir Samkeppniseftirlitið gegn því, að fyrirliggjandi frumvarp verði óbreytt að lögum.  Á þessu stigi málsins telur eftirlitið, að frumvarpið, verði það óbreytt að lögum, sé til þess fallið að styrkja stöðu Landsvirkjunar á kostnað minni keppinauta og vinna gegn samkeppni."  

Frumvarpsdrögin komu úr Orkustofnun, en handrit hefur greinilega borizt henni frá forstjóra Landsvirkjunar, sem ekki hefur aukið hróður sinn með opinberri framgöngu sinni í þessu skortsmáli, sem hefur verið raunaleg og lítt sæmandi þeirri stöðu. Í a.m.k. eldri samningum við stórnotendur er kveðið á um, að í "force majeure" ástandi, þ.e. þegar glímt er við afleiðingar óviðráðanlegra afla, megi skerða umsamda forgangsorku til þeirra hlutfallslega jafnmikið og til almenningsveitna.  Hinn lögfræðilegi vandi nú er, að raforkuskorturinn stafar af stjórnendamistökum og vanrækslu, sem ekki er sambærilegt við bilanir í búnaði eða náttúruhamfarir.  

"Atvinnuveganefnd áttaði sig á vanköntunum, og fumvarpið tók góðum breytingum við 2. umræðu í þinginu.  Málinu var samt frestað fram yfir áramót.  Þá "var ljóst, að innan Landsvirkjunar væri vilji til að vinna að farsælli niðurstöðu, þar sem tekið yrði mið af skyldum Landsvirkjunar til að tryggja raforkuöryggi", eins og sagði í fréttum (mbl.is, 17.12.2023, "Afgreiðslu raforkufrumvarps festað").

Fljótlega kvað þó aftur við fyrri tón hjá forstjóra Landsvirkjunar, sem talaði á ný fyrir fyrstu útgáfu frumvarpsins og tók í greinaskrifum og viðtölum að gefa í skyn "leka á milli markaða".  Ráðizt var á undirritaðan og HS Orku með dylgjum og samfelldum rangfærslum í grein á visir.is, sem ekki verður setið undir."

Er of mikið að líkja Herði Arnarsyni, forstjóra Landsvirkjunar, við fíl í postulínsbúð ? Þegar hann fær ekki yfirgangssömum vilja sínum famgengt við þingmenn, eins og við ósjálfstæða embættismenn, þá trompast hann og ber á borð þvætting og skæting í fjölmiðlum.  Þessi hegðun er óeðlileg og óvenjuleg í orkugeiranum, þar sem yfirleitt sitja prúðmenni á fleti fyrir.  Það er heilbrigðismerki á geiranum, að ofstopanum í forstjóra langstærsta orkufyrirtækisins skuli vera andæft og fjarstæðum hans sópað út í hafsauga.  

"Enginn efast um, að orka sé orðin af skornum skammti hér á landi.  Óskilvirkt leyfisveitingaferli er farið að bíta í, bæði hvað varðar virkjanir og flutningskerfi.  Landsvirkjun á ekki ein að gegna því hlutverki að sinna orkuöryggi.  Þvert á móti er verið að leggja til, að farið sé eftir tillögum tveggja vinnuhópa, sem hafa unnið að málinu í umboði stjórnvalda.  Þar er bent á ýmsar leiðir og til þrautavara, að allir framleiðendur leggi til orku jafnt og í hlutfalli við heildarframleiðslu.  Sem betur fer tók atvinnuveganefnd þá vinnu til greina og breytti frumvarpinu til samræmis.  Landsvirkjun getur ekki haldið því fram, að sú útfærsla leggi fyrirtækinu óvæntar skyldur á herðar, því [að] fyrirtækið tók fullan þátt í vinnu ofangreindra vinnuhópa."

Í fyrstu málsgreininni horfir höfundurinn fram hjá sérvitringahópinum, sem grafið hefur svo undan orkugeiranum íslenzka, að hann er núna ófær um að fullnægja raforkumarkaðinum með þeim afleiðingum, að olíu er brennt í verksmiðjum, þar sem rafmagn væri notað, væri það fáanlegt.  

Segja má, að Tryggvi Felixson, hagfræðingur og fyrrverandi formaður Landverndar, hefur löngum verið talsmaður þessa hóps.  Eftir hann birtist grein í Morgunblaðinu 1. febrúar 2024 með yfirskriftinni:

"Yfirvegun eða óðagot í orkumálum":

"Af famangreindum tölum verður ekki annað séð en viðunandi jafnvægi sé fram undan í raforkumálum. Horfurnar í frekari orkuöflun og bættri nýtni eru ágætar.  Aldrei verður hægt að útiloka tímabundnar þrengingar vegna lélegra vatnsára.  Yfirdrifnar yfirlýsingar, sem fram hafa komið um, að allt sé hér á vonarvöl í raforkumálum eru einmitt það, yfirdrifnar.  M.v. flestar aðrar þjóðir mætti segja, að við séum að drukkna í raforku.  Að láta sér ekkert detta í hug annað en að virkja endalaust til að greiða úr meintum orkuskorti kann ekki góðri lukku að stýra.  M.a. er nauðsynlegt að skoða þjóðhagslega hagkvæmni þess að nýta þá orku, sem losnar, þegar samningar við núverandi stórkaupendur renna út, til nýrri og aðkallandi verkefna í orkuskiptum."

Þarna skrifar einn af beturvitum afurhaldsins í landinu um orkumálin.  Eins og hans nótar eru vanir að gera, setur hann sig á háan hest, gefur skít í áhyggjur og viðvörunarorð kunnáttumanna um orkumálin og skrifar um "meintan" orkuskort.  Hann er sem sagt ímyndun starfsmanna í orkugeiranum, Samorku, Samtaka iðnaðarins og ýmissa ráðgjafa, sem gerzt þekkja þessi mál.  Þá mætti spyrja forráðamenn hins glæsilega hornfirzka félags Skinneyjar-Þinganess, sem ekki fengu keypta forgangsorku á markaðinum í vetur fyrir rafskautaketil sinn og urðu með hraði að kaupa og setja upp olíukyndingu fyrir bræðsluofn sinn.

Hvernig stendur á því, að gapuxar af ólíku tagi telja, að þeir komist upp með það að hefja sig upp fyrir menntaða og virta sérfræðinga og halda því fram, að svart sé hvítt ?  Þetta loðir dálítið við hér, en ætli þeir séu ekki komnir út í skurð nú, sem helzt vilja loka stærstu iðjuverum landsins ?  Þetta vesalings fólk skortir allt sögulegt samhengi, er blautt á bak við bæði eyrun.  Það áttar sig ekki á, að stórsala til iðjuvera myndaði grundvöll að rafvæðingu landsins hinni síðari og samtengingu landshlutanna í eitt orkusvæði.    

 

 


Ráðherra grefur undan grunnatvinnuvegi landsmanna

Það hefur aldrei verið neitt vit í tiltektum Svandísar Svavarsdóttur á ráðherrastóli.  Sem matvælaráðherra hefur hún þó bitið höfuðið af skömminni, og stefndi fyrir vikið í vantraust á störf hennar á Alþingi áður en hún fór í veikindaleyfi. Ósvífni hennar nær út fyrir þjófamörk, því að hún brýtur lög viljandi með ýmsum gjörðum sínum í ráðuneytinu.  Þetta er ólíðandi með öllu, enda stefnir í milljarða ISK skaðabótakröfur gegn ríkissjóði vegna ráðuneytisverka Svandísar 2023. Þessi ósköp eru sem betur fer sjaldgæf.  

Drög að frumvarpi matvælaráðherra um sjávarútveginn ætti ríkisstjórnin að draga til baka, því að það er ekki heil brú í þeim, frumvarpið er með öllu óþarft og reyndar stórskaðlegt fyrir þjóðarbúið.  Þetta er aðför sósíalista að vel reknum einkarekstri.  Ef slíkt fyrirfinnst einhvers staðar, reyna sósíalistar að verða sér úti um ástæður til að varpa þrúgandi byrðum ríkisins á starfsemina.  Það er glórulaus hegðun gegnvart fyrirtækjum í samkeppnisreksti á erlendri grundu, og jafnstaða fyrirtækjanna gagnvart öðrum innlendum fyrirtækjum er með öllu fyrir borð borin. Svo langt er gengið, að líkja má skattheimtunni við eignaupptöku.  Með þessari hugmynd ráðherra að lagafrumvarpi er stigið stórt skref í átt til þjóðnýtingar, sem er hinn blauti draumur allra sósíalista, þótt þjóðnýtingar eigi sér einvörðungu hrakfallasögu. 

Fremsti fræðimaður landsins á sviði hagfræði sjávarútvegs skilaði umsögn í samráðsgátt um téð afkvæmi sósíalistans, og birti Morgunblaðið nokkur atriði þaðan þann 18. janúar 2024 undir fyrirsögninni: 

"Frumvarpið veiki sjávarútveginn":

"Ragnar Árnason, prófessor emeritus í hagfræði við Háskóla Íslands, segir í umsögn um drög Svandísar Svavarsdóttur, matvælaráðherra, að frumvarpi til laga um sjávarútveg, sem sjá má í samráðsgátt stjórrnvalda, að þar sé ekki gerð gangskör að því að bæta stjórnun fiskveiða og gera þær skilvirkari þannig, að framlag þeirra í þjóðarbúið geti vaxið. Þess í stað sé haldið áfram á þeirri braut að þrengja að fyrirtækjum í sjávarútvegi, leggja á þau auknar byrðar og hækka enn frekar sérstaka og brenglandi skattheimtu á þau.

Ragnar segir afleiðingarnar óhjákvæmilega verða annars vegar veikari sjávarútvegur, sem mun, þegar fram í sækir, ekki geta staðizt samkeppni við sjávarútveg annarra þjóða, sem ekki þurfa að bera svona byrðar, og verður því að gefa eftir í samkeppninni um afla og á fiskmörkuðum í heiminum, og hins vegar minna framlag sjávarútvegsins í þjóðarbúið með tilheyrandi kjaraskerðingu fyrir alla landsmenn." 

Vinnubrögð ráðuneytis, sem leiða til þeirra illu afleiðinga fyrir þjóðarhag, sem prófessorinn fyrrverandi lýsir hér að ofan, eru forkastanleg og ábyrgðarlaus.  Þau eru eins laus við faglega nálgun í þágu lands og þjóðar og hægt er að hugsa sér og eins löðrandi í pólitískum geðþótta af vinstri vængnum og hugsazt getur.  Slík vinnubrögð verðskulda þá umsögn, að þau grafi undan grunnatvinnuvegi landsmanna. 

"Ragnar gerir einnig athugasemd við mjög mikla hækkun á gildandi veiðigjaldi, sem frumvarpsdrögin leggja til. 

Í fyrsta lagi er lagt til, að veiðigjald á uppsjávarfisk verði hækkað úr 33 % af gjaldstofni í 45 %. 

Í öðru lagi verður hætt að heimila frádrátt veiðigjalds frá hefðbundnum tekjuskatti.  Það samsvari 25 % - 60 % hækkun á virku veiðigjaldshlutfalli efir því, hvernig tekjuskattur á fyrirtæki er metinn (tekjuskattur á fyrirtæki árið 2023 var 20 % og fjármagnsskattur 22 %.  Skattur á útgreiddan arð var því 37,6.). 

Í þriðja lagi gera frumvarpsdrögin ráð fyrir, að virkt tekjuskattshlutfall á sjávarútvegsfyrirtæki verði 53 % og 70,6 % á botnfiskveiðar og 65 % og 82,6 % á uppsjávarveiðar, en virka tekjuskattshlutfallið er summa venjulega tekjuskattshlutfallsins, 20 % og 37,6 % og veiðigjaldsins, sem er 33 % á botnfiskveiðar og 45 % á uppsjávarveiðar.  Bendir Ragnar á, að hlutföll séu svo há, að margir myndu kenna það við ofurskatta."

Skattheimta af þessu tagi er gjörsamlega ótæk og jaðrar við að vera stjórnarskrárbrot, því að hún er eiginlega eignaupptaka ríkisins.  Þar að auki er hún gróft brot á jafnræðisreglu, sem fyrirtækin eiga rétt á að njóta gagnvart skattheimtu. Að fara fram með nokkuð eins og þetta vitnar um pólitískt ólæsi, því að Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki samþykkt þetta og ekki setið í ríkisstjórn með ráðherra, sem leggur aðra eins óhæfu fram. 

Flokksráðsfundur Sjálfstæðisflokksins í ágúst 2023 samþykkti þetta um ríkisfjármál og skatta:

"Skattkerfisbreytingar, sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft forystu um á síðustu 10 árum, hafa fyrst og fremst miðað að því að einfalda skattkerfið, létta byrðar launafólks og auka kaupmátt, styrkja afkomu fyrirtækja, hvetja þau til fjárfestinga og byggja undir nýsköpun og þróun.  Halda verður áfram á sömu braut og huga sérstaklega að barnafjölskyldum, m.a. með breytingum á barnabótakerfinu og hækkun hámarksgreiðslu í fæðinggarorlofi.  Sjálfstæðisflokkurinn leggst alfarið gegn frekari álögum á fólk og fyrirtæki."

Þarna eru tekin af öll tvímæli um það, að Sjálfstæðisflokkurinn samþykkir ekki fekari skattahækkanir á fólk og fyrirtæki, þótt undantekning hafi verið gerð með það vegna neyðarástands í Grindavík.  Þannig mátti Svandísi Svavarsdóttur vera það ljóst, að hún væri komin út á hála braut stjórnarslita með ofurskattlagningu á sjávarútveginn, sem í frumvarpsdrögum hennar felast.  Pólitísku raunsæi er ekki fyrir að fara, heldur vaðið áfram í blóra við niðurstöðu undirbúningsvinnunnar fyrir óþarft frumvarp og í blóra við öll helztu hagsmunafélög, sem að sjávarútvegi koma.  Þarna er einsýni og pólitísku ofstæki Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs rétt lýst.    

 

  

 

                                                                                                                           


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband